Færsluflokkur: Evrópumál

Evrópa á tímamótum

Evrópa stendur nú skyndilega frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að geta ekki lengur reitt sig á hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna, ef ráðizt verður á eitthvert NATO-land. Þar af leiðandi er hafin hervæðing í Evrópu, sem sumpart beinist að því að styrkja Úkraínuher og sumpart að eflingu eigin hers.  Þetta mun hafa mikla útgjaldaaukningu ríkissjóða í för með sér, enda ætla NATO-ríkin að stefna að 5,0 % af VLF til hernaðartengdra mála, 3,5 % til að efla herina sjálfa og 1,5 % til innviða tengdra landvörnum. 

Hvernig ætlar ríkisstjórn Íslands að verða við þessum gríðarlegu kröfum ? Það verður tæpast liðið öllu lengur, að eitt ríkasta land Evrópu sé stikk frí, þegar kemur að eflingu varna Evrópu.  Sú starfsemi á Íslandi, sem næst kemst hernaði, þótt hún sé það alls ekki, Landhelgisgæzlan og Víkingasveitin, er fjársvelt.  Skattfé verður væntanlega ekki vel varið með því að stofna íslenzkan her, en það þarf að halda utan um það fé, sem varið er til varnarmála með miðlægum hætti, svo að hægt sé að gefa NATO trúverðugar upplýsingar um fjárveitingarnar.  Innviðirnir, sem flokka má til varnarmála, eru væntanlega aðallega flugvellir, hafnir og vegir.  Allir þessir þættir eru nú sveltir, svo að veruleg útgjöld ríkisins virðast nú framundan, ef landinu á að verða vært í NATO. 

Núverandi ríkisstjórn virðist ekkert vita, hvað hún er að gera verðmætasköpun, samkeppnishæfni og opinberum tekjum, þegar hún dembir miklum kostnaðarauka á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.  Henni er þess vegna ekki treystandi til að standa undir þeim mikla útgjaldaauka, sem hér um ræðir, af einhverju viti. Landinu er ekki stjórnað af heilbrigðri skynsemi til að hámarka verðmætasköpun, heldur af gömlum fordómum í garð ákveðinnar starfsemi og skilningsleysi á hagfræðilegum hugtökum á borð við auðlindarentu, sem forsætisráðherra segir markast af "huglægu mati", sem er kolrangt mat hjá henni.

Þann 3. desember 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla, undir fyrirsögninni:

"Efnahagur Evrópu er að staðna".

"Er efnahagsleg stöðnun í Evrópu afleiðing ófullnægjandi keynesískra efnahagshvata, eða er þrútnun og hnignandi velferðarkerfum um að kenna ?  Í öllu falli er ljóst, að þeir, sem trúa því, að einfaldar aðgerðir, eins og að auka fjárlagahalla eða lækka vexti, geti leyst vandamál Evrópu, eru raunveruleikafirrtir. 

T.d. hefur ágeng örvunarstefna Frakklands þegar þrýst fjárlagahallanum  upp í 6 % af landsframleiðslu, og skuldahlutfall landsins hefur farið úr 95 % árið 2015 í 112 %.  Árið 2023 stóð Emmanuel Macron, forseti,  frammi fyrir víðtækum mótmælum vegna ákvörðunar sinnar um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 - en þótt sú ráðstöfun væri þýðingarmikil, dugði hún skammt til að mæta áskorunum í ríkisfjármálum.  Eins og Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, varaði nýlega við, eru efnahagsmál franska ríkisins á ósjálfbærri vegferð, ef ekki verða gerðar víðtækar umbætur." 

Þetta er ekki dæmigerð lýsing fyrir ESB-löndin, heldur er Frakkland óvenju djúpt sokkið í skuldafen vegna ofþenslu ríkisbáknsins.  Hins vegar gefur þetta til kynna veikleika Evrópusambandsins-ESB, sem er grafalvarlegt á viðsjárverðum tíma í Evrópu, þar sem Bandaríkjaforseti sýnir henni kuldalegt þel og hefur hótað að verja hana ekki, verði á hana ráðizt, og Pútín, Rússlandsforseti, stendur blóðugur upp að öxlum í stríði við Úkraínumenn og beitir þar ótrúlega lúalegum brögðum á borð við eiturefnaárásir og eldflauga- og drónaárásir á íbúðarhús og barnaheimili.

"Þar sem búizt er við, að raunvextir á háþróuðum ríkisskuldum verði áfram háir - nema kreppa gangi í garð - getur Frakkland ekki einfaldlega klórað sig út úr skulda- og lífeyrisvandamálum með hagvexti. Þess í stað mun þung skuldabyrði landsins nánast örugglega skerða langtímahorfur í efnahagsmálum.  Árin 2010 og 2012 birtum við Carmen M. Reinhart 2 greinar, þar sem við héldum því fram, að óhóflegar skuldir væru skaðlegar hagvexti.  Syfjuleg og skuldsett hagkerfi Evrópu eru gott dæmi um þetta, eins og rannsóknir hafa síðan sýnt fram á.  Þung skuldabyrði hindrar hagvöxt með því að takmarka getu ríkisstjórna til að bregðast við samdrætti og kreppu.  Þar sem hlutfall skulda af landsframleiðslu er aðeins 63 %, hefur Þýzkaland nægt svigrúm til að hressa upp á brakandi innviði sína og bæta menntakerfi sitt, sem er ekki að skora hátt."

Þetta er óbjörguleg lýsing á Evrópu nútímans, sem nú stendur á tímamótum.  Bandaríkin eru hætt stuðningi sínum við Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni.  Sá lúalegi gjörningur verður lengi í minnum hafður, enda stílbrot á stefnu Bandaríkjamanna um að verja lýðræðisþjóðir og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, þegar hart er að þeim sótt af heimsvaldasinnuðum einræðisríkjum. Smjaður og undirlægjuháttur Bandaríkjaforsetans Trumps gagnvart Rússlandsforsetanum Pútín er blaut tuska í andlit flestra forystumanna Evrópuríkjanna.  Úr því að Bandaríkjaþing ekki stöðvar þessa ósvinnu, er Bandaríkjunum héðan af ekki treystandi.  Ísraelsmenn treystu ekki Bandaríkjastjórn fyrirfram fyrir upplýsingum um 200 flugvéla loftárás sína á Íran aðfararnótt 13. júní 2025 af ótta við, að upplýsingarnar lækju til Kremlverja, bandamanna Írana.  Þetta ástand er algerlega óeðlilegt og óviðunandi. 

Við þessar örlagaríku aðstæður rísa Þjóðverjar upp og hlaupa í skarð Bandaríkjamanna í stuðningi við Úkraínumenn.  Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu var hlutfallið á milli fjölda sprengikúlna rússneska og úkraínska hersins 10:1, en er nú 2:1 og fer minnkandi.  Rheinmetall hefur tífaldað framleiðslu sína á sprengikúlum á 3 árum. 

 

Efnahagur Þjóðverja er ótrúlega öflugur.  Þeir hafa losað sig úr viðjum rússneskrar orkuafhendingar og við það a.m.k. tvöfaldaðist orkukostnaður heimila og fyrirtækja.  Nú eru þeir að umbylta Bundeswehr og halda Úkraínu uppi fjárhagslega og hernaðarlega.  Rússar senda hverja bylgjuna á fætur annarri af illa þjálfuðum og illa búnum hermönnum út í opinn dauðann án þess að  verða nokkuð ágengt. Loftvarnir Úkraínumanna fara batnandi, þótt enn sleppi of mikið í gegn.  Má þar nefna IRIS-T þýzka skammdræga loftvarnakerfið, sem þegar hefur gert mikið gagn.  Þá  eflist úkraínskur vopnaiðnaður með hverjum mánuðinum, og eru t.d. nú jafngildi þýzku Taurus-flauganna í fjöldaframleiðslu.  Bundnar eru vonir við úkraínska gagnsókn á 4. ársfjórðungi 2025. 

"Mitt í þessu pólitíska umróti glímir Þýzkaland við vaxandi áskoranir, sem ógna stöðu þess sem efnahagslegs stórveldis Evrópu.  Þar sem stríðið í Úkraínu heldur áfram að draga úr trausti fjárfesta, hefur þýzkur iðnaður enn ekki náð sér á strik, eftir að hætt var að flytja inn ódýra rússneska orkugjafa.  Á sama tíma hefur bílaiðnaðurinn verið eftirbátur erlendra keppinauta í skiptum frá bensínknúnum bílum yfir í rafbíla og útflutningur til Kína - þar sem hagkerfið er einnig í hnignun - hefur dregizt verulega saman." 

Við þessar aðstæður hefur þýzki ríkissjóðurinn aukið skuldsetningu sína, enda nýtur hann beztu kjara.  Friedrich Merz losaði um skuldabremsuna, enda liggur nú mikið við.  Framtíð Evrópu er í húfi.  Evrópuleiðtogar ætla ekki að leggja örlög hennar í hendur Trumps. Evrópa er nú fjárhagslegur og hernaðarlegur bakhjarl Úkraínu.  Úkraínumenn sýna mikla sköpunargleði í hernaðinum gegn innrásarlandinu og hergagnaiðnaðinum, sem Evrópa hefur eflt mjög. 

"Þó að flest önnur evrópsk hagkerfi [en það þýzka-innsk.BJo] standi frammi fyrir svipuðum áskorunum, gæti Ítalía staðið sig aðeins betur með Giorgiu Meloni sem forsætisráðherra - en færa má rök fyrir því, að hún sé áhrifaríkasti leiðtogi álfunnar.  Spánn og nokkur smærri hagkerfi, sérstaklega Pólland, gætu fyllt upp í tómarúmið, sem Þýzkaland og Frakkland skilja eftir sig.  En þau geta ekki að fullu vegið upp á móti slæmu ástandi efnahagslegu stórveldanna tveggja innan ESB."

Eftir að Friedrich Merz tók við kanzlaraembætti Þýzkalands eftir sambandsþingskosningarnar í febrúar 2025 á það ekki lengur við, að Meloni sé áhrifaríkasti leiðtogi leiðtogi Evrópu.  Skeleggur og einarður málflutningur Merz hefur orðið ríkjum Evrópu hvatning til mikils stjórnmálalegs og efnahagslegs átaks til að frjáls og lýðræðisleg Evrópa geti staðið á eigin fótum hernaðarlega og komið á friði í Evrópu, sem tryggi landamæri Úkraínu, aðild landsins að Evrópusambandinu og öryggi landsins gagnvart innlimunaráráttu og útþenslustefnu Rússlands.  Bandaríkjamenn standa gegn aðild Úkraínu að NATO, og er það enn eitt dæmið um þjónkun stjórnvalda þar í landi við Kremlarherrana.  Kreml kemur ekki við, hvernig Úkraína hagar varnarmálum sínum.  Í þeim efnum hafa Finnar sýnt fagurt fordæmi. 

  

  


Vitlaus viðmið Viðreisnar

Ekki skal efa, að samstaða sé innan ríkisstjórnar K. Frost. um breyttar forsendur við útreikninga s.k. veiðigjalda, en það eru Viðreisnarráðherrarnir í atvinnuvegaráðuneytinu, Hanna Katrín Friðriksson, og fjármála-og efnahagsráðuneytinu, Daði Már Kristófersson, sem forgönguna hafa.  Það eru engar traustar atvinnulegar, fjárhagslegar eða langframa skattalegar forsendur fyrir s.k. "leiðréttingu", heldur eru þær af pólitískum toga, sem er slæmt vegarnesti fyrir auknar álögur á undirstöðuatvinnugrein, sem fætt hefur af sér margvíslega sprota í atvinnulífinu, sem styrkt hafa allt atvinnulíf í landinu og er fagnaðarefni.

Gripnar eru á lofti gamlar lýðskrumsfullyrðingar til að "leiðrétta" gjaldskrána, en að manni læðist sá grunur, að "leiðréttingin" sé til þess ætluð að færa íslenzkan sjávarútveg niður á plan sjávarútvegs í Evrópusambandinu - ESB, sem er á þurfalingsplani, enda er ESB hið fyrirheitna land Viðreisnarfólks.  Ef þetta er ekki rétt, er hreinni fáfræði um íslenzkan sjávarútveg um að kenna, og er hvorugt beysið. Vinnubrögð Viðreisnarráðherranna eru frumstæð og benda til, að þeir séu að fullnægja djúpstæðum pólitískum hvötum sínum.  

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, þekkir hins vegar íslenzkan sjávarútveg, eins og handarbakið á sér.  Um það ber Morgunblaðsgrein hans 12. apríl 2025 glöggt vitni:

"Tvöföld verðlagning - tvöfaldir skattar".

Hún hófst þannig:

 "Meira en hálfri öld áður en kvótakerfi í fiskveiðum var innleitt hér á landi, var samtenging veiða og vinnslu orðin regla á Íslandi frekar en undantekning.  Eflaust á það rætur að rekja til legu landsins og möguleika þess tíma til verðmætasköpunar.  Í hundrað ár hefur þetta form verið hornsteinn í íslenzkum sjávarútvegi, og höfðum við það fram yfir Norðmenn, þegar kvótasetning fisktegunda varð ekki umflúin.  Þetta er ástæðan fyrir því, að stærstur hluti aflans í Noregi hefur verið fluttur óunninn úr landi, en á Íslandi er stærstur hluti aflans unninn á heimaslóð."

Vafasamir pappírar, sem eru ötulir við að sá fræjum tortryggni um kvótasettan íslenzkan sjávarútveg, hafa látið í veðri vaka, að samtvinnun veiða og vinnslu hafi verið fylgifiskur kvótasetningarinnar.  Þeim væri nær að kynna sér söguna áður en þeir fara á flot með fimbulfamb sitt um kvótakerfið og sjávarútveginn.  

Forsendubreytingar Viðreisnar á útreikningum veiðigjaldanna, s.k. "leiðrétting", er svo órökrétt og ósanngjörn, að segja má, að hún sé "út úr kú".  Hún tekur mið af uppboðsverði, sem erlendar, niðurgreiddar fiskvinnslur móta. Íslenzk stjórnvöld eru vísvitandi eða í fáfræði að skekkja stórlega eða eyðileggja samkeppnigrundvöll íslenzkra fyrirtækja með þessu uppátæki, sem ætla má, að stríði gegn íslenzkum lögum og jafnvel stjórnarskrá um atvinnufrelsi. 

"Um 20 % bolfiskaflans eru seld á íslenzkum fiskmörkuðum, og þar geta öll fyrirtæki keypt fisk, bæði þau, sem vinna aflann hér á landi og þau, sem flytja hann óunninn til útlanda.  Þarna komast erlendar fiskvinnslur í beina samkeppni við þær íslenzku um aflann.  Þær vinnslur eru niðurgreiddar, og laun, sem þar eru greidd, eru langtum lægri en gerist og gengur á Íslandi. Þar af leiðandi hafa þær í auknum mæli haft yfirhöndina í samkeppninni við Íslendinga um hráefnið, og í dag fara um 40 % af því til erlendrar fiskvinnslu, á meðan allur aflinn, sem fer í eigin vinnslur, er unninn hér á landi."

Þetta er ástæðan fyrir því, að með öllu er ótækt og felur í sér mikla skekkingu á samkeppnisstöðu íslenzkum fiskvinnslum í óhag að leggja þetta "íslenzka" uppboðsverð til grundvallar gjaldtöku af íslenzkri útgerð.  Verðið á ekki við íslenzkar aðstæður, því að það er mótað af greiðslugetu niðurgreiddra fiskvinnslufyrirtækja, þar sem er allt öðruvísi launamarkaður en hér.  Þarna er um það að ræða, að verðmyndun á 8 % bolfiskaflans er lögð til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi, sem nær engri átt.  Ætlar atvinnuvegaráðherra að vaða út í fenið og bera ábyrgð á að rústa fyrirtækjum á landsbyggðinni ?  Kjósendur í næstu sveitarstjórnar- og Alþingiskosningum munu kunna ríkisstjórnarflokkunum litlar þakkir fyrir, enda kom þessi vitleysa, eins og skrattinn úr sauðarleggnum.  

Ekki tekur betra við, þegar velja á verðviðmiðun fyrir uppsjávarafla. Atvinnuvegavegaráðherra hefur væntanlega leitað logandi ljósi að uppboðsverði slíks afla á Íslandi án árangurs, því að hún leitaði út fyrir landsteinana eftir uppboðsverði og fann það í Noregi.  Sú aðferðarfræði að leggja til grundvallar skattlagningu á Íslandi verð, sem myndað er í útlöndum við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, er ábyrgðarlaust og forkastanlegt fúsk og vafasamt, að standist íslenzk lög um skattheimtu. 

   "Samið er við sjómenn um tvenns konar  verðlagningu á afla upp úr skipi, og er það grunnurinn að launum sjómanna. Annars vegar er það hæsta verð, sem selt er á til þriðja aðila, gegnum fiskmarkaði eða með öðrum leiðum, og hins vegar hlutfall af afurðaverðmætinu, sem verður til, þegar unnið er úr aflanum í eigin vinnslum.  Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 1998 funda sjómenn og útgerðarmenn mánaðarlega um fiskverð til eigin vinnslu.  Samkvæmt samningum á milli þeirra skal það vera 80 % af skilaverði uppboðsmarkaðarins, sem að jafnaði skilar útgerðinni 55 % af útflutningsverðmæti afurðanna, en fiskvinnslan heldur eftir 45 %."

 Það er svo góð sátt um þessa skiptingu á milli sjómanna og útgerðarmanna, að þeir sömdu til 10 ára við gerð síðustu kjarasamninga sinna.  Þetta sýnir, að engin þörf er á að brjóta upp samtengingarkerfi útgerðar og vinnslu sjómanna vegna, en stundum láta lýðskrumarar að því liggja, að kerfið leiði til þess, að sjómenn séu hlunnfarnir. Kvótakerfið og þetta skiptakerfi hafa þvert á móti aukið öryggi á sjó (veiðar skipulagðar á grundvelli markaðarins, en ekki í neins konar kapphlaupi), aukið atvinnuöryggi sjómanna og jafnað vinnuálagið og bætt hag þeirra. Inngrip stjórnvalda í atvinnugrein með þeim hætti, að afkoma greinarinnar sem heildar rýrnar, eins og "leiðrétting" núverandi ríkisstjórnar er dæmi um, eru skaðleg og í þessu tilviki grunnatvinnuvegar stórskaðleg.  Þróunarstarfsemi sjávarútvegsins, sem leitt hefur til sprotafyrirtækja, sem mörgum hverjum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, veikist og verður vart nema svipur hjá sjón.  Markaðsvirði fyrirtækjanna minnkar vegna lægri arðsemi.  Þetta leiðir til hærri fjármagnskostnaðar og meiri skuldsetningar.  

"Nú ber svo við, að stjórnvöld horfa til kaupgetu erlendu fyrirtækjanna, þegar viðmið á skattstofni útgerða á Íslandi er ákveðið.  Verði sú raunin, verða skattar og gjöld á íslenzkar útgerðir grundvölluð á getu niðurgreiddrar fiskvinnslu í Evrópu, en ekki á þeim verðmætum, sem verða til á Íslandi.  Hættan við þessa nálgun stjórnvalda er þríþætt.  

Í fyrsta lagi: ef eingöngu verður um skattahækkun upp á milljarðatug að ræða, dregur það úr samkeppnishæfninni, stuðlar að samþjöppun og minnkar fjárfestingagetu fyrirtækjanna.

Í öðru lagi: ef fiskvinnslunni er gert með lögum að greiða það, sem erlendar niðurgreiddar fiskvinnslur geta borgað, fer öll afkoman yfir á útgerðina, og hvatinn til fjárfestinga í fiskvinnslu í landi hverfur.  

Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðarinnar, og samtenging veiða og vinnslu verður rofin, fáum við norsku afleiðingarnar með í kaupbæti, og íslenzk fiskvinnsla, eins og við þekkjum hana, heyrir sögunni til."

Þetta mál er lýsandi dæmi um það, sem stjórnmálamenn eiga að forðast eins og heitan eldinn, þ.e. pólitísk inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel og skilar mjög miklu til samfélagsins, án áhættugreiningar á inngripunum fyrir starfsemi greinarinnar og þróun skattspors starfseminnar. 


Vargur í véum vestanhafs

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur kúvent hefðbundinni stefnu Bandaríkjanna í mörgum mikilvægum málum, s.s. varnarmálum, utanríkismálum og viðskiptamálum.  Þetta hefur hann þó ekki gert með samþykki þingsins, hvorki Fulltrúadeildar né Öldungadeildar, eins og ætla mætti, að stjórnarskrá Bandaríkjanna áskildi í stórmálum, sem hér um ræðir, heldur með forsetatilskipunum. Það er ekki nóg með, að hann hafi sýnt hefðbundnum bandamönnum Bandaríkjanna fjandskap og lítilsvirðingu, heldur hefur hann hagað sér, eins og einræðisherra, sem hann gerir sér dælt við, Pútín, Rússlandsforseta.

Trump hefur stillt Bandaríkjunum upp sem bandamanni Rússlands gegn Evrópu og þar með Úkraínu.  Fjandskapurinn í garð Úkraínu hefur ekki farið á milli mála, eins og aðför að Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í marzbyrjun 2025 sýndi, og í kjölfarið tímabundin lokun á aðgengi Úkraínuhers að hernaðarlegum gervihnattagögnum og lömun radarvarna F16 orustuflugvéla, sem úkraínski flugherinn hafði fengið frá Danmörku og Hollandi.  Trump hefur ásælzt auðlindir Úkraínu neðanjarðar með mjög ósvífnum hætti og reynt að skilyrða slíka auðlindaeftirgjöf við áframhaldandi hernaðarstuðning.  Hann hefur þannig rekið harðsvíraða nýlendustefnu.  

MAGA (Make America Great Again) hreyfingin í Bandaríkjunum, sem Trump fer fyrir, hefur að mörgu leyti sömu stórveldastefnu og rússneski hugmyndafræðingurinn Alexander Dughin boðar í Rússlandi, þ.e. að nágrannaríki Rússlands eigi að beygja sig í duftið gagnvart útþenslustefnu Rússlands.  Þannig er MAGA á móti sjálfstæðri og óháðri Úkraínu, Kanada og Grænlandi.  Trump hefur farið fram af dæmalausri ósvífni með landakröfum á hendur Kanada og Danmörku.  Framkoma hans gagnvart evrópskum bandamönnum hefur rýrt traust þeirra gagnvart hernaðarstuðningi Bandaríkjamanna, komi til beinna hernaðarátaka við Rússland, t.d. í Eystrasaltslöndunum, í svo miklum mæli, að þeir þora ekki lengur að reiða sig á varnarmátt Bandaríkjanna, heldur hafa hafið endurvígvæðingu.  Þótt Þýzkaland sé fyrst nú þessa dagana að fá nýja ríkisstjórn eftir Sambandsþingskosningarnar 23.02.2025, hefur þingið samt veitt gríðarlegum fjármunum (allt að trnEUR 1) til þýzka hersins að frumkvæði verðandi kanzlara, Friedrich Merz.  Í Evrópu hafa orðið vatnaskil, og ríkin þar stefna á að fylla skarð Bandaríkjamanna, hvar sem því verður við komið.

Nýjasta uppátæki Bandaríkjaforseta er að tollsetja allar vörur til Bandaríkjanna. Ætlun hans með því er að rétta af vöruskiptahalla Bandaríkjanna og laða framleiðslustarfsemi til þeirra.  Hvorugt þessara ætlunarverka mun takast með því að fara í tollastríð við umheiminn.  Ef viðskiptajöfnuðurinn er neikvæður, er það merki um of sterkan USD, og sáralítið mun verða um fjárfestingar í vöruframleiðslu í Bandaríkjunum í skjóli tolla, því að markaðirnir eru einfaldlega að glata tiltrú á Bandaríkjunum í ljósi stjórnarhátta Donalds Trumps.  Þetta kom greinilega í ljós miðvikudaginn 9. apríl 2025, þegar greinileg merki voru um, að Trump væri að steypa Bandaríkjunum í fjármálakreppu.  Það var ekki nóg með gríðarlegt fall á hlutabréfamörkuðum, um trnUSD 10 á heimsvísu, heldur tóku skuldabréf að falla líka, einnig skuldabréf ríkissjóðs Bandaríkjanna.  Ríki, sem Bandaríkjastjórn hefur beitt háum tollum, eiga mikið af þessum ríkisskuldabréfum, og þau hika ekki við að selja þau til að koma Bandaríkjunum á hnén.  Þetta gerðist einmitt ofangreindan miðvikudag, þegar Trump kastaði hvíta handklæðinu inn í hringinn og lýsti yfir 90 daga hléi á þessu tollastríði, nema við Kína.  Hann mun verða að lúta í lægra haldi fyrir Kínverjum í þessu tollastríði m.a. vegna þess, að Kínverjar eiga  mikið af þessum bréfum, geta veikt USD og valdið verðbólgu í Bandaríkjunum.

Enginn forseti í sögu Bandaríkjanna hefur framið jafnstórkarlaleg mistök í upphafi kjörtímabils og Donald Trump á þessu seinna kjörtímabili sínu.  Mistökin eru legio, en þau verstu eru tollastríð hans gegn öllum heiminum, sem hafa dregið mjög úr hagvexti í heiminum og gætu hrint honum í samdráttarskeið, og Bandaríkin stóðu frammi fyrir fjármálakreppu, þegar Donald dró í land.  Hann hefur þegar valdið gríðarlegu tjóni með uppátæki sínu, og traustið til USD sem varasjóðsmyntar og til bandarískra stjórnvalda hefur þegar beðið alvarlegan hnekki.  Þetta eru hentistefnustjórnvöld, sem reka úrelta stefnu um skiptingu heimsins á milli þriggja víðáttumikilla ríkja, Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.  Hin mikla stefnubreyting gagnvart Evrópu er, að þessi stefna virðist eftirláta Rússum Evrópu.  Af þessum sökum reykspólar Evrópa nú með þungar fúlgur fjár við vígvæðingu.  Evrópa ætlar ekki að þurfa að berjast við Rússa í Berlín, og þess vegna verður öll áherzla lögð á varnir hins gamla yfirráðasvæðis Ráðstjórnar-Rússlands í Evrópu, þ.m.t. Úkraínu.

Það kann að vera, að núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna vilji flokka Ísland sem yfirráðasvæði sitt, sbr hegðun þeirra gagnvart Dönum og Grænlendingum.  Þetta á þó eftir að skýrast, en kæra Íslendingar sig um að vera á yfirráðasvæði stjórnvalda, sem haga sér eins og Trump-stjórnin ?  Við ákvarðanatöku hér þarf að greina stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum, þ.e. hvort líklegt sé, að flæða muni senn undan MAGA-hreyfingunni.

 


Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?

Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu.  Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu.  Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir.  Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð.  Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.  

Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont.  Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands.  Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni. 

Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum.  Greinin nefndist: 

"Bókun 35 við EES-samninginn".

Hún hófst þannig:

"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna.  Ákvæðið hljóðar svo:

"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað.  Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."

Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."

Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu.  Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu.  Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.  

Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:

"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."

Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega. 

"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa.  Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf.  Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi." 

Undirstrikunin er pistilhöfunfdar.  Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni.  Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.

"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig.  Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á.  Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess.  Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess.  Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."

Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins.  Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni.  Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum.  Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.  

Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más.  Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:

"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35.  Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.  

Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."

Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá.  Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.

 


Yfirgangur Bandaríkjanna keyrir um þverbak

Þann 28.02.2025 varð heimsbyggðin vitni að óheyrilegum lygum og dónaskap forseta og varaforseta Bandaríkjanna í garð gests síns í forsetaskrifstofu ("Oval Office") í Hvíta húsinu.  Gesturinn að þessu sinni var Volodimir Zelensky, rétt kjörinn forseti Úkraínu og með nýlega einróma stuðningsyfirlýsingu úkraínska þingsins í farteskinu.  Framkoma bandarísku ráðamannanna var ruddaskapur og dónaskapur af verstu gerð, sem sýnir, að nú hafa Bandaríkin tekið sér stöðu með Rússlandi og fleiri einræðisríkjum um þá nýju skipan heimsmálanna, að í stað laga og réttar, sem Bandaríkin hafa stutt af kostgæfni hingað til, skuli ráða réttur hins sterka.  Þetta þýðir í raun klofning NATO, og að Evrópa stendur nú ein og verður að sjá um varnir sínar sjálf og taka að sér að standa ein með Úkraínu gegn innrás Rússa í landið, sem er þáttur í heimsvaldastefnu Kremlar. 

Það er orðin spurning, hvort varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 er Íslandi byrði eða ávinningur, því að forseti Bandaríkjanna virðist meta allt til fjár án þess að ráða við það.  Þetta eru firn mikil, og það hlýtur að ríkja hneykslan, fordæming og reiði í mörgum ranni fyrir vestan núna, einnig á Bandaríkjaþingi.  Það, sem gerzt hefur, að forseti Bandaríkjanna gerist málpípa og bandamaður stríðsglæpamannsins á æðsta valdastóli Kremlar, er svo alvarlegt, að það hlýtur að vekja marga þingmenn á Bandaríkjaþingi upp við vondan draum, svo að unnt verði að virkja reglur um brottvísun úr starfi forseta Bandaríkjanna. Hér er alls ekki allt með felldu, svo að lögsókn gegn forsetanum verður ekki útilokuð.

Þann 25.02.2025 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra, undir lýsandi fyrirsögn:

"Nýlenduveldið Rússland"

Hún hófst þannig:

"Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð.  Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár.  Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu, þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO.  Það, sem gleymist, er ekki sízt að huga að því, hvers konar land Rússland er."

Rússland er og hefur verið frá 17. öld heimsvaldasinnað ríki í nánast stöðugri útþenslu. Ef þessi útþensla verður ekki varanlega stöðvuð núna í Úkraínu, mun hún halda áfram að Eystrasalti og til vesturs.  Árásargjarnt ríki á ekki að fá að ráða örlögum nágrannaríkja sinna.  Þannig á ekki að hlusta á gjammið í Kreml, þegar NATO-aðild og ESB-aðild Úkraínu er til umræðu. Donald Trump hefur valdið straumhvörfum í alþjóðamálum.  Hann hefur tekið sér stöðu með Rússlandi Pútíns og þvertekið fyrir aðild Úkraínu að NATO.  Bandaríkin glata þessa dagana trúverðugleika sínum og trausti vestrænna bandamanna sinna með því að taka afstöðu með Rússlandi við atkvæðagreiðslur innan Sameinuðu þjóðanna. Evrópa virðist standa ein uppi í baráttunni gegn árásargjörnu og glæpsamlegu Rússlandi.  Með framferði stjórnvalda í Bandaríkjunum munu þau standa uppi vinalaus og verða innlendri upplausn að bráð, en Evrópa mun axla sína ábyrgð og taka forystu á meðal lýðræðisþjóða í baráttunni gegn landvinningum einræðisríkisins Rússlands. 

Hvernig mun núverandi Bandaríkjastjórn taka á Kína ?  Gort Bandaríkjaforseta um eigið ágæti og samningatækni er innantómt bull og ekkert skárra en aðrar lygar hans.  

"Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess, að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig.  Þegar horft er til sögunnar, má sjá, að ríki fara ekki í stríð, nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi.  Rússar reyndu í mörg ár, en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi. 

Það, sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO.  Efalítið eru það þættir, sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins.  En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu, verður ekki hjá því komizt að álykta, að skýringanna er ekki sízt að leita í nýlendustefnu, sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir, að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert."

Það er þyngra en tárum taki, að fyrrverandi forysturíki hins vestræna heims skuli nú hafa svikið lit og tekið sér stöðu með þessu árásargjarna og frumstæða ríki, Rússlandi, sem leynt og ljóst reynir að grafa undan lýðræðinu í heiminum. Hvað í ósköpunum kom fyrir ?  Hvers vegna gengur forseti Bandaríkjanna nú erinda Kremlverja ?  Eru það hagsmunir Bandaríkjanna ?  Það verður ekki séð.  Eru það hagsmunir Donalds Trumps ?  Það á eftir að koma í ljós, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar. 

Nýjasta illvirki Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu er að hætta að deila upplýsingum til Úkraínumanna um eldflaugar og herflugvélar, sem hefja sig á loft frá yfirráðasvæði Rússlands ásamt upplýsingum um herflutninga Rússa á landi.  Þetta hefur valdið því, að Úkraínuher á erfiðara með að verjast árásum Rússa, einnig á borgaraleg skötmörk.  Þá hafa Bandaríkjamenn dregið úr notagildi F16 herflugvéla flughers Úkraínu með því að gera óvirkan truflanabúnað þeirra fyrir rafeindamerki.  Það mun taka Evrópu a.m.k. 2 mánuði að fylla þetta skarð, en mrdUSD 800 viðbótar fjárveiting ESB á 4 árum er skýrt merki frá ESB um, að þar á bæ er ætlunin að verða óháður Bandaríkjunum í öryggismálum, enda er augljóslega ekki hægt að treysta Bandaríkjunum.  


Varnir í skötulíki ?

Stórnotendur rafmagns hafa verið við lýði í landinu síðan 1969, en enn er raforkukerfið vanbúið að hýsa þau og búnað skortir til að bregðast sómasamlega við miklum álagssveiflum, þannig að aðrir raforkunotendur en sá, sem sveiflunni veldur, verði ekki fyrir tjóni. 

Stórar spennusveiflur verða eðlilega, þegar kerskáli í álveri er rofinn frá sinni afriðlastöð. Hið skrýtnasta við fréttir af atvikinu um hádegisbil 2. október 2024 er, að Norðurál heldur því fram, að um viðhaldsaðgerð hafi verið að ræða.  Sé svo, átti hún að fara fram í fullu samráði við Landsnet, sem þá gafst tækifæri til að velja tímasetningu og gera ráðstafanir til spennulækkunar í kerfinu.  Það er afar ósennilegt, að Landsnet hafi valið hádegisbil á virkum degi til prófunar á kerfisviðbrögðum af þessu tagi.  Það hefur ekki komið fram, hvort um annan eða báða kerskála Norðuráls var að ræða. 

Vatnsorkuverin í Þjórsá/Tungnaá brugðust hratt við, en ekki hafa borizt fregnir af viðbrögðum Hellisheiðarvirkjunar og annarra gufuaflsvirkjana sunnanlands.  Hins vegar virðast jarðgufuvirkjanirnar í Þingeyjarsýslu hafa brugðizt of hægt við, því að í Þingeyjarsýslum varð tjónið mest vegna yfirspennu.

Um það leyti, sem truflunin varð, hefur aflflutningur væntanlega verið til suðurs og verið rofinn á Grundartanga við spennuhækkunina.  Við það verður spennuhækkun á Norðurlandi.  Spyrja má, hvort sömu viðbrögð hefðu ekki orðið með 220 kV línu að norðan, en Landsnet gerir mikið úr því, að línan sé fimmtug 132 kV lína.  Alls ekki skal hér gera lítið úr þörfinni á að leysa hana af hólmi með nýrri 220 kV línu, en það er vegna ófullnægjandi flutningsgetu. Allar einingar kerfisins verða að þola snöggt brottfall stærsta álagsins, og því er greinilega enn ekki að heilsa.  Það er hneisa í landi með mestu orkunotkunina á mann í heiminum.

Óskar Bergsson gerði þessu atviki skil í Morgunblaðinu 4. október 2024 undir fyrirsögn, sem ekki er víst, að kasti ljósi á aðalsökudólgana:

 "Veikasta svæðið þoldi ekki höggið".

Fréttin hófst þannig:

""Höggið á kerfið varð vegna þess, að álverið leysti út og því varð þessi keðjuverkun á veikasta svæðinu, sem var byggðalínusvæðið.  Virkjanirnar, sem eru tengdar við sterkasta kerfið, gátu skrúfað niður framleiðsluna hjá sér til að bregðast við þessu", segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets um ástæðu þess, að stór hluti landsins varð rafmagnslaus í fyrradag. Mikið tjón varð af völdum rafmagnstruflana, í einstaka tilvikum upp á tugi milljóna ISK, en vel á annað hundrað tjónatilkynningar höfðu borizt RARIK í gær."

Eftir að aflflutningurinn suður um Byggðalínu hafði verið rofinn, hefur tíðnin væntanlega hækkað um hríð á Suðurlandi, en vatnsaflsvirkjanirnar náð að regla sig niður.  Meira ójafnvægi hefur orðið á Norðurlandi með jarðgufuvirkjanir á fullu álagi (til að spara vatn), og Fljótsdalsvirkjun e.t.v. líka að keyra suður. 

Guðmundur Ingi notar þetta tækifæri ekki opinberlega til að rýna í það, sem var ábótavant í sjálfvirkum kerfisviðbrögðum, heldur til að blanda að mestu óskyldu máli inn, sem er hneykslanlega langur undirbúningstími fyrir flutningslínur.  Í ESB Orkupakka 4 tekur leyfisveitingaferlið mest 2 ár, en á Íslandi tífalt lengri tíma.  Er kyn, þótt keraldið leki ? 

""Við höfum lagt mesta áherzlu á að komast í Blöndulínu 3, en það kann að vera, að sú framkvæmdaröð breytist eftir því, hvernig gengur að klára leyfisferlið, sem er gríðarlega flókið og erfitt. Til þess að fá leyfi fyrir raflínum þarf fyrst að klára umhverfismat og skipulag, sem síðan fer í umsagnarferli.  Að því loknu þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum, og samhliða því þarf að semja við landeigendur.  Í þessu ferli opnast mikið af kæruleiðum, sem hafa tafið málin.""

Það er geisilega mikið í húfi að tengja Akureyri með traustum hætti báðum megin frá.  Þetta s.k. leyfisveitingaferli er leikaraskapur, enda lagt upp með ósköpin í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms.  Þar er búinn til leikvöllur fyrir sérvitringa og afturhald landsins í formi félagasamtaka eins og Landvernd.  Þessi fíflagangur hefur valdið gríðarlegum töfum, kostnaði og tekjutapi og verður að afnema hið fyrsta.  Evrópusambandið er búið að yfirtaka þessi mál með sínum 4 orkupökkum, þannig að hámarks umþóttunartími yfirvalda hvers lands eru 2 ár.  Orkupakkar ESB gilda sem lög á Íslandi, og munu væntanlega úrelda fíflaganginn, sem er við lýði á Íslandi, þegar Orkupakki 4 tekur hér gildi, en það er allt of langt að bíða eftir því, svo að orkuráðherra ætti að rumska og afgreiða svipaðar reglur og gilda í ESB sem frumvarp til Alþingis. 

"Guðmundur Ingi segir nauðsynlegt að endurskoða þetta ferli og gera það skilvirkara án þess að slá af kröfum, ef markmiðið um orkuskipti eigi að nást. 

"Við erum komin á skrið með þessar línur allar í góðu samstarfi við sveitarfélög og erum að koma þessum verkefnum inn á skipulag og klára umhverfismatið."

Hann segir vinnu við Blöndulínu 3 hafa staðið yfir í 20 ár, og það séu deilur af ýmsum toga, sem hafi tafið framkvæmdina."

 

 


Átrúnaðargoðið gallað

Á Alþingi er margt fólk, sem ákallar evruna með svipuðum trúarhita og sameignarsinnar ákölluðu Ráðstjórnarríkin og blóði drifið alræðisstjórnkerfi þeirra á sinni tíð.  Af máli evrusinna í Viðreisn og Samfylkingu má ráða, að þeir telji inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evrunnar sem lögeyris frelsun Íslendinga undan ánauð hárra  vaxta og verðbólgu.  Jafnvel þetta fer þó á milli mála, þegar þróun þessara mála í löndum ESB, t.d. í Eystrasaltslöndunum, er skoðuð.  Hitt er þó aðalatriðið, að það er grunnhyggið viðhorf að reisa skoðun sína á yfirborðslegri athugun í stað þess að kryfja málið til mergjar. 

Það hefur lengi verið áhyggjuefni í Evrópu, hversu mjög verg landsframleiðsla og lífskjör í ESB hafa dregizt aftur úr Bandaríkjunum.  Framkvæmdastjórn ESB fékk þess vegna fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt am Main og fyrrverandi ítalskan forsætisráðherra, Mario Draghi, til að greina ástæður hagvaxtarvanda ESB-ríkjanna og gera tillögur til úrbóta.  Draghi benti á, að frá upptöku evrunnar hefur framleiðni vinnuafls í ESB sem hlutfall af framleiðni vinnuafls í Bandaríkjunum minnkað.  Það er freistandi að nota tölfræði til að slá fram bólgnum fullyrðingum.  Þetta er vissulega sláandi samhengi, þótt fleiri skýringar megi tína til, sem þá magna afturförina í ESB. 

 

Nú hefur komið fram gagnrýni á Draghi fyrir að minnast ekki á evruna sem eina af fleiri skýringum á afturför eða stöðnun í hagkerfum ESB-landanna.  Kannski vill bankastjórinn fyrrverandi ekki kasta rýrð á evruna, því að staða hennar er viðkvæm og veikari en Bandaríkjadalsins, á meðan evru-ríkin eru ekki með sameiginlegan ríkissjóð og fjárlög, en það verður líklega eftir að frýs í helvíti. Þann 30. september 2024 birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við dr Jón Helga Egilsson undir fyrirsögninni:   

"Aukin samvinna krefst ekki evru".

"Dr Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða, en þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi.  Jón Helgi bendir á, að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi, en sú staðreynd sé ekkert rædd.  "Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum.  Það vita það allir, að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa, og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni.  Af hverju má ekki ræða það, ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu."

Það er skiljanlegt, að fyrrverandi aðalbankastjóri evrubankans í Frankfurt am Main eftirláti öðrum að benda á hinn augljósa sökudólg, til að hann verði ekki sakaður um að grafa undan evrunni, en hann birtir í staðinn graf, sem sýnir, að framleiðni vinnuafls í ESB hætti að vaxa, þegar Maastricht-sáttmáli evrunnar sá dagsins ljós, og hefur lækkað síðan.  Þetta eru a.m.k. ekki meðmæli með evrunni.  Hagsveiflan á Íslandi er ekki í góðum takti við hagsveiflu þungamiðju evrunnar, og þess vegna mundi íslenzkt hagkerfi verða á meðal þeirra, sem líða fyrir að nota evru sem lögeyri. Pólitískum sprelligosum er ekki gefin rökhugsun, en telja sig geta flotið á tilfinningum sínum og upphrópunum.  Almenningur sér í gegnum innantóman fagurgalann.

"Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum, sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins.  Í umræðunni, sem spunnizt hefur um skýrslu Draghis, hefur m.a. verið bent á, að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan."

Það er þó fleira, sem hér kemur við sögu, og ber fyrst að nefna fleiri og öflugri árangurs og afkastahvata efnahagskerfis BNA en ESB, lægri skattheimtu og minni opinber umsvif, sem alls staðar eru dragbítar á hagkerfið.  Orkuverð, bæði á jarðefnaeldsneyti og rafmagni, er lægra í BNA en í ESB.  Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, sem glíma við háa skattheimtu og mikil opinber umsvif.  Það, sem bjargar lífskjörunum á Íslandi, er há framleiðni grunnatvinnuveganna (ekki túrismans) og lágt raforkuverð til almennings. Með ríkisstjórn undir forystu Samfylkingar og án Sjálfstæðisflokks verður skattheimtan aukin, ríkisbáknið þanið enn meira út og ríkissjóður látinn safna enn meiri skuldum.  Þessi stefna jafnaðarmanna, sem hefur t.d. verið stunduð undanfarinn áratug við stjórnun Reykjavíkurborgar, mun raska jafnvæginu í hagkefinu, kynda undir verðbólgu og reka hagvöxt niður að núlli. Allt þetta lækkar ráðstöfunartekjur heimilanna.

"Að mati Jóns Helga má samt ekki hunza áhrif evrunnar.  "Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðla, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og famleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun ?  Sameiginlegur gjaldmiðill er eðli málsins samkvæmt ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja.  Lönd, eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla, sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar", segir hann.  Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun, nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem slíku fylgja, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.""

Íslendingar urðu illilega fyrir barðinu á téðri fjármálakreppu 2007-2009, en lífskjaraáfallið hefði orði enn stærra en sem nam 6 % samdrætti landsframleiðslu og varað lengur en 4 ár, ef landið hefði þá verið í ESB og með evru sem lögeyri.  Þótt ISK (og seðlabanki hennar) sé ekki lamb að leika sér við, er hún þó eins konar öryggisloki fyrir hagkerfið og lífskjör almennings. Samfylking og Viðreisn eru fús til að fórna hagvexti og þar með lífskjörum almennings til að fullnægja pólitískri meinloku sinni. 

"Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um, að aðildarríki verði að nota evru.  "Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu, og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli ?  Hann skiptir heldur betur máli", segir Jón Helgi og bætir við, að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað."  

Þetta eru tímabærar umræður á Íslandi nú í aðdraganda kosninga, þegar sumir líta öfundaraugum til þjóða með evru sem lögeyri og benda á lægra vaxtastig en hér tíðkast.  Á þeim peningi eru þó 2 hliðar.  Þjóðverjar, sem eru miklir sparendur, eru óánægðir með lágt vaxtastig evrubankans, sem hefur gefið þeim afar lága raunvexti m.v. það, sem tíðkaðist á dögum DEM.  Á Íslandi eru líka margir sparendur, einkum í eldri kantinum, þrátt fyrir vinstri dellu um fjármagnstekjuskatt og skattheimtu af verðbótum. Ráðstöfunartekjur launa á Íslandi eru með þeim hæstu, sem þekkjast í Evrópu, og veitir ekki af vegna hás verðlags.  Allur samanburður á milli landa er flókinn.    

 

 


Stríð í Austur-Evrópu

Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna.  Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess.  Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.  

Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf.  Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.  

Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar.  T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða.  Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.  

Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi.  Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð.  Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin.  Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.

Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls. 

Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa.  Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz.  Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.

  Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð. 

Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Glataðir leiðtogar".

Hún hófst þannig:

"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar.  Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.  

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði.  En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist. 

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla.  Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."

Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins.  Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó.  Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig.  Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri.  Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár.  Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu.  Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega.  Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi. 

"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum.  Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.

 Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."

Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði.  Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna.  Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.

Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar.  Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland.  Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það.  Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring.  Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.

"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum.  Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu.  Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills. 

Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."

Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis).  Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá.  Mun Kamala Harris taka af skarið ?

 

 

 


Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


Forsetaembætti í mótun

Segja má, að forsetaembættið á Íslandi sé dálítið kindugt m.v. það, sem annars staðar þekkist.  Þar sem meginhlutverkið er þjóðhöfðingjahlutverkið (head of state), en pólitísk völd afar takmörkuð, þar er yfirleitt hafður sá háttur á, að þjóðþingið velur forsetann, og gefur þá auga leið, að stjórnmálaflokkarnir hafa þar hönd í bagga, og það getur sett sitt óheppilega mark á störf forsetans.  Í frumvarpi til Alþingis um stofnsetningu forsetaembættis var m.v. þennan hátt, en þingið breytti þessu fyrirkomulagi við sína umfjöllun og gerði forseta þjóðkjörinn í lögunum. Það breytir stöðu forsetans til hins betra og styrkir hann í aðhalds- og eftirlitshlutverki með Alþingi.

Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að halda sig til hlés við val á forseta, en það þýðir ekki, að frambjóðendur hljóti að vera ópólitískir.

Það er einsdæmi á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, að forsætisráðherra stigi niður af valdastóli og sækist eftir þjóðhöfðingjaembætti með afar takmörkuð völd.  Þennan fordæmalausa gjörning framdi Katrín Jakobsdóttir um páskana 2024 og hefur síðan lýst því yfir, að hún vilji sameina þjóðina að baki sér.  Það er útilokað, að fyrrverandi ráðherra, sem stóð að lagasetningu um Icesave-nauðungina tvisvar sinnum að þarflausu, eins og síðar kom í ljós við úrskurð EFTA-dómstólsins í janúar 2013, og sem er andsnúin aðild Íslands að NATO, njóti nægilegs trausts þorra þjóðarinnar.  Borgaraleg öfl ættu að hugleiða rækilega, að einstaklingur með slíka fortíð og pólitískar jaðarhugmyndir um lífshagsmuni elur í raun á sundrungu á meðal þjóðarinnar, ekki sízt með búsforræði á Bessastöðum. 

Framganga umdeilds stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar, hefur að vonum ekki verið hnökralaus, en gengi sitt í skoðanakönnunum má hann sennilega þakka PR-kæti sinni og landsþekktum makanum Felix Bergssyni, en Baldur verður þó aldrei "forsetalegur" talinn og skortir fyrirmannafas.  Hann beit höfuðið af skömm sinni um daginn, þegar hann var spurður, hvernig hann hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave.  Hann bar þá við minnisleysi, þannig að svar kom ekki.  Hvort sem hér er um óheilindi að ræða hjá Baldri eða alvarlega heilahrörnun, dæmir þetta atvik hann úr leik, ef allt er með felldu. 

Baldur hefur lengi verið ötull talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB).  ESB var meðflutningsaðili Breta og Hollendinga að þessu máli gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, og ýmsir fylgjendur ESB-aðildar fylgdu vinstri stjórninni 2009-2013 að málum í afstöðunni til Icesave-deilunnar.

Forstjóri Orkustofnunar (OS), Halla Hrund Logadóttir, er í framboði og hefur hlotið ótrúlega gott gengi í skoðanakönnunum.  Skyldi hún hafa verið krufin um stjórnmálaskoðanir sínar, t.d. um afstöðuna í utanríkismálum ?

Morgunblaðið brá birtu yfir kynningarmál þessa frambjóðanda með frétt 27. apríl 2024, sem setur stjórnarhætti Höllu Hrundar ekki í gott ljós, en forsetaframbjóðandi ætti að þurfa að hafa flekklausa ferilskrá til að ná góðum árangri í kosningum:

"Samskiptastjóri OS í frí og kosningastarf":

"Meginreglan hjá ríkinu er, að auglýsa beri laus störf og að þau séu ótímabundin, en í afmörkuðu verkefni má nota tímabundnar ráðningar eða þjónustu verktaka, yfirleitt til tveggja mánaða.

Ekki er ljóst, hvort það eigi við Karen [Kjartansdóttur, samskiptastjóra OS [Orkustofnunar] í verktöku - innsk. BJo], sem þar hefur starfað samkvæmt samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda.  [Það er ljóst, að starf samskiptastjóra OS er ekki tímabundið verkefni til 2 mánaða eða annars stutts tíma, og þess vegna hefur Orkumálastjóri farið á skjön við ráðningareglur ríkisins með þessum gjörningi gagnvart Langbrók ehf.  Þegar greiðsluupphæð OS fyrir þessa þjónustu er skoðuð, virðist vera komið efni í úttekt Ríkisendurskoðanda á stjórnarháttum í OS - innsk. BJo.]

Ekki liggur heldur fyrir, hvort verkefnið var auglýst, eins og venja er [vildargjörningur ?], en það er ekki að sjá á vef OS eða félagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á lausum störfum.

Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. marz 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi.  Aðrir starfsmenn Langbrókar munu sinna verkefnum OS [á] meðan Karen er í leyfi, en ljóst, að hún hefur a.m.k. í tæpar 3 vikur samtímis sinnt störfum fyrir bæði Orkustofnun og forsetaframboð Höllu Hrundar."

Þarna er flett ofan af of veikri hagsmunagæzlu Höllu Hrundar fyrir ríkissjóð, sem hún er á launum hjá, þegar einkahagsmunir hennar sjálfrar eru annars vegar.  Þetta er merki um siðferðisbrest, sem taka ber alvarlega hjá einstaklingi í forsetaframboði, og rétt fyrir kjósendur að taka sem viðvörun um, að þeir kunni að vera að kaupa köttinn í sekknum með því að kjósa þann sama einstakling sem forseta lýðveldisins. 

 "Í samninginum er sérstaklega kveðið á um hagsmunaárekstra, og að það sé á ábyrgð Langbrókar ehf. og Karenar að fyrirbyggja slíkt.  [Í þessu tilviki fær Halla Hrund Karen til að starfa að kynningarmálum framboðs síns, þótt Halla viti ósköp vel, að Karen vinnur áfram sem verktaki fyrir Orkustofnun.  Þetta er fingurbrjótur Höllu Hrundar - innsk. BJo.]

Allt frá því, að fyrrgreindur samningur var gerður, hefur Orkustofnun greitt Langbrók MISK 12,8 samkvæmt opnum reikningum ríkisins.  Langbrók hefur unnið að ráðgjöf fyrir ýmsa aðila aðra, þ.á.m. Landsvirkjun, Landsnet, Norðurál og Alcoa Fjarðaál. 

Í samninginum var kveðið á um, að Langbrók héldi sundurliðað verkbókhald, en við eftirgrennslan OS kom í ljós, að slíkt yfirlit hefur ekki fylgt með reikningum.  Stofnunin hyggst framvegis fylgja því eftir, að verkbókhald og/eða tímaskýrslur fylgi reikningum."

Hver hefur heimild til að samþykkja reikninga frá verktakanum Langbrók ehf. án fylgiskjala, sem áskilin  eru í pöntuninni ?  Hér er um að ræða meiri háttar lausatök í stjórnsýslu OS á ábyrgð forstjórans, Höllu Hrundar Logadóttur.  Upphæðin, MISK 12,8, er þó ekki smáræði fyrir vinnu Karenar í heilt ár, sem enginn veit í hverju var fólgin.  Hefur einhver heyrt þennan samskiptastjóra koma fram fyrir hönd OS ?

Nú er ljóst, að frambjóðendur í forsetakjöri 2024 verða 12 (postulatalan).  Starfslýsing forsetans er ófrágengin í stjórnarskránni, og ekki hefur reynzt ráðrúm á lýðveldistímanum til að gera hana skýrari.  Þó er ljóst, að forseti á að forðast að blanda sér í ríkisstjórnarmálefni, nema hann telji ríka ástæðu til, t.d. að ríkisstjórn og Alþingi brjóti ákvæði stjórnarskrár eða hafi samþykkt mál að óþörfu í andstöðu við verulega hagsmuni þjóðarinnar.  Þá getur hann gripið til neyðarúrræðis, sem er að vísa ágreiningsefni forseta og ríkisstjórnar/meirihluta þings í dóm kjósenda.

Ef forseti stendur sig vel í starfi, er hann aðhalds- og eftirlitsaðili með löggjafar- og framkvæmdavaldinu.  Hann fylgist með störfum þeirra og kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við forsætisráðherra reglubundið og les allt rækilega yfir áður en hann staðfestir skjöl með undirritun sinni.  Þá eru ótaldir Ríkisráðsfundirnir, þar sem forseti hittir alla ríkisstjórnina. 

 

Þótt sviptingar við ríkisstjórnarmyndun séu ótaldar, er ljóst, að forseti, sem ætlar að vera miklu meira en upp á punt, þarf að hafa bein í nefinu og leggja fram mikla vinnu.  Hann þarf að hafa ferilslýsingu, sem styður, að hann geti leyst þetta af hendi. 

Það blasir við, að einn frambjóðendanna er sem sniðinn í þetta alvöru hlutverk æðsta embættis landsins. Hann er vel að sér um stjórnskipun landsins og landshagi, gagnmenntaður innan lands og utan og hefur setið á Alþingi (sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er ekki lengur flokksbundinn), og hann er þjálfaður við að kryfja mál til mergjar.  Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES.  Íslenzkir embættismenn hafa tekið upp á því að blýhúða þessa löggjöf, þ.e. að gera hana meira íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning en efni standa til, en verst er, að sumt frá Brüssel samræmist illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá.  Neyðarhemil væri ómetanlegt að hafa í þessum efnum á Bessastöðum, en af 12- menningunum, sem valið stendur um 2024, er aðeins einn, sem líklegur er til að koma að haldi í þeim efnum, og hann heitir Arnar Þór Jónsson. Þetta fékkst rækilega staðfestst í Sjónvarpsumræðum allra frambjóðendanna hjá Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 3. maí 2024.  

 

 

  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband