29.3.2013 | 12:02
Að taka flugið
Barátta Samfylkingarinnar gegn flugrekstri í landinu er farin að taka á sig bæði grafalvarlegar og fáránlegar myndir. Um er að ræða atlögu að einkaframtaki og innviðum landsins í senn. Menn minnast undarlegrar ráðgefandi atkvæðagreiðslu R-listans í Reykjavík um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem spurning var óljós (eins og spurningavaðallinn um uppkast að Stjórnarskrá) og þátttakan álíka lítil í prósentum talið. Afar mjótt varð á munum. Það er grundvallaratriði, þegar efna á til atkvæðagreiðslu á meðal almennings um tilvist flugvallar í höfuðborg landsins, að slík verður að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Miðstöð innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þar sem ljóst er, að verði Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni eyðilagður frá öryggislegu sjónarmiði eða lagður alfarið af, þá leggst innanlandsflugið niður. Þar með yrði stórt skarð höggvið í almenningssamgöngur á Íslandi og innviðum landsins unnið óbætanlegt tjón. Til að stöðva skaðvaldana þarf nýtt Alþingi að setja lög um, að í Vatnsmýrinni skuli vera miðstöð innanlandsflugs á Íslandi. "Basta."
Þeir, sem af einhverjum ástæðum eru andsnúnir Vatnsmýrarvellinum í sinni núverandi mynd, verða einfaldlega að líta á þennan flugvöll sem fórn Reykjavíkur fyrir að hafa orðið fyrir valinu til að gegna hlutverki höfuðborgar landsins.
Fjárhagslega er það þó engin fórn. Þvert á móti er gróði að flugvellinum fyrir Reykjavík og ríkissjóð. Hundruðir Reykvíkinga hafa beina atvinnu af flugvellinum og þúsundir, þegar afleidd störf eru meðtalin. Verðmæti flugvallarins fyrir Reykjavík hefur verið metið á móti söluandvirði lóða í Vatnsmýrinni. Það er undarlegt hagkvæmnimat. Það væri aðeins gilt sjónarmið, ef hörgull væri á lóðum, en svo er alls ekki, hvorki í landi Reykjavíkur, Kópavogs né Garðabæjar. Á flugvellinum fer fram öflug atvinnustarfsemi, sem skapar höfuðborginni milljarða kr í tekjur árlega. Tekjur af lóðasölu og tekjur af íbúum í Vatnsmýri umfram önnur hverfi getur ekki keppt við öfluga atvinnustarfsemi, sem að hluta til er gjaldeyrisskapandi.
Þá er talað um aksturssparnað Vatnsmýraríbúa vegna miðlægrar legu Vatnsmýrar. Hér virðast forsendur þær, að flestir íbúar Vatnsmýrar mundu stefna til vinnu í Háskólana, Landsspítalann eða Kvosina. Þetta stenzt varla, og eru allsendis ótæk rök fyrir því að úthýsa flugvellinum. Fyrirsjáanlega yrði umferðaröngþveiti í þessum þrengslum, nema verulegar samgöngubætur fylgi, ef þetta gengi eftir og Háskólasjúkrahús risi á Landsspítalalóðinni.
Saga flugsins á Íslandi er stórmerkileg, og innanlandsflugið hefur gegnt veigamiklu þjónustuhlutverki við landið allt. Það hefur í raun fært höfuðborgina nær landsbyggðinni, ef svo má að orði komast. Það er ekkert, sem komið getur skammlaust í stað innanlandsflugsins. Þá gera fjölmargir einkaflugmenn út frá Vatnsmýrinni, og einkaflugið er hluti af þeim lífsstíl og lífsgæðum, sem við teljum mörg vera eftirsóknarverð. Veigamikil og mikilvæg kennslustarfsemi fyrir verðandi flugmenn fer fram þarna. Það er ómetanlegt fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis að hafa svo öruggan flugvöll innan seilingar.
Reykjavíkurflugvöllur gegnir veigamiklu öryggishlutverki, sem Samfylkingin, af sínu einkennilega kæruleysislega ábyrgðarleysi, er stöðugt að reyna að rýra. Heggur sá, er hlífa skyldi, má segja um Dag, lækni, og fyrrverandi varaformann Samfylkingar, því að sjúkraflug eru líklega að nálgast 1000 á ári, þegar vængjað flug og þyrluflug er saman talið. Er alveg öruggt, að margur á líf sitt og/eða heilsu því að þakka að hafa komizt undir læknishendur svo greiðlega sem flugið eitt og nánd Reykjavíkurflugvallar við Landsspítalann ein leyfði.
Innanlandsflug er landsmönnum nauðsyn af öryggisástæðum, t.d. ef mikil vá ber að dyrum, og samgönguleiðir á landi lokast, og til að tryggja greiðar samgöngur á milli höfuðborgarinnar og hinna fjarlægari staða á landsbyggðinni. Innanlandsflugið kemur að mörgu leyti í stað lestarsamgangna, sem tengja þorp, bæi og borgir annarra landa traustum samgönguböndum. Það er þess vegna aðför að öryggi landsmanna og lífsgæðunum í landinu að standa í stöðugum hernaði gegn fluginu. Þetta hefur einn stjórnmálaflokkur í landinu þó gert sig sekan um. Samfylkingin stefnir á að leggja Vatnsmýrarvöllinn niður og þar með að tortíma innanlandsfluginu. Á sama tíma sendir hún strætó landshornanna á milli, niðurgreiddan, m.a. af fluginu. Þetta ráðslag er óþolandi og verður að gera afturreka strax, enda er ekki heil brú í þessu stefnumáli Samfylkingarinnar fremur en mörgum öðrum. Þeim þykir betra að veifa röngu tré en öngvu. Þessa niðurrifsstarfsemi lattélepjandi sauðargæra ("borgarsveitalubba" sagði Árni Johnsen) í 101 verður að kveða í kútinn á næsta kjörtímabili. Það getur Alþingi gert.
Í marz 2013 gerðu núverandi og fyrrverandi varaformenn Samfylkingar með sér "marksamning" (er það sama og markmið ?) án aðkomu innanríkisráðherra, sem nú um stundir er vinstri-grænn og fer með forræði Vatnsmýrarvallar, um sölu ríkisins á 11,2 ha á suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Í frétt Reykjavíkurborgar um atburðinn segir svo:
"Vinna við skipulagið hefst fljótlega, þótt ljóst sé, að uppbygging fari ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hafi (svo ?) formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar."
Þetta er stríðshanzki framan í innanríkisráðherra og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli sem og alla viðskiptavini flugrekendanna. Árið 1999 teygði samgönguráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns sig langt til að skapa frið um flugvöllinn, en sá friður var rofinn þarna. Viljayfirlýsingin á milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar var um lokun NA-SV brautar Reykjavíkurflugvallar. Sú lokun mun þýða 1 % fall í nýtileika flugvallarins, þ.e. úr 99 % í 98 %. Frá öryggissjónarmiði er þetta óásættanlegt, og þess vegna var sleginn sá varnagli, að lokuð braut með svipaða stefnu á Keflavíkurflugvelli yrði fyrst enduropnuð og gerð tiltæk fyrir notendur Reykjavíkurflugvallar. Það hefur enn ekki verið gert. Forræðishyggjustjórnmálamenn kasta á milli sín fjöreggi flugfarþega. Hver vill leggja öryggi sitt í hendur loddara, sem vaða áfram í villu og svíma, og skortir augljóslega dómgreind til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri ?
Við ríkisstjórnarskiptin 24. maí 2007 tók við samgönguráðherra Samfylkingar. Hann hafði aðrar áherzlur en fyrirrennari hans í embætti úr röðum sjálfstæðismanna, og tók fjárveitingu til opnunar téðrar SV-NA-brautar á Keflavíkurflugvelli út úr samgönguáætlun. Ef Samfylkingin verður látin komast upp með að reka stöðugt hornin í flugið, þá leggst innanlandsflugið af fyrr en varir. Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi fyrir landsmenn alla til að láta slíka öfugþróun viðgangast, og það eru til meðul, sem hrífa í þessu sambandi. Varaformennirnir þurfa að fá að bergja á beizkum kaleik.
Samfylkingin ræðst að fluginu úr annarri átt. Hún ætlar að kyrkja innanlandsflugið með gjaldtöku og skattlagningu, svo að flugrekendur verði að leggja upp laupana vegna of fárra farþega. Þar með verður eftirleikurinn auðsóttur að afleggja Reykjavíkurflugvöll, þó að það þýði meiri eldsneytisbirgðir millilandavéla til að komast á varaflugvöll. Þessi framkoma Samfylkingar og taglhnýtinga þeirra, vinstri grænna, í garð mikilvægrar þjónustustarfsemi í landinu, er óafsakanleg.
Ríkisstjórnin hefur hækkað opinber gjöld af innanlandsfluginu um 130 % á 4 árum 2009-2013, og enn er ein hækkunin væntanleg 1. apríl 2013. Á árinu 2013 verður gjaldtaka ríkisins af innanlandsfluginu 415 milljónir kr og nemur þá 10 % af veltu innanlandsflugsins. Ofan á þetta leggst svo skattur, t.d. tekjuskattur, og launatengd gjöld.
Þetta er alger óhæfa, og með þessum hætti hagar ekkert yfirvald sér, nema það ætli að ganga á milli bols og höfuðs á viðkomandi starfsemi. Hér eiga sér stað ofsóknir og skefjalaust niðurrif á afar mikilvægum innviðum íslenzka þjóðfélagsins, sem er hluti af lífsgæðum og lífsstíl fjölda fólks. Hvorki stjórnmálamenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, né nokkurs annars stjórnmálaflokks, hafa umboð til að brjóta svo freklega á meirihluta landsmanna.
Innanlandsflugið er mál þjóðarinnar allrar, og það er hægt að höggva á þennan hnút með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá verða viðkomandi stjórnmálamenn að standa fyrir máli sínu með lýðræðislegum hætti í stað níðingslegra aðferða við að kvelja líftóruna úr flugrekendum.
Innanlandsflugið mun blómstra, ef það fær frið fyrir ósvífnum yfirvöldum, sem skirrast ekki við að taka atvinnulífið fantatökum. Þetta eru yfirvöld, sem skilja ekki, að athafnalíf verður að blómstra til að velferðarsamfélag geti þrifizt. Stríð yfirvalda við athafnalífið, eins og Fylkingin og VG hafa staðið í, leiðir til einhæfni, atvinnuleysis og síðan til fátæktarsamfélags. Þessa tegund stjórnmálamanna þarf að setja í skammarkrókinn í komandi Alþingiskosningum og síðan í næstu borgarstjórnarkosningum.
Farþegum í innanlandsfluginu fjölgaði fyrstu 3 mánuði ársins 2012. Þann 1. apríl 2012 var flugrekendum greitt þungt högg undir bringspalir af stjórnvöldum "með rörsýn". Þá skelltu óhæfir og kreddufullir forræðishyggjustjórnmálamenn, sem vilja ráða, hvernig fólk ferðast, á eftirfarandi hækkunum á flugrekendur:
- farþegaskattur upp um 71 %
- lendingargjöld upp um 72 %
- flugleiðsögugjöld upp um 22 %
Þessi gjaldpíning leiddi óhjákvæmilega til hærri fargjalda. Árið 2012 voru farþegar í innanlandsflugi um 375.000 og hafði þá fækkað um 3 % frá árinu á undan.
Það er deginum ljósara, að Samfylkingin stendur nú að fólskulegri tangarsókn gegn innviðum landsins á samgöngusviðinu og lífsskilyrðum fjölda fólks. Taglhnýtingurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, fylgir í humátt á eftir og gerði það þegar á dögum R-listans, þegar Svandís Svavarsdóttir, þá borgarfulltrúi, lagði til rannsókn á því, að byggja upp nýja miðstöð innanlandsflugs á Hólmsheiði og leggja af Vatnsmýrarvöllinn. Niðurstaðan kemur fáum á óvart. Hólmsheiði er ónothæf fyrir flugvöll af veðurfarslegum ástæðum. Enginn heilvita maður leggur í að reisa þar miðstöð innanflugs og stefna þar með lífi og limum farþega og áhafna í mjög aukna hættu vegna óhagstæðs veðurfars í um 130 m hæð y.s.m., stórra háspennulína í grennd og sviptivinda frá fjalllendi eigi fjarri. Nýtileiki flugvallar á Hólmsheiði er neðan við alþjóðleg viðmiðunarmörk. Hólmsheiði fyrir flugvöll var villuljós skammsýnna stjórnmálamanna með rörsýn ekki síður en í REI-málinu.
Að bráðnauðsynlegt sé að byggja íbúðarhús í Vatnsmýrinni til að fjölga íbúum í grennd við 101 Reykjavík er rangt. Þarna er djúpt niður á fast og lóðirnar yrðu rándýrar í vinnslu. Það er út í hött að reikna út lóðaverð til að rökstyðja ný not á landinu. Það þyrfti þá að meta mismunarverð á þessu landi og öðru. Það er nóg framboð á landi um ófyrirsjáanlega framtíð á höfuðborgarsvæðinu, og mismunur á arðsemi íbúðabyggðar á ólíkum svæðum á höfuðborgarvæðinu getur aldrei slagað upp í arðsemina af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri fyrir borgarsjóð og fyrir landið allt.
Hvers vegna halda menn, að margar borgir í heiminum, og höfuðborgir á borð við Berlín og London, státi af flugvöllum innan sinna vébanda ? Það er af því, að flugvellirnir styrkja samkeppnistöðu borganna, og þar sem höfuðborgir eiga í hlut, samþykkja borgirnar starfsemi flugvallanna sem eðlilegan þátt í að sinna höfuðborgarhlutverki sínu með sóma.
Á Íslandi hafa sumir stjórnmálamenn enga sómatilfinningu, og það bitnar á borgurunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.3.2013 | 17:34
Sorgarsaga af sæstreng
Enn gengur hann aftur, draugurinn, sem ætlað er það hlutverk að flytja raforku á milli Íslands og Skotlands í báðar áttir eftir því, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Særingamaðurinn, Hörður Arnarson, forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, notaði tækifærið á "Ársfundi" LV 21.03.2013, og magnaði drauginn upp með stórkarlalegum fullyrðingum, sem koma ýmsum, sæmilega sjóuðum, algerlega í opna skjöldu, og verða nokkrar slíkar gerðar að umfjöllunarefni hér með vísun til fréttar Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 22. marz 2013 undir fyrirsögninni: "Ónýtt raforka 15-20 milljarða króna virði".
Haft er eftir forstjóranum, að téð ónýtt orkuvinnslugeta nemi 2,0 TWh/a (terawattstundir á ári, terawattstund=milljón Megawattstundir). Þetta jafngildir því, að allt árið um kring sé ónotuð aflgeta í íslenzka raforkukerfinu, sem nemur 230 MW eða heilli Búrfellsvirkjun í meira en 10 mánuði ársins. Hér fer eitthvað mikið á milli mála. Hvar í ósköpunum er alla þessa aflgetu að finna, og hlýtur hún ekki að vera dæmi um offjárfestingu, ef rétt er með farið ?
Forstjórinn gleymir því, að vegna fyrirbyggjandi viðhalds og vegna bilana eru sjaldnast allar einingar kerfisins tiltækar. Þá sleppir hann því einnig, að í kerfinu verður jafnan að vera fyrir hendi reiðuafl og varaorka, sem óðs manns æði er að reiða sig á, að komi gegnum 1200 km langan sæstreng. Hefur hann gert greiningu í hermilíkani á svipulli hegðun samtengds kerfis Íslands og Evrópu við truflanir ?
Það kemur heldur ekki fram, hvort téðar 2,0 TWh/a af raforku eru forgangsorka eða afgangsorka eða hvort tveggja. Hörður hugsar sér greinilega að tæma hér miðlunarlónin eins hratt og markaðurinn erlendis leyfir að vetrinum og standa svo slyppur og snauður þar til leysingar hefjast og flytja þá inn dýra orku frá Evrópu á meðan lónin eru tóm. Þetta er ógæfuleg framtíðarsýn fyrir raforkunotendur á Íslandi. Þeir yrðu með þessu móti leiksoppar spákaupmennsku með raforku. Herra Herði má tilkynna það strax, að afhendingaröryggi raforku, sem þetta ráðslag mundi leiða af sér, er algerlega óásættanlegt fyrir almenning, stóriðju og alla aðra raforkunotendur á Íslandi. Hugmyndin er andvana fædd.
Hvers vegna í ósköpunum lækkar Landsvirkjun þá ekki hjá sér verðið til að auka sölumagnið, úr því að mikið umframframboð er, eða þróar öflugan markað fyrir ótryggða raforku ? Fiskimjölsverksmiðjur mundu flýta rafvæðingu hjá sér fyrir vikið. Landsvirkjun hefur farið þveröfuga leið undanfarið og rift einhliða samningum um ótryggða orku, gróðurhúsabændum og fleirum til tjóns, með þeim rökum, að næg orka væri ekki fyrir hendi í kerfinu. Það rekur sig hvað á annars horn. Til hvers var verið að hafa fundarmenn á téðum "Ársfundi" að fíflum ?
Ef reiknað er með, að 20 milljarðar kr fáist fyrir 2,0 TWh raforku á Skotlandi, þá svarar það til einingarverðsins 80 USmill/kWh, sem er reyndar algerlega óraunhæft að búast við að fá að jafnaði á næstu árum, þegar ný tækni, setlagasundrun ("fracking"), hefur valdið a.m.k. þriðjungs lækkun orkuverðs í BNA, svo að jafnvel í Evrópu sjást nú verð niður í 30 mill/kWh á skammtímamarkaði.
Hverju er Hörður Arnarson bættari með það að fá 20 milljarða kr fyrir 2,0 TWh/a frá kaupanda á Skotlandi, þegar hann mun þurfa að greiða sæstrengseiganda 76 milljarða kr á ári fyrir afnot af flutningsmannvirkjunum, streng, áriðlum, afriðlum og loftlínum, svo að sæstrengseigandinn nái viðunandi arðsemi ?
Hér er miðað við stofnkostnað þessara mannvirkja með vöxtum á framkvæmdatíma, alls 500 milljarða kr, endurgreiðslutíma 20 árum og hæfilegri ávöxtun fyrir áhættusama fjárfestingu. Landsvirkjun mundi þurfa að borga með orkunni um sæstrenginn og fengi að sjálfsögðu ekki snýtti upp í vinnslukostnað í virkjun.
Forstjórinn reiknar með að framleiða 1,5 TWh/a með vindmyllum og lágjarðvarmavirkjunum og senda orkuna um sæstrenginn. Það er stórfurðulegt að ímynda sér, að íslenzkar vindmyllur geti keppt við evrópskar vindmyllur í gegnum 1200 km langan sæstreng. Til að framleiða 1,3 TWh/a með vindmyllum þarf u.þ.b. 100 stk af vindmyllum. Þær þurfa býsna mikið land miðað við afrakstur. Fjölmargir, sem sætta sig við virkjanir og flutningslínur, sem skapa störf innanlands og útflutningsverðmæti, munu aldrei samþykkja þessi mannavirki til að stunda spákaupmennsku með orkuna og til nánast einvörðungu að skapa störf erlendis.
"Hörður sagði sæstreng geta haft jákvæð og fjölbreytt áhrif á íslenzkt efnahagslíf og skapað fjölda nýrra starfa. Engin ógn steðjaði að starfandi stóriðjufyrirtækjum hér á landi með lagningu sæstrengs."
Halló, er þetta karlinn í tunglinu ? Veit hann ekki um erfiðleika norskrar stóriðju, sem þurft hefur að endurnýja samninga sína undanfarið ? Það má upplýsa hann um, að hún er á heljarþröm, t.d. álverið á Húsnesi í Vestur-Noregi, vegna þreföldunar á raforkuverði á frjálsum markaði í Noregi vegna aukins útflutnings og innflutnings á raforku um sæstrengi.
Það blasir nú ekki við, hvar téð ný atvinnutækifæri verður að finna. Framleiðsla og lagning strengsins skapar varla nokkurt nýtt starf hérlendis, en auðvitað munu öll mannvirki á landi hérlendis skapa tímabundin ný störf hérlendis á framkvæmdatíma og fáein við rekstur og viðhald. Er þó nær að reisa virkjanir, aðveitustöðvar og línur/jarðstrengi til að vinna orku innanlands og flytja hana til iðjuvera hérlendis, þar sem u.þ.b. 40 % veltunnar verður eftir í landi, og öll skapar sú starfsemi gjaldeyri. Hugmynd Harðar mun vera að stofna sjóð fyrir afrakstur orkusölu um sæstreng, en eins og fram kemur hér að ofan er enginn gróði í sjónmáli, og virðisauki innlendrar framleiðslu, sem flutt er utan eða sparar innflutning, verður fyrirsjáanlega alltaf meiri en slíkur sjóður gæti státað af.
Fréttir af þessum "Ársfundi" sýna, að fram er kominn nýr uppistandsgrínisti. Eftirfarandi stendur í téðri frétt: "Hörður Arnarson fjallaði m.a. um vindorkuna í ræðu sinni á ársfundinum. Hann sagði hana ávallt verða þriðja kost (svo ! 1) á eftir vatnsafli og jarðvarma. Vindorkan væri að ryðja sér til rúms erlendis og orðin víða örugg leið (svo ! 2). Framleiðslan væri hins vegar óstöðug (tíðindi ? 3). Hörður sagði, að á næstu árum mundi orkuverð frá vindmyllum lækka hratt og skarast við aðra orkukosti (svo ! 4). Ísland væri í einstakri stöðu að geta nýtt alla þessa þrjá kosti."
1) Hvernig getur Hörður Arnarson fullyrt þetta ? Ef sá, er hér heldur á fjaðurstaf, brygði yfir sig spámannskufli, mundu fyrr verða fyrir valinu sjávarfallavirkjanir og brennslustöðvar úrgangs.
2 og 3) Hvernig fer það saman að vera "örugg leið" til raforkuvinnslu og að vera óstöðug ?
4) Vindorka er alls staðar stórlega niðurgreidd af hinu opinbera, þar sem hún er við lýði, til að ýta undir notkun hennar og þar með að draga úr mengun andrúmsloftsins og myndun gróðurhúsalofttegunda. Fyrst verða auðvitað niðurgreiðslur minnkaðar og með lækkandi orkuverði á heimsmarkaði, sem nú er raunin vegna aukins framboðs á gasi og olíu, er óralangt í, að vindorka, með 30 % nýtingartíma og smáar vinnslueiningar, geti keppt á markaði. Þetta er þess vegna rétt ein órökstudda fullyrðingin.
Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins. Eins og öll önnur fyrirtæki á hún að þjóna hagsmunum eigenda sinna, sem eru skattborgararnir í þessu landi. Hér skal fullyrða án frekari röksemdafærslu, að sérvizkuleg gæluverkefni á borð við þau, sem gerð hafa verið að umtalsefni hér að ofan, þjóna ekki hagsmunum almennings á Íslandi.
Stjórnmálaflokkarnir tippla eins og kettir í kringum heitan graut, þegar kemur að málefnum Landsvirkjunar um þessar mundir. Þó skyldi maður ætla, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi velþóknun á brölti stjórnar Landsvirkjunar , sem staðið hefur þetta kjörtímabil. Þá er ástæða til að ætla, að borgaralegu flokkarnir séu andvígir öllum tilraunum til að gera orkulindir landsins að viðfangsefni spákaupmanna. Slíkt minnir óþægilega mikið á REI-hneykslið og samræmist engan veginn þeirri atvinnustefnu, sem þeir vilja leiða til öndvegis á Íslandi. Hér skal fullyrða, að meirihluti landsmanna mun hafna virkjunum, línulögnum og öðrum mannvirkjum, sem reist eru til að flytja orkuna beint úr landi til að skapa atvinnu nánast eingöngu erlendis. Hvar eru umhverfisverndarsinnar nú ? Hvers vegna tjá talsmenn Landverndar sig ekki merkjanlega um þessi mál ?
Fréttastofa RÚV hefur í upphafi kosningabaráttunnar leitt tvö álver af þremur inn í umræðuna um skattamál þeirra og verið gerð afturreka með áróður sinn, sbr grein Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi, í Morgunblaðinu 23. marz 2013. Einnig hefur fréttastofa RÚV vakið athygli á hrörnandi lífríki Lagarfljóts ásamt gjörbreyttu litarafti Fljótsins til hins verra. Þetta síðasta hefur orðið mörgu Héraðsfólki harmsefni, sem og öðrum, og höfundi ekki sízt. Hverjum er um það að kenna, að Jökulsá á Brú skyldi verða steypt ofan í Fljótsdalinn ? Því er til að svara, að Eyjabakkamiðlun var fyrsti valkostur Landsvirkjunar fyrir austan, en umhverfisverndarsinnar börðust svo hatrammri baráttu gegn skerðingu á hamskiptasvæði gæsa, að hinn valkosturinn var tekinn á kostnað Fljótsdalshéraðs, sem aldrei skyldi verið hafa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.3.2013 | 21:43
Nauðsyn nýs vinnulags
Sú grautargerð, sem undanfarin 4 ár hefur viðgengizt við stjórn landsins, einkennist af undirmálsvinnubrögðum, sem stefna landinu til hræðilegs ófarnaðar. Stefnumörkun stjórnvalda hefur borið merki hefndarþorsta í garð stjórnmálalegra andstæðinga og svo ófaglegra vinnubragða á öllum sviðum, að undrum sætir. Fórnarlambið er almenningur, og hagur hins vinnandi manns hefur algerlega verið fyrir borð borinn.
Dæmi um undirmálsvinnubrögð eru legíó, en nefna má samningana við Hollendinga og Breta um uppgjör útibúa Landsbankans þarlendis, Icesave-málið, svik við aðila vinnumarkaðarins, sem leiddi til trúnaðarbrests, fjárlög og rekstur ríkissjóðs og aðförina að atvinnuvegunum. Peningamálastefnan er kapítuli út af fyrir sig, þar sem gjörsamlega úreltum vinnubrögðum er beitt.
Hatrið í garð stjórnmálaandstæðinga náði sögulegu hámarki með því að kalla saman Landsdóm til höfuðs einum manni, Geir Hilmari Haarde, sem mátti bera syndir heimsins, en var sýknaður af öllum ákærum, nema einu léttvægu atriði um skort á formlegri dagskrá ríkisstjórnarfundar, og ákærendum gert að greiða allan sóknar-og varnarkostnað. Hvílík sneypuför vesalinga við völd.
Þeir hatursfullu einfeldningar, sem að þessu stóðu, hafa samt ekkert lært. Þeir góla enn á torgum um, að Hrunið sé Sjálfstæðisflokkinum að kenna, þrátt fyrir það, að Landsdómur hafi enga sök fundið hjá formanni hans, sem þá stóð í stafni. Hvergi nokkurs staðar í heiminum er slík fáfræði og grunnhygni við lýði að kenna stjórnmálamönnum um hrun peningakerfis heimsins haustið 2008. Hvað segja vinstri-grænir og fylkingarfélagar annars um hrunið á Kýpur núna ? Hefur evran orðið Kýpverjum björgunarhringur eða baggi ?
Það verður að setja íslenzka þjóðfélaginu skynsamlegri og verðugri markmið en núverandi valdaflokkar og allt kraðakið í kringum þá eru færir um að gera. Þar er nú ekki feitan gölt að flá. Þá verður að gjörbreyta forgangsröðun stjórnvalda, svo að kraftarnir beinist allir að því að stækka hagkerfið, eins og það framast þolir, til að losna sem fyrst út úr þeirri fátæktargildru, sem vinstri flokkarnir hafa leitt þjóðina í og tölur Hagstofunnar sýna svartar á hvítu; hagkerfið er botnfrosið.
Gamlir amlóðar, sem trúðu á roðann í austri, hafa valdið alkuli (-273°C) hagfótarins með flónslegum uppátækjum sínum, sem þá hefur dreymt um áratugum saman að prófa hér. Almenningur á Íslandi er nú fórnarlamb þjóðfélagstilrauna, sem alls staðar hafa leitt til hörmunga, þar sem jafnaðarmenn og aðrir sameignarsinnar hafa brotizt til valda. Nú í vor verður þetta lið, sem fimmtungur þjóðarinnar fylgir enn að málum, brotið á bak aftur og fátæktarhelsi þess kastað á ruslahauga sögunnar. Fréttastofa RÚV, sem gárungarnir kalla Tass, blandar sér nú blygðunarlaust í kosningabaráttuna fyrir afturhaldið í landinu. Hart er að þurfa að borga bullið úr eiginn vasa.
Í öndvegi verður að setja eftirfarandi stefnu, markmið og forgangsröðun:
Stefna: allar ráðstafanir hins opinbera skulu virka hagvaxtarhvetjandi. Aðgerðirnar skal vera unnt að rökstyðja sem hagvaxtarhvetjandi annaðhvort til skemmri eða lengri tíma eða hvort tveggja.
Markmið: stækkun hagkerfisins að raunvirði um a.m.k. 16 % á næstu 4 árum.
Forgangsröðun: (1) að koma rekstri ríkissjóðs á heilbrigðan grundvöll, þ.e. hann skili tekjuafgangi án þess að eyðileggja innviði samfélagsins, s.s. sjúkrahúsin, vegakerfið og menntakerfið. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs verður að samræma getu hans m.v. stærð hans, sem verði minni en 35 % af VLF, og draga verður úr ríkisábyrgðum í íbúðalánakerfi og hjá Landsvirkun. Stækkun skattstofnanna er lykilatriði til að ná þessu.
(2) Peningamálastefnan hafi hagvöxt og stöðugt verðlag að leiðarljósi. Dregið verði úr peningum í umferð með því að draga stórlega úr möguleikum bankanna til að búa til peninga með uppgíruðum lánveitingum m.v. eigið fé. Grunni vísitölunnar verði breytt til samræmis við Eurostat, hagstofu ESB, og spár um neyzlumynztur í stað þess að nota alltaf úreltan grunn.
(3) Hefja tangarsókn gegn gjaldeyrishöftum með samningaviðræðum um miklar erlendar fjárfestingar í landinu, sem skapa mjög mikið innflæði gjaldeyris í landið, og langvarandi auknar útflutningstekjur, og hins vegar harðar viðræður við eigendur bankanna og innistæðueigendur um afskriftir og skattlagningu útflæðis gjaldeyris. Að undangenginni áhættugreiningu varðandi gengi krónunnar skal aflétta höftunum í einu vetfangi í anda Dr Ludwigs Erhards.
(4) Gera skal samkomulag um stefnumörkun við aðila vinnumarkaðarins um áætlun til 4 ára, er spanni skattalækkanir, verðbólguþróun, atvinnustig og launahækkanir. Áður en kjörtímabilið verður á enda runnið skal vera búið að einfalda skattkerfið og lækka skattheimtuna verulega með það að markmiði að afnema allar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar á 6 árum. Áætlun nýrrar ríkisstjórnar um skattalækkun og stöðugleika mun strax hafa jákvæð áhrif til aukinnar neyzlu og fjárfestinga. Á árinu 2013 á að vera unnt að rífa hagkerfið upp úr feni samdráttar, og árið 2015 á hagvöxtur að geta náð 3 % á sjálfbærum grunni.
Hagtölur ársins 2012 sýna, svo að ekki verður um villzt, að efnahagsáætlun vinstri stjórnarinnar og AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hefur steytt á skeri. AGS ginnti ráðherra vinstri stjórnarinnar til að láta ríkissjóð taka rándýr lán af AGS, sem AGS græðir vel á vegna umframvaxta af Íslandi í nafni meiri áhættu, sem nemur um 30 milljörðum kr á ári. Það er afar slæm ráðstöfun að hálfu íslenzka ríkisins að taka slíkt lán fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Þarna hafa ráðherrarnir verið plataðir með svipuðum hætti og í Icesave-samningunum og afhendingu bankanna til kröfuhafanna. Hvert glappaskot flónanna hefur rekið annað, og hvert þeirra er dýrkeypt.
Einkaneyzla á mann á árinu 2012 var heldur minni en árið 2003 eða um MISK 1,75 á mann á verðlagi ársins 2005, þ.e. lífskjörin höfðu þá rýrnað sem svarar til afturhvarfs um 9 ár. Hrunið fór með einkaneyzluna 10 ár aftur í tímann eða aftur til 1998, úr MISK 2,15 á mann í MISK 1,62 eða 33 %. Þetta þýðir, að á 4 árum duglausrar ríkisstjórnar vinstri flokkanna hefur okkur aðeins miðað fram um eitt ár til að bæta lífskjarahrapið upp. Miðað við þróun hagkerfisins árið 2012 og nú 2013 er ljóst, að stjórnmálaflokkar núverandi ríkisstjórnar munu aldrei draga hagkerfið upp úr feninu.
Ráðherrarnir og ráðgjafar þeirra eru eitthvert glámskyggnasta fólk, sem um getur, enda dettur fáum í hug að veita þeim áframhaldandi ábyrgðarhlutverk. Steingrímur J. Sigfússon reit grein í Fréttablaðið 8. júní 2012 undir fyrirsögninni: "Batinn rækilega staðfestur." Þar sagði: "Síðustu daga hafa okkur birzt jákvæðir hagvísar úr ólíkum áttum. Opinberar tölur og greiningar staðfesta æ betur, að efnahagsbatinn er kominn á nokkuð traustan grunn." Á þessu skeiði var hagkerfið algerlega staðnað og jafnvel komið í samdrátt. Þetta túður ráðherrans sannar glámskyggni hans. Það er ekkert að marka manninn. Loddari heitir slíkur.
Í byrjun júlí 2012 skrifaði Gylfi, nokkur, Zoëga, fulltrúi ríkisstjórnarinnar í Peningastefnunefnd Seðlabankans, grein í Vísbendingu, sem hann nefndi Viðsnúning. Greinin er eins og eftir umsnúna endagörn: "Hvern skyldi hafa grunað, að kreppulokin yrðu án þess, að þeim væri veitt eftirtekt ?", stóð þar. Þetta var heilaspuni. Téða Gylfaginningu lásu margir yfir fyrir Gylfa auk ritstjóra Vísbendingar, s.s. Katrín Ólafsdóttir í Peningastefnunefnd Seðlabankans, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri og í Peningastefnunefnd, Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og í Peningastefnunefnd, og Björn Rúnar Guðmundsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst, að mælingakerfi Seðlabanka Íslands á hagþróun er handónýtt. Bankinn er allur í skötulíki undir núverandi stjórn. Hvaða ályktun á að draga um fólk, sem falið er að stjórna einhverju, en hefur eftir mörg ár ekki áttað sig á, að mælitækið á árangurinn er handónýtt. Skattgreiðendur ættu að setja það á guð og gaddinn.
Alger uppstokkun verður að eiga sér stað í Seðlabankanum, og innleiða verður nýja aðferðafræði við stjórnun peningamálanna. Eins og staðan er núna, er engin áætlun í gangi um losun gjaldeyrishaftanna. Höftin eru þó mesta efnahagsvandamál Íslands. Seðlabankastjóri falast eftir meiri völdum með svo kölluðum "þjóðhagsvarúðartækjum". Þau jafngilda ráðstjórn á Íslandi, og hugmyndin gæti verið komin frá Leon Trotzky. Peningamálastefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar fær falleinkunn, nema hjá hagfræðingum menntuðum í þýzka alþyðulýðveldinu, Deutsche demokratische Republik.
Vandinn, sem við blasir út úr hagvaxtartölunum, er allt of lítil framleiðniaukning. Hagvöxtur er samsettur úr auknu vinnuframlagi og framleiðniaukningu. Samkvæmt Hagstofunni voru ársstörf 1,1 % fleiri árið 2012 en 2011. Ef Hagvöxtur varð á sama tímabili 1,6 %, varð framleiðniaukning 0,5 %. Það er allt of lítið. Hún þarf að vera a.m.k. 3 % á ári, ef við eigum að verða samkeppnifær. Ef samdráttur varð í hagkerfinu á þessu tímabili, varð minnkun framleiðni. Þessi ömurlega þróun varð vegna mjög lítilla fjárfestinga. Þetta er ávísun á versnandi lífskjör, eins og í DDR forðum. Það er alveg fullreynt, að engin aukning verður á fjárfestingum með núverandi stjórnarstefnu við lýði. Borgaralegu flokkarnir eru eina von kjósenda í þessu tilliti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2013 | 21:04
Á vegum vinstri grænna
Stjórnarflokkarnir hafa troðið einstrengingslegum og skaðlegum stefnumálum sínum upp á landsmenn í skjóli alþjóðlegrar peningakreppu, sem reið þremur bönkum hér að fullu haustið 2008. Þó að þessum bönkum væri stjórnað af sjúklegri áhættusækni, er kollhnís banka ekki einsdæmi á Norðurlöndunum eða annars staðar í seinni tíð, nema síður sé.
Norska bankakerfið lagðist á hliðina árið 1990, og uppdráttarsýki herjaði á sænska bankakerfið um sömu mundir. Munurinn á Íslandi og Noregi var, að norsku bankarnir voru ekki jafnsvakalega þandir (uppgíraðir) og íslenzku bankarnir, og vegna olíuauðsins hafði norska ríkið meira svigrúm til að hlaupa undir bagga. Neyðarlögin voru hin íslenzka sérlausn. Allar bólur ber að forðast og kæfa í fæðingunni.
Alþekkt er andstaða vinstri manna gegn bifreiðum, vegalagningu og brúarsmíði. Aðalfórnarlambið undir niðurskurðarhnífi Steingríms, þáverandi fjármálaráðherra, varð Vegagerð ríkisins, og voru græningjar þar samir við sig. Fjárveitingar til hennar voru fundið fé fyrir vinstri menn, og þar var höggvið í sama knérunn hvað eftir annað í algerri blindni forstokkaðra stjórnmálamanna gegn viðvörunarorðum sérfræðinga og ýmissa stjórnmálamanna. Mun niðurskurður til viðhalds vega hafa numið 15 milljörðum kr á ári, og blasir nú við, hvílíkt fádæma glapræði það var, enda vöruðu verkfræðingar Vegagerðarinnar alvarlega við þessari skómigu ríkisstjórnarinnar. Hún fussaði og kvað þá bara míga upp í vindinn.
Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stöðvað nánast allar vegaframkvæmdir í landinu og skorið viðhaldsfé Vegagerðarinnar niður um helming. Þetta hefur valdið stórtjóni og aukið slysahættu. Á sama tíma hefur sú arma ríkisstjórn hækkað álögur á bifreiðaeigendur og á eldsneyti upp úr öllu valdi. Þessu verður að linna, og þessari öfugþróun verður að snúa við. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 hét að hefja þá vegferð við fyrsta tækifæri. Lætur nærri, að ríkissjóður hafi hirt árlega um 10 milljarða kr af viðbótar skattfé, sem renna ætti í viðhaldssjóð Vegagerðarinnar. Þar með hefur hún rænt ökutækjaeigendur 25 milljörðum kr á ári, og er þá vægt reiknað. Svo berja þessir garmar sér á brjóst og þykjast erfiða við að bjarga þjóðinni, þegar sannleikurinn er sá, að þetta kann ekkert til verka, og öll orkan fer í innbyrðis deilur. "Hvílíkur Jón í Hvammi."
Ríkisstjórnin, sem virðist vera skipuð óvitum, sem engan gaum gefa að afleiðingum gjörða sinna, heldur setja undir sig (heimskan) hausinn og kæra sig kollótta. Hún skal aldrei greina afleiðingar gjörða sinna áður en haldið er af stað, og þess vegna er undir hælinn lagt, hvort hún lendir úti í mýri með mál eða ekki. Oftast fréttist af þessu fyrirbrigði utan vegar. Síðast var Guðmundur Steingrímsson gerður út af örkinni frá hjáleigunni til að ýta. Það breytti þó engu.
Nú blasir við, að téður "sparnaður" ríkisstjórnarinnar var tóm tjara. Undirlag veganna er að brotna undan umferðarþunganum og vegna hönnunar þeirra og öldrunar. Upp vellur tjara. Styrkja verður vegina umtalsvert, svo að þeir þoli þungaflutninga til samræmis við þá, sem leyfðir eru á vegum Evrópu, 49 t. Til þess þarf að endurhanna þá áður en að viðhaldi þeirra kemur. Að þessu verður næsti samgönguráðherra að snúa sér af alvöru, láta Vegagerðinni í té allt fé, sem eyrnamerkt er bílum og umferð á vegum skattheimtunnar og gefa skýr fyrirmæli um að uppfylla Evrópustaðla í vegagerð. Þetta er stórfellt öryggis-og hagsmunamál, og fátt er jafnarðsamt og fjárfesting í vegaumbótum.
Innanríkisráðherra er að gæla við strandsiglingar m.a. til að hlífa vegunum. Ef hann kemst að því, að þær beri sig, er það gott og blessað, en eftir því sem næst verður komizt hafa engar grundvallarbreytingar orðið á hagkvæmni strandsiglinga síðan Ríkisskip voru lögð niður vegna taprekstrar í tíð Halldórs Blöndals, þáverandi samgönguráðherra, ef þann, sem hér heldur á fjaðurstaf, misminnir ekki.
Vegakerfi Íslands er landsmönnum enn ekki sæmandi, og verður svo ekki fyrr en vegirnir standa tæknilega og öryggislega undir þeirri umferð, sem þar er og verður. Einbreiðum brúm á hringveginum og á öðrum þjóðvegum verður að útrýma á næstu 10 árum öryggisins vegna. Þjóðvegirnir eru skammarlega mjóir víða, krókóttir og mishæðóttir, og víða vantar vegrið við kanta, þar sem bratt er niður. Aðgreining umferðarstefna með vegriði hefur aukið öryggið mikið, þar sem slíkt hefur verið sett upp. Það er engin goðgá að gera slíkt á milli einfaldra akreina á hættulegum köflum. Markmiðið hlýtur að vera 0 dauðaslys á vegum landsins.
Á skattasviðinu hefur vinstri stjórnin farið hamförum og fengið Alþingi til að samþykkja gamla drauma flokka sinna um skattlagningu, sem hafa valdið stórtjóni á hagkerfinu og keyrt það í stöðnun, ef ekki samdrátt árið 2012, sem slær öll met niður á við norðan Alpafjalla. Vinstri flokkarnir líta ekki á skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opnbera, heldur tekjujöfnunarkerfi yfirvalda á þegnana. Ríkisstjórnin hefur ekki sniðið skattheimtuna við hámörkun opinberra tekna, heldur við mismunun þegnanna eftir tekjustigi. Þetta glapræði að hálfu ríkissjóðs hefði engum getað dottið í hug, nema hagfræðingi menntuðum í austur-þýzka alþýðulýðveldinu. Þetta hefur komið alveg einstaklega illa við ungt fólk, sem er að koma undir sig fótunum í atvinnulífinu og að stofna til heimilis. Þessi hópur þarf mest á háum ráðstöfunartekjum að halda, og þessi hópur er dýrmætastur hverju samfélagi. Einmitt þessi hópur hefur flúið land. Afleiðingin af óréttlátri og óhóflegri skattheimtu ríkisstjórnarinnar er, að hagkerfið hjakkar í sama farinu og nær sér alls ekki á strik, þar sem umgjörð yfirvaldanna er afar letjandi. Þetta er skýringin á langvinnustu kreppu í vestrænu samfélagi, sem um getur á seinni tímum, ef Grikkirnir með sinn hrikalega vanda af völdum evrunnar, sem þeir tóku upp á fölskum forsendum, eru undan skildir. Þess má geta í framhjáhlaupi, að Samfylkinguna virðist dreyma um upptöku evru á fölskum forsendum, því að allar lausnir hennar á vandanum í núinu snúast um gjaldmiðilsskipti strax. Ef af því yrði, væri það algert brot á Maastricht-sáttmálanum og þar með án réttra forsendna gjaldmiðilssamstarfs ESB, EMU II. Samfylkingarmenn halda því líka fram, og benda þá á Eystrasaltslöndin, að við það að taka stefnuna á evruna muni efnahagsstjórnunin lagast. Hér skal ekki mótmæla þessu, en hvað þýðir það að taka stefnuna á evruna. Það þýðir að gera Maastricht-skilyrðin að stefnumiði. Sá, hér heldur á fjaðurstaf, vill gjarna leiða Maastricht-skilyrðin til öndvegis við hagstjórnina, en þó að það sé gert, liggur ekkert á að blanda sér í þá gjörningahríð, sem væntanleg er innan ESB. Það er komið í ljós, að Þýzkaland og Frakkland geta ekki búið við sama gjaldmiðil, og skyldi engan undra, og Englendingar kunna að segja skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017; spurning hvað Skotar gera.
Atvinnulífið hefur verið þrúgað undir sameignarsinnunum. Er kominn tími til, að ríkisvaldið hætti hernaði sínum gegn fólki og fyrirtækjum í landinu, sem stundaður er í nafni úreltra og heimskulegra hugmynda um stéttabaráttu og ríkiseign á öllu, smáu sem stóru. Verst hafa stjórnvöld farið með sjávarútveginn, og varðar sú mismunun í skattlagningu, m.v. fyrirtæki í öðrum greinum, sennilega við ákvæði í Stjórnarskrá um atvinnufrelsi, jafnrétti og eignarrétt. Skattheimtan á útvegsfyrirtækin og fiskvinnsluna tekur út yfir allan þjófabálk, og hún er svo þungbær, að fyrirtækin rísa ekki undir henni. Verður að afnema hið stórskaðlega og afspyrnu heimskulega veiðigjald strax og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og þing kemur saman. Sjávarútvegurinn getur sáralítið fjárfest undir klafa sameignarsinna, en við eðlileg skilyrði þarf hann og getur fjárfest fyrir ISK 15 mia.
Íslenzki sjávarútvegurinn stendur í harðri samkeppni við norska sjávarútveginn og sjávarútveg ESB, og flausturslegt fikt við afkomu hans og stöðugleika er stórkaðlegt, og vegna umfangs hans í þjóðarframleiðslunni eru atlögur stjórnvalda gegn honum þjóðhættulegar. Það er lágmarksskylda stjórnvalda að tryggja sjávarútveginum jafna rekstraraðstöðu á við annan fyrirtækjarekstur í landinu. Túðrinu um meinta auðlindarentu verður að linna. Það mun aldrei takast að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi einum af allri sjávarútvegsstarfsemi við Norður-Atlantshaf. Annaðhvort er hún þar alls staðar eða hvergi.
Menn hafa velt fyrir sér, hvar fjárfestingartækifæri væru á Íslandi á næstunni. Sá, er hér heldur á fjaðurstaf enn einu sinni, telur reyndar vera gríðarleg tækifæri í nýjum orkukræfum verksmiðjum, en hér skal minnast á annað og síður umdeilt svið, þar sem er fiskeldið. Þar hentar Ísland vel frá náttúrunnar hendi, eins og Noregur, sem hefur náð góðum árangri á þessu sviði og við getum lært margt af. Fyrir 30 árum sleit þessi grein barnsskónum í Noregi og setti sér þá markmið um að framleiða 1 milljón tonna af eldisfiski um 2010, og þeir hafa nú náð þessu marki. Við erum nú að slíta barnsskónum á þessu sviði og ættum að gera áætlun um fimmtánföldun framleiðslunnar á 15 árum. Til þess þarf fjárfestingarfé, þekkingu og talsverðan mannafla, sem mun bæta hag dreifðra byggða, t.d. á Vestfjörðum. Til að komast upp úr algerri stöðnun, sem vinstri stjórnarhættir og glópahagstjórn hefur leitt yfir okkur, verður að þrefalda fjárfestingar hið minnsta frá því, sem nú er.
Menntakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum athafnalífsins, enda hefur menntamálaráðherra engan hug á því, og hefur ekki ákvarðað forgangsröðun til menntamála með hagsmuni helztu atvinnugreina á Íslandi í huga. Landbúnaðurinn hefur sína sérskóla, og þar þarf fyrir atbeina ríkisins að efla fræðslu fyrir fiskeldið. Það er þörf á eflingu menntunar fyrir sjávarútveginn á sviði skipstjórnunar, vélstjórnunar, rafvirkjunarstarfa um borð og framleiðslustjórnunar um borð og í landi, svo að fátt eitt sé talið. Stóriðjan er alger hornreka í menntakerfinu. Áherzlur menntamálaráðherra eru á sviði hugvísinda á kostnað raunvísinda, og hún eykur einsleitni á kostnað fjölbreytni með því að þrengja að einkaskólum. Áherzlur vinstri manna eru á öllum sviðum sama markinu brenndar, þ.e. að auka miðstjórnarvald fremur en að auka heildarskilvirkni kerfisins.
Eitt ráð til að auka framleiðni er að leyfa fyrirtækjum að vaxa til að þau geti nýtt hagkvæmni stærðarinnar. Norðmenn leyfa hámarksumfang hvers útgerðarfyrirtækis í hverri tegund upp undir 25 %. Hér er markið 12 % af aflahlutdeild og er tekið að standa frekari hagræðingu fyrir þrifum. Væri rétt að tvöfalda þetta mark í 4 þrepum á 8 árum.
Framleiðni í fjármálageiranum er of lág, sem ásamt öðru veldur of háu vaxtastigi í landinu. Starfsemi bankanna er með ríkistryggingu, sem ýtir ekki undir hagræðingu. Það gengur ekki að vera með ríkistryggingu á starfsemi fjárfestingarbanka. Hana á að taka af, nema bankarnir kljúfi fjárfestingastarfsemina frá innlánastarfseminni, og Samkeppnisstofnun ætti í kjölfarið ekki að standa gegn sameiningu tveggja af þremur stærstu innlánastofnununum.
Framsóknarflokkurinn siglir nú beggja skauta byr í fylgismælingum. Hófst fylgisaukning flokksins fyrir alvöru með uppkvaðningu dóms EFTA dómstólsins í janúar 2013. Þá kom í ljós, að Framsóknarflokkurinn hafði sýnt heilsteyptustu dómgreindina í Icesave-málinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mestu staðfestuna. Nú vill fólk veðja á þennan unga mann og láta reyna á hann og hans fólk við stjórnvöl landsins. Það er vel skiljanlegt og hægt að samfagna með Framsóknarmönnum, enda gengur ekki hnífurinn á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það er engin þörf fyrir Sjálfstæðismenn að hengja haus, svo lengi sem summa fylgis flokkanna er vel yfir 50 %. Borgaraleg ríkisstjórn er það, sem þetta land þarf nú, og nú stefnir í, að hún verði undir forsæti Framsóknarflokksins. Í ljósi stjórnmálastöðunnar í landinu núna er það engin goðgá. Tveir jafnstórir flokkar geta myndað stálbryddaða ríkisstjórn.
Á sama tíma er formanni Samfylkingar siginn larður í 12,5 %. Sá maður er svo leiðinlegur á að hlýða, að með eindæmum er. Að annarri eins loðmullu og froðusnakki er leitun. Nýjasta spekin frá þeirri mannvitsbrekku er, að gengisfelling krónunnar hafi ekkert gagnazt sjávarútveginum, af því að útflutningsmagnið hafi staðið í stað. Þessi ESB-taglhnýtingur á bágt. Hann veit ekki, að það er fiskveiðistjórnunin, aflamarkskerfið, reist á vísindalegri ráðgjöf, sem setur veiðunum skorður. Afkastageta flotans og útflutningsgeta sjávarútvegsfyrirtækjanna er miklu meiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2013 | 20:24
Í kjölfar landsfunda
Nú hafa nánast allir stjórnmálamenn landsins fengið tækifæri til að ráða ráðum sínum við helztu stjórnmálaáhugamenn landsins innan vébanda stjórnmálaflokkanna. Hver er afraksturinn ?
Það, sem út á við snýr, og stjórnmálamennirnir hafa látið frá sér fara, vitnar um ónóga hugmyndaauðgi og skort á dirfsku, þó að ljóst megi vera, að arfleifð fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar er með þeim hætti, að landið færist stöðugt nær gjaldþrotsbarmi, enda allar ráðstafanir vinstri stjórnarinnar kolrangar, hafa magnað vandann, og allt of miklu hefur verið ýtt á undan sér. Af þekktum dýrategundum hefur þessi dæmalausa ríkisstjórn mest líkzt strútinum. Hún hefur, eins og hann, stungið hausnum í sandinn, þegar vandi hefur steðjað að.
Stærri stjórnarflokkurinn, sem er nú aðeins einn af stærri smáflokkunum á vinstri væng stjórnmálanna, enda býður hann fram klofið, verður æ furðulegri eftir því, sem hann eldist. Hann er ekki lengur flokkur almúgamanna, heldur menntamanna á ríkisjötunni, sem slegnir eru Evrópublindu. Forysta þessa flokks neitar að viðurkenna staðreyndir varðandi ESB, en hefur reist sér einhvers konar skýjaborg um þennan klúbb, sem horfist nú í augu við illviðráðanlegan vanda innbyrðis sundurþykkju af völdum mjög ólíkra hagsmuna. Þó að sá, er hér heldur á fjaðurstaf, vildi gjarna ganga í þennan klúbb, þá gæti hann ekki unnið sér það til lífs að útskýra á hvaða vegferð þessi klúbbur er, og er þó sæmilega upplýstur. Samfylking Árna Páls er einsmálsflokkur. Öll vandamál eru leidd í jörðu með innihaldslausum fullyrðingum, hreinræktuðu lýðskrumi, sem líkist málflutningi trúarhópa um betra líf eftir dauðann. Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óboðlegur hérlendis árið 2013.
Efnahagsstefna þessarar flokksónefnu malarbúa á suðvesturhorninu fjallar um frjálsan innflutning matvara og lifandi dýra til landsins og upptöku evru, eins og það er ósmekklega kallað. Nýleg dæmi sýna í hnotskurn, hversu mikil afturför yrði frá gæða-og heilbrigðissjónarmiði að flytja hingað ótæpilegt magn af kjöti frá Evrópu, en glæpasamtök hafa verið orðuð við viðskipti í þeirri grein, og þá er hvorki spurt um gæði né hollustu, heldur einvörðungu stundargróða. Þá er reynslan af innflutningi lifandi dýra svo hrikaleg vegna sjúkdómadreifingar, að menn ættu ekki einu sinni að ýja að slíku.
Talsmenn "stærsta" flokksbrotsins á vinstri vængnum, ekki sízt sá, sem nú er kallaður formaður flokksins án þess greinilega að stjórna flokkinum, því að gamla illindaskakið lætur ekki völdin eftir, láta sig hafa það að bera á borð fyrir alþjóð málflutning, sem hverju barni er samt ljóst, að gengur ekki upp. Það á sem sagt að leysa hvers manns vanda með því að skipta um lögeyri í landinu. Þetta er eins heimskulegur málflutningur og hugsazt getur. Menn skipta ekki um lögeyri eins og brókina sína. Slíkt gera menn einvörðungu eftir vandaða áhættugreiningu að beztu manna yfirsýn, þar sem menn hafa sannfærzt um, að hagvöxtur verði bezt tryggður í hagkerfinu með þeim hætti.
Hagstjórn á að snúast um að hámarka hagvöxt. Þetta eiga vinstri menn bágt með að skilja, enda eru margir þeirra hreinlega á móti hagvexti, svo að ekki er kyn, þó að keraldið leki. Ef hagsveiflan hér er ólík því, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem Ísland væri aðili að, býður slíkt upp á vandræði; annaðhvort meiri verðbólgu hér út af of lágum vöxtum eða atvinnuleysi út af of háum vöxtum. Hins vegar dregur hagkerfisþróunin hérlendis æ meira dám af þróuninni í Evrópu eftir því sem iðnvæðingu landsins vindur fram.
Það felur í sér uppgjöf og mikinn blekkingaleik gagnvart kjósendum að halda því fram, að lausn íslenzks efnahagsvanda felist í að skipta um mynt. Lausnin felst aftur á móti í að þróa og efla hér hagstjórn, sem elur af sér stöðugleika og trausta mynt, þ.e. mynt, sem styrkist smám saman frá því, sem nú er, t.d. í u.þ.b. 100 kr per bandaríkjadal. Ef ekki er unnt að ná tökum á peningamálastjórninni og samræma hana ríkisbúskapinum, þá mun nauðsynlegar forsendur gjaldmiðilsskipta skorta.
Andróðurinn gegn formanni Sjálfstæðisflokksins er viðurstyggilegur. Hælbítar hans setja aðallega fyrir sig þátttöku hans í atvinnulífinu fyrir og í peningakerfishruninu. Fyrirtæki, sem hann var viðriðinn, lentu í vandræðum og urðu sum gjaldþrota, en það er ekki vitað til, að þau eða eigendur þeirra hafi fengið 1 kr afskrifaða af skuldum sínum. Eigendurnir, þ.m.t. ættmenni Bjarna Benediktssonar, töpuðu hins vegar stórupphæðum. Svipað var ástatt um annan formann Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Thors. Kveldúlfur varð gjaldþrota, og áttu Thorsarar lengi vel undir högg að sækja út af því. Báðir voru þessir menn og eru taldir vera stálheiðarlegir. Það er mikill kostur fyrir stjórnmálamann að hafa tekið þátt í viðskiptalífinu. Við sjáum glópsháttinn og viðvaningsbraginn á öllum málatilbúnaði núverandi ráðherra til samanburðar. Þeir kunna ekkert til verka. Landsfundur Sjálfstæðismanna skildi þetta, og 4/5 fulltrúanna studdu formanninn til að verða sitt forsætisráðherraefni.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er fremstur á meðal jafningja, "Primus inter Pares", í sínum flokki, og hann ber augljóslega af formönnum hinna flokkanna fyrir sakir menntunar sinnar og staðgóðrar og yfirgripsmikillar þekkingar, sem hann hefur aflað sér á landshögum og helztu hagsmunamálum þjóðarinnar. Stingur hann algerlega í stúf við gösslarahátt hinna formannanna, svo að ekki sé nú minnzt á forystu ríkisstjórnarinnar, sem veður á súðum í hverju málinu á fætur öðru og skortir augljóslega dómgreind til að leiða nokkurt mál til farsælla lykta.
Vinstri grænir settu litlausan varaformann til valda, sem óttalega lítið hefur kveðið að til þessa og ekki er hægt að búast við miklu af. Formaðurinn er kurteis, sem ber að virða, en ferillinn í menntamálaráðuneytinu er markaður tilhneigingunni til einsleitni í rekstrarformi hins opinbera og að þola illa samkeppni frá einkageiranum. Hér, eins og annars staðar, er rétt að leita sparnaðar með því að leyfa einkaframtakinu að spreyta sig. Grunnhugsunina um jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags ber þó að virða. Menntun í vísindum, tækni og iðngreinum, er góð og nauðsynleg fjárfesting fyrir þjóðfélagið, en við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu raunvísindagreina á kostnað hugvísindanna. Gæði menntunar á sumum sviðum raunvísindanna hérlendis eru óboðleg og standa framfarasókn þjóðfélagsins fyrir þrifum.
Nýlega afhjúpaði nýkjörinn formaður vinstri grænna sig sem ábyrgðarlausan stjórnmálamann, loddara. Hún lagði fram á síðustu dögum þingsins frumvarp um Lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem er slík hrákasmíð, að jafnvel umsögn ráðuneytis nöfnu hennar Júlíusdóttur gefur frumvarpi mennta-og menningarmálaráðherra falleinkunn. Katrín kastar fram kolrangri og allt of lágri tölu um líklegan kostnað af frumvarpinu. Katrín, formaður vinstri grænna, vill hlaða undir góða og samvizkusama nemendur og gefa þeim upp skuldir við LÍN. Fjárlagaskrifstofa fjármála-og efnahagsráðuneytisins áætlar árlegan kostnað af þessu verða tæpa 5 milljarða kr, sem með vöxtum verða um 100 milljarðar að 10 árum liðnum. Þar sem hér er um útgjaldaauka að ræða hjá ríkisstjóði, sem rekinn er með halla, verður að slá lán fyrir þessu, og þess vegna er eðlilegt að reikna á upphæðina vexti. Við höfum ekki efni á slíkri greiðvikni við góða nemendur, enda mundi hún fljótt hitta þá fyrir sem bjúgverpill bágstadds ríkissjóðs. Þarna sjá menn forgangsröðun hinnar undarlegu Katrínar Jakobsdóttur í hnotskurn. Hún mun verða myllusteinn um háls hennar, það sem eftir er. Hláleg frammistaða nýs formanns.
Vinstri grænir með atvinnuvega-og nýsköpunarráðherrann í broddi fylkingar hafa tekið undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar kverkataki í nafni sameignarstefnunnar, og þeir hafa skákað í skjóli túlkunar sinnar á lagaákvæðinu um, að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina. Þeir hafa túlkað þetta þannig, að ríkið eigi hana, sem er tóm vitleysa, og nú stefnir í, að eigið fé sjávarútvegsins þurrkist upp fyrir tilverknað sameignarsinna, og er það vafalaust í samræmi við ætlun þeirra. Þessi eignaupptaka mun einnig leiða til stórvandræða lánastofnana. Þjóðin í heild mun bera skarðan hlut frá borði, ef þetta brölt verður ekki stöðvað og undið ofan af vitleysu vinstri grænna og annarra marða. Ef svo fer fram sem horfir, þurfa útgerðarfyrirtækin að afskrifa 11 milljarða kr á ári af bókfærðum aflaheimildum, sem hafa verið keyptar. Það er ekkert tillit tekið til fjárfestingarþarfarinnar í greininni, sem er um 20 milljarðar á ári, til að viðhalda samkeppnihæfninni við erlend fyrirtæki, og ekki heldur tekið tillit til fyrri fjárfestinga, sem vissulega hafa verið undirstaða hagræðingar í greininni, sem hefur haft mjög mikil og góð þjóðhagsleg áhrif. Tröll leika sér hér með fjöregg þjóðarinnar. Þau hafa aldrei migið í saltan sjó, en telja sig þó þess umkomin að hafa vit fyrir útgerðinni. Þetta vit er ekki meira en guð gaf, og það er mjög af skornum skammti, þegar þingmenn ríkisstjórnarinnarinnar og ráðherrarnir sjálfir eiga í hlut. Sennilega er allur þessi hrærigrautur lögleysa.
Næsta þing mun kveða upp úr um það, hvort stjórnvöld hafi rétt til að veikja stöðu íslenzks sjávarútvegs í samkeppni við Norðmenn og aðra. Næsta þing mun kveða upp úr með það, hvort það telji stjórnmálamenn og embættismenn betur til þess fallna en útgerðarmenn að hámarka framleiðni sjávarútvegsins. Næsta þing mun kveða upp úr um, hvort leita eigi að auðlindarentu í bókhaldi sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja og aðeins þar.
Til að reikna út veiðigjaldið er notuð tölfræði frá Hagstofunni, sem er góð og gild, en hentar engan veginn til skattlagningar á fyrirtæki. Þá er veiðigjaldið lagt bæði á fiskveiðar og vinnslu, sem skýtur skökku við, því að auðlindarenta er sögð lögð til grundvallar. Hún hefur hins vegar aldrei fundizt, af því að útgerðin stendur í strangri samkeppni við erlendar útgerðir, sem ekki búa við auðlindagjald, heldur þvert á móti fá þær opinberan stuðning. Það er þess vegna engin sanngirni í að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg með þeim hætti, sem nú er gert. Að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg á grundvelli meintrar auðlindarentu er svipuð ósanngirni og að leggja kolefnisgjald á hann, þó að sjávarútvegur í samkeppni við þann íslenzka sleppi við slíkar álögur. Allt, sem yfirvöld aðhafast og er til þess fallið að draga úr samkeppnihæfni íslenzkra fyrirtækja, er forkastanlegt, enda jafngildir slíkt kjararýrnun hér.
Það stefnir í, að 65 % af framlegð (EBITDA) fyrirtækjanna verði tekin af þeim með þessum hætti og þar á ofan 20 % tekjuskattur, sem jafngildir þá í heildina yfir 70 % af framlegð. Þetta er óðs manns æði og mun ganga af sjávarútveginum dauðum með hrikalegum afleiðingum fyrir fólkið í landinu. Þetta er sósíalismi andskotans.
Sáttaleið getur falizt í gjaldi, sem er reiknað af tekjuafgangi fyrirtækjanna, en ekki framlegð, og þar sem skattféð sé eyrnamerkt og renni í hafnarsjóð, til Landhelgisgæzlunnar, til Hafrannsóknarstofnunar og til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Með öðrum hætti er ekki hægt að réttlæta sértæka skattlagningu af sjávarútveginum. Þjóðareignin er hins vegar fólgin í réttinum til að stjórna fiskveiðikerfinu og að ákvarða aflamagnið, sem er inngrip í eignarréttinn, og í lagaákvæðinu um þjóðareign á fiskimiðunum er jafnframt fólginn réttur stjórnvalda til að verjast ásókn erlendra fyrirtækja og ríkja í téða auðlind.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)