Vaxtarmöguleikar, framleiðni og samkeppni

Hver "spekingurinn" étur upp eftir öðrum, að neytendum sé hætta búin vegna nýlegra breytinga Alþingis á búvörulögum.  Samkeppnisstofnun trommar undir, og aðrir vitna til hennar, en þar eru menn hrikalega þröngsýnir og misskilja oft hlutverk sitt illilega með þeim afleiðingum, að neytendur hafa haft allt of lítið fyrir sinn snúð af öllu brölti Samkeppnisstofnunar.  Alþingi tókst vel upp með sínar leiðréttingar á gölluðu frumvarpi meingallaðs fyrrverandi matvælaráðherra.  Þeir, sem gerzt þekkja til, vita, að vaxtarmöguleikar og þar með svigrúm til framleiðniaukningar vega miklu þyngra við að ná niður verði til neytenda en innlend samkeppni ein og sér.  Erlend samkeppni verður eftir sem áður fyrir hendi fyrir kjötvörurnar.  

Að venju leggur Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft til mála, þá er hann stingur niður penna, en það gerði hann á bls. 13 í Morgunblaðinu 17.apríl 2024 undir fyrirsögninni:

"Heimild til samvinnu afurðastöðva í kjötvinnslu er þjóðhagslegt framfaraskref".

"Með breytingu á búvörulögum, sem samþykkt var á Alþingi 21. marz sl. [2024], var afurðastöðvum í kjötvinnslu veitt undanþága frá þeim ákvæðum samkeppnislaga, sem lúta að sameiningu, samvinnu og verkaskiptingu fyrirtækja. Þessi breyting hefur vakið hörð viðbrögð vissra hagsmunasamtaka sem og Samkeppniseftirlitsins.  Þá hefur matvælaráðherra stigið það óvenjulega skref að senda atvinnuveganefnd alþingis sérstakar athugasemdir vegna málsins. 

Ég tel, að ofangreind viðbrögð sniðgangi meginatriði málsins og ofmeti auk þess áhrif samkeppni á vöruverð.  Í þessari grein leitast ég við að útskýra þetta nánar."

Þetta er hárrétt mat fræðimannsins á opinberum viðbrögðum við sjálfsagðri meðferð Alþingis á gallagrip úr matvælaráðuneytinu.  Viðbrögðin einkennast af hroka og yfirborðsmennsku.  Hroka ráðuneytisins er við brugðið.  Það snupraði Alþingi fyrir gagngerar breytingar á frumvarpi Svandísar, fór þar algerlega yfir strikið, og væri nýjum ráðherra sæmst að senda afsökunarbréf til þingsins fyrir hönd ráðherra, en spilltur stjórnmálaflokkur leyfir henni ekki að gera það.  Samkeppniseftirlitið, SKE, fellur á prófinu og þar neita menn að átta sig á lögmálum verðlagningar, sem eru sterkari en þess konar meint samkeppni, sem SKE hélt að ríkti á milli afurðastöðva kjötvinnslu.  Sannast þar enn, að þeir, sem bara svamla á yfirborðinu og hengja sig í formsatriði í stað þess að kafa til botns í málum, eru gagnslitlir og oft á tíðum skaðlegir fyrir þá hagsmuni, sem þeim er ætlað að verja, hér neytendahagsmuni.

"Það er samfélagslegt grundvallaratriði að reka alla atvinnuvegi á eins hagkvæman hátt og unnt er.  Það hámarkar tekjur landsmanna og auðlegð þjóðarinnar.  Hagkvæmasti rekstur þýðir jafnframt lægsta mögulega framleiðslukostnað og þar með lægsta mögulega vöruverð í landinu."

Það eru þessar hagfræðilegu staðreyndir, sem valda því, að SKE er á algerum villigötum í sinni afstöðu til nýsamþykktra undanþágureglna frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar kjöts.  Búrókratar verða að fara átta sig á, hvaða lögmál vega þyngst í þeirra málaflokkum.  Þá er ljóst, að ekkert mark er takandi á gösprurum í pólitíkinni á borð við Viðreisn, sem virðast ekki einu sinni kynna sér, hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Evrópusambandsins, sem er fyrirheitna landið þeirra.  Skelfilegir yfirborðssvamlarar, gagnslausir fyrir fólkið í landinu.

"Alkunna er, að nútímatækni í framleiðslu er oft þannig, að lægsti mögulegi framleiðslukostnaður krefst tiltölulega stórra fyrirtækja m.v. stærð viðkomandi markaðar.  Til að ná sem lægstu vöruverði er því af tæknilegum ástæðum óhjákvæmilegt að notast við tiltölulega stór fyrirtæki.

Stór fyrirtæki geta haft markaðsaðstöðu umfram það, sem fullkomin samkeppni gerir ráð fyrir.  Það væri hins vegar þjóðhagslegt glapræði að banna stór fyrirtæki af þessari ástæðu. Þegar fyrirtæki öðlast markaðsaðstöðu í krafti stærðarhagkvæmni eða annarra hagkvæmnisyfirburða, þarf einungis að gæta þess, að sú markaðsaðstaða sé ekki misnotuð.  Þetta er einmitt verkefni samkeppnisyfirvalda."

  Þetta er hárrétt athugað hjá Ragnari Árnasyni, en Samkeppniseftirlitið hérlenda virðist vera mótað af smásmyglislegri þröngsýni og ekki sjá skóginn fyrir trjánum.  Þannig fara hagfræðilögmálin fyrir ofan garð og neðan hjá SKE, en af þeim má ráða, hver eru aðalatriði máls fyrir neytendur.  Þau eru ekki fjöldi fyrirtækja á markaði, eins og SKE jafnan rembist við að hafa sem mestan, heldur framleiðslukostnaðurinn hjá hagkvæmast rekna fyrirtækinu á markaðinum.  SKE hefur undir núverandi stjórn stofnunarinnar og forstjóra hvað eftir annað tekið kolrangan pól í hæðina, ef miða skal við hagsmuni neytenda.  

"Í þessum skilningi er lágur framleiðslukostnaður mikilvægari þáttur í að skapa lágt vöruverð en samkeppni.  

Það er af þessum ástæðum, sem skynsöm samkeppnisyfirvöld beita sér fyrir lækkun framleiðslukostnaðar og forðast að koma í veg fyrir, að stærðarhagkvæmni sé nýtt.  Þegar markmiðið er sem lægst vöruverð, eru það einfaldlega mistök að einblína á samkeppni."

Það er mjög bagalegt, að SKE skuli vera svo aftarlega á merinni að skilja ekki grundvallaratriðið, sem ræður verði til neytenda.  Þess vegna hittir þessi gagnrýni Ragnars Árnasonar beint í mark, og SKE getur tekið hana beint til sín.  Forstjórinn á þeim bænum er með þvergirðingshátt í blóðinu og þess vegna ólíklegur til að fallast á mistök og leiðrétta kúrsinn.  Hvað á að gera við slíka embættismenn ?

"Bændur eru eigendur meginhluta afurðastöðvanna og ráða úrslitum um það verð, sem þær bjóða bændum.  Á neytendamarkaði eru aðstæður þannig, að stór hluti kjötvörunnar er nú þegar innfluttur.  Þar að auki er nóg af öðrum staðgönguvörum fyrir kjöt á innlendum neyzlumarkaði. Hugsanlegar tilraunir til að hækka verð á kjöti leiða því til miklu minni sölu og eru því ekki vænlegar fyrir kjötvinnslufyrirtækin.

Komi engu að síður í ljós, að endurskipulagðar afurðastöðvar leitist við að nota aðstöðu sína til verðstýringar, er auðvitað sjálfsagt, að Samkeppniseftirlitið grípi í taumana.  Samkeppnislög gilda áfram og þar með talið bann við að nýta markaðsstöðu til að lækka verð til birgja og hækka til neytenda.  Slíkt verður jafnólöglegt eftir sem áður."

Í grein sinni sýnir Ragnar Árnason ljóslega fram á, að þeir, sem snúizt hafa öndverðir gegn nýrri lagasetningu Alþingis um að opna afurðastöðvum kjöts leið til hagræðingar hérlendis, allt frá ráðuneyti matvæla, ýmsum þrýstihópum og til pólitískra loddara og lýðskrumara stjórnarandstöðunnar á Alþingi, eru algerlega úti að aka í verðlagningarmálum.  Ragnar byrjar greinina með fræðilegum útskýringum á lögmálunum, sem gilda í þessum málum, og endar með því að heimfæra raunstöðuna á Íslandi upp á þessi fræði.  Allt fellur þar í ljúfa löð, en eftir situr þurs SKE með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða um þá, sem hafa orðið berir að kolröngu mati og einstrengingshætti, sem jaðrar við fáfræði. 

 

 

 


Bloggfærslur 26. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband