Leki eða ekki leki ?

Hörður Arnarson fékk 27.12.2023 birta í Morgunblaðinu grein eftir sig, sem greinilega er ætlað að hræða fleiri Alþingismenn til fylgilags við haftastefnu Orkumálastjóra og orkuráðherra í raforkumálunum. Orkuráðherra skilur líklega ekki, hvað hann er að gera.

Það er mjög mikil hætta á misnotkun valds skömmtunarstjóra raforku.  Hver vill t.d. færa Herði Arnarsyni þau völd að neita viðskiptavini um afhendingu á grunnorku (ársorku) og þvinga hann til að kaupa breytilega orku, sem er 40 % dýrari en hin fyrr nefnda ?  Haftalöggjöf í anda Harðar Arnarsonar breytir jafnvæginu á milli kaupenda og seljenda svo mikið að kalla má eyðileggingu á markaðinum.  Fyrirkomulagið verður eins og hjá Ráðstjórninni í Rússlandi á sinni tíð: ef þú vilt ekki, það sem er á boðstólum, getur þú étið, það sem úti frýs.  Hjá okkur er ekkert val.  Hverjum halda menn, að ráðstjórnarfyrirkomulagið henti ?  Örugglega ekki neytendum, sem í þessu tilviki eru heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um afhendingu á forgangsorku. Hentar sennilega fílnum í postulínsbúðinni bezt.  

Það er nauðsynlegt að vekja athygli á krúsídúllunni, sem Hörður heldur, að dugi sem röksemd fyrir höftunum, sem fer fjarri.  Hún var í téðri Morgunblaðsgrein undir fyrirsögn, sem átti að fá hárin til að rísa á Alþingismönnum:

"Rándýr leki fyrir (næstum) alla":

 

"Við [Landsvirkjun] tilkynntum Orkustofnun í október síðast liðnum, að pantanir á orku fyrir heildsölumarkaðinn, þ.e. fyrir heimili og smærri fyrirtæki á næsta ári [2024] hefðu verið 25 % meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu.  Það eitt staðfestir málflutning okkar um, að orkan, sem þangað fer og er ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum, hlýtur að einhverju leyti að vera á leið eitthvað annað.  Það er þess vegna aðkallandi að lögfesta forgangsröðun í þágu heimila og smærri fyrirtækja og um leið, hvaða stjórnvald eða stofnun beri ábyrgð á því að tryggja, að orkan rati til þessa forgangshóps."

Landsvirkjun hefur undanfarið afhent um helming orkunnar, sem inn á þennan heildsölumarkað fer.  Upplýsingar um, að eftirspurnin hjá Landsvirkjun hafi vaxið um 25 % 2024 m.v. 2023 er engan veginn jafngild því, að heildareftirspurnin hafi vaxið um 25 %, heldur gæti Landsvirkjun verið að auka við markaðshlutdeild sína.  Vísbendingar um það koma einmitt fram í viðtali við Tómas Má Sigurðsson í Morgunblaðinu 28.12.2023 undir fyrirsögninni:

"Enginn leki á raforkumörkuðum".

"Meintan leka á milli raforkumarkaða er ekki að sjá í neinum gögnum, segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í samtali við Morgunblaðið.  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ýjaði að því í skrifum sínum í Morgunblaðið í gær, að raforka, ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum (almennur markaður), rynni til stórnotenda raforku.  Óvenjumiklar pantanir á grunnorku [á heildsölumarkaðinum] staðfestu það.

Tómas segir, að útskýringuna á því, að pantanir á grunnorku [á heildsölumarkaðinum] séu 25 % meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu, megi m.a. finna í því, að verðið á breytilegri orku til afhendingar árið 2024 er 40 % hærra en verð á grunnorku [ársorku].  [Spurn] eftir ódýrari raforku sé því að aukast.  Þar að auki hafi afhending á orku af hálfu HS orku og Orku náttúrunnar (ON) til stórnotenda minnkað á árunum 2019-2022 um sem nemi 200-300 GWh/ár.  Á sama tíma hafi afhending á orku af hálfu Landsvirkjunar til stórnotenda aukizt um u.þ.b. 800 GWh/ár, ef marka megi tölur Orkustofnunar og Landsvirkjunar."

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar.  Hvers vegna hefur Landsvirkjun aukið afhendingu sína á raforku um 800 GWh/ár til stórnotenda í orkuskortsástandi, á meðan afhending hinna tveggja meginvirkjunarfyrirtækjanna hefur minnkað um u.þ.b. 250 GWh/ár ?  Væntanlega hefur Landsvirkjun hlaupið í skarðið fyrir hin fyrirtækin með u.þ.b. 250 GWh/ár, en þá er nettóaukning um 550 GWh/ár þangað óútskýrð.  Núna blasir við, að blóraböggullinn, sem stendur að vaxandi orkuafhendingu af almenna markaðinum og til stórnotenda, sé fyrirtækið, sem nú hrópar úlfur, úlfur í eyru Alþingis.  Færið okkur tól til að stöðva leka annarra af almenna markaðinum yfir til þeirra, sem eru með langtíma samninga.  

Það er maðkur í mysu þessa dæmalausa upphlaups forstjóra Landsvirkjunar, og öll kurl virðast enn ekki komin til grafar.  Hér skal vara við því að setja á laggirnar haftakerfi á raforkumarkaðinum.  Slíkt getur snúizt algerlega í höndum Alþingis, orðið til að skekkja samkeppnisstöðu og markaðshlutdeild enn meir en nú er og hækka verð til almennings. Þeir, sem nú skera upp herör í nafni hagsmuna almennings, ættu að kynna sér örlítið, hvernig viðskiptahöft hafa virkað á Íslandi, t.d. á 20. öldinni fram að því, er Viðreisnarstjórnin afnam mörg viðskiptahöft.  Alltaf skulu það vera stjórnmálamennirnir lengst til vinstri úr forræðishyggjuflokkunum, sem berjast með oddi og egg fyrir viðskiptahöftum, og Famsókn er veik fyrir vitleysunni.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Nýlegur dómur Landsréttar i máli gegn Landsvirkjun tekur af allan vafa að það eru reglur ESB, samkeppnisreglur og orkupakkarnir sem ráða för, ekki íslensk lög, þ.e. ekki Alþingi Íslendinga. Fullveldið í orkumálum hefur verið framselt til ESB. Til hvers?

Júlíus Valsson, 29.12.2023 kl. 20:49

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll Júlíus;

Þetta hefur voðalega lítil áhrif á viðfangsefni dagsins, sem er orkuskortur.  Þótt Landsvirkjun bæri enn skylda til að hindra orkuskort, kæmi það landsmönnum að litlu haldi, því að afturhaldssamir sérvitringar hefðu sett henni stólinn fyrir dyrnar.  Fákunnandi, afturhaldssömum sérvitringum hefur verið gert kleift að vaða uppi, öllum til tjóns.  Landvernd er vanhæf til að kæra orkuframkvæmdir, því að þar á bæ hefur fólk tjáð sig með þeim hætti, að það vilji helzt draga úr orkunotkun landsmanna, svo og hagvexti. 

Bjarni Jónsson, 30.12.2023 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband