26.6.2014 | 15:43
Evrópusambandið í uppnámi
Það hefur hrikt í innviðum Evrópusambandsins (ESB) vegna átakanna við Rússa um Úkraínu, því að sitt hefur hverjum sýnzt í leiðtogaráði þess um stefnumótunina. Kemur ætíð í ljós, er á reynir á þessum vígstöðvum, að hver er sjálfum sér næstur, og engin Evrópukennd er fyrir hendi. Evrópusambandið eru hagsmunasamtök, þar sem Þjóðverjar og Frakkar fara yfirleitt sínu fram, og hin ríkin ræða málin til málamynda í upplýsingaskyni, en gera sjaldnast ágreining um málamiðlun hinna tveggja. Á þessu kann þó að verða breyting, og eru Bretar nú með uppsteyt, sem enda kann með sprengingu.
Marine Le Pen, sigurvegari kosninganna til ESB-þingsins í maí 2014 ásamt Nigel Farage, hinum brezka, kveður ESB vera ólýðræðislegt skrímsli, sem minni mest á Ráðstjórnarríkin.
Téður öxull Berlín-París er orðinn undinn og snúinn. Forseti Frakklands er nú með minni stuðning frönsku þjóðarinnar en nokkur fyrirrennari hans hefur mátt upplifa. Þessi forseti er með allt á hælunum, hvernig sem á er litið, og Jafnaðarmannaflokkur hans er trénaður ríkisafskiptaflokkur, sem ræður ekki við aðsteðjandi vandamál Frakklands.
Berlín er þess vegna að smíða nýja öxla. Stórmerkileg var myndin á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 10. júní 2014 af Fredrik Reinfeldt róa úti fyrir sumardvalarstað sínum með Angelu Merkel, David Camaron og Mark Rutte. Þarna voru þessir 4 þjóðarleiðtogar, sem allir eru mótmælendatrúar, að mynda einhvers konar bandalag gegn katólska hluta Evrópusambandsins, ESB, og fyrsta viðfangsefnið var að velja forseta Framkvæmdastjórnar ESB og sjálfsagt hefur mönnun annarra leiðtogaembætta borið á góma í kjölfar hraklegra kosningaúrslita til ESB-þingsins að dómi téðra leiðtoga. Það er mikill vandræðagangur vegna mönnunar æðstu embætta ESB um þessar mundir.
Enn jukust vandræðin í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, þegar úrslit kosninganna til yfir 600 manna þings ESB urðu lýðum ljós. Þá kom í ljós, að þriðjungur nýju fulltrúanna á þessu undarlega þingi var á vegum flokka, sem hafa það á stefnuskrá sinni að draga lönd sín út úr ESB og alveg sérstaklega að losa þau undan oki evrunnar, hins sameiginlega gjaldmiðils, sem þessir nýju þingmenn telja orsök efnahagslegra ófara landa sinna með ofboðslegu atvinnuleysi, stöðnun hagkerfisins og jafnvel verðhjöðnun, sem getur verið mikið böl. Það urðu þess vegna vatnaskil í þessum kosningum, sem sárafáir virðast gera mikið veður út af hérlendis, enda er reiknað með, að "elítan" muni reyna að hunza þessa kosninganiðurstöðu, eins og allar kosninganiðurstöður, er hana varða og eru henni ekki að skapi.
Aðildarsinnar hérlendis, sem nú um stundir kenna sig sumir við "Viðreisn", og allir berjast þeir við vindmyllur með því að heimta, að ríkisstjórn Íslands taki upp aðildarviðræður, þar sem Össur varð frá að hverfa, halda stífri efri vör að vanda. Afstaða þeirra er gjörsamlega óskiljanleg og minnir ekki á neitt annað meira nú um stundir en hegðun strútsins, þegar hann lendir í vanda. Þessi "Viðreisn", sem sumir aðildarsinna kenna sig við, er ekkert annað en viðreisn erlends valds á Íslandi. Baráttumál þeirra er sem sagt afturhvarf til fortíðar. Ekki er nú risið hátt á þeirri "Viðreisn". Geðslegt á sjötugsafmæli lýðveldisins.
Í Rómarsáttmálanum frá 1957 stendur, að aðstandendur hans séu ákveðnir í því að vinna að æ nánara sambandi þjóða Evrópu, sem þýðir á endanum sambandsríki, þar sem hvert land hefur svipaða stöðu og "löndin" í Þýzkalandi eða fylkin í Bandaríkjunum. Nú eru hins vegar að verða straumhvörf í þessari þróun og líklegt, að árið 2014 verði ekki talið síður merkilegt í sögu ESB en árið 1957.
Ástæðan er sú, að árið 2014 er árið, þegar þegnar ESB-ríkjanna sögðu við "elítuna", "hingað og ekki lengra, nú er nóg komið, bezt er að snúa sér að því núna að vinda ofan af ólýðræðislegri þróun báknsins í Brüssel með öllum sérréttindum búrókratanna og ofurlaunum sumra ásamt slæmri meðferð á skattfé aðildarlandanna".
Flokkur Marine Le Pen (FN) fékk 25 % af atkvæðum Frakka, og fengu flokksmenn hennar mest fylgi í Frakklandi. Það segir ekki litla sögu. Það er ekki lengur talið útilokað, að hún skelli Hollande brókarlausum í næstu forsetakosningum. Það yrði dauðadómur yfir ESB í sinni núverandi mynd. Lýðurinn hefur nú fundið blóðbragð og mun ekki hika við að skella "elítunni", sem hann með réttu telur vera afætur á borð við úrkynjaða hirð Lúðvíks 16. á sinni tíð, sem eðlilega ekki kembdi hærurnar.
Flokkur hinnar flugmælsku prímadonnu, Nigel Farage, UKIP, fékk 27 % á Bretlandi. Það mun herða Íhaldsflokk Davids Camerones enn í andófinu gegn ESB og eykur enn líkur á þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, jafnvel fyrr en seinna. Cameron er kominn í nauðvörn fyrir Íhaldsflokkinn.
Bretar munu líklega samþykkja úrsögn og munu í kjölfarið veita forystu viðskiptabandalagi í ætt við Efnahagsbandalag Evrópu á sinni tíð. Öruggt má telja, að þá kvarnist enn meira úr ESB. Slíkt yrði athygliverð þróun fyrir Íslendinga og mun krefjast góðrar taflmennsku af uanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg að halda stöðu okkar á markaði meginlands Evrópu, Bretlands og annarra. Við höfum um aldaraðir verið á áhrifasvæði Stóra-Bretlands, þó að Danir færu hér með húsbóndavald til 1918. Það er líklegt til að þjóna vel viðskiptahagsmunum Íslands að binda trúss við Stóra-Bretland. Þess má geta, að íslenzka krónan var um hríð tengd gengi sterlingspundsins á 3. áratugi 20. aldar. Vegna gulltengingar sterlingspundsins gekk það gengissamstarf ekki lengi, en nú er öldin önnur.
Forysta ESB getur ekki lengur hunzað vilja almennings í aðildarlöndunum og látið sem engin gjá sé á milli hans og Berlaymont. Þar er óbrúanleg gjá. Þjóðerniskennd á þar óneitanlega hlut að máli. Það skín í gegnum málflutning sigurvegara kosninganna, að þeir vilja ekki taka við fyrirmælum um tilhögun heima fyrir frá útlendingum. Frakkar og Hollendingar hafa reyndar áður kosið gegn ESB, þegar þeir höfnuðu Stjórnarskránni 1995, og Írar höfnuðu staðgengli hennar, Lissabon-sáttmálanum, 1998, þangað til þeir voru beðnir um að kjósa aftur.
Ekki fer á milli mála, að andúð á innflytjendum er þáttur í afstöðu andófsflokkanna, sem mest juku fylgi sitt. Eftir útþensluna til Austur-Evrópu hefur þessi óánægja aukizt, sumpart vegna ásóknar Austur-Evrópumanna í vinnu í Vestur-Evrópu. Tækifærissinnaðir stjórnmálamenn eru fljótir að hagnýta sér djúpar tilfinningar á þessu sviði, og jarðvegurinn er frjór, þegar fjöldaatvinnuleysi ríkir og hagkerfin eru stöðnuð. Á Íslandi eru annars konar aðstæður. Þar er andstaðan meira grundvölluð á ótta við mikla kynblöndun, sem leiða kunni til glötunar hins forna yfirbragðs þjóðarinnar ásamt útþynningu menningarlegra sérkenna. Nokkur blöndun hefur þó orðið á öllum öldum, sem forðað hefur fámennum stofni frá almennri úrkynjun.
Í fámennissamfélagi, eins og okkar, er óviturlegt að blása á þessar áhyggjur fjölda fólks. Það verður að fara bil beggja í þessum efnum, takmarka fjöldann frá löndum utan ESB og leggja sig fram um að taka vel á móti þeim, sem hér fá landvistarleyfi og aðlaga þá sem hraðast að samfélaginu. Erfðafræðilega styrkir blöndun af þessu tagi stofninn.
Þyngst vegur þó óánægja með bágborið hagkerfi í Evrópu, sem hefur orðið stöðnun að bráð, sem leitt hefur til geigvænlegs atvinnuleysis, ekki sízt í evru-löndunum. Að meðaltali nemur atvinnuleysið í ESB 11 %-12 %, en er í sumum löndum svo skelfilegt sem 25 % og þá yfir 50 % á meðal ungs fólks upp að þrítugu. Almenningur í þessum kreppulöndum kennir regluverksfargani ESB og háu gengi evrunnar um með réttu eða röngu.
Í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir verðhjöðnun hefur evru-bankinn, ECB, nú sett á neikvæða vexti, -0,10 %. Þá þurfa menn að borga fyrir að geyma fé hjá bankanum. Þjóðverjar eru sagðir æfir yfir þessari ráðstöfun hins ítalska bankastjóra ECB og bankaráðs hans og segja þessa aðgerð vera setta til höfuðs sparnaði, sem Þjóðverjar telja á meðal dyggða hins almenna manns.
Það hafa komið fram ýmsar tillögur til úrbóta á ESB. Minnka skrifræðið og ógilda ýmsar reglugerðir. Ríkisstjórnir, þjóðþing og aðilar vinnumarkaðar ættu að endurheimta völd frá ESB á sviði félagsmála og vinnuréttar-foreldraorlofs og vinnutíma. Þá ætti að draga úr völdum framkvæmdastjórnar og ESB-þingsins og færa völdin aftur til þjóðþinganna. Það er alveg undir hælinn lagt, að þetta gangi eftir. Ef lítið gerist í úrbótamálum, munu kjósendur grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri. Þetta vita stjórnmálamennirnir, og þeir eru þess vegna á milli steins og sleggju. Eina ráðið er að söðla um frá möntrunni um "æ nánara samband". Juncker og hans nótar eru þó ekki á þeim buxunum.
Þetta upplausnarástand, sem nú ríkir í Evrópusambandinu, gerir umsókn nú að þessu ríkjasambandi algerlega marklausa. Það veit enginn, hvers konar fyrirbrigði ESB verður eftir t.d. 2 ár. Þar af leiðandi er algerlega óhjákvæmilegt að setja málið aftur á byrjunarreit hér á Íslandi með afturköllun umsóknar og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið, ef meirihluti Alþingis vill leita hófanna við breytt ESB í framtíðinni.
Sumir segja sem svo, að núverandi ríkisstjórn geti vel tekið upp þráðinn við ESB, þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við málið í janúar 2013 eftir ríkjaráðstefnu ESB 2012, þar sem Össuri varð ekkert ágengt með umsókn Íslands. Það eru samt lýðræðislegir og framkvæmdalegir meinbugir á þessum framgangsmáta.
Æðstu stofnanir stjórnarflokkanna, Flokksþing og Landsfundur, höfnuðu þessari leið, en samþykktu að draga umsóknina til baka. Hvað sem kann að líða túlkun á orðum frambjóðenda í kosningabaráttu, er þessi leið ófær af lýðræðislegum ástæðum.
Frakkar og fleiri stöðvuðu inngönguferli Íslands, af því að kröfur Íslendinga til eigin stjórnunar á fiskveiðum og landbúnaðarmálum samræmdust ekki grundvallarstefnu og sáttmálum ESB í þessum efnum. Ef menn halda, að Gunnari Braga takist að þoka málum áfram, sem lentu í frosti í meðförum Össurar, þá vaða menn reyk. Gunnar Bragi er líklegur til að setja enn strangari skilyrði en Össur við "samningaborðið", því að hann vill ekki ná samningum. Það er furðuleg sú þráhyggja aðildarsinna að halda, að Gunnar Bragi, utanríkisráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, geti og muni vinna að framgangi málsins þeirra, aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið. Þetta er eins og fáránleikaleikhús með sorglegum endi fyrir aðalleikarana, Viðreisnarmenn erlends valds á Íslandi.
Ríkisstjórnin er heiðarleg í afstöðu sinni til þessa máls. Hún vill ekki endurvekja viðræður, sem gagnaðilinn stöðvaði, samkvæmt Rannsóknarskýrslu HHÍ, viðræður, sem hún kærir sig ekki um að leiða til lykta. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja alls ekki, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í sinni núverandi mynd. Það er ekki þar með sagt, að annar eða báðir flokkar hafni aðild að breyttu bandalagi. Breytinga má vænta á ESB eftir hrakfarir sambandsríkissinna í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2014 | 17:43
Sjötugt
Íslenzka lýðveldið er sjötugt. Í þjóðaratkvæðagreiðslu með metþátttöku, 98 %, var nánast einróma samþykkt að slíta konungssambandinu við hernumda Danmörk og stofna til fullvalda ríkis með innlendum þjóðhöfðingja og þingbundinni ríkisstjórn.
Það er við hæfi að horfa yfir farinn veg á þessum tímamótum og að rýna lítillega inn í framtíðina.
Stjórnarskrá lýðveldisins, sem hlaut um 96 % stuðning af öllum atkvæðisbærum mönnum í landinu árið 1944, hefur reynzt vel, og hún hefur verið löguð að nútímanum í nokkrum áföngum, og enn er hún til endurskoðunar af hópi undir forystu prófessors emeritus, Sigurðar Líndal, eins mesta lögspekings landsins. Einmitt þannig á að þróa Stjórnarskrána, þ.e. að beztu manna yfirsýn á stjórnlagasviðinu án þess að setja lagagrundvöll landsins í uppnám.
Það er hins vegar röng aðferðarfræði, sem Alþingi síðasta kjörtímabils notaðist við. Kosningaaðferðin til Stjórnlagaþings var illa fallin til að ná fram þversniði af þjóðinni m.t.t. stétta og búsetu, og þingið varð vettvangur hrossakaupa hjartans mála, þannig að útkoman varð lögfræðilega ótæk.
Góður árangur hefur náðst á mörgum sviðum frá lýðveldisstofnun, en líklega eru stærstu sigrar lýðveldisins á sjávarútvegssviðinu. Íslenzki sjávarútvegurinn, sjálfbær nýting auðlindarinnar með mestu framleiðni og beztu nýtingu hráefnisins, sem um getur, er í allra fremstu röð. Grundvöllur íslenzka sjávarútvegsins er landhelgin umhverfis Íslands. Megnið af þessu hafsvæði var almenningur, þar sem fjöldi Evrópuþjóða stundaði veiðar, sem kalla má rányrkju á sumum tegundum. Í nokkrum áföngum var lögsagan færð út í 200 sjómílur með seiglu og harðfylgi.
Barizt var á tvennum vígstöðvum; á lögfræðilega sviðinu var þróun mála í Vesturheimi með Íslendingum, og sigur vannst með gerð alþjóðlegs hafréttarsáttmála, og á hafinu sjálfu, þar sem sigur vannst með klippum, hönnuðum í Landssmiðjunni, og með yfirburða sjómennsku og hugrekki áhafna íslenzku varðskipanna og togarasjómanna íslenzkra, sem við sögu komu. Flotaforingjar hennar hátignar hafa varla verið sæmdir heiðursmerkjum fyrir framgöngu sína gegn íslenzkum togurum og varðskipum.
Það er líklegt, að þessi viðureign flota hennar hátignar og Landhelgisgæzlunnar hefði endað með vofveiflegum hætti, ef Bandaríkjamenn hefðu ekki stillt til friðar, enda út í algert óefni komið, þar sem tvær NATO-þjóðir létu hendur skipta á hafinu og löndunarbann að auki á Bretlandi. Síðan þetta var, 1976, hafa Íslendingar séð um veiðiskapinn innan 200 sjómílnanna og markaðssett vöruna á Bretlandseyjum, á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar, en sjávarútvegur Breta dróst auðvitað saman við þetta, og sumir útgerðarstaðir á Bretlandi hafa ekki borið sitt barr síðan.
Hér skal fullyrða, að beittasta vopn Íslands á báðum téðum vígstöðvum var fullveldi landsins. Að sama skapi skal fullyrða, að hefði Ísland verið aðili að forverum Evrópusambandsins, ESB, þ.e. Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópubandalaginu, á tímabilinu 1958-1976, og síðar, þá hefði útkoman orðið með allt öðrum hætti og lögsaga íslenzkra stjórnvalda yfir 200 sjómílum frá yztu nesjum væri ekki fyrir hendi. Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá þetta, þegar rýnt er í hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og forvera. Lögsagan væri þá samnýtt af öllum fiskveiðiþjóðum ESB og sjávarútvegur rekinn í anda byggðastefnu Brüssel, en ekki út frá arðsemisjónarmiðum til langs tíma, og það, sem nú er mikilvægasta tekjulind landsins, sjávarútvegurinn, væri ekki nema svipur hjá sjón.
Það er ólíklegt, að útflutningstekjur landsmanna væru þá jafnháar og raun ber vitni um nú, þó að hugsanlegt sé, að aðrar greinar, t.d. iðnaður og móttaka ferðamanna, hefðu vaxið hraðar en raunin varð. Meiri aðild að samstarfi Evrópuþjóðanna en raunin er á núna, er ekki líkleg til að hafa leitt til betri lífskjara en við njótum nú, þegar mið er tekið af þróun hagkerfa ESB-landanna.
Minnzt var á NATO. Það var löngum viðkvæðið, að ríkisvald yrði að hafa yfir að ráða her til að geta varið sjálfstæðið. Fyrir sögulega heppni, ef svo má segja, leystust varnarmál landsins farsællega með því að stjórnvöldum landsins var boðið að gerast stofnaðilar að varnarsamtökum vestrænna ríkja, NATO, árið 1949, og hér voru herstöðvar á vegum NATO tímabilið 1951-2004. Þar að auki er í gildi tvíhliða varnarsamningur á milli Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, og Íslands. Fyrir vörnum landsins er því vel séð, og fyrir markaðsaðgengi er séð með fullnægjandi hætti með aðild að Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) og viðskiptasamningi við Kína. Það er æskilegt að ná viðskiptasamningi við BNA. Bandaríkjamenn eru farnir að flytja út LNG, gas á vökvaformi með tankskipum, samkvæmt sérsamningum á vildarkjörum.
Það er ekki lengur einhugur í landinu um, að Stjórnarskrá lýðveldisins skuli kveða á um fullvalda Alþingi, fullveldi íslenzkra dómstóla hérlendis og framkvæmdavald, er einvörðungu lúti vilja Alþingis. Nú telur allstór hópur, e.t.v. fimmtungur þjóðarinnar, í öllum stjórnmálaflokkum landsins, að landsmönnum sé hollast að deila fullveldinu með öðrum þjóðum í ríkjasambandi, sem hingað til hefur verið að þróast í átt að sambandsríki, en kjósendur í ESB-löndunum stöðvuðu reyndar þá þróun í maí 2014.
Það má hverju mannsbarni ljóst vera, að það að deila fullveldinu með tæplega 30 þjóðum, sem telja yfir hálfan milljarð manna, er fyrir 330 þúsund manna þjóð hið sama og að afhenda fullveldi sitt á silfurdiski, þ.e. að glutra því niður með eins kjánalegum hætti blindingjans og hugsazt má. Þar yrði allt látið fyrir ekkert.
Þessi fimmtungur eða minna telur hins vegar hag sínum verða betur borgið með Ísland í slíku ríkjasambandi og ríkisvaldið að töluverðu leyti flutt til Berlaymont í Brüssel og aðsetra ESB-þingsins og Evrópudómstólsins. Það er umhugsunarvert, hvernig unnt er að komast að slíkri niðurstöðu. Fyrir suma er þessi niðurstaða óskiljanleg, enda hefur hún aldrei verið rökstudd, svo að viðunandi geti talizt.
Ef Ísland hefði verið aðili að ESB og með evru sem lögeyri árið 2008, þegar fjármálakreppa reið yfir heiminn og gerði út af við fjármálakerfi Íslands, hefðum við nú verið í hrikalegri skuldastöðu, ef marka má stöðu Íra, en á Írlandi námu skuldir bankanna u.þ.b. sexfaldri þjóðarframleiðslu landsins. ESB-forkólfar píndu ríkisstjórn Írlands til þess að ábyrgjast skuldir írskra banka, og lentu þær að miklu leyti á írskum skattborgurum. Hið sama hefði áreiðanlega orðið ofan á hérlendis, því að haustið 2008 voru Berlaymont-menn lafhræddir við áhlaup á evrópska banka, sem þeir hefðu ekki staðizt og sem þá hefði leitt til bankahruns í Evrópu í mun meiri mæli en raunin varð í BNA eða annars staðar. Það mátti þess vegna hvergi í Evrópu sýna veikleikamerki, og andvirði þúsunda milljarða króna í erlendum gjaldeyri hefðu þess vegna lent sem skuldabaggi um herðar íslenzkra skattborgara um langa framtíð.
Þess í stað nýtti ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde í nauðvörn löggjafarvald Alþingis til að setja Neyðarlög til varnar innistæðum Íslendinga í föllnu bönkunum, sem fluttust yfir í nýja banka, en lánadrottnar föllnu bankanna, sem munu hafa átt hjá þeim andvirði um 10 þúsund milljarða kr verða að eiga kröfur sínar við slitastjórnir föllnu bankanna. Svo ömurlegur sem aðdragandi bankahrunsins hérlendis var, má telja Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Hilmars til mestu afreka lýðveldissögunnar, því að þau björguðu landsmönnum frá þjóðargjaldþroti, sem ekki hefði verið hægt að forðast með aðild að ESB. Þá hefðum við algerlega verið komin upp á náð og miskunn Leiðtogaráðs og Framkvæmdastjórnar ESB. Hitt er annað mál, að ríkisstjórninni, sem við tók, tókst illa að vinna úr afleiðingum Hruns og Neyðarlaga.
Aðalviðfangsefni stjórnvalda nú er að fást við afleiðingar Hrunsins, þ.e. að koma rekstri ríkissjóðs á réttan kjöl, að skapa stöðugt og öflugt hagkerfi, þ.e. lága verðbólgu og mikinn hagvöxt, og að afnema fjármagnshöftin. Þetta krefst margháttaðra aðgerða og stjórnvizku, en allt verður unnið fyrir gýg, nema beinar erlendar fjárfestingar stóraukist í útflutningsgreinum. Nú hillir undir þetta með 4 nýjum kísilverum. Þá ríður á, að við gerð raforkusamninga verði þjóðarhagur lagður til grundvallar, þ.e. jaðarkostnaður orkuvinnslu, aðveitustöðva og línulagna í landinu, en ekki einhver furðuviðmið við þróun orkuverðs á meginlandi Evrópu, þar sem orkukræfur iðnaður er á förum sakir orkuskorts.
Sterk framtíðarstaða Íslands í alþjóðlegri samkeppni blasir við. Rökin fyrir þessari ályktun eru lýðfræðilegs (e. demographical) og orkulegs eðlis. Öll Evrópa, nema Ísland, stríðir nú við það grafalvarlega vandamál fyrir þjóðirnar, að viðkoman dugar ekki til að viðhalda mannfjöldanum, þ.e. fjöldi barna á hverja konu er undir 2,10. Á Íslandi er þessi tala hærri en 2,10, og fjölgun landsmanna er 1-2 % á ári. Meðalfjöldi barna á konu í Evrópu er aðeins 1,6, 1,5 í Kína, 1,4 í Japan og 1,3 í Suður-Kóreu. Í Þýzkalandi, núverandi forysturíki Evrópu, er þessi tala aðeins 1,4, og Þjóðverjum er nú tekið að fækka um 1 % á ári. Þessi neikvæða þróun grefur undan forystuhlutverki þeirra í Evrópu, því að meiri viðkoma er á Stóra-Bretlandi. Undanfarin ár hefur verið þokkalegur hagvöxtur í Þýzkalandi, þó að hann sé mjög lítill núna, eins og víðast hvar í Evrópu, nema á Íslandi, og hefur fólksfækkunin leitt til skorts á vinnuafli í sumum greinum. Þessi neikvæða mannfjöldaþróun mun hamla hagvexti og rýra kjör almennings og velferðarstig, því að sífellt færri munu verða að framfleyta sífellt fleiri eldri borgurum. Lífeyriskerfi flestra þessara ríkja er s.k. gegnumstreymiskerfi, en ekki söfnunarkerfi, eins og á Íslandi, sem gerir vandamálið enn erfiðara viðfangs. Frá umhverfisverndarsjónarmiði er ofangreind þróun ekki slæm, því að hún mun fyrr en seinna leiða til fækkunar mannkyns, þó að enn sé gríðarleg viðkoma í Afríku eða 4,7 börn á hverja konu, en fer þó hratt fallandi. Það er hins vegar spurning, hvernig fólk mun taka versnandi lífskjörum í aldurhnignum samfélögum, því að frá iðnbyltingu hefur hver ný kynslóð getað vænzt betri lífskjara en foreldrar þeirra höfðu, en sú verður ekki lengur raunin. Við sjáum nú þegar vaxandi þjóðfélagsóánægju í Evrópu, sem síðast brauzt út í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014. Hún tengist þróun þjóðarframleiðslu á mann. Miðað við árið 2007 hefur þjóðarframleiðsla á mann víðast hvar í Evrópu dregizt saman, sbr eftirfarandi dæmi frá 6 ESB-löndum: Þýzkaland 105 %, Frakkland 98 %, Bretland 94 %, Spánn 92 %, Ítalía 88 % og Írland 88 % af þjóðarframleiðslu á mann 2007. Fyrir utan hratt hækkandi meðalaldur stríða öll þessi ríki, nema Frakkland, við annað vandamál, sem setur hagvexti þeirra skorður. Það er orkuskortur. Þau munu reyna að leysa hann með auknum orkuinnflutningi og aukinni eigin vinnslu á eldsneytisgasi, t.d. kaupum á LNG (Liquefied Natural Gas), en General Electric hefur nú þróað nýjar vélar, sem með mun ódýrari hætti en áður geta breytt eldsneytinu úr gasformi og yfir á vökvaform. Því er spáð, að árið 2018 muni magn LNG hafa aukizt um meira en þriðjung í heiminum m.v. 2013, sem er svipað og öll núverandi gasnotkun Kína. Ekki er ólíklegt, að grundvöllur geti orðið innan áratugar fyrir slíkri LNG-stöð við einhverja höfnina á Íslandi fyrir um ISK 10 milljarða til að sjá flotanum fyrir eldsneyti. Sá hængur er á hér, að eldsneytisgas er ekki sjálfbær orkuberi, heldur bæði mengandi og takmörkuð auðlind, þó að minna koltvíildi og sótagnir myndist við bruna þess á hverja orkueiningu en olíu og kola. Á orkusviðinu hefur Ísland hins vegar sérstöðu, því að hérlendis er unnt að framleiða alla raforku með sjálfbærum hætti. Eigum við auðvitað að gera það í enn ríkari mæli en nú er gert, og nú hillir undir nýja viðskiptavini fyrir raforku hérlendis, þar sem eru kísilver, en kísillinn er til margra hluta nytsamlegur, frá tannkremi til sólarrafhlaða. Margir umhverfisverndarsinnar á Vesturlöndum leggjast þó alfarið gegn virkjunum til að selja fyrirtækjum í erlendri eigu, oft alþjóðlegum samsteypum, rafmagn. Þetta viðhorf er angi af þeirri afstöðu, að frjáls alþjóðleg viðskipti hljóti að vera umhverfislega skaðleg vegna sóknar alþjóðlegra fyrirtækja eftir starfsemi í löndum, þar sem minni og jafnvel lítillar umhverfisverndar er krafizt af þarlendum yfirvöldum. Á ensku er þetta kallað race to the bottom in environmental standards. Jafnframt séu flutningar frá framleiðanda til notanda, sem frjáls viðskipti óhjákvæmilega hafa í för með sér, mengandi. Kjarninn í málafylgju mótmælenda gegn ráðstefnu WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar í Seattle, Washington-BNA, árið 1999, var, að fyrirtæki munu flytja starfsemi sína til minna þróaðra landa til að njóta góðs af losaralegri mengunarvarnareglum.Þetta á hins vegar ekki við um Ísland, því að mengunarvarnarkröfur hérlendis eru með því strangasta sem gerist á iðnaðarsviðinu. Á virkjanasviðinu skiptir hins vegar í tvö horn á Íslandi. Tæknistig vatnsaflsvirkjana er komið á það stig, að góð nýting fæst við umbreytingu fallorku vatnsins yfir í rafmagn, og það tekst vel að fella vatnsaflsvirkjanir inn í umhverfið, svo að segja má, að vatnsaflsvirkjanir séu sjálfbærar á Íslandi, þegar ekki eiga sér stað stórfelldir flutningar á milli vatnasviða. Kröfur yfirvalda hérlendis um lágmörkun umhverfisröskunar og mótvægisaðgerðir til að tryggja sjálfbærni og afturkræfni vatnsaflsvirkjana eru fyllilega sambærilegar við það, sem strangast gerist í heiminum um þessar mundir. Þessu er hins vegar enn ekki á sama veg farið með jarðgufuvirkjanir. Þar er nýtnin afar lág við umbreytingu jarðgufu í rafmagn, og við virkjanirnar losna gróðurhúsalofttegundir og lofttegundir hættulegar gróðri, dýrum og mönnum úr læðingi. Þar að auki hafa menn farið yfir strikið við nýtingu jarðgufuforðans, svo að dregið hefur úr aflgetu virkjana með tímanum. Allt er þetta til marks um, að jarðgufuvirkjanatæknin er alls ekki enn tæknilega tilbúin til stórfelldrar nýtingar, t.d. til raforkuvinnslu fyrir alþjóðleg erlend fyrirtæki, og viðhorf mótmælendanna í Seattle 1999 eiga að því leyti erindi við Íslendinga. Ef fallizt er á, að hagvöxtur sé bæði æskilegur og nauðsynlegur til að auka þjóðarframleiðslu á mann, svo að landið geti keppt við nágrannalöndin um kaup og kjör, þá stendur val um höfuðáherzlu á milli þjónustugreina og framleiðslugreina. Framleiðslugreinar geta að jafnaði staðið undir hærri launagreiðslum en þjónustugreinar, af því að hinar fyrrnefndu nýta meiri tækni og meiri þekkingu, og þar er þess vegna framleiðni á hærra stigi en í þjónustugreinum. Sjávarútvegurinn er flaggskip íslenzkra framleiðslugreina, en hann býr við fullnýtta auðlind, þó að vonir standi til vaxandi veiðistofna. Landbúnaður hefur aukið framleiðni sína gríðarlega, og framleiðsla hans hefur vaxið með auknum mannfjölda í landinu að ferðamönnum meðtöldum. Möguleikar íslenzks landbúnaðar til útflutnings eru miklir með hlýnandi loftslagi, auknu fiskeldi og vaxandi heimsmarkaði fyrir matvörur. Mestu vaxtarmöguleikarnir hérlendis eru enn um sinn á iðnaðarsviðinu með aukinni raforkuvinnslu í landinu, sem um þessar mundir nemur tæpum 18 TWh/a (terawattstundum á ári), en má með hagkvæmum hætti frá vatnsaflvirkjunum auka upp í 25 TWh/a án dýrkeyptra umhverfisfórna, sem þýðir um 50 % aukningu til iðnaðar, og um enn meiri aukningu getur orðið að ræða, þegar tekizt hefur að virkja jarðgufuna með sjálfbærum hætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2014 | 15:54
Átök á milli Rússlands og Evrópu
Í sögulegu samhengi virðast hagsmunir Rússa og þjóðanna vestan þeirra ekki fara saman. Þannig hafa geisað fjölmargar styrjaldir á milli þessara þjóða í tímans rás, þar sem átakaefnin hafa verið land, auðlindir og áhrif vestan og sunnan Rússlands.
Friðrik mikli, Prússakóngur, stundaði skefjalausa útþenslustefnu, lenti í átökum við Rússakeisara og mátti litlu muna, að Rússum tækist að taka Berlín í 7 ára stríðinu, en með heppni og herkænsku tókst Friðriki að varna því og reka Rússa af höndum sér.
Þegar Frakkar höfðu seilst til áhrifa um alla Evrópu, nema í Svíþjóð og á Bretlandi undir forystu Korsíkumannsins Napóleons Bonaparte, þar á meðal sigrað austurríska herinn við Austerlitz og náð tökum á flestum öðrum þýzkumælandi svæðum Evrópu, en Þýzkaland hafði þá enn ekki verið sameinað, var lokahnykkurinn að leggja undir sig Rússland.
Napóleón komst við illan leik til Moskvu 1812, en Rússar skildu eftir sig sviðið land, og rússneski veturinn varð Frökkum að fótakefli, svo að hinum mikla keisaraher Frakklands var nánast útrýmt á steppum Rússlands. Draumar Frakkakeisara um frönskumælandi Evrópu hurfu þar með ofan í glatkistuna, og það var formsatriði fyrir Breta og Prússa nokkrum árum seinna að ganga frá Frökkum við Waterloo. Síðan hafa Frakkar ekki borið sitt barr.
Í Fyrri heimsstyrjöldinni neyddust Þjóðverjar og Austurríkismenn til að berjast á tvennum vígstöðvum, af því að Rússakeisari álpaðist af stað, vanbúinn, og hugði tækifæri fyrir sig til landvinninga í vestri. Þetta reyndist hans banabiti, því að Þjóðverjar smygluðu kaffihúsasnatanum Vladimir Lenín yfir víglínuna frá Sviss, og hann steypti í kjölfarið Rússakeisara af stóli og samdi frið við Þýzkaland.
Það var hins vegar of seint fyrir Þýzkaland, Austurríki og bandalagslönd þeirra, því að Bandaríkin og Kanada höfðu þá blandað sér í baráttuna á vesturvígstöðvunum af miklum þunga, og örlög keisarahersins þýzka voru þar með ráðin.
Stefna kommúnistastjórnarinnar í Moskvu var fjandsamleg Evrópu að því leyti, að hún stundaði alls staðar undirróður, þar sem hún kom því við, með það að markmiði að koma á alræði öreiganna sem víðast, þó að heimsbylting væri ekki á stefnuskránni, eftir að Trotzky varð undir í valdabaráttunni við Stalín.
Hinn andlýðræðislegi og þjóðernissinnaði stjórnmálaflokkur, NSDAP, náði völdum í Þýzkalandi eftir kosningar í landinu í janúar 1933 með því að skapa glundroða í landinu með ofbeldisfullum brúnstökkum, SA-Sturmabteilung, sem var deild í téðum stjórnmálaflokki. Flokkurinn var mjög andsnúinn bolsévismanum í Rússlandi, en samt gerði Ribbentrop, utanríkisráðherra Þriðja ríkisins, griðasamning við Jósef Stalín, Molotoff og Kremlarklíkuna í ágúst 1939, og þar með taldi Adolf Hitler sig geta athafnað sig óáreittan í Evrópu án þess að þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum í einu. Það munaði mjóu, að hann kæmist upp með það. Seigla, herkænska, tækninýjungar og öflug njósnastarfsemi Breta komu í veg fyrir áform hans.
Með Breta hart leikna, en ósigraða sumarið 1941, reyndust Þjóðverjar svo algerlega vanbúnir að leggja Rússa að velli, enda skárust Bandaríkin og Kanada í hildarleikinn árið 1942, og mátti hinn öflugi Wehrmacht-her lúta í gras 8. maí 1945 eftir ægilegar blóðfórnir þýzku þjóðarinnar.
Þýzkaland missti gríðarlegt landflæmi eftir ósigurinn 1945, og landamæri Evrópu eru núna fjarri því að fylgja búsetu þjóðerna, þó að þjóðflutningar ættu sér stað í lok stríðsins. Það hefur hins vegar verið óskrifað lögmál eftir 1945 að hreyfa ekki við landamærum, enda yrði þá fjandinn laus.
Vladimir Pútín, Rússlandsforseti á 3. kjörtímabili, sá sér leik á borði eftir vetrarólympíuleikana í Sochi 2014 að bregða út af þessu og sölsa Krímskaga frá Úkraínu undir Rússland, þó að þar búi fjölmargir Tatarar og Úkraínumenn, sem óttast Rússa. Hafa ógnanir Rússa í garð nágrannaríkjanna síðan beinst að því að fá umheiminn til að samþykkja þessa landvinninga sem "fait accompli"-afgreitt mál. Það á ekki að láta Rússa komast upp með slík bolabrögð gegn "alþjóðasamfélaginu".
Mikil hernaðaruppbygging hefur átt sér stað í Rússlandi undanfarin ár. Rússar verja nú 4,2 % af landsframleiðslu sinni eða 88 milljörðum bandaríkjadala árlega til hermála. Þetta er hlutfallslega meira en hjá Bandaríkjamönnum (3,9 %) og miklu meira hlutfallslega en hjá Þjóðverjum (1,4 %), Kínverjum (2,0 %), Frökkum (2,2 %) og Bretum (2,3 %). Upphæðin er þó aðeins 14 % af upphæðinni, sem Bandaríkjamenn verja til þessara mála á ári.
Rússar búa við ýmsa alvarlega veikleika á innviðum sínum, sem gera þá illa í stakk búna fyrir átök við Vesturveldin. Þar má nefna lága fæðingartíðni og bágborið heilsufar, sem hrjáir rússneska herinn og gerir honum erfitt fyrir að manna allar stöður. Þeir hafa stefnt á að hafa eina milljón manns undir vopnum, en hafa í raun 700 þúsund manns. Mikið af hergögnunum er uppfærsla á hergögnum Rauða hers Ráðstjórnarríkjanna.
Nú, þegar NATO hverfur á braut frá Afganistan, blasir við NATO nýtt og þó gamalþekkt hlutverk í Evrópu, sem er að halda Rússlandi í skefjum. Nágrannar þeirra telja nú fulla þörf á því. Til þess mun þurfa um hálfa milljón manns undir vopnum frá Eystrasaltslöndunum og suður til Rúmeníu. Ríður á miklu, að herstjórn NATO takist að sýna þann fælingarmátt, sem dugar. Það er ekki víst, að lengi verði þörf á svo miklum herstyrk búnum nútímavopnum, án kjarnorkuvopna, við austurlandamæri Evrópusambandsins, ESB, því að ekki er víst, að Rússar hafi efni á að verja vaxandi hluta landsframleiðslu sinnar til hermála.
Hermálin taka nú yfir fimmtung ríkisútgjalda Rússlands. Veikt hagkerfi, lækkandi orkuverð og hækkandi meðalaldur mun gera haukunum í Kreml erfitt fyrir. Á meðan Pútín er í Kreml, munu hermálin þó njóta forgangs. Vaxandi hernaðarmáttur Rússa leiðir Rússland fram á völlinn á ný sem valdamikið land. Pútín veðjar á, að þetta láti hinn almenni Rússi sér vel líka. Til þess eru refirnir skornir að halda honum og hirð hans sem lengst við völd.
Ef hann hins vegar þarf enn að herða sultarólina, verður hann meðfærilegri. Þess vegna þurfa Vesturveldin að herða að Rússum á efnahagssviðinu, og ein aðferðin til þess er að draga úr gas- og olíuviðskiptum við þá.
Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom er þegar farið að nota gasviðskiptin í kúgunarskyni við Úkraínu. Þann 1. apríl 2014 tilkynnti Alexei Miller, forstjóri Gazprom, að gasverð til Úkrínumanna yrði hækkað um 44 % upp í USD 385,5 per þm3 (þúsund rúmmetrar). Þetta þýðir, að árleg útgjöld Úkraínu til gaskaupa munu aukast úr USD 7,5 milljörðum í USD 10,8 milljarða, nema þeim takist að spara eldsneytisgas og/eða fá gas annars staðar frá.
Úkraína skuldar Gazprom nú þegar USD 1,7 milljarða fyrir gasnotkun, og Rússar gætu fundið upp á að draga úr flæðinu um lagnir gegnum Úkraínu sem nemur notkun Úkraínu, 28 milljörðum m3 á ári. Evrópa fær 24 % af sinni gasþörf frá Rússlandi, og helmingurinn, 80 milljarðar m3 á ári, fara eftir lögnum um Úkraínu. Evrópa gæti þannig við refsiaðgerð Rússa orðið af 18 % af gasþörf sinni.
Evrópa á fjölmarga valkosti í þessari stöðu, en hún verður þó að segja B, úr því að hún er búin að segja A, þ.e.a.s. ESB verður að standa við bakið á Kænugarðsstjórninni í baráttu hennar gegn ásælni Rússa. ESB hlýtur þess vegna að veita aðstoð við greiðslu gasreiknings Kænugarðs gegn umbótum í stjórnarháttum þar og orkusparnaði, en vegna niðurgreiðslna á orku í Úkraínu hefur orku verið sóað þar óspart. Úkraínumegin, þar sem gaslagnir þvera landamærin að Rússlandi, eru enn engir magnmælar, svo að ótæpilega er stolið úr lögninni. ESB og AGS munu fljótlega láta setja upp mæla þar og við allar greiningar á lögnunum. Úkraína framleiðir núna um 20 milljarða m3 af jarðgasi og væri hér um bil sjálfri sér næg um gas, ef nýtni væri með sama hætti og í Evrópu vestanverðri.
Í marz 2014 skipaði Leiðtogaráð ESB Framkvæmdastjórninni að gera áætlun um að draga úr ríkjandi stöðu Gazprom á jarðgasafhendingu til ESB. Það verður líklega lögð gasleiðsla frá Kákasusríkjunum og Mið-Asíuríkjunum, t.d. hinu gasauðuga Usbekistan, um Tyrkland til ESB. Þó að vinnsla Norðmanna á olíu hafi allt að því helmingazt frá aldamótum, framleiða þeir enn mikið af jarðgasi og gætu aukið afhendingu til ESB um 10 milljarða m3 á ári.
Bretar eru að feta í fótspor Bandaríkjamanna og hefja vinnslu á jarðgasi úr setlögum með sundrunaraðferðinni (e. fracking). Austur-Evrópa o.fl. eru sömuleiðis að fara inn á sömu braut, þó að andstaða við þessa aðferð sé enn sums staðar í Vestur-Evrópu. Alls er áætlað, að vinnanlegt gas í jarðlögum ESB-ríkjanna nemi 11700 milljörðum m3 eða yfir 30 ára forða m.v. núverandi innflutningsþörf. Þetta er fjórðungur af áætluðum forða Norður-Ameríku. Núverandi vinnsla setlagagass í Norður-Ameríku nemur 70 milljörðum m3 á ári, en vinnsla ESB-landanna er aðeins talin munu nema 4 milljörðum m3 árið 2020.
Eldsneytisgas er nú flutt með skipum á vökvaformi sem LNG (Liquefied Natural Gas). Það hefur verið orkukræft og dýrt að breyta úr gasi í vökva og öfugt, en ný tækni við þetta er að draga stórlega úr þessum kostnaði, og það er líklegt, að Evrópa komi sér upp móttökubúnaði á LNG í ríkari mæli en nú er og muni auka kaup sín frá Persaflóanum og Vesturheimi umtalsvert. Flutningar á LNG með tankskipum munu stóraukast.
31 % eða 160 milljarðar m3 á ári af gasnotkun Evrópu fer nú til rafmagnsvinnslu. 200 milljarðar m3 fara til hitunar á húsnæði og eldamennsku og 150 milljarðar m3 til iðnaðarnota. Með því að auka enn hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda og jafnvel kjarnorku má spara allt að 50 milljarða m3 á ári.
Þegar allt þetta er tekið saman, sést, að Evrópa getur orðið óháð Rússum um kaup á eldsneytisgasi, en það getur tekið allt að 15 árum. Það er líklegt, að þessi stefna verði ofan á, og Rússar eru teknir til við mótvægisaðgerðir með stórfelldum viðskiptasamningi við Kínverja, sem m.a. felur í sér afhendingu á jarðgasi.
Það er líklegt, að til skemmri tíma litið muni árekstrar Rússlands og ESB halda orkuverði í Evrópu háu, en þegar til lengdar lætur mun sú þróun mótvægisaðgerða Vesturveldanna, sem lýst er hér að ofan, hafa áhrif á orkuverð til lækkunar, af því að birgjunum mun stórfjölga, og þar með mun samkeppnin aukast.
Það er staðreynd, að Gazprom hefur haldið ESB í spennitreyju undanfarin 20 ár og gasverðinu þreföldu á við gasverð í BNA undanfarin 3 ár. Slíkt gengur ekki til lengdar, og á því hlaut að verða breyting, þó að friðarspillandi framferði Rússa gagnvart nágrönnum sínum hefði ekki komið til. Ef Vesturveldin með sitt NATO standa í lappirnar, munu Rússar fá að vita, hvar Davíð keypti ölið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2014 | 18:45
Að éta eða verða étinn
Markaðurinn er harður húsbóndi. Barátta fyrirtækja fyrir viðhaldi á samkeppnihæfni sinni eða bættri samkeppnihæfni og aukinni markaðshlutdeild kemur oft niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e. starfsmönnum þessara fyrirtækja og fjölskyldum þeirra.
Þegar viðfangsefnið er að auka framleiðni framleiðslu úr takmarkaðri auðlind, eins og á við um sjávarútvegsfyrirtækin, er oft ekki fær valkostur að auka framleiðni með því að auka framleiðsluna með sama mannafla og tækjabúnaði, eins og t.d. gert hefur verið í áliðnaðinum á Íslandi, heldur getur reynzt nauðsynlegt að fækka fólki, en það er líka fær leið að bæta nýtingu hráefnisins,t.d. með nýrri tækni, nýjum tækjabúnaði og markaðssetningu á vöru, sem áður var fleygt.
Sjávarútvegurinn á Íslandi er bezt rekni sjávarútvegur, sem vitað er um, enda hefur hann farið allar þessar leiðir og er nú með hæstu framleiðni, sem þekkist, þó að alvarlegir váboðar séu framundan. Landsmenn hafa undanfarið fylgzt með viðbrögðum fólks, sem boðizt hefur að fylgja fyrirtæki í annan landsfjórðung, þar sem forráðamenn fyrirtækisins hafa séð sig tilneydda til að þjappa starfseminni saman á einum stað að mestu.
Í sumum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, BNA, hefur alltaf verið mikill hreyfanleiki á starfsfólki, sem fylgt hefur sínu fyrirtæki á milli fylkja eða hefur hiklaust flutt um set, þegar vinnuframboð minnkaði, til fylkja, þar sem uppgangur var.
Þannig var Innri markaður Evrópusambandsins, ESB, líka hugsaður, með frelsunum fjórum. Eitt þeirra, frjáls för fólks á Innri markaðinum í atvinnuleit, átti að jafna kjörin, draga úr atvinnuleysi og minnka þenslu. Það hefur þó innan EES orðið minni tilflutningur á fólki en búizt var við. Það er aðallega innflutningur fólks frá löndum utan Innri markaðarins, sem veldur ólgu í ESB núna, eins og nýlegar kosningar til Evrópuþingsins, sem er stórt nafn um stóra umgjörð, en lítið innihald, eru til vitnis um. Miklar áhyggjur eru greinilega á meðal almennings í ESB-löndunum og víðar í Evrópu út af innflytjendum, bæði þeim, sem eru af framandi menningarsvæðum, og hinum. Allir eru þeir taldir þrýsta niður launum og auka byrðar opinberra velferðarsjóða með réttu eða röngu. Auðvitað þarf hóf að vera á þessum fólksflutningum, því að annars fer samlögun að gestalandinu í handaskolum.
Uppbótaaðgerðir ríkisvaldsins til að skapa atvinnu í sjávarplássum, sem verða fyrir barðinu á óblíðum markaðskröftunum, eru varasamar og dýrar, því að þær eru allar í ætt við aflóga bæjarútgerðirnar og þess vegna ekki líklegar til eflingar sjávarútvegsins í alþjóðlegri samkeppni.
Reyndar er sjávarútvegsráðherra handhafi eins stærsta kvótans eða 5,3 % veiðileyfanna. Þessi aflahlutdeild kemur auðvitað til frádráttar veiðileyfum hinna raunverulegu útgerða, sem að langmestu leyti hafa keypt sín veiðileyfi á frjálsum markaði. Svo stór aflahlutdeild ríkisins orkar þess vegna mjög tvímælis og ætti að draga úr og helzt að afleggja, enda er hún fallin til að draga úr heildarhagkvæmni sjávarútvegs á Íslandi, eins og bent hefur verið á.
Á hinn bóginn er mikil ásókn í strandveiðar, og þar hefur einkaframtakið blómstrað. Það er þess vegna íhugunarvert, hvort eigi að leyfa "frjálsar" strandveiðar, e.t.v. takmarkaðar við dagafjölda og að sjálfsögðu við bátsstærð og veiðarfæri, við landið, upp að ákveðnu sóknarmarki í hverri tegund á hverju svæði og að teknu tilliti til nauðsynlegra verndarráðstafana Hafrannsóknarstofnunar.
Áhugaverðar hugleiðingar um stjórnun fiskveiða ritaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Fiskifréttir, fimmtudaginn 15. maí 2014, undir fyrirsögninni, "Markaður eða ráðstjórn":
"Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir vilja reka sjávarútveg sinn á markaðslegum fosendum eða með ráðstjórn, þar sem stjórnmálamenn ákveða, hver veiðir hvað, hvernig og hvar. Markaðurinn er ekki fullkominn, en hann er forsenda fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar. Grundvöllur verðmætasköpunar er framleiðni, þar sem við hámörkum framleiðslu með lágmarks fyrirhöfn."
Síðan ber Gunnar saman framleiðni íslenzks og norsks sjávarútvegs, þar sem við höfum enn yfirhöndina, en Norðmenn sækja á, af því að þeir fjárfesta tiltölulega meira í sjávarútveginum en Íslendingar, eins og bezt kemur fram í meðalaldri skipastóla landanna.
Hrottaleg inngrip ríkisvaldsins í fiskveiðistjórnunina ásamt ofurskattlagningu á greinina lamar fjárfestingarvilja og -getu, setur afkomu smáfyrirtækjanna í stórhættu og getur umturnað heilu þorpunum. Á Íslandi þarf að viðurkenna atvinnufrelsi sjávarútvegsins innan þröngra marka veiðiheimilda og/eða sóknarmarks og rétt hans til jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins að skattheimtu meðtalinni.
Í framleiðnisamanburði á milli Íslands og Noregs kom fram hjá Gunnari, að heildarvirðisauki á hvern starfsmann er kUSD 170 (MISK 19) á ári í íslenzka sjávarútveginum eða 21 % hærri en í Noregi. Fjármagn á hvern starfsmann er kUSD 300 (MISK 34) í hinum íslenzka, sem er 15 % hærra en í hinum norska. Nýting sjávaraflans er jafnframt mun betri á Íslandi eða 57 %, en 41 % hjá Norðmönnum, og verðmæti veiðanna hér eru 380 kr/kg, en 280 kr/kg þar.
Að loknum þessum áhugaverða samanburði, sem er lofsöngur um íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, útgerðarmenn, sjómenn, fiskverkafólk, birgja og markaðsfólk íslenzka sjávarútvegsins, tekur Gunnar sér fyrir hendur að greina veiðigjöldin og afleiðingar þeirra:
"Með núverandi hugmyndum um veiðigjöld munu Íslendingar ekki halda þessari stöðu sinni. Íslenzki flotinn, ef smábátaútgerðinni er haldið utan sviga, er sá elzti frá upphafi. Aldur togara er kominn yfir 40 ár og flest stærri línuskip orðin gömul og úrelt. Vinnsluskip flotans eru flest komin yfir tvítugt og orðin úrelt og úr sér gengin. Ekki er möguleiki á að halda uppi framleiðni með úreltum skipum. Lítið hefur verið fjárfest í botnfiskvinnslum á Íslandi, sem mun fyrr en síðar koma niður á samkeppnishæfni Íslendinga gagnvart keppinautum."
Þetta er alvarleg ógnun við stöðu íslenzka sjávarútvegsins og lífsafkomu landsmanna allra, og hið fyrsta verður að létta viðbótar kvöðum af útgerðinni, svo að hún dragist ekki aftur úr samkeppniaðilum í öðrum löndum, sem stöðugt sækja í sig veðrið, enda kveður Gunnar Þórðarson upp dauðadóm yfir þeirri stefnu, sem síðasta ríkisstjórn mótaði á grundvelli fjandskapar við athafnalífið og í algerri fávizku eða skeytingarleysi um lögmál efnahagslífsins og kostnaðarstig sjávarútvegs í nágrannalöndunum.
Fyrrverandi ríkisstjórn hóf að saga í sundur greinina, sem við öll sitjum á, og núverandi ríkisstjórn hefur því miður enn sem komið er ekki unnizt ráðrúm til að hverfa af þessari óheillabraut og hefja sóknarskeið á öllum vígstöðvum hins íslenzka athafnalífs, enda þröngt um vik.
Hún hefur samt uppi góða tilburði í þeim efnum, og fjármála- og efnahagsráðherra veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir og hvað þarf til að skapa hér réttu aðstæðurnar fyrir hagvöxt og raunverulegar kjarabætur. Landsmenn virðast margir hverjir vera vel með á nótunum í þessum efnum, ef marka má úrslit sveitarstjórnarkosninganna 31. maí 2014, er þeir völdu sjálfstæðismenn í 45 % allra sæta í sveitarstjórnum 15 stærstu sveitarfélaga landsins, þó að aðrir séu staurblindir á samband efnahagsstefnu hins opinbera og eigin hags. Eftirfarandi eru varnaðarorð Gunnars Þórðarsonar í þessum efnum:
"Óvissa í stjórnun fiskveiða og óhófleg veiðigjöld koma í veg fyrir fjárfestingu í sjávarútvegi, sem er forsenda þróunar. Stjórnmálamenn vilja nota sjávarútveg til að leysa byggða "vanda" og fjárþörf ríkissjóðs, en það verður alltaf á kostnað verðmætasköpunar í greininni."
Í raun er engu við þetta að bæta, en þó skal undirstrika, að verðmætasköpun er lykilatriði fyrir vöxt hagkerfisins og tekjur einstaklinganna og hins opinbera. Sjálfstæðisflokkurinn setur verðmætasköpun hvarvetna í þjóðfélaginu, á öllum vígstöðvum, á oddinn. Það merkir, að hann vill virkja fyrirtæki og einstaklinga til verðmætasköpunar fyrir sig sjálf í þeirri vissu, að hámarks verðmætasköpun, að teknu tilliti til sjálfbærni, gagnast hinu opinbera og þjóðinni í heild bezt.
Þess vegna er það stefna flokksins, að aðgerðir hins opinbera hvetji til verðmætasköpunar fremur en að letja til hennar, eins og virtust vera ær og kýr fyrrverandi ríkisstjórnar, sem lengdi í kreppuskeiðinu eftir hrun fjármálakerfisins með forneskjulegri hugmyndafræði sinni um framlegð fyrirtækja og ráðstöfunartekjur einstaklinga.
Þetta leiðir auðvitað hugann að gjaldeyrishöftunum, en lausn á þeim er nú komin í "nefnd". Það er vissulega freistandi í þeim efnum að fara leið efnahagsráðherra Vestur-Þýzkalands nokkru eftir stofnun Sambandslýðveldisins, 1949, og stofnsetningu þýzka marksins, DEM, í stað ríkismarksins, Reichsmark, Þriðja ríkisins. Þá voru illvígar gjaldeyrishömlur við lýði í Vestur-Þýzkalandi, en Dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra og höfundur "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi, afnam gjaldeyrishöftin á einni nóttu með einu pennastriki. Með lagasetningu um trektaráhrif á snjóhengjuna er e.t.v. útlátaminnst til lengdar að fylgja fordæmi Dr Erhards ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)