Hagsmunasamtök skattgreiðenda

Það var vonum seinna, að stofnuð voru hagsmunasamtök skattgreiðenda á Íslandi http://www.skattgreidendur.is .

Bæði hefur skattheimtuna á Íslandi tekið út yfir allan þjófabálk og meðferð skattfjárins verið fyrir neðan allar skriður. Segja má, að fjármálastjórnun ríkissjóðs undir vinstri stjórn hafi verið arfaslök og raunar einkennzt af sukki og svínaríi. 

Afleiðing óstjórnarinnar eru vaxtagreiðslur ríkissjóðs til útlanda upp á 220 mia kr á þremur árum samkvæmt forsíðu Morgunblaðsins, 20.07.2012.  Þetta eru blóðpeningar, því að ekki er um að ræða lán til arðsamra fjárfestinga, heldur í rekstrarhít ríkissjóðs. Stöðugt er aukið við skuldastabba ríkissjóðs.  Sú óstjórn er gjörsamlega siðlaus.  Núverandi ráðamenn heykjast á vandanum, sem þeir buðu sig fram til þjónustu við að leysa, en í staðinn vísa þeir vandamálunum á framtíðina.  Gjörðir þeirra og aðgerðaleysi eru allar hinar aumkvunarverðustu, enda mun sagan fara ómjúkum höndum um fólk, sem taldi sig allt geta, var fullt af lofti, en brást algerlega bogalistin.  

 

Útgjöld heimilanna 2012Sneiðmyndin hér til hliðar sýnir skiptingu útgjalda meðalheimilis á Íslandi þessi misserin.  Langstærsti útgjaldaliður heimilisins, 52 %, fer í beina og óbeina skatta til ríkis og sveitarfélaga auk annarra opinberra gjalda.  Þetta gríðarlega háa hlutfall er mikið hættumerki í íslenzku efnahagslífi og ávísun á stöðnun og kjararýrnun.  Það er í engu samræmi við það, sem almenningur fær til baka frá þessu dæmalausa bákni.  Það gefur auga leið, að spyrna verður við fótum, þegar hið opinbera er farið að sjúga til sín yfir helming tekna almennings í landinu. 

Ríkið er rekið með bullandi tapi á meðan sóun á borð við stjórnarskráarendurskoðun, aðildarviðræður við ESB, allt of stórvaxna utanríkisþjónustu og margt fleira, á sér stað. Útflutningstekjur landsins eru svo takmarkaðar, að þær standa ekki undir þeirri háu erlendu vaxtabyrði, sem ríkið hefur bakað sér og er 5 % af VLF.  Þessi mikla umsetning ríkissjóðs er ósjálfbær og verður að lækka.  Allir verða að sníða sér stakk eftir vexti. Ella verður ríkissjóður dragbítur á lífskjörin í landinu um ókomna tíð. 

Verðugt markmið er að lækka hlutfallið úr 52 % og niður fyrir 40 % á 6 árum með sparnaði í ríkisrekstri og aukningu landsframleiðslu.  Ríkið á að reka myndarlega, það sem það tekur að sér, t.d. fjárfesta í nýjum lækningatækjum, sem bjargað geta mannslífum og sparað rekstrarkostnað, en ekki að kreista líftóruna úr allri starfsemi, sem það kemur nálægt, með flötum niðurskurði eða öðrum viðlíka stjórnunaraðferðum.  Stjórnarhættir vinstri stjórnarinnar eru frumstæðir, af því að hún má ekki heyra minnzt á annars konar rekstrarform en ríkisrekstur.  Þingmenn hennar eru forstokkaðir og vonlaust um, að þeir muni nokkru sinni fitja upp á nýjungum.  

Erfðaprins Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðbjartur Hannesson, sem frægur varð fyrir, "hve lítið nýtt gerðist hjá honum", þegar hann vann fyrir Jóhönnu að því að smokra Icesave um hálsinn á skattgreiðendum á Íslandi, þó að stórfréttir hefðu birzt, heldur því fram, að velferðarkerfið sé ekkert stærra á Íslandi en á Norðurlöndunum.  Þetta er heimskuleg röksemd manns með asklok fyrir himin fyrir því að ráðast ekki í niðurskurð ríkisútgjalda á Íslandi.  Jafnaðarmaðurinn virðist ekki hafa heyrt af hruni peningakerfisins, sem hér varð, og 100 % skuldabyrði ríkissjóðs af VLF né af miklum kostnaði, sem leggst á íslenzka skattgreiðendur vegna fámennis í stóru landi.  Við á Íslandi erum einfaldlega sem stendur fátækari en hinar Norðurlandaþjóðirnar og verðum þess vegna að sýna ráðdeild í rekstri heimila, fyrirtækja og opinberra sjóða.

Það þarf að endurskilgreina hlutverk ríkisins, og hvernig þessu hlutverki verði gegnt með hagkvæmustum hætti.  Ekki er ósennilegt, að með þeim hætti megi spara a.m.k. 50 mia kr eða 10 %.  Afganginn af gatinu og myndun greiðsluafgangs verður að brúa með aukinni landsframleiðslu.  Til þess þarf að örva hagkerfið, m.a. með lækkun skattheimtu og einföldun skattkerfis. Virkja markaðsöflin og laða fremur hingað auðugt fólk en að flæma það burt, eins og jafnaðarmennirnir gera. Með lágri skattheimtu af háum höfuðstóli fást hærri skatttekjur en með hárri skattheimtu af lágum höfuðstóli.  Þetta hafa vinstri menn aldrei skilið og munu aldrei skilja. Þar í liggur mein þeirra.    

Vinstri stjórnin, svo kallaða, sem hér lafir við völd, hefur eyðilagt skilvirkni skattkerfisins.  Það hefur hún gert með því að flækja tekjuskattskerfið með fjölgun skattþrepa, sem leitt hefur til mikillar hækkunar jaðarskattsins.  Þetta hefur dregið löngun úr fólki til tímabundinnar aukningar á vinnuframlagi sínu og þar með dregið úr hagvexti og gert ungu fólki alveg sérstaklega erfitt fyrir.  Þessi háskattastefna sameignarsinnanna hefur m.a. leitt til læknaskorts á Íslandi, af því að læknar telja sig fá svo lágar ráðstöfunartekjur hérlendis, að þeir hafi ekki efni á að snúa heim úr sérnámi, í sumum tilvikum með skuldabagga á bakinu. 

Hið sama á við um annað hámenntað fólk og þarf ekki hámenntun til. Frumkvöðlar margvíslegir forðast forræðishyggjuna. Við þurfum að laða hingað sem flest menntafólk og framtaksfólk ásamt eignafólki, ef unnt er. Hið nýja hagsmunafélag skattborgara hlýtur að berjast hart fyrir einföldun tekjuskattsins niður í eitt þrep.  Þar með minnkar þrýstingur á laun til hækkunar, sem dregur þá úr verðbólgu. Til greina kemur, að ríkið hafi lága tekjuskattsheimtu, t.d. 15 %-20 %, og engan persónuafslátt, nema til þeirra, sem hafa einstaklingstekjur undir MISK 2,0 á ári. Þá ber að afnema aftur eignaskattinn sem og alla aðra vinstri stjórnar skattheimtu, sem var misráðin, enda viðbrunninn grautur úr austur-þýzku eldhúsi leppanna Walter Ulbrichts og Eric Honeckers.   

Téð vinstri stjórn hefur séð ofsjónum yfir sparnaði landsmanna, svo að hún hefur aukið skattheimtu af vaxtatekjum.  Þetta er hagkerfinu skaðlegt, því að frá sparifénu kemur lánsfé bankanna til fjárfestinga og annars.  Hinu opinbera ber að efla ráðdeild og sparnað, og þess vegna ber að lækka skattheimtu af eignatekjum hvers konar niður í 10 %, nema stjórnin vilji þurrð í bönkum og auknar fjárfestingar í listaverkum.

Tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður af vinstri stjórninni, eins og allir aðrir skattar, enda hefur ferill þessarar dæmalausu ríkisstjórnar einkennzt af furðulegum fjandskap við atvinnulífið.  Ríkisstjórnarflokkarnir, sem báðir eru vinstra megin við velsæmi, þó að þeir sleiki óæðri endann á evrópsku auðvaldi hvor sem betur getur, líta nefnilega ekki á skattkerfi sem tekjuöflunartæki fyrir hið opinbera, heldur eins konar útjöfnunartæki á fátækt og beinlínis sem refsivönd á dugnað og velgengni. Öfundin er þeirra Akkilesarhæll. Skattkerfið er stjórntæki vinstri manna til að hafa hemil á þegnunum.  Þetta er viðbjóðsleg forræðishyggja og kjarninn í jafnaðarstefnunni, hverrar ær og kýr eru ekki að hækka meðaltal tekna, heldur að jafna tekjur. Kerfið ber dauðann í sér, en alltaf eru einhverjir kjánar tilbúnir að lyfta þessum tjásulega rauða fána.  

Gallinn við þessa stefnu er sá, að hún leiðir alls staðar til lækkunar meðaltalsins og stöðnunar hagkerfisins.  Sviþjóð "socialdemokratanna" er nærtækasta dæmið um þetta.  Undir stjórn borgaralegu flokkanna hefur Svíþjóð síðan risið úr öskustó á síðustu 6 árum.  Noregur undir stjórn jafnaðarmanna er á sterum olíu-og gaslindanna.  Innviðir norska samfélagsins eru þess vegna tæknilega og félagslega ótraustir og að sumu leyti lélegir, t.d. vegakerfið með aksturstollhlið út um allt og hrikalegur fjöldi innflytjenda, sem margir hafa sagt sig til sveitar, en neita að laga sig að norska þjóðfélaginu.  

Norsk fyrirtæki eru mörg fremur veik vegna hágengis og háskatta.  Venjulegur atvinnurekstur á bágt með að keppa við olíugeirann. Norskur sjávarútvegur er niðurgreiddur.  Spenna ríkir í norska þjóðfélaginu vegna innflytjendafjöldans og lífsafstöðu innflytjenda.  Menn botna ekki í, hvaða erindi þeir eiga til Noregs. Í heilu hverfunum og skólunum í borgum og bæjum er ekki lengur töluð norska. Jafnaðarstefnan er þarna að verki, og sú er stórhættuleg þjóðfélagslegum og efnahagslegum stöðugleika til lengdar.  Einkunnarorð hennar eru: "flýtur á meðan ekki sekkur". 

Margsannað er, að tekjumunur, sem leiðir af hvötum til að leggja meira á sig, virkar hagvaxtarhvetjandi og er þar með öllum í hag, þegar upp er staðið. Tekjuskatt fyrirtækja verður að lækka niður í 10 %-15 % til að draga hingað fjárfestingarfé.  Það þarf að virkja sem allra flesta til sem mestrar þátttöku í athafnalífinu og í þjóðlífinu almennt.  Til þess þarf hvata.

Virðisaukaskattur er líklega hvergi á byggðu bóli hærri en á Íslandi.  Hann er svo hár, að töluverð freisting er að ganga á svig við hann í viðskiptum manna á milli.  Skatttekjur af honum mundu þess vegna líklega til lengdar ekkert lækka, þó að þessi skattheimta yrði lækkuð um ein 5 % til að gera verzlun á Íslandi örlítið meira aðlaðandi fyrir Íslendinga og jafnvel ferðamenn, þó að þeir geti fengið sumt endurgreitt.

Verðlagið á Íslandi er auðvitað allt of hátt og þess vegna ber fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar (enginn ætlast til neins af nokkru viti af núverandi, enda er hún sem lifandi lík) að grisja verulega frumskóg opinberra gjalda, s.s. vörugjöld, og að taka tollskrána til gagngerrar endurskoðunar með lækkun að markmiði.  Það yrði liður í að gera Ísland samkeppnihæfara um fólk.  Ekki má gleyma álögunum á eldsneytið, sem tekið hafa út yfir allan þjófabálk.  Þessar álögur eru mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið og heimilin, ekki sízt í dreifbýli. Vinstri menn hata einkabílinn, en gleyma, að hérlendis eru engar járnbrautarlestir.  Þess vegna má ekki hækka eldsneytiskostnað almennings í forræðishyggjulegri tilraun til að breyta neyzlumynztri hans. Hið nýjasta í þessum efnum kom frá vitsmunabrekkum Jóns Gnarrs.  Þær vilja keppa að lakari nýtingu bílastæðanna í miðborg Reykjavíkur með 50 % hækkun stöðumælagjalds. Úr einfeldningslegu andliti boðbera þessara tíðinda skein, að hann trúir þeirri vitleysu sjálfur, að eftir 50 % hækkun muni fleiri nota stæðin.  Boðskapurinn var ein hringavitleysa.     

Skattalækkanir borgaralegrar ríkisstjórnar mundu aðeins um skamma hríð lækka tekjur ríkissjóðs, því að öll umsvif í þjóðfélaginu mundu taka við sér, sem ylli hagvexti, og skattskil mundu batna, sem er nauðsyn.  Aðgerðirnar mundu stækka skattgrunninn.  Þetta er sú leið, sem sjálfstæðismenn vilja fara til að koma rekstri hins opinbera, ríkis og margra sveitarfélaga, á réttan kjöl, og til að auka ráðstöfunartekjur almennings, sem fyrir löngu er orðið tímabært að losa úr kreppuböndum téðrar óhefluðu vinstri stjórnar.

Hin hliðin á peninginum er ráðstöfun skattfjárins, og líklegt er, að nýstofnað félag skattgreiðenda muni tjá sig verulega um þann þáttinn einnig.  Í höndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur meðferðin á ríkissjóði verið fyrir neðan allar hellur, eins og 90 mia hallarekstur 2011 ber ljósan vott um.  Kostnaðurinn við stjórnarskráarbreytingar er allt of hár m.v. afrakstur.  Ódýrara og árangursríkara er að fá stjórnlagafræðinga til að vinna að breytingum í umboði Alþingis, sem síðan mundi fjalla um breytingarnar.  Það er skynsamlegra að gína ekki yfir öllu, heldur afmarka verkefnið, t.d. við forsetaembættið, stjórnlagadómstól, seðlabanka, fjármálastöðugleika, rekstur ríkissjóðs, þjóðaratkvæðagreiðslur, kjördæmaskipan, fjölda þingmanna og þrígreiningu ríkisvaldsins.

Alla kostnaðarþætti ríkisins þarf að greina og meta nauðsyn þeirra fyrir samfélagið, og hvort lækka megi tilkostnað með markaðslegum ráðum án þess að lífsgæði almennings minnki.

Einu geta þó Íslendingar hrósað happi yfir, en það er að standa utan ESB og evrusamstarfs.  Sú aðild hefði orðið okkur dýrkeypt (og aðildaviðræðurnar eru auðvitað hrein sóun á skattfé og tíma stjórnsýslu-alger skemmdarverkastarfsemi jafnaðarmanna).  Nú er að koma í ljós, að Norður-Evrópa kastar perlum fyrir svín.  Hundruðum milljarða evra er kastað í botnlausa hít.  Lunginn úr fénu til Suður-Evrópu mun aldrei fást endurgreiddur.  Tjón Norður-Evrópu í þjóðargjaldþrotum Suður-Evrópu gæti numið 1000 miö evra. Þess vegna er Moody´s að boða lækkun á lánshæfismati Þýzkalands, Hollands og Lúxemorgar.  Finnar hafa heimtað traustari tryggingar, og þess vegna halda þeir AAA-stöðugum horfum. 

Nú mun andstaðan við þessa fjármunasóun skattborgara Þýzkalands magnast.  Peningaausturinn verður stöðvaður.  Þjóðagjaldþrot sunnan Alpa og Pýreneafjalla og jafnvel vestan Rínar blasir við.  Evran splundrast í tætlur.  Þar með verður ESB ekki svipur hjá sjón.  Bretar draga enn einu sinni lengsta stráið. Á myndinni hér að neðan er íslenzkt afreksfólk statt í höfuðborg Bretaveldis.    Ragna Ingólfsdóttir og Ólafur Ragnar, forseti     

 

 

         

   


ESB-friðarbandalag eða harðsvírað hagsmunabandalag

Hvers konar fyrirbrigði er Evrópusambandið-ESB ?  Forveri þess, Kola-og stálbandalagið, var stofnað af Frökkum, Þjóðverjum og Benelúxmönnum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar seinni.  Haft var á orði, að þetta samstarf ætti að hindra um aldur og ævi endurtekningu hildarleiksins 1939-1945.  Var eitthvað hæft í þessu ?  Nei, friðartalið, svo göfugt sem það var, var huliðshjálmur harðsvíraðra hagsmunaafla.  Nú vilja jafnaðarmenn Íslandi ganga þeim á hönd, hvað sem það kostar, en þeim mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Eftirsókn jafnaðarmannanna í auðvaldssamkundu þessa mun verða þeim fjötur um fót um alla framtíð.  

Það var vísast engin þörf á stofnun Kola-og stálbandalagsins og síðar Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, ESB, til að varðveita friðinn, því að fælingarmáttur kjarnorkusprengjunnar var nægur gagnvart því að hefja vopnuð stórveldaátök.

Ástæða var til þess fyrir Þjóðverja að sjá á eftir Elsass og Lothringen yfir til Frakklands og undarlegt, að ekki skyldi vera haldin atkvæðagreiðsla um það í þessum héruðum, hvorum megin landamæra Frakklands og Þýzkalands íbúarnir skyldu búa.  Ekki verður hér fjölyrt um þá stóru fláka, sem skornir voru af Þýzkalandi austanverðu og færðir Póllandi, og má þar nefna Slesíu og Austur-Pommern. Hvort sem ESB er á dögum eður ei, er samt útilokað, að til styrjaldar komi í Vestur-Evrópu vegna landamæradeilna.

ESB var í raun ekki stofnað til að varðveita friðinn, heldur til að koma ár Evrópuríkjanna, gömlu nýlenduveldanna, fyrir borð í heimi, þar sem þessi ríki hvert um sig höfðu ekki lengur bolmagn til að láta að sér kveða. Þetta kom ljómandi vel fram í áhugaverðu viðtali við einn af iðnjöfrum Þýzkalands, Carl H. Hahn, í Sunnudags-Mogganum 24. júní 2012.  Þar segir hann m.a.:

"Hins vegar má ekki líta fram hjá því, að fyrir 120 árum bjuggu í Þýzkalandi 7 % af jarðarbúum.  Eftir nokkur ár verðum við, þökk sé fæðingartíðni, sem er í algeru mótvægi við frjósemi Íslendinga, 0,7 % jarðarbúa. Þar sem sama þróun virðist vera að eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, er fyrirsjáanlegt, að íbúar álfunnar allrar verði brátt 6-7 % jarðarbúa. Þess vegna er nú svo mikilvægt, að við látum ekki evruna verða til þess, að við förum út af sporinu í samruna Evrópu, ef við viljum gegna hlutverki í heimsskipan morgundagsins, hlutverki, sem við getum ekki gegnt sem stakar þjóðir."

Þetta er kjarni málsins um eðli Evrópusambandsins.  Það er stórveldisbragur og löngunin til að viðhalda stórveldisstöðunni í heiminum að baki þessu fyrirbrigði, og erfitt er að koma auga á, að hagsmunum smáríkja geti verið betur borgið þar innanborðs en sem sjálfstæð og fullvalda ríki.  Betra er að vera barður þræll en feitur þjónn skrifaði Halldór Laxness.  Það er mikið til í því, en samlíkingin við ESB á þó illa við, því að margt bendir til, að afkoma þjóða þar innanborðs verði töluvert lakari en hinna, sem utan við standa. Nákvæmlega þessi er einnig niðurstaða Carls Hahns, því að hann segir í téðu viðtali:

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn."       

Þetta hagsmunamat hins margreynda og hæfa þýzka iðnjöfurs er í fullu samræmi við hagsmunamat meirihluta íslenzku þjóðarinnar og í fullkominni andstöðu við hagsmunamat ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þetta síðast talda hagsmunamat er sífelld uppspretta furðu, því að það er ekki heil brú í því hagsmunamati, að hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé bezt borgið í ríkjasambandi, sem stefnir á að verða voldugt sambandsríki á borð við Bandaríki Norður-Ameríku.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gerir langtíma hagsmunamat að umræðuefni af kögunarhóli sínum á síðum Fréttablaðsins á Bastilludaginn 2012. Hann spyr, hvernig andstæðingar aðildar að ESB ætli að forða Íslandi frá einangrun, ef það standi utan ESB.  Svona spyrja aðeins þeir, sem hafa asklok fyrir himin.  Það verður auðvitað að horfa til heimsins alls, þegar samband Íslands við umheiminn er mótað.  Svigrúm íslenzkra stjórnvalda til samskipta út fyrir ESB yrði mjög takmarkað með aðild, en auðvitað yrðu samskiptin við önnur ESB-löndin náin, þegar búið væri að deila með þeim fullveldinu.  Þegar kæmi að hagsmunamálum Íslands, er mjög mikil hætta á, að Íslendingar yrðu ofurliði bornir og hagsmunum Íslands fórnað á altari sáttmála ESB og hausatalningar.  Sverð okkar og skjöldur í hagsmunabaráttunni við aðrar þjóðir er fullveldið, heilt og óskipt, eins og dæmin sanna.  Makríldeilan við ESB ætti að færa mönnum heim sanninn um þetta.

Þá minnist téður Þorsteinn á gjaldeyrismálin.  Hann telur íslenzku krónuna ekki á vetur setjandi, en evruna eina raunhæfa úrræði landsmanna í myntmálum.  Um krónuna er það að segja, að gengi hennar er aðeins mælikvarði á gæði hagstjórnar í landinu í samanburði við hagstjórn annarra þjóða.  Veikleikar íslenzkrar hagstjórnar eru þekktir, og það er líka þekkt, hvað þarf til, svo að stöðugleiki verði í peningamálum landsins og gengið styrkist. Núverandi hagstjórn með bullandi halla á ríkissjóði, 90 miö kr, er dæmi um arfaslaka hagstjórn. Verði peningamálunum hér komið í nýtt horf, sem Frosti Sigurjónsson gerði grein fyrir í sumarhefti Þjóðmála 2012, eða skipað með öðrum árangursríkum hætti, t.d. af næstu ríkisstjórn, skal spá því hér, að evran verði fyrr lögð niður í sinni núverandi mynd en íslenzka krónan.  Engin samstaða er um þau einu úrræði, sem duga innan ESB til bjargar evru í sinni núverandi mynd, en fái borgaralegu flokkarnir myndarlegan meirihluta í næstu Alþingiskosningum, sem skötuhjúin Jóka og Grímsi vinna nú hörðum höndum að, verður hægt að ýta nýju peningamálakerfi úr vör hérlendis undir merkjum stöðugleikans.    

Stofnað var til evrunnar í stjórnmálalegu augnamiði af "pólitískum oflátungum", eins og ritstjóri Morgunblaðsins orðar það í forystugrein 20. júlí 2012.  Hún átti að ryðja brautina frá ríkjasambandi til sambandsríkis.  Þessi þróun hefur orðið hægari en bjartsýnustu sambandssinnar vonuðu, og þess vegna hefur evran lent varnarlítil í ólgusjó spákaupmennsku, svo að henni er ekki hugað líf að óbreyttu.  Af þessu hefur Carl Hahn áhyggjur, og hefur eftirfarandi um málið að segja:

"Ef evran hryndi, mundi vissulega koma bakslag í samruna Evrópu.  Reglan er sú í sögunni, að slíkur samruni hefur verið afleiðing stríðs.  Svo er líka hægt að ná saman með friðsamlegum hætti, eins og við hófumst handa um eftir stríð, sem hefur skilað okkur vel á veg, og við getum verið mjög stolt af árangrinum.  Þess vegna verðum við, tel ég, að bjarga evrunni.  Það snýst ekki um evruna sem slíka, heldur um það bakslag í samruna Evrópu, sem mundi hljótast af falli hennar."

Hér fer ekkert á milli mála.  Þýzka iðnaðinum, fjármálaveldinu, stjórnmálaelítunni, gamla aðlinum, og jafnvel verkalýðshreyfingunni, er umbreyting ESB yfir í sambandsríki mikið kappsmál til að tryggja sér markaði og til að geta haft áhrif á gang heimsmálanna, en Carl Hahn ráðleggur Íslendingum að standa utan við þetta stórríki.  Það er heiðarleg og stórmerkileg ráðlegging manns, sem kemur úr innsta hring þýzkrar hagsmunagæzlu. 

Hér skal ekki fara út í vangaveltur um, hvernig Carl Hahn og hans líkar sjá fyrir sér þetta sambandsríki, en líklega sjá þeir Bandaríki Evrópu, BE, fyrir sér sem útvíkkun á Sambandsríkinu Þýzkalandi.  Öflugasta þjóðin þar innanborðs mun þá verða stefnumótandi fyrir Evrópu að landamærum Hvíta Rússlands, Úkraínu, Rússlands, Tyrklands og suður að Afríku. Ósjálfrátt hvarflar hugurinn þá til Þriðja ríkisins, þó að ósanngjarnt sé að nefna það.   

Íslendingar eru farnir að finna smjörþefinn af hagsmunagæzlu ESB.  Það kom fram í Icesave-málinu, þar sem ríkjandi stefnu ESB um að ausa fé úr ríkissjóðum til að bjarga bágstöddum bönkum var reynt að þröngva upp á Íslendinga. Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde markaði gjörólíka og miklu farsælli stefnu, en vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur glúpnaði strax undan þrýstingi ESB og bankaveldisins.  Nú virðist nýr aðalbankastjóri ECB, seðlabanka evrunnar, í nauðvörn fyrir evruna vera að móta nýja stefnu, keimlíka stefnu ríkisstjórnar Geirs Hilmars að þessu leyti. 

Ekki eykst nú risið á bönkunum eftir LIBOR hneykslið.  Það sýnir meira svínarí í bankaheiminum en flesta óraði fyrir, og var þó vitað, að bankamenn eru engir englar; jafnvel ekki englar með sviðna vængi. LIBOR-hneykslið hefur þegar framkallað miklar sektir, og fangelsanir munu vafalítið fylgja í kjölfarið.  Einhverjar tennur verða dregnar úr sjálftökuliðinu.   

Maria Damanaki, grískur sjávarútvegsstjóri ESB, var hér á dögunum og var ómyrk í máli.  Ef Íslendingar gefa ekki upp á bátinn sjálfstæða stefnu sína um nýtingu makríls í lögsögu Íslands, þá verður sett á löndunarbann og aðrar viðskiptaþvinganir ásamt stöðvun aðlögunarferlisins að ESB.  Það eru trakteringar að tarna.  Hvernig halda menn, að meðhöndlunin á eyþjóðinni hefði orðið, ef hún hefði við erfiðar aðstæður glæpzt á að gerast aðili að þessum klúbbi ?  Gömul nýlenduveldi kunna hreðjatökin.

Nú sjáum við skína í tennur Brüssel-valdsins enn á ný, og hefur reyndar Stóra-Berta verið dregin fram, því að hvorki meira né minna en hafnbanni er nú Íslendingum hótað fyrir að veiða makríl í eigin lögsögu.  Írar hafa orðið sér til skammar, skrækróma dvergar í fylgd stóru strákanna.

Hvernig bregðast íslenzk stjórnvöld við þessari grafalvarlegu hótun ?  Með flaðri barins hunds.  Þau leggjast á bakið og tifa upp tánum.  Grænlendingum er meinað að landa makríl á Íslandi.  Þó eigum við ekki í neinum deildum við Grænlendinga, nágranna okkar. Þetta er helber lágkúra.

Viðbrögð utanríkisráðherra, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og forsætisráðherra eru til háborinnar skammar, því að þau einkennast af fleðulátum og undirlægjuhætti.  Ný ríkisstjórn verður að endurreisa orðstýr Íslands sem fullvalda þjóðar, sem glúpnar ekki, þó að tannlaust tígrisdýr láti skína í hvoftinn.

Öðru vísi mér áður brá, er vinstri stjórn Hermanns Jónassonar, 1956-1958, með Lúðvík Jósepsson sem sjávarútvegsráðherra, færði landhelgina út í 12 mílur og fékk opna byssukjafta brezka flotans sem svar.  Þá var staðið í ístaðinu og tjaldað því, sem til var, eins og Bretar gerðu sumarið 1940 eftir fall Frakklands.  Við höfðum sigur og Bretar höfðu sigur.  "Aldrei hafa jafnmargir átt jafnfáum jafnmikið að þakka og nú", var nokkurn veginn það, sem WC hafði á orði um The Royal Airforce.  

Á dögum téðrar vinstri stjórnar Hermanns, og seinna, voru uppi kenningar um, að sameignarsinnar væru að espa til átaka á milli Natolanda til að þóknast Sovétherrunum.  Hér skal láta það liggja á milli hluta, en núverandi viðbrögð vinstri stjórnarinnar benda til, að barátta fyrir raunverulegum hagsmunum íslenzku þjóðarinnar sé fjarri vinstri mönnum, en þeir leggi jafnan megináherzlu á að þóknast erlendum valdsmönnum, sem þeir telja sig skuldbundna með einhverjum hætti.

Þetta eitt út af fyrir sig er nægjanleg ástæða til að halda vinstri mönnum utan stjórnarráðsins um aldur og ævi.

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll          

           

 

 


Glöggt er gests augað

Í Sunnudagsmogganum, 24. júní 2012, birtist afar áhugavert viðtal við Þjóðverjann, Carl Hahn, sem er Nestor Volkswagens og stjórnaði þessum iðnrisa um árabil.

Carl Hahn vill aukinn samruna í Evrópu, eins og margir framámenn Þjóðverja, þó að almenningur í Þýzkalandi fylgi þeim ekki að málum þar, nema síður sé.  Allt að 80 % Þjóðverja er andvígur meira framsali fullveldis til hins yfirþjóðlega og ólýðræðislega valds í Brüssel.  Aðhald almennings nær ekki til búrókratanna í Brüssel. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe hefur varað Bundestag í Berlín við því, að hann kunni að dæma frekara framsal fullveldis Þýzkalands vera í blóra við Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins.  Áhugi Þýzkalands á sambandsríki Evrópu er þess vegna beggja blands.  Verður spennandi að fylgjast með þróun mála í Sambandslýðveldinu á næstu misserum hvað þetta varðar.  Brugðið getur til beggja vona.    

Þrátt fyrir skoðun sína á Evrópumálunum hefur hinn reyndi, víðsýni og gjörhygli viðskiptamaður, Carl Hahn, eftirfarandi að segja við lesendur Sunnudagsmoggans

"Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum.  Ísland er langt í burtu.  Ísland er lítið, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar.  Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað beztri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn.  Ef maður horfir raunsætt á málið-og hér er ekki um að ræða ásakanir á hendur neinum á Íslandi-er rétt að segja, eins og Vaclav Klaus í Prag: "Við göngum ekki í evruna".  Þegar Evrópa nær að komast fram á við, skipuleggja sig og reka öfluga viðskipta-og fjármálapólitík, og þá um leið evrupólitík, verður hægt að taka inngöngu til athugunar, en í dag er ljóst, að hið ótrúlega ríkidæmi Íslands, sem er ekki bara fólgið í 720´000 km2 af hafi til fiskveiða og miklu pólitísku sjálfstæði og styrk og hagkvæmri stöðu, eins og kemur fram í því, að kínverskir ráðamenn leita ráða hjá og heimsækja núverandi forseta, sem alls staðar kemur að opnum dyrum, yrði ekki til framdráttar með sama hætti og yrði Ísland enn eitt aðildarríki Evrópusambandsins.  Þá mundu kínverskir valdamenn ekki leita hingað." 

Þetta er löng tilvitnun í hinn gagnmerka Þjóðverja, sem veit hvað hann syngur og er ekki fæddur í gær.  Í ljósi makríldeilu Íslendinga við ESB verður ljóst, hversu hárrétt hinn glöggskyggni Carl Hahn hefur fyrir sér, þegar hann leggur mat á hagsmuni Íslands gagnvart ESB.

Eins og fram kemur, vonast hann til, að Evrópusambandið (ESB) nái sér á strik til að verða framvörður Evrópuríkjanna á sviði viðskipta og fjármála, þó að hann nefni ekki beint, hvað til þess þarf, en það er aukið fullveldisframsal aðildarlandanna til ókjörinna pótintáta í Brüssel, þ.e. til Maríu Damanaki og annarra af því sauðahúsi.  Fyrir slíku er enginn stuðningur á meðal almennings í Evrópu, og þess vegna eru tilburðir til aukins samruna nú í nafni björgunar evrunnar dæmdir til að mistakast.  Viðskiptamenn og peningamenn Evrópu studdu stofnun ESB til að verða tæki í valdabaráttunni í heiminum.  Aðeins jafnaðarmenn á Íslandi vilja binda trúss sitt við slíka stórveldisdrauma, jafnheimskulegir og þeir eru. Jafnaðarmenn á Íslandi höfðu líka miklar efasemdir um réttmæti þess að slíta konungssambandinu við Danmörku, þó að það hafi síðan legið í nokkru þagnargildi.   

Carl Hahn tekur skýrt fram, að hann telur það engan veginn þjóna hagsmunum Íslendinga, að umsókn um aðild að ESB skuli hafa verið lögð fram, og þar með telur hann vafalaust yfirstandandi aðlögunarferli hið mesta óráð.  Hver sá, sem kryfur þetta umsóknarmál að ESB hlutlægt og af þekkingu og víðsýni, hlýtur að komast að sömu niðurstöðu og Carl Hahn.  Nú reynir ESB að nota þessa ólánsumsókn sem vopn í baráttunni við Íslendinga um makrílinn.

Andstæðingar aðildar Íslands að ESB gátu vart fengið betri stuðning erlendis frá við málstað sinn en frá Evrópusinnanum, þýzka, Carl Hahn. Hann verður ekki sakaður um forpokun eyjarskeggjans eða einangrunarhyggju á grundvelli þjóðernishroka.  Nei, afstaða þeirra Íslendinga, sem telja ESB-aðild mundu verða hagsmunum Íslands sízt til framdráttar og jafnvel vera hagsmunum Íslendinga stórhættuleg, er reist á ígrundun, þekkingu og haldgóðum rökum.  Afstaða aðildarsinna er hins vegar reist á innantómri moðsuðu um, að örlög Íslands séu samtvinnuð Evrópu og að það hljóti að vera betra að vera hluti af stærri heild en að standa á eigin fótum.  Þetta er í ætt við ótta heimaalningsins við að hleypa heimdraganum og lifa upp á eigin spýtur.    

Gott dæmi um hagsmunaafsal er makrílmálið.  Á Evrópuvefnum hafa fræðimenn við Háskóla Íslands leitt að því gild rök, að íslenzk stjórnvöld hefðu alls ekki getað sett sér einhliða veiðimagn í lögsögu Íslands árið 2010 upp á 112 000 tonn makríls.  Framkvæmdastjórn ESB hefði þá þvert á móti sett okkur veiðihámark reist á reglu sinni um hlutfallslegan stöðuleika, sem hefði leitt til þess, að við fengjum heimild til að veiða svipað magn og verið hafi sem meðafli, einkum með norsk-íslenzku síldinni, eða um 25 000 tonn eða 3 % aflans, og þar við hefði setið.  Þess í stað veiddu Íslendingar árið 2011 um 16 % aflans.  

Þetta er regla, sem ekkert tillit tekur til gjörbreyttra aðstæðna í hafinu.  Sífellt meira gengur nú af makríl inn í lögsögu Íslands eða tæpur fjórðungur stofnsins.  Það er þess vegna engin goðgá, að við veiðum tæpan fimmtung stofnsins, þegar fjórðungur stofnsins gengur inn í lögsöguna í ætisleit og hverfur síðan á braut og er veiddur annars staðar.  Talið er, að hann þyngist um 650 000 tonn á ári í lögsögu Íslands og éti m.a. sandsíli, sem er mikilvæg fæða ýmissa fugla, þ.á.m. lunda, sem nú eiga erfitt uppdráttar vegna fæðuskorts.  Af þessum sökum er engin goðgá að veiða 200 000 tonn af makríl til manneldis, enda virðist stofninn vera í jafnvægi þrátt fyrir veiði langt umfram ráðgjöf.  

Skipulagt undanhald Íslendinga er hins vegar hafið undan ofríki Noregs og ESB að tilstuðlan afturhaldsstjórnarinnar í Reykjavík, sem er fyrirmunað að standa í ístaðinu, ef ESB er annars vegar.  Minnir afstaða Össurar, Steingríms og handbenda þeirra ekki á neinn annan meira nú um stundir en Neville Chamberlain, forsætisráðherra Breta, sem fórnaði Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu í hendur ríkiskanzlara Þriðja ríkisins og taldi sig með því hafa "tryggt frið um vora daga". 

Mun samningamönnum viðundranna, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, öllum til óþurftar og engum til gagns, væntanlega verða skipað að leggjast á bakið og tifa upp tánum á samningafundi í haust um veiðarnar 2013.  Mun landið þar verða af um 25 mia kr gjaldeyristekjum á ári, ef svo gengur fram sem horfir undir ríkisstjórn, sem gert hefur versta samning Íslandssögunnar við erlent vald og orðið að gjalti fyrir.  Að fáeinum árum liðnum verður þá tapið af "Münchensamningi" Steingríms J. Sigfússonar komið í Icesave hæðir. 

Evrópusambandið, ESB, er tannlaust tígrisdýr.  Að lyppast niður undan hótunum þess er afstaða, reist á brengluðu hagsmunamati og heybrókarhætti, sem ekki á að líða ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.  Það eru markaðir austan og vestan við ESB og alþjóðasamningar, sem standa gegn refsiaðgerðum á viðskiptasviðinu vegna hagsmunabaráttu af þessu tagi. 

   Nýr Þór heldur úr höfn 

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

  

    

 


Framtíð áliðnaðarins

Spurn eftir áli er vitaskuld háð efnahagssveiflum.  Hún markast af því, að meira en helmingur álframleiðslunnar fer til bílaiðnaðarins og í byggingarmannvirki.  Nú hefur álverð lækkað um þriðjung á einu misseri vegna skuldavanda Evrópu og brostinnar fasteignabólu í Kína.

Það er samt engin ástæða til að búast við öðru en vænni hækkun álverðsins, þegar Kínverjar ná tökum á hagkerfi sínu á nýjan leik, en þar er reyndar enn meiri hagvöxtur en víðast annars staðar.  Evrópa mun eiga árum saman við að etja mikinn hagkerfisvanda vegna veikleika evrunnar, sem leiðtogar evrulandanna koma sér ekki saman um lausn á.  Af þessum ástæðum hafa búrókratar í Brüssel uppi háværar kröfur um styrka sameiginlega stjórn ríkisfjármála og peningamála.  Skiptar skoðanir eru um fýsileika Bandaríkja Evrópu, BE, á meðal almennings í Evrópu.  Þjóðverjar gjalda t.d. mikinn varhug við ýmsum hliðum slíkrar ríkjastofnunar, og stjórnarskrá Sambandslýðveldisins leyfir ekki slíkt fullveldisframsal. 

Afætur og spillingargreni verða ekki fóðruð til lengdar af samhaldssömum og grandvörum þjóðum.  Þessi hegðunarmunur er óbrúanlegur með peningum.  Þess vegna gæti myntbandalag evrulands hæglega splundrað Evrópusambandinu, ESB, ef svo fer fram sem horfir. 

Á Íslandi er nú mældur mun meiri hagvöxtur en annars staðar í Evrópu.  Fullyrða má, að svo væri ekki, ef Ísland væri í ESB.  Þessi hagvöxtur er þrátt fyrir ríkisstjórnarómyndina, sem nú situr, því að allar hennar aðgerðir hafa dregið úr hagvexti.  Þessi hagvöxtur er tímabundinn vegna framkvæmda á vegum áliðnaðarins í landinu og vegna góðs gengis sjávarútvegs, sem ríkisstjórnin hefur nú bundið enda á með alræmdri ofsköttunarlöggjöf frá Alþingi vorið 2012. Þá hefur ríkisstjórnin sem kunnugt er þvælzt fyrir nýjum stóriðjuverum á Íslandi og virkjunum, svo að ekkert nýtt mannvirki af þessu tagi hefur komizt á koppinn í tíð þessarar afturhaldsstjórnar, sem umturnast, ef minnzt er á framfarir.  

Í Morgunblaðinu 19. maí 2012 birtist fréttaskýring eftir Helga Vífil Júlíusson undir fyrirsögninni, "Vonast til, að nýtt Marel rísi í áliðnaði".  Þarna er vitnað til Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka álfyrirtækja.  Hér er auðvitað skírskotað til þess, hvernig þróun og framleiðsla búnaðar fyrir úrvinnsluiðnað sjávarútvegs og landbúnaðar hefur skotið rótum á Íslandi.  Nákvæmlega hið sama gerðist fyrir um einum áratugi síðan fyrir tilstuðlan áliðnaðarins.  Þar var skilningur og áræðni fyrir hendi til að fara út í þróun á nýjum framleiðslutækjum í samvinnu við íslenzk iðnfyrirtæki með metnað og tæknilega getu.  Þetta bar skjótan ávöxt með útflutningi, enda spyrjast nýjungar og góður árangur skjótlega út í álheiminum.

Það, sem hins vegar er ekki síður áhugavert, er aukin úrvinnsla áls á Íslandi.  Það er aðeins tímaspurning, hvenær hún verður að veruleika.  Sem dæmi má nefna, að Norðmenn flytja út a.m.k. 300 000 t af álvörum, t.d. felgum.  Okkur á ekki að vera neitt að vanbúnaði.  Hingað til hafa verið framleiddir í Straumsvík völsunarbarrar, sem valsaðir hafa verið í risastórum völsunarverksmiðjum í Evrópu niður í plötur, þynnur og álpappír.  Nú er farið að framleiða í Straumsvík jafnaða (homogenised) álsívalninga, þ.e. stengur, sem hæfar eru til þrýstimótunar.  Það er líklegt, að arðsamt gæti verið að framleiða ýmsa prófíla hérlendis úr hluta af þessum stöngum, og yrði af slíku umtalsverður virðisauki.

Framtíð áliðnaðar er björt.  Mikill vöxtur mun verða á álnotkun í þriðja heiminum.  Á Vesturlöndum er álnotkun um 25 kg/íb á ári, en á Indlandi og í Kína aðeins 1 kg/íb á ári.  Ef tekinn er saman fólksfjöldi BRIC-landanna, s.k., Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína, má ætla, að þau muni valda  eftirspurnaraukningu á áli, sem nemur a.m.k. 65 milljón tonnum af áli á ári, 65 Mt/a Al.  Árið 2011 voru framleidd í rafgreiningarkerum 44 Mt Al.  Gríðarleg aukning þessarar framleiðslu er áætluð á þessum áratugi eða um 25 Mt/a árin 2012-2020.  Af þessari aukningu ætti Ísland að geta náð 1 Mt/a Al eða 4 % með því að selja raforku á heimsmarkaðsverði til þessara nota, 30 - 40 mill/kWh.  Þetta mundi veita orkuseljanda 490 MUSD/a í tekjur eða 61 milljarð ISK/a, miaISK 61 á ári.  Til samanburðar má geta þess, að árið 2011 keypti íslenzki áliðnaðurinn vörur og þjónustu af íslenzkum birgjum og verktökum fyrir miaISK 33.  Hlutdeild íslenzka áliðnaðarins í VLF (vergri landsframleiðslu) er um miaISK 100, og landið hefur burði til að tvöfalda þessa upphæð á 10 árum. 

Evrópusambandslöndin eru orðin mjög háð innflutningi áls, því að bílaiðnaður Evrópu kallar á aukið ál, og álframleiðslan í Evrópu hefur dregizt saman um 25 % síðan árið 2011.  Raforkuskortur hefur herjað á Evrópu undanfarið vegna lokunar kjarnorkuvera, og þess vegna steig orkuverðið 2009-2011 með þeim afleiðingum, að framlenging orkusamninga til langs tíma fékkst ekki.  Að vísa álverum á augnabliksmarkað raforku er sama og að vísa þeim á guð og gaddinn.  Þau verða þá strax undir í samkeppninni, því að framleiðslukostnaður þeirra verður allt of hár eða yfir 3000 USD/t.  Á Íslandi er hann allt að 2000 USD/t.

Augljóslega er áliðnaðurinn ein af þremur megingjaldeyrisuppsprettum landsins.  Hinar eru sjávarútvegurinn og ferðamannaiðnaðurinn.  Gríðarleg framleiðni er í áliðnaði og sjávarútvegi, svo að aðeins 6 % vinnuaflsins aflar lungans af útflutningstekjunum.  Þetta veitir þessum greinum mikinn styrk og stækkunarmátt.  Þegar borgaraleg ríkisstjórn kemst hér til valda eftir næstu Alþingiskosningar, verða þessi öfl leyst úr læðingi með því að losa um fjötra ofurskattlagningar á sjávarútveg, liðka fyrir samningum um raforkusölu til erlendra fjárfesta og með áfnámi gjaldeyrishaftanna.  Jafnframt verður stjórnun peningamálanna sett í nýjar skorður til að tryggja verðstöðugleika.  

Með þessu mun fjöldaatvinnuleysið þurrkast út, atvinnuleysi fara niður í 2 %, hallarekstri ríkissjóðs verður snúið við og tekið í staðinn til við að greiða niður skuldir ríkissjóðs í útlöndum. Þessi stefnubreyting mun tryggja varanlega kaupmáttaraukningu almennings, svo fremi gæftir og markaðir leyfi. 

Við þennan viðsnúning atvinnu-og efnahagsmála landsins fer ekki hjá því, að gengi krónunnar mun styrkjast, kaupmáttur vaxa og með því að fylgja traustri og varfærinni peningamálastefnu mun verðbólgan haldast undir 2 %.  Til að varðveita styrkingu kaupmáttar og koma í veg fyrir bólumyndun verður að halda verðbólgu algerlega í skefjum.  Til þess verður að afnema vísitölubindingar og stokka upp fjármálakerfið að fyrirmynd, sem lýst er í ágætri grein Frosta Sigurjónssonar, rekstrarhagfræðings, í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, "Betri króna til framtíðar".      

  germany      

150787boeing

      

   

               


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband