Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
15.2.2025 | 17:09
Staðsetning virkjana skiptir máli
Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra. Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið. Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ? Eru það bara orðin tóm ?
Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi:
"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"
Þar mátti m.a. lesa:
"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana. Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027. Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina.
Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun. Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga. Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu. Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."
Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum. Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið. Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".
3.2.2025 | 17:49
Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB
Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands. Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.
Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot". Á hún yfirleitt við á Íslandi ? Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð. Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ? Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina.
Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði. Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér.
Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"
Þar kom m.a. fram:
"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.
Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar. Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun.
"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."
Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar. Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra. Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa ána ? Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ? Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess. Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.
""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi. Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir. Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:
"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."
Dómurinn er hæpinn. Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt. Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt. Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru.
22.1.2025 | 18:03
Sólhvarfastjórnin lömuð ?
Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði. Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi. Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun. Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?
Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi. Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu. Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum. Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.
Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum. Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"
Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta.
Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum. Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.
Grein Elíasar hófst þannig:
"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir. Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar. "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan. Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"
Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum. Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ? Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum. Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust. Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði. Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?
Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.
Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra. Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara. Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska. Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið.
"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun. Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar. Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir."
Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi. Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra. Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru. Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011. Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi. Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn.
"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni. [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna. Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram. Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi. Það getur orðið dýr orka. Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.
Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda. Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ? Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?"
Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver. Við þurfum á hámarksnýtingu að halda. Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga. Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð. Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu. Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir.
Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar. Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn. Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind. Orkuverðið verður 110 USD/MWh. Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana.
"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega. Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur. Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála. Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt. Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis. Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna.
Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni. Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum. Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"
Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning. Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi. Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.
4.1.2025 | 18:25
Hlutverk vindorkuvera á Íslandi
Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins. Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver. Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir. Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg.
Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku. Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári. Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu. Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.
Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar. Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu). Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni.
Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn en þarf til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun. Þarna er því ólíku saman að jafna. Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla. Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum. Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni.
Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C. Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ. Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005. "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu. Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði. Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun. Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2.
Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Loftslagsmál og orka",
er m.a. fjallað um orkuskipti:
"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum". Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.
Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta. Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."
Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum. Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum. Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð. Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun.
Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt. Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum. Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum. Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana.
Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a. eftirfarandi að segja:
"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra. Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps. Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar. Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku. Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti."
Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis. Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings. Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa. Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar. Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.
7.12.2024 | 18:30
Eldsneytisframleiðsla á Íslandi
Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi. Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti. Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum. Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.
Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan. Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW. Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana. Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).
20.11.2024 | 16:33
Vestfirðingar í orkusvelti
Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver. Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið. Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.
Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW. Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið.
Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:
"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".
""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson. "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring. Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."
Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."
Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum. Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa". Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax. Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka. Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum. Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.
""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""
Hvað er eðlilegt raforkuverð ? Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði. Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.
"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum. "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun. Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins. Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum."
Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?
10.11.2024 | 15:36
Beturviti (Besserwisser) afhjúpaður
Kristrún Frostadóttir er óttalega regingslegur formaður "Skattafylkingarinnar". Hún gerir sér far um að setja sig á stall sem vel undirbúinn formann til að taka við stjórn landsins. Þetta eru þó einvörðungu umbúðir utan um flaustur, fávísi og yfirborðsmennsku, eins og komið hefur fram í formannaumræðum í Sjónvarpssal um ríkisfjármálin, og nú hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flett ofan af fávísi téðrar Kristrúnar um gjaldtöku fyrir auðlindaafnot. Kristrún þessi hefur látið í veðri vaka, að "Skattafylkingin" hafi "Plan" um stóraukna gjaldtöku með samræmdu aðlindagjaldi að hætti hinna Norðurlandaþjóðanna, en þar stendur ekki steinn yfir steini hjá henni, því að á Íslandi er greitt miklu meira fyrir afnot sjávarauðlindarinnar en þar.
Þann 7. nóvember 2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg afjúpunargrein eftir Heiðrúnu, sem hún nefndi:
"Norska leiðin í auðlindagjaldtöku".
Hún hófst þannig:
""Við erum að tala um sanngjörn, réttlát auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku. Þetta eru leiðir, sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um."
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2. Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið [01.11.2024]."
Guð forði okkur frá sanngirni og réttlæti Samfylkingarinnar. Dómgreindarleysi téðrar Kristrúnar, þ.e. vandkvæði við að skilja á milli rétts og rangs, opinberaðist, þegar í ljós kom, að hún hugðist skjóta tugum milljóna ISK undan skatti af bónusi, sem hún þáði ofan á laun sín hjá fyrrverandi vinnuveitanda.
Heiðrún Lind rekur síðan, hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í Noregi af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Af þeirri lýsingu að dæma, hafði téð Kristrún ekki hugmynd um, hvernig þeim málum er háttað, sem hún þó kvað til fyrirmyndar fyrir flokkinn sinn. Kristrún þessi siglir undir fölsku flaggi. Hún er ekki bara krati; hún er "hippókrati".
"Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi. Það, sem kannski meira er um vert; Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda, eins og Póllands. Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi. Verðmætasköpun - og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara - er því til muna minni en á Íslandi."
Af þessari lýsingu sést, að sjávarútvegur á Íslandi er ósambærilegur við sjávarútveg í Noregi. Norski sjávarútvegurinn er að vissu leyti á opinberu framfæri, en íslenzki sjávarútvegurinn, þar sem veiðar og vinnsla eru tengd, verður að keppa á mörkuðum við norskan fisk, sem ríkið styður við og unninn er í láglaunalöndum. Það er ekki víst, að "Besserwisserinn" skilji, hvað þetta þýði. Það þýðir, að íslenzk yfirvöld verða að fara mjög varlega í sérskattheimtu á sjávarútveginn, ef þau ætla ekki að stórskaða þjóðarbúið með því að grafa undan honum til langs tíma litið (draga óhóflega úr fjárfestingargetu hans og launagreiðslugetu). Nú er langt gengið í þessum efnum.
"Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25 % skattur af hagnaði. Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum, sem félög hagnast um. Það gerir það að verkum, að áætlað er, að um 70 % fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt. Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka, þegar fiskurinn er í sjónum. Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað, að skattheimtan sé nær 10 % af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki, sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó. Þetta er þá væntanlega norska leiðin, sem Samfylkingin vill fara."
Kratar og fylgifiskar þeirra í vinstri villunni hafa tamið sér að tala niður til atvinnuveganna og sá tortryggni í þeirra garð. Þannig hefur viðkvæðið verið, að ríkið geti og eigi að láta greipar sópa um eigur sjávarútvegs og fiskeldis, því að erlendis, þ.m.t. á hinum Norðurlöndunum, sé auðlindagjaldið hærra en hér. Þetta er bull og vitleysa, eins og þessi upptalning Heiðrúnar sýnir. Kristrún Frostadóttir er algerlega úti að aka í auðlindamálum og að því er virðist í skattamálum yfirleitt.
"Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald, sem er 33 % af reiknuðum hagnaði við veiðar. Á meðan íslenzka ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert.
Þegar kemur að sjókvíaeldinu, greiða íslenzku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald. Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur 20 faldazt undanfarin 4 ár og á eftir að hækka meira. Íslenzku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni, sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif. Svo greiða íslenzk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau, sem greiða þarf í Noregi.
Þegar aðeins þetta er lagt saman, greiddu íslenzku fyrirtækin yfir mrdISK 1,2 í fyrra [2023], og þessi upphæð nær líklega mrd 2,0 í ár. Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.
Stóri munurinn á íslenzku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá, að íslenzku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu. Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði. Í raun er staðan sú, að íslenzk fiskeldisfyrirtæki greiddu 8 sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni !
Það þarf líka að hafa í huga, að fiskeldi á íslandi er ung grein. Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar. Ef greinin fær að vaxa og dafna, mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum. En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni. Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun."
Á Íslandi hefur verið gengið lengra í sértækri skattheimtu undir merkjum auðlindagjalds en góðu hófu gegnir, því að hún er svo miklu hærri en í samkeppnilöndunum, að samkeppnistöðunni og þar með undirstöðu gjaldeyrisöflunar er ógnað. Þetta skilur Kristrún Frostadóttir ekki, því að hún heldur, að hún geti í næstu ríkisstjórn hækkað s.k. auðlindagjöld mikið með vísun til þess, sem tíðkast annars staðar í Evrópu. Hér gerir hún sig seka um að bulla út í eitt. Að taka upp á að blaðra um málefni, sem varða afkomu fyrirtækja miklu og atvinnuöryggi og vaxtarmöguleika á mörgum stöðum á landinu, áður en hún hefur kynnt sér málin, er algert ábyrgðarleysi. Hún gortar mikið af, að Samfylkingin hafi unnið heimavinnuna sína fyrir þessar kosningar og sé eini flokkurinn "með Plan", en á fyrstu beygju keyrir hún beint út í skurð, gjörsamlega óundirbúin og fávís um málefnið, sem hún gasprar um.
28.10.2024 | 18:03
Til varnar kapítalisma - auðhyggju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við HÍ, reit grein í Morgunblaðið 11. október 2024 um áhugaverð grundvallarmál, a.m.k. fyrir íbúa í lýðræðisríkjum heimsins.
Greinina nefndi Hannes:
"Markaðir og frumkvöðlar",
og hófst hún þannig:
"Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi ? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum ? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni ?"
Þetta eru allt mikils verðar spurningar, sem leitazt var við að svara á ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags og efnahagsmálum o.fl. í Reykjavík 12.10.2024.
Það er ótrúlegu andófi gegn vestrænni menningu, lýðræðisskipulagi og markaðshagkerfi, haldið uppi á Vesturlöndum, og eru íslenzkir furðufuglar þar engin undantekning. Þeir, sem hagsmuna hafa að gæta í því, að þessar moldvörpur nái að grafa undan vestrænum samfélögum, eru Kremlverjar. Þessir heimsvaldasinnar kosta miklu til að koma ár sinni fyrir borð, og einna bezt virðist þeim hafa tekizt til í Bandaríkjunum, þar sem forsetaefni Repúblikanaflokksins virðist með eindæmum hallur undir blóði drifinn einræðisherra Rússlands. Að slíkur siðlaus frambjóðandi skuli samkvæmt mælingum geta náð meirihluta kjörmanna í kosningunum 05.11.2024, er með algerum ólíkindum.
"Einn ræðumaðurinn er dr Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári [2024] út fróðlega bók: "Imperial Measurement: A Cost-Benefit Analysis of Western Colonialism" - Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (e. cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á 19. öld ? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla [ríkið - innsk. BJo], en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna [og ævintýramanna - innsk. BJo]. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur."
Skyld þessari nýlenduskýringu á auði Vesturlanda er kenningin um auðsöfnun standandi á öxlum kúgaðs verkalýðs. Skýringin í auðsöfnun 19. og 20. aldar voru miklu fremur vel heppnaðar fjárfestingar frumkvöðla, iðn- og tæknibylting þessa tíma.
"Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, "Fish, Wealth and Welfare - Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, "free market environmentalism" - umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er t.d. skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi ? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristoteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarbúskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlega hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslenzku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu."
Það hefur ekki verið hrakið, að forsenda raunhæfrar verndar verðmæta sé einkaeignarhald verðmætanna, sem í hlut eiga, hvort sem um náttúruauðlindir er að ræða eða ekki. Þessi óhrakta kenning er vissulega vatn á myllu frjálslyndisafla í þjóðfélaginu, sem aðhyllast öflugt einkaeignarfyrirkomulag, sem varið sé af traustri lagaumgjörð. Reynslan sýnir, að slíkum samfélögum vegnar bezt í tímans rás.
"Hliðstætt dæmi eru íslenzku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því [að] hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á 8. áratug [20. aldar], en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekizt til. Ólíkt öðrum þjóðum, stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.
Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt s.k. afareglu (e. grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt 5 % af heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) 5 % aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarks röskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum."
Þarna eru dregnar upp útlínur árangursríkasta fiskveiðistjórnunarkerfis á jörðunni. Kerfið var sett á út úr neyð til að bjarga sjávarútveginum og sjávarauðlindinni frá algeru hruni af völdum offjölgunar fiskiskipa og fækkunar í hrygningarstofnum af völdum ofveiði. Kerfinu var ekki snýtt út úr nösum ráðuneytissnata, heldur var það afrakstur ráðgjafar aðallega íslenzkra vísindamanna á sviði auðlindanýtingar.
Það er enn verið hérlendis að sá öfundsjúkri tortryggni út í þetta kerfi, svo að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem aldrei geta látið vel heppnaða dugnaðarforka í friði við atvinnustarfsemi sína, hafa rembst við að kokka upp niðurrifsaðferðir, sem fela í sér ólöglega þjóðnýtingu í áföngum. Matvælaráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reyndu að ná fram himinháum álögum á greinina ásamt fiskeldið, en gáfust upp á limminu, þegar nýr formaður VG tók þann vitlausa pól í hæðina, að til þess að komast inn á þing í kosningunum 30.11.2024 væri bezt að höggva stanzlaust í Sjálfstæðisflokkinn. Þetta grunnhyggna viðhorf snerist auðvitað algerlega í höndum Svandísar, sem undirbjó andvana fæddan starfsstjórnar sirkus, og verður vonandi utan þings sem lengst ásamt pakki sínu.
25.10.2024 | 18:00
Skattheimta í refsingarskyni
Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus. Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna. Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn. Hingað og ekki lengra !
Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka. Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis. Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna. ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.
Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:
"En að létta róðurinn ?"
"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg. Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum. Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.
Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds.
Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %. Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."
Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni. Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina. Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana.
"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum. En næstu skref í átt að markinu eru snúin. Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi."
Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis. Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta. Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks. Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð.
"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.
Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun. Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum. Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."
Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar.
Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland. Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar umgengni hans við auðlindina. Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings. Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi. Hvílíkur uppspuni. Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun. Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ? Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis. Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar. Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu. Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.). Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar. Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni. Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.
10.10.2024 | 17:26
Stungið á kýlum
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024. Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna. Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins. Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna. Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi.
Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:
"Þjóð á rangri leið".
Hún hófst þannig:
"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi. Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings."
Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor. Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip. Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu.
"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands. En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa. Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita). Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna.
Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt. Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli. Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann."
Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega. 13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu.
Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis. Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna.
Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins. Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir.
Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu. Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja. Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði. Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu. Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög.
Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum. Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú. Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka. Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30. Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu. Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er. Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki.
"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina. Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."
Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina. Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni. Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform. Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við.
Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið. Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við. Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því. Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu. Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi.
"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum. Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar. En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við. Eina leiðin út er, að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."
Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt. Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón. Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis.
"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda. Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort. Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun. Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót. Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.
Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ? Gerum Ísland ábyrgt aftur."
Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys). Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman. Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku.
Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi. Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.