Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Næg fáanleg raforka er grundvöllur nýrrar verðmætasköpunar

Það er haldlaust að búast við hagvexti hérlendis, sem reistur er á nýjum eða auknum útflutningi á vörum eða þjónustu, á meðan núverandi orku- og aflskortur er við lýði, og hann virðist ekkert munu lagast, það sem af lifir þessum áratugi.  Það er afleit staða, sem hafa mun neikvæð áhrif á þróun hagkerfisins og hag fyrirtækja og heimila.  

Orkulindir landsins eru takmarkaðar, og þess vegna skiptir höfuðmáli að nýta fáanlega orku af kostgæfni.  Hún fer að mestu til iðnaðarnota núna, sem skapar fjölbreytta og vel launaða atvinnu, sem stóð undir velferð og hagvexti hér um langa hríð, en nú hafa undirboð Asíuríkja á markaði og furðuleg tollastefna Bandaríkjastjórnar sett strik í reikninginn um hríð. Hefur lágt verð á innfluttum blöndunarefnum í ál frá Kína leitt til þess, að kísilverksmiðjan á Bakka við Húsavík hefur orðið ósamkeppnishæf á innlendum markaði, og það hefur tekið fjármálaráðuneytið óratíma að komast að niðurstöðu um það, hvort um óleyfileg undirboð á markaði sé að ræða og þá e.t.v. brot á fríverzlunarsamninginum við Kína. Fyrir vikið hefur verksmiðju PCC á Bakka verið lokað, og veit enginn, hvort/hvenær hún verður opnuð aftur. Fyrir vikið hefur losnað um afl og orku í kerfi Landsvirkjunar og horfir nú vænlega með orkubúskapinn í vetur.  Eins dauði er annars brauð.

Þegar kemur að því að finna leiðir til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi hérlendis, hefur komið til tals að framleiða hér rafeldsneyti.  Slíkt útheimtir mikla raforku, því að orkunýtni framleiðsluferilsins er lág.  Vænlegra virðist vera að nota jurtaolíur á borð við repjuolíu.

Þann 9. desember 2024 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Egil Þóri Einarsson, efnaverkfræðing, undir fyrirsögninni:

"Hin leiðin í eldsneytismálum".

"Helztu sóknarfæri okkar í loftslagsmálum eru að úthýsa jarðefnaeldsneyti, sem er ábyrgt fyrir 60 % af losun okkar. Meðan áherzla stjórnvalda hefur verið á framleiðslu á vetni og tilbúnu eldsneyti, sem byggt er á vetni, eigum við gnótt hráefna, sem hægt er að nýta við framleiðslu á eldsneyti með lágmarks losunargildi.  Með því að nota innlend hráefni, eins og sorp, seyru og annað lífrænt efni, gætum við minnkað talsvert þörfina á innflutningi jarðefnaeldsneytis.  Slíkt eldsneyti, eins og metan og lífdísill, er nánast kolefnishlutlaust, en hefur sama orkuinnihald og jarðefnaeldsneyti."

Jarðefnaeldsneyti er fremur ódýrt um þessar mundir á heimsmarkaði, en það mun ekki vara til eilífðarnóns. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr gjaldeyrisnotkun til eldsneytiskaupa, en fjárfesta þess í stað í framleiðslugetu á innlendum orkugjöfum.  Rafbílavæðingin hefur öðlazt skriðþunga, en vinnuvélar og skip þurfa kolefnishlutlausa olíu.  Asnastrik ríkisstjórnarinnar að lama fjárfestingargetu sjávarútvegsins er ekki loftslagsvæn aðgerð og ekki væn að neinu leyti. 

"Knýjandi þörf er á að finna "staðgengils" eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.  Útskipti á jarðefnaeldsneyti með umhverfisvænu eldsneyti gerir okkur kleift að standa við skuldbindinggar okkar í loftslagsmálum. Að leita fanga í okkar eigin  garði er vænlegra til árangurs en að leggjast í stórframkvæmdir við framleiðslu á orkufreku eldsneyti úr vetni.  Til þess að gera það eftirsóknarvert þurfa stjórnvöld að koma til skjalanna með fjárstyrkjum og ívilnunum."

Það er fjárhagslega áhættusamt að fjárfesta í eldsneyti úr vetni.  Ferlið er orkukræft og nýtnin lág, svo að líklegt er, að slíkt eldsneyti geti ekki keppt við annars konar eldsneyti með enga nettó losun koltvíildis. Íslenzkum orkulindum er betur varið til annars konar framleiðslu eða til gagnavera fyrir gervigreind. 

Núverandi orkuráðherra er ekki mjög framsækinn fyrir hönd málaflokksins, því að hann hafnaði nýverið ósk Orkubús Vestfjarða um að breyta friðlýsingarskilmálum í Vatnsfirði til að koma mætti þar fyrir hagkvæmri virkjun með umhverfisvænum hætti.  Þessi virkjun hefði sameinað orkuvinnslu og umhverfisvernd með fögrum hætti.  Þessi vatnsaflsvirkjun hefði verið ólíkt "hlédrægari" í náttúrunni en þeir risaspaðar, sem kynntir hafa verið til sögunnar til slitróttrar raforkuvinnslu.

 

  

 


Mundi aðild bæta hag eða þjóðaröryggi hérlendis ?

Þegar ákveða á, hvort endurlífga á aðlögunina að Evrópusambandinu (ESB), sem horfið var frá í raun 2011 og formlega síðar, verður að vega og meta kosti og galla aðildar.  Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, í Morgunblaðinu 06.08.2025 var mikilvægt innlegg í þessa átt.  Þar rakti hann í raun og veru, hvers vegna ekkert mælir með inngöngu í þennan klúbb fyrir Ísland. 

 Nú eru EFTA-löndin, nema Sviss, með aðild að Innra markaði ESB síðan 1994, en blikur eru á lofti um, að vera EFTA-landanna utan tollabandalags ESB þýði, að bandalagið telji sig þurfa að meðhöndla EFTA-ríkin eins og önnur lönd utan tollabandalagsins, þegar kemur að tollaákvörðun.  Í því tollastríði, sem Bandaríkjastjórn hefur hrundið af stað, er þessi staða óviðunandi.  Fríverzlunarsamningur hjálpar væntanlega ekki heldur. Svisslendingar eru með margháttaða samninga við ESB, og nú eru í gangi viðræður þeirra á milli um nýtt fyrirkomulag. Verður fróðlegt að sjá, hvað út úr þeim samningaviðræðum kemur.  Eins og kunnugt er varð tollsetning Trump-stjórnarinnar (39 %) reiðarslag fyrir Svisslendinga, sem sjá fram á hrun Bandaríkjamarkaðar fyrir vörur sínar.  Það er með endemum, hvernig Bandaríkjastjórn leyfir sér að haga sér, brjótandi niður það alþjóðakerfi, sem Bandaríkjamenn hafa öðrum fremur byggt upp. 

EFTA-ríkin verða að reyna að sækja rétt sinn til ESA og EFTA-dómstólsins, ef ESB ætlar að halda tollastefnu sinni til streitu. 

Ákafi Viðreisnar er mikill að koma Íslandi í ESB, og eru rökin aðallega nú öryggislegs eðlis, en það er hæpið, að her ESB bæti nokkru við varnir Íslands umfram aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, þótt haldið í honum sé umdeilanlegt með Trump við völd. 

Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar nefndist:

"Ísland á ekki að íhuga aðild að ESB".

Hann tíndi til nokkrar staðreyndir þessari fullyrðingu til stuðnings:

  1. "Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mun meiri en hjá ESB-ríkjum, eftir að aðildarviðræðum var hætt:

 ATH.: Evran á þátt í að halda aftur af hagvexti ríkja á evrusvæðinu, því að skráning hennar tekur ekkert tillit til framleiðni og samkeppnishæfni ýmissa ríkja á evru-svæðinu. 

  2. Kaupmáttarvöxtur á Íslandi hefur hefur verið mun 

     meiri en innan ESB frá sama tíma.

ATH.: Ísland náði sér hraðar upp úr bankakreppunni en flest önnur lönd og sökk líka dýpra en flest.  Íslenzka hagkerfið er að mestu reist á náttúruauðlindum, sem voru gjöfular mestan hluta tímabilsins.  Á síðustu árum hafa launahækkanir verið umfram framleiðniaukningu, sem grefur undan kaupmáttaraukningu og gjaldmiðlinum.

    3. Íslenzka krónan hefur verið stöðugri en evran 

       gagnvart bandaríkjadollar.

ATH.: ISK gæti senn lækkað að verðgildi m.v. helztu gjaldmiðla vegna kjarasamninga, sem flest fyrirtæki ná ekki að standa undir með framleiðnivexti.  

    4. Íslenzkt atvinnulíf hefur aldrei verið 

       fjölbreyttara, og nýsköpun blómstrar. 

 ATH.: Þetta stafar aðallega af öflugum grundvallargreinum, t.d. sjávarútvegi, sem stundað hafa vöruþróun til að auka verðmæti afurðanna og draga úr kostnaði með aukinni sjálfvirkni. Upp úr þessum jarðvegi hafa sprottið sprotafyrirtæki, sem sumum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg.  Með nýrri vinstri stjórn eru viðsjár í þessum efnum, því að ríkisstjórnin veikir mjög öflugustu fyrirtækin, sem leitt hafa tækniþróunina, með gjörsamlega hömlulausri og stórskaðlegri skattheimtu.  Þessi óheillaþróun mun leiða til minni verðmætasköpunar en ella, sem er alvarlegt mál fyrir hagkerfið í heild. 

   5. Atvinnuleysi mælist varla.  

ATH.: Atvinnuleysi mælist vissulega á Íslandi, og fer vaxandi undir vinstri stjórn.  Það mun þó vonandi lagast með virkjunarframkvæmdum.  Atvinnuleysi á Íslandi er miklu minna en í ESB og sérstaklega m.v. evrusvæðið, enda eru hagsveiflur þar teknar út á atvinnustiginu.

   6. Ísland er í fyrsta sæti á lista Sameinuðu 

      þjóðanna yfir lífskjör (Human Development 

      Index ).

ATH.: Mundi Ísland halda sæti sínu á þessum lista að öðru óbreyttu en aðild að ESB ?  Það er ekki víst í ljósi mikils útjöfnunarkostnaðar lífskjara, sem leggjast mundi á Ísland eftir aðild, og vegna mikilla útgjalda til varnarmála, sem blasa við löndum ESB.

   7. Jafnrétti er hvergi meira en á Íslandi; sama 

      gildir um kaupmátt lægstu launa og bóta, 

      atvinnuþátttöku kvenna og launajöfnuð.

ATH.: Þessi atriði munu væntanlega draga dám af því, sem tíðkast í ESB eftir hugsanlega inngöngu Íslands í ESB.  

   8. Varlega áætlað eru Íslendingar 9. ríkasta þjóð 

      heims. " 

ATH.: Þetta getur breytzt til verri vegar með aðild, því að landsmenn munu þá þurfa í einhverjum mæli að deila landhelgi sinni með öðrum aðildarþjóðum, þar sem hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB mun ríkja hér. Þá mun væntanlega koma þrýstingur á Alþingi að innleiða 4. orkupakka ESB og að samþykkja lagningu aflsæstrengs hingað, sem hækka mun raforkuverðið enn meir, og rýrir það samkeppnihæfnina. 

"Það er ekki síður áhugavert að skoða, hversu mikið landsframleiðsla hefur aukizt á Íslandi á tímabilinu 2010-2024 m.v. vöxtinn í Evrópu og í Bandaríkjunum á sama tíma:

   9. Landsframleiðsla í ESB-ríkjunum hafur á tímabilinu vaxið um 15 %. 

ATH.: Þetta er óeðlilega lítill vöxtur, og Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, sá ástæðu til að kryfja þetta til mergjar í langri skýrslu fyrir um 2 árum.  Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að reglugerðafargan ESB væri dragbítur á fyrirtækin.  Þá má nefna lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi, öldu flóttamanna frá Sýrlandi og víðar, áherzlu á óhagkvæma orkugjafa á borð við vind og sól og hátt raforkuverð, sem leitt hefur af orkuskorti.  Það virðist mega draga þá ályktun, að innganga Íslands í ESB mundi leiða til versnandi lífskjara hérlendis.  

   10. Á sama tíma hefur hún vaxið um 35 % - 40 % í Bandaríkjunum.

ATH.: Í Bandaríkjunum hefur verið lifað um efni fram, eins og gríðarlegar erlendar lántökur á formi ríkisskuldabréfa gefa til kynna, og eiga þær sennilega þátt í lágu gengi USD.  Nú er frumstæð og í alla staði mjög undarleg efnahagsstjórnun við lýði í Bandaríkjunum, sem snýst um háa tolla á vörur frá ríkjum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við Bandaríkin.  Þessi kaupauðgistefna hefur fellt gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum, veikt gengi USD og kynt undir verðbólgu um leið og kaupmáttur almennings minnkar. Hvíta húsið boðaði í upphafi, að hagur almennings mundi batna við þennan fíflagang, sem sýnir, hvers konar vitsmunaverur eru nú þar við völd, enda hrapar fylgi forsetans í skoðanakönnunum. 

   11. Á Íslandi hefur hún vaxið um u.þ.b. 50 %.  Á

   mælikvarðanum verg landsframleiðsla á mann er

   Ísland í 5. sæti allra ríkja heims."

ATH.: Samanburðartímabilið er auðvitað hagstætt Íslandi, því að hér varð einna mest fall landsframleiðslu á mann í heiminum í fjármálakreppunni 2007-2009. Hins vegar ber staða VLF/íb órækt vitni um árangur efnahagsstjórnunar hér, og það verður ekki annað séð en innganga í ESB bjóði þeirri hættu heim, að hér verði efnahagsstöðnun og versnandi lífskjör.  Í þessu ljósi er óskiljanlegt, hvað þeim stjórnmálamönnum gengur til, sem nú vilja dusta rykið af aðildarumsókn Íslands frá 2009.  Að benda á ný viðhorf til öryggismála í Evrópu heldur ekki vatni.  E.t.v. er ESB orðið þreytt á EES-samninginum, en þá er lausnin ekki sú að hverfa í þjóðahafið, heldur að leita fríverzlunarsamnings við ESB, jafnvel á grundvelli EFTA-aðildarinnar.  Í Noregi virðist afstaðan til ESB lítið hafa breytzt, svo að samflot með Norðmönnum og jafnvel Svisslendingum við gerð fríverzlunarsamnings virðist blasa við, ef ESB vill henda okkur út fyrir tollmúrana, þegar svo býður við að horfa.   

 

 


Loftslagsútgjöld og ávinningur

Fyrirferð loftslagsmála á þessum áratugi í umræðunni hefur minnkað m.v. við síðasta áratug.  Fyrir því eru ýmsar ástæður, en ein er sú, að búið er að hrópa úlfur, úlfur allt of oft án tilefnis og önnur sú, að æ fleiri gera sér grein fyrir, að kostnaðurinn við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er ekki í neinu samræmi við ávinninginn.  Þetta hefur Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnar hugveitunnar, gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Kaliforníu og höfundur bókarinnar Best Things First, sýnt fram á.  

Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 20. janúar 2025 undir fyrirsögninni:

"Það sem loftslagsútgjöld kosta heiminn".

Hún hófst þannig:

"Um allan heim eru fjármál hins opinbera nálægt hættuæastandi.  Vöxtur á hvern einstakling heldur áfram að lækka, á meðan kostnaður eykst vegna ellilífeyris, menntunar, heilsugæzlu og varnarmála.  Þessi brýnu forgangsatriði gætu auðveldlega krafizt 3-6 % til viðbótar af landsframleiðslu.  Samt kalla grænir aðgerðasinnar hávært eftir því, að stjórnvöld eyði allt að 25 % af landsframleiðslu okkar í að kæfa vöxt í nafni loftslagsbreytinga.

Ef dómsdagur vegna loftslagsbreytinga væri yfirvofandi, væri sú stefna ekki svo vitlaus.  Sannleikurinn er þó ekki eins dramatískur. Nýlega hafa verið birtar 2 stórar vísindalegar áætlanir um heildarkostnað við loftslagsbreytingar á heimsvísu.  Þetta eru ekki einstakar rannsóknir, sem geta verið mismunandi (þar sem dýrustu rannsóknirnar fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum).  Þess í stað eru þær meta-rannsóknir, byggðar á öllum tiltækum ritrýndum rannsóknum.  Önnur rannsóknin [skýrslan-innsk.BJo] er rituð af einum þeirra loftslagshagfræðinga, sem mest er vitnað í, Richard Tol; hin er eftir eina loftslagshagfræðinginn, sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin, William Nordhaus.

Rannsóknirnar benda til þess, að 3°C hitahækkun í lok aldarinnar - sem er dálítið svartsýnisleg spá m.v. núverandi þróun - muni [hafa í för með sér] alþjóðlegan kostnað, sem jafngildir 1,9 %-3,1 % af vergri heimsframleiðslu.  Til að setja þetta í samhengi áætla SÞ, að í lok aldarinnar verði meðalmaðurinn 350 % ríkari en hann eða hún er í dag.  Vegna loftslagsbreytinga verður það eins og að vera aðeins 335 % - 340 % ríkari en í dag." 

M.ö.o. mun jarðarbúa muna sáralítið efnalega um heildarafleiðingar hitastigshækkunar á jörðunni á þessari öld, þótt tjón og ávinningur dreifist ójafnt á landsvæði jarðar.  Þá er eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða, sem áreiðanlega munu eiga sér stað og draga úr tjóninu.  Loftslagspostular minnast ekki á þetta, heldur boða í raun dómsdag yfir mannkyni vegna núverandi hitastigsstiguls. Þeir boða, að kasta skuli perlu fyrir svín;  fara í gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir með látum.  Hæst ber þar orkuskiptin, þótt í raun vanti enn þá "réttu" tæknina til að taka við af jarðefnaeldsneyti.  Orkuskipti eru sjálfsögð, en tæknin þarf að vera fyrir hendi.

"Raunverulegur kostnaður við óhagkvæma loftslagsstefnu er, að hún dregur auðlindir og athygli frá öðrum forgangsatriðum.  Evrópa býður upp á ömurlega lexíu.  Fyrir 25 árum lýsti Evrópusambandið því yfir, að með stórfelldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun  um allt hagkerfið myndi það verða "samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heimi".  Það mistókst algjörlega: útgjöld til nýsköpunar jukust varla, og ESB er nú langt á eftir Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og jafnvel Kína.  

Þess í stað skipti ESB um áherzlur og knúið af loftslagsþráhyggju valdi það "sjálfbært" hagkerfi fram yfir traust hagkerfi.  Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun.  Líklegt er, að kostnaðurinn fari yfir nokkrar trilljónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C."

Þetta dæmi kastar ljósi á það, hvers vegna það er óskynsamlegt af Íslendingum að ganga þessu ríkjasambandi á hönd.  Dagleg stjórnun þar er á höndum embættismannabákns, sem mótar og semur reglugerðafargan, sem tekur ekki alltaf mið af heilbrigðri skynsemi, heldur setur "dyggðaflöggun" framar í forgangsröðina, þótt hún dragi úr velmegun borgaranna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þessi 25 ára yfirlýsing ESB, sem Lomborg nefnir, minnir á yfirlýsingu aðalritara sovézka kommúnistaflokksins, Nikita Krútsjoff, á sínum tíma um, að Sovétríkin mundu grafa Bandaríkin og átti þá við, að kommúnistarnir færu fram úr kapítalistunum á öllum sviðum innan tiltölulega skamms tíma. 

Lenín talaði á sínum tíma um "gagnleg fífl" - "useful idiots".  Efir Alaska-fund Trumps og Pútíns 15. ágúst 2025 hvarflar að manni, að þannig líti rússneskir ráðamenn á núverandi forseta Bandaríkjanna.  Framvindan þar var með ólíkindum, og Evrópuleiðtogarnir á nálum.  Hins vegar getum við litið okkur nær í nútímanum.  Málflutningur aðildarsinna að ESB hérlendis um, að Íslendingar einir mundu sitja að veiðum innan efnahagslögsögu Íslands vegna veiðireynslunnar fær ekki staðizt. Fiskveiðistjórnun innan lögsögu ESB er óskilyrt á höndum framkvæmdastjórnar ESB.  Vegna mikils þrýstings um að komast inn í efnahagslögsögu Íslands frá ríkjum á borð við Spán mun verða brýnt fyrir framkvæmdastjórn og leiðtogaráð að semja nýja reglu um aðgang ríkja að efnahagslögsögu ESB. Fiskveiðilögsagan er lífakkeri Íslendinga og ræður hún afkomu landsmanna.  Það má því heita fíflagangur að ætla inn í ESB án nokkurrar niðurnjörvaðrar sérreglu fyrir Ísland í þessum efnum. Slík sérregla yrði sennilega ekki samþykkt af leiðtogaráðinu.    

 

 


Fjandskapur við atvinnulífið

Fjandskapur við atvinnurekstur hefur ætíð legið þeim stjórnmálamönnum nærri, sem aðhyllast forræðishyggju hins opinbera, enda er hámark forræðishyggjunnar ríkisrekstur atvinnulífsins.  Á Íslandi sjáum við ýmsar birtingarmyndir þessarar afdönkuðu hugmyndafræði.  Á viðsjártímum í efnahagsmálum heimsins, þegar forðast ber af innlendum stjórnvöldum að íþyngja atvinnurekstri í erlendri samkeppni, er ríkisstjórn Íslands á þeim buxunum að hækka opinber gjöld svo stórlega á sjávarútveginn, að hann neyðist til að draga saman seglin og þar með að draga úr nýsköpun, "grænum" lausnum og samfélagsþátttöku.  Aðgerðin er forkastanleg, því að hún mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti í landinu. 

Á ferðageiranum dynja skyndihækkanir, t.d. á farþegaskip, sem draga úr aðsókn.  Meira mun vera í pípunum.

Þann 2. júlí 2025 birtist Innherjagrein í ViðskiptaMogganum, þar sem geðsveiflur innviðaráðherra, tengdar fiskeldinu, gefa til kynna undarlega afstöðu lögfræðingsins til valdmarka ráðherra:

"Ummæli innviðaráðherra, Eyjólfs Ármannssonar, í kjölfar ákvörðunar Arctic Fish um að flytja fóðurstöð sína frá Þingeyri til Ísafjarðar, hafa vakið athygli.  Ráðherrann gagnrýnir fyrirtækið harðlega fyrir skort á samfélagslegri ábyrgð.  Samhliða því hefur hann gefið í skyn, að rekstrarskilyrði fyrirtækisins kunni að verða endurskoðuð, enda muni hann beita sér fyrir því að snúa þessari ákvörðun við. 

Þessi orð ráðherrans eru ekki einungis til marks um óánægju með einstaka ákvörðun fyrirtækisins, heldur má skilja þau sem óbeina hótun.  Ráðherrann gefur í skyn, að fyrirtæki, sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, þurfi að lúta boðvaldi og þóknun stjórnmálamanna.  Slíkt setur hættulegt fordæmi og skapar óvissu í atvinnulífinu." 

Fyrirtæki í landinu verða að búa við atvinnufrelsi til að gera þær ráðstafanir, sem forysta þeirra telur henta þeim bezt.  Þannig verða hagsmunir hluthafa, launþega og samfélagsins í heild bezt tryggðir, því að verðmætasköpun er hámörkuð.  Nú búum við hins vegar við ríkisstjórn, sem þekkir ekki sinn vitjunartíma, en er illa haldin af gömlum grillum, sem hana fýsir að hrinda í framkvæmd, þótt erfitt sé að sjá, að hún hafi verið kosin til þess. 

Þarna endurlífgar Eyjólfur Ármannsson t.d. gamlan draug, sem tröllreið húsum á Íslandi fyrir mörgum árum með hrikalegum afleiðingum. Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíku afturhvarfi til fortíðar.  Framferði ráðherrans stríðir sennilega gegn EES-samninginum, sem gerir ekki ráð fyrir slíkum valdboðum ríkisins í garð sjálfstæðra fyrirtækja í samkeppnisrekstri.  Úr því mætti fá skorið með því að færa málið fyrir ESA.  Segja má, að ráðherrann sé utan gátta í nútímanum, en þetta á sennilega að vera lýðskrumsgjörningur hjá honum. Væri ekki ráð, að hann héldi sig við verkefni ráðuneytis síns og hugsaði meira um að hlúa að atvinnulífinu í stað þess að rífa það niður ?

"Það skapar ekki störf, styrkir ekki byggðir og eflir ekki samfélagið að beita fyrirtæki þrýstingi eða gefa í skyn, að rekstrarskilyrði þeirra ráðist af því, hvort ákvarðanir þeirra falla í kramið hjá ráðherrum landsins.  Slíkt viðhorf dregur úr fjárfestingu og býr til óvissu, sem skaðar ekki aðeins einstök fyrirtæki, heldur samfélagið í heild." 

Þessi ríkisstjórn fordæðanna er uppvakningur grillupúka, sem veikir undirstöður íslenzks atvinnulífs og vinnur að því, að stórríki Evrópu nái til Íslands.  Allt þetta vinnur gegn hagsmunum landsmanna í bráð og lengd.  Það eru engin viti borin rök færð fyrir þessari stefnumörkun.  Hér er villuljósum beint að landsmönnum.  Heilbrigð skynsemi segir mönnum, að öflugt atvinnulíf efli hag almennings meira en veikt atvinnulíf og að fullvalda heimastjórn við Lækjartorg og Austurvöll sé líklegri til að efla hag almennings en framkvæmdstjórn og leiðtogaráð í höfuðstöðvum ESB (Berlaymont), þar sem taka þarf tillit til margra ólíkra sjónarmiða og hagsmuna.   

 

 


Glapræði ríkisstjórnar

Með því að draga kraftinn úr grundvallar atvinnugrein landsmanna fremur ríkisstjórnin alvarlegan fingurbrjót, sem allir munu finna fyrir.  Með því að draga stórfé út úr sjávarútveginum og flytja yfir í ríkissjóð versnar samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar á erlendum og innlendum vettvangi, fjárfestingar og nýsköpun dragast saman, tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka, hagvöxtur minnkar og gengi ISK gæti rýrnað vegna minni gjaldeyristekna, sem eykur verðbólgu.  Ragnar Árnason, prófessor emeritus, hefur varað við þessu, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum.  Henni mun hefnast fyrir allan þennan flausturslega og einstrengingslega málatilbúnað, og vonandi kemur fljótlega hér ríkisstjórn, sem leiðréttir þetta óréttlæti (sérsköttun) og skaðlega inngrip í atvinnustarfsemi. 

Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf, ritar talsvert um sjávarútvegsmál, og ein greina hans birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025 undir fyrirsögninni:

"Skattur eða sátt" ?

"Umræðan um sértæka skattlagningu á sjávarútveginn hefur harðnað að undanförnu.  Forsætisráðherra hefur haldið því fram, að sjávarútvegurinn eigi ekki að skila arði til eiganda fyrirtækja í sjávarútvegi, heldur greiða sérstakan skatt til samfélagsins. Þessi nálgun virðist byggð á misskilningi á því, hvernig greininni er háttað.  Arðgreiðslur eru tiltölulega hóflegar í sjávarútvegi, lægri en t.d. í orkugeiranum, og mestur hluti afkomunnar fer í nýfjárfestingar, tækni og þróun.  Fjármunir eru ekki teknir út - þeir eru lagðir inn.  M.ö.o.: sjávarútvegurinn greiðir þegar til samfélagsins með skattgreiðslum, með störfum og með verðmætasköpun.  Að reyna að "taka til baka" verðmæti, sem enginn annar en fyrirtækin hafa skapað úr hráefnum hafsins - það þjónar hvorki réttlæti né hagsmunum landsins til lengri tíma."

Síðan þetta fár "verkjastjórnarinnar" gegn sjávarútveginum brast á, hefur verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaði rýrnað um tugi milljarða ISK, e.t.v. 20 %.  Markaðurinn hefur lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og metið þær til eignaupptöku starfseminnar.  Hér er um að ræða þjófnað ríkisvaldsins um hábjartan dag á verðmætum, sem einkaframtakið hefur aflað án nokkurrar mælanlegrar aðkomu "auðlindarentu" í sjávarútvegi, sem lýðskrumarar staglast á án þess að vita, hvað þeir eru að fjalla um. Þessi "verkjastjórn" veit heldur ekkert hvað hún er að gera, því að hún heldur því fram, að skattahækkun hennar sé óskaðleg fyrir fyrirtækin.  Það er hrein fásinna, eins og verðmætafall þeirra á markaði gefur glögglega til kynna.  Ríkisstjórnin er landinu hættuleg, því að þar ráða óvitar ferðinni. 

"Unbroken, með sölusamninga við Lidl, gæti orðið verðmætara fyrirtæki en öll hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt - og sýnir, hvernig bætt virðisaukning, úrvinnsla og útflutningur á vöru fremur en hráefni getur skilað gríðarlegum verðmætum."

  Ríkisstjórnin hefur engan skilning á mikilvægi fjárfestingargetu sjávarútvegsins fyrir vöxt hans, viðgang, samkeppnishæfni og nýsköpun.  Á grundvelli ímyndaðrar auðlindarentu í sjávarútvegi (forsætisráðherra viðurkennir, að auðlindarenta sé "huglægt mat") geldir ríkisstjórnin útgerðarfélögin með ofurskattlagningu skattstofns, sem er líka ímyndaður, þ.e. kemur aldrei inn í félögin, því að um er að ræða vafasamt jaðarverð á bolfisktegundum, sem getur verið undir áhrifum erlendra (niðurgreiddra fiskverkenda), og norsks verðs, sem er fjarstæðukennt að miða við hér.  Hér er um svo vafasama skattheimtu vinstri stjórnar K. Frost. að ræða, að telja má líklegt, að látið verði á réttmæti hennar reyna samkvæmt skattarétti. 

Ríkisstjórnin og þingmenn héldu því fram, að þessi skattheimta muni engin áhrif hafa á fyrirtækin og heimabyggð þeirra, þ.e. að hegðun fyrirtækjanna muni ekkert breytast við þessa viðbótar skattheimtu, enda næmi skattheimtan lægri upphæð en auðlindarentunni næmi.  Nú er komið í ljós, að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaði hefur lækkað mikið, og mun það óhjákvæmilega breyta hegðun fyrirtækjanna.  Lífeyrissjóðirnir hafa af þessum orsökum tapað háum fjárhæðum.  Það veit enginn, hver þessi títt nefnda auðlindarenta er, enda er hún ómælanleg.  Af þessum sökum hangir málstaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli algerlega í lausu lofti. 

"Í stað þess að ýta undir þessar sóknarleiðir [nýsköpun - innsk. BJo] virðist ríkisvaldið kjósa að rífast við landsbyggðina og sjávarútveginn um það, hver eigi arðinn.  Í þessari nálgun gleymist, að það var ekki ríkið, sem skapaði verðmætin - heldur þau fyrirtæki, sem unnu hörðum höndum úr því hráefni, sem auðlindin veitir. Ef við viljum áfram vera leiðandi sjávarútvegsþjóð, þurfum við að byggja upp traust, samvinnu og sátt - ekki sundrungu og refsistefnu."  

Ríkisvaldið er á kolrangri braut með því að leggja sjávarútveginn í einelti á fölskum forsendum og undir því yfirskini, að aðeins 4-5 fjölskyldum muni blæða. Hvers konar götustráks hugsunarháttur er það eiginlega, sem nú ræður ferðinni við stjórn landsins ? 


Furðulegt framferði hunds um nótt

Nú hafa orðið vinslit á milli Rússadindilsins Elons Musks og forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og mun Elon vinna að því að bola Trump úr embætti með löglegum leiðum.  Elon gegndi í upphafi seinna kjörtímabils Trumps hlutverki niðurskurðarmeistara á rekstri alríkisins.  Niðurskurður hans olli fjölda uppsagna og jafnvel niðurlagningar stofnana með miklu uppnámi í samfélaginu.  Elon varð óvinsæll, og óvinsældirnar bitnuðu á sölu Tesla-bifreiðanna.  Elon sá sér vænzt að hætta þessu pólitíska stússi fyrir óútreiknanlegan vingul sem yfirmann eftir fáeina mánuði í starfi, en um mánaðamótin maí-júní 2025 urðu vinslit, þegar Elon gagnrýndi harkalega fjármálaáætlun Trump-stjórnarinnar.  Í fyrra varð halli á fjárlögum Bandaríkjanna trnUSD 1,83 og í ár stefnir í trnUSD 1,9 halla (trilljón = 1000 milljarðar).  Þessi gríðarlegi halli ógnar nú fjármálastöðugleika Bandaríkjanna, enda fer notkjun bandaríkjadals í gjaldeyrisvarasjóðum ríkja minnkandi og verðgildi dalsins rýrnar. 

Við þessar aðstæður brýtur Bandaríkjastjórn blað í viðskiptasögu og viðskiptastefnu Bandaríkjanna frá 1945 og fer í tollastríð við viðskiptalönd sín.  Þekkingarleysi og dómgreindarleysi ráða hér för.  Ætlunin er að enduriðnvæða Bandaríkin með því að fá fjárfesta til að reisa verksmiðjur, sem framleiða vörur, sem þróunarlönd og miðlungi iðnvædd lönd framleiða nú, svo og að verja verksmiðjur, sem eiga erfitt uppdráttar nú. Þetta er allt saman borin von hjá MAGA (Make America Great Again) fólkinu.  Bandaríkin eru með þessu og öðru framferði Trump-stjórnarinnar að glata trausti margra þjóða heims, þ.á.m. hefðbundinna bandamanna sinna, sem forysturíki hins vestræna heims.  Þjóðir selja nú bandarísk ríkisskuldabréf, sem hefur neikvæð áhrif á stöðu og styrk bandaríkjadals.

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, gerði alþjóðaviðskipti að umfjöllunarefni í Morgunblaðinu 3. júní 2025 undir fyrirsögninni:

"Frjálsari viðskipti, meiri velmegun".

Greinin hófst þannig:

"Um allan heim eru menn að vakna til vitundar um kosti frjálsra viðskipta [ekki þó MAGA - innsk. BJo].  Eftir margra ára fríverzlunarþreytu og vaxandi verndarstefnu segir meirihluti Bandaríkjamanna nú, að Bandaríkin ættu að sækjast eftir alþjóðlegum fríverzlunarsamningum, á meðan Evrópusambandið gerir fríverzlunarsamninga eins hratt og það getur, og jafnvel nágrannar og keppinautar á borð við Kína, Suður-Kóreu og Japan hafa samþykkt aukið samstarf." 

Hjörtur J. Guðmundsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, hefur um árabil fært sín rök fyrir því, að víðtækur fríverzlunarsamningur við Evrópusambandið verði Íslandi hagfelldari en aðildin að EES.  Ísland er í fríverzlunarsamtökunum EFTA.  Þetta er athygliverð umræða, t.d. ef Íslendingar hafna nýjum aðlögunarviðræðum við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem Sólhvarfastjórnina fýsir að kasta Íslendingum út í og virðist ætla að nota varnarmálin sem rök fyrir.  Það hefur enn engin umræða farið um það hérlendis, hvort Íslendingar kjósi að gegna herskyldu í Evrópuher. 

"Ávinningur og kostnaður fríverzlunarstefnu koma ekki jafnt niður.  Auðug lönd njóta tiltölulega minna góðs af af frjálsari viðskiptum, og hluti vinnuafls þeirra ber óhóflega byrði.  En þrátt fyrir þetta sýna ritrýndar rannsóknir hagfræðinga frá Kaupmannahafnarhugveitunni, að frjálsari viðskipti eru enn yfirgnæfandi ábatasöm, jafnvel fyrir rík lönd." 

Í fyrri hluta þessa texta er skýringin á fljótræðislegum ákvörðunum núverandi forseta Bandaríkjanna, sem var fremur frambjóðandi MAGA en Repúblikanaflokksins, sem hefðbundið hefur stutt frjálsa samkeppni og óheft viðskipti, um tollastríð gegn flestum ríkjum heims.  Í anda undirlægjuháttar síns gagnvart Rússlandi Pútíns, sleppti hann Rússlandi, en gæti þó með viðskiptalegum ráðstöfunum kippt fótunum undan hernaði Rússlands í Evrópu.  

Seinni hluti textans sýnir, að rannsóknarvinna bandarísku stjórnarinnar á afleiðingum frjálsra viðskipta hefur nánast engin verið.  Þetta er í anda vinnubragðanna, sem nú tíðkast í Washington.  Það er eins og sirkusstjóri stjórni nú Bandaríkjunum til að hafa mikil læti og fjör, en vel ígrunduð stjórnarstefna hefur horfið í skuggann. 

"Þegar við teljum ávinninginn af fríverzlun í ríkum OECD-löndum, er hann mun hærri en kostnaðurinn: trnUSD 6,7.  Samtals þýðir þetta USD 7 ávöxtun fyrir hvern USD kostnaðar.  Já, stjórnvöld ættu að vinna meira að því að hjálpa þeim launþegum, sem myndu verða fyrir mestum skaða af frjálsari viðskiptum, en jafnvel eftir að hafa tekið á næstum trnUSD 1 í kostnaði, eru yfir trnUSD 6 í ávinningi, sem allur ríki heimurinn getur notið.  Engin ríkisstjórn getur leyft sér að hunza þennan mun stærri ávinning þrátt fyrir verulegan kostnað."

Í sögu forseta Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokkinum skera verk Donalds Trump sig algerlega úr.  Hann beitir alríkisvaldinu með svo stórkarlalegum og grófum hætti, að líklegast hefur hann farið út fyrir lagaheimildir sínar, og hann tekur afstöðu með heimsvaldasinnuðum einræðisherra Rússlands gegn lýðræðisþjóð í Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni.  Hann hefur jafnframt grafið undan NATO, svo að fælingarmáttur og trúverðugleiki þessa varnarbandalags er í uppnámi.  Hér er um einstæða atburði í sögu Vesturlanda að ræða, og það er bara tímaspurning, hvenær bremsur lýðræðiskerfisins í Bandaríkjunum stöðva niðurrifsstarfsemi og einræðistilburði þessa manns. 

 "Lág- og lægri miðtekjulönd heimsins, sem eru heimili mrd 4 manna, munu þola einhvern kostnað af frjálsari viðskiptum, en sá kostnaður er tiltölulega lítill eða mrdUSD 15.  Samt sem áður væri ávinningurinn af frjálsari viðskiptum frábær, trnUSD 1,4.  Þar sem hagkerfi fátækari [hluta] heimsins eru mun minni, er þetta mun stærra mál.  Og, vegna þess að kostnaður þeirra er mun lægri, skilar hver USD í kostnaði USD 95 í ávinningi.  Það er ótrúleg ávöxtun fjárfestingarinnar."

Ekkert hefur stuðlað meir að jöfnun lífskjara í heiminum en fjárfestingar auðvaldsins á Vesturlöndum í framleiðslufyrirtækjum í fátækum löndum.  Þessar fjárfestingar leiddu til niðurlagningar ýmissa framleiðslustarfa á Vesturlöndum, sem ekki voru lengur samkeppnisfær í heimi frjálsra viðskipta, en í fátækum löndum tóku lífsskilyrðin stakkaskiptum, þótt illa sé sums staðar farið með vinnuaflið. Að forseta Bandaríkjanna úr röðum Repúblikana skuli detta í hug að beita ríkisvaldinu til að snúa þessari þróun við, sýnir grundvallar skilningsleysi þar á bæ og grafalvarlega meinloku MAGA-hreyfingarinnar. 

"Með næstum USD 7 í ávöxtun fyrir hvern USD í kostnaði fyrir ríkar þjóðir og ótrúlegum USD 95 í ávöxtun fyrir fátækari lönd bera frjálsari viðskipti hagnað með sér fyrir alla.  Leiðin áfram er ekki verndarstefna, heldur umbætur til að tryggja, að ávinningur af viðskiptum verði ekki aðeins meiri, heldur að honum verði einnig betur skipt."

Skoðanir og orðfæri Donalds Trumps eru oftast hreinræktað lýðskrum, þekking og staðreyndir eru ekki innan getusviðs hans og fasistísk hegðun gera hann í raun óhæfan til að gegna stöðu Bandaríkjaforseta. Traust til Bandaríkjanna hefur beðið hnekki, og spurning, hversu langan tíma tekur að endurvinna  traustið, og hvort næstu forsetar hafa mikinn áhuga á því.  Trump hefur ráðizt gegn háskólasamfélaginu og innflytjendum, tekið sér vald yfir þjóðvarðliðinu, sem vanalega er á hendi hvers ríkis, og hann hefur sent landgönguliða til að skakka leikinn í mótmælum í Kaliforníu.  Allt virðist snúast í höndunum á forsetanum, sem lítt kann til verka, og ýmsar forsetatilskipanir hans hafa verið dæmdar ólöglegar.  Afskipti hans af óeirðunum í Kaliforníu hafa hellt olíu á eldinn, og mótmælin gegn honum hafa nú dreifzt um öll Bandaríkin.  Að vera með illa gefinn gösslara í æðsta embætti Bandaríkjanna á eftir að reynast Bandaríkjunum og heiminum öllum dýrkeypt.   

 

 

 

 


Búskaparhættir sólhvarfastjórnarinnar

Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu kjósendum fyrir kosningar, að þeir myndu ekki hækka skatta, næðu þeir völdum.  Samt hafa ýmis gjöld hækkað, s.s. kolefnisgjald, en ríkisstjórnin hyggst höggva í knérunn útflutningsatvinnuveganna á mjög hæpnum efnahagslegum forsendum.  Þessu má líkja við bónda, sem sumir mundu kalla búskussa, sem þarf að ná endum saman í fjárhag búsins og ákveður að láta útgjöldin að mestu eiga sig, þótt sum megi missa sig, en ákveður að spara við búpeninginn í fóðri.  Þar með munu tekjur búsins dragast saman og hallinn af búrekstrinum aukast. Þessum búskaparháttum er trúandi á Bakkabræður og vinstri sinnaða stjórnmálamenn. 

Áætlanagerð ríkisbúskaparins mun ekki vera upp á marga fiska, og útgjaldaáætlanir líklega stórlega vanáætlaðar vegna launahækkana og ákvörðunar um að láta ýmsar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fylgja launavísitölu í stað neyzluvísitölu. Nú hefur forsætisráðherra boðað erfiðar aðgerðir á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs til að ná hallalausum ríkisbúskapi 2027.  Hvar mun stjórnin bera niður ?  Það verður henni erfitt í ljósi kosningaloforða. Forystugrein Morgunblaðsins 3. apríl 2025 fjallaði um ríkisbúskapinn undir heitinu: 

"Ábyrg ríkisfjármál".

"Í gær birtist í Viðskipta-Mogganum viðtal við Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áður hjá fjármálaráðuneytinu, sem varpar ljósi á brýna þörf fyrir bætta áætlanagerð og hagræðingu í ríkisfjármálum á Íslandi. 

 

Sú þörf er ekki ný af nálinni, og þar hefur vissulega margt verið aðhafzt af hálfu fyrri fjármálaráðherra, sem til framfara horfir. Nefna má rammafjárlög og fjármálaáætlun, sem voru vissulega til bóta, en hafa einnig haft ýmsar óætlaðar afleiðingar, sem bæta þarf úr. 

Þessa dagana ræða stjórnvöld fjálglega um stöðugleikareglu, sem kann að reynast lofsverð, en á hinn bóginn getur hún opnað nær sjálfvirkum skattahækkunum leið.  Það verður að forðast í lengstu lög.  Á hinn bóginn blasir við nauðsyn þess, að hér verði útgjaldaregla lögfest og hún höfð að meginreglu við stjórn opinberra fjármála, sem stuðlaði að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinum."

 Útgjaldaregla af þessu tagi getur t.d. verið ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu, VLF.  Nú mun takast að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs með sölu á Íslandsbanka.  Á meðan s.k. innviðaskuld hangir yfir Alþingi, er ekki líklegt, að ríkisútgjöld verði lækkuð varanlega sem þessu nemur.  Það má örugglega finna eignir í eignasafni ríkisins, sem borgar sig að selja, en aðrar er rétt að halda í af m.a. samkeppnisástæðum.

"Álfrún bendir á, að opinber útgjöld hafi víðast aukizt mikið á undanförnum árum, en efnahagsþrótturinn síður.  Því hafi þess víða verið freistað að ná tökum á þeim með útgjaldagreiningum, kerfisbundinni skoðun á útgjaldagrunni til að leita hagræðingar án þess að laska hin félagslegu kerfi.  Nokkur árangur hefur náðst í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Kanada.  Slík nálgun hafi hins vegar ekki náð fótfestu á Íslandi að hluta til vegna þess, að menn hafi ekki fundið neinn hvata til slíkrar skoðunar í miðjum efnahagsuppgangi."

 Ríkisstjórn K. Frost. lét í veðri vaka í upphafi ferils síns, að hún hefði mikinn hug á sparnaði, kallaði eftir sparnaðartillögum almennings, en hafnaði svo flestum tillagnanna, og enginn veit, hverjar lyktirnar verða.  Hvers vegna fór hún ekki í alvöru átak með því t.d. að kalla til ráðuneytis Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá OECD ?  Sýndarmennskan er of áberandi í fari ríkisstjórnarinnar. 

Í lok forystugreinarinnar sagði:

"En það þarf líka góð vinnubrögð.Flaustrið við gerð frumvarpsdraga um tvöföldun veiðigjalda bendir til þess, að þeim sé stórlega ábótavant.  Ekki verður séð, að þar hafi gagna verið aflað eða þau greind um afleiðingar svo stórkarlalegrar og fyrirvaralausrar breytingar, hvað þá að samráð hafi verið haft við hagaðila í sjávarútvegi, sveitarfélögum eða verkalýðshreyfingu, svo [að] augljós dæmi séu nefnd.  Fjármálaráðherra virðist ekki einu sinni hafa reiknað út áhrif þessara breytinga á ríkissjóð.  Þar verður að gera betur."

Téð frumvarp er svo ambögulegt, að það brýtur sennilega í bága við stjórnsýslulög og stjórnarskrá um álagningu skatta.  Það er vegna þess, að verðviðmiðanir frumvarpsins, sem skattheimtan er reist á, eru út úr kú.  Téð verð verða aldrei grunnur að ráðstöfunarfé fyrirtækjanna, sem skattheimtan beinist að.  Varðandi bolfiskinn er um að ræða jaðarverð, sem erlendir fiskverkendur móta með tilboðum á uppboðsmarkaði, verksmiðjur í vernduðu umhverfi lægri launa en hér og stundum niðurgreiddar af hinu opinbera. Varðandi uppsjávarfiskinn er ætlunin að miða við verð í Noregi, sem myndast við markaðsaðstæður, sem ómögulegt er að varpa yfir á Ísland af nokkru viti.  Grundvöllur hinnar væntanlegu nýju skattheimtu er þannig erlendur og ekki myndaður í viðskiptum fyrirtækjanna, sem á að heimta skattinn af.  Þetta er óboðlegt með öllu og svo mikið óréttlæti, að enginn friður getur orðið um.  Líklegt má telja, að til málshöfðana komi til að láta reyna á lögmæti vinnubragða af þessu tagi.   

  

 


Refsiskattar K. Frost. stjórnarinnar

Ríkisstjórn K. Frost., Sólhvarfastjórnin, er gamaldags vinstri stjórn, óspennandi með öllu fyrir þá, sem vinna að verðmætasköpun og gera sér grein fyrir mikilvægi jákvæðrar hugmyndaauðgi (sköpunargáfu) og nýsköpun.  Hvað sem líður fögrum fyrirheitum, vinna gjörðir K. Frost. beinlínis gegn aukinni verðmætasköpun og nýsköpun.  Hún gerir þetta með skattheimtu langt handan meðalhófs á fyrirtæki og fjölskyldur í dulbúningi "leiðréttinga".  Þegar byrðar misheppnaðs tollastríðs Bandaríkjastjórnar gegn heiminum leggjast ofan á háskattastefnu ríkisstjórnarinnar, horfir óbjörgulega við um hagvöxt á Íslandi. Með þessu áframhaldi munu áætlanir ríkissjórnarinnar margar hverjar falla um sjálfar sig, því að þær eru reistar á hagvexti í íslenzka hagkerfinu, sem illa ígrundaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu drepa í dróma.

Þann 2. apríl 2025 birtist viðtal Viðskiptamoggans við forstjóra eins sjávarútvegsfélagsins, Ísfélagsins, Stefán Friðriksson, undir fyrirsögninni:

"Gæti þýtt allt að þreföldun veiðigjalda".

"Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, varar við alvarlegum afleiðingum þeirra áforma stjórnvalda að hækka veiðigjöld og kolefnisgjöld á sjávarútveginn. "Fyrir Ísfélagið gæti þetta þýtt þreföldun veiðigjalda sökum þess, hvað við veiðum mikið af uppsjávarfiski - þetta eru háar upphæðir, sem hafa bein áhrif á rekstur, fjárfestingar og störf í sjávarútvegi", segir hann.

Félagið, sem rekur útgerðir og vinnslu í Vestmannaeyjum, Fjallabyggð og á Þórshöfn, er stórt í uppsjávarfiski og því sérstaklega viðkvæmt fyrir loðnubresti.  Stefán segir, að núverandi stefna stjórnvalda sendi röng skilaboð til fyrirtækja, sem hafa verið að fjárfesta í nýsköpun og sjálfbærni.

"Það blasir  við, að verið sé að slátra mjólkurkúnni - sjávarútvegurinn skilar miklum verðmætum til þjóðarbúsins og til samfélaga á landsbyggðinni bæði beint og óbeint. Í stað þess að hlúa að greininni stendur til að refsa henni með skattahækkunum."

Ríkisstjórnin er ónæm fyrir vandræðum, sem nú blasa við uppsjávarútgerðum. Fiskgengd í íslenzku lögsöguna er svo mikilli óvissu undirorpin, að afkoma útgerðarfélaganna er undir hælinn lögð.  Þessu bregst ríkisstjórnin við með því að skella skollaeyrum og láta, eins og fiskimiðin séu gullnáma, sem hægt sé að ganga að og lítið sem ekkert þurfi að hafa fyrir að breyta í verðmæti.  M.ö.o. hagar ríkisstjórnin sér, eins og hún hafi fundið bullandi auðlindarentu í útgerðunum.  Ekkert er fjær sanni, og ríkisstjórnin er veruleikafirrt í gjörðum sínum gagnvart atvinnulífinu.  Ekki var við öðru að búast af krötum, sem ekkert skynbragð bera á, hvernig verðmæti verða til, og horfa vonaraugum til Evrópusambandsins, ESB.  Sú afstaða er rétt eitt merkið um veruleikafirringu í ráðherrahópnum. Ráðherrarnir eru haldnir trúargrillum, sem þeim dettur ekki í hug að reyna að sannreyna.

"Stefán bendir á, að sjávarútvegurinn sé burðarás í mörgum landsbyggðarsamfélögum.  

"Við erum með starfsemi í samfélögum, þar sem sjávarútvegurinn skiptir miklu máli.  Þegar skattar og álögur aukast svona mikið, dregur úr getu okkar til að halda áfram að fjárfesta og skapa aukin verðbæti", segir Stefán. 

Ísfélagið hefur síðustu ár fjárfest umtalsvert.  Á árinu 2024 hóf nýtt ísfiskskip, Sigurbjörg, veiðar, og frystiklefi á Þórshöfn er við það að klárast.  Þá er í undirbúningi rafvæðing fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum. 

"Við viljum nýta græna orku og  vera hluti af orkuskiptunum, en raforka fyrir þennan iðnað er einfaldlega ekki [fyrir hendi] í nægilegu magni næstu ár", segir hann.

Samhliða veiðigjöldum hefur ríkisstjórnin boðað frekari hækkun kolefnisgjalds.  Það mun bitna hart á sjávarútveginum.  Stefán segir, að það sé þversagnakennt að leggja auknar álögur á grein, sem hefur staðið sig vel í sjálfbærnivinnu.

"Við höfum fjárfest í nýjum skipum, sem eru hagkvæmari og losa minna kolefni [á hvert veitt tonn - innsk. BJo]; það hefur orðið þróun í veiðarfærum og þau orðið léttari; fiskimjölsverksmiðjur hafa verið rafvæddar, en þrátt fyrir þetta eigum við að borga hærra kolefnisgjald án þess að eiga möguleika á að leita grænna lausna", segir hann.

Hann bendir einnig á, að orkuskipti í sjávarútvegi séu flókin og krefjist langtímastefnu og innviða.

"Þú breytir ekki skipum yfir í græna orku á einni nóttu, og það er langt í, að hægt verði að rafmagnsvæða skipaflotann á Íslandi.  Við þurfum samvinnu, hvata og raunhæfa sýn, ekki refsiskatta", segir Stefán."

Það, sem hér er að gerast af hálfu ríkisvaldsins, er, að refsivendi þess er beitt af nýgræðingum í ráðherrastólum, reynslulausum af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þekkingarlausum á því hlutverki, sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa með höndum í sjávarbyggðum landsins.  Afleiðingin verður veiking sjávarútvegsins og sjávarbyggðanna að sama skapi og fjármagn er dregið úr þessum byggðum til ríkissjóðs. Þetta er glórulaus stefna, sem verður að reka til baka við fyrsta tækifæri, enda eru forsendurnar arfavitlausar. Þær eru kaupgeta erlendra og niðurgreiddra fiskvinnslna á íslenzkum uppboðsmörkuðum og mörkuðum í Noregi.  Fyrirfram var ekki hægt að ætla, að nokkrum heilvita manni dytti annað eins skemmdarverk í hug. 

Kolefnisgjaldið á sjávarútveginn er dæmi um örþrifaráð vinstri manna til að stoppa upp í göt ríkisrekstrarins.  Sjávarútvegurinn hefur verið til fyrirmyndar í orkumálum og fjárfest í bættri orkunýtni fiskiskipa og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Ríkisvaldið er blint.  Með ofurskattheimtu er nú dregið úr kraftinum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og ræfildómur ríkisvaldsins hefur þegar valdið svo miklum raforkuskorti í landinu, að rafmagnskatlar verksmiðjanna eru að mestu ónotaðir.  Við þessar aðstæður er siðlaust að þrýsta á orkuskipti sjávarútvegsins með hækkun kolefnisgjalds.  Allar gerðir þessarar ríkisstjórnar gagnvart fyrirtækjum landsins og yfirleitt í fjármálum virðast vera glórulausar, enda var aldrei á góðu von.    

  


Er auðlindarenta fyrir hendi í íslenzkum sjávarútvegi ?

Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er lykilatriði til að meta, hvort eðlilegt geti talizt að leggja viðbótar skatt á sjávarútveginn (tekjuskattur er lagður á öll fyrirtæki). Sérstaða íslenzka sjávarútvegsins er fiskveiðistjórnunarkerfið, sem lokar aðgangi að fiskimiðunum í íslenzku fiskveiðilögsögunni fyrir öðrum en þeim, sem geta sýnt fram á eignarhald aflahlutdeildar fiskveiðiskips. Þetta er aðalreglan, en fleiri kerfi eru við lýði í lögsögunni, mishagkvæm.  Aflahlutdeildir, kvótar, ganga kaupum og sölum og eru einnig leigðar.  Má halda því fram, að með kaupum á aflahlutdeild hafi auðlindarenta verið greidd, því að aflahlutdeildin er afleiðing aðgangstakmarkana ríkisins að miðunum, en þessar takmarkanir eru grunnforsenda arðsemi veiðanna.  Um þetta sagði "Hagræni hópurinn" í skýrslu "Auðlindarinnar okkar - sjálfbær sjávarútvegur":

 Sagt er, að líklegt sé, að auðlindarenta í sjávarútvegi hjá þeim, sem nú stunda útgerð, sé lítil sem engin, "þar sem þau hafa nú þegar greitt fyrir hana í verði aflaheimilda.  Við þetta má bæta, að þegar og ef auðlindarenta myndast í sjávarútvegi, þá sé um að ræða áhrif aukningar í afla eða hagstæðra gengisbreytinga".  

Auðlindarenta er almennt skilgreind sem arður við starfsemi auðlindanýtingar, sem er umfram arðsemi á hefðbundnum samkeppnismörkuðum.  Ekki er vitað til, að nokkur hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á þessa auðlindarentu yfir samfellt 5 ára tímabil eða lengur. Það hefur verið reiknað út, að veiðigjöld hafi numið 16 %-18% af reiknaðri auðlindarentu 2010-2023, en hún var þá fengin með röngum forsendum, sem sé, að útflutningsverðmæti allra sjávarafurða var lagt til grundvallar, þegar rétt er að miða við aflaverðmæti upp úr sjó. 

Í skýrslunni "Auðlindinni okkar", 2022, stóð m.a.:

""Skýrar vísbendingar eru um stærðarhagkvæmni í íslenzkum sjávarútvegi og sýnt hefur verið fram á, að álagning veiðigjalda leiði til samruna fyrirtækja í greininni, þannig að þeim fækkar á sama tíma og þau stækka.  Þetta er í góðu samræmi við rannsóknir, sem sýnt hafa fram á, að stærstu og fjárhagslega sterkustu fyrirtæki í sjávarútvegi greiði meirihluta innheimtra auðlindagjalda," segir í skýrslunni."

Ríkisvaldið skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna með sértækri skattheimtu.  Þetta á við sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis og þau sem heild innanlands (samkeppni um fjármagn og starfsmenn) og utanlands (markaðsstaða).

"Jafnfram segir, að það hafi verið "færð fyrir því rök, að álagning veiðigjalda umfram getu hennar til greiðslu á hverjum tíma tefli samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs í tvísýnu.  Einnig hefur verið bent á, að álagning veiðigjalda geti rýrt skattstofna hins opinbera, þegar til lengri tíma er litið, sem aftur geti skilað sér í minni efnahagslegum ábata af auðlindinni en annars væri."

Það eru til hagfræðilegar aðferðir til að reikna út þá skattheimtu á fyrirtæki, tæplega þó á atvinnugrein, sem er líklegust til að skila hinu opinbera hámarks tekjum til lengdar, þegar "allt" er tekið með í reikninginn.  Núverandi ríkisstjórn getur ekki sýnt fram á neina slíka tilburði.  Hún gerir sér lítið fyrir og tvöfaldar sérskattheimtu á sjávarútveginn og skýtur sig þar með í fótinn, því að hún er örugglega komin langt út yfir "kjörskattheimtu".  Með fáránlegri aðgerð, sem á sér engin fordæmi hvorki hér né annars staðar, eykur hún skattheimtuna mjög mikið í einu stökki í stað vandaðrar greiningar.  Þessari flaustursríkisstjórn er ekki treystandi til að stjórna landinu almenningi til heilla.

"Hagræni hópurinn ritaði 8. kafla í skýrslu Auðlindarinnar okkar, og er þar fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Lagði hópurinn fortakslaust til, að aflamarkskerfi yrði viðhaldið við stjórn fiskveiða.  

Er bent á, að kerfið hafi gert útgerðum kleift að draga úr offjárfestingu í veiðum og vinnslu, [skapað] skilyrði fyrir skipulagða sókn og minnkað álag á vistkerfi sjávar.  Vandamál, sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hér á landi, séu því eðlisólík því, sem gerist erlendis; hér hafi aðallega verið til umræðu, hvernig dreifa eigi arði af nýtingu auðlindarinnar, en erlendis sé litlum sem engum arði til að dreifa."

Þessari umræðu var komið af stað með fullyrðingu um, að auðlindarenta fyndist í sjávarútvegi sem heild, en sú fullyrðing reyndist röng.  Þar af leiðandi eru veiðigjöldin reist á sandi, og hækkunarfyrirætlun stjórnvalda nú er stórskaðleg.

""Það, að veiðigjöld hafi numið að meðaltali 16 % - 18 % af reiknaðri auðlindarentu, er, að öðru óbreyttu, ekki vísbending um, að núverandi veiðigjöld séu of lág.  Það veldur vanda við fyrrgreinda útreikninga, að metin renta er reiknuð sem hlutfall af útflutningsverðmæti allra sjávafurða, en í þeirri upphæð er bæði sá virðisauki, sem átt hefur sér stað í vinnslu, markaðsstarf o.þ.h., auk þess sem virði afla utan Íslandsmiða er einnig tekið með.  Veiðigjöld eru hins vegar lögð á veiðarnar sjálfar sem afgjald fyrir notkun og ættu því frekar að miðast við aflaverðmæti úr sjó.""

Það gætir skilningsleysis á hugtakinu auðlindarenta, þegar virðisauka vinnslunnar er bætt við aflaverðmæti úr sjó til að finna auðlindarentu. Það hefur hingað til mistekizt að réttlæta veiðigjöldin með auðlindarentu, því að hana er ekki að finna til lengdar hjá útgerðunum, þ.e.a.s. það hefur enn ekki verið sýnt fram á meiri arðsemi fyrirtækja í sjávarútvegi en í öðrum greinum yfirleitt. Stafar það líklega af sveiflum í lífríki sjávar og af því, að hægt hefur miðað við uppbyggingu þorskstofnsins.  Hafa verður þar í huga gríðarlegt afrán hvala í íslenzku fiskveiðilögsögunni.

  

 

 


Orð og gjörðir fara ekki saman hjá ríkisstjórninni

Ráðherrarnir skilja ekki stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, sem þeir sitja í, eða þeir eru ráðnir í að hafa hana að engu, e.t.v. af því að þeir vilja upphefja pólitískar grillur sínar og rökstyðja með fáránlegum reiknigrunni, sem framkallar viðbótar skattheimtu af útflutningsatvinnuvegum landsins. Í ósvífni sinni kalla ráðherrarnir þetta fúsk leiðréttingu. Með þessu skjóta þeir sig og raunar landsmenn alla í fótinn, þvi að boðuð skattheimta getur engan veginn framkallað betri lífskjör í landinu.  Þvert á móti mun hún rýra skattstofna og draga úr því, sem fyrirtæki og launamenn bera úr býtum. Skattheimtan á sjávarútveginn mun veikja dreifðar byggðir landsins og draga má í efa, að þessi leiðrétting standist íslenzk lög um skattheimtu. 

Fyrir þjóðhagslegri óhagkvæmni leiðréttingarinnar  færði einn færasti auðlindahagfræðingur landsins, prófessor emeritus Ragnar Árnason, gild rök  í Morgunblaðsgrein sinni 16. apríl 2025:

"Atlaga að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar".

Hún hófst þannig:

"Í stefnuskrá ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur eru fögur orð um að efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun.  Þar er því lýst þegar í upphafi, að ríkisstjórnin muni "vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi" og í aðgerðalista því m.a. lofað, að ríkisstjórnin muni stuðla að aukinni framleiðni  (aðgerð 5) og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja (aðgerð 10).

Þessi stefnumið eru skynsamleg, enda er aukin verðmætasköpun forsenda þess, að unnt sé að bæta hag þjóðarinnar, svo [að] ekki sé minnzt á að draga úr fátækt, efla velferðarkerfið, styrkja menntakerfið og greiða hina svo kölluðu innviðaskuld, sem einnig er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar."

Nú er komið í ljós, að ríkisstjórnina skipa frasahöfundar, sem þekkja ekkert til atvinnulífs og skilja þar af leiðandi ekki, hvaða afleiðingar aðgerðir hennar hafa á atvinnulífið, þjóðarhag og lífskjör. Ráðherrarnir hafa ekkert jarðsamband. Ríkisstjórnin er þar af leiðandi gagnslaus fyrir öll framfaramál, sem leitt geta til batnandi hags almennings, en hún er miklu verra fyrirbæri.  Hún er þjóðhagslega hættuleg, þ.e.a.s. hún slengir fram pólitískum hugðarefnum sínum að algerlega óathuguðu máli og annaðhvort skilur ekki eða kærir sig kollótta um, að fyrirhugaðar skattahækkunaraðgerðir hennar vinna þvert á frasana, sem Ragnar Árnason vitnar til hér að ofan.  Þess vegna er þetta gjörómöguleg ríkisstjórn, sem á sér engan tilverurétt.  Hún er skaðleg og mun ekki leggja grunn að nokkrum nytsamlegum málum, þótt annað hafi mátt ætla af stefnuskránni.  Ráðherrarnir hafa gert hana að umbúðum án innihalds. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa ekkert úthugsað erindi, en vera samt full af grobbi.

"Minna framleiðsluverðmæti í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þýðir að sama skapi minni þjóðartekjur. Minni þjóðartekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyzlu og því minni hagsæld landsmanna.  Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjárfestinga og því minni hagvöxtur.  Þjóðartekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar neð hagsæld.  Því mun koma að því, að öllum líkindum innan tiltölulega fárra ára, að opinberar skatttekjur dragist saman þrátt fyrir þyngri skattbyrði á sjávarútveg og ferðaþjónustu".

 Hvaða lýsing er þetta ?  Þetta er ósköp venjuleg lýsing á afleiðingum gjörða vinstri stjórnar.  Hún kom til valda undir fölskum fána, og K.Frost. ætlaði ekki að tjalda til einnar nætur, heldur þóttist vera með plan til 8 ára.  Í skápnum reyndist ekkert haldbært, heldur aðeins beinagrind sósíalistans, sem hefur ekkert vit á rekstrarhagfræði og skattleggur allt, sem hreyfist, þar til það hreyfist ekki lengur.  Landsmenn köstuðu vinstri stjórninni 2009-2013 af sér með róttækum hætti.  Ríkisstjórn K. Frost. á ekkert erindi annað en það, sem búast má við úr vopnabúri afdankaðra vinstri manna.  Kristrún hefur ekki mótað neina nýja hugmyndafræði jafnaðarmanna, sem getur blásið lífi í þessa ríkisstjórn.  Innantómir frasar eru aðeins til að kasta ryki í augu fólks.  

"Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr umsvifum þeirra og minnkar þjóðartekjur og hagvöxt.  Hún rýrir því lífskjör landsmanna bæði í bráð og lengd.  Vegna minni þjóðartekna munu opinberar skatttekjur jafnfram óhjákvæmilega minnka, er fram í sækir. 

Því er eðlilegt, að spurt sé, hví ríkisstjórnin hafi kosið að leggja í þessa vegferð.  Er ekki hlutverk hennar að bæta lífskjör landsmanna ?  Telji hún, að vandinn sé að brúa fjárhalla ríkissjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauðsynlegustu ríkisútgjöldin ?  Þar er vissulega af nægum útgjaldaliðum að taka, sem lítt eða ekki nýtast fyrir íslenzka ríkisborgara."

Það kann vel að vera, að ríkisstjórnin sé í vandræðum með fjárlagahallann, því að niðurskurður útgjalda á varla breiðan samhljóm innan þingflokka stjórnarinnar, en það er algerlega siðlaust að grípa þá til sérskattlagningar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sem í tilviki sjávarútvegsins gengur þá svo nærri fjárhagnum að líkja má við eignaupptöku, og í tilviki ferðaþjónustunnar þýðir að gera slaka samkeppnisstöðu vonlausa, sem þýðir "hrun í stofninum".  

Hugsunin á bak við skattheimtu ríkisstjórnarinnar af grunnatvinnuvegunum er röng, vegna þess að hún veikir afkomu þeirra um of, sem koma mun niður á lífsafkomu almennings í landinu vegna samdráttar í þessum greinum af völdum ofvaxinnar skattheimtu, eins og Ragnar Árnason hefur sýnt fram á.  Ofan á þetta bætist, að grundvöllur hækkandi skattheimtu á sjávarútveginn er reistur á greiðslugetu erlendra kaupenda, sem búa við aðstæður, sem eru ósambærilegar við íslenzkar fiskvinnslur.  

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband