Fjarstæðukenndur afturhaldsáróður

Í landinu hefur alltaf verið andstaða við orkunýtingu til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, eins og sagan greinir frá allt til Títanfélags Einars Benediktssonar, skálds.  Átökin um fyrstu stórvirkjun landsins við Búrfell (Sámstaðamúla) í Þjórsárdal á árunum 1963-1969 eru höfundi þessa vefpistils enn í minni, en þá börðust andstæðingar Viðreisnarstjórnarinnar, Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur, hart gegn Búrfellsvirkjun og stofnun álverksmiðjunnar í Straumsvík við Hafnarfjörð, sem fá átti raforku frá Búrfellsvirkjun. 

Virkjuninni var talið margt til foráttu, einkum að rennslistruflanir í jökulvatninu yrðu svo miklar, að stöðva yrði starfsemi virkjunarinnar. ISAL-verksmiðjan var uppnefnd "hausaskeljastaður" og sagt, að fjöldi verkamanna mundi tína þar lífinu strax á byggingarskeiðinu. Fullyrðingaflaumur beturvitanna lætur aldrei að sér hæða. 

Þessi fordæðumálflutningur varð sér allur til skammar, enda reistur á fordómum og vanþekkingu.  Annað bjó undir.  Það mátti ekki tengja Ísland við alþjóðlega peningakerfið (Alþjóðabankinn lánaði Landsvirkjun fé fyrir Búrfellsvirkjun) til hagsbóta fyrir verkalýðinn og þjóðina alla.  Það var ennfremur alið á fordómum gegn erlendri fjárfestingu öflugra iðnrekenda, í þessu tilviki svissneska álfélagsins Alusuisse, og 100 % eignarhaldi þess og þar með áhættutöku á ISAL.  Þessi brautryðjendastarfsemi í atvinnusögu landsins var sögð þjóðhættuleg af andstæðingum Viðreisnarstjórnarinnar, en hún (Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn), leidd af mikilhæfum leiðtogum, sem hikuðu ekki við að berjast fyrir sannfæringu sinni um gagnsemi þessara breytinga fyrir landið, hélt sínu striki. 

Það er næsta víst, að hefði þjóðin ekki notið leiðsagnar Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og atvinnustefnu hans, hefðu landsmenn ekki farið inn á braut orkukræfrar iðnaðarframleiðslu á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og jafnvel aldrei í þeim mæli, sem nú er (yfir 300 mrdISK/ár útflutningstekjur).  Þjóðfélagið stæði þá fjarri því jafntraustum fótum fjárhagslega, verkmenning og öryggi á vinnustað væru fátæklegri og þjóðin væri vafalaust fámennari en nú, því að atvinnuleysi og þekkingarflótti hefðu orðið plága.  Þessar voguðu breytingar í atvinnuháttum urðu landsmönnum mikið gæfuspor, en afturhaldið í landinu varð bert að innihaldslausum hræðsluáróðri alveg eins og nú að breyttu breytanda. 

Sams konar innihaldslausum hræðsluáróðri er enn beint að landsmönnum, og lengst gengur félagið Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, stundar ábyrgðarlausan málflutning um orkumál landsins, sem einkennist af innantómum fullyrðingum og klisjum, sem hún af fullkominni ósvífni ber á borð fyrir almenning sem nútímalega stefnumörkun, en er hvorki fugl né fiskur og ekkert annað en draumórakenndur fáránleiki.

Hún gerir sig seka um tilraun til að leiða almenning á þær villigötur, að í stað nýrra virkjana fyrir orkuskipti og atvinnusköpun fyrir vaxandi þjóð bjóðist landsmönnum sá töfrasproti að beina allt að 50 %  raforku, sem nú fer til iðnaðarins, frá iðnaðinum án þess, að nokkur verði þess var á tekjuhlið sinni, þegar þessi orka hafi fundið sér nýja notendur.  Þetta er vitlausasti málflutningur, sem sézt hefur um raforkumál landsmanna frá því að rafvæðing hófst hérlendis, og er þá langt til jafnað. 

Efnismikil og vel rökstudd grein birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2022 eftir Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs, þar sem hann útskýrir glögglega fyrir lesendum með gröfum, súluriti og hringsneiðmynd, að tillögur Landsverndar mundu í framkvæmd leiða til hruns í lífskjörum landsmanna, eins og nærri má geta.  Auður Önnu hjá Landvernd er hins vegar við sama heygarðshornið, þegar Tómas Arnar Þorláksson átti  við hana viðtal, sem hann birti í Morgunblaðinu 28. júní 2022 undir einum af fjarstæðukenndum frösum Landverndar í fyrirsögn:

"Forgangsraða orku í stað virkjana".

Viðtalið hófst með ógeðfelldu yfirlæti þekkingarsnauðrar Auðar Önnu á atvinnusköpun og -rekstri:

""Við erum ekki bara einhverjir aumingjar, sem bíða hérna eftir því, að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu", segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um grein Jóhannesar Stefánssonar, lögfræðings Viðskiptaráðs, sem birtist í Morgunblaðinu í gær.  Þar tók Jóhannes fram, að tillaga Landverndar um full orkuskipti án aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld stæðist ekki skoðun."

Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvert Auður Önnu er að fara með svona fráleitri yfirlýsingu.  Ef hún hafði í huga sokkabandsár orkukræfs iðnaðar og aðdraganda hans 1964-1969, þá er hún á algerum villigötum, eins og fyrri daginn. Það er yfirlætisfull heimska fólgin í því að kalla menn aumingja, þótt þá skorti þekkingu á framleiðsluferli málma á borð við ál og ráði hvorki yfir nauðsynlegum viðskiptasamböndum né fjármagni til að reisa og reka slíkar verksmiðjur.  Allt þetta fengu landsmenn með samningum Viðreisnarstjórnarinnar við Alusuisse, og sá samningur veitti aðgang að láni hjá Alþjóðabankanum á mun hagstæðari viðskiptakjörum en ella.  Íslendingar voru hins vegar snarir í snúningum við að tileinka sér framleiðslutæknina og vinnubrögðin við stórverkefni á borð við álver og stóra vatnsaflsvirkjun, og nú standa þeim engir á sporði við tæknilegan rekstur álvera.

Hér er um mikilsverða verkþekkingu að ræða, sem dreifzt hefur um allt samfélagið almenningi til hagsbóta.  Þegar framkvæmdastjóri Landverndar leggur til, að íslenzka ríkið, eigandi Landsvirkjunar, stöðvi afhendingu um helmings núverandi raforkuafhendingar til orkukræfs iðnaðar við fyrsta tækifæri, er um að ræða þvílíkan óvitaskap, ábyrgðarleysi og fjarstæðukennt bull, að engu tali tekur.  Samtök, sem ráðið hafa talsmann þessarar gerðar til starfa, eru hreinræktað niðurrifsafl í þjóðfélaginu, sem hafa fyrir vikið ekki snefil af trúverðugleika lengur. 

"Að mati Auðar er þetta ekki rétt hjá Jóhannesi, og segir hún Landvernd taka þetta allt fyrir í sviðsmyndagreiningu samtakanna, sem sé mjög ítarleg.  "Forsendurnar fyrir þessu eru, að við forgangsröðum orkunni, sem við framleiðum nú þegar, en 80 % af þeirri orku fara í stóriðju, sem hagnast á erlendum stórfyrirtækjum", segir Auður, og að hennar mati nýtur íslenzkt samfélag ekki góðs af þessu. Segir hún, að samkvæmt útreikningum þeirra þurfi stóriðjan að draga úr orkunotkun sinni um allt að 50 %."

Þetta er eiginlega óskiljanlegt rugl í Auði Önnu. Hver hagnast á erlendum stórfyrirtækjum ?  Eru það ekki raforkufyrirtækin Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet ?  Hagnaður Landsvirkjunar 2021 varð um mrdISK 30, megnið af honum frá stórnotendum og helmingurinn fór í arðgreiðslur til ríkissjóðs.  Það bætist við skattgreiðslur fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, en bullukollan kveður íslenzkt samfélag "ekki njóta góðs af þessu".  Þetta er undirmálsmálflutningur. 

"Hvað varðar ályktun Jóhannesar, að orkuskipti án frekari virkjana séu ómöguleg, segir Auður það ekki rétt, nema ef notazt er við lausnir gærdagsins.  Segir hún svarið ekki vera að sækja enn frekar í auðlindir.  Undirstrikar hún, að það þurfi að koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar." 

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Auður Önnu reynir að klæða trúarbrögð sértrúarsafnaðarins í Landvernd í búning nútímalegra viðhorfa, en það er ekkert nútímalegt við farsakenndar firrur í opinberri umræðu annað en falsfréttabragurinn, sem nú tröllríður fréttamiðlunum.  Það er engin glóra í því að setja fram atvinnustefnu og efnahagsstefnu á þeim grundvelli, að ekki megi virkja meira af endurnýjanlegum og nánast kolefnisfríum orkulindum í náttúru Íslands án þess að sýna fram á það með haldbærum rökum án trúarlegra stefja á borð við, að náttúran skuli njóta vafans, að unnið hafi verið óafturkræft tjón á náttúrunni hingað til með virkjunum. 

Hér verður að greina á milli breytinga og tjóns, en margar breytinganna hafa orðið til góðs fyrir náttúruna, s.s. til að verjast giljagreftri og landbroti og að framkalla nýjar laxveiðiár.  Á Íslandi er vert að hafa í huga, að náttúran sjálf er miklu stórtækari breytinga- og tjónvaldur á náttúrunni en íbúar landsins.  Stefna Landverndar er í stuttu máli svo laus við að vera nútímaleg, að nútímalegu og fjölbreytilegu velferðarþjóðfélagi verður ekki viðhaldið í landinu, ef sveigja á inn á glórulausa afturhaldsbraut Landverndar. Boðskapur af því tagi, að ekki skuli nýta meiri jarðvarma og vatnsföll eru einsdæmi í landi, þar sem hlutfallslega er jafnlítið nýtt (virkjað) og hérlendis.  Það er einhver ofdekursbragur allsnægta yfir boðskap Landverndar. 

"Þá bendir Auður á, að bæði Landvernd og tímaritið The Economist hafi sýnt, að verðmætasköpun á hverja orkueiningu á Íslandi sé með því lægsta, sem gerist á heimsvísu.  Enn frekar bendir hún á, að mjög fá störf skapist á hverja orkueiningu.  Ítrekar hún þá, að ef við breytum því, hvernig við nýtum orkuna, sem er nú þegar framleidd, getum við skapað meiri verðmæti.  Tekur hún fram, að fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi ferðaþjónustan verið langstærsti útflytjandi vöru og þjónustu."

Þarna reynir Auður Önnu að spyrða Landvernd við hið virta tímarit The Economist, en hér skal fullyrða, að ritstjórn The Economist yrði gáttuð á því rugli, sem Landvernd setur á oddinn í orkumálum Íslands.  Það er spurning, hvort téðir útreikningar á verðmætasköpun á orkueiningu hafa verið gerðir, þegar Kínverjar og Rússar dembdu miklu magni málma inn á Evrópumarkaðinn, svo að verðið hríðféll, en nú hefur verð á t.d. áli tvöfaldazt frá fyrri hluta Kófstímans.

Það er þó annar samanburður áhugaverðari, en hann er verg landsframleiðsla á mann, en þar eru Íslendingar á meðal hinna allra hæstu í heiminum og líka í launakostnaði á mann.  Það er gríðarleg erlend fjárfesting á hvert MW eða starf í orkukræfum iðnaði.  Á slíkum vinnustöðum eru nánast alltaf hærri laun en á hinum, og þetta eru einmitt þau störf, sem sótzt var eftir að fá til Íslands, af því að starfsemin er stöðug, og eigandinn leggur ógjarnan niður starfsemi mikilla fjárfestinga og hárrar skilvirkni, en sú er reynslan af íslenzku starfsfólki verksmiðjanna upp til hópa. 

Þegar um sjálfbæra orkunotkun er að ræða, er viðhorfið til verðmætasköpunar á MW auðvitað allt annað en til brennslu jarðefnaeldsneytis, svo að hin seinheppna Auður Önnu hefur hér slysazt til að bera saman epli og appelsínur. Hún virðist telja æskilegt, að ferðaþjónustan á Íslandi, sem ekki flytur út vörur, eins og hún heldur fram, taki við starfsfólkinu, sem missir sín störf, verði farið að tillögum Landverndar.  Gerir Auður Önnu sér grein fyrir álagsaukningunni á umhverfið, gangi það eftir, launalækkun fólksins og þeirri miklu ósjálfbæru orkunotkun, sem fylgir hverju starfi í þessari grein ? 

"Segir hún að auki útreikninga Jóhannesar ekki rétta, að án frekari orkuframleiðslu muni lífskjör hér á landi versna fyrir árið 2050 og verða svipuð og þau voru rétt eftir árið 2000.  "Við erum að leggja til, að lífskjör verði eins og í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar.  Til þess þurfum við að forgangsraða orkunni öðruvísi og betur", segir Auður." 

Það er kjaftur á keilunni, þegar hún fullyrðir skilmerkilega greinargerð Jóhannesar Stefánssonar ranga og færir fyrir því aðeins það útþvælda slagorð, að "forgangsraða [þurfi] orkunni öðruvísi og betur. Er ekki augljóst, að verði 150 mrdISK/ár teknir út úr hagkerfinu, og það vel launaða fólk, sem þá missir vinnuna, fer að vinna við ferðaþjónustu, eins og virðist vaka fyrir forræðishyggjupostulanum Auði Önnu,eða fari að starfa við að framleiða rafeldsneyti,  eða flýi land, þá verði samfélagið að sama skapi fátækara og lífskjör alls almennings lakari ?  

Delluhugmyndafræði forræðishyggjupostula, sem engum einkaframtaksmanni mundi hugnast, hefur aldrei vel gefizt í sögunni og alltaf gert almenning fátækari, hafi einhverjar slíkar hókus-pókus- lausnir orðið ofan á.  Auður Önnu dregur enga hvíta kanínu upp úr hatti sínum, þótt hún klæðist búningi töframanns. Til þess er hugmyndafræði hennar of illa ígrunduð, full af þverstæðum og raunar algerlega óþörf fórn í anda "Endimarka jarðar".  Á Íslandi þarf að afnema afl- og orkuskort tafarlaust og virkja fyrir þörfum orkuskipta og vaxandi útflutningsframleiðslu til lífskjarabata fyrir vaxandi þjóð.


Ferli ákvarðanatöku í lýðræðisríki

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum), hefur reynzt eljusamur talsmaður einstaklingsfrelsis og lýðræðis í hefðbundnum vestrænum skilningi. Hann hefur iðulega í ræðu og riti, á "öldum ljósvakans" og á síðum Morgunblaðsins vakið athygli á veikleikum í stjórnarfari landsins, sem þó eru ekki bundnir við Ísland, sem kalla mætti útþynningu lýðræðisins og felast í úthýsingu raunverulegrar stefnumörkunar ríkisins frá Alþingi eða ráðherrum, sem standa þurfa Alþingi reikningsskap gerða sinna samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins, til embættismanna innanlands og utan. Með erlendum embættismönnum er hér átt við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og stofnanir og embættismenn á hennar vegum, sem með ákvörðunum sínum, reglugerðum og tilskipunum, eru orðnir áhrifaríkir um lagasetningu á Íslandi vegna innleiðingar Alþingis á reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins), sem Ísland er aðili að síðan 1994. Hér verða aðeins tekin 3 dæmi um innlenda embættisfærslu, sem  vitna um gagnrýniverða embættisfærslu í ljósi krafna um lýðræðislegar heimildir.  

Samkvæmt innleiðingu Alþingis á Orkupakka 3 (OP3) haustið 2019 (Orkulöggjöf ESB á þeim tíma.  Núgildandi orkulöggjöf ESB er OP4, sem hefur enn ekki verið innleidd í EFTA-ríkjum EES vegna skorts á pólitískum stuðningi við það á Stórþinginu og innan norsku ríkisstjórnarinnar.) skal Orkumálastjóri vera fulltrúi ACER-Orkustofnunar ESB á Íslandi og sjá til þess, að ákvæðum gildandi orkupakka sé framfylgt á landinu.  Þar er eindregið mælt með orkukauphöll fyrir raforku, þ.e. að markaðurinn ákvarði orkuverðið á hverri klukkustund sólarhringsins.  Við afbrigðilegar aðstæður, eins og nú ríkja í Evrópu, hefur þetta fyrirkomulag reynzt neytendum herfilega illa og rafmagnið, eins og jarðefnaeldsneytið, orðið þungur fjárhagsbaggi á mörgum heimilum.

Nú eftir þinglok í vor bregður svo við, að Landsnet (undir eftirliti Orkumálastjóra) kynnir til sögunnar nýja undirstofnun sína, sem ætlað er að innleiða þetta markaðsfyrirkomulag á Íslandi. Í ljósi þess, að við núverandi aðstæður orkumála á Íslandi (orkuskort) eru mestar líkur á, að verðmyndun rafmagns eftir skammtíma framboði og eftirspurn muni leiða til umtalsverðra hækkana á meðalverði rafmagns á Íslandi, er vert að spyrja, hvort eðlilegt sé, að embættismenn vaði áfram með þetta mál án þess, að Alþingi hafi fjallað um það sérstaklega ?  Málið er a.m.k. einnar vandaðrar áhættugreiningar virði. 

Þann 23. júní 2022 ritaði Arnar Þór Jónsson grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Engin stemning ?".

Hún hófst þannig:

"Í viðtali við RÚV 16. júní sl. lét Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, þau ummæli falla, að ekki yrði gripið til takmarkana "strax" vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af "því, hvernig faraldurinn þróast".  Í beinu framhaldi sagði Þórólfur "alveg ljóst, að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu, eða hvar sem er".  Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda "mælikvarða" sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum."

Það er líka ástæða til að fetta fingur út í þá áráttu fráfarandi sóttvarnarlæknis að tala um nauðsyn þjóðfélagslegra takmarkana yfirvalda vegna pestar, sem mjög líkist inflúensu, en getur, eins og flensan, leitt af sér ýmis stig lungnabólgu, ef ónæmiskerfi líkamans er veikt fyrir og líkamann vantar D-vítamín.

  Samanburðarrannsóknir á viðbrögðum yfirvalda víða um heim gefa til kynna, að heildardauðsföllum fækki ekki við þjóðfélagstakmarkanir til að stemma stigu við C-19.  Þar sem yfirvöld reka harðýðgislega einangrunarstefnu vegna C-19, eins og í Kína, grasserar pestin enn.  Þarna hefur ofurtrú á stjórnsemi yfirvalda leitt embættismenn víða á villigötur, en aðeins hjarðónæmi getur kveðið þessa pest niður (hjarðónæmi af völdum almennra smita, því að bóluefnin, sem kynnt hafa verið til sögunnar, hindra ekki smit og veikindi).  

Bóluefnafarsinn gegn C-19 er kapítuli út af fyrir sig og ber keim af einhvers konar peningamaskínu lyfjaiðnaðarins, sem yfirvöld hafa látið ginnast til að ánetjast (vanheilagt bandalag stórfyrirtækja, stjórnmálamanna og embættismanna til að græða á ótta almennings).  Bóluefnin veittu ekkert hjarðónæmi, sem þó var lofað, m.a. af íslenzka sóttvarnarlækninum, og ending þeirra í líkamanum reyndist skammarlega skammvinn, enda var hún horfin, eins og dögg fyrir sólu innan 3 mánaða samkvæmt rannsóknum, sem sænski læknirinn Sebastian Rushworth hefur kynnt á vefsetri sínu. 

Slæmar aukaverkanir bóluefnanna, í sumum tilvikum lífshættulegar, eru miklu algengari en af hefðbundnum bóluefnum.  Leyfisveiting fyrir almennri notkun þessara mRNA-bóluefna voru mistök, reist á allt of stuttum athugunartíma á virkninni.  Var þar samsæri á ferðinni ?  Nauðsynlegt er rannsaka það niður í kjölinn.  Enn ráðleggur íslenzki sóttvarnarlæknirinn örvunarkammt, nú þann 4. í röðinni með þeim orðum, að slíkt dragi úr einkennum C-19.  Eru vísindalegar rannsóknir, sem hægt er að treysta, að baki þeirri fullyrðingu, eða eru þessar upplýsingar komnar frá hagsmunaaðilum ?  Nú er allt annað afbrigði á ferðinni en Wuhan-útgáfan, sem þróun bóluefnanna var sniðin við.  Þekkt er, að flensusprautur eru gagnslausar, nema við afbrigðinu, sem flensubóluefnin eru þróuð við.

"Ummælin um "stemningu" sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska, sem íslenzk stjórnmál hafa ratað í.  Þau eru til merkis um öfugþróun, sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast, þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng [það virtist gerast í Kófinu-innsk. BJo]; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa [gerðist með RÚV í Kófinu og vinstri slagsíðan þar keyrir úr hófi fram, enda lögbrot-innsk. BJo]; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna, sem boða "lausnir".  Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín."

 

Hafrannsóknarstofnun gegnir geisilega mikilvægu hlutverki, enda starfa þar margir hæfir sérfræðingar.  Vísindalegar niðurstöður þeirra og ráðgjöf er þó ekki óumdeild, og það er miður, þegar starfsmenn í sjávarútvegi sjá knúna til að bera brigður á réttmæti ráðlagðra aflamarka mismunandi tegunda. Hafró verður að leggja sig fram um að útskýra ráðgjöf sína fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fyrir eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.  Ráðherrann hefur síðasta orðið, eins og á sviði sóttvarna, en verður að hafa þungvæg og hlutlæg mótrök til að ganga í berhögg við stofnanir ríkisins.  

Þann 23. júní 2022 birtist harðorð grein í garð Hafró eftir Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK1, og Ágúst Ómarsson, skipstjóra á Drangey SK2, undir fyrirsögninni:

"Rugluð ráðgjöf".

Hún hófst þannig:

"Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er.  Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski.  Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6 % til viðbótar við 13,5 % niðurskurð í fyrra.  Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meiri né minni 20 %, enda þótt hann mokveiðist, hvar sem menn bleyta í veiðarfærum."

Það er ótvíræð jákvæð afleiðing lækkunar veiðihlutdeildarstuðuls niður í 20 % af viðmiðunarstofni (viðmiðunarstofn þarf að skilgreina á heimasíðu Hafró), að fiskurinn skuli nú vera mun veiðanlegri en áður var.  Sérfræðingar Hafró hafa sagt, að endurskoðun á gömlum stórfiski upp á við í áætlaðri stofnstærð hafi leitt til endurskoðunar niður á við í viðmiðunarstofnstærð (ekki sama og heildarstofnstærð).  Þetta er nokkuð torskiljanleg útskýring og kemur á sama tíma og "hafið (landhelgin) er fullt af fiski".  Það er þess vegna engin furða, að brigður séu bornar á réttmæti þess að draga úr fiskveiðiheimildum á þessu og næsta fiskveiðiári.  Hér stendur upp á Hafrannsóknarstofnun að útskýra niðurstöður sínar betur.  Það hefur verið viðurkennt af hálfu stofnunarinnar, og um það birtist frétt í Morgunblaðinu 24. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Vill ræða við sjómenn".

Fréttin hófst þannig:

"Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vill efna til samtals við sjómenn um ráðgjöf stofnunarinnar um hámarksafla einstakra nytjategunda fiska.  Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri, segir, að slíkt samráð hafi verið viðhaft áður og það þurfi að endurvekja.  Hann segir þó spurningu, hvort það eigi að vera í því formi, sem var, eða með öðru fyrirkomulagi."

Á heimasíðunni https://www.hafogvatn.is mætti vera kjarnyrt og skýr útlistun á, hvers vegna Hafrannsóknarstofnun telur nú nauðsynlegt að draga úr veiðum á nokkrum tegundum til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara stofna, og hvers vegna ekki hefur enn dregið neitt úr veiðanleika þeirra í lögsögunni. 

Sjávarútvegurinn er svo þjóðhagslega mikilvægur og svo margir hafa lífsviðurværi sitt af nytjastofnum við Ísland, að nauðsynlegt er, að almenningur skilji, hvað sérfræðingar Hafró eru að fara með ráðgjöf sinni.

Höfundur þessa pistils er ekki í nokkrum færum að draga réttmæti hennar í efa, enda hefur hún verið rýnd og samþykkt af sérfræðingum ICES-Alþjóða hafrannsóknarráðsins.  Það mætti gjarna árétta stefnumörkunina um þróun nytjastofnanna við Ísland, sem ráðgjöfin tekur mið af. Er sú stefnumörkun ættuð frá Alþingi, ráðuneyti eða Hafrannsóknarstofnun ?

20100925_usp001  

    


Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins

Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði.  Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa. 

Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka.  Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.

Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds.  Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar  og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir.  Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.

Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs  tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja.  Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast. 

Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild. 

Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum.  Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu.  Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti.  Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann. 

Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:

"Laskað orðspor".

"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk.  Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands. 

Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta.  Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín." 

Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd.  Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi.  Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir.  Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands.  Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.  

Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:

"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",

er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:

""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.

Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.

Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum.  Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum." 

  Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega.  Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega.  Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar.  Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi. 

Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni.  Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.  

"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann.  Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum. 

"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn. 

"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.  

Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.

"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times.  Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins.  "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."

Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um.  Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum.  Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa.  Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri. 

"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.

Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum.  Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands.  Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.  

Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn.  Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.  

Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass.  Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].  

"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ?  Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?".  Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands." 

Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld.  Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta.  Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að  glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu. 

"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín.  Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.

"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda.  "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu.  Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ?  Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda. 

Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur. 

Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt.  "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands.  Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""

Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt.  Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.  

Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga.  Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi.  Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs.  Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.  

Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum.  Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna.  Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland.  Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs.  Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.   


Samþjöppun ?

Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi.  Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi. 

Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.  Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.   

Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi.  Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu.  Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar.  Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi".  Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.  

Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Meinsemd sjávarútvegsins".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri.  Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins.  Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."

Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.

  Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust.  Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu.  Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu.  Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön.  Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ?  Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál.  Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér. 

"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil.  Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki.  Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið.  Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."

Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins.  Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.

Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni.  Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu. 

"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn.  Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans.  Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang.  Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla.  Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.

Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."

  Þetta er vel að orði komizt.  Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ?  Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur.  Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp.  Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu. 

Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi.  Það er ofur eðlilegt.  Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs.  Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.  

Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær.  Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni.  Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir.  Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár.  Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.  

   


Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd

Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu.  Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".

Hún hófst þannig:

"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV].  Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS].  Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."

Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár.  Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga.  Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast.  Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls.  Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km.  Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %.  Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028.  Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur.  Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."

Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds.  Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum.  Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi.  Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi.  Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið. 

"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár.  Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna.  Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu.  Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."

Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi.  Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum.  Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi. 

"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi.  Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum.  Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir.  Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal.  "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum  yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."   

Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil.  Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna.  Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins.  Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:

"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist.  Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum.  Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal.  Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."

Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls.  Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.

 


Ætlar óstjórninni aldrei að linna ?

Reykvíkingar felldu furðudýrin, sem mynduðu meirihluta borgarstjórnar, í kosningum 14. maí 2022, frá völdum, og er það í annað skiptið í röð, sem lýst er frati á stjórnarhætti borgarstjórans og önnur furðudýr, sem með honum hafa myndað meirihluta borgarstjórnar.

Þá gerist það, að eini fulltrúi Viðreisnar, sem inn komst, spyrðir sig við bandalag vinstri flokkanna, sem myndað var um þá huggulegu fyrirætlun þeirra að hundsa kosningaúrslitin og gefa Reykvíkingum langt nef.  Þótt Viðreisn flaggi borgaralegum gildum og hugmyndum á tyllidögum og fyrir kosningar, er nú ljóst, að ekkert er að marka hana; hún er ómerk orða sinna og kom í veg fyrir, að Framsóknarflokkurinn gæti a.m.k. látið líta út fyrir, að hann vildi efna kosningafyrirheit sín í Reykjavík. Viðreisn neitaði að reyna að verða við ábendingum kjósenda um nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í Reykjavík og situr nú brennimerkt í kratasúpunni. 

Þessi kratamoðsuða tók 4 nýja borgarfulltrúa Framsóknar í gíslingu til að endurlífga gamla meirihlutann án VG, og er það eins óbjörguleg byrjun á "samstarfi" um stjórnun borgarinnar og hugsazt getur.  Þetta er pólitískt eitrað fyrirkomulag fyrir bæði Viðreisn og Framsókn, eins og fljótlega mun koma á daginn.

Í Morgunblaðinu 31. maí 2022 voru viðraðar skoðanir ritstjórnarinnar í leiðara undir fyrirsögninni:

 "Engar breytingar, og reyndar verri en engar".

Í lok hennar stóð þetta:

"Splunkunýr leiðtogi kom í Framsókn [frá hægri - innsk. BJo] skömmu fyrir kosningar í Reykjavík nú.  Óljóst var, hverju hann lofaði, en þó ekki jafn óljóst og í dæmunum, sem nefnd voru [af loforðum Framsóknar fyrir þingkosningar - innsk. BJo].  Hann lofaði ítrekað [m.a. í flaumi dýrra auglýsinga - innsk. BJo] og alltaf, þegar hann kom því að, að Framsóknarflokkurinn nýi í borginni myndi tryggja breytingar. Þetta var risastóra loforðið, enda hið eina, sem menn muna, sem eykur stærðina enn.  Og efndin eina og ógnarsmá[a] er að tryggja, að Dagur Bje E, sem kjósendur gerðu allt, sem þeir gátu til að losna við, yrði áfram, og að hans meginverkefni yrði, eins og áður, að tryggja bensínsölum, sem leggja upp laupa, milljarða [ISK] á milljarða ofan í fullkomnu heimildarleysi og andstöðu við reglur og hefðbundið verklag borgarinnar til tuga ára."  

Þarna er sýnt fram á, að Framsóknarflokkurinn í borginni lætur furðudýrin í föllnum vinstri meirihlutanum ekki einvörðungu teyma sig á asnaeyrunum inn í pólitískt öngstræti, heldur út í kviksyndi spillingar, sem grafið hafur um sig undir verndarvæng Samfylkingarinnar í borginni. 

Hvernig getur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík litið á það sem hlutverk sitt að endurnýja völd sérvitringa og furðudýra, sem misbeita skipulagsvaldi sínu í þágu minnihlutasjónarmiða sinna um, að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara sem fyrst úr Vatnsmýrinni, og reyna að gera hann óstarfhæfan með íbúðabyggingum (á hæðina) í grennd auk fleiri óþurftarverka ? 

Önnur dæmi um misbeitingu skipulagsvalds eru af sviðum samgangna á landi, en furðudýrin tóku mislæg gatnamót út af aðalskipulagi borgarinnar, svo að Vegagerðin færi ekki að huga að fjárfestingum í alvöru og löngu tímabærum samgöngubótum.  Alræmt er síðan, þegar þetta stæka afturhald skipulagði íbúðabyggð (án skóla) í Vogahverfi í veg fyrir hagkvæmustu legu Sundabrautar að dómi Vegagerðar, en rök samtaka um bíllausan lífstíl og furðudýranna í gamla meirihlutanum gegn Sundabraut eru, að hún auki á umferðina og auki þar með mengun og losun koltvíildis.  Þegar veruleikafirrtir fá völd, er bara skáldað upp "nýjum sannleik", sem alltaf er eins og út úr kú.   

Aðför hins afdankaða meirihluta í borgarstjórn að fjölskyldubílnum er annálsverður í sögu Reykjavíkur, því að þar er fullkominn fíflagangur á ferðinni með þrengingum gatna, fuglahúsum og framkvæmdastoppi á umbætur.  Hugmyndafræði furðudýranna snýst um að gera ökumönnum sem erfiðast fyrir í umferðinni í von um, að þeir gefist upp og leggi bílum sínum eða flytji annað. 

Fleiri akreinar og örugg (mislæg) gatnamót eru sögð fjölga ökutækjum, en furðudýrin vilja leysa úr umferðarhnútum í Reykjavík með því að fækka bílum. Þessi "hugmyndafræði" er eintóm vitleysa frá upphafi til enda, og að setja borgarlínuverkefnið, sem er trompið til að fækka bílum, í forgang fjárveitinga er yfirþyrmandi áhættusækni fyrir hönd skattgreiðenda með mrdISK 100-200 áður en upp verður staðið, og árangurinn verður alls enginn, ef reynsla Björgvinjarbúa í Vestur-Noregi er höfð til hliðsjónar.

Í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor emerítus, í Morgunblaðinu 16.05.2022 mátti lesa þetta í byrjun undir fyrirsögninni:

"Töpum 120 milljörðum á töfum":

"Auknar tafir hafa einkennt umferðina á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug og má áætla, að árið 2019 hafi tekið um 50 % lengri tíma að komast á milli staða en árið 2007.  Hægt er að reikna út kostnaðinn af þessum töfum, en samanlagt má áætla, að hjá höfuðborgarbúum fari á bilinu 11-18 Mklst/ár í súginn árlega vegna lengri ferðatíma.  Ef reynt er að verðleggja þennan glataða tíma, er tjón almennings um 60 mrdISK/ár, en þjóðhagslegt tjón í kringum 120 mrdISK/ár. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, sem Hagrannsóknir sf. gerði að beiðni samtakanna Samgöngur fyrir alla (SFA) með stuðningi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE)."

 

 Hér er hrikalegt sjálfskaparvíti á ferðinni, sem stafar af óhæfri pólitískri forystu í Reykjavík.  Hún er veruleikafirrt og þess vegna gjörsamlega utan gátta, þegar þarf að finna skynsamlegar lausnir á viðfangsefnum.  Það er ekki nóg með, að vegfarendur í Reykjavík verði fyrir óþörfum töfum, heldur veldur servizka furðudýranna í borgarstjórn aukinni slysahættu, þar sem þau hafa hundsað nauðsynlegar nútímalegar endurbætur á forneskjulegum gatnamótum, sem henta engan veginn fyrir þann ökutækjafjölda, sem daglega þarf að fara um þau. Furðudýrin skeyta engu um mannlega harmleiki, sem af þessu hljótast, og líklega um 50 mrdISK/ár aukakostnaði í tjónum, slysum og jafnvel dauðsföllum. Í staðinn hafa þau fengið þá flugu í höfuðið, að þeim beri með stjórnvaldsaðgerðum að fækka fjölskyldubílum í umferðinni, og til þess reyna þau að torvelda umferðina.  Þetta er sjúklegt ástand, og toppurinn á vitleysunni verður ofurstrætó, sem mun fækka akreinum fyrir önnur ökutæki og torvelda alla umferð, því að ofurstrætó verður á 2 akreinum fyrir miðju vegstæðis.  Þetta er ferlíkisframkvæmd, sem er dæmd til að mistakast og verða myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem að henni standa, og baggi á skuldsettum ríkissjóði, sem fyrir vikið verður að fresta bráðnauðsynlegum samgöngubótum. 

 "Spurður um ástæðurnar að baki auknum töfum í umferðinni segir Ragnar, að sennilegasta skýringin sé sú, að fólksfjölgun hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu og ferðum þar með fjölgað, en samgönguinnviðir ekki verið bættir til að mæta þessari þróun. "Umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið verið bætt undanfarin 12-15 ár og jafnvel verið stigin ákveðin skref - sérstaklega af hálfu Reykjavíkurborgar - til að rýra umferðarmannvirki með ýmsum hætti á þessu tímabili." 

Augljósasta lausnin til að leysa umferðarvandann í dag er, að mati Ragnars, að ráðast í gerð viðeigandi umferðarmannvirkja, og segir hann, að þegar liggi fyrir hönnun á umferðarmannvirkjum, sem munu draga verulega úr umferðartöfum.  Sum þeirra séu mislæg gatnamót á viðeigandi stöðum, en aðrar felist í tiltölulega einföldum endurbótum á þeim umferðarmannvirkjum, sem fyrir hendi eru.  Víða geti einfaldar lagfæringar eða endurhönnun vega haft veruleg jákvæð áhrif. "Þetta eru framkvæmdir, sem útreikningar sýna, að eru mjög hagkvæmar, og skila samfélaginu ávöxtun, sem er langt umfram það, sem venjuleg fjárfestingartækifæri bjóða.""

  Að hætti vandaðra fræðimanna lætur Ragnar Árnason ekki þar við sitja að greina vandamálið og leggja tölulegt mat á umfang þess, heldur dregur hann upp úr pússi sínu lausnir, sem eru þekktar, þaulprófaðar að virka og kostnaðarmetnar.  Hængurinn á verkefninu er sá, að vandamálið er ekki sízt að finna í borgarstjórn Reykjavíkur sjálfri, þar sem við eldana sitja furðudýr úr gjörólíkum hugmyndaheimi, m.v. hugmyndaheim Ragnars, sem leynt og ljóst telja hluta lausnarinnar vera að auka vandræði vegfarenda með töfum og aukinni slysahættu, því að þannig muni bílum í umferðinni að lokum fækka.

Síðan er í undirbúningi rándýr ofurstrætó (liðvagnar), sem á að bjóða þeim, sem hrökklast út úr bílum sínum, upp á valkost, sem þau geti sætt sig við.  Þetta er kolruglaður hugsunargangur og ósvífinn í hæsta máta, sem hafa mun mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði allra þeirra, sem þurfa að aka um höfuðborgarsvæðið, og mun draga úr getu viðkomandi sveitarfélaga og ríkissjóðs til að sinna mun vitrænni og nauðsynlegum fjárfestingum.

Verkefnið er glórulaust í alla staði, enda rökstutt með bábiljum, eins og minni mengun og losun koltvíildis.  Það stenzt ekki skoðun, því að tafirnar auka losun eiturefna og CO2 og ofurstrætisvagnar munu tæta upp malbikið vegna tíðra ferða og öxulþungans.  Vegslitið fylgir öxulþunganum í 3. veldi, sem þýðir t.d., að 2,0 t bíll veldur áttföldu sliti á við 1,0 t bíl.  

"Bætir Ragnar við, að áhugavert sé að setja tjónið af töfum í umferðinni í samhengi við tekjur sveitarfélaganna, en árið 2018 námu útsvarstekjur Reykjavíkurborgar um mrdISK 110.  "Líta má svo á, að með því að láta reka á reiðanum í þessum málaflokki sé verið að leggja á borgarbúa viðbótarskatt, sem slagar hátt upp í útsvarið, sem þeir eru að greiða.""

Þetta er lýsandi samanburður hjá Ragnari, en það er nauðsynlegt að taka líka slysakostnaðinn af völdum frumstæðra gatnamóta (m.v. umferðarþungann) með í reikninginn, og þá fæst sama upphæð og útsvarinu nemur, sem varpar ljósi á afleiðingar þess að hafa við völd í Reykjavík, kjörtímabil eftir kjörtímabil, staurblint afturhald.  

Miklabraut


Orkuaðsetur á Bakka við Skjálfanda

Þann 26. apríl 2022 barst loks frétt af raunhæfri viðskiptahugmynd um framleiðslu á rafeldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings.  Í iðngörðum á Bakka við Húsavík er ætlunin að nýta raforku frá stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar eftir atvikum til að framleiða vetni og ammóníak. Með verð á olítunnunni í USD 120 og stígandi, er þetta sennilega orðin raunhæf viðskiptahugmynd nú þegar, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi í útvarpsviðtali að morgni 1. júní 2022 talið, að svo yrði ekki fyrr en að 5 árum liðnum. Téð frétt Morgunblaðsins um þetta efni var undir fyrirsögninni:

"Framleiða rafeldsneyti á Bakka".

Hún hófst þannig:

"Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland [og] óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður að hraða undirbúningi að framleiðslu rafeldsneytis, eins og vetnis og ammoníaks, að mati Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lykilatriði í orkuskiptunum.  Fyrirtækið stefnir að byggingu fyrstu stórskala rafeldsneytisverksmiðju landsins á Bakka við Húsavík."

Það er rétt, að orkuskiptin á Íslandi verða aldrei barn í brók án öflugrar rafeldsneytisverksmiðju í landinu, og þess vegna er frétt um þetta frumkvæði einkaframtaksins fagnaðarefni. Að hefjast handa er ekki einvörðungu nauðsyn vegna loftslagsmarkmiðanna, heldur ekki síður til að spara gjaldeyri, þegar líklegt er, að verð á hráolíu verði yfir 100 USD/tunna á næstu árum m.a. vegna viðskiptabanns Vesturlanda á útlagaríkið Rússland, sem unnið hefur til þess að verða einangrað vegna grimmdarlegs og blóðugs yfirgangs við lýðræðislegan og fullvalda nágranna sinn. 

Notendur afurðanna  verða m.a. fiskiskip, flutningaskip, flutningabílar vöru og fólks og flugvélar.  Stór markaður bíður þessarar verksmiðju, en hann mun opnast smátt og smátt vegna vélanna, sem í mörgum tilvikum þarfnast breytinga, enda ekki hannaðar fyrir þessar afurðir sem kjöreldsneyti fyrir hámarksnýtni og endingu. 

"Sigurður segist í samtali við Morgunblaðið finna fyrir miklum áhuga og meðbyr.  "Green Fuel mun framleiða vetni og ammoníak, sem bæði eru algerlega kolefnislaus í framleiðslu og notkun.  Þessar 2 tegundir rafeldsneytis eru því lausn á loftslagsvanda heimsins og munu stuðla að því, að Ísland uppfylli ákvæði Parísarsamkomulagsins varðandi minnkun kolefnisútblásturs.  T.d. væri það mikill kostur, ef kaupskipa- og fiskiskipaflotinn næði að skipta út dísilolíu [og flotaolíu - innsk. BJo] yfir í rafeldsneyti", segir Sigurður.

Ammóníakið, sem Green Fuel hyggst framleiða, myndi duga til að knýja þriðjung íslenzka fiskiskipaflotans að sögn Sigurðar.  Auk þess mun Green Fuel framleiða vetni í fljótandi formi, sem er álitlegur orkugjafi [orkuberi - innsk. BJo] fyrir þungaflutninga og innanlandsflug á Íslandi."

Það er ekki bara kostur, heldur nauðsyn, að flotinn losi sig úr viðjum eldsneytisinnflutnings og verði um leið kolefnishlutlaus.  Vetnið er grunnvaran fyrir allt rafeldsneyti.  Til að færa það á vökvaform er vetnið sett undir háan þrýsting og jafnvel kælt líka. Þetta er orkukræft ferli, og minni hagsmunum verður einfaldlega að fórna fyrir meiri til að útvega "græna" raforku í verkið. Þokulúðrar á þingi á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem gera þarf nánari skil á þessu vefsetri, bar brigður á það, að virkja þyrfti meira til að vinna bug á raforkuskorti í landinu, reyna sitt til að leggja steina í götu eðlilegrar iðnþróunar í landinu. Forstjóri Landsvirkjunar játar, að raforkueftirspurn í landinu sé nú meiri en raforkuframboðið, í greinarstúfi í Fréttablaðinu 1. júní 2022, en samt situr Orkustofnun á leyfisumsókn fyrirtækis hans um Hvammsvirkjun síðan fyrir um ári, og hann kvartar ekki mikið undan silakeppshættinum opinberlega. Það hvílir ótrúlegur doði yfir stjórnsýslunni í landinu á ögurstund.   

"Stefnt er að því að hefja framleiðsluna á Bakka árið 2025, ef samningar ganga eftir.  Um er að ræða um 30 MW raforkuþörf [aflþörf - innsk. BJo] í fyrsta áfanga , en 70 MW til viðbótar í seinni áfanga."

Þetta eru alls 100 MW, sem ætti að vera unnt að útvega úr jarðgufugeymum Þingeyinga, en er Landsvirkjun tilbúin í stækkun Þeistareykja og Kröflu ? Lok fréttarinnar hljóðuðu þannig: 

"Spurður um helztu magntölur segir Sigurður, að þegar báðir áfangar verði komnir í gagnið [orkunotkun um 800 GWh/ár - innsk. BJo], verði framleiðslan um 105 kt/ár eða 300 t/d af ammóníaki.

Störfin segir Sigurður, að muni skipta tugum, þó [að] of snemmt sé að fullyrða um endanlega tölu.  "Verksmiðjan kemur með atvinnu inn á svæðið, bæði í verksmiðjunni sjálfri og hjá þjónustufyrirtæjum í nærumhverfinu", segir Sigurður að lokum." 

Hér er örugglega um þjóðhagslega arðsamt fyrirtæki að ræða og mjög líklega um rekstrarlega arðsamt fyrirtæki að ræða, þegar hráolíutunnan er komin vel yfir USD 100, eins og nú.  Þess vegna þarf að fara að hefjast handa, en orkuskortur hamlar.  Það er næg orka í gufuforðageymum Þeistareykja og Kröflu, og skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki hafa brugðizt betur við og boðað stækkun þessara virkjana. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, þegar málsmeðferðartími opinberra leyfisveitenda er annars vegar.  Það liggja víða dragbítar framfara á fleti fyrir.  

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband