Á villigötum gleymsku og getuleysis

Á ferð um Norðurland í lok júní 2011 veldur slæmt ástand gróðurs hugarangri.  Sprettan er sáralítil, kalskemmdir og trjákemmdir áberandi.  Í stjórnmálum landsins er ástandið því miður þannig, að horfir til algers uppskerubrests, en þar að auki á sér stað sóun opinbers fjár á báða bóga á stjórnarheimilinu.  Ríkisbúskapurinn og hagstjórn eru í skötulíki, en bændur munu vafalaust lágmarka tjón erfiðs árferðis af alkunnri útsjónarsemi.

Vegna innviða og fortíðar stjórnarflokkanna var óraunhæft að búast við meðalmennsku af núverandi ríkisstjórn, en hún hefur þó komið allflestum á óvart fyrir afspyrnu léleg og fornfáleg vinnubrögð, sem ekki verðskulda annað en falleinkunn á öllum sviðum á hvaða mælikvarða sem er.  Nýlegt dæmi um þetta var sofandaháttur ráðherranna við lok Alþingis í vor með þeim afleiðingum, að brýn mál sátu á hakanum.  Þessu fólki er ekki lagið að vinna í ábyrgðarstöðu, heldur að gaspra af ábyrgðarleysi.  Fyrir þetta mun fjöldi fólks líða, eins og komið hefur fram.  Landið þolir ekki lengur svona lélega forystu og er brýnt að breyta, enda getur hún ekki orðið lélegri.

Einna alvarlegast verður að telja, hvernig þingmeirihluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur leikið heilbrigðisgeirann.  Með botnlausri forsjárhyggju og kjánalegum afskiptum af viðkvæmri starfsemi er lækningastarfsemin að þrotum komin.  Þetta endurspeglast í flótta úr læknastéttinni til útlanda.  Læknar, sem lokið hafa löngu og ströngu sérnámi, treysta sér ekki heim við ríkjandi aðstæður, þó að þeir að öðrum kosti hefðu verið fúsir til heimferðar.  Tölurnar í þessu sambandi eru sláandi.  Erlendis starfa nú 617 læknar, og innanlands starfa 1060 læknar, sem þýðir, að erlendis starfa 37 % allra íslenzkra lækna, sem er a.m.k. fjórfaldur sá fjöldi, sem eðlilegur getur talizt.  Þetta er sóun í nafni kyrrstöðu og forræðishyggju, sem okkar litla þjóðfélag hefur ekki efni á.  Ríkið nánast einokar starfsemina, en hleypa verður einkaframtakinu að með samkeppni.  Slíkt mun auka skilvirkni, útrýma biðlistum, auka gæði þjónustunnar og verða þjóðhagslega hagkvæmt, eins og dæmin sanna, t.d. frá Svíþjóð.

Hér hefur aðeins ein stétt verið nefnd til sögunnar sem dæmi um þann atgervisflótta, sem hér hefur átt sér stað á valdatíma afturhaldsstjórnarinnar, sem hér hefur verið við völd síðan 1. febrúar 2009.  Um 30 þúsund ársverk hafa tapazt út úr hagkerfinu og enn ekki verið endurheimt, af því að framkvæmdafjandsemi er hér við völd. 

Þá bregður svo við, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun kynnir með pompi og pragt skýjaborgir um nánast tvöföldun vinnslugetu sinnar á raforku á um 15 árum.  Dregin er upp hláleg sviðsmynd af starfsemi orkufyrirtækis sem uppsprettu auðæva á við olíusjóð Norðmanna.  Á hvers kostnað yrði það ?  Sennilega aðallega íslenzkrar alþýðu, sem á fyrirtækið. 

Sú villa er gerð við þessa skýjaborgabyggingu að miða við orkuverð í Evrópu.  Þar ríkir orkuskortur, og þar er koltvíildisskattur lagður á raforkuna með þeim afleiðingum, að orkukræfur iðnaður hefur hrökklazt burt af þessum skaga út úr Asíu.  Nákvæmlega hið sama mun gerast hér, ef Landsvirkjun ætlar að fylgja fordæmi Evrópu um verðlagningu á raforku.  Alþjóðleg fyrirtæki munu þá leita annað, enda hafa þau heiminn allan undir. 

Eina raunhæfa viðmiðið varðandi áætlun um tekjur af orkusölu á Íslandi er heimsmarkaðsverð til sambærilegrar starfsemi.  Það þýðir t.d. ekkert að heimta 50 mill/kWh af nýjum álverum, ef ný álver fá orkuna annars staðar fyrir 30 mill/kWh.  Skýjaborgir af þessum toga eru ekki til annars en að slá ryki í augu almennings og fæla hugsanlega fjárfesta frá landinu, því að enginn vill láta okra á sér. 

Þessar skýjaborgir Landsvirkjunar eru stórfurðulegar í ljósi kyrrstöðustefnu eigandans, ríkisins, en ríkisstjórnin má ekki heyra minnzt á neinar virkjanir fyrir iðnað í eigu erlendra fjárfesta, sem þó er alger forsenda fyrir aukningu raforkuvinnslu um 0,5 TWh/a (terawattstundir á ári), sem skýjaborgirnar snúast um.  Hér kann að liggja sá fiskur undir steini, að Landsvirkjun gæli enn við hugmyndir um stórfelldan útflutning á raforku um sæstreng, en auðvelt er að sýna fram á, að slík starfsemi er þjóðhagslega óhagkvæm miðað við nýtingu orkunnar innanlands.  Er slíkur útflutningur raforku á stefnuskrá stjórnarflokkanna ? Halda menn, að kleift verði að fara út í slíkar framkvæmdir, ef ljóst er, að afleiðingin verður hækkun orkuverðs á Íslandi, eins og dæmin sanna frá Noregi ? 

Ríkisvaldið sjálft verður að móta landinu orkustefnu á grundvelli þess, sem bezt þykir henta hagkerfinu hverju sinni.  Næsta víst er, að hagkerfinu nýtist ekki til fullnustu svo hröð uppbygging, sem Landsvirkjun hér kynnir til sögunnar.  Uppbygginguna þarf að miða við getu íslenzkra fyrirtækja og stöðugleika hagkerfisins til að hámarka þjóðhagslegan ávinning.  Aðeins hámarks ávinningur er ásættanlegur.

Til hliðsjónar er rétt að hafa þá miklu vinnu, sem lögð hefur verið í svo nefnda rammaáætlun um nýtingu og verndun orkulinda, en hún á að gefa vísbendingu um skynsamlega forgangsröðun virkjana og friðunar.  Ef hins vegar núverandi stjórnvöld verða mikið lengur við völd, verður allt friðað og ekkert framkvæmt.  Náttúran skal njóta vafans er orðhengilsháttur umhverfisráðherra.  Þá verða heldur engir peningar fyrir hendi til að reka friðlönd og þjóðgarða með þeim myndarbrag, sem vert er.  Að nýta og njóta skal verða stefnan í þágu fólksins í landinu, sem ætíð skal láta njóta vafans.  

Vatnsafl 

 

 

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband