27.5.2011 | 22:11
Vanheilagt bandalag
Upp úr skjóðunni eru nú að skjótast molar, sem varpa skýrara ljósi á, hvílík regingjá er á milli orða og gjörða forkólfa ríkisstjórnarinnar. Myrkraverk þeirra leynast ekki lengur. Fjármálaráðherrann, Steingrímur Jóhann Sigfússon, er nú orðinn ber að því að vera vikapiltur alþjóðlegra fjármálaafla, líklega vogunarsjóða. Ískyggilegt er, að hann skuli hafa selt þeim Aríonbanka og Íslandsbanka og tapað um 20 milljörðum króna á þeim viðskiptum. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haardes var með áform um, að á rústum föllnu bankanna þriggja risu þrír ríkisbankar. Átti sú fjármögnun að nema lægri upphæð en fjármögnun nýju bankanna hefur kostað ríkissjóð. Átti að leiðrétta þá miklu hækkun skuldabyrðar heimila og fyrirtækja, sem af Hruninu leiddi, með afskriftum skulda í hinum nýju ríkisbönkum. Ekki er að spyrja að mannvitsbrekkum norrænu velferðarstjórnarinnar.
Skömmu eftir myndun vinstri stjórnarinnar, 1. febrúar 2009, var snúið við blaðinu. Þá átti sér stað furðulegasta og dularfyllsta einkavæðing Íslandssögunnar á bak við tjöldin. Vinnubrögð í anda ráðstjórnar. Kröfuhafar gömlu bankanna voru gerðir að meirihluta eigendum Íslandsbanka og Aríonbanka. Þetta gerðu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. með "skjaldborg um heimilin" á vörunum. Svikamilla Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að greiða fyrir aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem hafði í hótunum er að koma í ljós. Lýðskrumarar, hræsnarar og hreinar undirlægjur erlends valds sviku þannig skuldugan almenning í klær óprúttinna gróðapunga og héldu skuldugum fyrirtækjum í heljarklóm. Þetta var gert undir hinu raunverulega kjörorði ríkisstjórnarinnar: "Tortryggni, öfund og sundrungarandi".
Hér hefur hin misheppnaða og fláráða stjórnarforysta, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann, framið slíkt axarskapt, að kalla verður saman Landsdóm til að kveða upp úr um sýknu eða sekt um landráð, "þegar þau siguðu erlendum kröfuhöfum í gegnum hina föllnu banka gegn íslenskum fyrirtækjum og almenningi í vanda", eins og segir í forystugrein Morgunblaðsins, "Alvarleg afglöp", mánudaginn 23. maí 2011.
Annað ríkulegt tilefni til að láta téða forkólfa finna rækilega til tevatnsins úr þeim katli, sem þau sjálf drógu ónotaðan og rykfallinn fram og hituðu upp með offorsi, er "Icesave" málið frá upphafi til enda. Vonandi boðar stjórnarandstaðan á þingi brátt undirbúning slíks málatilbúnaðar. Hér eru á ferðinni margfalt meiri sakarefni en í máli Geirs Hilmars, sem sakaður er um vanrækslu í starfi án þess að nokkur maður hafi getað bent með trúverðugum hætti á það, sem hann átti að gera, en lét ógert. Ákæra núverandi þingmeirihluta er ómálefnaleg, en við téð axarsköpt skötuhjúanna örmu voru skýrir valkostir.
Skriðdýrsháttur ríkisstjórnar vinstri manna í Icesave-málinu gagnvart fjármálafurstum á Bretlandi og í Hollandi, ásamt skósólasleikjum í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, er af nákvæmlega sama meiði og gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum bankanna. Þessi lágkúra vinstri manna gagnvart auðvaldinu er vel þekkt úr sögu Samfylkingarinnar, eins og rakið er skilmerkilega í nýútkominni bók Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "Rosabaugur yfir Íslandi".
Hér er við hæfi að grípa niður í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, 20.05.2011, "Ó, litla þjóð":
"En Samfylkingin, helsta skjól útrásarmanna, afsakandi þeirra og útrásarsleikja frá sínum fyrsta degi pólitískrar tilveru komst skaðlaus frá kosningunum."
Samfylkingin var stjórnmálalegur bakhjarl og fótaþurrka Baugs, enda studdu fjölmiðlar Baugs Samfylkinguna í síðustu kosningum, og þannig útskýrir höfundur Reykjavíkurbréfs, að Samfylkingin skyldi sleppa við skell í síðustu Alþingiskosningum. Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Blekkingarhjúpinum hefur verið svipt burt, og eftir situr ófrýnilegt smetti landssvikara.
Samfylkingin þjónaði útrásarmönnum til borðs og sængur. Skemmst er að minnast REI-hneykslisins, þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, og Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, studdu með ráðum og dáð, að útrásarvíkingarnir læstu klóm sínum í Orkuveitu Reykjavíkur. Svo nefndir sexmenningar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins stöðvuðu þessa ráðagerð á síðustu stundu og uppskáru fyrir það hatur spilltrar klíku.
Samfylkingin vinnur nú ötullega að inngöngu Íslands í ESB. Þar styður hún hagsmuni bankaauðvaldsins, sem í öllum löndum Evrópu styður æ meiri samruna ("Ever closer Union") og ræður för ESB, sbr harðneskjulega aðför að Grikkjum, Írum og Portúgölum, þar sem ESB berst fyrir hagsmunum lánadrottnanna. Þetta er meginskýringin á fantabrögðum ESB gagnvart Íslendingum eftir Hrun. Samfylkingin var handbendi braskara og fjárglæframanna, sem átu bankana að innan, eða með orðum höfundar ofangreinds Reykjavíkurbréfs:
"Burðarviðurinn hafði verið seldur og auðurinn sem út úr því braski kom settur í vöxt í kjörlendi hans, skattaskjólum og þekktum peningafylgsnum."
Samfylkingin hefur ekkert breytzt frá árunum fyrir Hrun, enda neitar hún að horfast í augu við sjálfa sig og fortíð sína. Við mat á réttmæti umsóknar Íslands um aðild að ESB er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, að hagsmunir auðvalds Evrópu, sem ræður ESB, fara ekki saman við hagsmuni Íslands. Ísland er norðlæg eyja, framleiðsluland sjávarafurða, málma og landbúnaðarafurða, og þarf að gæta auðlinda sinna, sem að baki þessari framleiðslu standa. Landið er á jaðri Evrópu án landamæra að nokkru landi ESB. Nágrannarnir eru Færeyingar, Norðmenn og Grænlendingar, og ber að rækta samvinnu sérstaklega við þessar þjóðir um leið og viðskiptasamband er eflt og samstarfsverkefnum fjölgað vestur á bóginn.
Jafnframt þarf Ísland að gæta framtíðar hagsmuna sinna í norðri, en ekki að afsala þeirri hagsmunagæzlu í hendur komandi stórríkis í suðri, þó að vinsamleg samskipti við það séu okkur nauðsyn. Nýlega töpuðu Íslendingar í samkeppni við Norðmenn um að hýsa aðalbækistöðvar samtaka ríkja, sem land eiga að Norður-Íshafinu og/eða norðurpólnum. Hvers vegna halda menn, að það hafi verið ?
Það var vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB. Þessi ríki norðursins vilja ekki hleypa ESB að borði Norðurskautsráðsins, því að ESB rekur nýtingarstefnu og viðskiptastefnu, sem brýtur í bága við hagsmuni norðursins. Nægir að nefna hval og sel í því sambandi. Hagsmunum Íslands er bezt borgið í höndum Íslendinga sjálfra. Sagan sannar þessa fullyrðingu áþreifanlega. Fjölnismenn og frelsishetjan, Jón Sigurðsson, forseti, reyndust um þetta sannspáir.
Aðstæður í samfélaginu hafa breytzt svo mikið frá kosningunum í apríl 2009 með nýjum upplýsingum og afleitri reynslu af þjóðhættulegri afturhaldsstefnu rauðgræna bandalagsins, að eðlileg lýðræðiskrafa er um Alþingiskosningar hið fyrsta samfara þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðlögunar íslenzka stjórnkerfisins að ESB eða stöðvun umsóknarferlisins og afturköllun óheillaumsóknar.
Bloggar | Breytt 28.5.2011 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2011 | 22:10
Lánshæfi lands og óhæfni ríkisvalds
Nú er meginstoð lúalegs áróðurs fyrir ríkisábyrgð á skuldum fallins einkabanka erlendis hrunin. Andstæðingar þessarar ríkisábyrgðar héldu ætíð fram, að sú röksemd væri reist á sandi, að lánshæfi ríkisins mundi versna við höfnun Icesave-samninganna. Meirihluti landsmanna reyndist vera sömu skoðunar, þó að skrýtni fuglinn í Seðlabankanum segði opinberlega rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, að lánshæfi landsins mundi falla niður í spákaupmennskuflokk við höfnun; hvaða flokkur, sem það nú er.
Öll matsfyrirtækin þrjú, sem aðallega hafa komið við þessa hörmulegu sögu, hafa nú afsannað kenningar náhirðar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ekki hefur meira vit á efnahagsmálum en heimiliskötturinn hér. Lánshæfið hefur batnað, ef eitthvað er. Mat Nei-manna (ekki þó neiara-Gríms og hirðar hans), að nýir vindar blésu nú um Evrópu gegn ríkisábyrgðum, reyndist hárrétt. Það stríðir líka gegn heilbrigðri skynsemi, að lánshæfi stórskuldugs aðila batni við, að hann bæti á sig skuldaklafa. Þetta hefur auðvitað berlega komið fram á Grikkjum, en lánshæfi þeirra er nú með þeim hætti, að hætt er að kaupa af þeim ríkisskuldabréf við lægri vöxtum en 15 % á ári, enda nema ríkisskuldirnar um 160 % af VLF (vergri landsframleiðslu Grikkja). Þýzka ríkisstjórnin hefur áttað sig á, að skuldastaða Grikkja er ósjálfbær, og berst nú við Evrópubankann (ECB) um að fella hluta skulda Grikkja niður. Er hún að vinna ýmsar fleiri ríkisstjórnir evrusvæðisins á sitt band. Spurningin er hins vegar sú, hvort þjóðargjaldþrot Grikkja (endurröðun lána á máli stjórnenda ESB) muni leiða til mikils falls evrunnar, sem knýi ECB til svo mikilla vaxtahækkana, að efnahagur evruríkja í efnahagsvörn hrynji einnig. Við þessar aðstæður boðar blöðruselurinn í utanríkisráðuneytinu upptöku Íslands á evru 3 árum eftir aðild ("Anschluss").
Áróður stuðningsmanna Icesave-laganna var uppspuni frá rótum. Þessi lygavefur ríkisstjórnarinnar og annarra áhangenda ESB-aðildar Íslands var spunninn til þess einvörðungu að þóknast Evrópusambandinu og greiða fyrir inngöngu Íslands. Þessi málatilbúnaður er einn sá alómerkilegasti, sem sézt hefur hér um áraraðir. Það á alls ekki að láta opinbera aðila, Seðlabankann, ríkisstjórnina, embættismenn eða þingmenn komast upp með þvættinginn, heldur á að nudda þeim upp úr honum og krefja þá skýringa á blekkingavaðlinum. Hér hafa lygamerðir leikið lausum hala, og nú verða þeir að fá að finna til tevatnsins.
Af þessu tilefni var það rifjað upp í forystugrein Morgunblaðsins, "Nei reyndist jákvætt", þann 17. maí 2011, að forsætisráðherra landsins tók ekkert smáræði upp í sig í viðtali við erlenda fjölmiðla um þetta málefni, er hún spáði "efnahagslegu öngþveiti" á Íslandi í kjölfar höfnunar þjóðarinnar. Hér getur eitt af þrennu verið á ferðinni:
- forsætisráðherra er algerlega dómgreindarlaus
- forsætisráðherra gengur erinda erlends valds
- bæði ofangreind atriði eiga við
Taka skal undir það, sem í téðri forystugrein stendur, að 40 % þjóðarinnar, sem mark tóku á blekkingavefnum, eiga heimtingu á skýringum. Auðvitað mun koma í ljós, að keisarinn er ekki í neinu. Það var einfaldlega af blygðunarleysi verið að ganga erinda ESB. Framið var stjórnmálalegt blygðunarbrot.
Nú er að koma berlega í ljós, það sem margir vissu, að utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, er ekki treystandi til að stjórna aðlögunarviðræðum við ESB. Hann og aðalsamninganefnd hans hafa gengið að kröfum ESB um að innleiða stjórnkerfi þess á landbúnaðarmálum hérlendis. Þetta er gert í óþökk landbúnaðarráðherra, í algerri andstöðu við bændasamtökin íslenzku og sennilega í blóra við drjúgan meirihluta þjóðarinnar. Opinni lýðræðislegri umræðu er gefið langt nef af téðum Gosa.
Brugðið er leyndarhjúpi yfir þetta ferli, sem þó ætti að vera opið fyrir lýðræðislegri umræðu. Gjörðir Össurar Skarphéðinssonar þola ekki dagsljósið nú frekar en fyrri daginn. Þess vegna á að stöðva þetta aðlögunarferli strax, leggja spilin á borðið og leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um framhald eður ei. Segja má, að Össur níðist á lýðræðinu, sólundi ríkisfjármunum og verði þjóðinni til háborinnar skammar, því að mikill meirihluti þjóðarinnar er algerlega andvígur inngöngu, og það er borin von, að mannvitsbrekkur utanríkisráðuneytis Íslands snúi ESB á sveif með hagsmunum Íslands.
Hvað rekur sig á annars horn hjá þessari ríkisstjórn. Á sama tíma og hún gerir andvana fædda tilraun til að fella stjórnkerfi íslenzks landbúnaðar að dauðadæmdri landbúnaðarhít ESB, sem tekur um helming af útgjöldum á fjárlögum ESB og borið er uppi af frekju Frakka og fjármögnun Þýzkalands, þá rembist ríkisstjórnin við að geta af sér óskapnað sem á að kallast nýtt stjórnkerfi sjávarútvegs, sem jafnvel ESB dytti ekki í hug að setja á laggirnar. ESB er nú að vega og meta kosti og galla aflahlutdeildarkerfis eða kvótakerfis í sjávarútvegi, enda hefur slíkt kerfi alls staðar sýnt þjóðhagslega yfirburði, þar sem það hefur verið innleitt. Afturhaldið í Stjórnarráðinu horfir aftur um 80 ár og reynir að blása lífi í löngu dauða, fjarstæðukennda kreddu Leníns um eignarhald hins opinbera á auðlindum og atvinnutækjum.
Íslenzka ríkisstjórnin með Alþingisleppa sína er að afnema markaðsknúið hagkerfi á Íslandi. Hún stingur í þeim efnum og öðrum algerlega í stúf við allar aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Ríkisstjórnin er sorgleg tímaskekkja og á að hypja sig hið snarasta til Bessastaða og biðjast þar lausnar.
Ábyrgðarleysi kreddufullra og hatursfullra stjórnmálamanna nær nýjum hæðum með tilraunum þeirra til lögfestingar á ræningjafyrirkomulagi, sem rænir núverandi handhafa afnotaréttarins að fiskimiðunum hluta af atvinnurétti þeirra, sem kippa mun afkomugrundvellinum undan fyrirtækjum þeirra og valda óbætanlegum skaða á markaðsstöðu Íslands og markaðssamböndum. Norðmenn hyggja nú þegar gott til glóðarinnar að fylla skarðið.
Aflahlutdeildarkerfið hefur stóraukið framleiðni sjávarútvegs og gæði framleiðslunnar. Þetta hvort tveggja er grundvöllur að sívaxandi verðmætasköpun hans þrátt fyrir minnkandi kvóta. Kvótakerfið hefur gert kraftaverk á íslenzka sjávarútveginum. Hann malar þjóðarheildinni gull og stóð, ásamt orkukræfum stóriðnaði, undir gríðarlegum lífskjarabata hérlendis á árunum 1995-2007. Allir útreikningar hagfræðinga sýna, að áform ríkisstjórnarinnar eru argasta glapræði. Þau hafa í för með sér mikið óréttlæti, enda stríðir þvinguð eignaupptaka af þessu tagi gegn 72. grein Stjórnarskráarinnar um verndun eignarréttar (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar). Hringl með stjórnarskráarvarin réttindi er einkenni frumstæðra stjórnenda.
Bloggar | Breytt 21.5.2011 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2011 | 23:36
Stóra-Berta
Nú berast fréttir af því, að ESB (Evrópusambandið) hyggist leggja fullan þunga í áróður fyrir jákvæðu gildi sínu fyrir Íslendinga. Verður ekkert til sparað, og digrir sjóðir reiddir fram. Er af þessu ljóst, hvílíka áherzlu ESB leggur nú á að lokka Ísland inn fyrir þröskuldinn, og hverjir hafa mestan ávinning af slíkri innlimun. Eftir það hafa þeir í fullu té við okkur, og munu breyta Íslandi með þeim hætti, sem fæstum Íslendingum hugnast, þ.e. í eins konar selstöð.
Er nú verið að sækja Stóru-Bertu, en risastór fallbyssa Þjóðverja, sem þeir notuðu á vesturvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni fyrri, gekk undir þessu nafni. Stórveldi Evrópu vilja öðlast aðgang að norðurslóðum. Noregur er ekki tagltækur, en nú telja hýenur, að Ísland liggi vel við höggi. Þær munu komast að því, hvar Davíð keypti ölið.
Við þessar aðstæður ritar Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og prófessor, góða grein í Morgunblaðið þann 10. maí 2011 undir fyrirsögninni, "Réttlátt samfélag eða Evrópusamband". Hér skal fúslega játa, að eftir lestur greinarinnar missti höfundur þessarar vefgreinar neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því að vera sammála Ragnari, jarðskjálftafræðingi, um meginmál.
Við krufningu málsins kom skýringin í ljós. Hún er fólgin í eftirfarandi málsgrein úr grein Ragnars:
"Með fiskimiðin, með landgæðin, með orkuna og með menntunina höfum við möguleika á að byggja gott og réttlátt samfélag, ef við varðveitum sjálfstæði okkar til þess og ef við náum samstöðu um, að þetta sé mikilvægast fyrir manneskjurnar, sem hér búa."
Hér er hægt að túlka "gott og réttlátt samfélag" að vild lesandans. Það, sem Ragnari þykir gott og réttlátt, kann mér að þykja vera bæði vont og óréttlátt. T.d. er þjóðnýting aflaheimilda grafalvarleg atlaga að lífskjörum almennings og mun leiða til gengisfellinga, lækkunar á lánshæfi og efnahagsöngþveitis að dómi fjölmargra.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytta skipan í sjávarútvegi er stórt skref aftur á bak, argasta sameignarstefna í anda Leníns og Stalíns og mun leiða til handstýringar stjórnmálamanna á hagkerfinu. Verst mun landsbyggðin verða úti í þessu fári, því að launin í greininni hljóta óhjákvæmilega að lækka, þegar fótunum er kippt undan sjávarútveginum. Lýðskrumarar ráða ferðinni og þykjast vera að færa verðmæti til almennings, en því er alveg þveröfugt varið. Kvótakerfið stórbætti kjör almennings, af því að tilkostnaður við hvert þorskígildi lækkaði og markaðsstaðan var efld. Þess vegna varð meira til skiptanna. Ríkisstjórnin mun með glæpsamlegri stefnu sinni setja fyrirtæki á hausinn, sem nú eiga um helming aflaheimildanna, samkvæmt rannsókn fræðimanna við Háskólann á Akureyri. Hin veikari á meðal hinna munu lepja dauðann úr skel, og bankarnir munu verða við dauðans dyr. Sameignarstefnan mun á örskotsstundu ganga af íslenzka hagkerfinu dauðu.
Það er hins vegar hægt að vinda ofan af þessari dauðans vitleysu, sem væntanleg lagasetning félagshyggjuliðsins er, þegar þjóðinni auðnast að varpa þessu skaðræðis oki af sér, sem nú situr í Stjórnarráðinu og hagar sér eins og naut í flagi. Það verður hins vegar ekki hægt að varpa af sér oki ESB, þegar kjörtímabili lýkur. Þess vegna eru hægri menn fúsir til að berjast við hlið vinstri manna á borð við Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðing og prófessor, gegn ásælni erlends valds.
Í þessu samhengi málsins, sem er andstaða við fullveldisframsal til Brüssel með innlimun í ESB, er aðalatriðið, að vinstri menn og hægri menn geta sameinazt gegn krötum og taglhnýtingum þeirra og gegn ásælni erlends valds í ítök hér. Þetta bandalag mun bera sigurorð af landsölumönnum og kveða þá í kútinn um langa framtíð.
Aðlögunarferlið er þess vegna andvana fætt og ber að stöðva þann undirmáls málatilbúnað áður en meira skattfé, sem tekið er að láni erlendis, verður sólundað á altari hégómagirndar Össurar Skarphéðinssonar og annarra krata og taglhnýtinga þeirra, sem mikið telja gefandi fyrir að fá að hanga í bakhluta stórríkisins, sem hins vegar mun sízt taka því fagnandi að hafa verið dregið á asnaeyrunum með fótalausri og grasvitlausri umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Hér gildir sem áður, að betri er barður þræll en feitur þjónn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.5.2011 | 16:37
Fálm í myrkri
Skötuhjúin, Jóhanna Sig. og Steingrímur J., fengu birta eftir sig grein, "Lífskjarasóknin er hafin", í Fréttablaðinu 7. maí 2011. Langt er síðan annan eins moðreyk hefur borið fyrir sjónir. Þar örlar hvorki á raunsærri greiningu efnahagsstöðunnar nú að afloknum kjarasamningum ASÍ og SA né á raunhæfum leiðum til að tryggja almenningi varanlegar kjarabætur. Augljóslega ætla skötuhjúin að svíkja allt, sem að þeim snýr og varðar þessa samninga, eins og reynslan varð um svo kallaðan "Stöðugleikasamning", sem átti að varða leiðina upp úr kreppunni, en koðnaði í ekki neitt.
Dæmi um þetta er:"Ný fjárfestingaráætlun miðar að því að auka fjárfestingar úr 13 % af landsframleiðslu í 20 % á tímabilinu". Þessir félagshyggjufrömuðir ganga í þeirri dulunni, að hægt sé við skrifborð embættismanna að framkalla fjárfestingar í athafnalífinu. Þetta er þó, eins og með fræið og Litlu gulu hænuna. Uppskeran fæst ekki án þess að sá í frjósaman jarðveg. Stjórnmálaflokkar þeirra skötuhjúanna munu aldrei leyfa þá sáningu, sem felst í erlendum fjárfestingum, og þau eru sjálf búin að menga þennan jarðveg, þannig að enginn hefur lengur nægan áhuga á sáningu. Breytir þá gagg og nefndaskipanir iðnaðarráðherra engu, því að VG er með stöðvunarvald.
Ný ríkisstjórn verður að byrja á jarðvegsskiptum, þ.e. að skapa aðlaðandi aðstæður hérlendis til fjárfestinga. Þar vegur skattaumhverfið þungt, en einnig almenn framkoma í garð fjárfestanna. Án hvata er allt tal og skrif um að glæða fjárfestingar hér blaður eitt.
Þá skrifa skötuhjúin: "Stefnt að a.m.k. tveimur umfangsmiklum fjárfestingarverkefnum í orkufrekum iðnaði". Hvað er átt við hér ? Umfangsmiklar framkvæmdir, sem þegar standa yfir í Straumsvík ? Stefnir Vinstri hreyfingin grænt framboð að því að hleypa framkvæmdum áfram við álver Norðuráls í Helguvík og álver Alcoa á Bakka ? Auðvitað ekki. Þetta er allt innantómt hjal og blekkingaleikur hjá skötuhjúunum. Hið alvarlega er hins vegar, að þess vegna munu kjarasamningarnir nýju brotlenda, ef afturhaldsstjórninni verður leyft að hjakka áfram í sama farinu. Framfarastjórn verður að leysa afturhaldið af hólmi.
Stærsti vandi íslenzka ríkisins er skuldabyrði, sem nemur um 110 % af VLF (vergri landsframleiðslu). Það má fullyrða, að vonlaust sé að standa rétt skil á vöxtum og afborgunum af slíkri skuldahrúgu án ríflegs hagvaxtar. Það þarf að vera rífandi gangur í athafnalífinu til að stækka þjóðarkökuna, sem ríkið tekur drjúga sneið af. Að lágmarki þarf meðalhagvöxtur að nema 3 % á ári og æskilegt er, að hann sé á bilinu 3 % - 5 %. Undir 5 % á ekki að vera hætta á ofhitnun með verðbólgu.
Nú hefur bætzt við enn eitt atriðið í hagkerfinu, sem gerir þennan hagvöxt lífsnauðsynlegan, þar sem eru nýgerðir kjarasamningar. Þeir munu sliga núverandi hagkerfi að óbreyttu og valda verðbólgu og/eða auknu atvinnuleysi, nema hagkerfið stækki. Þetta hafa báðir samningsaðilar viðurkennt. Líkið í lestinni í þessari ferð til fyrirheitna landsins er "norræna velferðarríkisstjórnin". Daunninn verður þjóðinni senn óbærilegur.
Langþráður hagvöxtur verður aðeins með tilkomu erlendra fjárfestinga, verulegra, um 200 milljarða kr á ári að meðaltali næstu 10 árin. Slíkt er gjörsamlega útilokað með núverandi valdhafa í stjórnarráðinu. Þeir verða þess vegna einfaldlega að víkja, því fyrr, þeim mun betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)