Hið varnarlausa þjóðfélag

Norrænu samfélögin, hinn vestræni heimur og þó víðar væri leitað, eru harmi slegin vegna heigulslegrar aftöku ungmenna o.fl. á Útey í Noregi og gríðarlegrar og mannskæðrar sprengingar við stjórnarráðsbyggingar í miðborg Óslóar þann 22. júlí 2011.  Er Norðmönnum hér með vottuð dýpsta samúð vegna þessara atburða. 

Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar, PST (Politiets Sikkerhetstjeneste), Janne Kristiansen, sagði í viðtali við stærsta dagblað Noregs, Aftenposten, þann 25. júlí 2011, að jafnvel STASI, leynilögreglu Austur-Þýzkalands, hefði hún verið starfandi í Noregi, mundi ekki hafa tekizt að komast á snoðir um fyrirætlanir Anders Behring Breivik, hvað þá að koma í veg fyrir, að hann hrynti þeim í framkvæmd.  Höfundur þessa vefseturs er ekki í færum til að leggja mat á þessa fullyrðingu lögregluforingjans norska, en hún er umhugsunarefni í kjölfar þessara svívirðilegu manndrápa.   

Þetta leiðir hugann að því, hve berskjölduð lýðræðisþjóðfélög eru fyrir ódæðisverkum einstaklinga og félagasamtaka, sem hafa lag á að fara lágt með fyrirætlanir sínar og eru nægilega forhert, siðblind eða sturluð til að láta tilganginn helga meðalið.  Hér er meðalhófið vandfundið, þ.e. öryggislögregla, sem vinnur gagn og kemur í veg fyrir sum hryðjuverk, þó að hún geti ekki greint öll, án þess að ganga á frelsi einstaklingsins. 

Í þessu sambandi dugir skammt að vísa til öfgafullra, stjórnmálalegra skoðana, því að enginn, sem gengur heill til skógar,  fremur slíkt ódæði, sem hér er umræðuefni, sama hversu öfgafullar stjórnmálalegar skoðanir til hægri eða vinstri viðkomandi kann að hafa.  Í heilbrigðum einstaklingi eru nægilega háir siðferðilegir þröskuldar til að hindra slíkt, enda er það mat lögfræðings Breiviks, að hann sé brenglaður maður, s.s. ýmislegt í fortíð hans, sem upplýst hefur verið um, gefur greinilega til kynna. 

Óhætt er að segja, að téðir atburðir, einkum skotárásin í Útey, hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Þó er óþarfi að stinga hausnum í sandinn og láta eins og norska þjóðfélagið sé fullkomið.  Því fer víðs fjarri. 

Á seinni árum hefur myndazt þjóðfélagsleg spenna í Noregi, sem á sér engan sinn líka frá stríðslokum.  Þetta dylst ekki þeim, sem kunnugur er norska þjóðfélaginu frá fornu fari og heimsótt hefur Noreg nýlega.  Gríðarlegur straumur fólks frá fjarlægum löndum með framandi menningu og siði hefur tekið sér bólfestu í Noregi á síðustu 30 árum.  Þetta fólk sezt að í ákveðnum hverfum bæja og borga Noregs og myndar þar gettó.  Mikil viðkoma er hjá þessu fólki, og þegar norska heyrist ekki lengur töluð í viðkomandi hverfisskólum, þá flýja Norðmenn hverfið. Þetta ástand er reyndar þekkt víðar, t.d. á Englandi, og er auðvitað til þess fallið að mynda mikla þjóðfélagsspennu.  

Vinur er sá, er til vamms segir, hljómar fornt máltæki.  Norðmenn hafa flotið sofandi að feigðarósi.  Að breyttu breytanda minnir þessi óheillaþróun á ástandið á 4. áratug 20. aldarinnar, er Norðmenn létu varnir landsins sitja á hakanum með þeim afleiðingum, að þýzki flotinn undir merkjum hakakrossins gat siglt andspyrnulítið með her manns inn eftir Óslóarfirði og tekið Norðmenn í bólinu, þó að Oscarsborgar- virkinu að vísu tækist að granda herskipinu Blücher, þar sem þúsundir þýzkra hermanna fórust. 

Í ljósi aðdraganda voðaatburðanna föstudaginn 22. júlí 2011 og ummæla lögregluforingjans hér að ofan er hins vegar fyllilega réttmætt að spyrja, hvort leynilögregla og margfalt fé til forvarnaraðgerða hefði nokkru skilað.  Hætta er á, að slíkt endi í öfgum eftirlitsþjóðfélagsins, þar sem útsendarar ríkisins eru með nefið ofan í hvers manns koppi, sbr hryllingssöguna 1984.   Persónuvernd er þá fokin út í veður og vind og minni munur orðinn á einræðisþjóðfélögum og lýðræðisþjóðfélögum en flestir íbúa hinna síðar nefndu kæra sig um. 

Affarasælla er, að yfirvöld gæti þess að haga stjórnun þjóðfélagsmála þannig, að ekki myndist alvarleg innri spenna í þjóðfélögunum.  Slíkt er hægt, ef skynsemi er beitt, en valdafólk með afbrigðilegar skoðanir og sérvizku á borð við stjórnmálaflokka á vinstri kantinum veldur óhjákvæmilega þjóðfélagsspennu, enda eru stéttaátök þeirra ær og kýr. 

Spenna getur myndazt vegna þess, að tilfinningaþrungin mál séu látin reka á reiðanum, eins og t.d. stefnumörkun um innflytjendamál og aðlögun innflytjenda að þjóðfélaginu, sem þeir hafa kosið að setjast að í.  Það verður að ræða slík mál fyrir opnum tjöldum, og vel kemur til greina að leiða þau til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Mikil spenna er nú að myndast á milli ýmissa Evrópulanda og Evrópusambandsins (ESB), einkum í bágstöddum evrulöndum.  Þar hafa brotizt út blóðug átök almennings við lögreglu.  Almenningur er þar að kljást við vanheilagt bandalag stjórnmálamanna og fjármálakerfisins, en hið síðast nefnda beitir nú ESB purkunarlaust fyrir sig í hagsmunabaráttunni.  Má ganga svo langt að segja, að ESB sé handbendi fjármálakerfis Evrópu. Við Íslendingar höfum orðið vitni að falli peningafursta hérlendis og höfum séð téð fjármálakerfi ESB og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) rísa upp á afturlappirnar, þegar við reyndum að verja okkur í þröngri stöðu.  

Hér á Íslandi vex þjóðfélagsspennan vegna ólýðræðislegra "samningaviðræðna" um inngöngu Íslands í ESB, sem eiga sér stað undir leyndarhjúpi og án nauðsynlegrar umræðu um, hverju ekki má fórna, og líkast til nú í blóra við vilja meirihluta þings og þjóðar.  Samningaviðræður þessar skortir augljóslega nauðsynlegan bakhjarl í umsóknarlandinu. Hér er um mjög mikið hitamál í landinu að ræða, enda stórfelldir hagsmunir í húfi.  Til þess að eyða þessum spennuvaldi þarf einfaldlega að kjósa um það, hvort halda eigi kostnaðarsömu samningaferli áfram, sem margir telja, að geti aðeins endað í blindgötu. 

Stórfelld svik kosningaloforða ríkisstjórnarflokkanna hafa auðvitað valdið djúpstæðri gremju í þjóðfélaginu, enda á ekki að líða stjórnmálamönnum atferli eins og svik Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í ESB-málinu og svik þeirra og jafnaðarmanna við að reisa skjaldborg um skuldug heimili, sem breyttist í gjaldborg.  Auðvitað á ekki að refsa hinum seku stjórnmálamönnum með líkamlegu ofbeldi eða vopnabeitingu, heldur með því að svipta þá völdum í friðsamlegum kosningum.

Íslendingar eru óvanir atvinnuleysi yfir 3 %.  Atvinnuleysið hefur þrefaldazt í tíð núverandi ríkisstjórnar, og brostið hefur á landflótti, sem er meiri en þekkzt hefur frá harðindatímabilinu 1870-1890.  Engum dylst, að þetta ástand hefur í för með sér mikla þjóðfélagslega sóun og spennu; ekki sízt, þar sem kreppan er orðin allt of langvinn og vandamálið er nú fólgið í því, að allar gerðir ríkisstjórnarinnar stórskaða hagkerfið og dýpka kreppuna.  Halli ríkissjóðs er geigvænlegur, enda á sér stað bruðl með skattpeningana í kauðska fjármálagjörninga hins gæfusnauða fjármálaráðherra, eins og viðskipti með Sjóvá og SpKef bera vitni um, þar sem tap skattborgaranna á mistökum Steingríms Jóhanns Sigfússonar getur numið um 30 milljörðum kr.  Fólki sárnar sóun annarra með eigið fé ekki sízt nú, þegar skattuppgjör 2011 er að birtast.

Þá er efnahagsstjórnun efnahagsmálaráðherrans hrein hörmung, sem lýsir sér með því, að verðbólgan er orðin tvöföld á við markmið Seðlabankans og stefnir í 6 %. Þar með hefur óstjórn ríkisstjórnarinnar leitt til þess, að allar kjarabætur nýlegra kjarasamninga eru upp urnar.  Það er afspyrnu gremjulegt í kjölfar samfelldra kjaraskerðinga í bráðum 3 ár.  Það er gjörsamlega girt fyrir kjarabætur undir vinstri stjórn.  Það er reyndar ekki ný saga. 

Hér hefur verið tæpt á örfáum óánægjuefnum, sem öll eru sjálfskaparvíti algerlega óhæfs þingmeirihluta, og þess vegna hefðu góð stjórnvöld varazt þessi víti. Vegna framfarafjandsemi, sundrunartilhneigingar og einstrengingslegrar og úreltrar hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar er orðið bráðnauðsynlegt að nýta úrræði lýðræðisskipulagsins til að losa um óþolandi þjóðfélagsþrýsting af hennar völdum og efna til Alþingiskosninga, þar sem gamla settinu verður vonandi sópað á haugana í vissu þess, að nýir vendir sópa bezt.  Núverandi stjórnarhættir á Íslandi eru viðundurslegir, misbjóða almenningi og eru þess vegna stórhættulegir.     

        

       

  

 

 


Evrópa í deiglunni

Ljóst er, að miklir atburðir munu verða á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) á næstu tveimur árum, þ.e. á tímabilinu 2011-2013.  Ástæðan er sú mikla spenna, sem myndazt hefur á milli norður-og suðurhluta álfunnar.

Vandamálið er ekki síður af stjórnmálalegum toga en hagrænum.  Viðfangsefnin hafa verið hagfræðilegs eðlis, en þar sem stjórnmálamenn eru að fást við þau auk starfsmanna Evrópubankans (ECB), þarf að taka tillit til mjög ólíkra sjónarmiða. Málsmeðferð hefur þess vegna einkennzt af drætti ákvarðana fram á síðustu stundu, og ákvörðunin er eins konar minnsti samnefnari innan evrulandsins. Í grundvallaratriðum hefur forysta evrulands um 3 leiðir að velja:

a) niðurskurð ríkisútgjalda og launalækkanir í vandamálalöndunum

b) afskriftir lána ríkissjóðanna

c) björgunaraðgerðir Sambandslýðveldisins Þýzkalands (Frakkar og aðrir eru getulitlir í þessu tilliti)

Ríkisþinghúsið í Berlín Aðferðafræði stjórnenda evrulands kann ekki góðri lukku að stýra, því að hún leiðir til stöðugrar nauðvarnar og viðbragða við markaðsþróun í stað frumkvæðis og stefnumörkunar til framtíðar.  Afleiðingin er sú, að evran er nú komin út á yztu nöf.  Kann svo að fara, að hálfkák ESB-forystunnar leiði til sundrunar evrulands.

Athygli fjármálamarkaðsaflanna hefur nú beinzt að bágri stöðu Ítalíu, þar sem skuldir ríkissjóðs nema um 120 % af VLF (vergri landsframleiðslu), en það eru hins vegar Ítalir sjálfir, sem fjármagnað hafa þessa miklu skuldsetningu með skuldabréfakaupum að mestu.  Erlendar skuldir eru þess vegna ekki vandamál Ítala.

Ítalska hagkerfið hefur verið staðnað í einn áratug a.m.k. og eftir upptöku evru hefur stöðugt sigið á ógæfuhlið, því að verðbólga (verðhækkanir) hefur verið yfir meðaltali evrulands, svo að útflutningsgreinarnar hafa orðið undir í samkeppninni, einnig innan evrulands.  Vinnumarkaðurinn er mjög stífur og einstrengingslegur, og samstöðu hefur skort um að herða sultarólina tímabundið, eins og Þjóðverjar gerðu þó með góðum árangri eftir þensluna þar 1995-2005, sem leiddi af endursameiningu Þýzkalands. 

Hið ljúfa líf forsætisráðherrans, eða "Bunga-Bunga" lifnaðarhættir hans, hefur ekki bætt stjórnarfarið í landinu.  Líklega hitti fjármálaráðherra Berlusconis, Giulio Tremonti, en þeir félagarnir hafa elt saman grátt silfur út af aðhaldsaðgerðum, naglann á höfuðið nýlega, er hann sagði:

"Ef ég fell, þá fellur Ítalía.  Falli Ítalía, þá fellur evran. Falli evran, þá fellur ESB."  Örlög evrunnar hanga þess vegna á bláþræði, sem "Bunga-Bunga" öldunginum síkáta í Róm þóknast að spinna.  Það er vart hægt að hugsa sér ömurlegra hlutskipti eins gjaldmiðils, enda var vitlaust gefið í upphafi spils. Evran var reist af stjórnmálamönnum á hæpnum forsendum jafnvægis í Evrópu, sem hefur leitt til gríðarlegs ójafnvægis og blóðugra átaka í Suður-Evrópu. Forysta Frakklands og Þýzkalands hefur hleypt anda úr flösku og ræður ekki við viðfangsefnið, sem er að koma honum aftur í flöskuna.  

Spænska ríkið er ekki jafnskuldsett og hið ítalska, en þar myndaðist hins vegar þensla og eignabóla eftir upptöku evru, sem er sprungin.  Heildarskuldir Spánverja nema tæplega ferfaldri VLF, en til samanburðar eru skuldir Breta fimmföld VLF, Þjóðverja og Bandaríkjamanna um þreföld og Íslendinga um tvöföld VLF.  Spænskir bankar hafa lánað gríðarfé, um USD 1200 milljarða (USD 1,2 trilljónir), til veikra hagkerfa Írlands, Portúgals og Grikklands.  Spænskir bankar eru þess vegna í grafalvarlegri stöðu.  Þetta er ástæðan fyrir tregðu Evrópubankans að afskrifa hluta af skuldum þessara þjóða.  Það getur leitt til keðjuverkandi bankahruns.  Evrópska bankakerfið er eins og spilaborg með tiltölulega mikil útlán.  Verði bankahrun á Spáni, verður efnahagslegur stórskjálfti í evrulandi og verðgildi evrunnar mun þá hrynja.  

Nú er hafin tangarsókn að evrunni upp eftir Spáni og Ítalíu.  Þjóðverjar ráða við að halda PIG (Portúgal-Írland-Grikkland) á floti, en hvorki Spáni né Ítalíu.  Þýzkur almenningur hefur hins vegar fengið sig fullsaddan af austri skattpeninga sinna í hít Suður-Evrópu og hefur skotið viðvörunarskotum að Angelu Merkel í fylkiskosningum Sambandslýðveldisins, og vinsældir hennar fara dalandi.  Hún ætlar að vinna Sambandsþingkosningarnar árið 2013, en veit, að það er vonlaust, ef hún heldur áfram að beita þýzkum skattgreiðendum fyrir evruvagninn.  Evran hangir þá í lausu lofti og er dæmd til að sundrast.

Enn er evran gulrót Samfylkingarinnar, "jafnaðarmanna á Íslandi", fyrir inngöngu í ESB (Evrópusambandið).  Sú gulrót er nú orðin mygluð.  Engum öðrum rökum hefur verið haldið á lofti.  Evrópuhugsjónin um frið á milli "stórvelda" Evrópu, þótt falleg sé, höfðar ekki til eyjarskeggja lengst norður í Atlantshafi.  Það er ekki eftir neinu að slæðast með ESB-aðild Íslands.  Til þess eru og verða vonandi þjóðartekjur Íslendinga einfaldlega of háar m.v. meðaltal ESB. Við munum verða nettó-greiðendur inn í þann hrörnandi klúbb, sem ESB er.  Enginn veit, hvernig hann verður að 10 árum liðnum.  Eitt er þó næsta víst, ef hagur landsmanna þróast, eins og góð rök standa til, þá verða Íslendingar nettó-greiðendur inn í þetta ríkjasamband eða sambandsríki, og getur þetta ójafnvægi skipt tugum milljarða kr á ári og farið vaxandi eftir því, sem meðalaldur hækkar meira í Evrópu.  

Við núverandi aðstæður hér innanlands og vegna tímamóta í sögu ESB, sem við blasa, er rökrétt að gera hlé á samningaviðræðum við ESB og að stöðva aðlögunarferlið.  Tímann á að nota til að ræða það á Alþingi, hvort aðlögun að ESB þjóni þjóðarhagsmunum, og síðan á að spyrja þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða næstu Alþingiskosningum, hvort hún vill kanna til þrautar, hvers konar aðildarsamningur fæst, eða hvort hún e.t.v. hefur engan áhuga fyrir að ganga í þennan klúbb, hvernig sem ótraust gylliboð frá Brüssel kunna að hljóma.  

Það er á margra vitorði, að svo nefndar samningaviðræður eru sem slíkar hreinn skrípaleikur, enda er hér um að ræða aðlögun að sáttmálum og lagabálkum ESB, basta. Brjóti samningarnir í bága við stofnsáttmála ESB, sem þeir verða að gera, ef kröfum Alþingis á að fullnægja, þá vofir yfir sú hætta síðar meir, að Evrópudómstóllinn dæmi hann ólögmætan, og hæpin ákvæði Íslandssamningsins við ESB verði þá að víkja.  Þá værum við í heljargreipum Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB.  Það er glórulaust að halda áfram þessu feigðarflani. Mál er að linni.       

        


Okurstefna

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er að móta sér stefnu um að verða mjólkurkýr ríkissjóðs í framtíðinni í ríkari mæli en nú stefnir í, þó að hagur fyrirtækisins sé í raun með ágætum og óvíst, að hagur landsmanna mundi batna fyrir vikið.  Kunna menn að vera að sjá fyrstu anga þessarar nýju stefnumörkunar með uppsögn fyrirtækisins á gildandi samningum um ótryggða orku. 

Það ber að gjalda varhug við þessari stefnumörkun ríkisfyrirtækis með ráðandi markaðsstöðu.  Hvers vegna ætti Landsvirkjun, sem er framleiðandi og heildsali að um 80 % raforku í landinu, sem fer til allra fyrirtækja og heimila landsins, að vera með álagningu á sína vöru, sem skilar fyrirtækinu meiri hagnaði en almennt gerist um önnur fyrirtæki í landinu ?  Slíkt er með öllu óeðlilegt og óviðunandi fyrir almenning, enda mundi slíkt virka sem hver önnur skattlagning á notendur, þ.e. heimili og fyrirtæki.  Skattlagningin á að vera í höndum Alþingis. 

Arðsemi nýframkvæmda upp á 10 %-15 % er fullnægjandi fyrir fyrirtæki á borð við Landsvirkjun, sem er lítt háð markaðssveiflum, því að 80 % orkusölunnar er í erlendri mynt, sem og lánin, og þessi orkusala til stóriðjufyrirtækjanna er að langmestu leyti tryggð nokkra áratugi fram í tímann.  Þetta þýðir, að stóriðjan verður að greiða fyrir orkuna hvort sem hún notar hana eður ei. Með fjölgun þjóðarinnar og hagvexti er einnig borðleggjandi traustur og vaxandi almennur raforkumarkaður á Íslandi, því að andstæðingar hagvaxtar verða ekki eilífir augnakarlar hér við völd.

Ótryggða orkan, sem var í fréttum fyrir skömmu, er raforka, sem Landsvirkjun treystir sér ekki til að selja sem forgangsorku, þ.e. með ströngum afhendingarskyldum, af því að hún er umframorka í góðum vatnsárum, en í lakari vatnsárum og þegar skortur er á uppsettu véla-eða spennaafli, er hún ekki fyrir hendi. 

Hvað þýðir þetta ?  Það merkir, að enginn fjárfestingarkostnaður er bókfærður á þessa ótryggðu orku, heldur aðeins rekstrarkostnaður og aðeins sá hluti hans, sem tengdur er orkuflutningum og dreifingu, en ekki aflflutningi.

Kostnaðarverð ótryggðu orkunnar er þess vegna aðeins brot af kostnaðarverði forgangsorkunnar, e.t.v. um 10 %, en hún er hins vegar seld við mun hærra verði.  Nú segja talsmenn Landsvirkjunar, að verð ótryggðu orkunnar sé lágt, en það er ekki lágt m.v. kostnaðarverð hennar annars vegar og forgangsorkunnar hins vegar.  Þeir segja líka, að sölufyrirkomulag hennar samræmist ekki markaðshagkerfinu.  Hvað eiga þeir við með því ?  Ætla þeir að nýta markaðsráðandi stöðu sína til að skapa skort á markaðinum og bjóða síðan orkuna upp ?

lv-kapall-kynning-april-2011Landsvirkjun er á rangri braut.  Hún á að þjóna fyrirtækjum og heimilum í þessu landi með því að selja þeim raforku á hagkvæmustu kjörum, sem samrýmast eðlilegum ávöxtunarkröfum til fyrirtækja á borð við hana og sem tryggja henni lán á hagkvæmum kjörum.  Fari hún að okra á viðskiptavinum sínum, er hún að fækka störfum í landinu, því að minni hagnaður orkunotenda dregur úr fjárfestingum þeirra og sköpun nýrra starfa.  Það er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmara að láta arðsemi af orkuvinnslunni koma fram í öllu athafnalífinu og á öllum heimilum landsins en hjá einu fyrirtæki. 

Það er afar sérkennilegt, að ríkisfyrirtæki setji fram hugmyndir um að okra á eigendum sínum.  Það mun sjást undir iljar erlendra fjárfesta, þegar þeir komast á snoðir um jafnbarnalegar hugmyndir og hækkun raforkuverðs í takti við hækkanir raforkuverðs í Evrópu, þar sem orkuskortur og koltvíildisskattur hefur hækkað orkuverðið.  Nóg er fyrir Landsvirkjun að fá jaðarkostnað sinn (kostnað nýrra virkjana) greiddan með venjulegri arðsemi (10 %-15 %).  Slíkt mun skila fyrirtækinu mjög háum hreinum tekjum, því að eldri virkjanir mala henni gull og lán vegna sumra eru þegar upp greidd. 

Áhrifarík leið til að færa orkuverð á Íslandi upp og nær Evrópuverði er að leggja sæstreng til Bretlands og/eða meginlandsins, eins og myndin að ofan sýnir.  Ástæðan er sú sama og í Noregi, að orkufyrirtækin hillast til að selja meiri orku utan en miðlunarlónin þola, og verða síðan að flytja inn orku vegna orkuskorts í landinu.  Orkufyrirtækin á Íslandi mundu verða að greiða gríðarlegan flutningskostnað vegna mikils fjárfestingar-og rekstrarkostnaðar af sæstreng.  Almenningur og fyrirtæki í landinu yrðu hins vegar að búa við hækkað raforkuverð.  

Vegna vaxandi hlutdeildar vindmylla í orkumarkaði Evrópu er algerlega undir hælinn lagt, hversu góð nýting fengist á strengnum.  Þegar vindur blæs, lækkar raforkuverðið í Evrópu jafnvel undir kostnaðarverð raforku frá Íslandi, sem flutt er til Evrópu um sæstreng.  Þessi ráðstöfun mundi rýra þjóðhagslega hagkvæmni innlendra orkulinda, þ.e. lífskjörin í landinu mundu batna hægar en ella, og samkeppnihæfni fyrirtækjanna yrði lakari en annars.

Það á þess vegna að kistuleggja hugmyndir af þessu tagi en snúa sér þess í stað að nærtækari verkefnum, sem er að semja við fjárfesta um uppbyggingu hér innanlands og að selja þeim raforku á sanngjörnu verði fyrir alla aðila. Nýting orkulinda Íslands á að snúast um innflutning tækniþekkingar og fjármagns til að veita fjölbreytilegum hópi fólks atvinnu hérlendis með öllum þeim margfeldisáhrifum fyrir hagkerfið, sem útflutningsiðnaður skapar.  Ekkert bætir innviði samfélagsins betur en slík uppbygging. 

Nýtingin á einnig að beinast að gjaldeyrissparandi þróun, t.d. með aukinni notkun rafmagnsbíla á þessum áratugi og eldsneytisvinnslu, eins og reyndar þegar er hafin.  

Vegir orku til neytanda         

    


Útúrboruháttur

Fregnir berast um, að kínverski forsætisráðherrann hafi haft hug á að heimsækja þann íslenzka nú um miðjan júlí 2011 með 100 manna sendinefnd, sem að stórum hluta væri viðskiptasendinefnd.  Af ástæðum, sem rekja má til íslenzka forsætisráðuneytisins hefur heimsókninni verið aflýst og hótelbókanir Kínverjanna afturkallaðar.  Íslenzka forsætisráðuneytið fer undan í flæmingi, þegar leitað er skýringa, og ráðherrann virðist hafa breytzt í lofttegund.  Það er óbjörgulegt, ef ferðinni er heitið til kanzlara Merkel í komandi viku.  Kínverjarar munu hafa einnig lagt til fundartíma viku seinna, svo að heimsókn á Potzdamer Platz er ekki haldbær skýring. 

Hér skal fullyrða, að enginn forsætisráðherra í Evrópu, annar en sá íslenzki, mundi setja upp hundshaus og sýna af sér fádæma ókurteisi og útúrboruhátt í stað þess að taka fagnandi tækifæri af þessu tagi til að efla samskiptin, ekki sízt viðskiptatengsl, við annað stærsta hagkerfi heims og það, sem örast vex, ef hið indverska er undanskilið, nú um stundir.  Hér er þess vegna argasta stjórnvaldshneyksli á ferðinni, sem draga mun dilk á eftir sér og sannar, að hagsmunagæzla fyrir Íslands hönd er ekki upp á marga fiska í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það hafði reyndar áður komið í ljós, t.d. í "Icesave"-deilunni, en þetta atvik undirstrikar, að mönnun þessa embættis er fullkomlega óboðleg og raunar stórskaðleg sem stendur.  Forsætisráðherra vinnur ekki fyrir kaupinu sínu, enda fer því fjarri, að hún valdi starfinu.  Á þessu ber Samfylkingin stjórnmálalega ábyrgð, sem hún getur ekki vikizt undan í næstu kosningum.  Þá mun hún fá þá ráðningu, sem dugir til að fleygja henni út úr stjórnarráðinu, en tjónið, sem af veru hennar þar hefur hlotizt, nemur hundruðum milljarða króna og hefur orðið mörgum þungt í skauti.  "Alþýðuhetjan" reyndist alþýðubaggi, þegar til kastanna kom.

Annar alvarlegur ábyrgðarhlutur jafnaðarmanna heitir Össur Skarphéðinsson.  Hann er fíll í postulínsbúð, sem gösslast nú áfram í samningaviðræðum við ESB umboðslaus og án skýrra samningsmarkmiða.  Hann hefur ekki umboð frá Alþingi, þó að hann hafi það frá marklausri Jóhönnu, til að semja um, að eina trygging Íslands fyrir óbreyttum yfirráðarétti efnahagslögsögunnar sé vinnuregla ESB um "hlutfallslegan stöðugleika".  Sú regla er haldlaus og á útleið samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa ESB.  Er fávísi Össurar með eindæmum að hampa þessu plaggi. Er alveg ljóst nú af flumbruhætti Össurar, að forynjur hafa komið höndum yfir fjöregg þjóðarinnar og kasta því nú á milli sín í Brüssel.

ESB hefur mótað sér sameiginlega fiskveiðistefnu og sameiginlega landbúnaðarstefnu, enda sameiginlegur málaflokkur hjá ESB, og það er jafnlíklegt, að sambandið samþykki sérreglur fyrir Ísland og það er, að Össur Skarphéðinsson muni ganga á vatni á morgun.  Ástæðan fyrir þessu er, að sérlausnir eða varanlegar undanþágur til handa einstökum ríkjum fela í sér mismunun ríkjanna.  Stefan Füle, stækkunarstjóri, hefur lýst því yfir á blaðamannafundi með Össuri í Brüssel, að ekkert slíkt sé í boði að hálfu ESB.  Ástæðan er sú, að slíkt grefur undan einingu ríkjanna.  Samþykktarferlið yrði torsótt fyrir Füle, því að samþykki allra ríkjanna er áskilið.

Þó að svo ólíklega vildi til, að slíkt næðist í gegn, er samningur Íslands við ESB á slíkum forsendum haldlaus, ef eitthvert aðildarríkjanna seinna meir, t.d. í einhverju ágreiningsmáli við Ísland, ber réttmæti undanþáganna upp við Evrópudómstólinn.  Sá leggur stofnsáttmála ESB til grundvallar dómum sínum, og fordæmi eru fyrir því, að ákvæði inntökusamninga, sem brjóta í bága við stofnsáttmálana, eru dæmd ógild.  Hvað mundu Íslendingar gera, sem í góðri trú færu inn í Evrópusambandið á röngum forsendum, ef haldreipi þeirra yrði þannig dæmt ónothæft og þeir mundu þurfa að sæta því að hlíta undanbragðalaust hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu og sameiginlegu fiskveiðistefnu ?  Fyrr en síðar mun slíkt hafa í för með sér skiptan hlut í lögsögunni og minni hlutdeild í flökkustofnum.  Slík þróun mála jafngildir minni tekjum sjávarútvegsins inn í íslenzka hagkerfið, því að íslenzka lögsagan undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB yrði nýtt m.a. af verkefnalitlum stórflotum ESB-landanna, sem sæta færis. Gæti slíkt í ofanálag rústað lífríki hafsins, því að þessir flotar eru ekki þekktir af vandaðri umgengni við veiðislóðir, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni.

Til hvers var þá baráttan fyrir fullveldi og forræði yfir 200 mílna lögsögu, ef allt á að afhenda yfirþjóðlegu valdi 500 milljóna manna gjörsamlega að þarflausu ?  Hvers vegna að dæma sig til áhrifaleysis um eigin auðlindir og meginhagsmuni í nafni Evrópuhugsjónar, sem í upphafi snerist um að skapa varanlegan frið á milli Frakklands og Þýzkalands og nú snýst aðallega um viðskiptahagsmuni þessara tveggja landa.  Þessi Evrópuhugsjón er góð og gild, en okkur ber engin siðferðisleg skylda til að fórna einu né neinu fyrir hana.

Nú um stundir er téð Evrópuhugsjón í uppnámi.  Rígurinn yfir Rín er kominn í hámæli.  Tilraun Frakka til að draga úr efnahagsveldi Þýzkalands með því að þröngva Þjóðverjum til að fórna þýzka markinu fyrir endursameiningu Þýzkalands er dæmd til að snúast upp í niðurlægingu þeirra sjálfra.  Þýzkaland ræður nú þegar örlögum evrunnar, og Evrópusambandið hvílir á evrunni. 

Hið eina, sem bjargað getur evrunni í sinni núverandi mynd er myndun sambandsríkis Evrópu, en slíkt er borin von, sbr kosningarnar um stjórnarskrá ESB, sem sýndu miklar efasemdir um réttmæti og innihald hennar.  Síðan hefur tortryggni og úlfúð magnazt.  Það, sem er að gerast á evrusvæðinu núna, er einmitt það, sem Þjóðverjar óttuðust og sem þeir reyndu að girða fyrir með Maastricht-samninginum.  Hann dugði ekki, og Þjóðverjar ætla ekki að dæla fé í þá, sem hvorki hafa getu né vilja til að taka til í eigin ranni og fylgja agaðri hagstjórn í anda Prússanna við ána Spree.  Til að átta sig á, hvað baráttumenn fyrir varðeizlu ESB eru að fást við núna, ættu menn að lesa grein Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 8. júlí 2011, sem kemur þar til dyranna, eins og hann er klæddur.

Doktorinn frá Englandi í kynlífi laxfiska, sem nú fyrir kaldhæðni örlaganna gegnir stöðu utanríkisráðherra Íslands án þess að geta það, er að halda inn á jarðsprengjusvæði.  Það er gert með samþykki og í fylgd fyrirbrigðis, sem kallar sig Vinstri hreyfinguna grænt framboð.  Innan tíðar verða flokkur doktorsins og þetta fyrirbrigði hreyfingarlaus á sviðinni jörðu.  Tilraunin með tæra vinstri stjórn á Íslandi mistókst hrapallega, enda gerir hún ekkert annað en að skemmta skrattanum.  

 

           

 

 

  

Þýzka herskiptið Berlín-174 m


Á villigötum gleymsku og getuleysis

Á ferð um Norðurland í lok júní 2011 veldur slæmt ástand gróðurs hugarangri.  Sprettan er sáralítil, kalskemmdir og trjákemmdir áberandi.  Í stjórnmálum landsins er ástandið því miður þannig, að horfir til algers uppskerubrests, en þar að auki á sér stað sóun opinbers fjár á báða bóga á stjórnarheimilinu.  Ríkisbúskapurinn og hagstjórn eru í skötulíki, en bændur munu vafalaust lágmarka tjón erfiðs árferðis af alkunnri útsjónarsemi.

Vegna innviða og fortíðar stjórnarflokkanna var óraunhæft að búast við meðalmennsku af núverandi ríkisstjórn, en hún hefur þó komið allflestum á óvart fyrir afspyrnu léleg og fornfáleg vinnubrögð, sem ekki verðskulda annað en falleinkunn á öllum sviðum á hvaða mælikvarða sem er.  Nýlegt dæmi um þetta var sofandaháttur ráðherranna við lok Alþingis í vor með þeim afleiðingum, að brýn mál sátu á hakanum.  Þessu fólki er ekki lagið að vinna í ábyrgðarstöðu, heldur að gaspra af ábyrgðarleysi.  Fyrir þetta mun fjöldi fólks líða, eins og komið hefur fram.  Landið þolir ekki lengur svona lélega forystu og er brýnt að breyta, enda getur hún ekki orðið lélegri.

Einna alvarlegast verður að telja, hvernig þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið heilbrigðisgeirann.  Með botnlausri forsjárhyggju og kjánalegum afskiptum af viðkvæmri starfsemi er lækningastarfsemin að þrotum komin.  Þetta endurspeglast í flótta úr læknastéttinni til útlanda.  Læknar, sem lokið hafa löngu og ströngu sérnámi, treysta sér ekki heim við ríkjandi aðstæður, þó að þeir að öðrum kosti hefðu verið fúsir til heimferðar.  Tölurnar í þessu sambandi eru sláandi.  Erlendis starfa nú 617 læknar, og innanlands starfa 1060 læknar, sem þýðir, að erlendis starfa 37 % allra íslenzkra lækna, sem er a.m.k. fjórfaldur sá fjöldi, sem eðlilegur getur talizt.  Þetta er sóun í nafni kyrrstöðu og forræðishyggju, sem okkar litla þjóðfélag hefur ekki efni á.  Ríkið nánast einokar starfsemina, en hleypa verður einkaframtakinu að með samkeppni.  Slíkt mun auka skilvirkni, útrýma biðlistum, auka gæði þjónustunnar og verða þjóðhagslega hagkvæmt, eins og dæmin sanna, t.d. frá Svíþjóð.

Hér hefur aðeins ein stétt verið nefnd til sögunnar sem dæmi um þann atgervisflótta, sem hér hefur átt sér stað á valdatíma afturhaldsstjórnarinnar, sem hér hefur verið við völd síðan 1. febrúar 2009.  Um 30 þúsund ársverk hafa tapazt út úr hagkerfinu og enn ekki verið endurheimt, af því að framkvæmdafjandsemi er hér við völd. 

Þá bregður svo við, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun kynnir með pompi og pragt skýjaborgir um nánast tvöföldun vinnslugetu sinnar á raforku á um 15 árum.  Dregin er upp hláleg sviðsmynd af starfsemi orkufyrirtækis sem uppsprettu auðæva á við olíusjóð Norðmanna.  Á hvers kostnað yrði það ?  Sennilega aðallega íslenzkrar alþýðu, sem á fyrirtækið. 

Sú villa er gerð við þessa skýjaborgabyggingu að miða við orkuverð í Evrópu.  Þar ríkir orkuskortur, og þar er koltvíildisskattur lagður á raforkuna með þeim afleiðingum, að orkukræfur iðnaður hefur hrökklazt burt af þessum skaga út úr Asíu.  Nákvæmlega hið sama mun gerast hér, ef Landsvirkjun ætlar að fylgja fordæmi Evrópu um verðlagningu á raforku.  Alþjóðleg fyrirtæki munu þá leita annað, enda hafa þau heiminn allan undir. 

Eina raunhæfa viðmiðið varðandi áætlun um tekjur af orkusölu á Íslandi er heimsmarkaðsverð til sambærilegrar starfsemi.  Það þýðir t.d. ekkert að heimta 50 mill/kWh af nýjum álverum, ef ný álver fá orkuna annars staðar fyrir 30 mill/kWh.  Skýjaborgir af þessum toga eru ekki til annars en að slá ryki í augu almennings og fæla hugsanlega fjárfesta frá landinu, því að enginn vill láta okra á sér. 

Þessar skýjaborgir Landsvirkjunar eru stórfurðulegar í ljósi kyrrstöðustefnu eigandans, ríkisins, en ríkisstjórnin má ekki heyra minnzt á neinar virkjanir fyrir iðnað í eigu erlendra fjárfesta, sem þó er alger forsenda fyrir aukningu raforkuvinnslu um 0,5 TWh/a (terawattstundir á ári), sem skýjaborgirnar snúast um.  Hér kann að liggja sá fiskur undir steini, að Landsvirkjun gæli enn við hugmyndir um stórfelldan útflutning á raforku um sæstreng, en auðvelt er að sýna fram á, að slík starfsemi er þjóðhagslega óhagkvæm miðað við nýtingu orkunnar innanlands.  Er slíkur útflutningur raforku á stefnuskrá stjórnarflokkanna ? Halda menn, að kleift verði að fara út í slíkar framkvæmdir, ef ljóst er, að afleiðingin verður hækkun orkuverðs á Íslandi, eins og dæmin sanna frá Noregi ? 

Ríkisvaldið sjálft verður að móta landinu orkustefnu á grundvelli þess, sem bezt þykir henta hagkerfinu hverju sinni.  Næsta víst er, að hagkerfinu nýtist ekki til fullnustu svo hröð uppbygging, sem Landsvirkjun hér kynnir til sögunnar.  Uppbygginguna þarf að miða við getu íslenzkra fyrirtækja og stöðugleika hagkerfisins til að hámarka þjóðhagslegan ávinning.  Aðeins hámarks ávinningur er ásættanlegur.

Til hliðsjónar er rétt að hafa þá miklu vinnu, sem lögð hefur verið í svo nefnda rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, en hún á að gefa vísbendingu um skynsamlega forgangsröðun virkjana og friðunar.  Ef hins vegar núverandi stjórnvöld verða mikið lengur við völd, verður allt friðað og ekkert framkvæmt.  Náttúran skal njóta vafans er orðhengilsháttur umhverfisráðherra.  Þá verða heldur engir peningar fyrir hendi til að reka friðlönd og þjóðgarða með þeim myndarbrag, sem vert er.  Að nýta og njóta skal verða stefnan í þágu fólksins í landinu, sem ætíð skal láta njóta vafans.  

Vatnsafl 

 

 

     

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband