Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Dómsdagsspádómar loftslagskirkjunnar

Þeir, sem beita dómsdagsspádómum sem verkfæri til að hræða fólk til fylgilags við sig, eru loddarar og þar af leiðandi rúnir trausti.  Þegar spádómar þeirra ganga ekki eftir, afhjúpast loddararnir, og má þá einu gilda, hvort þeir þykjast starfa á vísindalegum grunni eða ekki.  Þetta hefur einmitt gerzt með loftslagspostulana.  Það eitt út af fyrir sig nægir til að taka ekki mark á þeim lengur, enda eru aðrir, raunverulegir raunvísindamenn, sem hafa gagnrýnt tölulegar upplýsingar þessara postula og talið þær rangar, enda stangast þær á við niðurstöður beztu mæliaðferðanna, sem hvergi hafa verið hraktar með haldbærum vísindalegum rökum. 

Nú fer líklega að síga á seinni hluta þessa lotubundna hlýskeiðs, sem hófst fyrir um 10 k árum. Það eru kuldaskeiðin, sem virðast hafa verið ríkjandi á jörðunni.  Þekkt eru þó 4 hlýskeið á undan þessu með hærra hitastigi en nú er á jörðunni.  Vitað er, að hækkandi styrkur CO2 í andrúmslofti olli þeim ekki, því að engin markverð breyting varð þá á styrk þessarar gastegundar í andrúmsloftinu.  Hvað olli þá þessum hlýskeiðum ?  Mjög líklega hið sama og olli núverandi hlýskeiði.  Það eru sem sagt önnur náttúrulögmál en endurkast og ísog innrauðra geisla frá jörðunni í CO2 gasi, sem að öllum líkindum valda núverandi hlýnun.  Hið raunverulega vandamál til langs tíma er væntanlegt kuldaskeið. Loftslagspostularnir skoða ekki heildarmyndina af neinni alvöru, hvað þá að þeir reyni að komast til botns í orsakavöldum hlýskeiða almennt.  Koltvíildiskenningin er óleyfileg ofureinföldun á flóknu fyrirbæri.  

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, rekur loddarahátt heimsendaspámanna í Morgunblaðsgrein 29. marz 2023.  Það er svo sláandi lesning, að hún ein og sér nægir til að vekja alvarlega tortryggni í garð þeirra, sem hæst láta um þessar mundir um, að mannkynið sé að renna út á tíma með að bregðast við hlýnuninni.  Landverndarforkólfar eru háværir, og þeirra hugmyndafræði hljómar ágætlega við boðskap Rómarhópsins fyrir 51 ári, sem Óli Björn rekur upphaf vitleysunnar til í Morgunblaðsgrein sinni, 29. marz 2023: 

"Erum við dauðadæmd ?":

"Dómsdagsspár Rómarhópsins gengu ekki eftir. Á þeim áratugum, sem liðnir eru frá því, að bókin kom út (1972 á ensku og 1974 á íslenzku), hefur verðmætasköpun heimsins margfaldazt og lífskjör stórbatnað, sérstaklega þeirra, sem eru svo gæfusamir að búa í samfélögum, þar sem markaðsbúskapur hefur fengið að blómstra.  Rómarhópurinn hafði engan skilning á eðli markaða og horfði framhjá samspili verðs og framboðs og áttaði sig ekki á því, hvernig hugvit, þekking og tækniframfarir stuðla að auknum vexti og bættum lífskjörum."  

Nákvæmlega hið sama á við um forkólfa Landverndar. Hinir virtu fræðimann í þessum s.k. Rómarhópi, sem sömdu ritið "Endimörk vaxtar", voru sem sagt fákunnandi á lykilsviðum, sem vörðuðu viðvaranir þeirra til heimsbyggðarinnar og dómsdagsspár, ef ekki væri farið að ráðleggingum þeirra.  Þeir reyndust vera þröngsýnispúkar, og sumir í þessum hópi sennilega haldnir hatri á kapítalismanum, auðhyggjunni, sem hafði varðað veg mannkynsins til stöðugs lífskjarabata, bætts heilsufars og aukins langlífis.  Þegar hér var komið sögu, hafði kommúnisminn, sameignarstefnan, þegar sýnt, að þjóðfélag sósíalismans reyrði fólk í viðjar ófrelsis og kúgunar og að kerfið stóðst ekki auðhyggjunni, markaðshyggjunni, snúning, hvað lífskjör og lífsgæði snerti.  

Hið sama er uppi á teninginum nú, og nú ganga hinar spilltu og úreltu Sameinuðu þjóðir fram fyrir skjöldu með því að hampa dómsdagsspádómum í krafti "vísinda", sem þola ekki gagnrýna umræðu.  

"Hægt og bítandi gerði ég [ÓBK] mér grein fyrir, að vísindamennirnir væru ekki aðeins á villigötum, heldur beinlínis í pólitískri baráttu gegn markaðsbúskap - kapítalisma.  Þeir vildu kollvarpa þjóðskipulagi Vesturlanda með því að ala á hræðslu og ótta [á] meðal almennings."

Þessir þröngsýnu og villuráfandi fræðimenn töldu sér og öðrum trú um, að auðlindir jarðar væru að verða uppurnar og að auðhyggjan væri sökudólgurinn.  Það reyndist öðru nær.  Auðhyggjan varð bjargvætturinn.  Nú halda þröngsýnispúkar sig við eina lofttegund, CO2 - koltvíildi, sem þeir telja of mikið af í andrúmsloftinu, og að styrkur hennar þar vaxi of hratt.  Þeir gera þessa gastegund að blóraböggli hlýnunar jarðar, sem stefni í óefni, m.a. vegna bráðnunar jökla og hækkandi sjávarborðs.  Þeir skjóta fólki skelk í bringu með þeirri fullyrðingu, að við 3,5°C hlýnun frá um 1850 verði hlýnunin óviðráðanleg.

  Núverandi hlýskeið er ekki hið fyrsta í sögu jarðar.  Hvernig stendur á því, að í kjölfar fyrri hlýskeiða tóku við langvarandi kuldaskeið ?  Áróður loftslagskirkjunnar er ótrúverðugur og beinlínis einfeldningslegur.  Að baki býr löngun til heilaþvottar lýðsins og eyðileggingar á velmegunarþjóðfélögum auðhyggju og lýðræðis. 

"Spámenn hafa fylgt okkur frá örófi alda.  Sumir hafa klætt spádóma sína með trúarbrögðum, en aðrir byggja á vísindum eða a.m.k. með tilvísun til þeirra. Félagar í Rómarhópnum voru hvorki þeir fyrstu né þeir síðustu, sem sjá fyrir sér endalokin, ef mannkynið breytir ekki hegðun sinni. 

Vísindamenn hafa lengi reynt að átta sig á því, hvaða áhrif maðurinn og hegðun hans hefur á umhverfið og þá ekki sízt [á] loftslagið.  Þar hafa þeir sveiflazt fram og til baka og komizt að mismunandi niðurstöðum á ólíkum tímum."

Spádómar langt inn í framtíðina hafa alltaf verið af trúarlegum toga.  Raunverulegir vísindamenn gera ekki lítið úr sér með langtímaspádómum, nema þá almenns eðlis, eins og að sól okkar muni á endanum kulna og verða að svartholi.  Óvissan og áhrifaþættirnir eru yfirleitt of margir, til að nokkurt vit sé í að tímasetja atburði langt inni í framtíðinni.  Aftur á móti hafa loddarar hiklaust spilað á veikleika manna gagnvart slíku, og s.k. trúarhöfðingjar hafa ósjaldan stofnað í kringum sig trúarsöfnuð með hjálp ógnvænlegra spádóma. Þessi saga endurtekur sig núna að breyttu breytanda með loftslagskirkjunni.  Vísindalegum grundvelli er ekki fyrir að fara, þótt halelúja-hópurinn sé stór. 

 "Dagblaðið Boston Globe sló því upp í fyrirsögn árið 1970, að vísindamaður spáði nýrri ísöld fyrir 21. öldina. Ári síðar var svipuð fyrirsögn í Washington Post.  Brezka dagblaðið Guardian greindi frá því árið 1974, að gervitunglamyndir sýndu nýja ísöld skammt undan.  Sama ár flutti Reuters-fréttastofan svipaða frétt.  Það voru engin hlýindi í kortunum, heldur þvert á móti kólnun - ísöld var sögð framundan.  En svo breyttist allt."

 Þegar hér var komið sögu, hafði iðnvæðingin með jarðefnaeldsneytisbrennslu sinni staðið í 2 aldir og hitastigsmælingar víða um jörðina verið skráðar í eina öld. Hvers vegna var einvörðungu kenningum um kólnun andrúmsloftsins haldið á lofti ? Það er út af því, að mælingar á koltvíildisstyrk andrúmslofts voru tiltölulega nýlegar, og menn höfðu enn ekki áttað sig á, að hann fór vaxandi.  Lögmálið um ísog og endurkast CO2 á hitageislum hafði hins vegar verið þekkt í marga áratugi, og þegar tilhneigingin til hækkunar CO2 í  andrúmsloftinu var uppgötvuð, þá tengdu menn strax hitastigshækkunina við hana.  Þar sem fyrri hlýskeið jarðar sýndu engin merki um CO2-hækkun, er alveg áreiðanlegt, að önnur öfl eru hér einnig að verki. 

"Hækkandi sjávarstaða vegna hlýnunar mun útrýma þjóðum fyrir árið 2000 sagði í frétt AP árið 1989.  Fréttastofan greindi frá því, að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) spáðu hörmungum, ef hlýnun jarðar yrði ekki stöðvuð. Vitnað var til "háttsetts umhverfisfulltrúa SÞ", sem hélt því fram, að heilu þjóðirnar gætu þurrkazt út vegna hækkandi sjávarstöðu, ef hnattrænni hlýnun yrði ekki snúið við fyrir árið 2000.  Fréttin tónaði ágætlega við frásögn í New York times 42 árum áður, þar sem haft var eftir vísindamanni, að hlýnandi norðurskautsloftslag leiddi til bráðnunar jökla og hækkandi sjávarstöðu.

Árið 2007 spáði Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) því, að Himalajajöklar myndu hverfa árið 2035.  Þetta var síðar dregið til baka með þeirri útskýringu, að spáin hefði ekki verið [reist] á ritrýndum gögnum, heldur fjölmiðlaviðtali við vísindamann árið 1999 !"

Hvað veldur allri þessari yfirlýsingagleði s.k. vísindamanna í fjölmiðlum um ískyggilegar afleiðingar af ýktri hlýnun andrúmslofts jarðar ?  Til þess liggja 2 meginástæður.  Óvandaðir pappírar í vísindaheiminum (þeir eru alls staðar) reyna með óvönduðum meðulum að vekja athygli og slá um sig með "vísindaniðurstöðum", sem standast ekki vandaða skoðun, til að herja út fé til starfsemi sinnar úr opinberum sjóðum og einkasjóðum. 

Blaðamenn gleypa við nýjum staðhæfingum úr vísindaheiminum um þróun mála, sem rýra munu lífskjör margra jarðarbúa, jafnvel allra, er lengra sækir, og draga úr fjölbreytni lífríkis. Það er líka stunduð þöggun, þannig að gagnrýnisröddum úr hópi vísindamanna er ekki hleypt að gjallarhornunum. Þetta fyrirbrigði þekkjum við vel úr Kófinu.  Það er lýðræðisfjandsamlegt í eðli sínu. 

"Al Gore [sá sem fann upp alnetið að eigin sögn - innsk. BJo], fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hélt því fram árið 2008, að allur ís á norðurpólnum hyrfi á komandi 5 árum.  Tveimur árum síðar brýndi varaforsetinn fyrrverandi leiðtoga heims til að grípa til "róttækra ráðstafana" til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Annars stefndi í neyðarástand og innan 10 ára yrði ekki til baka snúið.  Árið 2016 kom og fór.  Árið 2019 skrifaði Al Gore blaðagrein undir fyrirsögninni "Það er ekki of seint"."

Áhrifavaldar (lobbýistar) úr vísindaheiminum hafa komið auga á þennan auðtrúa fyrrverandi varaforseta og yfirlýsingagleði þessa þekkta manns.  Þeir hafa talið honum trú um það, sem hann síðar gaspraði um, ómeðvitaður um, að hann væri orðinn gjörsamlega marklaus vegna endurtekinna staðlausra stafa sinna.  Þessi aðferðarfræði loftslagskirkjunnar með öllum sínum hindurvitnum og hótunum um helvíti, ef ekki yrði farið að vilja hennar, eru bara gamalkunnug stef úr mannkynssögunni og eiga ekkert skylt við raunvísindi, þótt stöðugt sé reynt að sveipa skykkju raunvísindanna utan um sjúklegan fullyrðingaflauminn.  

 


Landsnet gerir í nytina sína

Það er ekki hlutverk stjórnenda eða stjórnar Landsnets að tjá opinberlega skoðanir í nafni fyrirtækisins á ólíkum virkjanakostum.  Af frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 25. marz 2023 verður þó ráðið, að sú hafi orðið raunin, og sé Landsnet að hvetja til uppsetningar vindknúinna rafala til að bjarga orkuskiptunum. Þetta er mjög óeðlileg hegðun af þessu ríkisfyrirtæki, sem ætlazt er til að gæti hlutleysis og hlutlægni gagnvart fyrirtækjum og orkukostum, sem þau hafa hug á að tengja inn á stofnkerfið.  

Þetta á sérstaklega við í tilviki vindorkunnar vegna þess, hversu umdeild hún er í landinu vegna eðlis síns og landverndarsjónarmiða margra landsmanna. Til að koma í veg fyrir, að vindhvirflar hafi innbyrðis neikvæð áhrif á rekstur vindknúinna rafala, má bilið á milli burðarsúlnanna vart verða minna en d=8xh (h=hæð vurðarsúlu).  Þá fæst fyrir 6,0 MW aflgetu per súlu 2,3 MW/km2.  Til að fá sömu aflgetu frá vindrafalaþyrpingu og frá Hvammsvirkjun, 95 MW, þarf þá að umturna 41 km2 lands, og þar með er ekki öll sagan sögð.  Vegna slitrótts rekstrar vindknúinna rafala, þarf 2,5 sinnum fleiri vindrafala til að framleiða sömu orku og Hvammsvirkjun, 720 GWh/ár.  Það þýðir um 100 km2 lands.  Landþörf Hvammsvirkjunar með vegagerð og stíflu (inntakslón verður í árfarveginum) er á að gizka 5 % af þessu. 

 

Hér hefur ekki verið reiknað með sérlega löngum bilunartíma þessa vindknúna búnaðar, en fréttir frá Færeyjum greina frá mikilli bilanatíðni og löngum viðgerðartíma.  Í Færeyjum er miklu meiri reynsla af rekstri vindrafala en hér, þar sem stöðugt er vísað til tveggja í eigu Landsvirkjunar ofan Búrfellsvirkjunar og tveggja í einkaeigu í Þykkvabænum.  Ekki kæmi á óvart, að bilanatíðni og viðgerðatími yrði sízt lægri hér en í Færeyjum, og það dregur enn úr áreiðanleika afar óáreiðanlegrar raforkuvinnslu. 

Frétt Morgunblaðsins af Landsneti og vindrafölum bar fyrirsögnina:

"Vindorka notuð í rafeldsneyti".

Hún hófst þannig:

"Forstjóri Landsnets segir, að m.v. stöðuna í dag ráði kerfi fyrirtækisins tæknilega við að tengja vindorkugarða með 2500 MW uppsettu afli, sem er jafnmikil orka [sic! þetta er afl, en ekki orka - innsk. BJo] og nú er flutt um kerfið.  [Það getur ekki staðizt, að hægt sé að taka á móti 2500 MW í aðveitustöðvum Landsnets án þess að fjárfesta verulega.  Að 132 kV línurnar geti tekið við þessu viðbótar afli, er ótrúverðugt, því að þær eru nú þegar fulllestaðar.  Hvað gengur forstjóranum til að búa til ævintýri um "vindorkugarða", sem falli svo ljómandi vel að kerfi Landsnets ? - innsk. BJo.] 

Vindorka er ekki stöðug, og vatnsaflsvirkjanir geta ekki brúað nema lítinn hluta bilsins.  Stærsta áskorunin sé því að finna kaupendur, sem geti notað breytilega orku.  Horfir hann til þess, að það sé hægt með framleiðslu á rafeldsneyti, sem verði stór hluti af orkuskiptum í framtíðinni. 

Kom þetta fram í ávarpi Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, á vorfundi fyrirtækisins, sem fram fór í gærmorgun [24.03.2023] undir yfirskriftinni "Fjúka orkuskiptin á haf út ?".  Svarið við þeirri spurningu virtist vera neitandi m.v. erindi Landsnetsfólks á fundinum."

Raforka frá vindknúnum rafölum er lítils virði vegna óstöðugleika síns, og þess vegna er ekki boðið upp á hana erlendis eina og sér, heldur með stöðugleikatryggingu frá annars konar raforkuverum, oftast gasknúnum.  Slík verða aldrei reist hérlendis.  Vatnsaflsver hafa reglunargetuna í þetta fylgdarhlutverk, en jarðgufuver ekki.  Núverandi vatnsaflsver standa undir grunnálagi með jarðgufuvirkjunum og taka toppana, og þá er ekkert afgangs.  

Vetnið er grunnefnið í rafeldsneyti, og búnaðurinn til að rafgreina vatn og mynda vetni og súrefni er dýr.  Þegar þannig er í pottinn búið, skiptir full nýting búnaðarins allan sólarhringinn höfuðmáli fyrir samkeppnishæfni og arðsemi framleiðslunnar.  Ef Guðmundur Ingi finnur einhvern fjárfesti, sem vill framleiða vetni með rafmagni frá vindrafölum á Íslandi, sem kostar um 50 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði Landsnets, sem er hærri en t.d. í Noregi, þá skal höfundur þessa vefpistils éta hattinn sinn.  Guðmundur Ingi hefur sennilega kastað þessu fram að óathuguðu máli til að búa til "líklega" viðskiptavini vindrafalaþyrpinganna.  Er Guðmundur ekki kominn langt út fyrir verksvið Landsnets með slíkum vangaveltum (fabúleringum) ? 

"Hann [GIÁ] rifjaði upp mismunandi sviðsmyndir úr grænbók umhverfisráðuneytisins um það, hvað þurfi til að koma, til að orkuskiptin geti náð fram að ganga.  Samkvæmt sumum þeirra þarf að tvöfalda raforkuframleiðsluna frá því, sem nú er. Guðmundur tók fram, að enn vantaði nánari upplýsingar, en sjálfur myndi hann áætla, að miða þurfi við þær sviðsmyndir, sem lengst ganga; að tvöfalda þurfi framleiðsluna.  Núverandi virkjanakostir í vatnsafli og jarðvarma dugi engan veginn dugi engan veginn til, og þess vegna þurfi að horfa til nýrra kosta, eins og vindorkunnar."

Ef orkuþörf millilandaflugsins er sleppt að sinni, verður hægt að útvega næga raforku fyrir orkuskipti og aukningu almenns álags fram til 2050 með samþykktum virkjunum í Rammaáætlun 3, og þar eru aðeins 20-30 vindrafalar í Blöndulundi. Þessi orkuþörf nemur um 7,0 TWh/ár og 1500 MW.  Aflþörfina má hæglega lækka um 100 MW með innleiðingu snjallmæla og lægri taxta á lágálagstíma. Þannig er óeðlilegt hjá forstjóra Landsnets að tilfæra nauðsyn orkuskipta sem rök fyrir vindrafalaþyrpingum á Íslandi. Hvað gengur honum til með því ?

Það er hægt að fara í reikningsæfingar um virkjanaþörf til að anna orkuþörf millilandaflugsins, en slíkt er ótímabært.  Hún verður t.d. engin, ef ofan á verður að setja þóríumver í hverja flugvél ásamt rafhreyflum eða ef hagkvæmara mun þykja að setja upp þóríum-orkuver á verksmiðjusvæði rafeldsneytis.  Þá má ekki gleyma, að með rammaaáætlunum, sem koma á eftir #3, munu birtast ný tækifæri í jarðgufu- og vatnsaflsvirkjunum. 

"Þá vöru [vindorkuna] þurfi að vera hægt að selja, þrátt fyrir að vindurinn skapi ójafna orku.  Nefndi hann, að með núverandi virkjunum sé hægt að jafna á móti [með] vatnsafli um 250 MW.  Það dugi ekki, og því þurfi að leita nýrra lausna til að finna út úr því, hvernig megi nýta þennan orkukost."

  Raforkukerfi landsins er nú þegar yfirlestað á háálagstímum, svo að grípa þarf til að draga úr álagi vissra notenda. Þess vegna kemur spánskt fyrir sjónir, að forstjóri Landsnets segist geta fundið 250 MW aflgetu í virkjunum, sem verði á lausu til að grípa til á álagstíma, þegar raforkuvinnsla vindknúinna rafala skyndilega minnkar.  Hvað gerist þá við skyndilega álagsaukningu um 30 MW eða bilun í um 45 MW spenni eða rafala og minnkun framleiðslugetu kerfisins að sama skapi ?  Þessi málflutningur af hálfu Landsnets er marklaus.

"Greining sérfræðinga Landsnets hafa sýnt, að tæknilega sé flutningskerfið það sterkt, að tengja megi megi vindorkugarða með 2500 MW uppsett afl, sem er það afl, sem kerfi Landsnets nú flytur.  Tók Guðmundur Ingi fram, að ekki væri hægt að flytja alla orkuna, en hægt yrði að tengja vindorkugarðana við kerfið." 

Er ekki Landsnet að skjóta sig í fótinn með svona gorgeir ? Ein af röksemdum Landsnets fyrir nýrri Byggðalínu á 220 kV er, að gamla 132 kV línan sé fullnýtt, og sú staðreynd hamli tengingum nýrra viðskiptavina við kerfið. Nú á allt í einu að vera hægt að tvöfalda aflið inn á línuna.  Hvað með stöðugleikann ?  Er Münchausen kominn í vinnu hjá Landsneti ? 

"Til að nýta orkuna þurfi að líta til margra möguleika; ekki aðeins vatnsaflsvirkjana til jöfnunar.  Að hans mati er mögulegt að finna kaupendur, sem geta notað breytilega orku og spilað þannig á móti.  Telur hann Ísland heppið vegna þess, að í orkuskiptunum sé gert ráð fyrir, að þörf verði á rafeldsneyti og að sú framleiðsla geti tekið á sig ákveðinn breytileika.  Þess vegna þurfi að leggja áherzlu á þann þátt.  Til þess að sá breytileiki nýtist, þurfi að tengja allt landið saman og nota viðskiptalíkan Landsnets og hafa vindorkugarðana ekki alla í sama landshluta."  

Hér skirrist forstjóri Landsnets ekki við að fara út fyrir hlutverk Landsnets í draumkenndri þrá sinni eftir rafmagni frá vindknúnum rafölum á Íslandi. Til er álag, t.d. við vetnisframleiðslu, sem gæti tæknilega lagað sig að framleiðslugetu raforkukerfisins, en eru nokkrar líkur á, að samningar takist um nógu lágt rafmagnsverð, til að fjárfestar fallist á svo óheppilega skilmála ?  Að semja um slíkt er ekki í verkahring Landsnets, og það er ótrúlegt að sjá forstjóra Landsnets tjá sig með svo vilhöllum hætti í garð vindrafala.   

   

  


Hraði snigilsins við línulagnir er óviðunandi

Landsnet hefur það eftir verkfræðistofunni Eflu, að hægt hefði verið að komast hjá öllum raforkuskerðingum 2021-2022, ef ný 220 kV lína hefði þá verið tilbúin frá Fljótsdalsvirkjun til Hvalfjarðar. Í ljósi þess, að veturinn 2022-2023 hefur ekki verið beinn vatnsskortur í miðlunarlónum virkjana, eins og veturinn áður, en samt hefur þurft að skerða afl til notenda með skerðingarheimildir í rafmagnssamningum sínum, er þetta ekki sérlega trúverðug fullyrðing. Ástæðan er, að virkjanir önnuðu ekki hámarksálagi á loðnuvertíðinni, og var samt orkusalan úr landi til Vestmannaeyja mun minni en elilegt er vegna bilunar í nýjum sæstreng þangað.  Það er til skammar fyrir Landsnet, að rafmagnstenging Vestmannaeyja við land skuli ekki fullnægja (n-1) reglunni.

Þann 24. marz 2023 gerði Helgi Bjarnason grein fyrir skýrslu, sem Efla gerði nýlega fyrir Landsnet um ofangreindar orkuskerðingar, og þar eru ýmis óvænt tíðindi, sem ekki er víst, að öll standist rýni.  Frétt Helga í Morgunblaðinu bar fyrirsögnina:

 "Skerðingar kostuðu 5,3 milljarða".

Hún hófst þannig:

"Hægt hefði verið að koma í veg fyrir allar skerðingar á afhendingu raforku til stóriðju, rafkyntra hitaveitna, fiskimjölsverksmiðja og annarrar starfsemi á síðasta ári [2022], ef búið hefði verið að uppfæra Byggðalínuhringinn, eins og áformað er að gera.  Samfélagið varð fyrir mrdISK 5,3 kostnaði vegna skerðinganna á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu varð umtalsverð."

Að fylgjast með framvindu framkvæmda við 220 kV Byggðalínuna hefur verið svipað og að horfa á skít síga fyrir barð.  Framvindan er allt of hæg m.v. þróun rafmagnsálagsins í landinu.  Afleiðingin er gríðarlegt samfélagslegt tjón, sem skrifa verður á óskilvirkt regluverk, sem veitt hefur þvermóðskufullum afturhaldsöflum kost á að valda endalausum töfum.  Stærsta tapið við þetta er fólgið í glötuðum tækifærum óseldrar orku, sem nota hefði mátt til að framleiða verðmæti.  Mismunur orkutapa í 132 kV Byggðalínu og 220 kV Byggðalínu nemur meiri orku á hverju ári en Eflu reiknaðist til, að orkuskerðingar 2022 af völdum of lítillar flutningsgetu hefðu numið, og þjóðhagslegt tap af þessum völdum má áætla 10 mrdISK/ár.  Andstaðan við sjálfsagða uppbyggingu orkuinnviða í landinu er allt of dýr til að leyfa megi fráleitri hugmyndafræði að ráða ferðinni að miklu leyti, enda er hér um minnihlutahóp að ræða. 

"Niðurstaða greininga Eflu sýnir, að óuppfyllt orkuþörf fiskimjölsverksmiðja landsins og rafkyntra hitaveitna og stóriðjuvera á Suð-Vesturlandi nam samtals 270 GWh.  Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessar skerðingar að öllu leyti, ef búið hafði verið að uppfæra Byggðalínuna, eins og gert er ráð fyrir í áætlunum um uppbyggingu flutningskerfisins." 

Hér er ekki allt á tandurhreinu.  Í fyrsta lagi virkar þessi vöntunarorka, 270 GWh, fremur lítil, og víst er um það, að þetta er bara brot af glötuðum sölutækifærum vegna allt of lítils framboðs raforku á Íslandi.  220 kV lína hefði vissulega annað þessum flutningum, en draga má í efa, að Fljótsdalsvirkjun hefði getað staðið undir þeirri framleiðslu, bæði afllega og orkulega, eins og allt var í pottinn búið 2022. Þá eru flöskuhálsar víðar í flutningskerfinu að þéttbýlisstöðum á Austfjörðum, sem takmarka álagið á þessum stöðum, þegar tarnir eru, eins og loðnuvertíð.

"Að sögn Gnýs [Guðmundssonar, rafmagnsverkfræðings og forstöðumanns kerfisþróunar Landsnets] var lagt mat á þann þjóðhagslega kostnað, sem af skerðingunum hlauzt.  Olíukaup fjarvarmaveitna og fiskiðjuvera námu samtals mrdISK 1,16, og skuggavirði losunar vegna brennslu olíunnar [m.v. kostnað koltvíildiskvóta - innsk. BJo] reiknast mrdISK 0,12 til viðbótar.

Loðnuvertíðin var mikilvæg vegna þess, hversu mikill kvóti var gefinn út eftir nokkur mögur ár.  Kostnaður vegna tapaðrar framleiðslu álvera á Suð-Vesturlandi nam mrdISK 2,8, en álverð var mjög hátt á þessum tíma.  Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga þurfti að skerða sína framleiðslu, og er áætlað, að verðmæti tapaðrar framleiðslu þess nemi mrdISK 1,25 [miklar skerðingarheimildir - innsk. BJo]. Samtals nam því beinn kostnaður samfélagsins mrd ISK 5,3 á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu var umtalsverð."

Þegar beinn kostnaður fornfálegs flutningskerfis og tapaðra tækifæra er lagður saman, er ljóst, að raforkuskorturinn af völdum of fárra virkjana og ófullnægjandi flutningskerfis er farinn að hamla hagvexti.  Það er einmitt eftir nótum afturhaldsins, en eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur margoft fullyrt (út í loftið), er hagvöxturinn á Íslandi í senn ósjálfbær og allt of mikill. Landvernd berst fyrir aukinni fátækt á Íslandi og meiri fjárskorti á öllum sviðum samfélagsins en Íslendingar hafa kynnzt í hálfa öld, enda vill hún loka 54 ára gömlu álveri í Straumsvík, sem hefur sjaldan verið sprækara en nú, enda er þar gefinn gaumur að stöðugum fjárfestingum og viðhaldi.  Allt, sem Landvernd hefur afrekað, er að valda aukinni koltvíildislosun, og hið sama yrði einmitt uppi á teninginum á heimsvísu, ef einhverju málmframleiðslufyrirtækinu hérlendis yrði lokað. 

"Gnýr vekur athygli á þeirri niðurstöðu skýrslunnar, að kostnaður við byggingu nýrra flutningslína á milli Fljótsdals og Akureyrar hafi númið samtals um mrdISK 17. 

Til að ljúka við að tengja landshlutana saman, þurfi að [reisa] 3 línur frá Akureyri til Hvalfjarðar af svipuðu umfangi.  Sú framkvæmd eigi eftir að auka skilvirkni og nýtingu orkukerfisins næstu 50-70 árin til hagsbóta fyrir þjóðina alla." 

Þetta er rétt hjá Gný.  Ef tekinn er saman beinn fjárhagslegur ávinningur af minni orkutöpum og meiri flutningsgetu 220 kV Byggðalínu en 132 kV, er hann vægt áætlaður 20 mrdISK/ár.  Kostnaður við 220 kV línu á milli Klafa og aðveitustöðvar Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal, gæti numið mrdISK 40.  Af þessu má ráða, hversu arðsöm þessi framkvæmd er.  Þess vegna er þyngra en tárum taki, að útúrborulegum afturhaldsöflum, sem í raun er sértrúarsöfnuður um afturhvarf til fortíðar, skuli enn takast að þvælast fyrir þessum sjálfsögðu framkvæmdum.  Landsnet verður þó að gæta að sér að troða ekki bændum landsins um tær með því að vaða með þessa stóru línu yfir tún þeirra, eins og mörg dæmi voru um 132 kV línuna.  Nú eru breyttir tímar, en gamli tíminn á ekkert erindi aftur. 


Þróun fjárfestinga í fiskeldi

Nöldrarar, sem allt hafa á hornum sér, en leggja lítið vitrænt til mála, hafa gagnrýnt norskt eignarhald á fyrirtækjum, sem stunda laxeldi í sjó hér við land. Staða þeirra mála er þó að því leyti sambærileg við orkukræfa málmframleiðslu landsins, að lífvænlegur stóratvinnurekstur á þessu sviði hefði aldrei orðið barn í brók án fjárfestinga erlendra þekkingarfyrirtækja á þessum sviðum atvinnurekstrar. Í tilviki laxeldisins urðu Norðmenn fyrir valinu í krafti umsvifa sinna við Norður-Atlantshafið, og af því að þeir voru þá þegar í útrás. (Minnir dálítið á landnám Íslands.) 

 Laxeldið er fjármagnsfrekt, og til að fjárfestingar nýtist, þarf framleiðsluþekkingu, sem reist er á vísindalegum rannsóknum og reynslu af rekstri eldiskera við fjölbreytilegar aðstæður.  Það þarf líka markaðsþekkingu, bæði fyrir aðföng og afurðir.  Þessa grunnþætti til árangurs skorti hérlendis, þegar Norðmenn hófu uppbyggingu sína hér, og síðast en ekki sízt skorti hér fjármagn, því að lánstraust innlendra aðila, sem fengizt höfðu við starfsemina, var ekki fyrir hendi hjá innlendum lánastofnunum. 

Gagnrýni á erlent eignarhald er þess vegna gagnrýni á uppbyggingu þessarar efnilegu starfsemi í heild sinni.  Af henni hefði alls ekki orðið án erlends eignarhalds.  Úrtöluraddirnar eru eins og venjulega á vinstri kanti stjórnmálanna, en þar liggja málpípur Evrópusambands aðildar Íslands á fleti fyrir, sbr umsókn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG 2009.  Þarna er á ferðinni einhvers konar pólitískur geðklofi, þegar kemur að erlendum fjárfestingum.   

Í Morgunblaðinu 18. marz 2023 birtist afar greinargóð baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar um þetta efni undir fyrirsögninni:

"Hlutur íslenzkra fjárfesta eykst".

Fréttin hófst þannig:

"Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að koma sterkt inn í laxeldi.  Með því eykst hlutur Íslendinga í vissum félögum verulega.  Með kaupum Ísfélags Vestmannaeyja á hlut í eignarhaldsfélagi um meirihlutaeign í Ice Fish Farm á Austfjörðum á félagið 16,44 % hlut í félaginu og íslenzkt eignarhald [þá] komið upp í um 42 %.  Síldarvinnslan á rúmlega þriðjung í Arctic Fish á Vestfjörðum.  Þá eiga íslenzk útgerðarfélög eða hafa átt að fullu vaxandi fiskeldisfyrirtæki eins og Háafell í Ísafjarðardjúpi og Samherja fiskeldi.  Íslenzkir lífeyrissjóðir, sérstaklega Gildi, hafa verið að fjárfesta í fiskeldi.

Rökrétt virðist, að sjávarútvegsfyrirtæki, sem búa við kvótaþak og ýmsar takmarkanir, og í ljósi þess, að ekki eru líkur á auknum veiðum, hugi að fjárfestingum í fiskeldi.  Nokkur ár eru síðan framleiðsla eldisfisks í heiminum varð meiri en veiðar skila á land og ljóst, að heimurinn hefur þörf fyrir aukna matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. 

Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-inn, fræðsluseturs í fiskeldi, telur það jákvætt fyrir íslenzkt fiskeldi að fá sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri íslenzka fjárfesta í hluthafahópinn.  Það sé gott fyrir ímynd atvinnugreinarinnar, sem gagnrýnd hefur verið fyrir erlent eignarhald.  Það hafi ekki síður þýðingu, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi þekkingu á og reynslu af fullvinnslu og sölu sjávarafurða, sem geti nýtzt fiskeldinu."

Ímynd fyrirtækja vegna eignarhalds verður varla í askana látin.  Meira virði eru samlegðaráhrifin, sem af þessum innlendu fjárfestingum hljótast.  Það er ekki hægt að hugsa sér eðlilegri íslenzka fjárfesta í laxeldinu, hvort sem er í sjó við Ísland eða á landi, en íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin.  Það er t.d. vegna tækniþróunar þeirra á sviði fullnýtingar hráefnisins, tilreiðslu og pökkun og markaðssetningar.  Það er líklegt, að einhverjir viðskiptavina þeirra vilji líka kaupa íslenzkan eldislax.  Að geta boðið hann styrkir markaðsstöðu íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.  Þessi samlegðaráhrif munu styrkja íslenzkan þjóðarbúskap, því að framleiðnin getur vaxið og afurðaverð jafnvel hækkað fyrir vikið. 

"Aðild stórs framleiðanda fiskimjöls og lýsis að fiskeldisfyrirtæki, sem notar mikið fóður, er einnig rökrétt skref í þróun sjávarútvegsfyrirtækjanna.  Megnið af fóðrinu, sem notað er í sjóeldi hér á landi, er framleitt í Noregi, m.a. úr hráefni frá íslenzkum framleiðendum. Það hlýtur að vera skynsamlegra út frá umhverfissjónarmiðum og hagkvæmara að framleiða fóðrið hér á landi.  Síldarvinnslan á meirihlutann í stærstu fóðurverksmiðju landsins, Laxá á Akureyri, og tilkynnti á síðasta ári, að fyrirtækið og fóðurframleiðandinn BioMar Group hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja fóðurverksmiðju hér á landi." 

Fjárfestingar íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í fiskeldisfyrirtækjum hérlendis opna möguleika á innlendri samþættingu allrar framleiðslukeðju fiskeldisins.  Það er verðugt stefnumið að samþætta framleiðslukeðju laxeldisins innlendum iðnaði, og það ætti vissulega að verða þekkingargrundvöllur í landinu til þess, því að aðgangur að framleiðslutækni og framleiðsluleyfum batnar til muna við tengt eignarhald. Samkeppnisgrundvöllurinn ætti og að vera fyrir hendi vegna mun minni flutningsþarfar innlendrar framleiðslu.

Aðeins rafkynt framleiðsla þessa mjöls kemur til greina, og þar rekst iðnaðurinn enn og aftur á þá nöturlegu staðreynd í landi náttúrulegrar og endurnýjanlegrar orkugnóttar, að raforku vantar fyrir nýja notendur. Engu er líkara en hin forpokaða og glórulausa skoðun Landverndar, að nóg sé komið af virkjunum og flutningslínum, af því að raforkunotkun á mann sé hér meiri en annars staðar, tröllríði húsum leyfisveitingavaldsins á Íslandi, svo að hér ríkir nú raunverulega "virkjanastopp".  Þetta er ömurlegt sjálfskaparvíti, þar sem hvorki Landsvirkjun né orkuráðherrann hafa uppi sjáanlega tilburði til lausnar. Sérvizka og beturvitablæti Landverndar o.fl. kostar samfélagið nú þegar tugi mrdISK/ár í beinum útgjöldum og glötuðum atvinnutækifærum.  Þetta er óviðunandi með öllu og ábyrgðarleysi af Alþingi og stjórnvöldum að láta þetta viðgangast.  

Þessari fróðlegu baksviðsgrein lauk þannig:

"Fyrirtækin, sem eru að byggja upp landeldisstöðvöðvar, eru í fjármögnunarferli og þess vegna óvíst um endanlegt eignarhald.  Samherji fiskeldi hefur verið hreint dótturfélag Samherja.  Það var gert að sjálfstæðu félagi vegna fjárfrekrar uppbyggingar á Reykjanesi og víðar. Í tengslum við mrdISK 3,5 hlutafjáraukningu var tilkynnt um, að Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, hefði tekið þátt í hlutafjáraukningunni og verið kosinn í stjórn.  

Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafinn í Landeldi með um þriðjungs eignarhlut, en Landeldi er að byggja stóra stöð í Þorlákshöfn.  Stofnendur félagsins og starfsmenn eru enn með meirihluta hlutafjár á sínu valdi.  Virðast stjórnendur horfa meira til íslenzkra fjárfesta en erlendra.  Íslenzk og sænsk félög, sem tengjast Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni, athafnamanni, eru eigendur að Geo Salmo, sem er að undirbúa landeldisstöð í Þorlákshöfn.  Félagið lítur til norskra fjárfesta og íslenzkra í þeirri vinnu við fjármögnun, sem nú stendur yfir, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu. 

Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS), sem er að byggja landeldisstöð í Vestmannaeyjum, er í eigu fjölskyldu úr sjávarútvegi í Eyjum, sem ætlar að taka fyrstu skrefin í verkefninu, hvað svo sem síðar verður."

Það er ótrúlega mikill áhugi á meðal innlendra fjárfesta á landeldi laxins.  Það virðist samt vera á brattann að sækja með fé, enda vextir alls staðar óvenju háir, verkefnin fjármagnsfrek, rekstrarkostnaður hár og lítil tæknileg reynsla af þessum rekstri. Óvissa um arðsemi er þess vegna fyrir hendi.  Markaðirnir munu hins vegar reynast gjöfulir.  Einkar athyglisvert er, að tekin er sú áhætta að reisa landeldisstöð í Vestmannaeyjum í ljósi mikillar raforkuþarfar og þarfar á hitaveituvatni.  Þessi starfsemi krefst mikils áreiðanleika í afhendingu hvors tveggja, en hörgull hefur verið á þessum gæðum í Vestmannaeyjum, sem þó stendur til bóta.  Raforkuafhending til þessarar starfsemi verður að lúta (n-1) reglunni, sem þýðir, að stærsta einingin má falla úr rekstri án þess afhending verði rofin, nema örstutt.

Það verður tæplega jafnarðsamur rekstur í landeldi og í sjóeldi, en viðskiptahugmyndin er virðingarverð og áhugaverð í ljósi próteinþarfar heimsins, einkum þar sem áreiðanlegur aðgangur er að rafmagni og heitu vatni.  Vindrafalaraforka kemur hér ekki til greina.     

 


Umdeilanleg úttekt ríkisendurskoðanda

Það er öllum ljóst, að félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum er mjög andsnúið sjókvíaeldi á þeirri norskættuðu laxtegund, sem valin hefur verið til þessarar starfsemi á þeim afmörkuðu svæðum, þar sem íslenzk löggjöf leyfir hana á annað borð. Veiðiréttarhafar og fulltrúar þeirra hafa verið stórorðir, jafnvel heiftúðugir í garð atvinnugreinarinnar.  Þótt þessi illska sé heimskuleg og reist sumpart á erfðafræðilegri vanþekkingu, eins og rakið var hér með vísun til Hafró í síðasta vefpistli, þá er ljóst, veiðiréttarhafar eða þeir, sem náin tengsl hafa við þá, eru vanhæfir til að starfa að úttkekt á vegum ríkisins á laxeldi í sjó við Ísland.

  Nú háttar einmitt þannig til, að þetta á við um sjálfan ríkisendurskoðandann, og alveg dæmalaust, að dómgreind hans skyldi ekki hvísla í eyra hans að víkja í þessu máli.  Í orðalagi skýrslu þessarar úttektar má jafnvel sjá gárur eftir æsingatitring veiðiréttarhafa.  Af þessum sökum hefur trúverðugleiki skýrslunnar beðið hnekki, og taka ber hana "med en klype salt", eins og Norðmenn taka til orða, þegar lítið er að marka eitthvað. 

Andrés Magnússon skrifaði baksviðsfrétt um téða skýrslu í Morgunblaðið 13. febrúar 2023.  Hún hófst þannig:

"Fiskeldisskýrsla ríkisendurskoðanda vakti athygli í fyrri viku, enda hvöss gagnrýni á stjórnsýsluna og vöxt greinarinnar, en með fylgdu ýmsar ábendingar til stofnana ríkisins.  Stjórnarandstaðan henti hana á lofti, og það gerðu andstæðingar sjókvíaeldis líka, veiðiréttarhafar sem náttúruverndarsamtök. 

Skýrslan komst aftur í fréttir í liðinni viku, þegar upplýst var, að Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, væri sjálfur veiðiréttarhafi.  Þó [að] þeir hagsmunir séu minni en svo, að þeir valdi vanhæfi, situr eftir, að ríkisendurskoðandi er veiðiréttarhafi og [að] þeir hafa talað einni röddu gegn sjókvíaeldi.  [Pistilhöfundur er ósammála Andrési um, að þessir hagsmunir séu of litlir til að valda vanhæfi, þegar hitamál eru annars vegar, eins og í þessu tilviki.]  

Það er því engin goðgá að spyrja, hvort það hafi í einhverju getað litað úttektina, sér í lagi þar sem niðurstöður hennar eru til þess fallnar að þrengja að sjókvíaeldi, að lausn á lélegri stjórnsýslu sé meira af hinu sama, fyrir utan það, að úttektin er ekki gallalaus."

Lokamálsgrein blaðamannsins bendir til, að hann túlki skýrsluna sem hvatningu til að fjölga í starfsliði eftirlitsstofnana. Það er einfeldningsleg ráðlegging til stjórnmálamanna og sæmir Ríkisendurskoðun illa.  Hún á að kryfja mál til mergjar og benda á leiðir til að auka skilvirkni ríkisstarfsmanna, en ekki að hvetja til að ausa í eftirlitsstofnanir meira fé án þess að bæta stjórnarhætti, sem virðast ekki vera upp á marga fiska.  

"Fleira má að henni [téðri skýrslu] finna, eins og gagnrýni á, að Hafrannsóknastofnun hafi breytt aðferðarfræði sinni, en ríkisendurskoðandi segist hafa orðið þess áskynja við úttektina, að reiknistuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum, en bætir svo við: "Ekki tókst að staðfesta, að svo væri" !  Órökstuddar sögur eiga ekki erindi í opinberar skýrslur.  [Þarna vegur vanhæfur ríkisendurskoðandi ómaklega að Hafró, þar sem menn vinna störf sín undir alþjóðlegri rýni og í samráði við virta erlenda vísindamenn á viðkomandi sviði.  Hér skín vanhæfi ríkisendurskoðanda í gegn, því að hann virðist lepja upp kjaftasögu veiðiréttarhafa og "náttúruverndara", sem spinnst út frá ímyndun þeirra og/eða misskilningi á vísindalegum gögnum Hafró - innsk. BJo.] 

Gerðar eru 23 ábendingar til ráðuneyta og stofnana, sem að mestu lúta að því að auka eftirlit, herða skilyrði greinarinnar og auka gjaldtöku.  E.t.v. endurspeglar það aðallega hefðbundnar hugmyndir ríkisstarfsmanna um, að fjölga þurfi ríkisstarfsmönnum, því [að] þar er hvergi rakið, að hvaða leyti núverandi eftirlit sé ónógt eða núverandi skilyrði of linkuleg.  [Þetta er annað dæmi, þar sem vanhæfis ríkisendurskoðanda gætir.  Hann vill láta setja sjókvíaeldið í spennitreyju ríkisafskipta og skattheimtu án þess að rökstyðja, hvers vegna.  Það væri alvarlegt lögbrot vegna mismununar og aðfarar að atvinnufrelsi, - innsk. BJo.]

Þrátt fyrir ábendingar um flókna og margbrotna stjórnsýslu, fjallar ríkisendurskoðandi lítt um umkvartanir um, hve öll afgreiðsla leyfa Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar er hæg.  Aðeins er nefnt, að ferill umhverfismats taki tíma, sem er frekar naum lýsing á ástandinu, þegar leyfisumsóknir velkjast um í kerfinu árum saman.  Hefði ekki verið ómaksins vert að grafast fyrir um ástæður þeirrar óskilvirkni, sem kostar fiskeldið og þjóðarbúið of fjár ?"

 

 Eftirlitsstofnanirnar með fiskeldinu standa ekki við lögboðna fresti á afgreiðslu umsókna frá fiskeldinu.  Það er alvarlegasti ljóðurinn á ráði þeirra, og hann er óviðunandi, af því að hann er lögbrot og rándýr, en á hann er ekki minnzt í þessari furðuskýrslu Ríkisendurskoðunar.  Það rýrir enn gildi og trúverðugleika þessarar skýrslu, og fer hvort tveggja þá að nálgast núllið. 

Andrés Magnússon er svipaðs sinnis um þessa kostulegu skýrslu Ríkisendurskoðunar og höfundur þessa vefpistils, þótt hann fari of mildilegum höndum um hrákasmíð.  Hún tekur ekki á vandanum, sem er sleifarlag eftirlitsstofnana, sem er þungur baggi á atvinnugreininni.  Fiskeldið fær engan veginn þá þjónustu hjá afætum ríkisins, sem það á rétt á og greiðir fyrir.  Hvers vegna var þagað um það í óvandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar ? 

Í lokin reit Andrés:

"Vitanlega er stjórnsýsluúttektin ekki alónýt.  Það er margt fróðlegt þar og ýmsar nauðsynlegar ábendingar.  En ef það vantar í hana allt um fjárheimildir stjórnsýslunnar til þessa og þar er ofaukið ályktunum um pólitísk álitaefni, þá blasir við, að hún er eitthvað allt annað en ætlazt var til."

 


Langvinnt þrætuepli

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983.  Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða.  Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum.  Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest. 

Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:

"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir.  Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag.  Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð.  Deilumálið er skipting arðseminnar."

Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið. 

Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum.  Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar.  Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:

Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild.  En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað.  Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem  þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga.  Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma  stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var  niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi.  Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign." 

Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær.  Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.

Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda.  Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.

Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág.  Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.    

 

 

 

 

 

   

 


Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá

Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum.  Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.  

Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans.  Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.  

Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann.  Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar.  Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins.  Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu. 

Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum.  Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður.  Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er.  Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs.  Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð. 

Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:

"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",

lauk þannig:

""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi.  Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.  Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál.  Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál.  Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður.  Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."

Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana.  Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við  samtök sveitarfélaganna.  Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna.  Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.  


Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni

Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.  Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri.  Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi.  Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin. 

SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn.  Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.  

Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum.  Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.  

Yfirskrift greinarinnar var:

"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":

"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn. 

Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar.  Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]

Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ?  Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu.  Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum.  Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari." 

Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra.  Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust. 

Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar.  Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna.  Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10.  Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga.  Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt. 

SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar.  Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna. 

SKE er kaþólskari en páfinn.  Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ?  Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA.  Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE.  Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri.  Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur.  Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.   


Mikið skraf - lítið gert í orkumálum

Nýlega bilaði eldingavari í kerfi Landsnets, sem tengir Suðurnesin við landskerfið.  Þetta er sjaldgæf bilun, en afleiðingarnar urðu nokkurra klukkustunda straumleysi á Suðurnesjum, á meðan bilaði eldingavarinn var fjarlægður og annar settur í staðinn.  Hvernig má það vera, að jarðgufuvirkjanir HS Orku skyldu ekkert nýtast, á meðan Suðurnesjalína 1 var óvirk ?

Ekki er víst, að það sé á almennu vitorði, að jarðgufuvirkjanirnar ráða ekki við reglun álagsins og geta þess vegna ekki starfað án tengingar við landskerfið. Tregða í reglun er akkilesarhæll jarðgufuvirkjana.  Bilunin brá birtu yfir veikleikana, sem Suðurnesjamenn búa við núna, og þann mikla ábyrgðarhluta, sem fylgir því að standa gegn lagningu Suðurnesjalínu 2. Það er með ólíkindum að láta orkuöryggi Suðurnesjamanna með allri þeirri mikilvægu starfsemi, sem þar fer fram, hanga á horriminni vegna meintrar sjónmengunar af loftlínu.  Geta menn ekki séð fegurðina í nauðsynlegu mannvirki fyrir öryggi mannlífs á Suðurnesjum ? 

Þann 10. febrúar 2023 sagði Morgunblaðið frá Viðskiptaþingi á Nordica daginn áður.  Þar kom fram enn einu sinni, að lögfest loftslagsmarkmið Íslands eru í uppnámi, og eru að verða einhvers konar níðstöng, sem beinist að óraunhæfum stjórnmálamönnum, sem settu hrein montmarkmið um 55 % minnkun losunar koltvíildis 2030 m.v. 2005 og kolefnishlutleysi 2040, vilja verða á undan öðrum þjóðum (pólitíkusum) að þessu leyti, en hirða ekki um forsenduna, sem er að afla endurnýjanlegrar orku, sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis. 

Á þessu viðskiptaþingi var smjaðrað fyrir vindorkunni, jafnvel á hafi úti, sem er fráleitt verkefni hér við land, og harmaðar hömlur á erlendum fjárfestingum á þessu sviði.  Hið síðar nefnda er undarlegt m.v., að Ísland er á Innri markaði Evrópusambandsins og EFTA, og hér hefur verið algerlega ótímabær ásókn fyrirtækja þaðan í framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir vindknúna rafala, þótt lagasetningu um þessi mannvirki skorti í landinu. 

Vindorkan kemur óorði á orkuvinnslu í landinu vegna þess, hversu þurftarfrek hún er á land, hversu ágeng,  áberandi og hávaðasöm hún er, mengandi og varasöm  fuglalífi.  Slitrótt raforkuvinnsla er lítils virði.  Eins og jarðgufuvirkjanir þurfa vindrafalaþyrpingar vatnsorkuver með sér til að sjá um reglunina, en jarðgufuvirkjanir hafa þann mikla kost að vera áreiðanlegar í rekstri fyrir grunnálag, en vindspaðaþyrpingar geta sveiflazt fyrirvaralítið úr fullum afköstum í engin afköst. Við þurfum ekki á þessu fyrirbrigði að halda við orkuöflun hér.  Við þurfum að virkja meira vatnsafl og meiri jarðgufu, en þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Hvers vegna ?

Forsætisráðherrann og stjórnmálaflokkurinn, sem hún veitir formennsku, eru síður en svo hjálpleg, því að þar er fremur reynt að setja skít í tannhjólin, ef kostur er, eins og ávarp formannsins á téðu Viðskiptaþingi bar með sér:

 "Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði þingið.  Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið.  Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu, hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þótt ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers.  Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku, sem notuð er í orkuskipti.

Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans, að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifæri falin í minni sóun og betri nýtingu orku.  Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi."  

Svona þokulúður er hluti af vandamálinu, sem við er að etja, stöðnun á sviði framkvæmda á orkusviðinu.  Ráðherrann þokuleggur sviðið með óljósu og merkingarlitlu tali og dregur þannig dul á, að flokkur hennar ber kápuna á báðum öxlum.  Hann hefur forgöngu um fögur fyrirheit og reyndar algerlega óraunhæf markmið í loftslagsmálum á landsvísu, en á sama tíma þvælist hann fyrir hefðbundnum virkjunum og línulögnum. 

Nú er raforkukerfið þanið til hins ýtrasta vegna framkvæmdaleysis á orkusviði, og slíkt hefur í för með sér, að raforkutöp eru í hámarki líka og stærðargráðu meiri en af matarsóuninni, sem forsætisráðherra er þó hugleikin og er síðlítil.  Ráðið við því er að virkja meira af vatnsföllum og jarðgufu og reisa fleiri flutningslínur. Það liggur þjóðarhagur við að gera þetta, þótt ekki séu allir á einu máli um það. Hlutverk alvöru stjórnmálamanna er að gera það, sem gera þarf, en ekki að horfa í gaupnir sér, þegar gagnrýni heyrist. Jafnstraumsjarðstrengur yfir Sprengisand mun hjálpa mikið til við að stýra raforkukerfi landsins í átt til stöðugleika og lágmörkunar orkutapa. Hann verður vonandi að veruleika á þessum áratugi.   

Um verðmæti hinna ósnortnu víðerna, sem ráðherrann augljóslega telur vera hátt upp í þónokkur, en óskilgreind, má segja, að þau muni fyrst renna upp fyrir mönnum, þegar þeim hefur verið spillt.  Engum blöðum er um það að fletta, að vindrafalaþyrpingar eru stórtækastar í þessum efnum, og þess vegna væri hægt að nálgast "sátt" um orkumálin með því einfaldlega að leggja áform um þessa gerð orkuvera á hilluna, enda eru mótvægisaðgerðir við yfir 200 m há ferlíki óhugsandi, um leið og hefðbundnum íslenzkum virkjanategundum er veittur framgangur, enda falli þær vel að landinu með beitingu nútíma tækni.  Hvers vegna er framvindan jafnhæg og raun ber vitni (kyrrstaða), þegar Rammaáætlun 3 hefur verið samþykkt ?  Það virðist vera mikil deyfð yfir orkufyrirtækjunum.  Hvers vegna ?  Markaðinn hungrar í meiri raforku ? 

"Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins.  Lagði hann áherzlu á í sinni ræðu, að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó að það væri erfitt val.  [Hvers vegna er það erfitt val - hættið að gæla við vindinn ?-innsk. BJo.]  Hins vegar væri seinagangur í kerfinu, og nauðsynlegt væri að velja, hvar ætti að taka af skarið og virkja.  Nefndi hann máli sínu til stuðnings, að rafmagnsskortur [á] síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess, að allur ávinningur frá notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkazt út.  Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir, svo [að] árum skipti.  Regluverkið sé sömuleiðis þungt, og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir.  Úr þessu þurfi að bæta."

Það er mikið sjálfskaparvíti, að afturhaldsöfl virðast hafa náð að leggja dauða hönd á orkuframkvæmdir.  Það er stjórnleysi, að ráðherrar láti stofnanir komast upp með að hundsa lögboðna fresti og að kærendur (með veikan málstað) geti nánast lamað framkvæmdaviljann.  Ströng skilyrði þurfa að vera um það, hverjir geta verið lögformlegir hagsmunaaðilar að kærumáli, og ein kæra á einstaka ákvörðun sé hámark, og tími frá ákvörðun að afgreiðslu kæru verði að hámarki 3 mánuðir.  Ekki má láta afturhaldið valda óafturkræfu efnahagstjóni í landinu. Eyðingaröfl á valdi sjúklegrar hugmyndafræði eru látin komast upp með stórfelld skemmdarverk á hagkerfinu.  Jafnvel má stundum segja, að stundum höggvi sá, er hlífa skyldi.  

Nú er sú staða uppi, að aðeins einn sæstrengur heldur uppi tengingu Vestmannaeyja við stofnkerfi rafmagns í landinu.  Þetta þýðir, að atvinnustarfsemi á loðnuvertíðinni í vetur þarf að keyra með dísilknúnum rafölum í Eyjum.  Fyrir jafnfjölmenna og mikilvæga byggð og í Vestmannaeyjum þarf að vera (n-1) raforkufæðing úr landi, þ.e. þótt einn strengur bregðist, á samt að vera hægt að halda uppi fullu álagi í Eyjum.  Landsneti hefur á undanförnum árum ekki tekizt að nýta allt fjárfestingarfé sitt, sumpart vegna andstöðu við framkvæmdir fyrirtækisins.  Lítillar andstöðu afturhaldsafla er þó að vænta við þriðja sæstrenginn út í Eyjar, og þess vegna er einkennilegt af Landsneti að hafa dregið von úr viti að koma á (n-1) tengingu við Heimaey, en slíkt fyrirkomulag er yfirlýst stefna fyrirtækisins hvarvetna á landinu. 

 

  


Óskilvirkur eftirlitsiðnaður

Sleifarlag einkennir starfsemi eftirlitsiðnaðarins á Íslandi, enda virðist enginn gegna því hlutverki að setja pipar undir stertinn á eftirlitsstofnunum, þegar lögbundinn tímafrestur til afgreiðslu mála er liðinn. Nýlegt dæmi um drátt úr hömlu er afgreiðsla Orkustofnunar á einfaldri umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að virkja rennsli Neðri-Þjórsár við Hvamm (95 MW). 

Afgreiðslan tafðist von úr viti hjá Orkustofnun, enda var hún sett í saltpækil í hálft ár hjá nýjum orkumálastjóra, sem síðan þóknaðist að senda umsóknina út og suður í umsagnir, sem vitnar ekki beinlínis um fagleg efnistök.  Framkvæmdaleyfi sömu virkjunar fer eðlilega í umsagnarferli, þegar sveitarfélögin afgreiða það.  Virkjanaleyfið kom svo loks eftir dúk og disk eftir a.m.k. 1,5 árs meðgöngutíma hjá OS.  Ekkert vitrænt mun hafa komið út úr þessu ferli, sem bætti virkjanatilhögunina á nokkurn hátt.  Eftirlitsstofnanir líta of stórt á sig m.v. verðmætasköpun þar á bæ, sem sjaldnast er mælanleg, og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. 

Það fyrsta, sem stofnanir þurfa að bæta innanhúss hjá sér, er vinnuagi, svo að lögbundnir tímafrestir séu virtir. Ef stofnun hangir á máli lengur en lögbundinn tímafrestur segir til um, á mál einfaldlega að ganga til baka sem samþykkt athugasemdalaust, nema ráðherra veiti einn mánuð í viðbót.  Kröflulína 3 velktist um í 7 ár í kerfinu, sem er tvöfaldur sá tími, sem eftirlitsiðnaðurinn hafði leyfi til að halda málinu hjá sér.  Hvað halda menn, að svona sleifarlag kosti fyrirtækin, sem í hlut eiga, og samfélagið allt ?  Í tilviki Kröflulínu 3 er um tugmilljarða ISK tjón að ræða.  Silkihúfurnar eiga að gjalda fyrir sleifarlagið og fá umbun fyrir afköst umfram væntingar. Hvata til góðra verka vantar.  Nú ætlar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fækka stofnunum.  Við það fækkar silkihúfunum, en mun skilvirkni embættismannanna og gæði verkanna batna við þennan samruna ?  Ef ekki, kastar hann barninu út með baðvatninu.   

Morgunblaðið gerði þessa þjóðfélagsmeinsemd að umfjöllunarefni í forystugrein 10. febrúar 2023:

"Eftirlit án eftirlits".

Hún hófst þannig:

"Íslenzkar eftirlitsstofnanir hafa með árunum fært sig mjög upp á skaptið, og stafar það ekki sízt af því, að þær virðast sjálfar ekki undir neinu eftirliti í störfum sínum, sem augljóslega gengur ekki upp. Slíkar stofnanir hafa mikil völd og verða að beita þeim af yfirvegun og skynsemi, en eiga það til að tapa áttum, og þá er voðinn vís."

Þá er frumskilyrði, að forstjórar þessara stofnana gæti þess, að þær starfi samkvæmt lögum í hvívetna og séu ekki meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nauðsyn krefur samkvæmt lagabókstafnum.  Það vantar mikið á, að Samkeppniseftirlitið fullnægi þessum skilyrðum, en forstjóri þessarar stofnunar er mjög ferkantaður í afstöðu sinni til atvinnulífsins og hagar sér iðulega eins og versti tréhestur.  Samkeppniseftirlitið (SKE) olli Símanum milljarða ISK tjóni með afskiptum sínum af sölu Mílu, en nytsemi þeirra afskipta fyrir neytendur er hæpin. 

Afstaðan til samstarfs afurðastöðva kjötframleiðenda er svo tréhestaleg, að furðu sætir.  Hagræðingu er unnt að ná með auknu samstarfi afurðastöðva.  Þar með lækkar kostnaður og tækifæri skapast til að greiða bændum hærra verð og/eða lækka verð til neytenda.  Þegar þess er gætt, að samkvæmt lögunum um Samkeppniseftirlitið má það heimila slíkar hagræðingarráðstafanir, verður að líta á það sem valdníðslu að hálfu forstjóra þess að leggjast þversum gegn þessu. 

"Samkeppniseftirlitið er eftirlitsstofnun, sem iðulega gengur of langt og er vandséð, að starfsemi þeirrar stofnunar skili nokkrum ávinningi. Eitt af því, sem stofnunin reynir af flækjast fyrir, er framþróun í íslenzkum landbúnaði, en stofnunin beitir sér mjög fyrir því, að hér séu sem strangastar reglur á þessu sviði atvinnulífsins, mun strangari en þekkist erlendis, þegar ástæða væri til, í ljósi fámennis og dreifbýlis, að veita meira svigrúm hér en erlendis til hagræðingar í greininni."

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins misskilur hlutverk sitt.  Hann virðist telja fjölda í grein til þess fallinn að keyra niður verð til neytenda.  Það er misskilningur, því að hagkvæmni stærðarinnar vegur þungt líka, og verðinu til neytenda eru skorður settar af lágri framleiðni, sem auka mætti með stækkun framleiðslueininga.  Með þvergirðingi (úr Blöndudal) stendur forstjóri Samkeppniseftirlitsins gegn eðlilegri framþróun atvinnulífsins, og ráðherra á ekki að láta hann komast upp með slíkt, en matvælaráðherra hefur nú látið embættismanninn beygja sig. 

"Samkeppniseftirlitið lætur sér ekki nægja að beita sér innan gildandi laga [það nýtir sér alls ekki svigrúm til hagræðingar í lögunum - innsk. BJo], það vill líka hafa áhrif á lagasetningu, jafnvafasamt og það er.  Þannig hefur stofnunin lagzt hart gegn frumvarpi, sem hefði getað aukið svigrúm til hagræðingar í landbúnaði með því að veita undanþágur frá samkeppnislögum.  Dæmi um, hve langt stofnunin gengur í þessum efnum, var nefnt í grein hér í blaðinu í gær eftir formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.  Í greininni segir, að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, sé samtals 56 bls.  "Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu o.fl., sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins, þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt.  Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega 2 bls. að lengd", segir í greininni, þar sem enn fremur kom fram, að norska eftirlitið lýsti ánægju með með frumvarpið." 

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, að hér fer Samkeppniseftirlitið út um víðan völl, kann ekki að sníða sér stakk eftir vexti og er komið langt út fyrir verksvið sitt.  Með þessum vinnubrögðum spilar Samkeppniseftirlitið rassinn úr buxunum og verðskuldar þá einkunn að vera gagnslaust í samfélaginu.  Það er verra en það, því að með tréhestatiltækjum sínum veldur það tjóni á samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Nýlegt dæmi er greining SKE á markaði fyrir majónes og kaldar sósur, en sá markaður var greindur í þaula og komizt að þeirri niðurstöðu, að Sameining Gunnars og Kaupfélags Skagfirðinga mundi draga úr samkeppni á þessum markaði.  Dettur embættismönnum SKE aldrei í hug að láta markaðinn einfaldlega njóta vafans ?  Í ljósi þess, að íslenzkur matvælaiðnaður á í harðri samkeppni við erlendan, virðist slíkt sjónarmið vera fyllilega réttlætanlegt.  SKE fer offari gagnvart íslenzku atvinnulífi og grefur þar með undan því og hagsmunum starfsmanna og neytenda, sem fremur kjósa íslenzkt.      

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband