Að taka flugið

Barátta Samfylkingarinnar gegn flugrekstri í landinu er farin að taka á sig bæði grafalvarlegar og fáránlegar myndir.  Um er að ræða atlögu að einkaframtaki og innviðum landsins í senn.  Menn minnast undarlegrar ráðgefandi atkvæðagreiðslu R-listans í Reykjavík um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem spurning var óljós (eins og spurningavaðallinn um uppkast að Stjórnarskrá) og þátttakan álíka lítil í prósentum talið.  Afar mjótt varð á munum. Það er grundvallaratriði, þegar efna á til atkvæðagreiðslu á meðal almennings um tilvist flugvallar í höfuðborg landsins, að slík verður að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Miðstöð innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þar sem ljóst er, að verði Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni eyðilagður frá öryggislegu sjónarmiði eða lagður alfarið af, þá leggst innanlandsflugið niður.  Þar með yrði stórt skarð höggvið í almenningssamgöngur á Íslandi og innviðum landsins unnið óbætanlegt tjón.  Til að stöðva skaðvaldana þarf nýtt Alþingi að setja lög um, að í Vatnsmýrinni skuli vera miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.  "Basta."

Þeir, sem af einhverjum ástæðum eru andsnúnir Vatnsmýrarvellinum í sinni núverandi mynd, verða einfaldlega að líta á þennan flugvöll sem fórn Reykjavíkur fyrir að hafa orðið fyrir valinu til að gegna hlutverki höfuðborgar landsins.

Fjárhagslega er það þó engin fórn.  Þvert á móti er gróði að flugvellinum fyrir Reykjavík og ríkissjóð.  Hundruðir Reykvíkinga hafa beina atvinnu af flugvellinum og þúsundir, þegar afleidd störf eru meðtalin.  Verðmæti flugvallarins fyrir Reykjavík hefur verið metið á móti söluandvirði lóða í Vatnsmýrinni.  Það er undarlegt hagkvæmnimat.  Það væri aðeins gilt sjónarmið, ef hörgull væri á lóðum, en svo er alls ekki, hvorki í landi Reykjavíkur, Kópavogs né Garðabæjar.  Á flugvellinum fer fram öflug atvinnustarfsemi, sem skapar höfuðborginni milljarða kr í tekjur árlega.  Tekjur af lóðasölu og tekjur af íbúum í Vatnsmýri umfram önnur hverfi getur ekki keppt við öfluga atvinnustarfsemi, sem að hluta til er gjaldeyrisskapandi. 

Þá er talað um aksturssparnað Vatnsmýraríbúa vegna miðlægrar legu Vatnsmýrar.  Hér virðast forsendur þær, að flestir íbúar Vatnsmýrar mundu stefna til vinnu í Háskólana, Landsspítalann eða Kvosina.  Þetta stenzt varla, og eru allsendis ótæk rök fyrir því að úthýsa flugvellinum.  Fyrirsjáanlega yrði umferðaröngþveiti í þessum þrengslum, nema verulegar samgöngubætur fylgi, ef þetta gengi eftir og Háskólasjúkrahús risi á Landsspítalalóðinni. 

Saga flugsins á Íslandi er stórmerkileg, og innanlandsflugið hefur gegnt veigamiklu þjónustuhlutverki við landið allt.  Það hefur í raun fært höfuðborgina nær landsbyggðinni, ef svo má að orði komast.  Það er ekkert, sem komið getur skammlaust í stað innanlandsflugsins.  Þá gera fjölmargir einkaflugmenn út frá Vatnsmýrinni, og einkaflugið er hluti af þeim lífsstíl og lífsgæðum, sem við teljum mörg vera eftirsóknarverð.  Veigamikil og mikilvæg kennslustarfsemi fyrir verðandi flugmenn fer fram þarna.  Það er ómetanlegt fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis að hafa svo öruggan flugvöll innan seilingar. 

Reykjavíkurflugvöllur gegnir veigamiklu öryggishlutverki, sem Samfylkingin, af sínu einkennilega kæruleysislega ábyrgðarleysi, er stöðugt að reyna að rýra.  Heggur sá, er hlífa skyldi, má segja um Dag, lækni, og fyrrverandi varaformann Samfylkingar, því að sjúkraflug eru líklega að nálgast 1000 á ári, þegar vængjað flug og þyrluflug er saman talið.  Er alveg öruggt, að margur á líf sitt og/eða heilsu því að þakka að hafa komizt undir læknishendur svo greiðlega sem flugið eitt og nánd Reykjavíkurflugvallar við Landsspítalann ein leyfði. 

Innanlandsflug er landsmönnum nauðsyn af öryggisástæðum, t.d. ef mikil vá ber að dyrum, og samgönguleiðir á landi lokast, og til að tryggja greiðar samgöngur á milli höfuðborgarinnar og hinna fjarlægari staða á landsbyggðinni.  Innanlandsflugið kemur að mörgu leyti í stað lestarsamgangna, sem tengja þorp, bæi og borgir annarra landa traustum samgönguböndum.  Það er þess vegna aðför að öryggi landsmanna og lífsgæðunum í landinu að standa í stöðugum hernaði gegn fluginu.  Þetta hefur einn stjórnmálaflokkur í landinu þó gert sig sekan um.  Samfylkingin stefnir á að leggja Vatnsmýrarvöllinn niður og þar með að tortíma innanlandsfluginu.  Á sama tíma sendir hún strætó landshornanna á milli, niðurgreiddan, m.a. af fluginu.  Þetta ráðslag er óþolandi og verður að gera afturreka strax, enda er ekki heil brú í þessu stefnumáli Samfylkingarinnar fremur en mörgum öðrum.  Þeim þykir betra að veifa röngu tré en öngvu.  Þessa niðurrifsstarfsemi lattélepjandi sauðargæra ("borgarsveitalubba" sagði Árni Johnsen) í 101 verður að kveða í kútinn á næsta kjörtímabili.  Það getur Alþingi gert.

Í marz 2013 gerðu núverandi og fyrrverandi varaformenn Samfylkingar með sér "marksamning" (er það sama og markmið ?) án aðkomu innanríkisráðherra, sem nú um stundir er vinstri-grænn og fer með forræði Vatnsmýrarvallar, um sölu ríkisins á 11,2 ha á suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Í frétt Reykjavíkurborgar um atburðinn segir svo:

"Vinna við skipulagið hefst fljótlega, þótt ljóst sé, að uppbygging fari ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hafi (svo ?) formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar."  

Þetta er stríðshanzki framan í innanríkisráðherra og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli sem og alla viðskiptavini flugrekendanna.  Árið 1999 teygði samgönguráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns sig langt til að skapa frið um flugvöllinn, en sá friður var rofinn þarna.  Viljayfirlýsingin á milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar var um lokun NA-SV brautar Reykjavíkurflugvallar.  Sú lokun mun þýða 1 % fall í nýtileika flugvallarins, þ.e. úr 99 % í 98 %.  Frá öryggissjónarmiði er þetta óásættanlegt, og þess vegna var sleginn sá varnagli, að lokuð braut með svipaða stefnu á Keflavíkurflugvelli yrði fyrst enduropnuð og gerð tiltæk fyrir notendur Reykjavíkurflugvallar.  Það hefur enn ekki verið gert.  Forræðishyggjustjórnmálamenn kasta á milli sín fjöreggi flugfarþega.  Hver vill leggja öryggi sitt í hendur loddara, sem vaða áfram í villu og svíma, og skortir augljóslega dómgreind til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri ? 

Við ríkisstjórnarskiptin 24. maí 2007 tók við samgönguráðherra Samfylkingar.  Hann hafði aðrar áherzlur en fyrirrennari hans í embætti úr röðum sjálfstæðismanna, og tók fjárveitingu til opnunar téðrar SV-NA-brautar á Keflavíkurflugvelli út úr samgönguáætlun.  Ef Samfylkingin verður látin komast upp með að reka stöðugt hornin í flugið, þá leggst innanlandsflugið af fyrr en varir.  Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi fyrir landsmenn alla til að láta slíka öfugþróun viðgangast, og það eru til meðul, sem hrífa í þessu sambandi.  Varaformennirnir þurfa að fá að bergja á beizkum kaleik.  

Samfylkingin ræðst að fluginu úr annarri átt.  Hún ætlar að kyrkja innanlandsflugið með gjaldtöku og skattlagningu, svo að flugrekendur verði að leggja upp laupana vegna of fárra farþega.  Þar með verður eftirleikurinn auðsóttur að afleggja Reykjavíkurflugvöll, þó að það þýði meiri eldsneytisbirgðir millilandavéla til að komast á varaflugvöll.  Þessi framkoma Samfylkingar og taglhnýtinga þeirra, vinstri grænna, í garð mikilvægrar þjónustustarfsemi í landinu, er óafsakanleg.

Ríkisstjórnin hefur hækkað opinber gjöld af innanlandsfluginu um 130 % á 4 árum 2009-2013, og enn er ein hækkunin væntanleg 1. apríl 2013.  Á árinu 2013 verður gjaldtaka ríkisins af innanlandsfluginu 415 milljónir kr og nemur þá 10 % af veltu innanlandsflugsins.  Ofan á þetta leggst svo skattur, t.d. tekjuskattur, og launatengd gjöld.

Þetta er alger óhæfa, og með þessum hætti hagar ekkert yfirvald sér, nema það ætli að ganga á milli bols og höfuðs á viðkomandi starfsemi.  Hér eiga sér stað ofsóknir og skefjalaust niðurrif á afar mikilvægum innviðum íslenzka þjóðfélagsins, sem er hluti af lífsgæðum og lífsstíl fjölda fólks.  Hvorki stjórnmálamenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, né nokkurs annars stjórnmálaflokks, hafa umboð til að brjóta svo freklega á meirihluta landsmanna.

  Innanlandsflugið er mál þjóðarinnar allrar, og það er hægt að höggva á þennan hnút með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá verða viðkomandi stjórnmálamenn að standa fyrir máli sínu með lýðræðislegum hætti í stað níðingslegra aðferða við að kvelja líftóruna úr flugrekendum. 

Innanlandsflugið mun blómstra, ef það fær frið fyrir ósvífnum yfirvöldum, sem skirrast ekki við að taka atvinnulífið fantatökum.  Þetta eru yfirvöld, sem skilja ekki, að athafnalíf verður að blómstra til að velferðarsamfélag geti þrifizt.  Stríð yfirvalda við athafnalífið, eins og Fylkingin og VG hafa staðið í, leiðir til einhæfni, atvinnuleysis og síðan til fátæktarsamfélags.  Þessa tegund stjórnmálamanna þarf að setja í skammarkrókinn í komandi Alþingiskosningum og síðan í næstu borgarstjórnarkosningum.

Farþegum í innanlandsfluginu fjölgaði fyrstu 3 mánuði ársins 2012.  Þann 1. apríl 2012 var flugrekendum greitt þungt högg undir bringspalir af stjórnvöldum "með rörsýn".  Þá skelltu óhæfir og kreddufullir forræðishyggjustjórnmálamenn, sem vilja ráða, hvernig fólk ferðast, á eftirfarandi hækkunum á flugrekendur:

  • farþegaskattur upp um 71 %
  • lendingargjöld upp um 72 %
  • flugleiðsögugjöld upp um 22 %

Þessi gjaldpíning leiddi óhjákvæmilega til hærri fargjalda.  Árið 2012 voru farþegar í innanlandsflugi um 375.000 og hafði þá fækkað um 3 % frá árinu á undan.  

Það er deginum ljósara, að Samfylkingin stendur nú að fólskulegri tangarsókn gegn innviðum landsins á samgöngusviðinu og lífsskilyrðum fjölda fólks.  Taglhnýtingurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, fylgir í humátt á eftir og gerði það þegar á dögum R-listans, þegar Svandís Svavarsdóttir, þá borgarfulltrúi, lagði til rannsókn á því, að byggja upp nýja miðstöð innanlandsflugs á Hólmsheiði og leggja af Vatnsmýrarvöllinn.  Niðurstaðan kemur fáum á óvart.  Hólmsheiði er ónothæf fyrir flugvöll af veðurfarslegum ástæðum.  Enginn heilvita maður leggur í að reisa þar miðstöð innanflugs og stefna þar með lífi og limum farþega og áhafna í mjög aukna hættu vegna óhagstæðs veðurfars í um 130 m hæð y.s.m., stórra háspennulína í grennd og sviptivinda frá fjalllendi eigi fjarri.  Nýtileiki flugvallar á Hólmsheiði er neðan við alþjóðleg viðmiðunarmörk.  Hólmsheiði fyrir flugvöll var villuljós skammsýnna stjórnmálamanna með rörsýn ekki síður en í REI-málinu. 

Að bráðnauðsynlegt sé að byggja íbúðarhús í Vatnsmýrinni til að fjölga íbúum í grennd við 101 Reykjavík er rangt.  Þarna er djúpt niður á fast og lóðirnar yrðu rándýrar í vinnslu.  Það er út í hött að reikna út lóðaverð til að rökstyðja ný not á landinu.  Það þyrfti þá að meta mismunarverð á þessu landi og öðru.  Það er nóg framboð á landi um ófyrirsjáanlega framtíð á höfuðborgarsvæðinu, og mismunur á arðsemi íbúðabyggðar á ólíkum svæðum á höfuðborgarvæðinu getur aldrei slagað upp í arðsemina af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri fyrir borgarsjóð og fyrir landið allt. 

Hvers vegna halda menn, að margar borgir í heiminum, og höfuðborgir á borð við Berlín og London, státi af flugvöllum innan sinna vébanda ?  Það er af því, að flugvellirnir styrkja samkeppnistöðu borganna, og þar sem höfuðborgir eiga í hlut, samþykkja borgirnar starfsemi flugvallanna sem eðlilegan þátt í að sinna höfuðborgarhlutverki sínu með sóma.

Á Íslandi hafa sumir stjórnmálamenn enga sómatilfinningu, og það bitnar á borgurunum.   

  Heli down - þyrlan lent

        

 

 

 

 

 

              

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sínum tíma gerðu Sjálfstæðismenn að undirlagi Davíðs Oddssonar þau hrapallegu mistök að hvetja fólk til að hundsa atkvæðagreiðsluna til að minnka svo þátttöku í henni að úrslit hennar yrðu ekki bindandi. Það tókst en þá sneri R-listinn 300 atkvæða mun upp í ráðgefandi úrslit.

Augljóst er að flugvöllurinn hefði verið samþykktur ef fylgjendur veru hans hefðu tekið af alefli þátt í atkvæðagreiðslunni.

Nú virðist hafa myndast undarlegt bandalag allra flokka í borgarstjórn gegn flugvellinum með Gísla Martein Baldursson í broddi fylkingar, þvert á vilja borgarbúa og þvert á yfirgnæfandi vilja landsmanna allra.

Á sama hátt og það er ekkert einkamál 500 kjósenda á Blönduósi að þvinga vegfarendur til þess að fara 14 kílómetrum lengri leið í gegnum sveitarfélagið en þörf er á, er það ekkert einkamál okkar Reykvíkinga að rétt eins og höfn, sem tekur álíka mikið rými og flugvöllurinn, sé á besta stað í borginni, sé flugvöllur það líka.

Hvort um sig tekur aðeins um 7% af flatarmáli Reykjavíkur vestan Elliðaáa.  

Ómar Ragnarsson, 29.3.2013 kl. 14:00

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir athugasemd þína, Ómar, sem er málefnaleg og fróðleg, eins og þín er von og vísa. 

Bandalagið í borgarstjórn, sem þú nefnir, er á hálum ís.  Þar þykir mér skorta víðsýni í hugmyndafræðina um framtíð Reykjavíkur, borgarskipulagið og hagsmunagæzluna fyrir hönd borgaranna og borgarsjóðs. 

Einhver mundi þess vegna hillast til að kalla þetta skálkabandalag.  Hvað um það.  Umræðan er nauðsynleg nú og ákvarðanir um Vatnsmýrarvöllinn og uppbyggingu sómasamlegrar og varanlegrar aðstöðu fyrir ferðamenn og starfsfólk knýjandi á komandi kjörtímabili. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 29.3.2013 kl. 15:10

3 Smámynd: Þorgeir Gestsson

Áhugaverð grein, nokkur rök eru að sjálfsögðu fyrir því að halda flugvellinum á sínum stað en að mínu mati vega rökin gegn því þyngra.

 375.000 farþegar á ári jafngildir 1027 manns á dag, sem þýðir að 0,3% landsmanna nota flugvöllinn í Vatnsmýri hvern dag. Þetta er ekki svo ýkja há tala.

Þetta getur maður borið saman við 60.000 manns sem nota Miklubrautina hvern dag.

..og e.t.v. 20-30.000 manns sem byggju í Vatnsmýrinni.

 Sjúkraflugið er að mínu mati mikilvægasta röksemdin, þar sem þá er farið að tala um líf og limi fólks. Sú röksemd gerir þó ráð fyrir að sjúkrafluginu yrði beint til Keflavíkur og síðan yrði það sjúkrabíll til Reykjavíkur. Þetta er augljóslega mun síðri kostur fyrir landsbyggðarfólk. Undarlegt er af hverju fólki hefur ekki hugkvæmst miklu betri kostur, að ferja fólk með fastvængjum að borginni austan-eða norðanverðri og klára flutninginn með þyrlu. Þyrlurnar ná 250 km/klst, sem þýðir að þó lent yrði á velli við Selfoss, þá væru eingöngu 12 mínútur eftir í flutningstíma. Og þá sparar maður að sjálfsögðu nokkrar mínútur með flugvél, og síðasta legginn sem fáir hugsa út í, sem er sjúkrabílsflutningurinn frá Vatnsmýrarvelli , sem tekur líka örfáar mínútur. Þegar á það er litið að heildarflutningstími sjúklings frá heimili eða slysstað út á landi er 150-180 mínútur þegar um er að ræða hámarksforgangsflug, þá eru 1-2 mínútur ekki eins stórt atriði og ýmis önnur öryggisatriði varðandi meðferð sjúklinga sem ekki hefur verið gripið til. Og þessar tölur miða ég við að ekki sé til flugvöllur innan 50 km frá Reykjavík. Þið sem eruð flugfróðari en ég, væri hægt að breyta Tungubakkaflugvelli við Mosfellsbæ þannig að hann gæti tekið við slíkum neyðartilfellum? Ef svo væri þá er munurinn sennilega enginn fyrir landsbyggðarfólk, og kannski meira að segja minni en enginn.

Þessu til viðbótar kemur að e.t.v. munu börn og aðstandendur landsbyggðarfólks velja sér búsetu í Vatnsmýrinni, sem gæti orðið þeim til lífs, ef valið er milli Vatnsmýrar og hverfis utar í borginni. Þ.e.a.s. þegar rætt er um sjúkdóma og áverka þar sem ekki er nægjanlegt að flutningstíminn sé bara 10 mín.

Að innanlandsflug leggist af tel ég útilokað, þó að það yrði fært til Keflavíkur. Ekki heldur svo ólíklegt að það myndi styrkjast við flutninginn. Ein ástæðan fyrir því er að 700.000 Íslendingar nota Keflavíkurflugvöll til millilandaflugs á ári hverju.  Hvað eru margir landsbyggðarmenn þar á meðal? Maður gæti giskað á 100.000-200.000.

 Egilsstaðir, Ísafjörður, Vestmannaeyjar, Höfn eru að mínu mati það langt frá Reykjavík að það myndi alltaf krefjast innanlandsflugs, einnig myndu margir Akureyringar sennilega fljúga áfram, þótt flogið væri til Keflavíkur.

 Höfuðborgarábyrgðin og aðgangur að stjórnsýslu eru rök sem er fleygt fram án nánari útskýringar. Hefur einhver kannað það hvort að Reykvíkingum sé ekki bara alveg sama hvort höfuðstöðvar íslenskrar stjórnsýslu séu í Keflavík eða á Akureyri til dæmis? Hvaða stjórnsýsla er það sem er svo gott að hafa í bakgarðinum hjá sér, þegar við erum að tala um 21. öldina?

Bestu kveðjur.

Þorgeir Gestsson, 29.3.2013 kl. 16:57

4 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Frábær grein hjá þér Bjarni og því miður sorglega sönn.

Verð þó að viðurkenna að ég er þér ekki sammála að athugasemd Ómars hafi verið málefnaleg á allan hátt. Ég sé ekki hvernig hægt er að líkja saman flugvallarmálinu og færslu þjóðvegar eitt í Húnavatnssýslu. Þar er um að ræða tilfærslu á þjóðveginum eingöngu til að stytta leiðina til Akureyrar. Ómar hlýtur að geta gert sér grein fyrir tilgangi þjóðvegar eitt eins og flestir aðrir landsmenn, sem er að tengja saman byggðir landsins, en ekki bara Akureyri og Reykjavík. Ef vilji er til að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur þannig að um muni, þá er besti kosturinn að leggja uppbyggðan hálendisveg af suðurlandinu, niður Goðdalafjallið í Skagafirði og þaðan að Öxnadalsheiðinni. Þetta er snjólétt leið miðað við hálendi Íslands og myndi ef til kæmi spara stórfé vegna minna slits á þjóðvegi eitt af völdum þungaflutninga, ásamt því að spara stórlega í flutningskostnaði vegna mikið styttri vegalengda. Ekki væri heldur loku fyrir það skotið að ferðaþjónustan bæði fyrir norðan og sunnan hefði hag af.

Varðandi athugasemd Þorgeirs, þá er ég sammála því að þyngstu rökin varðandi staðsetningu í Vatnsmýrinni eru sjúkraflugið, þ.e. að því gefnu að Landsspítalinn verði þar líka. Bjarni var með fleiri góð og gild rök hér að ofan og þess utan er mikilvægt að hafa í huga að flutningur á vellinum myndi kosta milljarða sem betur væri varið í gáfulegri hluti en svona sandkassaleik með Gísla á hjólinu.

Högni Elfar Gylfason, 30.3.2013 kl. 00:22

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þorgeir Gestsson;

Þakka þér fyrir áhugaverðar vangaveltur.  Þú skrifar, að hægt sé að bera saman mannfjöldann, sem fer um Miklubrautina dag hvern í ýmsum ökutækjum, við farþegafjöldann um Reykjavíkurflugvöll.  Sá er eðlismunur á þessu streymi, að flestir á Miklubrautinni eru daglega á leið úr og í vinnu, þ.m.t. taldir skólar, en fáir í slíkum daglegum vinnuferðum í loftinu.  Rúmlega eitt þúsund manns er töluvert, en þó sennilega ekki fjarri lágmarkinu, sem nauðsynlegt er til hagkvæms rekstrar.  Með því að afnema þessa 130 % gjaldahækkun undanfarinna ára, sem nefnd er í pistlinum og bæta farþegaaðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli, má vafalaust fá fram góðan vöxt í inanlandsflugið frá núverandi stöðu. 

Um ferjuflutninga sjúkra og slasaðra er það að segja, að aukinn fjöldi lendinga og flugtaka eykur hættu á óhöppum og eykur álagið á þá, sem fluttir eru og mega sumir vart við slíku.  Þessi háttur eykur og mjög kostnaðinn.  

Ég þekki ekki til veðurfarsrannsókna á Tungubakkaflugvelli, en hygg, að flugskilyrði þar líkist meir því, sem rannsóknir sýna um Hólmsheiðina en Vatnsmýrarvöllinn.  Hólmsheiðarvöllur væri ónothæfur 28 daga á ári vegna veðurs, en Vatnsmýrarvöllur er ónothæfur í 1-2 daga.  Þá er vafalaust ókyrrð í lofti þarna vegna nándar við fjalllendi.  Á Hólmsheiði yrði t.d. blindaðflug úr norðurátt ómögulegt vegna nándar Esju.  Í Vatnsmýri er blindaðflug úr öllum áttum.  Líklegt er, að á Tungubakkavelli megi búast við mikilli ókyrrð í lofti í aðflugi og brottflugi í sterkum norðanáttum, jafnvel þó að lygnt sé á jörðu niðri.  Sama er að segja um suð-austanáttir.  Það er þess vegna hætt við, að Tungubakkavöllur sé óraunhæfur kostur.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.3.2013 kl. 12:47

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Högni Elfar, og þakka þér fyrir athugasemd þína.

Mér þótti innlegg Ómars að mörgu leyti gott og þarft.  Mín túlkun á samanburði hans við vegarkaflann um Blönduós er, að hann sé að skírskota til hagsmunaaðilana í báðum tilvikum.  Í öðru dæminu eru hagsmunaaðilarnir vegfarendur á þjóðvegi 1, sem ég held, að fæstir stoppi á Blönduósi, enda var það tillaga Vegagerðarinnar að stytta þjóðveginn þarna.  Það er hins vegar ágætt að stoppa á Blönduósi og fá sér í gogginn.  Í hinu dæminu eru hagsmunaaðilarnir berlega þjóðin öll fyrir utan alla erlendu ferðamennina, sem vilja fara í útsýnisflug eða að ferðast þægilega á milli landshluta. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.3.2013 kl. 13:00

7 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Tölfræði er til margra hluta nytsamleg, en forsendur verða að vera á hreinu ef hún á að vera marktæk. Eftirfarandi upplýsingar eru meðal þess sem auðvelt er að nálgast á netinu. Meðalakstur hvers ökutækis á höfuðborgarsvæðinu er 37 mínútur og 21,5km á dag. Meðal vegalengd frá heimili að vinnustað er 6,4km. Með því að leggja af flugvöllinn í Reykjavík væri hugsanlega hægt að stytta þetta meðaltal um örfáar mínútur. Hvað má slík aðgerð kosta?

Vangaveltur Þorgeirs hér að ofan um sjúkraflugið einkennast af vanþekkingu. Þar er t.d. ekki gert ráð fyrir blindflugi. Þyrluflugmenn eru hetjur, en þeir hafa ekki röntgensjón. Tungubakkaflugvöllur er góðviðrisflugvöllur fyrir litlar flugvélar undir 200 hö. Þar er ein flugbraut sem er 1/3 af brautum Reykjavíkurflugvallar. Þar er mikil ókyrrð í norðanstæðum áttum og ómögulegt að koma við N/S flugbraut.

Vangaveltur um að börn og aðstandendur landsbyggðarfólks muni setjast að í Vatnsmýri eru ekki til að lyfta umræðunni. Miðað við það lóðaverð sem haldið er á lofti í arðsemisútreikningum flugvallarandstæðinga þá þarf íbúðaverð í Vatnsmýri að vera kr. 560.000/m2 bara til að standa straum af lóðaverði sem verður að meðaltali kr. 22.000.000 á hverja íbúð, í hverfi sem verður tvisvar sinnum þéttbýlla en miðbærinn.

Hvað varðar örlög innanlandsflugs ef það verður flutt til Keflavíkur, þá er það marg kannað. Flugið verður ekki svipur hjá sjón frá því sem nú er. Það mun þurfa ríkisstyrki til að halda úti áætlun á lykil áætlunarstaði þar sem hagkvæmni rekstrar verður mun minni. Ísfirðingar munu heldur aka en fljúga vegna þess að þeir eru alvanir því, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, að flug fellur niður eða frestast. Þá er betra að vera í Reykjavík, eða akandi, heldur en að vera fastur í einhverri lítilli flugstöðvarbyggingu á Miðnesheiði. Fráleitt er að telja að innanlandsflug styrkist við flutning til Keflavíkur. Kannanir sýna að mjög lítill hluti farþega í innanlandsflugi er á leið til og frá útlöndum.

Ef mögulegt væri að flytja stjórnsýslu út á landsbyggðina, þá fyrst væri ástæða til að halda Reykjavíkurflugvelli á sínum stað. Ekki væri ástæða til að flytja tugþúsundir einstaklinga í Vatnsmýrina og seint myndu íbúar Kvosarinnar samþykkja að aka til Keflavíkur til að fljúga á Akureyri eða Egilsstaði til að sinna erindum. Hjá hinu opinbera starfa rúmlega 20 þúsund manns, beint, án þess að taldir séu starfsmenn opinberra hlutafélaga, það eru jafn margir einstaklingar og búa á Akureyri og Egilsstöðum samanlagt.

Það liggja fyrir margar skýrslur sérfræðinga sem staðfesta að enginn valkostur fyrir miðstöð innanlandsflugs er betri en núverandi flugvöllur. Því snýst málið alfarið um tvennt: 1. Hvað er ásættanlegt að lækka þjónustustig innanlandsflugs mikið? 2. Hvað má það kosta?

Hér eru svolitlar vangaveltur um þetta flugvallarmál:

https://www.facebook.com/notes/sigur%C3%B0ur-ingi-j%C3%B3nsson/vatnsm%C3%BDrin-og-talnaleikfimi-flugvallarandst%C3%A6%C3%B0inga/10151521509957520

Sigurður Ingi Jónsson, 30.3.2013 kl. 14:04

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður Ingi;

Eftir lestur innleggs þíns hér að ofan, þar með greinargerðarinnar, sem þú vísar til, virðist mér ekki standa  steinn yfir steini í röksemdafærslu þeirra, sem vilja íbúðir í Vatnsmýrinni í stað flugvallar.  Þar að auki verður undir hælinn lagt, hvort íbúðir þarna seljast eður ei miðað við verðlagningu í reiknilíkani þeirra, sem ekki vilja sjá þarna flugvöll.  Svæðið verður sannast sagna varla samkeppnihæft við önnur hverfi. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.3.2013 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband