29.8.2015 | 21:15
Umræða í eitruðu andrúmslofti
Það er ekki heil brú í málflutningi sumra um aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, á köflum. Dæmi um þetta gaf að líta í grein Jóns Steinssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 21. ágúst 2015, undir fyrirsögninni: "Eitraður útgerðarauður".
Þar sem Jón Steinsson boðar í raun eignaupptöku á sjávarútveginum, verður ekki betur séð en hugmyndafræði hans sé reist á kenningum 19. aldar fyrirbrigðisins Karls Marx, þó að reynt sé að dulbúa boðskapinn með því að kalla hann "markaðslausn". Sé uppboð afnotaréttar einkaaðila "markaðslausn", þá er um að ræða ríkisrekið auðvaldskerfi, sem minnir örlítið á hina kínversku útgáfu kommúnismans, sem nú á mjög undir högg að sækja.
Téð grein hefst með þessum orðum:
"Ég hef lengi barizt fyrir því, að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindum sínum. [1]
Einföld og góð markaðslausn, sem myndi tryggja það, væri uppboð á veiðiheimildum. [2]
Rökin, sem ég hef lagt áherzlu á, eru aðallega af tvennum toga. Annars vegar er skýrt kveðið á um það í lögum, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. [3]
Í því ljósi er í hæsta máta óeðlilegt, að þeim sé ráðstafað til fámenns hóps útvalinna án þess, að fullt gjald sé tekið fyrir. [4]
Hins vegar eru leigutekjur af veiðiheimildum langhagvæmasta tekjulindin, sem ríkissjóður á völ á. [5]
Ef ríkissjóður fengi 40 milljarða króna árlega í leigutekjur af veiðiheimildum, væri unnt að lækka skatta til muna eða bæta velferðarkerfið til muna. [6]
Hér er í raun fullyrðingaflaumur illa ígrundaðra hugmynda um þjóðnýtingu sjávarútvegsins á ferðinni, sem reistar virðast á vanþekkingu á mikilvægi stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja fyrir arðsemina og vanmati á nauðsyn hvata fyrir fjárfesta til að leggja fé í áhætturekstur, sem sjávarútvegur óneitanlega er. Slíkt uppboðskerfi er sízt af öllum fiskveiðistjórnunarkerfum fallið til að skapa sátt um sjávarútveginn, enda myndi hann missa núverandi markaðsstöðu sína og veiðiheimildir safnast á enn færri hendur en nú. Þegar grannt er skoðað, stendur ekki steinn yfir steini hjá þessum eiturspúandi hagfræðingi, eins og nú skal greina með tilvitnunum í nokkra valinkunna menn:
- Árið 2013 greiddi sjávarútvegurinn um 25 milljarða kr í skatta, þar af um 10 milljarða kr (40 %) í veiðigjöld, 8 milljarða kr (32 %) í tekjuskatt og 7 milljarða kr (28 %) í tryggingagjöld. Samanlagður hagnaður útgerðarinnar, allt frá smábátum upp í stærstu fjölveiðiskip, nam 28 milljörðum kr árið 2013. Skattgreiðslur námu með öðrum orðum 89 % af hagnaðinum. Er það ekki meira en nóg ? Um það skrifaði Óli Björn Kárason í Morgunblaðið 4. marz 2015: "Á síðasta aldarfjórðungi hafa orðið algjör umskipti í íslenzkum sjávarútvegi, og Ísland er eina land innan OECD, sem ekki heldur úti umfangsmiklu styrkjakerfi fyrir fiskveiðar og vinnslu. Á meðan aðrar þjóðir eru með sjávarútveg á opinberu framfæri, greiða íslenzk fyrirtæki skatta og gjöld til ríkissjóðs. Skattlagning fyrirtækja, sem er umfram það, sem gengur og gerist í helztu samkeppnislöndum, veikir stöðu samkeppnisgreina, hvort heldur er á erlendum mörkuðum eða á heimamarkaði. Um þetta verður ekki deilt, enda sannindi, sem eiga að vera öllum augljós. Þetta á jafnt við um sjávarútveg sem aðrar atvinnugreinar. Hagkvæmni sjávarútvegsins, sem byggir á skynsömu stjórnkerfi fiskveiða - kvótakerfi með framsali - ásamt markvissri markaðssókn, auknum gæðum og nýtingu, hefur gert ríkissjóði kleift að leggja sérstakar byrðar á sjávarútveginn, sem keppir við ríkisstyrkta keppinauta. Þessu vilja pólitískir lukkuriddarar bylta og um leið stórauka álögur á sjávarútveginn. Jafnvel fyrrverandi fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis krefst stórhækkunar á veiðigjaldi. Fyrir kjósendur á landsbyggðinni hlýtur sú krafa að vekja athygli ekki sízt, þegar haft er í huga, að um 72 % veiðigjaldsins eru greidd af fyrirtækjum á landsbyggðinni, en 28 % veiðigjaldsins af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu."
- Í núverandi íslenzku fiskveiðistjórnunarkerfi er frumúthlutun aflahlutdeilda alfarið reist á veiðireynslu einstakra skipa á viðmiðunartíma veiðireynslunnar, en ella er unnt að taka tillit til fleiri þátta. Með þessu er tryggt, að aðeins þeir, sem kostað hafa fé og tíma til veiða á tiltekinni tegund skipta með sér afnotarétti á takmarkaðri auðlind. Finni þeir annað þarfara að gera, mega þeir framselja aflahlutdeild sína hvaða annarri íslenzkri útgerð, sem er. Hvergi í hinum siðmenntaða heimi er fyrirtækjum gert að búa við slíka óvissu um rekstur sinn að geta með engu móti vitað, hvort framhald verði á honum að ári. Geta menn rétt ímyndað sér, hvílíkur fjármagnsflótti yrði úr sjávarútveginum, ef slík ríkisrekin "markaðslausn" yrði tekin þar upp. Aðferðin er hagfræðilegt glapræði, eins og Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, og fleiri hafa bent á.
- Að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar þýðir einvörðungu, að íslenzka ríkisvaldið fer með auðlindastjórnun innan lögsögunnar til að tryggja sjálfbærni nýtingar og hámörkun afrakstrar af auðlindinni, en því fer hins vegar víðs fjarri, að þetta jafngildi eignarhaldi ríkisins á sjávarauðlindunum. Er alveg kostulegt til þess að vita, að hagfræðingur, sem tekur þátt í opinberri umræðu um stjórnun fiskveiða, skuli stöðugt berja hausnum við steininn og spúa eitraðri vitleysu sinni yfir landslýð.
- Það er fáránlegt að taka svo til orða, að veiðiheimildum sé úthlutað til "fámenns hóps útvalinna", þegar leikreglan er sú að úthluta að jafnaði til þeirra í upphafi, sem fjárfest hafa í þriggja ára veiðireynslu. Uppboðsleið Jóns, hins vegar, er braskleið, þar sem auðvaldið, t.d. bankarnir, geta hrifsað til sín lungann af veiðiheimildunum og gert útgerðarmenn að leiguliðum sínum. Útgerðum mundi við þetta snarfækka, og umgengnin við auðlindina yrði eins og búast má við, þegar útgerð og áhöfn er stjórnað alfarið af skammtímahagsmunum. Uppboðsleiðin er forkastanleg í alla staði, mundi kippa fótunum undan markaðssetningu útgerða og fiskvinnslufyrirtækja, sem er langtíma viðfangsefni, og þjónar engum öðrum tilgangi en lýðskrumi af ómerkilegasta tagi.
- Hugmyndin um "Leigutekjur af veiðiheimildum" til ríkisins er annaðhvort reist á þeim misskilningi, að ríkissjóður eigi óveiddan fisk í sjó, eða þeirri fyrirætlun að þjóðnýta aflahlutdeildir íslenzkra útgerða. Hvort tveggja er lagaleg ófæra, sem gæti aðeins valdið sjávarútveginum og ríkissjóði stórtjóni, því að aðferðarfræðin gengur ekki upp miðað við núverandi almenna lagatúlkun og eignarréttarákvæði Stjórnarskráar, þar sem afnotaréttur af almenningi með ítölu er eitt form eignarréttar.
- Að lokum boðar mannvitsbrekkan aukningu á skatttekjum ríkissjóðs um 30 milljarða kr á ári m.v. núverandi kerfi. Aukningin yrði að vísu aðeins 20 milljarðar kr og mjög skammvinn, því að tekjuskattur útgerðanna mundi þurrkast út. Fyrirtækin geta ekki staðið undir slíkri gjaldtöku, nema í örfá ár, eins og fram kemur í grein Kolbeins Árnasonar í Fréttablaðinu 7. maí 2015, "Sjávarútvegur á að skila miklu til samfélagsins": "Jón fullyrðir, að íslenzka ríkið sé hlunnfarið um 40-60 milljarða árlega, þar sem ekki hafi verið gengið nægilega hart fram í skattlagningu þessarar grundvallarstoðar íslenzks efnahags. Fullt tilefni er að staldra við þessa fullyrðingu. Samanlagður hagnaður útgerðarinnar, allt frá smábátum upp í stærstu fjölveiðiskip, nam 28 milljörðum króna á árinu 2013. Hér er undanskilinn hagnaður af vinnslunni, enda hafa veiðigjöld verið réttlætt með því, að um sé að ræða nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Því getur varla fundizt stoð fyrir þessum fullyrðingum Jóns. [JS hugsar þetta kannski þannig að taka öll veiðigjöldin 2013 og allan hagnað útgerðar á sama ári og segja sem svo, að summuna geti útgerðin greitt ríkinu í afnotagjald af auðlindinni. Slíkur málflutningur er þó fyrir neðan virðingu hagfræðings, því að hann hlýtur að vita, að sé allur hagnaður gerður upptækur, þá hverfur hvatinn til atvinnurekstrar, og fjármagnseigendur eiga ekki síðri rétt til arðgreiðslna en sjómenn til síns hlutar. - Innsk. BJo]. Hagnaður útgerðarinnar er til kominn vegna sölu á fiski, m.a. til landvinnslunnar. Samanlagt keypti íslenzk fiskvinnsla afla fyrir um 130 milljarða króna árið 2013, en hagnaður fiskvinnslunnar í fyrra nam ríflega 30 milljörðum króna. Þetta þýðir, að Jón telur, að sjávarútvegurinn eigi einfaldlega að greiða allan hagnað af veiðum og vinnslu í veiðigjöld. Óþarfi er að fjölyrða um, hvaða áhrif slíkt skattaumhverfi hefði á fjárfestingu sjávarútvegsins og framgang hans. Rétt er að halda því til haga, að íslenzkar fiskvinnslur og útgerðir greiddu hátt í 30 milljarða samanlagt í skatta og opinber gjöld (tekjuskattur fyrirtækja, veiðigjöld og tryggingagjald árið 2013). Góð afkoma greinarinnar gerir að verkum, að skattgreiðslur urðu umtalsvert hærri, m.a. vegna aukningar á greiðslu tekjuskatts.
Enginn heilvita maður getur látið sér detta það í hug, að umrædd uppboðsleið fyrir veiðiheimildirnar yrði til að auka sátt á meðal þjóðarinnar um sjávarútveginn. Í núverandi aflahlutdeildarkerfi fara menn sjálfviljugir út úr kerfinu með því að selja aflahlutdeildir sínar. Í uppboðskerfinu er mönnum hent út af miðunum, því að uppi stendur aðeins hæstbjóðandi, og hann verður að hafa öflugan bakhjarl, sem annaðhvort er stórt sjávarútvegsfyrirtæki eða fjármálastofnun. Það er þess vegna undir hælinn lagt, hvar aflinn verður lagður upp. Allt þetta þýðir, að atvinnuöryggi sjómanna og landverkafólks verður ekki svipur hjá sjón. Félagslega er þetta fyrirkomulag algerlega óverjandi, og ólígarkar Rússlands eða auðjöfrar í Suður-Ameríku mundu sleikja út um báðum megin að verða boðið upp á annað eins dæmalaust félagslegt óréttlæti og íslenzka sjóræningjaflokkinum ásamt "mentor" sínum, Jóni Steinssyni, hefur nú þóknazt að bjóða þjóðinni upp á.
Þetta er annað stórmál sjóræningja, og hitt er að "tífalda" fjölda hælisleitenda á Íslandi eða skjólstæðinga "alþjóðlegrar verndar", eins og skriffinnskubákninu þóknast að kalla það umkomulausa fólk frá norðanverðri Afríku og Austurlöndum nær, sem nú streymir til Evrópu. Blekberi taldi þó, að landsmenn ættu fullt í fangi með að sjá eigin ungviði fyrir sómasamlegum innviðum, þó að árlega væri nú ekki hleypt inn fólki af framandi kynþáttum og trúarbrögðum í hundraða eða þúsundavís.
Það horfir dálítið öðruvísi við með innviðina á meðal þjóða Evrópu, sem hættar eru að fjölga sér og glíma nú við fólksfækkun. Þær glíma reyndar jafnframt við atvinnuleysi, og það getur hvenær sem er barið að dyrum Íslendinga, ef kínverska kreppan breiðist út um heiminn, því að þá munu gjaldeyristekjur landsmanna óhjákvæmilega skreppa saman.
Þjóðir á borð við Svía og Þjóðverja, sem tekið hafa við slíkum fjölda hælisleitenda, að nemur nokkrum hundraðshlutum af fjölda frumbyggjanna, gjalda nú mjög miklum varhug við þeirri flóttamannabylgju, sem nú skellur á ströndum Evrópu. Þetta sýnir fylgi stjórnmálaflokka í þessum löndum og öðrum, sem varað hafa við vandamálinu, sem mikill fjöldi framandi fólks með takmarkaða aðlögunargetu og aðlögunarvilja hefur í för með sér.
Sjóræningjaflokkur Íslands hefur nú sýnt á spilin sín. Þar eru eintómir hundar, og það er fjarri því, að hagsmunir íslenzkrar alþýðu og sjóræningjanna geti farið saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2015 | 18:13
Hagkerfi heimsins í hægagangi
Hagkerfi heimsins á erfitt uppdráttar um þessar mundir, sem lýsir sér í meira framboði en eftirspurn málma á borð við kopar, ál og stál, og jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum, að heimsmarkaðsverð á þessum vörum hefur hríðfallið. Kínverska kreppan grefur um sig vegna gríðarlegrar eftirspurnar frá Kína, þegar bezt lét. Kínverski kommúnistaflokkurinn herðir nú tökin á þegnum sínum. Spurning er, hvort samsuða auðvaldskerfis og einræðisstjórnar er nú komin að endimörkum í Kína ?
Ekki er nóg með, að hrámálmsverðið hafi fallið, heldur hefur verðálag (premía) á sérvörur úr t.d. áli hríðfallið líka, sem ber vitni um óeðlilega slæma markaðsstöðu og er grafalvarlegt fyrir fyrirtæki, sem fjárfest hafa í búnaði til að framleiða slíkar dýrari vörur, t.d. ISAL í Straumsvík.
Við þessar aðstæður stendur íslenzka hagkerfið þó betur að vígi en mörg önnur hagkerfi, af því að gjaldeyrisöflun þess er, auk málmiðnaðarins, reist á matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Eggjunum er dreift í þrjár körfur, sem að töluverðu leyti eru innbyrðis óháðar, en þó ekki alveg, enda er slíkt illgerlegt.
Þó að gefið hafi á bátinn við markaðssetningu uppsjávartegunda, þá hefur verðlag yfirleitt farið hækkandi á öðrum tegundum undanfarin misseri og veiðarnar hafa aukizt. Nú hefur verið ákveðið hæsta aflamark þorsks á næsta fiskveiðiári frá aldamótum, 239 kt, en þorskur er langverðmætasta tegundin, og var um ISK 90 milljarðar að verðmæti 2014 eða 37 % af heildarverðmæti sjávarfangs, ISK 244 milljörðum.
Mestu verðmætin fóru til Bretlands eða 17 %, og hafi komið ISK 37 milljarðar fyrir sjávarfang til Rússlands, eins og fram hefur komið, eru það 15 % af heild og annar aðalmarkaður Íslendinga fyrir sjávarafurðir. Kæmi líklega hljóð úr horni, ef bílaiðnaður Þýzkalands mundi missa Rússlandsmarkað á einu bretti, svo að samanburðartilraun sé gerð. Tilgáta blekbera er, að hin þýzka ríkisstjórn Angelu Merkel, kanzlara, mundi ekki hafa látið slíkt viðgangast. Það er dæmalaus roluháttur forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra að fórna Rússlandsmarkaðinum fyrir málamynda þátttöku í banni við sölu hergagna til Rússlands. Með þessu skal ekki gera lítið úr hættunni, sem Evrópuþjóðum stafar af núverandi stjórnvöldum Rússlands. Sú hætta eykst ekki við sölu Íslendinga á matvælum til lands, sem iðulega hefur hlaupið undir bagga með Íslandi, þegar Vestur-Evrópuþjóðir hafa ætlað að knésetja okkur.
Þó að lífríki hafsins sé ávallt óvissu undirorpið, virðist nú mikið aðhald með lágum nýtingarstuðli vera að skila sér með meiri fiskigengd á miðin og öflugri hrygningarstofnum en þar hafa verið á þessari öld. Að 10 árum liðnum, árið 2025, gæti þess vegna verðmæti sjávarfangs verið komið yfir ISK 600 milljarða og hafa aukizt um ISK 400 milljarða að núvirði, ef verðlag helzt að jafnaði eins og nú, 2015. Í ljósi öflugrar vöruþróunar og markaðssetningar fiskvinnslunnar er afar sennilegt, að aukið magn og verðmætari afurðir sjávarútvegsins muni þá skila meiri gjaldeyristekjum en allur vöruútflutningur gerir nú.
Eins og málum er háttað núna, er verðmætadreifingin innan sjávútvegsins hins vegar ekki alls kostar sanngjörn. Eigendur minni útgerðarfyrirtækjanna eru hlunnfarnir vegna gríðarlegrar skattheimtu ríkisins af slíkum fyrirtækjum. Dæmi um þetta kom fram í frétt Morgunblaðsins 11. júní 2015:
"Samkvæmt útreikningum KPMG á skattspori sjávarútvegsfyrirtækisins Hugins ehf í Vestmannaeyjum, sem gerir út uppsjávarskipið Hugin VE, fengu hið opinbera og lífeyrissjóðir 172 sinnum meira en hluthafar félagsins í sinn vasa."
Þessi skipting verðmætasköpunar í sjávarútvegi er ósanngjörn og ber vitni hóflausri skattheimtu, sem gengur ekki til lengdar. Ef fækkun útgerða á ekki að halda áfram, þá þarf að breyta fyrirkomulagi veiðigjaldanna til einföldunar og lækkunar, t.d. þannig, að útgerðir greiði 4 % - 5 % af verði upp úr sjó í sameiginlegan sjóð, sem standi undir fjárfestingum og rannsóknum hins opinbera í þágu sjávarútvegsins. Slíkt væri sanngjörn gjaldtaka, þar sem meðalhófs væri gætt, og með þessu móti mundu fjármagnseigendur ekki verða arðrændir, eins og nú á sér stað. Viðfangsefnið er alltaf að skipta kökunni á milli vinnuafls, fjárfesta og hins opinbera þannig, að hvati sé til áframhaldandi rekstrar og sjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar. Þetta þýðir, að veiðigjöld munu verða um 1/10 af því, sem Jón Steinsson, hagfræðingur, áætlar til ríkissjóðs með uppboðsleiðinni, en þá má ekki gleyma, að um 3/4 af áætlun Jóns falla nú ríkissjóði í skaut beint frá fyrirtækjum í útgerð og fiskvinnslu, og að auki koma tekjur til sveitarfélagnna, sem eru líklega 1/4 af áætlun Jóns, en mörg sveitarfélög mundu fara á hliðina með uppboðsleið Jóns Steinssonar og sjóræningjanna.
Tekjur þessa fyrirtækis, Hugins ehf, námu árið 2014 MISK 2123, og MISK 1086 stóðu eftir, þegar rekstrarkostnaður án launa hafði verið greiddur. Þar af runnu rúmlega 36 % í vasa launþega, 52 % í vasa hins opinbera, 11 % til lífeyrissjóða, og þá var 1 % eftir upp í afskriftir og hagnað. Hér hefur hið opinbera orðið þess valdandi, að fyrirtækið ber sig ekki, og ofan af þessu þarf að vinda snarlega. Hér er greinilega vitlaust gefið, og svífur marxískur andi yfir vötnunum, sem er ávísun á skipbrot.
Ferðaþjónustan á Íslandi hefur vaxið með ævintýralegum hraða, enda er hún undirverðlögð gagnvart útlendingum vegna lágs gengis eftir Hrunið, sem þó fer fremur hækkandi nú á viðsjárverðum tímum í heimshagkerfinu, og vegna þess, að ríkið heldur þessari stóru og öflugu grein enn í bómull, svo að skatttekjur af þessari starfsemi eru allt of lágar.
Bílaleigur hafa sloppið við vörugjald við kaup á nýjum bifreiðum. Segja má þá, að ríkið hafi greitt niður kostnað viðskiptavina bílaleiganna hingað til. Þetta nær engri átt, heldur ættu þessi vörugjöld að leggjast jafnt á almenning og bílaleigurnar, sem gæti þýtt um helmingslækkun vörugjalda af bílum, sem almenningur kaupir, og mundi ríkissjóður líklega hagnast vegna aukinna kaupa almennings á nýjum bílum við þetta og vegna aukins kaupmáttar. Til að flýta fyrir "orkuskiptum", ættu rafmagnsbílar áfram að vera undanþegnir vörugjöldum og virðisaukaskatti, en á móti mætti hafa bifreiðagjöldin hærri af þeim.
Baksviðs skrifar Stefán E. Stefánsson í Morgunblaðið 21. júlí 2015:
""Þeir aðilar, sem selja út þjónustu, sem ber 11 % virðisaukaskatt, en greiða 24 % virðisauka af aðföngum sínum, eru í raun og veru að fá dálítinn ríkisstyrk." Þetta segir Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta og lögfræðisviðs hjá Deloitte, en um komandi áramót eru fyrirhugaðar töluverðar breytingar á skattaumhverfi margra ferðaþjónustufyrirtækja. Þá mun ýmiss konar þjónusta, sem til þessa hefur verið undanþegin virðisaukaskatti, færast upp í neðra þrep kerfisins og bera 11 % virðisaukaskatt. Breytingarnar koma í kjölfar þess, að virðisaukaskattskerfinu var breytt, en helztu breytingarnar fólu það í sér, að neðra þrepið hækkaði úr 7 % í 11 %, og efra þrepið var fært niður úr 25,5 % í 24,0 %."
Það hlýtur að verða bráðabirgða ástand, að stærsta atvinnugreinin á Íslandi sæti ekki venjulegri álagningu virðisaukaskatts. Á grundvelli 11 % VSK á matvæli í verzlunum, mætti þó verja áframhaldandi 11 % VSK á veitingar, nema áfengi, sem er í hærri flokkinum, 24 %. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að skatttekjur af hverjum erlendum ferðamanni fara minnkandi, eftir því sem þeim fjölgar. Svört atvinnustarfsemi lækkar kostnað ferðamanna, sem hefur áhrif til enn meiri fjölgunar þeirra. Fjölgunin er komin út yfir þjófabálk, og nú þarf fremur að auka heildartekjur Íslands af hverjum ferðamanni en að fjölga þeim. Skattrannsóknarstjóri þarf að herða róðurinn á þessu grugguga vatni og má ekki einblína á keyptar skrár um stóreignir í skattaskjólum. Hvað hefur annars komið út úr því átaki ? Örlítil tölfræði þar að lútandi mundi engan skaða.
Ferðamennskan leggur þyngstu byrðarnar á umhverfið af öllum íslenzku atvinnuvegunum, þegar ferðirnar til og frá landinu eru meðtaldar. Hótelfjárfestingar og -rekstur eru gjaldeyrisfrekar, svo að ekki sé nú minnzt á eldsneytið á láði, legi og í lofti. Tekjurnar, sem enn þá eru að of litlu leyti skattlagðar, fara að töluverðu leyti, aftur til útlanda, ekki síður en hjá stóriðju og útgerð. Það er skammgóður vermir umhverfisverndarsinna að gylla sóðalegustu atvinnugreinina til að kasta rýrð á aðrar. _HINGAÐ_
Það er langt seilzt hjá hjá virkjana- og flutningslínuandstæðingum, sem mörg hver boða ferðaþjónustu sem náttúruvænan valkost, sem er fullkomin þversögn, að leggjast gegn nýju orkuflutningsmannvirki yfir hálendið um Sprengisand á þeim forsendum, að slíkt mundi fækka ferðamönnum til Íslands og sérstaklega ferðamönnum yfir Sprengisand. Það er hægt að gera þessi mannvirki minna áberandi en t.d. Byggðalínuna, þar sem hún sést af Þjóðvegi 1 á heiðum og t.d. austan Mývatns. Sprengisandslína mundi draga úr orkusóun og mengun og auka gjaldeyristekjur, því að flutningstöp mundu minnka, olíubrennsla dragast saman og ný framleiðsla yrði gerð möguleg. Miklu nær er af umhverfisverndarsamtökum að beita mætti sínum til að heildarlengd loftlína aukist ekki, heldur minnki. Þetta mundi flýta fyrir þrífösun sveitanna, sem er mikið framfaramál fyrir dreifbýlið, og fólk á borð við Skagfirðinga, sem má búa við 132 kV línu í túnfætinum, mundi eygja möguleika á að fá hana í jörðu, þar sem þeir kysu helzt.
Í ljósi þess, að ferðamennskan er sóðalegasti atvinnurekstur landsins m.t.t. umhverfisins, þá er það næsta hlálegt, að forsprakkar náttúruverndarsamtaka taka tillögum Landsnets um nýjar línulagnir í landinu mjög illa, þó að Landsnet hafi kynnt áform um mótvægisaðgerðir til að draga úr sýnileika línanna. Um þetta segir í frétt baksviðs í Morgunblaðinu 30. júlí 2015:
"Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur liggur óafgreidd stefna Landverndar gegn Landsneti, þar sem krafizt er ógildingar á síðustu kerfisáætlun, sem lögð var fram árið 2014 og gildir til 2023. Stefnan var lögð fram í byrjun þessa árs, en að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar, verður málið tekið fyrir í Héraðsdómi í haust.
Landvernd telur, að Landsnet hafi brotið lög með með því að taka ekki afstöðu til nema brots af innsendum athugasemdum við gerð áætlunarinnar og umhverfismats hennar, líkt og lög kveði á um. Þá telur Landvernd, að áætlunin hafi ekki verið í samræmi við raforkulög. Landsnet setji fram sína eigin raforkuspá, sem ekki sé heimild fyrir, og fyrirtækið gefi sér þær forsendur í sinni spá, að nær allur orkunýtingarflokkur Rammaáætlunar komi til framkvæmda á næstu árum."
Það verður fróðlegt að sjá, hvernig þessi málarekstur fer. Hafi Landvernd eitthvað til síns máls, væri það áfellisdómur yfir faglegum málatilbúnaði Landsnets. Að óreyndu verður að telja líklegra, að hér sé á ferðinni enn einn tafaleikurinn að hálfu Landverndar, en tafir á nauðsynlegum styrkingum flutningskerfis raforku, hvort sem er á milli landshluta eða innan þeirra, t.d. Vestfjarða, hlaupa nú á kostnaði, sem skipta tugum milljarða kr, og nema margfalt hærri upphæðum á hverju ári en hugsanlegt tap mengandi og ofvaxinnar ferðaþjónustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2015 | 13:39
Rammi á villigötum
Orkumál Íslands eru á ótrúlegum villigötum miðað við þau gríðarlegu verðmæti, sem virkjanirnar geta malað úr orkulindunum ár eftir ár, ef rétt er haldið á spöðunum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009-2013, bætti ekki úr skák, þegar hún gróf undan hugmyndafræðinni að baki Rammaáætlun, sem var að fela valinkunnum sérfræðingum uppröðun virkjanakosta eftir hagkvæmni og umhverfisröskun. Ramminn átti þannig til kominn að verða stjórntæki fyrir Orkustofnun, sveitarfélög og ríkisvald við útgáfu virkjanaleyfa og framkvæmdaleyfa til virkjanafyrirtækjanna.
Dæmdur umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, umturnaði Rammanum, sem hún hafði fengið í hendur frá sérfræðingunum, í félagi við iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, færði borðleggjandi vatnsaflsvirkjanir í biðflokk og setti vafasamar jarðgufuvirkjanir í nýtingarflokk. Þetta var auðvitað gert á ómálefnalegum forsendum einvörðungu til að fækka raunhæfum virkjanakostum og draga þá á langinn. Þessi pólitíski gjörningur dæmds umhverfisráðherra hefur nú haft þær afleiðingar, að orkuskortur blasir við í landi orkugnóttar, jafnvel staðbundinn þegar næsta vetur. Hluti af skýringunni er, að stærstu jarðgufuvirkjanirnar eru ósjálfbærar og dregur niður í þeim um 2 % árlega. Hver jarðvarmasérfræðingurinn eftir annan kemur nú fram opinberlega og fullyrðir, að óvarlega hafi verið farið fram við nýtingu, t.d. á Hengilssvæðinu, allt of mikil áhætta tekin með of stórum virkjunaráföngum. Slík áhætta er óverjandi og ber vitni um dómgreindarbrest og flumbruhátt. Er þáttur R-listans sáluga og vinstri meirihlutans í Reykjavík talsverður í þessari sorgarsögu, sem á eftir að reynast eigendum ON dýrkeyptur.
Enn alvarlegra en biðflokkavitleysa Svandísar með vatnsaflsvirkjanirnar er, að jarðgufukostum hennar er svo þétt skipað, að jarðvísindamenn telja víst, að um ofnýtingu jarðgufuforðans yrði að ræða, ef úr yrði. Þrátt fyrir viðvaranir vísindamanna, láta stjórnmálamenn og virkjanafyrirtækin sér ekki segjast. Er það dæmalaust miðað við, hversu mikið er í húfi. Þetta er grafalvarlegt fyrir framtíðarkynslóðir Íslendinga, því að með þessu ráðslagi lagði Svandís grunn að því að svipta þær jarðvarmanum til upphitunar húsnæðis, sem er verðmætari nýtingarkostur en að framleiða rafmagn með jarðgufu samkvæmt varmafræðilögmáli Carnots. Ofnýting jarðgufuforðans núna er arðrán kynslóðar Svandísar á auðlindum, sem falla áttu framtíðinni í skaut. Hver japlaði mest á, að náttúran ætti að njóta vafans ?
Um þetta ritar Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Orkustofnunar, merka grein í Fréttablaðið 13. ágúst 2015 undir fyrirsögninni:
"Rammaáætlun út af sporinu",
og verður nú vitnað í þessa grein:
"Rammaáætlun um jarðvarma fór út af sporinu, þegar hún skipti litlum landsvæðum, eins og Reykjanesi/Svartsengi annars vegar og Hengli hins vegar, upp í marga virkjunarkosti, en hvort þeirra er í eðli sínu aðeins einn virkjunarkostur. Þegar kemur að stórfelldri nýtingu jarðvarma, eins og raforkuvinnsla óhjákvæmilega er, með borholum, sem geta teygt sig allt að 3 km niður í jörðina og mörg hundruð eða þúsundir metra til hliðar frá borsvæðunum, þarf hver virkjun helgunarsvæði, sem nær 10 km út frá virkjuninni og sambærilega virkjun mætti ekki setja nær en í 20 km fjarlægð."
Virkjanafyrirtækin HS Orka og Orka Náttúrunnar (ON) eru greinilega ekki sama sinnis og eðlisfræðingurinn um helgunarsvæði virkjana, og Svandís Svavarsdóttir hjó í sama knérunn og virkjanafyrirtækin, þó að í svo viðurhlutamiklu máli og með færa vísindamenn sem bakhjarla sé vissulega þáttur sjálfbærrar nýtingarstefnu að láta náttúruna njóta vafans. Þegar skynsamlegt var að gera það, gerði téð Svandís það ekki, en þegar rökin fyrir því voru gizka tötraleg, þá gerði hún það. Þetta er hættan við gildishlaðna mælikvarða stjórnmálanna í stað mælanlegra mælikvarða vísindanna.
Af þessum ástæðum telur Gunnlaugur glórulaust að virkja Eldvörp á milli Reykjaness og Svartsengis, enda sé þetta virkjunarsvæði nú þegar ofnýtt, eins og niðurdráttur í borholum ber með sér.
Hann telur Hengilssvæðið með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun einnig nú þegar vera ofnýtt og á Reykjanesi aðeins vera eitt jarðhitasvæði óvirkjað, þ.e. Krýsuvík með eina 50 - 100 MW virkjun. Það er þess vegna ljóst, að HS Orka er í rauninni ekki í neinum færum til að virkja fyrir álver í Helguvík, og því fyrr, sem sú staðreynd er viðurkennd, þeim mun betra. Fyrir álver ganga í raun aðeins vatnsorkuver, eins og slæm reynsla af allt of hraðri og mikilli nýtingu á Hellisheiði sýnir. Vatnsorkuver og álver falla mjög vel hvort að öðru vegna eðlis álagsins, og vinnslukostnaður vatnsorkuvera verður í lágmarki með álver sem aðalviðskiptavin. Umræðan sýnir, að ekki hafa allir áttað sig á þessari staðreynd, heldur tala og skrifa, eins og vinnslukostnaður sé einn og sami fyrir alla viðskiptavini. Eðlisfræðingurinn heldur áfram:
"Það er góð orkustefna að framleiða rafmagn með jarðhita sem aukaafurð með lághitanýtingu í hitaveitum, en það er orkusóun að láta raforkuframleiðsluna hafa forgang og stýra álaginu á jarðhitasvæðin. Þetta á einkum við á svæðum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, þar sem orkuþörf til hitunar vex um tugi MW árlega á sama tíma og gengið er á jarðhitann með því að senda árlega meiri varmaorku út í loftið um kæliturna en sem nemur framleiddri raf- og varmaorku og menga andrúmsloftið óhóflega í leiðinni."
Undir þetta allt saman skal hér taka. Það er þyngra en tárum taki, að misheppnuð stjórnvöld landsins skyldu hvetja til þeirra skammtímalausna, sem fleiri en ein virkjun á hverju jarðgufusvæði felur í sér. Núverandi stjórnvöld þyrftu að leggja sitt lóð á vogarskálar langtíma sjónarmiða við orkunýtingu, t.d. með þingsályktun um sjálfbæra nýtingu og hámörkun nýtni, og hér þarf Orkustofnun að beita sér og núverandi stýrihópur Rammaáætlunar að taka tillit til reglunnar um aðeins eina jarðgufuvirkjun innan hrings með 20 km þvermáli. Hámarks sjálfbæra stærð slíkrar virkjunar, svo að jarðgufuforðinn endist í a.m.k. 100 ár, er aðeins hægt að ákvarða með hægfara álagsaukningu, 10-50 MW á ári, eftir styrk jarðgufuforðans. Þetta eru einföld sannindi, sem fjármálamönnum dugar ekki að hunza, þó að aðferðarfræðin sé dýrari en virkjun í einum áfanga, sé viðskiptavinur fyrir hendi til að taka strax við allri orkunni. Þetta gerir að verkum, að jarðgufuvirkjun hentar stóriðju að jafnaði illa.
Hverfa verður af braut sóunar, sem felst í að láta jarðgufu knýja hverfla, sem snúa rafölum með rúmlega 10 % heildarnýtni og brottkasti lághitagufu og varma. Þetta þýðir, að Alþingi ætti að móta landinu þá auðlindanýtingarstefnu, að með raforkuvinnslunni verði að fylgja lághitanýting til upphitunar húsnæðis eða iðnaðarferla, því að ósjálfbær auðlindanýting komi ekki til greina á tímum auðlegðar núlifandi kynslóða. Af sjálfu leiðir, að áherzla á vatnsorkuvirkjanir verður að vaxa aftur, hugsanlega í samkeyrslu við vindorkugarða, sem minnkað geta stærðarþörf miðlunarlóna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2015 | 18:50
Utanríkismál á krossgötum
Það hefur hvað eftir annað undanfarinn áratug komið í ljós, að Ísland verður að reka sjálfstæða utanríkisstefnu til að vernda hagsmuni sína, og getur engan veginn reitt sig á stuðning hinna vestrænu bandamanna sinna, þegar hagsmunir rekast á, og hagsmunir nágranna rekast fremur á en annarra.
Alþingi öðlaðist forræði utanríkismála landsins með Lýðveldisstofnuninni 17. júní 1944, og alloft á lýðveldistímanum hefur þetta komið í ljós og einna skýrast við útfærslur landhelginnar. Þá mættum við jafnan harðri andstöðu öflugra Evrópuþjóða, en vinsemd og stuðningi Bandaríkjanna (BNA) og Ráðstjórnarríkjanna. Ekki þarf að orðlengja hörmulega framkomu Breta og stuðningsleysi Norðurlandanna, nema Færeyinga, þegar himinninn hrundi yfir Ísland í októberbyrjun 2008. Samstaða með Íslandi á meðal hefðbundinna bandamanna er af mjög skornum skammti, nema komi til hernaðaraðgerða gegn Íslandi, þá treystum við því, að 5. grein stofnsamnings NATO verði virkjuð.
Stofnaðild að NATO 1949 olli heiftúðugum deilum hérlendis ásamt sérstökum varnarsamningi við BNA, en hefur reynzt landinu farsællega. Engu að síður tóku bandarísk hermálayfirvöld einhliða ákvörðun um að leggja niður herstöðina á Miðnesheiði 2006. Varnarlega skákum við hins vegar í skjóli 5. greinar stofnsamþykktar NATO um, að árás á einn jafngildi árás á öll aðildarlöndin. Í sambandi við ögrandi atferli Rússa í Evrópu undanfarið, sem að töluverðu leyti er líklega ætlað til "heimabrúks" þar í landi, þó að einhliða breytingu á landamærum sé ekki hægt að samþykkja, hafa hins vegar vaknað efasemdir um, að þetta ákvæði haldi. Hafa verið gerðar skoðanakannanir í sumum NATO-landanna, og í sumum þeirra er meirihluti svarenda andvígur því að koma t.d. Eystrasaltslöndunum til hjálpar, ef Rússar gera þar innrás. Má þar nefna Þjóðverja og Frakka, en Engilsaxarnir vilja flestir standa við þetta grundvallar ákvæði, enda stendur NATO og fellur með því. Við sjáum þó af öllu þessu, að allt er í heiminum hverfult.
Meirihluti Íslendinga styður líklega enn aðild að NATO, og svo er um þennan arma blekbera. Þetta þýðir það, að taki Vesturveldin ákvörðun um það að fara í viðskiptastríð við Rússa til að veikja efnahag þeirra og hernaðarmátt, t.d. með allsherjar banni við útflutningi á vörum og þjónustu til Rússlands og/eða banni við innflutningi þaðan, þá verða Íslendingar að taka þátt í því undanbragðalaust og bera sínar byrðar, sem af slíku leiðir.
Núverandi viðskiptahömlur Vesturveldanna á Rússa eru hins vegar mjög valvísar og snerta íslenzkan útflutning ekki neitt. Það var þess vegna alger óþarfi af íslenzkum yfirvöldum að vera með á lista um þjóðir, sem setja viðskiptahömlur á Rússa. Með öðrum orðum hefði fjarvera Íslendinga af lista þessara þátttökuþjóða engu breytt, og við þurfum hið snarasta að hverfa af honum. Við hefðum á sinni tíð, og getum enn, getað gefið út yfirlýsingu um, að íslenzk yfirvöld mundu sjá til þess, að téðar bannvörur og -þjónusta færu ekki um Ísland, enda séum við andvíg breytingum á landamærum í Evrópu með hervaldi, eins og óyggjandi átti sér stað á Krím og í Austur-Evrópu að hálfu Rússa.
Nú hafa Rússar ákveðið að refsa bannþjóðunum með því að banna innflutning matvæla frá þeim. Þetta bann kemur harðast niður á Íslendingum með tapi á gjaldeyristekjum, sem gæti numið 1 % - 2 % af VLF, þegar upp verður staðið. Komið hefur fram, að yfirvöld í ESB-ríkjunum eða ESB-sjálft, og e.t.v. Bandaríkjastjórn, muni bæta útflutningsaðilum hluta tjónsins. Á sama tíma halda þessi ríki úti viðskiptahamlandi gjaldtöku á Ísland fyrir þessar sömu vörur og hafa ekki viljað koma til móts við sjónarmið Íslendinga um skiptingu deilistofna.
Staðan er sú, að Íslendingar og Rússar hafa þróað markað í Rússlandi fyrir vöru, sem Vestur-Evrópa kærir sig lítt um. Þar að auki eru þessi sömu Vestur-Evrópulönd andvíg veiðum okkar á þeim flokkustofnum, sem hér um ræðir, en miklir hagsmunir eru í húfi, eins og áður segir. Rússar hafa sem sagt hlaupið undir bagga með Íslendingum, þegar þeir áttu ekki í önnur hús að venda vegna andstöðu og beinna markaðslegra kúgunaraðgerða Vestur-Evrópu. Við þessar aðstæður hvílir hvorki á okkur siðferðis- né viðskiptaleg skylda til að sýna málamynda samstöðu með þvingunaraðgerðum Vesturveldanna gagnvart Rússum. Miklu fremur ber okkur að sýna Rússum vinarþel, og ekki að storka þeim að óþörfu, þó að enginn vafi sé á, hver afstaða okkar verður, ef í harðbakka slær.
Hitt er annað mál, að lágt olíu- og gasverð hefur veikt mjög efnahag Rússlands með slæmum afleiðingum fyrir kaupmátt almennings, hárri verðbólgu, háum vöxtum og gengisfalli rúblunnar. E.t.v. er bann Rússa nú við matvælainnflutningi liður í gjaldeyrissparandi átaki og til að þvinga fram aukna matvælaframleiðslu í Rússlandi.
Íslenzka utanríkisþjónustan þarf að komast að því, hvort hægt verði að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið í viðskiptum Íslands og Rússlands, ef Ísland lætur af beinum stuðningi við þessar viðskiptaþvinganir. Ráðuneytið hreyfir hins vegar hvorki legg né lið, af því að ráðherrann hefur lýst því yfir, að ekki komi til mála að hverfa frá þessum stuðningi.
Ráðherrann er frosinn í kaldastríðsafstöðu, sem er Íslandi mjög óhagstæð, hvernig sem á málið er litið, og það sem verra er, hún er öðrum fullkomlega gagnslaus. Af þessum ástæðum verður að koma til kasta Alþingis. Þingið eitt getur komið hreyfingu á þetta mál til hins betra með fyrirskipun til ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum vantrauststillögu á ráðherrann. Vill Framsóknarflokkurinn fara í kosningar nú út af þessu máli, eða fórnar hann biskupi fyrir vænlegt endatafl ? Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með afstöðu þingmanna til þessa máls. Hér er alvöru mál á ferðinni, sem reynir á þá, og þeir taka vonandi afstöðu á grundvelli, sem Stjórnarskráin mælir fyrir um.
Á bak við tjöldin þarf að gera yfirvöldum í Brussel, Berlín, London og Washington ljóst, að um sé að ræða nauðvörn að okkar hálfu, og hyggi Vesturveldin á einhvers konar refsingar, muni það óhjákvæmilega hrekja okkur til að huga að endurskoðun á viðskiptatengslum í austur og vestur. Þetta er það, sem kallast sjálfstæð utanríkisstefna. Engir taglhnýtingar viljum vér vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2015 | 20:15
Á milli steins og sleggju
Nú hefur Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, úrskurðað, að matvælainnflutningur til Rússlands frá Íslandi skuli sæta grafalvarlegum takmörkunum, eins og Norðmenn máttu sæta áður. Gæti þessi ákvörðun rýrt útflutningstekjur Íslands um allt að ISK 40 milljörðum í ár eða um 7 % vöruútflutningstekna eða 4 % af heildargjaldeyristekjum. Þetta eru 2 % af landsframleiðslunni, sem er tilfinnanlegt og meira en fimmfalt hlutfallslegt viðskiptatap nokkurs lands, sem þátt tekur í viðskiptabanni Vesturveldanna vegna innlimunar Krímskagans og stuðnings Rússa við aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu. Við svo búið má ekki standa, því að þátttaka Íslands í þessu "viðskiptabanni" er reist á hæpnum forsendum.
Hér er um tap á þjóðhagslegan mælikvarða að ræða, og þúsundir starfa eru í uppnámi fyrir vikið. Þetta er sem sagt fjárhagslegt högg af verri gerðinni. Þess vegna er deginum ljósara, að nú dugar íslenzkri utanríkisþjónustu ekki að sitja með hendur í skauti, heldur verður hún að grípa til þeirra diplómatísku ráða, sem hún kann að búa yfir.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði miðvikudagsgrein í Morgunblaðið 12. ágúst 2015 um þetta efni, og er niðurstaða hans sú, að stórveldin innan NATO/ESB hafi mótað viðskiptaþvinganir gegn Rússum með eigin hagsmuni í fyrirrúmi, en byrðarnar leggist hlutfallslega miklu þyngra á minni ríkin. Þetta á við um Ísland, líklega í meiri mæli en nokkurt annað land, og bannvörurnar eru ekki á útflutningsmatseðli Íslands. Hvers vegna erum við þá með ?
Nú er málum þannig háttað, að talsverður tollur, 15 -20 %, mun vera á flestar þær afurðir frá Íslandi, sem hér um ræðir, til Vesturveldanna. Það er sanngirniskrafa við þessar aðstæður að hálfu Íslands gagnvart viðkomandi ríkjum, að þau greiði fyrir kaupum á þeim vörum Íslendinga, sem hér um ræðir, t.d. með einhliða niðurfellingu á tollum af íslenzkum sjávarafurðum strax.
Vilji þessi ríki ekki sýna Íslendingum neina samstöðu í þessu baráttumáli, er komið að Íslendingum að íhuga stöðu sína í þessu máli. Auðvitað erum við hér á milli steins og sleggju, því að yfirlýsingu Íslands um að draga sig út úr bandalagi vestrænna ríkja um efnahagsþvinganir á hendur Rússum yrði varla tekið með þegjandi þögninni. Það er hér, sem reynir á hæfni utanríkisþjónustu Íslands við að afla skilnings á málstað Íslands.
Hér verður ríkisstjórn Íslands að vinna mikið verk á stuttum tíma, aðallega í þremur höfuðborgum, þ.e. Moskvu, Washington og Berlín. Á sama tíma mun sjávarútvegurinn kappkosta að finna nýja kaupendur, en komið hefur fram, að þar er á brattann að sækja. Tilkynning Rússa um innflutningsbann á Íslendinga virðist því miður hafa komið sem "julen paa kerringa", eins og Norðmenn taka til orða, þ.e. komið flatt upp á utanríkisþjónustu Íslands í þessu tilviki, og það hefur ekkert ríki efni á að halda uppi utanríkisráðuneyti, sem stingur hausnum í sandinn, þegar vanda ber að garði. Þar á bæ verður að gera róttækar breytingar til að færa vinnubrögðin til betri vegar.
Forystugrein Morgunblaðsins 14. ágúst 2015,
"Illa staðið að málum",
hefst með eftirfarandi orðum:
"Nú hefur verið upplýst, að ekki var nein forvinna unnin, þegar íslenzk stjórnvöld og utanríkismálanefnd Alþingis mótuðu afstöðu sína um að hlaupa til, eftir að fullmótuð og afgreidd tillaga ESB um viðskiptaþvinganir lá fyrir.
Íslendingar komu hvergi við sögu eða voru spurðir álits, þegar til þess leiks var gengið. Ekkert áhættumat var gert áður en ákveðið var, að Ísland skyldi hoppa um borð, þegar það bauðst."
Þetta er mjög hörð og réttmæt gagnrýni á þá, sem fara með utanríkismál Íslands. Þeir munu verða að sæta ábyrgð á vondum vinnubrögðum af hvaða rótum, sem þau kunna að vera runnin. Ráðuneytisstjórinn og/eða utanríkisráðherra verða að taka hatt sinn og staf um leið og Ísland tekur nýja stefnu í þessu máli, því að "status quo" þar kemur ekki til mála, þó að núverandi forysta utanríkisráðuneytisins virðist vera þeirrar skoðunar.
Í téðri forystugrein Morgunblaðsins er vitnað í Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:
"Það er engin þjóð í Evrópu, nú hvað þá Bandaríkin eða Kanada, sem hefur viðlíka hagsmuni af viðskiptum við Rússland, hvað varðar matvæli, og það eru jú bara matvæli, sem eru undir. Það eina, sem er lokað á, er innflutningur á þeim. Það þarf að hafa það í huga, að það eru enn þá full viðskipti í gangi á milli þessara landa allra saman. Það eru fluttir inn bílar frá Þýzkalandi, tízkufatnaður frá Ítalíu, og á móti kemur olía og gas frá Rússlandi til Þýzkalands og Evrópu allrar, en það eru matvæli eingöngu, sem þarna lenda undir, og það er nú bara svo, að Ísland er næststærsti innflytjandi á fiskafurðum til Rússlands af öllum löndum í heiminum og fyrir litla þjóð, eins og okkur, eru þetta náttúrulega gríðarlega stórir hagsmunir."
Í lok téðrar forystugreinar er tekið svo til orða:
"En ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að kanna, hvort hún eigi einhvern leik í stöðunni annan en þann að eiga málamyndasamtöl við rússneska utanríkisráðherrann úti undir vegg í tengslum við aðra fundi."
Þetta er hárrétt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, og í Reykjavíkurbréfi 14.08.2015 áréttar hann þessa skoðun sína og stöðumat með eftirminnilegum hætti. Reyndar er viðbragðsleysi, linka og loðmulla utanríkisráðherra, óafsakanleg, og fær hann falleinkunn fyrir frammistöðu sína í þessu máli hingað til hjá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, sem vöruðu hann við því, sem verða vildi, en hann kom alltaf af fjöllum. Ef utanríkisþjónustan öll hefur ekki fengið kvaðningu nú þegar og fyrirmæli um, hvernig hún á að beita sér í þessu máli fyrir Íslands hönd gagnvart ESB, BNA og Rússlandi, þá veit hún greinilega ekki sitt rjúkandi ráð og er verri en engin.
Það, sem hún ætti að gera núna, væri einhver veigur í henni, er eftirfarandi:
- Sendiherrann í Moskvu fái áheyrn hjá ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins í Moskvu með skilaboð þess efnis, að íslenzka ríkisstjórnin óski eftir frestun á gildistöku viðskiptabannsins um tvo mánuði á meðan hún vinni að því að liðka fyrir sölu afurðanna í ESB/BNA, en mistakist það, sé hún tilbúin til að falla frá stuðningi við viðskiptabannið gegn því, að Rússar heimili óbreytt viðskipti við Ísland.
- Í Brussel og Washington þarf að tilkynna þeim, sem með utanríkismálin fara þar, að Ísland sætti sig ekki við þær ofurþungu byrðar, sem viðskiptaþvinganir Vesturveldanna á Rússa leiði yfir landið, enda séu þær margfaldar að tiltölu á við byrðar nokkurs annars lands. Niðurfelling allra tolla og innflutningsgjalda strax af þessum matvælum í ESB/BNA sé krafa Íslendinga, og að liðkað verði fyrir viðskiptum á þessum svæðum, eins og yfirvöld geti. Ísland sætti sig ekki við að bera margfaldar byrðar og muni þess vegna íhuga að falla frá stuðningi við viðskiptabannið, nema breyting verði á viðskiptakjörum Íslendinga á þessum viðskiptasvæðum til batnaðar.
- Utanríkisráðherra ætti sjálfur að leggjast í ferðalög til Berlínar, Parísar, Lundúna og Washington til að afla skilnings á málstað Íslendinga.
Það er ekki hlæjandi að þessu máli, en þó kitlar óneitanlega hláturtaugarnar sú hugmynd fulltrúa smábátaeigenda, að vinur Pútíns, dr Ólafur Ragnar Grímsson, beiti áhrifamætti sínum gagnvart forseta Rússlands í þessu máli. Það yrði líklega álíka áhrifamikið og að vitna til ömmu Sergey Lavrovs, utanríkisráðherra, um sögulegt vinfengi Rússlands og Íslands á viðskiptasviðinu, þegar báðar þjóðirnar áttu undir högg að sækja. Hér þarf að tefla bæði hratt, hart og djarft, svo að snúa megi tapaðri stöðu Íslandi í vil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.8.2015 | 17:08
Brauðmolaþvættingurinn
Það er alveg makalaust, að enn skuli á árinu 2015 eima af kenningum um óhjákvæmileg stéttaátök og sögulega þróun í átt til Þúsund ára ríkis sameignarstefnunnar.
Nýjasta dæmið um hrakfallasögu sameignarstefnunnar er Venezúela. Þar notaði vinstri sósíalistinn Hugo Chavez tekjurnar af þjóðnýttum olíuiðnaði til að greiða niður verð á nauðþurftum almennings. Þetta inngrip í markaðshagkerfið endaði með ósköpum, svo að nú er sami almenningur á vonarvöl.
Ekki einasta er nú þessi þjóðnýtti olíuiðnaður fallinn að fótum fram, heldur gjörvallt hagkerfi Venezúela. Chavez hafði tekið markaðsöflin úr sambandi með þeim afleiðingum, að skortur myndaðist á flestum vörum og þjónustu, og svarti markaðurinn einn blómstrar með gengi á bólívar í mesta lagi 1 % af skráðu opinberu gengi bandaríkjadals. Greiðsluþrot ríkisins blasir við eigi síðar en árið 2016 og félagsleg og fjárhagsleg upplausn við endastöð jafnaðarstefnunnar í þessu landi, sem svo ríkt er af náttúrulegum auðlindum. Tær jafnaðarstefna hefur hvarvetna leitt til eymdar og volæðis, þar sem hún hefur verið iðkuð, og hægagangs útblásins opinbers rekstrar með ofsköttun og skuldasöfnun, þar sem gruggugri útgáfur hennar hafa verið reyndar.
Að fela stjórnmálamönnum öll ráð yfir samfélagi þýðir í raun að taka markaðsöflin úr sambandi. Hinar öfgarnar; að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala kann heldur ekki góðri lukku að stýra, því að slíkt getur auðveldlega leitt til fákeppni og jafnvel einokunar í litlum samfélögum. Bezt er að virkja atorku markaðsaflanna til að skapa "hagsæld handa öllum" í anda "Markaðshagkerfis með félagslegu ívafi", þar sem eindrægni ríkir á vinnumarkaðinum í andstöðu við stéttastríðshugmyndafræði jafnaðarmanna af ýmsum toga.
Í nýlegri skýrsla AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um orsakir og afleiðingar fjárhagslegs ójafnaðar er komizt að þeirri niðurstöðu, að mikill tekjumunur í samfélagi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt og að árangursríkara sé, til að efla hagvöxt, að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og millitekjuhópa en hinna tekjuhæstu.
Þessi niðurstaða hefur fólki á vinstri væng stjórnmálanna þótt afsanna svo kallaða "brauðmolakenningu" eða "trickle-down economics", sem það heldur fram, að snúist um að mylja undir hina tekjuhæstu og auðugustu, því að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið allt. Af málflutningi þeirra að dæma mætti ætla, að hópur hægri sinnaðra hagfræðinga gerði fátt annað en að hvetja stjórnmálamenn til að hlaða undir auðmenn á grundvelli "brauðmolakenningarinnar".
Hinn virti hagfræðingur, Thomas Sowell, sem kenndi áður við Cornell og UCLA-háskólana, en starfar nú einkum fyrir Hoover-stofnunina við Stanford, hefur skrifað um þessa meintu kenningu og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé hugarburður vinstri sinnaðra andstæðinga einstaklingshyggju og aukins frelsis efnahagslífsins.
Thomas Sowell hefur ekki fundið neinn hagfræðing, sem á eitthvað undir sér og mælir fyrir "brauðmolakenningunni". Hana er ekki að finna í neinum af mest lesnu almennu kennslubókunum í hagfræði, og fyrir nokkrum árum bað hann fólk um að benda sér á slíkan "brauðmolahagfræðing". Engin ábending kom. Þetta er dæmigert fyrir sýndarveruleikann, sem vinstri sinnað fólk lifir í. Það spinnur upp kenningar og málar svo skrattann á vegginn. Veruleikafirring kallast það, og fólk með þetta heilkenni sat að völdum í Stjórnarráðinu 2009-2013 og stýrði þjóðarskútunni eftir áttavita með vinstri skekkju, sem leiddi að sjálfsögðu til ófara. Afstaða pírata til "brauðmolakenningarinnar", er ekki þekkt, þó að í sýndarveruleika sé, enda er afstaða þeirra meira að segja á reiki til "deilihagkerfisins".
Ein af vinstri skekkjunum er sú, að skattakerfið eigi miskunnarlaust að nota til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og það verði gert með skattahækkunum. Þetta er bæði hagfræðilega og siðferðilega röng aðferðafræði við að auka jöfnuð. Ef gengið er of langt í að mismuna fólki eftir efnahag með skattheimtu, þá hverfur hvatinn til að leggja hart að sér, standa sig vel og auka tekjur sínar. Þjóðarkakan vex þá hægar eða minnkar, og allir tapa á slíku. Bezta ráðið til að auka jöfnuðinn er að hámarka verðmætasköpunina og tryggja með kjarasamningum sanngjarna skiptingu auðsins á milli fjármagnseigenda og launamanna.
Sjómenn fá um 35 % aflahlut, og aðrir launamenn um 65 % af verðmætasköpun fyrirtækjanna á Íslandi. Það er á meðal hin hæsta, sem þekkist. Arður af eigin fé fyrirtækjanna á bilinu 5 % - 15 % þykir eðlilegur m.v. aðra ávöxtun og áhættu, sem féð er lagt í.
Þegar borgaraleg öfl viðra og framkvæma skattalækkanir, sama hvaða nafni nefnast, hefst jafnan spangól vinstrisins með tilvísunum í "brauðmolakenninguna" um , að nú eigi að framkvæma "skattalækkanir fyrir hina ríku". Þetta er rökleysa, því að í mörgum tilvikum lækka skattar hlutfallslega meira á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu.
Fyrrnefndur Sowell segir, að vissulega hvetji margir hagfræðingar með rökstuddum hætti til lækkunar skatta á fyrirtæki og fólk. Þeir sýna fræðilega fram á, og reynslan staðfestir fræðin, að lækkun skattheimtu hækkar skatttekjur hins opinbera, því að lækkun örvar skattþolann til að stækka skattstofninn. Stefna núverandi stjórnvalda um afnám vörugjalda af flestum vörum og lækkun virðisaukaskatts hefur leitt til vaxandi viðskipta og aukinna skatttekna hérlendis.
Vinstra megin við miðju (miðjan er fljótandi) hafa menn á borð við John Maynard Keynes, Woodrow Wilson og John F. Kennedy viðurkennt þessa staðreynd. Til tekjuöflunar fyrir hið opinbera eru skattalækkanir öflugt tæki, en þá kemur sem sagt "brauðmolakenning" vinstri manna til skjalanna. Þeir gleyma því þá, að hið opinbera verður í betri færum til að fjármagna sjálft (án lántöku) útgjöld sín til stuðnings hinum lakar settu til kjarajöfnunar.
Það, sem gerist alls staðar, þar sem þungar skattbyrðar, eins og á Íslandi, eru gerðar léttbærari, er, að framleiðsla vex, atvinnuleysi minnkar, ráðstöfunartekjur launafólks hækka (launagreiðslugeta fyrirtækja vex og útgjöld almennings lækka). Hinir tekjuhæstu greiða ekki aðeins hærri skatta í krónum talið, heldur eykst jafnframt hlutur þeirra af heildarskattgreiðslum. Lýðskrum vinstra liðsins um "skattalækkanir fyrir hina ríku" er innistæðulaust fjas fólks, sem smitað er af hinni óhugnanlegu kenningu um, að tekjur og eignir einstaklinga séu í raun eign ríkisins og að lækkun skattheimtu sé þess vegna "eftirgjöf á réttmætum ríkistekjum".
Enn reyna vinstri menn að viðhalda áróðri sínum um ójöfnuð á Íslandi. Um þann skollaleik skrifar Óðinn í Viðskiptablaðið 25. júní 2015:
"Kaldhæðnin verður því vart meiri, þegar stjórnarandstæðingar kvarta nú sem aldrei fyrr undan efnahagslegum ójöfnuði, þegar jöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri. Kannski er ójöfnuðurinn að fara að taka við af brauðmolakenningunni sem uppáhaldsstrámaður vinstrimanna ?
Sérkennilegast er að heyra þessa kenningasmíð frá manni [Gunnari Smára Egilssyni - innsk. BJo], sem auðgaðist einna mest, hlutfallslega, á þeirri efnahagsbólu (svo að notað sé orð hans og hans líkra), sem myndaðist á árunum fyrir fall bankanna. Og hvaðan kom auðurinn. Jú, hann var tekinn að láni í viðskiptabönkunum, sem féllu."
Önnur illvíg árátta vinstra liðsins er að hallmæla atvinnuvegunum og atvinnuveitendum, einkum útgerðinni. Orkukræfum iðnaði er hallmælt með rakalausum fullyrðingum um óarðbæra raforkusölu til hans. Hver étur þessa fullyrðingu upp eftir öðrum, en enginn hefur tekið sér fyrir hendur að sýna fram á þetta, enda er það ekki hægt. Almenningur nýtur góðs af hagkvæmni orkusölusamninga við málmiðnaðinn með nánast lægsta raforkuverði á byggðu bóli. Sjá menn ekki þversögnina í aróðrinum um óhagkvæma orkusölu til stóriðju og samtímis hagkvæmni raforkuviðskipta almennings ? Ef flugufótur væri fyrir þessum áróðri, sem reyndar kemur úr ýmsum áttum, væri Landsvirkjun væntanlega á vonarveli. Svo er hins vegar alls ekki, og gæti markaðsvirði hennar numið um ISK 500 milljörðum um þessar mundir.
Það hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar að hnýta í landbúnaðinn. Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna bændur, því að bændastéttin hefur náð gríðarlegum árangri í sínum rekstri, aukið framleiðnina meira en flestir aðrir, aukið fjölbreytni framleiðslunnar og síðast en ekki sízt aukið gæðin mikið.
Þeir vinna við erfið skilyrði norðlægrar legu og eyjaloftslags, en hreinleikinn og heilnæmnin er þess vegna meiri en þessi blekbóndi þekkir annars staðar. Draga þarf úr ríkisstyrkjum við bændur, og að sama skapi eiga þeir að hækka afurðaverð sitt með það að markmiði að verða markaðsdrifinn atvinnurekstur með aðgang að útflutningsmörkuðum á grundvelli gagnkvæmra tollaívilnana og mikilla vörugæða.
Kaupmenn verða að kappkosta að upplýsa neytendur um uppruna landbúnaðarvaranna, einkum kjötsins í afgreiðsluborðunum. Það á ekki að vera leyfilegt að flytja inn matvæli í samkeppni við íslenzk matvæli, nema þau standist gæðasamanburð við þau íslenzku. Þar eru ýmsar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar, s.s. sýklalyf, steragjöf, hormónagjöf, skordýraeitur og áburður.
"Það er útbreiddur misskilningur, að hægt sé að umgangast sjávarútveg á annan hátt en en aðrar atvinnugreinar."
Þetta sagði í forystugrein Morgunblaðsins þann 20. júní 2015 og er hverju orði sannara. Öfugmæli um útveginn hafa valdið miklum úlfaþyt í samfélaginu, sem mál er að linni. Það er vinstri vella og rætinn áróður fólks með meint óréttlæti gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, kvótakerfisins, á heilanum, og mætti kannski nefna "sóknarheilkennið", að íslenzki sjávarútvegurinn hlunnfari íslenzka alþýðu með því að greiða minna en sanngjarnt er fyrir leyfi til veiðanna.
Hér er um tilfinningahlaðinn þvætting að ræða. Sanngirnisviðmið í þessum efnum er, að útgerðirnar greiði í sameiginlegan, sjálfstæðan sjóð, sem standi straum af fjárfestingum og rekstri, eftir atvikum, stofnana á vegum ríkisins, sem annast þjónustu við sjávarútveginn, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Hafnarsjóðs. Árlegt framlag gæti verið 4,5 % verðs upp úr sjó, sem er um helmingur núverandi gjaldtöku.
Gjaldtakan 2015 er á bilinu 4,5 % - 23,0 % af verði upp úr sjó með miðgildið 9 % (jafnmargar tegundir neðan við og ofan við). Ljóst er, að þessi gjaldtaka er hóflaus í sumum tilvikum. Keyrði um þverbak í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 með þeim afleiðingum, að útgerðum fækkaði óvenju hratt. Arðsemi hinna jókst við fækkunina. Var það ætlun vinstri stjórnarinnar ? Hvað sagði í téðri forystugrein Morgunblaðsins um þennan óeðlilega og ósanngjarna málatilbúnað á hendur sjávarútveginum ?:
"Útreikningar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á skattaspori HB Granda sýna til að mynda, að tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna verðmætasköpunar fyrirtækisins námu 6,6 milljörðum króna árið 2013. Þriðjungur þessarar miklu skattbyrði er vegna veiðigjaldanna, og skattsporið er hærri upphæð en kom í hlut eigenda fyrirtækisins."
Það nær náttúrulega engri átt, að veiðigjöldin hækki skattgreiðslurnar um helming, 50 %, eins og í þessu tilviki, og að tekjur hins opinbera nemi hærri upphæð en tekjur eigendanna af þessari fjárfestingu sinni.
Þessari tímabæru forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"En til að útgerðir geti þrifizt og endurnýjað tækjabúnað á eðlilegan hátt, ekki sízt minni útgerðir, sem hafa farið verst út úr ofursköttunum, sem ættaðir eru frá fyrri ríkisstjórn, er nauðsynlegt, að þingmenn fari að sýna því aukinn skilning, að stöðugt rekstrarumhverfi og hófleg skattheimta eru forsenda velgengni til framtíðar. Meðferð makrílfrumvarpsins og umræður um það að undanförnu sýna því miður, að langt er í land í þessum efnum."
Við þetta er engu að bæta varðandi sjávarútveginn, en í lokin er rétt að benda á, að enn andar köldu til verksmiðjueigenda, sem hug hafa á að reisa verksmiðjur á Íslandi. Í þeim efnum er nýjasta dæmið ISK 120 milljarða fjárfesting Hudson Clean Energy Partners, bandarísks fjárfestingarsjóðs, sem starfar undir Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC). Sjóðurinn leggur áherzlu á "grænar" fjárfestingar, og norrænir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung þessa sjóðs. Engu að síður hafa skotið upp kollinum úrtölumenn úr ýmsum áttum, og yrði það miður, ef slíkir næðu að setja skít í tannhjólin.
Hér er um að ræða hreinkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Nú er hins vegar að koma fram á sjónarsviðið nýtt efni, methylammonium blýjoðíð, og kalla menn þetta efni og skyld efni perovskía. Þeir munu veita kíslinum samkeppni sem grunnefni í sólarhlöðurnar. Nýtni perovskía er um þessar mundir 20 %, og vísindamenn telja unnt innan tíðar að ná 25 % nýtni (fjórðungur sólarorkunnar, sem fellur á efnið, verður breytanlegur í raforku) og vinnslukostnaður verður að öllum líkindum lægri. Þetta gæti sett þróun kísiliðnaðar í heiminum, og þar með á Íslandi, í uppnám, svo að tryggilega þarf að búa um hnúta orkusamninganna, að orkuseljandi eigi forgangsrétt í þrotabú við hugsanlegt gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis vegna orkukaupaskuldbindinga fram í tímann, sem jafnan eru ákvæði um í slíkum samningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2015 | 18:48
Joschka Fischer og vondi Þjóðverjinn
Joschka Fischer, utanríkisráðherra endursameinaðs Þýzkalands og varakanzlari 1998-2005, hefur ritað grein í kjölfar kistulagningar sjálfstæðs Grikklands aðfararnótt 13. júlí 2015, og birti Morgunblaðið hana þann 28. júlí 2015. Fyrirsögn greinarinnar boðar að vonum váleg tíðindi:
"Vondi Þjóðverjinn snýr aftur".
Greinin hefst þannig:
"Það brast nokkuð mikilvægur þáttur Evrópusambandsins hina löngu aðfararnótt 13. júlí, þegar samið var um örlög Grikklands. Síðan þá hafa Evrópubúar lifað í öðruvísi Evrópusambandi.
Það, sem breyttist þessa nótt, var það Þýzkaland, sem Evrópubúar hafa þekkt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Á yfirborðinu snerust viðræðurnar um að koma í veg fyrir, að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið (hið svonefnda "Grexit") og þær grimmu afleiðingar, sem því myndu fylgja fyrir Grikki og hina sameiginlegu mynt. Undirniðri var hins vegar verið að ræða það, hvaða hlutverki fjölmennasta land og mesta efnahagsveldi álfunnar myndi gegna í Evrópu."
Ekki er efni til að bera brigður á næmni "græningjans" JF fyrir þróun stjórnmálanna í Evrópu og sérstaklega í heimalandi hans, Þýzkalandi. Við horfum nú á "pólariseringu" Evrópu. Annars vegar eru skuldunautar, og hins vegar eru lánadrottnar. Francois Hollande, Frakklandsforseti, hefur nýlega talað fyrir stofnun Evruríkis með myndun ríkisstjórnar og þings Evruríkisins. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, og fjármálaráðherra hans, hafa tekið í sama streng. Þetta eru fulltrúar stórskuldugra landa, sem ekki ná sér efnahagslega á strik með evruna sem gjaldmiðil. Hún er enn of sterk fyrir rómönsku ríkin.
Það, sem Joschka Fischer er að segja, er, að Þjóðverjar eru nú leynt og ljóst andvígir þessum samruna ("ever closer union"). Ástæðan er auðvitað sú, að við stofnun ríkis evrulandanna mundu lánadrottnaríkin þurfa að axla byrðar skuldunautanna, og til þess eru þau ekki tilbúin, enda hefur Angela Merkel, CDU, nýlega hafnað þessum samrunahugmyndum. CSU í Bæjaralandi og fjármálaráðherrann, Wofgang Schaeuble, CDU, hafa þar með orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar í Berlín. Sá meirihluti endurspeglar vilja meirihluta þýzku þjóðarinnar eftir öllum sólarmerkjum að dæma.
Angela Merkel fylgir þar almenningsálitinu í Þýzkalandi og stjórnmálastöðunni þar í landi. CDU, flokkur hennar, mundi hrynja, ef hún féllist á slíka stofnun ríkis. Komnir eru fram á sjónarsviðið í Þýzkalandi stjórnmálaflokkar, t.d. AfD og hreyingin Junge Freiheit, sem hirða mundu mikið fylgi af CDU, og reyndar líka af SPD (jafnaðarmönnum), ef horfið væri inn á braut ríkjasameiningar.
Hjá hinum almenna Þjóðverja ræður ekki endilega þjóðerniskennd þessari afstöðu, heldur réttmæt vissa um, að lífskjörum í Þýzkalandi mundi hraka mikið við slíka stofnsetningu rikis. Það eru töluverðar áhyggjur núna hjá almenningi í Þýzkalandi út af kostnaði við móttöku flóttamannaflóðs. Þjóðverjar vita sem er, að þeir standa núna á hátindi efnislegrar velmegunar og stjórnmálalegra áhrifa í álfunni, en Þýzkalandi mun óhjákvæmilega hraka, eins og reyndar flestum öðrum ríkjum í Evrópu, vegna hækkandi meðalaldurs og mikillar fækkunar á vinnumarkaði. Talið er, að Stóra-Bretland með sitt sterlingspund muni að aldarfjórðungi liðnum hafa farið fram úr Þýzkalandi, hvað mannfjölda og landsframleiðslu snertir. Hins vegar eru miklar blikur á lofti hjá Bretum líka, því að ríki þeirra kann senn að sundrast og þeir (flestir) að lenda utan Innri markaðar Evrópu. Af öllum þessum fjárhagslegu ástæðum er hinn almenni Þjóðverji fullur efasemda um sjálfbærni sameiningar evrusvæðisins í eitt ríki. Hann sér fram á, að unga kynslóðin muni ekki með góðu móti geta risið undir öllum þessum byrðum.
Joschka Fischer hélt greiningu sinni áfram:
"En í Þýzkalandi í dag eru slíkar hugmyndir [stjórnmálaleg sameining Evrópu] taldar vonlausar og "Evrópu-rómantískar"; tími þeirra er liðinn. Þar sem Evrópa er annars vegar, mun Þýzkaland upp frá þessu aðallega fylgja sínum eigin þjóðarhagsmunum, alveg eins og allir aðrir.
En slík hugsun byggist á falskri forsendu. Sú leið, sem Þýzkaland mun velja á 21. öld - til "evrópsks Þýzkalands" eða "þýzkrar Evrópu" - hefur verið mesta grundvallarspurningin í sögu landsins og utanríkisstefnu þess síðustu tvær aldirnar. Og henni var svarað á þessari löngu nótt í Brussel, og þýzk Evrópa hafði betur gagnvart evrópsku Þýzkalandi."
Joschka Fischer setur stöðu Þýzkalands hér í sögulegt ljós og "dramatíserar" nokkuð til að vekja athygli á þeim vatnaskilum, sem eru að verða í utanríkismálastefnu Þýzkalands. Þá vaknar spurningin um, hvernig þessi vatnaskil snerta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Þá er þar fyrst til að taka, að setji Þjóðverjar hagsmuni sína framar hagsmunum Evrópu, eins og JF boðar, þá mun evrusamstarfið splundrast. Þjóðirnar munu aftur hverfa til sinna gömlu mynta með einum eða öðrum hætti, hugsanlega með einhvers konar myntbandalögum, t.d. Norður-Evrópu annars vegar og Suður-Evrópu hins vegar. Sterlingspundssvæðið gæti orðið þriðja myntsvæðið.
Öxullinn Berlín-París mun brotna, en við taka tveir aðrir öxlar, Berlín-London og París-Róm. Ísland mun augljóslega lenda innan áhrifasvæðis þess fyrrnefnda.
Evran mun lækka enn meir en orðið er áður en hún splundrast, og þess vegna verður ekki eins hagkvæmt fyrir Ísland að selja vörur inn á evru-svæðið og verið hefur, t.d. ál og fisk. Kína er á sama tíma í hnignun, og stjórnvöld í Peking kunna bráðlega að standa frammi fyrir gífurlegum efnahagsvanda, mengunarvanda og uppþotum. Bandaríkin (BNA) standa við þessar aðstæður uppi með pálmann í höndunum, og vöruútflutningur mun af þessum sökum aukast frá Íslandi til BNA.
Upplausn í Evrópu og átök við Rússland munu á ný auka hernaðarlegt mikilvægi Íslands fyrir NATO. Við þessar aðstæður getum við ekki sýnt hálfvelgju gagnvart Rússum, nema sýna bandamönnum okkar fingurinn um leið. Það yrði örlagaríkt, og allar greiningar, sem yrðu að vera undanfari slíkrar ákvörðunar, vantar. Ferðum flugsveita, herskipa og kafbáta hingað mun þess vegna fjölga, þó að herstöð verði ekki endurnýjuð, nema hitni enn frekar í kolunum.
Við þessar aðstæður munu ESB-áhangendur á Íslandi missa fótanna, og stjórnmálaflokkar þeirra, Samfylking og Björt framtíð, gufa smám saman upp. Sú uppgufun er þegar hafin, eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Í tvísýnu ástandi, eins og hér hefur verið lýst, er stjórnleysingjum og andstæðingum höfundarréttar, sem nú kalla sig sjóræningja eða "pírata", ekki treystandi fyrir horn.
Svikurunum, Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sat í ríkisstjórn, sem barðist fyrir innlimun Íslands í stórríkið, Evrópusambandið, ESB, mun verða refsað. Trúverðugleiki flokksins er enginn. Honum er ekki treystandi fyrir horn heldur. Flokkurinn skuldbatt sig með stefnumörkun fyrir kosningar um að styðja ekki umsókn um aðild að ESB, og allir vita um hrossakaup hans við Samfylkinguna eftir kosningarnar 2009.
Núna er minna atvinnuleysi á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, og líklega verður hagvöxturinn hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2015. Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna virðist jafnframt ætla að verða mest á Íslandi 2015. Fjárfestingar kunna að nema 25 % af landsframleiðslu 2015, og þannig er lagður traustur grunnur að framtíðinni með sjálfbærri nýtingu auðlinda.
Markmið Íslands ætti að vera að fullnægja Maastricht-skilyrðum hagstjórnar á þessu kjörtímabili; að sjálfsögðu ekki til að taka upp evru, heldur til að treysta gengi gjaldmiðils landsins, hækka lánshæfismatið umtalsvert til að lækka vaxtakostnað og treysta stöðugleika hagkerfisins í sessi. Með þessu móti styttist í, að Ísland skáki þeim þremur Evrópuþjóðum, sem lengi hafa státað af hæstu landsframleiðsluverðmætum á mann.
Það verður ekki betur séð en Íslandi vegni nú bezt allra Evrópuþjóða á batabrautinni eftir fjármálakreppuna 2008. Svo er reyndar fyrir að þakka miklum fjölda innflytjenda, sem halda atvinnulífi landsins gangandi og fara yfirleitt vel með fé, sem þeim áskotnast. Núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti hennar á hrós skilið, en þessi sami þingmeirihluti verður að sýna himpigimpum stjórnarandstöðunnar vígtennurnar, svo að þingræðið virki, eins og mælt er um í Stjórnarskrá. Minnihlutinn hefur ekkert af viti fram að færa. Hann á rétt á því að fá að sýna kjósendum á spilin sín (hundana), en hann á engan rétt á því að þvælast fyrir og jafnvel hindra, að vilji meirihluta þingsins fái framgang og verði eftir atvikum að lögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)