Rekur þar allt á reiðanum

Hvað aðhefst hin volaða vinstri stjórn til að bæta hag landsmanna ?  Því er til að svara, að allt, sem til framfara gæti horft í þessu þjóðfélagi, er kæft af ráðstjórninni.  "Norræna velferðarstjórnin" "tók við Íslandi", eins og Svandís Svavarsdóttir komst nýlega að orði, á innsoginu, þann 1. febrúar 2009, með hástemmdum yfirlýsingum, þar sem lofað var öllu fögru, m.a. að útrýma fjöldaatvinnuleysi á árinu 2011. Engin ríkisstjórn í manna minnum hefur troðið loforð sín í svaðið svipað og þessi og verður vonandi bið á öðrum eins ósannindaferli.  

Skemmst er frá því að segja, að ekki stendur steinn yfir steini af upphaflegum vinstri vaðli, enda hefur Svandís "staðið trú vaktina" í Umhverfisráðuneytinu, "látið náttúruna njóta vafans" og lýðinn lepja dauðann úr skel samkvæmt uppskrift bóndans í Kreml.

Þessi stjórnarstefna er reist á gamalli forstokkun á fræðilegum grundvelli bókasafnssnata, sem aldrei heimsótti nokkurt fyrirtæki og hafði þess vegna engin raunveruleikatengsl, en lifði í gerviheimi.  Þetta var höfundur sameignarstefnunnar, Karl Marx, og á grundvelli fáránlegra hugmynda hans var síðan fyrirmyndin "homo sovieticus" smíðuð, sem vinstri stjórnin á Íslandi rembist nú eins og rjúpan við staurinn við að framkalla hér á lokadægrum sinnar óheillaveru í Stjórnarráðinu. Einstaklingarnir eru í augum ríkisstjórnar Jóhönnu ekkert annað en tekjustofn samneyzlunnar.  

Svandís segist ekki vera á móti nýtingu orkulindanna með sjálfbærum hætti, nema orkan sé seld til fyrirtækja í eigu útlendinga á of lágu verði.  Engir aðrir geta þó enn um sinn keypt orkuna í miklum mæli og greitt fyrir hana með gjaldeyri.  Hún er þess vegna algerlega á móti orkunýtingu í stórum stíl. Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Forræðishyggjan í Stjórnarráðinu stöðvar með þessari fordild sinnar þessar og aðrar framfarir í landinu án nokkurra haldbærra raka.  Stjórnsýsla af þessu tagi er ekki bjóðandi í landi Skúla, fógeta, Fjölnismanna, Jóns Sigurðssonar, forseta, Hannesar Hafstein og Einars Benediktssonar, sem allir vildu efla hag þjóðarinnar með þróun atvinnuveganna.  Núverandi ríkisstjórn er líklega sú fyrsta í sögunni, sem leggst þversum gegn framförum atvinnuveganna og er beinlínis atvinnufjandsamleg.     

Þessi afturhaldsstefna vinstri manna er rökleysa (tátólógía).  Til að geta slegið fram Svandísarfullyrðingum með rökum þarf  vitneskju um:

  1. Markaðsverð þessarar orku í landinu núna, þ.e. heildsöluverð til nýrrar starfsemi með öllum þeim ströngu skilmálum, sem stóriðjan undirgengst.  Vinstri menn hafa ekki hugmynd um það.
  2. Núverandi meðalorkuverð til stóriðjunnar.  Vinstri menn virðast ekki vita það gjörla, þó að það sé reiknanlegt út frá opinberum gögnum, og eru í skrifum sínum yfirleitt að möndla með of lágt verð í áróðursskyni.
  3. Kostnaðarverð raforku til núverandi stóriðju og jaðarkostnaðarverð.  Vinstri menn gera sér enga grein fyrir því og vanmeta algerlega heildsöluþáttinn, kaupskylduþáttinn, háan aflstuðul, jafnt álag og langan gildistíma samnings, sem lækkar tilkostnað vegna lægri vaxta á lánum til virkjana og stofnlína.  Aðveitustöð til orkudreifingar er eign orkukaupanda í þessu tilviku.  Þeir líta framhjá þessu öllu, bera saman heildsöluverð og smásöluverð, og hneykslast síðan öll ósköp, en átta sig ekki á því, að þeir eru sjálfir hneykslunarhellurnar og verða sér til minnkunar.  

Stöðnun hagkerfisins í tíð vinstri stjórnarinnar á rætur að rekja til fótalausra fordóma og fáfræði hennar.  Þar að auki hefur henni mistekizt allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.  Þarna innanborðs eru verstu mistakasmiðir Íslandssögunnar.  Þeir þóttust allt vita og allt geta.  Þarna fóru "besserwisserar andskotans".

Þessi vinstri stjórn getur ekki leitt nokkurt einast mál til lykta, sem til framfara horfir.  Og nú heimtar forsætisráðherra að fá að "klára málin", þó að hún sé búin að koma sér svo út úr húsi hjá þingheimi, að alls óvíst er um þingmeirihluta hennar. Við lá, að undirlægjuháttur forkólfa ríkisstjórnarinnar, amlóðaháttur og einfeldni, yrði þjóðinni fjötur um fót í samningum við Breta og Hollendinga um greiðsluuppgjör bankainnistæðna í föllnum íslenzkum bönkum erlendis.  

Hvorki gengur né rekur í viðræðum ríkisstjórnarinnar við samningamenn ESB um landbúnaðar-og sjávarútvegsmál í aðildarviðræðum við ESB.  Leyndarhjúpur er yfir viðræðunum, en í gegn skín, að búrókratar í Brüssel reyna nú að berja íslenzka ráðherra og aðlögunarmenn (samningamenn væri ofmælt) til hlýðni.  Þetta sýna makrílviðræðurnar, sem sigldu í strand, af því að ESB ætlaði að ræna okkur einum 20 milljörðum kr, og hótuðu Steingrímslufsunni á fundum hans í Brüssel nýverið að hægja mjög á viðræðunum.  Utan fór karlgreyið með yfirlýsingar á vörunum um að taka nú upp alvöru viðræður.  Aðspurður á Alþingi um gang samtala sinna í Brüssel stökk fýlupokinn önugur upp á nef sér, eins og allsherjarráðherra er tamt.  Svo leyfa Trójuhestarnir sér að halda því fram, að aðild Íslands að ESB mundi engin áhrif hafa á auðlindanýtingu landsmanna.  Blindni, einfeldni og undirlægjuháttur eru þeirra einkenni. 

Nú hefur þessi versti fallisti í sögu lýðveldisins í samningaviðræðum við erlend ríki verið leiddur til öndvegis í ráðuneyti þessara málaflokka og efnahagsráðuneytis.  Er eðlilegt, að kvíða setji að mönnum, þegar sá svikahrappur er tekinn að véla um þessi viðkvæmu mál.  Ekki þurfti lengi að bíða slæmra frétta af efnahagsmálum landsins eftir að hann tók að véla um þau.  Verðbólgan hefur ekki verið hærri um langa hríð, og eiga gjörningar jarðfræðingsins í fjármálaráðuneytinu mikinn þátt í því. Skattahækkanir hans undanfarið á eldsneyti og annað fara auðvitað beint út í verðlagið.  Hann er meðvitað að draga úr umferðinni, en það er einmitt eitt af stefnumálum vinstri grænna.

Það eru ríkisstjórnin með skattahækkunum og seðlabankinn með sterkri tengingu krónunnar við sökkvandi evru, sem nú knýja áfram verðbólguna.  Ríkisvaldið er með skammsýnni stefnu sinni að stela umsömdum launahækkunum launþega.  Mál er að koma hér á festu og stöðugleika.  Það mun ekki gerast fyrr en núverandi stjórnvöld verða dysjuð að afloknum þingkosningum, hvenær sem þær verða nú.  

Stjórnmál snúast öðru fremur um sköpun auðæva og dreifingu þeirra.  Mikill meirihluti kjósenda verður að gera sér glögga grein fyrir því, hverjir eru líklegastir til að gæta hagsmuna þeirra. Annars verða engar raunverulegar breytingar; hér getur soðið alvarlega upp úr og landsmenn lent í víli og volæði.      

Téður SJS brást atvinnulífinu algerlega, vinnuveitendum og launþegum, með því að vinna gegn hagvexti í stað þess að örva hann með þeim afleiðingum, að engin innistæða er fyrir umsömdum launahækkunum, sem þá kynda verðbólgubálið í kappi við seðlabankann.

Nefna má endurskoðun Stjórnarskráarinnar, sem ríkisstjórnin hefur klúðrað með ærnum tilkostnaði.  Virtir lögfræðingar eru teknir að tjá sig um regingalla á tillögum Stjórnlagaráðs og næsta víst er, að þær yrðu felldar í þjóðaratkvæði, enda virðast vinnubrögð téðs ráðs hafa einkennzt af því að friða meðlimi með því, að hver kom fram helzta áhugamáli sínu, svo að úr varð bastarður, en ekki stjórnlagalega heildstætt plagg. Vönduð stjórnlög verða ekki samin á handahlaupum Péturs og Páls í hrossakaupum hver við annan, heldur að undirlagi fólks með sérþekkingu á sviði stjórnlaga og þar með víðtæka þekkingu á stjórnlögum annarra þjóða.  Það er óþarfi að finna upp hjólið hér, þó að aðlaga þurfi það þúfnakollunum.

Aldrei hefur nokkurt stjórnarfrumvarp hlotið jafnháðuglega útreið og frumvarpið um þjóðnýtingu aflaheimilda og ofurskattlagningu sjávarútvegs.  Ríkisstjórnin horfir algerlega framhjá þeirri meginstaðreynd, að sjávarútvegurinn er umfram allt annað matvælaframleiðandi í harðri samkeppni við niðurgreiddan erlendan sjávarútveg.  Segja má, að sjávarútvegurinn veiði eftir pöntun viðskiptavina og verði að afhenda rétt gæði í réttu magni á réttum tíma á tilgreindum stað.  Sjá þá allir í hendi sér, sem ekki hafa bitið í sig, að sjávarútvegur skuli verða vagga réttlætis, sem útdeilt sé af búrókrötum og stjórnmálamönnum, hversu viðkvæm staða sjávarútvegsins er.  

Forstokkaðir kjaftaskar á þingi hafa ekki hundsvit á þessari starfsemi, og ekki vit á miklu einfaldari og viðurhlutaminni starfsemi en nútímalegur sjávarútvegur er.  Samt virðast þeir líta sitt hlutverk þeim augum, að þeir, stjórnmálamennirnir, eigi að hlutast til um, hver eigi að fá að draga bein úr sjó, taka frá einum aflaheimildir og færa öðrum eftir geðþótta, og hver á ekki að fá að stunda sjóinn.  Þetta er hin fullkomna veruleikafirring forsjárhyggjunnar, sem alls staðar hefur gefizt hraksmánarlega illa.  Þessir stjórnmálamenn haga sér eins og fílar í postulínsbúð.  Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir, að þeir vinni skemmdarverk í óráði sínu á sjávarútveginum, sem langan tíma tæki að lagfæra vegna markaðsstöðunnar.  Við vitum, að þetta fólk er til alls víst og sést ekki fyrir.  Það verða þá að mætast stálin stinn.       

Þessi ríkisstjórn er verri en engin.  Skárra væri fyrir Íslendinga að lenda í klónum á ESB með þeim hætti, sem Þjóðverjar leggja nú til, að gert verði við Grikki, þ.e. að Brüssel yfirtaki stjórnun ríkisfjármála, en að búa við innlenda óstjórn af því tagi, sem hér hefur hangið við völd, lömuð af sundurlyndi, fordómum, fáfræði og heimsku, í 3 ár nú.  Hún hangsar og hangir við völd, en áhangendum fækkar þó sorglega hægt.  Stjórnin setur met í lélegri stjórnsýslu.  Er það til að gera yfirráð ESB fýsilegri ? 

Steingrímur J. Sigfússon er tekinn til við að sleikja skósóla Stefans Füle í Brüssel.  Hefur hann líklega þakkað honum fyrir að ráðstafa MEUR 1,4 eða MISK 220 til kynningarstarfa fyrir ESB á Íslandi.  Hér er um algerlega ólíðandi innrás að hálfu ESB í íslenzk þjóðmál að ræða.  Alþingi verður að manna sig upp og stöðva þennan ósóma og þessa yfirtroðslu og inngrip erlends valds í stjórnmálaátökin hér innanlands.  Þetta er í engu frábrugðið því, að Rússar eða Bandaríkjamenn mundu koma hér upp áróðursstofum, t.d. til að koma ár sinni fyrir borð hjá Íslendingum í baráttunni um áhrif í norðurhöfum, en margt bendir til, að ESB ætli að nota aðild Íslands sem stökkpall inn í Norðurskautsráðið.

Gangi Ísland í ESB, glatar landið stöðu sinni sem strandríki í alþjóðasamfélaginu, en ESB tekur við samningsumboði okkar.  Hverjar halda menn, að verða mundu afleiðingarnar af því ?  Er ástæða til að halda, að við það mundi meira falla í okkar hlut, íbúa Íslands, af auðlindum hafsins og hafsbotnsins ?  Nei, auðvitað ekki.  Aðild yrði glórulaus fyrir Ísland.  Þjóðartekjur mundu minnka og útgjöld aukast vegna framlaga til ESB, m.a. til björgunarsjóðs eða stöðugleikasjóðs evrunnar.  Þessi útgjöld ásamt skattgjaldi, sem reiknað er sem hlutfalli af VLF, gætu numið 30-50 miö. kr á ári.  Á móti kemur lægra verð á innfluttum matvælum, segja skósólasleikjur.  Það er hundalógík.  Hvenær sem er getum við leyft innflutning á landbúnaðarvörum frá ónáttúrulegum risabúum Evrópu, sem aldrei komast í samjöfnuð við íslenzkar vörur, hvað heilnæmi varðar. Hvers vegna að búa í hreinu landi, ef ekki á að nýta afurðir þess ?  Til að lækka almennt vöruverð hér þarf að lækka alls kyns gjöld og skattlagningu af innflutningi, t.d. eldsneyti, og ýta undir samkeppni á öllum sviðum, eins og unnt er á örmarkaði.  Yfirvöldin hafa staðið sig illa þar.   

Varðandi matvælin er að ýmsu að hyggja.  Vöxtur evrópsks grænmetis og dýra til manneldis er píndur fram á methraða með óeðlilegum aðferðum, sem spilla hollustunni.  Jarðvegurinn er mengaður vegna þéttbýlis og lítillar fyrirhyggju áður fyrr, vatnið er af skornum skammti, endurunnið og hreinsað með vafasömum hætti.  Sagt er, að Rínlendingar drekki sama vatnið úr Rín 10 sinnum á ævinni. Þá má ekki gleyma loftgæðunum, sem á Íslandi eru í háum sérflokki vegna mikils landrýmis, dreifðrar byggðar, fámennis og hitaveitu, sem er ómetanleg til hagkvæmrar og nánast mengunarlausrar húshitunar.  Þetta gefur Íslendingum gríðarlegt samkeppniforskot á matvælamörkuðum til lengri tíma litið.  Slugs og fúsk innflytjenda, opinberra eftirlitsaðila og að nokkru leyti samtaka matvælaframleiðenda er þess vegna ófyrirgefanlegt frá sjónarmiði neytenda og ber að sæta málsókn að þeirra hálfu.

Ríkisstjórninni er um megn að leiða nokkurt mál til lykta.  Samt hrópar oddviti Samfylkingar yfir hausamótum hundfúlla flokksmanna sinna, að hún verði að fá að "halda áfram til að klára málin".  Ef ekki væri vitað, að forsætisráðherra er gjörsneyddur skopskyni, mætti halda, að hér væri um sjálfsádeilu að ræða.  Á að leyfa þessum skyni skroppna og glórulausa forsætisráðherra að sitja áfram ?  

Hinn hræðilegi atgervisflótti mun þá halda áfram.  Nú er svo komið, að erfitt er að finna hæft starfsfólk í ákveðnar greinar, af því að það er horfið af landi brott.  Atvinnuleysið er samt geigvænlegt, en sérhæft og hámenntað fólk, sem við megum sízt við að missa, er horfið í miklum mæli.  Ungt fólk með háar tekjur, sem þarf að bera mikið úr býtum til að koma undir sig fótunum og borga námslán, finnur ekki afkomugrundvöll hér vegna stöðnunar athafnalífs og hárra skatta, sem fara stighækkandi með tekjuaukningu.  Þetta fólk þjóðnýta vinstri menn í raun með ofurskattlagningu, og það losar sig úr fjötrum villta vinstrisins og flýr land.  Þessi atburðarás er þyngri en tárum taki.  

Með einföldun skattalaganna og lækkun jaðarskattlagningar verður að laða þetta fólk heim til lands tækifæranna til að skapa ný verðmæti öllum til hagsbóta, einnig hinu opinbera.        

Angela kunngjörir sáttmála-feb 2012

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband