Evrópusambandið í uppnámi

Það hefur hrikt í innviðum Evrópusambandsins (ESB) vegna átakanna við Rússa um Úkraínu, því að sitt hefur hverjum sýnzt í leiðtogaráði þess um stefnumótunina. Kemur ætíð í ljós, er á reynir á þessum vígstöðvum, að hver er sjálfum sér næstur, og engin Evrópukennd er fyrir hendi.  Evrópusambandið eru hagsmunasamtök, þar sem Þjóðverjar og Frakkar fara yfirleitt sínu fram, og hin ríkin ræða málin til málamynda í upplýsingaskyni, en gera sjaldnast ágreining um málamiðlun hinna tveggja.  Á þessu kann þó að verða breyting, og eru Bretar nú með uppsteyt, sem enda kann með sprengingu.

  Marine Le Pen, sigurvegari kosninganna til ESB-þingsins í maí 2014 ásamt Nigel Farage, hinum brezka, kveður ESB vera ólýðræðislegt skrímsli, sem minni mest á Ráðstjórnarríkin. 

Téður öxull Berlín-París er orðinn undinn og snúinn.  Forseti Frakklands er nú með minni stuðning frönsku þjóðarinnar en nokkur fyrirrennari hans hefur mátt upplifa.  Þessi forseti er með allt á hælunum, hvernig sem á er litið, og Jafnaðarmannaflokkur hans er trénaður ríkisafskiptaflokkur, sem ræður ekki við aðsteðjandi vandamál Frakklands. 

Berlín er þess vegna að smíða nýja öxla.  Stórmerkileg var myndin á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 10. júní 2014 af Fredrik Reinfeldt róa úti fyrir sumardvalarstað sínum með Angelu Merkel, David Camaron og Mark Rutte.  Þarna voru þessir 4 þjóðarleiðtogar, sem allir eru mótmælendatrúar, að mynda einhvers konar bandalag gegn katólska hluta Evrópusambandsins, ESB, og fyrsta viðfangsefnið var að velja forseta Framkvæmdastjórnar ESB og sjálfsagt hefur mönnun annarra leiðtogaembætta borið á góma í kjölfar hraklegra kosningaúrslita til ESB-þingsins að dómi téðra leiðtoga.  Það er mikill vandræðagangur vegna mönnunar æðstu embætta ESB um þessar mundir.  

 

Enn jukust vandræðin í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, þegar úrslit kosninganna til yfir 600 manna þings ESB urðu lýðum ljós.   Þá kom í ljós, að þriðjungur nýju fulltrúanna á þessu undarlega þingi var á vegum flokka, sem hafa það á stefnuskrá sinni að draga lönd sín út úr ESB og alveg sérstaklega að losa þau undan oki evrunnar, hins sameiginlega gjaldmiðils, sem þessir nýju þingmenn telja orsök efnahagslegra ófara landa sinna með ofboðslegu atvinnuleysi, stöðnun hagkerfisins og jafnvel verðhjöðnun, sem getur verið mikið böl.  Það urðu þess vegna vatnaskil í þessum kosningum, sem sárafáir virðast gera mikið veður út af hérlendis, enda er reiknað með, að "elítan" muni reyna að hunza þessa kosninganiðurstöðu, eins og allar kosninganiðurstöður, er hana varða og eru henni ekki að skapi.

  Aðildarsinnar hérlendis, sem nú um stundir kenna sig sumir við "Viðreisn", og allir berjast þeir við vindmyllur með því að heimta, að ríkisstjórn Íslands taki upp aðildarviðræður, þar sem Össur varð frá að hverfa, halda stífri efri vör að vanda.  Afstaða þeirra er gjörsamlega óskiljanleg og minnir ekki á neitt annað meira nú um stundir en hegðun strútsins, þegar hann lendir í vanda.  Þessi "Viðreisn", sem sumir aðildarsinna kenna sig við, er ekkert annað en viðreisn erlends valds á Íslandi.  Baráttumál þeirra er sem sagt afturhvarf til fortíðar.  Ekki er nú risið hátt á þeirri "Viðreisn".  Geðslegt á sjötugsafmæli lýðveldisins.

Í Rómarsáttmálanum frá 1957 stendur, að aðstandendur hans séu ákveðnir í því að vinna að æ nánara sambandi þjóða Evrópu, sem þýðir á endanum sambandsríki, þar sem hvert land hefur svipaða stöðu og "löndin" í Þýzkalandi eða fylkin í Bandaríkjunum.  Nú eru hins vegar að verða straumhvörf í þessari þróun og líklegt, að árið 2014 verði ekki talið síður merkilegt í sögu ESB en árið 1957. 

Ástæðan er sú, að árið 2014 er árið, þegar þegnar ESB-ríkjanna sögðu við "elítuna", "hingað og ekki lengra, nú er nóg komið, bezt er að snúa sér að því núna að vinda ofan af ólýðræðislegri þróun báknsins í Brüssel með öllum sérréttindum búrókratanna og ofurlaunum sumra ásamt slæmri meðferð á skattfé aðildarlandanna".

Flokkur Marine Le Pen (FN) fékk 25 % af atkvæðum Frakka, og fengu flokksmenn hennar mest fylgi í Frakklandi.  Það segir ekki litla sögu.  Það er ekki lengur talið útilokað, að hún skelli Hollande brókarlausum í næstu forsetakosningum.  Það yrði dauðadómur yfir ESB í sinni núverandi mynd.  Lýðurinn hefur nú fundið blóðbragð og mun ekki hika við að skella "elítunni", sem hann með réttu telur vera afætur á borð við úrkynjaða hirð Lúðvíks 16. á sinni tíð, sem eðlilega ekki kembdi hærurnar. 

Flokkur hinnar flugmælsku prímadonnu, Nigel Farage, UKIP, fékk 27 % á Bretlandi.  Það mun herða Íhaldsflokk Davids Camerones enn í andófinu gegn ESB og eykur enn líkur á þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, jafnvel fyrr en seinna.  Cameron er kominn í nauðvörn fyrir Íhaldsflokkinn. 

Bretar munu líklega samþykkja úrsögn og munu í kjölfarið veita forystu viðskiptabandalagi í ætt við Efnahagsbandalag Evrópu á sinni tíð.  Öruggt má telja, að þá kvarnist enn meira úr ESB.  Slíkt yrði athygliverð þróun fyrir Íslendinga og mun krefjast góðrar taflmennsku af uanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg að halda stöðu okkar á markaði meginlands Evrópu, Bretlands og annarra. Við höfum um aldaraðir verið á áhrifasvæði Stóra-Bretlands, þó að Danir færu hér með húsbóndavald til 1918.  Það er líklegt til að þjóna vel viðskiptahagsmunum Íslands að binda trúss við Stóra-Bretland.  Þess má geta, að íslenzka krónan var um hríð tengd gengi sterlingspundsins á 3. áratugi 20. aldar.  Vegna gulltengingar sterlingspundsins gekk það gengissamstarf ekki lengi, en nú er öldin önnur.   

Forysta ESB getur ekki lengur hunzað vilja almennings í aðildarlöndunum og látið sem engin gjá sé á milli hans og Berlaymont.  Þar er óbrúanleg gjá.  Þjóðerniskennd á þar óneitanlega hlut að máli.  Það skín í gegnum málflutning sigurvegara kosninganna, að þeir vilja ekki taka við fyrirmælum um tilhögun heima fyrir frá útlendingum.  Frakkar og Hollendingar hafa reyndar áður kosið gegn ESB, þegar þeir höfnuðu Stjórnarskránni 1995, og Írar höfnuðu staðgengli hennar, Lissabon-sáttmálanum, 1998, þangað til þeir voru beðnir um að kjósa aftur. 

Ekki fer á milli mála, að andúð á innflytjendum er þáttur í afstöðu andófsflokkanna, sem mest juku fylgi sitt.  Eftir útþensluna til Austur-Evrópu hefur þessi óánægja aukizt, sumpart vegna ásóknar Austur-Evrópumanna í vinnu í Vestur-Evrópu.  Tækifærissinnaðir stjórnmálamenn eru fljótir að hagnýta sér djúpar tilfinningar á þessu sviði, og jarðvegurinn er frjór, þegar fjöldaatvinnuleysi ríkir og hagkerfin eru stöðnuð.  Á Íslandi eru annars konar aðstæður.  Þar er andstaðan meira grundvölluð á ótta við mikla kynblöndun, sem leiða kunni til glötunar hins forna yfirbragðs þjóðarinnar ásamt útþynningu menningarlegra sérkenna.  Nokkur blöndun hefur þó orðið á öllum öldum, sem forðað hefur fámennum stofni frá almennri úrkynjun.

Í fámennissamfélagi, eins og okkar, er óviturlegt að blása á þessar áhyggjur fjölda fólks.  Það verður að fara bil beggja í þessum efnum, takmarka fjöldann frá löndum utan ESB og leggja sig fram um að taka vel á móti þeim, sem hér fá landvistarleyfi og aðlaga þá sem hraðast að samfélaginu.  Erfðafræðilega styrkir blöndun af þessu tagi stofninn. 

Þyngst vegur þó óánægja með bágborið hagkerfi í Evrópu, sem hefur orðið stöðnun að bráð, sem leitt hefur til geigvænlegs atvinnuleysis, ekki sízt í evru-löndunum.  Að meðaltali nemur atvinnuleysið í ESB 11 %-12 %, en er í sumum löndum svo skelfilegt sem 25 % og þá yfir 50 % á meðal ungs fólks upp að þrítugu.  Almenningur í þessum kreppulöndum kennir regluverksfargani ESB og háu gengi evrunnar um með réttu eða röngu. 

Í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir verðhjöðnun hefur evru-bankinn, ECB, nú sett á neikvæða vexti, -0,10 %.  Þá þurfa menn að borga fyrir að geyma fé hjá bankanum.  Þjóðverjar eru sagðir æfir yfir þessari ráðstöfun hins ítalska bankastjóra ECB og bankaráðs hans og segja þessa aðgerð vera setta til höfuðs sparnaði, sem Þjóðverjar telja á meðal dyggða hins almenna manns.   

Það hafa komið fram ýmsar tillögur til úrbóta á ESB.  Minnka skrifræðið og ógilda ýmsar reglugerðir.  Ríkisstjórnir, þjóðþing og aðilar vinnumarkaðar ættu að endurheimta völd frá ESB á sviði félagsmála og vinnuréttar-foreldraorlofs og vinnutíma.  Þá ætti að draga úr völdum framkvæmdastjórnar og ESB-þingsins og færa völdin aftur til þjóðþinganna.  Það er alveg undir hælinn lagt, að þetta gangi eftir.  Ef lítið gerist í úrbótamálum, munu kjósendur grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri.  Þetta vita stjórnmálamennirnir, og þeir eru þess vegna á milli steins og sleggju.  Eina ráðið er að söðla um frá möntrunni um "æ nánara samband".  Juncker og hans nótar eru þó ekki á þeim buxunum.     

Þetta upplausnarástand, sem nú ríkir í Evrópusambandinu, gerir umsókn nú að þessu ríkjasambandi algerlega marklausa.  Það veit enginn, hvers konar fyrirbrigði ESB verður eftir t.d. 2 ár.  Þar af leiðandi er algerlega óhjákvæmilegt að setja málið aftur á byrjunarreit hér á Íslandi með afturköllun umsóknar og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið, ef meirihluti Alþingis vill leita hófanna við breytt ESB í framtíðinni.

Sumir segja sem svo, að núverandi ríkisstjórn geti vel tekið upp þráðinn við ESB, þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við málið í janúar 2013 eftir ríkjaráðstefnu ESB 2012, þar sem Össuri varð ekkert ágengt með umsókn Íslands.  Það eru samt lýðræðislegir og framkvæmdalegir meinbugir á þessum framgangsmáta. 

Æðstu stofnanir stjórnarflokkanna, Flokksþing og Landsfundur, höfnuðu þessari leið, en samþykktu að draga umsóknina til baka.  Hvað sem kann að líða túlkun á orðum frambjóðenda í kosningabaráttu, er þessi leið ófær af lýðræðislegum ástæðum.  

Frakkar og fleiri stöðvuðu inngönguferli Íslands, af því að kröfur Íslendinga til eigin stjórnunar á fiskveiðum og landbúnaðarmálum samræmdust ekki grundvallarstefnu og sáttmálum ESB í þessum efnum.  Ef menn halda, að Gunnari Braga takist að þoka málum áfram, sem lentu í frosti í meðförum Össurar, þá vaða menn reyk.  Gunnar Bragi er líklegur til að setja enn strangari skilyrði en Össur við "samningaborðið", því að hann vill ekki ná samningum.  Það er furðuleg sú þráhyggja aðildarsinna að halda, að Gunnar Bragi, utanríkisráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, geti og muni vinna að framgangi málsins þeirra, aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið.  Þetta er eins og fáránleikaleikhús með sorglegum endi fyrir aðalleikarana, Viðreisnarmenn erlends valds á Íslandi.

Ríkisstjórnin er heiðarleg í afstöðu sinni til þessa máls.  Hún vill ekki endurvekja viðræður, sem gagnaðilinn stöðvaði, samkvæmt Rannsóknarskýrslu HHÍ, viðræður,  sem hún kærir sig ekki um að leiða til lykta.  Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja alls ekki, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í sinni núverandi mynd.  Það er ekki þar með sagt, að annar eða báðir flokkar hafni aðild að breyttu bandalagi.  Breytinga má vænta á ESB eftir hrakfarir sambandsríkissinna í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014.  

  

  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær pistill hjá þér Bjarni innilega sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.6.2014 kl. 02:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gaman,'Asthildur,að þú hafðir gagn og gaman af þessum pistli mínum um núverandi ástand innan EES. Það er með öllu oviðunandi,að einstaklingar,hvað þá þjóðir,sæki um aðild að samtokum,sem enginn veit á hvaða vegferð eru. Þegar áhættan er sú að glata raunverulegu fullveldi landsins til yfirþjóðlegt valds,stappar gjörningurinn nærri geggjun.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 27.6.2014 kl. 12:13

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Takk fyrir þennan frábæra pistil Bjarni. Virkilegaa vel og skýrt sett fram og get ég heils hugar tekið undir þessa greiningu þína ALLA. Ég vona að þú mótmælir ekki að ég deili þessu inn á Facebook-síðuna mína, því mér finnst að sem flestir eigi að lesa þetta, þjóðinni til heilla.

Guðbjörn Jónsson, 27.6.2014 kl. 14:26

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Kærar þakkir Bjarni fyrir góða greiningu. Þarft innlegg í ESB umræðuna, íslenska lýðveldið verður ekki langlíft í þessum samtökum sem hefur inngönguleið en engar útgöngudyr. Cameron beið ósigur varðandi Juncker, Merkel, Reinfeldt og Rutter sviku Cameron í dag og Juncker verður tillaga ráðherraráðsins um nýjan framkvæmdastjóra ESB, sem Evrópuþingið greiðir atkvæði um 16. júlí n.k. Verði Juncker nýr framkvæmdastjóri margfaldast ríkjasamrunaferli sambandsins í sambandsríki með eigin sköttum, her, dómstólum og lögreglu. Næstu árin ráða úrslitum í Evrópu og greinilega ekki útrými fyrir tvo Pútína, annars vegar Pútín Rússlands og hins vegar Juncker ESB. kkv.

Gústaf Adolf Skúlason, 27.6.2014 kl. 15:24

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega Bjarni, það veit enginn í dag hvernig þetta "apparat" lítur út að lokum, eins gott að sjá til og bara fylgjast með þróuninni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.6.2014 kl. 19:58

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl,öll somul;8

Það er velkomið að deila pistlinum með öðrum. Það er anægjulegt, að hann fellur í góðan jarðveg. Nú fer að sverfa til stáls á milli Brussel og Lundúna. Íhaldsmönnum er ekki stætt á að láta sem ekkert sé, þegar "elitan" hundsar gjörsamlega niðurstöðu kosninga til ESB-ÞINGSINS.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 28.6.2014 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband