Færsluflokkur: Bloggar

Samfélagstilraun með vanburða hugmyndafræði

Vinstri menn frá Karli Marx hafa haft dálæti á samfélagstilraunum, sem miða að breyttu samfélagi.  Eðli málsins samkvæmt eru þessar tilraunir gerðar í andstöðu við tilraunadýrin, því að þau kæra sig ekki um að breyta lífsháttum sínum til að falla að ófullburða hugmyndafræði öfgamanna um sósíalistískt borgarskipulag eða þjóðfélagsskipulag nú eða skipulag sveitanna, eins og Stalín og Maó hrintu af stað, þegar þeir þvinguðu bændur til samyrkjubúskapar með skelfilegum afleiðingum, s.s. hungursneið ("Holodomar" í Úkraínu 1931-1932) sem afleiðingu. 

S.k. vinstri meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur staðið fyrir umferðartilraun undir hugmyndafræðilegri leiðsögn Samfylkingarinnar. Sú leiðsögn er svo lágkúruleg, að hún nær ekki máli sem hugmyndafræði, heldur er það draumsýn vinstri sinnaðra amatöra í skipulagsmálum umferðar, að með því að skapa nægilegar umferðartafir megi þvinga fjölskyldur fjölskyldubílsins út í að nota almenningssamgöngur.  Til þess eru umferðargötur þrengdar, hvergi bætt við akreinum og mislæg gatnamót tekin út úr aðalskipulagi.  Þetta er andvana fædd tilraun undirmálsfólks á vinstri væng stjórnmála til að móta samfélagið í nýrri mynd.  Í Ráðstjórnarríkjunum átti útkoman að vera "homo sovieticus", en einnig sú tilraun mistókst, og undir ráðstjórninni ríkti gegndarlaus spilling, mútuþægni og neðanjarðarmarkaður. 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur einna mest vit á faglegri skipulagningu umferðarmannvirkja á landi hér til að greiða götu vegfarenda og jafnframt að hámarka öryggi þeirra. Hann reit áhugaverða grein í Morgunblaðið 20.11.2024, þar sem hann bar saman umferðartafir á nokkrum þéttbýlisstöðum heimsins: 

"Á mbl.is 14. nóvember síðastliðinn [2024] birtist frétt með fyrirsögninni: "Minni tafir en í sambærilegum borgum".  Fjallað var um erindi, sem dr Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur, flutti á morgunfundi sama dag hjá Vegagerðinni. Berglind bar umferðartafir í Reykjavík saman við umferðartafir í Bergen, Málmey og Árósum, sem hún telur vera sambærilegar borgir.  Ég er ósammála því, einkum af tveimur ástæðum:

Í fyrsta lagi þarf að bera saman borgarsvæðin (ekki bara borgina sjálfa).  Á Bergensvæðinu búa 420 k manns, 700 k á Málmeyjarsvæðinu og 367 k á Árósasvæðinu.  Skandinavísku borgarsvæðin eru því mun fjölmennari en höfuðborgarsvæðið með sína 244 k íbúa. 

Í öðru lagi er höfuðborgarsvæðið bílaborg.  Umferðartafir í bílaborgum eru að jafnaði mun minni en í öðrum borgum (heimild: Traffic Index, Selected Metropolitan Areas \ The Geography of Transport Systems)."  

Þetta er rökrétt hjá Þórarni, sem sýnir, hversu varhugavert er að gleypa við tálbeitum, þegar sérfræðingar eru fengnir til að sýna fram á eitthvað, sem stundum stangast á við heilbrigða skynsemi. Í borgarkerfinu eru nú orðið fjölmargir, sem hafa framfæri sitt af hönnunar- og undirbúningsvinnu vegna glapræðishugmynda borgarstjórnarmeirihlutans í skipulagsmálum og þar með samgöngumálum.  Hvernig næsti þingmeirihluti á Alþingi forgangsraðar fjármunum til samgöngumála á landinu öllu, verður athyglivert að sjá. 

"Skoðum nú niðurstöðurnar [umferðarlíkans] m.v. árlegt tímatap á álagstíma.  Smellum á "Time lost per year at rush hours" á TomTom-listanum.  Göngum úr skugga um, að stillt sé á "Metro area".  Þá verður niðurstaðan sú, að umferðartafir eru mestar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ökumenn tapa á hverju ári að meðaltali 44 klst á álagstíma.  Árlegt tímatap er 40 klst á Árósasvæðinu, 29 klst á Bergensvæðinu og 26 klst á Málmeyjarsvæðinu.

M.v. þennan mælikvarða trónir höfuðborgarsvæðið á toppinum í samanburðinum og er nr 143 á TomTom-listanum.  Það er mjög óeðlilegt, að litla bílaborgin okkar sé á þessum stað.  Til fróðleiks er Los Angeles-svæðið nr 105 á listanum með árlegt tímatap upp á 50 klst."  

Þetta er árangurinn af meira en áratugs stefnumörkun Samfylkingarinnar í Reykjavík með einbeittum brotavilja borgarfulltrúa hennar og fylgitunglanna gegn íbúum höfuðborgarsvæðisins og öllum, sem þurfa að aka um borgina.  Samfylkingin hefur náð að rýra lífsgæði íbúanna mikið með því að gera vegfarendum lífið leitt og með þéttingarstefnunni, sem þjappar fólki saman með skuggamyndunum og án svigrúms á auðum svæðum fyrir börn að leik, og þetta húsnæði verður allt of dýrt. Stefna Samfylkingarinnar er skaðleg og algerlega misheppnuð, enda vanhugsuð.       


Fyrirbærið Donald Trump

Það varð ýmsum Evrópumönnum og e.t.v. fleirum nokkurt áfall, að Repúblikaninn Donald Trump skyldi bera sigurorð af Demókratanum Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 05.11.2024.  Ekki nóg með það, heldur varð "alslemma" hjá Repúblikönum með jafnframt meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.  Höfundur þessa pistils hefur oftast fylgt Repúblikönum að málum, en gat það ekki núna.  Hegðun Donalds á lokadögum síns fyrra kjörtímabils, þegar segja má, að hann hafi sigað æstum og tapsárum lýð á þinghúsið, var siðlaus og löglaus.  Munnsöfnuður hans í þessari kosningabaráttu var smánarlegur.  Utanríkisstefna hans er þröngsýn og skammsýn, og á eftir að valda Vesturveldunum miklum vandræðum, ef og þegar henni verður hrint í framkvæmd. 

Hann virðist vilja verðlauna stríðsglæpamanninn og heimsvaldasinnann Vladimir Pútín með því að láta hann komast upp með stórfellda og dýrmæta landvinninga af Úkraínu með ólöglegri og villimannslegri innrás í Úkraínu 24.02.2022 og landvinninga árið 2014.  Þarna voru alþjóðlega viðurkennd landamæri virt að vettugi og friður, sem að mestu hefur ríkt í Evrópu síðan 1945, rofinn.  Þegar Úkraínumenn höfðu samið við vestrænt jarðefnaeldsneytisfyrirtæki um vinnslu í Austur-Úkraínu árið 2014, þá lét Pútín til skarar skríða. Hann veit, að velmegun almennings í Úkraínu grefur undan einræðisstjórn hans og tangarhaldi ólígarkanna á auðæfum Rússlands. 

Að semja við rotinn einræðisherra um landvinninga honum til handa er siðlaust og skammsýnt, því að jafnskjótt og rússneski björninn hefur sleikt sárin, fer hann aftur af stað með vopnaskak.  Það er enga varanlega samninga hægt að gera við Rússa á pólitíska og hernaðarlega sviðinu.  Þegar Úkraínumenn afhentu Rússum kjarnorkuvopn sín, var skrifað undir plagg, þar sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust óbreytt landamæri Úkraínu.  Hvernig fór ?   

Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur, hefur velt fyrir sér sigri Donalds Trump í nóvember 2024, og reit um hann grein í Morgunblaðið 8. nóvember 2024 undir fyrirsögninni:

"Af hverju sigraði TRump ?"

"Launabilið í Bandaríkjunum hefur aukizt umtalsvert undanfarna hálfa öld.  Það þýðir, að raunlaun hafa stöðugt dregizt aftur úr vinnuaflsframleiðni.  Vinnandi fólk hefur því ekki fengið réttlátan skerf af auknum afköstum sínum, en hagnaður fyrirtækja hefur aukizt jöfnum skrefum. Það sést einnig á Dow-Jones hlutabréfavísitölunni, sem hefur hækkað úr um 700 stigum árið 1970 í yfir 42.000 í dag.  Raunlaun vinnandi fólks hafa staðið í stað eða hækkað lítillega, en lágmarkslaun þeirra verst settu hafa hins vegar lækkað stórlega að raungildi. 

Þetta ástand skýrist annars vegar af útvistun vel launaðra framleiðslustarfa til fjölmennra láglaunaríkja eins og Kína og Mexíkó upp úr 1970, sem leiddi til þess, að milljónir manna færðust yfir í verr launuð þjónustustörf, og hins vegar af ógnarsterkri stöðu stórfyrirtækja á bandarískum vinnumarkaði."

 Það var mjög neikvæð þróun fyrir vinnumarkað á Vesturlöndum, þegar framleiðslustörf fluttust til Þriðja heims landa vegna þess, að af þessu hlauzt atvinnuleysi og síðar störf, sem ekki studdust við tæknigreinar og mikla framleiðni, en tækniþróunin var undirstaða raunlaunahækkana. Hins vegar olli þessi þróun kjarabyltingu í Þriðja heiminum og varð undirstaða endurreisnar Kína eftir Menningarbyltingu Maos, formanns kínverska kommúnistaflokksins. Ójöfnuður óx jafnframt í Bandaríkjunum við þetta, þ.e. launabilið óx.  Ríkur lögfræðingur fyrirtækis getur haft meira en MUSD 1,0 fyrir skatta og önnur opinber gjöld og er í 1 % efsta tekjulaginu.  Við hinn enda tekjustigans, í 20 % lægsta tekjulaginu, er einstæð móðir með árstekjur kUSD 25.  Á milli þeirra getur verið fjölskylda, t.d. vélvirki og kennari í hlutastarfi, með árstekjur alls kUSD 80 við miðgildið. Launamunur efsta 1 % og miðgildis launþega er gríðarlegur, enda er launamunur mestur í Bandaríkjunum af hinum stærri Vesturlöndum, sem gefur Gini stuðul tæplega 0,4. Þessi mikli munur knýr að einhverju leyti mikla auðsæld Bandaríkjamanna, en tekjumillifærslur hafa þó farið vaxandi.  Tekjur lögfræðingsins jukust um 110 % frá 1990-2019 samkvæmt "Congressional Budget Office - CBO".  Árið 2019 ráðstöfunartekjur hans líklega lakari en kollega hans 2007.  Hins vegar voru ráðstöfunartekjur einstæðu móðurinnar hærri árið 2019 en 2007 sem nemur 25 % eftir að millifærslur til hennar hafa verið reiknaðar með samkvæmt The Economist 19.10.2024 - "The downsides of outperformance".  Þess vegna fer á milli mála, að ójöfnuður í Bandaríkjunum hafi farið vaxandi undanfarið, þótt Þorsteinn Þorgeirsson fullyrði það í grein sinni:

 "Þessi þróun til aukins ójafnaðar hefur myndað stétt fólks, sem áður tilheyrði miðstéttinni, en telst nú til lág-miðstéttar eða lágstéttar vegna skorts á viðeigandi menntun og atvinnutækifærum. 

Ástandið hríðversnaði í fjármálakreppunni 2007-2009, og þá tók fólk að andæfa ástandinu opinberlega.  Teboðshreyfingin (2009-2010) og "Occupy Wall Street"-mótmælin (2011) voru undanfari forsetaframboðs Donalds Trumps árið 2015.  Hann gaf sig út fyrir að vilja endurreisa hag þessa þjóðfélagshóps.  Hillary Clinton kallaði hávært stuðningsfólk Trumps "hin ömurlegu" (the deplorables).  Hún virðist ekki hafa áttað sig á, að stuðningsmenn Trumps um allt landið tóku þau orð til sín og að það var stjórnarstefna Bills Clintons, forseta, eiginmanns hennar, sem hafði úrslitaáhrif í þessum efnum.  Í hans forsetatíð tók NAFTA-samningurinn gildi (North American Free Trade Agreement/Fríverzlunarsamningur Norður-Ameríku), sem átti stóran þátt í efnahagslegum hrakningum þessa fólks og síðar í aukinni skautun í samfélaginu." 

 Það er ekki tilviljun, að í þetta skiptið hlutu Rebúblikanar góða kosningu í Bandaríkjunum út á einfalda, en róttæka stefnu Donalds, sem jarðvegur var fyrir, og þessum jarðvegi lýsir Þorsteinn Þorgeirsson hér að ofan.  Flokkurinn hlaut meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og Donald fékk meirihluta greiddra atkvæða núna, en ekki síðast, þegar hann þó hlaut meirihluta kjörmanna.  Núverandi heimsfyrirkomulag alþjóðastofnana og viðskiptahátta ásamt landamærum í Evrópu og víðar eru aðallega verk sigurvegaranna í Síðari heimsstyrjöldinni, og þar lögðu Bandaríkjamenn þyngstu lóðin á vogarskálarnar.  Ef það verður nú hlutskipti Bandaríkjamanna að rífa þetta kerfi frjálsra og sem mest óheftra viðskipta, leyfa landvinninga með hervaldi í Evrópu og jafnvel útgöngu Bandaríkjanna úr varnarbandalaginu NATO, þá eru heimsmálin komin í mikil óefni og óstöðugleika. Við þessar aðstæður mun Þýzkaland undir kanzlara Friedrich Merz axla ábyrgð á óskiptu forystuhlutverki í Evrópu.  NATO-ríkin munu verða að stórauka útgjöld sín til hermála, þótt sum hafi ekki mikla burði til þess.

"Þegar Trump tók við forsetaembætti árið 2017, var loks stigið á bremsurnar með víðtækri stefnubreytingu.  Tollar voru settir á kínverskan varning árið 2018, NAFTA-samninginum var breytt í USMCA-samninginn (samning Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó) árið 2020, og skattar voru lækkaðir í viðleitni að byggja upp framleiðslustörfin á ný.

Á sama tíma var hægt á óheftu innstreymi fólks inn í landið til að draga úr undirboðum á vinnumarkaði.  Fyrir vikið tóku raunlaun þeirra lægst launuðu að hækka í stjórnartíð Trumps.  Í verðbólgukúfnum í kjölfar covid lækkuðu raunlaun hins vegar mikið, og það ýtti undir óánægju í stjórnartíð Bidens.  Það háði Kamölu Harris, að hún var talin samdauna efnahagsstefnu Bidens, forseta, sem hafði ekki skilað árangri fyrir þorra kjósenda." 

   


Viðskiptaráð og grunnskólinn

Þegar Viðskiptaráð tjáir sig um landsins gagn og nauðsynjar, er það alltaf að vel ígrunduðu máli og fræðandi.  Þess vegna ber að fagna Úttekt Viðskiptaráðs á grunnskólakerfinu, en Morgunblaðið, sem hefur gert vanda grunnskólakerfisins íslenzka góð skil, gerði grein fyrir úttektinni með viðtali við Björn Brynjúlf Björnsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, þann 21. október 2024, undir fyrirsögninni:

"Ísland stenzt ekki samanburð".

""Við tókum saman helztu tölfræði, sem snýr að hagkvæmni grunnskólakerfisins á Íslandi, og tölurnar sýna, að áhyggjur borgarstjóra voru ekki úr lausu lofti gripnar.  Undanfarin ár og áratugi hefur kennurum og starfsfólki skólanna fjölgað hraðar nemendum, kennsluskylda íslenzkra kennara er með því lægsta, sem þekkist innan OECD, og veikindahlutfallið er ríflega tvöfalt á við það, sem við sjáum á almennum vinnumarkaði", segir Björn."

"Skóli án aðgreiningar" stillir kennurum upp gagnvart gríðarlega erfiðum vinnuskilyrðum, sem líklega eiga drjúga sök á því, hvernig komið er fyrir grunnskólanum íslenzka, nemendum og kennurum.  Með miklum straumi útlendinga undanfarin ár til landsins hefur keyrt um þverbak.  Hvernig dettur skólayfirvöldum í hug að skella saman nemendum, sem skilja íslenzku, og hinum, sem ekki skilja hana og hverra móðurmál eru jafnvel ólík.  "Skóli án aðgreiningar" er óraunhæf hugmynd, sem veldur því, að sárafáir nemendur þrífast í skólanum og kennarar eru að niðurlotum komnir.  Það verður engin breyting til batnaðar í grunnskólakerfinu fyrr en farið verður að raða nemendum saman í deildir, sem eru nokkurn veginn á sömu blaðsíðu, hvað þekkingu, áhuga og námsgetu varðar.  Þannig var þetta í "den" og gafst vel.  Nemendur fluttust á milli bekkja, upp ef þeim vegnaði vel og niður, ef þeim vegnaði miður.  Þetta ýtti undir marga að leggja sig fram.  Sennilega fengu allir nemendur betri kennslu í þessu kerfi en nokkur leið er að koma við núna.

"Í samantakt Viðskiptaráðs kemur einnig fram, að á Íslandi er fjöldi nemenda á hvern grunnskólakennara langt undir meðaltali OECD, og aðeins á Grikklandi og í Lúxemborg er fjöldi nemenda á kennara minni. Eru tæplega 10 nemendur fyrir hvern kennara í íslenzka grunnskólakerfinu, en í OECD er meðaltalið um 14 nemendur, en í Frakklandi eru t.d. rúmlega 18 nemendur á hvern kennara á grunnskólastiginu.  Þá er kennsluskylda íslenzkra kennara með minnsta móti í samanburði við hin OECD-ríkin, og aðeins í Lettlandi, Eistlandi og Póllandi er hún minni.  Á Íslandi myndi þurfa að auka kennsluskylduna um nærri þriðjung til að ná meðaltali OECD. 

Loks eru heildarútgjöld á hvern grunnskólanemanda á Íslandi, leiðrétt fyrir verðlagi, í hæstu hæðum, en aðeins Noregur og Lúxemborg greiða meira með hverjum nemanda.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er árlegur meðalkostnaður á nemanda í íslenzkum grunnskólum nú farinn að slaga hátt í 2,9 MISK/ár."

   Þarna eru ýmis sjúkleikamerki á íslenzka grunnskólakerfinu nefnd.  Fíllinn í stofunni er "kennsla án aðgreiningar".  Hún þreytir kennarana úr hófi fram og fær þá til að þrýsta á um fækkun í bekkjardeildum og styttri viðveru.  Alls konar stuðningsaðilar vinna nú með kennurunum, sem hleypir kostnaðinum upp, en allt kemur fyrir ekki. "Í den" voru gjarna 30 nemendur í bekk og stuðningsaðilar engir.  Námsárangur var samt betri en nú og þekkingarstig hærra. Kennsluárangur íslenzkra kennara er á meðal hins lakasta í OECD samkvæmt PISA-könnunum. Þetta er einfaldlega lýsing á algerlega misheppnuðu opinberu kerfi.  Það ber að veita hverjum skóla algert sjálfdæmi um það, hvernig hann raðar í bekkjardeildir, og hversu margir nemendur þar eru. Sama á við um, hvers konar stuðningsaðila hann kallar til.  Það, sem máli skiptir og á að vera mælikvarði á gæði kennslunnar, er niðurstaðan á samræmdum prófum, sem þarf að setja ákvæði um í nýrri námskrá, sem semja þarf og gefa út hið fyrsta.  Sveitarfélögin, sem skólana reka, geta síðan leitað leiða til að draga úr kostnaðinum og bæta árangurinn með einkarekstri, þar sem samið er um, að sveitarfélagið greiði skólanum ákveðna upphæð með hverjum nemanda. Skattgreiðandinn græðir á þessu, foreldrarnir koma sléttir út fjárhagslega og nemendur njóta betri kennslu. 

""Að okkar mati er vandi grunnskólakerfisins eitt stærsta kosningamálið í komandi alþingiskosningum.  Við erum með kerfi, þar sem árgangur eftir árgang klárar grunnskóla, þar sem stór hluti nær ekki grunnfærni í lestri og reikningi og það þrátt fyrir, að skólakerfið okkar sé sé það þriðja dýrasta í heimi.""

Þetta sagði Björn Brynjúlfur.  Ekki er að sjá, því miður, að Birni verði að ósk sinni um, að grunnskólavandinn verði leiddur fram í sviðsljósið í aðdraganda kosninga, enda heyrist sáralítið frá barna- og menntamálaráðuneytinu.  Ráðherra málaflokksins virðist ætíð stinga hausnum í sandinn, þegar menntunina, sem grunnskólinn veitir, ber á góma.  Slíkir forystusauðir eru ekki 5 aura virði. Síðan hann var gerður afturreka með sameiningu 2 skóla á Akureyri, hefur hann verið sleginn líkþorni.

"Að mati Björns væri gott fyrsta skref að auka kennsluskyldu kennara til samræmis við það, sem tíðkast í samanburðarlöndunum.  "Það myndi bæta nýtingu opinberra fjármuna, ef hver kennari kenndi fleiri klukkustundir á ári.  Þá þarf að finna út úr því, hvað orsakar þetta háa veikindahlutfall hjá stéttinni og leita leiða til að bæta þar úr. Aðgerðir í þá veru mundu bæta starfsumhverfi kennara og um leið gera grunnskólastigið hagkvæmara."

 Þetta er nú hægara sagt en gert.  Áður en vinnutímasamræming við kennara t.d. á hinum Norðurlöndunum á sér stað, þarf að bera saman vinnuaðstæðurnar.  Líklega glíma íslenzkir grunnskólakennarar við fjölþættari nemendahóp í deild, t.d. hvað uppruna og móðurmál varðar, en kollegar þeirra.  Líklegt er, að stefnan um "skóla án aðgreiningar" sé rót beggja viðfangsefnanna að ofan, þ.e. tiltölulega lítil kennsluskylda og hátt veikindahlutfall, því að fyrirkomulagið leggur óviðráðanlegar byrðar á herðar kennaranna, jafnvel þótt íslenzkar skóladeildir á grunnskólastigi séu fámennari en víðast hvar í OECD.  Það verður að hverfa frá illframkvæmanlegri hugmyndafræði "skóla án aðgreiningar, áður en nokkrar aðrar umbætur á grunnskólakerfinu verða raunhæfar og áður en hægt er að vonast eftir betri prófárangri.     

     

 

 


Eldsneytisframleiðsla á Íslandi

Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi.  Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti.  Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum.  Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.

Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan.  Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW.  Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).  


Iðnaður í heljargreipum raforkuskorts

Það er til vitnis um breytileika tilverunnar og ófyrirsjánlega framtíð fyrirtækja á þeirri stundu, þegar fjárfesting fer fram, að raforkuskortur ár eftir ár á Íslandi skuli standa framleiðslunni fyrir þrifum og þar með ávöxtun fjárfestinganna. Vitað var, að vatnsrennsli gæti brugðið til beggja vona í u.þ.b. 3 ár á 30 ára tímabili, en nú er orðin regla fremur en hitt, að vatnsskortur herji á Þjórsár/Tungnaár virkjanir Landsvirkjunar.  Þáttur í þessu óeðlilega ástandi er aukning álags á kerfið án nokkurra nýrra "stórra" virkjana síðan Búrfellsvirkjun 2 kom til skjalanna, en henni var ætlað að nýta umframrennsli, sem vart hefur verið fyrir hendi um árabil.

Þessi slæma staða orkuvinnslunnar mun skána árið 2029, þegar Hvammsvirkjun með sín 95 MW kemst loks í gagnið, en hún mun nýta sama vatnið og virkjanirnar ofar í Þjórsá gera. 

Þessi staða sýnir líka, hversu mikilvægar jarðgufuvirkjanirnar eru, en frá gangsetningu Þeistareykjavirkjunar hefur engin slík virkjun verið tekin í notkun.  Þær eru að vísu háðar árlegum niðurdrætti í gufuforðabúri hverrar virkjunar, en hann er mun fyrirsjáanlegri og veldur minni samdrætti í orkuvinnslugetu en slök vatnsrennslisár geta valdið.  Þess vegna þarf að leggja áherzlu á báðar gerðir þessara hefðbundnu virkjana á Íslandi. 

Á seinni árum hefur 3. gerð virkjana náttúrulegra orkulinda verið til umræðu á Íslandi, en það eru vindorkuverin.  Þau eru langóstöðugust allra þessara 3 valkosta, og var þó ekki á óstöðugleikann bætandi.  Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við s.k. Búrfellslund, um 100 MW, sem er raunhæf stærð í því orkuumhverfi, en gjalda verður miklum varhug við stærð "vindmyllugarðs" í Fljótsdal, sem er áformaður 350 MW að uppsettu afli.  Að þessi óstöðuga raforkuvinnsla gangi truflanalaust upp á Austurlandi þarf að sannreyna með keyrslum í hermilíkönum, því að annars er reglunarvandi raforkukerfisins viðbúinn með óstöðugleika í tíðni og spennu sem afleiðingu. Íslendingar eru hvekktir af kostnaðarsömum áföllum í raforkukerfinu bæði af völdum vatnsskorts og snöggra breytinga á álagi eða framleiðslugetu.  Þegar kerskáli Norðuráls á Grundartanga leysti út eða var leystur út haustið 2024, olli það meiri spennuhækkun á svæði Kröflu og Þeistareykjavirkjunar en notendabúnaður réði við, svo að stórtjón varð á rafbúnaði.  Þessa sviðsmynd hefðu Landsnet og Landsvirkjun átt að sjá fyrir og hafa sjálfvirkar mótvægisaðgerðir tiltækar til að varðveita kerfisjafnvægi.  

Í Morgunblaðinu 25. október 2024 gerði blaðamaðurinn Ólafur E. Jóhannsson grein fyrir helztu afleiðingum afl- og orkuskerðinga Landsvirkjunar, sem nú eru hafnar eða á döfinni í vetur, undir fyrirsögninni:

"Milljarða tekjutap vegna skerðinga".

Fréttin hófst þannig:

 "Landsvirkjun hefur boðað skerðingar á forgangsorku [rangt, hér er átt við ótryggða orku-innsk. BJo] til 11 stórnotenda sinna, og þurfa þá fyrirtækin í einhverjum tilvikum að draga úr starfsemi sinni sem því nemur.  Hér er um að ræða álverin á Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, kísiljárnsverksmiðjuna við Húsavík, 4 gagnaver með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu, aflþynnuverksmiðju á Akureyri og fiskeldisfyrirtæki í Þorlákshöfn. Þar við bætast fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem munu þurfa að keyra vélar sínar á jarðefnaeldsneyti.

 Raforkuskeðingar hófust í gær [24.10.2024] á Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi munu þær hefjast eftir mánuð [mánuði síðar].  Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að ekki sé hægt að segja til um, hversu lengi þær muni standa, en reikna megi með skerðingum til til næsta vors [2025].  Skerðing á raforku til stórnotenda Landsvirkjunar er bundin í samninga, þannig að þegar staða miðlunarlóna er lág, er heimilt að skerða afhendingu raforku. 

 Ekki er ljóst, hvert tekjutap Landsvirkjunar verður vegna þeirra skerðinga, sem fyrirtækið er nauðbeygt til að grípa til, en tekjutap fyrirtækisins vegna skerðinga fyrr á þessu ári nam hundruðum milljóna ISK." 

Landsvirkjun hefur ekki jafnfrjálsar hendur með að ganga í skrokk á viðskiptavinum sínum, þegar vatnsskortur er, hvort sem vatnsbúskapurinn er í aumara lagi eða látið hefur verið undir höfuð leggjast að bæta við virkjunum, nema hvort tveggja sé, og þarna er gefið til kynna, því að á hverju 5 ára tímabili má orkuskerðingin ekki fara yfir ákveðinn fjölda MWh hjá hverju fyrirtæki.  Landsvirkjun verður þannig skaðabótaskyld, ef hún tekur upp á því að skerða forgangsorku eða ótryggða orku yfir ákveðin mörk, nema um "Force Majeur" ástand eða óviðráðanlega atburði sé að ræða. 

Hér er um gríðarmikið tjón viðskiptavina Landsvirkjunar að ræða, margfalt meira en hjá Landsvirkjun sjálfri. Að svona sé komið á Íslandi 2024 þýðir ekkert minna en orkustefna landsins hafi beðið algert skipbrot.  Þótt fyrirtæki vilji virkja, þá kemur stjórnkerfi orkumálanna í veg fyrir það.  Það verður að ryðja þessum hindrunum úr vegi, og til þess þarf vafalítið atbeina Alþingis.  Hvort stuðningur við verulega aukið framboð raforku í landinu verður meiri á nýju þingi eftir kosningarnar 30.11.2024 en verið hefur á nýrofnu þingi, er ekki sjálfgefið. Þess vegna er ekki sérlega bjart yfir þessum málaflokki, sem er þá ávísun á hækkandi raforkuverð, hagvaxtarstíflu og gríðarlegan kostnaðarauka atvinnulífsins. 

Um þessar mundir er álverð hátt eða um 3000 USD/t með s.k. premíu, sem fyrirtæki fá fyrir sérhæfða framleiðsluvöru.  Fyrirtækin verða ekki einungis fyrir sölutapi og hugsanlegum missi viðskiptavina, heldur eykst rekstrarkostnaður þeirra líka vegna styttri endingar og hærri endurnýjunarkostnaðar framleiðslubúnaðar.  Það má gizka á, að tjón þessara 11 fyrirtækja, sem talin eru upp í fréttinni, nemi a.m.k. 11 mrdISK vegna boðaðra raforkuskerðinga.     


Stefna Samfylkingar hækkar húsnæðiskostnað, verðbólgu og vexti

Það er athyglisvert, að nýlegur formaður Samfylkingar hefur ekki tekið til hendinni og leiðrétt meinloku flokksmanna sinna í borgarstjórn, en þar hafa þeir í meira en áratug rekið stefnu, sem aukið hefur nýbyggingarkostnað í borginni gríðarlega, en það er lóðaskortsstefnan.  Hún lýsir sér í mjög litlu framboði nýrra lóða vegna ofuráherzlu á s.k. þéttingarstefnu, þar sem nánast eingöngu er byggt í grónum hverfum, þar sem lóða- og byggingarkostnaður er miklu meiri en þar, sem nýtt land er brotið undir byggð.  Þar að auki hefur borgin ýtt undir lóðabrask með uppboði á lóðum. 

Nú stendur borgin í vegi fyrir útvíkkun byggingamarka á höfuðborgarsvæðinu, sem þrengir að öllum sveitarfélögunum þar. Hvað á þessi yfirgangur borgarinnar að þýða ?

Pólitískir flautaþyrlar, oft á tíðum ákafir fylgismenn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, hafa þyrlað upp miklu moldviðri um það, að háir vextir á Íslandi valdi háum byggingarkostnaði í evrópsku samhengi.  Hér skiptir atvinnustig, hagvöxtur og ráðstöfunartekjur miklu máli fyrir almenning í landinu, þegar bera á saman byggingarkostnað við önnur lönd og sömuleiðis, þegar meta á hagkvæmni þess fyrir landsmenn að ganga í ESB m.v. veru í EFTA/EES eða EFTA og víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  

Grein Jóns Helga Egilssonar, verkfræðings og doktors í hagfræði, í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024 varpar ágætu ljósi á þetta.  Greinin bar fyrirsögnina:

"Húsnæðiskostnaður í Evrópu og á Íslandi".

Hann birtir graf, þar sem fram kemur, að húsnæðiskostnaður á Íslandi er á meðal hins lægsta í Evrópu, þegar hann er reiknaður sem hlutfall af heildarútgjöldum samkvæmt gögnum hagstofu ESB, Eurostat.  Vextir af húsnæðislánum draga yfirleitt dám af almennum umsvifum í þjóðfélaginu, og eru lægri, þar sem hagvöxtur er lítill sem enginn en þar, sem mikil atvinna er og þjóðarframleiðsla á mann vex.  Á Íslandi eru ráðstöfunartekjur heimila hærri en í flestum Evrópulöndum. Verði tekin hér upp evra, mun snarast á merinni, og niðursveiflur hagkerfisins verða teknar út með atvinnuleysi, sem hlutfallslega mest er á meðal ungs fólks.  Þar með hefst mikill vítahringur.  Um þetta samband ritaði Jón Helgi af þekkingu:

"Mikill hagvöxtur á Íslandi er jákvætt vandamál, þar sem hærri vextir eru oft fylgifiskur þróttmikils efnahagslífs og vaxtar. Á sama hátt fara lægri vextir, hnignun og samdráttur efnahagslífsins oft saman. 

Landsframleiðsla á Íslandi á hvern íbúa er [á] meðal þess, sem bezt gerist í heiminum.  Öflugt atvinnulíf og hagvöxtur er grundvöllur hærri launa og bættra lífskjara.  Í aðdraganda kosninga er rætt um upptöku evru, en upptaka evru getur haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni, atvinnustig, þjóðarframleiðslu og lánshæfismat.  Kostur við eigin mynt er aðlögunarhæfni að raunverulegri stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma, sem eykur líkur á að viðhalda samkeppnishæfni Íslands, sem er grunnur að öflugu atvinnulífi. 

Í nýlegri skýrslu Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, um versnandi stöðu Evrópu í samanburði við Bandaríkin kom einmitt fram, að hlutfallsleg samkeppnisstaða Evrópu hefur versnað stórlega síðustu 25 árin. 

Evran var einmitt kynnt fyrir 25 árum.  Án eigin gjaldmiðils, sem endurspeglar efnahagslegan veruleika hverju sinni, fer aðlögun efnahagslífsins fram í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi atvinnuleysi og fólksflótta, eins og víða er raunin á evrusvæðinu."

     Hér tíundar hagfræðidoktor nokkrar staðreyndir um það, hvers vegna innganga Íslands í Evrópusambandið (ESB) mundi hafa í för með sér lakari lífskjör fyrir almenning á Íslandi en hann býr við núna í EFTA og EES. Grunnristir stjórnmálamenn Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar reyna með eins konar trúarbragðaklisjum að telja þjóðinni trú um hið gagnstæða.  Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi, að auðlindastjórnun lands og sjávar verði betur fyrir komið í Brüssel og að þá verði lífskjarabatinn hraðari, ef örfáir komast á þing ESB og 1 fái setu í framkvæmdastjórninni.  Að bera þessa gömlu lummu á borð fyrir landsmenn nú er hræðileg tímaskekkja, því að nú er óvissan um afleiðingar inngöngu minni en áður.  Samt veit enginn, hvort ESB verður sambandsríki með eigin hervarnir eftir 5 ár, 10 ár eða aldrei.  

   

 


Gloppóttur formaður stjórnmálaflokks

Formanni Samfylkingarinnar eru ótrúlega mislagðar hendur, sem ætti að vera tilvonandi kjósendum flokks hennar mikið áhyggjuefni.  Henni tókst ekki betur til við að gera skattyfirvöldum grein fyrir bónusum, sem hún fékk hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, bankastofnun nokkurri, þótt ekki sé fyllilega ljóst, hvaða árangri hún náði í starfi til að verðskulda sérstaka umbun, sem þegar upp var staðið reyndist nema um MISK 100.

Hún fékk athugasemdir frá skattayfirvöldum við það, hvernig hún taldi þennan bónus fram til skatts.  Þá greip hún til leiðréttingar á framtali sínu og var í kjölfarið gert að greiða tugi milljóna ISK til viðbótar.  Kristrún Frostadóttir vill beita þungri skattheimtu á "breiðu bökin", en þegar kemur að henni sjálfri velur hún fremur að freista þess að sleppa með lægri skattheimtu en skattayfirvöld telja eðlilega og rétta.  Þetta bendir til tvískinnungs í eðli Kristrúnar.  Er slíkur formaður trúverðugur ?

Í hámæli komust samskipti, sem hún átti í við væntanlegan kjósanda flokksins.  Sá var með böggum hildar að þurfa að styðja við kjör Dags B. Eggertssonar, fyrrum borgarstjóra, ef hann greiddi lista, þar sem Kristrún trónir í efsta sæti, atkvæði sitt.  Hún benti honum á, að hann gæti strikað Dag út.  Hann væri hvort eð er bara aukaleikari og yrði ekki ráðherra hjá henni.  Þarna hikar Kristrún Frostadóttir ekki við að reka rýting í bak manns, sem hún var nýlega búin að sýna traust og virðingu með því að bjóða honum sæti 2 á lista sínum. Þetta er ómerkileg framkoma við flokksmann hennar.  Sumir mundu kalla þetta svívirðilega hegðun. Þetta er merki um svo alvarlegan persónuleikabrest, að mikið áhyggjuefni ætti að vera fyrir landsmenn, ef slík manneskja hlýtur ráðherradóm eftir kosningarnar 30.11.2024. 

Þá er komið að þætti Þórðar nokkurs Snæs Júlíussonar.  M.v. feril þess manns er með öllu óskiljanlegt, að Kristrún Frostadóttir skyldi bjóða kjósendum lista síns upp á slíkt fúlegg í 3. sæti á eftir   braggaborgarstjóranum.  Verður nú vitnað í umfjöllun Ólafs E. Jóhannssonar um Alþingiskosningarnar 2024 á bls. 6 í Morgunblaðinu 15. nóvember 2024 undir fyrirsögninni:

"Forðast vanvirðu og álitshnekki".

"Nú hafa ýmis ummæli á bloggsíðu Þórðar Snæs Júlíussonar, sem situr í 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, verið rifjuð upp, en þar fer hann m.a. ófögrum orðum um fólk og einkum konur.  Sagði þær t.d. "lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur.""

Framhaldið á tilvísunum í þennan dela er óprenthæft.  Það, sem hann gubbar út úr sér, ber vitni um sjúklega hatursfullt hugarfar.  Að maður með svo skítlegt eðli skuli hafa verið valinn ofarlega á framboðslista af Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingar, er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glópsku, flausturshátt og almennt léleg vinnubrögð þessa formanns. Það er ófélegt, ef vinnubrögðin í næstu ríkisstjórn verða af þessu taginu (engin athugun, fljótfærni og flaustur).

"Siðareglurnar, sem finna má á heimasíðu Samfylkingarinnar, eru í 15 tölusettum liðum.  14. grein siðareglnanna er athyglisverð í ljósi ýmissa ummæla Þórðar Snæs, en þar segir: "Við stuðlum að jákvæðum flokksanda og forðumst að aðhafast nokkuð, sem getur orðið okkur sjálfum, kjósendum okkar eða Samfylkingunni til vanvirðu og álitshnekkis."

 Formaður Samfylkingarinnar lét hjá líða að fordæma harðlega vítaverð ummæli gaursins, sem hún af einhverjum mjög undarlegum ástæðum stillti upp í 3. sæti á lista sínum í Reykjavík.  Þar með gjaldfelldi hún flokk sinn og gerði siðareglur flokksins að einskærri dyggðaskreytingu.  Tvöfalt siðgæði einkennir Samfylkinguna og má segja, að hæfi skel kjafti.  

Þetta reginhneyksli komst í hámæli, þegar orðið var of seint að breyta framboðslistum, en hvað verður um téðan gallagrip, ef honum skolar á þing ?  Hvað mun Ríkisútvarpið gera varðandi fasta viðveru Þórðar Snæs vikulega í morgunútvarpi Rásar 1, en oft virðist vera römm taug á milli RÚV og Samfylkingarfólks.

Hér hefur verið drepið á 3 atriði, sem hvert um sig gefur til kynna, að Samfylkingin hafi keypt köttinn í sekknum með núverandi formanni sínum.  Þegar öll þessi atriði koma saman, er rík ástæða fyrir þjóðina til að gjalda varhug við stjórnmálaflokki, sem stjórnað er af Kristrúnu Frostadóttur.   

 

 


Grobb og froða í stað innihalds

Grobb forystusauðs Samfylkingar ríður ekki við einteyming.  Það vellur upp úr pottunum hjá henni í Morgunblaðsgrein 15. nóvember 2024.  Hún þykist hafa til að bera hæfni í hagstjórn, en nákvæmlega ekkert í málflutningi hennar bendir til einhverrar nýbreytni til hins betra.  Þá er hún drýgindaleg yfir "plani" Samfylkingar, en það er hvorki fugl né fiskur.  Henni væri nær að útlista fyrir kjósendum, hvernig Samfylkingin ætlar að breyta ríkisbúskapnum, ef hún kemst til valda eftir kosningarnar 30.11.2024.

Téð grein bar digurbarkalega yfirskrift:

"Neglum niður vextina".

Hún hófst þannig:

"Samfylkingin ætlar að negla niður vextina.  Með hæfni í hagstjórn.  Við munum lækka kostnað heimila og fyrirtækja í landinu - fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember [2024]. 

Þetta er stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi eftir óstjórn síðustu ára.  Fráfarandi ríkisstjórn brást fólkinu í landinu með því að passa ekki upp á efnahagsmálin.  Nú er kominn tími á breytingar."

Þetta er ótrúlega grautarlegur texti, þar sem ægir saman inantómum fullyrðingum um eigið ágæti og órökstuddum ávirðingum í garð annarra. 

Það er út í hött að halda því fram, að Samfylkingin muni "negla niður vextina".  Ætlar hún að negla þá fasta ?  Það er Seðlabankinn, sem tekur ákvörðun um stýrivexti, og þenslustefna Samfylkingar í ríkisfjármálum mun vinna gegn lækkun stýrivaxta.  Aðaldrifkraftur verðbólgu undanfarið hefur komið frá húsnæðisgeiranum, en fáránleg þéttingarárátta Samfylkingar í borginni hefur valdið lóðaskorti og keyrt upp byggingarkostnað.  Samfylkingin þrjózkast við að samþykkja útvíkkuð vaxtarmörk á höfuðborgarsvæðinu, sem setur lóðafjölda á hverjum tíma skorður.  Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur einfaldlega gert það, sem á hennar valdi hefur verið til að kynda verðbólgubálið.  Nú er Kristrún með téðan Dag í aukaleikarahlutverki á sínum lista í Reykjavík, og það er fullkomlega ótrúverðugt, að Samfylkingin muni með ráðstöfunum sínum í ríkisstjórn viðhalda núverandi vaxtalækkunarhraða, hvað þá að auka hann.  

Í hverju er óstjórn síðustu ára fólgin ?  Er hún fólgin í því að fylgja í einu og öllu ofstækisfullum tillögum Ölmu Möllers, landlæknis, og sóttvarnalæknis hennar í Kófinu, en téð Alma skipar nú efsta sæti á einum lista Samfylkingar fyrir Alþingiskosningarnar 30.11.2024 ?  Var það sök ríkisstjórnarinnar, að stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar fór á hliðina í Kófinu ?  Íslenzka ríkisstjórnin brást við Kófinu með svipuðum hætti og víða átti sér stað.  Það ásamt tekjutapi og dúndrandi halla á ríkissjóði olli hárri verðbólgu ?  Hvaða athugasemdir gerði Samfylkingin við það á sínum tíma ? Það er lítilmannlegt að koma eftir á og gefa í skyn, að Samfylkingin hefði staðið öðru vísu að málum.  Það er einfeldningslegt og ótrúverðugt að halda því fram, að efnahagsstjórnin hefði farið betur úr hendi Samfylkingar í Kófinu og í kjölfar þess.

"Samfylkingin er eini flokkurinn með plan um að negla niður vexti og verðbólgu.  Allir flokkar tala um að gera þetta - en hverjum er treystandi ?  Alla vega ekki þeim, sem hafa stjórnað landinu síðustu árin, og ekki þeim, sem lofa öllum öllu alls staðar.  

Plan Samfylkingar til að negla niður vextina er þríþætt.  Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til að fjölga íbúðum strax.  Stöðugleikaregla í ríkisfjármálum til að ríkissjóður hætti að valda verðbólgu.  Og tiltekt í ríkisrekstri ásamt tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum - án þess að hækka skatta á almenning."

Hvers konar bull er þetta eiginlega í bankaprinsessunni.  Verðbólga hjaðnar nú tiltölulega hratt, og 20. nóvember 2024 voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 %.  "Plan" Samfylkingar er hvorki fugl né fiskur.  Það sem þarf að gera í húsnæðismálum er einfaldlega að brjóta nýtt byggingarland í miklu magni og selja lóðaafnotin á verði sem næst kostnaði.  Húsnæðisverð er nú svo hátt, að spurn eftir slíkum lóðum mun verða gríðarleg.  Klunnaleg forræðisinngrip Samfylkingar munu aðeins gera illt verra.

Það er fyrir hendi stöðugleikaregla í ríkisfjármálum, en Samfylkingin ætlar að finna upp hjólið.  Það er þvættingur, að aukin skattheimta af fjármagni og fyrirtækjum komi ekki niður á almenningi.  Aukin skattheimta af sparnaði mun draga úr sparnaði, sem hefur tilhneigingu til að hækka vexti.  Aukin skattheimta af fyrirtækjum er líka verðbólguhvetjandi.  Ef fyrirtækin geta ekki sett kostnaðarauka sinn út í verðlagið, minnkar geta þeirra til launahækkana og fjárfestinga, sem getur valdið ólgu á vinnumarkaði og samdrætti í byggðum, þar sem fyrirtækin starfa.  Samfylkingin ætlar að hrifsa í stýri ríkisfjármálanna með skatta- og gjaldahækkunum, sem draga munu úr hagvexti og vera verðbólguhvetjandi.  Þetta eru eins viðvaningsleg vinnubrögð og hugsazt getur og algerlega óþörf. 

Kristrún Frostadóttir er úti á túni sem formaður stjórnmálaflokks.  Hún heldur því fram, að stýrivextir hafi verið 9,00 % í meira en eitt ár.  Þeir voru lækkaðir í 9,00 % við vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans næstu á undan þeirri 20.11.2024.  Þá er villandi hjá henni að tala um hallarekstur á ríkissjóði í 9 ár.  Ríkisstjórnin reiknar með 2 árum í viðbót, þ.e. afgangi 2027, sem verður fyrr, ef ríkisstjórn búhygginda og hagvaxtar tekur hér við eftir næstu kosningar, en það er borin von með ríkisstjórn viðvaninga með þenslu ríkisbúskapar á stefnuskrá sinni.  

 

  


Vestfirðingar í orkusvelti

Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver.  Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið.  Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.  

Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW.  Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið. 

Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:

"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".

""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson.  "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring.  Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."  

Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."

Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum.  Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa".  Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax.  Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka.  Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum.  Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.  

""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu.  Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""

Hvað er eðlilegt raforkuverð ?  Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði.  Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.  

"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum.  "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun.  Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins.   Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum." 

Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?    

 


Orkuskortur stendur hagvexti fyrir þrifum

Þau gleðitíðindi hafa nú orðið eftir mikið japl, jaml og fuður, að Landsvirkjun hefur fengið öll tilskilin leyfi til að hefjast handa við framkvæmd Hvammsvirkjunar.  Fyrirtækið mun sem betur fer ekki bíða af sér kærufrestinn, heldur hefjast þegar handa. Það er satt að segja orðið neyðarástand í raforkumálum landsins, sem lýsir sér í, að Landsvirkjun sér sig strax um 25.10.2024 knúna til að nýta sér að fullu skerðingarheimildir sínar á ótryggðri raforku hér suðvestan lands.  Fiskimjölsverksmiðjur munu þurfa að brenna olíu í vetur, þótt þær hafi fjárfest í rafmagnskötlum, þegar veiði uppsjávartegunda hefst.  Á Vestfjörðum er ástand raforkumála fyrir neðan allar hellur.  Þessi lélega staða grunninnviða landsins er sök stjórnvalda og verður skrifuð á reikning afturhaldsins, sem þvælzt hefur fyrir framförum í landinu með setu sinni í ríkisstjórn, en er nú horfið þaðan og við það að hverfa af sjónarsviðinu, enda hvert var erindið ?  

Í Morgunblaðinu 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband