Sjálfhelda orkumálanna

Það er búið að afvegaleiða umræðuna um hefðbundna íslenzka virkjanakosti með glópagullsrausi um vindknúna smárafala á himinháum súlum. Nýr orkumálastjóri hefur lagt ruglandanum lið með innantómu sífri um nauðsyn vandvirkni við útgáfu virkjanaleyfa til vatnsaflsvirkjana. Undir hennar stjórn gerðist það þó í fyrsta skipti í sögu Orkustofnunar, að virkjunarleyfi hennar var fellt úr gildi (Hvammsvirkjun) vegna ófullnægjandi umfjöllunar stofnunarinnar um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi.  Samt tók stofnunin sér lengri tíma en nokkru sinni áður (18 mánuði) til að gefa út þetta leyfi og braut þannig setta tímafresti í lögum.  Samt klifar þessi Orkumálastjóri á nauðsyn vandvirkni. Allt leiðir þetta til falleinkunnar þessa Orkumálastjóra, enda vita þeir, sem vita vilja, að innan Orkumálastofnunar er nú hlutfallslega takmörkuð fagleg geta til að rýna umsókn um verkefni á borð við Hvammsvirkjun í samnburði við viðkomandi verkfræðistofur landsins og Landsvirkjun sjálfa. Það er þess vegna borin von, að rýni Orkustofnunar geti bætt einhverju verðmætu við hönnunaráformin.  Ef pulsusjóðari fer að rýna verk Michelin-kokks, er vart mikils að vænta, eða hvað ?

Ábyrgir aðilar samfélagsins vita, hvernig í pottinn er búið í orkumálum landsins og tengsl þeirrar ömurlegu stöðu við montplaggið með háleita nafninu: "Loftslagsstefna Íslands".  Sem betur fer skiptir engu máli fyrir loftslag jarðarinnar, hvernig mál skipast með þessa loftslagsstefnu, en það skiptir mjög miklu máli fyrir efnahag landsins, hvernig gengur að uppfylla raforkuþörf þjóðarinnar á hverjum tíma.  Í þeim málum er mikið raupað, en ekkert gert, sem sköpum skiptir við að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, forðum.

Morgunblaðið hefur eðlilega miklar áhyggjur af því, hvernig stjórnmálamönnum hefur tekizt að leiða þessi mál í slíkt öngstræti, að ekki sér til lands.  Löggjöfin kemur að utan, og hentar einfaldlega ekki aðstæðum hér.  Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng.  Forystugrein Morgunblaðsins 12. ágúst 2023 bar einfalt og sláandi heiti: 

"Orkuleysi".

Hún hófst þannig:

"Orkumál hafa lengst af verið í góðu horfi hér á landi, eftir að menn báru gæfu til að hefja miklar virkjanir, jafnt vatnsaflsvirkjanir sem jarðhitavirkjanir.  Það var hvort tveggja mikið framfaraskref, og þurfti bæði framsýni og áræði til að ráðast í ýmis stórvirki á þessum sviðum, einkum í upphafi, þegar þetta var algerlega nýtt hér á landi, þekking afar takmörkuð og fjármagn af skornum skammti. 

Með dugnaði hafðist þetta, jarðhitinn var nýttur til húshitunar og síðar raforkuframleiðslu, og vatnsaflið var virkjað til raforkuframleiðslu og orkan flutt til stóriðjuvera, smærri fyrirtækja og heimila.  Þessu fylgdu stórkostlegar breytingar, hvort sem litið er til heimila landsins, atvinnulífs eða efnahags í heild.  Enginn getur efazt um, að hefði ekki verið ráðizt í þær virkjanir, sem gert hefur verið, væru lífsgæði hér allt önnur og lakari en við þekkjum."

Þeir, sem séð hafa ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkinn lagði yfir bæinn, átta sig vel á, hvað höfundur forystugreinarinnar á við.  Að setja núlifandi menn inn í aldargamalt umhverfi er alltaf hæpið, en menn geta ímyndað sér, hvernig gengið hefði að losna við kol og olíu úr eldstónni, til ljósmetis og upphitunar, ef ládeyður núverandi ríkisstjórnar væru við völd, og allt það óskilvirka og að mörgu leyti óþarfa skriffinnskubákn, sem nú er við lýði, hefði þá haft tækifæri til að kasta skít í tannhjólin. 

Á öllum tímum hafa nefnilega úrtöluraddir verið við lýði. Munurinn er bara sá, að þá var ríkisbáknið minna og bremsustofnanir ekki fyrir hendi.  Þegar við nú horfum á framkvæmdir fyrri tíma, hvort sem er í Elliðaánum, Soginu, á Þjórsár/Tungnaársvæðinu eða annars staðar á landinu, verður ekki annað sagt en frábærlega hafi til tekizt án Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, úrskurðarnefnda eða Orkustofnunar í sinni núverandi mynd.  Þingmönnum hefur tekizt, sumpart með tilstyrk Brüsselvaldsins eftir 1993, að flækja lagaumhverfi orkumálanna meira en góðu hófi gegnir, þannig að þar gerist nú lítið yfir 10 MW, nema endurbætur og stækkanir eldri virkjana, sem eru góðra gjalda verðar til að bæta úr aflskorti (toppafl). 

"Hvað svo sem segja má um þau markmið [um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - innsk. BJo], raunsæi þeirra eða, hvernig þátttöku Íslands í þeim er háttað, þrátt fyrir að hér sé allt með allra hreinasta móti, þá er undarlegt, að á sama tíma og ofuráherzla er lögð á þessi markmið, virðist varla nokkur vegur að koma nýjum íslenzkum virkjunum af stað."

  Þetta er ein mesta þversögn íslenzkra stjórnmála um þessar mundir og stafar af óheilindum stjórnmálamanna, sem sífellt eru með umhverfisvernd og "hamfarahlýnun" á vörunum.  Þau meina ljóslega ekkert með því tali, enda skiptir miklu meira máli fyrir veðurfar og loftslag á jörðunni, hversu mikil jarðeldavirkni er hér en hvað þær hræður, sem á landinu búa, taka sér fyrir hendur.  Öll er loftslagsumræðan blásin út yfir öll eðlileg mörk og koltvíildisstyrk andrúmslofts kennt um skógarelda, flóð og allt þar á milli, þótt um atburð með 50 ára tíðni sé að ræða, eldar hafi verið kveiktir og byggð þanizt út. 

Loftslagspostularnir trúa greinilega ekki tuggunni úr sjálfum sér, því að afturhaldssjónarmið um að koma í veg fyrir verulega aukningu raforkuvinnslu ræður ferðinni. Þeim er alveg sama, þótt sveimhugar séu búnir að skuldbinda landsmenn til að borga nokkra mrdISK 2031 til ESB, ef ekki tekst að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með innlendu rafmagni. Þetta ástand mála er geggjun og getur ekki viðgengizt lengur, en mun gera það, á meðan fígúran Katrín Jakobsdóttir situr í forsætisráðuneytinu.   

"Ýmsir hafa varað við því um nokkurra ára skeið, að í óefni stefni [sé þegar komið - innsk. BJo] að óbreyttu, og hafa þær áhyggjur farið vaxandi.  Þær áhyggjur snúast ekki aðeins um stórnotendur, heldur [aðallega] um heimilin í landinu, en hætta er orðin á, að þar komi til skerðingar á næstunni, sem er með miklum ólíkindum og sýnir, hve óhönduglega hefur verið á þessum málið haldið á undanförnum árum."

Þetta er hverju orði sannara og er falleinkunn fyrir stjórnmálin og viðkomandi stjórnsýslu.  Þegar heimildir orkufyrirtækjanna til skerðinga stóriðjunnar, en á hverju 5 ára tímabili er yfirleitt aðeins heimilað að skerða 5 % umsaminnar orku, þótt meira megi skerða innan hvers árs, þá kemur að fyrirtækjum án langtímasamninga við sinn orkubirgi og að heimilunum að gefa eftir nokkuð af sínu hefðbundna afli til að forða kerfishruni. Ástandið fer að minna á skelfilegt ástand rafmagnsmála í Suður-Afríku og leiðir auðvitað beint af hreinni vanrækslu við að sinna grunnþörf þjóðfélagsins. 

"Og að nokkru leyti má segja, að athugasemdir Samtaka iðnaðarins hafi fengizt staðfestar í samtali Morgunblaðsins við orkumálastjóra í blaðinu í gær [11.08.2023], þar sem fram kom, að orkumálastjóri hefur ekki miklar áhyggjur af töfum við leyfisveitingar, enda sé mest um vert, að leyfisveitingin sé vönduð.  

Um það er varla ágreiningur, en hitt er verra, að orkumálastjóri virðist ekki telja ástæðu til að liðka til í stjórnkerfinu vegna orkuframleiðslu og vísar í því sambandi til vandvirkninnar."

Þessi Orkumálastjóri er hluti af orkuvanda landsmanna, eins og sumir óttuðust við skipun hennar.  Hana sjálfa skortir alla þekkingu til að leggja gæðamat á fyrirhugaða verkfræðilega tilhögun virkjunar, og það er "tragíkómískt" að sjá og heyra hana klifa á nauðsyn vandvirkni við leyfisveitingu.  Það er sorglegt, því að 18 mánaða meðgöngutími Orkustofnunar fyrir leyfisveitingu fyrir fyrstu virkjun Neðri-Þjórsár verður þjóðinni óhemju dýrkeyptur vagna yfirvofandi orku- og aflskorts.  Það er hlægilegt, því að rýni Orkustofnunar á virkjunargögnum Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun hefur engar forsendur til að bæta nokkru vitrænu við hönnun virkjunarinnar; ekki frekar en pulsusjóðari getur bætt einhverju vitrænu við matseld Michelin-kokks. 

Grein Orkumálastjóra í Morgunblaðinu 18.08.2023 er eins og fréttayfirlit um orkumálin, sem sæmilegur blaðamaður hefði getað skrifað.  Það vantar djúpa greiningu á kreppu íslenzkra orkumála, eins og búazt hefði mátt við frá öllum gengnum Orkumálastjórum landsins.  Á grundvelli greiningarinnar hefði síðan mátt vænta traustra ráðlegginga til þjóðarinnar og stjórnvalda til að lágmarka tjónið, en hið eina, sem kom, var yfirborðslegt hjal um nauðsyn bættrar orkunýtni.  Þessi aðferðarfræði getur enga leiðsögn veitt. 

"Með þeim rökum [um nauðsyn vandvirkni - innsk. BJo] getur ríkið jafnan tekið sér drjúgan tíma í afgreiðslu mála, því að flest það, sem fengizt er við, og ekki aðeins á sviði orkumála, krefst vandvirkni.  

En þegar vandvirknin er orðin slík, að mál velkjast árum saman án niðurstöðu eða verður til þess, að ekkert er virkjað og orkuskortur er yfirvofandi innan skamms, þá hlýtur að þurfa að grípa til aðgerða.  Og þá þurfa t.d. talsmennirnir að setjast í ráðherrastólana og gera þær breytingar, sem duga.  Annars hafa þeir ekkert við stólana að gera."

Þetta óskilgreinda tal Orkumálastjóra um vandvirkni sem réttlætingu á mjög seinni afgreiðslu mikilvægustu mála Orkustofnunar, er hreinn fyrirsláttur, eins og bezt sést á því, að síðbúið virkjunarleyfi stofnunarinnar í Neðri-Þjórsá var nokkru síðar fellt úr gildi vegna annmarka á yfirferðinni, og hefur slíkt aldrei áður gerzt í sögu Orkustofnunar.  

Orkumálastjóri, sem skilur ekki þá bráðu nauðsyn, sem er á að fá öflugar virkjanir sem allra fyrst í notkun, er verri en enginn.  

 

  


Vinnubrögð matvælaráðherra eru afleit

Núverandi matvælaráðherra fer ekki eftir öðru en eigin dyntum við ráðherrastörf sín.  Hún hagar sér eins og agalaus krakki og gefur einfaldlega skít í stjórnarsáttmálann, þegar hún forgangsraðar vinnu sinni.  Vinnubrögð, eins og hennar, mundu ekki líðast í nokkru fyrirtæki, og það er fyllilega tímabært að reka skussa eins og þennan úr ráðherraembætti.  Viðhlæjandi hennar, formður flokks matvælaráðherra og forsætisráðherra, hefur ekki burði til að láta til skarar skríða gegn óhæfum "starfsmanni" sínum, heldur brosir sínu breiðasta og dreymir um að hanga með flokk sinn við völd út kjörtímabilið. Ef höfð er hliðsjón af  úrslitum þingkosninga annars staðar í Evrópu um þessar mundir, þá gæti þessa flokksónefnu vinstri jaðarsins dagað uppi í næstu kosningum. Hefur hann þegar valdið miklu þjóðhagslegu tjóni, aðallega með setu pótintáta sinna í ríkisstjórn, og valdið heilabrotum í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, sem hann er á móti, en formaðurinn smjaðrar fyrir á fundum með útlendingum.  Þar hefur tvískinnungur flokksins keyrt um þverbak.  

Axarsköpt sín í embætti réttlætir lufsan í matvælaráðuneytinu með því, að hún sé í pólitík.  Þetta er þó þunnur þrettándi fyrir atvinnulífið og almenning í landinu. Sósíalistinn er í hernaði gegn atvinnulífinu á sínu sviði.  Hún er ábyrg fyrir ómannúðlegri meðferð bænda í Miðfirði vegna örfárra riðutilvika, sem komu þar upp í vetur.  Þar var ofstækisfullum og óþörfum vinnubrögðum beitt í ljósi þess, að handan við hornið er að gera íslenzka fjárstofninn ónæman fyrir riðuveiki með erfðafræðilegri ræktun. 

Alræmd er aðförin að Hval hf og starfsmönnum hans í sumar með bjánarökum um, að ráðherrann verði að halda hlífiskildi yfir langreyðum sem eini umboðsmaður þeirra. Fyrirtækið Hvalur hefur hins vegar haldið hlífiskildi yfir starfsmönnum sínum og borið af þeim högg sósialistans í allt sumar með alls konar viðhalds- og endurbótaverkefnum.  Fyrir þetta á  forstjóri Hvals mikinn heiður skilinn, og birtist þarna enn gjáin, sem skilur að auðvaldið og sósíalismann, þegar kemur að meðferðinni á fólki.  Í löngu máli væri hægt að fara ítarlega út í þá sálma.

 Nú þjónar matvælaráðherra lund sinni með því að siga Samkeppniseftirlitinu á nokkur sjávarútvegsfyrirtæki. Þá þykist hún vinna eftir stjórnarsáttmálanum um rýni á sjávarútveginum, en útkoman er að verða heimskulegar lýðskrums upphrópanir gegn honum.  Um þetta skrifaði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, afar fróðlega og vel samda grein í Morgunblaðið 12. ágúst 2023: 

"Unnið í andstöðu við stjórnarsáttmála".

Hún hófst þannig:

 "Við myndun þeirrar ríkisstjórnar, sem enn situr, þegar þetta er ritað, var gerður sáttmáli, líkt og hefðbundið er, þar sem m.a. var fjallað um áherzlur tengdar sjávarútvegsmálum.  Var þar um samið á meðal ríkisstjórnarflokkanna þriggja, að meta skyldi þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Sérstök nefnd skyldi í þessum tilgangi skipuð, og henni m.a. falið að bera saman stöðuna hér á landi og erlendis.  Að svo búnu ætti að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar." 

Þetta hafa formenn stjórnarflokkanna komið sér saman um.  Þeir hafa ætlazt til, að farið yrði í faglega vinnu, sem af stjórnmálanna hálfu væri ætlað að auka enn við þjóðhagslega hagkvæmni sjávarútvegsins íslenzka, sem sennileg er hvergi meiri.  

Sósíalistakjáninn, sem vermir sæti matvælaráðherra, hafði hins vegar engan áhuga á þessu, enda er hún stækt niðurrifsafl, sem trúir því ekki, að auðvaldið geti verið þjóðhagslega hagkvæmt.  Í heilastarfsemi matvælaráðherra hafa aldrei komizt að nein fagleg vinnubrögð, enda snýst þar allt um pólitík sósíalismans; að klekkja á auðvaldinu og að auka stjórnun ríkisins á atvinnuvegunum sem mest, þótt ekki sé í því hin minnsta glóra.  

"Þrátt fyrir nokkuð skýr fyrirmæli um verkefnið í stjórnarsáttmála hefur því miður ekki verið eftir þeim unnið.  Hvergi má finna því stað, að þjóðhagslegur ávinningur hafi verið metinn, og enginn samanburður hafur verið gerður á stöðunni hér á landi og erlendis.  Þessi atriði hafa aldrei komið til umræðu á vettvangi þeirrar samráðsnefndar, sem ráðherra skipaði í tengslum við vinnuna, og hvergi er um þetta fjallað á umfangsmikilli upplýsingasíðu verkefnisins."

Þessar upplýsingar Heiðrúnar Lindar sýna svart á hvítu, að ráðherranefnan í Matvælaráðuneytinu stjórnast af annarlegum hvötum og viðhefur enn einu sinni algert fúsk, enda stendur hvorki geta hennar né áhugi til nokkurs annars.  Hún ætlar að misbeita aðstöðu sinni sem ráðherra til að koma höggi á bezt rekna sjávarútveg í heimi.  Þessi vinnubrögð eru forkastanleg.  Ráðherrann grefur undan þjóðarhagsmunum, eins og hún gróf undan lýðheilsunni með alræmdum samningum við lyfjaiðnaðinn og hörðum áróðri til að búa til tilraunadýr úr heilli þjóð fyrir Bill Gates og kóna hans með erfðafræðilegum efnum á  tilraunastigi, sem reyndust vera meingölluð í alla staði, eins og skýr grein var gerð fyrir í aðsendri grein fróðra þremenninga í Morgunblaðinu 15.08.2023.   

"Í þessu samhengi er líka merkilegt að lesa nýlega grein matvælaráðherra, sem virðist líta svo á, að það mikilvægasta sé, að "upplifun" almennings af grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sé betri.  Í heilli grein um þessar bráðabirgða tillögur [nefndar ráðherra - innsk. BJo] er hvergi talað um miklar tekjur, sem sjávarútvegur hefur skapað íslenzku þjóðinni og íslenzkum stjórnvöldum í formi skatttekna, sem hafa lagt grunn að þeim lífsgæðum, sem við búum við.  Það er eins og það skipti engu máli í hinni pólitísku mynd.  Óljós upplifun virðist einfaldlega skipta meira máli en verðmætasköpun og sá hagur, sem vel rekinn sjávarútvegur færir þjóðinni." 

Núverandi matvælaráðherra er bara lýðskrums bullustampur.  Hún hefur engan áhuga á að bæta opinbera umgjörð sjávarútvegsins með það í huga að efla hann enn frekar til langs tíma, svo að hann geti fært enn meiri björg í bú.  Hana dreymir um að setja klær ríkisins með einum eða öðrum hætti dýpra í hold atvinnugreinarinnar en nú er.  Þessi mælikvarðalausa "upplifun" ráðherrans er að fálma eitthvað út í loftið á mjög hæpnum forsendum, eins og í hvalamálinu í sumar, til að þóknast svartasta afturhaldi landsins, sem að töluverðu leyti fyllir flokkinn hennar.  


Ofstæki loftslagskirkjunnar

Illvígum loftslagsáróðri er beint að almenningi til að fá hann til að breyta um lifnaðarhætti og til að ryðja brautina fyrir stjórnmálamenn til að auka skattheimtuna í nafni meintrar loftslagsvár.  Þetta er oft á tíðum svívirðilega falskur málflutningur.  Það verður að hafa í huga í þessu sambandi, að verstu mengunarþrjótarnir eru í Austur-Asíu, og þeir gera ekkert með þessar áhyggjur, t.d. Kína og Indland, og á meðan svo er, mun ekki nást mikill árangur í að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu. Meðal annarra orða: hvenær varð styrkur koltvíildis í andrúmsloftinu svo mikill, að mikilvægi vatnsgufunnar við að skerma endurkast hitageisla frá jörðu hyrfi algerlega í skuggann ? 

Þessi staða mála ógnar samkeppnisstöðu Vesturlanda í heimsviðskiptunum og er þess vegna viðsjárverð.  Síðasta fálm búrókrata í Brüssel út í loftið í þessari skattheimtu er væntanlegt kolefnisgjald í skip.  Það er fálm út í loftið af þeirri einföldu ástæðu, að það er enn engin staðkvæmdarvara í sjónmáli fyrir jarðefnaolíu til að knýja skipin, og þess vegna er enginn raunhæfur hvati fólginn í þessari gjaldtöku.  Þar af leiðandi er þetta skattheimta.  Hvernig ætla stjórnmálamenn að verja þessu skattfé ?  Hvaða gæluverkefi skyldu verða fyrir valinu ?  

Utanríkisráðuneytið hefur enn einu sinni opinberað áhugaleysi sitt og/eða getuleysi við að greina íslenzka hagsmuni og rýna reglusetningu Evrópusambandsins (ESB) m.t.t. að virkja undanþágur með röksemdafærslu um séraðstæður Íslendinga. Þegar uppgjafartónninn berst úr þessu ráðuneyti, er stundum eins og ráðuneytið sé orðið handgengið bákninu í Brüssel. 

Flutningskostnaður til og frá Íslandi er hærra hlutfall af vöruverði til viðskiptavina en tilvikið er fyrir nokkurt annað EES-land.  Af hverju hringir sú staða mála engum viðvörunarbjöllum í utanríkisráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu ?  Þessi staða máls er til þess fallin að rýra lífskjör fólks á Íslandi meira en í nokkru öðru Evrópulandi.  Það getur enginn alvöru stjórnmálamaður skellt skollaeyrum við því, en það mun stjórnarandstaðan á Alþingi þó gera með heiðarlegum undantekningum, af því að vinstrið þar er gengið ESB á hönd.   

Þá að hræðsluáróðrinum. Angi hans snýst reyndar um hamfarakólnun á Íslandi, sem reyndar er raunveruleg hætta á til lengri tíma litið, þegar út úr núverandi hlýskeiði kemur, en áróðurinn snýst hins vegar um það, að núverandi hlýskeið, sem er alls ekki enn það hlýjasta í seinni tíma jarðsögu, muni valda svo mikilli jökulbráðnun á norðurhveli, að Norður-Atlantshafið muni kólna svo mikið, að stórlega dragi úr styrk Golfstraumsins hlýja norður á bóginn. Mælingar gefa þó alls engar vísbendingar um þetta. 

Morgunblaðið átti viðtal við Halldór Björnsson, veður- og haffræðing á Veðurstofu Íslands, um þessi mál 27. júlí 2023 undir fyrirsögninni: 

"Stöðvun hafstrauma boðuð við Ísland"

"Tilefni spjallsins er grein í vísindatímaritinu "Nature", sem boðar stöðvun hafstraums, sem þar gengur undir nafninu AMOC, "The Atlantic meridional overturning circulation", á 21. öldinni, straums, sem er töluvert víðförulli en Golfstraumurinn og flytur hlýjan sjó til norðurhvels jarðar, en kaldan suður á bóginn."

""Mjög lengi hafa vangaveltur verið uppi á borðinu [svo ?!] um, hvort veltihringrásin sé óstöðug, þ.e.a.s. ef það hlýnar of mikið eða vatnið norðan við verði of ferskt, t.d. við mikla rigningu eða hressilega bráðnun Grænlandsjökuls, geti þessi straumur ekki lengur myndað djúpsjó, þá væri í raun búið að slökkva á honum", heldur Halldór áfram."

Óskýrar greinar af þessu tagi um viðurhlutamiklar breytingar í náttúrunni geta hæglega vakið upp óþarfa ótta almennings, ef hvorki höfundarnir né útgefandinn gera grein fyrir samhenginu og raunstöðunni.  Aðalatriðið er, að engar mælar gefa enn vísbendingar um þessa þróun, svo að hér er aðeins um fræðilegar vangaveltur að ræða. Halldór gerir grein fyrir samhenginu:

 ""Þótt AMOC hyrfi alveg, er eftir sem áður mikill varmaflutningur inn á svæðið frá hafinu og reyndar einning frá lofthjúpinum; það er mikilvægt að hafa í huga, að lofthjúpurinn flytur meiri varma inn á þetta svæði en hafið gerir", segir haffræðingurinn.  Þar með segir hann, að aldrei kæmi til þess, þótt AMOC straumurinn stöðvaðist, að hitaflutningur inn á hafsvæðið við Ísland legðist af með öllu; hann mundi einfaldlega minnka."

Þannig varð 1 fjöður að 10 hænum.  Það eru svona mál, sem Loftslagsráð grípur á lofti án merkilegrar greiningar og kastar fram sem hrollvekju.  Nú hefur formaður þessa einkennilega ráðs lýst því yfir við fjölmiðla (11.08.2023), að nauðsynlegt sé, að Íslendingar verði leiðandi í að setja kolefnisfría orkugjafa í skip sín til að knýja þau.  Hvers konar bolaskítur er þetta nú ?  Hvers vegna og hvernig á smáþjóð norður í Atlantshafi að gefa tóninn fyrir risaútgerðir heimsins, sem enn hafa enga lausn á reiðum höndum.  Þessi furðuformaður talar hins vegar eins og álfur út úr hól um, að skattlagning ESB sé nauðsynlegur hvati, svo að útgerðirnar teygi sig í þessa lausn.  Það er von, að losun landsmanna á koltvíildi aukist fremur en hitt, þegar ráðgjafarnir eru af þessari hlaupvídd. 

Halldór skýtur síðan hræðsluáróðurinn um stöðvun varmaflutnings með hafstraumum á kaf:

""Loftslagslíkön ná ekki öll að herma þetta; þarna erum við á jaðri vísindalegra rannsókna, og menn vita ekki alveg, hvernig á að takast á við þetta.  En í loftslagslíkönum, þar sem dregur úr styrk AMOC, sem er reyndar í mjög mörgum líkönum, er það yfirleitt þannig, að maður sér einhverja kalda bletti í Norður-Atlantshafi, en þeir ná ekkert endilega til Íslands, ekki allir, og yfirleitt eru þeir tímabundnir, taka kannski 10-50 ár", segir Halldór."

Það er auðvelt að hrapa að vitlausri niðurstöðu, og það er einkenni flautaþyrla.  Áður en þeir fara að hvetja íslenzkar skipaútgerðir til að draga úr losun sinni, ættu þeir að reikna út, hver sú losun er í samanburði við meðaltalslosun íslenzkra eldfjalla á ári.  Það er nefnilega þannig, að losun íslenzkra skipafélaga hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar, en það hafa eldfjöllin, þegar þau eru í stuði.

 

 


Pólitískar kreddur standa þróun sjúkraþjónustu fyrir þrifum

Í viðtali Morgunblaðsins 28.07.2023 vakti Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Klíníkinni, athygli á því, hvernig tréhestar ríkisins í sjúkrakerfinu hafa, meðvitað eða ómeðvitað vegna meðfædds doða, tafið framkvæmd nýlegs samnings heilbrigðisráðherra við einkaframtak á sviði lækninga upp á mrdISK 1,0 átak til að draga úr hörmungum fólks á biðlista ríkisins eftir aðgerð.  

Hvers vegna var fyrirtækjunum, sem ráðherrann samdi við, meinaður aðgangur að þessum biðlistum, og hvers vegna er fyrirtækjum í þessum einkageira athafnalífsins meinað að kynna almenningi þjónustu sína ?  Þetta vitnar um gaddfreðið hugarfar tréhesta ríkisins, sem setja gamlar og forstokkaðar pólitískar kreddur ofar hagsmunum sjúklinganna.  Staðreynd er, að ríkisbáknið ræður ekkert við að einoka þessa þjónustu og ætti að viðurkenna það, ekki aðeins í orði, heldur og í verki.  Einkaframtakið veitir í þeim tilvikum, sem hér um ræðir, jafngóða þjónustu og Landsspítalinn með kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklinga, sem er helmingur af kostnaði Landsspítalans.  Það er óskiljanlegt, að einhverjir ríkisstarfsmenn skuli enn halda dauðahaldi í "einokun" ríkisins.  Hvers vegna fá stjórnmálakreddur frá frumstæðu Rússlandi Stalíns svona miklu ráðið um framkvæmd lækningamála á Íslandi 2023 ?  Þetta er einsdæmi á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað.  

Téð viðtal við Hjálmar bar fyrirsögnina:

"Fjöldi liðskiptaaðgerða tvöfaldast".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Hjálmar segist vera undrandi á því, að þetta tækifæri til að auka skilvirkni og útrýma biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum, eins fljótt og hægt er, skuli ekki vera nýtt.  Vel hafi gengið hjá fyrirtækinu að bæta líf fólks.  

"Ég er ótrúlega stoltur af starfsfólki Klíníkurinnar, því [að] á þessu ári erum við búin að meira en tvöfalda fjölda aðgerða, sem voru gerðar á sama tíma í fyrra, sem var langstærsta árið okkar.  Við erum búin með rúmlega þriðjung af samningnum á þriðjungi af samningstímanum", segir Hjálmar."

Læknirinn furðar sig á tregðu ríkisins við að koma til móts við þarfir sjúklinga.  Þar á bæ eru kreddurnar alls ráðandi.  Kostnaður skiptir engu máli þar á bæ, líðan sjúklinga ekki heldur.  Öllu máli skiptir, hver gerir aðgeðina.  Verri verða moldvörpuviðhorf vinstrisins ekki.  Þetta er meinlokan við ríkisrekstur í hnotskurn, sem hvorki Karl Marx né Jósef Stalín létu sig nokkru skipta.  Er ekki kominn tími til að hreinsa flórinn og lofta út, svo að heilbrigð skynsemi um rekstur og þjónustugæði fari að mega sín nokkurs í stjórnun ríkisins á þjónustu við sjúka, sem nú étur upp um þriðjung fjárlaganna ?

Mogganum blöskrar framkvæmdin á þessu eins milljarðs ISK átaki ríkisins, eins og sjá mátti á forystugrein blaðsins, 31.07.2023, undir fyrirsögninni:

"Lærum af mistökunum".

Hún hófst þannig:

"Ótrúleg handvömm hefur orðið við framkvæmd á átaki, sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrr á árinu í því skyni að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum.  Margir hafa þjáðst allt of lengi vegna langrar biðar eftir aðgerðum á mjöðm eða hné, og voru  um 2000 á biðlistum, þegar átak ráðherra fór af stað fyrir um 4 mánuðum.  Þetta átak átti að standa til áramóta [2023/2024], og með því átti að framkvæma um 700 aðgerðir fyrir um mrdISK 1,0."

Það er ekki víst, að "handvömm" lýsi bezt því, sem átt hefur sér stað.  Sé svo, eru ýmsir stjórnendur, sem í raun eru þröskuldar, óhæfir.  Líklegra er, að meðvitað hafi skít verið kastað í tannhjólin til að draga úr árangri einkaframtaksins við að leysa uppsafnaðan vanda ríkisrekstrarins.  Það var í þessu tilviki gert með því að halda þjáningarfólki biðlistans í myrkri um þjónustu einkaframtaksins.  Hvaða hlutverki gegndi Landlæknirinn í þessum hráskinnaleik ?

"Þetta [dræm aðsókn-innsk. BJo] hefði auðvitað strax átt að hringja öllum viðvörunar bjöllum, og óþarfi [var] að bíða í marga mánuði eftir að grípa til þeirra aðgerða, sem duga til að ná til sjúklinganna.  [Ekki er víst, að það sé búið enn - innsk. BJo.]

Framkvæmdastjóri lækninga hjá Klíníkinni benti á í samtali við Morgunblaðið, að þau fyrirtæki, sem samið hefði verið við, hefðu aðeins fengið leyfi til að framkvæma aðgerðir á þeim, sem hefðu verið á biðlistum í 9 mánuði eða lengur, sem strax dregur úr virkni átaksins, enda eru þeir líklegastir til að vera komnir með dagsetta aðgerð annars staðar.  Hann sagði, að bent hefði verið á þetta, en á það ver bersýnilega ekki hlustað."

Það, sem heilbrigðisráðherra kallar átak, er framkvæmt með hangandi hendi af hálfu ríkisins.  Það eru meinvörp í stjórnsýslunni, sem verður að fjarlægja strax, ef kerfið á ekki sífellt að hökta eins og ræfill.  Frumskilyrði árangurs hjá ráðherra er, að hann geri sér grein fyrir þessu og vakti náið verkefni, sem hann hleypir af stokkunum með fjaðraþyt og söng, en treysti ekki kerfissnötum fyrir horn. 

Að lokum stóð í þessari forystugrein:

"Þær aðgerðir, sem verið er að framkvæma á einkareknu stofunum tveimur, sem ráðherra samdi við í vor, kosta ríkið aðeins um helming þess, sem sambærilegar aðgerðir kosta á Landsspítalanum.  Augljóst er, að ríkið verður að nýta slíka þjónustu einkaaðila, eins og mögulegt er, til að halda niðri kostnaði í heilbrigðiskerfinu.  

Til að það takist, verður hið opinbera kerfi að vera tilbúið til að vinna með einkaaðilum og auðvelda þátttöku þeirra.  Vonandi tekst það m.a. með því, að lærdómur verði dreginn af því, hvernig yfirstandandi átak fór af stað."

Allt er satt og rétt, sem ofan greinaskilanna stendur, en þegar að úrbótum kemur, duga hvorki fortölur né frómar óskir.  Sósíalískur sértrúarsöfnuður lætur sér ekki segjast.  Það er margreynt, og til vitnis um það geta menn haft í þessu tilviki, að viðkomandi fyrirtækjum verður ekki heimilaður aðgangur að fólki á þessum biðlista eða hinum, sem er eftir úrskurði um að komast á aðallistann.  Fyrirtækjunum verður ekki heimilað að kynna þjónustu sína, sem ætti þó að vera sjálfsagt mál. Hjá þessum sértrúarsöfnuði kommúnismans á launaskrá íslenzka ríkisins snýst málið ekki um að veita sjúklingum bót meina sinna, heldur að standa vörð um það, að þeirra fólk veiti þessa þjónustu. Verkin sýna merkin, og þetta var einmitt kjarni pólitíkur fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur.  Kommúnistarnir misnota aðstöðu sína  til að planta þóknanlegum viðhorfum inn í ríkisapparatið.  Afleiðingin er ömurleg fyrir móttakendur þjónustu og skattgreiðendur. 

 

 

 

 

 

 


Víti til varnaðar í sóttvörnum

Furðulegt offors einkenndi aðgeðir sóttvarnaryfirvalda í heiminum gegn veirunni SARS-CoV-2.  Kínverjar reyndu fyrst að þagga niður allt tal um sjúkdóminn af hennar völdum, sem brátt fékk heitið COVID-19 eða C-19 hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, AHS.  Þegar þöggunin gekk ekki lengur, sneru kínversk yfirvöld algerlega við blaðinu með fyrirmælum um að svipta fólk ferðafrelsi, sem nánast fól í sér að svipta það sjálfræði.  Var það lokað inni á heimilum sínum, fyrirtækjum lokað og annað í svipuðum dúr að hætti einræðisafla. Einu sóttvarnaráhrifin af því heimskupari var að seinka útbreiðslu faraldursins í Kína.

Í krafti óttans höfðu yfirvöldin öll ráð fólksins í hendi sér.  Þetta tók AHS, sem er undir daglegri stjórn marxista frá Eþíópíu, sem sætir ákæru um stríðsglæpi, til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, sem flest hlýddu í auðmýkt.  

Flest ríki fylgdu þessum ráðleggingum með einum eða öðrum hætti, þ.á.m. Ísland. Nokkur ríki í Bandaríkjunum og Svíþjóð tóku þó sjálfstæða ákvörðun um mjög takmarkaðar frelsisskerðingar, og þeim reiddi betur af í heildar dauðsföllum talið, svo að ekki sé nú minnzt á fjárhagstjónið. Þegar síðan kom að bólusetningum, keyrði um þverbak. Arnar Þór Jónsson, lögmaður, hefur á vefsetri sínu, sem birtist á Moggablogginu, gert grein fyrir skráningum, t.d. í Bandaríkjunum, sem benda til óvenju tíðra veikinda af völdum bólusetninganna; um 1,6 milljón manns þar hafði skráð slíkar, og talið er, að aðeins 1 % af öllum slíkum tilvikum séu skráð.  Flestir bólusettra hafa þannig líklega kennt sér meins af völdum bólusetninga. 

Morgunblaðið birti þann 4. ágúst 2023 viðtal við einn ofstækisfyllsta bólusetningafrömuðinn, Kára Stefánsson, lækni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, undir fyrirsögninni:

""Auðvelt að vera klár eftir á"":

""Það er engin spurning um, að þessar bólusetningar hafa bjargað lífi tuga milljóna manna í heiminum, en það er líka ljóst, að einhverjir, sem voru bólusettir, fóru illa út úr því", segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar."

Hvaða rannsóknir styðja aðalsetninguna í málsgreininni ?  Ekki hefðbundnar blindprófsrannsóknir á undan veitingu bráðabirgða leyfis fyrir bóluefnunum, því að lyfjafyrirtækin stöðvuðu þær allt of fljótt, þegar vísbendingar komu í ljós um mjög lítinn varnarmátt bóluefnanna 3 mánuðum eftir bólusetningu.  Allir vita, að bólusettir virtust ekkert síður smitast af SARS-CoV-2 en óbólusettir.  Með því að kasta því fram, að  bólusettir hafi veikzt minna en óbólusettir, er bara verið að bera í bætifláka fyrir meingölluð og varhugaverð bóluefni, sem leyfð voru til nota á almenningi löngu áður en hefðbundnum prófunum lauk. Eru einhverjar hlutlægar rannsóknir óvilhallra aðila til, sem sýna, að bólusettir hafi með óyggjandi hætti veikzt minna eða er þetta bara innantóm fullyrðing gasprara ?

Núverandi Sóttvarnarlæknir hefur haldið því fram opinberlega, að óbólusettir hafi veikzt meira af hjartasjúkdómum við að smitast af téðri veiru en bólusttir af sprautunum.  Getur verið, að sóttvarnarlæknir dragi of frjálslegar ályktanir af athugunum sínum.  Hún er með ósambærileg þýði í samanburðinum, og mismunur þýðanna, sem ekki hefur verið jafnaður út, getur hæglega leitt Sóttvarnalækni á villigötur í ályktunum sínum. 

"Sagði Kári ýmsa vísindamenn telja, að ekki hefði verið rétt að bólusetja alla og bent á fjölda [tilvika], þar sem bólusetningar á ungu fólki hefðu leitt til þess, að það fékk bólgu í hjartavöðva, jafnvel í meira mæli en fólk, sem sýktist af veirunni."  

Þetta virðist fljótt á litið vera í mótsögn við málflutning Sóttvarnalæknis, en það á einvörðungu við, ef rétt er að bæta við tilvísunarsetninguna í lokin "og var óbólusett".  Mikilvægasta spurningin í þessu sambandi er hins vegar, hvers vegna í ósköpunum var verið að sprauta ungviðið ?  Þörfin var einfaldlega ekki fyrir hendi.  Einkenni smits ungmenna voru væg, og engin dauðsföll studdu það að fara í þessa bólusetningarherferð.  Við þessar aðstæður er eðlilegt að tortryggja þessa ákvörðun sóttvarnaryfirvalda (og margar fleiri) og gruna bóluefnaframleiðendur um græsku.  Sóttvarnayfirvöld á Íslandi voru allt of leiðitöm  og báru fyrir sig AHS, en þaðan leggur ramman spillingaróþef. 

""Það er alltaf lítill hundraðshluti, sem situr uppi með aukaverkanir", segir Kári ... ."

 Þarna skautar kjaftgleiður læknirinn léttilega yfir staðreyndir, sem tala allt öðru máli um tilraunabóluefnin, sem beitt var gegn SARS-CoV-2 veirunni.  Fjöldi tilkynninga um aukaverkanir er meiri en summa allra tilkynninga hingað til um aukaverkanir bóluefna.  Það eitt út af fyrir sig sannar þó ekkert um alvarleika þessara aukaverkana eða tíðni, en innihald tilkynninganna sýnir, að ver var af stað farið en heima setið, eins og Arnar Þór Jónsson hefur rakið í pistlum sínum á vefsetri sínu og birzt hafa á Moggablogginu.  Heilbrigðisyfirvöldin skutu langt yfir markið, og lyfjaiðnaðurinn hafði sitt fram og makaði krókinn.  Höfundur þessa vefpistils þáði enga sprautu gegn C-19 og er þess vegna ekki endilega einvörðungu eftir á klókur í þessum efnum.  Hann hefur ekki hugmynd um, hvort hann hefur smitazt af C-19, því að hann fékk nokkrum sinnum flensueinkenni á tímabilinu, en fjarri því nokkur langvarandi einkenni, eins og sóttvarnaryfirvöld gerðu mikið úr.  Eftir á vizkan í þessu máli er, að þau hefðu betur sleppt öllum bólusetningum og lagt höfuðáherzlu á að verja viðkvæma í stað þess að lama allt samfélagið og bólusetja holt og bolt.  

 

 


Sanngirnismál Vestfirðinga

Það má hiklaust halda því fram, að sanngjarnt sé, að allir landshlutar búi við lágmarks afhendingaröryggi raforku, en það er nægilega trygg afhending raforku, sem kemur í veg fyrir kostnaðarsamt straumleysi, sem sé þá hið mesta einu sinni óvænt á 5 ára fresti og vari í minna en einn stundarfjórðung.  Á Vestfjörðum eru straumleysin árlegur viðburður og vara einni stærðargráðu lengur en hér er miðað við.  Það er ekki bara algerlega óviðunandi, heldur til vanza fyrir samfélag, sem framleiðir meiri raforku á mann en annars staðar þekkist. 

 Morgunblaðið hefur lagt Vestfirðingum gott lið í sanngirnisbaráttu þeirra fyrir leyfi til að virkja og fyrir öflugra og öruggara flutningskerfi raforku með jarðstrengjavæðingu á vegum Landsnets. Fjölmargar greinar hafa birzt í blaðinu Vestfirðingum til stuðnings í réttlætisbaráttu þeirra, og má benda á grein Halldórs Halldórssonar 04.08.2023.  Þann 2. ágúst 2023 birtist Sviðsljósgrein í blaðinu eftir blaðamann þess, Klöru Ósk Kristinsdóttur, undir fyrirsögninni:  

"Vestfirðinga skortir örugga orkuöflun".

Hún hófst þannig:

"Varaafl á Vestfjörðum nægir ekki til þess að bregðast við aukinni orkunotkun með nýjum atvinnutækifærum, segir Elías Jónatansson, Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, í samtali við Morgunblaðið. 

Viðvarandi orkuskortur hefur verið á Vestfjörðum undanfarin ár og því nauðsynlegt að bregðast við í takti við uppbyggingu á svæðinu.  Orkunotkun byggist að hálfu á orku, sem flutt er eftir Vesturlínu inn á Vestfirði, og ef línan verður straumlaus, er brugðist við með því að gangsetja varaaflsstöðvar.  

Þær varaaflsstöðvar, sem nú eru fyrir hendi, duga til þess að mæta að fullu straumleysi eða aflskorti í raforkukerfinu m.v. núverandi notkun, en Elías segir það þó annað mál, að notkunin eykst á svæðinu."

Vestfirðir eru eitt af vaxtarsvæðum landsins um þessar mundir, og er allur þessi vöxtur í útflutningsgreinum, aðallega fiskeldi og ferðalögum útlendinga þangað  ásamt vinnslu sáragræðandi efna úr þorskroði.  Orðspor allrar þessarar starfsemi er reist á hugtakinu sjálfbærni, þ.á.m. við raforkuvinnslu.  Við þessar aðstæður grefur staða raforkumálanna undan orðspori þeirrar vöru, sem Vestfirðingar markaðssetja á heimsmarkaðinum  undir formerkjum sjálfbærni. Vestfirðir eru á einum 132 kV geisla út frá 132 kV Byggðalínu, sem eftir nokkur ár verður vonandi 220 kV hringhluti, lokað með 132 kV á SA-landi, en það yrði of í lagt að leggja 220 kV línu til Vestfjarða, og viðbótar 132 kV lína þangað verður að lúta í lægra haldi fyrir vatnsaflsvirkjunum á Vestfjörðum frá hagkvæmnisjónarmiðum og sjónarmiðum um afhendingaröryggi raforku. 

Það eru ágætis virkjanakostir fyrir hendi á Vestfjörðum, sem geta útrýmt orðsporsáhættu Vestfirðinga, þótt núverandi Vesturlína sé í lamasessi um langan tíma.  Það mun létta á yfirlestuðu landskerfinu, ef ekki verður að jafnaði þörf á raforku til Vestfjarða um Vesturlínu.  Ahendingaröryggi rafmagns er hið langlakasta á Vestfjörðum m.v. aðra landshluta, og vegna ofangreinds vaxtar er brýn þörf á úrbótum.  Margt hefur vitlausara og óþarfara verið gert á Alþingi en að setja sérlög um um að jafna aðstöðu Vestfirðinga að þessu leyti og að draga um leið sérstaklega mikið úr olíunotkun þeirra.  Tvær flugur í einu höggi er ekki slæmt. 

"Með það að markmiði að tryggja orkuöryggi á Vestfjörðum hefur Orkubúið kallað eftir því, að umhverfisráðherra endurskoði friðlýsingarskilmála í Vatnsdal, til þess að hægt sé að fara í orkunýtingu þar.  Útilokað er að segja til um tímarammann á því verkefni, en "ef allt gengur vel, virkjunin kemst inn í rammann og fær eðlilega umfjöllun, þá getum við jafnvel séð virkjun rísa fyrir 2030", segir Elías.

"Með aukinni orkunotkun, nýjum atvinnutækifærum og fólksfjölgun fyrir árið 2030 er ekki hægt að tryggja nægt varaafl."  Því getur komið til þess, að byggja þurfi upp varaafl á svæðinu til þess að halda uppi sama þjónustustustigi og við höfum í dag, þ.e.a.s. ef aflið fæst ekki með virkjunum eða með styrkingu landlínunnar.  Elías segir það þó ekki ásættanlegt lengur að tryggja orkuöryggi með því að reisa dísilstöðvar "fyrir utan, að það er þvert á stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum"."

Orkubú Vestfjarða hefur nú gert skilmerkilega grein fyrir stöðu orkumála á veitusvæði sínu og fært greinargóð rök fyrir þeim leiðum, sem heimamenn telja vænlegast að fara til að snúa orkumálum sínum til betri vegar, sem er brýnt.  Nú er komið kjörið tækifæri fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að sýna, hvers hann er megnugur til að greiða götu Vestfirðingu á málefnasviðum sínum sem ráðherra.  Ef ekkert vitrænt kemur fljótlega frá honum um þessi efni, er vandséð, til hvers hann situr í ríkisstjórn.  

Friðlýsingarskilmálar eru ekki endanleg ákvörðun ríkisvaldsins, heldur breytingum undirorpnir, einfaldlega af því, að allt er í heiminum hverfult, og tæknin við hönnun og framkvæmdir virkjana og flutningsmannvirkja frá þeim, tekur verulegum framförum í tímans rás.  Þá eiga viðhorf heimamanna á hverjum tíma að vega verulega þungt við ákvarðanatöku, ef raunverulegra lýðræðissjónarmiða er gætt. 

Ef það er svo, að afturhaldið í landinu, sem á sína fulltrúa við ríkisstjórnarborðið um þessar mundir, ætlar að leggjast þversum gegn þessu, þá á það að verða kornið, sem fyllir mælinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. 

    


Landsstjórnin verður að greiða götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum

Þann 31. júlí 2023 birtist fjagra dálka ljósmynd á forsíðu Morgunblaðsins af skemmtiferðaskipum á Skutulsfirði, sem reykjarstrókana lagði upp af.  Þarna var ljósi varpað á mengunarvandamál og orsök þess á þessum stað, raforkuskortinn.  Nú blaðrar forsætisráðherra um, að verið sé að endurskoða opinbera aðgerðaáætlun til að draga úr losun koltvíildis frá Íslandi.  Það plagg verður án tengils við raunveruleikann, nema miklu meira verði virkjað af endurnýjanlegri orku á Íslandi. 

Ef ráðherrarnir ætla að hrista af sér slyðruorðið, munu þeir láta búa til hraðfara aðgerðaáætlun til að gera Vestfirðinga sjálfum sér næga með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og að ýta á eftir því, að ríkisfyrirtækið Landsnet breyti 33 kV og 66 kV loftlínum sínum á Vestfjörðum í jarðstrengi.  Þar með verður hægt með raunhæfum hætti að undirbúa rafvæðingu hafnanna með háspenntan tengibúnað fyrir farþegaskipin.  Þangað til ættu bæjaryfirvöld á Ísafirði að setja útgerðum farþegaskipanna stólinn fyrir dyrnar með sóðaskapinn og gera þeim að brenna gasi, á meðan þau eru inni á fjörðum. Það gerðu Norðmenn, sem nú eru mun lengra komnir við rafvæðingu hafnanna en Íslendingar, enda ekki forpokað afturhald að setja skít í tannhjól þróunarinnar þar. 

Í Morgunblaðinu, 31.07.2023, birtist frétt um þetta undir fyrirsögninni:

"Ekki til orka fyrir skipin".

 Þar var viðtal við íbúa á Ísafirði, Sturlu Pál Sturluson:

""Eins og við, sem búum hérna fyrir vestan, vitum, er Skutulsfjörðurinn sérstaklega lognsæll, en það kemur hins vegar allt of oft fyrir, að hann er í hálfgerðri blárri móðu eftir skipin", segir Sturla.  Spurður, hvort mikil óánægja ríki [á] meðal bæjarbúa vegna ástandsins svarar Sturla því til, að fyrst og fremst hafi þeir áhyggjur af stöðu mála."

Staða mála er sú, að Ísfirðingar eiga ekki að þurfa að sætta sig við, að nokkur farþegaskip leggist að hjá þeim og mengi þá þá svo mjög, að sé á við árslosun bílaflota þeirra.  Það á að fara að dæmi Norðmanna, sem banna svona dalla í norskum fjörðum og gera að skilyrði fyrir móttöku þeirra, að þau séu annaðhvort knúin jarðgasi eða rafmagni, á meðan þau eru innan norskra fjarða.  Það er til skammar, að skortur á raforku úr endurnýjanlegum lindum skuli standa rafvæðingu hafnanna á Vestfjörðum fyrir þrifum.  

Úrtölumenn á við píratakjánana halda því fram, að ekki sé unnt að heimila nýjar virkjanir, af því að þörfin sé ekki ljós, hægt sé að spara orkutöp, hætta að selja orku til námugraftrar gervimynta og þar fram eftir götunum. Ekki sé hægt að tryggja, að ný orka fari í orkuskipti.  Allt er þetta tómur fyrirsláttur til að drepa umræðunni á dreif, og það hefur tekizt, því að ekkert stórt virkjanaverkefni er nú í gangi, eftir að Hvammsvirkjun fór á ís á fáránlegum grundvelli, þ.e. vatnalögum Evrópusambandsins.   

Þörfin hefur verið kortlögð og nemur um 80 MW eða 400 GWh/ár.  Allar stærðirnar, sem píratakjánarnir nefna til sönnunar þess, að ekki þurfi að virkja, verða eins og dropi í hafið, þegar þessar árlegu þarfir eru lagðar saman yfir byggingartíma virkjunar á borð við Hvammsvirkjun.  Undanfarin ár hefur aðeins brot af ofangreindum stærðum bætzt við uppsett afl og árlega orkuvinnslugetu. 

Það er mjög annkannalegur málflutningur hjá pírötum, sem að upplagi eru stjórnleysingjar, að vinza eigi úr viðskiptamannahópi raforkufyrirtækjanna eftir geðþótta stjórnmálamanna.  Það verður hér eftir sem higað til að vera greiðslugeta fyrirtækjanna, sem ræður því, hvort þau fá raforku eða ekki.  Annað er óþolandi forræðishyggja og mismunun í anda kommúnista, sem vart stenzt Stjórnarskrá.  

"Þá segir Sturla stóra Akkilesarhælinn vera, að ekki megi virkja fyrir vestan, þó [að] nóg sé af fallvatni, og því geti skemmtiferðaskipin ekki nýtt sér rafmagn, þegar þau leggjast þar að bryggju.

"Þó [að] þessi skip myndu vilja fara þá leið, þá er þetta rafmagn bara ekki [fyrir hendi]. Það er ekki nóg að setja upp kapla og tengingar, ef engin er orkan", segir Sturla og bætir við, að fólk sé kannski ekki almennt að setja sig upp á móti skemmtiferðaskipum, heldur sjái frekar hið jákvæða vegna afkomunnar fyrir bæjarfélagið, þó [að] vissulega sé mengunin óþægilegur fylgifiskur þessa tiltekna ferðamáta"."  

Það þarf mikið afl til að sjá stórum skemmtiferðaskipum fyrir nægu afli, enda eru þetta heil bæjarfélög á floti, þegar mest er. Það gæti þurft 10 MW aflfæðingu að höfninni á Ísafirði fyrir þetta, og það er óvíst, að flutningskerfið að bænum geti annað því núna, og núverandi vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum geta ekki bætt við sig þessu álagi. 132 kV Byggðalínan er fulllestuð, svo að þótt  132 kV Vestfjarðalína gæti bætt þessu álagi á sig, kemur það ekki að haldi, enda er árlegt viðhaldstímabil hennar að sumarlagi, og allir, nema píratar og forysta Landverndar, sjá, að engin glóra er í að gangsetja olíukyntar varaaflsstöðvar Vestfjarða til að anna raforkuþörf skemmtiferðaskipta. Þess vegna hefur téður Sturla Páll lög að mæla um raforkuskortinn, þótt með ólíkindum sé á Íslandi 2023. 

Vegna óstjórnar og misheppnaðrar lagaumgjarðar orkumálanna að hætti þröskulda samfélagsins siglir Ísland nú inn í Suður-Afríkanskt ófremdarástand með straumleysi vegna yfirálags og orkuskerðinga vegna orkuskorts.  Orkuskerðingar hafa verið staðreynd um langa hríð staðbundið, t.d. í Eyjafirði í tvo áratugi vegna ófullnægjandi flutningsgetu, þegar tekin er með í reikninginn raforka, sem óskað hefur verið eftir, en ekki fengizt.  Þetta hefur valdið þjóðfélaginu tugmilljarða ISK tekjutapi á ári.  

Nú er sú staða að koma upp á Vestfjörðum vegna rífandi gangs útflutningsgreina þar og fólksfjölgunar, að aðeins verður unnt að anna aukinni aflþörf Vestfirðinga með olíukyntum rafstöðvum.  Það er reginhneyksli og falleinkunn fyrir landsstjórnina, sem stöðugt gumar af endurnýjanlegum orkulindum og orkuskiptum. 

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, er ötull talsmaður heilbrigðrar skynsemi í orkumálum Vestfirðinga og hefur iðulega skrifað fróðlegar greinar í Morgunblaðið um þetta brýna mál, sem þolir ekki lengri bið og Þyrnirósarsvefn yfirvalda, því að trúverðugleiki stefnunnar um samdrátt koltvíildislosunar og orkuskiptin liggur við:  

"Í þágu Landverndar".

Greinin 26. júlí 2023 hófst þannig:

"Landvernd sendi Orkubúi Vestfjarða formlega beiðni 21. júlí 2023 um, að bregðast við meintum rangfærslum í grein umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 7. júlí [2023].  Það er óvenjulegt, að Orkubúið fái slíka beiðni.  Orkubúinu er málið hins vegar skylt og því sjálfsagt að leysa úr smávægilegum misskilningi, sem snýst reyndar ekki um, hversu mikið varaafl var framleitt með dísilolíu né um það, hversu stórt kolefnisspor þeirrar framleiðslu var, heldur um það, hver á varaaflsstöðina, sem um ræðir.  Það er því upplýst hér á sama vettvangi, að umrætt varaafl er í eigu Orkubús Vestfjarða.  Gagnvart kolefnissporinu og verndun loftslags er eignarhaldið á varaaflsstöðinni aukaatriði, en varmaorkuna, sem um ræðir, þarf að framleiða með dísilolíu vegna skorts á raforku [úr endurnýjanlegum orkulindum - innsk. BJo]. Það er óumdeilt."

Þessi sparðatíningur Landverndar er broslegur og varpar aðeins ljósi á, að þar á bæ kemst fólk aldrei að kjarna málsins, heldur reynir með heimatilbúnum og hrásoðnu fótalausu þvaðri að halda því fram, að ekki vanti meiri raforku í landið, því að Íslendingar framleiði manna mesta raforku úr endurnýjanlegum orkulindum í heiminum.  Þetta er sértrúarflokkur, sem einföldustu rök bíta ekki á.  Þessi einföldu rök eru, að andrúmsloftið er aðeins eitt, og ef þessi raforka væri framleidd annars staðar, þá kæmi sú raforka að megninu til úr varmaorku jarðefnaeldsneytis og að mestu úr kolum. 

Þá er gengið um á skítugum skónum í húsi staðreyndanna í aumkunarverðri tilraun til að sverta íslenzka stóriðju. Því er haldið fram, að Norðmenn framleiði ál með meiri orkunýtni en Íslendingar.  Svona samanburður er afar villandi, því að staðreynd er, að með hærri straumstyrk og stærri kerum fæst að öðru jöfnu hærri orkunýtni.  Tæknimönnum íslenzku álveranna og öðrum starfsmönnum þeirra hefur tekizt að bezta rekstur þeirra m.v. það, sem fræðilega er talið unnt með þeirri kertækni, sem hér er í brúki. Ef Landvernd og píratar vilja spara raforku til álveranna, eru þeir að biðja um gríðarlegar fjárfestingar þar, en það er tómt mál að tala um slíkt, nema samtímis megi og verði til raforka til að auka framleiðsluna umtalsvert.  Grillur Landverndar og pírata eru legío, en þau taka sjálf sig hins vegar gríðarlega alvarlega og gefa sér forsendur sjálf og þykjast þannig alltaf hafa rétt fyrir sér.  Þetta er bara hlægilegt viðhorf illa upplýsts safnaðar.

Talnameðferð þessa safnaðar er óboðleg, og ættu skussar að forðast viðfangsefni, sem þeir ráða ekki við.  Skussarnir bera kinnroðalaust saman epli og appelsínur og draga af því ályktanir, sem þeir höfðu áður klambrað saman.  Þeir tóku orkunotkun rafgreiningar ISAL og lögðu orkunotkun steypuskálans við.  ISAL hefur einmitt gert átak í rafvæðingu steypuskálaofna og stundar nú framleiðslu á eftirsóttri, sérhæfðri vöru í steypuskála sínum, sem eru álsívalningar af ýmsum lengdum, gildleikum og melmum. Þetta bera skussarnir saman við orkunotkun rafgreiningar einvörðungu hjá Norsk Hydro í Noregi og fá út, að ISAL noti 3 % meiri raforku á hvert áltonn en Norsk Hydro eða 100 GWh/ár.  Niðurstaða dæmisins er vitlaus hjá pírötum og Landvernd, en athygli vekur, hversu munurinn er þó lítill.  Hann nemur aðeins um  þriðjungi af árlegri aukningu raforkuþarfar landsins, og hvað eru þessi illa upplýstu afturhaldsöfl búin að tefja virkjanaframkvæmdir hér um mörg ár ?

 

"Orkubú Vestfjarða vinnur nú að rannsóknum vegna 9,9 MW Kvíslatunguvirkjunar í Steingrímsfirði og 20-30 MW Vatnsdalsvirkjunar inn af Vatnsfirði. Með tilkomu þeirra virkjana mætti draga úr framleiðslu raforku með dísilolíu á Vestfjörðum um 90 %.  Auk þess vinnur Orkubúið að jarðhitaleit bæði á Ísafirði og Patreksfirði.  Nýting jarðhita gæti minnkað þörfina á raforku til kyndingar.  Virkjanaáformin munu að sjálfsögðu þurfa að hljóta lögbundna skipulagsmeðferð og fara m.a. í umhverfismat.  Orkubúið telur þó, að hægt sé að tryggja lágmarksáhrif á umhverfið í báðum þessum virkjanakostum."

Þakka ber Orkubússtjóranum fyrir þessa áhugaverðu upplýsingagjöf um leið og lýst er þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að styðja Vestfirðinga á þeirri vegferð, sem þarna er lýst, til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og draga úr sótmengun og losun CO2.  Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er hið langminnsta á landinu, og samfélaginu (ríkisvaldinu) ber skylda til þess að jafna þann aðstöðumun, sem nú stendur Vestfirðingum fyrir þrifum. Í þessum efnum hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mikilvægu hlutverki að gegna.  Hann hefur lýst yfir siðferðilegum stuðningi við þessi áform Vestfirðinga, en þau verða ekki í askana látin.  Hann verður að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala varðandi Vatnsdalsvirkjun.  Væmið malarafturhaldið í þéttbýli suð-vestur-hornsins mun rísa upp á afturfæturna í formyrkvuðu ofstæki sínu, og það getur orðið harðsnúinn pólitískur bardagi.  Menn verða einfaldlega að verða tilbúnir til að láta sverfa til stáls gegn svartnættinu, sem hér tröllríður húsum.     

   

 

 


Torskiljanlegir stjórnarhættir matvælaráðherra

Nú standa öll spjót á matvælaráðherra.  Það er sama, hvar hún drepur niður fæti sem ráðherra.  Alls staðar er sviðin jörð.  Ekkert grær í fótsporum hennar.  Þetta verður ekki útskýrt með öðrum hætti en þeim, að þarna fari stækur kommúnisti sínu fram.  Kommúnisti ber enga virðingu fyrir lögum í lýðræðisþjóðfélagi.  Í huga stæks kommúnista verða lögin að víkja fyrir pólitík flokksins.  Einmitt þannig vinnur Svandís Svavarsdóttir.  Það ber hins  vegar vott um dómgreindarskort á háu stigi að halda, að hún geti vaðið uppi sem ráðherra með lögbrotum og frámunalega óvandaðri stjórnsýslu.  Allt ber að sama brunni.  Manneskjan er óhæf til að gegna ráðherraembætti.  Það verður að gera meiri kröfur um vitræna stjórnsýslu og forystu á einu sviði framkvæmdavaldsins en téð Svandís hefur burði til að sýna. Þessi ráðherra verður að taka pokann sinn. 

Svandís Svavarsdóttir sætir nú athugun Umba, Umboðsmanns Alþingis, sem hefur sent henni spurningar, sem eru áþekkar spurningum Teits Björns Einarssonar, Alþingismanns, sem hefur með réttu verið afar gagnrýninn á stjórnarathafnir þessa alræmda ráðherra gagnvart fyrirtækinu Hval hf og starfsmönnum þess. 

Morgunblaðið greindi frá nokkrum spurningum Umba í frétt 26.07.2023 undir fyrirsögninni:

"Umboðsmaður vill svör um bann".

Svörin munu áreiðanlega bögglast fyrir þessum óhæfa ráðherra, því að Teitur Björn, Alþingismaður, hefur enn ekki fengið nein efnisleg svör við sínum spurningum.  Hvað á að láta þennan ráðherra komast lengi upp með að þumbast við ?  Hún hefur áður af öðru tilefni bara yppt öxlum og sagzt vera í pólitík.  Þetta er bara alls ekki boðlegt í lýðræðisríki, þar sem ráðherra er með öllu óheimilt að taka lögin sínar hendur, enda gilda valdmörk.  Fyrir borgarana er óviðunandi að búa við þessi ósköp.  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur enga burði til að losa sig við óværuna.  Þess vegna hlýtur að koma til uppgjörs á stjórnarheimilinu. 

"Umboðsmaður óskar svara við ýmsum spurningum varðandi stjórnsýslu ráðherra.  Þ.á.m., að reglugerðin sé byggð á sjónarmiðum um velferð dýra með það fyrir augum að afla gagna um, hvort ákvæði laga um velferð þeirra og hvalveiðar séu uppfyllt við veiðar á langreyði með þeim aðferðum, sem beitt er við veiðarnar.  Segir, að um velferð dýra gildi sérstök lög og samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um veiðiaðferðir í samráði við þann ráðherra, sem fer með stjórn veiða á villtum fuglum og spendýrum, en það er umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra."  

 

  Ráðherrarnir, sem þarna eru tilgreindir, hafa látið undir höfuð leggjast að setja reglugerð um veiðar langreyða, og þess vegna má ætla, að bann matvælaráðherra um veiðar á langreyðum í sumar hvíli á ónógum hlutlægum viðmiðunum að lögum.  Ráðherrann tók geðþóttaákvörðun sem sjálfskipaður umboðsmaður hvala í fljótræði, og m.a. þess vegna hangir þessi aðför að rekstri fyrirtækis og afkomu fjölda manns í lausu lofti lagalega séð.  Þetta er gríðarlega alvarlegur fingurbrjótur fyrir ráðherra.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að stjórnarandstæðingar á Alþingi kvaka ekkert núna í fjölmiðlum, nema miðflokksmenn ?  Eru hinir jafnblindir og ráðherrann ?  Líka töfrum gædda bankadrottningin, sem með töfrasprota breytti 3 M í 100 M og ætlaði að sleppa undan jaðarskatti launa með mismuninn ?

"Þá er bent á, að þótt matvælaráðherra fari með yfirstjórn mála, sem varða velferð dýra, sé framkvæmd stjórnsýslunnar á hendi Matvælastofnunar, þ.m.t. að takmarka eða stöðva starfsemina.  Segir, að í minnisblaði skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu komi fram, að ekki hafi verið sett reglugerð um framkvæmd veiða á hvölum, og því geti Matvælastofnum einungis stuðzt við ákvæði laga um velferð dýra við mat á því, hvort staðið sé að veiðum í samræmi við lögin. Telur skrifstofan nauðsynlegt að setja reglugerð um veiðiaðferðir, svo [að] tryggt sé, að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnstum sársauka.  Skýringa er óskað á því, hvort heimilt hafi verið í þessu ljósi að byggja reglugerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hvalveiðar, en ekki á lögum um velferð dýra. 

Ráðherrann fór offari í aðför sinni að löglegri atvinnustarfsemi í landinu og sýndi fyrirlitningu sína á lögum og reglum í landinu.  Svona nokkuð geta borgaralegir stjórnmálaflokkar ekki látið viðgangast þegjandi og hljóðalaust.  Var ekkert bókað um þetta mál í ríkisstjórn ?  Geta samstarfsflokkar vinstri grænna í ríkisstjórn setið þar áfram, á meðan þessi löglausi ráðherra situr þar að störfum ? Sé svo, verður að spyrja, hvenær sé eiginlega komið nóg af glópsku og yfirgangi eins ráðherra, svo að stjórnarslitum varði að sitja áfram með þeim ráðherra í ríkisstjórn ?

"Einnig er spurt, hvernig álit fagráðs um velferð dýra hafi getað orðið tilefni til þess, að ráðherra gaf út reglugerð á grundvelli laga um halveiðar, en ekki horft til úrræða Matvælastofnunar í málinu.  Ekki verði séð, að hlutverk fagráðs um dýravelferð sé að vera matvælaráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga á sviði sjávarútvegsmála."

Allt blasir þetta við ólögfróðum, upplýstum almenningi.  Það liggur í augum uppi, að ráðherrann, sem að eigin sögn tekur ákvarðanir út frá pólitík og hvorki út frá samkomulagi stjórnarflokkanna, góðum stjórnsýsluháttum né landslögum, greip þetta tækifæri, sem þessi undarlega skýrsla fagráðsins til Matvælastofnunar var(hún átti ekkert erindi til ráðherrans fyrir en að fenginni umsögn Matvælastofnunar), og kastaði skít í tannhjól stjórnarsamstarfsins með því að ganga í berhögg við ríkisstjórnarsáttmálann að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Svo geipar gamall Hafnarfjarðarkrati, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um það, að söguleg þáttaskil hafi orðið, því að þingmenn sjálfstæðisflokksins séu farnir að hóta stjórnarslitum. 

Eiga sjálfstæðismenn þá að láta sér lynda hvað sem er í stjórnarsamstarfi ? Ef svo væri, þá brygðist Sjálfstæðisflokkurinn hugsjónum sínum og fylgismönnum. Atlaga Svandísar Svavarsdóttur að stjórnarsamstarfinu er ekki aðeins atlaga að samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni, heldur að formanni vinstri grænna, forsætisráðherranum, sem hefur talað mörgum vinstri græningjanum þvert um geð, þegar hún talar um mikilvægt friðarhlutverk NATO í Evrópu og fagnar stækkun þess, sem geri varnir Vesturlanda gegn öfga- og ofbeldisöflum enn öflugri. Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar sýnt, að hún er enginn bógur til að gegna stöðu forsætisráðherra, þegar í harðbakkann slær, því að hún hefur ekki bolmagn til að knýja Svandísi til að standa við stjórnarsáttmálann eða víkja ella.  Þess vegna er þessi ríkisstjórn hennar ekki á vetur setjandi.  

"Þá er spurt, af hverju umsögn fagráðs um málið hafi ekki verið borin undir Matvælastofnun áður en ákvörðun um reglugerðarsetninguna var tekin, og hvernig það geti samrýmzt reglum stjórnsýsluréttar og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti."

Ráðherrann gefur einfaldlega ekkert fyrir viðmið atvinnurekanda síns, ríkisins, né siðlega hegðun, því að hún "er í pólitík".  Það þýðir, að Svandís Svavarsdóttir tekur geðþóttaákvarðanir eins og henni einni sýnist, að samrýmist hennar pólitík.  Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu, að losna verður hið fyrsta við þetta fyrirbrigði úr pólitík.   

 

 

 


Hernaðarbrölti Rússlands verður að linna

Með hernaðarbrölti sínu í Úkraínu frá 24.02.2022 hafa Rússar staðfest, hversu frumstæðir þeir eru hernaðarlega og algerlega tillitslausir um örlög varnarlausra borgara og sinna eigin óbreyttu hermanna.  Gjörspilltir og siðlausir stjórnendur rússneska hersins og klíkan í Kreml láta sig engu skipta, hversu margir varnarlausir borgarar Úkraínu falla eða særast, og þeir etja hermönnum sínum út í opinn dauðann. Jafnvel er stór stífla vatnsorkuvers sprengd í loft upp, og stærsta kjarnorkuver Úkraínu er í öryggislegu uppnámi mánuðum saman.

Herkænsku eða nútímalegri herfræði er ekki fyrir að fara hjá Rússaher.  Allt er þar kunnuglegt frá heimsstyrjöldunum og hernaðinum í Afganistan og Sýrlandi.  Flugher Rússa hefur mistekizt að ná yfirráðum í lofti, og herþotur Úkraínumanna eru of fáar og úreltar frá Ráðstjórnartímabilinu til að þær geti haft í fullu tré við þær rússnesku.  Þess vegna hafa herirnir grafið sig niður í skotgrafir, eins og tíðkuðust í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Öðru máli mun gegna, þegar úkraínski flugherinn tekur að beita hinum öflugu og fjölhæfu bandarísku orrustuþotum, F16.  Úkraínumenn munu þá öðlast yfirráð í úkraínskri lofthelgi, og þannig munu þeir geta beitt bryndeildum sínum af fullum þunga, en þeim hefur ekki verið beitt í neinum mæli enn þá.  Þá verður rússnesku glæpahyski og drykkjurútum sópað út úr Úkraínu, og landamærin frá 1991 endurheimt.  Hvað þá verður um stórrússneska prumpið er óvíst, en það mun þó líklega ekki bera sitt barr eftir þetta. Óþarft er að gera því skóna, að bylting hugarfarsins muni eiga sér stað og að Rússar muni taka upp lýðræðislega stjórnarhætti.  Það gætu hins vegar Hvít-Rússar gert hjá sér.  

KGB-karlfauskurinn frá Leningrad, nú Sankti-Pétursborg, hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum, ef ósigur rússneska hersins blasir við.  Það er eintómur derringur fantsins.  Bandaríkjamenn hafa látið rússnesku valdaklíkuna vita, að þá muni NATO-flugflotinn taka völdin í rússneskri lofthelgi og leggja í rúst, það sem honum sýnist.  Kínverjar munu og hafa varað fantinn í Kreml við slíku athæfi, og hann sjálfur er of huglaus til að þora að storka eigin örlögum með þeim hætti. 

Nú hefur þessi sami siðblindingi neitað að framlengja leyfi Úkaínumanna til að skipa matvörum út í hafnarborgum sínum og að tryggja flutningaskipum frið á leiðinni yfir Svartahafið.  Hann veit, að afleiðingin verður hungursneyð í Afríku, en hann skeytir engu um mannslíf og hefur aldrei gert.  Það, sem fyrir honum vakir, er að skapa flóttamannaöldu til Evrópu, eins og hann gerði um árið frá Sýrlandi með því að sprengja upp borgir þar.  Illmennið svífst einskis. 

Joschka Fischer, fyrrverandi leiðtogi þýzkra græningja og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, viðrar mikils verð þýzk sjónarmið til grimmdarlegs hernaðar Rússlands í Evrópu, sem hófst með árás á austurhéruð Úkraínu og Krím 2014 og alls herjar innrás 24.02.2022 með stefnu Rússahers á Kænugarð.  Greinin bar vafasama fyrirsögn m.v. efnistökin:

"Aukin hætta er af veikingu Rússlands".

Þessu máli er allt öðru vísi varið.  Það mun stafa áframhaldandi stórhætta af útþenslustefnu Rússlands, ef nú verður tekið á þeim með silkihönzkum.  Til að tryggja frið og velsæld í Evrópu eftir föngum á næstu áratugum verða Vesturveldin að hrista af sér slenið, hætta að hlusta á bullið úr Kreml og láta Úkraínumönnum hið allra fyrsta í té vopnin og þjálfunina, sem þeir fara fram á, til að gera þeim kleift að hrekja illfyglin heim til sín og endurreisa þar með landamærin frá 1991. Síðan þarf strax í kjölfarið að verða við ósk Úkraínustjórnar um aðild að NATO. 

Rússland hefur opinberað ógeðslegt eðli sitt, og þegar hættunni af kínverska drekanum er bætt við, verður ljóst, að lýðræðisríkin verða að vígbúast.  Það gera þau bezt með auknum fjárveitingum til landvarna og fjárfestingum í hátæknibúnaði í því skyni.

"Hauslaust stríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í nærri 1,5 ár, og glæpsamlegt framferði innrásarinnar hefur ekki breytzt. 

Stórt kjarnorkuveldi [gjörspillt með allt í niðurníðslu-innsk. BJo] vill neita nágranna sínum - "bræðraþjóð" um áður viðurkenndan tilverurétt.  Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur valið að heyja landvinningastríð.  Ef hann nær markmiðum sínum, verður Úkraína innlimuð í Rússland og hverfur af kortínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.  

En með hverri vikunni, sem líður, bendir sífellt [fleira] til, að áætlanirnar hafi snúizt í höndunum á honum.  Langt frá því að skila skjótum sigri er "sérsök hernaðaraðgerð" Pútíns orðin að blóðugu klúðri og þrautagöngu, sem Rússar gætu allt eins tapað. Þótt "aðgerðin" hafi vissulega kostað stórar fórnir í Úkraínu, hefur hún einnig valdið almenningi í Rússlandi miklu tjóni."

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að við miskunnarlausa fasistastjórn í Kreml er að eiga og að þessi lýsing þýzka útanríkisráðherrans fyrrverandi á sér hliðstæðu í Þriðja ríki Adolfs Hitlers.  Leifturstríð Þriðja ríkisins voru þó árangursrík í byrjun, en í höndum afturúrkreistinga frumstæðs Rússlands alger bögglingur.  Afleiðingin af landvinningastefnu nazistastjórnarinnar í Berlín, sem háð var undir formerkjum þarfar yfirburðakynstofns fyrir "Lebensraum", reyndist alger tortíming þessarar hugmyndafræði, og eftir lá Þýzkaland í rúst.

Rússland þykist nú heyja stríð til að uppræta nazisma í Úkraínu.  Þetta bull á sér sögulegar skýringar, sem Pútín hefur kosið að draga fram til að kynda undir þjóðernistilfinningum Rússa, sem misnotaðar hafa verið til að koma því inn hjá þeim, að þeir eigi að ráða yfir öllum slavneskum þjóðum og Eystrasaltsþjóðunum að auki hið minnsta.  Þessar sögulegu rætur eru frá 1941, frá upphafi "Operation Barbarossa" í júní það ár.  Þá sáu frelsishetjur Úkraínu sér leik á borði að koma ár sinni fyrir borð hjá Wehrmacht og þýzkum stjórnvöld með því að bjóða fram aðstoð sína í hernaðinum gegn Ráðstjórnarríkjunum gegn því, að Úkraína fengi sjálfstæði eða losnaði a.m.k. úr krumlum Moskvustjórnarinnar. 

Þetta hentaði þó ekki kynþáttakenningasmiðum Þriðja ríkisins, sem voru algerlega úti að aka, og í hópi herforingja í Wehrmacht voru menn, sem eygðu gagnið, sem Wehrmacht gæti af þessu haft, enda Úkraínumenn alltaf verið orðlagðir hermenn.  Pólitískir skussar fengu því svo framgengt, að Abwehr, leyniþjónusta Wehrmacht, handsamaði forystumenn uppreisnar Úkraínumanna. 

Sjálfstæðisvitundin hefur alla tíð verið fyrir hendi á meðal Úkraínumanna frá því, að þeir illu heilli rötuðu undir illskeyttan hramm zarsins í Moskvu. Ef andskotinn sjálfur hefði ráðizt á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941, hefðu Úkraínumenn leitað bandalags við hann gegn ógnarstjórninni í Kremlarkastala.

"Á örlagatímum uppreisnar Prígosíns reyndist Rússland Pútíns vera það, sem gagnrýnendur hans höfðu lengi haldið fram: mafíuríki, sem skortir öfluga innviði - en er því miður með eitt stærsta kjarnorkuvopnabúr heims.  

Þetta var stund sannleikans, og vísun Pútíns til ársins 1917 og falls keisarans var reyndar mjög viðeigandi.  Þessi atburður minnir sannarlega á atburðina það ár, sem leiddu ekki til einnar, heldur tveggja byltinga - fyrst í febrúar og síðan í október."

Saga Rússlands er hörmuleg.  Þeir báru aldrei gæfu til að þróa stjórnarfar í átt til lýðræðis, eins og annars staðar í Evrópu, þar sem valddreifing átti sér stað frá konungi/keisara til aðalsmanna, sem smám saman lögðu meiri völd í hendur héraðsþinga og/eða þjóðþings.  Í Rússlandi hafði zarinn alla tíð öll völd að hætti Mongólanna, sem réðu yfir Rússum í 300 ár, og aðallinn stóð að skattheimtu fyrir zarinn, en lýðurinn var einskis metinn og valdalaus.  Þess vegna voru byltingarnar 1917 ferð Rússa úr öskunni í eldinn, og enn stjórnar zarinn, nú með hjálp ólígarka (auðmanna), rotnu þjóðfélagi, þar sem lýðurinn má síns einskis, enda eru þjóðfélagsvandamálin svakaleg. Rússar eiga mjög erfitt með að fóta sig í nútímanum og eru engan veginn í stakk búnir til að ráða yfir nokkurri annarri þjóð, enda hafa þeir ekkert fram að færa annað en mannhatur og spillt hugarfar. 

"Því nær sem [dregur að endalokunum], [þeim mun] meiri verður hættan á, að Kreml grípi til órökrænna aðgerða, eins og að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna.  Uppreisn Prígósíns gefur okkur sýnishorn af ringulreiðinni, sem bíður.

Næstum allt er hugsanlegt núna, frá upplausn Rússneska sambandsríkisins til uppgangs annarrar öfgaþjóðernisstjórnar með drauma nýkeisarasinna um endurreisn keisaraveldisins." 

Í heimsstyrjöldinni síðari greip nazistastjórnin í Berlín aldrei til gashernaðar, og hún lagði meiri áherzlu á þróun flauga Werner´s von Braun á Penemünde en á að framleiða kjarnorkusprengju.  Það er margt sameiginlegt með fyrrverandi einræðisherra í Berlín og núverandi einræðisherra í Moskvu.  Báðir bjuggu/búa við algera yfirburði andstæðingsins í lofti með undantekningu fyrstu ára Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Ógnin, sem þeim stafaði/stafar af miskunnarlausri hefnd úr lofti er svo mikil, að hvorugur þorði/þorir að grípa til gjöreyðingarvopna.  Rússar eru þó uppvísir af að beita fosfórsprengjum á óbreytta borgara Úkraínu, svo að ekki sé nú minnzt á klasasprengjurnar, sem þeir hafa beitt á óbreytta borgara, og nú fá rússneskir hermenn að finna til tevatnsins með þeirri sprengjutegund líka, þótt margfalt hærra hlutfall bandarískra klasasprengja (97 %) springi við lendingu en þeirra rússnesku (40 % - 50 %).  

Það er rétt hjá J. Fischer, að þróun mála innan Rússneska sambandsríkisins er ófyrirsjáanleg núna.  Það á ekki að draga úr einbeitingu Vesturveldanna við það verkefni að efla úkraínska herinn svo mjög, að hann nái að ganga á milli bols og höfuðs á rússneska hernum með lágmarks mannfalli í eigin röðum og reka steppuskrílinn austur fyrir lögmæt landamæri Úkraínu frá 1991. Það yrði mesta friðaraðgerð, sem nú er hugsanleg fyrir Evrópu.  Síðan getur rotin yfirstétt Rússlands borizt á banaspjótum.  

Stuðningsfólk Kremlverja á Vesturlöndum hafa þar verið nefndir "useful idiots" sem á íslenzku mætti kalla gagnlega grautarhausa - ga-ga.  Þeir finnast einnig á Íslandi.  Málflutningur þeirra er vellingur úr áróðursvél Kremlar, og undirtónninn er Bandaríkjahatur og fyrirlitning á vestrænu stjórnskipulagi og lifnaðarháttum.  Ga-ga halda því fram, að landvinningahernaður Rússa gegn Úkraínu sé NATO að kenna.  Það er álíka gáfulegur málflutningur og brennuvargsins, sem reynir að koma sökinni á eldvarnir og slökkvilið. 

Yfirleitt er ekki heil brú í málflutningi ga-ga fremur en í söguskýringum siðblindingjans í Kreml.  Vilji úkraínsku þjóðarinnar er alltaf sniðgenginn í málflutningi ga-ga.  Yfirgnæfandi meirihluti hennar, óháð móðurmáli, vill leggja allt í sölurnar til að losna úr klóm rússneska bjarnarins, sem alla tíð hefur reynt að eyða menningu Úkraínu og kúga íbúana á hinn svívirðilegasta hátt.  Mál er, að linni og að Úkraínumenn fái frið og öryggi til að lifa sem frjálsir menn og konur í eigin landi, yrkja hina frjósömu jörð sína og nýta aðrar auðlindir í lögsögu sinni og eigið hugvit til að endurskapa þjóðfélag sitt að eigin höfði með vestræn gildi í öndvegi.  Til þess þurfa þeir vernd NATO og til að njóta hennar verður land þeirra að vera þar fullgildur aðili. Það verður verðugt viðfangsefni NATO að að vernda þá og að halda austrænum steppudýrum í skefjum. 

Vesturveldin eiga alls ekki að ljá eyra við gjamminu úr Kreml, ekki frekar en ætti að leyfa sjúklegum brennuvargi að leggja orð í belg um eldvarnir, hvað þá að skipuleggja þær. Rússar eru alls staðar til bölvunar, og þeir geta einskis trausts notið. 

 

   

 


Strengjabrúður í samsæri ?

Í baksýnisspeglinum er talsverður draugagangur varðandi framgang sóttvarnaryfirvalda hérlendis og erlendis í baráttunni við Kófsfarsóttina 2020-2021, sem var endurtekning á baráttu riddarans hugumstóra og þjóns hans við vindmyllurnar á Spáni forðum. Framganga yfirvaldanna var frumstæð og laus við leiðtogahæfileika, en þrælslundin var yfir og allt um kring.  Óhæfur heilbrigðisráðherra vinstri grænna gaf auðvitað tóninn í fíflaganginum hérlendis, en hún virðist hafa verið strengjabrúða ósvífinna auðvaldsafla erlendis.  Verður það grafskrift Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að hafa sýnt óheftum alþjóðlegum auðvaldsöflum slíka undirgefni, að stórsá á ríkissjóði og heilsufari þjóðarinnar, eins og umframdauðsföll 2022-2023 í landinu bera vott um ? 

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur rannsakað alþjóðlega sögu Kófsins og sviðsettrar baráttu yfirvalda við öndunarfærasjúkdóminn C-19 af völdum líklega manngerðrar veiru, SARS-CoV-2, og fjölmörgum afbrigðum hennar. Morgunblaðsgreinar hans um afrakstur rannsóknarvinnu hans, sem hann á heiður skilinn fyrir, enda umtalsverð að vöxtum, eru í einu orði sagt sláandi. 

Hann færir þar rök fyrir því, að um alheimssamsæri valdsækinna gróðapunga sé að ræða, sem yfirvöldin   hafi í ótta sínum við hið óþekkta og það, sem miklu verra er, eftir að staðreynda um tiltölulega  meinlitla, bráðsmitandi pest, hafði verið safnað og þær birtar, haldið áfram á braut gagnrýnislausrar undirgefni við óprúttin hagsmunaöfl, sem leika sér að örlögum mannkyns.  Fyrirsögn Morgunblaðsgreinar hans 18.07.2023 er ekki að innihaldi skorin við nögl:

"Glæpur aldarinnar: Planið".

Það er vert að grípa niður í dúndurgrein kollega Jóhannesar:

"Í Bandaríkjunum bönnuðu heilbrigðisyfirvöld fyrst flestar covid-mælingar, þannig að um miðjan marz 2020 voru skimanir þar hundraðfalt sjaldgæfari en á Íslandi.  

Þennan skort á skimunum nýtti Fauci sér til að ofmeta dánartíðnina tífalt og miða hana bara við þessar örfáu mælingar, en ekki við raunverulegan fjölda smita.  Samtímis birti Imperial College (einn skipuleggjenda Event 201) skýrslu, sem spáði allt að 500 k covid-andlátum í Bretlandi, nema útgöngubanni yrði beitt.  Því var svo fylgt. 

Allt var gert til að ofmeta hættuna.  Nóg var, að einstaklingur hefði mælzt með covid mánuði fyrir andlát, til að andlát væri flokkað sem covid-andlát.  Afleiðingin var veruleg fækkun skráðra krabbameins[tilvika] og hjartaáfalla.  Covid læknaði þannig sjúka með því að drepa þá með bókhaldsbrellum og öðru." 

Þetta fúsk með tölur, sem magnaði upp óttann við faraldurinn, er staðreynd, og hún getur átt sér ýmsar skýringar, en nú hafa Jóhannes Loftsson et. al. leitt að því sterkar líkur, að megindrættir þessara svika við almannaheill hafi verið skipulagðir áður en faraldurinn brast á.  Það er glæpur gegn mannkyni.  Að taka síðan upp á þeim fáránleika að fordæmi einræðisstjórnarinnar í Kína að loka fólk inni í sóttkví gerði ekkert annað en að magna upp ótta almennings. 

Hvað sem alþjóðlegu samsæri líður er ljóst, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda voru með öllu ábyrgðarlausar og lausar við vísindalega skírskotun. Brotalöm stjórnkerfisins var þannig leidd fram í dagsljósið. Ratar voru við stjórnvölinn. Stjórnvöldum er ekki hægt að treysta. Einstaklingarnir verða að treysta á sjálfa sig, sína dómgreind og kunnáttu til að varðveita heilsu sína og sinna. 

"Í lok 2020, eftir ár af frelsisskerðingum í krafti neyðarréttar, þurftu yfirvöld um allan heim að réttlæta ofbeldið og voru því til í hvaða tilraunabóluefni sem er gegn því að komast fremst í röðina. 

En til að græða sem mest þurftu allir [að láta] bólusetja sig.  Fyrir sjúkdóm, sem var 1000-falt skæðari þeim elztu en þeim yngstu, hefði dugað að bólusetja bara þá elztu.  Þá var byrjað að ljúga að fólki, að bóluefnin stöðvuðu smit, þótt engar mælingar sýndu fram á slíkt, og gangsett eldra plan um bóluefnavegabréf og bóluefnaskyldu.  Einnig var sagt, að ein bólusetning yrði nóg.  Það var líka lygi, því [að] strax í janúar 2021 var vitað, að virkni bóluefnisins féll um 50 %-75 % þremur mánuðum eftir bólusetningu."

 Þetta er hroðaleg lýsing á heilbrigðisyfirvöldum, sem brugðust algerlega þeirri skyldu sinni að verja almenning eftir beztu getu og vísindalegu þekkingu.  Framgangan er með algerum ólíkindum.  Í raun og veru þarf hæfa rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessu máli með það í huga, hvort lagagrundvöllur er hérlendis til saksóknar fyrir refsivert athæfi.  

"Nær allar þessar aðgerðir yfirvalda voru óvísindalegar.  Hraðsuðubóluefni, viðurkenna ekki loftborinn vírus, banna covid-skimanir, nota bókhaldsbrellur til að ýkja dánartíðni, lækna með lífslokameðferð, gefa banvæna skammta af HCQ, nota grímur gegn vírusum, lofa hjarðónæmi og bara einni sprautu í stað áskriftar. 

Allt var þetta ráðlagt af aðilum tengdum Event 201, sem höfðu ríka hagsmuni af því, að bóluefnaleiðin yrði farin.  Planið gekk upp og þeir, sem stóðu að því, stórgræddu.  Gróðinn hefði samt orðið mun meiri, ef ekki hefði verið fyrir eina óþægilega staðreynd.  Bóluefnin voru eitruð." 

Að annað eins og þetta skuli komast á kreik í kjölfar móðursýkinnar, sem ríkti vegna faraldursins á árunum 2020-2021, sýnir, að maðkur var í mysunni, en ef um "Plan" (samsæri) var að ræða, var það óhemju frumstætt.  Hvers vegna var veirunni hleypt út áður en sómasamlegum og lögboðnum tilraunum með bóluefnin var lokið ?  Verða þessi mRNA-bóluefni aldrei barn í brók ?  Á að trúa því, að vísvitandi hafi verið ákveðið að gera tilraun á mannkyninu með óprófuð bóluefni, sem vísbendingar voru fyrir hendi um, þegar bráðabirgðaleyfin fyrir þeim voru veitt, að voru gölluð ?

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband