Fjarstæðukenndur afturhaldsáróður

Í landinu hefur alltaf verið andstaða við orkunýtingu til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, eins og sagan greinir frá allt til Títanfélags Einars Benediktssonar, skálds.  Átökin um fyrstu stórvirkjun landsins við Búrfell (Sámstaðamúla) í Þjórsárdal á árunum 1963-1969 eru höfundi þessa vefpistils enn í minni, en þá börðust andstæðingar Viðreisnarstjórnarinnar, Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur, hart gegn Búrfellsvirkjun og stofnun álverksmiðjunnar í Straumsvík við Hafnarfjörð, sem fá átti raforku frá Búrfellsvirkjun. 

Virkjuninni var talið margt til foráttu, einkum að rennslistruflanir í jökulvatninu yrðu svo miklar, að stöðva yrði starfsemi virkjunarinnar. ISAL-verksmiðjan var uppnefnd "hausaskeljastaður" og sagt, að fjöldi verkamanna mundi tína þar lífinu strax á byggingarskeiðinu. Fullyrðingaflaumur beturvitanna lætur aldrei að sér hæða. 

Þessi fordæðumálflutningur varð sér allur til skammar, enda reistur á fordómum og vanþekkingu.  Annað bjó undir.  Það mátti ekki tengja Ísland við alþjóðlega peningakerfið (Alþjóðabankinn lánaði Landsvirkjun fé fyrir Búrfellsvirkjun) til hagsbóta fyrir verkalýðinn og þjóðina alla.  Það var ennfremur alið á fordómum gegn erlendri fjárfestingu öflugra iðnrekenda, í þessu tilviki svissneska álfélagsins Alusuisse, og 100 % eignarhaldi þess og þar með áhættutöku á ISAL.  Þessi brautryðjendastarfsemi í atvinnusögu landsins var sögð þjóðhættuleg af andstæðingum Viðreisnarstjórnarinnar, en hún (Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn), leidd af mikilhæfum leiðtogum, sem hikuðu ekki við að berjast fyrir sannfæringu sinni um gagnsemi þessara breytinga fyrir landið, hélt sínu striki. 

Það er næsta víst, að hefði þjóðin ekki notið leiðsagnar Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og atvinnustefnu hans, hefðu landsmenn ekki farið inn á braut orkukræfrar iðnaðarframleiðslu á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og jafnvel aldrei í þeim mæli, sem nú er (yfir 300 mrdISK/ár útflutningstekjur).  Þjóðfélagið stæði þá fjarri því jafntraustum fótum fjárhagslega, verkmenning og öryggi á vinnustað væru fátæklegri og þjóðin væri vafalaust fámennari en nú, því að atvinnuleysi og þekkingarflótti hefðu orðið plága.  Þessar voguðu breytingar í atvinnuháttum urðu landsmönnum mikið gæfuspor, en afturhaldið í landinu varð bert að innihaldslausum hræðsluáróðri alveg eins og nú að breyttu breytanda. 

Sams konar innihaldslausum hræðsluáróðri er enn beint að landsmönnum, og lengst gengur félagið Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, stundar ábyrgðarlausan málflutning um orkumál landsins, sem einkennist af innantómum fullyrðingum og klisjum, sem hún af fullkominni ósvífni ber á borð fyrir almenning sem nútímalega stefnumörkun, en er hvorki fugl né fiskur og ekkert annað en draumórakenndur fáránleiki.

Hún gerir sig seka um tilraun til að leiða almenning á þær villigötur, að í stað nýrra virkjana fyrir orkuskipti og atvinnusköpun fyrir vaxandi þjóð bjóðist landsmönnum sá töfrasproti að beina allt að 50 %  raforku, sem nú fer til iðnaðarins, frá iðnaðinum án þess, að nokkur verði þess var á tekjuhlið sinni, þegar þessi orka hafi fundið sér nýja notendur.  Þetta er vitlausasti málflutningur, sem sézt hefur um raforkumál landsmanna frá því að rafvæðing hófst hérlendis, og er þá langt til jafnað. 

Efnismikil og vel rökstudd grein birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2022 eftir Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs, þar sem hann útskýrir glögglega fyrir lesendum með gröfum, súluriti og hringsneiðmynd, að tillögur Landsverndar mundu í framkvæmd leiða til hruns í lífskjörum landsmanna, eins og nærri má geta.  Auður Önnu hjá Landvernd er hins vegar við sama heygarðshornið, þegar Tómas Arnar Þorláksson átti  við hana viðtal, sem hann birti í Morgunblaðinu 28. júní 2022 undir einum af fjarstæðukenndum frösum Landverndar í fyrirsögn:

"Forgangsraða orku í stað virkjana".

Viðtalið hófst með ógeðfelldu yfirlæti þekkingarsnauðrar Auðar Önnu á atvinnusköpun og -rekstri:

""Við erum ekki bara einhverjir aumingjar, sem bíða hérna eftir því, að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu", segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um grein Jóhannesar Stefánssonar, lögfræðings Viðskiptaráðs, sem birtist í Morgunblaðinu í gær.  Þar tók Jóhannes fram, að tillaga Landverndar um full orkuskipti án aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld stæðist ekki skoðun."

Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvert Auður Önnu er að fara með svona fráleitri yfirlýsingu.  Ef hún hafði í huga sokkabandsár orkukræfs iðnaðar og aðdraganda hans 1964-1969, þá er hún á algerum villigötum, eins og fyrri daginn. Það er yfirlætisfull heimska fólgin í því að kalla menn aumingja, þótt þá skorti þekkingu á framleiðsluferli málma á borð við ál og ráði hvorki yfir nauðsynlegum viðskiptasamböndum né fjármagni til að reisa og reka slíkar verksmiðjur.  Allt þetta fengu landsmenn með samningum Viðreisnarstjórnarinnar við Alusuisse, og sá samningur veitti aðgang að láni hjá Alþjóðabankanum á mun hagstæðari viðskiptakjörum en ella.  Íslendingar voru hins vegar snarir í snúningum við að tileinka sér framleiðslutæknina og vinnubrögðin við stórverkefni á borð við álver og stóra vatnsaflsvirkjun, og nú standa þeim engir á sporði við tæknilegan rekstur álvera.

Hér er um mikilsverða verkþekkingu að ræða, sem dreifzt hefur um allt samfélagið almenningi til hagsbóta.  Þegar framkvæmdastjóri Landverndar leggur til, að íslenzka ríkið, eigandi Landsvirkjunar, stöðvi afhendingu um helmings núverandi raforkuafhendingar til orkukræfs iðnaðar við fyrsta tækifæri, er um að ræða þvílíkan óvitaskap, ábyrgðarleysi og fjarstæðukennt bull, að engu tali tekur.  Samtök, sem ráðið hafa talsmann þessarar gerðar til starfa, eru hreinræktað niðurrifsafl í þjóðfélaginu, sem hafa fyrir vikið ekki snefil af trúverðugleika lengur. 

"Að mati Auðar er þetta ekki rétt hjá Jóhannesi, og segir hún Landvernd taka þetta allt fyrir í sviðsmyndagreiningu samtakanna, sem sé mjög ítarleg.  "Forsendurnar fyrir þessu eru, að við forgangsröðum orkunni, sem við framleiðum nú þegar, en 80 % af þeirri orku fara í stóriðju, sem hagnast á erlendum stórfyrirtækjum", segir Auður, og að hennar mati nýtur íslenzkt samfélag ekki góðs af þessu. Segir hún, að samkvæmt útreikningum þeirra þurfi stóriðjan að draga úr orkunotkun sinni um allt að 50 %."

Þetta er eiginlega óskiljanlegt rugl í Auði Önnu. Hver hagnast á erlendum stórfyrirtækjum ?  Eru það ekki raforkufyrirtækin Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet ?  Hagnaður Landsvirkjunar 2021 varð um mrdISK 30, megnið af honum frá stórnotendum og helmingurinn fór í arðgreiðslur til ríkissjóðs.  Það bætist við skattgreiðslur fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, en bullukollan kveður íslenzkt samfélag "ekki njóta góðs af þessu".  Þetta er undirmálsmálflutningur. 

"Hvað varðar ályktun Jóhannesar, að orkuskipti án frekari virkjana séu ómöguleg, segir Auður það ekki rétt, nema ef notazt er við lausnir gærdagsins.  Segir hún svarið ekki vera að sækja enn frekar í auðlindir.  Undirstrikar hún, að það þurfi að koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar." 

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Auður Önnu reynir að klæða trúarbrögð sértrúarsafnaðarins í Landvernd í búning nútímalegra viðhorfa, en það er ekkert nútímalegt við farsakenndar firrur í opinberri umræðu annað en falsfréttabragurinn, sem nú tröllríður fréttamiðlunum.  Það er engin glóra í því að setja fram atvinnustefnu og efnahagsstefnu á þeim grundvelli, að ekki megi virkja meira af endurnýjanlegum og nánast kolefnisfríum orkulindum í náttúru Íslands án þess að sýna fram á það með haldbærum rökum án trúarlegra stefja á borð við, að náttúran skuli njóta vafans, að unnið hafi verið óafturkræft tjón á náttúrunni hingað til með virkjunum. 

Hér verður að greina á milli breytinga og tjóns, en margar breytinganna hafa orðið til góðs fyrir náttúruna, s.s. til að verjast giljagreftri og landbroti og að framkalla nýjar laxveiðiár.  Á Íslandi er vert að hafa í huga, að náttúran sjálf er miklu stórtækari breytinga- og tjónvaldur á náttúrunni en íbúar landsins.  Stefna Landverndar er í stuttu máli svo laus við að vera nútímaleg, að nútímalegu og fjölbreytilegu velferðarþjóðfélagi verður ekki viðhaldið í landinu, ef sveigja á inn á glórulausa afturhaldsbraut Landverndar. Boðskapur af því tagi, að ekki skuli nýta meiri jarðvarma og vatnsföll eru einsdæmi í landi, þar sem hlutfallslega er jafnlítið nýtt (virkjað) og hérlendis.  Það er einhver ofdekursbragur allsnægta yfir boðskap Landverndar. 

"Þá bendir Auður á, að bæði Landvernd og tímaritið The Economist hafi sýnt, að verðmætasköpun á hverja orkueiningu á Íslandi sé með því lægsta, sem gerist á heimsvísu.  Enn frekar bendir hún á, að mjög fá störf skapist á hverja orkueiningu.  Ítrekar hún þá, að ef við breytum því, hvernig við nýtum orkuna, sem er nú þegar framleidd, getum við skapað meiri verðmæti.  Tekur hún fram, að fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi ferðaþjónustan verið langstærsti útflytjandi vöru og þjónustu."

Þarna reynir Auður Önnu að spyrða Landvernd við hið virta tímarit The Economist, en hér skal fullyrða, að ritstjórn The Economist yrði gáttuð á því rugli, sem Landvernd setur á oddinn í orkumálum Íslands.  Það er spurning, hvort téðir útreikningar á verðmætasköpun á orkueiningu hafa verið gerðir, þegar Kínverjar og Rússar dembdu miklu magni málma inn á Evrópumarkaðinn, svo að verðið hríðféll, en nú hefur verð á t.d. áli tvöfaldazt frá fyrri hluta Kófstímans.

Það er þó annar samanburður áhugaverðari, en hann er verg landsframleiðsla á mann, en þar eru Íslendingar á meðal hinna allra hæstu í heiminum og líka í launakostnaði á mann.  Það er gríðarleg erlend fjárfesting á hvert MW eða starf í orkukræfum iðnaði.  Á slíkum vinnustöðum eru nánast alltaf hærri laun en á hinum, og þetta eru einmitt þau störf, sem sótzt var eftir að fá til Íslands, af því að starfsemin er stöðug, og eigandinn leggur ógjarnan niður starfsemi mikilla fjárfestinga og hárrar skilvirkni, en sú er reynslan af íslenzku starfsfólki verksmiðjanna upp til hópa. 

Þegar um sjálfbæra orkunotkun er að ræða, er viðhorfið til verðmætasköpunar á MW auðvitað allt annað en til brennslu jarðefnaeldsneytis, svo að hin seinheppna Auður Önnu hefur hér slysazt til að bera saman epli og appelsínur. Hún virðist telja æskilegt, að ferðaþjónustan á Íslandi, sem ekki flytur út vörur, eins og hún heldur fram, taki við starfsfólkinu, sem missir sín störf, verði farið að tillögum Landverndar.  Gerir Auður Önnu sér grein fyrir álagsaukningunni á umhverfið, gangi það eftir, launalækkun fólksins og þeirri miklu ósjálfbæru orkunotkun, sem fylgir hverju starfi í þessari grein ? 

"Segir hún að auki útreikninga Jóhannesar ekki rétta, að án frekari orkuframleiðslu muni lífskjör hér á landi versna fyrir árið 2050 og verða svipuð og þau voru rétt eftir árið 2000.  "Við erum að leggja til, að lífskjör verði eins og í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar.  Til þess þurfum við að forgangsraða orkunni öðruvísi og betur", segir Auður." 

Það er kjaftur á keilunni, þegar hún fullyrðir skilmerkilega greinargerð Jóhannesar Stefánssonar ranga og færir fyrir því aðeins það útþvælda slagorð, að "forgangsraða [þurfi] orkunni öðruvísi og betur. Er ekki augljóst, að verði 150 mrdISK/ár teknir út úr hagkerfinu, og það vel launaða fólk, sem þá missir vinnuna, fer að vinna við ferðaþjónustu, eins og virðist vaka fyrir forræðishyggjupostulanum Auði Önnu,eða fari að starfa við að framleiða rafeldsneyti,  eða flýi land, þá verði samfélagið að sama skapi fátækara og lífskjör alls almennings lakari ?  

Delluhugmyndafræði forræðishyggjupostula, sem engum einkaframtaksmanni mundi hugnast, hefur aldrei vel gefizt í sögunni og alltaf gert almenning fátækari, hafi einhverjar slíkar hókus-pókus- lausnir orðið ofan á.  Auður Önnu dregur enga hvíta kanínu upp úr hatti sínum, þótt hún klæðist búningi töframanns. Til þess er hugmyndafræði hennar of illa ígrunduð, full af þverstæðum og raunar algerlega óþörf fórn í anda "Endimarka jarðar".  Á Íslandi þarf að afnema afl- og orkuskort tafarlaust og virkja fyrir þörfum orkuskipta og vaxandi útflutningsframleiðslu til lífskjarabata fyrir vaxandi þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband