Vaxtarmöguleikar, framleiðni og samkeppni

Hver "spekingurinn" étur upp eftir öðrum, að neytendum sé hætta búin vegna nýlegra breytinga Alþingis á búvörulögum.  Samkeppnisstofnun trommar undir, og aðrir vitna til hennar, en þar eru menn hrikalega þröngsýnir og misskilja oft hlutverk sitt illilega með þeim afleiðingum, að neytendur hafa haft allt of lítið fyrir sinn snúð af öllu brölti Samkeppnisstofnunar.  Alþingi tókst vel upp með sínar leiðréttingar á gölluðu frumvarpi meingallaðs fyrrverandi matvælaráðherra.  Þeir, sem gerzt þekkja til, vita, að vaxtarmöguleikar og þar með svigrúm til framleiðniaukningar vega miklu þyngra við að ná niður verði til neytenda en innlend samkeppni ein og sér.  Erlend samkeppni verður eftir sem áður fyrir hendi fyrir kjötvörurnar.  

Að venju leggur Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft til mála, þá er hann stingur niður penna, en það gerði hann á bls. 13 í Morgunblaðinu 17.apríl 2024 undir fyrirsögninni:

"Heimild til samvinnu afurðastöðva í kjötvinnslu er þjóðhagslegt framfaraskref".

"Með breytingu á búvörulögum, sem samþykkt var á Alþingi 21. marz sl. [2024], var afurðastöðvum í kjötvinnslu veitt undanþága frá þeim ákvæðum samkeppnislaga, sem lúta að sameiningu, samvinnu og verkaskiptingu fyrirtækja. Þessi breyting hefur vakið hörð viðbrögð vissra hagsmunasamtaka sem og Samkeppniseftirlitsins.  Þá hefur matvælaráðherra stigið það óvenjulega skref að senda atvinnuveganefnd alþingis sérstakar athugasemdir vegna málsins. 

Ég tel, að ofangreind viðbrögð sniðgangi meginatriði málsins og ofmeti auk þess áhrif samkeppni á vöruverð.  Í þessari grein leitast ég við að útskýra þetta nánar."

Þetta er hárrétt mat fræðimannsins á opinberum viðbrögðum við sjálfsagðri meðferð Alþingis á gallagrip úr matvælaráðuneytinu.  Viðbrögðin einkennast af hroka og yfirborðsmennsku.  Hroka ráðuneytisins er við brugðið.  Það snupraði Alþingi fyrir gagngerar breytingar á frumvarpi Svandísar, fór þar algerlega yfir strikið, og væri nýjum ráðherra sæmst að senda afsökunarbréf til þingsins fyrir hönd ráðherra, en spilltur stjórnmálaflokkur leyfir henni ekki að gera það.  Samkeppniseftirlitið, SKE, fellur á prófinu og þar neita menn að átta sig á lögmálum verðlagningar, sem eru sterkari en þess konar meint samkeppni, sem SKE hélt að ríkti á milli afurðastöðva kjötvinnslu.  Sannast þar enn, að þeir, sem bara svamla á yfirborðinu og hengja sig í formsatriði í stað þess að kafa til botns í málum, eru gagnslitlir og oft á tíðum skaðlegir fyrir þá hagsmuni, sem þeim er ætlað að verja, hér neytendahagsmuni.

"Það er samfélagslegt grundvallaratriði að reka alla atvinnuvegi á eins hagkvæman hátt og unnt er.  Það hámarkar tekjur landsmanna og auðlegð þjóðarinnar.  Hagkvæmasti rekstur þýðir jafnframt lægsta mögulega framleiðslukostnað og þar með lægsta mögulega vöruverð í landinu."

Það eru þessar hagfræðilegu staðreyndir, sem valda því, að SKE er á algerum villigötum í sinni afstöðu til nýsamþykktra undanþágureglna frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar kjöts.  Búrókratar verða að fara átta sig á, hvaða lögmál vega þyngst í þeirra málaflokkum.  Þá er ljóst, að ekkert mark er takandi á gösprurum í pólitíkinni á borð við Viðreisn, sem virðast ekki einu sinni kynna sér, hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Evrópusambandsins, sem er fyrirheitna landið þeirra.  Skelfilegir yfirborðssvamlarar, gagnslausir fyrir fólkið í landinu.

"Alkunna er, að nútímatækni í framleiðslu er oft þannig, að lægsti mögulegi framleiðslukostnaður krefst tiltölulega stórra fyrirtækja m.v. stærð viðkomandi markaðar.  Til að ná sem lægstu vöruverði er því af tæknilegum ástæðum óhjákvæmilegt að notast við tiltölulega stór fyrirtæki.

Stór fyrirtæki geta haft markaðsaðstöðu umfram það, sem fullkomin samkeppni gerir ráð fyrir.  Það væri hins vegar þjóðhagslegt glapræði að banna stór fyrirtæki af þessari ástæðu. Þegar fyrirtæki öðlast markaðsaðstöðu í krafti stærðarhagkvæmni eða annarra hagkvæmnisyfirburða, þarf einungis að gæta þess, að sú markaðsaðstaða sé ekki misnotuð.  Þetta er einmitt verkefni samkeppnisyfirvalda."

  Þetta er hárrétt athugað hjá Ragnari Árnasyni, en Samkeppniseftirlitið hérlenda virðist vera mótað af smásmyglislegri þröngsýni og ekki sjá skóginn fyrir trjánum.  Þannig fara hagfræðilögmálin fyrir ofan garð og neðan hjá SKE, en af þeim má ráða, hver eru aðalatriði máls fyrir neytendur.  Þau eru ekki fjöldi fyrirtækja á markaði, eins og SKE jafnan rembist við að hafa sem mestan, heldur framleiðslukostnaðurinn hjá hagkvæmast rekna fyrirtækinu á markaðinum.  SKE hefur undir núverandi stjórn stofnunarinnar og forstjóra hvað eftir annað tekið kolrangan pól í hæðina, ef miða skal við hagsmuni neytenda.  

"Í þessum skilningi er lágur framleiðslukostnaður mikilvægari þáttur í að skapa lágt vöruverð en samkeppni.  

Það er af þessum ástæðum, sem skynsöm samkeppnisyfirvöld beita sér fyrir lækkun framleiðslukostnaðar og forðast að koma í veg fyrir, að stærðarhagkvæmni sé nýtt.  Þegar markmiðið er sem lægst vöruverð, eru það einfaldlega mistök að einblína á samkeppni."

Það er mjög bagalegt, að SKE skuli vera svo aftarlega á merinni að skilja ekki grundvallaratriðið, sem ræður verði til neytenda.  Þess vegna hittir þessi gagnrýni Ragnars Árnasonar beint í mark, og SKE getur tekið hana beint til sín.  Forstjórinn á þeim bænum er með þvergirðingshátt í blóðinu og þess vegna ólíklegur til að fallast á mistök og leiðrétta kúrsinn.  Hvað á að gera við slíka embættismenn ?

"Bændur eru eigendur meginhluta afurðastöðvanna og ráða úrslitum um það verð, sem þær bjóða bændum.  Á neytendamarkaði eru aðstæður þannig, að stór hluti kjötvörunnar er nú þegar innfluttur.  Þar að auki er nóg af öðrum staðgönguvörum fyrir kjöt á innlendum neyzlumarkaði. Hugsanlegar tilraunir til að hækka verð á kjöti leiða því til miklu minni sölu og eru því ekki vænlegar fyrir kjötvinnslufyrirtækin.

Komi engu að síður í ljós, að endurskipulagðar afurðastöðvar leitist við að nota aðstöðu sína til verðstýringar, er auðvitað sjálfsagt, að Samkeppniseftirlitið grípi í taumana.  Samkeppnislög gilda áfram og þar með talið bann við að nýta markaðsstöðu til að lækka verð til birgja og hækka til neytenda.  Slíkt verður jafnólöglegt eftir sem áður."

Í grein sinni sýnir Ragnar Árnason ljóslega fram á, að þeir, sem snúizt hafa öndverðir gegn nýrri lagasetningu Alþingis um að opna afurðastöðvum kjöts leið til hagræðingar hérlendis, allt frá ráðuneyti matvæla, ýmsum þrýstihópum og til pólitískra loddara og lýðskrumara stjórnarandstöðunnar á Alþingi, eru algerlega úti að aka í verðlagningarmálum.  Ragnar byrjar greinina með fræðilegum útskýringum á lögmálunum, sem gilda í þessum málum, og endar með því að heimfæra raunstöðuna á Íslandi upp á þessi fræði.  Allt fellur þar í ljúfa löð, en eftir situr þurs SKE með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða um þá, sem hafa orðið berir að kolröngu mati og einstrengingshætti, sem jaðrar við fáfræði. 

 

 

 


Framkvæmdavald setur sig á háan hest

Það er að sumu leyti tímanna tákn, að innlent framkvæmdavald og erlendar stofnanir reyni að segja Alþingi fyrir verkum.  Alþingi virðist hafa sett niður, sem er ekki einsdæmi um þjóðþing, og það er nauðsynlegt að hefja það til vegs og virðingar á ný sem handhafa lagasetningarvalds á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur falið þingmönnum að fara með fyrir sína hönd.  Forsetaframbjóðandinn eini, þ.e. sá eini með erindi, hefur í nokkur ár verið iðinn við að benda á þessa varasömu þróun fyrir lýðræðið í landinu. Hann væri líklegur til að brýna þingið til dáða, næði hann kjöri til Bessastaða.  

Nýlega kom upp alveg sláandi dæmi sem eitt síðasta embættisverk Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu, þótt hún þykist hvergi nærri hafa komið, heldur hafi starfsmenn ráðuneytisins framið afglöpin upp á eigin spýtur, sem er trúlegt eða hitt þó ... .  Morgunblaðið gerði þennan fingurbrjót ráðuneytisins að umfjöllunarefni í forystugrein sinni 12. apríl 2024:

"Framkvæmdavaldið sussar á Alþingi".

"Atvinnuveganefnd Alþingis barst bréf frá matvælaráðuneytinu hinn 8. apríl [2024], þar sem nefndin var harðlega átalin fyrir að hafa breytt frumvarpi um búvörulög á annan hátt en ráðuneytið hafði hugsað sér.  Og Alþingi svo bitið höfuðið af skömminni með því að samþykkja það og afgreiða sem lög frá Alþingi."
 
Þessi ósvífna framkoma framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu er enn einn fingurbrjótur Svandísar Svavarsdóttur, sem enn var ráðherra, þegar bréfið var sent frá ráðuneytinu.  Svandís þorir ekki að kannast við gjörninginn og skýtur sér á bak við 2 lögfræðinga matvælaráðuneytisins, sem undirrituðu bréfið.  Svandís heldur uppteknum hætti og traðkar í salatbeðinu.  Svona gera menn ekki, og það var engin málefnaleg ástæða til að skrifa þetta bréf.  Fyrir því gerir formaður atvinnuveganefndar þingsins, Þórarinn Ingi Pétursson, rækilega grein í Morgunblaðinu 19.04.2024.  Það var einfaldlega nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna, sem leyfa samráð og sameiningu afurðastöðva, út fyrir alifugla og svín. 
 
Þótt matvælaráðuneytið hafi þarna gjörsamlega misskilið stöðu sína gagnvart þinginu, þá ætlar arftakinn, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ekki að leiðrétta þessi mistök með því að draga þetta bréf til baka og biðjast afsökunar fyrir hönd ráðuneytisins.  Það er leitt, en sýnir, að VG er í raun óstjórntækur flokkur, sem virðir leikreglur lýðveldisins um jafnvægi á milli þriggja greina lýðveldisins að vettugi.  Á þessa tilhneigingu innlends og erlends framkvæmdavalds til að valta yfir Alþingi hefur forsetaframbjóðandinn, Arnar Þór Jónsson, margsinnis bent.  Hann mun standa vörð um gildandi stjórnarskrá lýðveldisins með sínum hugsjónum og lagaþekkingu. 
 
Það hefur orðið uppi fótur og fit í þjóðfélaginu vegna laganna um afurðastöðvar, sem Alþingi samþykkti á dögunum, en lætin lýsa vanþekkingu á eðli málsins og því, sem viðgengst á þessu sviði í EES.  Neytendasamtökin, heildsalafélagið, VR og Viðreisn hlupu á sig í þessu máli, því að það er verið að opna fyrir framleiðniaukningu með því að leyfa stöðvunum að stækka, eins og Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, benti rækilega á í góðri grein í Morgunblaðinu 17.04.2024.
 
Áfram með forystugreinina:
"Þetta bréf er ótrúleg nóta, óskammfeilin [ósvífin] og óþolandi umvöndun framkvæmdavaldsins við löggjafann í berhögg við stjórnskipan landsins. 
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hinn nýi matvælaráðherra, hlýtur að draga bréfið til baka og biðja Alþingi afsökunar.  
Ekki vegna efnis laganna - á því má hafa ýmsar skoðanir - heldur vegna hins, að það er ríkisstjórnin, sem situr í friði Alþingis, ekki öfugt.  Ríkisstjórninni, framkvæmdavaldinu, ber að fara að og framkvæma vilja Alþingis.  Það má ekki segja þinginu fyrir verkum.
Nú vill svo til, að bréfið var sent á síðasta degi Svandísar Svavarsdóttur á stóli matvælaráðherra, en þar var henni ekki vært lengur vegna yfirvofandi vantrauststillögu sakir ólögmætrar embættisfærslu.  Og bréfið, það var sent til atvinnuveganefndar, þar sem Bjarkey, arftaki hennar, er meðal nefndarmanna.  Það kemur því í hennar hlut að biðja sjálfa sig afsökunar á oflæti Svandísar !" 
 
Það er alveg makalaust, að einum ráðherranna virðist algerlega umhendis að starfa lögum og almennum siðareglum samkvæmt.  Annars staðar væri fyrir löngu búið að setja henni stólinn fyrir dyrnar, en í umboði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kemst hún upp með hvaða ósóma sem er.  Nú hefur VG tekið ábyrgð á hegðun hennar, því að frú Olsen ætlar að láta sem ekkert sé.  Hún heldur líka áfram biðleiknum gagnvart umsókn Hvals hf um leyfi til tiltekinna hvalveiða í sumar, en ráðuneytið hefur dregið fyrirtækið á svari í um 3 mánuði.  Með þessari ólöglegu stjórnsýslu (stjórnsýslulög) dæmir VG sig úr leik sem óstjórntækan stjórnmálaflokk, þótt honum verði út úr neyð leyft að hanga í stjórnarráðinu enn um hríð. 
 
 
 
 
 
 

 


Af forsetaframboði

Gríðarlegt framboð er á forsetaefnum fyrir lýðveldið Ísland árið 2024, án þess að komið verði auga á erindi flestra frambjóðendanna við embætti Bessastaðabóndans.  Túlkun margra frambjóðenda á völdum og skyldum forsetans er undarleg í mörgum tilvikum, svo að ekki sé nú tekið dýpra í árinni.  Sumir frambjóðendanna virðast hafa ruglað saman Austurvelli og Bessastöðum og ættu betur heima á Alþingi en í virðulegu embætti þjóðhöfðingjans.  Sumir frambjóðenda eru með hástemmdar yfirlýsingar um að beita sér fyrir friði í heiminum.  Embættið, sem hér um ræðir, hefur nákvæmlega ekkert vægi til slíkra verka.  Persónan í embætti forseta Íslands þarf að skilja inntak stjórnarskrárinnar út í hörgul, hafa getið sér gott orð fyrir störf sín, og hún þarf að eiga mikilvægt, raunhæft og helzt brýnt erindi við þjóð sína um þjóðþrifamál. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur ritað gagnlegar og rökfastar greinar í Morgunblaðið um menntamál og þá lærdóma, sem hægt er að draga af útkomu PISA-prófanna.  Þann 13. apríl 2024 birtist skemmtileg grein eftir hann um "sjálfhverfusóttina, sem nú geisar meðal frumbyggjanna".  Hægt er að taka undir allt, sem Meyvant ber á borð með þessum skrifum.  Hann skrifar m.a.:

"Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan "heiður" að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni ?"

Að mati þessa blekbónda hér býr hégómagirnd að baki hjá þeim, sem hafa ekkert raunverulegt erindi fram að færa við þjóðina.  Í boði er auðvitað þægilegt starf með hlunnindum og góðum launakjörum.  "Sjálfhverfusóttin" hefur orðið til þess, að fólk án forystuhæfileika og snautt af þjóðhöfðingjasnyk hefur sýnt dómgreindarleysi sitt og ofmetið hæfileika sína.  Það gildir t.d. um þau 3, sem nú tróna efst í skoðanakönnunum um fylgi við forsetaframbjóðendur.

Áfram með skeleggan Meyvant:

"Trú á eigin getu ?  Íslendingar eru vissulega [á] meðal hamingjusömustu þjóða heims, sbr skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar.  Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm.  Spilling hefur einatt leikið okkur grátt.  Jónas, heitinn, Kristjánsson tók svo til orða, að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur."

Sú breyting virðist hafa orðið í tíð fráfarandi forseta á afstöðu manna til embættisins, að hver sem er geti gert lukku þar, hversu álappalegur og trúðslegur sem hann er, og hvernig sem klæðnaðurinn er. Forseti geti bara "snobbað niður á við", ef eitthvað vantar upp á virðuleikann. Það er afar ósennilegt, að hægt sé að leika þennan leik aftur og aftur.

Aðeins einn frambjóðandi er gæddur því andlega og líkamlega atgervi, sem hæfir vel og er til sóma fyrir Bessastaðabóndann, svo að þjóðin geti verið stolt af forseta sínum, en það er afar æskilegt.  Að þurfa að skammast sín fyrir forseta lýðveldisins er afleitt.

Þessi eini er jafnframt sá eini, sem segist vilja eiga áríðandi samtal við þjóðina um málefni, sem brennur honum á hjarta og sem hann hefur kynnt rækilega með skrifum sínum.  Hann skrifar þetta í auglýsingu um fundarhöld sín á 23 stöðum á landinu:

"Þess vegna gef ég kost á mér til starfans.  Ég tel, að ýmsar ógnir þöggunar og skautunar steðji að málfrelsi okkar og um leið lýðræði.  Það er afar mikilvægt, að hvert og eitt okkar hafi kjark til þess að þroska sína eigin sjálfstæðu afstöðu - og tala fyrir henni - í stað óttans, sem svo oft hvetur okkur til rétttrúnaðar og hjarðhegðunar.

Fyrir vikið er lýðveldið okkar veikara en ella, og brestir eru komnir í fullveldi þjóðarinnar.  Víða sjást merki þrýstings í formi lítt dulbúinna þvingana, ásælni og ágengni erlendra hagsmunaafla.  Íslenzkir stjórnmálamenn virðast á stundum komnir í hlutverk embættismanna og viljalausra verkfæra í höndum erlends valds.  Ég hef margsinnis tjáð mig um þessar áhyggjur mínar á undanförnum árum, bæði í sölum Alþingis og með greinaskrifum, fyrirlestrum og bókaútgáfu. 

Aðeins einn forsetaframbjóðandi gæti ritað þetta, og þess vegna sker hann sig algerlega úr framboðskraðakinu, sem er litlaust og gjörsamlega óáhugavert af mismunandi ástæðum.  Þessi frambjóðandi er gagnmenntaður, einnig erlendis, og fer hvorki með fleipur né byggir skýjaborgir.  Hann stendur með báða fætur á jörðunni, meðvitaður um, hvað er þjóðinni fyrir beztu og hefur jafnan gagnazt henni bezt.  Hann er laus við grillur um að reyna að nota forsetaembættið til að leika hlutverk á alþjóðavettvangi, sem það er í engum færum til.  Hlutverk forseta er að verja stjórnarskrána, eins og hún er á hverjum tíma (hafna lagasetningu, sem hann telur brot á stjórnarskrá), en það er hlutverk annarra að breyta henni, og það má telja hlutverk forsetans að efla skilning þjóðarinnar á þýðingu fullveldis fyrir sjálfsákvörðunarréttinn, og hvar mörkin liggja að þessu leyti í samstarfinu við aðrar þjóðir. 

Það er t.d. svo mikilvægt fyrir öryggi þjóðarinnar að vera aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO, að fullveldisafsal í því samhengi kemur ekki til álita.  Þess vegna er með öllu ótækt, að andstæðingur aðildar Íslands að NATO sitji á stóli forseta.  Það er jafnframt mjög óeðlilegt, að forseti lýðveldisins fari að predika undir rós, að Íslendingar ættu að leita aftur hófanna um inngöngu í Evrópusambandið, því að slíkt fullveldisframsal er óleyfilegt samkvæmt núverandi stjórnarskrá. 

Nú verður áfram vitnað í Meyvant:

 "Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi, sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar.  Hann er staðfastur og laus við "hégómlegar hugargælur", sbr orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur.  Og hann sækist sízt af öllu eftir sviðsljósinu, svo [að] notuð séu hans orð.

Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi.  Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikzt í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði.  Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB o.fl. alþjóðlegra stofnana.  Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur, sem stafa af bókun 35, og síðast en ekki sízt þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér, að ástæðulaust sé, að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu." 

Forseti með skoðanir Arnars Þórs mun brýna Alþingismenn, hvar í flokki, sem þeir standa, á að standa vörð um fulltrúalýðræðið með því að vanda vel til verka, hvort sem í hlut eiga þingsályktanir, þingmannafrumvörp, frumvörp frá ríkisstjórninni eða löggjöf frá ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd ESB og EFTA hefur samþykkt til lögleiðingar í EFTA-löndunum þremur.  Í lýðræðisríki þarf að ríkja nokkurt jafnræði með öllum þremur greinum ríkisvaldsins.  Þetta er hárfínt mat, og enginn núverandi frambjóðenda til forsetaembættisins er betur fallinn til eftirlits með slíku en Arnar Þór Jónsson.

"Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigzt til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá "fyndnasta föstudagssófa" veraldar og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents.  Miðvikudagskvöldið 3. apríl [2024] tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem "sterka" frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin, að RÚV segi henni, hverjir komi til greina sem forsetaefni ?"   

Þegar einhverjum fréttabörnum þóknast að láta ljós sitt skína í stað þess að tíunda með hlutlægum hætti nýja atburði, þá er nú ekki eins og Guð, almáttugur, sé þar á ferð.  Erindi allra þessara háttvirtu frambjóðenda, ef eitthvert er, bliknar fullkomlega í samanburði við erindi þess frambjóðanda, sem við Meyvant Þórólfsson viljum sjá fyrir enda Ríkisráðsborðsins á komandi kjörtímabili forseta lýðveldisins.  


Vanstilltur fullyrðingaflaumur

"Opið bréf til Alþingismanna frá forystufólki í íslensku þjóðlífi og landeigendum" birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024 undir ábúðarmikilli fyrirsögn: 

"Fimm staðreyndir um Ísland".

Þar gat að líta eftirfarandi:

"01 Sjálfsmynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum.  Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu."

Lönd hafa enga sjálfsímynd.  Það er hæpið að alhæfa með þessum síðrómantíska hætti um sjálfsímynd þjóðar, sem orðin er fjölmenningarleg, enda kemur þetta hástemmda náttúrublaður laxeldi í sjó við fáeinar strendur Íslands ekkert við, nema höfundarnir kjósi helzt, að fólkið í landinu verði bara sýningargripir í þjóðgarði fyrir túrhesta af malbiki stórborganna. 

"02 Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð, sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn. Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár (sic ! - þráar) og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni ganga í berhögg við sína eigin."

Þetta er algerlega úrelt viðhorf.  Aðeins elztu núlifandi frumbyggjar mótuðust af sjálfstæðisþrá.  Nú er alþjóða samvinna komin á slíkt stig, að það að etja saman erlendum og innlendum hagsmunum í landi, sem er á Innri markaði Evrópusambandsins, þar sem "frelsin fjögur" eru grundvöllur EES-samningsins, sem Alþingi hefur fullgilt, er fullkomin tímaskekkja.  Þarna er verið að bera brigður á erlendar fjárfestingar og gildi þeirra fyrir hagkerfi landsins, sem fjárfest er í.  Erlendar fjárfestingar í löglegri atvinnustarfsemi eru alls staðar, nema í Norður-Kóreu og ámóta ríkjum, mikið keppikefli.  Þær eru reyndar allt of litlar á Íslandi.  Fjárfestingar Norðmanna í sjókvíaeldi við Ísland hafa komið fótunum undir laxeldi í sjó hérlendis, sem á sér brösuglega fortíð, þegar frumkvöðlarnir börðust í bökkum við þetta.  Laxeldi í sjó hefur leitt nýtt blómaskeið yfir byggðir Vestfjarða og styrkt byggðir Austfjarða í sessi.  Sefasýkislegur atvinnurógur í garð þessarar starfsemi er sorglegur upp á að horfa.  

"03 Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands.  Við getum ekki látið það viðgangast, að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka."

Þarna er verið að hvetja til aukinnar ferðamennsku, en í ljósi þess, sem nú er að gerast á Kanaríeyjum, þar sem ferðamennskan er yfirþyrmandi og hefur leitt til fátæktar frumbyggjanna, sem reyna að lifa á sínum hefðbundnu atvinnugreinum.  Það er með öllu ósannað og verður að telja til ósanninda, að sjókvíaeldið gangi á auðlindir Íslands.  Landeigendur og veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær varðandi mikla fækkun villtra laxa í íslenzkum ám.  Miðað við veiðiálagið og viðmiðanir vísindamanna um sjálfbært veiðiálag í íslenzkri lögsögu á sér stað rányrkja úr íslenzkum ám, en ástandinu er reynt að klína á sjókvíaeldið, sem er einfaldlega algerlega úr lausu lofti gripið og virðist vera ein rándýr smjörklípa. Það er tímabært, að Alþingi fjalli um að setja nytjar dýralífs í ám á Íslandi undir vísindalega stjórnun Hafrannsóknastofnunar. 

"04 Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann.  Auðlindir eru alls staðar dýrmætar, en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær, sem hún sjálf býr yfir. 

 Þetta er skrýtinn texti.  Hagkerfi hvorki hugsa né skipuleggja.  Þurfa ekki jafnvel fjölskyldur að hugleiða framtíðina og skipuleggja langt fram í tímann ?  Þarna virðist vera reynt að segja, að eyþjóð þurfi að standa dyggari vörð um auðlindir sínar en aðrar þjóðir.  Engin rök eru færð fyrir því, bara fullyrt.  Það er í anda þeirra smjörklípumanna, sem ofsækja sjókvíaeldi hér við land og kenna því um ófarir sínar.  Þarna á við hin kristna speki.  Þú sérð flísina í auga samferðarmanns þíns, en ekki bjálkann í eigin auga.  

Það hefði verið eðlilegra og nærtækara áður en vaðið var fram með órökstuddum fullyrðingum, svívirðingum og dylgjum, í garð heillar atvinnugreinar, að þau sem hér eiga í hlut mundu hafa gert mótvægisáætlun við hraða hnignun villtra laxastofna í ám Íslands, sem fæli í sér stórfelldan niðurskurð eða jafnvel friðun stofnanna, þar til þeir næðu sér á strik að nýju.  Ofstækið, sem felst í eftirfarandi málsgrein þeirra, er ekki aðeins forkastanlegt, heldur kann að vera brot á stjórnarskrárreglu um atvinnufrelsi á Íslandi:

"Við biðlum því til Alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi."

Það hafa engin haldbær rök og gögn verið lögð fram, sem réttlæta mundu frekleg og rándýr stjórnvaldsinngrip af þessu tagi langt úr meðalhófi fram og án viðeigandi rannsóknarniðurstaðna, sem væru einstæð í sögunni og mundu draga dilk á eftir sér um langa framtíð.  Það lýsir dómgreindarleysi að senda þvílíka beiðni frá sér.  Ef flugufótur væri fyrir hrikalegum ásökunum hópsins, sem að þessari öfugsnúnu herferð stendur gegn lögbundinni atvinnustarfsemi í landinu, þá væru starfsmenn eftirlits- og ráðgjafarstofnana ríkisins, sem komið hafa að leyfisveitingum, eftirliti og ráðgjöf með þessari starfsemi, með öllu óhæfir og ekki starfi sínu vaxnir.  Það er fásinna að halda slíku fram og jafgildir atvinnurógi.  Þetta er mjög ljótt mál. 

 

 

 


Stjórnleti

Fáum blandast hugur um, að óþarfleg lausatök séu á málefnum ríkisins, og ríkið virðist stundum reka á reiðanum vegna útvistunar valda frá stjórnmálamönnum og til ýmissa nefnda, oft s.k. úrskurðarnefnda um embættisfærslu stofnana eða millistykki til að skapa s.k. armslengd frá stjórnmálamönnum.  Þetta er gallað fyrirkomulag, sem útvatnar lýðræðið í landinu og skapar þessum nefndum völd án ábyrgðar, sem aldrei er hollt.  Nefndirnar sjálfar eru dýrar í rekstri, en þó kastar tólfunum, þegar kostnaður af gjörningum þeirra er reiknaður.  Dæmi um hið síðar nefnda er, þegar úrskurðanefnd um málefni hælisleitenda mat Venezúela hættulegt land íbúum sínum.  Þessu sneri nefndin síðar við.  Í Venezúela ríkja sósíalískir stjórnarhættir, sem mörgum íbúanna stafar ógn af.  Stjórnarflokkurinn hefur stórskaddað atvinnuvegi landsins, svo að almenningur þar líður skort.  Ísland getur ekki verið allsherjar griðastaður fyrir alla, sem búa við hörmungar, en við sýndum Úkraínumönnum samstöðu, sem sjálfsögð var, þegar miklu stærri nágranni (í austri) hóf landvinningastríð í anda fornfálegrar nýlendustefnu keisara fyrri tíma.  

Morgunblaðið gerði reiðarekið að umræðuefni í forystugrein 20. marz 2024 undir heitinu:

"Kjörnir fulltrúar í aukahlutverki"

"Það er lítið lýðræði í því [þegar stjórnmálamenn fara á bak við kjósendur sína og svíkja kosningaloforð sín], en ekki bætir úr skák sú ásýnd stjórnleysis eða jafnvel hreint stjórnleysi, sem hlýzt af því, þegar látið er reka á reiðanum af ótta við átök innan ríkisstjónar og treyst á, að "kerfið" leysi vandann einhvern veginn. 

Hvernig getur staðið á því, að ríkisstjórnin steypti sér í slíkar ógöngur ? Hún galopnaði þetta litla land fyrir fólki, sem margt vill ekkert hafa með þá að gera, sem fyrir eru.  Rétt nýkomið er öskrað á þá, sem fyrir eru, eins og þingmenn þekkja öðum betur.  Þá er búið að eyðileggja skólakerfið vegna stjórnlauss innflutnings til landsins.  Vegna hans er tilkynnt, að nú sé nauðsynlegt að tvöfalda stærð ríkisfangelsisins. Ekkert af þessu kom þó á óvart. Af hverju sá ekki það fólk, sem var þó skyldugt til að stjórna með augu sín opin ?

Ungviði okkar á þetta ekki skilið. Allur fjöldinn bíður þess aldrei bætur.  Stór hluti af vegi þess til menntunar við forsvarnlegar aðstæður hefur verið eyðilagður.  Dæmin lágu galopin fyrir allra augum.  Ógöngur Svía, sem ráða illa við sín mál og geta ekki tryggt öryggi þeirra, sem fyrir voru, blasa  við öllum,  sem vilja sjá. Það fólk,  var aldrei spurt. Foreldrar barnanna voru aldrei spurðir. Allur almenningur var ekki spurður.  

Fullyrt er,  að þjóðin hafi "komið sér" í þessar ógöngur, án þess að þing og ríkisstjórn  hafi kynnt nokkrum,  hvað stóð til. Áhugamenn og "álitsgjafar" leiddu ráðamenn fram af brúninni.   Hvernig gat þetta gerzt  ?  Það veit enginn,  hvaða einstaklingar felast í þessum taumlausa innflutningi. "

 

 Hér er talað tæpitungulaust á 11. stundu. Útlendingalögin, sem þessi málaflokkur fylgir, voru samin 2016 af skýjaglópum,  sem ekki vissu,  hvað þeir voru að gera,  og  líklega hefur engan órað fyrir afleiðingunum.Í hópi þessara innflytjenda er margt heiðarlegt og duglegt fólk,  en þarna eru líka svartir sauðir,  sem oflesta hér lögreglu,  dómskerfi og fangelsi.  Sumir eru heilaþvegnir af ofstækisfullum trúarpredikurum,  og þeir eru hér eins og tifandi tímasprengjur,  eins og dæmin sanna annars staðar í Evrópu. Dómsmálaráðherra skilur vandann og vinnur að úrbótum,  en þinginu er illa treystandi í þessum efnum. Það er mikil bót í máli, að nýr, hæfileikaríkur forsætisráðherra er tekinn við völdum á Íslandi.  Hann hefur miklu skarpari sýn á aðalatriði mála en fyrirrennarinn, sem á mikla sök á reiðarekinu, sem Morgunblaðið gerði að umfjöllunarefni.  

"Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur.  Bankastjórinn segir, að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við.  Bankinn sé ekki ríkisbanki, heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins.  Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu ?  Það fólk hefur aldrei heyrt þennan bankastjóra nefndan.  Af hverju er þessum bankastjóra með derring gagnvart ríkisstjórninni ekki falið að leita sér starfa annars staðar ?  Það getur ekki verið vandamálið og eflaust slegizt um svona opinberan starfsmann. 

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.  Það er tímabært, að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera; þeirra á valdið að vera, og þeir þurfa að axla þá ábyrgð.  Almannavaldinu má ekki "útvista"." 

Hegðun bankastjórans og bankaráðsins (stjórnar bankans) er einsdæmi.  Bankastjórinn og ráðið virðast samspyrt um þá skoðun, að kaup Landsbankans á TM sé góð viðskiptahugmynd, en um ekki eru allir á einu máli um, að TM standi undir tilboðsupphæð Landsbankans.  Sú aðferðarfræði að binda tilboðið ekki skilyrði um samþykki Bankasýslunnar er forkastanleg í ljósi þess, að gjörningurinn stríðir augljóslega gegn eigandastefnu bankans, og handhafi langstærsta hlutarins í bankanum var búinn að funda með æðstu stjórnendum bankans um málið og láta í ljós skoðun sína.  

Nú er nýr ráðherra tekinn við fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hans bíður að sýna viðbrögð eigandans við framferði bankaráðsins, sem tekur út yfir öll þjófamörk.  Eðlilegt er, að bankaráðið víki, og nýtt bankaráð leiti hófanna um ógildingu tilboðsins án verulegra fjárhagsútláta fyrir bankann og eiganda hans.  

Þetta mál er sýnidæmi um það, hversu óheppilegt það er, að ríkissjóður sé bankaeigandi, svo að ekki sé nú talað um þau ósköp, að hann eigi tryggingafélag vegna bankaeignarinnar.  Vonandi tekst á þessu kjörtímabili að losa um allt eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og á næsta kjörtímabili að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum.  Slíkir gjörningar munu vafalaust bæta stjórnarhættina í þessum fjármálastofnunum og gera ríkissjóði kleift að minnka skuldabyrði sína.  Slíkt gerir hann í stakk búinn að fjárfesta í þörfum og arðsömum innviðum vegna lægri skuldabyrði.  Hér þarf að taka fram, að Borgarlínan er algerlega óarðsöm.  Sala á ríkiseignum er síður en svo verðbólguhvetjandi, en lántökur ríkissjóðs eru það.  

 

 


Ísland og Evrópusambandið

Af landfræðilegum, menningarlegum og sögulegum ástæðum er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga, að samband landsins við Evrópulöndin sé hagfellt og traust. Frá stríðslokum 1945 hefur tilhneigingin í Evrópu verið aukið viðskiptalegt, menningarlegt, peningalegt og pólitískt samband, sem formgert hefur verið með Evrópusambandinu - ESB og Seðlabanka evrunnar.  

Íslendingar eru í viðskiptasamtökunum EFTA með Norðmönnum, Liechtensteinum og Svisslendingum, en mikil samstarfsþjóð Íslendinga, Bretar, ásamt fáeinum öðrum Evrópuþjóðum hafa séð hagsmunum sínum bezt borgið með því að standa utan við bæði ESB og EFTA og reiða sig á fríverzlunarsamninga í sumum tilvikum.  

  Þeim málefnasviðum fer fækkandi í ESB, þar sem aðildarríkin hafa neitunarvald.  Þetta og sú staðeynd, að löggjöf ESB er í mörgum tilvikum sniðin við aðstæður, sem í litlum mæli eða alls ekki eiga við í litlu eyjarsamfélagi, gerir að verkum, að of áhættusamt er fyrir Ísland að leita eftir aðild að ESB, og Norðmenn hafa metið stöðuna á sama veg fyrir Noreg sem auðlindaríkt land. Norðmenn sætta sig við að taka ekki þátt í ákvarðanatöku ESB. Þá vaknar auðvitað spurningin um, hvernig hagfelldast og öruggast sé fyrir Ísland að haga sambandinu við ESB. 

Í byrjun 10. áratugar 20. aldar bjó ESB til biðsal fyrir EFTA-ríki, sem hugsanlega mundu sækja um aðild síðar og mundu nota biðtímann fyrir aðlögun að regluverki ESB.  Þetta var kallað Evrópska efnahagssvæðið - EES.  Síðar breytti ESB umsóknarferlinu, og önnur en EFTA-ríkin hafa ekki gengið í EES.  Þetta fyrirkomulag var hannað til báðabirgða, og hefur augljósa galla, en hefur verið látið dankast, og líklega hefur ESB engan hug á að endurskoða það. 

Meginvalkosturinn við EES fyrir EFTA-ríkin er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB.  Það væri þarfur gjörningur, að utaníkisráðuneytið, hugsanlega í samstarfi við EFTA, léti greina kosti og galla víðtæks fríverzlunarsamnings í samanburði við EES og legði mat á hvort tveggja í EUR/ár m.v. núllstöðuna, sem er að standa utan við hvort tveggja, en í EFTA. 

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur (MA í alþjóða samskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) hefur aflað sér haldgóðrar yfirlitsþekkingar á þessum málum og skrifað mikið um þau.  Hann reit grein í Morgunblaðið 11. marz 2024 undir fyrirsögninni:

 "Verri viðskiptakjör í gegnum EES".

"Hins vegar hefur sambandið á undanförnum árum samið um víðtæka fríverzlunarsamninga við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland, þar sem kveðið er á um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir [sem eru betri viðskiptakjör en Ísland nýtur við ESB].

Fyrir vikið hafa íslenzk stjónvöld á liðnum árum ítrekað óskað eftir því við Evrópusambandið, að komið yrði á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir í gegnum EES-saminginn. Óásættanlegt væri, að ríki, sem ekki væru í eins nánum tengslum við sambandið, nytu hagstæðari tollkjara.  Til þessa hefur sú viðleitni ekki skilað tilætluðum árangri, en tollar eru einkum á unnum og þar með verðmætari afurðum." 

Þessi öfugsnúna afstaða ESB gagnvart EFTA-ríkjunum, gæti átt sér eftirfarandi skýringar:  ESB þarf að meðhöndla fiskveiðiþjóðirnar þar innan borðs eins, og það er mikið magn unninna fiskafurða, sem berast mundi Innri markaðinum á meginlandinu frá Íslandi og Noregi.  Framkvæmdastjórnin óttast sennilega afdrif fiskiðnaðar innan ESB, ef slíkt gerist, og neitar því Íslendingum um lækkun þessara tolla.  Af ótta við fordæmi gagnvart Norðmönnum er ekki sérlega líklegt, að ESB væri tilleiðanlegt til að semja um lækkun þessara tolla í fríverzlunarsamningum.  

"Meginástæða þess, að ákveðið var á sínum tíma, að Ísland skyldi gerast aðili að EES-samninginum, var sú, að við Íslendingar áttum að njóta sérstakra kjara fyrir sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins umfram þá, sem ekki ættu aðild að honum.  Einkum og sér í lagi m.t.t. tolla.  Á móti áttum við að taka upp regluverk sambandsins um innri markað þess.  Var það réttlætt með sérstöku kjörunum."  

Nú hefur ESB grafið undan þessari röksemdafærslu með téðum fríverzlunarsamningum. Það setur EFTA-löndin í óhagkvæma stöðu. Framkvæmdastjórn ESB gerir tillögu um það til Sameiginlegu EES-nefndarinnar, hvað taka beri upp í landslög EFTA-landanna. Eðlilega einblínir hún í því viðfangi á langöflugasta ríkið á þeim vettvangi, Noreg.  Það, sem á vel við Noreg, á alls ekki endilega vel við Ísland.  Dæmi um það er orkulöggjöf ESB, s.k. Orkupakkar 1-4, þar sem Noegur er tengdur við hin skandinavísku löndin með lofttlínum og við Danmörku, Þýzkaland og Holland með sæstrengjum.  Reyndar voru líka miklar deilur um réttmæti innleiðingar þessarar löggjafar í Noregi, og fyrir Ísland er langsótt að tengja raforkukerfi landsins við Innri markað ESB.  Það er fjölmargt, sem kemur frá Sameiginlegu EES-nefndinni til viðkomandi ráðuneytis og síðan Alþingis, sem er meira íþyngjandi en gagnlegt fyrir okkar litla hagkerfi.  Á grundvelli reynslunnar af víðtækum fríverzlunarsamningi við Bretland væri fróðlegt, að "óháð" stofnun eða fyrirtæki mundi gera samanburð á hagkvæmni líklegrar niðurstöðu samningaviðræðna um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB annars vegar og hins vegar á óbreyttri aðild að EES.  

"Fram kemur í svari frá utanríkisráðuneytinu í ágúst 2022 við fyrirspurn frá mér, að áætlað sé, að tollar á íslenzkar sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn nemi árlega mrdISK 2,5-2,7.  Í svari ráðuneytisins við annarri fyrirspurn minni árið 2019 kemur hins vegar fram, að án samningsins væri aukinn kostnaður vegna útfluttra sjávarafurða áætlaður að lágmarki mrdISK 4,2 vegna eftirlits og skerts greiðsluþols."

Ávinningur EES-samningsins fyrir sjávarútveginn  að öðru óbreyttu er þannig um 1,6 mrdISK/ár og er þannig frekar rýr í roðinu, og kostnaðurinn af innleiðingu reglugerðafargans ESB fyrir Ísland vafalaust hærri, en taka verður tillit til ávinnings allra útflutningsvaranna, áls og annarra iðnaðarvara og þjónustu ásamt styrkjum, skólasamstarfi o.fl., og verður heildarsamanburðurinn þá líklega EES í vil.

Hins vegar væri fróðlegt að færa kostnaðinn 2,6 mrdISK/ár niður á tonn og bera saman við tollkostnað o.þ.h. við útflutning sjávarafurða á tonn til Bretlands samkvæmt fríverzlunarsamninginum við Breta. 

"Miðað við tölur ráðuneytisins má þannig draga þá ályktun, að ef Ísland gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið í stað EES-samningsins og þyrfti þar með að sæta auknu eftirliti með sjávarafurðum af hálfu sambandsins, en nyti á móti fulls tollfrelsis í þeim efnum, væri viðskiptalegur ávinningur af aðildinni, hvað umræddar vörur varðar, mögulega einungis á bilinu 1,5-1,7 mrdISK/ár." 

Það hafa líklega engar þreifingar farið fram af Íslands hálfu gagnvart ESB um, hvers konar skilmálar væru í boði við gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB í stað EES-samningsins, og þess vegna er að svo komnu erfitt að meta hagkvæmni fríverzlunarsamnings í samanburði við EES-samninginn.  Á þrítugsafmæli hans um þessar mundir er tímabært að breyta þessu, enda er mikið valdaójafnvægi fólgið í þessu báðabirgða fyrirkomulagi.  Inn í hagkvæmnisamanburð EES og fríverzlunarsamnings er nauðsynlegt að taka kostnað þjóðfélagsins af hinu ólýðræðislega fyrirkomulagi að senda Alþingi Íslendinga lagasetningu í pósti, þar sem engu má breyta.  Svona fyrirkomulag grefur undan lýðræðinu og sjálfstæðisvitund almennings, enda lítillækkandi. Hjörtur minnist á þetta:

"Taka þarf enn femur með í reikninginn vaxandi tilkostnað vegna íþyngjandi regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði atvinnulífið og almenning, sem innleiða þarf vegna EES-samningsins.  Óheimilt er að innleiða regluverkið minna íþyngjandi, en fullt svigrúm til þess að gullhúða það, eins og það hefur verið kallað.  Utan EES væri hægt að setja minna íþyngjandi regluverk í stað regluverks sambandsins eða alls ekkert." 

Í ljósi reynslunnar ætti að banna embættismönnum ráðuneytanna að breyta reglugerðum og tilskipunum ESB í meira íþyngjandi átt fyrir atvinnulíf og skattgreiðendur en ESB gefur tilefni til og fitja upp á samtali við ESB um það, að Ísland geti í Sameiginlegu EES-nefndinni gert tillögu um efnislegar breytingar á því, sem frá ESB kemur, í ljósi landfræðilegrar legu og fámennis. Það yrði þarft verk að sníða helztu skavankana af þessu samstarfi EFTA/ESB, en það er ekki einfalt eða auðvelt, á meðan utanríkisáðherra Noregs kemur frá stjórnmálaflokki, sem vill sjá Noreg innanborðs í ESB, en þannig er því varið bæði með Hægri og Verkamannaflokkinn.  Hver trúir því, að Samfylkingin, einn jafnaðarmannaflokka Norðurlandanna, muni ekki vilja dusta rykið af alræmdri aðildarumsókn Össurar Skarphéðinssonar frá 2009 ?  

 

 

 

  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband