Færsluflokkur: Bloggar

Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?

Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu.  Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu.  Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir.  Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð.  Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.  

Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont.  Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands.  Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni. 

Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum.  Greinin nefndist: 

"Bókun 35 við EES-samninginn".

Hún hófst þannig:

"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna.  Ákvæðið hljóðar svo:

"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað.  Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."

Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."

Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu.  Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu.  Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.  

Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:

"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."

Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega. 

"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa.  Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf.  Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi." 

Undirstrikunin er pistilhöfunfdar.  Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni.  Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.

"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig.  Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á.  Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess.  Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess.  Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."

Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins.  Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni.  Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum.  Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.  

Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más.  Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:

"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35.  Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.  

Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."

Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá.  Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.

 


Metnaðarlaust viðhorf til samræmds námsmats

Þann 23.03.2025 var Ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem hinn hvatvísi 1. þingmaður Suðurlands, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, úr Flokki fólksins, lét af embætti.  Hún hafði orðið ber að dómgreindarbresti bæði fyrr og síðar.  Viðhorf hennar til menntamála eru með þeim hætti, að segja má, að farið hafi fé betra.  Hún hefði ekki unnið þeim málaflokkum, sem hún var sett yfir, nokkurt gagn. 

Í Morgunblaðsgrein 1. marz 2025 vitnaði fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum, Meyvant Þórólfsson, til þessa lánlausa og e.t.v. hæfileikalausa þingmanns Sunnlendinga í grein sinni:

"Samræmt námsmat við lok skyldunáms".

Greinin hófst þannig:

"Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn [2025] sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns [framsóknarmannsins Ásmundar Einars, sem féll af þingi í síðustu Alþingiskosningum] og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu "allir sérfræðingar" slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr."

Þessi alhæfing og fimbulfamb án rökstuðnings er dæmigert fyrir þennan þingmann, sem aldrei átti neitt erindi á Alþingi.  Þessi málflutningur kennarans er óvandaður og sæmir ekki ráðherra.  Mun betra taka við hjá Flokki fólksins ?  Meyvant færir gild rök gegn staðleysum fyrrverandi ráðherra:

"Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað "gömlu samræmdu prófanna, sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi", eins og það var orðað þar.

Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið, sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt.  Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna.  Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wössmann, háskólaprófessors í München, byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS, leiddu í ljós jákvæða fylgni á milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar.  Kerfi, eins og það íslenzka, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum."

Þarf frekari vitnana við ?  Ásmundur Einar og Ásthildur Lóa eru algerlega úti að aka í þessum efnum, éta upp innantómar fullyrðingar hlaðnar skammsýnu pólitísku gildismati, sem ekki styðst við vandaðar rannsóknir.  Þegar metnaðarleysi af þessu tagi ríður húsum í menntamálaráðuneytinu, er ekki kyn, þótt keraldið leki, og botninn sé suður í Borgarfirði í íslenzla grunnskólanum, eins og PISA-prófin gefa til kynna. 

Skilningsleysið í menntamálaráðuneytinu og víða í skólakerfinu opinberast í tali um, að "Matsferill" (hugbúnaðarkerfi fyrir kennara) geti komið í stað lokaprófs.  Hér er um ósambærilega þætti að ræða, sem einhverjum pólitískum blekkingameisturum hefur tekizt að leggja að jöfnu.  Ef "Matsferill" kemst á koppinn, getur hann reynzt kennurum og nemendum gagnlegur, en hann getur aldrei orðið jafngildi lokaprófs nemenda.

"Árið 1990 skiluðu 2 starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang "samræmdra könnunarprófa".  Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat.  Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð.  Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.  

Nú hefur Seðlabanki Íslands gert athugasemdir við, að haldfastar mælingar skorti, sem gefið geti til kynna nýtingu opinbers fjármagns í skólakerfinu, aðallega grunnskólakerfinu.  Þetta er rétt og réttmæt ábending. Fjármagn til grunnskólakerfisins hefur á síðast liðnum 15 árum aukizt langt umfram nemendafjölgun, en eini mælikvarðinn á þróun námsárangurs eru PISA-prófin, og þau benda til, að námsárangur fari greinilega versnandi. Það er makalaust, hvernig menntayfirvöldum og skólafólki dettur í hug að reka skólakerfi í blindni, hafandi engar árlegar samræmdar mælingar á árangri nemenda.  Að skilja ekki mikilvægi samræmdra lokaprófa í grunnskóla er grafalvarlegt og aumlegt að mikla fyrir sér framkvæmdina árið 2025, þótt próf eins og Landsprófið hafi gengið snurðulaust áratugum saman á 20. öldinni. 

"Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun innihalda "fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi", svo [að] aftur sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins.  M.v. lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið, þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá, að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn, mætti segja, að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum. 

 

M.v. lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós.  En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám. 

Orð [fyrrverandi] ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum."

   Höfundur þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um þessi atriði.  Skólayfirvöld og kennaraforystan skáka í því skjólinu, að Matsferill muni koma í stað samræmdra lokaprófa.  Það er reginmisskilningur, sem sýnir, að pólitík ræður för í stað málefnalegrar hlutlægni og rökhyggju. 

Úr öllum áttum berast nú vísbendingar um, að árangur íslenzka menntakerfisins sé í engu samræmi við opinberar fjárveitingar til þess.  Nú síðast (26.03.2025) benti frumkvöðull PISA-prófanna á þá augljósu staðreynd, að ómögulegt er að vinna markvisst að endurbótum, ef engin árangursmæling er fyrir hendi.  Hann benti á margvíslega nytsemi samræmdra árangursmælinga, t.d. fyrir skóla og foreldra.  Jafnframt, að námsárangur er að jafnaði betri þar, sem samræmd lokapróf eru viðhöfð. 

 Núverandi mennta- og barnamálaráðherra segist munu einbeita sér að því verkefni að gera grunnskólanemendur læsa áður en kemur að útskrift.  Hvernig ætlar hann að vinda ofan af núverandi óframdarástandi ?  Ef hann hefur enga róttæka framkvæmdaátlun, mun honum ekkert ágengt verða.  Undanfarin ár hefur forystuleysi ráðuneytisins staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum. Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur frá um 2010 er ónýtt og skaðlegt plagg. Mun nýi ráðherrann gera gangskör að því að gefa út mjög endurbætta aðalnámskrá ?  Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með málefni fjöreggs þjóðarinnar.  Þetta fjöregg, æskan, á á brattann að sækja um þessar mundir og rótleysi hrjáir hana með þeim afleiðingum, að margir óttast nú um afdrif móðurmálsins.  Mun nýr ráðherra leggja þung lóð á vogarskálar með æskunni eða á móti henni ?    

 

 

 

 


Yfirgangur Bandaríkjanna keyrir um þverbak

Þann 28.02.2025 varð heimsbyggðin vitni að óheyrilegum lygum og dónaskap forseta og varaforseta Bandaríkjanna í garð gests síns í forsetaskrifstofu ("Oval Office") í Hvíta húsinu.  Gesturinn að þessu sinni var Volodimir Zelensky, rétt kjörinn forseti Úkraínu og með nýlega einróma stuðningsyfirlýsingu úkraínska þingsins í farteskinu.  Framkoma bandarísku ráðamannanna var ruddaskapur og dónaskapur af verstu gerð, sem sýnir, að nú hafa Bandaríkin tekið sér stöðu með Rússlandi og fleiri einræðisríkjum um þá nýju skipan heimsmálanna, að í stað laga og réttar, sem Bandaríkin hafa stutt af kostgæfni hingað til, skuli ráða réttur hins sterka.  Þetta þýðir í raun klofning NATO, og að Evrópa stendur nú ein og verður að sjá um varnir sínar sjálf og taka að sér að standa ein með Úkraínu gegn innrás Rússa í landið, sem er þáttur í heimsvaldastefnu Kremlar. 

Það er orðin spurning, hvort varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 er Íslandi byrði eða ávinningur, því að forseti Bandaríkjanna virðist meta allt til fjár án þess að ráða við það.  Þetta eru firn mikil, og það hlýtur að ríkja hneykslan, fordæming og reiði í mörgum ranni fyrir vestan núna, einnig á Bandaríkjaþingi.  Það, sem gerzt hefur, að forseti Bandaríkjanna gerist málpípa og bandamaður stríðsglæpamannsins á æðsta valdastóli Kremlar, er svo alvarlegt, að það hlýtur að vekja marga þingmenn á Bandaríkjaþingi upp við vondan draum, svo að unnt verði að virkja reglur um brottvísun úr starfi forseta Bandaríkjanna. Hér er alls ekki allt með felldu, svo að lögsókn gegn forsetanum verður ekki útilokuð.

Þann 25.02.2025 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra, undir lýsandi fyrirsögn:

"Nýlenduveldið Rússland"

Hún hófst þannig:

"Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð.  Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár.  Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu, þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO.  Það, sem gleymist, er ekki sízt að huga að því, hvers konar land Rússland er."

Rússland er og hefur verið frá 17. öld heimsvaldasinnað ríki í nánast stöðugri útþenslu. Ef þessi útþensla verður ekki varanlega stöðvuð núna í Úkraínu, mun hún halda áfram að Eystrasalti og til vesturs.  Árásargjarnt ríki á ekki að fá að ráða örlögum nágrannaríkja sinna.  Þannig á ekki að hlusta á gjammið í Kreml, þegar NATO-aðild og ESB-aðild Úkraínu er til umræðu. Donald Trump hefur valdið straumhvörfum í alþjóðamálum.  Hann hefur tekið sér stöðu með Rússlandi Pútíns og þvertekið fyrir aðild Úkraínu að NATO.  Bandaríkin glata þessa dagana trúverðugleika sínum og trausti vestrænna bandamanna sinna með því að taka afstöðu með Rússlandi við atkvæðagreiðslur innan Sameinuðu þjóðanna. Evrópa virðist standa ein uppi í baráttunni gegn árásargjörnu og glæpsamlegu Rússlandi.  Með framferði stjórnvalda í Bandaríkjunum munu þau standa uppi vinalaus og verða innlendri upplausn að bráð, en Evrópa mun axla sína ábyrgð og taka forystu á meðal lýðræðisþjóða í baráttunni gegn landvinningum einræðisríkisins Rússlands. 

Hvernig mun núverandi Bandaríkjastjórn taka á Kína ?  Gort Bandaríkjaforseta um eigið ágæti og samningatækni er innantómt bull og ekkert skárra en aðrar lygar hans.  

"Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess, að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig.  Þegar horft er til sögunnar, má sjá, að ríki fara ekki í stríð, nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi.  Rússar reyndu í mörg ár, en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi. 

Það, sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO.  Efalítið eru það þættir, sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins.  En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu, verður ekki hjá því komizt að álykta, að skýringanna er ekki sízt að leita í nýlendustefnu, sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir, að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert."

Það er þyngra en tárum taki, að fyrrverandi forysturíki hins vestræna heims skuli nú hafa svikið lit og tekið sér stöðu með þessu árásargjarna og frumstæða ríki, Rússlandi, sem leynt og ljóst reynir að grafa undan lýðræðinu í heiminum. Hvað í ósköpunum kom fyrir ?  Hvers vegna gengur forseti Bandaríkjanna nú erinda Kremlverja ?  Eru það hagsmunir Bandaríkjanna ?  Það verður ekki séð.  Eru það hagsmunir Donalds Trumps ?  Það á eftir að koma í ljós, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar. 

Nýjasta illvirki Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu er að hætta að deila upplýsingum til Úkraínumanna um eldflaugar og herflugvélar, sem hefja sig á loft frá yfirráðasvæði Rússlands ásamt upplýsingum um herflutninga Rússa á landi.  Þetta hefur valdið því, að Úkraínuher á erfiðara með að verjast árásum Rússa, einnig á borgaraleg skötmörk.  Þá hafa Bandaríkjamenn dregið úr notagildi F16 herflugvéla flughers Úkraínu með því að gera óvirkan truflanabúnað þeirra fyrir rafeindamerki.  Það mun taka Evrópu a.m.k. 2 mánuði að fylla þetta skarð, en mrdUSD 800 viðbótar fjárveiting ESB á 4 árum er skýrt merki frá ESB um, að þar á bæ er ætlunin að verða óháður Bandaríkjunum í öryggismálum, enda er augljóslega ekki hægt að treysta Bandaríkjunum.  


Á að hafa fé af ríkissjóði með kattarþvotti

Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, er á hálum ísi með því að nota 2 hæpin lögfræðiálit til að mismuna þegnum landsins stórlega varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu fé úr ríkissjóði. Téðu hæpnu lögfræðiálitin fría Flokk fólksins þeirri skyldu að endurgreiða ríkissjóði fé, sem engin lagaheimild var til að greiða flokknum.  Þetta er hæpið, því að það gengur í berhögg við lagaákvæði og Hæstaréttardóm.  Engu breytir um stöðu Flokks fólksins gagnvart lögunum, að starfsmönnum ríkisins urðu þarna á mistök. Það bætir ekki úr sök Flokks fólksins, að honum mátti vera ljóst, að hann skorti lagaheimild til að taka við téðu fé úr ríkissjóði, enda samþykktu þingmenn hans lagasetninguna. 

Þann 12. febrúar 2025 birtist skýr grein í Morgunblaðinu frá Einari Geir Þorsteinssyni, lögfræðingi, sem varpar ljósi á lagalega hlið hins s.k. "Styrkjamáls" undir fyrirsögninni:

"Ólögmæt greiðsla til Flokks fólksins - ríkissjóður á endurkröfurétt". 

Hún hófst þannig:

"Flokkur fólksins hefur fengið samtals MISK 240 úr ríkissjóði á árunum 2022-2024, þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá, eins og lög kveða á um.  Þrátt fyrir að greiðslurnar hafi verið ólögmætar frá upphafi, virðist ekki standa til að krefja flokkinn um endurgreiðslu.  

Ef einstaklingur fær ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun eða opinber starfsmaður fær ofgreidd laun, er ætlazt til þess, að fjármunirnir verði endurgreiddir. Þegar stjórnmálaflokkur fær hins vegar ofgreitt fé úr ríkissjóði, virðist fjármálaráðherra líta svo á, að aðrar reglur eigi við.  Ríkissjóður virðist tilbúinn að afsala sér lögmætri kröfu um endurgreiðslu um MISK 240 af opinberu fé - án þess að láta reyna á endurkröfurétt sinn." 

Með þessu slær Viðreisnarmaðurinn og fjármálaráðherra afar varhugaverðan tón í íslenzkum stjórnmálum, sem gengur þvert á grundvallarregluna um jafnræði þegnanna gagnvart lögunum.  Það er í raun algerlega ótækt, þótt hann með því sé að bjarga skinni sólhvarfastjórnarinnar, sem er á hverfanda hveli út af þessu spillingarmáli. Þar að auki hefur nú komið fram, að ríkið leiðbeindi Flokki fólksins um frágang gagna til að sýna fram á hæfi til að taka við ríkisstyrk til stjórnmálaflokks.  Þetta gerði Skatturinn í janúar-febrúar 2024.  Ekki ætti að skipta máli, hvaðan gott kemur.  Haustið 2024 þvertók Inga Sæland fyrir, að flokkurinn hefði fengið slíkar leiðbeiningar.  Hvernig er eiginlega háttað umgengni þessa ráðherra við sannleikann ? 

Trúverðugleiki þessa ráðherra er enginn orðinn, og nú verður að fara fram ítarleg rannsókn á því, hvernig ólögmætu fé úr ríkissjóði, var ráðstafað.  Var þar farið að lögum, sem gilda um stjórnmálaflokka og styrkveitingar til þeirra, eða kemur hér til kasta refsilöggjafarinnar ? 

"Álitsgerð ríkislögmanns byggist á því, að bæði ríkið og Flokkur fólksins hafi verið í góðri trú.  Slík rök standast ekki.  Grandleysi ræðst ekki af því, hvort ríkið hafi gert mistök í verklagi, heldur af því, hvort Flokkur fólksins hafi mátt vita, að greiðslan væri ólögmæt.  Þar sem lagaskylda var skýr og skráningarskyldan ótvíræð, verður ekki annað séð en flokkurinn hafi borið fulla ábyrgð á því að hafa tekið á móti greiðslunum, sem voru ólögmætar frá upphafi."

Þingflokkur Flokks fólksins samþykkti lögin, sem hér um ræðir.  Það er ótrúlega ósvífið að halda því fram, að flokkinum hafi verið ókunnugt um efni þeirra og afleiðingar fyrir stjórnmálaflokkana. Að boðið sé upp á svona hundakúnstir af einum ríkisstjórnarflokkanna, er trúlega einsdæmi í fullveldissögu landsins.  Ríkisstjórnin er sködduð með lík í lestinni.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginreglan, að þeim, sem fær ranglega greidda peninga, ber að endurgreiða þá.  Þetta er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr 32/2007, en þar segir orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginregla um, að þeir, sem fá fyrir mistök greidda peninga, sem þeir eiga ekki rétt til, skuli endurgreiða þá."

Það fer vart á milli mála, hvernig málshöfðun gegn Ingu Sæland mundi lykta í réttarkerfinu.

"Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, hefur sagt, að málið sé "ekki á hans borði", nema að því leyti, sem varðar vinnubrögð ráðuneytisins.  Sú afstaða stenzt ekki skoðun, enda á ríkissjóður lögmæta endurgreiðslukröfu á hendur Flokki fólksins."

Ómálefnalegt er, hvernig fjármálaráðherra gerir vinnubrögð fjármálaráðuneytisins, sem kannski má nefna mistök, að aðalatriði málsins.  Það er "smjörklípuaðferð" til þess gerð að reyna að bjarga skinni ríkisstjórnarinnar.  Engin ríkisstjórn getur afborið spillingarmál af þessu tagi af hálfu eins ríkisstjórnarflokksins. 

 


Staðsetning virkjana skiptir máli

Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra.  Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið.  Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ?  Eru það bara orðin tóm ?

Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi: 

"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"

Þar mátti m.a. lesa:

"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana.  Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027.  Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina. 

Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun.  Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga.  Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu.  Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."  

Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum.  Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið.  Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".   


Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB

Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands.  Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.  

Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot".  Á hún yfirleitt við á Íslandi ?  Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð.  Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ?  Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina. 

Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði.  Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér. 

Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"

Þar kom m.a. fram:

"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins.  Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.

Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar.  Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun. 

"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."

Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar.  Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra.  Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa  ána ?  Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ?  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess.  Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.

""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi.  Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir.  Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:

"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."

Dómurinn er hæpinn.  Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt.  Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt.  Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru. 

 

 

  

 


Sólhvarfastjórnin lömuð ?

Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði.  Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi.  Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun.  Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?

Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi.  Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu.  Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum.  Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.

Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum.  Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:

"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"

Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta. 

Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum.  Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.

Grein Elíasar hófst þannig:

"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum.  Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir.  Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar.  "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan.  Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"

Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum.  Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ?  Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum.  Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust.  Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði.   Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?  

Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.  

Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra.  Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara.  Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska.  Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið. 

"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun.  Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar.  Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir." 

Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi.  Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra.  Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu  vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru.  Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011.  Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi.  Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn. 

"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni.  [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna.  Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram.  Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi.  Það getur orðið dýr orka.  Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.

Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda.  Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ?  Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?" 

Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver.  Við þurfum á hámarksnýtingu að halda.  Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga.  Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð.  Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu.  Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir. 

Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar.  Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn.  Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind.  Orkuverðið verður 110 USD/MWh.  Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana. 

"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega.  Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur.  Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála.  Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt.  Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis.  Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna. 

Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni.  Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum.  Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"

 Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning.  Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi.  Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.  

 

   

 


Stjórnsýsla Reykjavíkur á sviði mannvirkjagerðar er í molum

Samfylkingin og píratar hafa undanfarinn áratug rekið lóðamál, byggingamál og samgöngumál út frá kenningu, sem reist er á fölskum forsendum og stendst þess vegna ekki tæknilega rýni, eins og margoft hefur komið fram.  Þetta er kenningin um það, að umferðaröngþveiti í Reykjavík og nærsveitum verði aðeins leyst með "borgarlínu", sem eru miðjusettar 2 akreinar, 1 í hvora átt, enda slík lausn augljóslega sett til höfuðs fjölskyldubílnum. Þetta er langdýrasta lausnin og kallar að mati þeirra, sem þessa lausn bera fyrir brjósti, á að þvinga fólk bókstaflega vegna þrengsla út úr fjölskyldubílnum og upp í vagna "borgarlínu" og aðra vagna og jafnframt á þéttingu byggðar út frá ásum "borgarlínu".  Hér er misheppnuð og stórkarlaleg forræðishyggja vinstri flokkanna að verki, sem felur í sér lífsháttabreytingu borgaranna til hins verra og stenzt ekki tæknilega og fjárhagslega rýni.  

Ekki nóg með þetta, heldur hefur s.k. "þéttingarstefna" rýrt lífsgæði íbúanna, sem fyrir eru, þar sem borgaryfirvöldum dettur í hug að bera niður, jafnvel með stórhýsi, sem aðalskipulag veitir engan ádrátt um.  Þetta hefur komið áþreifanlega fram í umræðunni um vöruhús í Suður-Mjódd, sem er u.þ.b. jafnhátt fjölbýlishúsi þar í 14 m fjarlægð.  

Píratinn, sem stjórnar umhverfis- og skipulagssdviði borgarinnar, kom af fjöllum og fór að kenna verkferlum um.  Hún er ljóslega óhæf til þessa ábyrgðarhlutverks og ætti þegar í stað að segja af sér.  Píratar axla ekki ábyrgð, enda sjá þeir bara flísina í annarra auga, en ekki bjálkann í eigin auga. 

Í Morgunblaðinu 18. desember 2024 birti Baldur Arnarson frétt um Álfabakka 2 undir fyrirsögninni: 

"Margir komið að framkvæmdinni".

Hún hófst þannig:

"Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir þá hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna vöruhússins í Suður-Mjódd.  Þeir eigi því bágt með að sjá, hvernig útkoman eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.

Tilefnið er fréttaflutingur af nýbyggingu í Álfabakka 2, en af því tilefni vill félagið, sem byggir og á húsið, Álfabakki 2 ehf, árétta nokkur atriði.  Í fyrsta lagi sé framkvæmdin unnin í samræmi við allar gildandi heimildir."

Þegar óhæfir pólitískir stjórnendur skipulags- og mannvirkjamála Reykjavíkur voru staðnir að verki að virða hagsmuni íbúanna ekki viðlits í ákafa sínum að leggja höfuðáherzlu á þéttingu byggðar, þá fóru þeir undan í flæmingi, voru hissa og kenndu jafnvel framkvæmdaaðilanum um, hvernig komið var.  Þetta sýnir, að stjórnsýsla Reykjavíkur á þessu sviði er í molum. Það er brýnt að kasta óhæfum sérvitringum út úr borgarstjórn, eins og Alþingi 30.11.2024, í næstu sveitarstjórnarkosningum. Farið hefur fé betra. 

Úrdráttur viðtals við Halldór Þorkelsson:

"Hvernig var málið kynnt fyrir haghöfum og nágrönnum ?  "Skuldbindingar framkvæmdaaðila eru gagnvart skipulags- og byggingaryfirvöldum, og gagnvart þessum aðilum eru allar teikningar, áformaður frágangur, útlit og fyrirkomulag kynnt.  Það er síðan á vegum borgarinnar, hvernig staðið er að nánari kynningu gagnvart nærliggjandi aðilum og öðrum hagaðilum.  Borgin var alfarið með það." " 

Hin pólitíska ábyrgð í þessu máli liggur hjá hinum pólitíska kommissar, sem settur var yfir umhverfis- og skipulagssvið. Þar er um að ræða óhæfan pírata, silkihúfu, sem algerlega hefur brugðizt starfsskyldum sínum í þágu íbúanna og verður að láta þegar í stað af þessu hlutverki, sem hún ræður ekki við.  Hún hefur bætt gráu ofan á svart með því að fara undan í flæmingi og kenna öllu öðru um en sjálfri sér.  Þarna hafa menn það, sem auðvitað var vitað fyrir, hvers konar stjórnendur píratakjánarnir eru, og hvernig þeir umgangast lýðræðislega ábyrgð sína. 

"Er rétt, að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar, en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar ?

"Já, það er laukrétt.  Og ekki bara það, heldur lögðum við fram beiðni í ljósi þess, að byggingarlóðarhafi er krafinn um greiðslu byggingarréttar fyrir allt að 15 þús. m2 byggingu ofanjarðar.  Það varð fljótlega ljóst, að það væri ekki talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd á stærra húsi en sem nemur 11.500 m2.  Og þá fást þau svör hjá borginni, að það yrðu ekki gerðar breytingar á þessari greiðsluskyldu, nema gildandi diliskipulagi yrði breytt.  Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi, þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 m2.  Það var ekki fallizt á þá beiðni.""

Á umhverfis- og skipulagssviði var forystan sem sagt gallhörð á því að byggja 30 % meira á umræddri lóð en raumin varð.  Borgin samþykkti líka hæð byggingarinnar.  Það er við hana að sakast í þessu máli.  Að enginn skuli vera látinn taka hatt sinn og staf við þessar aðstæður sýnir, að stjórnkerfi borgarinnar, lengstum undanfarinn áratug undir forystu Samfylkingarmannsins Dags B. Egertssonar og nú framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar, er gegnumrotið. Það vakti athygli á dögunum, að Dagur B., sem hafði talið sér þingflokksformennsku hjá Samfylkingu vísa, var ekki talinn verðugur þeirrar stöðu af formanni flokksins.  Spurning vaknar, hvaða erindi maður, sem er í frystingu hjá Kristrúnu Frostadóttur, átti á þing ?   

 

   


Hlutverk vindorkuvera á Íslandi

Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins.  Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver.  Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir.  Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg. 

 Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku.  Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári.  Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu.  Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.  

Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar.  Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu).  Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni. 

Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn  en þarf  til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun.  Þarna er því ólíku saman að jafna.  Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla.  Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum.  Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni. 

 

Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C.  Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ.  Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005.  "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu.  Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði.  Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun.  Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2. 

Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni: 

"Loftslagsmál og orka",

er m.a. fjallað um orkuskipti:

"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum".  Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.

Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta.  Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."

Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum.  Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum.    Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð.  Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun. 

Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt.  Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum.  Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum.  Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana. 

Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a.  eftirfarandi að segja: 

"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra.  Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps.  Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar.  Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku.  Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti." 

Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis.  Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings.  Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa.  Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar.  Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.  

 

  

 


Framlag Björns Lomborg

Björn Lomborg hefur lagt margt nytsamlegt til loftslagsmálanna og til baráttunnar við örbirgð í heiminum, t.d. með því að benda á, hvernig fjármunir nýtast bezt við að fást við þessi viðfangsefni.

Hann hefur bent á arfaslakan árangur af loftslagsstefnu Sameinuðu þjóðanna (Sþ), sem fram kemur í aukningu losunar koltvíildis allt fram á þennan dag, t.d. frá kolaorkuverum.

Á Bretlandi hófst kolabrennsla með iðnbyltingunni. 30. september 2024 lauk þessu kolabrennslutímabili á Bretlandi, þegar síðasta kolakynta orkuverinu var lokað þar.  Aðeins þriðjungur ríkja OECD býr nú við kolalausa raforkuvinnslu.  Um þriðjungur af raforkuvinnslu heimsins á sér stað í kolakyntum orkuverum um þessar mundir.  Flest eru þau staðsett í s.k. þróunarríkjum, sem telja þau nauðsynlega undirstöðu hagvaxtar hjá sér.  Þungvæg rök mæla þó gegn rekstri þeirra.  Loftmengun kolaorkuvera verður árlega milljónum manna að aldurtila.  Þau leggja mikið til gróðurhúsaáhrifanna, sem bitna mest á fátækum ríkjum.  Samt hillir ekki undir, að þau verði aflögð. 

Samkvæmt BloombergNEF-rannsóknarfyrirtæki óx kolanotkun heimsins 2023 um 4,5 % og náði hæstu hæðum í sögunni, og kolin fóru að mestu til raforkuvinnslu.  Orkuvinnslugeta kolaorkuvera hefur vaxið um 11 % frá 2015 samkvæmt E3G-ráðgjöfum.  Það eru núna meira en 6500 kolaorkuver í rekstri með uppsett afl um 2245 GW, og enn er verið að reisa slík ver.  Þar sem kolaorkuver losa mun meira kolefni per orkueiningu út í andrúmsloftið en orkuver knúin olíu eða jarðgasi, eru þau sérlega óheppileg til raforkuvinnslu, en þau standa undir 41 % af losun gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis. 

Björn Lomborg hefur skrifað margt af skynsamlegu viti og þekkingu um misheppnaða baráttu Sþ við loftslagsvána.  Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2024 undir fyrirsögninni:

"Nýársheit til framfara - gerum það, sem virkar"

"En hinn grimmilegi [grimmdarlegi] sannleikur er sá, að alþjóðlegt samstarf hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarinn áratug.  Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 169 punkta áætlun til að leysa fyrir árið 2030 öll vandamál, sem mannkynið stóð þá frammi fyrir.  [Þessi markmiðasetning er með ólíkindum óraunsæ og sýnir í hnotskurn vitleysuna, sem viðgengst innan Sþ - innsk. BJo.]  Hin svokölluðu heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af öllum leiðtogum heimsins með góðum ásetningi [líklegast þó engum ásetningi - innsk. BJo]. Nú þegar 5 ár eru eftir af þessum 15, erum við hvergi nálægt lagi, hvað snertir öll 169 loforðin.  Baráttan gegn fátækt, sjúkdómum og hungri hefur misst kraftinn.  Af hverju náum við ekki betri árangri ?  Að miklu leyti vegna þess, að við reynum að gera of mikið.  Ef við ætlum að einbeita okkur að öllu, þýðir það, að við höfum engu forgangsraðað og áorkað mjög litlu. 

Nýtt ár býður upp á nýtt tækifæri.  Í stað þess að reyna að gera allt - bæði sem samfélag og sem einstaklingar með okkar eigið framlag - ættum við að einbeita okkur að þeim aðgerðum, sem skila mestum framförum.  Það eru þær aðgerðir, sem skila mestri arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir."

Þetta eru heilbrigð viðhorf og höfundi þessa pistils dettur í hug, að leitun hljóti að vera að verkefnum, sem skila meiri "arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir" en virkjun íslenzkra vatnsfalla og jarðgufu. Samt hefur afturhaldinu á Íslandi tekizt að drepa þessu máli á dreif með fullyrðingum út í loftið um, að enginn raforkuskortur sé á Íslandi.  Að baki þessari röngu fullyrðingu liggja þau falsrök, að losa megi um mikla raforku og hleypa henni á markaðinn með því að taka núverandi raforkunotendur stóriðju, sem allir eru með langtímasamninga við aðallega Landsvirkjun og OR, kverkataki og draga stórlega úr umsaminni orkuafhendingu þangað. Hér eru á ferðinni draumórar villta vinstrisins á Íslandi, sem skeyta hvorki um skömm né heiður og mundu ekki víla fyrir sér að eyðileggja gjörsamlega orðstír Íslands á alþjóðlegum fjárfestinga- og peningamarkaði. Það er ótrúleg blinda og heimska, sem að baki liggur, enda synjuðu kjósendur þessum pólitísku öflum, sem einnig er að finna í Landvernd, um seturétt á Alþingi í kosningunum 30.11.2024. Mörgu ófélegu skolaði reyndar á land þar, sem landsmenn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með, en þó ekki þessu. 

"Þegar barnshafandi móður skortir nauðsynleg næringarefni og vítamín, verður vöxtur og heilaþroski barnsins hægari.  Börnin hennar eru dæmd til verra lífs.  Jafnlág upphæð og USD 2,31 getur tryggt, að verðandi móðir fái fjölvítamín, sem þýðir, að börnin hennar verða heilbrigðari, klárari og afkastameiri.  Hver USD, sem varið er í fæðubótarefni fyrir barnshafandi konur, getur skilað allt að USD 38 í efnahagslegum ávinningi.  Þetta er ekki fjarlæg útópía.  Þetta er raunhæf, sannreynd lausn, sem hægt væri að útfæra strax á mun stærri skala."

 Þetta er ein af góðum hugmyndum Kaupmannahafnarhugveitunnar um aðstoð við fátækar þjóðir, sem skilar betri árangri en margt það, sem nú er gert í þeim efnum af takmörkuðum skilningi á aðstæðum, svo að ekki sé nú talað um sóunina í nafni loftslagsins.  Á Íslandi hefur draumórafólki t.d. dottið í hug að flytja inn koltvíildi frá útlöndum til að farga því með niðurdælingu með ærnum tilkostnaði í Straumsvík.  Þegar búið er að skilja CO2 frá verksmiðjuafsogi, er komið hráefni, sem nota má hreinsað við ræktun í gróðurhúsum eða sem blöndunargas í vetni við rafeldsneytisframleiðslu.  Skrýtið að láta sér detta í hug mikið fjárfestingarverkefni til að dæla verðmætum ofan í jörðina. 

  

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband