28.2.2014 | 21:52
Skollaleikurinn og skýrslan
Fyrsti þáttur skollaleiksins um Ísland inn í ESB fór fram á sumarþinginu 2009. Þá höfnuðu þáverandi stjórnarsinnar tillögu sjálfstæðismanna á þingi um að leyfa þjóðinni að tjá hug sinn til þess að senda aðildarumsókn til Brüssel.
Það var þó augljóslega kúvending í utanríkisstefnu Íslands að sækja um inngöngu í ríkjasamband Evrópu. Þetta var líka kúvending í stefnu annars stjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda voru sumir þingmenn flokksins augljóslega "í handjárnum" og með óbragð í munninum, þegar þeir samþykktu.
Eftirminnileg eru orð Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem sagði já við umsókn um aðild að samtökum stórauðvaldsins, sem væru á borð við hver önnur krimmasamtök. Þótti jafnvel andstæðingum umsóknar, sem á hlýddu, ráðherran taka nokkuð stórt upp í sig. Þingmenn með slíka fyrirvara með atkvæði sínu voru hins vegar bara að atast í ESB. Hugur fylgdi ekki máli, og því fór sem fór. Össur náði engum árangri og gafst upp. Ríkisstjórn Íslands varð að athlægi í Brüssel, af því að hún hélt, að hægt væri að töfra fram "sérlausnir". Þegar Össur minntist á þetta á blaðamannafundi í Brüssel, var hann umsvifalaust og skorinort, en kurteislega, leiðréttur af Füle. Þá hló marbendill. Að sækja um aðild að ESB án þess að ætla inn er einsdæmi fyrir ESB, og einvörðungu pólitískum furðudýrum getur dottið þvílík vitleysa í hug. Hvílíkur tvískinnungur !
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, var einn af stofnendum VG. Hann lætur ekki forystu flokksins teyma sig á asnaeyrunum og gerir grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar að ESB og afturköllun hennar í frábærri grein í Morgunblaðinu, 25. febrúar 2014, "Stór áfangi í sjálfstæðismálum Íslendinga". Getur höfundur þessa bloggs vottað, og er sjálfur ekki minnst hissa, að hann getur skrifað undir þessa grein fyrrverandi iðnaðarráðherra með punkti og priki. Öðru vísi mér áður brá.
Í upphafi greinarinnar skrifar Hjörleifur:
"Samþykkt ríkisstjórnar Íslands síðast liðinn föstudag þess efnis að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er líklega merkasti áfangi í sjálfstæðismálum þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun."
Hvaða afstöðu ætlar núverandi formaður VG að taka til téðrar þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar ? Ef hún hafnar henni, er hún gengin í ESB-björg Samfylkingarinnar, er á öndverðum meiði við fyrri og nýrri samþykktir flokks síns og grefur undan sjálfstæði landsins, sbr skrif Hjörleifs hér að ofan.
Ef hún skilar auðu í þessu sjálfstæðismáli, þá sannar hún, að hún er pólitískt viðrini. Að þora ekki að standa við stefnu flokks síns kann ekki góðru lukku að stýra. Það mun skaða flokkinn til lengdar og formanninn í bráð og lengd.
Ef hún á hinn bóginn styður þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, þá tekur hún sér stöðu með sjálfstæðissinnum á borð við Hjörleif Guttormsson.
Með birtingu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, hófst seinni hluti skollaleiksins um aðildarviðræður íslenzku ríkisstjórnarinnar við Stefan Füle og stækkunarteymi ESB í Brüssel. Skýrslan ber með sér fræðilegan þokka, og er þess vegna vandað verk. Af henni má hvarvetna ráða, að Össur Skarphéðinsson, Þorsteinn Pálsson og félagar hafa engum árangri náð fyrir Íslands hönd í þessum viðræðum. Þar sem full aðlögun að "Acquis" (því sem hefur verið ákveðið af ESB) hefur verið náð, er allt klappað og klárt, en á sviðum, þar sem svo er ekki, hefur hvorki gengið né rekið. Með öðrum orðum hafa heitstrengingar Össurar Skarphéðinssonar um "sérlausnir" fyrir Ísland reynzt túður eitt út í loftið. Hann hafði til þess 3,5 ár og hundruði milljóna kr að semja um sérlausnir án árangurs. Þetta er fullreynt. Áframhald er ígildi hreins fíflagangs, þar sem ríkisstjórnin mundi stórskaða hagsmuni Íslands bæði innan ESB og utan með áframhaldandi aðlögun, sem við yrðum síðan að vinda ofan af, af því að hvorki þing né þjóð mun samþykkja óbreytta löggjöf og regluverk ESB t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er fullreynt í 3,5 ára þjarki Össurar og Þorsteins í Brüssel, að ekkert er í boði annað en allir sáttmálar ESB, þ.m.t. Rómarsáttmálinn og hin sameiginlega landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB. Flutningur á forræði auðlindanna til Brüssel blasir við, enda berjast aðildarsinnar einmitt fyrir því. Skilyrðislausri inngöngu Íslands í ESB.
Samfylkingin siglir undir fölsku flaggi í þessu máli, því að hún vill í raun skilyrðislaust þarna inn. Þess vegna ætlar allt um koll að keyra núna. Samfylkingin er af þessum sökum ófær um að ræða hina ágætu skýrslu efnislega. Þess í stað upphefur hún fádæma skítkast, og er formaður Sjálfstæðisflokksins aðalskotskífan. Það er ekki hægt annað en að fá skeifu, þegar hlustað er eða horft á varaformann Samfylkingar missa gjörsamlega stjórn á skapi sínu í ræðustóli Alþingis og belgja sig út af dólgslegum fúkyrðum í garð Bjarna Benediktssonar, þegar hann færði henni dagskrá Alþingis. Hún kórónaði svo barnalega hegðun sína með því að færa honum eitthvert snifsi í ræðustól ásamt með stöllu sinni. Innganga Íslands í ESB eru trúarbrögð Katrínar Júlíusdóttur, en rök hefur hún engin.
Fólk, sem hagar sér með þessum hætti og er gjörsamlega ófært um að rökræða sitt eina pólitíska stefnumál, skilyrðislausa inngöngu í ESB, má aldrei aftur komast í valdastóla á Íslandi.
Um hvað snýst allt fjaðrafokið ? Það snýst um misskilning og rangtúlkun á orðum formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri. Flokkinum var mótuð sú stefna á Landsfundi 2013 að slíta viðræðum við ESB og ekki taka upp viðræður að nýju, hvorki eftir núverandi hlé Össurar Skarphéðinssonar, sem gafst upp á limminu, né eftir viðræðuslit.
Það var að sjálfsögðu alls ekki á Landsfundi gert ráð fyrir því að setja stefnuna um viðræðuslit í þjóðaratkvæði. Flokkurinn stendur og fellur með stefnu sinni. Tal um slíkt er hreinræktuð heimska, því að enginn alvöru stjórnmálaflokkur markar eindregna stefnu í grundvallarmáli, og býður svo upp á þjóðaratkvæði um hana eftir Alþingiskosningar. Stuðningur við flokkinn er stuðningur við stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mest fylgi allra flokka í Alþingiskosningunum, og að hverfa frá stefnu hans væru svik við kjósendur hans.
Þá er komið að hinum þætti ESB-stefnunnar, þættinum um þjóðaratkvæðið. Moldviðrið, sem stjórnarandstaðan hefur þyrlað upp um "svikin" loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðismenn mótuðu kýrskýra stefnu á síðasta Landsfundi. Hún var ekki sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort ætti að slíta viðræðunum um aðild að ESB. Nei, alvöru stjórnmálaflokkur tekur ekki afstöðu í grundvallarmáli og skilyrðir stefnuna svo við þjóðaratkvæði. Flokkurinn leggur sjálfan sig undir í þessu máli og leggur stefnu sína undir í næstu kosningum. Til þess eru stjórnmálaflokkar að sameina fólk, sem berjast vill fyrir ákveðnum málum.
Hinn hluti hinnar mótuðu afstöðu Landsfundar var hins vegar yfirlýsing um það, að hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn lenti innan eða utan ríkisstjórnar eftir þingkosningarnar 27. apríl 2013, ef svo má komast að orði, mundi flokkurinn berjast fyrir því, að þráðurinn yrði ekki tekinn upp að nýju við ESB, nema meirihluti yrði fyrir því í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með öðrum orðum, ef sú stefna hefði orðið ofan á við ríkisstjórnarmyndun eftir síðustu kosningar að halda aðlöguninni áfram, þá mundi Sjálfstæðisflokkurinn berjast fyrir því, að svo yrði ekki gert án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta er of hart aðgöngu fyrir stjórnarandstöðuna til að hún geti og/eða vilji skilja boðskapinn rétt. Þess vegna hefur hún kosið að afflytja boðskap frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, eins og henni hentar, en það er lítilmannlegt af fulltrúum hennar að velta sér upp úr meintri ónákvæmni þeirra í framsetningu stefnu flokksins. Enginn frambjóðandi hafði umboð til að útþynna stefnu flokksins. Segja má, að þeir, sem tjáðu sig með óljósum hætti, hvað þetta varðar, hafi ekki búizt við slíku afhroði beggja fyrrverandi stjórnarflokka í kosningum, að þeir lægju báðir afvelta úti í móa að þeim loknum. Hið umdeilda loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu var þannig varnagli flokksins.
Lágkúra Samfylkingar ríður ekki við einteyming þessi dægrin. Nú hefur varaformaðurinn "toppað" formanninn, hvað orðbragð og framkomu snertir. Andlegt jafnvægisleysi Katrínar Júlíusdóttur, sem fram kom í ræðustóli Alþingis um skýrslu HHÍ og ímyndað loforð stjórnmálaandstæðinga hennar í kosningabaráttu, er á svo alvarlegu stigi, að það má ekki blaka við henni án þess að hún falli kylliflöt. Þetta er ekki þingleg hegðun og svo sannarlega er ekki hægt að treysta manneskju, sem er svona veik á svellinu, fyrir ráðherraembætti. Hún hefur hins vegar komizt til metorða í Samfylkingunni, og þingið situr uppi með hana og sandkassaleik hennar þetta kjörtímabilið.
Nú er málum svo komið, að það verður vart hjá því komizt að taka snerruna um aðild eða ekki aðild. Skýrsla HHÍ, árangursleysi 3,5 ára aðildarviðræðna, orð stækkunarstjóra ESB og öll gögn stækkunardeildarinnar, sanna, að engar undanþágur aðrar en hreinn tittlingaskítur eru á boðstólum. Í þjóðaratkvæðagreiðslu verður að spyrja spurningarinnar: "Vilt þú, að Ísland fullnusti aðlögun að regluverki Evrópusambandsins og undirgangist síðan alla sáttmála og löggjöf þess með inngöngu í Evrópusambandið ?"
Það er ekki hægt að ljúka þessari grein með jafnleiðinlegu fyrirbrigði og Samfylkingunni og forystu hennar, heldur skal nú vitna í lokakafla téðrar Morgunblaðsgreinar Hjörleifs, náttúrufræðings:
"Sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar lýkur aldrei, og í því efni þarf hver kynslóð að svara kalli. Ákvörðun um að slíta nú aðildarviðræðum við ESB skapar Íslendingum kærkomið andrúm til að hugsa sinn gang í samskiptum við aðrar þjóðir. Lega landsins, ríkulegar náttúruauðlindir og nálægðin við norðurskautið kalla í senn á árvekni og sveigjanleika í samskiptum út á við. Niðurnjörvun Íslands sem jaðarríkis í gangverki stórvelda meginlandsins er það, sem sízt hentar okkar hagsmunum í bráð og lengd. Yfirvegað mat á heildarhagsmunum á að ráða för nú sem endranær, og það er Alþingis í samvinnu við önnur stjórnvöld og almenning að vísa veginn."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2014 | 16:17
Skrípaleikurinn og skýrslan
Aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins, ESB, hófst formlega með þvinguðu samþykki Alþingis 16. júlí 2009 og lauk í ársbyrjun 2013 með ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um að gera hlé á aðlögunarferlinu vegna Alþingiskosninga, sem í hönd fóru. Af hverju ákvað Össur að gera þetta hlé ? Sumpart var það vegna ágreinings í röðum þáverandi stjórnarflokka, og sumpart var það af ástæðum, sem útskýrðir eru í nýútkominni skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ.
Nú hefur ríkisstjórnin í kjölfar útgáfu skýrslu HHÍ tekið ákvörðun um að leggja fyrir Alþingi að binda enda á flausturslegasta flan lýðveldissögunnar í utanríkismálum. Það er rökrétt að binda enda á aðlögun að ríkjasambandi, sem meirihluti þjóðarinnar hefur aldrei kært sig um að ganga í. Hvers vegna ætti stjórnkerfið að fara í kostnaðarsama fulla aðlögun til þess eins að hætta við allt saman, þegar alls kyns laga- og Stjórnarskráarbreytingar væru að baki ?
Aðlögun Íslands að ESB stóð í 3,5 ár á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar. Ágætlega unnin skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir, að enginn ávinningur varð af þessu seindræga ferli. Ekki voru til svo mikið sem drög að samkomulagi um "sérlausn", þegar Össur gafst upp í byrjun kosningaárs 2013. Samt skorti ekki áhuga utanríkisráðherrans á að ná "sérlausnum" fyrir Ísland, eins og hann kallar varanlegar undanþágur af alkunnum orðhengilshætti. Af þessum sökum var talið vonlaust að hefja formlega aðlögun að landbúnaðar- og sjávarútvegsbálki ESB. Þetta blasir nú við eftir birtingu skýrslu HHÍ.
Enn heldur fyrrverandi utanríkisráðherra því fram, að hægt sé að ná "sérlausnum" fyrir Ísland. Hvernig í ósköpunum getur maður, sem barðist fyrir því í 3,5 ár að ná "sérlausnum" fyrir Ísland án árangurs, ætlazt til, að nokkur trúi því, að núverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, tækist að "semja um sérlausnir" fyrir Ísland á þessu kjörtímabili, ef honum væri falið það ? Dr Össur gafst upp og ætlast til, að Gunnar Bragi taki við keflinu. Þetta er lélegasti brandari íslenzkra stjórnmála um langa hríð.
Þá, sem halda þessu fram, er ekki hægt að taka alvarlega, því að Gunnar Bragi hefur marglýst yfir andstöðu sinni við inngöngu Íslands í ESB. Það er hreint og beint ekki hægt að ætlast til þess af núverandi þingheimi, sem að meirihluta til vill eyða orku, tíma og peningum í annað þarfara en einskis nýtt hjal við Stefan Füle um tímasetta aðlögunaráætlun Íslands að hinni sameiginlegu peningamálastefnu, fiskveiðistjórnunarstefnu og landbúnaðarstefnu ESB.
Það sem Össuri Skarphéðinssyni, dr í kynlífi laxfiska, einkum murtu í Þingvallavatni, tókst ekki, þrátt fyrir innilega löngun og jafnvel ástríðu, er ósanngjarnt og mjög óeðlilegt að ætlast til, að óbreyttum Gunnari Braga takist.
Setjum svo, að Gunnar Bragi legði út á vatnið og kæmist að landi hinum megin. Hann hefði þá gengið á vatni, og aftur hefði orðið kraftaverk, en kálið (í þessu tilviki súrkál, uppáhaldsfæða forystuþjóðarinnar) væri ekki sopið, þótt í ausuna væri komið. Lagalega tryggingu skortir alfarið, af því að samningur við aðildarríki er lögformlega víkjandi gagnvart sáttmálum ESB. Ef eitthvert aðildarríkjanna mundi ekki, er frá liði, sætta sig við "sérlausnirnar", sem vissulega mundu brjóta í bága við sáttmálana, einn eða fleiri, ef um væri að ræða raunverulegar "sérlausnir", þá mun það kæra Ísland og aðildarsamning til t.d. leiðtogaráðsins. Um deilur af þessu tagi hefur Evrópudómstóllinn einn lögsögu, og enginn efast um, að hann mun leggja sáttmálana, sem eru ígildi stjórnarskráar ESB, til grundvallar úrskurði sínum og þannig ógilda "sérlausnirnar".
Þegar þarna væri komið, værum við komin í klærnar á framkvæmdastjórninni, sem mundi fara með okkur, eins og brókina sína. Stæðum við frammi fyrir slíku fullveldisafsali, er ljóst, að Stjórnarskrá Íslands mundi ekki heimila veru landsins í klúbbi af þessu tagi, og Alþingi væri nauðugur einn kostur að samþykkja úrsögn Íslands úr Evrópusambandinu.
Af ofansögðu má ljóst vera, að eina rökrétta leið Alþingis núna er að binda enda á umsóknarferlið, sem hófst 16. júlí 2009. Þá bregður svo við, að formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs umturnast og heimtar skýringu á eftirfarandi texta úr kosningastefnuaskrá Sjálfstæðisflokksins 2013:
"Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram."
Það, sem þarna stendur hefur síðan verið teygt, togað, misskilið og rangtúlkað af fleirum en téðri Katrínu, sem árið 2009 sveik samþykktir síns eigin flokks og samþykkti að leita inngöngu í ESB og fulla aðlögun að regluverki þess, en hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um þá afdrifaríku ákvörðun.
Kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins tók hins vegar af öll tvímæli um það, að svo skyldi ekki fara á þessu kjörtímabili, heldur skyldi veita þjóðinni tækifæri til að tjá hug sinn um svo afdrifaríka ákvörðun. Þjóðin kaus Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn til valda 27. apríl 2013 út á stefnuskrár flokkanna, sem m.a. lutu að því að draga umsókn um aðild að ESB til baka. Allt er þetta eins lýðræðislegt og hægt er að hugsa sér. Það er sögulega rangt og algerlega órökrétt m.v. stefnu þessara flokka, að þeir hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta við afglöp og óráð fyrri ríkisstjórnar.
Helzta ályktunin, sem draga má af skýrslu HHÍ um aðildarumsókn Íslands að ESB, er, að tal fyrrverandi utanríkisráðherra um sérlausnir er hugarburður einn, enda náði hann ekki samkomulagi um neina "sérlausn" á 3,5 ára umsóknartíma.
Áhugamenn um inngöngu Íslands í ESB hafa tekið ákvörðun ríkisstjórnarinnar illa, en þeir hafa reynzt gjörsamlega rökþrota í málflutningi sínum. Það er fullkomlega óboðlegt að japla á innihaldslausum tuggum, sem jafngilda því, að Ísland eigi "af því bara" að halda áfram aðlögunarferlinu að ESB. Þetta fólk, sem nú getur ekki á heilu sér tekið, grípur hins vegar til svikabrigzla í garð forystu Sjálfstæðisflokksins og meirihluta þingflokks hans vegna þess, að ekki sé við þessi tímamót boðað til kosninga um, hvort stöðva eigi þetta ógæfulega ferli.
Þetta eru mikil endemi í ljósi þess, að þingflokkurinn er núna að framfylgja síðustu Landsfundarsamþykkt flokksins um þessi mál upp á punkt og prik. Það verða haldnar kosningar eftir þennan dag, og þær fyrstu væntanlega í vor. Síðan koma Alþingiskosningar, og þá gefst kjósendum kostur á að tjá hug sinn til flokkanna út af þessu máli og öðrum. Heitustu fylgjendur aðildar, sem margir hverjir eru hinir sömu og höfðu í frammi alls kyns hótanir og hrakspár í garð kjósenda, ef þeir höfnuðu hinum alræmdu Icesave-samningum, mega þakka fyrir að þurfa ekki nú að horfa upp á enn einn niðurlægjandi ósigur sinn í kosningum.
Málefnastaða þeirra í fortíð og nútíð er svo veik, og þeir liggja svo vel við höggi nú miðað við þróun mála í Evrópusambandinu, og andstæðingar ESB-aðildar eru svo öflugir og vel vopnum búnir, að fyrir þá er það létt verk að ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2014 | 21:01
Orkustefna í bráð og lengd
Við mótun orkustefnu fyrir Ísland verður ekki undan því vikizt að taka tillit til helztu dráttanna í orkumálum heimsins. Hverjir eru þeir ?
Þeir mótast um þessar mundir tvímælalaust af loftslagsmálunum. Dómsdagur vofir yfir mannkyni, ef það heldur áfram mengun láðs, lofts og lagar, í sama mæli og nú. Koltvíildi (CO2) var í fyrndinni í miklu meiri mæli en nú í andrúmsloftinu, líklega um 20 %, en jurtirnar hafa með sinni ljóstillífun, sem er undirstaða lífs á jörðunni, "étið" upp megnið af koltvíildinu, svo að það er nú aðeins brotabrot af því, sem áður var, eða um 400 ppm (hlutar úr milljón). Núverandi form lífs á jörðunni er háð ofurfínu jafnvægi, sem "sigurvegarinn", "homo sapiens", verður að gæta sín á að raska ekki um of.
Koltvíildið veldur s.k. gróðurhúsaáhrifum, þ.e. endurkastar hitageislum frá jörðu og aftur til jarðarinnar. Aukinn styrkur koltvíildis af manna völdum hitar þannig upp andrúmsloftið, og vísindamenn hafa áætlað, að 2°C meðalhlýnun gufuhvolfsins muni verða "óafturkræf" í þeim skilningi, að þá muni hlýna stöðugt hraðar, sama hvað mannkyn tekur sér fyrir hendur, og að lokum gera jörðina allsendis óbyggilega fyrir lífið í sinni núverandi mynd vegna hlýnunar og breyttrar samsetningar lofttegunda í andrúmsloftinu. Menn telja sig nú þegar geta rakið breytt eðli háloftavinda og veðurfars á jörðunni til hlýnunar. Hitt er annað mál, að aðrar kenningar eru um, að við lifum nú hlýskeið á milli ísalda, svo að hlýnun af manna völdum muni aðeins seinka ragnarökum af völdum fimbulkulda. Hér er ekkert fast í hendi, en rétt af mannkyni að gæta varfærni m.v. það, sem í húfi er.
Af þessu leiðir, að þjóðum heimsins ber að taka höndum saman um allar sjálfbærar aðgerðir, sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.á.m. um aðgerðir, sem leyst geta af hólmi jarðefnaeldsneyti, en af jarðefnaeldsneytinu stafar megnið af gróðurhúsaáhrifunum.
Þekktar birgðir jarðefnaeldsneytis eru nú meiri en óhætt er að brenna m.v. ofangreinda 2°C hitastigshækkun. Í raun ætti þess vegna að hætta frekari leit að jarðefnaeldsneyti og beina kröftunum fremur að þróun nýrra orkugjafa eða bindingu koltvíildis. Síðasta ríkisstjórn á Íslandi hafði samt ekki víðari sjóndeildarhring í orku- og umhverfismálum en svo, að hún lagði grunn að eldsneytisleit á Drekasvæðinu, en fækkaði virkjanakostum á Íslandi frá því, sem Verkefnastjórn um Rammaáætlun hafði lagt til. Þetta var algerlega glórulaus stefnumörkun og engan veginn í takti við orku- og umhverfisstefnu Evrópusambandsins, ESB, sem hún þó meig utan í við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.
Íslenzka orkukerfið er eitt örfárra orkukerfa í heiminum, þar sem nánast engin vinnsla raforku fer fram með jarðefnaeldneyti. Þessu er farið með allt öðrum hætti í Evrópusambandinu, ESB, þar sem mjög dýrt átak er í gangi til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, eins og vinds, sólar og viðarkurls með litlum árangri þó. Af umræðunni í Þýzkalandi má reyndar ætla, að "die Energiewende", eða vendipunktur í orkumálum, hafi nú þegar steytt á skeri vegna kostnaðar og árangursleysis.
Einmitt, af því að mengunin virðir engin landamæri, þótti rétt, að ESB ætti frumkvæði að aðgerðum til að hamla gegn vágestinum, sem hlýnun gufuhvolfsins er. Í því skyni kom ESB á laggirnar ETS (Emission Trade System) til að lágmarka kostnaðinn við að draga úr losun koltvíildis, þó að sýnt væri, að kostnaður við losunarheimildir mundi virka íþyngjandi á evrópska atvinnustarfsemi. Núverandi verð á losunarkvóta er að vísu aðeins um 5 EUR/tonn af CO2, sem er ekki nægur hvati til að draga úr losun. Framkvæmdastjórn ESB framdi þau mistök að úthluta fyrirtækjum of stórum kvóta í upphafi, og önnur fengu undanþágur, sem skekkir innbyrðis samkeppnistöðu atvinnugreina um vinnuafl o.fl. Þrátt fyrir miklu minni losun íslenzks atvinnulífs á framleiðslueiningu ákvað síðasta ríkisstjórn samt, að íslenzk fyrirtæki skyldu sæta ETS, viðskiptum með losunarheimildir koltvíildis. Það var þó greinilega ekki af umhyggju við umhverfið, heldur af alræmdri þjónkun sinni við ESB.
Misheppnuð orku- og mengunarvarnastefna ESB hefur stórlega komið niður á samkeppnihæfni fyrirtækja innan ESB og lífskjörum almennings í ESB-löndunum án þess að dregið hafi úr losun gróðurhúsalofttegunda að sama skapi. Nægir í því sambandi að nefna, að fyrirtæki í ESB greiða nú þrefalt til fjórfalt verð fyrir eldsneytisgas og meira en tvöfalt verð fyrir raforkuna á við fyrirtæki í Bandaríkjunum, BNA, vegna vaxandi framboðs á leirsteinsgasi (shale gas) í BNA, en bann við slíkri vinnslu er víða í ESB, þó ekki á Bretlandi, sem er að hefja mikla gasvinnslu. Eina ástæða þess, að ESB hefur náð losunarmarkmiðum sínum er efnahagskreppan þar og flótti iðnfyrirtækja frá ESB m.a. vegna orkuverðsins. Þó voru hvorki efnahagskreppa né fyrirtækjaflótti þáttur í loftslagsstefnu ESB. Hún sætir þess vegna æ meiri gagnrýni aðildarlandanna.
Þessi frásögn sýnir í hnotskurn muninn á aðstöðu Íslendinga og umheimsins varðandi orkumálin. Umheimurinn berst við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en Íslendingar eru nú þar, sem margar aðrar þjóðir dreymir um að verða á síðari hluta 21. aldar. Af stefnu ESB í orkumálum má ráða, að hjá leiðtogaráði og framkvæmdastjórn ríki örvænting um framtíðina.
Núverandi stefna nefnist 20-20-20-20 og vísar til þess, að árið 2020 skuli aðildarlöndin hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % m.v. árið 1990 og að 20 % raforkunnar verði þá framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og að orkunýtnin hafi þá batnað um 20 % á 30 árum. Þetta getur reynzt mörgum löndum ESB efnahagslega um megn.
Samt hefur framkvæmdastjórnin nú reitt svipuna enn hærra til höggs og hækkað markmiðin í 40 % minnkun losunar árið 2030, og hún vill skuldbinda aðildarríkin til að framleiða þá 27 % raforkunnar úr endurnýjanlegum lindum. Hér má kenna fingrafar þýzka sambandslýðveldisins, sem reynir að troða sínum "Orkuviðsnúningi" - "Energiewende" upp á hin ríkin, þó að árangur þessa viðsnúnings sé enginn, mælt í koltvíildislosun, en hefur verið hrikalega dýrkeyptur fyrir atvinnulíf, heimili og skattgreiðendur, því að orkuverð er svimandi hátt þrátt fyrir gríðarlegar niðurgreiðslur á raforku úr endurnýjanlegum lindum, s.s. vindi, sól og trjákurli. Það verður á brattann að sækja fyrir Berlín að fá hin ríkin til að taka upp kjarnorkustefnu Þýzkalands, sem snýst um að loka öllum kjarnorkuverum landsins innan 10 ára.
Vel þekkt er kjarnorkustefna Frakka, en a.m.k. helmingur raforku Frakklands kemur frá kjarnorkuverum, og er ekkert lát á, hvað sem "Energiewende" austan Rínar líður. Pólverjar hafa nú ákveðið að draga úr hlutdeild kola í raforkuvinnslu sinni, sem er um 80 %, með því að reisa tvö ný kjarnorkuver, þau fyrstu í sögu landsins, norður við Eystrasaltsströndina, skammt frá Kalíningrad, rússneskri hjálendu, þar sem eru kjarnorkuver og verða áfram. Til þessa ætla Pólverjar að verja allt að EUR 20 milljörðum. Verður þá Þýzkaland bókstaflega umlukið kjarnorkuverum á landi.
Þjóðverjar ætla að taka "stóra stökkið" þangað, sem Íslendingar eru í vinnslu raforku m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda og taka þar með forystu í heiminum á þessu sviði. Mun Þjóðverjum takast þetta ? Það eru mörg ljón í veginum, eins og fyrri daginn. Ekki kæmi á óvart, að þeim tækist þetta með því að hætta við lokun allra kjarnorkuvera og leyfa kjarnorkuver af nýrri kynslóð.
Mörgum Þjóðverjum er um og ó út af ofurmetnaði leiðtoga þeirra í umhverfislegum efnum, en aðrir halda því fram, að ekki sé nógu langt gengið. Telja þeir, að til að ná markmiðinu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % - 95 % m.v. 1990 árið 2050, sem talið er nauðsynlegt til að hindra hlýnun gufuhvolfsins yfir 2°C, þá verði árið 2030 að hafa náðst 55 % minnkun losunar og 45 % raforkunnar þurfi þá að koma úr endurnýjanlegum orkulindum. Þetta sjónarmið er sennilega rétt, en algerlega óraunhæft m.v. núverandi tækni. Líklega er samrunaorkan eina orkulindin, sem bjargað getur jörðunni frá of mikilli hlýnun og samtímis staðið undir vaxandi orkunotkun á mann.
Af þessu er ljóst, hversu mikið er talið vera í húfi. Nú er það einnig ljóst, að Íslendingar geta lagt sín litlu lóð á vogarskálarnar og sýnt umheiminum samstöðu í þessu örlagaríka máli. Spyrja má, hvernig við, sem framleiðum nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti, getum bætt um betur. Það getum við með því að framleiða enn meiri raforku hérlendis en gert er núna og létta þannig örlítið á raforkukerfum, sem menga miklu meira en okkar. Þetta getum við gert með sjálfbærum og afturkræfum hætti með því að beita beztu tækni við virkjanir og línulagnir, svo að það ætti ekki að vera áhorfsmál, ef útlendingar vilja kaupa af okkur orkuna á verði, sem stendur undir arðsemi fjárfestinga, sem er viðunandi m.v. áhættuna.
Nú vill svo til, að einn er sá málmur, sem svo hagar til um, að notkun hans vex hratt í heiminum, hann er talinn vera umhverfisvænn vegna hlutfalls styrks og eðlisþunga, hann er auðveldlega endurnýtanlegur, og tiltölulega mikla raforku þarf til að vinna hann í upphafi. Þetta er greinilega málmur framtíðarinnar, og þessi málmur er þess vegna kjörinn til framleiðslu á Íslandi til útflutnings. Þannig má draga örlítið úr framleiðsluþörf hans í löndum, sem ekki hafa umhverfislega jafnhagstæð skilyrði til þess og Íslendingar. Að móta slíka stefnu er vissulega umhverfisvernd í verki.
Glöggur lesandi hefur nú getið sér þess til með réttu, að hér muni vera átt við álið. Af þessum málmi eru nú þegar framleidd hérlendis um 900 kt/a (þúsund tonn á ári), og vinnslugeta orkulinda Íslands leyfir hæglega 2/3 aukningu, svo að framleiðslan verði 1,5 Mt/a (M=milljón). Viðbótin útheimtir viðbótar virkjanir upp á 9,0 TWh/a, sem er um 50 % aukning við núverandi vinnslugetu. Það er vel hægt að finna slíkum virkjunum stað án óbærilegra náttúrufórna. Þar sem slíkt er þó alltaf háð einstaklingsbundnu mati, má kjósa um valkostina í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef Alþingi sýnist svo, eða margir skrifa undir áskorun þess efnis. Þetta yrði okkar myndarlegasta framlag til aðstoðar við orkubyltinguna, sem nauðsynleg er að margra mati til að bjarga heiminum frá hreinu helvíti síhækkandi hitastigs. Er hægt að skjóta sér undan því að hlaupa undir slíkan bagga ?
Nú væri ekki furða, þó að einhver hugsaði með sér, hvort ekki væri vitlegra að beina íslenzku rafmagni, sem framleitt yrði með sjálfbærum hætti, beint inn á orkukerfi Evrópumanna, t.d. Breta, í stað þess að leggja í áhættusamar iðnaðarfjárfestingar á Íslandi með viðeigandi umhverfisraski og álagi á íslenzka náttúru á formi mengandi efna frá verksmiðjunum. Þessari spurningu er bezt að svara í nokkrum liðum:
- Það hefur enn ekki verið þróaður sæstrengur með nægilegt einangrunarþol fyrir þá háu jafnspennu, sem nauðsynleg er til að afltöpin verði viðunandi lág né með nægilegt togþol fyrir dýpið á lagnarleiðinni á milli Íslands og Skotlands. Líklegt er, að sæstrengjaframleiðendur teygi sig hægt og rólega í þá átt, sem gerir tæknilega kleift að framleiða, leggja og reka slíkan streng, en það verður tæpast fyrr en um 2025. Það verður alltaf dýrt og áhættusamt að reka slíkan streng, og hann gæti hæglega verið mánuðum saman úr rekstri vegna bilunar. Hver vill hætta fé sínu í mjög áhættusamt fyrirtæki, þar sem stofnkostnaðurinn er svo gríðarlegur, að flutningskostnaðurinn verður um 140 USD/MWh. Ef fást eiga yfir 30 USD/MWh fyrir orkuna Skotlandsmegin, þarf kaupandinn að snara út heildsöluverði 170 USD/MWh - 200 USD/MWh, og það er einfaldlega hærra en greitt er nú um stundir fyrir endurnýjanlega orku á Bretlandi í heildsölu. Allt bendir til, að aukið framboð á jarðgasi muni fella orkuverð í Evrópu, og einna fyrst á Bretlandi, eins og þegar hefur gerzt í Bandaríkjunum (BNA). Af þessum sökum dettur engum heilvita manni í hug að fjárfesta um ISK 500 milljarða í von og óvon um, að brezk yfirvöld muni skuldbinda ríkissjóð um áratuga skeið til að greiða niður græna raforku frá Íslandi til að bæta örlítið tölfræðina sína um hlutfall raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Í stuttu máli er enginn rekstrargrundvöllur fyrir aflsæstreng frá Íslandi til Skotlands í fyrirsjáanlegri framtíð.
Með nútíma tækni er unnt að draga mjög úr umhverfisraski bæði við virkjanir og iðjuver og draga svo úr mengun iðjuvera, að sáralítilla og hættulausra (afturkræfra) ummerkja sjái stað í viðkvæmri náttúru Íslands, enda er annað fullkomlega óboðlegt. Góð vísbending um gæði tæknilegs rekstrar álvera var birt í Aluminium International Today, janúar/febrúar hefti 2014, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda sem CO2 jafngildi í t/t Al var birt. Af töflunni hér að neðan um 10 beztu löndin, hvað litla losun gróðurhúsalofttegunda varðar, má ráða, að álverin á Íslandi séu í hópi þeirra, sem tæknilega bezt eru rekin í heiminum. Það þýðir, að þau beita beztu fáanlegu tækni við sinn rekstur og að mannskapurinn ræður við þá tækni. Með beztu fáanlegu tækni nú á dögum er hægt að stunda iðnrekstur án þess að skilja eftir sig fótspor í náttúrunni. Þetta á sérstaklega vel við um Ísland, þar sem víða er enginn skortur á vatni, en álver þurfa á miklu vatni að halda.
- Þýzkaland: 1,72
- Ástralía: 1,86
- Spánn: 1,96
- Ísland: 2,11
- Brasilía: 2,17
- Noregur: 2,20
- Kanada: 2,36
- Frakkland: 2,66
- Rússland: 2,66
- Bandaríkin: 3,16
Að bæta við framleiðslugetu áls á Íslandi um 600 kt/a útheimtir virkjanir með vinnslugetu tæplega 9 TWh/a, sem er 50 % aukning m.v. núverandi stöðu, og færi vinnslugeta landsins þá upp í tæpar 27 TWh/a. Að bæta við aftöppun úr kerfinu upp á 900 MW um sæstreng til Bretlands gæti þýtt rúmlega 5 TWh/a orku, og Landsvirkjun ætlar ekki að virkja hana alla fyrir sæstrenginn. Það þýðir aðeins eitt. Landsvirkjun ætlar að skapa hér viðvarandi vatnsskort í miðlunarlónum, nema í beztu vatnsárum, eins og nú er að verða reyndin á Austurlandi með orkuflutningi frá Kárahnjúkavirkjun norður og suður vegna skorts á miðlunargetu á Suðurlandi og Norðurlandi.
Það er einkennilegt fólk, sem gengur með þær grillur, að friður geti skapazt um það fyrirkomulag á Íslandi að tæma lónin án virðisaukandi starfsemi hérlendis fyrir tilstuðlun orkunnar með þeim afleiðingum, að atvinnurekstur á Íslandi verði fyrir árvissum skakkaföllum vegna orkuskorts. Þessi hugmynd er með eindæmum illa ígrunduð og mun aldrei hljóta hljómgrunn hérlendis, hvernig sem áróðursmenn sæstrengs hamast. Það má segja um Landsvirkjun í þessu sambandi, að svo flýgur hver sem hann er fiðraður.
Það má hins vegar spyrja, hvort skynsamlegt sé að auka við álframleiðsluna, setja fleiri egg í sömu körfuna, eins og sagt er. Svarið við því veltur á ýmsu. Fyrst er til að taka markaðshorfur álsins. Verðið er lágt núna eða tæplega 2000 USD/t að meðtöldu gæðaálagi eða "premíu", en það er lítið vit í að framleiða ál á Íslandi án virðisaukandi forvinnslu fyrir lokavinnsluferli hjá kaupanda. Dæmi um slíka vinnslu er álverið í Straumsvík, ISAL, þar sem frá upphafi verksmiðjunnar árið 1969 til 2013 voru steyptir völsunarbarrar af fjölmörgum gerðum fyrir völsunarverksmiðjur, en nú er verið að bylta steypuskála fyrirtækisins til að steypa sívalninga, sem gefa enn meiri virðisauka og fara í þrýstimótun alls konar bita, t.d. fyrir bílaiðnaðinn, flugvélaiðnaðinn, skipaiðnaðinn, lestir og byggingariðnaðinn.
Nú eru mjög miklar birgðir áls í heiminum eða um 15 Mt, sem endast mundu framleiðendum í 15 vikur án viðbótar inn á markaðinn. Ástæðan er meiri aukning á framleiðslugetu en eftirspurnaraukning. Sú staða hefur nú snúizt við, og árið 2016 er talið, að verð taki að hækka umtalsvert að nýju. Aukning eftirspurnar hefur verið gríðarleg eða um 4-8 % á ári undanfarin ár, og hefur Kína leikið þar aðalhlutverkið. Horfur fyrir álframleiðendur, sem nota raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og sem hafa náð góðum tökum á rekstrinum og þar með öryggis-, heilsu- og umhverfismálunum, eru mjög góðar.
Íslendingar hafa í raun allt sitt á þurru varðandi viðskiptin við eigendur álveranna. Þeir hætta ekki fé sínu til fjárfestinga, nema til þjónustustarfsemi við álverin. Raforkufyrirtækin hætta engu til, af því að arðsemi viðskiptanna er tryggð í orkusamningi með mjög hárri kaupskyldu, lágmarksverði, sem hækkar samkvæmt ýmsum álþjóðlegum vísitölum, og langtímasamningum, með 20-40 ára gildistíma. Með slíka samninga upp á vasann trítla fulltrúar virkjanafyrirtækjanna á fund lánastofnana og fá hagstæðustu fjármögnun, sem völ er á, vegna lágmarksáhættu. Þessum eggjum í títtnefndri körfu er þess vegna ekki hætta við að brotna, enda hefur áliðnaðurinn í 45 ára sögu sinni á Íslandi lagt sitt lóð á vogarskálar stöðugleikans.
Það þarf ekki að orðlengja það, að álframleiðsla á Íslandi er aðferð til að skapa fjölbreytileg störf í landinu og til að skapa álitlegan gjaldeyri úr orkulindum landsins, vatnsorku og jarðvarma. Vindorkan hérlendis er bara fyrir vindbelgi til að belgja sig út um, því að vindmyllurnar, þó að stórar séu, framleiða bæði lítið og dýrt rafmagn, sem hvergi er réttlætt, nema til að auka hlut endurnýjanlegra orkulinda. Hér hefur þessi hlutdeild í raforkuvinnslu verið fast að 100 % síðan um 1980. Vindmyllur án kolefnissparnaðar eru ekkert annað en aðhlátursefni, þótt með öðrum hætti sé en í skáldsögunni um riddarann sjónumhrygga.
Þá er spurningin sú, hvort landsmenn vilji fórna meira landi undir miðlunarlón, sem er óhjákvæmilegt, þó að engin aukning verði í iðnaðinum, til að geta afhent umsamda orku á útmánuðum sem aðra mánuði ársins. Þetta er unnt að gera án þess að eyðileggja varanlega nokkrar gersemar, eins og nýleg tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra gefur vonir um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2014 | 17:44
Stjórnlagadómstóll Þýzkalands brýtur blað
Þann 7. febrúar 2014 brutu rauðhempurnar, ekki þó rauðhetturnar, í Karlsruhe, blað í sögu evrusamstarfsins. Þá kvað Stjórnlagadómstóll Sambandslýðveldisins Þýzkalands upp úrskurð um lögmæti þess að skuldbinda þýzka skattgreiðendur fyrir lánveitingum til evruríkja í fjárhagsvanda. Þetta var athygliverður úrskurður, sem sýnir í hnotskurn umbrotin í Þýzkalandi út af þeirri braut æ nánari samruna, sem ESB er á. Er þar komið að leiðarlokum ?
Úrskurðurinn var á þá leið, að þetta væri óheimilt og bryti líklega í bága við sáttmála ESB, t.d. Lissabonsáttmálann. Rauðhempurnar þekkja vel valdmörk sín og kváðu Evrópudómstólinn einan hafa lögsögu í málum, er vörðuðu sáttmála ESB. Það er þó augljóst, að með úrskurði sínum setja rauðhempurnar starfsemi björgunarsjóðs evrunnar, svo og skuldabréfakaup evrubankans af bönkum evrusvæðisins, hvers andvirði hefur síðan gengið til kaupa á ríkisskuldabréfum viðkomandi ríkis, í algert uppnám. Þeir, sem héldu, að vandi evrunnar væri leystur, vaða augljóslega í villu og svíma. Það er uppi lögfræðilegur ágreiningur um lögmæti samþykkta ESB í einstökum ríkjum, og það er uppi mikil fjárhagsleg spenna, jafnvel togstreita, á milli lántökulanda og lánveitendalanda innan evrusvæðisins. Evran gengur vel á meðan allt leikur í lyndi, en þegar eitthvað bjátar á, koma veikleikar þessa hugarfósturs Frakka í ljós. Gallinn við evruna var, að hún var hugsuð út frá stjórnmálalegum forsendum, en síður hagfræðilegum. Hún rændi Þjóðverja þýzka markinu, sem Frakkar óttuðust, að bera mundi ægishjálm yfir aðrar myntir Evrópu. Frakkar hugsuðu málið ekki til enda. Með því að lækka verðbólguna í Þýzkalandi í krafti þýzks aga niður í lágmark á evrusvæðinu, varð þýzk framleiðsla sú samkeppnihæfasta á evrusvæðinu og þó víðar væri leitað. Þjóðverjar búa nú við veikan gjaldmiðil m.v. DEM, en firnasterka útflutningsatvinnuvegi. Frakkar sitja með bjúgverpil í fanginu, eða þeir sitja með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða.
Enn eru þeir menn á Íslandi, sem telja hagsmunum Íslands bezt borgið innan ESB, við framkvæmdastjórnarborðið, eins og þeir stundum minnast á. Þeir hinir sömu skulda þjóðinni beinhörð rök fyrir aðild Íslands. Hvaða hagsmunum yrði betur borgið ? Þá dugar ekki hlandvolgt japl um, að Íslendingar séu Evrópuþjóð og eigi samleið með þeim þjóðum Evrópu, sem gengið hafa í ríkjasamband, þar sem forystan leynt og ljóst stefnir á sambandsríki án þess nokkru sinni að spyrja þjóðirnar, hvort þær hafi hug á því. Kalt hagsmunamat til langrar framtíðar þarf að leggja til grundvallar.
Við erum með fullt aðgengi að Innri markaðinum vegna EES-samningsins og gætum vafalítið náð tvíhliða samningi um slíkt aðgengi, þó að EES hrykki upp af. Ástæðan er sú, að ESB-ríkin hafa sízt minni þörf fyrir vörur okkar en við á að selja þeim helztu vöruflokkana, ál og sjávarafurðir, því að það eru mjög álitlegir markaðir fyrir þessar vörur annars staðar. Svisslendingar gáfu ESB langt nef í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina 8.-9. febrúar 2014. Það var aðallega vegna þess, að Svisslendingar ráða ekki lengur landamærum sínum, og meiri fjöldi fólks streymir til Sviss frá suður- og austurhluta Evrópu en góðu hófi þykir gegna. Brüssel fýldi strax grön, en andstaðan á meðal almennings í Evrópu gegn frjálsu flæði vinnuafls er orðin slík, að viðbrögð Brüssel verða stormur í vatnsglasi.
Hagsmunir Íslands og ESB rekast hvað eftir annað á í sjávarútvegsmálum; nú síðast í makríldeilunni. Ef Ísland væri innan stokks, þá væru fulltrúar þess keflaðir þar og ofurliði bornir með meirihlutavaldi, en nú erum við sem strandríki fullgildir samningsaðilar. Að vera fyrir utan getur hæglega jafngilt 20 milljörðum kr meira í útflutningstekjur á ári í þessari einu fiskitegund.
Samkvæmt reglum ESB má ekki meina fyrirtækjum í öðrum ESB-ríkjum að fjárfesta í íslenzkum fyrirtækjum, einnig í sjávarútvegi, sem mundi breyta íslenzkum sjávarútvegi talsvert, og ekki endilega til bóta m.v. ástandið í evrópskum sjávarútvegi. Þó að gert sé ráð fyrir frjálsu flæði fjármagns, er þá ekki líklegt, að minna af hagnaðinum yrði fjárfest innanlands, ef fjármagnseigendur hafa höfuðstöðvar erlendis ? Þetta getur skipt tugum milljarða kr.
Ekki þarf að orðlengja um ákvörðun aflamarks eða úthlutun veiðiheimilda. Allt yrði það á hverfanda hveli. Líklegt er, að í byrjun yrði þetta óbreytt, nema að forminu er ákvörðunarvaldið í Brüssel, en síðan kynni Spánn eða hvaða aðildarland sem er að kæra fyrirkomulagið til Evrópudómstólsins, sem mundi dæma á grundvelli sáttmála ESB Íslandi í óhag. Þá yrðum við eins og fjárhættuspilari, sem búinn er að spila rassinn úr buxunum. Óþarft er að slá tölu á það fjárhagstjón landsins, sem gæti kippt stoðunum undan getu þess til að bæta hér lífskjörin og greiða upp erlendar skuldir.
Með aðild að ESB skapast möguleiki á gjaldmiðilsskiptum, eins og Lettar framkvæmdu um síðustu áramót. Ekki er víst, að hamingjan verði höndluð með því, eins og lesa má í eftirfarandi frásögn The Economist 1. febrúar 2014. Þá má benda á gríðarlegan kostnað samfara evruþátttökunni og ESB-aðildinni, sem að nokkru fer í björgunarsjóð evrunnar og í að viðhalda djúptækri spillingu í meðferð styrktarfjár frá ESB.
"Í grískri goðafræði er Cerberus þríhöfða hundur, sem gætir hliðanna að Hades. Í nútíma sögu Grikkja er þríeykið þríhöfða skrímsli, sem hefur fest landið í efnahagslegri myrkraveröld. Í fjármálaráðuneytinu í Aþenu hrópa meira að segja ræstingakonurnar "morðingjar" að gestum á vegum þríeykisins. Í Lissabon eru fúkyrði á borð við "Til fjandans með þríeykið". Vinsælt nýyrði á portúgölsku er "entroikado", sem þýðir hagfurða. "
Hver segir, að svipað ástand gæti ekki skapazt á Íslandi ? Íslenzka hagkerfið gengur ekki í takti við hagkerfi Evrópu, heldur meira í takti við aflabrögð á Íslandsmiðum og framboð sjávarafla í heiminum. Fastgengi evrunnar gæti stórskaðað gjaldeyrisöflun Íslands og vextir evrubankans gætu ýtt undir þenslu og magnað samdrátt hérlendis vegna misgengis hagsveiflu hér og þar.
Á Spáni hafa laun lækkað um a.m.k. 20 % árin 2011-2013 , og atvinnuleysið er um 25 % að jafnaði, og yfir helmingur ungmenna undir þrítugu gengur atvinnulaus. Evran er þægileg í viðskiptum, en það er skammgóður vermir, því að samfélagslegur fórnarkostnaður af henni er geigvænlegur. Hann er jafnvel meiri en Evrópa getur staðið undir, og þess vegna mun hún að öllum líkindum splundrast. Það er meiri reisn yfir því að reyna að ná stöðugleika á eigin spýtur í sjálfstæðu hagkerfi en að vera hreppsómagi með sterkan gjaldmiðil. Um þetta skrifaði Laxness eitthvað á þá leið, að feitur þjónn væri lítils virði, en barður þræll væri mikill maður, því að í brjósti hans byggi frelsisneistinn. Hér sem oftar veltur afstaða manna til ESB-aðildar á því, hversu mikils þeir meta frelsið, frelsið til áhrifa á samfélag sitt. Augljóslega minnka áhrif landsmanna á skipan þjóðfélagsmála hérlendis, ef þeir ganga í ríkjasamband.
"Evrópuþingið hefur nú hafið rannsókn á vinnubrögðum þríeykisins. Þingmenn á Evrópuþinginu hafa heimsótt lönd, sem þríeykið hefur í meðferð, og hafa stefnt embættismönnum þríeykisins til grillunar. Vinstri menn saka þríeykið um óhæfni, jafnvel um að hunza félagsleg réttindi, sem tryggð eru í sáttmálum ESB, og vilja afnema þríeykið. Hægri menn segja þríeykið vera nauðsynlegt verkfæri, sem hafi sannað verðleika sína, en afnema eigi það með tímanum. Báðir aðilar telja lagagrundvöll þríeykisins hæpinn, og það beri mjög óljósa ábyrgð.
Þríeykið liggur undir harðastri gagnrýni í Grikklandi og ekki að ástæðulausu. Landsframleiðslan hefur rýrnað um fjórðung síðan við upphaf evrukreppunnar, og 27 % vinnuaflsins er atvinnulaust."
Þetta er ljót lesning, sem sýnir, hvílíkum hreðjatökum ESB tekur þá, sem standa höllum fæti á evrusvæðinu og ógna með einhverjum hætti stöðugleikanum þar. Þar er hvorki skeytt um skömm né heiður, heldur vaðið út í miskunnarlausar aðgerðir án þess að kanna, hvort þær njóta lagastoðar eður ei, allt í nafni evrunnar.
Hið kaldranalega fyrir Íslendinga við þennan lestur er, að væru þeir komnir á evrusvæðið, þá gætu þeir hæglega orðið fórnarlömb þríeykisins eða arftaka þess, lent í hakkavél, sem færir þá áratugi til baka í lífskjörum, af því að hagkerfi þeirra er viðkvæmt fyrir ytri áföllum vegna smæðar sinnar.
Af þessari sögu er aðeins hægt að draga einn lærdóm. Alþingi á nú þegar á vorþinginu, þó að stutt verði vegna sveitarstjórnarkosninga, að draga til baka hina fljótfærnislegu og jafnvel skaðlegu umsókn að Evrópusambandinu, ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af trakteringum ESB í bankahrunsmálinu, Icesave, í deilum um nýtingu fiskistofna o.fl., og við höfum horft upp á meðferðina á þeim, sem innanbúðar eru í ESB og hafa lent í efnahagslegum vandræðum. Þeir eru eins og flugur fastar í köngulóarvef. Umsóknarferli, sem umvafið var þeim blekkingarvef, að Íslendingar gætu sveigt ESB af leið og fengið sínu framgengt í samningaviðræðum, var reist á dómgreindarleysi og þekkingarleysi og hlaut þess vegna að steyta á skeri. Úr því að eindregnum aðildarsinnum tókst ekki að leiða þetta dæmalausa ferli til lykta, er náttúrulega borin von, að andstæðingum aðildar verði eitthvað ágengt með stækkunarteymi ESB. Umsókn Íslands hefur engu skilað, nema ærnum kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög í aðlögun og verður fleygt í glatkistuna árið 2014, eins og tveimur umsóknum Noregs, árið 1972 og 1994.
Það er ekki þar með sagt, að samskiptin við ESB verði lögð í frost. Þvert á móti geta þau nú hafizt á eðlilegum forsendum. Sá sem vill berjast fyrir aðild Íslands að ESB verður að finna málstað sínum betri rök en hingað til hefur verið veifað, og hann verður að sannfæra meirihluta þingheims um það. Þá verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það, hvort taka skuli upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og leiða aðlögunina til lykta. Því mun verða hafnað, nema forsendur gjörbreytist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2014 | 12:13
Hindranir í vegi hagvaxtar
Það hefur gengið hægt að koma af stað bærilegum hagvexti hérlendis. Forsenda hagvaxtar eru fjárfestingar, og þær hafa afar litlar verið í heild frá bankakreppunni haustið 2008, þó að t.d. útflutningsiðnaðurinn hafi fjárfest töluvert.
Fjárfestingar, sem um munar, koma aðallega úr tveimur áttum, þ.e. frá sjávarútveginum og erlendis frá í iðnfyrirtækjum, en ekki skal vanmeta gildi fjárfestinga í hótelum, gistihúsum og ferðamannaaðstöðu.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en varðandi fjárfestingar á öllum þessum sviðum urðu gjörðir fyrrverandi ríkisstjórnar, skaðræðisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, til að draga úr hvatanum til fjárfestinga, hvort sem um einbeittan brotavilja, eins og í Icesave- og bankamálunum, eða meðfæddan klaufaskap var að ræða. Verður nú ymprað á þessum atriðum og síðast en ekki sízt verður drepið á aðra forsendu en fjárfestingar fyrir hagvexti, en hún er þekking og þjálfun á vinnumarkaðinum. Án hins síðast nefnda verða fjárfestingar unnar fyrir gýg.
Ofurskattlagning á sjávarútveginn undir rangnefninu veiðigjöld dregur allan mátt úr útgerðinni til þeirrar endurnýjunar á fiskiskipastólnum, sem nú er aðkallandi. Minni fyrirtækin kikna undan byrðunum og leggja upp laupana, en hin stærri kaupa veiðiheimildirnar, sem losna, en geta ekkert fjárfest í veiðitækjum, sem heitið getur, á meðan stórt skarð er höggvið í framlegðina, sem á að fara til að greiða fastan kostnað og til að fjárfesta. Það er brýnt, að Alþingi og ríkisstjórn vindi ofan af vitlausri skattlagningu, sem sveltir mjölkurkúna, og fælir þess vegna fjárfesta frá greininni. Það er að sama skapi nauðsynlegt, að sjávarútvegurinn fái traustan lagalegan starfsgrundvöll. Að þessu er unnið.
Núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, færði byrðarnar af botnfiskútgerðunum og yfir á uppsjávarútgerðirnar og létti heildarbyrðarnar dálítið, en betur má, ef duga skal. Nú lítur út fyrir, að makríllinn sé búinn að hrekja loðnuna að miklu leyti af Íslandsmiðum, sem þýðir allt að 30 mia kr högg fyrir uppsjávarútgerðir og hagkerfi landsins. Þetta sýnir, hversu varasamt er fyrir skattheimtuvaldið að leggja skatta á útgerðina samkvæmt meðaltalsframlegð í fortíðinni. Þegar vel árar á útgerðin að fá tækifæri til að fjárfesta, og þegar illa árar þarf hú að geta sótt í varasjóði sína.
Til að fá hjólin í gang og til að tryggja sjálfbæra og sanngjarna skattheimtu verður að gjörbreyta um skattlagningu á sjávarútveginn, afnema með öllu eignaupptökuaðferðina og samræma skattheimtuna skattlagningu á önnur fyrirtæki í landinu, þ.e. að leggja tekjuskatt á hagnað, e.t.v. dálítið hærri hlutfallstölu en á önnur fyrirtæki á árum, þegar veiðiheimildir eru auknar. Þetta er sanngirnismál, og að leggja annað til grundvallar en samræmda skattheimtu er ójöfnuður. Vinstri menn eru reyndar alræmdir fyrir að ryðjast fram með ójöfnuði til að hrifsa til hins opinbera fé í endurdreifingu að eigin geðþótta. Slíkt veikir undantekningarlaust tekjuöflun samfélagsins sem heildar.
Hið sama á þá að gilda um orkufyrirtækin, þegar þau hafa hlotið ný virkjunarleyfi skulu þau greiða allt að 10 % hærri hlutfall í tekjuskatt en önnur fyrirtæki næstu 10 árin. Afránsskattheimta á borð við núverandi veiðigjöld rýrir hins vegar skattstofninn, en hófleg skattheimta leyfir skattstofninum að dafna. Á vegum Laugarvatnsstjórnarinnar er vinna í gangi við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, og vonandi verður þá undið ofan af þessari vinstri vitleysu. Hvor skattheimtuaðferðin halda menn, að sé betur fallin til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þegar til lengdar lætur ? Það er engum blöðum um það að fletta, að leið hófsamlegrar og réttlátrar skattheimtu mun bæta hag ríkissjóðs meira en ofurskattheimta og mismunun. Með réttlátri skattheimtu er hér einfaldlega átt við, að jafnræðis sé gætt og að skattheimtan sé óháð því í hvaða atvinnugeira fyrirtækið starfar.
Vinstri stjórnin fór illa með orðspor Íslands gagnvart erlendum fjárfestum. Þar sem traust verður að ríkja, er afleitt að standa ekki við samninga og að svíkja gefin loforð. Siðferði vinstri stjórnarinnar var bágborið, og í ljós kom, það sem margir töldu sig vita fyrirfram, að vinstri mönnum var ekki treystandi til að fara með landstjórnina. Þeir komu aftan að viðsemjendum orkufyrirtækjanna með því að leggja á sérstakan rafskatt, sem nú er orðinn 130 kr/MWh. Þeir lofuðu að hafa hann tímabundinn, en í stað þess að afnema hann á tilsettum tíma, þá hækkuðu þeir hann.
Þetta kemur málmframleiðslufyrirtækjunum, t.d. álverunum, afar illa um þessar mundir, þegar afurðaverðið er mjög lágt og afkoman með versta móti. Þetta kemur þyngst niður á elzta fyrirtækinu í þessum geira, því að orkuverðið til þessa málmframleiðslufyrirtækis er langhæst og ótengt afurðaverðinu. Slíkir skattar á fyrirtæki, ótengdir afkomu þeirra, eru stórhættulegir og hafa víða leitt til, að þau hafa flosnað upp. Verður að treysta Laugarvatnsstjórninni til að lækka þennan skatt og láta hann síðan renna sitt skeið á enda, eins og lögin gera ráð fyrir. Málsmeðferð yfirvalda af þessu tagi er eitt af því, sem grefur undan trausti fjárfesta og gerir þá afhuga fjárfestingum í landinu. Slíkt er landinu miklu dýrkeyptara en þeir milljarðar kr, sem fást inn með þessum rafskatti. Að vega slíkt og meta virðist ekki vera á valdi vinstri manna, því að þeir gera ekki ráð fyrir neinni breyttri hegðun við skattahækkun.
Verðlagning raforkunnar hér innanlands breyttist með vinstri stjórninni í Stjórnarráðinu og afkvæmi hennar í Háaleitinu. Slíkar tilefnislausar snöggar breytingar á heildsöluverði raforku í einu landi auka ekki tiltrú fjárfesta á orkuvinnslufyrirtækjunum og eigendum þeirra. Óhagræði Íslands vegna veiks raforkukerfis og langra fjarlægða frá hráefnum og afurðamarkaði var nóg fyrir, þó að ekki bættist við óvissa um, hvort landið mundi bjóða samkeppnifært verð á raforkunni. Þessum veikleika verður aðeins útrýmt með nýrri stjórn Landsvirkjunar og einarðri stjórn í atvinnuvegaráðuneytinu. Eins og málum er nú háttað er fjárfestum sýnt "listaverð" á raforku frá Landsvirkjun upp á 43 USmill/kWh. Þetta verð er ekki í neinu samræmi við jaðarkostnað virkjana fyrirtækisins, heldur er rökstutt þannig, að leitast sé við að láta verðlagningu raforku á Íslandi fylgja raforkuverðþróun í Evrópu. Sú stefnumörkun er auðvitað algerlega út í hött, af því að orkukerfi Íslands er gjörólíkt orkukerfi meginlands Evrópu, og um það gilda þess vegna önnur lögmál. Aukning á útflutningi orkukræfrar vöru frá Íslandi hefur tilhneigingu til að draga úr gróðurhúsaáhrifum á heimsvísu.
"Röksemdafærsla" Landsvirkjunar í verðlagsmálum er álíka gáfuleg og röksemdafærsla forstjóra fyrirtækisins fyrir samþykkt Icesave-samninganna, alræmdu. Hún er fyrir neðan allar hellur og tekur ekkert mið af því, að raforkukerfi Íslands er algrænt, sjálfbært og stækkanlegt með virkjunum endurnýjanlegra auðlinda, en raforkukerfi Evrópu er dökkbrúnt af jarðefnaeldsneyti og þar er reynt að auka hlut endurnýjanlegra og mjög óhagkvæmra orkulinda með stórfelldum niðurgreiðslum.
Verðlagningarstefna vinstri stjórnanna í Stjórnarráðinu og í Háaleitinu var þess vegna alveg út úr kú miðað við hagsmuni landsmanna af að laða hingað erlenda fjárfesta. Vinstri stjórn Stjórnarráðsins var í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 fleygt á öskuhauga sögunnar, en enn lafir vinstri stjórnin í Háaleitinu sem hver önnur tímaskekkja. Á meðan nást engir umtalsverðir nýir orkusamningar, og gamlir viðskiptavinir hafa jafnvel glatazt og súrnað sambandið við aðra. Neró leikur á fiðlu á meðan Róm brennur, og lýsir þetta sér í hjákátlegum gæluverkefnum á borð við sæstrengi til útlanda og vindmyllum á heiðum uppi.
Margt bendir nú til, að skortur á hæfu starfsfólki sé orðinn hamlandi fyrir hagvöxtinn. Þekkingarstig unga fólksins, þegar það kemur út úr skólakerfinu, er svo bágborið að jafnaði, en með góðum undantekningum þó, að við svo búið má ekki standa. Þekking og færni í meðferð móðurmálsins er í mörgum tilvikum skelfilega léleg, og lesskilningur og skriftargeta í erlendum málum, svo að ekki sé nú minnzt á hæfileikann til að tjá sig á erlendum málum, er algerlega ófullnægjandi. Verklega getan er heldur ekki upp á marga fiska. Verkleg þekking tækni- og verkfræðinga er í mörgum tilvikum skaðlega bágborin.
Þetta er ekki séríslenzkt fyrirbæri, og við þurfum ekki að finna upp hjólið til að bæta úr skák, heldur eigum við að leita í smiðju þeirra, sem bezt hefur tekizt upp í þessum efnum. Eitt slíkra landa er Þýzkaland. Í brezka tímaritinu "The Economist" gaf þann 12. október 2013 að líta eftirfarandi:
"Í iðandi Siemens risaverksmiðjunni í Berlín eru táningar í bláum samfestingum að læra að setja saman rafeindakort sem fyrsta skref í þriggja ára nemasamningi þeirra. Auk fræðslu um tækni, þjarkafræði (robotics) og önnur verkfræðileg svið fá nemarnir, 1350 að tölu í þjálfunarmiðstöð fyrirtækisins, þjálfun í að lesa tæknigögn og að fara með talnagögn. Við útskrift er ætlazt til, að þeir geti gert grein fyrir verkefnum með texta og tölum, og lausn viðfangsefna, á ensku og þýzku. Þegar lönd leita leiða til að bæta þjálfun á vinnumarkaðinum, m.a. til að auka framleiðnina, þá er gerhygli Siemens-vinnubragðanna fyrirmynd margra. Kostnaðurinn per nema nemur um kEUR 100, um MISK 16, svo að hér er um meiri háttar fjárfestingu að ræða. Norbert Giesen, yfirleiðbeinandi, segir, að vegna vaxandi þróunarhraða framleiðsluaðferðanna og hraðari innleiðingar uppfinninga, þá leggi fyrirtækið nú aukna áherzlu á "mjúka" hæfni, t.d. hvernig á að setja saman árangursrík teymi og skipta með sér verkum með sem beztum hætti. Þessi þekking er nytsamleg, hvernig sem allt veltist."
Af þessari hugmyndafræði má margt læra. Samstarf hins opinbera menntakerfis og fyrirtækjanna þarf að efla. Annars er hætt við, að opinbera menntakerfið dragist aftur úr og mennti ungviði fyrir gærdaginn. Í tveimur efstu deildum grunnskólans þarf að aðgreina verknáms- og bóknámsleiðir, þó að nemendur geti síðar skipt um brautir. Með því að koma þannig til móts við ólíkar þarfir nemendanna, verður dregið úr brottfalli, sem jafngildir að minnka sóun hæfileika. Fyrirtækin þurfa að koma í ríkari mæli að gerð námskráa og námsefnis og að koma að þjálfun og kennslu, eins og frásögnin hér að ofan frá Berlín ber með sér, að Þjóðverjar gera.
Þetta er ekki nýtt hjá Þjóðverjum. Hjá þeim er meistarakerfið enn við lýði. Íslenzka menntakerfið þarf að verða mun skilvirkara en það er nú. Það er ekki meira opinbert fé til reiðu í menntakerfið núna, svo að góðar lausnir þurfa að koma fram til að bæta skilvirknina. Námskráin þarfnast endurnýjunar, fjölbreytni og valfrelsi þarf að auka og atvinnulífið þarf bæði tækifæri og hvata til að taka þátt. Þó að upphæðin, sem Siemens ver til þjálfunar hvers nema, 16 milljónir kr, virðist há, þá fá þeir áreiðanlega góða ávöxtun á þá fjárfestingu með vinnuframlagi nemanna og með hæfara starfsfólki, þegar að nýráðningum kemur. Að stokka spilin að nýju í menntakerfinu og víðar er nauðsyn til bættrar afkomu þjóðarbúsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2014 | 20:15
Um afhendingaröryggi raforku
Stofnkerfi raforkuvinnslu og -flutnings hefur tekið stakkaskiptum í tengslum við uppbyggingu málmiðnaðar í landinu, eins og gerð verður grein fyrir í vorhefti tímaritsins Þjóðmála 2014.
Árið 1969 lá aðeins ein 220 kV lína frá Búrfellsvirkjun til aðveitustöðvarinnar á Geithálsi, sem þjónaði höfuðborgarsvæðinu og hinu nýreista álveri Íslenzka Álfélagsins hf í Straumsvík. Þessi veika tenging álversins og höfuðborgarsvæðisins við virkjanirnar leiddi auðvitað iðulega til alvarlegs straumleysis álversins og orkuskerðinga þar og hjá almenningsveitunum.
Síðan á þessum frumbýlingsárum iðnvæðingar á Íslandi hefur mikið vatn runnið til sjávar, og gæði raforkuafhendingar nálgast það nú að vera viðunandi fyrir stóriðju og almenning hér suðvestanlands, en sömu söguna er því miður ekki að segja úr öðrum landshlutum, þar sem allt of lengi hefur dregizt að leysa háspennulínur undir 132 kV af hólmi með jarðstrengjum og að tengja landshlutana saman með öflugri 400 kV línu. Slík lína er nauðsynleg til að tryggja stöðugleika raforkuflutningskerfisins og til að miðla orku á milli landshluta í þurrkaárum og í náttúruhamförum.
Afleiðingin af sleifarlaginu í dreifingar- og flutningsmálum raforku er mikið árlegt fjárhagstjón atvinnurekstrar í landinu, hætta og óþægindi fyrir heimili og sjúkrastofnanir í landinu. Þessi stöðnun flutningskerfisins er óboðleg nútímasamfélagi.
Það er og kunnara en frá þurfi að segja, að Landsvirkjun er nú, veturinn 2014, uppiskroppa með orku í sínum miðlunarlónum, og er það annað árið í röð, sem slíkt gerist í Hálslóni á Austurlandi og sætir tíðindum, því að það fylltist í haust, sé rétt munað. Augljóslega er íslenzka orkukerfið nú vanbúið til að sinna þörfum notendanna vegna sofandaháttar þeirra, sem skipuleggja eiga miðlunarmannvirki á formi lóna og flutningslína. Sleifarlag er dýrt á fóðrum.
Við þessar aðstæður sér öfugmælasmiðurinn Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sér leik á borði að bjóða Morgunblaðinu upp í sæstrengsdans í viðtali Björns Jóhanns Björnssonar við hann, 21. janúar 2014, undir fyrirsögninni: "Aukið öryggi með sæstreng", hvað annað, og undirfyrirsagnirnar hér að neðan einkenndust ekki síður af órökstuddum fullyrðingum, sem landsmenn eru nú teknir að venjast frá talsmönnum sæstrengsins, sem þó aldrei mun verða lagður með núverandi forsendum, einfaldlega af því að hann er óhagkvæmur og enginn fjárfestir mun fást í ævintýrið:
- Sæstrengur gæti komið í veg fyrir orkuskerðingu Landsvirkjunar til stóriðju
- Orkan flutt í báðar áttir og viðskiptin sveigjanlegri
- Góð reynsla Norðmanna
Hér orkar heldur betur allt tvímælis, sem sagt er, og verður hver fullyrðinganna hér að ofan nú krufin til mergjar:
- Þann 31. október 2013 birtist merk grein eftir verkfræðingana Valdimar K. Jónsson og Skúla Jóhannsson í Fréttablaðinu undir heitinu Sæstrengurinn. Þar skrifa þeir eftirfarandi um afhendingaröryggið, og stingur málflutningur núverandi Landsvirkjunarforstjóra algerlega í stúf við niðurstöðu téðra tvímenninga. Hvers vegna er hann alltaf eins og álfur út úr hóli ?:
- Reynslutölur um allan heim hafa leitt í ljós, að búast má við, að 1000 km kapall í Atlantshafinu milli Íslands og Bretlands muni að öllum líkindum bila einu sinni á ári. Ef bilun kæmi upp í kaplinum úti á rúmsjó seint að hausti, gæti hugsanlega þurft að bíða vors. Hvað þá um tekjur af strengnum ? Til að minnka áhættu mætti verja kapalinn með ýmsum hætti, en óhætt er að fullyrða, að það yrði fokdýrt, sérstaklega ef varnirnar tækju tillit til hættu á hryðjuverkum. Kannski þyrfti að leggja annan streng til vara ?"
Það þarf ekki frekari vitnana við; orð forstjóra Landsvirkjunar um það, að sæstrengur frá Bretlandi mundi auka afhendingaröryggi rafmagns á Íslandi eru staðlausir stafir. Núverandi afhendingaröryggi á Íslandi er einfaldlega miklu meira en sæstrengur getur veitt. Samt er afhendingarörygginu innanlands áfátt, og það þarf einfaldlega að einhenda sér í framkvæmdir til að bæta úr því í stað þess að afvegaleiða umræðuna með ábyrgðarlausum hætti.
- Það er langt síðan svo vitlaus fullyrðing hefur sézt á prenti sem sú, að sæstrengur frá Bretlandi gæti komið í veg fyrir skerðingu afgangsorku til stóriðju, eins og nú blasir við. Ástæðan er kostnaðurinn við raforku hingað komna frá Bretlandi. Miðað við flutningskostnaðinn um strenginn, sem téður forstjóri ræðir aldrei um og höfundur þessa pistils hefur reiknað út, að nemi um 140 USD/MWh, yrði orkuverð inn á stofnkerfi Íslands ekki undir 200 USD/MWh, sem er a.m.k. tífalt verð á afgangsorku hérlendis til stóriðju, en afgangsorka er, eðli sínu samkvæmt, mun ódýrari en forgangsorka. Það yrði bullandi tap á álframleiðslu hérlendis við þessu verði, hvað sem öðru líður, og þess vegna engin spurning fyrir álver að draga fremur úr framleiðslu sem orkuskerðingu nemur en framleiða með orku á þessu verði. Liggur kannski sá fiskur undir steini hjá forstjóranum, að eigendur Landsvirkjunar eða almennir raforkukaupendur á Íslandi eigi að greiða niður verð raforkunnar um sæstrenginn til stóriðjunnar ? Er það samfélagslega ábyrg afstaða forstjórans að fara á flot með hugmynd, sem augljóslega gengur ekki upp og vekur fleiri spurningar en svör ?
- Þá er komið að fullyrðingunni um, að orkan verði flutt í báðar áttir og að slíkt geri viðskiptin sveigjanlegri. Forstjóri Landsvirkjunar hefur fimbulfambað við fjölmiðla um, að svo mikil ónýtt orka sé í kerfinu, að ekki þurfi viðbótar virkjanir fyrir einum þriðja af þeim 5000 GWh/a, sem ætlunin sé að senda utan um sæstreng. Þetta eru um 1650 GWh/a eða um helmingur þeirrar raforku, sem ISAL mun senn nota, svo að ekkert smáræði hafa orkufyrirtækin offjárfest, ef forstjórinn fer hér rétt með. Hann hefur hins vegar aldrei látið svo lítið að útskýra með hvaða hætti þessi mikla orka verður til í kerfinu, og hvers vegna hún er þá ekki markaðssett hér innanlands. Í stuttu máli er óskiljanlegt, hvernig forstjórinn fær út svona gríðarlega mikla ónýtta orku, og það er alveg áreiðanlegt, að m.v. núverandi virkjanir og flutningskerfi er algerlega af og frá, að svo mikil afgangsorka sé til reiðu að meðaltali yfir 30 ár í núverandi kerfi. Núna er t.d. engin afgangsorka til, og orkuskortur tvö ár í röð á Austurlandi. Verður þessi afgangsorka nýtanleg með Hágöngumiðlun ? Þó að öflug flutningslína kæmi til Austurlands, mundi alls engin sátt verða um það að selja umframorku þaðan til útlanda, ef orkuskortur væri fyrirsjáanlegur suðvestanlands og öfugt. Það, sem gerzt hefur í Noregi er einmitt það, eftir tilkomu sæstrengja til Danmerkur og Hollands, að virkjanafyrirtækin hafa tæmt lónin með raforkuútflutningi og síðan neyðzt til að flytja inn orku á margföldu verði, flestum Norðmönnum, fjölskyldum og fyrirtækjum, til sárrar armæðu og stórtjóns. Afleiðingin er ömurlegt óloft í mörgum bæjum Noregs vegna viðarbrennslu til upphitunar húsnæðis. Berjast verður hart gegn þess konar ástandi á Íslandi, og Landsvirkjunarmenn þurfa ekki að ýja að því hugsun, að þeir komist upp með slíka spákaupmennsku á Íslandi. Til þess eru vítin að varast þau, og þess vegna hlýtur ný stjórn Landsvirkjunar að leggja sæstrenginn á hilluna eða hreinlega að grafa hann með vindmyllunum og öðru dóti núverandi stjórnar Landsvirkjunar, sem nú er komið að endurnýjun á.
- Að lokum er í þessu öfugmælaviðtali við Hörð Arnarson vitnað til góðrar reynslu Norðmanna af sæstrengjum til útlanda. Ekki er vitað við hvaða Norðmenn téður Hörður talar, en sá er hér skrifar er í sambandi við rekstraraðila í norskum iðnaði og við fjölskyldur í Noregi, íslenzkar og norskar. Allir ljúka upp einum rómi um, að téðir sæstrengir hafi verið skaðlegir fyrir hagsmuni norsks atvinnulífs og fjárhag fjölskyldnanna, því að orkuverðið hefur hækkað verulega og stundum margfaldazt, því að verðið er ákvarðað eftir framboði og eftirspurn. Nýjasta sagan er sú, að nýi sæstrengurinn á milli Noregs og Hollands bilaði í september 2013. Þó að bilunin væri í inntaksmannvirkinu Hollandsmegin, vegna flóða, mun viðgerð enn ekki vera lokið á þorra 2014. Hversu langan tíma halda menn, að viðgerð tæki á strengbilun á 1 km dýpi í hafinu á milli Íslands og Skotlands ? Afleiðingin af þessari bilun var lækkun raforkuverðs í Noregi. Sú staðreynd segir mikla sögu um þjóðhagslegt tap af slíkum sæstreng, því að líta má svo á, að öll heimili og öll fyrirtæki í landinu séu þá að greiða viðbótar gjald til orkufyrirtækja, svo að þau geti staðið í orkuviðskiptum í báðar áttir um sæstreng. Þjóðin mundi þurfa að súpa seyðið af slíkri spákaupmennsku, og hefur hún þó mátt bergja á nægu af slíkum miði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)