Færsluflokkur: Evrópumál

Ísland og Evrópusambandið

Af landfræðilegum, menningarlegum og sögulegum ástæðum er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga, að samband landsins við Evrópulöndin sé hagfellt og traust. Frá stríðslokum 1945 hefur tilhneigingin í Evrópu verið aukið viðskiptalegt, menningarlegt, peningalegt og pólitískt samband, sem formgert hefur verið með Evrópusambandinu - ESB og Seðlabanka evrunnar.  

Íslendingar eru í viðskiptasamtökunum EFTA með Norðmönnum, Liechtensteinum og Svisslendingum, en mikil samstarfsþjóð Íslendinga, Bretar, ásamt fáeinum öðrum Evrópuþjóðum hafa séð hagsmunum sínum bezt borgið með því að standa utan við bæði ESB og EFTA og reiða sig á fríverzlunarsamninga í sumum tilvikum.  

  Þeim málefnasviðum fer fækkandi í ESB, þar sem aðildarríkin hafa neitunarvald.  Þetta og sú staðeynd, að löggjöf ESB er í mörgum tilvikum sniðin við aðstæður, sem í litlum mæli eða alls ekki eiga við í litlu eyjarsamfélagi, gerir að verkum, að of áhættusamt er fyrir Ísland að leita eftir aðild að ESB, og Norðmenn hafa metið stöðuna á sama veg fyrir Noreg sem auðlindaríkt land. Norðmenn sætta sig við að taka ekki þátt í ákvarðanatöku ESB. Þá vaknar auðvitað spurningin um, hvernig hagfelldast og öruggast sé fyrir Ísland að haga sambandinu við ESB. 

Í byrjun 10. áratugar 20. aldar bjó ESB til biðsal fyrir EFTA-ríki, sem hugsanlega mundu sækja um aðild síðar og mundu nota biðtímann fyrir aðlögun að regluverki ESB.  Þetta var kallað Evrópska efnahagssvæðið - EES.  Síðar breytti ESB umsóknarferlinu, og önnur en EFTA-ríkin hafa ekki gengið í EES.  Þetta fyrirkomulag var hannað til báðabirgða, og hefur augljósa galla, en hefur verið látið dankast, og líklega hefur ESB engan hug á að endurskoða það. 

Meginvalkosturinn við EES fyrir EFTA-ríkin er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB.  Það væri þarfur gjörningur, að utaníkisráðuneytið, hugsanlega í samstarfi við EFTA, léti greina kosti og galla víðtæks fríverzlunarsamnings í samanburði við EES og legði mat á hvort tveggja í EUR/ár m.v. núllstöðuna, sem er að standa utan við hvort tveggja, en í EFTA. 

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur (MA í alþjóða samskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) hefur aflað sér haldgóðrar yfirlitsþekkingar á þessum málum og skrifað mikið um þau.  Hann reit grein í Morgunblaðið 11. marz 2024 undir fyrirsögninni:

 "Verri viðskiptakjör í gegnum EES".

"Hins vegar hefur sambandið á undanförnum árum samið um víðtæka fríverzlunarsamninga við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland, þar sem kveðið er á um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir [sem eru betri viðskiptakjör en Ísland nýtur við ESB].

Fyrir vikið hafa íslenzk stjónvöld á liðnum árum ítrekað óskað eftir því við Evrópusambandið, að komið yrði á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir í gegnum EES-saminginn. Óásættanlegt væri, að ríki, sem ekki væru í eins nánum tengslum við sambandið, nytu hagstæðari tollkjara.  Til þessa hefur sú viðleitni ekki skilað tilætluðum árangri, en tollar eru einkum á unnum og þar með verðmætari afurðum." 

Þessi öfugsnúna afstaða ESB gagnvart EFTA-ríkjunum, gæti átt sér eftirfarandi skýringar:  ESB þarf að meðhöndla fiskveiðiþjóðirnar þar innan borðs eins, og það er mikið magn unninna fiskafurða, sem berast mundi Innri markaðinum á meginlandinu frá Íslandi og Noregi.  Framkvæmdastjórnin óttast sennilega afdrif fiskiðnaðar innan ESB, ef slíkt gerist, og neitar því Íslendingum um lækkun þessara tolla.  Af ótta við fordæmi gagnvart Norðmönnum er ekki sérlega líklegt, að ESB væri tilleiðanlegt til að semja um lækkun þessara tolla í fríverzlunarsamningum.  

"Meginástæða þess, að ákveðið var á sínum tíma, að Ísland skyldi gerast aðili að EES-samninginum, var sú, að við Íslendingar áttum að njóta sérstakra kjara fyrir sjávarafurðir inn á markað Evrópusambandsins umfram þá, sem ekki ættu aðild að honum.  Einkum og sér í lagi m.t.t. tolla.  Á móti áttum við að taka upp regluverk sambandsins um innri markað þess.  Var það réttlætt með sérstöku kjörunum."  

Nú hefur ESB grafið undan þessari röksemdafærslu með téðum fríverzlunarsamningum. Það setur EFTA-löndin í óhagkvæma stöðu. Framkvæmdastjórn ESB gerir tillögu um það til Sameiginlegu EES-nefndarinnar, hvað taka beri upp í landslög EFTA-landanna. Eðlilega einblínir hún í því viðfangi á langöflugasta ríkið á þeim vettvangi, Noreg.  Það, sem á vel við Noreg, á alls ekki endilega vel við Ísland.  Dæmi um það er orkulöggjöf ESB, s.k. Orkupakkar 1-4, þar sem Noegur er tengdur við hin skandinavísku löndin með lofttlínum og við Danmörku, Þýzkaland og Holland með sæstrengjum.  Reyndar voru líka miklar deilur um réttmæti innleiðingar þessarar löggjafar í Noregi, og fyrir Ísland er langsótt að tengja raforkukerfi landsins við Innri markað ESB.  Það er fjölmargt, sem kemur frá Sameiginlegu EES-nefndinni til viðkomandi ráðuneytis og síðan Alþingis, sem er meira íþyngjandi en gagnlegt fyrir okkar litla hagkerfi.  Á grundvelli reynslunnar af víðtækum fríverzlunarsamningi við Bretland væri fróðlegt, að "óháð" stofnun eða fyrirtæki mundi gera samanburð á hagkvæmni líklegrar niðurstöðu samningaviðræðna um víðtækan fríverzlunarsamning við ESB annars vegar og hins vegar á óbreyttri aðild að EES.  

"Fram kemur í svari frá utanríkisráðuneytinu í ágúst 2022 við fyrirspurn frá mér, að áætlað sé, að tollar á íslenzkar sjávarafurðir í gegnum EES-samninginn nemi árlega mrdISK 2,5-2,7.  Í svari ráðuneytisins við annarri fyrirspurn minni árið 2019 kemur hins vegar fram, að án samningsins væri aukinn kostnaður vegna útfluttra sjávarafurða áætlaður að lágmarki mrdISK 4,2 vegna eftirlits og skerts greiðsluþols."

Ávinningur EES-samningsins fyrir sjávarútveginn  að öðru óbreyttu er þannig um 1,6 mrdISK/ár og er þannig frekar rýr í roðinu, og kostnaðurinn af innleiðingu reglugerðafargans ESB fyrir Ísland vafalaust hærri, en taka verður tillit til ávinnings allra útflutningsvaranna, áls og annarra iðnaðarvara og þjónustu ásamt styrkjum, skólasamstarfi o.fl., og verður heildarsamanburðurinn þá líklega EES í vil.

Hins vegar væri fróðlegt að færa kostnaðinn 2,6 mrdISK/ár niður á tonn og bera saman við tollkostnað o.þ.h. við útflutning sjávarafurða á tonn til Bretlands samkvæmt fríverzlunarsamninginum við Breta. 

"Miðað við tölur ráðuneytisins má þannig draga þá ályktun, að ef Ísland gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið í stað EES-samningsins og þyrfti þar með að sæta auknu eftirliti með sjávarafurðum af hálfu sambandsins, en nyti á móti fulls tollfrelsis í þeim efnum, væri viðskiptalegur ávinningur af aðildinni, hvað umræddar vörur varðar, mögulega einungis á bilinu 1,5-1,7 mrdISK/ár." 

Það hafa líklega engar þreifingar farið fram af Íslands hálfu gagnvart ESB um, hvers konar skilmálar væru í boði við gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB í stað EES-samningsins, og þess vegna er að svo komnu erfitt að meta hagkvæmni fríverzlunarsamnings í samanburði við EES-samninginn.  Á þrítugsafmæli hans um þessar mundir er tímabært að breyta þessu, enda er mikið valdaójafnvægi fólgið í þessu báðabirgða fyrirkomulagi.  Inn í hagkvæmnisamanburð EES og fríverzlunarsamnings er nauðsynlegt að taka kostnað þjóðfélagsins af hinu ólýðræðislega fyrirkomulagi að senda Alþingi Íslendinga lagasetningu í pósti, þar sem engu má breyta.  Svona fyrirkomulag grefur undan lýðræðinu og sjálfstæðisvitund almennings, enda lítillækkandi. Hjörtur minnist á þetta:

"Taka þarf enn femur með í reikninginn vaxandi tilkostnað vegna íþyngjandi regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði atvinnulífið og almenning, sem innleiða þarf vegna EES-samningsins.  Óheimilt er að innleiða regluverkið minna íþyngjandi, en fullt svigrúm til þess að gullhúða það, eins og það hefur verið kallað.  Utan EES væri hægt að setja minna íþyngjandi regluverk í stað regluverks sambandsins eða alls ekkert." 

Í ljósi reynslunnar ætti að banna embættismönnum ráðuneytanna að breyta reglugerðum og tilskipunum ESB í meira íþyngjandi átt fyrir atvinnulíf og skattgreiðendur en ESB gefur tilefni til og fitja upp á samtali við ESB um það, að Ísland geti í Sameiginlegu EES-nefndinni gert tillögu um efnislegar breytingar á því, sem frá ESB kemur, í ljósi landfræðilegrar legu og fámennis. Það yrði þarft verk að sníða helztu skavankana af þessu samstarfi EFTA/ESB, en það er ekki einfalt eða auðvelt, á meðan utanríkisáðherra Noregs kemur frá stjórnmálaflokki, sem vill sjá Noreg innanborðs í ESB, en þannig er því varið bæði með Hægri og Verkamannaflokkinn.  Hver trúir því, að Samfylkingin, einn jafnaðarmannaflokka Norðurlandanna, muni ekki vilja dusta rykið af alræmdri aðildarumsókn Össurar Skarphéðinssonar frá 2009 ?  

 

 

 

  

 


Rússneski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Grigory Yudin

Nú, seint og um síðir, virðist vera að renna upp ljós fyrir Vestur-Evrópuleiðtogunum, að Evrópu stafar tilvistarhætta af Rússlandi og það verður undir hælinn lagt, hversu gagnlegur hernaðarstuðningur mun berast frá Bandaríkjunum, ef/þegar í harðbakkann slær. Nú bítur Evrópa úr nálinni með að hafa sofið á verðinum frá lokum Kalda stríðsins 1989 og hunzað heri sína.

Frakkar hafa frá forsetatíð Charles de Gaulle, hershöfðingja, þann steininn klappað, að Evrópuþjóðirnar ættu að efla herstyrk sinn, jafnvel undir sameiginlegri herstjórn, en vegna NATO hefur þetta sjónarmið ekki hlotið hljómgrunn fyrr en nú.  Samstaða um að senda evrópskt herlið inn í Úkraínu til að berjast þar við hlið Úkraínumanna hefur þó ekki náðst.  Gjammið í Kreml sem viðbögð við því er þó ekki annað en gelt í grimmum og tannlausum hundi.  Hernaðaryfirburðir NATO gagnvart Rússlandi eru 4-5 faldir á öllum sviðum hernaðar, enda er landsframleiðsla Rússlands ekki meiri en Spánar. 

Rússneski heimsspekingurinn og félagsfræðingurinn Gegory Yudin spáði því, að "stríð Rússlands gegn Úkraínu yrði hörmung (e. disaster) fyrir Rússland á allan mögulegan hátt".  Hann var einn örfárra rússneskra sérfræðinga þeirrar skoðunar í febrúar 2022, að stríð á milli Rússlands og Úkraínu væri óhjákvæmilegt. Í grein, sem birtist 2 dögum fyrir innrásina, spáði Yudin því, að meiriháttar stríð væri yfirvofandi, að Rússar mundu verða ginnkeyptir fyrir ásökunum Kremlar á hendur Vesturveldunum og að viðskiptaþvinganir hefðu engin áhrif á Pútín - allt gekk þetta eftir. 

Hann sagði, að Pútín þyrfti "viðvarandi stríð" til að halda almenningi í skefjum.  Á móti kvað hann breiðfylkingu stríðsandstæðinga mundu myndast í Rússlandi.  Nú er spurning, hvað gerist í kjölfar aftöku aðalstjórnarandstæðingsins Navalny og kosningaskrípaleiks til forsetaembættis. 

 

"Stríðið er nú endalaust.  Með því eru engin náanleg markmið, sem leitt geta til lykta þess.  Það heldur einfaldlega áfram, af því að [í hugarheimi Pútíns] eru þeir óvinir, og þeir ætla að drepa okkur, og við viljum drepa þá.  Fyrir Pútín er þetta tilvistarbarátta við óvin til að eyðileggja hann."

Yudin er prófessor í stjórnmálalegri heimsspeki í Moskvuháskóla fyrir félags- og hagfræði.  Í mótmælum gegn stríðinu var hann barinn og lagður inn á sjúkrahús. 

Hann var líka einn hinna fyrstu til að greina þýðingu uppreisnarinnar gegn Pútín, sem leidd var af foringja Wagner-málaliðanna, Yevgeny Prigozhin. 

Hann benti á, að Prigozhin hafði sakað hernaðarforystu Rússlands um lélega skipulagningu, sem leitt hefði til svika við og fórna á rússneskum hermönnum, og á sama tíma dró hann í efa rökin fyrir stríðinu í Úkaínu. Hann hélt því fram, að allt stríðið væri afleiðing innantóms þjóðernismonts Pútíns, af því að Úkraínuforseti, Volodymyr Zelensky, hefði verið opinn fyrir samningaviðræðum í upphafi. 

Við eitt tækifæri hefði Prigozhin kallað rússnesku forystuna "geðsjúka drullusokka og hálfvita" fyrir að ákveða að "fleygja aftur nokkum þúsundum rússneskra drengja inn í kjöthakkavél til að drepast eins og hundar". 

Vönduð greining Yudins á tilhneigingum og stemningu í rússnesku samfélagi leiðir til einnar ályktunar: æ fleiri Rússum finnst, að landið sé komið í blindgötu. Ennfremur kemst hann að þeirri niðustöðu, að það sé algerlega útilokað fyrir Rússland að vinna. 

Í Úkraínu er engin sýnileg leið til rússnesks sigurs, þótt handbendið Donald Trump nái markmiði sínu, því að Evrópa mun sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum stuðningi, þótt takmarkaður sé.  Pútín spinnur upp sviðsmyndir fyrir óhjákvæmilegan rússneskan sigur: Fyrst átti að nást auðveldur sigur með því að ýta Kænugarðsstjórninni frá völdum, síðan með því að leggja undir sig Donbas, þá með eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða í Úkraínu og valda alvarlegum orkuskorti í Evrópu síðast liðinn vetur, síðan með því að bíða eftir þreytu vestrænna ríkja við stuðning við Úkraínu með vopnasendingum.  Margir Rússar voru fúsir til að leggja trúnað á veruleikafirrtan spuna Pútíns, en fáir geta nú látizt trúa því, að góður endir sé í sjónmáli.  Fremur liggur ósigur í loftinu, og þótt um bannorð sé að ræða í opinberri umræðu, eins og var í Þriðja ríkinu á sinni tíð, skýtur því æ oftar upp í einkasamtölum. Við opinber tækifæri, á meðan á Prigozhin-uppeisninni stóð, ýjaði Pútín þó að möguleikanum á ósigri með því að hefja máls á "rýtingsstungu í bakið". 

Það er eftirtektarvert, að Prigozhin mætti í uppreisn sinni sáralítilli mótspyrnu frá yfirstéttinni, sem þagði að mestu í heilan sólarhring.  Almenningur fagnaði og embættismenn aðhöfðust ekkert, þegar her Prigozhins hélt til Moskvu án teljandi viðnáms rússneska hersins.  Þetta segir þá sögu, að allir séu orðnir hundleiðir á sjúklegum stjórnarháttum Pútíns.      


Úkraína og önnur lönd Evrópu

Flest Evrópuríkin hafa vanrækt varnir sínar síðan Járntjaldið féll og kommúnistastjórnir Austur-Evrópu þar með.  Þau hafa teyst á varnarmátt Bandaríkjanna og skjöldinn, sem NATO-aðildin veitir þeim.  Tvennt hefur valdið algjöru endurmati þeirra á öryggi sínu.  Gáleysisleg og algerlega ábyrgðarlaus ummæli handbendis rússneskra ólígarka, Donalds Tumps. (Þeir hafa forðað honum frá gjaldþroti einu sinni.  Hann á hvergi heima, nema á bak við rimlana.  Hvenær verður hann dæmdur fyrir landráð ?) DT lét hafa eftir sér þau ótrúlegu ummæli, sem gert hefðu út af við framavonir allra, nema hans, að yrði hann forseti BNA aftur, og Rússar réðust á NATO ríki, sem ekki hafa náð markmiði NATO um árleg útgjöld til hermála, mundi Bandaríkjaher ekki verja þau, heldur hvetja Rússa til að hertaka þau.  Þessi maður er greinilega ekki með öllum mjalla.

Hitt atriðið, sem vakið hefur Evrópu upp af Þyrnirósarsvefni hins eilífa friðar, var innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2024, sem augljóslega er tilraun gerspilltra Kremlverja til að hneppa Úkraínu í nýlenduánauð og er aðeins fyrsta skref þeirra til að hneppa öll Varsjárbandalagsríkin í nýlenduánauð.  Þessi ríki fara ekki í grafgötur um þetta óþverrabragð Kremlarfantsins og hervæðast nú sem mest þau mega.

  Eftir mikið japl og jaml og fuður eru Þjóðverjar nú loksins að taka forystu um varnir Evrópu eftir að vera lausir úr viðjum Rússa um orkuafhendingu.  Forysta Þýzkalands viðist hafa sannfærzt um hættuna, sem landinu og hagsmunum þess stafar af útþenslustefnu einræðisríkis í austri og hefur sett hertólaverksmiðjur Þýzkalands á full afköst og verið er að auka framleiðslugetuna, m.a. með verksmiðju Rheinmetall í Úkraínu. 

Á meðan mannfall Rússa í Úkraínu fer yfir 400 k, hefur óvinur þeirra, sem þeir reyna að hræða frá stuðningi við Úkraínu - Evrópa - aftur á móti brýnt sverð sitt.  Öll 31 NATO-ríkin og Svíþjóð hafa hafið æfinguna "Staðfastur varnarher" til að framkalla það, sem varnarmálaráðherra Breta, Grant Shapps, kallar "reassurance against the Putin menace". 

U.þ.b. 90 k hermenn frá öllum NATO-löndunum (Landhelggisgæzlan frá Íslandi ?) taka þátt í þessari miklu heræfingu.  Upphaflega verður einblínt á eflingu yfirráða NATO á öllu Atlantshafinu og í Norður-Íshafinu.  Í síðari þættinum verður æft að senda herlið um alla Evrópu til varnar, frá Íshafinu og að austurvæng NATO. Þetta er umfangsmesta heræfing NATO í 35 ár.  Þannig væri tíminn ranglega valinn nú hjá rússneskum varðmanni á finnsku landamæunum að hleypa "óvart" af skoti. 

Þriðjungur rússneskra hermanna á vígstöðvunum fellur, og er það sama hlutfall og í Rauða hernum í Heimsstyrjöldinni síðari.  Aðaldauðaorsökin er blóðmissir vegna útlimasárs.  Aðalupphafsmeðferð  særðra rússneskra hermanna á sjúkrahúsi er aflimun.  Að komast á sjúkahús er martröð.  Flestir særðra rússneskra hermanna eru fluttir á bílum að vígvallarsjúkrahúsum við landamæri Rússlands, og tekur ferðin að jafnaði einn sólarhring.  Eftir fyrstu aðgerð þar bíða þessir særðu hermenn eftir flugferð langt inn í Rússland, sem yfirleitt tefst.

Hreinlæti og sótthreinsun er ekki viðhaft í rússneska hernum, og heldur ekki í herteknum þorpum og borgum, t.d. Mariupol.  Faraldrar geta þess vegna hafizt þarna senn. 

Rússland hefur misst 6442 skriðdreka frá 24.02.2022 til 31.01.2024. Þetta eru fleiri skriðdrekar en tóku þátt í byrjun innrásarinnar.  Rússar nota nú 50 ára gamla skriðdreka, uppfærða frá 7. áratugi 20. aldarinnar.  Þá hafa rússar á tímabilinu misst 12090 brynvarin bardagatæki, 12691 ökutæki og eldsneytisflutningabíla, 9620 fallbyssur, 671 loftvarnarkerfi, 984 fjölflugskeytapalla, 332 flugvélar, 325 þyrlur, 7404 dróna and 25 herskip og -báta. 

Hermenn, sem fylla skörðin, eru illa þjálfaðir.

Til samanburðar misstu Ráðstjórnarríkin 15 k menn í innrásinni í Afganistan, og íbúar þeirra voru næstum tvöfalt fleiri en Rússlands nú.  

Á sjó er staða Rússa enn verri en á landi og í lofti.  Þriðjungur Svartahafsflota þeirra hefur verið eyðilagður með úkraínskum sjávardrónum, og afgangurinn hefur flúið Krímskagann og halda sig til hlés í rússneskum höfnum, og rússnesk eldflaugaskip hafa flúið út úr Svartahafi.  Svartahafið er nú á valdi Úkraínu, og kornútflutningur landsins fer nú óáreittur af hryðjuverkaríkinu um Svartahafið. 

Mistakasmiðurinn Pútín er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður og hertól.  Honum hefu tekizt að mynda almenna samstöðu gegn sér í heiminum og einkum í Evrópu, þar sem menn sjá söguna endurtaka sig að breyttu breytanda.  Þótt Frakkar hafi látið tiltölulega lítinn hernaðarstuðning í té við Úkraínumenn fram að þessu, hefur nú franski forsetinn opinberlega bryddað upp á því, að Evrópurríkin sendi hermenn sína til að berjast við hlið Úkraínumanna.  Þetta óttast Kremlarmafían mjög, enda kom strax hlægileg tilkynning úr Kremlarkjaftinum um, að þar með væri NATO komið í stríð við Rússland.  Þetta er innantóm hótun.  Rússland getur ekki unnið stríð við NATO.  Því lyki löngu áður en allsherjar herútboð gæti farið fram í Rússlandi. 

Ein milljón manns á herskyldualdri hefur flúið Rússland síðan "sérstaka hernaðaraðgerðin" hófst.  Árin 2022-2023 laut rússneski herinn á tímabili í lægra haldi fyrir úkraínska hernum með þeim afleiðingum, að Úkraínumenn náðu að frelsa 40 % af herteknu landi. 

 

Þýzki kanzlarinn, Olaf Scholz, hafði vonandi rétt fyrir sér, þegar hann kvað nýtt tímabil runnið upp, þar sem nýtt Þýzkaland kæmi fram á sjónarsviðið, sem væri reiðubúið að axla nýjar skyldur.  Þar með hefur garminum Pútín tekizt það, sem bandamönnum Þýzkalands tókst ekki: að fá Þýzkaland til að axla hernaðarlegt forystuhlutverk í Evrópu.  Í Heimsstyrjöldinni seinni átti Wehrmacht í höggi við bandarískan vopnaiðnað á  austurvígstöðvunum, sem sá Rauða hernum fyrir stórum hluta af skriðdrekum hans, flutningabílum og fallbyssum.  Það, sem heldur Rússlandi á floti núna, eru Kína og Íran.   

  

 

 

 

 


Pyrrosarsigur Rússa - að míga í skóinn sinn

Barry Gander, Kanadamaður, sem býr í Connecticut í Bandaríkjunum, ritar um samtímaatburði af þekkingu í Mastodon@Barry.  Um miðjan febrúar 2024 skrifaði hann um Úkraínustríð 21. aldarinnar, og verður hér stuðzt við grein, sem heitir: "Today it is 400.000".

Fjöldi fallinna rússneskra hermanna í Úkraínu hefur nú farið yfir 400 k síðan hin ósvífna og skammarlega innrás hófst 24.02.2022.  Þetta þýðir um 550 manns á dag og undanfarnar vikur hefur talan verið 950 á dag, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega mikla áherzlu gerspillt stjórnvöld í Kreml leggja á það að knésetja lýðræðislega kjörin stjórnvöld Úkraínu í Kænugarði. Mannfallið í bardögum um borgina Avdevka, nærri Donetsk borg, hefur verið gríðarlegt, og hún féll um miðjan febrúar 2024 í hendur Rússa, rústir einar. Brezk leyniþjónusta spáir 500 k Rússum föllnum í Úkraínu við árslok 2024.  Enginn veit, hvar víglínan verður þá, en það er ljóst, að harðstjórinn í Kreml ætlar að gera Úkraínu að nýlendu Rússlands.  Það mega Vesturlönd ekki láta kúgarann í Kreml komast upp með á 21. öld, enda væri þá öryggi og stöðugleika í Evrópu ógnað alvarlega. 

Á sama tíma og Rússar hafa misst 400 k, hafa 70 k úkraínskir hermenn fallið og aðrir 120 k særzt.  Þannig hefur 1 úkraínskur hermaður fallið á móti 5,7 Rússum, sem er hátt hlutfall og vitnar um ólíka herstjórnarlist. Staðan versnar enn fyrir Rússa, þegar málaliðar á borð við Wagner-herinn eru teknir með í reikninginn.  Tala fallinna þar er um 100 k.  Hlutfallið hækkar þá í 7,1. 

Í byrjun janúar 2024 voru meira en 320 k rússneskir hermenn í Úkraínu.  Úkraína er með 800 k framlínuhermenn í þjónustu, og 500 k verða kvaddir í herinn fyrir sumarið 2024.  Það gefur 1,3 M undir vopnum, þjálfaðir og einbeittir í að verja fósturjörðina gegn rugluðum villimönnum að austan. 

Rússar berjast með undirmönnunarhlutfall 1:2,5, en innrásarher er jafnan talinn þurfa að vera með yfirmönnunarhlutfall 3:1.  Rússar hafa hins vegar haft meira af skotfærum og ráðið í lofti, ef drónarnir eru undanskildir.  Með tilkomu F16 orrustuþotna í herafla Úkraínumanna munu þeir ná yfirhöndinni í lofti.  Þegar þeir jafnframt fá Taurus stýriflaugarnar þýzku, munu verða kaflaskil í þessum átökum austurs og vesturs.

Enginn viti borinn stjórnmálamaður með sæmilega hernaðarráðgjafa hefði ráðizt með jafnveikum herafla inn í Úkraínu og Pútín gerði 24.02.2022.  Hann er dómgreindarlaus fantur, sem lifir í óraunveruleikaheimi fortíðarþráar.  Haft er eftir Lafrov, utanríkisráðherra Kemlarklíkunnar, þegar hringt var í hann um innrásarnóttina og hann spurður, hver hefði eiginlega ráðlagt forsetanum þetta.  Lafrov sagði þá efnislega, að Pútín hlustaði aðeins á 3 ráðgjafa, og það væru Ívan grimmi, Pétur mikli og Katrín mikla. 

Leyniskýrsla frá herforingjaráði og pólitískri elítu Rússlands til Pútíns, "Conclusions of the war with NATO in Ukraine", klykkti út með, að 5 M rússneska hermenn þyrfi til að vinna slíkt stríð.  (Voru ekki 6 M í Rauða hernum, sem rak Wehrmacht til Berlínar ?) Pútín sigaði 250 k hermönnum inn í Úkraínu 24.02.2024, og þá voru 300 k í úkraínska hernum, og þeir voru betur þjálfaðir. 

Síðar þennan dag komu nokkrar tylftir olígarka saman í Kreml.  Þeir voru meðvitaðir um, að Vesturveldin mundu hrinda af stað refsiaðgerðum gegn Rússum.  "Allir voru gjörsamlega ráðþrota", er haft eftir einum fundarmanna, en þeir sáu illa fenginn auð sinn (að mestu þýfi frá rússneska ríkinu) í algjöru uppnámi. 

Það lítur út fyrir, að Pútín hafi ímyndað sér ríkisstjórn Zelenskys vera veika og óvinsæla, og almenning í Úkraínu upptekinn við vandamál fjárhagslegs eðlis.  Hann óttaðist, að rússnesk áhrif í Úkraínu færu dvínandi, einkum vegna djúptækara samstarfs Kænugarðs við Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra.  Hann leit á Evrópu sem veika og sundraða.  Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem hann skemmti sér við að hræða með hundum sínum, af því að hún óttaðist hunda, var að láta af völdum, Bretland væri í óreiðu eftir úrsögnina úr ESB og COVID ylli uppnámi um alla Evrópu.  Hann óttaðist ekki NATO: NATO væri veikt og sundurþykkt. Kjáninn trúði eigin áróðri.  

Allt voru þetta ranghugmyndir vitstola manns, og Rússar gjalda þær dýru verði með ógnarlegu mannfalli og hergagnatapi upp á hundruði mrdUSD.  Mannfallið og hergagnatapið í bardögunum um Avdevka, þar sem Rússar unnu nýlega Pyrrosarsigur, sýnir, að Moskva hefur ekki "lært lexíuna um, hvernig á að standa almennilega að vélahernaði", samkvæmt Riley Bailey, Rússlandssérfræðingi hjá "The Institute for the Study og War".   

Beztu deildir rússneska hersins hafa verið eyðilagðar og allt, sem eftir er af honum, eru illa þjálfaðir herkvaðningarmenn, gamlir skriðdrekar og brynvarðir bílar.  Á meðan fær Úkraínuher nútíma búnað og beztu þjálfun og herstjórnarlist.

Undirbúningsleysi jafngildir alvarlegum afleiðingum.  Í desember 2022 greindu rússneskir sálfræðingar u.þ.b. 100 k hermenn, sem þjáðust af áfallastreituröskun. Þessi fjöldi er ábyggilega meiri, af því að viðverutími hermannanna á vígvöllunum er mjög langur.  Um þetta stóð í brezkri skýrslu: 

"With a lack of care for its soldiers´ mental health and fitness to fight, Russia´s combat fighting effectiveness continues to operate at sub-optimal levels".  

 


Vesturlöndum stendur mikil ógn af glóruleysi Rússlandsstjórnar

Pútín, forseti Sambandslýðveldisins Rússlands, hefur gefið út tilskipun um, að rússneska ríkinu beri að vinna að því ná undir sig öllum löndum, sem voru innan vébanda Ráðstjórnarríkjanna, og öllum öðrum landssvæðum, sem Rússakeisari réði áður.  Til þessara svæða telst m.a. Alaska, sem Bandaríkjamenn keyptu af zarnum 1867.  Þessari tilskipun verður aðeins lýst sem geðveiki einæðisherra, en hún hlýtur að leiða til þess, að Vesturlönd, einkum Evrópuríkin, sjái skriftina á veggnum og endurhervæðist. Samþykkt Ráðherraráðs Evrópusambandsins (ESB) 01.02.2024 á mrdEUR 50 fjárhagsstuðningi við Úkraínu yfir 4 ár ber að fagna, en handbendi Pútíns, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, skipti um afstöðu til málsins, svo að samþykktin verð einróma.  

 Ef Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, er ógnin geigvænleg, því að þessi fasisti mun svíkja Úkraínu og Eystrasaltslöndin og síðan öll önnur ríki Varsjárbandalagsins sáluga í hendur sálufélaga síns, Pútíns.  Hvernig hann bregzt við kröfunni um Alaska, er efiðara að ímynda sér.  

Nú standa Rússar blóðugir upp að öxlum i Úkraínu.  Vesturlönd verða að átta sig á því, að Úkraínumenn úthella nú blóði sínu ekki einvörðungu til varnar frelsi og sjálfstæði eigin lands, heldur allrar Evrópu. Þessi rússneska útþenslustefna og hatur á Vesturlöndum er ekki bundin við einn mann í Kreml, heldur hefur þessi vitfirring verið við lýði frá stofnun rússneska keisaradæmisins fyrir um 300 árum. Fleiri evrópsk keisaraveldi voru illa haldin af þessari áráttu á 19. og 20. öld, en 2 heimsstyrjaldir hafa læknað viðkomandi þjóðir af árásarhneigð og útþenslustefnu.

Rússneska þjóðin er fátæk og fjölmargir lifa undir fátæktarmörkum, enda viðgengst ægileg spilling og misrétti í Rússlandi.  Rússar hafa reynzt ófærir um að innleiða lýðræði hjá sér og sjúklegt hugarfar og afstaða til annarra þjóða hefur ekki breytzt þar.  Þar verður engin breyting til batnaðar, nema ríkið sundrist, sem gæti orðið við niðurlægjandi tap rússneska hersins í átökunum við úkraínska herinn.  Með óbreyttum stuðningi Vesturlanda verður það þó ekki, og afstaða Bandaríkjamanna ræður þar mestu um.  Það er ótrúlegt, að bandaríska þingið skuli ekki líta á fjárhagsstuðning á formi hergagna og annars við Úkraínu sem mjög hagkvæma fjárfestingu í framtíðinni. Ætlar skammsýnin og blindnin að verða Vesturlöndum að falli ?

Börkur Gunnarsson, kvikmyndaleikstjóri, er ýmsum hnútum kunnugur í Úkraínu og hefur dvalið þar.  Hann hefur frætt lesendur Morgunblaðsins um kynni sín af Úkraínumönnum.  Grein hans 22. janúar 2024 bar yfirskriftina:

       "Innrás Pútíns hefur allt önnur menningarleg áhrif en hann ætlaði":

"En menningarbreytingarnar í Úkraínu eru það, sem ég hef mestan áhuga á.  Sem áhugamaður um sagnfræði las ég mér mikið til um sögu þeirra ríkja, sem mynduðu Sovétríkin.  Þá var hefð [á] meðal sovézkra sagnfræðinga að gera lítið úr því, að það voru norrænir menn, sem áttu mikilvægan þátt í risi Kyiv, en margir rússneskir sagnfræðingar efuðust um heimildir, sem studdu það.  Það hentaði ekki stefnu Kremlar, að víkingar frá Norðurlöndunum ættu eitthvað í því stórveldi, sem Kyiv ríkið var frá 10. öld og fram til ársins 1240, að Mongólar sigruðu her ríkisins, myrtu flesta íbúana og brenndu höfuðborgina til grunna.  

En þegar ég tók viðtal við forstöðumann úkraínska þjóðminjasafnsins í höfuðborginni, varð mér ljóst, að í dag gera Úkraínumenn mikið úr þessum uppruna.  Kenningin er ekki aðeins rökum reist, heldur hentar hún þeim, sem nú stjórna."

Það voru aðallega sænskir víkingar í viðskiptaerindum  eftir fljótum Úkraínu á leið að Svartahafi og niður að Miklagarði, sem sáu sér hag í bandalagi við harðduglega heimamenn, sem þarna áttu í hlut, og má segja, að lengi hafi logað í gömlum glæðum ýmissa tengsla norrænna manna við Úkraínumenn.  Það hefur komið í ljós í blóðugri baráttu Úkraínumanna við arfaka Mongólaveldisins, Rússana, einkum efir innrásina 24. febrúar 2024. 

Blinda vestrænna leiðtoga lýðræðisríkja á söguna og framtíðina er tilefni til áfallastreituröskunar.  Þannig hefur það alltaf verið með þeirri afleiðingu, að hurð hefur skollið nærri hælum í 2 heimsstyrjöldum í viðureigninni við útþenslusinnuð einræðisríki. Bandaríkin komu þá til hjálpar, enda var ráðizt á þau í seinna skiptið og stríði lýst á hendur þeim, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Fasistinn, sem nú um stundir stefnir hraðast á Hvíta húsið, en kann að verða settur á bak við lás og slá vegna afbrota sinna, er aðdáandi einræðisherra heimsins á borð við Pútín og hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr NATO.  Hvers konar hrikalegt döngunar- og úrræðaleysi er það á meðal ríkisstjórna fjölmennustu þjóða Evrópu að hafa ekki nú þegar stóreflt hergagnaframleiðslu sína til að geta staðið myndarlega við bakið á Úkraínumönnum og birgt upp eigin herafla og gert hann bardagahæfan á ný ?  Á meðal Evrópuþjóðanna eru góðar undantekningar, og má þar telja Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Finna. 

Þann 23. janúar 2024 birtist önnur grein í Morgunblaðinu eftir sama höfund, Börk Gunnarsson.  Fyrirsögn hennar var þessi:

"Ekki viss um, að hann finni ástina sína í Úkraínu - Karlarnir berjast og konurnar fara".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Annar piltur, sem ég hitti, er ólmur að komast aftur á vígstöðvarnar og talar um, að það sé hneyksli, hvað Úkraína fái lítinn fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, ungir úkraínskir menn séu að deyja fyrir Vesturlandabúa, á meðan þeir sitji bara uppi í sófa og hámi í sig kartöfluflögur. Maður fær samvizkubit yfir ræðum hans.  Því [að] það er mikið til í þeim.  Við eigum meira að segja fólk á Vesturlöndum, sem gerir lítið úr fórnum úkraínsku þjóðarinnar."

Hið síðast nefnda er hrollvekjandi staðreynd, sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þessi lýður getur verið af tvennum toga: annars vegar Rússadindlar, sem hafa verið heilaþvegnir af áróðri Kremlar.  Þetta eru oft undanvillingar, sem af einhverjum sjúklegum ástæðum hafa fyllzt hatri á lifnaðarháttum Vesturlanda og fyrirlitningu á lýðræðisfyrirkomulaginu.  Sálfræðilega eru þetta einstaklingar svipaðrar gerðar og aðhylltust nazisma á fyrri tíð.  Hins vegar er um að ræða naflaskoðara með asklok fyrir himin og hafa þar af leiðandi engan skilning á því, hvers konar átök eiga sér stað í heiminum núna né hvers vegna Úkraínumenn leggja nú allt í sölurnar til að halda fullveldi lands síns og sjálfstæði.  Naflaskoðararnir hafa engar forsendur til að átta sig á hrikalegum afleiðingum þess fyrir eina þjóð að lenda undir járnhæl Rússa.  Í tilviki Úkraínumanna mundi það jafngilda tortímingu þjóðarinnar.  Rússneski björninn er viðundur í Evrópu 21. aldarinnar.  

Að lokum skrifaði Börkur:

"Ég hef sjaldan upplifað jafnlitla jólastemningu yfir hátíðarnar, en annað hefði verið undarlegt.  Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins leitt til dauða tugþúsunda ungra úkraínskra manna, lagt heimili hundruða þúsunda í rúst, heldur einnig rústað heilbrigði og sálarheill tugmilljóna manna þjóðar, fjölskyldum þeirra og börnum, sem munu vaxa úr gasi algjörlega trámatíseruð.  En á meðan getur íslenzkur almenningur borðað kartöfluflögur í rólegheitum í sófanum sínum og jafnvel verið með yfirlætislegar samsæriskenningar og ræktað í sér samúð með innrásarhernum, en ekki fórnarlömbunum."  

Hvernig halda menn, að fólki verði innanbrjósts, sem gengur til hvílu að kveldi vitandi, að húsið þeirra gæti orðið skotmark fjandmannanna um nóttina ?  Hernaður Rússa er eindæma lágkúrulegur.  Að gera saklausar fjölskyldur að skotmarki ónákvæmra flauga og dróna sinna í stað hernaðarmannvirkja er fyrirlitlega heigulslegt atferli, en Rússar eru til alls vísir.  Þeir eru á afar lágu plani bæði siðferðilega og tæknilega.  Fátæktin, andleg og veraldleg, er yfirþyrmandi.  

 

 


Forsjálni Orkustofnunar

Það er átakanlegt að horfa upp á ríkisapparatið Orkustofnun í höndum Höllu Hrundar Logadóttur setja saman áætlun um neyðarviðbrögð með Almannavörnum, HS Orku, HS Veitum og ráðgjafarverkfræðistofu nú í miðjum jarðhræringum, sem leiddu til rýmingar Grindavíkur.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki hafizt handa um þetta lífsnauðsynlega verkefni strax og jarðvísindamenn kváðu upp úr með, að eldsumbrotahrina væri hafin á Reykjanesi, og myndi hún standa yfir um aldaraðir, ef dám væri dregið af sögunni.  Þetta er ömurlegt dæmi um ríkjandi sofandahátt hins opinbera.  Það sefur yfirleitt á verðinum, og þar er lítið frumkvæði að finna. 

Kristján Jónsson birti Baksviðsviðtal við Höllu Hrund, Orkumálastjóra, í Morgunblaðinu 21. nóvember 2023:

""Óhjákvæmilega myndi slík niðurstaða [Svartsengisvirkjun óvirk] setja meiri þrýsting á raforkukerfið í heild sinni.  Núna liggur frumvarp fyrir Alþingi, sem snýr að raforkuöryggi almennings og er í meðferð Atvinnuveganefndar.

Stuðla á að því, að almenningur lendi ekki undir í samkeppni um raforku, en um er að ræða breytingartillögu, þar sem frumvarpið óbreytt tryggir almenningi ekki slíkan forgang.  Hættan er sú, að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku, og þá er ég ekki að tala um vegna náttúruhamfara, heldur bara við aðstæður, sem við köllum venjulegar.  Samkeppni um raforku er mjög mikil, enda vilja margir kaupa raforku á Íslandi. Ef virkjunin í Svartsengi verður óstarfhæf í ofanálag, þá er enn mikilvægara, að breytingarnar á frumvarpinu nái fram að ganga til að styrkja stöðu almennings á öllu landinu varðandi aðgengi að raforku.  Við leggjum því áherzlu á, að breytingarnar nái í gegn og að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.""

 Frumvarp orkuráðherra í sinni núverandi mynd er runnið undan rifjum Orkustofnunar, enda er það vanhugsað og reist á vanþekkingu. Skömmtun rafmagns allt frá árinu 1969 hefur verið framkvæmd þannig hérlendis, að fyrst hefur s.k. ótryggð raforka, áður afgangsorka, verið tekin af fyrirtækjum með slíka samninga við orkubirgjana. Síðan hefur skömmtun forgangsorku verið látin bitna hlutfallslega jafnt á öllum, og um það eru ákvæði í langtíma raforkusamningum. Þessu vill Orkumálastjóri umturna og hefur talið orkuráðherrann á það, en það er ekki hægt með lagasetningu, því að það er bundið í samningum, þ.á.m. í langtímasamningum við stóriðjufyrirtækin.  Hlýtur hvert barn að sjá, að slík lagasetning felur í sér stórfellt brot á samningum ríkisins við m.a. erlend stórfyrirtæki, sem getur skapað ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu og fyrirgert trausti á milli samningsaðila. Ætlar orkuráðherrann að láta draga sig á asnaeyrunum út í þetta Höllufen ?

Hin hlið þessa  máls snýr að þeim uppboðsmarkaði raforku, sem dótturfélag Landsnets undirbýr nú að innleiða á Íslandi samkvæmt Orkupakka #3 frá Evrópusambandinu.  Að undanskilja einn hóp viðskiptavina með lagaboði frá þessum markaði gengur ekki lagalega og er í andstöðu við Orkupakka #3, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar innan EES. Það sætir furðu, að Orkumálastjóri og Landsreglari ACER - Orkustofnunar ESB, sem á Íslandi er sama persónan, láti sér detta í hug, að þessi hugmynd gangi upp.  Miklu nær væri fyrir Landsreglarann (National Regulator) að taka það upp á vettvangi ACER, þar sem hún hefur seturétt án atkvæðisréttar með öðrum Landsreglurum EES, að vegna smæðar og fárra birgja á íslenzka orkumarkaðinum séu fleiri gallar en kostir við að innleiða uppboðsmarkað fyrir raforku á Íslandi og þess vegna leggi hún til, að á meðan Ísland er ótengt raforkukerfi EES þá þrýsti ESB ekki á um að koma þessum markaði á þar. 

Þetta væri ólíkt affarasælli stefnumörkun hérlendis en sú vegferð, sem Orkumálastjóri og orkuráðherra eru á núna með bútasaumi úr Orkustofnun til Alþingis. 

""Æðar raforkukerfisins eru ekki nógu sverar til að geta pumpað rafmagni af fullum krafti til að hita öll hús á Reykjanesi.""

Þetta er afleitt orðalag frá tæknilegu sjónarmiði, því að leiðarinn knýr ekki orkuflutninginn; hann er bara farvegur raforkunnar.  (Ef höfundur man líffræðina rétt, hreyfast hins vegar veggir slagæðanna til að auðvelda blóðstreymið.) Það er auðvitað í virkjununum, sem rafaflið verður til, og þær eru um þessar mundir svo mikið lestaðar, að ekki yrði hægt að bæta því álagi við, sem nemur rafhitunarþörf 10 þús. íbúða, jafnvel þótt Svartsengisvirkjunar nyti að einhverju leyti við.  Hvers vegna nefnir Orkumálastjóri þetta ekki ?

""Því sverari sem æðarnar eru [og hærri spenna á leiðurunum - innsk. BJo], [þeim mun] betur geta þær sinnt þörfum á ólíkum svæðum.  Dreifikerfið ber ekki, að allir íbúar færi sig úr hitaveitu yfir í að fullhita híbýli með rafhitun.  Dreifikerfið er ekki með nógu sverar æðar til að anna slíku [hústöflurnar eru ekki gerðar fyrir slíka álagsaukningu - innsk. BJo], enda kerfið ekki hannað til að fara yfir í rafhitun.  [Það er þjóðhagslegur sparnaður af hitaveitum - innsk. BJo.]  Þess vegna höfum við unnið markvisst með fyrirtækjunum á svæðinu, HS Orku, HS Veitum og Verkís og einnig Almannavörnum að tillögum að neyðarviðbrögðum.  [Hér er um að ræða skjal, sem ætti fyrir löngu að vera tilbúið og farið að vinna eftir.  Í stað þess að viðurkenna framkvæmdaleysi Orkustofnunar reynir Orkumálastjóri að skreyta sig með annarra fjöðrum - innsk. BJo.]  

Þau viðbrögð fela í sér aðgengi að hitagjöfum, eins og litlum rafmagnsblásurum, sem dreifikerfið þolir án þess að slá út, og geta þá haldið húsum fyrir ofan frostmark til að koma í veg fyrir skemmdir.  Í tillögunum er hvatt til þess, að aðgengi að búnaði sé tryggt bæði fyrir rafhitun og einnig fyrir s.k. neyðarhitaveitu.  Þar er átt við varmaskipta annars vegar, sem eru eins konar millistykki, sem tekur einhverjar vikur að smíða, og hins vegar, að hitagjafar, eins og olíukatlar, séu fyrir hendi.  Hluti þess búnaðar er til í landinu, eins og hjá Landsvirkjun og RARIK, en annað væri hægt að nálgast í gegnum leigu í neyð.  Við leggjum áherzlu á að tryggja aðgengi að búnaði strax, en um leið þarf að horfa á frekari nýtingu jarðhita á fleiri stöðum á Reykjanesi." 

Orðasúpa af þessu tagi er svo almenns eðlis og ómagnbundin, að varla getur talizt frambærileg ráðgjöf í neyð.  Mega íbúarnir ekki setja upp hitöld í íbúðum sínum, sem raftafla íbúðarinnar þolir ?  Allt þetta tal um getuleysi dreifikerfisins hjálpar íbúunum ekki neitt. 

Hvers konar varmaskipta á Orkumálastjóri við ?  Hver er varmagjafinn, og hver er varmaþeginn, og hvaða stærð er á þessum gripum ? 

Hvaða olíukatla í eigu Landsvirkjunar á Orkumálastjóri við. Landsvirkjun hefur svo lítinn áhuga á varaafli nú orðið, að hún lét rífa niður 2x35 MW eldsneytisknúna neyðarrafstöð í Straumsvík um 2015, og engum gagnast nú. Líklegt er, að grípa þurfi til olíukatla RARIK og OV, þar sem þeir eru staðsettir, ef Svartsengisvirkjun verður óvirk, svo að þetta er alls ekki tiltækur búnaður.  Orðagjálfur Orkumálastjóra um neyðarviðbúnað á Suðurnesjum sýnir aðeins, að ekkert bitastætt var til hjá Orkustofnun til að grípa til, ef í neyðirnar rekur í Svartsengi. Örlagadaginn 10.11.2023 var rokið upp til handa og fóta og gripið í tómt.  Nú er reynt að breiða yfir það.   

 

 


Orkumálastjóri og hlýindin

Í stað þess að greina lesendum Morgunblaðsins frá stöðu og horfum raforkumálanna, og hvaða úrræða væri helzt að grípa til í úrbótaskyni, þá lagðist Orkumálastjóri í svartnætti loftslagskirkjunnar í grein sinni 18.08.2023.  Hún gat þess, að júní 2023 hefði verið sá hlýjasti, síðan hitastigsskráningar hófust, og hún kennir koltvíildisstyrk lofthjúpsins um það.  Þá má spyrja hana, hvernig standi á því, að meðalhitiastig á jörðunni hefur verið hærra en núna, svo að munar nokkrum °C, þótt koltvíildisstyrkur andrúmsloftsins hafi þá verið mun lægri en nú er samkvæmt rannsóknum.  Er ekki rétt að reyna að átta sig aðeins á eðlisfræðinni, þætti H20 og CO2, og áhrifum El Nino-straumsins, sem flytur gríðarlega varmaorku og er sterkur um þessar mundir, áður en farið er að velta vöngum um heimsendi vegna koltvíildisstyrks í andrúmslofti ?

Téð Grein Orkumálastjóra bar firnalanga fyrirsögn, en ekki að sama skapi hnitmiðaða:

"Átta ár frá Parísarsamkomulagi - loftslagsmálin, stóra samhengið og tækifæri Íslands.

Hún hófst þannig:

"Fréttir af flóðum, aurskriðum, skógareldum og öðrum afleiðingum hækkandi hita á jörðinni hafa borizt frá öllum heimshornum í sumar, en júní í ár var heitasti mánuður, sem mælzt hefur á jörðinni.  Átta ár eru liðin frá því, að Parísarsamkomulagið var undirritað, sem fól í sér yfirlýsingu ríkja um, að þau myndu gera allt, sem í þeirra valdi stæði til að draga úr losun lofttegunda til að halda hækkun á hitastigi innan við 1,5°C."

Þarna leggst Orkumálastjóri á árar loftslagskirkjunnar og fer að stunda hreinræktaðan hræðsluáróður.  Það er ómálefnalegt að benda á hátt meðalhitastig í júní 2023 án þess að drepa á El Nino hafstrauminn, sem var afar mikill áhrifavaldur á veðurfar í sumar. Það er sleggjudómur að fullyrða, að skógereldar stafi af hlýnun jarðar.  Í mörgum tilvikum er um íkveikju að ræða, eins og frétt frá Grikklandi 25.08.2023 ber með sér, og tjónið er tilfinnanlegra en oft áður, af því að byggðin hefur teygzt að skógunum.  Þessi Orkumálastjóri rökstyður mál sitt sínu verr en áður hefur tíðkazt hjá þessu embætti. 

Hafði téð Parísarsamkomulag einhver áhrif ?  Losun gróðurhúsalofttegunda (Orkumálastjóri verður að gá að því, að ekki eru allar lofttegundir gróðurhúsalofttegundir !)  á heimsvísu hefur aukizt síðan 2015, og miklir losunarvaldar virðast alls ekki hafa tekið þennan gerning í desember 2015 alvarlega.  Þar með er loku skotið fyrir nokkurn árangur, sem um munar, enda hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda aukizt frá 2015.  Í þessu verkefni pólitíkusanna er allt unnið með öfugum klónum, mikið talað, en lítið gert til bóta, enda er hver afleikurinn leikinn af öðrum. 

Að ætla sér að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í raforkugeiranum með vindknúnum rafölum og sólarhlöðum er tæknilega eins fráleitt og hugsazt getur.  Umtalsverður árangur víðast erlendis er útilokaður án beizlunar kjarnorkunnar.  

Á Íslandi var fyrir löngu farin allt önnur leið.  Hér virkjuðu menn af miklu viti og framsýni vatnsföll og jarðhita til að leysa jarðefnaeldsneytið að miklu leyti af hólmi, enda er nú svo komið, að það stendur aðeins undir rúmlega 15 % af heildarorkunotkun þjóðarinnar.  Víða erlendis er þetta hlutfall nálægt 75 %.  Það er þess vegna hið versta níð, að landsmönnum skuli hafa verið gert að greiða að jafnvirði allt að MISK 400 fyrir heimskulega markmiðssetningu á síðasta áratug til Evrópusambandsins, sem ekki gat náðst hér, nema hægja á hjólum atvinnulífsins og skapa hér atvinnuleysi.  Vill villta vinstrið það, eða meinar það ekkert með öllu loftslagsprumpinu ? 

"Tragikómískt" er að sjá loftslagsráðherrann bísperrtan gorta af, að landið skulu ekki hafa þurft að greiða skussunum hærri upphæð, eins og Umhverfisstofnun var sennilega búin að áætla (MISK 800) og rataði inn í fjárlögin. Það er meinloka að láta Ísland taka þátt í þessu ETS-kerfi (Emission Trade System), sem er fyrir lönd á allt öðrum stað á jörðunni en við og á allt öðru róli.  Stórundarleg markmiðasetning íslenzkra stjórnvalda á þessum áratug og skortur á tæknilausnum fyrir skip og flugvélar mun valda gríðarlegum refsiskatti til ESB við uppgjör þessa áratugar.  Pólitískir vinglar hafa vélað um þessi mál innanlands og á erlendum vettvangi með þeim afleiðingum, að búið er að flækja þjóðina í skuldbindingar um að draga úr losun, sem ekki er hægt að standa við, nema hægja á öllum hjólum atvinnulífsins.  Það er aftur á móti sérvitringaviðhorf, sem stór meirihluti þjóðarinnar fellir sig ekki við, og sízt af öllu verkalýðshreyfingin né ábyrgðaraðilar ríkissjóðs, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. 

"Þó að uppbygging endurnýjanlegrar orkuvinnslu sé lykilatriði fyrir orkuskiptin, er hægt að ná miklum árangri með því að nýta betur þá orku, sem við eigum nú þegar, með bættri orkunýtni. 

Alþjóða orkumálastofnunin hefur bent á, að hægt sé að ná sem nemur 40 % af markmiðum Parísarsáttmálans, er tengist losun frá orku, með þeim hætti."

  Hætt er við, að Orkumálastjóri sé hér algerlega úti á þekju.  Þótt hún telji orkuskipti brýn, tók það Orkustofnun þrefaldan eðlilegan tíma að fjalla um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Ef á að taka Orkumálastjóra alvarlega, verða að fara saman orð og gerðir. 

Þar sem jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuvinnslu, er orkunýtnin léleg eða e.t.v. 40 %, ef ekki er um samtvinnun við hitaveitu að ræða, en með slíkri samtvinnun má tvöfalda nýtnina.  Líklega er Alþjóða orkumálastofnunin að vekja athygli á þessari lélegu orkunýtni, sem æskilegt er að komast frá.  Það á hins vegar alls ekki við á Íslandi, þar sem vatnsorkuverin eru rekin með um 90 % heildarnýtni.  Það er hægt að sækja fáein % þar með nýjum búnaði í stað gamals, en það borgar sig aðeins, ef endurnýjunarþörf er komin upp vegna slits hverfla og öldrunar einangrunar.

Á Íslandi eru vissulega varmaorkuver, en þau eru gjörólík flestum erlendum varmaorkuverum, því að þau eru knúin jarðgufu, og þau helztu eru einnig tengd hitaveitu, sem hækkar nýtni þeirra upp í ákjósanlega stærð.

Einnig er hægt að draga úr töpum í flutningskerfinu um fáein %, og það gerist um leið og spennuhækkað er vegna aukinnar flutningsþarfar. 

Orkunýtni á Íslandi batnar með innleiðingu rafgeymaknúinna bíla, og sú þróun er í gangi, en hún batnar ekki við að knýja farartæki með vetni vegna mikilla orkutapa, sem því er samfara. 

 

Hvert er Orkumálastjóri að fara með þessu klisjukennda mali sínu um nauðsyn þess að bæta orkunýtni á Íslandi ?  Orkumálastjóri verður að temja sér að tala skýrt og að vel athuguðu máli, eins og fyrirrennarar hennar hafa gert.  

Að lokum skrifaði Orkumálastjóri:

"Þrátt fyrir fjölbreyttar orkuauðlindir verður Ísland aldrei rafhlaða til að knýja alla raforkuþörf heimsins; það má sjá í heildarsamhengi mála.  [Furðulegt orðalag um einfalt reikningsdæmi - innsk. BJo.]  

Stærsta tækifæri okkar er einfaldlega að styðja við jákvæða þróun annars staðar, með því að flytja út okkar þekkingu um leið og við vinnum að því að klára orkuskiptin hér í takti við áherzlur stjórnvalda.

Þannig á Ísland möguleika á að vera fyrsta ríkið, sem sýnir, að hægt sé að reka heilt samfélag með grænni orku, og verða þar með dæmið, sem heimurinn þarf.  

Slík niðurstaða skapar Íslandi sérstöðu og fjölbreytt sóknarfæri á sviði viðskipta, utanríkis- og umhverfismála.  Spyrja má: ef Ísland getur það ekki, hver getur það þá ?"

Þetta er fullkomlega gagnslaust froðusnakk og draumórar einir án nokkurrar jarðtengingar.  Verkfræðingar Landsnets hafa bæði næga jarðtengingu og einurð til að reikna út á grundvelli líklegustu framvindu framboðs og eftirspurnar rafmagns á Íslandi, að ekki standi steinn yfir steini í tilkynningum stjórnmálamanna og embættismanna (markmið eru þetta ekki fyrir 5 aura) um stöðu á losun koltvíildis frá athöfnum Íslendinga árin 2030 og 2040. Kolefnishlutleysi náist fyrst árið 2050, en það er sá tími, sem ýmsar aðrar þjóðir á vesturhveli jarðar ætla sér.  Rándýrar montyfirlýsingar stjórnmálamanna í þessum skrýtnu málum eru alveg út í loftið og lýsa ábyrgðarleysi þeirra vel. 

Verkfræðingar Landsnets hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að tvöfalda þurfi raforkuvinnslu landsins frá árinu 2023, sem merkir, að virkja þarf með einum eða öðrum hætti 20 TWh/ár, til að Íslendingar verði sjálfum sér nógir með orku.  Með svipaðri framvindu og hér hefur verið í virkjanamálum frá gangsetningu Búðarhálsvirkjunar 2013 verður þessum áfanga náð á síðasta fjórðungi þessarar aldar, og gætu Íslendingar þá hæglega rekið lestina.

Til að forða meiri háttar umhverfisslysi, sem hlytist af uppsetningu risastórra súlna undir óskilvirka, vindknúna rafala í íslenzkri náttúru, þarf að stokka Rammaáætlun upp og færa vatnsaflsverkefni og jarðgufuverkefni úr biðflokki og yfir í nýtingarflokk (framkvæmdaflokk).  Ef snefill af umhverfisverndartilfinningu leynist í dyggðaskrautfjöðrum stjórnmála- og þrýstihópa ýmissa, ætti slík uppstokkun að ganga hljóðalítið fyrir sig. Ætlar loftslagsráðherrann að gera Íslendinga að Júmbóum orkuskiptanna vegna algers framtaksleysis í virkjanamálum ?  Hvað ætlar Orkustofnun að taka sér langan tíma í þetta skiptið til að sýna fram á, að vatnalög ESB/EES séu ekki brotin með núverandi áformum um tilhögun Hvammsvirkjunar.  Stundum er eins og stjórnsýslan sé stungin líkþorni, þegar hæst á að hóa.

  

 

 

 


Ofstæki loftslagskirkjunnar

Illvígum loftslagsáróðri er beint að almenningi til að fá hann til að breyta um lifnaðarhætti og til að ryðja brautina fyrir stjórnmálamenn til að auka skattheimtuna í nafni meintrar loftslagsvár.  Þetta er oft á tíðum svívirðilega falskur málflutningur.  Það verður að hafa í huga í þessu sambandi, að verstu mengunarþrjótarnir eru í Austur-Asíu, og þeir gera ekkert með þessar áhyggjur, t.d. Kína og Indland, og á meðan svo er, mun ekki nást mikill árangur í að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu. Meðal annarra orða: hvenær varð styrkur koltvíildis í andrúmsloftinu svo mikill, að mikilvægi vatnsgufunnar við að skerma endurkast hitageisla frá jörðu hyrfi algerlega í skuggann ? 

Þessi staða mála ógnar samkeppnisstöðu Vesturlanda í heimsviðskiptunum og er þess vegna viðsjárverð.  Síðasta fálm búrókrata í Brüssel út í loftið í þessari skattheimtu er væntanlegt kolefnisgjald í skip.  Það er fálm út í loftið af þeirri einföldu ástæðu, að það er enn engin staðkvæmdarvara í sjónmáli fyrir jarðefnaolíu til að knýja skipin, og þess vegna er enginn raunhæfur hvati fólginn í þessari gjaldtöku.  Þar af leiðandi er þetta skattheimta.  Hvernig ætla stjórnmálamenn að verja þessu skattfé ?  Hvaða gæluverkefi skyldu verða fyrir valinu ?  

Utanríkisráðuneytið hefur enn einu sinni opinberað áhugaleysi sitt og/eða getuleysi við að greina íslenzka hagsmuni og rýna reglusetningu Evrópusambandsins (ESB) m.t.t. að virkja undanþágur með röksemdafærslu um séraðstæður Íslendinga. Þegar uppgjafartónninn berst úr þessu ráðuneyti, er stundum eins og ráðuneytið sé orðið handgengið bákninu í Brüssel. 

Flutningskostnaður til og frá Íslandi er hærra hlutfall af vöruverði til viðskiptavina en tilvikið er fyrir nokkurt annað EES-land.  Af hverju hringir sú staða mála engum viðvörunarbjöllum í utanríkisráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu ?  Þessi staða máls er til þess fallin að rýra lífskjör fólks á Íslandi meira en í nokkru öðru Evrópulandi.  Það getur enginn alvöru stjórnmálamaður skellt skollaeyrum við því, en það mun stjórnarandstaðan á Alþingi þó gera með heiðarlegum undantekningum, af því að vinstrið þar er gengið ESB á hönd.   

Þá að hræðsluáróðrinum. Angi hans snýst reyndar um hamfarakólnun á Íslandi, sem reyndar er raunveruleg hætta á til lengri tíma litið, þegar út úr núverandi hlýskeiði kemur, en áróðurinn snýst hins vegar um það, að núverandi hlýskeið, sem er alls ekki enn það hlýjasta í seinni tíma jarðsögu, muni valda svo mikilli jökulbráðnun á norðurhveli, að Norður-Atlantshafið muni kólna svo mikið, að stórlega dragi úr styrk Golfstraumsins hlýja norður á bóginn. Mælingar gefa þó alls engar vísbendingar um þetta. 

Morgunblaðið átti viðtal við Halldór Björnsson, veður- og haffræðing á Veðurstofu Íslands, um þessi mál 27. júlí 2023 undir fyrirsögninni: 

"Stöðvun hafstrauma boðuð við Ísland"

"Tilefni spjallsins er grein í vísindatímaritinu "Nature", sem boðar stöðvun hafstraums, sem þar gengur undir nafninu AMOC, "The Atlantic meridional overturning circulation", á 21. öldinni, straums, sem er töluvert víðförulli en Golfstraumurinn og flytur hlýjan sjó til norðurhvels jarðar, en kaldan suður á bóginn."

""Mjög lengi hafa vangaveltur verið uppi á borðinu [svo ?!] um, hvort veltihringrásin sé óstöðug, þ.e.a.s. ef það hlýnar of mikið eða vatnið norðan við verði of ferskt, t.d. við mikla rigningu eða hressilega bráðnun Grænlandsjökuls, geti þessi straumur ekki lengur myndað djúpsjó, þá væri í raun búið að slökkva á honum", heldur Halldór áfram."

Óskýrar greinar af þessu tagi um viðurhlutamiklar breytingar í náttúrunni geta hæglega vakið upp óþarfa ótta almennings, ef hvorki höfundarnir né útgefandinn gera grein fyrir samhenginu og raunstöðunni.  Aðalatriðið er, að engar mælar gefa enn vísbendingar um þessa þróun, svo að hér er aðeins um fræðilegar vangaveltur að ræða. Halldór gerir grein fyrir samhenginu:

 ""Þótt AMOC hyrfi alveg, er eftir sem áður mikill varmaflutningur inn á svæðið frá hafinu og reyndar einning frá lofthjúpinum; það er mikilvægt að hafa í huga, að lofthjúpurinn flytur meiri varma inn á þetta svæði en hafið gerir", segir haffræðingurinn.  Þar með segir hann, að aldrei kæmi til þess, þótt AMOC straumurinn stöðvaðist, að hitaflutningur inn á hafsvæðið við Ísland legðist af með öllu; hann mundi einfaldlega minnka."

Þannig varð 1 fjöður að 10 hænum.  Það eru svona mál, sem Loftslagsráð grípur á lofti án merkilegrar greiningar og kastar fram sem hrollvekju.  Nú hefur formaður þessa einkennilega ráðs lýst því yfir við fjölmiðla (11.08.2023), að nauðsynlegt sé, að Íslendingar verði leiðandi í að setja kolefnisfría orkugjafa í skip sín til að knýja þau.  Hvers konar bolaskítur er þetta nú ?  Hvers vegna og hvernig á smáþjóð norður í Atlantshafi að gefa tóninn fyrir risaútgerðir heimsins, sem enn hafa enga lausn á reiðum höndum.  Þessi furðuformaður talar hins vegar eins og álfur út úr hól um, að skattlagning ESB sé nauðsynlegur hvati, svo að útgerðirnar teygi sig í þessa lausn.  Það er von, að losun landsmanna á koltvíildi aukist fremur en hitt, þegar ráðgjafarnir eru af þessari hlaupvídd. 

Halldór skýtur síðan hræðsluáróðurinn um stöðvun varmaflutnings með hafstraumum á kaf:

""Loftslagslíkön ná ekki öll að herma þetta; þarna erum við á jaðri vísindalegra rannsókna, og menn vita ekki alveg, hvernig á að takast á við þetta.  En í loftslagslíkönum, þar sem dregur úr styrk AMOC, sem er reyndar í mjög mörgum líkönum, er það yfirleitt þannig, að maður sér einhverja kalda bletti í Norður-Atlantshafi, en þeir ná ekkert endilega til Íslands, ekki allir, og yfirleitt eru þeir tímabundnir, taka kannski 10-50 ár", segir Halldór."

Það er auðvelt að hrapa að vitlausri niðurstöðu, og það er einkenni flautaþyrla.  Áður en þeir fara að hvetja íslenzkar skipaútgerðir til að draga úr losun sinni, ættu þeir að reikna út, hver sú losun er í samanburði við meðaltalslosun íslenzkra eldfjalla á ári.  Það er nefnilega þannig, að losun íslenzkra skipafélaga hefur engin merkjanleg áhrif á hlýnun jarðar, en það hafa eldfjöllin, þegar þau eru í stuði.

 

 


Hernaðarbrölti Rússlands verður að linna

Með hernaðarbrölti sínu í Úkraínu frá 24.02.2022 hafa Rússar staðfest, hversu frumstæðir þeir eru hernaðarlega og algerlega tillitslausir um örlög varnarlausra borgara og sinna eigin óbreyttu hermanna.  Gjörspilltir og siðlausir stjórnendur rússneska hersins og klíkan í Kreml láta sig engu skipta, hversu margir varnarlausir borgarar Úkraínu falla eða særast, og þeir etja hermönnum sínum út í opinn dauðann. Jafnvel er stór stífla vatnsorkuvers sprengd í loft upp, og stærsta kjarnorkuver Úkraínu er í öryggislegu uppnámi mánuðum saman.

Herkænsku eða nútímalegri herfræði er ekki fyrir að fara hjá Rússaher.  Allt er þar kunnuglegt frá heimsstyrjöldunum og hernaðinum í Afganistan og Sýrlandi.  Flugher Rússa hefur mistekizt að ná yfirráðum í lofti, og herþotur Úkraínumanna eru of fáar og úreltar frá Ráðstjórnartímabilinu til að þær geti haft í fullu tré við þær rússnesku.  Þess vegna hafa herirnir grafið sig niður í skotgrafir, eins og tíðkuðust í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Öðru máli mun gegna, þegar úkraínski flugherinn tekur að beita hinum öflugu og fjölhæfu bandarísku orrustuþotum, F16.  Úkraínumenn munu þá öðlast yfirráð í úkraínskri lofthelgi, og þannig munu þeir geta beitt bryndeildum sínum af fullum þunga, en þeim hefur ekki verið beitt í neinum mæli enn þá.  Þá verður rússnesku glæpahyski og drykkjurútum sópað út úr Úkraínu, og landamærin frá 1991 endurheimt.  Hvað þá verður um stórrússneska prumpið er óvíst, en það mun þó líklega ekki bera sitt barr eftir þetta. Óþarft er að gera því skóna, að bylting hugarfarsins muni eiga sér stað og að Rússar muni taka upp lýðræðislega stjórnarhætti.  Það gætu hins vegar Hvít-Rússar gert hjá sér.  

KGB-karlfauskurinn frá Leningrad, nú Sankti-Pétursborg, hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum, ef ósigur rússneska hersins blasir við.  Það er eintómur derringur fantsins.  Bandaríkjamenn hafa látið rússnesku valdaklíkuna vita, að þá muni NATO-flugflotinn taka völdin í rússneskri lofthelgi og leggja í rúst, það sem honum sýnist.  Kínverjar munu og hafa varað fantinn í Kreml við slíku athæfi, og hann sjálfur er of huglaus til að þora að storka eigin örlögum með þeim hætti. 

Nú hefur þessi sami siðblindingi neitað að framlengja leyfi Úkaínumanna til að skipa matvörum út í hafnarborgum sínum og að tryggja flutningaskipum frið á leiðinni yfir Svartahafið.  Hann veit, að afleiðingin verður hungursneyð í Afríku, en hann skeytir engu um mannslíf og hefur aldrei gert.  Það, sem fyrir honum vakir, er að skapa flóttamannaöldu til Evrópu, eins og hann gerði um árið frá Sýrlandi með því að sprengja upp borgir þar.  Illmennið svífst einskis. 

Joschka Fischer, fyrrverandi leiðtogi þýzkra græningja og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, viðrar mikils verð þýzk sjónarmið til grimmdarlegs hernaðar Rússlands í Evrópu, sem hófst með árás á austurhéruð Úkraínu og Krím 2014 og alls herjar innrás 24.02.2022 með stefnu Rússahers á Kænugarð.  Greinin bar vafasama fyrirsögn m.v. efnistökin:

"Aukin hætta er af veikingu Rússlands".

Þessu máli er allt öðru vísi varið.  Það mun stafa áframhaldandi stórhætta af útþenslustefnu Rússlands, ef nú verður tekið á þeim með silkihönzkum.  Til að tryggja frið og velsæld í Evrópu eftir föngum á næstu áratugum verða Vesturveldin að hrista af sér slenið, hætta að hlusta á bullið úr Kreml og láta Úkraínumönnum hið allra fyrsta í té vopnin og þjálfunina, sem þeir fara fram á, til að gera þeim kleift að hrekja illfyglin heim til sín og endurreisa þar með landamærin frá 1991. Síðan þarf strax í kjölfarið að verða við ósk Úkraínustjórnar um aðild að NATO. 

Rússland hefur opinberað ógeðslegt eðli sitt, og þegar hættunni af kínverska drekanum er bætt við, verður ljóst, að lýðræðisríkin verða að vígbúast.  Það gera þau bezt með auknum fjárveitingum til landvarna og fjárfestingum í hátæknibúnaði í því skyni.

"Hauslaust stríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í nærri 1,5 ár, og glæpsamlegt framferði innrásarinnar hefur ekki breytzt. 

Stórt kjarnorkuveldi [gjörspillt með allt í niðurníðslu-innsk. BJo] vill neita nágranna sínum - "bræðraþjóð" um áður viðurkenndan tilverurétt.  Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur valið að heyja landvinningastríð.  Ef hann nær markmiðum sínum, verður Úkraína innlimuð í Rússland og hverfur af kortínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.  

En með hverri vikunni, sem líður, bendir sífellt [fleira] til, að áætlanirnar hafi snúizt í höndunum á honum.  Langt frá því að skila skjótum sigri er "sérsök hernaðaraðgerð" Pútíns orðin að blóðugu klúðri og þrautagöngu, sem Rússar gætu allt eins tapað. Þótt "aðgerðin" hafi vissulega kostað stórar fórnir í Úkraínu, hefur hún einnig valdið almenningi í Rússlandi miklu tjóni."

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að við miskunnarlausa fasistastjórn í Kreml er að eiga og að þessi lýsing þýzka útanríkisráðherrans fyrrverandi á sér hliðstæðu í Þriðja ríki Adolfs Hitlers.  Leifturstríð Þriðja ríkisins voru þó árangursrík í byrjun, en í höndum afturúrkreistinga frumstæðs Rússlands alger bögglingur.  Afleiðingin af landvinningastefnu nazistastjórnarinnar í Berlín, sem háð var undir formerkjum þarfar yfirburðakynstofns fyrir "Lebensraum", reyndist alger tortíming þessarar hugmyndafræði, og eftir lá Þýzkaland í rúst.

Rússland þykist nú heyja stríð til að uppræta nazisma í Úkraínu.  Þetta bull á sér sögulegar skýringar, sem Pútín hefur kosið að draga fram til að kynda undir þjóðernistilfinningum Rússa, sem misnotaðar hafa verið til að koma því inn hjá þeim, að þeir eigi að ráða yfir öllum slavneskum þjóðum og Eystrasaltsþjóðunum að auki hið minnsta.  Þessar sögulegu rætur eru frá 1941, frá upphafi "Operation Barbarossa" í júní það ár.  Þá sáu frelsishetjur Úkraínu sér leik á borði að koma ár sinni fyrir borð hjá Wehrmacht og þýzkum stjórnvöld með því að bjóða fram aðstoð sína í hernaðinum gegn Ráðstjórnarríkjunum gegn því, að Úkraína fengi sjálfstæði eða losnaði a.m.k. úr krumlum Moskvustjórnarinnar. 

Þetta hentaði þó ekki kynþáttakenningasmiðum Þriðja ríkisins, sem voru algerlega úti að aka, og í hópi herforingja í Wehrmacht voru menn, sem eygðu gagnið, sem Wehrmacht gæti af þessu haft, enda Úkraínumenn alltaf verið orðlagðir hermenn.  Pólitískir skussar fengu því svo framgengt, að Abwehr, leyniþjónusta Wehrmacht, handsamaði forystumenn uppreisnar Úkraínumanna. 

Sjálfstæðisvitundin hefur alla tíð verið fyrir hendi á meðal Úkraínumanna frá því, að þeir illu heilli rötuðu undir illskeyttan hramm zarsins í Moskvu. Ef andskotinn sjálfur hefði ráðizt á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941, hefðu Úkraínumenn leitað bandalags við hann gegn ógnarstjórninni í Kremlarkastala.

"Á örlagatímum uppreisnar Prígosíns reyndist Rússland Pútíns vera það, sem gagnrýnendur hans höfðu lengi haldið fram: mafíuríki, sem skortir öfluga innviði - en er því miður með eitt stærsta kjarnorkuvopnabúr heims.  

Þetta var stund sannleikans, og vísun Pútíns til ársins 1917 og falls keisarans var reyndar mjög viðeigandi.  Þessi atburður minnir sannarlega á atburðina það ár, sem leiddu ekki til einnar, heldur tveggja byltinga - fyrst í febrúar og síðan í október."

Saga Rússlands er hörmuleg.  Þeir báru aldrei gæfu til að þróa stjórnarfar í átt til lýðræðis, eins og annars staðar í Evrópu, þar sem valddreifing átti sér stað frá konungi/keisara til aðalsmanna, sem smám saman lögðu meiri völd í hendur héraðsþinga og/eða þjóðþings.  Í Rússlandi hafði zarinn alla tíð öll völd að hætti Mongólanna, sem réðu yfir Rússum í 300 ár, og aðallinn stóð að skattheimtu fyrir zarinn, en lýðurinn var einskis metinn og valdalaus.  Þess vegna voru byltingarnar 1917 ferð Rússa úr öskunni í eldinn, og enn stjórnar zarinn, nú með hjálp ólígarka (auðmanna), rotnu þjóðfélagi, þar sem lýðurinn má síns einskis, enda eru þjóðfélagsvandamálin svakaleg. Rússar eiga mjög erfitt með að fóta sig í nútímanum og eru engan veginn í stakk búnir til að ráða yfir nokkurri annarri þjóð, enda hafa þeir ekkert fram að færa annað en mannhatur og spillt hugarfar. 

"Því nær sem [dregur að endalokunum], [þeim mun] meiri verður hættan á, að Kreml grípi til órökrænna aðgerða, eins og að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna.  Uppreisn Prígósíns gefur okkur sýnishorn af ringulreiðinni, sem bíður.

Næstum allt er hugsanlegt núna, frá upplausn Rússneska sambandsríkisins til uppgangs annarrar öfgaþjóðernisstjórnar með drauma nýkeisarasinna um endurreisn keisaraveldisins." 

Í heimsstyrjöldinni síðari greip nazistastjórnin í Berlín aldrei til gashernaðar, og hún lagði meiri áherzlu á þróun flauga Werner´s von Braun á Penemünde en á að framleiða kjarnorkusprengju.  Það er margt sameiginlegt með fyrrverandi einræðisherra í Berlín og núverandi einræðisherra í Moskvu.  Báðir bjuggu/búa við algera yfirburði andstæðingsins í lofti með undantekningu fyrstu ára Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Ógnin, sem þeim stafaði/stafar af miskunnarlausri hefnd úr lofti er svo mikil, að hvorugur þorði/þorir að grípa til gjöreyðingarvopna.  Rússar eru þó uppvísir af að beita fosfórsprengjum á óbreytta borgara Úkraínu, svo að ekki sé nú minnzt á klasasprengjurnar, sem þeir hafa beitt á óbreytta borgara, og nú fá rússneskir hermenn að finna til tevatnsins með þeirri sprengjutegund líka, þótt margfalt hærra hlutfall bandarískra klasasprengja (97 %) springi við lendingu en þeirra rússnesku (40 % - 50 %).  

Það er rétt hjá J. Fischer, að þróun mála innan Rússneska sambandsríkisins er ófyrirsjáanleg núna.  Það á ekki að draga úr einbeitingu Vesturveldanna við það verkefni að efla úkraínska herinn svo mjög, að hann nái að ganga á milli bols og höfuðs á rússneska hernum með lágmarks mannfalli í eigin röðum og reka steppuskrílinn austur fyrir lögmæt landamæri Úkraínu frá 1991. Það yrði mesta friðaraðgerð, sem nú er hugsanleg fyrir Evrópu.  Síðan getur rotin yfirstétt Rússlands borizt á banaspjótum.  

Stuðningsfólk Kremlverja á Vesturlöndum hafa þar verið nefndir "useful idiots" sem á íslenzku mætti kalla gagnlega grautarhausa - ga-ga.  Þeir finnast einnig á Íslandi.  Málflutningur þeirra er vellingur úr áróðursvél Kremlar, og undirtónninn er Bandaríkjahatur og fyrirlitning á vestrænu stjórnskipulagi og lifnaðarháttum.  Ga-ga halda því fram, að landvinningahernaður Rússa gegn Úkraínu sé NATO að kenna.  Það er álíka gáfulegur málflutningur og brennuvargsins, sem reynir að koma sökinni á eldvarnir og slökkvilið. 

Yfirleitt er ekki heil brú í málflutningi ga-ga fremur en í söguskýringum siðblindingjans í Kreml.  Vilji úkraínsku þjóðarinnar er alltaf sniðgenginn í málflutningi ga-ga.  Yfirgnæfandi meirihluti hennar, óháð móðurmáli, vill leggja allt í sölurnar til að losna úr klóm rússneska bjarnarins, sem alla tíð hefur reynt að eyða menningu Úkraínu og kúga íbúana á hinn svívirðilegasta hátt.  Mál er, að linni og að Úkraínumenn fái frið og öryggi til að lifa sem frjálsir menn og konur í eigin landi, yrkja hina frjósömu jörð sína og nýta aðrar auðlindir í lögsögu sinni og eigið hugvit til að endurskapa þjóðfélag sitt að eigin höfði með vestræn gildi í öndvegi.  Til þess þurfa þeir vernd NATO og til að njóta hennar verður land þeirra að vera þar fullgildur aðili. Það verður verðugt viðfangsefni NATO að að vernda þá og að halda austrænum steppudýrum í skefjum. 

Vesturveldin eiga alls ekki að ljá eyra við gjamminu úr Kreml, ekki frekar en ætti að leyfa sjúklegum brennuvargi að leggja orð í belg um eldvarnir, hvað þá að skipuleggja þær. Rússar eru alls staðar til bölvunar, og þeir geta einskis trausts notið. 

 

   

 


Hrikaleg stjórnsýsla heilbrigðismála í tíð Svandísar

Það er alveg sama, hvar Svandís Svavarsdóttir drepur niður fæti í stjórnsýslunni.  Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð sökum vanræktrar rannsóknarskyldu, ofstækis og dómgreindarleysis.  Þetta leiðir yfirleitt til deilna í réttarsölum, og hefur Hæstiréttur dæmt hana fyrir að níðast á sveitarfélagi á Suðurlandi sem ráðherra skipulagsmála.  Í fersku minni eru ofsóknir hennar sem umhverfisráðherra gegn lúpínunni. Hernaður hennar gegn einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi ásamt ofstækisfullum bólusetningarherferðum gegn hættulítilli pest með rándýrum, gagnslausum og hættulegum bóluefnum voru reistar á múgsefjun, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin spilaði undir og lygum lyfjafyrirtækjanna, sem stórgræddu á þessum sirkus.  Nú blasir við, að þessi sama Svandís verður dæmd fyrir margvísleg brot í starfi sem matvælaráðherra, ef höfðað verður mál gegn ríkinu, og hún hefur vísast gert það skaðabótaskylt um nokkra milljarða ISK.  Hvenær fá þingmenn nóg af að styðja þennan misheppnaða stjórnmálamann til valdamikilla embætta ?  Manneklan hjá vinstri grænum verður þjóðinni dýrkeypt áður en lýkur. 

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, skrifaði stórmerkilega grein um afglöp ráðherra og aðra stjórnendur heilbrigðismála á Íslandi í Kófinu, sem birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2023.  Læknirinn afhjúpar þar fúsk þeirra, sem gæta áttu að almannaheill á tíma kórónuveirufaraldurs, þóttust  gera það með vísindalegum ráðum, en þverbrutu vísindalegar reglur og reyndust leiksoppar Alþjóða heilbrigðisráðsins og áróðurs lyfjafyrirtækjanna.  Grein læknisins nefndist:

"Hví var bólusett gegn covid-19 ?"

og hófst þannig:

"Af hverju skal bólusetja gegn covid-19, ef áhættan af sjálfum sjúkdóminum var hverfandi og bóluefnin ekki bara gagnslaus, heldur stórskaðleg ?

Þeirri spurningu er enn ósvarað af yfirvöldum með upplýstum hætti.  Niðurstöður Pfizer frá nóvember 2020 voru skýrar og óumdeilanlegar.  Skoðum það nánar."

Þessi inngangur læknisins er ekki gripinn úr lausu lofti, heldur reistur á opinberum staðreyndum.  Lyfjaiðnaðurinn dró heilbrigðisyfirvöld margra landa, þ.á.m. á Evrópska efnahagssvæðinu, á asnaeyrunum og makaði krókinn á misheppnuðu sulli, sem fengið hafði allsendis ófullnægjandi reynslu og vísindalega rýni, þegar því var hleypt inn í almenning á bráðabirgða leyfi með voveiflegum afleiðingum. Þetta er hneyksli aldarinnar fram að þessu.  Yfirvöldin bregðast fullkomlega í verndarhlutverki sínu gagnvart almenningi, sem verður fórnarlamb áróðurs, sem veldur múgsefjun á grundvelli frumstæðrar óttatilfinningar.  Yfirvöldin spiluðu á fólk.  Sú tilraun heppnaðist, en eiga þau að komast upp með það refsilaust, nú þegar spilin eru lögð á borðið af sérfróðum mönnum á þessu sviði á borð við Guðmund Karl Snæbjörnsson ?

"Opinber gögn tuga landa með hundruð milljóna íbúa (Ioannidis, okt. 2020) sýndu hverfandi eða enga áhættu í öllum aldurshópum.  Áhætta á aldursbilinu 0-69 ára var 590 ppm [hlutar úr milljón] og á meðal ungs fólks 0-19 ára 3 ppm. Um var að ræða bæði heilbrigða og veika einstaklinga.  

Aðrar rannsóknir stórra og fjölmennra þjóðfélaga sýndu, að heilbrigðum börnum var engin hætta búin af covid-1 og ekkert heilbrigt barn hafði látizt.  

Ábyrg heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hefðu gefið gaum að þessum staðreyndum, sinnt rannsóknarskyldu sinni og greiningu staðreynda, sem voru fyrir hendi haustið 2020, í stað þess að fara í móðursýkislega meðvirkni með erlendri múgsefjun, sem alla tíð var stórhætta á, að stýrt (manipulated) væri með þann vafasama ásetning að græða á leiðitömum og hræddum yfirvöldum.  Með ofangreindar upplýsingar í höndunum hefðu yfirvöld átt að aflétta öllum fjöldatakmörkum og hömlum á starfsemi manna og lifnaðarháttum.  Hættan var ekki fyrir hendi og vitað er, að veirur þessarar gerðar stökkbreytast yfirleitt í átt til meiri smithættu og vægari einkenna (afleiðinga).  Það var engin glóra í aðgerðum stjórnvalda hér gegn frelsi einstaklinga og atvinnufrelsi.  Á þessu bar heilbrigðisráðherrann meginábyrgð. 

"Niðurstöður 2 mánaða rannsóknarhluta Pfizer í nóvember 2020 með 44 k þátttakendum tala skýru máli.  Bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit, hindruðu ekki sjúkdóma, og dánartíðnin var hærri en hjá óbólusettum.  Þetta var ljóst áður en ráðizt var í að bólusetja fólk um allan heim, nú yfir mrd 5,3.  Bóluefnin hindruðu ekki smit, heldur fjölgaði þeim ásamt því, að fólk fékk fjölda aukaverkana og fleiri dóu."

Þetta er hrikaleg lýsing á stöðu, sem ábyrg stjórnvöld hefðu ígrundað vandlega.  Á grundvelli þeirrar rannsóknar hefðu ábyrg stjórnvöld á Íslandi og annars staðar tekið sjálfstæða ákvörðun um, að nýju bóluefnin gegn C-19 væru ónothæf.  Það gerðu þau ekki, heldur létu hagsmunaaðila draga sig á asnaeyrunum og sýndu þannig fram á óhæfni sína til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þágu öryggis og heilsufars þjóða sinna.  Þetta er svakalegur áfellisdómur yfir Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra, og ráðgjöfum hennar, landlækninum og sóttvarnarlækninum.  Ekkert þeirra hafði vitsmuni eða þrek til að standa í ístaðinu, og lítið lagðist fyrir sósíalistann í ráðherrastóli, sem gerðist handbendi ofurgróðapunga án þess að blikna.  Hvar eru hinar miklu hugsjónir öreigabyltingarinnar ?  Þær hafa aldrei verið annað en skálkaskjól í sókn til valda. 

 "Vísindin sýndu hvorki þörf né, að ráðlegt væri að bólusetja fólk, því [að] verndin var engin, en skaðinn mikill.  Hví fóru yfirvöld þvert á niðurstöður vísinda ? 

Hví neituðu þau að gefa lyf, sem virka vel og hefðu getað kveðið niður heimsfaraldurinn ? 

Um leið og þessar niðurstöður lágu fyrir í nóvember 2020, og hvað þá [í) febrúar 2021, hefði átt að hætta við allar bólusetningar."

Yfirvöldin bættu gráu ofan á svart með því að bera fyrir sig vísindin, en það voru gervivísindi, sem þau annaðhvort áttuðu sig ekki á, eins og hverjir aðrir flautaþyrlar, eða beittu fyrir sig gegn betri vitund til að knýja sína stefnu fram.  Það er alveg stórfurðulegt, að enn skulu sami landlæknir og ráðherra gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina.  Þær brugðust kolrangt við, þegar þeim mátti ljóst vera, að eina ábyrga leiðin væri að snúa af villu síns vegar.  Enn virðast þær ekki skilja ábyrgðarhlut sinn.  Við næstu vegamót, næsta faraldur, munu landlæknir og pólitíkin varpa allri sjálfstæðri hugsun fyrir róða og láta stjórnast af hagsmunaaðilum og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.  

"Ásetningur yfirvalda er ljós.  Skaðinn var allan tímann ljós, og yfirvöld hundsuðu vísindaleg varúðarmerki, en sungu þess í stað hástöfum falsettuna sína "árangursrík og örugg og allir saman nú".  

Bólusetning þessi er því ekki neitt annað en misbeiting valds, gerð af einbeittum ásetningi og er skýlaust brot samkvæmt skilgreiningu 2. greinar OSAPG (Office of the UN Special Adviser on the Prevention of Genocide), samnings um forvarnir og refsingu fyrir glæp  þjóðarmorðs frá 1948."

Hvílík vanræksla heilbrigðisráðherra, landlæknis,  sóttvarnarlæknis og lyfjaeftirlitsins er það að sleppa lyfjaiðnaðinum lausum á þjóðina með nýtt og að mestu óreynt sull, sem síðan reyndist bæði gagnslaust og hættulegt ?  Vanrækslan var fólgin í að láta hjá líða að leggja hlutlægt mat á áhættuna af faraldrinum á móti kostnaði, gagni og hættu af aukaverkunum. Næg gögn voru fyrir hendi í tæka tíð til að gera þetta.  Til hvers í ósköpunum eru allar þessar silkihúfur í heilbrigðisgeiranum, ef bara er fylgt í blindni hverju því, sem rekur á fjörur þeirra að utan ?  

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband