Hræðsluáróður ESB-áhangenda

Undirlægjuháttur margra landsmanna gagnvart ósvífinni kröfugerð Breta og Hollendinga, hvort tveggja gamalla nýlenduvelda, á hendur íslenzkum skattborgurum hefur ekki verið einleikinn.  Augljóslega er hræðsluáróðurinn ættaður frá Brüssel, enda hafa "kommissarar" þar einskis látið ófreistað að koma þumalskrúfu á Íslendinga í hinni bölvuðu Icesave-deilu.  Er skemmst að minnast framgöngu þeirra í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en þar brutu Kínverjar að lokum ofríki Vesturveldanna á bak aftur.

Icesave-málið er grundvallarmál fyrir ESB og Íslendinga sitt með hvorum hætti.  Fjármálakerfi ESB stóð á brauðfótum um þær mundir, sem Hrunið varð hér.  Allmargir bankar Evrópu hefðu fallið, ef ríkisstjórnir í Evrópulöndunum hefðu ekki ausið úr kistlum ríkissjóðanna til stuðnings bönkunum.  Hefðu þær ekki gert þetta, er næsta víst, að sparifjáreigendur hefðu gert áhlaup á bankana, og margir þeirra hefðu fallið við það.  Þess vegna greiddu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands innistæðueigendum Icesave inneignir sínar.  Þetta gerðu þeir hins vegar án nokkurs samráðs við íslenzku ríkisstjórnina, og þess vegna er með öllu óskiljanlegt, hvernig þeim datt í hug að heimta íslenzka ríkisábyrgð á skuldbindingum Innlánstryggingasjóðs.  Sérstaklega er þetta ósanngjarnt í ljósi bágrar stöðu íslenzka ríkisins eftir Hrunið og í ljósi þess, að allir viðurkenna, að tilskipun ESB um Innlánstryggingasjóð tók hvergi fram, að ríkisábyrgð væri á þessum sjóði, og núverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, ECB, hefur lýst því yfir, að slíkt geti með engu móti átt við, ef um hrun heils bankakerfis sé að ræða, eins og segja má, að hérlendis hafi orðið í október 2008. 

Fimmta herdeild ESB á Íslandi hefur bergmálað söng ESB um "skuldbindingar" Íslendinga í þessu efni.  Þessi áróður er þjóðfjandsamlegur og er í raun stefnt gegn fullveldi landsins, þegar horft er til þess, hversu mjög þessar Icesave-byrðar munu vega að innviðum þjóðfélagsins og beinlínis stefna fjárhagslegu sjálfstæði landsins í þrot.  Þá hefur legið í landi, að Icesave-deilan væri hindrun á leið Íslands inn í ESB.  Þetta er meginástæða hinnar öfugsnúnu höfuðáherzlu, sem ríkisstjórnarflokkarnir, undirlægjur ESB, hafa lagt á að ná samningum um þetta mál. 

 Unnur Brá Konráðsdóttir

 

 

 

Innistæðulausum hræðsluáróðri hefur ótæpilega verið beitt af ESB-áhangendum og fylgifiskum þeirra til að fá þjóðina til að fallast á afarkostina, en án árangurs, nema á Alþingi, þar sem stór hluti þingheims missti niður um sig og  mun þannig neyðast til að horfast í augu við grasrót flokka sinna í fyllingu tímans.  Heiðarlegar undantekningar voru þó frá þessu, og verður ekki betur séð en nýr þingskörungur hafi komið fram á sjónarsviðið, þar sem er Unnur Brá Konráðsdóttir, og birtist mynd af henni hér að ofan. 

Eitt hálmstrá undirlægjanna hefur verið, að engar fjárfestingar í fyrirtækjum hérlendis muni fást fyrr en gengið væri endanlega að afarkostunum Breta og Hollendinga í nafni ESB.  Þetta var afsannað með MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem ákveðin var árið 2010, og nú í viku 07/2011, þegar tilkynnt var um væna fjárfestingu í nýju fyrirtæki, sem starfrækja á kísilverksmiðju í Helguvík.  Það er hins vegar athyglivert, að evrópsk fyrirtæki leggja ekki í neina meiriháttar fjárfestingu hérlendis, ef álþynnuverksmiðjan á Akureyri er undanskilin.  Allar helztu erlendu fjárfestingarnar í gjaldeyrisskapandi framleiðslufyrirtækjum hérlendis eiga rætur að rekja til Norður-Ameríku.  Samt erum við á Innri markaði Evrópu, þannig að frelsin fjögur eiga að vera við lýði í samskiptum Íslands og ESB.  Það er sláandi, hversu lítið hefur verið um beinar evrópskar fjárfestingar hér, og er fátt, sem bendir til breytinga á því, þó að af inngöngu Íslands í ESB yrði.  Þrátt fyrir orkuskort í Evrópu og þar af leiðandi hátt orkuverð hafa Evrópumenn ekki sýnt nægan áhuga fyrir stofnsetningu orkukræfra fyrirtækja hérlendis.  Málpípur þeirra hafa hins vegar rekið áróður fyrir andvana fæddum hugmyndum um sæstreng frá Íslandi til Evrópu, sem flutt gæti afl á borð við allt núverandi virkjað afl í landinu til raforkuvinnslu.  Samhliða minnkandi framleiðslu áls á meginlandi Evrópu, hafa kaup Evrópumanna á áli frá Íslandi aukizt, og það hentar Íslendingum ágætlega, að Norður-Ameríka fjárfesti hér til að anna eftirspurn í Evrópu.  Til þess þurfum við ekki að ganga ESB á hönd, heldur aðeins að hafa við það viðskiptasamninga eða að vera á Innri markaði þeirra.

Samsæri hins vestræna fjármálageira er vissulega fyrir hendi gegn Íslendingum.  Það kom margoft fram í kjölfar Hruns og helgast af því, að það er að sjálfsögðu í hag fjármálastofnana að hafa um sig öryggisnet ríkisábyrgðar.  Alla andstæðinga slíkrar ríkisábyrgðar á bankastarfsemi er reynt að kúga til hlýðni.  Þetta kemur berlega fram í yfirlýsingum svo kallaðra matsfyrirtækja á lánshæfni íslenzka ríkissjóðsins.  Það nær auðvitað engri átt, að lánshæfni hans aukist við að taka á sig skuldbindingar á bilinu ISK 50-250 mia.  Þetta er áróðursbragð fjármálageirans, og þessu gleypa undirlægjur ríkisstjórnarinnar við.  Öðru vísi mér áður brá, þegar félagshyggjuflokkarnir reistu jafnan burst gegn ásókn alþjóðlegs auðvalds.  Nú liggja væsklar einir þar á fleti fyrir og sýna af sér algert manndómsleysi.

Því er einnig haldið fram, að íslenzk fyrirtæki fái verri lánafyrirgreiðslu, ef ríkið ekki ábyrgist Icesave.  Þetta stríðir gegn venjulegum viðskiptalögmálum.  Fjármagn leitar einfaldlega þangað, sem ávöxtunin er öruggust og bezt.  Það eru aðrir þættir í íslenzku efnahagsumhverfi, sem mjög hafa dregið úr arðsemi fjárfestinga á Íslandi, og það eru allt handaverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Til að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju þarf að kveða niður draug sameignarstefnunnar, þjóðnýtingu auðlindanna og ofurskattlagningu á einkaframtakið, fyrirtæki og heimili.  

    

   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér ágæt mál Bjarni  Jónsson og óska þér til hamingju með að fá að greiða atkvæði um feigð eða ófeigð Íslendinga á Íslandi. 

Það væri ekki gaman að verða gamall hér á landinu okkar eftir að landsölumenn væru búnir að hrekja  á braut vinnu afl landsins og eftir værum við sem aldrei gefumst upp fyrr en ljár sláttur mansins hirðir upp stráin sín.

Viðtakendur Íslands og umhverfis væru væntanlega að megin efni Karlosar og svo nokkrir Tjallar. 

   

Hrólfur Þ Hraundal, 20.2.2011 kl. 17:35

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér innlitið, Hrólfur, og hamingjuóskir og sömuleiðis.  Forseti lýðveldisins felldi í dag úrskurð á þá lund að senda nýjustu "Icesave" lögin til ákvörðunar þjóðarinnar.  Rök hans voru tær og meitluð, og hann var fullkomlega samkvæmur sjálfum sér í embættisfærslu.  Er það mikið fagnaðarefni, að "hinn löggjafinn", atkvæðisbært fólk í landinu, fái tækifæri til að fella hinn endanlega úrskurð í máli, sem varðar í ríkum mæli hag hvers einasta þegns landsins og ekki sízt þá, er munu landið erfa.

Með góðri kveðju,

Bjarni Jónsson, 20.2.2011 kl. 20:29

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það hefur heyrst að Heilög Jóhanna og Össur, hafi verið búin að gera samning við ESB, þess efnis að ef Ices(L)ave yrði samþykkt og Ísland gengi inn í ESB.  MYNDI BÍÐA VEGLEGUR BJÖRGUNARPAKKI.  Hvort þetta er rétt þori ég ekki að fullyrða en ég verð að segja að það kemur ekkert á óvart lengur frá þessari ríkisstjórn.

Jóhann Elíasson, 21.2.2011 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband