Vanheilagt bandalag

Upp úr skjóðunni eru nú að skjótast molar, sem varpa skýrara ljósi á, hvílík regingjá er á milli orða og gjörða forkólfa ríkisstjórnarinnar.  Myrkraverk þeirra leynast ekki lengur.  Fjármálaráðherrann, Steingrímur Jóhann Sigfússon, er nú orðinn ber að því að vera vikapiltur alþjóðlegra fjármálaafla, líklega vogunarsjóða.  Ískyggilegt er, að hann skuli hafa selt þeim Aríonbanka og Íslandsbanka og tapað um 20 milljörðum króna á þeim viðskiptum.  Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haardes var með áform um, að á rústum föllnu bankanna þriggja risu þrír ríkisbankar.  Átti sú fjármögnun að nema lægri upphæð en fjármögnun nýju bankanna hefur kostað ríkissjóð. Átti að leiðrétta þá miklu hækkun skuldabyrðar heimila og fyrirtækja, sem af Hruninu leiddi, með afskriftum skulda í hinum nýju ríkisbönkum.  Ekki er að spyrja að mannvitsbrekkum norrænu velferðarstjórnarinnar.  

Skömmu eftir myndun vinstri stjórnarinnar, 1. febrúar 2009, var snúið við blaðinu.  Þá átti sér stað furðulegasta og dularfyllsta einkavæðing Íslandssögunnar á bak við tjöldin.  Vinnubrögð í anda ráðstjórnar.  Kröfuhafar gömlu bankanna voru gerðir að meirihluta eigendum Íslandsbanka og Aríonbanka.  Þetta gerðu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. með "skjaldborg um heimilin" á vörunum.  Svikamilla Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að greiða fyrir aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem hafði í hótunum er að koma í ljós. Lýðskrumarar, hræsnarar og hreinar undirlægjur erlends valds sviku þannig skuldugan almenning í klær óprúttinna gróðapunga og héldu skuldugum fyrirtækjum í heljarklóm.  Þetta var gert undir hinu raunverulega kjörorði ríkisstjórnarinnar: "Tortryggni, öfund og sundrungarandi".

Hér hefur hin misheppnaða og fláráða stjórnarforysta, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann, framið slíkt axarskapt, að kalla verður saman Landsdóm til að kveða upp úr um sýknu eða sekt um landráð, "þegar þau siguðu erlendum kröfuhöfum í gegnum hina föllnu banka gegn íslenskum fyrirtækjum og almenningi í vanda", eins og segir í forystugrein Morgunblaðsins, "Alvarleg afglöp", mánudaginn 23. maí 2011.  

Annað ríkulegt tilefni til að láta téða forkólfa finna rækilega til tevatnsins úr þeim katli, sem þau sjálf drógu ónotaðan og rykfallinn fram og hituðu upp með offorsi, er "Icesave" málið frá upphafi til enda.  Vonandi boðar stjórnarandstaðan á þingi brátt undirbúning slíks málatilbúnaðar.  Hér eru á ferðinni margfalt meiri sakarefni en í máli Geirs Hilmars, sem sakaður er um vanrækslu í starfi án þess að nokkur maður hafi getað bent með trúverðugum hætti á það, sem hann átti að gera, en lét ógert.  Ákæra núverandi þingmeirihluta er ómálefnaleg, en við téð axarsköpt skötuhjúanna örmu voru skýrir valkostir.         

Skriðdýrsháttur ríkisstjórnar vinstri manna í Icesave-málinu gagnvart fjármálafurstum á Bretlandi og í Hollandi, ásamt skósólasleikjum í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB, er af nákvæmlega sama meiði og gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum bankanna.  Þessi lágkúra vinstri manna gagnvart auðvaldinu er vel þekkt úr sögu Samfylkingarinnar, eins og rakið er skilmerkilega í nýútkominni bók Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "Rosabaugur yfir Íslandi". 

 Rosabaugur

Hér er við hæfi að grípa niður í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, 20.05.2011, "Ó, litla þjóð":

"En Samfylkingin, helsta skjól útrásarmanna, afsakandi þeirra og útrásarsleikja frá sínum fyrsta degi pólitískrar tilveru komst skaðlaus frá kosningunum."

Samfylkingin var stjórnmálalegur bakhjarl og fótaþurrka Baugs, enda studdu fjölmiðlar Baugs Samfylkinguna í síðustu kosningum, og þannig útskýrir höfundur Reykjavíkurbréfs, að Samfylkingin skyldi sleppa við skell í síðustu Alþingiskosningum.  Nú er hins vegar komið að skuldadögum.  Blekkingarhjúpinum hefur verið svipt burt, og eftir situr ófrýnilegt smetti landssvikara. 

Samfylkingin þjónaði útrásarmönnum til borðs og sængur.  Skemmst er að minnast REI-hneykslisins, þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, og Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, studdu með ráðum og dáð, að útrásarvíkingarnir læstu klóm sínum í Orkuveitu Reykjavíkur.  Svo nefndir sexmenningar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins stöðvuðu þessa ráðagerð á síðustu stundu og uppskáru fyrir það hatur spilltrar klíku. 

Samfylkingin vinnur nú ötullega að inngöngu Íslands í ESB.  Þar styður hún hagsmuni bankaauðvaldsins, sem í öllum löndum Evrópu styður æ meiri samruna ("Ever closer Union") og ræður för ESB, sbr harðneskjulega aðför að Grikkjum, Írum og Portúgölum, þar sem ESB berst fyrir hagsmunum lánadrottnanna.  Þetta er meginskýringin á fantabrögðum ESB gagnvart Íslendingum eftir Hrun. Samfylkingin var handbendi braskara og fjárglæframanna, sem átu bankana að innan, eða með orðum höfundar ofangreinds Reykjavíkurbréfs:

"Burðarviðurinn hafði verið seldur og auðurinn sem út úr því braski kom settur í vöxt í kjörlendi hans, skattaskjólum og þekktum peningafylgsnum."

Samfylkingin hefur ekkert breytzt frá árunum fyrir Hrun, enda neitar hún að horfast í augu við sjálfa sig og fortíð sína. Við mat á réttmæti umsóknar Íslands um aðild að ESB er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, að hagsmunir auðvalds Evrópu, sem ræður ESB, fara ekki saman við hagsmuni Íslands.  Ísland er norðlæg eyja, framleiðsluland sjávarafurða, málma og landbúnaðarafurða, og þarf að gæta auðlinda sinna, sem að baki þessari framleiðslu standa.  Landið er á jaðri Evrópu án landamæra að nokkru landi ESB.  Nágrannarnir eru Færeyingar, Norðmenn og Grænlendingar, og ber að rækta samvinnu sérstaklega við þessar þjóðir um leið og viðskiptasamband er eflt og samstarfsverkefnum fjölgað vestur á bóginn. 

Jafnframt þarf Ísland að gæta framtíðar hagsmuna sinna í norðri, en ekki að afsala þeirri hagsmunagæzlu í hendur komandi stórríkis í suðri, þó að vinsamleg samskipti við það séu okkur nauðsyn.  Nýlega töpuðu Íslendingar í samkeppni við Norðmenn um að hýsa aðalbækistöðvar samtaka ríkja, sem land eiga að Norður-Íshafinu og/eða norðurpólnum.  Hvers vegna halda menn, að það hafi verið ? 

Það var vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.  Þessi ríki norðursins vilja ekki hleypa ESB að borði Norðurskautsráðsins, því að ESB rekur nýtingarstefnu og viðskiptastefnu, sem brýtur í bága við hagsmuni norðursins.  Nægir að nefna hval og sel í því sambandi.  Hagsmunum Íslands er bezt borgið í höndum Íslendinga sjálfra.  Sagan sannar þessa fullyrðingu áþreifanlega.  Fjölnismenn og frelsishetjan, Jón Sigurðsson, forseti, reyndust um þetta sannspáir.  

Aðstæður í samfélaginu hafa breytzt svo mikið frá kosningunum í apríl 2009 með nýjum upplýsingum og afleitri reynslu af þjóðhættulegri afturhaldsstefnu rauðgræna bandalagsins, að eðlileg lýðræðiskrafa er um Alþingiskosningar hið fyrsta samfara þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðlögunar íslenzka stjórnkerfisins að ESB eða stöðvun umsóknarferlisins og afturköllun óheillaumsóknar.       

   

Bankamenn og skattgreiðendur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

     Ég trúi ekki öðru en Íslendingar taki sig til og svæli  þetta vanheilaga bnandalag úr ríkisstjórn. Held að heppilegra sé að stöðva þetta esb-ferli strax, ráðstjórnin er til alls vís.

Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2011 kl. 01:44

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Alþingi hefur líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér.  Of margir þingmenn eru með doða, svo að þar er lítið líf í tuskunum, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.  Eftir því sem ráðstjórnin ríkir lengur, munu fleiri kjörtímabil líða þar til hún kemst aftur til valda.  ESB umsóknarferlið er rekið á fölskum forsendum.  Sótt var um til að fara í könnunarviðræður.  Ekkert slíkt hefur þó nokkru sinni verið á matseðli ESB.  Jafnvel Þorsteinn Pálsson, samninganefndarmaður, hefur viðurkennt, að enginn sæki um aðild að ESB án einbeitts ásetnings um inngöngu.  Á Alþingi er ekki meirihluti fyrir inngöngu í ESB.  Þess vegna er það eðlileg lýðræðiskrafa að stöðva þetta kostnaðarsama óyndisferli strax.  Ríkisstjórnin lafir á því að vaða sífellt lengra út í fenið, en mun fljótlega sökkva upp fyrir haus.

Með góðri kveðju,

Bjarni Jónsson, 28.5.2011 kl. 12:07

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þakka þér fyrir frábæra grein. Ég held satt best að segja að þessu ástandi hér á landi verður ekki betur lýst

Kveðja Sigurður

Sigurður Kristján Hjaltested, 28.5.2011 kl. 16:44

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður;

Það er stundum talað um "þjóðarlíkamann".  Hann lenti í slysi og var lagður inn á sjúkrahús til aðgerða og aðhlynningar.  Skömmu síðar var gerð "hallarbylting" hjá læknaráði sjúkrahússins.  Nokkrar væntingar ríktu um betri tíð með blóm í haga vegna þess, að "nýir vendir sópa bezt", en það voru gamlir og notaðir vendir með hár eingöngu yzt til vinstri á sópinum, sem við tóku.  Hið fáa, sem nýju "læknarnir" tóku sér fyrir hendur, reyndist algert fúsk.  Hingað til hafa þeir ekki gert annað við þjóðarlíkamann en að taka honum blóð.  Þjóðarlíkaminn hrörnar enda stöðugt, enda er næringin ekki annað en gamlar uppskriftir úr "Das Kapital" auk takmarkalauss undirlægjuháttar við eiturbrasara. 

Þessi þjóðarlíkami hefur hins vegar séð hann svartan áður, og hann mun fljótt hjarna við, þegar fúskurunum hefur verið varpað á öskuhauga sögunnar.  Þá verður beztu tækni beitt, þrautreyndum og viðurkenndum lækningaaðferðum, sem styrkja munu þjóðarlíkamann til að ná fullri heilsu á ný eftir rækilega sótthreinsun á sjúkrahúsinu. 

Með góðri kveðju,

Bjarni Jónsson, 28.5.2011 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband