Færsluflokkur: Bloggar
13.7.2025 | 15:32
"Viðrinishugtakið" auðlindarenta
Hugtak, sem erfitt hefur verið að henda reiður á, "auðlindarenta", hefur verið notað til að réttlæta viðbótar skattheimtu af fyrirtækjum í vissum greinum, einkum sjávarútvegi. Raunverulega er ekki mögulegt að greina, hversu stór hluti hagnaðar fyrirtækis stafar af aðgangi að auðlind, hvort sem hann er keyptur, leigður eða gjaldfrjáls. Þess vegna er mikill misskilningur á ferð um hugtakið auðlindarenta og kalla má það "viðrinishugtak". Mjög gróf einföldun við að leggja mat á þetta er að athuga mun á hagnaði atvinnugreinar með aðgang að takmarkaðri auðlind og hagnaði annarra atvinnugreina. Þegar sjávarútvegur á í hlut, hefur þessi aðferð aldrei gefið til kynna umframhagnað yfir 5 ára tímabil eða lengur. Þess vegna er það þjóðsaga, að í íslenzkum sjávarútvegi leynist auðlindarenta.
Óvitaskapur fyrstu ríkisstjórnar K. Frost. felst í því að nota augljóslega falskar forsendur til að hækka hagnað útgerðanna með verðviðmiðun á bolfiski frá uppboðsmörkuðum á Íslandi, sem eru jaðarmarkaðir undir áhrifum verðtilboða erlendra, niðurgreiddra fiskverkenda og á uppsjávarfiski með tilvísun til ósambærilegrar verðmyndunar í Noregi, sem er ekki frjáls. Þetta eru lúalegar aðfarir ríkisvalds, sem er beinlínis í herleiðangri gegn grunnatvinnuvegi landsins og þar með gegn sjávarbyggðum vítt og breitt um landið.
Þann 7. júlí 2025 birtist grein í Morgunblaðinu eftir þann, sem mest fræðilegt vit hefur á þessum málum hérlendis að beztu manna yfirsýn. Þetta er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, sem sérhæft hefur sig í fiskihagfræði. Greinin bar yfirskriftina:
"Kvótaverð, renta og meint auðlindarenta - Ásgeiri Daníelssyni svarað".
Þar er ýmis gullkorn að finna fyrir leikmann á þessu sviði, sem engan á kvótann:
"ÁD (Ásgeir Daníelsson) byggir mjög á því, sem hann kallar auðlindarentu í grein sinni. Gallinn við þann málflutning er, að hagnað í atvinnuvegum er ekki unnt að rekja til þeirra náttúruauðlinda, sem þeir kunna að nýta. Ástæðan er einföld. Þegar aðföng eru mörg, eins og alltaf er í framleiðslu og svo sannarlega í fiskveiðum, er það alþekkt hagfræðileg niðurstaða, að ekki er unnt að heimfæra hagnaðinn eða hluta hans til einhverra einna aðfanga, eins og tiltekinnar náttúruauðlindar. Öll aðföng, þ.m.t. vinnuaflið, tæknin, fjármunirnir og stjórnunin, eiga hér sameiginlegan hlut að máli, og þáttur hverra og einna er ekki aðgreinanlegur og því ekki mælanlegur. Af þessari ástæðu er það afar villandi, svo [að] ekki sé meira sagt, að kenna hagnað við einhver tiltekin aðföng, sem notuð eru í framleiðslunni, hvort sem það er vinnuaflið í s.k. vinnugildiskenningu sósíalismans áður fyrr eða náttúruauðlindir nú á dögum.
Til að sjá, hversu fráleitt það er að telja, að hagnaður í fiskveiðum stafi frá auðlindinni og engu öðru, nægir að leiða hugann að því, að þessi hagnaður var sáralítill á 6. og 7. áratug síðustu aldar, þegar fiskistofnar voru miklu stærri en nú."
Ráðherrarnir, t.d. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, bera greinilega ekkert skynbragð á þessi mál og hafa ekki helztu hugtök á valdi sínu. Hrokinn og einfeldnin eru of mikil til að leita sér ráðgjafar hjá fiskihagfræðingum, sem henni væri þó í lófa lagið, áður en vaðið er áfram út í óvissu stefnumáls, sem orðið hefur til í lýðskrumi og einhvers konar refsiáráttu gagnvart atvinnurekstri, sem staðið hefur sig vel í alþjóðlegri samkeppni, en er einmitt undir hæl samkeppni mjög stórra fyrirtækja, sem að hluta njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila í landi sínu. Þessi samkeppni er ein af ástæðum þess, að engin merki um auðlindarentu hafa fundizt í íslenzkum sjávarútvegi. Það er dæmigert fyrir ríkisstjórn vinstri manna að gera sér enga grein fyrir, hversu hættulegt það er þessum grunnatvinnuvegi, að ríkisvaldið skuli nú ætla að höggva í knérunn hans. Þar eru ljóslega óvitar á ferð eða stjórnmálamenn, sem finna ekki til ábyrgðar gjörða sinna.
"Renta [hagræn renta] getur bæði verið meiri og minni en hagnaður. Renta getur t.d. verið jákvæð, þótt hagnaður sé neikvæður. Tilvera rentu er því ekki mælikvarði á getu til að greiða skatta. Því er það einungis til að flækja málið og villa fólki sýn að blanda rentu, svo [að] ekki sé minnzt á viðrinishugtakið auðlindarentu, inn í umfjöllun um skattlagningu á sjávarútveg."
Með þessu hrekur Ragnar Árnason meginrökin að baki s.k. auðlindagjöldum eða viðbótar skattheimtu af sjávarútvegi. Það er ekki hægt að mæla rentu fyrirtækjanna af aðgangi að takmörkuðum auðlindum eða auðlindum yfirleitt. Þar að auki er ekkert, sem bendir til, að nokkur renta stafi af hinni takmörkuðu auðlind sjávarútvegsins, sem aðgangur hefur verið keyptur að á markaði vegna þess, að hagnaður þessara fyrirtækja er engu meiri en annarra hérlendis að jafnaði. Það eru til rökréttar skýringar á því. Önnur er hörð samkeppni á erlendum mörkuðum, þar sem um 95 % framleiðslunnar er umsett. Hin er sveiflukennd fiskgengd á miðunum og í raun minnkandi leyfilegur afli undanfarið.
Af þessum sökum er hækkun veiðigjaldanna alger óvitaskapur. Ríkisvaldið í óvitaskap sínum sagar í sundur greinina, sem það situr á, og með fylgja sjávarútvegssveitarfélögin og þjóðarhagur allur. Þetta eru dæmigerðir sósíalistískir stjórnarhættir, sem alltaf leiða til aukinnar fátæktar almennings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2025 | 10:40
Stjórnarflokkunum eru mjög mislagðar hendur - einnig í orkumálum
Það fara ekki saman orð og athafnir hjá Samfylkingunni í veigamiklum málum. Þannig hafði hún á orði fram yfir síðustu Alþingiskosningar, að hún hygðist "rjúfa kyrrstöðu" orkumálanna. Þegar til kastanna kom, heyktist hún svo rækilega á því, að orkuskortur blasir við a.m.k. næsta áratuginn.
Svo virðist sem ráðherrana skorti allan dug til að taka til hendinni og gera það, sem gera þarf til að viðhalda traustum hagvexti í landinu. Þess í stað hengja þau sig í gamlar bábiljur vinstrisins. Þriðji áfangi rammaáætlunar var nýlega til umræðu á Alþingi, og þar heyktust stjórnarliðar á að tryggja landinu næga raforku næsta áratuginn. Um var að ræða vatnsaflsvirkjanir með orkugetu samtals 3517 GWh/ár. Minni hluti Umhverfis- og samgöngunefndar vildi setja allar virkjanirnar í nýtingarflokk, en meiri hlutinn samþykkti aðeins 760 GWh/ár í nýtingarflokk og heyktist þar með á að "rjúfa kyrrstöðuna". Þetta er upp í nös á ketti m.v. við viðbótar þörfina á næstu 10 árum til 2035 samkvæmt Landsneti, sem nemur 5000 GWh/ár. Vinstri flokkarnir féllu á orkuöflunarprófinu og kom engum á óvart.
Þann 21. júní 2025 birtist stutt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir varaformann Sjálfstæðisflokksins, þingmanninn Jens Garðar Helgason. Hún hófst þannig:
"Í ræðu og riti hefur ráðherrum, þingmönnum og talsmönnum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um að rjúfa "kyrrstöðuna" í orkumálum. Vakti það von í brjósti, að flokkar, sem margir hverjir hafa áður barizt gegn frekari orkuöflun á Íslandi, væru búnir að sjá ljósið í þessum efnum. En svo er hins vegar ekki. Flokkarnir eru samir við sig, þá ekki sízt flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin."
Einu sinni afturhald, ávallt afturhald, má segja um þá vinstri moðsuðu, sem nú er við stjórnvölinn á Íslandi og hefur ekki áhuga á öðru, eðli sínu samkvæm, en að kasta skít í tannhjól atvinnulífsins og skilur ekki frekar en Karl Marx, hvað knýr áfram þessi tannhjól og þar með hag almennings í landinu. Forystusauðir ríkisstjórnarinnar eru sljóir og hafa enga grein gert sér fyrir því, hvaða áhrif gríðarlegar skattahækkanir á grunnatvinnuvegina hafa á hagvöxt í landinu. Sauðirnir drepa efnahagslífið í dróma með því að fara ránshendi um fjármuni grunnatvinnuveganna og í tilviki sjávarútvegsins er það gert undir yfirskini auðlindarentu, sem ríkissjóður eigi rétt á. Ekkert er fjær lagi. Hvorki skilja sauðirnir hugtakið auðlindarenta né kunna þeir að reikna, hvað af hagnaði sjávarútvegsins stafar af henni. Sósíalistarnir ala á öfund og hrifsa auð frá sjávarútvegsbyggðum til ríkisins. Þetta er sósíalistísk forsjárhyggja, sem er ekki þjóðhagslega hagkvæm hugmyndafræði og leiðir yfirleitt til fátæktar.
"Í dag eru á sjóndeildarhringnum 5 virkjanakostir og stækkanir hjá Landsvirkjun. Þeir eru:
- Stækkun Þeistareykjavirkjunar (590 GWh/a)
- Stækkun Sigöldu (10 GWh/a)
- Vaðölduver (440 GWh/a)
- Blöndulundur (350 GWh/a)
- Hvammsvirkjun (720 GWh/a)
Samtals eru þetta 2110 GWh/a.
Að viðbættum 760 GWh frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þá eru þannig alls 2870 GWh/a í nýtingarflokki. Til samanburðar gerir spá Landsnets ráð fyrir því, að orkuþörf til ársins 2035 muni aukast um 5000 GWh/a."
Frammistaða stjórnarmeirihlutans er enn algerlega ófullnægjandi fyrir áætlaða orkuþörf landsins næsta áratuginn. Með því að lúta leiðsögn þessa meirihluta um málefni landsins stefnir í háa verðbólgu m.v. mörk Seðlabankans, mikinn halla á ríkissjóði og þar með skuldasöfnun á kostnað komandi kynslóða, minni fjárfestingar atvinnuveganna en undanfarin ár og lítinn hagvöxt. Ofan á þetta bætist orkuskortur, sem leiða mun til hækkunar raforkuverðs og mikils tekjutaps atvinnuvega og samfélags. Allt eru þetta gamalkunnir fylgikvillar sósíalismans, en núverandi stjórnarflokkar villtu á sér heimildir í aðdraganda Alþingiskosninga og þóttust mundu standa að nýju framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar, eftir að afturhaldið VG hafði staðið allt of lengi á bremsunum. Nú sitja landsmenn uppi með viðbrunninn graut sósíalismans, þar sem kokkarnir ætla að eyða fé og tíma í innanlandsdeilur um Evrópusambandið og bjölluat í Berlaymont.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2025 | 14:55
Evrópa á tímamótum
Evrópa stendur nú skyndilega frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að geta ekki lengur reitt sig á hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna, ef ráðizt verður á eitthvert NATO-land. Þar af leiðandi er hafin hervæðing í Evrópu, sem sumpart beinist að því að styrkja Úkraínuher og sumpart að eflingu eigin hers. Þetta mun hafa mikla útgjaldaaukningu ríkissjóða í för með sér, enda ætla NATO-ríkin að stefna að 5,0 % af VLF til hernaðartengdra mála, 3,5 % til að efla herina sjálfa og 1,5 % til innviða tengdra landvörnum.
Hvernig ætlar ríkisstjórn Íslands að verða við þessum gríðarlegu kröfum ? Það verður tæpast liðið öllu lengur, að eitt ríkasta land Evrópu sé stikk frí, þegar kemur að eflingu varna Evrópu. Sú starfsemi á Íslandi, sem næst kemst hernaði, þótt hún sé það alls ekki, Landhelgisgæzlan og Víkingasveitin, er fjársvelt. Skattfé verður væntanlega ekki vel varið með því að stofna íslenzkan her, en það þarf að halda utan um það fé, sem varið er til varnarmála með miðlægum hætti, svo að hægt sé að gefa NATO trúverðugar upplýsingar um fjárveitingarnar. Innviðirnir, sem flokka má til varnarmála, eru væntanlega aðallega flugvellir, hafnir og vegir. Allir þessir þættir eru nú sveltir, svo að veruleg útgjöld ríkisins virðast nú framundan, ef landinu á að verða vært í NATO.
Núverandi ríkisstjórn virðist ekkert vita, hvað hún er að gera verðmætasköpun, samkeppnishæfni og opinberum tekjum, þegar hún dembir miklum kostnaðarauka á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Henni er þess vegna ekki treystandi til að standa undir þeim mikla útgjaldaauka, sem hér um ræðir, af einhverju viti. Landinu er ekki stjórnað af heilbrigðri skynsemi til að hámarka verðmætasköpun, heldur af gömlum fordómum í garð ákveðinnar starfsemi og skilningsleysi á hagfræðilegum hugtökum á borð við auðlindarentu, sem forsætisráðherra segir markast af "huglægu mati", sem er kolrangt mat hjá henni.
Þann 3. desember 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla, undir fyrirsögninni:
"Efnahagur Evrópu er að staðna".
"Er efnahagsleg stöðnun í Evrópu afleiðing ófullnægjandi keynesískra efnahagshvata, eða er þrútnun og hnignandi velferðarkerfum um að kenna ? Í öllu falli er ljóst, að þeir, sem trúa því, að einfaldar aðgerðir, eins og að auka fjárlagahalla eða lækka vexti, geti leyst vandamál Evrópu, eru raunveruleikafirrtir.
T.d. hefur ágeng örvunarstefna Frakklands þegar þrýst fjárlagahallanum upp í 6 % af landsframleiðslu, og skuldahlutfall landsins hefur farið úr 95 % árið 2015 í 112 %. Árið 2023 stóð Emmanuel Macron, forseti, frammi fyrir víðtækum mótmælum vegna ákvörðunar sinnar um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 - en þótt sú ráðstöfun væri þýðingarmikil, dugði hún skammt til að mæta áskorunum í ríkisfjármálum. Eins og Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, varaði nýlega við, eru efnahagsmál franska ríkisins á ósjálfbærri vegferð, ef ekki verða gerðar víðtækar umbætur."
Þetta er ekki dæmigerð lýsing fyrir ESB-löndin, heldur er Frakkland óvenju djúpt sokkið í skuldafen vegna ofþenslu ríkisbáknsins. Hins vegar gefur þetta til kynna veikleika Evrópusambandsins-ESB, sem er grafalvarlegt á viðsjárverðum tíma í Evrópu, þar sem Bandaríkjaforseti sýnir henni kuldalegt þel og hefur hótað að verja hana ekki, verði á hana ráðizt, og Pútín, Rússlandsforseti, stendur blóðugur upp að öxlum í stríði við Úkraínumenn og beitir þar ótrúlega lúalegum brögðum á borð við eiturefnaárásir og eldflauga- og drónaárásir á íbúðarhús og barnaheimili.
"Þar sem búizt er við, að raunvextir á háþróuðum ríkisskuldum verði áfram háir - nema kreppa gangi í garð - getur Frakkland ekki einfaldlega klórað sig út úr skulda- og lífeyrisvandamálum með hagvexti. Þess í stað mun þung skuldabyrði landsins nánast örugglega skerða langtímahorfur í efnahagsmálum. Árin 2010 og 2012 birtum við Carmen M. Reinhart 2 greinar, þar sem við héldum því fram, að óhóflegar skuldir væru skaðlegar hagvexti. Syfjuleg og skuldsett hagkerfi Evrópu eru gott dæmi um þetta, eins og rannsóknir hafa síðan sýnt fram á. Þung skuldabyrði hindrar hagvöxt með því að takmarka getu ríkisstjórna til að bregðast við samdrætti og kreppu. Þar sem hlutfall skulda af landsframleiðslu er aðeins 63 %, hefur Þýzkaland nægt svigrúm til að hressa upp á brakandi innviði sína og bæta menntakerfi sitt, sem er ekki að skora hátt."
Þetta er óbjörguleg lýsing á Evrópu nútímans, sem nú stendur á tímamótum. Bandaríkin eru hætt stuðningi sínum við Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni. Sá lúalegi gjörningur verður lengi í minnum hafður, enda stílbrot á stefnu Bandaríkjamanna um að verja lýðræðisþjóðir og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, þegar hart er að þeim sótt af heimsvaldasinnuðum einræðisríkjum. Smjaður og undirlægjuháttur Bandaríkjaforsetans Trumps gagnvart Rússlandsforsetanum Pútín er blaut tuska í andlit flestra forystumanna Evrópuríkjanna. Úr því að Bandaríkjaþing ekki stöðvar þessa ósvinnu, er Bandaríkjunum héðan af ekki treystandi. Ísraelsmenn treystu ekki Bandaríkjastjórn fyrirfram fyrir upplýsingum um 200 flugvéla loftárás sína á Íran aðfararnótt 13. júní 2025 af ótta við, að upplýsingarnar lækju til Kremlverja, bandamanna Írana. Þetta ástand er algerlega óeðlilegt og óviðunandi.
Við þessar örlagaríku aðstæður rísa Þjóðverjar upp og hlaupa í skarð Bandaríkjamanna í stuðningi við Úkraínumenn. Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu var hlutfallið á milli fjölda sprengikúlna rússneska og úkraínska hersins 10:1, en er nú 2:1 og fer minnkandi. Rheinmetall hefur tífaldað framleiðslu sína á sprengikúlum á 3 árum.
Efnahagur Þjóðverja er ótrúlega öflugur. Þeir hafa losað sig úr viðjum rússneskrar orkuafhendingar og við það a.m.k. tvöfaldaðist orkukostnaður heimila og fyrirtækja. Nú eru þeir að umbylta Bundeswehr og halda Úkraínu uppi fjárhagslega og hernaðarlega. Rússar senda hverja bylgjuna á fætur annarri af illa þjálfuðum og illa búnum hermönnum út í opinn dauðann án þess að verða nokkuð ágengt. Loftvarnir Úkraínumanna fara batnandi, þótt enn sleppi of mikið í gegn. Má þar nefna IRIS-T þýzka skammdræga loftvarnakerfið, sem þegar hefur gert mikið gagn. Þá eflist úkraínskur vopnaiðnaður með hverjum mánuðinum, og eru t.d. nú jafngildi þýzku Taurus-flauganna í fjöldaframleiðslu. Bundnar eru vonir við úkraínska gagnsókn á 4. ársfjórðungi 2025.
"Mitt í þessu pólitíska umróti glímir Þýzkaland við vaxandi áskoranir, sem ógna stöðu þess sem efnahagslegs stórveldis Evrópu. Þar sem stríðið í Úkraínu heldur áfram að draga úr trausti fjárfesta, hefur þýzkur iðnaður enn ekki náð sér á strik, eftir að hætt var að flytja inn ódýra rússneska orkugjafa. Á sama tíma hefur bílaiðnaðurinn verið eftirbátur erlendra keppinauta í skiptum frá bensínknúnum bílum yfir í rafbíla og útflutningur til Kína - þar sem hagkerfið er einnig í hnignun - hefur dregizt verulega saman."
Við þessar aðstæður hefur þýzki ríkissjóðurinn aukið skuldsetningu sína, enda nýtur hann beztu kjara. Friedrich Merz losaði um skuldabremsuna, enda liggur nú mikið við. Framtíð Evrópu er í húfi. Evrópuleiðtogar ætla ekki að leggja örlög hennar í hendur Trumps. Evrópa er nú fjárhagslegur og hernaðarlegur bakhjarl Úkraínu. Úkraínumenn sýna mikla sköpunargleði í hernaðinum gegn innrásarlandinu og hergagnaiðnaðinum, sem Evrópa hefur eflt mjög.
"Þó að flest önnur evrópsk hagkerfi [en það þýzka-innsk.BJo] standi frammi fyrir svipuðum áskorunum, gæti Ítalía staðið sig aðeins betur með Giorgiu Meloni sem forsætisráðherra - en færa má rök fyrir því, að hún sé áhrifaríkasti leiðtogi álfunnar. Spánn og nokkur smærri hagkerfi, sérstaklega Pólland, gætu fyllt upp í tómarúmið, sem Þýzkaland og Frakkland skilja eftir sig. En þau geta ekki að fullu vegið upp á móti slæmu ástandi efnahagslegu stórveldanna tveggja innan ESB."
Eftir að Friedrich Merz tók við kanzlaraembætti Þýzkalands eftir sambandsþingskosningarnar í febrúar 2025 á það ekki lengur við, að Meloni sé áhrifaríkasti leiðtogi leiðtogi Evrópu. Skeleggur og einarður málflutningur Merz hefur orðið ríkjum Evrópu hvatning til mikils stjórnmálalegs og efnahagslegs átaks til að frjáls og lýðræðisleg Evrópa geti staðið á eigin fótum hernaðarlega og komið á friði í Evrópu, sem tryggi landamæri Úkraínu, aðild landsins að Evrópusambandinu og öryggi landsins gagnvart innlimunaráráttu og útþenslustefnu Rússlands. Bandaríkjamenn standa gegn aðild Úkraínu að NATO, og er það enn eitt dæmið um þjónkun stjórnvalda þar í landi við Kremlarherrana. Kreml kemur ekki við, hvernig Úkraína hagar varnarmálum sínum. Í þeim efnum hafa Finnar sýnt fagurt fordæmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2025 | 16:39
Furðulegt framferði hunds um nótt
Nú hafa orðið vinslit á milli Rússadindilsins Elons Musks og forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og mun Elon vinna að því að bola Trump úr embætti með löglegum leiðum. Elon gegndi í upphafi seinna kjörtímabils Trumps hlutverki niðurskurðarmeistara á rekstri alríkisins. Niðurskurður hans olli fjölda uppsagna og jafnvel niðurlagningar stofnana með miklu uppnámi í samfélaginu. Elon varð óvinsæll, og óvinsældirnar bitnuðu á sölu Tesla-bifreiðanna. Elon sá sér vænzt að hætta þessu pólitíska stússi fyrir óútreiknanlegan vingul sem yfirmann eftir fáeina mánuði í starfi, en um mánaðamótin maí-júní 2025 urðu vinslit, þegar Elon gagnrýndi harkalega fjármálaáætlun Trump-stjórnarinnar. Í fyrra varð halli á fjárlögum Bandaríkjanna trnUSD 1,83 og í ár stefnir í trnUSD 1,9 halla (trilljón = 1000 milljarðar). Þessi gríðarlegi halli ógnar nú fjármálastöðugleika Bandaríkjanna, enda fer notkjun bandaríkjadals í gjaldeyrisvarasjóðum ríkja minnkandi og verðgildi dalsins rýrnar.
Við þessar aðstæður brýtur Bandaríkjastjórn blað í viðskiptasögu og viðskiptastefnu Bandaríkjanna frá 1945 og fer í tollastríð við viðskiptalönd sín. Þekkingarleysi og dómgreindarleysi ráða hér för. Ætlunin er að enduriðnvæða Bandaríkin með því að fá fjárfesta til að reisa verksmiðjur, sem framleiða vörur, sem þróunarlönd og miðlungi iðnvædd lönd framleiða nú, svo og að verja verksmiðjur, sem eiga erfitt uppdráttar nú. Þetta er allt saman borin von hjá MAGA (Make America Great Again) fólkinu. Bandaríkin eru með þessu og öðru framferði Trump-stjórnarinnar að glata trausti margra þjóða heims, þ.á.m. hefðbundinna bandamanna sinna, sem forysturíki hins vestræna heims. Þjóðir selja nú bandarísk ríkisskuldabréf, sem hefur neikvæð áhrif á stöðu og styrk bandaríkjadals.
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, gerði alþjóðaviðskipti að umfjöllunarefni í Morgunblaðinu 3. júní 2025 undir fyrirsögninni:
"Frjálsari viðskipti, meiri velmegun".
Greinin hófst þannig:
"Um allan heim eru menn að vakna til vitundar um kosti frjálsra viðskipta [ekki þó MAGA - innsk. BJo]. Eftir margra ára fríverzlunarþreytu og vaxandi verndarstefnu segir meirihluti Bandaríkjamanna nú, að Bandaríkin ættu að sækjast eftir alþjóðlegum fríverzlunarsamningum, á meðan Evrópusambandið gerir fríverzlunarsamninga eins hratt og það getur, og jafnvel nágrannar og keppinautar á borð við Kína, Suður-Kóreu og Japan hafa samþykkt aukið samstarf."
Hjörtur J. Guðmundsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, hefur um árabil fært sín rök fyrir því, að víðtækur fríverzlunarsamningur við Evrópusambandið verði Íslandi hagfelldari en aðildin að EES. Ísland er í fríverzlunarsamtökunum EFTA. Þetta er athygliverð umræða, t.d. ef Íslendingar hafna nýjum aðlögunarviðræðum við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem Sólhvarfastjórnina fýsir að kasta Íslendingum út í og virðist ætla að nota varnarmálin sem rök fyrir. Það hefur enn engin umræða farið um það hérlendis, hvort Íslendingar kjósi að gegna herskyldu í Evrópuher.
"Ávinningur og kostnaður fríverzlunarstefnu koma ekki jafnt niður. Auðug lönd njóta tiltölulega minna góðs af af frjálsari viðskiptum, og hluti vinnuafls þeirra ber óhóflega byrði. En þrátt fyrir þetta sýna ritrýndar rannsóknir hagfræðinga frá Kaupmannahafnarhugveitunni, að frjálsari viðskipti eru enn yfirgnæfandi ábatasöm, jafnvel fyrir rík lönd."
Í fyrri hluta þessa texta er skýringin á fljótræðislegum ákvörðunum núverandi forseta Bandaríkjanna, sem var fremur frambjóðandi MAGA en Repúblikanaflokksins, sem hefðbundið hefur stutt frjálsa samkeppni og óheft viðskipti, um tollastríð gegn flestum ríkjum heims. Í anda undirlægjuháttar síns gagnvart Rússlandi Pútíns, sleppti hann Rússlandi, en gæti þó með viðskiptalegum ráðstöfunum kippt fótunum undan hernaði Rússlands í Evrópu.
Seinni hluti textans sýnir, að rannsóknarvinna bandarísku stjórnarinnar á afleiðingum frjálsra viðskipta hefur nánast engin verið. Þetta er í anda vinnubragðanna, sem nú tíðkast í Washington. Það er eins og sirkusstjóri stjórni nú Bandaríkjunum til að hafa mikil læti og fjör, en vel ígrunduð stjórnarstefna hefur horfið í skuggann.
"Þegar við teljum ávinninginn af fríverzlun í ríkum OECD-löndum, er hann mun hærri en kostnaðurinn: trnUSD 6,7. Samtals þýðir þetta USD 7 ávöxtun fyrir hvern USD kostnaðar. Já, stjórnvöld ættu að vinna meira að því að hjálpa þeim launþegum, sem myndu verða fyrir mestum skaða af frjálsari viðskiptum, en jafnvel eftir að hafa tekið á næstum trnUSD 1 í kostnaði, eru yfir trnUSD 6 í ávinningi, sem allur ríki heimurinn getur notið. Engin ríkisstjórn getur leyft sér að hunza þennan mun stærri ávinning þrátt fyrir verulegan kostnað."
Í sögu forseta Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokkinum skera verk Donalds Trump sig algerlega úr. Hann beitir alríkisvaldinu með svo stórkarlalegum og grófum hætti, að líklegast hefur hann farið út fyrir lagaheimildir sínar, og hann tekur afstöðu með heimsvaldasinnuðum einræðisherra Rússlands gegn lýðræðisþjóð í Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni. Hann hefur jafnframt grafið undan NATO, svo að fælingarmáttur og trúverðugleiki þessa varnarbandalags er í uppnámi. Hér er um einstæða atburði í sögu Vesturlanda að ræða, og það er bara tímaspurning, hvenær bremsur lýðræðiskerfisins í Bandaríkjunum stöðva niðurrifsstarfsemi og einræðistilburði þessa manns.
"Lág- og lægri miðtekjulönd heimsins, sem eru heimili mrd 4 manna, munu þola einhvern kostnað af frjálsari viðskiptum, en sá kostnaður er tiltölulega lítill eða mrdUSD 15. Samt sem áður væri ávinningurinn af frjálsari viðskiptum frábær, trnUSD 1,4. Þar sem hagkerfi fátækari [hluta] heimsins eru mun minni, er þetta mun stærra mál. Og, vegna þess að kostnaður þeirra er mun lægri, skilar hver USD í kostnaði USD 95 í ávinningi. Það er ótrúleg ávöxtun fjárfestingarinnar."
Ekkert hefur stuðlað meir að jöfnun lífskjara í heiminum en fjárfestingar auðvaldsins á Vesturlöndum í framleiðslufyrirtækjum í fátækum löndum. Þessar fjárfestingar leiddu til niðurlagningar ýmissa framleiðslustarfa á Vesturlöndum, sem ekki voru lengur samkeppnisfær í heimi frjálsra viðskipta, en í fátækum löndum tóku lífsskilyrðin stakkaskiptum, þótt illa sé sums staðar farið með vinnuaflið. Að forseta Bandaríkjanna úr röðum Repúblikana skuli detta í hug að beita ríkisvaldinu til að snúa þessari þróun við, sýnir grundvallar skilningsleysi þar á bæ og grafalvarlega meinloku MAGA-hreyfingarinnar.
"Með næstum USD 7 í ávöxtun fyrir hvern USD í kostnaði fyrir ríkar þjóðir og ótrúlegum USD 95 í ávöxtun fyrir fátækari lönd bera frjálsari viðskipti hagnað með sér fyrir alla. Leiðin áfram er ekki verndarstefna, heldur umbætur til að tryggja, að ávinningur af viðskiptum verði ekki aðeins meiri, heldur að honum verði einnig betur skipt."
Skoðanir og orðfæri Donalds Trumps eru oftast hreinræktað lýðskrum, þekking og staðreyndir eru ekki innan getusviðs hans og fasistísk hegðun gera hann í raun óhæfan til að gegna stöðu Bandaríkjaforseta. Traust til Bandaríkjanna hefur beðið hnekki, og spurning, hversu langan tíma tekur að endurvinna traustið, og hvort næstu forsetar hafa mikinn áhuga á því. Trump hefur ráðizt gegn háskólasamfélaginu og innflytjendum, tekið sér vald yfir þjóðvarðliðinu, sem vanalega er á hendi hvers ríkis, og hann hefur sent landgönguliða til að skakka leikinn í mótmælum í Kaliforníu. Allt virðist snúast í höndunum á forsetanum, sem lítt kann til verka, og ýmsar forsetatilskipanir hans hafa verið dæmdar ólöglegar. Afskipti hans af óeirðunum í Kaliforníu hafa hellt olíu á eldinn, og mótmælin gegn honum hafa nú dreifzt um öll Bandaríkin. Að vera með illa gefinn gösslara í æðsta embætti Bandaríkjanna á eftir að reynast Bandaríkjunum og heiminum öllum dýrkeypt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2025 | 16:33
Áttavillt ríkisstjórn
Forgangsröðun verka hjá núverandi ríkisstjórn er í skötulíki. Hún virðist ekki vita í hvaða erindum hún er. Athygli vekur mikil ferðagleði forsætis- og utanríkisráðherra, en meira fer á milli mála, hvað þær eru að fara með málflutningi sínum á erlendri grundu. Forsætisráðherra hitti nýlega Mark Rutte í Brüssel, framkvæmdastjóra NATO, og var mikið í mun að komast upp í 1,5 % í hernaðarútgjöld af VLF. Til þess taldi hún með ýmsar innviðaframkvæmdir. Nú stefna ýmsar aðildarþjóðanna á 5 %. Skyldu ekki tilburðir af þessu tagi virka broslegir fyrir Rutte, Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Kaju Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins ?
Þann 17. febrúar 2025 birtist forystugrein í Morgunblaðinu, sem hét:
"Hættuleg forgangsröðun".
Þar var vitnað í Jón Pétur Zimsen, þingmann Sjálfstæðisflokksins:
""Enginn sómi er að þingmálaskrá hæstvirtrar ríkisstjórnar, hvað menntun og líðan barna varðar. Er bráðavandinn virkilega ekki ljós ? Við erum sem samfélag að bregðast börnum og ungmennum. Í málaflokkinum ríkir neyðarástand. Íslenzka æskulýðsrannsóknin staðfestir það. Með leyfi forseta: 75 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða daglega." 75 %, þar af 34 % daglega. 40 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða daglega. Þar af 17% daglega. Ungmenni eru meira einmana heldur en elzti aldurshópurinn á Íslandi. Er þetta ávarpað í þingmálaskrá ? Svarið er nei. Hornsteinn íslenzkunnar, lýðræðis og nýsköpunar, er lesskilningur. Hvar standa íslenzk 15 ára börn, hvað þetta varðar samkvæmt OECD ? Tæp 50 % drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi. Um helmingur drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi í gnægtalandinu Íslandi. Og rúm 30 % stúlkna er á sama stað. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá eru tæp 30 % 15 ára barna ekki með grunnfærni í skapandi hugsun. Og skapandi hugsun er það, sem getur skapað mikla fjármuni fyrir okkur. Þessi vinnubrögð hæstvirtrar ríkisstjórnar auka stéttaskiptingu og aðra misskiptingu í samfélaginu. Ólíkt þeim erum við í Sjálfstæðisflokkinum tilbúin með aðgerðir í þessum málaflokki. Við í Sjálfstæðisflokkinum viljum lyfta öllum börnum og hámarka möguleika allra til jafnra tækifæra. Börn eiga ekki að gjalda stöðu sinnar og stéttar.""
Hér er vitnað til frammistöðu nemenda við lok grunnskólanáms. Frammistaðan sýnir, að árangur grunnskólans hefur hríðversnað og er fyrir neðan allar hellur um þessar mundir. Bent hefur verið á skýringar á þessu, s.s. afleita námsskrá frá tíð Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra 2009-2013, skort á almennu hlutlægu mati - samræmdum prófum og skóla án aðgreiningar. Hið síðast nefnda er illframkvæmanlegt án þess, að komi niður á gæðum kennslunnar og gerir kennarastarfið nánast óbærilega erfitt. Grunnskólinn svíkur nemendur og samfélagið um góðan undirbúning fyrir sérhæfingu á framhaldsstigi. Það þarf að stokka grunnskólann upp, svo að hann gegni sínu hlutverki, eins og hann gerði t.d. á 7. áratug 20. aldar.
Það er ánægjulegt, að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa greint vanda grunnskólakerfisins og sé með úrbótatillögur. Við svo búið má ekki standa, því að gríðarleg sóun á hæfileikum virðist eiga sér stað núna, þar sem skólakerfinu mistekst að veita þriðjungi til helmingi nemenda grundvallarþekkingu til að byggja á. Þjóðfélagið getur ekki haldið svona áfram, en valdhafarnir í Stjórnarráðinu kæra sig kollótta. Það bendir til dómgreindarleysis þeirra og kolrangrar forgangsröðunar. Hagvöxtur og velmegun í þessu þjóðfélagi verða aðeins reist á þekkingu, og sé jafn hátt hlutfall æskunnar útilokað frá þekkingaröflun og hér virðist vera, er voðinn vís.
"Ríkisstjórnin hefur sett ýmis mál í forgang, svo sem að auka álögur á helztu útflutningsgreinar þjóðarinnar og veikja þær með því og öðrum ráðum. Hún vill vinna ötullega að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið með öllum þeim mikla tilkostnaði, sem slíku feigðarflani fylgir, og hún vill veikja helztu einkareknu fjölmiðla landsins, þá einu, sem eru líklegir til að geta fjallað um störf hennar á gagnrýninn hátt. En eins og Jón Pétur bendir á, þá sýnir ríkisstjórnin engan áhuga á að bæta hag nemenda í skólum landsins, sem margir hverjir mega búa við óviðunandi kennslu og jafnvel ótta við ástand, sem ekkert er gert til að takast á við. Þetta er forgangsröðun, sem er ekki aðeins öfugsnúin; hún er stórhættuleg."
Sú meinsemd í menntakerfinu, sem hér er fjallað um, hefur fengið að grafa um sig allt of lengi, og ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja til atlögu við hana. Þess í stað leggur hún sig fram við lýðskrumsmál, eins og að hækka skattheimtu af atvinnuvegunum. Hún er þar með að saga í sundur greinina, sem hagvöxtur og velmegun hvíla á. Þegar nógu mörgum kjósendum verða afleiðingarnar ljósar, mun refsingin verða óvægin.
Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin hefur ekki bein í nefinu. Utanríkisráðherra er skelegg um innrásarstríð Rússa í Evrópu, og dregur þá ályktun, að Íslendingum megi aðild að ESB helzt verða til halds og trausts. Er hún þá að hugsa um Evrópuher, sem Íslendingar yrðu herskyldir í ? Er hún búin að leysa vandann, sem af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni leiðir fyrir Ísland ? Fljótfærni og gösslaragangur einkenna um of þessa ríkisstjórn, og þess vegna verður Alþingi að halda í eyrun á henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2025 | 10:47
Búskaparhættir sólhvarfastjórnarinnar
Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu kjósendum fyrir kosningar, að þeir myndu ekki hækka skatta, næðu þeir völdum. Samt hafa ýmis gjöld hækkað, s.s. kolefnisgjald, en ríkisstjórnin hyggst höggva í knérunn útflutningsatvinnuveganna á mjög hæpnum efnahagslegum forsendum. Þessu má líkja við bónda, sem sumir mundu kalla búskussa, sem þarf að ná endum saman í fjárhag búsins og ákveður að láta útgjöldin að mestu eiga sig, þótt sum megi missa sig, en ákveður að spara við búpeninginn í fóðri. Þar með munu tekjur búsins dragast saman og hallinn af búrekstrinum aukast. Þessum búskaparháttum er trúandi á Bakkabræður og vinstri sinnaða stjórnmálamenn.
Áætlanagerð ríkisbúskaparins mun ekki vera upp á marga fiska, og útgjaldaáætlanir líklega stórlega vanáætlaðar vegna launahækkana og ákvörðunar um að láta ýmsar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fylgja launavísitölu í stað neyzluvísitölu. Nú hefur forsætisráðherra boðað erfiðar aðgerðir á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs til að ná hallalausum ríkisbúskapi 2027. Hvar mun stjórnin bera niður ? Það verður henni erfitt í ljósi kosningaloforða. Forystugrein Morgunblaðsins 3. apríl 2025 fjallaði um ríkisbúskapinn undir heitinu:
"Ábyrg ríkisfjármál".
"Í gær birtist í Viðskipta-Mogganum viðtal við Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áður hjá fjármálaráðuneytinu, sem varpar ljósi á brýna þörf fyrir bætta áætlanagerð og hagræðingu í ríkisfjármálum á Íslandi.
Sú þörf er ekki ný af nálinni, og þar hefur vissulega margt verið aðhafzt af hálfu fyrri fjármálaráðherra, sem til framfara horfir. Nefna má rammafjárlög og fjármálaáætlun, sem voru vissulega til bóta, en hafa einnig haft ýmsar óætlaðar afleiðingar, sem bæta þarf úr.
Þessa dagana ræða stjórnvöld fjálglega um stöðugleikareglu, sem kann að reynast lofsverð, en á hinn bóginn getur hún opnað nær sjálfvirkum skattahækkunum leið. Það verður að forðast í lengstu lög. Á hinn bóginn blasir við nauðsyn þess, að hér verði útgjaldaregla lögfest og hún höfð að meginreglu við stjórn opinberra fjármála, sem stuðlaði að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinum."
Útgjaldaregla af þessu tagi getur t.d. verið ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu, VLF. Nú mun takast að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs með sölu á Íslandsbanka. Á meðan s.k. innviðaskuld hangir yfir Alþingi, er ekki líklegt, að ríkisútgjöld verði lækkuð varanlega sem þessu nemur. Það má örugglega finna eignir í eignasafni ríkisins, sem borgar sig að selja, en aðrar er rétt að halda í af m.a. samkeppnisástæðum.
"Álfrún bendir á, að opinber útgjöld hafi víðast aukizt mikið á undanförnum árum, en efnahagsþrótturinn síður. Því hafi þess víða verið freistað að ná tökum á þeim með útgjaldagreiningum, kerfisbundinni skoðun á útgjaldagrunni til að leita hagræðingar án þess að laska hin félagslegu kerfi. Nokkur árangur hefur náðst í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Kanada. Slík nálgun hafi hins vegar ekki náð fótfestu á Íslandi að hluta til vegna þess, að menn hafi ekki fundið neinn hvata til slíkrar skoðunar í miðjum efnahagsuppgangi."
Ríkisstjórn K. Frost. lét í veðri vaka í upphafi ferils síns, að hún hefði mikinn hug á sparnaði, kallaði eftir sparnaðartillögum almennings, en hafnaði svo flestum tillagnanna, og enginn veit, hverjar lyktirnar verða. Hvers vegna fór hún ekki í alvöru átak með því t.d. að kalla til ráðuneytis Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá OECD ? Sýndarmennskan er of áberandi í fari ríkisstjórnarinnar.
Í lok forystugreinarinnar sagði:
"En það þarf líka góð vinnubrögð.Flaustrið við gerð frumvarpsdraga um tvöföldun veiðigjalda bendir til þess, að þeim sé stórlega ábótavant. Ekki verður séð, að þar hafi gagna verið aflað eða þau greind um afleiðingar svo stórkarlalegrar og fyrirvaralausrar breytingar, hvað þá að samráð hafi verið haft við hagaðila í sjávarútvegi, sveitarfélögum eða verkalýðshreyfingu, svo [að] augljós dæmi séu nefnd. Fjármálaráðherra virðist ekki einu sinni hafa reiknað út áhrif þessara breytinga á ríkissjóð. Þar verður að gera betur."
Téð frumvarp er svo ambögulegt, að það brýtur sennilega í bága við stjórnsýslulög og stjórnarskrá um álagningu skatta. Það er vegna þess, að verðviðmiðanir frumvarpsins, sem skattheimtan er reist á, eru út úr kú. Téð verð verða aldrei grunnur að ráðstöfunarfé fyrirtækjanna, sem skattheimtan beinist að. Varðandi bolfiskinn er um að ræða jaðarverð, sem erlendir fiskverkendur móta með tilboðum á uppboðsmarkaði, verksmiðjur í vernduðu umhverfi lægri launa en hér og stundum niðurgreiddar af hinu opinbera. Varðandi uppsjávarfiskinn er ætlunin að miða við verð í Noregi, sem myndast við markaðsaðstæður, sem ómögulegt er að varpa yfir á Ísland af nokkru viti. Grundvöllur hinnar væntanlegu nýju skattheimtu er þannig erlendur og ekki myndaður í viðskiptum fyrirtækjanna, sem á að heimta skattinn af. Þetta er óboðlegt með öllu og svo mikið óréttlæti, að enginn friður getur orðið um. Líklegt má telja, að til málshöfðana komi til að láta reyna á lögmæti vinnubragða af þessu tagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2025 | 16:45
Borgarlínan er stórlega áhættusamt verkefni
Ekkert einkafyrirtæki mundi nokkru sinni hætta fé sínu í verkefni á borð við Borgarlínuna. Hún getur enn síður en Strætó staðið undir sér fjárhagslega, og hún er meira að segja þjóðhagslega stórlega óhagkvæm. Hvernig stendur þá á því, að sumir stjórnmálamenn vilja leggja allt í sölurnar fyrir þetta verkefni ? Það er líklega vegna þess, að þeir trúa því, að svona eigi almenningssamgöngur að vera. Það er hins vegar alger misskilningur. Í sambærilegu þéttbýli og höfuðborgarsvæðið er, hefur hvergi verið farið út í sambærilega framkvæmd, enda er um að ræða kostnaðarhít með gríðarlegu óhagræði fyrir flesta vegfarendur og ávinningi fyrir fáa. Reksturinn verður myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hlut eiga að máli, og ríkissjóðs.
Þann 27. marz 2025 birtist grein í Morgunblaðinu eftir 2 valinkunna sómamenn með vit á málefninu, þá Ragnar Árnason, sérfræðing í hagfræði, og Þórarin Hjaltason, sérfræðing í samgöngumálum, undir fyrirsögninni:
"Borgarlínan er enn sem fyrr þjóðhagslega óhagkvæmt".
"Borgarlínan sem samheiti um endurbættar almenningssamgöngur er einungis hluti þessara hugmynda [Samgöngusáttmálans-innsk. BJo]. Öfugt við flestar hinna framkvæmdanna í samgöngusáttmálanum er borgarlínan afar óhagkvæm. Borgarlínan er hugsuð sem hraðvagnakerfi (Bus Rapid Transit eða BRT), þar sem samanlögð lengd borgarlínuleiða er 60 km. Hluta leiðanna munu borgarlínuvagnar aka eftir rándýru sérrými í núverandi gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, sem lokað verður fyrir almennri umferð. Áætlaður beinn kostnaður við borgarlínuna er um mrdISK 140, en þá er kostnaður við uppkaup á landi og fasteignum ekki með talinn. Það er án fordæma í hinum vestræna heimi að ráðast í jafndýrt og umfangsmikið hraðvagnakerfi á aðeins 250 k íbúa borgarsvæði.
Borgarlínan mun aðeins nýtast miklum minnihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta áfanga borgarlínu er fyrirhugað að fækka akreinum fyrir almenna umferð á ýmsum umferðarmiklum fjögurra akreina götum, m.a. Laugavegi og Suðurlandsbraut til þess að skapa sérrými fyrir borgarlínuna. Gera má ráð fyrir, að það sama verði uppi á teninginum í seinni áföngum borgarlínu.
Borgarlínan mun því valda miklum meirihluta borgarbúa verulega auknum töfum í umferðinni með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Kostnaðurinn við þessar tafir hefur ekki verið tekinn með í fram lögðum hagkvæmnisreikningum fyrir borgarlínuna, nema að mjög óverulegu leyti. Þetta er eitt af nokkrum atriðum, sem valda því, að það hagkvæmnismat er afar misvísandi, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Séu augljósustu villurnar leiðréttar, kemur í ljós, að borgarlínan er afskaplega óhagkvæm."
Það er falleinkunn fyrirhugaðrar útfærslu Borgarlínu, að ferðatími flestra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu lengist með þessu verkefni. Á framkvæmdatíma verkefnisins eru fyrirsjáanlegar gríðarlegar tafir. Reykjavík verður tafaborg á öllum sviðum, enda eru vinstri mönnum afar mislagðar hendur við stjórnun borgarinnar. Fjárhagur borgarinnar stendur tæpt, og brýn umferðarverkefni bíða fjárveitinga ríkisins, sem hefur komið sér upp innviðaskuld á þessu sviði og öðrum. Við þessar aðstæður er ekkert vit í því fyrir þessa aðila að fjárfesta í gæluverkefni vinstri manna, sem aldrei mun borga sig upp, heldur verða fjárhagsleg hengingaról.
"Hvað almannasamgöngur snertir, er miklu betri kostur að bæta leiðakerfi Strætó samkvæmt drögum, sem þegar liggja fyrir, og bæta við forgangsakreinum með hefðbundnum hætti, þar sem nú eru langar biðraðir bíla á álagstímum. Þetta er margfalt ódýrari leið en borgarlínan, ávinningurinn fyrir farþega strætisvagnanna verður næstum jafnmikill, og ekki verður lagður stórkostlegur viðbótar kostnaður á aðra vegfarendur."
Borgarfullrúar Samfylkingarinnar fengu þá flugu í höfuðið, að sporvagn væri höfuðborgarsvæðinu nauðsynlegur til að greiða úr samgöngum. Síðan var horfið frá þessu og sett gúmmídekk undir sporvagninn, en áfram er hann bundinn á miðjusettum sérreinum. Þetta er tæknilega og fjárhagslega fótalaus hugmynd, sem borgarfulltrúum Samfylkingar hefur samt tekizt að selja samstarfsfólki sínu. Eins og fram kemur hér að ofan, mæla umferðarsérfræðingar og hagfræðingar með allt annarri lausn, en vinstri flokkarnir vaða samt út í foraðið, blindir af órökstuddri hugljómun. Ríkisvaldið styður vitleysuna á fjárfestingar- og rekstrarstigi verkefnisins. Hér er á ferðinni hrikalegt bruðl með almannafé, eins og vinstri menn eru svo veikir fyrir, þegar þeir finna fyrir einhvers konar hugsjónaeldi. Þegar þessi hengingaról fer að draga úr súrefni ríkissjóðs og sveitarsjóðanna, sem hafa látið ginnast, geta pólitíkusarnir ekki borið því við að hafa ekki verið rækilega varaðir við.
"Borgarlínan er ein af þessum grillum, sem stundum grípa það afbrigði af stjórnmálamönnum, sem eru framkvæmdaglaðir á annarra kostnað, en skeyta lítt um hagsmuni almennings. Þrátt fyrir augljósa alvarlega meinbugi og þjóðhagslega óhagkvæmni þessarar framkvæmdar virðist hún engu að síður vera orðin að þráhyggju, sem þessir stjórnmálamenn geta ekki losnað undan. Með því að fela neikvæðan ábata borgarlínunnar inni í heildarábata af samgönguséttmálanum hafa þessir aðilar eygt snjalla leið til að koma borgarlínunni í framkvæmd þvert ofan í þjóðarhag."
Gengur fyrirhuguð Borgarlína e.t.v. einnig þvert gegn þjóðarvilja og sérlega gegn vilja íbúa sveitarfélaganna, sem hér eiga hlut að máli ? Vegna umfangs verkefnisins í kostnaði, tíma og töfum og miklum ágreiningi um það og gagnrýni úr hópi þeirra, sem gerst mega vita, væri eðlilegt, að almenn atkvæðagreiðsla færi fram um það í sveitarfélögunum, sem að því standa. Þar væru greidd atkvæði um þá 2 meginvalkosti, sem nú hafa verið kynntir til sögunnar, og væri niðurstaðan bindandi. Mun meiri sátt yrði um úrbætur á sviði almenningssamgangna, ef lausnin mundi vera valin af þeim, sem þurfa að búa við hana og standa að talsverðu leyti undir kostnaði við hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2025 | 17:49
Borubrattur fjári
Það er gorgeir í fjármála- og efnahagsráðherra, og hann þykist hafa tök á ríkisfjármálunum með skattahækkunum sínum. Í háskattalandi eins og Íslandi hafa skattahækkanir hins vegar neikvæð áhrif á hagkerfið, sem leiða til rýrnandi skattstofna, sem jafngilda minni tekjum hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þar að auki eru áætlanir ríkisstjórnarinnar um launakostnað ríkissjóðs óraunhæfar, ef litið er til sögunnar. Þessi ríkisstjórn mun ekki vinna bug á halla ríkissjóðs, heldur mun hún auka skuldir hans, ef fram fer sem horfir.
Innherji Viðskipta-Moggans skrifaði um þetta 2. apríl 2025 undir fyrirsögninni:
"Ríkissjóður ósjálfbær með óraunhæfar áætlanir".
"Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 í vikunni. Helzta forgangsmál er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs.
Samhliða er nefnt að bæta vegakerfið, utanríkismál, félags- og tryggingakerfið og heilbrigðismál. Framlög til samgöngumála verði aukin um 8 mrdISK/ár.
Ráðherra vísar síðan til þess, að fjármálaáætlanir síðustu ára eða allt frá því lög um opinber fjármál tóku gildi fyrir áratug hafi allar verið óraunhæfar.
Nú blasa við nýir tímar, segir Daði. Þetta mun allt breytast á árinu 2027, þegar ríkissjóður verður rekinn í jafnvægi. Sannarlega áhugavert, að nú muni allt breytast, þegar sama fólkið í grunninn er að gera áætlanirnar í ráðuneytinu. Áætlanir, sem allar voru óraunhæfar að mati ráðherra.
Daði bendir á, að þessu göfuga markmiði verði náð með auknum álögum á ökutæki, og hinir ýmsu skattar í þeim málaflokki, sem alla tíð hafa átt að fara í vegakerfið, hafa endað í öðrum verkefnum stjórnmálamanna. Daði bendir á, að mrdISK 7 eigi að fara í gatnakerfið 2026. Af hverju ekki strax; gatnakerfið er ónýtt núna ? Reyndar er innviðaskuld í vegakerfinu samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins, á bilinu mrdISK 265-290. Þetta útspil er því einungis gert til að friða háværar raddir samfélagsins um lagfæringar.
Annað, sem Daði nefnir, eru auknar álögur á sjávarútveginn. Það er reyndar ekki skattur að mati ríkisstjórnarinnar, heldur auðlindagjald. Það hljómar mun betur. Því miður fyrir ríkisstjórnina er alls ekki öruggt, að þetta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar sem sjávarútvegurinn muni laga viðskiptalíkan sitt að breyttum veruleika og ýmiss rekstur mögulega færast úr landi."
Sennilega er ríkisstjórninni alveg sama um það, hvaða áhrif þessi fyrirhugaða skattheimta hefur á ríkissjóð, því að hér er um að ræða pólitíska grillu, sem kratískir og sósíalistískir stjórnmálamenn hafa gengið með sem steinbarn í maganum og eru að gjóta núna. Þeir hafa enn ekki lært að greina á milli stjórnmála og trúarbragða. Fjandinn í trú þessara vandræðagemsa er kapítalisminn eða auðvaldið, og af lágkúrulegum öfundarorsökum hafa þeir persónugert auðvaldið með útgerðarmönnum. Þetta er auðvitað frumstætt viðhorf og fráleitt, en skýrir, hvers vegna frumvarp atvinnuvegaráðherra og málatilbúnaður allur eru svo óvönduð sem raun ber raunalega vitni um. Tilgangurinn helgar einfaldlega meðalið. Vonandi mun landsbyggðin refsa stjórnarflokkunum ríkulega í næstu kosningum, eftir að afleiðingarnar af þessum flumbrugangi koma í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2025 | 17:49
Refsiskattar K. Frost. stjórnarinnar
Ríkisstjórn K. Frost., Sólhvarfastjórnin, er gamaldags vinstri stjórn, óspennandi með öllu fyrir þá, sem vinna að verðmætasköpun og gera sér grein fyrir mikilvægi jákvæðrar hugmyndaauðgi (sköpunargáfu) og nýsköpun. Hvað sem líður fögrum fyrirheitum, vinna gjörðir K. Frost. beinlínis gegn aukinni verðmætasköpun og nýsköpun. Hún gerir þetta með skattheimtu langt handan meðalhófs á fyrirtæki og fjölskyldur í dulbúningi "leiðréttinga". Þegar byrðar misheppnaðs tollastríðs Bandaríkjastjórnar gegn heiminum leggjast ofan á háskattastefnu ríkisstjórnarinnar, horfir óbjörgulega við um hagvöxt á Íslandi. Með þessu áframhaldi munu áætlanir ríkissjórnarinnar margar hverjar falla um sjálfar sig, því að þær eru reistar á hagvexti í íslenzka hagkerfinu, sem illa ígrundaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu drepa í dróma.
Þann 2. apríl 2025 birtist viðtal Viðskiptamoggans við forstjóra eins sjávarútvegsfélagsins, Ísfélagsins, Stefán Friðriksson, undir fyrirsögninni:
"Gæti þýtt allt að þreföldun veiðigjalda".
"Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, varar við alvarlegum afleiðingum þeirra áforma stjórnvalda að hækka veiðigjöld og kolefnisgjöld á sjávarútveginn. "Fyrir Ísfélagið gæti þetta þýtt þreföldun veiðigjalda sökum þess, hvað við veiðum mikið af uppsjávarfiski - þetta eru háar upphæðir, sem hafa bein áhrif á rekstur, fjárfestingar og störf í sjávarútvegi", segir hann.
Félagið, sem rekur útgerðir og vinnslu í Vestmannaeyjum, Fjallabyggð og á Þórshöfn, er stórt í uppsjávarfiski og því sérstaklega viðkvæmt fyrir loðnubresti. Stefán segir, að núverandi stefna stjórnvalda sendi röng skilaboð til fyrirtækja, sem hafa verið að fjárfesta í nýsköpun og sjálfbærni.
"Það blasir við, að verið sé að slátra mjólkurkúnni - sjávarútvegurinn skilar miklum verðmætum til þjóðarbúsins og til samfélaga á landsbyggðinni bæði beint og óbeint. Í stað þess að hlúa að greininni stendur til að refsa henni með skattahækkunum."
Ríkisstjórnin er ónæm fyrir vandræðum, sem nú blasa við uppsjávarútgerðum. Fiskgengd í íslenzku lögsöguna er svo mikilli óvissu undirorpin, að afkoma útgerðarfélaganna er undir hælinn lögð. Þessu bregst ríkisstjórnin við með því að skella skollaeyrum og láta, eins og fiskimiðin séu gullnáma, sem hægt sé að ganga að og lítið sem ekkert þurfi að hafa fyrir að breyta í verðmæti. M.ö.o. hagar ríkisstjórnin sér, eins og hún hafi fundið bullandi auðlindarentu í útgerðunum. Ekkert er fjær sanni, og ríkisstjórnin er veruleikafirrt í gjörðum sínum gagnvart atvinnulífinu. Ekki var við öðru að búast af krötum, sem ekkert skynbragð bera á, hvernig verðmæti verða til, og horfa vonaraugum til Evrópusambandsins, ESB. Sú afstaða er rétt eitt merkið um veruleikafirringu í ráðherrahópnum. Ráðherrarnir eru haldnir trúargrillum, sem þeim dettur ekki í hug að reyna að sannreyna.
"Stefán bendir á, að sjávarútvegurinn sé burðarás í mörgum landsbyggðarsamfélögum.
"Við erum með starfsemi í samfélögum, þar sem sjávarútvegurinn skiptir miklu máli. Þegar skattar og álögur aukast svona mikið, dregur úr getu okkar til að halda áfram að fjárfesta og skapa aukin verðbæti", segir Stefán.
Ísfélagið hefur síðustu ár fjárfest umtalsvert. Á árinu 2024 hóf nýtt ísfiskskip, Sigurbjörg, veiðar, og frystiklefi á Þórshöfn er við það að klárast. Þá er í undirbúningi rafvæðing fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum.
"Við viljum nýta græna orku og vera hluti af orkuskiptunum, en raforka fyrir þennan iðnað er einfaldlega ekki [fyrir hendi] í nægilegu magni næstu ár", segir hann.
Samhliða veiðigjöldum hefur ríkisstjórnin boðað frekari hækkun kolefnisgjalds. Það mun bitna hart á sjávarútveginum. Stefán segir, að það sé þversagnakennt að leggja auknar álögur á grein, sem hefur staðið sig vel í sjálfbærnivinnu.
"Við höfum fjárfest í nýjum skipum, sem eru hagkvæmari og losa minna kolefni [á hvert veitt tonn - innsk. BJo]; það hefur orðið þróun í veiðarfærum og þau orðið léttari; fiskimjölsverksmiðjur hafa verið rafvæddar, en þrátt fyrir þetta eigum við að borga hærra kolefnisgjald án þess að eiga möguleika á að leita grænna lausna", segir hann.
Hann bendir einnig á, að orkuskipti í sjávarútvegi séu flókin og krefjist langtímastefnu og innviða.
"Þú breytir ekki skipum yfir í græna orku á einni nóttu, og það er langt í, að hægt verði að rafmagnsvæða skipaflotann á Íslandi. Við þurfum samvinnu, hvata og raunhæfa sýn, ekki refsiskatta", segir Stefán."
Það, sem hér er að gerast af hálfu ríkisvaldsins, er, að refsivendi þess er beitt af nýgræðingum í ráðherrastólum, reynslulausum af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þekkingarlausum á því hlutverki, sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa með höndum í sjávarbyggðum landsins. Afleiðingin verður veiking sjávarútvegsins og sjávarbyggðanna að sama skapi og fjármagn er dregið úr þessum byggðum til ríkissjóðs. Þetta er glórulaus stefna, sem verður að reka til baka við fyrsta tækifæri, enda eru forsendurnar arfavitlausar. Þær eru kaupgeta erlendra og niðurgreiddra fiskvinnslna á íslenzkum uppboðsmörkuðum og mörkuðum í Noregi. Fyrirfram var ekki hægt að ætla, að nokkrum heilvita manni dytti annað eins skemmdarverk í hug.
Kolefnisgjaldið á sjávarútveginn er dæmi um örþrifaráð vinstri manna til að stoppa upp í göt ríkisrekstrarins. Sjávarútvegurinn hefur verið til fyrirmyndar í orkumálum og fjárfest í bættri orkunýtni fiskiskipa og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Ríkisvaldið er blint. Með ofurskattheimtu er nú dregið úr kraftinum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og ræfildómur ríkisvaldsins hefur þegar valdið svo miklum raforkuskorti í landinu, að rafmagnskatlar verksmiðjanna eru að mestu ónotaðir. Við þessar aðstæður er siðlaust að þrýsta á orkuskipti sjávarútvegsins með hækkun kolefnisgjalds. Allar gerðir þessarar ríkisstjórnar gagnvart fyrirtækjum landsins og yfirleitt í fjármálum virðast vera glórulausar, enda var aldrei á góðu von.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2025 | 18:21
Er auðlindarenta fyrir hendi í íslenzkum sjávarútvegi ?
Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er lykilatriði til að meta, hvort eðlilegt geti talizt að leggja viðbótar skatt á sjávarútveginn (tekjuskattur er lagður á öll fyrirtæki). Sérstaða íslenzka sjávarútvegsins er fiskveiðistjórnunarkerfið, sem lokar aðgangi að fiskimiðunum í íslenzku fiskveiðilögsögunni fyrir öðrum en þeim, sem geta sýnt fram á eignarhald aflahlutdeildar fiskveiðiskips. Þetta er aðalreglan, en fleiri kerfi eru við lýði í lögsögunni, mishagkvæm. Aflahlutdeildir, kvótar, ganga kaupum og sölum og eru einnig leigðar. Má halda því fram, að með kaupum á aflahlutdeild hafi auðlindarenta verið greidd, því að aflahlutdeildin er afleiðing aðgangstakmarkana ríkisins að miðunum, en þessar takmarkanir eru grunnforsenda arðsemi veiðanna. Um þetta sagði "Hagræni hópurinn" í skýrslu "Auðlindarinnar okkar - sjálfbær sjávarútvegur":
Sagt er, að líklegt sé, að auðlindarenta í sjávarútvegi hjá þeim, sem nú stunda útgerð, sé lítil sem engin, "þar sem þau hafa nú þegar greitt fyrir hana í verði aflaheimilda. Við þetta má bæta, að þegar og ef auðlindarenta myndast í sjávarútvegi, þá sé um að ræða áhrif aukningar í afla eða hagstæðra gengisbreytinga".
Auðlindarenta er almennt skilgreind sem arður við starfsemi auðlindanýtingar, sem er umfram arðsemi á hefðbundnum samkeppnismörkuðum. Ekki er vitað til, að nokkur hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á þessa auðlindarentu yfir samfellt 5 ára tímabil eða lengur. Það hefur verið reiknað út, að veiðigjöld hafi numið 16 %-18% af reiknaðri auðlindarentu 2010-2023, en hún var þá fengin með röngum forsendum, sem sé, að útflutningsverðmæti allra sjávarafurða var lagt til grundvallar, þegar rétt er að miða við aflaverðmæti upp úr sjó.
Í skýrslunni "Auðlindinni okkar", 2022, stóð m.a.:
""Skýrar vísbendingar eru um stærðarhagkvæmni í íslenzkum sjávarútvegi og sýnt hefur verið fram á, að álagning veiðigjalda leiði til samruna fyrirtækja í greininni, þannig að þeim fækkar á sama tíma og þau stækka. Þetta er í góðu samræmi við rannsóknir, sem sýnt hafa fram á, að stærstu og fjárhagslega sterkustu fyrirtæki í sjávarútvegi greiði meirihluta innheimtra auðlindagjalda," segir í skýrslunni."
Ríkisvaldið skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna með sértækri skattheimtu. Þetta á við sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis og þau sem heild innanlands (samkeppni um fjármagn og starfsmenn) og utanlands (markaðsstaða).
"Jafnfram segir, að það hafi verið "færð fyrir því rök, að álagning veiðigjalda umfram getu hennar til greiðslu á hverjum tíma tefli samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs í tvísýnu. Einnig hefur verið bent á, að álagning veiðigjalda geti rýrt skattstofna hins opinbera, þegar til lengri tíma er litið, sem aftur geti skilað sér í minni efnahagslegum ábata af auðlindinni en annars væri."
Það eru til hagfræðilegar aðferðir til að reikna út þá skattheimtu á fyrirtæki, tæplega þó á atvinnugrein, sem er líklegust til að skila hinu opinbera hámarks tekjum til lengdar, þegar "allt" er tekið með í reikninginn. Núverandi ríkisstjórn getur ekki sýnt fram á neina slíka tilburði. Hún gerir sér lítið fyrir og tvöfaldar sérskattheimtu á sjávarútveginn og skýtur sig þar með í fótinn, því að hún er örugglega komin langt út yfir "kjörskattheimtu". Með fáránlegri aðgerð, sem á sér engin fordæmi hvorki hér né annars staðar, eykur hún skattheimtuna mjög mikið í einu stökki í stað vandaðrar greiningar. Þessari flaustursríkisstjórn er ekki treystandi til að stjórna landinu almenningi til heilla.
"Hagræni hópurinn ritaði 8. kafla í skýrslu Auðlindarinnar okkar, og er þar fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Lagði hópurinn fortakslaust til, að aflamarkskerfi yrði viðhaldið við stjórn fiskveiða.
Er bent á, að kerfið hafi gert útgerðum kleift að draga úr offjárfestingu í veiðum og vinnslu, [skapað] skilyrði fyrir skipulagða sókn og minnkað álag á vistkerfi sjávar. Vandamál, sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hér á landi, séu því eðlisólík því, sem gerist erlendis; hér hafi aðallega verið til umræðu, hvernig dreifa eigi arði af nýtingu auðlindarinnar, en erlendis sé litlum sem engum arði til að dreifa."
Þessari umræðu var komið af stað með fullyrðingu um, að auðlindarenta fyndist í sjávarútvegi sem heild, en sú fullyrðing reyndist röng. Þar af leiðandi eru veiðigjöldin reist á sandi, og hækkunarfyrirætlun stjórnvalda nú er stórskaðleg.
""Það, að veiðigjöld hafi numið að meðaltali 16 % - 18 % af reiknaðri auðlindarentu, er, að öðru óbreyttu, ekki vísbending um, að núverandi veiðigjöld séu of lág. Það veldur vanda við fyrrgreinda útreikninga, að metin renta er reiknuð sem hlutfall af útflutningsverðmæti allra sjávafurða, en í þeirri upphæð er bæði sá virðisauki, sem átt hefur sér stað í vinnslu, markaðsstarf o.þ.h., auk þess sem virði afla utan Íslandsmiða er einnig tekið með. Veiðigjöld eru hins vegar lögð á veiðarnar sjálfar sem afgjald fyrir notkun og ættu því frekar að miðast við aflaverðmæti úr sjó.""
Það gætir skilningsleysis á hugtakinu auðlindarenta, þegar virðisauka vinnslunnar er bætt við aflaverðmæti úr sjó til að finna auðlindarentu. Það hefur hingað til mistekizt að réttlæta veiðigjöldin með auðlindarentu, því að hana er ekki að finna til lengdar hjá útgerðunum, þ.e.a.s. það hefur enn ekki verið sýnt fram á meiri arðsemi fyrirtækja í sjávarútvegi en í öðrum greinum yfirleitt. Stafar það líklega af sveiflum í lífríki sjávar og af því, að hægt hefur miðað við uppbyggingu þorskstofnsins. Hafa verður þar í huga gríðarlegt afrán hvala í íslenzku fiskveiðilögsögunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)