Færsluflokkur: Bloggar
16.9.2025 | 15:01
Ofstæki í garð tiltekins atvinnurekstrar
Nýlega gætti móðursýkislegra viðbragða veiðiréttarhafa í laxveiðiám á Vesturlandi og Norð-Vesturlandi vegna fiska þar, sem ekki þóttu náttúrulegir fyrir viðkomandi á. Var rekið upp skaðræðisöskur, að íslenzku laxastofnarnir væru í bráðri hættu frá eldislaxi, en um reyndist að mestu vera að ræða rússneskan hnúðlax, sem ekki blandast íslenzku stofnunum. Norskir kafarar voru fengnir í árnar, og höfðu þeir upp á eldislöxum, sem námu innan við 1 % af stofnum ánna, en til að hætta á varanlegri erfðablöndun geti stafað af eldislöxum í ám, þarf fjöldi þeirra varanlega að nema yfir 4 % af stofnstærð viðkomandi ár. Hér var því stormur í vatnsglasi.
Þann 4. desember 2024 birtist í ViðskiptaMogganum viðtal við Róbert Róbertsson, fjármálastjóra laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, undir fyrirsögninni:
"Séríslenzku skattarnir dragbítur á greinina".
Um neikvæða umfjöllun um atvinnugreinina hafði hann þetta að segja:
"Umræðan gegn greininni hefur verið anzi óvægin og oft og tíðum einkennzt af fullyrðingum, sem eiga ekki við rök að styðjast. Eins og gefur að skilja þarf oft að leiðrétta rangfærslur, þar sem þekking á laxeldi er ekki mikil. Þekkingarskortur á einhverju gerir það að verkum, að auðvelt er að setja út á og fullyrða eitthvað, sem fólk veit ekki um. T.d., að þetta mengi firðina; það er einfaldlega ekki satt; við gerum mælingar á botni sjávar og greinum ástand fyrir, á meðan og eftir hverja eldislotu."
Þarna er farið mjúkum höndum um fólk, sem tjáir sig með tilþrifamiklum geðhrifum um sjókvíaeldi á laxi við Ísland. Hæst nær móðursýkin við slysasleppingar eða fundna afbrigðilega fiska í ánum. Það er látið í veðri vaka, að allur frjór eldisfiskur í ánum ógni genamengi og erfðum íslenzkra laxastofna. Svo virðist sem talsmennirnir trúi þessu sjálfir, þótt firra sé. Eldisfiskur þarf að vera árum saman yfir 4 % af stofni í á til að hætta sé á varanlegri erfðablöndun.
"Róbert Róbertsson, fjármálastjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, segir, að fyrirtækið stefni að því að ná kostnaðarhlutfalli sambærilegu því, sem gerist bezt hjá keppinautum. Stór mínus, sem íslenzk fyrirtæki glíma við, ólíkt flestum öðrum þjóðum, eru ýmsir aukaskattar á greinina.
"Það að greiða mun hærri skatta á lax en aðrar þjóðir og aðrar vörur seldar frá landinu, er einkennileg stefna yfirvalda. Það, að við séum að greiða hærri skatta en önnur fyrirtæki á Íslandi og okkar keppinautar á markaði, er einkennilegt, virkar ekki hvetjandi og skaðar samkeppnisstöðu okkar", segir Róbert.
"Laxeldi á Íslandi hefur ekki fengið neina styrki eða meðgjöf í uppbyggingu. Þvert á móti hafa verið lögð há leyfisgjöld og framleiðslugjöld, og allir vilja sinn bita. Við erum að mæta á markað með okkar vöru í samkeppni við aðila, sem hafa engin gjöld og mun minni flutningskostnað og styttri afhendingartíma", segir Róbert."
Af þessari frásögn að dæma hafa íslenzir stjórnmálamenn farið offari í skattheimtu á atvinnugrein, sem er í uppbyggingarfasa. Afleiðingin af því er einfaldlega, að vöxturinn verður hægari en ella, tækniþróunin og jafnvel öryggiseftirlit lakara en efni standa til og lánsfjármagn dýrara, af því að áhugi fjárfesta minnkar. Ríkisstjórnin, sem stöðugt er með hagvöxt og verðmætasköpun á vörunum, ætti að sníða skavankana af þessari skattheimtu og draga þá dám af öðrum löndum Evrópu, þar sem fyrirtækin eru nær markaðnum. Þetta mun núverandi ríkisstjórn þó örugglega ekki gera, því að hún skilur ekki, hver beztu ráðin eru til að efla hagvöxt og verðmætasköpun. Hún lætur sitja við orðin tóm og nær engum árangri. Það eru slæmar fréttir fyrir hag landsmanna.
"Í dag greiðir Kaldsvík yfir 4 % af tekjum félagsins í beina skatta, þ.e. án tillits til, hvort félagið er að fjárfesta eða skila hagnaði.
Róbert segir, að réttast væri að gefa greininni tíma til að byggja upp starfsemina, fjárfesta í búnaði og tækjum, og þá með tímanum muni félagið greiða skatta, eins og önnur arðbær fyrirtæki."
Þessi skattheimta nær engri átt. Kaldsvík greiðir 4 % af tekjum til hins opinbera, þótt tap sé á fyrirtækinu. Þetta er ekki leiðin til að hlúa að atvinnulífi, svo að það megi dafna og standa undir einhverjum hæstu launum í OECD. Ísland er háskattaland, sem samkvæmt Laffler-lögmálinu þýðir, að lækkun skattheimtu mun auka tekjur allra, einnig hins opinbera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2025 | 16:48
Næg fáanleg raforka er grundvöllur nýrrar verðmætasköpunar
Það er haldlaust að búast við hagvexti hérlendis, sem reistur er á nýjum eða auknum útflutningi á vörum eða þjónustu, á meðan núverandi orku- og aflskortur er við lýði, og hann virðist ekkert munu lagast, það sem af lifir þessum áratugi. Það er afleit staða, sem hafa mun neikvæð áhrif á þróun hagkerfisins og hag fyrirtækja og heimila.
Orkulindir landsins eru takmarkaðar, og þess vegna skiptir höfuðmáli að nýta fáanlega orku af kostgæfni. Hún fer að mestu til iðnaðarnota núna, sem skapar fjölbreytta og vel launaða atvinnu, sem stóð undir velferð og hagvexti hér um langa hríð, en nú hafa undirboð Asíuríkja á markaði og furðuleg tollastefna Bandaríkjastjórnar sett strik í reikninginn um hríð. Hefur lágt verð á innfluttum blöndunarefnum í ál frá Kína leitt til þess, að kísilverksmiðjan á Bakka við Húsavík hefur orðið ósamkeppnishæf á innlendum markaði, og það hefur tekið fjármálaráðuneytið óratíma að komast að niðurstöðu um það, hvort um óleyfileg undirboð á markaði sé að ræða og þá e.t.v. brot á fríverzlunarsamninginum við Kína. Fyrir vikið hefur verksmiðju PCC á Bakka verið lokað, og veit enginn, hvort/hvenær hún verður opnuð aftur. Fyrir vikið hefur losnað um afl og orku í kerfi Landsvirkjunar og horfir nú vænlega með orkubúskapinn í vetur. Eins dauði er annars brauð.
Þegar kemur að því að finna leiðir til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi hérlendis, hefur komið til tals að framleiða hér rafeldsneyti. Slíkt útheimtir mikla raforku, því að orkunýtni framleiðsluferilsins er lág. Vænlegra virðist vera að nota jurtaolíur á borð við repjuolíu.
Þann 9. desember 2024 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Egil Þóri Einarsson, efnaverkfræðing, undir fyrirsögninni:
"Hin leiðin í eldsneytismálum".
"Helztu sóknarfæri okkar í loftslagsmálum eru að úthýsa jarðefnaeldsneyti, sem er ábyrgt fyrir 60 % af losun okkar. Meðan áherzla stjórnvalda hefur verið á framleiðslu á vetni og tilbúnu eldsneyti, sem byggt er á vetni, eigum við gnótt hráefna, sem hægt er að nýta við framleiðslu á eldsneyti með lágmarks losunargildi. Með því að nota innlend hráefni, eins og sorp, seyru og annað lífrænt efni, gætum við minnkað talsvert þörfina á innflutningi jarðefnaeldsneytis. Slíkt eldsneyti, eins og metan og lífdísill, er nánast kolefnishlutlaust, en hefur sama orkuinnihald og jarðefnaeldsneyti."
Jarðefnaeldsneyti er fremur ódýrt um þessar mundir á heimsmarkaði, en það mun ekki vara til eilífðarnóns. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr gjaldeyrisnotkun til eldsneytiskaupa, en fjárfesta þess í stað í framleiðslugetu á innlendum orkugjöfum. Rafbílavæðingin hefur öðlazt skriðþunga, en vinnuvélar og skip þurfa kolefnishlutlausa olíu. Asnastrik ríkisstjórnarinnar að lama fjárfestingargetu sjávarútvegsins er ekki loftslagsvæn aðgerð og ekki væn að neinu leyti.
"Knýjandi þörf er á að finna "staðgengils" eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Útskipti á jarðefnaeldsneyti með umhverfisvænu eldsneyti gerir okkur kleift að standa við skuldbindinggar okkar í loftslagsmálum. Að leita fanga í okkar eigin garði er vænlegra til árangurs en að leggjast í stórframkvæmdir við framleiðslu á orkufreku eldsneyti úr vetni. Til þess að gera það eftirsóknarvert þurfa stjórnvöld að koma til skjalanna með fjárstyrkjum og ívilnunum."
Það er fjárhagslega áhættusamt að fjárfesta í eldsneyti úr vetni. Ferlið er orkukræft og nýtnin lág, svo að líklegt er, að slíkt eldsneyti geti ekki keppt við annars konar eldsneyti með enga nettó losun koltvíildis. Íslenzkum orkulindum er betur varið til annars konar framleiðslu eða til gagnavera fyrir gervigreind.
Núverandi orkuráðherra er ekki mjög framsækinn fyrir hönd málaflokksins, því að hann hafnaði nýverið ósk Orkubús Vestfjarða um að breyta friðlýsingarskilmálum í Vatnsfirði til að koma mætti þar fyrir hagkvæmri virkjun með umhverfisvænum hætti. Þessi virkjun hefði sameinað orkuvinnslu og umhverfisvernd með fögrum hætti. Þessi vatnsaflsvirkjun hefði verið ólíkt "hlédrægari" í náttúrunni en þeir risaspaðar, sem kynntir hafa verið til sögunnar til slitróttrar raforkuvinnslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2025 | 16:17
Flaustursleg innleiðing nýrrar lyfjatækni
Flestum er í fersku minni hamagangurinn við að bólusetja landslýð gegn COVID-19 (C-19), þegar ný lyf gegn sjúkdóminum hlutu bráðabirgða samþykki lyfjayfirvalda. Þar sem hér var um nýja tækni að ræða, var afar óvarlega farið af hálfu yfirvalda, enda kom fljótt í ljós, að gagnsemin var lítil, en aukaverkanir verulegar.
Höfundi þessa pistils er ekki kunnugt um, að gagnger rannsókn hafi farið fram á viðbrögðunum við þessum faraldri, eins og þó hefur farið fram í sumum löndum og full ástæða er til hérlendis til að bezta undirbúning fyrir næsta faraldur.
Þorgeir Eyjólfsson og Helgi Örn Viggósson hafa haldið uppi harðri gagnrýni á síðum Morgunblaðsins á framgöngu hérlendra heilbrigðisyfirvalda, sem reyndist afar kostnaðarsöm og sumum dýrkeypt. Þann 7. janúar 2025 birtist ein þessara greina og hófst hún þannig:
"Röð mistaka og slóð eyðileggingar":
"Að hundruð Íslendinga eigi við alvarlegar aukaverkanir af völdum mRNA-bóluefna að stríða og að fjöldi landsmanna hafi mætt ótímabærum dauðdaga í embættistíð Ölmu Möller, fráfarandi landlæknis, er órækur vitnisburður þess, að landlækni hefur í mörgu mistekizt að stuðla að heilbrigði landsmanna, eins og lögin um starf hennar sem landlæknis kveða [þó] á um."
Þessar alvarlegu ásaknir á hendur fyrrverandi landlækni, sem nú stjórnar heilbrigðismálum þjóðarinnar, sýna, hversu nauðsynlegt er að komast til botns í málum stjórnsýslunnar, heilbrigðisráðuneytis, landlæknis og sóttvarnalæknis, á C-19 tímabilinu.
Höfundarnir rekja sían málsatvik í 7 liðum; hér verða rakin fyrsta og lokaatriðið.
1.) "Strax á fyrstu dögum bólusetninga létust nokkrir einstaklingar í kjölfar bólusetninga, og því var hættan á alvarlegum aukaverkunum bóluefnanna landlækni ljós frá upphafi. Jafnframt mátti landlækni vera fljótlega ljóst, að bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit til eða frá bólusettum einstaklingi, og þar af leiðandi væri fullyrðing Pfizer um 95 % virkni mRNA-bóluefnanna villandi eða beinlínis röng. Ekki varð vart tilburða af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að upplýsa almenning um, að bóluefnin veittu enga vörn gegn smiti eða [um] hættuna á alvarlegum aukaverkunum, sem varð vart strax í upphafi. Upplýst samþykki var virt að vettugi af landlækni."
Höfundur þessa pistils telur sig geta staðfest þessa hroðalegu umsögn um vanrækslu fyrrverandi landlæknis. Hann fylgdist hins vegar með umræðunni erlendis, t.d. í Svíþjóð, og var þess vegna ljóst, mRNA-efnin, sem hér var sprautað í fólk, voru hættulegri en ásættanlegt er m.v. afleiðingar sjúkdómsins, og að gagnsemin var lítil í upphafi og fjaraði hratt út. Þess vegna tók höfundur þessa pistils ákvörðun um að afþakka þessar bólusetningar.
7. "Í skýrslu OECD kom fram, að Ísland hafði annað hæsta hlutfall dauðsfalla í Evrópu í aldurshópnum 44 ára og yngri á árunum 2020-2022 að teknu tilliti til lýðfræðilegra þátta og að Ísland leiddi löndin í könnun OECD með 11,5 % aukningu á dánartíðni á milli áranna 2021 og 2022 á sama tíma og flest lönd sýndu fækkun dauðsfalla. Skýrslan er því ekki vitnisburður um árangursríkar sóttvarnaraðgerðir eftir tilkomu bóluefnanna, eins og núverandi sóttvarnalæknir hefur haldið fram.
Ofangreind upptalning er hvergi nærri tæmandi, en hefði átt að duga fyrrverandi landlækni fyrir misserum sem röksemd fyrir tímabundinni stöðvun á notkun mRNA-bóluefnis Pfizers, þar til gengið hefði verið úr skugga um öryggi efnisins. Að örvunarbólusetningar gegn covid séu enn auglýstar bendir ekki til, að fyrrverandi landlæknir hafi þann sveigjanleika í hugsun, sem ætlast þarf til af þeim, sem tekst á við embætti heilbrigðisráðherra, vilji hann hafa heilbrigði landsmanna í fyrirrúmi."
Það var rekinn harðvítugur hræðsluáróður til að fá sem flesta landsmenn í bólusetningu. Hin víðtæka og almenna bólusetning landsmanna kann að skýra það, sem að ofan greinir um tíðni dauðsfalla hérlendis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2025 | 11:11
Mundi aðild bæta hag eða þjóðaröryggi hérlendis ?
Þegar ákveða á, hvort endurlífga á aðlögunina að Evrópusambandinu (ESB), sem horfið var frá í raun 2011 og formlega síðar, verður að vega og meta kosti og galla aðildar. Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, í Morgunblaðinu 06.08.2025 var mikilvægt innlegg í þessa átt. Þar rakti hann í raun og veru, hvers vegna ekkert mælir með inngöngu í þennan klúbb fyrir Ísland.
Nú eru EFTA-löndin, nema Sviss, með aðild að Innra markaði ESB síðan 1994, en blikur eru á lofti um, að vera EFTA-landanna utan tollabandalags ESB þýði, að bandalagið telji sig þurfa að meðhöndla EFTA-ríkin eins og önnur lönd utan tollabandalagsins, þegar kemur að tollaákvörðun. Í því tollastríði, sem Bandaríkjastjórn hefur hrundið af stað, er þessi staða óviðunandi. Fríverzlunarsamningur hjálpar væntanlega ekki heldur. Svisslendingar eru með margháttaða samninga við ESB, og nú eru í gangi viðræður þeirra á milli um nýtt fyrirkomulag. Verður fróðlegt að sjá, hvað út úr þeim samningaviðræðum kemur. Eins og kunnugt er varð tollsetning Trump-stjórnarinnar (39 %) reiðarslag fyrir Svisslendinga, sem sjá fram á hrun Bandaríkjamarkaðar fyrir vörur sínar. Það er með endemum, hvernig Bandaríkjastjórn leyfir sér að haga sér, brjótandi niður það alþjóðakerfi, sem Bandaríkjamenn hafa öðrum fremur byggt upp.
EFTA-ríkin verða að reyna að sækja rétt sinn til ESA og EFTA-dómstólsins, ef ESB ætlar að halda tollastefnu sinni til streitu.
Ákafi Viðreisnar er mikill að koma Íslandi í ESB, og eru rökin aðallega nú öryggislegs eðlis, en það er hæpið, að her ESB bæti nokkru við varnir Íslands umfram aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, þótt haldið í honum sé umdeilanlegt með Trump við völd.
Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar nefndist:
"Ísland á ekki að íhuga aðild að ESB".
Hann tíndi til nokkrar staðreyndir þessari fullyrðingu til stuðnings:
- "Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mun meiri en hjá ESB-ríkjum, eftir að aðildarviðræðum var hætt:
ATH.: Evran á þátt í að halda aftur af hagvexti ríkja á evrusvæðinu, því að skráning hennar tekur ekkert tillit til framleiðni og samkeppnishæfni ýmissa ríkja á evru-svæðinu.
2. Kaupmáttarvöxtur á Íslandi hefur hefur verið mun
meiri en innan ESB frá sama tíma.
ATH.: Ísland náði sér hraðar upp úr bankakreppunni en flest önnur lönd og sökk líka dýpra en flest. Íslenzka hagkerfið er að mestu reist á náttúruauðlindum, sem voru gjöfular mestan hluta tímabilsins. Á síðustu árum hafa launahækkanir verið umfram framleiðniaukningu, sem grefur undan kaupmáttaraukningu og gjaldmiðlinum.
3. Íslenzka krónan hefur verið stöðugri en evran
gagnvart bandaríkjadollar.
ATH.: ISK gæti senn lækkað að verðgildi m.v. helztu gjaldmiðla vegna kjarasamninga, sem flest fyrirtæki ná ekki að standa undir með framleiðnivexti.
4. Íslenzkt atvinnulíf hefur aldrei verið
fjölbreyttara, og nýsköpun blómstrar.
ATH.: Þetta stafar aðallega af öflugum grundvallargreinum, t.d. sjávarútvegi, sem stundað hafa vöruþróun til að auka verðmæti afurðanna og draga úr kostnaði með aukinni sjálfvirkni. Upp úr þessum jarðvegi hafa sprottið sprotafyrirtæki, sem sumum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg. Með nýrri vinstri stjórn eru viðsjár í þessum efnum, því að ríkisstjórnin veikir mjög öflugustu fyrirtækin, sem leitt hafa tækniþróunina, með gjörsamlega hömlulausri og stórskaðlegri skattheimtu. Þessi óheillaþróun mun leiða til minni verðmætasköpunar en ella, sem er alvarlegt mál fyrir hagkerfið í heild.
5. Atvinnuleysi mælist varla.
ATH.: Atvinnuleysi mælist vissulega á Íslandi, og fer vaxandi undir vinstri stjórn. Það mun þó vonandi lagast með virkjunarframkvæmdum. Atvinnuleysi á Íslandi er miklu minna en í ESB og sérstaklega m.v. evrusvæðið, enda eru hagsveiflur þar teknar út á atvinnustiginu.
6. Ísland er í fyrsta sæti á lista Sameinuðu
þjóðanna yfir lífskjör (Human Development
Index ).
ATH.: Mundi Ísland halda sæti sínu á þessum lista að öðru óbreyttu en aðild að ESB ? Það er ekki víst í ljósi mikils útjöfnunarkostnaðar lífskjara, sem leggjast mundi á Ísland eftir aðild, og vegna mikilla útgjalda til varnarmála, sem blasa við löndum ESB.
7. Jafnrétti er hvergi meira en á Íslandi; sama
gildir um kaupmátt lægstu launa og bóta,
atvinnuþátttöku kvenna og launajöfnuð.
ATH.: Þessi atriði munu væntanlega draga dám af því, sem tíðkast í ESB eftir hugsanlega inngöngu Íslands í ESB.
8. Varlega áætlað eru Íslendingar 9. ríkasta þjóð
heims. "
ATH.: Þetta getur breytzt til verri vegar með aðild, því að landsmenn munu þá þurfa í einhverjum mæli að deila landhelgi sinni með öðrum aðildarþjóðum, þar sem hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB mun ríkja hér. Þá mun væntanlega koma þrýstingur á Alþingi að innleiða 4. orkupakka ESB og að samþykkja lagningu aflsæstrengs hingað, sem hækka mun raforkuverðið enn meir, og rýrir það samkeppnihæfnina.
"Það er ekki síður áhugavert að skoða, hversu mikið landsframleiðsla hefur aukizt á Íslandi á tímabilinu 2010-2024 m.v. vöxtinn í Evrópu og í Bandaríkjunum á sama tíma:
9. Landsframleiðsla í ESB-ríkjunum hafur á tímabilinu vaxið um 15 %.
ATH.: Þetta er óeðlilega lítill vöxtur, og Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, sá ástæðu til að kryfja þetta til mergjar í langri skýrslu fyrir um 2 árum. Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að reglugerðafargan ESB væri dragbítur á fyrirtækin. Þá má nefna lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi, öldu flóttamanna frá Sýrlandi og víðar, áherzlu á óhagkvæma orkugjafa á borð við vind og sól og hátt raforkuverð, sem leitt hefur af orkuskorti. Það virðist mega draga þá ályktun, að innganga Íslands í ESB mundi leiða til versnandi lífskjara hérlendis.
10. Á sama tíma hefur hún vaxið um 35 % - 40 % í Bandaríkjunum.
ATH.: Í Bandaríkjunum hefur verið lifað um efni fram, eins og gríðarlegar erlendar lántökur á formi ríkisskuldabréfa gefa til kynna, og eiga þær sennilega þátt í lágu gengi USD. Nú er frumstæð og í alla staði mjög undarleg efnahagsstjórnun við lýði í Bandaríkjunum, sem snýst um háa tolla á vörur frá ríkjum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við Bandaríkin. Þessi kaupauðgistefna hefur fellt gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum, veikt gengi USD og kynt undir verðbólgu um leið og kaupmáttur almennings minnkar. Hvíta húsið boðaði í upphafi, að hagur almennings mundi batna við þennan fíflagang, sem sýnir, hvers konar vitsmunaverur eru nú þar við völd, enda hrapar fylgi forsetans í skoðanakönnunum.
11. Á Íslandi hefur hún vaxið um u.þ.b. 50 %. Á
mælikvarðanum verg landsframleiðsla á mann er
Ísland í 5. sæti allra ríkja heims."
ATH.: Samanburðartímabilið er auðvitað hagstætt Íslandi, því að hér varð einna mest fall landsframleiðslu á mann í heiminum í fjármálakreppunni 2007-2009. Hins vegar ber staða VLF/íb órækt vitni um árangur efnahagsstjórnunar hér, og það verður ekki annað séð en innganga í ESB bjóði þeirri hættu heim, að hér verði efnahagsstöðnun og versnandi lífskjör. Í þessu ljósi er óskiljanlegt, hvað þeim stjórnmálamönnum gengur til, sem nú vilja dusta rykið af aðildarumsókn Íslands frá 2009. Að benda á ný viðhorf til öryggismála í Evrópu heldur ekki vatni. E.t.v. er ESB orðið þreytt á EES-samninginum, en þá er lausnin ekki sú að hverfa í þjóðahafið, heldur að leita fríverzlunarsamnings við ESB, jafnvel á grundvelli EFTA-aðildarinnar. Í Noregi virðist afstaðan til ESB lítið hafa breytzt, svo að samflot með Norðmönnum og jafnvel Svisslendingum við gerð fríverzlunarsamnings virðist blasa við, ef ESB vill henda okkur út fyrir tollmúrana, þegar svo býður við að horfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2025 | 16:40
Loftslagsútgjöld og ávinningur
Fyrirferð loftslagsmála á þessum áratugi í umræðunni hefur minnkað m.v. við síðasta áratug. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en ein er sú, að búið er að hrópa úlfur, úlfur allt of oft án tilefnis og önnur sú, að æ fleiri gera sér grein fyrir, að kostnaðurinn við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er ekki í neinu samræmi við ávinninginn. Þetta hefur Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnar hugveitunnar, gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Kaliforníu og höfundur bókarinnar Best Things First, sýnt fram á.
Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 20. janúar 2025 undir fyrirsögninni:
"Það sem loftslagsútgjöld kosta heiminn".
Hún hófst þannig:
"Um allan heim eru fjármál hins opinbera nálægt hættuæastandi. Vöxtur á hvern einstakling heldur áfram að lækka, á meðan kostnaður eykst vegna ellilífeyris, menntunar, heilsugæzlu og varnarmála. Þessi brýnu forgangsatriði gætu auðveldlega krafizt 3-6 % til viðbótar af landsframleiðslu. Samt kalla grænir aðgerðasinnar hávært eftir því, að stjórnvöld eyði allt að 25 % af landsframleiðslu okkar í að kæfa vöxt í nafni loftslagsbreytinga.
Ef dómsdagur vegna loftslagsbreytinga væri yfirvofandi, væri sú stefna ekki svo vitlaus. Sannleikurinn er þó ekki eins dramatískur. Nýlega hafa verið birtar 2 stórar vísindalegar áætlanir um heildarkostnað við loftslagsbreytingar á heimsvísu. Þetta eru ekki einstakar rannsóknir, sem geta verið mismunandi (þar sem dýrustu rannsóknirnar fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum). Þess í stað eru þær meta-rannsóknir, byggðar á öllum tiltækum ritrýndum rannsóknum. Önnur rannsóknin [skýrslan-innsk.BJo] er rituð af einum þeirra loftslagshagfræðinga, sem mest er vitnað í, Richard Tol; hin er eftir eina loftslagshagfræðinginn, sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin, William Nordhaus.
Rannsóknirnar benda til þess, að 3°C hitahækkun í lok aldarinnar - sem er dálítið svartsýnisleg spá m.v. núverandi þróun - muni [hafa í för með sér] alþjóðlegan kostnað, sem jafngildir 1,9 %-3,1 % af vergri heimsframleiðslu. Til að setja þetta í samhengi áætla SÞ, að í lok aldarinnar verði meðalmaðurinn 350 % ríkari en hann eða hún er í dag. Vegna loftslagsbreytinga verður það eins og að vera aðeins 335 % - 340 % ríkari en í dag."
M.ö.o. mun jarðarbúa muna sáralítið efnalega um heildarafleiðingar hitastigshækkunar á jörðunni á þessari öld, þótt tjón og ávinningur dreifist ójafnt á landsvæði jarðar. Þá er eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða, sem áreiðanlega munu eiga sér stað og draga úr tjóninu. Loftslagspostular minnast ekki á þetta, heldur boða í raun dómsdag yfir mannkyni vegna núverandi hitastigsstiguls. Þeir boða, að kasta skuli perlu fyrir svín; fara í gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir með látum. Hæst ber þar orkuskiptin, þótt í raun vanti enn þá "réttu" tæknina til að taka við af jarðefnaeldsneyti. Orkuskipti eru sjálfsögð, en tæknin þarf að vera fyrir hendi.
"Raunverulegur kostnaður við óhagkvæma loftslagsstefnu er, að hún dregur auðlindir og athygli frá öðrum forgangsatriðum. Evrópa býður upp á ömurlega lexíu. Fyrir 25 árum lýsti Evrópusambandið því yfir, að með stórfelldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun um allt hagkerfið myndi það verða "samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heimi". Það mistókst algjörlega: útgjöld til nýsköpunar jukust varla, og ESB er nú langt á eftir Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og jafnvel Kína.
Þess í stað skipti ESB um áherzlur og knúið af loftslagsþráhyggju valdi það "sjálfbært" hagkerfi fram yfir traust hagkerfi. Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun. Líklegt er, að kostnaðurinn fari yfir nokkrar trilljónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C."
Þetta dæmi kastar ljósi á það, hvers vegna það er óskynsamlegt af Íslendingum að ganga þessu ríkjasambandi á hönd. Dagleg stjórnun þar er á höndum embættismannabákns, sem mótar og semur reglugerðafargan, sem tekur ekki alltaf mið af heilbrigðri skynsemi, heldur setur "dyggðaflöggun" framar í forgangsröðina, þótt hún dragi úr velmegun borgaranna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þessi 25 ára yfirlýsing ESB, sem Lomborg nefnir, minnir á yfirlýsingu aðalritara sovézka kommúnistaflokksins, Nikita Krútsjoff, á sínum tíma um, að Sovétríkin mundu grafa Bandaríkin og átti þá við, að kommúnistarnir færu fram úr kapítalistunum á öllum sviðum innan tiltölulega skamms tíma.
Lenín talaði á sínum tíma um "gagnleg fífl" - "useful idiots". Efir Alaska-fund Trumps og Pútíns 15. ágúst 2025 hvarflar að manni, að þannig líti rússneskir ráðamenn á núverandi forseta Bandaríkjanna. Framvindan þar var með ólíkindum, og Evrópuleiðtogarnir á nálum. Hins vegar getum við litið okkur nær í nútímanum. Málflutningur aðildarsinna að ESB hérlendis um, að Íslendingar einir mundu sitja að veiðum innan efnahagslögsögu Íslands vegna veiðireynslunnar fær ekki staðizt. Fiskveiðistjórnun innan lögsögu ESB er óskilyrt á höndum framkvæmdastjórnar ESB. Vegna mikils þrýstings um að komast inn í efnahagslögsögu Íslands frá ríkjum á borð við Spán mun verða brýnt fyrir framkvæmdastjórn og leiðtogaráð að semja nýja reglu um aðgang ríkja að efnahagslögsögu ESB. Fiskveiðilögsagan er lífakkeri Íslendinga og ræður hún afkomu landsmanna. Það má því heita fíflagangur að ætla inn í ESB án nokkurrar niðurnjörvaðrar sérreglu fyrir Ísland í þessum efnum. Slík sérregla yrði sennilega ekki samþykkt af leiðtogaráðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2025 | 10:37
Fjandskapur við atvinnulífið
Fjandskapur við atvinnurekstur hefur ætíð legið þeim stjórnmálamönnum nærri, sem aðhyllast forræðishyggju hins opinbera, enda er hámark forræðishyggjunnar ríkisrekstur atvinnulífsins. Á Íslandi sjáum við ýmsar birtingarmyndir þessarar afdönkuðu hugmyndafræði. Á viðsjártímum í efnahagsmálum heimsins, þegar forðast ber af innlendum stjórnvöldum að íþyngja atvinnurekstri í erlendri samkeppni, er ríkisstjórn Íslands á þeim buxunum að hækka opinber gjöld svo stórlega á sjávarútveginn, að hann neyðist til að draga saman seglin og þar með að draga úr nýsköpun, "grænum" lausnum og samfélagsþátttöku. Aðgerðin er forkastanleg, því að hún mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti í landinu.
Á ferðageiranum dynja skyndihækkanir, t.d. á farþegaskip, sem draga úr aðsókn. Meira mun vera í pípunum.
Þann 2. júlí 2025 birtist Innherjagrein í ViðskiptaMogganum, þar sem geðsveiflur innviðaráðherra, tengdar fiskeldinu, gefa til kynna undarlega afstöðu lögfræðingsins til valdmarka ráðherra:
"Ummæli innviðaráðherra, Eyjólfs Ármannssonar, í kjölfar ákvörðunar Arctic Fish um að flytja fóðurstöð sína frá Þingeyri til Ísafjarðar, hafa vakið athygli. Ráðherrann gagnrýnir fyrirtækið harðlega fyrir skort á samfélagslegri ábyrgð. Samhliða því hefur hann gefið í skyn, að rekstrarskilyrði fyrirtækisins kunni að verða endurskoðuð, enda muni hann beita sér fyrir því að snúa þessari ákvörðun við.
Þessi orð ráðherrans eru ekki einungis til marks um óánægju með einstaka ákvörðun fyrirtækisins, heldur má skilja þau sem óbeina hótun. Ráðherrann gefur í skyn, að fyrirtæki, sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, þurfi að lúta boðvaldi og þóknun stjórnmálamanna. Slíkt setur hættulegt fordæmi og skapar óvissu í atvinnulífinu."
Fyrirtæki í landinu verða að búa við atvinnufrelsi til að gera þær ráðstafanir, sem forysta þeirra telur henta þeim bezt. Þannig verða hagsmunir hluthafa, launþega og samfélagsins í heild bezt tryggðir, því að verðmætasköpun er hámörkuð. Nú búum við hins vegar við ríkisstjórn, sem þekkir ekki sinn vitjunartíma, en er illa haldin af gömlum grillum, sem hana fýsir að hrinda í framkvæmd, þótt erfitt sé að sjá, að hún hafi verið kosin til þess.
Þarna endurlífgar Eyjólfur Ármannsson t.d. gamlan draug, sem tröllreið húsum á Íslandi fyrir mörgum árum með hrikalegum afleiðingum. Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíku afturhvarfi til fortíðar. Framferði ráðherrans stríðir sennilega gegn EES-samninginum, sem gerir ekki ráð fyrir slíkum valdboðum ríkisins í garð sjálfstæðra fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Úr því mætti fá skorið með því að færa málið fyrir ESA. Segja má, að ráðherrann sé utan gátta í nútímanum, en þetta á sennilega að vera lýðskrumsgjörningur hjá honum. Væri ekki ráð, að hann héldi sig við verkefni ráðuneytis síns og hugsaði meira um að hlúa að atvinnulífinu í stað þess að rífa það niður ?
"Það skapar ekki störf, styrkir ekki byggðir og eflir ekki samfélagið að beita fyrirtæki þrýstingi eða gefa í skyn, að rekstrarskilyrði þeirra ráðist af því, hvort ákvarðanir þeirra falla í kramið hjá ráðherrum landsins. Slíkt viðhorf dregur úr fjárfestingu og býr til óvissu, sem skaðar ekki aðeins einstök fyrirtæki, heldur samfélagið í heild."
Þessi ríkisstjórn fordæðanna er uppvakningur grillupúka, sem veikir undirstöður íslenzks atvinnulífs og vinnur að því, að stórríki Evrópu nái til Íslands. Allt þetta vinnur gegn hagsmunum landsmanna í bráð og lengd. Það eru engin viti borin rök færð fyrir þessari stefnumörkun. Hér er villuljósum beint að landsmönnum. Heilbrigð skynsemi segir mönnum, að öflugt atvinnulíf efli hag almennings meira en veikt atvinnulíf og að fullvalda heimastjórn við Lækjartorg og Austurvöll sé líklegri til að efla hag almennings en framkvæmdstjórn og leiðtogaráð í höfuðstöðvum ESB (Berlaymont), þar sem taka þarf tillit til margra ólíkra sjónarmiða og hagsmuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2025 | 16:48
Ráðherrar seilast langt
Tveir Viðreisnarráðherrar hafa nú þjófstartað endurnýjuðu aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu - ESB. Formaðurinn, Þorgerður Katrín, hefur skuldbundið landið til að fylgja utanríkisstefnu ESB, og atvinnuvegaráðherrann H.K. Friðriksson hefur skuldbundið landið til að fylgja sjávarútvegsstefnu ESB. Hvort tveggja eru skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar, sem þýðir fullveldisframsal. Svona gjörninga ráðherra þarf Alþingi að staðfesta, ef nokkurt "system á að vera í galskapet".
Þann 29.07.2025 reit Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur, um málefnið í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Felur í sér pólitíska skuldbindingu".
"Með samkomulagi um utanríkismál, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra [og varnarmálaráðherra - innsk. BJo] og formaður Viðreisnar undirritaði við Evrópusambandið 21. maí [2025], ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein, er Ísland, ásamt hinum 2 ríkjunum, pólitískt skuldbundið til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu sambandsins. Þetta kemur fram í svari frá upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins við fyrirspurn, sem ég sendi henni nýverið.
Fram kemur, að svarið hafi verið unnið í samráði við utanríkisráðuneyti Evrópusambandsins (European External Action Service), en Kaja Kallas, utanríkisráðherra sambandsins, undirritaði samkomulagið fyrir hönd þess. Í samkomulaginu segir m.a.:
"Aðlögun að utanríkisstefnu ESB [...], aðlögun EFTA/EES-ríkjanna að ákvörðunum, yfirlýsingum og refsiaðgerðum ESB."
Ljóst er, að annað í samkomulaginu tekur mið af því meginatriði. T.d. samráð utanríkisþjónusta.
Fyrirspurn mín var á þá leið, með hvaða hætti bæri að skilja áður nefndan texta úr samkomulaginu í framkvæmd. Svarið var svo hljóðandi:
"Aðlögun felur í sér pólitíska skuldbindingu landanna 3, sem nefnd eru, Íslands, Liechtensteins og Noregs, til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu Evrópusambandsins."
Vísað er síðan til yfirlýsinga utanríkisráðherra sambandsins fyrir hönd þess í þeim efnum og ákvarðana leiðtogaráðs þess um refsiaðgerðir."
Hvað rekur utanríkisráðherra Íslands til að afsala ríkisstjórninni og Alþingi frelsi til að móta utanríkisstefnuna að eigin höfði. Það er ekki víst, að hagsmunir Íslands og ESB muni alltaf fara saman, þótt þeir geri það í helztu utanríkismálum nú. Í ljósi áhuga utanríkisráðherra á inngöngu Íslands í ESB verður að álykta, að hér sé um ótímabæra aðlögun til undirbúnings aðildar að ræða. Þetta er óþolandi bráðræði. Hafði Alþingi ályktað um þetta ? Það er lágmark í afsalsmálum fullveldis, þótt ekki sé um bindingu að þjóðarétti að ræða.
"Komið hefur fram, að Þorgerður Katrín hafi ekki upplýst utanríkismálanefnd Alþingis um þetta meginatriði samkomulagsins. Hvorki fyrir né eftir undirritun þess. Enn fremur var hvergi minnzt á það í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um undirritunina. Feluleikurinn vegna málsins hefur ekki leynt sér. Hins vegar breytir auðvitað engu, hvað Þorgerður segir í þessum efnum, þegar fyrir liggur, að það er ekki í samræmi við það, sem hún hefur beinlínis skrifað undir."
Pukrið og óhreinskilnin í þessum ESB-tengdu málum er Akkilesarhæll ríkisstjórnarinnar. Vandræðagangurinn stafar líklega af því, að á Alþingi er ekki meirihluti fyrir ESB-aðild. Hætt er við, að spurningin, sem lögð verður fyrir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu um, hvort greiða eigi leiðina inn í ESB í viðræðum við ESB, verði í skötulíki. Fram þarf að koma, að Alþingi hafi ályktað um vilja sinn til að breyta stjórnarskrá, svo að heimila megi fullveldisafsalið, sem aðild útheimtir. Atkvæðagreiðslan kann annars að verða marklaus og verða dæmd ógild. Ákafi ríkisstjórnarinnar við að koma Íslandi inn í ESB stendur á pólitískum og lagalegum brauðfótum, og hún mun ekki ríða feitum hesti frá þessari viðureign og fráleitt fá umboð til framhaldslífs á næsta kjörtímabili.
"Hins vegar hefur ekki verið numið staðar við utanríkismálin. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og þingmaður Viðreisnar, hefur þannig t.d. kynnt til sögunnar samkomulag við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál, sem kveður á um aðlögun að stefnu sambandsins t.a.m. varðandi veiðar úr deilistofnum. Þannig er þar kveðið á um samræmingu á afstöðu Íslands og Evrópusambandsins fyrir fundi strandríkja og innan svæðisbundinna fiskveiðistofnana."
Hingað til hefur yfirleitt ekki ríkt einhugur á milli ESB og Íslands um veiðar úr deilistofnum. Þess vegna verður ekki betur séð en hér sé verið að hefta Ísland við að gæta hagsmuna sinna, t.d. að ákvarða veiðar úr makrílstofninum innan lögsögunna einhliða, ef ekki vill betur. Hér virðist Friðriksson setja haus sinn inn í gin úlfsins og vona síðan hið bezta. Er ekki fráleitt af íslenzkum ráðherra að setja hagsmuni Íslands í uppnám með þessum hætti ? Allt virðist þetta gert sem þáttur í aðlögunarferli að aðild Íslands að ESB. Þetta er algert bráðræði. Landsmenn hafa ekki enn greitt atkvæði um, hvort þeir vilji hefja þetta aðlögunarferli að nýju.
"Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að umsóknarferli að Evrópusambandinu gengur öðru fremur út á aðlögun að regluverki og stefnum sambandsins líkt og lesa má víða um í gögnum þess. Framganga stjórnvalda með ráðherra Viðreisnar í fararbroddi verður fyrir vikið ekki skilin með öðrum hætti en sem undirbúningur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. M.ö.o. getur einkum Viðreisn ljóslega ekki setið á sér áður en þjóðaratkvæðið fari fram."
Að þessu hugðarefni sínu starfar ríkisstjórnin umboðslaus, því að um Evrópusambandið var lítið sem ekkert rætt í kosningabaráttunni síðustu til Alþingis, og K. Frost. gaf í skyn, að ríkisstjórn undir hennar forystu héldi ekki í þessa vegferð á kjörtímabilinu, sem nú stendur yfir. Af þessum sökum er full ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að draga fram "Stóru-Bertu" þegar nú í haust og herja með fullum þunga á þessa lánlitlu ríkisstjórn, sem svo rækilega hefur gefið höggstað á sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2025 | 16:58
Reginmisskilningur forsætisráðherra
Á óvissutíma í efnahagsmálum reynir á ríkisstjórn að létta fremur undir með atvinnulífi og heimilunum í landinu. Ríkisstjórn K. Frost. hagar sér eins og óviti og gerir hið þveröfuga. Hún boðar mikla útgjaldaaukningu ríkissjóðs, t.d. vegna varnarmála og aðildar Íslands að Evrópusambandinu, sem verður Íslandi fjárfrek (allt að 30 mrdISK/ár), og auknar byrðar á atvinnulífið, sem vinna mun gegn hagsæld heimilanna. Við þessar aðstæður ætti ríkisstjórnin að róa öllum árum að auknum hagvexti og verðmætasköpun, eins og hún vakti vonir um í stjórnarsáttmála, en það er einfaldlega ekkert að marka orð hennar. Ríkisstjórnin hellir nú olíu á verðbólgubálið með skuldasöfnun sinni. Allt bendir til, að útgjöldin til varnarmála eigi að fjármagna með lántöku. Þótt Þjóðverjar geti réttlætt slíkt núna á miklum viðsjártímum í Evrópu, þar sem mikill hluti útgjaldaaukningarinnar fer til margháttaðrar aðstoðar við Úkraínu, gegnir öðru máli um Ísland, sem engin áhrif getur haft á hernaðarframvinduna í Evrópu. Að kjósa yfir sig vinstri stjórn, býður jafnan hættunni heim. Kjósendum til afturbata má þó segja, að þeir hafi keypt köttinn í sekknum. Hver hefði t.d. trúað því, að Flokkur fólksins myndi setjast í ríkisstjórn, sem þegar á fyrsta starfsári sínu hefur hafizt handa um að aðlaga stefnumörkun Íslands að stefnu ESB, t.d. í sjávarútvegsmálum ?
Í forystugrein Morgunblaðsins, 2. júlí 2025, "Fjölskyldurnar", átaldi ritstjórnin forsætisráðherra harðlega fyrir fráleitan og ofstækisfullan málflutning í garð sjávarútvegsins. Forsætisráðherra grefur skotgrafir að frumstæðum hætti í stað þess að leggja sig fram um góðar lausnir í samráði við atvinnulífið, vinnuveitendur og launþega. K. Frost. mun ekki ríða feitum hesti frá þessu máli, enda hefur hún nú opinberað fávísi sína á efnahagsmálum og skort á samráðshæfileikum, sem góður forsætisráðherra þarf að hafa til að bera. Téð forystugrein hófst þannig:
"Mörgum hnykkti við orð Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið í fyrri viku [v.26/2025 - innsk.BJo], þegar hún, þvert á fyrri orð upplýsti, til hvers ríkisstjórnin áformaði svo snögga og skarpa hækkun veiðigjalda:
"Það verða alltaf einhverjir hagsmunaaðilar, sem að mínu mati ... að okkar mati eru fyrst og fremst að berjast fyrir hagsmunum 4-5 fjölskyldna í landinu; við skulum bara hafa það alveg á hreinu."
Þess eru engin dæmi í stjórnmálasögunni, að forsætisráðherra, ráðherrar hans eða stjórnarlið í þinginu lýsi því yfir, að fyrirætlanir um skattaálögur beinist að tilteknum borgurum landsins og öðrum ekki.
Þetta voru ekki orð mælt í hita leiksins, heldur var þetta hluti af skipulögðum málflutningi Samfylkingar, beint úr talpunktum handritshöfundar hennar, en ómurinn af þeim heyrðist einnig í þingræðum og óútþynntur í langlokum framkvæmdastjóra þingflokksins.
Engin tilraun hefur verið gerð til að draga þau orð til baka eða skýra þau nánar, en í þeim felst annarlegur misskilningur á grundvelli íslenzks stjórnarfars, jafnræðisreglunni og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.
Hann leggst þá ofan á pólitískan misskilning á eðli aflahlutdeildarkerfisins og þann hagfræðilega misskilning, að leggja megi á tugmilljarðaskatta án þess að það hafi minnstu áhrif á neitt, nema fjárhag ríkissjóðs."
K.Frost. reiðir hátt til höggs og brýtur siðferðisreglur forsætisráðherra og ber enga virðingu fyrir lögum, sem um starfshætti hans gilda. Hún er í kviksyndi margháttaðs misskilnings og reisir ógeðfelldan málflutning sinn á lýðskrumi, öfund, og illgirni. Allt ber þetta vott um grunnfærni, sem er svo þungur áfellisdómur yfir henni, að hafa má áhyggjur af afleiðingum starfa hennar, t.d. í viðleitni til að koma Íslandi í faðm Evrópusambandsins. Önnur vinstri stjórn gafst upp á því viðfangsefni árið 2011. Hvers konar lúabrögðum á að beita núna til að breyta niðurstöðunni ?
"Sá skaði, sem skattagleði ríkisstjórnarinnar hefur þegar valdið skráðum sjávarútvegsfélögum á markaði og þar með hluthöfum þeirra, þ.á.m. lífeyrissjóðfélögum, mun ugglaust reynast þeim meiri, þegar upp er staðið. Við það verða sjávarútvegsfélög ekki viljugri til skráningar á markað eða fjárfestingarkostir lífeyrissjóða landsmanna fleiri.
Að ógleymdum þeim skaða, sem skattagleðin mun valda verðmætasköpun og og efnahagslífinu í heild. Hún mun bitna á öllum fjölskyldum landsins.
Lífeyrissjóðirnir hafa haldið sér mjög til hlés í þessari umræðu til þessa. En nú, þegar tjónið blasir við, geta þeir ekki lengur staðið þöglir hjá, [á] meðan eignir og réttindi sjóðfélaga rýrna; framtíðar framfærslu fjölskyldnanna í landinu er ógnað, af því að Kristrún Frostadóttir segist vilja sýna 4-5 fjölskyldum í tvo heimana. Fyrir þá heiftrækni eiga eiga ekki 225 þúsund heimili að gjalda."
Ríkisstjórnin sýnir mjög mikla óvarkárni í efnahagsmálum. Hún hættir á hrun gengis ISK með því að tefla grunnatvinnuvegum í uppnám og þar með að grafa undan gjaldeyrisöflun. Ef hún með flumbruhætti missir tökin á genginu, verður hér mikið verðbólgustökk, sem leitt getur af sér vaxtahækkanir, sem núverandi hagkerfi má ekki við. Evrópusambandið (ESB) fótumtreður nú EES-samninginn, svo að Ísland getur misst aðgengi að Innri markaði EES fyrir mikilvægar útflutningsvörur fyrirvaralítið, af því að landið er utan tollabandalags ESB. Þá kann að verða nauðsynlegt að velja á milli víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB og aðildar. Utanríkisráðherra og atvinnuvegaráðherra hafa varðað síðari leiðina með því að svipta landið sjálfstæðri utanríkisstefnu og sjálfstæðri fiskveiðistjórnunarstefnu. Hafa þær svo víðtækar lagaheimildir til embættisverka, eða er kominn tími til að sækja þær til saka fyrir dómstólum ? Fyrst þarf Alþingi að fjalla um þessi mál og væntanlega að leggja fram vantrauststillögur á þessa ráðherra, sem virðast hafa farið offari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2025 | 16:45
Glapræði ríkisstjórnar
Með því að draga kraftinn úr grundvallar atvinnugrein landsmanna fremur ríkisstjórnin alvarlegan fingurbrjót, sem allir munu finna fyrir. Með því að draga stórfé út úr sjávarútveginum og flytja yfir í ríkissjóð versnar samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar á erlendum og innlendum vettvangi, fjárfestingar og nýsköpun dragast saman, tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka, hagvöxtur minnkar og gengi ISK gæti rýrnað vegna minni gjaldeyristekna, sem eykur verðbólgu. Ragnar Árnason, prófessor emeritus, hefur varað við þessu, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum. Henni mun hefnast fyrir allan þennan flausturslega og einstrengingslega málatilbúnað, og vonandi kemur fljótlega hér ríkisstjórn, sem leiðréttir þetta óréttlæti (sérsköttun) og skaðlega inngrip í atvinnustarfsemi.
Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf, ritar talsvert um sjávarútvegsmál, og ein greina hans birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025 undir fyrirsögninni:
"Skattur eða sátt" ?
"Umræðan um sértæka skattlagningu á sjávarútveginn hefur harðnað að undanförnu. Forsætisráðherra hefur haldið því fram, að sjávarútvegurinn eigi ekki að skila arði til eiganda fyrirtækja í sjávarútvegi, heldur greiða sérstakan skatt til samfélagsins. Þessi nálgun virðist byggð á misskilningi á því, hvernig greininni er háttað. Arðgreiðslur eru tiltölulega hóflegar í sjávarútvegi, lægri en t.d. í orkugeiranum, og mestur hluti afkomunnar fer í nýfjárfestingar, tækni og þróun. Fjármunir eru ekki teknir út - þeir eru lagðir inn. M.ö.o.: sjávarútvegurinn greiðir þegar til samfélagsins með skattgreiðslum, með störfum og með verðmætasköpun. Að reyna að "taka til baka" verðmæti, sem enginn annar en fyrirtækin hafa skapað úr hráefnum hafsins - það þjónar hvorki réttlæti né hagsmunum landsins til lengri tíma."
Síðan þetta fár "verkjastjórnarinnar" gegn sjávarútveginum brast á, hefur verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaði rýrnað um tugi milljarða ISK, e.t.v. 20 %. Markaðurinn hefur lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og metið þær til eignaupptöku starfseminnar. Hér er um að ræða þjófnað ríkisvaldsins um hábjartan dag á verðmætum, sem einkaframtakið hefur aflað án nokkurrar mælanlegrar aðkomu "auðlindarentu" í sjávarútvegi, sem lýðskrumarar staglast á án þess að vita, hvað þeir eru að fjalla um. Þessi "verkjastjórn" veit heldur ekkert hvað hún er að gera, því að hún heldur því fram, að skattahækkun hennar sé óskaðleg fyrir fyrirtækin. Það er hrein fásinna, eins og verðmætafall þeirra á markaði gefur glögglega til kynna. Ríkisstjórnin er landinu hættuleg, því að þar ráða óvitar ferðinni.
"Unbroken, með sölusamninga við Lidl, gæti orðið verðmætara fyrirtæki en öll hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt - og sýnir, hvernig bætt virðisaukning, úrvinnsla og útflutningur á vöru fremur en hráefni getur skilað gríðarlegum verðmætum."
Ríkisstjórnin hefur engan skilning á mikilvægi fjárfestingargetu sjávarútvegsins fyrir vöxt hans, viðgang, samkeppnishæfni og nýsköpun. Á grundvelli ímyndaðrar auðlindarentu í sjávarútvegi (forsætisráðherra viðurkennir, að auðlindarenta sé "huglægt mat") geldir ríkisstjórnin útgerðarfélögin með ofurskattlagningu skattstofns, sem er líka ímyndaður, þ.e. kemur aldrei inn í félögin, því að um er að ræða vafasamt jaðarverð á bolfisktegundum, sem getur verið undir áhrifum erlendra (niðurgreiddra fiskverkenda), og norsks verðs, sem er fjarstæðukennt að miða við hér. Hér er um svo vafasama skattheimtu vinstri stjórnar K. Frost. að ræða, að telja má líklegt, að látið verði á réttmæti hennar reyna samkvæmt skattarétti.
Ríkisstjórnin og þingmenn héldu því fram, að þessi skattheimta muni engin áhrif hafa á fyrirtækin og heimabyggð þeirra, þ.e. að hegðun fyrirtækjanna muni ekkert breytast við þessa viðbótar skattheimtu, enda næmi skattheimtan lægri upphæð en auðlindarentunni næmi. Nú er komið í ljós, að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaði hefur lækkað mikið, og mun það óhjákvæmilega breyta hegðun fyrirtækjanna. Lífeyrissjóðirnir hafa af þessum orsökum tapað háum fjárhæðum. Það veit enginn, hver þessi títt nefnda auðlindarenta er, enda er hún ómælanleg. Af þessum sökum hangir málstaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli algerlega í lausu lofti.
"Í stað þess að ýta undir þessar sóknarleiðir [nýsköpun - innsk. BJo] virðist ríkisvaldið kjósa að rífast við landsbyggðina og sjávarútveginn um það, hver eigi arðinn. Í þessari nálgun gleymist, að það var ekki ríkið, sem skapaði verðmætin - heldur þau fyrirtæki, sem unnu hörðum höndum úr því hráefni, sem auðlindin veitir. Ef við viljum áfram vera leiðandi sjávarútvegsþjóð, þurfum við að byggja upp traust, samvinnu og sátt - ekki sundrungu og refsistefnu."
Ríkisvaldið er á kolrangri braut með því að leggja sjávarútveginn í einelti á fölskum forsendum og undir því yfirskini, að aðeins 4-5 fjölskyldum muni blæða. Hvers konar götustráks hugsunarháttur er það eiginlega, sem nú ræður ferðinni við stjórn landsins ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2025 | 15:32
"Viðrinishugtakið" auðlindarenta
Hugtak, sem erfitt hefur verið að henda reiður á, "auðlindarenta", hefur verið notað til að réttlæta viðbótar skattheimtu af fyrirtækjum í vissum greinum, einkum sjávarútvegi. Raunverulega er ekki mögulegt að greina, hversu stór hluti hagnaðar fyrirtækis stafar af aðgangi að auðlind, hvort sem hann er keyptur, leigður eða gjaldfrjáls. Þess vegna er mikill misskilningur á ferð um hugtakið auðlindarenta og kalla má það "viðrinishugtak". Mjög gróf einföldun við að leggja mat á þetta er að athuga mun á hagnaði atvinnugreinar með aðgang að takmarkaðri auðlind og hagnaði annarra atvinnugreina. Þegar sjávarútvegur á í hlut, hefur þessi aðferð aldrei gefið til kynna umframhagnað yfir 5 ára tímabil eða lengur. Þess vegna er það þjóðsaga, að í íslenzkum sjávarútvegi leynist auðlindarenta.
Óvitaskapur fyrstu ríkisstjórnar K. Frost. felst í því að nota augljóslega falskar forsendur til að hækka hagnað útgerðanna með verðviðmiðun á bolfiski frá uppboðsmörkuðum á Íslandi, sem eru jaðarmarkaðir undir áhrifum verðtilboða erlendra, niðurgreiddra fiskverkenda og á uppsjávarfiski með tilvísun til ósambærilegrar verðmyndunar í Noregi, sem er ekki frjáls. Þetta eru lúalegar aðfarir ríkisvalds, sem er beinlínis í herleiðangri gegn grunnatvinnuvegi landsins og þar með gegn sjávarbyggðum vítt og breitt um landið.
Þann 7. júlí 2025 birtist grein í Morgunblaðinu eftir þann, sem mest fræðilegt vit hefur á þessum málum hérlendis að beztu manna yfirsýn. Þetta er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, sem sérhæft hefur sig í fiskihagfræði. Greinin bar yfirskriftina:
"Kvótaverð, renta og meint auðlindarenta - Ásgeiri Daníelssyni svarað".
Þar er ýmis gullkorn að finna fyrir leikmann á þessu sviði, sem engan á kvótann:
"ÁD (Ásgeir Daníelsson) byggir mjög á því, sem hann kallar auðlindarentu í grein sinni. Gallinn við þann málflutning er, að hagnað í atvinnuvegum er ekki unnt að rekja til þeirra náttúruauðlinda, sem þeir kunna að nýta. Ástæðan er einföld. Þegar aðföng eru mörg, eins og alltaf er í framleiðslu og svo sannarlega í fiskveiðum, er það alþekkt hagfræðileg niðurstaða, að ekki er unnt að heimfæra hagnaðinn eða hluta hans til einhverra einna aðfanga, eins og tiltekinnar náttúruauðlindar. Öll aðföng, þ.m.t. vinnuaflið, tæknin, fjármunirnir og stjórnunin, eiga hér sameiginlegan hlut að máli, og þáttur hverra og einna er ekki aðgreinanlegur og því ekki mælanlegur. Af þessari ástæðu er það afar villandi, svo [að] ekki sé meira sagt, að kenna hagnað við einhver tiltekin aðföng, sem notuð eru í framleiðslunni, hvort sem það er vinnuaflið í s.k. vinnugildiskenningu sósíalismans áður fyrr eða náttúruauðlindir nú á dögum.
Til að sjá, hversu fráleitt það er að telja, að hagnaður í fiskveiðum stafi frá auðlindinni og engu öðru, nægir að leiða hugann að því, að þessi hagnaður var sáralítill á 6. og 7. áratug síðustu aldar, þegar fiskistofnar voru miklu stærri en nú."
Ráðherrarnir, t.d. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, bera greinilega ekkert skynbragð á þessi mál og hafa ekki helztu hugtök á valdi sínu. Hrokinn og einfeldnin eru of mikil til að leita sér ráðgjafar hjá fiskihagfræðingum, sem henni væri þó í lófa lagið, áður en vaðið er áfram út í óvissu stefnumáls, sem orðið hefur til í lýðskrumi og einhvers konar refsiáráttu gagnvart atvinnurekstri, sem staðið hefur sig vel í alþjóðlegri samkeppni, en er einmitt undir hæl samkeppni mjög stórra fyrirtækja, sem að hluta njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila í landi sínu. Þessi samkeppni er ein af ástæðum þess, að engin merki um auðlindarentu hafa fundizt í íslenzkum sjávarútvegi. Það er dæmigert fyrir ríkisstjórn vinstri manna að gera sér enga grein fyrir, hversu hættulegt það er þessum grunnatvinnuvegi, að ríkisvaldið skuli nú ætla að höggva í knérunn hans. Þar eru ljóslega óvitar á ferð eða stjórnmálamenn, sem finna ekki til ábyrgðar gjörða sinna.
"Renta [hagræn renta] getur bæði verið meiri og minni en hagnaður. Renta getur t.d. verið jákvæð, þótt hagnaður sé neikvæður. Tilvera rentu er því ekki mælikvarði á getu til að greiða skatta. Því er það einungis til að flækja málið og villa fólki sýn að blanda rentu, svo [að] ekki sé minnzt á viðrinishugtakið auðlindarentu, inn í umfjöllun um skattlagningu á sjávarútveg."
Með þessu hrekur Ragnar Árnason meginrökin að baki s.k. auðlindagjöldum eða viðbótar skattheimtu af sjávarútvegi. Það er ekki hægt að mæla rentu fyrirtækjanna af aðgangi að takmörkuðum auðlindum eða auðlindum yfirleitt. Þar að auki er ekkert, sem bendir til, að nokkur renta stafi af hinni takmörkuðu auðlind sjávarútvegsins, sem aðgangur hefur verið keyptur að á markaði vegna þess, að hagnaður þessara fyrirtækja er engu meiri en annarra hérlendis að jafnaði. Það eru til rökréttar skýringar á því. Önnur er hörð samkeppni á erlendum mörkuðum, þar sem um 95 % framleiðslunnar er umsett. Hin er sveiflukennd fiskgengd á miðunum og í raun minnkandi leyfilegur afli undanfarið.
Af þessum sökum er hækkun veiðigjaldanna alger óvitaskapur. Ríkisvaldið í óvitaskap sínum sagar í sundur greinina, sem það situr á, og með fylgja sjávarútvegssveitarfélögin og þjóðarhagur allur. Þetta eru dæmigerðir sósíalistískir stjórnarhættir, sem alltaf leiða til aukinnar fátæktar almennings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)