Ofmat á evru - söguleg mistök

Mynt án ríkisfangsEin bezta afurð Evrópusambandsins (ESB), ef svo má að orði komast, er Innri markaðurinn, sem Ísland á aðgang að vegna aðildar að EES (Evrópska efnahagssvæðið). Á Innri markaði EES ríkir fjórfrelsið, þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu.  Þegar Frakkar voru með erfiðismunum að sannfæra Þjóðverja um réttmæti sameiginlegrar myntar, árin 1990-1991, notuðu þeir slagorðið "einn markaður-ein mynt".  Slagorðið fór vel í Þjóðverja, því að borðleggjandi var, að sameiginleg mynt mundi hafa í för með sér sparnað fyrir útflutningsdrifið hagkerfi Þjóðverja, þar sem ekki þyrfti að skipta úr einni mynt í aðra með kostnaði, sem slíku fylgir.  Þjóðverjar voru á þessum tímamótum ekki í stöðu til að hafna upptöku evru eftir að hafa neitað að greiða stríðsskaðabætur til Bandamanna, sem þeim þó var gert að gera við stríðslok, ef Þýzkaland yrði endursameinað. 

Flestir Þjóðverjar höfðu hins vegar mjög miklar efasemdir um réttmæti þess fyrir þýzka hagkerfið og gagnsemi þess fyrir þýzkan almenning að fórna Deutsche Mark. ("D-Mark, D-Mark, Schade, dass du alles vorbei ist", stóð á borðum á heyvögnum bænda á kjötkveðjuhátíðum, eftir að þýzka þingið féllst á myntfórnina.) Bankastjórn Bundesbank, þýzka seðlabankans, lagðist gegn gjörninginum og færði fyrir því hagræn rök, sem reynslan hefur sýnt, að voru hárrétt.  Þýzkir stjórnmálamenn töldu sig hins vegar fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þegar þeir ákváðu að ganga að skilyrði Frakka gegn samþykki þeirra sem hernámsveldis 1945 fyrir endursameiningu Þýzkalands, þ.e. að fórna Deutshe Mark og taka upp evru, en hafna jafnframt greiðslu stríðsskaðabóta.  Því má bæta við hér, að skuldir Þýzkalands voru þrisvar á 20. öldinni afskrifaðar, þ.e. Þriðja ríkið neitaði að greiða skuldir Weimar-lýðveldisins, árið 1953 voru skuldir Vestur-Þýzkalands afskrifaðar og grunnur lagður að "Wunderwirtschaft", og 1991 neitaði þýzka ríkisstjórnin undir forystu Dr Helmut Kohls, kanzlara, að greiða áfallnar stríðsskaðabætur vegna heimsstyrjaldarinnar 1939-1945.  

Evran hefur þjónað stærsta hagkerfi ESB, Þýzkalandi, vel hingað til, enda verður Evrópubankinn í Frankfurt, ECB, eðli málsins samkvæmt, að taka mest tillit til aðstæðna í efnahagskerfi Þýzkalands.  Hagsveiflan í minni hagkerfum evrusvæðisins verður að vera samstiga hagsveiflunni í Þýzkalandi, ef ekki á illa að fara í minni ríkjunum.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Þetta hafa minni ríkin hunzað eða ekki megnað, og þess vegna er evran í sinni núverandi mynd í raun komin á leiðarenda núna.  Því má bæta hér við, að næststærsta hagkerfi Evrulands, stendur illa, því að skuldir hrúgast upp hjá Frökkum, sem reka ríkissjóð með 6 % halla af VLF.  Það er allt að krebera undan þýzka stálinu.  

Myndin hér að neðan frá óeirðum í Aþenu í júní 2011, þar sem táragasi var beitt, varpar ljósi á þá staðreynd, að þótt stefna ESB-forkólfanna hafi steytt á skeri, berja þeir hausnum við steininn fram í rauðan dauðann og þess vegna styttist í óreiðukennt gjaldþrot Grikklands með hugsanlegri úrsögn landsins úr evru-samvinnunni, sem gæti haft keðjuverkandi áhrif á ríki í vandræðum, s.s. Írland, Portúgal, Spán og Ítalíu.  Þar með væri komin upp alveg ný og mjög tvíræð staða innan ESB.  Það er mjög óskynsamlegt af íslenzkum stjórnvöldum að halda áfram viðræðum við ESB um aðild Íslands við þessar aðstæður. Með óbreyttri efnahagsstefnu á Íslandi fær Ísland aldrei aðild að Evrulandi, og það er heldur ekki eftirsóknarvert, þó að nauðsyn beri til breyttrar efnahagsstjórnunar, eins og stiklað verður á hér á eftir.  

Grikkland júní 2011Frá árinu 2003 hefur síbylja Samfylkingarinnar hljómað: "burt með krónuna-tökum upp evruna".  Forkólfar Samfylkingarinnar hafa jafnframt látið að því liggja, að Ísland hefði komið betur út úr bankahruninu en raun varð á með evru í stað krónu.  Þetta er þó órökstutt, eins og fleiri fullyrðingar þeirra um evruna og aðild Íslands að ESB.  Ef hér hefði verið evra sem lögeyrir árið 2008, eru tveir möguleikar.  ECB hefði ályktað, að ekki væri unnt að bjarga bönkunum vegna stærðar þeirra m.v. landsframleiðslu Íslands.  Þeir hefðu þá rúllað, en fallið hagkerfi setið uppi með mjög sterkan gjaldmiðil, sem gert hefði útflutningi mjög erfitt um vik.  Ef ECB hefði ákveðið að bjarga íslenzku bönkunum, hefði skilyrðið verið svipað og gagnvart Írum, þ.e. að íslenzka ríkið tæki verulegan þátt. Þá sætum við nú uppi með óyfirstíganlegar ríkisskuldir og dýran gjaldmiðil í stað snjallræðis Geirs Hilmars Haarde og ríkisstjórnar hans í nauðvörn að láta kröfuhafana taka skellinn, en hlífa íslenzkum almenningi eftir föngum. 

Annað mál er, að núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna hefur afhent sömu kröfuhöfum nýju bankana, sem var hið mesta glapræði og ósvinna gagnvart íslenzkum viðskiptavinum bankanna og meiri ástæða til krufningar fyrir Landsdómi en meint vanræksla Geirs Hilmars.

Aðildarsinnar halda sig enn við það heygarðshornið, að meginkosturinn við aðild að ESB muni verða að komast í myntbandalagið (EMU) og að taka síðan upp evru.  Hvað þarf eiginlega að gerast á evrusvæðinu eða í Evrulandi til að menn skilji, að evran gengur ekki upp ?  Evran var tilraun, sem mistókst.  Það er ekki unnt að halda úti sameiginlegum gjaldmiðli án sameiginlegs fjármálaráðuneytis.  Þetta hefur reynslan nú kennt mönnum, og hún er staðfest af Jean-Claude Trichet, bankastjóra ECB. 

Fáni Sambandslýðveldisins ÞýzkalandsÞað eru hverfandi líkur á, að öll evrulöndin samþykki slíkt.  Það mun þess vegna kvarnast úr evrusamstarfinu.  Jaðarríkin munu hrökklast út.  Halda menn, að Íslendingar mundu samþykkja slíkt yfirráðuneyti yfir sig ?  Það er af og frá.  Það er jafnvel hæpið, að þýzka þingið mundi samþykkja slíkt fullveldisframsal, sem sennilega stríðir gegn stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands (BRD).  

Ef evran er ekki lengur eftirsóknarverð sem raunhæfur myntkostur fyrir Íslendinga, eftir hverju er þá verið að slæðast með því að halda uppi rándýru umsóknarferli ?  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Ráðamenn Þýzkalands og Frakklands hafa lýst því yfir, að ESB muni ekki lifa af hrun evrunnar.  Sennilega er það ofmælt, enda er ekki víst, að evran líði undir lok, þó að Suður-Evrópa og jafnvel Írland muni hverfa úr henni.  Hagkerfin, sem eftir verða með evru, verða að vera mjög vel samstillt og sýna mikinn aga í ríkisfjármálum.

Það er einmitt þessi agi, sem er lykilatriði fyrir Íslendinga að sýna til að hér ríki stöðugleiki í efnahagsmálum.  Til að auðvelda stjórnmálamönnum verkið er hægt að setja ákvæði í Stjórnarskrá, sem eru jafnvel strangari en Maastricht-ákvæðin og banna fjárlagahalla, nema í skilgreindum undantekningartilvikum upp að 2 % af VLF, ef ríkisskuldir eru þá undir 50 % af VLF, og setja jafnframt skorður við útþenslu ríkisins m.v. hagvöxt undanfarinna ára og að hámarki 35 % af VLF (vergri landsframleiðslu).  

Seðlabankinn þarf að verða sjálfstætt stjórnvald undir forseta lýðveldisins, sem skipi stjórnarmenn.  Hlutverk bankans verði að halda verðbólgunni innan meðalverðbólgu viðskiptalandanna á hverju 5 ára tímabili, halda sveiflum í gengi myntarinnar innan við +/- 5 % á ári m.v. myntvog og að hámarka hagvöxt að uppfylltum framangreindum skilyrðum. 

Slíkar leikreglur fyrir þingmenn og ráðherra mundu skapa þann aga á framkvæmdavald og löggjafarvald, sem hefur vantað, en ætti að vera nauðsynlegur og nægjanlegur fyrir árangursríka hagstjórn. Með slíkum aga þarf ekkert yfirfjármálaráðuneyti með agavald (agalegt vald).

Í raun má segja, að skynsemi sé allt, sem þarf.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er brennimerkt óskynseminni.  Þetta þýðir, að séu tvær leiðir til að velja um í einu máli, er alveg öruggt, að þessi ríkisstjórn velur óskynsamlegu leiðina.  Þetta kemur auðvitað niður á hagsmunum almennings í landinu, en þeir eru fyrir borð bornir í hverju málinu á fætur öðru.  Afleiðingin er viðvarandi kreppa, atvinnuleysi, atgervisflótti, skuldasöfnun ríkisins, mikil verðbólga og gjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga auk stórfurðulegrar utanríkisstefnu, sem enda mun með ósköpum (skipbroti í Brüssel).    

 

   

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Gíslason

Eftir þennan lestur ég get bara sagt „Amen"  þetta eru góðar hugleiðinar inn í helgina en ég er alveg sammála.

Ómar Gíslason, 24.6.2011 kl. 10:28

2 Smámynd: Sigurður Baldursson

Góð grein og þörf áminning. Takk fyrir

Sigurður Baldursson, 24.6.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband