Kyndugur og hættulegur borgarstjórnarmeirihluti

Í Reykjavík eru viðhafðir stjórnarhættir, sem sæma ekki höfuðborg Íslands.  Þetta stafar af þröngsýni og afturhaldssemi núverandi meirihluta í borgarstjórn.  Þessi meirihluti undir borgarstjóranum, Degi Bergþórusyni, lækni, hefur bitið það í sig, að of margir bílar séu á götum Reykjavíkur, þeir valdi óþrifum, loftmengun og vegsliti.  Til að vinna bug á þessu vandamáli þurfi að fá íbúana, með illu eða góðu, til að nota Strætó í mun meiri mæli.  Þetta er kolröng, úrelt og óviðeigandi hugmyndafræði.

Bílaflotinn notar minna jarðefnaeldsneyti á ekinn km með hverju árinu, sem líður, vegna sparneytnari véla og fjölgunar rafmagnsbíla.  Með greiðara umferðarflæði og vetnisvögnum má auka loftgæðin enn meir.  Þar sem vegslit fylgir öxulþunga í 4. veldi, munar mjög mikið um vegslit strætisvagnanna.  Þótt borgaryfirvöld hafi lagt sig í líma við að tefja umferðina í Reykjavík með þrengingum gatna, fækkun akreina og frumstæðum ljósastýringum, m.a. á gangbrautum yfir akreinar, þar sem ætti fremur að vera undirgangur, hefur þeim ekki tekizt ætlunarverk sitt að auka hlutdeild Strætó í heildarfjölda einstaklingsferða í höfuðborginni.  Hún er enn 4 %. 

Með furðuverkinu borgarlínu er með ærnum kostnaði ætlunin að þrefalda þessa hlutdeild.  Það eru draumórar einir og má benda á aðrar borgir því til stuðnings, t.d. Bergen í Noregi, þar sem ekkert hægðist á fjölgun einkabíla í umferðinni við rekstur borgarlínu þar.  Sá rekstur er þar með bullandi tapi, sem bílaumferðin er látin standa undir með veggjaldi (bompenger), um 1000 ISK/dag. 

Liður í forneskjunni í Ráðhúsinu úti í Reykjavíkurtjörn er að standa gegn nútímalegum framkvæmdum Vegagerðarinnar, sem mundu bæta umferðarflæðið (draga úr töfum í umferðinni) og stórbæta öryggi vegfarenda.  Það er ljóður á ráði Vegagerðarinnar, að hún hefur fórnað hagsmunum vegfarenda í átökum við afturhaldið í Reykjavík. Þar þarf dýralæknirinn í forystu Vegagerðarinnar að taka sér tak.

Það er verr farið en heima setið að gefa nauðsynleg mislæg gatnamót upp á bátinn, en innleiða í staðinn forneskjulegar og stórhættulegar umferðarlausnir á fjölförnum gatnamótum, eins og ljósastýringar og vinstri beygjur, sem þvera umferð.  Forneskjulegur meirihlutinn í borgarstjórn misnotar skipulagsvald sitt hvað eftir annað til að hamra fram einstrengingsleg og fordómafull viðhorf, kenjar, sem eiga engan rétt á sér, því að lífi og limum borgaranna er stefnt í voða með þessu framferði.  Ábyrgðarleysið ríður ekki við einteyming, og nú verða Reykvíkingar að losa sig og aðra landsmenn við þessa óværu í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2022.

Bjarni Gunnarsson, umferðarverkfræðingur, gerði skilmerkilega grein fyrir þessu og baráttu sinni í nafni hagsmuna vegfarenda í Morgunblaðinu, 25. marz 2022, í greininni:  

"Ógöngur gatnamóta".

Þar mátti m.a. lesa eftirfarandi:

"Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Samgöngusáttmálinn og samgönguáætlun setja aukið umferðaröryggi og aukið umferðarflæði í fyrsta sætið, þegar hugað er að nýjum samgönguframkvæmdum.  Þess vegna er það óskiljanlegt, að núna, þegar ráðast á í eitt af fyrstu verkefnum Samgöngusáttmálans, er útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar breytt frá því, sem var samþykkt í mati á umhverfisáhrifum árið 2003.  Breytingin felst í því að hætta við mislæg gatnamót, eins og Vegagerðin lagði til í matinu 2003, og byggja í staðinn ljósastýrð gatnamót, sem Vegagerðin taldi árið 2003, að ekki kæmu til greina. 

Þessi breyting hefur í för með sér eftirfarandi:

  • Fleiri umferðarslys
  • Meira eignatjón
  • Minni afkastagetu gatnamótanna 
  • Meiri umferðartafir
  • Lengri akstursleiðir
  • Meiri loftmengun
  • Meiri umferðarhávaða við Nönnufell og Suðurfell
  • Stærri mannvirki (fjögurra akreina brú í staðinn fyrir 2ja akreina)
  • Breiðari rampa við Suðurfell (4 akreinar í stað 2)
  • Litla breytingu á framkvæmdakostnaði

 Ef horft er á afleiðingar breytingarinnar, sést, að þær eru þvert á öll framsett markmið samgönguframkvæmda. 

Þetta er ótækt.  Það er óviðunandi niðurstaða, að útúrboruleg viðhorf borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar skuli fá að ráða því, að skilvirkni þessarar fjárfestingar, þ.e. árlegur þjóðhagslegur arður, skuli verða umtalsvert minni en fengizt hefði með mannvirkjalausninni, sem Vegagerðin lagði fram í upphafi og taldi bæði nauðsynlega og nægjanlega.  Lausn Reykjavíkur er hvorki nauðsynleg né nægjanleg. Hún er út úr kú og fullnægir ekki gæðaviðmiðum samgönguáætlunar Alþingis og ætti þar af leiðandi ekki að fá fjárveitingu úr ríkissjóði.  Það er kominn tími til að láta af undanlátssemi við fúsk og yfirgang borgarstjóra og hyskis hans.  Tafakostnaður umferðarinnar samkvæmt Hagrannsóknum sf. er um þessar mundir talinn vera allt að 60 mrdISK/ár, og á hann er ekki bætandi. 

"Vegagerðin á að gera umferðaröryggismat fyrir fyrirhugaðar samgöngubætur, og var það gert vegna breytingar umræddra gatnamóta.  Slíkt umferðaröryggismat á að vera grundvöllur þess, þegar bezti valkostur er valinn af Vegagerðinni og lagður fram í mati á umhverfisáhrifum. Umferðaröryggismat breytingarinnar (dags. jan. 2021) telur breytinguna slæma, og í niðurstöðum þess segir:

"Niðurstöður rýnihópsins eru, að mislæg gatnamót séu mun betri m.t.t. umferðaröryggis.  Sú lausn að aðskilja akstursstefnur, losna við stöðvun umferðar á umferðarljósum, og engar vinstri beygjur, þar sem þvera þarf gagnstæða umferðarstrauma, felur í sér mun öruggari umferðarmannvirki."

Þessi niðurstaða umferðaröryggismatsins virðist hundsuð af vegagerðinni sjálfri og er ekki kynnt fyrir Skipulagsstofnun, þegar Vegagerðin sendir sitt erindi um, að ekki þurfi að gera nýtt mat á umhverfisáhrifum gatnamótanna. Og ekki kynnir Vegagerðin Skipulagsstofnun þær neikvæðu breytingar, sem upp eru taldar hér á undan, þegar gatnamótin verða ljósastýrð." 

Þarna virðist vera á ferðinni "monkey business" hjá Vegagerðinni að undirlagi borgarinnar.  Forstjóri Vegagerðarinnar má ekki láta borgarstjóra draga virðingu og faglegan metnað Vegagerðarinnar ofan í svaðið.  Borgin hefur um alllanga hríð gert sig seka um undirmálsvinnubrögð, þar sem farið er á svig við góð og gild vinnubrögð og beztu fáanlegu tæknilausnir.  Þetta skemmda epli hefur skemmt út frá sér í stjórnkerfinu, þar sem gæðastjórnun og faglegum vinnubrögðum er gefið langt nef, en innleidd molbúavinnubrögð og sukk og svínarí við verkefnastjórnun.  Þetta skemmda epli fáfræði, þröngsýni og ofstækis, verða kjósendur að uppræta í næstu kosningum, nema þeir vilji áfram "lausnir", sem kosta mikið, en gera lítið gagn annað en að fullnægja duttlungum sérvitringa, sem eru aftarlega á merinni. 

Að lokum skrifaði Bjarni Gunnarsson:

"Samantekið í stuttu máli: Reykjavíkurborg tefur lausn málsins vegna 2ja akreina rampa við Nönnufell og endar á því að þröngva fram lausn með 4-akreina rampa við Nönnufell.  Vegagerðin gefst upp með sína útfærslu á mislægum gatnamótum og leggur til lausn, sem kom ekki til greina áður, og Skipulagsstofnun tekur við ófullnægjandi upplýsingum frá Vegagerðinni og túlkar svo lög um mat á umhverfisáhrifum á rangan hátt til að hleypa þessum skelfilegu breytingum gatnamótanna í gegnum kerfið. 

Svo verða vegfarendur gatnamótanna fórnarlömbin." 

Hér er lýst undirmálsvinnubrögðum ríkisstofnana að  boði Reykjavíkurborgar, molbúavinnubrögðum með misbeitingu skipulagsvalds höfuðborgarinnar. Niðurstaðan verður, að enn sígur á ógæfuhlið öryggismála umferðarinnar í Reykjavík, og er þó ekki á þá hörmung bætandi.  Ástæða þess, að Ísland trónir næsthæst á ógæfulista umferðarslysa á Norðurlöndunum, eru aðallega ófullnægjandi umferðarmannvirki; þau eru í raun frumstæð m.v. bílaflotann og þarfir almennings og atvinnulífs og þar af leiðandi úrelt. 

Með núverandi meirihluta áfram við völd og óbreytta afstöðu til umferðarmenningar þá mun Ísland lenda efst á þessum ógæfulista Norðurlandanna á næsta kjörtímabili.

Í Morgunblaðinu 2. apríl 2022 var gerð grein fyrir umferðarslysum undir fyrirsögninni:

"Umferðarslysum fjölgar umtalsvert".

 

"Athyglisvert er að bera saman tölur um fjölda látinna á hverja 100 þús. íbúa hér á landi við nágrannalöndin.  Að meðaltali létust 3,5 í umferðarslysum hér á landi ár hvert síðustu 10 árin.  Aðeins í Finnlandi láta fleiri lífið eða 4,2 að meðaltali.  Í Danmörku er meðaltalið 3,1, í Noregi er það 2,4 og í Svíþjóð 2,6."

Á meðan Reykvíkingar íhuga ekki betur en raun ber vitni um í höndum hvaða stjórnmálamanna hagsmunum þeirra er bezt borgið, er ekki von á góðu.  Þeir ættu að hafa í huga við kjörborðið, að kostnaður vegna umferðarslysa í Reykjavík nemur rúmlega 50 mrdISK/ár og tafakostnaður í umferðinni er jafnvel hærri upphæð.  Kostnaður vegna rangrar stefnu í umferðarmálum í Reykjavík er þannig a.m.k. 100 mrdISK/ár, og hann má skrifa á núverandi meirihluta borgarstjórnarinnar. Það er óskiljanlegt, að þetta viðgangist í höfuðborg landsins. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband