Færsluflokkur: Bloggar

Langvinnt þrætuepli

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983.  Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða.  Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum.  Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest. 

Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:

"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir.  Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag.  Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð.  Deilumálið er skipting arðseminnar."

Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum.  Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar.  Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:

Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild.  En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað.  Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem  þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga.  Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma  stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var  niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi.  Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign." 

Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær.  Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.

Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda.  Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.

Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág.  Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.    

 

 

 

 

 

   

 


Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá

Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum.  Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.  

Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans.  Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.  

Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann.  Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar.  Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins.  Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu. 

Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum.  Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður.  Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er.  Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs.  Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð. 

Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:

"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",

lauk þannig:

""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi.  Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál.  Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál.  Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður.  Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."

Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana.  Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við  samtök sveitarfélaganna.  Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna.  Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.  


Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni

Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.  Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri.  Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi.  Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin. 

SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn.  Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.  

Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.  

Yfirskrift greinarinnar var:

"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":

"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn. 

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar.  Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]

Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ?  Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu.  Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum.  Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari." 

Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra.  Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust. 

Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar.  Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna.  Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10.  Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga.  Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt. 

SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar.  Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna. 

SKE er kaþólskari en páfinn.  Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ?  Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA.  Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE.  Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri.  Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur.  Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.   


Skýr skilaboð Landsvirkjunar

Í forstjóratíð Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun hafa sumir stjórnendur þar á bæ, að honum meðtöldum, tjáð sig með hætti, sem ýmsum hefur ekki þótt samræmast hagsmunum eigenda fyrirtækisins, hvað sem gilda kann um sjónarmið stjórnarmanna fyrirtækisins.  Þetta á t.d. við um aflsæstrengstengingu á milli erlendra raforkukerfa og þess íslenzka og vindknúna rafala. 

Nú kveður við nýjan tón, því að Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, skrifaði vel jarðtengda og fræðandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 17.02.2023 undir fyrirsögninni:

 "Raforkuvinnsla á láði eða legi".

Undir millifyrirsögninni "Eðli vindorku" var gerð grein fyrir því, að með vindafli yrði að fylgja vatnsafl í raforkukerfinu, nema notandinn gæti sætt sig við sveiflur vindaflsins, og sá notandi er vart fyrir hendi á Íslandi.  Af þessum ástæðum er út í hött að leyfa uppsetningu vindspaðaþyrpinga og tengingu þannig knúinna rafala við íslenzka raforkukerfið:

"Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið, sem unnin er með vindorku, þarf að vera [fyrir hendi] jöfnunarafl.  Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku.  M.ö.o.: þegar vindar blása ekki, þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu.  Í íslenzka raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum.  Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur."   

"Also sprach Zarathustra."  Einar Mathiesen veit gjörla, að jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar og annarra eru ekki í færum til að taka upp aflsveiflur í kerfinu vegna innbyggðrar tregðu.  Vatnsorkuverin geta þetta upp að vissu marki og sjá um reglunina í kerfinu núna.  Það sér hver maður í hendi sér, að með öllu er glórulaust að reisa vatnsorkuver til að standa tilbúin að yfirtaka álagið, þegar vind lægir undir hámarks framleiðslumark vindspaðavers.  Framleiðslukostnaður í vatnsorkuveri er lægri en í vindorkuveri, en aðeins ef nýtingartími vatnsorkuversins er samkvæmt hönnunarforsendum þess.  Erlendis eru gasknúin raforkuver reist til að gegna þessu jöfnunarhlutverki, en hér kemur það ekki til greina.  Þessi innflutta hugmyndafræði um vindorkuver fyrir íslenzka raforkukerfið er vanburða.

"Því má halda fram, að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara, nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun, sem fylgir breytilegum orkugjafa, sem vindorka er; þá þarf ekki afljöfnun.  Í umræðu um vindorku er iðulega skautað framhjá þessari staðreynd.  Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðinum, sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað, bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar [2023] undir yfirskriftinni: "Hvað gerist, þegar vindinn lægir ?", en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar."

Hér staðfestir framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, að vindorkan sé ein og sér lítils virði, nema fyrir þá, sem ekki verða fyrir umtalsverðu tjóni, þótt framboðið sveiflist með vindafari.  Þeir eru sárafáir, ef nokkrir slíkir í landinu.  Þegar þetta er lagt saman við þá staðreynd, að burðarsúlur og vindspaðar hafa skaðleg áhrif á miklu stærra svæði m.v. orkuvinnslugetu en hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hlýtur rökrétt ályktun yfirvaalda og annarra að verða sú, að ekkert vit sé í að leyfa þessi mannvirki í íslenzkri náttúru.  Yfirvöld ættu að lágmarki að gera að skilyrði, að orkusölusamningar hafi verið gerðir um viðskipti með alla orkuvinnslugetu mannvirkjanna, þar sem kaupandi sættir við að sæta álagsbreytingum í samræmi við framboð orku frá viðkomandi vindorkuveri. 

Í lokakafla greinarinnar lýsir framkvæmdastjórinn yfir stuðningi við hina klassísku virkjanastefnu Landsvirkjunar.  Það er ánægjuleg tilbreyting við stefin, sem kveðin hafa verið í háhýsinu á Háaleitisbrautinni undanfarin 13 ár.  Það hefur nú að mestu verið rýmt vegna myglu, svo að loftið þar stendur vonandi til bóta.  Millifyrirsögn lokakaflans var: "Ekki sama, hvað það kostar":

"Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði, þegar kemur að samkeppnishæfni.  Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum - og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. [Einnig báru Íslendingar gæfu til að gera raforkusamninga um sölu á megninu af orku þessara virkjana og náðu þannig fljótt fullnýtingu fjárfestinganna - innsk. BJo.]  Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir [les vindorkuver - innsk. BJo], sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.  

Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, kemur fram, að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki, að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð.  Óhætt er að taka undir það."

Vart er hægt að lýsa yfir meiri hollustu við klassíska stefnu Landsvirkjunar en að vitna í æviminningar dr Jóhannesar Nordal og lýsa yfir stuðningi við það, sem þar kemur fram.  Ævintýramennska á sviði sölu raforku um sæstreng til útlanda og að útbía náttúru landsins með vindorkurafölum fellur ekki að klassískri virkjanastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar.  


Fótalausar hugdettur um föngun og förgun CO2

Hræðsluáróðurinn um heimsendi handan við hornið af völdum hækkandi koltvíildisstyrks í andrúmslofti hefur fætt af sér ýmsar rándýrar viðskiptahugmyndir, sem haldið er lífi í með peningum úr alls konar styrktarsjóðum, m.a. frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES).  Samt hafa heimsendaspámenn komið sér undan að svara því, hvað hafi valdið 4 hlýskeiðum á undan núverandi.  Vitað er, að ástæðan var þá ekki hækkandi styrkur koltvíildis í andrúmslofti. Hvað stjórnaði þessum hlýskeiðum þá ? Það er líka vitað, að mælingar og spár IPCC um þróun hitastigs eru mun hærri en vísindamanna, t.d. prófessors dr John Christy, sem vinna gögn úr hitastigsmælingum gervihnatta í veðrahvolfinu frá um 1980.  

Ein hugdettan er að sjúga CO2 úr verksmiðjureyk, en koltvíildisstyrkurinn þar er yfirleitt svo lágur, að þetta sog er rándýrt.  Það er dýrara en nemur bindingu CO2 með skógrækt á Íslandi.  Samt hafa nokkrar verksmiðjustjórnir áhuga á þessu, og er það vegna koltvíildisskattsins í Evrópu, sem fer hækkandi og nálgast 100 EUR/t CO2.  Af þessum sökum hefur Rio Tinto samþykkt að gera tilraun með þetta í Straumsvík, og stendur hún yfir.  

Út yfir allan þjófabálk tekur þó sú "viðskiptahugmynd" hjá "Coda Terminal" að flytja inn CO2 frá útlöndum, blanda það vatni úr Kaldánni, sem rennur út í Straumsvík, og dæla blöndunni síðan niður í bergið þar.  Hvers vegna er þetta út í hött ?  Það er vegna þess, að það er dýrt að einangra CO2 úr afsogi, og sá útlendingur, sem búinn er að því, getur selt það sem hráefni í rafeldsneyti, hvar sem er.  Það mun hann kjósa fremur en að borga undir það flutning til Íslands, dýra meðhöndlun þar og niðurdælingu. 

 Í Bændablaðinu 12. janúar 2023 birtist frétt og mynd af 4 manneskjum að undirrita viljayfirlýsingu í Ráðhúsi Hafnarfjarðar.  Þetta voru Rannveig Rist, Rósa Guðbjartsdóttir, Grettir Haraldsson og Edda Aradóttir.  Höfundur þessa vefpistils mun éta hattinn sinn, ef þessi viljayfirlýsing þróast áfram og raungerist í stórfellda niðurdælingu á innfluttu koltvíildi með ágóða.  Fyrirsögn fréttarinnar var þessi:

"Byggja kolefnismóttöku- og förgunarstöð í Straumsvík".

Hún hófst þannig:

"Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu fyrir skömmu viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal.  

Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix [á Hellisheiði - innsk. BJo], segir, að með verkefninu sé lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis, sem byggir á íslenzku hugviti, sem geti með tímanum orðið að útflutningsgrein. 

"Ráðgert er, að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum árið 2031.  Fullbyggð mun stöðin geta tekið á móti og bundið um 3  Mt/ár af CO2, sem samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands", segir Edda."

Hér eru hátimbraðar hugmyndir á ferð, sem hætt er við, að aldrei verði barn í brók.  Áætlaður kostnaður er um mrdISK 50, og árið 2022 mun þessu verkefni hafa verið veittur styrkur úr Nýsköpunarsjóði Evrópu upp á um mrdISK 16.  Fyrir þetta fé verður líklega borað fyrir vatni við Straumsvík, því að verkefnið krefst mjög mikillar vatnstöku, og reist móttökustöð fyrir gas við höfnina.  Hér er rennt blint í sjóinn með arðsama nýtingu þessara fjárfestinga, því að varla fæst nokkur til að gera lagalega skuldbindandi samninga um afhendingu CO2 til langs tíma.

Nú hefur Evrópusambandið (ESB) samþykkt að hvetja aðildarlöndin með styrkveitingum til að tífalda framleiðslugetu sína á rafgreiningarbúnaði til vetnisframleiðslu úr vatni.  Innan 3 ára ætlar ESB að tífalda vetnisframleiðslu innan sinna vébanda, og verður hún þá 10 kt/ár.  Til hvers á að nota þetta vetni ?  Aðallega til að framleiða rafeldsneyti, og þar er CO2 hráefni.  Halda menn, að Coda Terminal geti keppt um hlutdeild í aukinni spurn eftir CO2 ?  Fátt styður það.

Nú styttist í, að ESB dragi úr úthlutun ókeypis  koltvíildiskvóta til evrópskra flugfélaga.  Ætlunin er að draga úr spurn eftir flugferðum innan Evrópu, með því að flugmiðinn verði svo dýr, að ferðalangar velji fremur járnbrautarlestir sem samgöngumáta.  Þetta mun bitna hart á flugfarþegum til og frá Íslandi, og verður ferðaþjónustan vafalaust fyrir verulegri fækkun ferðamanna, sem setur alvarlegt strik í íslenzkan þjóðarbúskap og afkomu fyrirtækja, sem gera út á ferðamenn.  Á sama tíma mun koltvíildiskvótinn á markaði hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. 

Coda Terminal getur ekki orðið til bjargar í þessu máli, því að þá þyrftu flugfélögin að sjúga hundruði þúsunda tonna á ári af CO2 úr andrúmsloftinu, og það er hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsilegt.  Fýsilegra væri að gera samninga við skógarbændur um stóraukna bindingu með skógrækt. 

Hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir Ísland, að utanríkisráðherra verður nú þegar að reka niður hælana á vettvangi EFTA, þar sem boð verði látið út ganga um það, að í Sameiginlegu EES-nefndinni muni Ísland leita eftir undanþágu, en ella hafna innleiðingu þessarar ESB-löggjafar (um skyldu flugfélaga til að kaupa koltvíildiskvóta) í íslenzkan rétt.  Það er tímabært að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd Alþingis og móta afstöðu þar. Þar munu "the usual suspects" taka grunnhyggna afstöðu gegn hagsmunum eyríkisins. 

  

 

 


Hátimbraðar vetnishugmyndir

Settar hafa verið fram draumórakenndar hugmyndir um vetnisframleiðslu á Íslandi, sem knúin verði raforku frá vindspöðum. Hætt er við, að þetta dæmi hafi ekki verið reiknað til enda.  Hvers vegna ?  "Græn" vetnisframleiðsla er dýr, og til að hún geti orðið samkeppnishæf, þarf hún stöðuga raforku allan sólarhringinn allt árið um kring.  Að öðrum kosti nýtast dýr framleiðslutæki (spennar, afriðlar, þéttar spólur, viðnám) ekki sem skyldi. 

Þess vegna er holur hljómur í því að reisa hér vetnisverksmiðju í tengslum við uppsetningu á vindrafalaþyrpingum, því að eins og kunnugt er gefa þær nýtingu á uppsettu afli innan við 40 % yfir árið. Til að slík vetnisframleiðsla standist, verður vetnisverksmiðjan að fá raforkuna langt undir kostnaði hennar frá vindrafölum. Það virðist fiskur falinn undir steini í þessari viðskiptahugmynd. 

Sigtryggur Sigtryggsson birti baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2023 af miklum fyrirætlunum í þessa veru á Grundartanga. Þar er vatnsskortur, svo að sjór er notaður til kælingar iðnaðarferla, sem er neyðarbrauð vegna óhreininda og tæringar.  Langir aðdrættir vatns (úr botni Hvalfjarðar) munu gera vetnisframleiðslu á Grundartanga enn dýrari en ella.

Áætluð aflþörf er meiri en nemur núverandi verksmiðjuaflþörf á Grundartanga.  Það mun þurfa að stækka aðveitustöðina á Brennimel og fjölga þangað línum. Hvaðan ? Afriðlar vetnisverksmiðjunnar munu bæta við yfirsveiflurnar (harmonics), sem nú þegar eru á 220 kV teinum Brennimels, og þær gætu orðið óleyfilega miklar án dýrra síuvirkja fyrir yfirsveiflur. 

Hvaðan á aflið að koma ?  Það hvorki gengur né rekur hjá Landsvirkjun að fá framkvæmdaleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun.  Þaðan verður sáralítið aflögu fyrir orkukræfan iðnað, því að almenna markaðinn hungrar í meira afl. 

Baksviðsfrétt Sigtryggs bar fyrirsögnina:

"Vetnisframleiðsla krefst rýmis og orku".

Hún hófst þannig:

 "Áformuð vetnisframleiðsla Qair Iceland ehf. á Grundartanga krefst töluverðs landrýmis, mikillar raforku og ferskvatns.  Framleiðslan verður byggð upp [í þremur áföngum], og hver þeirra miðar við notkun á 280 MW [rafafls].  Fullbyggð getur framleiðslan notað um 840 MW.  Qair vinnur að öflun orku, m.a. frá vindorkugörðum, og orkuöflun er einn af lykilþáttum í því, hvernig verkefnið þróast.  Þetta kemur fram í matsáætlun, sem Qair hefur lagt fram til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir framleiðslu á vistvænum orkugjöfum á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit.

Til samanburðar má nefna, að stærsta fyrirtækið á Grundartanga, Norðurál, er með langtíma samninga við 3 raforkuframleiðendur upp á samtals 546,5 MW." 

  Það eru svo mikil orkutöp fólgin í rafgreiningu vatns, að alls er óvíst, að það verði talin heppileg ráðstöfun á takmörkuðum orkulindum Íslands.  Stórfelldar þyrpingar vindknúinna rafala eru ekki sjálfgefnar á Íslandi.  Að fórna mikilvægri ásýnd landsins fyrir raforkuvinnslu fyrir ferli með afar bágborna nýtni og afurðaverð, sem vart stendur undir kostnaði, orkar mjög tvímælis.  Hvers vegna leitar Qair ekki annarra virkjanakosta en vinds ?

    


Í tilefni landvinningastríðs í Evrópu í meira en eitt ár nú

Þann 24. febrúar 2022 réðist rússneski herinn inn í Ukraínu úr 3 höfuðáttum, úr norðri, austri og suðri, svo að augljóslega var ætlun Kremlar að ná Kænugarði á sitt vald og að leggja alla Úkraínu undir sig.  Úr norðri og norð-austri var stefnt á Kænugarð, enda er hér um nýlendustríð að ræða.  Því voru Úkraínumenn óviðbúnir, en samt tókst úkraínska hernum að stöðva Rússana í útjaðri Kænugarðs, og minnast menn um 80 km langrar raðar vígtóla, aðallega bryndreka, sem stöðvaðist á leið til Kænugarðs fyrir tilverknað skriðdrekabana Úkraínumanna og skorts Rússahers á vistum, þ.m.t. á eldsneyti. Grátbrosleg sýningarþörf á ógnarmætti, sem fór fyrir lítið.  Hið gegnmorkna Rússaveldi kemst ekki upp úr spillingarfeninu, og setur þess vegna upp Pótemkíntjöld, rétt einu sinni.

Innrás Rússa var tilefnislaus og óréttlætanleg með öllu.  Kremlverjar hafa með þessum gjörningi orðið sér ævarandi til háðungar.  Rússar hafa upp skorið hatur og fyrirlitningu allrar úkraínsku þjóðarinnar, einnig í austurhéruðunum, og á meðal allra slavnesku þjóðanna í Evrópu.  Þeir hafa sýnt af sér grafalvarlega siðferðisbresti með því að taka upp á því að ganga í skrokk á varnarlausum borgurum Úkraínu, þegar sókn þeirra inn í landið mætti harðri mótspyrnu og her þeirra var stöðvaður og hrakinn til baka úr hverju héraðinu á fætur öðru.  Framganga hersins og léleg frammistaða á vígvöllunum, þótt ekki vanti vígtólin og fjöldann í eikennisbúningum, sætir furðu og sýnir, að Kremlverjar hafa gortað af herstyrk, sem er ekki fyrir hendi.  Sennilega var svipað uppi á teninginum á dögum Ráðstjórnarinnar.  Það, sem varð henni til bjargar 1941-1943 var harður vetur og gríðarlegur hergagnaflutningur frá Bandaríkjunum.  

Trúðurinn Medvedev, varaformaður öryggisráðs Rússlands og fyrrverandi forseti og forsætisráðherra, er enn með furðulegar ógnanir gagnvart fyrrum leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna.  Nýleg furðuyfirlýsing var á þá leið, að til að skapa frið í Úkraínu þyrfti að ýta pólsku landamærunum til vesturs.  Hann horfði fram hjá þeirri staðreynd, að pólski herinn er nú sá öflugasti í Evrópu, og rússneski herinn mundi ekki hafa roð við honum, ef þeim lysti saman.  Pólland þyrfti enga aðstoð NATO til að ganga frá fúnum og gjörspilltum rússneskum her, sem Úkraínumenn eru nú þegar búnir að draga vígtennurnar úr um tíma.

 

 Þann 24. febrúar 2023 birtist frábær grein í Morgunblaðinu eftir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.  Var hún eins og hvítt og svart í samanburði við viðbjóðslegan lygaþvætting, sem birtist í Morgunblaðinu 2 dögum fyrr og sendiherra Rússlands á Íslandi var skrifaður fyrir, en það gæti verið lygi líka, því að um var að ræða ömurlega sjúklega og veruleikafirrta þvælu, sem streymir frá Kreml.  Það er öllu snúið á haus.  Þessi samsuða varð Birni Bjarnasyni, fyrrverandi Alþingismanni og ráðherra, tilefni til þess í vefpistli sínum að krefjast brottrekstrar þessa handbendis hryðjuverkamanna Kremlar af landinu, sem verða sóttir til saka fyrir stríðsglæpi í anda Nürnbergréttarhaldanna, ef/þegar réttlætið nær fram að ganga austur þar.   

Merk grein forsætisráðherra Póllands hófst þannig:

"Fyrir sléttu ári, 24. febrúar 2022, hófu rússnesk stjórnvöld stríðsrekstur sinn gegn Úkraínu og splundruðu þar með þeirri skipan, sem komst á eftir kalda stríðið.  Örygginu og hagsældinni, sem heilu kynslóðirnar í löndum Evrópu höfðu fengið áorkað, var stefnt í mikla hættu.  Rússar hafa hafið landvinningastríð sitt með aðeins eitt markmið í huga: að endurheimta áhrifasvæði Sovétríkjanna fyrrverandi, hvað sem það kostar án nokkurs tillits til fórnarlambanna.  Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur til að binda enda á þessa verstu heimspólitísku martröð 21. aldarinnar."  

Stríð eru upplýsandi um styrkleika og veikleika stríðsaðila.  Fyrsta ár þessa stríðs Rússa og Úkraínumanna hefur sýnt, að Rússland er hernaðarlegur og siðferðilegur dvergur og að Úkraína er hernaðarlegur og siðferðislegur risi.  Rússland hefur enga burði til að brjóta undir sig aðra Slava eða nágranna af öðrum uppruna og alls enga siðferðislega burði til að leiða þá og stjórna þeim.  Úkraínumenn hafa sameinazt um að berjast fyrir varðveizlu fullveldis síns og endurheimt alls lands, sem Rússar hafa með dæmalausri frekju, siðleysi, grimmd og yfirgangi lagt undir sig síðan 2014. Þessi "versta heimspólitíska martröð 21. aldarinnar" endar ekki fyrr en Úkraínumenn hafa endurheimt allt landsvæði sitt, svo að landamærin frá 1991 verði aftur virk, og gengið í NATO og Evrópusambandið.  Þar með hafa þeir fengið verðskuldaða stöðu sem sjálfstæð þjóð í samfélagi vestrænna ríkja og eiga sér vonandi glæsta framtíð sem traust lýðræðis- og menningarþjóð í auðugu landi af náttúrunnar hendi, en öll vopn snerust í höndum hins glæpsamlega árásargjarna einræðisherra í Kreml, sem hóf tortímingarstríð gegn sjálfstæðum nágranna og mun hljóta fyrir það makleg málagjöld með öllu sínu hyski. Það er engin framtíð til fyrir rússneska sambandslýðveldið í sinni núverandi mynd.  Það hefur fyrirgert tilverurétti sínum og rotnað innan frá.  Það stendur nú á brauðfótum.  

"Hvernig er staðan núna ?  Við höfum orðið vitni að fáheyrðri grimmd Rússlands í 12 mánuði. Mánuðirnir mörkuðust af reglulegum sprengjuárásum á skóla, sjúkrahús og byggingar óbreyttra borgara.  Þeir mörkuðust ekki af fjölda daga, heldur af fjölda fórnarlamba.  Rússar hafa ekki hlíft neinum og drepið karlmenn, konur, gamalt fólk og börn.  Hópmorðin í Bucha, Irpin og fleiri bæjum færa okkur heim sanninn um, að Rússar hafa framið hryllilega glæpi.  Fjöldagrafir, pyntingaklefar, nauðganir og mannrán - þetta er hin sanna ásjóna árásarstríðs Rússa."  

Rússneski herinn og stjórnendur Rússlands sýna þarna sitt rétta andlit.  Þeir eru siðblindir glæpamenn - fjöldamorðingjar.  Við þá er ekki hægt að gera neina samninga, því að þeir eru algerir ómerkingar - virða ekki nokkurn skapaðan hlut.  Eina færa leiðin er að búa Úkraínumenn sem beztum og mestum vopnum fyrir landhernað og lofthernað gegn innrásarher Rússlands í Úkraínu, svo að hann verði rekinn af löglega viðurkenndu úkraínsku landi sem fyrst.  Þannig má lágmarka blóðtöku úkraínsku þjóðarinnar og skapa grundvöll langvarandi friðar í Evrópu, ef NATO ábyrgist varðveizlu landamæranna.

Þegar nánar er að gáð, þarf ömurleg frammistaða rússneska hersins á vígvöllunum ekki að koma á óvart.  Hún hefur lengi verið þekkt.  Það voru úkraínskir kósakkar, sem brutu rússneska hernum leið í austurátt og lögðu megnið af Síberíu undir zarinn.  Það voru þeir, sem veittu hinum 600 k manna her Frakkakeisarans Napóleóns Bonaparte verstu skráveifurnar í innrásinni í Rússland 1812, einkum á undanhaldinu, enda sluppu aðeins 100 k úr þessari svaðilför Frakkahers. Rússakeisari varð fyrstur Evrópumanna til að tapa bardaga við Asíumenn 1905, þegar Japanir gjörsigruðu rússneska herinn.  Frammistaða rússneska keisarahersins í Fyrri heimsstyrjöld var mjög slök, og samið var um frið við Þjóðverja 1917.

Enn áttust þessar þjóðir við 1941-1945.  Stalín hafði látið flytja hergagnaverksmiðjur austur fyrir flugsvið Luftwaffe, og þar framleiddu Sovétríkin 100 skriðdreka á mánuði, á meðan RAF, brezki flugherinn, sprengdi upp hergagnaverksmiðjur Þriðja ríkisins.  Rússneskir herforingjar voru þá, eins og jafnan fyrr og síðar, meiri slátrarar en útsjónarsamir herstjórnendur.  Þeir sendu hverja bylgju lítt þjálfaðra ungra manna fram á vígvöllinn, eins og nú endurtekur sig í Úkraínustríðinu 2022- ?  Af heildarmannfalli Wehrmacht 1939-1945 varð 80 % á Austurvígstöðvunum, en fallnir hermenn Rauða hersins voru 4-5 sinnum fleiri.  Ætli hlutfallið í Úkraínu núna sé ekki svipað ?  

Bandaríkjamenn sendu svo mikið af vígtólum, skriðdrekum, brynvögnum, jeppum, flugvélum, sprengjuvörpum o.fl. til Sóvétríkjanna á árum Síðari heimsstyrjaldarinnar, að vafalaust hefur létt Sovétmönnum mjög róðurinn, þótt "Úlfarnir" í "die Kriegsmarine" næðu að granda nokkrum flutningaskipum með hergögn.  Andvirði hergagnanna, sem sent var frá BNA til Sovétríkjanna, er talið hafa numið mrdUSD 130 að núvirði.  Þá, eins og nú, réðu sovézkir herforingjar ekki við að beita samhæfðum hernaðaraðgerðum skriðdreka, brynvarinna vagna, fótgönguliðs og flughers, eins og Wehrmacht beitti þó eftir mætti, en skortur á hergögnum og vistum takmarkaði löngum aðgerðir Wehrmacht, og Foringinn greip oft óhönduglega fram fyrir hendur herforingjanna, svo að vægt sé til orða tekið.   

"Strax árið 2008, þegar Rússar réðust inn í Georgíu, gaf Lech Kaczynski, þáverandi forseti Póllands, út þessa viðvörun: "Við vitum mjög vel, að núna er það Georgía, sem er að veði, næst gæti það verið Úkraína, þá Eystrasaltsríkin og síðan e.t.v. landið mitt, Pólland."  Þessi orð rættust fyrr en Evrópuríkin höfðu búizt við.  Sex árum síðar, árið 2014, var Krímskagi innlimaður í Rússland. Núna verðum við vitni að allsherjar árás rússneska hersins á Úkraínu. Hvernig verður framtíðin, ef við stöðvum ekki rússnesku stríðsvélina ?"

Eftir langvinna og sára reynslu af kúgun hins frumstæða austræna valds bera Pólverjar Rússum svo illa söguna, að þeir telja þeim raunverulega ekki treystandi fyrir horn.  Við, sem vestar erum, áttum erfitt með að skilja málflutning Pólverja, en nú sjáum við og skiljum, hvað þeir meintu.  Pólverjar hafa haft rétt fyrir sér um Rússa.  Kremlverjar reka og hafa alltaf rekið harðsvíraða heimsveldisstefnu (e. imperialism), og hana verður einfaldlega að stöðva.  Það átti að gera árið 2008 eða árið 2014, en nú eru einfaldlega síðustu forvöð. Hinn uppivöðslusami einræðisherra Rússlands hefur lagt allt undir, og hann þarf nú að brjóta á bak aftur.  Afleiðingarnar verða ekki geðslegar fyrir Rússa, en það er þeirra vandamál, ekki Vesturlanda. 

Það hefur myndazt augljós öxull Washington-Varsjá.  Pólverjar hafa nú á stuttum tíma pantað hergögn frá BNA fyrir um mrd USD 10.  Bandaríkjaforseti hefur síðan 24.02.2022 heimsótt Varsjá tvisvar, en Berlín og París aldrei.  Valdamiðja ESB og NATO í Evrópu mun færast til austurs í átt að Varsjá, enda stafar meginógnin að NATO frá hinum stríðsóða nágranna austan Úkraínu.  Ef ekki tekst að varðveita landamæri Úkraínu frá 1991, verður þessi ógn enn meiri.  Að láta land af hendi fyrir "frið", er óraunhæft gagnvart landi, sem stjórnað er af yfirvöldum, sem virða enga samninga og brjóta allar reglur í alþjóðlegum samskiptum. 

"Þegar við erum í hundraða km fjarlægð heyrum við ekki sprengjugnýinn, hávaðann í loftvarnaflautunum eða harmagrát foreldra, sem hafa misst barn sitt í sprengjuárás. Við getum þó ekki notað fjarlægðina frá Kænugarði til að friða samvizkuna.  Ég óttast stundum, að á Vesturlöndum sé margt fólk, sem telji það að snæða hádegisverð á eftirlætis veitingastaðnum eða að horfa á þætti á Netflix skipta meira máli en líf og dauða þúsunda Úkraínumanna.  Við getum öll séð stríðið geisa.  Enginn getur haldið því fram, að hann eða hún hafi ekki vitað um hópmorðin í Bucha.  Við verðum öll vitni að grimmdarverkunum, sem rússneski herinn fremur.  Það er þess vegna, sem við megum ekki láta okkur standa á sama.  Heimsvaldaáform rússneskra ráðamanna ná lengra en til Úkraínu.  Þetta stríð skiptir okkur öll máli."

Sú staða er uppi, að vinveittir nágrannar Úkraínu eru flestir í NATO.  Annars hefðu þeir sennilega sumir hverjir farið með heri sína inn í Úkraínu og barizt þar við hlið Úkraínumanna gegn ofureflinu, því að hér er um að ræða stríð einræðis gegn lýðræði, kúgunar gegn frelsi, ógnarstjórn gegn persónulegu öryggi. Baráttan stendur um framtíð Evrópu. Þar af leiðandi er gjörsamlega siðlaust af þeim Evrópumönnum, sem láta sér í léttu rúmi liggja blóðtöku Úkraínumanna, að láta sem ekkert sé eða leggjast gegn hámarksaðstoð við þá. Þá eru ótalin handbendi Rússanna á Vesturlöndum, sem reyna að rugla almenning í ríminu með því að dreifa falsfréttum, sem falla að áróðri Kremlar.  Lítil eru geð guma. 

"Orkukreppan í heiminum og verðbólgan, sem við þurfum öll að glíma við, eiga rætur að rekja til landvinningastríðs rússneskra stjórnvalda.  Herská stefna Pútíns, hvað varðar gasviðskipti í júlí og ágúst 2021, var undanfari innrásarinnar í Úkraínu.  Á þeim tíma leiddi fjárkúgun Pútíns til hækkandi gasverðs á mörkuðum Evrópu.  Þetta var aðeins byrjunin.

Rússnesk stjórnvöld vonuðu, að hnignun orkugeirans myndi veikja Evrópuríkin og telja þau á að skipta sér ekki af stríðinu Úkraínu.  Þegar í upphafi var það liður í baráttuáætlun rússneskra stjórnvalda gegn Vesturlöndum að magna orkukreppuna.  Hernaður Rússa er ein af meginástæðum hækkandi orkuverðs í heiminum.  Við höfum öll mikinn kostnað af þeim ákvörðunum, sem teknar eru í Kreml. Tímabært er, að við skiljum, að Rússar kynda undir efnahagskreppu í heiminum." 

Pólverjar hafa lengi haldið því fram, að Rússar mundu beita orkuvopninu, og þess vegna beittu þeir sér hart á vettvangi ESB og í tvíhliða samskiptum við þýzku ríkisstjórnina gegn samkrulli Þjóðverja og Gazprom um lagningu Nord Stream 2.  Þar voru Pólverjar samstiga bandarísku ríkisstjórninni, en sú þýzka var blinduð af eigin barnaskap um glæpsamlegar fyrirætlanir Kremlar.  Pólverjar sömdu við Norðmenn um afhendingu jarðgass úr gaslindum Norðmanna beint til Póllands, og var sú lögn tekin í notkun um svipað leyti og Nord Stream 2 var sprengd í sundur árið 2022. 

Segja má, að hernaður glæpaklíkunnar gegn Vesturlöndum sé fjórþættur í meginatriðum: Í fyrsta lagi dreifir áróðursvél Kremlar ranghugmyndum og samsæriskenningum til Vesturlanda, sem ætlað er að grafa undan málstað lýðræðisaflanna og sundra þeim.  Enduróm þessa sjúklega þvættings má sjá og heyra á Íslandi, eins og annars staðar, t.d. á ýmsum vefmiðlum, þar sem þeir ráða ferðinni, sem af einhverjum ástæðum eru haldnir sjúklegu hatri á samfélagsgerð Vesturlanda og ímynda sér eitthvert "djúpríki", sem ráði ferðinni.  Hér eru þó ekki taldir með þeir, sem jafnan hafa verið móttækilegir fyrir hatursfullum áróðri gegn "auðvaldinu", en neita að horfast í augu við sára reynslu af því, sem gerist, þegar "auðvaldið" er afhöfðað með einum eða öðrum hætti.  Nýjasta dæmið er Venezúela, sem var ríkasta land Suður-Ameríku áður en sósíalistar innleiddu stefnu sína þar með þeim afleiðingum, að landið er eitt samfellt fátæktarbæli, sem allir flýja frá, sem vettlingi geta valdið.

Í öðru lagi hafa Kremlverjar reynt að valda tjóni og lömun innviða með netárásum.  Þeim hefur ekki sízt verið beitt gegn fyrrverandi leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna, og á þeim bar mikið í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.  Þá má ekki gleyma gruni um tilraunir til að hafa áhrif á kosningar með stafrænum hætti, jafnvel í BNA.

Í þriðja lagi er það orkuvopnið, sem Kremlverjar beittu miskunnarlaust, aðallga gegn Evrópumönnum, og ætlað var að lama andstöðu þeirra við löglausa og tilefnislausa innrás Rússahers í nágrannaríkið Úkraínu, sérstaklega þegar kuldinn færi að bíta í lítt upphituðu húsnæði.  Það gerðist ekki af tveimur ástæðum.  Veturinn var óvenju mildur í Evrópu, og það á líka við um Úkraínu, þar sem glæpsamlegar eldflauga- og drónaárásir Rússa á virkjanir, aðveitu- og dreifistöðvar Úkraínumanna ollu oft langvinnu straumleysi og skorti á heitu vatni til upphitunar.  Auknar loftvarnir í Úkraínu, minnkandi eldflauga- og drónaforði Rússa og aðstoð Vesturlanda með neyðarrafstöðvar og viðgerðar efni til handa Úkraínumönnum hafa dregið mjög úr straumleysistíðni og -lengd.  Hin ástæðan er, að Evrópumönnum hefur orðið vel ágengt við að útvega sér eldsneytisgas annars staðar frá, og Þjóðverjar hafa á mettíma komið sér upp einni móttökustöð fyrir fljótandi gas og fleiri eru í uppsetningu. 

Í fjórða lagi hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu frá 24.02.2022 gengið á afturfótunum.  Þeir hafa misst ógrynni liðs, álíka marga fallna og særða og hófu innrásina (200 k) og gríðarlegt magn hergagna.  Bardagageta landhers og flughers er miklu minni en almennt var búizt við á Vesturlöndum og annars staðar.  Fjölþættar ástæður liggja til þess, að rússneski herinn hefur þarna orðið sér til háborinnar skammar og er að ýmsu leyti í ruslflokki.  Þetta mun hafa langtíma áhrif á stöðu Rússlands í heiminum, sem er að verða eins og mús undir hinum kínverska fjalaketti.  Aðeins gorgeir, þjóðernismont, áróður og hótanir standa eftir. 

"Veikleikar Evrópu hafa verið styrkur Rússlands í nokkur ár.  Það, að Evrópuríki eru háð kolefnaeldsneyti frá Rússlandi, hafa átt vafasöm viðskipti við rússneska ólígarka og gert óskiljanlegar tilslakanir, m.a. varðandi lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 - allt er þetta til marks um sjúkleg tengsl [á] milli Vesturlanda og Rússlands. Stjórnvöld margra Evrópuríkja töldu, að þau gætu gert alvanalega samninga við stjórnina í Moskvu.  Þeir reyndust þó vera samningur við djöfulinn, þar sem sál Evrópu var lögð að veði."

Það má vel kalla það sjúkleg tengsl, eins og forsætisráðherra Póllands gerir, þegar annar aðilinn telur sig eiga í ærlegum samskiptum um að skapa gagnkvæma hagsmuni með viðskiptum og bæta þannig friðarlíkur í Evrópu, en hinn situr á svikráðum, er ekkert, nema fláræðið, og spinnur upp lygaþvælu um friðarvilja sinn, en ræðst svo á nágranna sína, Georgíu 2008 og Úkraínu (Donbass og Krím 2014) og flytur þá þann óhugnanlega boðskap, sem alltaf lá undir niðri, að hin sjálfstæða og fullvalda þjóð, Úkraínumenn, séu ekki þjóð, heldur af rússneskum meiði og eigi þess vegna að verða hluti af Sambandsríkinu Rússlandi.  Þessi boðskapur er algjör lögleysa og stendst ekki sögulega skoðun, þótt Kremlverjar hafi um aldaraðir kúgað Úkraínumenn og reynt að svelta í hel úkraínska menningu og mál. Á tímum ráðstjórnar bolsévíka reyndu þeir jafnvel að svelta úkraínsku þjóðina í hel.  Sennilega eru frumstæðir Rússar haldnir minnimáttarkennd gagnvart Úkraínumönnum, og það er vel skiljanlegt, því að Úkraínumenn standa þeim framar á fjölmörgum sviðum, eru einfaldlega á hærra menningarstigi, enda einstaklingshyggjumenn frá alda öðli.

"Af þessum sökum er ekki hægt að snúa við og láta, eins og ekkert hafi í skorizt.  Menn geta ekki komið á eðlilegum tengslum við glæpastjórn.  Það er orðið löngu tímabært, að Evrópa verði óháð Rússlandi, einkum í orkumálum. Pólverjar hafa lengi lagt áherzlu á þörfina á að auka fjölbreytni í öflun olíu og jarðgass.  Nýjar leiðir til að afla slíkra afurða skapa ný tækifæri.  Uppræting pútínismans, það að rjúfa öll tengsl við einræðis- og ofbeldisvél Pútíns, er algert skilyrði fyrir fullveldi Evrópu."

Pólski forsætisráðherrann hefur lög að mæla.  Vesturlönd verða að klippa á öll viðskiptasambönd við Rússa og útiloka þá frá þátttöku í fjölþjóðlegum keppnum og viðburðum, á meðan glæpastjórn er blóðug upp að öxlum í Kreml í útrýmingarstríði gegn nágrönnum sínum. Það er alvarlegt íhugunarefni, hvort ástæða er til að samþykkja veru sendiherra slíkrar glæpastjórnar í Reykjavík, sem virðist af málflutningi sínum að dæma (í Morgunblaðsgrein í febrúar 2023) vera álíka forhertur öfugmælasmiður og umbjóðendur hans í Kreml. 

Það er ljóst, að nú fer fram barátta upp á líf og dauða á milli lýðræðis og frelsisafla annars vegar og hins vegar einræðis og kúgunarafla.  Úkraínumenn hafa fyrir löngu tekið af öll tvímæli um, hvorum megin þeir vilja standa.  Þeir hafa verið bólusettir um aldur og ævi gegn öllum vinsamlegum samskiptum við rússneska alræðisríkið.  Það eru nokkur ruddaríki, sem styðja glæpastjórnina í Kreml, og má þar nefna Íran, Norður-Kóreu og Kína.  Kínverjar stunda nú skefjalausa útþenslustefnu á Suður-Kínahafi og vilja útiloka 7 önnur aðliggjandi lönd frá lögsögu þar, sem þau eiga þó fullan rétt á samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, og Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur staðfest í einu tilviki.  Þessi ríki hafa nú myndað bandalag gegn yfirgangi Kínverja, enda er um mikla hagsmuni að tefla undir botni þessa hafsvæðis.

Japanir hafa í ljósi uppivöðslu einræðisríkjanna Kína og Rússlands tvöfaldað útgjöld sín til hermála 2023 m.v. árið á undan. Þeir munu berjast við hlið Bandaríkjamanna og Tævana, ef einræðisstjórnin í Peking ræðst á land hinna síðast töldu.  Það er ljóst, að viðsjár á milli austurs og vesturs munu fara vaxandi á árinu 2023 áður en friðvænlegra verður aftur eða allt fer í bál og brand.  Það verður að mæta einræðisöflum af fullri hörku.  Annars ganga þau á lagið, eins og dæmin sanna. 

 

 

 


Mikið skraf - lítið gert í orkumálum

Nýlega bilaði eldingavari í kerfi Landsnets, sem tengir Suðurnesin við landskerfið.  Þetta er sjaldgæf bilun, en afleiðingarnar urðu nokkurra klukkustunda straumleysi á Suðurnesjum, á meðan bilaði eldingavarinn var fjarlægður og annar settur í staðinn.  Hvernig má það vera, að jarðgufuvirkjanir HS Orku skyldu ekkert nýtast, á meðan Suðurnesjalína 1 var óvirk ?

Ekki er víst, að það sé á almennu vitorði, að jarðgufuvirkjanirnar ráða ekki við reglun álagsins og geta þess vegna ekki starfað án tengingar við landskerfið. Tregða í reglun er akkilesarhæll jarðgufuvirkjana.  Bilunin brá birtu yfir veikleikana, sem Suðurnesjamenn búa við núna, og þann mikla ábyrgðarhluta, sem fylgir því að standa gegn lagningu Suðurnesjalínu 2. Það er með ólíkindum að láta orkuöryggi Suðurnesjamanna með allri þeirri mikilvægu starfsemi, sem þar fer fram, hanga á horriminni vegna meintrar sjónmengunar af loftlínu.  Geta menn ekki séð fegurðina í nauðsynlegu mannvirki fyrir öryggi mannlífs á Suðurnesjum ? 

Þann 10. febrúar 2023 sagði Morgunblaðið frá Viðskiptaþingi á Nordica daginn áður.  Þar kom fram enn einu sinni, að lögfest loftslagsmarkmið Íslands eru í uppnámi, og eru að verða einhvers konar níðstöng, sem beinist að óraunhæfum stjórnmálamönnum, sem settu hrein montmarkmið um 55 % minnkun losunar koltvíildis 2030 m.v. 2005 og kolefnishlutleysi 2040, vilja verða á undan öðrum þjóðum (pólitíkusum) að þessu leyti, en hirða ekki um forsenduna, sem er að afla endurnýjanlegrar orku, sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis. 

Á þessu viðskiptaþingi var smjaðrað fyrir vindorkunni, jafnvel á hafi úti, sem er fráleitt verkefni hér við land, og harmaðar hömlur á erlendum fjárfestingum á þessu sviði.  Hið síðar nefnda er undarlegt m.v., að Ísland er á Innri markaði Evrópusambandsins og EFTA, og hér hefur verið algerlega ótímabær ásókn fyrirtækja þaðan í framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir vindknúna rafala, þótt lagasetningu um þessi mannvirki skorti í landinu. 

Vindorkan kemur óorði á orkuvinnslu í landinu vegna þess, hversu þurftarfrek hún er á land, hversu ágeng,  áberandi og hávaðasöm hún er, mengandi og varasöm  fuglalífi.  Slitrótt raforkuvinnsla er lítils virði.  Eins og jarðgufuvirkjanir þurfa vindrafalaþyrpingar vatnsorkuver með sér til að sjá um reglunina, en jarðgufuvirkjanir hafa þann mikla kost að vera áreiðanlegar í rekstri fyrir grunnálag, en vindspaðaþyrpingar geta sveiflazt fyrirvaralítið úr fullum afköstum í engin afköst. Við þurfum ekki á þessu fyrirbrigði að halda við orkuöflun hér.  Við þurfum að virkja meira vatnsafl og meiri jarðgufu, en þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Hvers vegna ?

Forsætisráðherrann og stjórnmálaflokkurinn, sem hún veitir formennsku, eru síður en svo hjálpleg, því að þar er fremur reynt að setja skít í tannhjólin, ef kostur er, eins og ávarp formannsins á téðu Viðskiptaþingi bar með sér:

 "Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið.  Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið.  Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu, hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þótt ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers.  Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku, sem notuð er í orkuskipti.

Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans, að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifæri falin í minni sóun og betri nýtingu orku.  Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi."  

Svona þokulúður er hluti af vandamálinu, sem við er að etja, stöðnun á sviði framkvæmda á orkusviðinu.  Ráðherrann þokuleggur sviðið með óljósu og merkingarlitlu tali og dregur þannig dul á, að flokkur hennar ber kápuna á báðum öxlum.  Hann hefur forgöngu um fögur fyrirheit og reyndar algerlega óraunhæf markmið í loftslagsmálum á landsvísu, en á sama tíma þvælist hann fyrir hefðbundnum virkjunum og línulögnum. 

Nú er raforkukerfið þanið til hins ýtrasta vegna framkvæmdaleysis á orkusviði, og slíkt hefur í för með sér, að raforkutöp eru í hámarki líka og stærðargráðu meiri en af matarsóuninni, sem forsætisráðherra er þó hugleikin og er síðlítil.  Ráðið við því er að virkja meira af vatnsföllum og jarðgufu og reisa fleiri flutningslínur. Það liggur þjóðarhagur við að gera þetta, þótt ekki séu allir á einu máli um það. Hlutverk alvöru stjórnmálamanna er að gera það, sem gera þarf, en ekki að horfa í gaupnir sér, þegar gagnrýni heyrist. Jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand mun hjálpa mikið til við að stýra raforkukerfi landsins í átt til stöðugleika og lágmörkunar orkutapa. Hann verður vonandi að veruleika á þessum áratugi.   

Um verðmæti hinna ósnortnu víðerna, sem ráðherrann augljóslega telur vera hátt upp í þónokkur, en óskilgreind, má segja, að þau muni fyrst renna upp fyrir mönnum, þegar þeim hefur verið spillt.  Engum blöðum er um það að fletta, að vindrafalaþyrpingar eru stórtækastar í þessum efnum, og þess vegna væri hægt að nálgast "sátt" um orkumálin með því einfaldlega að leggja áform um þessa gerð orkuvera á hilluna, enda eru mótvægisaðgerðir við yfir 200 m há ferlíki óhugsandi, um leið og hefðbundnum íslenzkum virkjanategundum er veittur framgangur, enda falli þær vel að landinu með beitingu nútíma tækni.  Hvers vegna er framvindan jafnhæg og raun ber vitni (kyrrstaða), þegar Rammaáætlun 3 hefur verið samþykkt ?  Það virðist vera mikil deyfð yfir orkufyrirtækjunum.  Hvers vegna ?  Markaðinn hungrar í meiri raforku ? 

"Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins.  Lagði hann áherzlu á í sinni ræðu, að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó að það væri erfitt val.  [Hvers vegna er það erfitt val - hættið að gæla við vindinn ?-innsk. BJo.]  Hins vegar væri seinagangur í kerfinu, og nauðsynlegt væri að velja, hvar ætti að taka af skarið og virkja.  Nefndi hann máli sínu til stuðnings, að rafmagnsskortur [á] síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess, að allur ávinningur frá notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkazt út.  Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir, svo [að] árum skipti.  Regluverkið sé sömuleiðis þungt, og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir.  Úr þessu þurfi að bæta."

Það er mikið sjálfskaparvíti, að afturhaldsöfl virðast hafa náð að leggja dauða hönd á orkuframkvæmdir.  Það er stjórnleysi, að ráðherrar láti stofnanir komast upp með að hundsa lögboðna fresti og að kærendur (með veikan málstað) geti nánast lamað framkvæmdaviljann.  Ströng skilyrði þurfa að vera um það, hverjir geta verið lögformlegir hagsmunaaðilar að kærumáli, og ein kæra á einstaka ákvörðun sé hámark, og tími frá ákvörðun að afgreiðslu kæru verði að hámarki 3 mánuðir.  Ekki má láta afturhaldið valda óafturkræfu efnahagstjóni í landinu. Eyðingaröfl á valdi sjúklegrar hugmyndafræði eru látin komast upp með stórfelld skemmdarverk á hagkerfinu.  Jafnvel má stundum segja, að stundum höggvi sá, er hlífa skyldi.  

Nú er sú staða uppi, að aðeins einn sæstrengur heldur uppi tengingu Vestmannaeyja við stofnkerfi rafmagns í landinu.  Þetta þýðir, að atvinnustarfsemi á loðnuvertíðinni í vetur þarf að keyra með dísilknúnum rafölum í Eyjum.  Fyrir jafnfjölmenna og mikilvæga byggð og í Vestmannaeyjum þarf að vera (n-1) raforkufæðing úr landi, þ.e. þótt einn strengur bregðist, á samt að vera hægt að halda uppi fullu álagi í Eyjum.  Landsneti hefur á undanförnum árum ekki tekizt að nýta allt fjárfestingarfé sitt, sumpart vegna andstöðu við framkvæmdir fyrirtækisins.  Lítillar andstöðu afturhaldsafla er þó að vænta við þriðja sæstrenginn út í Eyjar, og þess vegna er einkennilegt af Landsneti að hafa dregið von úr viti að koma á (n-1) tengingu við Heimaey, en slíkt fyrirkomulag er yfirlýst stefna fyrirtækisins hvarvetna á landinu. 

 

  


Óskilvirkur eftirlitsiðnaður

Sleifarlag einkennir starfsemi eftirlitsiðnaðarins á Íslandi, enda virðist enginn gegna því hlutverki að setja pipar undir stertinn á eftirlitsstofnunum, þegar lögbundinn tímafrestur til afgreiðslu mála er liðinn. Nýlegt dæmi um drátt úr hömlu er afgreiðsla Orkustofnunar á einfaldri umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að virkja rennsli Neðri-Þjórsár við Hvamm (95 MW). 

Afgreiðslan tafðist von úr viti hjá Orkustofnun, enda var hún sett í saltpækil í hálft ár hjá nýjum orkumálastjóra, sem síðan þóknaðist að senda umsóknina út og suður í umsagnir, sem vitnar ekki beinlínis um fagleg efnistök.  Framkvæmdaleyfi sömu virkjunar fer eðlilega í umsagnarferli, þegar sveitarfélögin afgreiða það.  Virkjanaleyfið kom svo loks eftir dúk og disk eftir a.m.k. 1,5 árs meðgöngutíma hjá OS.  Ekkert vitrænt mun hafa komið út úr þessu ferli, sem bætti virkjanatilhögunina á nokkurn hátt.  Eftirlitsstofnanir líta of stórt á sig m.v. verðmætasköpun þar á bæ, sem sjaldnast er mælanleg, og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. 

Það fyrsta, sem stofnanir þurfa að bæta innanhúss hjá sér, er vinnuagi, svo að lögbundnir tímafrestir séu virtir. Ef stofnun hangir á máli lengur en lögbundinn tímafrestur segir til um, á mál einfaldlega að ganga til baka sem samþykkt athugasemdalaust, nema ráðherra veiti einn mánuð í viðbót.  Kröflulína 3 velktist um í 7 ár í kerfinu, sem er tvöfaldur sá tími, sem eftirlitsiðnaðurinn hafði leyfi til að halda málinu hjá sér.  Hvað halda menn, að svona sleifarlag kosti fyrirtækin, sem í hlut eiga, og samfélagið allt ?  Í tilviki Kröflulínu 3 er um tugmilljarða ISK tjón að ræða.  Silkihúfurnar eiga að gjalda fyrir sleifarlagið og fá umbun fyrir afköst umfram væntingar. Hvata til góðra verka vantar.  Nú ætlar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fækka stofnunum.  Við það fækkar silkihúfunum, en mun skilvirkni embættismannanna og gæði verkanna batna við þennan samruna ?  Ef ekki, kastar hann barninu út með baðvatninu.   

Morgunblaðið gerði þessa þjóðfélagsmeinsemd að umfjöllunarefni í forystugrein 10. febrúar 2023:

"Eftirlit án eftirlits".

Hún hófst þannig:

"Íslenzkar eftirlitsstofnanir hafa með árunum fært sig mjög upp á skaptið, og stafar það ekki sízt af því, að þær virðast sjálfar ekki undir neinu eftirliti í störfum sínum, sem augljóslega gengur ekki upp. Slíkar stofnanir hafa mikil völd og verða að beita þeim af yfirvegun og skynsemi, en eiga það til að tapa áttum, og þá er voðinn vís."

Þá er frumskilyrði, að forstjórar þessara stofnana gæti þess, að þær starfi samkvæmt lögum í hvívetna og séu ekki meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nauðsyn krefur samkvæmt lagabókstafnum.  Það vantar mikið á, að Samkeppniseftirlitið fullnægi þessum skilyrðum, en forstjóri þessarar stofnunar er mjög ferkantaður í afstöðu sinni til atvinnulífsins og hagar sér iðulega eins og versti tréhestur.  Samkeppniseftirlitið (SKE) olli Símanum milljarða ISK tjóni með afskiptum sínum af sölu Mílu, en nytsemi þeirra afskipta fyrir neytendur er hæpin. 

Afstaðan til samstarfs afurðastöðva kjötframleiðenda er svo tréhestaleg, að furðu sætir.  Hagræðingu er unnt að ná með auknu samstarfi afurðastöðva.  Þar með lækkar kostnaður og tækifæri skapast til að greiða bændum hærra verð og/eða lækka verð til neytenda.  Þegar þess er gætt, að samkvæmt lögunum um Samkeppniseftirlitið má það heimila slíkar hagræðingarráðstafanir, verður að líta á það sem valdníðslu að hálfu forstjóra þess að leggjast þversum gegn þessu. 

"Samkeppniseftirlitið er eftirlitsstofnun, sem iðulega gengur of langt og er vandséð, að starfsemi þeirrar stofnunar skili nokkrum ávinningi. Eitt af því, sem stofnunin reynir af flækjast fyrir, er framþróun í íslenzkum landbúnaði, en stofnunin beitir sér mjög fyrir því, að hér séu sem strangastar reglur á þessu sviði atvinnulífsins, mun strangari en þekkist erlendis, þegar ástæða væri til, í ljósi fámennis og dreifbýlis, að veita meira svigrúm hér en erlendis til hagræðingar í greininni."

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins misskilur hlutverk sitt.  Hann virðist telja fjölda í grein til þess fallinn að keyra niður verð til neytenda.  Það er misskilningur, því að hagkvæmni stærðarinnar vegur þungt líka, og verðinu til neytenda eru skorður settar af lágri framleiðni, sem auka mætti með stækkun framleiðslueininga.  Með þvergirðingi (úr Blöndudal) stendur forstjóri Samkeppniseftirlitsins gegn eðlilegri framþróun atvinnulífsins, og ráðherra á ekki að láta hann komast upp með slíkt, en matvælaráðherra hefur nú látið embættismanninn beygja sig. 

"Samkeppniseftirlitið lætur sér ekki nægja að beita sér innan gildandi laga [það nýtir sér alls ekki svigrúm til hagræðingar í lögunum - innsk. BJo], það vill líka hafa áhrif á lagasetningu, jafnvafasamt og það er.  Þannig hefur stofnunin lagzt hart gegn frumvarpi, sem hefði getað aukið svigrúm til hagræðingar í landbúnaði með því að veita undanþágur frá samkeppnislögum.  Dæmi um, hve langt stofnunin gengur í þessum efnum, var nefnt í grein hér í blaðinu í gær eftir formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.  Í greininni segir, að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, sé samtals 56 bls.  "Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu o.fl., sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins, þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt.  Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega 2 bls. að lengd", segir í greininni, þar sem enn fremur kom fram, að norska eftirlitið lýsti ánægju með með frumvarpið." 

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, að hér fer Samkeppniseftirlitið út um víðan völl, kann ekki að sníða sér stakk eftir vexti og er komið langt út fyrir verksvið sitt.  Með þessum vinnubrögðum spilar Samkeppniseftirlitið rassinn úr buxunum og verðskuldar þá einkunn að vera gagnslaust í samfélaginu.  Það er verra en það, því að með tréhestatiltækjum sínum veldur það tjóni á samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Nýlegt dæmi er greining SKE á markaði fyrir majónes og kaldar sósur, en sá markaður var greindur í þaula og komizt að þeirri niðurstöðu, að Sameining Gunnars og Kaupfélags Skagfirðinga mundi draga úr samkeppni á þessum markaði.  Dettur embættismönnum SKE aldrei í hug að láta markaðinn einfaldlega njóta vafans ?  Í ljósi þess, að íslenzkur matvælaiðnaður á í harðri samkeppni við erlendan, virðist slíkt sjónarmið vera fyllilega réttlætanlegt.  SKE fer offari gagnvart íslenzku atvinnulífi og grefur þar með undan því og hagsmunum starfsmanna og neytenda, sem fremur kjósa íslenzkt.      

 

 

 

 


Öflugir bakhjarlar laxeldis hérlendis

Laxeldi í sjó hefur vaxið fiskur um hrygg hérlendis, og er orðin kjölfestustarfsemi á Vestfjörðum, sem er undirstaða fólksfjölgunar og vaxandi velmegunar á svæðinu.  Á Austfjörðum er starfsemi þess mikilvæg líka, en þar er meiri fjölbreytni í atvinnuháttum á sviðum orkukræfs iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Bölsýnisraddir hérlendar um þessa atvinnugrein hafa orðið sér til skammar.  Þær láta sem hvert strok úr kvíum jafngildi erfðablöndun við villta íslenzka laxastofna, sem skaði erfðamengi frumbyggjanna.  Þetta er dómadagsvitleysa og vitnar um fljótfærni og vanþekkingu á erfðafræði og öllu því, sem þarf að gerast áður en nokkur varanleg erfðablöndun getur átt sér stað.  

Laxeldið íslenzka nýtur mjög góðs af tæknisamstarfi við systur- og móðurfélög í Noregi og margháttað viðskiptasamstarf á sér líka stað við þessi norsku félög, t.d. á sviði hráefniskaupa og markaðssetningar afurðanna. Íslenzk sjávarútvegsfélög hafa nýlega aukið hlutdeild sína í þessari starfsemi, og er það eðlileg og ánægjuleg þróun. 

Þann 2. febrúar 2023 birtist merkileg frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, sem varpar ljósi á þessa 2 öflugu bakhjarla íslenzks laxeldis, sem hlupu undir bagga með gríðarlega öflugu framtaki, þegar hæst þurfti að hóa.  Sýnir þetta, að íslenzkt laxeldi í sjó er ekki á flæðiskeri statt og mun eiga sér bjarta framtíð hér við land, hvað sem úrtöluröddum á móti hvers konar framförum og tekjumöguleikum alþýðu líður. Þessir góðu bakhjarlar tryggja aðgengi íslenzkra laxeldisfyrirtækja í sjó að beztu fáanlegu tækni til að fást við hvers konar vanda, sem upp kann að koma.  Það er ómetanlegt að þurfa ekki að finna upp hjólið sjálfur.  

 Fyrirsögn féttarinnar var: 

"Laxinum slátrað beint úr kvíunum".

Hún hófst þannig:

"Risastórt laxasláturskip er í ferðum [á] milli Dýrafjarðar og Ísafjarðarhafnar, og þaðan fara flutningabílar á 50 mín fresti til Suðurnesja og austur á land, þar sem laxinum er pakkað til útflutnings.  Aðstaða til að starfrækja þetta óvenjulega sláturhús, sem er dreift um landið, var sett upp á mettíma til að leysa tímabundinn vanda í slátrun hjá Arctic Fish."

Þarna er leyst úr vaxtarverkjum íslenzks laxeldis með hátæknisláturskipi frá Noregi og samstarfi við vinnslustöðvar í landi í öðrum landshlutum um hávetur.  Þetta sýnir, hversu öflugra bakhjarla laxeldið við Ísland nýtur, sem gefur góð fyrirheit um þróun þessarar greinar og framtíð í landinu, þótt ekki skorti nú hælbítana.

"Arnarlax hefur slátrað laxi fyrir Arctic Fish í sláturhúsinu á Bíldudal.  "Það er takmörkuð afkastageta í slátruninni.  Framleiðslan er orðin það mikil, að þeir 80 starfsmenn, sem eru í sláturhúsinu á Bíldudal, hafa ekki undan.  Við þurfum að ljúka slátrun úr Dýrafirði.  Fiskurinn er kominn í sláturstærð, og við þurfum að hvíla eldissvæðin og þurftum því að bregðast við", segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Fengið var sláturskipið Norwegian Gannett frá Noregi til að taka kúfinn af, og er reiknað með, að það verði hér í rúman mánuð, út febrúar [2023].  Laxinum er slátrað beint upp úr kvíunum í Dýrafirði og síðan landað og hann flokkaður í ker í Ísafjarðarhöfn.  Þar hefur verið komið upp tjaldi til að skýla kerunum.  Síðan fara bílar á 50 mín fresti með laxinn til Grindavíkur og Djúpavogs og raunar einnig í minni vinnslur, þar sem honum er pakkað í frauðplastkassa til útflutnings. 

Norwegian Gannett er afar öflugt sláturskip.  80 manns er í áhöfn þess.  Daníel nefnir, að notaðar séu 14 slægingarvélar, en í sláturhúsi, sem Arctic Fish [reisir] í Bolungarvík, verða 2 slægingarvélar."

 

"Daníel er ánægður með fiskinn, segir, að 95 % - 97 % hans fari í hæsta gæðaflokk.  Ekki veitir af, því [að] nokkur aukakostnaður er við slátrun með þessu lagi, en Daníel bendir á, að heimsmarkaðsverð á laxi sé hátt um þessar mundir."

Það er ótrúlega góður árangur, ef um 96 % framleiðslunnar lendir í hæsta gæðaflokki á þessum kröfuharða markaði, sem laxamarkaðurinn er.  Það er enn fremur athyglisvert, að laxverðið er tiltölulega hátt núna á tímum þverrandi kaupmáttar almennings vegna verðbólgu.  Orkuverðið hefur lækkað í Evrópu vegna milds vetrar, þótt Evrópumenn séu nánast hættir að kaupa orku beint af Rússum.  Orkuvopnið geigaði hjá þeim og er að breytast í bjúgverpil, því að þeir hafa orðið af tugum milljarða EUR viðskiptum við Evrópu og eru nú að draga úr framleiðslu.  Nú tekur við páskaspurn eftir fiski á meginlandi Evrópu (fastan), svo að háa verðið á laxi mun haldast enn um hríð.

Nýlega kom út skýrsla á vegum Ríkisendurskoðunar um stjórn- og eftirlitskerfi með laxeldi í sjó við Ísland.  Þar fær embættismannakerfi matvælaráðuneytis, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar lága einkunn, enda hefur verið kvartað undan seinagangi þessara stofnana, og þær hafa staðið þróun greinarinnar fyrir þrifum. Núverandi Ríkisendurskoðandi er vanhæfur til að ritstýra skýrslu um þetta efni vegna hagsmunatengsla sinna við veiðiréttarhafa.  Þeir hafa rekið hatramman áróður og lagt til, að laxeldi í sjó verði hætt.  Er það ótrúlegt ofstæki, og skýrsla Ríkisendurskoðunar ber með sér, að þar eimir af slíkum viðhorfum og skýrslan er engan veginn í hlutlægu jafnvægi.  

Það er víða pottur brotinn í starfsemi íslenzkra eftirlitsstofnana, og efst á blaði trónir þar Samkeppniseftirlitið, sem þvælist fyrir með seinagangi og andstöðu við framfaramál, og virðist ekki gera nokkurt gagn.  Eftirlitsiðnaðurinn leikur lausum hala og virðist skorta nauðsynlegt aðhald.  Athygli vekur gjörólík afgreiðsla norska og íslenzka SKE á svipuðum málum matvælavinnslu, sem bendir til ófaglegra vinnubragða og smákóngaviðhorfa embættismanna hérlendis í stað þjónustulundar og vilja til að létta undir með atvinnulífinu í stað afætuhegðunar.  

   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband