23.2.2012 | 21:08
Að kunna ekki að skammast sín
Íslendingar búa um þessar mundir við ríkisstjórn, sem er svo fáum kostum búin, að hún er í engum færum til að veita landsmönnum nokkra forystu, sem þó ber brýna nauðsyn til. Með atbeina forseta lýðveldisins á stjórnmálasviðinu og skefjalausu ofbeldi við þinghúsið og víðar í Reykjavík, þar sem hársbreidd munaði, að ríkislögreglan og þar með ríkið sjálft, væri brotin á bak aftur, tókst ógæfufólki að hrifsa til sín völdin í Stjórnarráðinu snemmárs 2009. Fólk þetta fékk þá að njóta vafans, en það reyndist engin innistæða vera fyrir því trausti, enda hefur þetta skrýtna fólk kolfallið í öllum raunum.
Í janúar 2009 römbuðu landsmenn á barmi stjórnarbyltingar, sem ekki er nokkrum vafa undirorpið, að hefði orðið blóðug, því að valdarán Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og annarra slíkra hefði mörgum þótt ólíðandi og snúizt til varnar. Með lögregluna yfirbugaða hefði þetta hæglega getað endað með hildarleik. Sjá þá allir, af hversu miklu offorsi, ofstæki og ábyrgðarleysi vinstri öflin í landinu gengu fram þessa janúardaga 2009. Framganga þeirra markaðist af sams konar dómgreindarleysi og hvað eftir annað átti eftir að koma í ljós á valdatíma þeirra. Nú er komið berlega í ljós, að furðufólk þetta, sem við völdum tók 1. febrúar 2009 og voru síðan tryggð áframhaldandi völd í heilt kjörtímabil í kosningunum í apríl sama ár, hefur nákvæmlega ekkert það til brunns að bera, sem forystufólk þarf að hafa. Það er hjakkað í sama farinu og dundað við einskis nýt gæluverkefi, sem annaðhvort eru stórskaðleg eða skipta litlu máli fyrir þjóðarhag. Ekkert vitrænt frumkvæði, og engin stefnumörkun á sér stað til framtíðar, og engin uppbygging á innviðum né undirstöðum samfélagsins á sér. Það er bara horft til baka og rifið niður, ef eitthvað er.
Það er hangið við völd af valdafíkn og ótta við lýðræðislegan dóm yfir ómyndinni. Aldrei aftur vinstri stjórn mun enn á ný óma um borg og bý. Það væri eindæma ósanngjarnt að halda því fram, að kjósendur hafi þarna fengið, það sem þeir áttu skilið, þó að meirihluti kjósenda hafi í refsingarskyni við borgaralegu flokkana eftir Hrun morknaðs fjármálakerfis á Íslandi ákveðið að kjósa vinstri flokkana til valda. Það reyndust verða dýrkeypt mistök, því að kötturinn var keyptur í sekknum. Nú þarf að slá köttinn úr sekknum. Þingmenn þessa þingmeirihluta hafa margsinnis gert sig seka um svo alvarlegan dómgreindarbrest, að þeir eru ekki lengur hins minnsta trausts verðir. Ráðherrarnir, núverandi og brottreknir, eru bersýnilega dómgreindarlausir. Þeir ráða ekki við að leysa úr vandamálum, sem eiginn álkuháttur og dómgreindarbrestur þingmeirihlutans hefur skapað, hvað þá vanda, sem að utan steðjar.
Forkólfar ráðherranna þrugla óskiljanlega þvælu komandi út af ríkisstjórnarfundi, þar sem viðfangsefnið var að móta stefnu framkvæmdavaldsins í kjölfar dóms Hæstaréttar um afturvirkni laga um vaxtaákvörðun á lán, sem breytt var úr ólöglegum lánum með gengisviðmið. Þau heyktust algerlega á þessu viðfangsefni, eins og öllum öðrum, þar sem úrlausnar og leiðsagnar er þörf út úr vandasamri stöðu. Forherðingin er samt slík, að alltaf neita þau að horfast í augu við þá staðreynd, að þau ráða ekki við viðfangsefnin. Ráðherrarnir kunna ekki að skammast sín.Ekki er hlutur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka skárri. Þessar stofnanir gáfu ríkisstjórnarómyndinni ráð um lagasetningu síðla árs 2010, sem flestir leikmenn sáu þá strax, að orkuðu mjög tvímælis lögfræðilega, þar sem lög voru gerð afturvirk, jafnvel þó að fjölmargir lögmenn vöruðu við og /eða mótmæltu slíkum gjörningi sem Stjórnarskráarbroti.
Þetta er mjög einkennandi fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún fer öfugt að hlutunum, er óráðþæg, hlustar ekki á sérfræðinga og les ekki málsgögn og heimtar í öllum gösslaraganginum, að þingmenn hennar hagi sér eins. Annars eru gerð hróp að mönnum, snúið upp á handleggina á þeim og þeir lagðir í einelti. Þessi viðurstyggilega ofstækisframkoma hefur sínar afleiðingar. Þetta er raunaleg, en raunsönn lýsing á "stjórnendum" þjóðarskútunnar.
Nú er svo komið, að ríkisstjórnin og stjórnmálaflokkarnir tveir, sem að henni standa, er rúin trausti. Hvern skyldi hafa órað fyrir, að Lilja Mósesdóttir & Co. fengi meira fylgi en Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð til samans. Lilja gerir hosur sínar grænar fyrir fólki á miðju stjórnmálanna, en engum dylst, að hjarta hennar slær langt til vinstri við stjórnmálalegt velsæmi, þannig að hún siglir nú þegar undir fölsku flaggi.
Ríkisstjórnin var með þessum Hæstaréttardómi í viku 7/2012 um gengistengd lán slegin rothöggi, sem skýrir e.t.v. ruglið í ráðherrunum, sem ekki mæltu orð af viti að afloknum fyrsta ríkisstjórnarfundinum eftir rothöggið. Í stað þess að kasta handklæðinu inn í hringinn, hófst þá kattarþvottur með aumkvunarverðu yfirklóri um, að nú biðu þau eftir tillögu bankanna um, hvernig standa ætti við Hæstaréttardóminn. Auðvitað átti framkvæmdavaldið að taka af skarið, setja Frjármálaeftirlitið til verka við að útfæra dóm Hæstaréttar, sem er skýr, þó að rugludallar þrugli stöðugt bull til að rugla fólk í ríminu. Síðan má skipa gerðardóm, eins og Talsmaður neytenda hefur lagt til, sem mundi leggja greinargerð Fjármálaeftirlits til grundvallar úrskurðum sínum.
Vinstri stjórnin er handbendi fjármálafyrirtækjanna og ætlar að láta þau, sem dæmd voru sek, um túlkun dómsins. Það á að láta úlfinn gæta lambsins. Er þetta hægt ? Góðir hálsar; aumari verða stjórnmálamenn fjandakornið ekki. Þessir munu óhjákvæmilega draga flokka sína með sér í tortíminguna. Auðvitað átti bankastjóri Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins ásamt bankaráði og stjórn Fjármálaeftirlitsins að segja af sér líka fyrir að vera staðin að verki við að hvetja til Stjórnarskráarbrots. Hlutur beggja þessara aðila er slíkur, að fullyrða má, að farið hefur fé betra. Nú hefur forstjóra Fjármálaeftirlitsins líklega verið fórnað, en slíkur blóraböggull er allt of léttvægur í þessu samhengi.
Stjórnsýsla landsins er lömuð. Ofan á situr undirmálsfólk, sem aldrei skyldi nokkur mannaforráð fengið hafa, hvað þá forystu ríkisvalds. Þetta endemis hæfileikaleysi smitar niður um stjórnsýsluna, því að eftir höfðinu dansa limirnir. Verkstjórnin er síðan með þeim hætti, að þessi sama stjórnsýsla er sett í að fást við alls konar gagnaöflun og þýðingar fyrir kommissarana í Brüssel undir formerkjum aðlögunarferlis að Evrópusambandinu, ESB, sem er hrein fjársóun og tímasóun, því að Ísland er áreiðanlega ekki á leið inn í ESB. Í augum uppi liggur, að brýna nauðsyn ber til að stöðva alla þessa endemis vitleysu og ráðleysi vinstri manna, sem ekkert kunna til verka, forgangsraða aldrei með tilliti til þjóðarhagsmuna, heldur aðeins eigin sérvizku og fordóma og sóa skattpeningum á báðar hliðar.
Engin ríkisstjórn hefur haft jafnbrogaðan feril að baki og þessi, sé litið til niðurlægjandi ósigra og áfellisdóma. Þar ber tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave hæst, en Icesave málarekstur ríkisstjórnarinnar opinberaði mönnum fullkomna óhæfni ráðherra í starfi, og var þar sýnu verst frammistaða formanna stjórnarflokkanna. Þar bjargaði forseti lýðveldisins landsmönnum fyrir horn, þegar allt stendi í óefni, tvívegis.
Þá er í fersku minni Hæstaréttardómur yfir umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir afglöp í starfi, og hún heldur nú áfram afglapaiðju sinni með því að breyta niðurstöðum starfshópa um Rammaáætlun um nýtingu og vernd orkulinda. Niðurstöðum faghópanna er breytt í reykfylltum bakherbergjum nómenklatúrunnar. Þetta minnir mjög á framferði Putíns í Rússlandi, en að undirlagi hans er ekki hikað við að breyta niðurstöðum kosninga í Rússlandi stjórnmálaflokki hans í vil. Þeim svipar saman hjörtunum í Moskvu og Reykjavík.
Stjórnarskráarmálið er orðinn helber farsi. Ríkisstjórnin er þar búin að eyða einum milljarði (mia) kr í tóma vitleysu. Út er komið skjal, sem ekki stenzt stranga rýni stjórnlagafræðinga og annarra lögspekinga, sem þykir þar hvað stangast á annars horn. Þetta er bragðdaufur vellingur án rúsína og lögfræðilegt undirmálsverk. Jafnvel formaður stjórnlagaráðs getur ekki dulið vanþóknun sína opinberlega á ráðleysi ríkisstjórnarinnar, sem aldrei getur hugsað neitt mál til enda.
Stjórnin virðist vilja láta kjósa um nokkrar greinar Stjórnlagaráðs og jafnvel alla tillögu ráðsins samhliða forsetakosningunum í sumar, en allt er málið í þoku, enda var illa til þess stofnað, þar sem Hæstiréttur dæmdi kosningar ólöglegar, sem í óráðshugarheimi Jóhönnu Sigurðardóttur áttu að veita Stjórnlagaþingi réttlætingu til að yfirtaka hlutverk Alþingis sem Stjórnarskráargjafa. Það stendur upp úr, að staðið er með algerlega ólögmætum hætti að kukli við Stjórnarskrána. Ef einhver kærir þessar aðfarir, verða þær að líkindum dæmdar ólögmætar, og er þá ver farið en heima setið. Engum heilvita manni getur dottið í hug að standa með svo óvönduðum hætti og svo flausturslega og ófaglega að endurskoðun grundvallarlaga lýðveldisins.
Nú þakka forkólfar ríkisstjórnarinnar sér ánægjulega hækkun lánshæfismats landsins. Þetta hefur hins vegar gerzt þrátt fyrir ríkisstjórnina, en vegna makrílsins, sem er að færa þjóðinni 25 mia kr björg í bú á ári, og gæftir eru yfirleitt góðar. Álverðið hefur að vísu lækkað tímabundið, en framleiðslan fer hins vegar vaxandi í landinu. Það er argasta hégilja, sem haldið er fram af draumórafólki og öfugmælaskáldum, að varanleg offramleiðsla sé á áli og framleiðsla áls ógni jörðunni. Framleiðslan er nú um 43 Mt/a (milljón tonn á ári) og hefur vaxið um 10 % á fáeinum árum. Spáð er 4 % eftirspurnaraukningu á ári, sem þýðir 16 Mt aukningu fram til 2020 eða 2 Mt/a. Megnið af brotaáli fer í endurvinnslu, sem aðeins þarf um 5 % af orku frumvinnslunnar per tonn. Hvernig dettur rassálfunum í hug að halda fram þeirri fásinnu, að álvinnsla muni eyðileggja jörðina. Bezt er, að þruglkenndur skáldálfur draumalandsins stingi hausnum í sandinn og verði þar, sem hann á heima; í eyðimörk fordóma og sjúklegra samsæriskenninga.
Álverin á Íslandi eru samkeppnihæf, og eigendum dettur ekki í hug að draga hér saman seglin, þótt í móti blási. Þessa mikla gjaldeyrisöflun verður enn að efla til að mynda traustan grunn að viðreisn hagkerfisins og efnahagslegum stöðugleika með afnámi hafta og skilyrðislausra verðtrygginga.
Þessu ráðleysisgengi, flagði undir fögru skinni, sem hér rændi völdum og hlaut síðan blessun í kosningum á fölskum forsendum og hefur þegar svikið öll sín kosningaloforð, ber að fleygja hið fyrsta á ruslahauga sögunnar og leggja ár hinna glötuðu tækifæra að baki sér. Vatnið það hefur þegar runnið undir brúna, en hitt þarf að virkja.
Hvað tekur þá við ? Menn spyrja, hvort þeir eigi að greiða stjórnmálaflokkum atkvæði, sem ábyrgir séu fyrir Hruninu ? Hverjir eru ábyrgir fyrir Hruninu ? Árið 2004 var til meðferðar mál á Alþingi, sem skipti sköpum um eignarhald á fjölmiðlum. Þáverandi stjórnarandstaða, Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð, barðist eins og blóðhundar gegn dreifðu og gegnsæju eignarhaldi á fjölmiðlum, en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk það samþykkt á Alþingi. Lögin féllu hins vegar forseta lýðveldisins ekki í geð, svo að hann synjaði þeim staðfestingar, og voru þau í kjölfarið felld úr gildi. Eftir þetta náðu gullrassar og nasavíðir fjárglæframenn kverkatökum á umræðunni í landinu og síðan undirtökunum í bönkunum með alræmdum afleiðingum. Ef sauma átti að auðmönnum, áttu þeir jafnan hauka í horni, þar sem Samfylkingin var. Það má heldur ekki gleyma því, að stefna Sjálfstæðisflokksins var upphaflega um dreifða eignaraðild að bönkunum, en þingið kaus að hafa annan hátt á. Er með sanngirni unnt að kenna Sjálfstæðisflokkinum um rotið fjármálakerfi, eins og vinstri flokkarnir hanga nú á, eins og hundur á roði, og endurspeglast í málarekstrinum á hendur Geir Hilmari Haarde ? Nei, það er engin sanngirni í því, heldur undirstrikar þetta háttarlag vinstri flokkanna dómgreindarleysi þingmanna þeirra, sem rakið er í þessum pistli. Þeir kunna ekki að skammast sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2012 | 21:50
Í helgreipum ríkjasambands
Grikkland riðar á barmi þjóðfélagslegrar upplausnar, enda er landið sokkið í skuldir. Engin von er um, að úr rætist á þessum áratugi, nema Grikkir losi sig við mynt, sem þeir ráða engu um. Þó er talið, að evran bíði þess ekki bætur, ef Grikkir losa sig úr helfjötrum þessarar myntar, sem engum hentar, nema Þjóðverjum.
Hvers vegna hentar engum evran, nema Þjóðverjum ? Það er vegna þess, að væri þýzka markið við lýði, mundi það vera sterkara (dýrara) en evran. Þess vegna væru Þjóðverjar ekki jafnsamkeppnihæfir á erlendum mörkuðum og nú. Jafnframt er reynslan sú, að vextir á evrusvæðinu markast aðallega af hagsveiflu Þýzkalands, enda er þýzka hagkerfið stærst innan evru-lands. Þó að evran sé veikari en þýzka markið væri, er hún samt of sterk fyrir öll hagkerfin í evru-landi utan Þýzkalands. Þetta yfirsást þeim, sem börðust fyrir stofnsetningu evrunnar. Það voru ekki Þjóðverjar. Henni var troðið upp á þá. Þeir sáu mjög eftir DEM, sem var stolt niðurlægðrar þjóðar. Þjóðverjar löguðu sig að evrunni, og hún hefur reynzt hafa rutt þeim brautina til endurnýjaðra úrslitaáhrifa í Evrópu. Örlögin eru ekkert lamb að leika sér við.
Hagkerfi Grikklands riðar nú til falls vegna fólskulegrar framkomu leiðtoga ESB við alþýðu Grikklands. Nú er reyndar búið að sprauta nautsblóði í dauðvona sjúklinginn í von um, að örvæntingarmeðferð lífgi sjúklinginn við. Staðreyndir máls, sem hér að neðan eru raktar, mæla gegn slíku. Hagkerfið er orðið ósjálfbært og getur ekki lengur brauðfætt þjóðina. Grikkir lifa enn um efni fram, þó að þeir hafi hert sultarólina meir en líklega nokkur vestræn þjóð frá stríðslokum. Til að sýna, hversu grafalvarleg núverandi staða Grikkja er má nefna nokkrar tölur:
- ríkisskuldir nema 355 miöEUR eða 163 % af VLF
- verg landsframleiðsla hefur minnkað samfleytt 2008-2012
- VLF dróst saman 2008-2011 úr 233 miöEUR í 218 miaEUR
- samdráttur landsframleiðslu á 4 árum: 10 %
- samdráttur landsframleiðslu árið 2011: 7 % (ný tala)
- verðbólga árið 2011: 2,9 %
- atvinnuleysi: 20 % og rúml. tvöfalt meira á bilinu 18-30 ára
- greiðsluhalli við útlönd: 22 miaEUR eða 8,6 % af VLF
- halli á ríkisbúskapi: 10 %
- ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréfum: 36 % á ári
- fall hlutabréfamarkaðar 2011: 44 %
Þessar tölur lýsa hagkerfi þjóðar í bráðri neyð, enda berast tíðindi frá Aþenu um blóðuga bardaga og sprengingar í allsherjarverkfalli í landinu. Hvernig bregðast embættismenn ESB og Merkozy við þessari grafalvarlegu stöðu ? Ráðamenn ESB krefjast af þjóðþinginu í Aþenu, að það samþykki 3,0 miaEUR niðurskurð ríkisútgjalda sem skilyrði greiðslu á 130 miaEUR láni úr björgunarsjóði ESB, sem á að bjarga Grikklandi frá greiðsluþroti 20. marz 2012. Þegar þingið hafði fallizt á þetta, bættu ESB-forkólfarnir 10 % við niðurskurðarkröfuna. Samkvæmt nýjustu fregnum ætlar gríska þingið að kyngja þessu.
Þetta var kornið, sem fyllti mælinn í Aþenu, og óeirðir brutust umsvifalaust út. Það er sem forkólfum ESB sé ekki sjálfrátt, eða þeir séu meðvitað að framkalla atburðarás, sem leiðir til greiðsluþrots Grikkja og þar með flótta þeirra úr evruánauðinni. Það hefur birzt mynd af ESB, sem hörðustu andstæðinga ríkjasambandsins á Íslandi hefði ekki órað fyrir að óreyndu. Það fyrirfinnst engin samstaða með lítilmagnanum. Fyrir Grikki er ekkert almennilegt haldreipi að hafa í Brüssel. Þvert á móti níðist Brüssel á fátæku fólki Grikklands. Miðstétt Grikklands er að missa fótanna og verða fátækt að bráð. Tæp 30 % Grikkja er að lenda undir silgreindum fátæktarmörkum. Skuggalegt er að horfa upp á vaxandi óvild á milli Aþenu og Berlínar. Er þá skammt í, að gömul sár verð ýfð upp.
Ástæðurnar fyrir þessu eru þær, að forystan í Berlín er tekin að einblína á Sambandsþingskosningarnar haustið 2013. Hún er að reyna að ganga í augun á kjósendum með hörkulegu framferði sínu gagnvart Grikkjum og öðrum Suður-Evrópuríkjum evrusvæðisins í vanda, og hún neitar að reiða fram meira fé, nema enn meiri fórnir verði færðar þar suður frá. Önnur ríki evrusvæðisins eru ekki aflögufær, Frakklandsforseti mun falla í vor; það er einvörðungu spurning, hvort hann fellur í fyrri umferð fyrir Le Pen eða í seinni fyrir Hollande.
Frakkland er að sogast ofan í hyldýpið með 90 % ríkisskuldir af VLF og hratt vaxandi, mikinn greiðsluhalla við útlönd og 10 % atvinnuleysi og vaxandi. Ítalía berst fyrir lífi sínu, og Spánn er á heljarþröm. Bretar standa utan við allt saman, skuldugir upp fyrir haus, en njóta samt meira trausts fjármálamarkaða með sitt sterlingspund en flest evruríkin, sbr lánshæfismat á Bretum. Aðrir eru efnahagslegir dvergar í þessu sambandi. Niðurstaðan er sú, að ESB er lamað og flýtur sofandi að feigðarósi. Er þá ekki von, að ringlaðir og utan gátta sambandssinnar á Íslandi vilji endilega fara þarna inn og beiti til þess öllum brögðum, jafnvel bolabrögðum ? Samt er ljóst, að hráskinnaleikurinn, sem Össur nefnir samningaviðræður, hefur stöðvazt. ESB er ekki tilbúið í alvöruviðræður fyrr en 2013, þegar ríkjasambandið ætlar að vera tilbúið með nýja sjávarútvegsstefnu. Bara í makrílnum mundi aðlögun okkar að ESB kosta okkur 20 miaISK. Það þarf að greiða um það þjóðaratkvæði hið fyrsta, hvort halda á áfram þessari endileysu eða að binda endi á hana og snúa sér að uppbyggilegri málefnum.
Hvernig í ósköpunum stendur á, að rótgróin Evrópuþjóð getur lent í jafnhrikalegri stöðu og Grikkir ? Þessari spurningu má svara með einu orði-"evran". Það er evran, sem hefur bókstaflega rústað hagkerfi Grikklands. Eftir upptöku evrunnar og fram undir hrun fjármálamarkaðanna 2008 streymdi ódýrt lánsfé til Grikklands. Eignaverð hækkaði og verðbólga fór úr böndunum með þeim afleiðingum, að Grikkir urðu lítt samkeppnihæfir á erlendum mörkuðum með miklu sterkari gjaldmiðil en samsvaraði styrk hagkerfisins.
Afleiðing þessa varð gríðarleg skuldasöfnun hins opinbera í útlöndum og einnig skuldasöfnun fyrirtækja og einstaklinga í bönkum Grikklands. Lánadrottnar voru mest þýzkir og franskir bankar. Skuldir ríkisins vaxa enn og stefna í 400 miaEUR.
Áform ESB snerust um að fá lánadrottnana til að afskrifa 50 % af skuldunum. Skuldirnar eru hins vegar að töluverðu leyti komnar í hendurnar á vogunarsjóðum, sem hafa tekið sér skortstöðu gagnvart Grikkjum, sem merkir, að þeir veðja á fall þeirra. Þess vegna takast ekki þessir samningar, sem aftur á móti voru skilyrði Merkozy fyrir um 130 miaEUR láni vegna afborgana og vaxta í marz 2012.
Staða Grikkja er verst allra evruríkjanna, líklega af því að þeir voru skuldsettastir fyrir Hrunið að tiltölu. Hins vegar stefnir allt í óefni hjá fleirum, eins og minnzt er á hér að framan. Það er vegna þess, að hagkerfi flestra annarra ríkja ESB eru ekki nógu öflug til að geta búið við evru. Ef jafnaðarmenn á Íslandi hefðu haft afl til, sætum við Íslendingar nú uppi með evru og værum að líkindum í sömu sporum og Grikkir vegna þess, hversu óburðug hagstjórnin á Íslandi hefur löngum verið.
Það er mikið vandaverk að koma hagstjórninni á Íslandi á braut stöðugleika og sjálfbærni, þ.e. verðbólgu undir 2 % á ári, atvinnuleysi undir 3 %, hagvexti inn á bilið 3 % - 6 % og skuldunum við útlönd niður um a.m.k. helming. Til þess þarf viturlega stefnumörkun, einarða verkstjórn til að ná settum markmiðum í áföngum og sameiginlegt átak landsmanna. Það er hægt að fullyrða eftir þriggja ára reynslu, að ekki nokkurt einasta hald er í núverandi ríkisstjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni grænu framboði, til þessara verka, enda glíma þeir nú þegar báðir við tilvistarkreppu, og allt framferði forystumanna þeirra ber feigðina í sér.
Reynslan fram að næstu Alþingiskosningum mun skera úr um það, hvaða stjórnmálaflokkar hafa burði til að axla það flókna og erfiða hlutverk að leiða íslenzku þjóðina út úr núverandi eyðimerkurgöngu og til heilbrigðs vaxtar og traustrar velmegunar í sátt og samlyndi við umhverfi sitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2012 | 21:21
Vesaldómur og vöxtur
Út er komin á vegum Landssambands lífeyrissjóða, LL, viðamikil skýrsla um starfshætti framkvæmdastjóra og stjórna lífeyrissjóðanna í landinu fyrir Hrun. Tilefnið var brotlending og hrikalegt tap þeirra við fall bankanna haustið 2008, sem nú hefur verið upplýst, að nam 480 miö kr eða um fjórðungi af eignum þeirra. Þetta er reyndar hlutfallslega svipað og tap norska olíusjóðsins og sýnir í hvílíkar ógöngur íslenzku lífeyrissjóðirnir eru komnir með fjárfestingarstefnu sína, sem reyndar er mótuð með ófélagslegum hætti af löggjafanum, en það ber að hafa efst í huga félagslegt inntak lífeyrissjóðanna við stefnumótun þeirra og lagasetningu um þá. Lífeyrissjóðirnir eru komnir í öngstræti, lífeyrisþegar rændir lífeyri almannatrygginga að miklu leyti á móri greiðslu úr lífeyrissjóði, stærð og fyrirferð sjóðanna orðið efnahagsvandamál á Íslandi, eins og dæmin sanna.
Tap sjóðanna nam mest rúmlega helmingi eigna, og var það hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga, Lífsverk, og olli átakanlegri skerðingu reiknaðra framtíðar lífeyrisréttinda sjóðsfélaga. Lífsverk var og er með lýðræðislega kjörna stjórn. Lýðræði er engin trygging gegn óvönduðum vinnubrögðum, hrösun á vegum dyggðarinnar og mistökum, eins og alkunna er.
Mest var þó sukkið og svínaríið í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, LRS, í krónum talið. Þar og víðar hefur þó enn ekki verið hreinsað til, og kemur það spánskt fyrir sjónir. Félagarnir vita, að þeir fá allt bætt með skattfé. Þetta er óþolandi. Að skattborgarar landsins skuli vera látnir ábekja glannalegar gjörðir þessa sjóðs, nær engri átt. Slík ábeking leiðir einvörðungu til enn glannalegri meðferðar fjár að hálfu sjóðsins en ella. Upphæð ábekingarinnar mun vera 8 mia kr á ári næstu 40 árin. Það verður að vinda ofan af þessum spillingarhvata með lagasetningu, því að hann felur í sér mikið óréttlæti á formi mismununar þegnanna. Minni hagsmunir verða hér að víkja fyrir meiri. Ný lagasetning um lífeyrissjóði þarf að losa um heljartök "aðila atvinnulífsins" á lífeyrissjóðunum og lífeyrissjóðanna á félagsmönnum. Lýðræðisvæðingu og valfrelsi þarf að innleiða hér.
Þekktur stjórnmálamaður, núverandi innanríkisráðherra, var stjórnarformaður LRS árið 2007. Skrýtið, að enginn rannsóknarblaðamaður skuli hafa kannað, hversu mikið af þessu stærsta tapi lífeyrissjóðs í sögunni megi rekja til gjörninga ársins 2007. Sameignarsinnum getur sem sagt orðið hált á svellinu í auðvaldsþjóðfélaginu. Það þarf reyndar ekki að koma á óvart.
Þetta ævintýri fjár án hirðis er grafalvarlegt mál fyrir alla þjóðina og hlýtur að hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir þá, er hér eiga hlut að máli. Hér gæti ljót blanda búið að baki, blanda spillingar og glópsku, þar sem glópagullsmenn gerðu sig seka um vítaverða vanrækslu.
Leitt hefur verið í ljós, að stjórnendur og eigendur bankanna, sem reyndust vera bankaræningjar af verstu sort, gengu um lífeyrissjóðina, skyldusparnað landsmanna, á skítugum skónum, og rændu þá líka. Þar er um að ræða 324 mia. (250+74 mia.) kr af þessum 480 miö eða 2/3 hluta, þegar tap á bankabréfum og pappírum tengdra félaga eru talin. Stjórnendur lífeyrissjóðanna reyndust vera svo ósjálfstæðir í starfi, að þeir lýsa sjálfum sér í téðri skýrslu LL sem fórnarlömbum bankamanna. Í skýrslunni er talað um meðvirka stjórnendur lífeyrissjóðanna. Hvers konar Disneyland er þetta eiginlega ? Hafa menn ekkert bein í nefinu ?
Lítið sem ekkert fór fyrir sjálfstæðu áhættumati Mikka músar, heldur nutu hann og félagar hans ráðgjafar bankanna, "röverbanden", og afleiðingin varð, eins og til var sáð, afspyrnu léleg áhættudreifing og engin áhættustýring. Starfshættir af þessu tagi eru svik við eigendur lífeyrisins, alger undirmálsframmistaða og ekki unnt að nefna vinnubrögðin annað en hreinræktað fúsk. Þarna hefur annaðhvort legið að baki (eða á bakinu) mikil einfeldni, trúgirni og fáfræði eða beinlínis óheiðarleiki og maðkað mjöl í pokahorninu. Úr þessu verður að fást skorið fyrir dómstólum. Þeir verða að fá mál lífeyrissjóðs til meðferðar.
Það verður enginn friður í landinu, nema gerð verði gangskör að því fyrir dómstólum að varpa ljósi á atburðarásina, sem leiddi til þess, að lífeyri landsmanna var sólundað á altari Mammons. Hvar eru þessir peningar okkar núna, 25 % af eignum lífeyrisjóða landsmanna ? Eru þeir á Tortólu ? Eru þeir á Guernsey ? Eru þeir í vösum Gissurar gullrass eða Jóakims frænda ? Þó að féð sé líklega týnt og tröllum gefið, er algert lágmark að leita sannleikans fyrir dómstólum. Það er engin hemja, hvað hvítflibbaglæpamenn komast upp með á Íslandi án þess að hljóta makleg málagjöld. Er réttvísin tannlaus ? Það er kominn tími til, að hún sýni tennurnar, ef einhverjar eru og þá vonandi ekki falskar.
Útlínur og meginniðurstöður þessarar sögu eru svo yfirgengilegar, að öllu réttsýnu fólki blöskrar og getur ekki búið við óbreytt fyrirkomulag. Fram kemur í 800 síðna skýrslunni um 480 milljarðana, að verklagsreglur hafi skort um starfsemi lífeyrissjóðanna. Mann setur hljóðan. Menntunarleysið virðist hafa tröllriðið metnaðar- og getuleysi og siðleysið svifið samtímis yfir og allt um kring. Ekki tók betra við, þegar kom að eftirlitinu. Úttektarskýrslan gefur endurskoðendum sjóðanna falleinkunn. Hvernig er nú komið fyrir faglegum metnaði þeirrar stéttar ? Fyrst útreið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og svo aftur núna. Úttektarnefnd Hrafns Bragasonar lagði til, að Fjármálaeftirlitið skipaði lífeyrissjóðunum þessa endurskoðendur, en Fjármálaeftirlitið brást hlutverki sínu gersamlega í þessu reginhneyksli Hrunsins. Kratar og sameignarsinnar halda, að unnt sé að gera við margháttaða galla auðvaldsskipulagsins með regluverki og eftirliti. Slíku er ekki að treysta. Ekki vantaði hér regluverkið fyrir fjármálageirann, og Fjármálaeftirlitið hafði skyldum að gegna. Setja þarf lífeyrissjóðunum kröfur um gæðastjórnunarkerfi, innra og ytra eftirlit. Fjármálaeftirlitið á ekki að láta nægja að taka við pappírum og raða þeim í rétta möppu. Það verður að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir.
Stjórnarfyrirkomulag og fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna hefur algerlega gengið sér til húðar. Það verður að finna lífeyrissjóðunum verðug viðfangsefni, en fyrirferð þeirra í íslenzka samfélaginu er orðið sjálfstætt vandamál. Núverandi ríkisstjórn hefur ekkert þrek til að taka á þessum málum. Ný ríkisstjórn í landinu verður á fyrsta ári sínu við völd að stjórna smíði frumvarps til nýrra laga um lífeyrissjóði í landinu, sem setur sjóðsstarfsmönnum og stjórnum hæfiskröfur og hæfniskröfur og dregur upp útlínur gæðastjórnunar á ávöxtun sjóðanna, sem samræmist félagslegu hlutverki þeirra og útilokar tjón af græðgislegum áhættufjárfestingum, sem fulltrúar vinnuveitenda og launþega, sem nú sitja í stjórnum þeirra flestra með þessari ömurlegu niðurstöðu, hafa blessað yfir. Það þarf að ræða um ávöxtunarkröfu sjóðanna, þvingaða félagsaðild, og hvernig á að beina ávöxtun sjóðanna í farveg, sem veldur ekki bólumyndun í eignaverði og hagrænum óstöðugleika í landinu.
Ekki reyndist nokkurt minnsta hald í Fjármálaeftirlitinu, og sannaðist þar enn einu sinni, að eftirlitsstofnanir eru almenningi gagnslausar, þegar hæst á að hóa. Næsta ríkisstjórn mun vafalaust gjörbreyta Seðlabankanum með nýrri lagasetningu, sem færir Fjármálaeftirlitið til Seðlabankans og leggur grunn að traustri peningamálastjórnun að hætti Bundesbank. Lífeyrissjóðirnir eru sökum stærðar sinnar ríki í ríkinu og þar verður að ríkja festa, félagsleg ráðdeild, fagmennska og stöðugleiki.
Það er rétt, að lífeyrissjóðir með lýðræðislega kjörnum stjórnum beint af eigendunum urðu sízt fyrir minna tjóni en hinir. Það er hins vegar tímanna tákn að efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku um eigin mál. Þegar ný og vönduð löggjöf um lífeyrissjóðina, sem eru og verða haldreipi okkar í ellinni, verður samin, verður væntanlega skorið á tengslin við atvinnulífið, því að ekki verður séð, að þessi tengsl hafi gagnast eigendunum, núverandi og tilvonandi lífeyrisþegum, nema síður sé.
Lífeyrissjóðirnir tóku, illu heilli, fullan þátt í bóluhagkerfinu. Það er út af fyrir sig óskiljanlegt, að mönnum skuli detta sú firra í hug, að breyta lífeyrissjóðum í vogunarsjóði. Aðalsmerki lífeyrissjóða á að vera mikil áhættudreifing, innan lands og utan, og örugg ávöxtun í stað hárrar ávöxtunar. Að sjálfsögðu eru lífeyrissjóðir háðir hagsveiflu. Þeir ganga betur í hagvexti en í stöðnun. Það er út af því, að þá streymir inn meiri skyldusparnaður frá launþegunum, og hlutafé gefur meiri arð. Hlutafé, innan lands og utan, ætti þó ekki ekki að nema yfir 25 % af eignum, 10 % innanlands og 15 % erlendis. Það eru þó um 525 mia. kr alls m.v. núverandi stöðu.
Nú eru að koma skilyrði til öflugs hagvaxtarskeiðs eftir tímabil samdráttar og stöðnunar. Þetta má ráða af því, að á árinu 2011 varð dálítill hagvöxtur þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem allar voru hagvaxtarhamlandi, enda eru vinstri grænir, flokkur allsherjarráðherra, á móti hagvexti per se.
Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, telur, að aukning útflutningsverðmæta sjávarútvegs og iðnaðar hafi valdið um 2 % aukningu landsframleiðslu árið 2011, og ferðamenn og þjónusta við heimilin hafi skilað um 1 % aukningu. Þetta gefur til kynna, að íslenzka hagkerfið geti hæglega náð lífvænlegum hagvexti, 4 % - 6 % á ári á næstu árum, með eðlilegri uppbyggingu atvinnulífsins með erlendum fjárfestingum. Lífeyrissjóðir geta tekið þátt í uppbyggingu landsins með öruggum hætti, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi, með kaupum á hlutabréfum og skuldabréfum. Þróun fjárhags Landsvirkjunar gefur til kynna, að hún er álitlegur fjárfestingarkostur lífeyrissjóða.
Takist að ná sjálfbærum hagvexti, mun hagur strympu skána til lengdar, atvinnuleysi minnka, sparnaður, þar með lífeyrissparnaður, aukast, og svigrúm myndast til að grynnka á skuldum hins opinbera, sem er lífsnauðsyn. Það verður þess vegna að róa öllum árum að öflugum og varanlegum hagvexti.
Téður Ragnar hefur þetta að segja um hagstjórnina: "Í fyrsta lagi þarf að endurskoða skattkerfið. Háir skattar draga úr vinnuframlagi einstaklinga og framtaki fyrirtækja. Í öðru lagi þarf að afnema gjaldeyrishöftin hið fyrsta, þar sem þau standa litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir þrifum. Og síðast en ekki sízt þarf að búa svo um hnútana, að lög og reglur ásamt umgjörð efnahagsstefnunnar verði stöðugri en verið hefur síðustu árin. Það er ljóst, að enginn mun vilja fjárfesta í okkar helztu atvinnuvegum - sjávarútvegi og orkuiðnaði - samfara þeirri pólitísku áhættu, sem nú ríkir í þessum atvinnugreinum."
Prófessor Ragnar mundi ekki halda þessu fram án veigamikilla og traustra hagfræðilegra raka að baki staðhæfingum sínum. Hinn tilvitnaði texti er efnislega samhljóma stefnu Sjálfstæðisflokksins til viðreisnar þjóðarhag. Þetta er einfaldlega rödd heilbrigðrar skynsemi, sem Sjálfstæðisflokkurinn mun framkvæma svo skjótlega sem verða má. Sé rýnt í textann, kemur í ljós, að í hverri málsgrein felst stefnumörkun, sem er algerlega á öndverðum meiði við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Frá lokum kalda stríðsins hafa aldrei verið jafnskýrir valkostir fyrir hendi í íslenzkum stjórnmálum. Annars vegar er daður við ESB og langdregin og dýrkeypt aðlögun að þessum risa á brauðfótum, sem virðist dæmdur til hnignunar, ásamt klúðurslegri stjórnsýslu, sem einkennist af undirmálum og leyndarhyggju. Lausatök verða á hagstjórninni undir vinstri stjórn, bæði ríkisfjármálum og peningamálum, skattpíng í algleymingi, atvinnuleysi, verðbólga, landflótti og stöðnun, jafnvel hnignun.
Fái kjósendur sig fullsadda á þessum afurðum villta vinstrisins, verður stefna borgaralegra afla leidd til öndvegis, þar sem hætt verður skammarlegu daðri við ESB, lagaleg og stjórnlagaleg undirstaða lögð undir trausta hagstjórn, sem skapar ekki minni stöðugleika en Maastrichtskilyrðin, og feitletruðu atriðin hér að ofan framkvæmd.
Afleiðing af nýjum stjórnarháttum verður sanngjarnara samfélag, betra líf í landinu vegna bætts hags heimilanna, færra fólk í þrengingum og örbirgð, fleiri og fjölbreytilegri atvinnutækifæri fyrir karla og konur, unga og aldna, og fleiri fjárfestingartækifæri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Á einu kjörtímabili verður unnt að gjörbreyta stöðunni, svo að brottfluttir af öllum stigum samfélagsins geti séð sér hag í að snúa heim. Hvað dvelur orminn langa ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2012 | 21:52
Rekur þar allt á reiðanum
Hvað aðhefst hin volaða vinstri stjórn til að bæta hag landsmanna ? Því er til að svara, að allt, sem til framfara gæti horft í þessu þjóðfélagi, er kæft af ráðstjórninni. "Norræna velferðarstjórnin" "tók við Íslandi", eins og Svandís Svavarsdóttir komst nýlega að orði, á innsoginu, þann 1. febrúar 2009, með hástemmdum yfirlýsingum, þar sem lofað var öllu fögru, m.a. að útrýma fjöldaatvinnuleysi á árinu 2011. Engin ríkisstjórn í manna minnum hefur troðið loforð sín í svaðið svipað og þessi og verður vonandi bið á öðrum eins ósannindaferli.
Skemmst er frá því að segja, að ekki stendur steinn yfir steini af upphaflegum vinstri vaðli, enda hefur Svandís "staðið trú vaktina" í Umhverfisráðuneytinu, "látið náttúruna njóta vafans" og lýðinn lepja dauðann úr skel samkvæmt uppskrift bóndans í Kreml.
Þessi stjórnarstefna er reist á gamalli forstokkun á fræðilegum grundvelli bókasafnssnata, sem aldrei heimsótti nokkurt fyrirtæki og hafði þess vegna engin raunveruleikatengsl, en lifði í gerviheimi. Þetta var höfundur sameignarstefnunnar, Karl Marx, og á grundvelli fáránlegra hugmynda hans var síðan fyrirmyndin "homo sovieticus" smíðuð, sem vinstri stjórnin á Íslandi rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að framkalla hér á lokadægrum sinnar óheillaveru í Stjórnarráðinu. Einstaklingarnir eru í augum ríkisstjórnar Jóhönnu ekkert annað en tekjustofn samneyzlunnar.
Svandís segist ekki vera á móti nýtingu orkulindanna með sjálfbærum hætti, nema orkan sé seld til fyrirtækja í eigu útlendinga á of lágu verði. Engir aðrir geta þó enn um sinn keypt orkuna í miklum mæli og greitt fyrir hana með gjaldeyri. Hún er þess vegna algerlega á móti orkunýtingu í stórum stíl. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Forræðishyggjan í Stjórnarráðinu stöðvar með þessari fordild sinnar þessar og aðrar framfarir í landinu án nokkurra haldbærra raka. Stjórnsýsla af þessu tagi er ekki bjóðandi í landi Skúla, fógeta, Fjölnismanna, Jóns Sigurðssonar, forseta, Hannesar Hafstein og Einars Benediktssonar, sem allir vildu efla hag þjóðarinnar með þróun atvinnuveganna. Núverandi ríkisstjórn er líklega sú fyrsta í sögunni, sem leggst þversum gegn framförum atvinnuveganna og er beinlínis atvinnufjandsamleg.
Þessi afturhaldsstefna vinstri manna er rökleysa (tátólógía). Til að geta slegið fram Svandísarfullyrðingum með rökum þarf vitneskju um:
- Markaðsverð þessarar orku í landinu núna, þ.e. heildsöluverð til nýrrar starfsemi með öllum þeim ströngu skilmálum, sem stóriðjan undirgengst. Vinstri menn hafa ekki hugmynd um það.
- Núverandi meðalorkuverð til stóriðjunnar. Vinstri menn virðast ekki vita það gjörla, þó að það sé reiknanlegt út frá opinberum gögnum, og eru í skrifum sínum yfirleitt að möndla með of lágt verð í áróðursskyni.
- Kostnaðarverð raforku til núverandi stóriðju og jaðarkostnaðarverð. Vinstri menn gera sér enga grein fyrir því og vanmeta algerlega heildsöluþáttinn, kaupskylduþáttinn, háan aflstuðul, jafnt álag og langan gildistíma samnings, sem lækkar tilkostnað vegna lægri vaxta á lánum til virkjana og stofnlína. Aðveitustöð til orkudreifingar er eign orkukaupanda í þessu tilviku. Þeir líta framhjá þessu öllu, bera saman heildsöluverð og smásöluverð, og hneykslast síðan öll ósköp, en átta sig ekki á því, að þeir eru sjálfir hneykslunarhellurnar og verða sér til minnkunar.
Stöðnun hagkerfisins í tíð vinstri stjórnarinnar á rætur að rekja til fótalausra fordóma og fáfræði hennar. Þar að auki hefur henni mistekizt allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Þarna innanborðs eru verstu mistakasmiðir Íslandssögunnar. Þeir þóttust allt vita og allt geta. Þarna fóru "besserwisserar andskotans".
Þessi vinstri stjórn getur ekki leitt nokkurt einast mál til lykta, sem til framfara horfir. Og nú heimtar forsætisráðherra að fá að "klára málin", þó að hún sé búin að koma sér svo út úr húsi hjá þingheimi, að alls óvíst er um þingmeirihluta hennar. Við lá, að undirlægjuháttur forkólfa ríkisstjórnarinnar, amlóðaháttur og einfeldni, yrði þjóðinni fjötur um fót í samningum við Breta og Hollendinga um greiðsluuppgjör bankainnistæðna í föllnum íslenzkum bönkum erlendis.
Hvorki gengur né rekur í viðræðum ríkisstjórnarinnar við samningamenn ESB um landbúnaðar-og sjávarútvegsmál í aðildarviðræðum við ESB. Leyndarhjúpur er yfir viðræðunum, en í gegn skín, að búrókratar í Brüssel reyna nú að berja íslenzka ráðherra og aðlögunarmenn (samningamenn væri ofmælt) til hlýðni. Þetta sýna makrílviðræðurnar, sem sigldu í strand, af því að ESB ætlaði að ræna okkur einum 20 milljörðum kr, og hótuðu Steingrímslufsunni á fundum hans í Brüssel nýverið að hægja mjög á viðræðunum. Utan fór karlgreyið með yfirlýsingar á vörunum um að taka nú upp alvöru viðræður. Aðspurður á Alþingi um gang samtala sinna í Brüssel stökk fýlupokinn önugur upp á nef sér, eins og allsherjarráðherra er tamt. Svo leyfa Trójuhestarnir sér að halda því fram, að aðild Íslands að ESB mundi engin áhrif hafa á auðlindanýtingu landsmanna. Blindni, einfeldni og undirlægjuháttur eru þeirra einkenni.
Nú hefur þessi versti fallisti í sögu lýðveldisins í samningaviðræðum við erlend ríki verið leiddur til öndvegis í ráðuneyti þessara málaflokka og efnahagsráðuneytis. Er eðlilegt, að kvíða setji að mönnum, þegar sá svikahrappur er tekinn að véla um þessi viðkvæmu mál. Ekki þurfti lengi að bíða slæmra frétta af efnahagsmálum landsins eftir að hann tók að véla um þau. Verðbólgan hefur ekki verið hærri um langa hríð, og eiga gjörningar jarðfræðingsins í fjármálaráðuneytinu mikinn þátt í því. Skattahækkanir hans undanfarið á eldsneyti og annað fara auðvitað beint út í verðlagið. Hann er meðvitað að draga úr umferðinni, en það er einmitt eitt af stefnumálum vinstri grænna.
Það eru ríkisstjórnin með skattahækkunum og seðlabankinn með sterkri tengingu krónunnar við sökkvandi evru, sem nú knýja áfram verðbólguna. Ríkisvaldið er með skammsýnni stefnu sinni að stela umsömdum launahækkunum launþega. Mál er að koma hér á festu og stöðugleika. Það mun ekki gerast fyrr en núverandi stjórnvöld verða dysjuð að afloknum þingkosningum, hvenær sem þær verða nú.
Stjórnmál snúast öðru fremur um sköpun auðæva og dreifingu þeirra. Mikill meirihluti kjósenda verður að gera sér glögga grein fyrir því, hverjir eru líklegastir til að gæta hagsmuna þeirra. Annars verða engar raunverulegar breytingar; hér getur soðið alvarlega upp úr og landsmenn lent í víli og volæði.
Téður SJS brást atvinnulífinu algerlega, vinnuveitendum og launþegum, með því að vinna gegn hagvexti í stað þess að örva hann með þeim afleiðingum, að engin innistæða er fyrir umsömdum launahækkunum, sem þá kynda verðbólgubálið í kappi við seðlabankann.
Nefna má endurskoðun Stjórnarskráarinnar, sem ríkisstjórnin hefur klúðrað með ærnum tilkostnaði. Virtir lögfræðingar eru teknir að tjá sig um regingalla á tillögum Stjórnlagaráðs og næsta víst er, að þær yrðu felldar í þjóðaratkvæði, enda virðast vinnubrögð téðs ráðs hafa einkennzt af því að friða meðlimi með því, að hver kom fram helzta áhugamáli sínu, svo að úr varð bastarður, en ekki stjórnlagalega heildstætt plagg. Vönduð stjórnlög verða ekki samin á handahlaupum Péturs og Páls í hrossakaupum hver við annan, heldur að undirlagi fólks með sérþekkingu á sviði stjórnlaga og þar með víðtæka þekkingu á stjórnlögum annarra þjóða. Það er óþarfi að finna upp hjólið hér, þó að aðlaga þurfi það þúfnakollunum.
Aldrei hefur nokkurt stjórnarfrumvarp hlotið jafnháðuglega útreið og frumvarpið um þjóðnýtingu aflaheimilda og ofurskattlagningu sjávarútvegs. Ríkisstjórnin horfir algerlega framhjá þeirri meginstaðreynd, að sjávarútvegurinn er umfram allt annað matvælaframleiðandi í harðri samkeppni við niðurgreiddan erlendan sjávarútveg. Segja má, að sjávarútvegurinn veiði eftir pöntun viðskiptavina og verði að afhenda rétt gæði í réttu magni á réttum tíma á tilgreindum stað. Sjá þá allir í hendi sér, sem ekki hafa bitið í sig, að sjávarútvegur skuli verða vagga réttlætis, sem útdeilt sé af búrókrötum og stjórnmálamönnum, hversu viðkvæm staða sjávarútvegsins er.
Forstokkaðir kjaftaskar á þingi hafa ekki hundsvit á þessari starfsemi, og ekki vit á miklu einfaldari og viðurhlutaminni starfsemi en nútímalegur sjávarútvegur er. Samt virðast þeir líta sitt hlutverk þeim augum, að þeir, stjórnmálamennirnir, eigi að hlutast til um, hver eigi að fá að draga bein úr sjó, taka frá einum aflaheimildir og færa öðrum eftir geðþótta, og hver á ekki að fá að stunda sjóinn. Þetta er hin fullkomna veruleikafirring forsjárhyggjunnar, sem alls staðar hefur gefizt hraksmánarlega illa. Þessir stjórnmálamenn haga sér eins og fílar í postulínsbúð. Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir, að þeir vinni skemmdarverk í óráði sínu á sjávarútveginum, sem langan tíma tæki að lagfæra vegna markaðsstöðunnar. Við vitum, að þetta fólk er til alls víst og sést ekki fyrir. Það verða þá að mætast stálin stinn.
Þessi ríkisstjórn er verri en engin. Skárra væri fyrir Íslendinga að lenda í klónum á ESB með þeim hætti, sem Þjóðverjar leggja nú til, að gert verði við Grikki, þ.e. að Brüssel yfirtaki stjórnun ríkisfjármála, en að búa við innlenda óstjórn af því tagi, sem hér hefur hangið við völd, lömuð af sundurlyndi, fordómum, fáfræði og heimsku, í 3 ár nú. Hún hangsar og hangir við völd, en áhangendum fækkar þó sorglega hægt. Stjórnin setur met í lélegri stjórnsýslu. Er það til að gera yfirráð ESB fýsilegri ?
Steingrímur J. Sigfússon er tekinn til við að sleikja skósóla Stefans Füle í Brüssel. Hefur hann líklega þakkað honum fyrir að ráðstafa MEUR 1,4 eða MISK 220 til kynningarstarfa fyrir ESB á Íslandi. Hér er um algerlega ólíðandi innrás að hálfu ESB í íslenzk þjóðmál að ræða. Alþingi verður að manna sig upp og stöðva þennan ósóma og þessa yfirtroðslu og inngrip erlends valds í stjórnmálaátökin hér innanlands. Þetta er í engu frábrugðið því, að Rússar eða Bandaríkjamenn mundu koma hér upp áróðursstofum, t.d. til að koma ár sinni fyrir borð hjá Íslendingum í baráttunni um áhrif í norðurhöfum, en margt bendir til, að ESB ætli að nota aðild Íslands sem stökkpall inn í Norðurskautsráðið.
Gangi Ísland í ESB, glatar landið stöðu sinni sem strandríki í alþjóðasamfélaginu, en ESB tekur við samningsumboði okkar. Hverjar halda menn, að verða mundu afleiðingarnar af því ? Er ástæða til að halda, að við það mundi meira falla í okkar hlut, íbúa Íslands, af auðlindum hafsins og hafsbotnsins ? Nei, auðvitað ekki. Aðild yrði glórulaus fyrir Ísland. Þjóðartekjur mundu minnka og útgjöld aukast vegna framlaga til ESB, m.a. til björgunarsjóðs eða stöðugleikasjóðs evrunnar. Þessi útgjöld ásamt skattgjaldi, sem reiknað er sem hlutfalli af VLF, gætu numið 30-50 miö. kr á ári. Á móti kemur lægra verð á innfluttum matvælum, segja skósólasleikjur. Það er hundalógík. Hvenær sem er getum við leyft innflutning á landbúnaðarvörum frá ónáttúrulegum risabúum Evrópu, sem aldrei komast í samjöfnuð við íslenzkar vörur, hvað heilnæmi varðar. Hvers vegna að búa í hreinu landi, ef ekki á að nýta afurðir þess ? Til að lækka almennt vöruverð hér þarf að lækka alls kyns gjöld og skattlagningu af innflutningi, t.d. eldsneyti, og ýta undir samkeppni á öllum sviðum, eins og unnt er á örmarkaði. Yfirvöldin hafa staðið sig illa þar.
Varðandi matvælin er að ýmsu að hyggja. Vöxtur evrópsks grænmetis og dýra til manneldis er píndur fram á methraða með óeðlilegum aðferðum, sem spilla hollustunni. Jarðvegurinn er mengaður vegna þéttbýlis og lítillar fyrirhyggju áður fyrr, vatnið er af skornum skammti, endurunnið og hreinsað með vafasömum hætti. Sagt er, að Rínlendingar drekki sama vatnið úr Rín 10 sinnum á ævinni. Þá má ekki gleyma loftgæðunum, sem á Íslandi eru í háum sérflokki vegna mikils landrýmis, dreifðrar byggðar, fámennis og hitaveitu, sem er ómetanleg til hagkvæmrar og nánast mengunarlausrar húshitunar. Þetta gefur Íslendingum gríðarlegt samkeppniforskot á matvælamörkuðum til lengri tíma litið. Slugs og fúsk innflytjenda, opinberra eftirlitsaðila og að nokkru leyti samtaka matvælaframleiðenda er þess vegna ófyrirgefanlegt frá sjónarmiði neytenda og ber að sæta málsókn að þeirra hálfu.
Ríkisstjórninni er um megn að leiða nokkurt mál til lykta. Samt hrópar oddviti Samfylkingar yfir hausamótum hundfúlla flokksmanna sinna, að hún verði að fá að "halda áfram til að klára málin". Ef ekki væri vitað, að forsætisráðherra er gjörsneyddur skopskyni, mætti halda, að hér væri um sjálfsádeilu að ræða. Á að leyfa þessum skyni skroppna og glórulausa forsætisráðherra að sitja áfram ?
Hinn hræðilegi atgervisflótti mun þá halda áfram. Nú er svo komið, að erfitt er að finna hæft starfsfólk í ákveðnar greinar, af því að það er horfið af landi brott. Atvinnuleysið er samt geigvænlegt, en sérhæft og hámenntað fólk, sem við megum sízt við að missa, er horfið í miklum mæli. Ungt fólk með háar tekjur, sem þarf að bera mikið úr býtum til að koma undir sig fótunum og borga námslán, finnur ekki afkomugrundvöll hér vegna stöðnunar athafnalífs og hárra skatta, sem fara stighækkandi með tekjuaukningu. Þetta fólk þjóðnýta vinstri menn í raun með ofurskattlagningu, og það losar sig úr fjötrum villta vinstrisins og flýr land. Þessi atburðarás er þyngri en tárum taki.
Með einföldun skattalaganna og lækkun jaðarskattlagningar verður að laða þetta fólk heim til lands tækifæranna til að skapa ný verðmæti öllum til hagsbóta, einnig hinu opinbera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)