Færsluflokkur: Kjaramál
16.3.2012 | 22:49
Verðmætasköpun
Eftir 5 ár hinna glötuðu tækifæra verða Íslendingar að snúa sér af alvöru frá naflaskoðun og fortíðarhyggju og að verðmætasköpun og stefnumörkun til framtíðar.
Afturförin er reyndar miklu meiri en nemur stöðnun síðan árið 2008. Hagkerfið er svo illa leikið, að það er nú að raunvirði á svipuðu róli og það var árið 2000 samkvæmt Proust vísitölu, sem birtist í The Economist 25. febrúar 2012. Þar kemur fram, að mælt hefur verið, hversu hagkerfum 12 ríkja hefur hrakað, og er röðin eftirfarandi:
- Grikkland er á sama stað og árið 1999
- Ísland er á sama stað og 2000
- Bandaríkin eru á sama stað og 2002
- Portúgal árið 2002
- Lettland ársið 2002
- Írland árið 2003
- Ungverjaland árið 2003
- Bretland árið 2004
- Spánn árið 2004
- Ítalía árið 2005
- Frakkland árið 2006
- Þýzkaland stendur bezt, en er þó á sama stað og 2009
Að íslenzka hagkerfinu skuli hafa hrakað um 12 ár og engu hagkerfi öðru en Grikklandi skuli hafa hrakað meir, sýnir, hversu hrikalega illa stjórnvöld á Íslandi frá Hruni hafa haldið á spilunum. Skýringarnar blasa við. Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki, alger stöðnun ríkir, hagkerfið getur ekki búið til fleiri störf, og á þessu eiga stjórnvöld landsins, sem kennd eru við Skjaldborg, fullkomna sök.
Prófessor Ragnar Árnason hefur kynnt til sögunnar niðurstöðu sína um framlag áliðnaðarins til vergrar landsframleiðslu, VLF, Íslands nú um stundir. Þar er um að ræða u.þ.b. ISK 90 milljarða eða um 6,5 % af VLF, þegar mælt var.
Útflutningsverðmætin eru miklu meiri eða um ISK 240 milljarðar. Virðisaukinn er þess vegna tæplega 40 %, eins og áliðnaðurinn sjálfur hefur lengi haldið á lofti.
Sé tekið tillit til ársverka í greinum, sem ekki starfa beint fyrir áliðnaðinn, heldur þjónusta þá, sem hafa lífsviðurværi sitt af honum, er vægt áætlaður margföldunarstuðull ársverka 3,0, þ.e. m.v. 2000 ársverk í áliðnaði, eru 6000 ársverk í landinu vegna tilvistar áliðnaðarins. Þannig má halda því fram, að 30 þús manns í landinu hafi lífsviðurværi sitt af áliðnaði eða tæp 10 %.
Í raun er þessi tala hærri, því að áliðnaðurinn stendur fyrir miklum fjárfestingarlotum í verksmiðjum, virkjunum og innviðum samfélagsins. Ein slík lota stendur nú yfir í Straumsvík hjá Rio Tinto Alcan, og hafa þessar fjárfestingar bjargað byggingariðnaði og tæknigreinum á höfuðborgarsvæðinu frá algerri ládeyðu og komið í veg fyrir enn meiri atgervisflótta en raun ber vitni um.
Framleiðslugeta álveranna á Íslandi mun brátt slaga upp í 900 þúsund tonn á ári og raforkunotkun um 13 TWh/a. Samkvæmt óbrenglaðri Rammaáætlun er hægurinn á að tvöfalda þessa framleiðslu og nota um 25 TWh/a í álvinnslu, og er þá annað eins eftir til annarra nota. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að vinna af heilindum að orkumálum landsins í stað þess dæmalausa pukurs, togstreytu, baktjaldamakks og furðufatasýninga, sem afturhaldssinnar stunda nú með loddarskap í stað þess að leyfa faglegri niðurstöðu vinnuhópa um Rammaáætlun að njóta sín.
Afturhaldið í landinu hefur í raun tekið Rammaáætlun í gíslingu og þar með tafið stórframkvæmdir í landinu um a.m.k. 2 ár. Hvað þýðir slíkt í þjóðhagslegu tapi fyrir landsmenn ? Taka má dæmi af Neðri-Þjórsá, sem afturhaldið vill ekki virkja, þó að hún fái hæstu einkunn í Rammaáætlun fyrir hagkvæmni og lítil umhverfisáhrif. Nýjasta fyrirtektin er meint minnkuð netaveiði á laxi. Endanlegar mótvægisaðgerðir í þeim efnum hafa þó ekki verið kynntar enn til sögunnar.
Uppsett afl virkjana Neðri-Þjórsár er áætlað 265 MW og áætla má árlega vinnslugetu 1800 GWh. Með slíkri orku má auka útflutningsverðmæti landsins um ISK 45 milljarða á ári, sem eykur landsframleiðslu um 1 %. Ef afturhaldssinnum tekst að hefta þessar framkvæmdir, verður um að ræða tap landsframleiðslu eftir 20 ár um 352 milljarða eða um ISK 1 milljón á hvert mannsbarn í landinu. Hafa Íslendingar efni á að búa við slíkt afturhalds stjórnarfar ? Svarið er skýrt og skorinort, NEI. Við höfum ekki efni á afturhaldi. Ef allt verður drepið í dróma hér, þá endar það með hrikalegum atgervisflótta og að eignir landsmanna verða að lokum teknar upp í erlendar skuldir.
Sannleikurinn er sá, að það eru síðustu forvöð að snúa vörn í sókn og taka aftur til við tekjuaukningu þjóðarbúsins með stórfelldum fjárfestingum. Í Morgunblaðinu 10. marz 2012 var sagt frá því, að "Mikið reiptog (ætti sér stað) á bak við tjöldin" á milli ríkisstjórnarflokkanna um Rammaáætlun. Þeir vanvirða þá miklu faglegu vinnu, sem þar hefur farið fram, og reyna að afbaka hana með gildishlaðinni þingsályktun með mikilli vinstri slagsíðu. Þessi vinnubrögð sýna í hnotskurn andstöðu þessara stjórnmálaafla við framþróun atvinnulífs í landinu. Slíkt gerir þessa flokka algerlega óstjórntæka, enda vinna þeir beinlínis gegn hagsmunum almennings í landinu. Í téðri Morgunblaðsgrein kom eftirfarandi fram:
"Þegar hefur verið varið geysimiklu fé í að rannsaka ýmsa orkunýtingarkosti, sem síðan hafa verið settir í biðflokk eða jafnvel verndarflokk."
Það er furðulegt af ráðherrunum að setja sig á svo háan hest að breyta forgangsröðun Rammaáætlunar á stjórnmálalegum forsendum. Slík vinnubrögð halda ekki máli og verða höfð að engu strax og tækifæri gefst til að lokinni myndun borgaralegrar ríkisstjórnar að afloknum næstu Alþingiskosningum.
Þessi bellibrögð lítilsigldra stjórnmálamanna með lífskjör landsmanna eru þeim mun alvarlegri, þar sem yfir 12 þúsund landsmenn eru nú á atvinnuleysisskrá, og um 30 þúsund ársverk hafa tapazt, þegar brottfluttir eru með taldir og stytting vinnutíma reiknuð með. Á sama tíma er stjórnmálalegum gæluverkefnum hampað, þó að þau jafngildi hreinni sóun á skattfé. Þar má nefna vandræðabarnið Stjórnlagaráð og umsóknina um aðild að ESB, sem rekið hefur upp á sker, þó ekki blindsker, því að þessi pattstaða var fyrirsjáanleg frá upphafi. Í boði er ekkert annað en ESB, allur pakkinn, með viðeigandi afsali hagsmuna fullvalda strandríkis, sem sambandríki eða ríkjasamband í Evrópu á fallanda fæti getur aldrei bætt upp.
Eitt hið augljósasta, sem ríkisstjórnin gat látið ógert, var að þvælast fyrir nýjum vatnsaflsvirkjunum og frekari uppbyggingu stóriðju í landinu. Ríkisstjórnin valdi hins vegar kost afturhaldsins að hindra framþróun þessara greina með því að taka Rammaáætlun sem gísl. Hvers á almenningur í landinu að gjalda ?
Þá kemur forstjóri Landsvirkjunar enn fram á sjónarsviðið með sæstrenginn sinn. Er hann að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar ? Er allt í lagi að virkja, ef orkan er seld úr landi án þess að skapa störf hérlendis ?
Sjávarútvegurinn leggur mest til vergrar landsframleiðslu, VLF. Hraðfara aukning fiskeldis hefur eflt samkeppnina á alþjóðlegum fiskmörkuðum. Þetta hefur valdið því, að raunverð sjávarafurða á heimsmarkaði hefur ekki hækkað undanfarin 20 ár þrátt fyrir stóraukna eftirspurn að mati Ragnars Árnasonar, prófessors, í grein í Morgunblaðinu 7. marz 2012.
Til allrar hamingju varð bylting í skipulagi fiskveiða Íslendinga á árabilinu 1980-1991, sem bjargaði sjávarútveginum og þar með efnahag landsmanna frá hruni vegna minnkandi fiskigengdar á Íslandsmiðum og ofangreindrar harðnandi samkeppni á heimsmörkuðunum. Markaðskerfið, sem innleitt var í sjávarútvegi, knúði fram bráðnauðsynlega hagræðingu á formi fækkunar skipa og útgerðarfyrirtækja, og jafnframt leiddi markaðsvæðingin til bættrar aflanýtni og gæðaaukningar. Þetta var sársaukafullt fyrir marga, en til hagsbóta fyrir heildina. Þróuð var sérhæfð framleiðsla hágæðasjávarvöru fyrir kröfuharða háverðsmarkaði. Þetta er skólabókardæmi um framleiðniaukningu, sem markaðsvæðing á ákveðinni starfsemi kallar fram. Prófessor Ragnar Árnason segir ennfremur í téðri grein:
"Mjög mikið af hinni miklu framleiðniaukningu í íslenskum sjávarútvegi síðustu áratugina er vegna aukinna gæða sjávarfangs, snjallari vinnslu og öflugra markaðsstarfs. Þetta hefur orðið til þess, að raunverð íslensks sjávarvöruútflutnings hefur vaxið mjög mikið, þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð sjávarafurða hafi ekki hækkað. Þannig hefur sjávarútveginum tekist að halda áfram að vera helsti aflvaki hagvaxtar og vaxandi velmegunar í landinu."
Sjávarútvegurinn er lifandi dæmi um sigur markaðsskipulagsins yfir forræðishyggju stjórnmálamanna, ef nefna má mikil afskipti stjórnmálamanna áður fyrr af málefnum sjávarútvegsins því nafni. Afskipti stjórnmálamanna af málefnum sjávarútvegsins hafa farið vaxandi í tíð Skjaldborgarinnar við Lækjargötu, en öll hafa þau afskipti verið á eina lund. Þau hafa dregið úr hagkvæmni veiðanna og minnkað gæði vörunnar á borði neytenda. Prófessorinn heldur áfram:
"Nýlegar athuganir benda til þess, að árið 2010 hafi yfir 20 meiri háttar fiskveiðiþjóðir tekið upp aflamarkskerfi og allt að 25 % heimsaflans verið veidd undir slíku stjórnkerfi fiskveiða. .... Á sama tíma og þessi þróun á sér stað, eru íslensk stjórnvöld kerfisbundið að veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Ef svo heldur fram sem horfir, mun samkeppnisstaða hans á alþjóðlegum fiskmörkuðum verða mun lakari en helsu keppinautanna."
Hér eru áhrifamikil varnaðarorð höfð í frammi. Skjaldborgin skirrist ekki við að tæta niður vel heppnaðan undirstöðuatvinnuveg landsmanna, af því að hann sannar árangur markaðshagkerfisins. Í staðinn á að koma óskapnaður, viðundur misheppnaðra stjórnmálamanna, sem ekki geta hugsað heila hugsun til enda, en ganga enn í þeirri dulinni, að þeirra hlutverk sé að skilgreina sanngirni í atvinnuháttum og þröngva sérvizku sinni upp á landsmenn, hvað sem tautar og raular. Þessi axarsköpt á að fremja, þó að markaðsvædd fiskveiðistjórnun sé að ryðja sér til rúms um allan heim, af því að hún hefur sannað sig. Heimaalningar og viðvaningar eru oft verri og hættulegri en beturvitar (besserwisserar) andskotans.
Þarna kristallast hinn mikli misskilningur Skjaldborgarinnar, sem gengur allt aftur til Karls Marx, að ósanngirni sé fólgin í velgengni einkarekinna fyrirtækja, hvort sem þau eru stór eða smá. Sannleikurinn er sá, að velmegun almennings, þín og mín, er algerlega háð velgengni þessara fyrirtækja, þaðan koma öll verðmæti samfélagsins, og markaðsfyrirkomulagið hefur fyrir löngu sannað yfirburði sína í þessa veru gagnvart samvinnufélögum eða opinberum rekstri.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2011 | 19:05
Báknið
Um allan hinn vestræna heim er nú efst á baugi að fást við ofþanið ríkisbákn og þungbærar ríkisskuldir. Ástæðurnar eru aðallega tvíþættar. Umsvif ríkisins eru orðin svo stór hluti vergrar landsframleiðslu, að þau standa orðið hagvexti fyrir þrifum, og í flestum ríkjum Vesturlanda hækkar meðalaldur þjóðanna ört, svo að æ færri verða til að standa undir ríkisútgjöldunum, þ.m.t. afborgunum og vöxtum. Við þetta má bæta, að margar ríkisstjórnir á Vesturlöndum yfirfærðu feikna upphæðir frá skattborgurum til fjármálastofnana til að forða hruni hinna síðarnefndu. Ríkisstjórn Geirs Haarde tók allt annan pól í hæðina. Hún hlífði skattborgurunum eftir mætti, en lét lánadrottna íslenzku bankanna taka skellinn. Þessi afstaða er nú árið 2011 óðum að öðlast alþjóðlega viðurkenningu.
Spurningin er ekki lengur, hvort vinda verði ofan af þessari óheillaþróun ríkissjóðanna, heldur hvernig. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekizt einstaklega óhönduglega upp viö þann samdrátt ríkisútgjalda, sem hún skuldbatt sig til gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, AGS. Af þvermóðsku einni saman neitaði hún að fara mildilega í skattahækkanir, eins og Sjálfstæðisflokkurinn þó lagði til. Ríkisstjórnin hefur lengt í efnahagskreppunni á Íslandi, sem bankakreppan ól af sér, með því að skera framkvæmdir á vegum ríkisins niður við trog og hækka skattheimtu stórlega á sama tíma. Slíkir stjórnarhættir eru glapræði, enda hafa þeir leitt leitt yfir þjóðina óþolandi atvinnuleysi og geigvænlegan landflótta, sem er brýnt að binda endi á.
Við þær aðstæður, sem uppi voru í þjóðfélaginu eftir Hrun og eru enn, á hiklaust að setja hagvaxtarhvetjandi aðgerðir á oddinn. Þar ber fyrstar að telja erlendar fjárfestingar, virkjanir, ný iðjuver og öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma fyrir atvinnuvegina, ekki sízt sjávarútveginn. Hins vegar er augljós kerfisvandi fyrir hendi í rekstri hins opinbera, sem lýsir sér í hömlulausri aukningu ríkisútgjalda. Hvernig á að fást við þann vanda ?
Í þessum efnum er rétt að horfa til þeirra, sem náð hafa beztum árangri. Í Singapúr nema ríkisútgjöld aðeins 19 % af VLF, en auðvitað er tiltölulega ódýrara að halda uppi þjónustu ríkisins í borgríki en í jafnstrjálbýlu landi og Ísland er. Þó er aðalástæðan sú, að í Singapúr er notazt við allt annað kerfi ríkisútgjalda en t.d. á Íslandi. Jafnvel Kínverjar íhuga nú að taka upp Singapúr-kerfið, því að vestræna kerfið er ósjálfbært. Í Singapúr fá borgararnir ákveðna upphæð frá ríkinu til að standa straum af lækniskostnaði, kennslu barna og öðru, sem ríkið tekur þátt í. Síðan hefur borgarinn frjálsar hendur með að velja aðila, sem í frjálsri samkeppni veita umbeðna þjónustu. Ef kostnaðurinn reynist lægri en framlag ríkisins, heldur borgarinn mismuninum. Reynist kostnaðurinn hærri, kemur til skjala trygginga, lífeyrissjóða, stéttarfélagssjóða eða sparnaðar viðkomandi.
Þetta framlagskerfi felur í sér valfrelsi fyrir borgarana um að velja þjónustu; ríkið stendur ekki að því að veita þessa þjónustu, en stendur straum af áætluðum kostnaði við kaup á henni. Kerfið nýtir styrk frjálsrar samkeppni, sem keppir á gæðum og verði, til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar og fyrir skattborgarana. Samkeppnin leiðir til kostnðarlækkunar fyrir hið opinbera og þróunar í stað stöðnunar.
Það er ljóst, að breytingum í þessa átt verður ekki komið í kring á Íslandi eða í öðrum löndum með umsvifamikinn ríkisrekstur í einu vetfangi. Það þarf að velja ákveðna starfsemi til reynslu og sannreyna, að framlagskerfið virki. Jafnframt verður auðvitað að gera einkaframtakinu og sjálfseignarstofnunum kleift að taka að sér vissa þætti, sem ríkisvaldið hefur einokað um langa hríð eða verið algerlega ríkjandi á. Þegar árangur kemur í ljós, verður unnt að lækka skattheimtuna.
Það er alveg ljóst, að kerfisbreytingar verður að gera á ríkisrekstrinum til að hemja hann. Umfang ríkisrekstrar á Vesturlöndum sem hlutfall af VLF hefur fimmfaldzt á eitt hundrað árum. Það stefnir augljóslega í óefni með stöðnun og að lokum kollsteypu sem afleiðingu. Krötum og sameignarsinnum er ekki treystandi fyrir þessu verkefni. Ríkisrekstur er trúaratriði félagshyggjuaflanna, en allir stjórnmálaflokkar eiga nokkra sök á því, hvernig komið er. Eitt er víst, að kropp vinstri flokkanna, sem að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur standa, í viðkvæma þjónustu heilbrigðisgeirans og annars staðar, er gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði. Uppstokkunar er þörf.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2011 | 18:16
Hangir á horriminni
Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins á hendur ríkisstjórninni leiddi í ljós, að hún höktir nú á minnsta mögulega meirihluta. Svo mjög hefur ósvífni og tækifærismennska Steingríms Jóhanns gengið fram af flokksmönnum hans, að þrír þeirra hafa nú kastað sér fyrir borð og hyggjast synda til lands og berjast við Steingrím á flokksvettvangi og utan. Er þá deginum ljósara, að vinstri-grænir munu ganga með böggum hildar til næstu kosninga og í mörgum kjördæmum verða þurrkaðir út vegna svika við kjósendur. Farið hefur fé betra.
Hvers vegna lafði þessi gæfusnauða og illa mannaða ríkisstjórn ? Guðfríður Lilja, sem fékk stöðumissi í stað blómvandar við endurkomu á þing, var á báðum áttum. Eftir að Árni Þór hafði þó lotið í gras og afsalað sér langþráðum titli þingflokksformanns í friðþægingarskyni við skákdrottninguna að skipun húsbónda síns, beit hún höfuðið af skömminni með því að gefa ríkisstjórninni líf, þó að framferði ríkisstjórnarinnar sé í veigamiklum atriðum upp á kant við stefnuna, sem hún gekk á hönd, er hún gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna grænt framboð.
Það var þó eitt hálmstrá, sem hún hékk á, og var það sannarlega ekki hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson hékk í forðum á bergbrúninni að sögn Þormóðar, Kolbrúnarskálds. Guðfríður færði það sem sérstök rök fyrir framlengingu á dauðastríði ömurlegrar ríkisstjórnar, að hún mundi standa vörð um það hugðarefni Guðfríðar að taka enga ákvörðun um virkjun Neðri-Þjórsár.
Hvaða skoðun skyldi iðnaðarráðherra hafa á þessu afturhaldssama sjónarmiði ? Hún hefur líklegast lagt kollhúfur við því, eins og hún er vön. Afturhaldið, sem nú heldur um stjórnartauma landsins, á sér samnefnara í athafnaleysi og heldur þannig athafnalífinu og vinnumarkaðinum í heljargreipum.
Þetta er engin tilviljun. Vinstri hreyfingin grænt framboð telur hagvöxt vera illt afsprengi auðvaldsskipulagsins og þvælist þess vegna af öllum mætti fyrir öllum ákvörðunum, sem leitt geta til þess að rífa þjóðfélagið upp úr núverandi stöðnun. Stöðnun er óskastaða vinstri-grænna, því að þannig er girt fyrir hagvöxt.
Græningjar um allan heim eru við sama heygarðshornið. Þeir telja hagvöxt verða á kostnað náttúrunnar. Orkuöflun er sérstakur skotspónn græningja. Ástæðurnar eru af tvennum toga. Annars vegar vita græningjar, að orkuöflun er forsenda hagvaxtar. Með því að berjast gegn orkuöflun kyrkja græningjar hagvöxt.
Hins vegar fylgir orkuöflun víðast erlendis aukin mengun af einhverju tagi eða geislunarhætta. Oftast er um að ræða aukið sót, brennistein og koltvíildi út í andrúmsloftið, en einnig getur verið um að ræða hávaða, fugladauða og sjónræn umhverfisspjöll, t.d. af völdum vindmylla.
Íslenzkar vatnsaflsvirkjanir eru allar sjálfbærar og einnig afturkræfar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu. Mengun af þeirra völdum er í algeru lágmarki á heimsvísu. Það er þess vegna einboðið að nýta þessa auðlind til að útrýma atvinnuleysinu í landinu. Neðri-Þjórsá er efst á lista um hagkvæmni og lítið umhverfisrask. Þess vegna verður ekki séð, að þessi ríkisstjórn muni samþykkja nokkra nýja virkjun, ef hún leggst gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá.
Afstaðan til virkjana varðar grundvallar hagsmuni almennings og er þess vegna kjaramál. Nýjar virkjanir og framhald iðnvæðingar eru grundvöllur þess, að hér verði fullt atvinnustig og og að lífskjör í landinu verði samkeppnihæf við hin beztu í Evrópu. Helztu ástæður þessa eru eftirfarandi:
- fjárfestingar þurfa að nema um 25 % af VLF (verg landsframleiðsla) eða tæplega ISK 400 mia. á ári til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast nægilega hratt til að þörf verði á auknu vinnuafli og saxist á fjölda atvinnulausra.
- helmingurinn af þessu fé gæti komið frá hefðbundnum þáttum, þegar hagkerfið fer að taka við sér, en um ISK 200 mia. á ári þurfa að verða á formi erlendra fjárfestinga. Engar umtalsverðar slíkar eru í sjónmáli án aukinnar nýtingar á orkuauðlindinni, og aðeins stóriðja getur nýtt hana að marki. Ísland er enn samkeppnihæft um orkuverð til stóriðju, og enginn geiri athafnalífsins hefur meiri burði til stækkunar og framlags til hagvaxtar en stóriðja.
- aðeins straumur erlends gjaldeyris inn í landið af ofangreindri stærðargráðu getur gert kleift að losa um og losna við gjaldeyrishöftin, en slík eru mikill áfellisdómur yfir hagstjórn í hverju ríki, sem setur þau upp og viðheldur. Þau brjóta í bága við frelsin fjögur á Innri markaði EES, en þessi innri markaður er ein af rósunum (ekki þó kratarós) í hnappagati ESB og styður við heilbrigða samkeppni í Evrópu.
- auknar gjaldeyristekjur eru skilyrði styrkingar krónunnar og greiðslu á vöxtum og afborgunum hins opinbera og einkaaðila til útlendinga með skaplegum hætti, þ.e. að koma skuldum ríkisins niður í um 30 % af VLF á 10-15 árum án þess að innviðir samfélagsins fari við það á hliðina.
Það er þess vegna ekkert smáræði, sem leiða kann af því, að skákdrottningin tók þá ákvörðun 13. apríl 2011 að valda eitraða peðið, sem skírt var Steingrímur Jóhann á sinni tíð. Ákvörðun hennar jafngildir því að halda atvinnulífinu áfram í spennitreyju, lykilatvinnuvegum í uppnámi, festa atvinnuleysi í 10 %, reka ríkissjóð á heljarþröm, og að gera kjararýrnun viðvarandi í landinu frá ári til árs.
Þetta eru ekki dyntir skákdrottningarinnar, heldur er hún með þessu trú stefnu vinstri-grænna um að koma í veg fyrir hagvöxt með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum. Á þetta horfir Samfylkingin aðgerðarlaus og er ekki svo leitt sem hún lætur, enda er þetta verðið, sem hún greiddi fyrir að fá að sækja um aðild að ESB. Sjá nú allir, hversu illa var stofnað til þessa stjórnarsamstarfs. Þar haldast í hendur amlóðaháttur og afturhald, a&a, sem þó á ekkert skylt við hin ágætu AA-samtök.
Myndin hér að neðan lýsir vel anda umræðunnar í Evrópu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Íslandi 9. apríl 2011, þegar vanda skuldugra ríkja ber á góma. Ísland setti þá fagurt fordæmi, en hvernig á nokkur maður, innlendur eða útlendur, að geta treyst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að framfylgja hinni skýru stefnumörkun þjóðarinnar ?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 22:04
Þvinganir og þumalskrúfur og svarið er NEI
Brezka ríkisstjórnin beitti íslenzka banka og íslenzka ríkið fantabrögðum í október 2008, er hún flokkaði íslenzku bankana og íslenzku ríkisstjórnina með ótíndum hryðjuverkamönnum. Svo lítil hafa síðan verið geð guma, sem verja áttu hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, að aldrei virðist hafa verið reist burst gegn þessu óþokkabragði George Browns og Alistair Darlings, ráðherra brezka Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar á Íslandi. Lee Buchheit hefur upplýst, að ekki hafi verið vakið máls á þessu í samningaviðræðunum um Icesave#3. Hér liggja stórfelldir hagsmunir Íslendinga óbættir hjá garði, sem minnast ber 9. apríl 2011. Þess má þá jafnframt minnast, að hollenzkir ráðherrar og embættismenn hafa sýnt okkur mikla óbilgirni innan ESB, þar sem þeir eru á meðal innstu koppa í búri, og hafa löngum verið með ógeðfelldar hótanir frá því þeir greiddu hollenzkum innistæðueigendum upp inneignir sínar í hollenzka Icesave-bankanum af ótta við bankahrun vegna áhlaups á banka í eigin landi.
Icesave-málið er dæmi um frámunalega lélegan erindrekstur íslenzkra stjórnmálamanna og embættismanna með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Aldrei átti að ljá máls á vaxtagreiðslum til Breta og Hollendinga vegna útláta til að forða áhlaupi á þeirra eigin banka. Aldrei átti heldur að ljá máls á að gangast í ábyrgð fyrir óvissa upphæð, enda stríðir slíkt gegn Stjórnarskrá. Ekki átti að hvika frá kröfunni um forgang íslenzka innlánstryggingasjóðsins í þrotabúið óskipt, því að krafan um lágmarkstrygginguna stendur á þann sjóð.
Áhættan samfara samþykki á Icesave-lögunum er gríðarleg. Að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, sem hlaupið getur á hundruðum milljarða króna, er forkastanlegt. Farandi dómstólaleið höfum við ekki skuldbundið okkur til eins né neins og höfum allt að vinna, en engu að tapa, í samanburðinum. Nú ganga í garð krepputímar á Bretlandi, því að Bretar eru að bíta úr nálinni með gríðarlegan fjáraustur ríkisins í brezka banka og herða þess vegna sultarólina mjög. Hvaða áhrif halda menn, að slíkt hafi á eignaverð þrotabúsins og heimtur í það ?
Bent hefur verið á gengisáhættuna, en vegna aukins útstreymis gjaldeyris úr íslenzka hagkerfinu við fullnustu Icesave-samningsins er viðbúið, að gengi falli enn meir en þegar er orðið frá gerð samningsins.
Icesave-samningurinn er kjánalegur séður frá íslenzkum bæjarhóli, því að yfirgnæfandi líkur standa til, að kostnaður Íslendinga af samninginum verði margfaldur á við það, sem dómstólaleiðin mundi kosta landsmenn. Hræðsluáróður um refsingar EES eða verri lánakjör í útlöndum við höfnun Icesave er ættaður frá ESB og á ekki við nein rök að styðjast, því að heimurinn er stærri en Evrópa, og "peningar fara aldrei í fýlu". Peningamenn líta á efnahagsumhverfið, stjórnarfarið og möguleika á samkeppnihæfri arðsemi.
Hafa ber í huga, að nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, þegar kemur að afstöðu Evrópumanna til ríkisábyrgðar á starfsemi fjármálastofnana. Sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) hefur gengið sér til húðar. Írar eru á heljarþröm vegna þumalskrúfu ESB, eins og Íslendingar mundu verða eftir samþykkt hinna illræmdu Icesave-laga, sem er skilgetið afkvæmi evrópsks bankaauðvalds, og þýzkir kjósendur hafa sýnt Merkel, kanzlara, gula spjaldið í fylkiskosningum undanfarið, sem túlkað er sem megn óánægja þýzkra kjósenda með að verja stórfelldum fúlgum þýzks skattfjár til veikra ríkja á evrusvæðinu til að bjarga bönkum, þýzkum og öðrum, frá útlánatapi. Öll stefna ESB er þjónkun við stórauðvaldið á kostnað almennings í Evrópu.
Hans Tietmayer, fyrrverandi bankastjóri Bundesbank, þýzka seðlabankans, var búinn að vara við því, að sameiginlegur gjaldmiðill gengi ekki upp án sams konar fjárlaga í öllum evrulöndunum. Nú er reynt að koma evrunni til bjargar með því að efla enn miðstýringuna frá Brüssel. ESB-búrókratar mega ekki til þess hugsa, að til málarekstrar komi um ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóðunum af eftirtöldum ástæðum:
- Ef dómstóll kveður upp úr um, að engin ríkisábyrgð sé fyrir hendi, sem líklegast er, þá missa bankarnir tiltrú og áhlaup verður gert á veikustu bankana, sem hafa mun keðjuverkandi áhrif og fella evrópska bankakerfið. Það eru þess vegna miklu meiri hagsmunir í veði en þær smáupphæðir á evrópskan mælikvarða, en háar á íslenzkan mælikvarða, sem um er teflt í Icesave-málinu.
- Ef dómstóll kveður upp úr um ríkisábyrgð, mun slíkt magna ábyrgðarleysi bankanna, þeir verða enn áhættusæknari, gætu þanizt út og valdið eignabólu, sem síðan springur með brauki og bramli.
Það hefur frá upphafi verið ljóst, að Íslendingar væru að fást við ESB (Evrópusambandið), þegar Icesave var annars vegar. ESB hrærði í stjórnmálamönnum á Norðurlöndum og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) varðandi lánveitingar, en hefur ekki lengur bolmagn til þess, vegna þess að almenningur í Evrópu er búinn að fá sig fullsaddan á þjónkuninni við bankaauðvaldið. Tíminn hefur unnið með okkur. Með afar skýrum hætti hefur sterk tenging málsins við ESB birzt hérlendis. Þeir sem hallir eru undir ESB, hafa stundað illvígan áróður fyrir því að gangast undir jarðarmen bankaauðvaldsins og ríkistryggja skuldbindingar fallna bankans og borga vexti í ofanálag. Málpípur ESB hafa sumar orðið aumkvunarverðar, er þær hafa étið upp vitleysuna úr bankamönnum og skósveinum þeirra í matsfyrirtækjunum, en á þeim og greiningardeildum bankanna er harla lítill munur. Allt étur þetta lið úr lófa bankaauðvaldsins. Þá var og ósæmandi með öllu, að forkólfar s.k. aðila vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, skyldu í örvæntingu kasta fram öfugsnúnum hugrenningum sínum um þróun íslenzka hagkerfisins, ef það verður losað undan Icesave-ánauðinni. Þetta er ósæmilegur ESB-áróður úr lausu lofti gripinn.
Nóg er nú komið af hræðsluáróðri utan þings sem innan. Synjun um staðfestingu Icesave-laganna er um leið höfnun á leiðsögn þeirar dæmalausu ríkisstjórnar, sem nú situr. Eftir síðustu höfnun átti hún auðvitað að sigla sinn sjó, enda hefur hún síðan staðfest, að henni er ekki treystandi til að fást af manndómi við þetta deilumál. Eftir höfnun 9. apríl 2011 hefur ríkisstjórnin hvorki siðferðilega, málefnalega né lýðræðislega stöðu til áframhalds. Leysa ber þá þingið upp og boða til Alþingiskosninga. Sýnum öðrum gott fordæmi og segjum Nei.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.4.2011 | 22:27
Stjórnlaust land
Að forminu til er ríkisstjórn í landinu, en hún er svo vingulsleg, að kalla má hana stjórnlaust rekald. Sem stjórnvald getur hún ekki með skýrum hætti gert grein fyrir, hvort landið styður hernað NATO gegn vitstola einræðisöflum í Norður-Afríku eða er friðardúfa í NATO að hætti VG.
Annað andlit Janusar þykist ekki hafa vitað um, hvað í bígerð var. Þar fer konungur tvískinnungsins og kosningasvikanna. Utanríkisráðherra ráðfærði sig ekki við utanríkismálanefnd Alþingis, en gjörningur hans er samur; hann hefur skuldbundið alla ríkisstjórnina, og þar með vinstri-græna, hvað sem Steingrímur J. tautar og raular, til að styðja þennan hernað við Miðjarðarhafið með góðu eða illu. Ríkisstjórnin er með Janusarandlit (höfuð, sem horfir til tveggja átta). Hver treystir slíkum ?
Forystumenn á vinnumarkaði, beggja vegna borðs, kvörtuðu sáran undan ráðleysi ríkisstjórnarinnar; þaðan komi bókstaflega ekkert bitastætt. Nú eru komin aukin ríkisútgjöld á blað. Fyrir þeim þarf að slá lán í útlöndum á kostnað framtíðarinnar. Það er ekki borið við að boða nýjar erlendar fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum, en auknar gjaldeyristekjur eru hið eina, sem getur orðið til bjargar frá ríkisgjaldþroti. Með þessu áframhaldi þarf að skera ríkisútgjöld niður um 50 milljarða króna á næsta ári. Ríkisstjórnin stefnir þjóðfélaginu út í algert öngþveiti. Hún er með öðrum orðum vita gagnslaus, þegar kemur að úrlausn mála. Þar eru eintómir blöðruselir á ferð, og alger tímasóun, og reyndar stórskaðlegt og ofboðslega dýrkeypt, að hafa jafndáðlaust fólk við völd í Stjórnarráðinu á tímum sem þessum.
Í stærsta sveitarfélaginu, höfuðborginni, er hið sama uppi á teninginum. Með ráðleysi sínu og gaspri hafa núverandi stjórnendur Reykjavíkurborgar keyrt Orkuveitu Reykjavíkur (OR) algerlega í þrot. Auðvitað má rekja fjárhagsvandann aftur í tímann til daga R-listans og REI-klúðursins, þegar almenningur gapti af undrun yfir mörgum fjármálagjörningum, sem OR var att út í af stjórnmálamönnum í borgarstjórn og stjórnendum OR, sem allir báru merki stórmennskubrjálæðis. Nú er svo komið, að framlegð fyrirtækisins dugir ekki fyrir vöxtum, og er þá eðlilega örvænt um, að nokkur lánveitandi þori að hætta fé sínu í slíka hít.
Ekki bætti úr skák, þegar fyrirbærið á stóli borgarstjóra lýsti því yfir opinberlega, að OR væri gjaldþrota. Þar með ætti hann að hafa rekið síðasta naglann í líkkistu OR þannig, að OR rísi ekki upp í sinni núverandi mynd. OR er risi á brauðfótum, sem þarf að kljúfa. Miðað við núverandi fyrirkomulag orkumála á Íslandi og innan EES fer ekki saman, að sama fyrirtæki stundi einokunarstarfsemi, s.s. hitaveitu og raforkudreifingu, annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar, en hin síðast nefnda er samkeppnigrein. Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og nú ættu eigendur, við þessi vatnaskil, að stokka spilin og aðlaga OR umhverfinu, sem þeim er búið. Eigendur OR geta um leið bjargað sér úr gapastokki skuldafjötra með því að selja virkjanirnar. Þær eiga alls ekki heima í höndum stjórnmálamanna, sem í krafti bakábyrgðar skattborgaranna, haga sér eins og fílar í postulínsbúð, þegar þeir ná að læsa klónum í slík fyrirtæki.
25. marz 2011 kom í ljós, að engin raunhæf stefna er til hjá stjórnvöldum peningamála í landinu um að afnema gjaldeyrishöftin. Það er þvert á móti verið að festa þau í sessi, eins og vinstri stjórn einni er lagið, en höft hafa ætíð verið ær og kýr félagshyggjunnar. Yfirlýsing Árna, efnahagsráðherra, og Más, seðlabankastjóra, sýnir fullkomna uppgjöf stjórnvalda við að draga Íslandsvagninn upp úr því fúafeni hagrænnar hrörnunar, sem samfélagið hefur sokkið æ dýpra í síðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Er heldur ekki von á djarflegu og stórhuga skrefi í frjálsræðisátt, þegar þeir Bakkabræður afturhaldsins eru annars vegar.
Það er enginn vilji fyrir hendi í ríkisstjórn til að hleypa nýju lífi í atvinnulífið. Auðvitað er fastmótuð áætlun um mikið aðstreymi gjaldeyris með erlendum fjárfestingum í atvinnustarfsemi forsenda þess að losa um gjaldeyrishöftin. Ríkisstjórnin leggur kollhúfur við slíkum hugmyndum, en kappkostar þess í stað niðurrif þess, sem er. Sjávarútvegi er haldið í gíslingu eignarnámshótana, svo að þar er sáralítið fjárfest.
Ættu útgerðarmenn ekki að ljá máls á neins konar útvötnun eignarréttarins, sem þeir langflestir hafa keypt sér, en félagshyggjan vill feigan, eins og vant er. Þar eru vinstri bjálfarnir trúir stefnu sinni, eignaupptöku, sem er risaskref til baka og mun kippa stoðunum undan lífskjörum í landinu endanlega. Fjöldi manns í sjávarplássum mun komast á vonarvöl og verða háður ölmusu úr hendi stjórnmálamanna, sem er einmitt markmið félagshyggjunnar.
Stóriðjunni var hótað með ofurskatti á rafmagn, og hótun um tekjuskattshækkun fyrirtækja vofir yfir. Gegndarlausar eldsneytishækkanir gera rekstraraðilum flutningatækja allra handa mjög erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á eitt aðalfórnarlamb ríkisstjórnarinnar, eiganda einkabílsins. Yfir bændum hangir fallöxi kratanna, hin sameiginlega landbúnaðarstefna ESB.
Nú nálgast ögurstund þjóðaratkvæðagreiðslu um að takast á herðar milljarðatuga króna vaxtagreiðslur til handa Bretum og Hollendingum vegna greiðslna innistæðutryggingasjóða þeirra til innistæðueigenda. Þar að auki var samið svo snilldarlega, að öll áhætta um hækkun höfuðstóls var lögð á okkar herðar. Þar getur orðið um hundruði milljarða að ræða. Neyðarlög Geirs Haarde og félaga tryggðu innistæðueigendum, einnig íslenzkra banka á Bretlandi og í Hollandi, forgang að eignum þrotabúa á kostnað annarra kröfuhafa, t.d. erlendra banka. Verði neyðarlögin dæmd ógild, snarbreytist skuldastaðan íslenzkum skattborgurum í óhag um hundruði milljarða króna. Það yrði algert óráð að skrifa undir þessi ósköp.
Þvætting Moody´s og málpípa þeirra um lánshæfismat tekur enginn viti borinn maður alvarlega. Ástæðan fyrir því, að erlendir bankar eru tregir til að lána okkur, er sú, sem nefnd er hér að ofan. Þeir eru brenndir af neyðarlögunum, en á þeim töpuðu þeir e.t.v. 10 000 milljörðum króna eða sem nemur sexfaldri landsframleiðslu Íslands á ári. Engum heilvita manni dettur í hug, að sú tregða lagist með aðgerð, sem mögulega keyrir ríkissjóð fram af hengifluginu. Sú tregða mun strax lagast og hér verður sú stefnubreyting á í Stjórnarráðinu að semja um viðamikla viðreisn hagkerfisins við erlenda fjárfesta í orkukræfum iðnaði og í annarri starfsemi. Afstaðan til Icesave er þess vegna stórfelld kjarabarátta. Já varðar leiðina til ánauðar, en Nei mun marka nýtt upphaf sóknar til bættra lífskjara öllum til handa.
Súluritið hér að ofan sýnir áhrif óvissunnar á skuldabaggann af Icesave, og grafið hér að neðan sýnir áhrif ósjálfbærrar skuldastöðu ríkissjóða þriggja landa, Grikklands, Írlands og Portúgals, á vexti, sem þeim standa til boða á markaðinum.
Kjaramál | Breytt 2.4.2011 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2010 | 22:16
Fimman aðeins hjá SA
Samtök atvinnulífsins (SA) lýstu því yfir í viku 06/2010, að hagkerfi Íslands yrði að vaxa um 5 % að jafnaði á næstu 5 árum til að jafna um samdráttinn á tímabilinu 2008-2010. Gangi þetta eftir, verður hagkerfið 28 % stærra árið 2015 en árið 2010. Það er hægt að taka heils hugar undir með SA um þetta markmið, og að það sé brýnt fyrir velferð Íslendinga, að þeir nái þessu markmiði.
Hins vegar verður að hafa endaskipti á landsstjórninni til að minnstu líkur verði á að ná þessu verðuga markmiði. Landsmenn eru með lík í lestinni. Með kreddum sínum, framtaksleysi og misheppnuðum úrræðum gerir ríkisstjórn félagshyggjunnar þjóðinni lífsbaráttuna miklu erfiðari en efni standa til.
Algert þekkingarleysi ráðherranna á efnahagsmálum lýsir sér með því, að þegar nauðsynlegt er að gefa í til að ná landinu upp úr kreppunni, þá stíga þeir á bremsurnar. Afleiðingin er sú, að efnahagslífið er nú að stöðvast. Við aðstæður sem þessar á að liðka til fyrir fjárfestingum og fremur að lækka skatta en að hækka þá. Þegar hagvöxtur hefur tekið vel við sér, má hugleiða skattahækkanir. Annars eru þær stórskaðlegar fyrir skattgreiðendur og rýra í raun skattstofninn. Glópska þingliðs vinstri flokkanna á sér engin takmörk.
Frá Hruninu hefur orðið samfelld hnignun á Íslandi og keyrt hefur um þverbak með afturhaldinu, sem að völdum settist 1. febrúar 2009 og festi sig algerlega ómaklega í sessi með Hrunskosningunum í apríl 2009. Síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina, enda fer því víðs fjarri, að valdhafar vinstri stjórnarinnar valdi verkefni viðreisnarinnar. Þeir hafa lagzt þversum gegn breytingum til batnaðar, en lagt lóð sitt á vogarskálar versnandi lífskjara með afar íþyngjandi og óþörfum skuldbindingum gagnvart Hollendingum og Bretum, hótandi eignarupptöku hjá útvegsbændum, sem setja mun bankakerfið aftur á hliðina, eyðileggjandi skilvirkt skattkerfi og standandi í rándýrum og gagnslausum, ef ekki skaðlegum, umsóknarviðræðum við ESB. Þessi umsókn um viðræður við ESB er eindæma illa ígrunduð og tímasett, og hún felur í sér ábyrgðarlausa sóun á skattfé og er á niðurskurðartímum fullkomlega siðlaus. Umsóknina ber að afturkalla strax.
ESB stendur á krossgötum. Nú er komið í ljós, að tilraunin með sameiginlega mynt, evruna, hefur mistekizt. Tveir kostir eru til. Annaðhvort liðast myntsamstarfið í sundur eða stofnað verður stórríki Evrópu með ein fjárlög. Íslendingar eiga að doka við og halda síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn, þegar staðan hefur skýrzt. Skýr þjóðarvilji og þingvilji verður að vera fyrir umsókn. Annars er verr farið en heima setið.
Aðeins á 4 árum undanfarin 20 ár hefur hagvöxtur landsins náð 5 % markinu. Bóluárin 2006 og 2007 nam hagvöxturinn t.d. "aðeins" 4,4 % og 4,9 %, en 2008 var hann 1,3 % af VLF (verg landsframleiðsla - GDP á ensku, sbr graf að ofan). Árið 2009 var hins vegar samdráttur um 8 % af VLF.
Til að knýja áfram 5 % hagvöxt á ári þarf gríðarlegar fjárfestingar. Þær námu t.d. 28 % af VLF árið 2007. Á næstu árum munu þær þurfa að nema a.m.k. 30 % eða um ISK 450 milljörðum til að ná 5 % markmiði SA. Miðað við stöðu mála verður bróðurparturinn af þessum fjárfestingum að vera beinar erlendar fjárfestingar eða um MUSD 4 þúsund. Af þessu sést, hversu óraunhæf framsetning SA er. Eina ráðið til að ná þessu markmiði er, að ASÍ og SA taki höndum saman um að reka ráðleysið og dáðleysið af höndum landsmanna og að síðan verði rutt úr vegi hindrunum við verðmæta-og atvinnusköpun.
Það heyrast hins vegar úrtöluraddir í ýmsum kimum, þegar orkusölu til stóriðju ber á góma. Orkuverðið er talið vera of lágt; það standi aðeins undir kostnaði án nægilegrar arðsemi. Hvernig skyldi þá standa á því, að orkuverð (án skatta) til almennings er óvíða jafnlágt og á Íslandi, þó að dreifingarkostnaður á mann sé óvíða jafnhár og hér af náttúrulegum orsökum ?
Það er vegna þess, að stóriðjan hefur skuldbundið sig til að greiða megnið af umsaminni orku í 30-40 ár. Þar með kemur til skjalanna hagkvæmni stærðarinnar og trygg tekjulind fyrir allri fjárfestingunni með vöxtum og rekstrarkostnaði, og lánveitendur hafa treyst sér til að taka lágmarks vexti. Þetta er tryggt m.v. lágmarks álverð, og samningarnir veita orkufyrirtækjunum vænan arð, þegar álverð er yfir 2000 USD/t. Til lengdar er álverði spáð um 2500 USD/t. Er einhver annar orkukaupandi, sem kemst með tærnar, þar sem stóriðjan hefur hælana í þessum efnum ? Auðvitað ekki. Þeir hefðu þá nú þegar komið fram í dagsljósið. Einhver kann að bjóða hærra einingarverð til skamms tíma, en enginn hefur enn boðið virkjunarfyrirtækjunum betri kjör til langs tíma, t.d. á afskriftartíma virkjunar.
Kvisazt hefur um einingarverðið 40 mill/kWh til gagnavers. Við fyrstu sýn virðist þetta vera ótrúlega lágt verð, en einingarverðið segir lítið, eitt sér, um hagkvæmnina fyrir orkuseljandann. Önnur atriði verða að fylgja með til að vitrænn samanburður fáist. Nefna má afhendingarspennu, nýtingartíma afltopps, aflstuðul, afhendingarstað orku (er flutningskostnaður innifalinn ?), kaupskyldu og samningstíma.
Hræsnarar og beturvitar ("kverúlantar") orkuumræðunnar láta jafnan að því liggja, að "eitthvað annað" sé handan við hornið og bjóði betur. Jafnoft er gripið í tómt. Kjörin, sem þeir bjóða orkuseljendum, hafa reynzt lakari, þegar dæmið er reiknað til enda, og áhætta viðskiptanna fyrir virkjunar-og línueigendur hefur verið tekin með í reikninginn.
Stóriðjusinnar hafa þó ekki lagt það í vana sinn að gera lítið úr öðrum orkukaupendum, þó að ýmislegt, sem á fjörur orkufyrirtækjanna hefur flotið, sé óbeysið. Stóriðjusinnar frá Einari, skáldi Benediktssyni, og fram á þennan dag, vilja alls ekki leggja stein í götu neinnar atvinnustarfsemi; þvert á móti telja þeir fjölbreytni eftirsóknarverða og ákjósanlega fyrir íslenzkt þjóðfélag.
Þeir eiga að ná viðskiptunum, sem bezt bjóða, en klisjukenndur áróður gegn stóriðjunni er reistur á yfirgripsmikilli vanþekkingu á eðli hennar og innviðum í nútímanum ásamt forstokkuðum fordómum í garð einnar atvinnugreinar, sem hvergi er annars staðar á byggðu bóli að finna og jaðrar við brot á atvinnurétti.
Það verður að draga lærdóma af mistökum fortíðar. Bankaendurreisnin er prófsteinn á þetta. Vinstri stjórninni hefur tekizt eins óhönduglega til við þessa endurreisn og hugsazt getur, enda hefur engin heildstæð ný löggjöf litið dagsins ljós enn þá fyrir fjármálakerfið. Vinstri stjórnin virðist vera í helgreipum gróðapunga, en leggja hins vegar fæð á framleiðendur handfastra verðmæta, eins og iðnrekendur, bændur, útgerðarmenn og fiskverkendur, því að hún ofsækir þessar greinar og leggur stein í götu framþróunar þeirra eftir fremsta megni. Ríkisstjórnin hjarir í heimi hugaróra og veruleikafirringar "nómenklatúrunnar", sem engin tengsli hefur við hinn vinnandi mann.
Það er grundvallaratriði, að ný bankalöggjöf kveði á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Þetta er lærdómur margra þjóða af fjármálakreppunni, en vinstri stjórnina hérlendis skortir áræði, vit, vilja til að leggja þetta til við Alþingi.
Menn mega samt reka eins marga fjárfestingarbanka og þeim sýnist, en verða þá að gera það á eigin ábyrgð og ekki á kostnað almennra innistæðueigenda. Hrægömmunum á alls ekki að líðast að sölsa tryggingastarfsemi undir sig og tengja hana braski Hún á að starfa á sínum eigin forsendum. Það verður að verja viðinn, svo að hann verði ekki maðksmoginn, sundurétinn og grautfúinn. Nóg er af ormunum.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2009 | 18:54
Skattahækkanir ofan í eymdina
Eins er víst og nótt fylgir degi, að fái vinstri flokkarnir brautargengi í kosningunum 25. apríl 2009, þá skella þeir þungbærum skattahækkunum á launþega, sparifjáreigendur og jafnvel alla neytendur, sem þó munu enga skila fyrir ríkissjóð, þegar upp verður staðið. Almenningur mun þá enn gjalda hrapallegra hagstjórnarmistaka, enda skilja rauðliðar ekki samhengi skattálagningar og skatttekna.
Slík aðgerð yrði í fullkomnu samræmi við hugmyndafræði sameignarsinna, sem reist er á öfund og forræðishyggju og mörkuð skilningsleysi á gangverki hagkerfisins. Það hefur alltaf verið reginmunur á afstöðu hægri og vinstri manna til skattkerfisins. Hægri menn telja meginhlutverk skattkerfis vera að afla hinu opinbera nauðsynlegra tekna til að standa undir útgjöldum, sem löggjafinn ákvarðar ásamt sveitarstjórnum. Vinstri menn, aftur á móti, eru upp fullir af öfugsnúnum hugmyndum um annars konar hlutverk stjórnmálamanna en löggjafar og stjórnunar á málefnum ríkisins. Grillur þeirra snúast yfirleitt um kreddur og í þessu tilviki um að breyta tekjuskiptingunni, sem þegar hefur ráðizt á vinnumarkaðinum á milli launþega og vinnuveitenda, annaðhvort í beinum samningum þeirra á milli eða félagasamtaka þeirra. Skattkerfið er þá tækið, sem purkunarlaust er beitt í þessu augnamiði.
Verður ekki séð, að stjórnmálamenn hafi heimild, með stoð í stjórnarskrá, til að hlutast þannig gagngert til um að breyta niðurstöðum frjálsra samninga og mismuna fólki beinlínis eftir tekjustigi á grundvelli umdeildra hugmynda um jöfnun ráðstöfunartekna. Mishátt álagningarhlutfall er siðlaus mismunun þegnanna, sem engu skilar, þegar upp er staðið, nema sameiginlegu tjóni þjóðfélagsins á formi aukins samdráttar hagkerfisins og aukins atgervisflótta úr landi við núverandi þjóðfélagsaðstæður eða minni hagvexti en ella í venjulegu árferði.
Í þessum efnum er þó unnt að fallast á réttmæti persónuafsláttar, þó að hann sé ekki sjálfsagður, en það er engan veginn hægt að fallast á réttmæti fjölþrepa skattkerfis, þar sem jaðarskattprósentan er hækkuð í þrepum með hækkandi tekjum. Persónuafsláttur hefur raunar í för með sér stighækkandi jaðarskatt frá skattleysismörkunum, eins og gefur að skilja.
Í þessu sambandi er hægt að upplýsa, að Verkamannaflokkur Bretlands setur á 45 % jaðarskatt, en hann gerir það með 3 ára fyrirvara, þ.e. álagning á ekki að taka gildi fyrr en 2011, og þá aðeins fyrir árstekjur yfir GBP 150´000 eða MISK 26. Íslenzku rauðliðarnir ætla að skattpína launafólk með árstekjur MISK 6 og hærri.
Það liggur í landi, að skattar séu lágir á Íslandi. Þessu er þó þveröfugt farið. Þegar tekin eru saman útgjöld ríkis og sveitarfélaga, sjá grafið hér að ofan, kemur í ljós, að þau voru um 45 % af landsframleiðslu á Íslandi fyrir Hrunið, en um 40 % að meðaltali innan OECD. Það snaraðist á merinni á Íslandi árið 2006, eins og tilvitnað graf ber með sér. Þetta, ásamt gríðarlegu tekjufalli hins opinbera og nýjum útgjaldaliðum í kreppunni, er meginástæða þess, að hallinn á ríkissjóði nemur nú um 12 % af VLF. Þetta mun vera svipað hlutfall og í BNA (Bandaríkjunum).
Í BNA voru skattar samt nýlega lækkaðir, þó að þeir séu miklu lægri en hérlendis. Hvers vegna halda menn, að mikill meirihluti hafi verið fyrir þeirri aðgerð í báðum deildum Bandaríkjaþings ? Fyrir skattalækkun voru færð sömu rök í BNA og í fjölmörgum öðrum löndum, þar sem þjóðþing hafa undanfarið samþykkt skattalækkun þegnunum til handa. Það er til þess að létta undir með almenningi í þrengingum kreppunnar. Ef almenningur fær þannig meir á milli handanna, fækkar gjaldþrotum, greiðsluskil skána og viðskipti glæðast. Þetta er þó ofvaxið skilningi margs vinstri sinnans.
Hvers vegna dettur engum í hug hérlendis að lækka skatta í stað alls kyns sjónhverfinga, sem spunnar eru upp um meðferð skulda, þar sem kostnaður mun leggjast á sameiginlega sjóði landsmanna að miklu leyti ? Grundvallar atriði er, að þegnarnir njóti jafnræðis, þegar hið opinbera leggur á byrðar eða léttir af byrðum.
Hækkun skattaprósentu, af hvaða tagi sem er, mun dýpka kreppuna og lengja í henni. Þessa tröllheimskulegu aðgerð hafa ríkisstjórnarflokkarnir samt boðað bæði leynt og ljóst, að koma muni til framkvæmda eftir kosningar nú í apríl 2009. Sjálfstæðisflokkurinn telur nóg komið af skattahækkunum og telur mestu varða fyrir heildina, að einstaklingarnir fái svigrúm til að bjarga sér, en séu ekki spenntir fyrir hlass hins opinbera meirihluta ársins sem hverjir aðrir dráttarklárar. Þetta má heita nútíma þrælahald sameignarstefnunnar.
Sameignarsinnum hefur t.d. ætíð sviðið, að fjármagnstekjuskattur skuli ekki vera hærri en 10 %. Þessi hóflega skattheimta ásamt jákvæðri raunávöxtun sparnaðar er þó forsenda þess, að einhver umtalsverður sparnaður verði til í landinu. Hvernig eigum við að koma hjólunum í gang án sparnaðar ? Án sparnaðar verða engar fjárfestingar. Ef peningamagn í umferð eykst meir en sparnaðurinn til lengdar, verður til verðbólga. Mikill sparnaður er forsenda mikilla útlána, t.d. til fjárfestinga í atvinnulífinu. Hækkun fjármagnstekjuskatts mun draga úr sparnaði ásamt peningalegum stöðugleika og leiða til aukins fjármagnsflótta úr landinu og þar með lakari lífskjara.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Írar standa frammi fyrir afleiðingum ofhitnunar efnahagskerfis síns, sem birtist t.d. sem gríðarleg eignaverðsbóla. Þensla og síðan mikill samdráttur varð þrátt fyrir evru þar í landi, en það er önnur saga. Nú ræða þeir, hvernig þeir eigi að ná jafnvægi í ríkisbúskap, sem er eitt af Maastricht skilyrðum evrulands. Þeir eru með einna lægstan tekjuskatt á fyrirtæki eða 12,5 %. Þetta dró miklar fjárfestingar til Írlands frá aldamótum fram að 2008. Írar ætla ekki núna að hækka þennan skatt. Þó að ESB hafi horn í síðu Íra fyrir þennan lága skatt, láta Keltarnir ekki undan, því að þeir vita, að slíkt mundi draga kreppuna á langinn hjá þeim. Þegar lánsfé er af skornum skammti, hvað þá illfáanlegt, eins og núna, er gulls í gildi að hafa aðdráttarafl fyrir fjárfesta, ekki sízt erlenda.
Nú er spurningin, hvaða áhrif hefur breyting á álagningarprósentu skatta á tekjur hins opinbera ? Fjármálaráðherrann, sem ekki heitir Ragnar Reykás, þó að því hafi verið haldið fram, hefur svarað þessari spurningu varðandi tekjuskattinn. Hann boðar tvö ný þrep í álagningu tekjuskatts launþega og áætlar, að þessi nýja hækkun jaðarskatts muni leiða til tekjuaukningar ríkissjóðs um 3,5 milljarða króna. Ef reiknað er með, að tekjuskattshækkunin nái til 50 þúsund skattborgara, þá nemur skattahækkunin 70 þúsund krónum að jafnaði á hvern, sem verður fyrir þessu svipuhöggi fjármálaráðherrans.
VG hefur ályktað um að taka upp eignarskatt að nýju á Íslandi, og hafa þeir nefnt svo hátt álagningarhlutfall, að jafna má til eignaupptöku. Þetta er einstaklega óréttlátur skattur af eftirfarandi ástæðum:
- eignarskattur felur í sér margsköttun á sömu tekjur, sem varið hefur verið til öflunar eigin húsnæðis
- þessi skattstofn er nú nýttur grimmilega af sveitarfélögunum á formi fasteignagjalda og ríkið væri þess vegna að höggva í sama knérunn
- eignarskattur kemur þyngst niður á tveimur hópum, sem nú eiga mjög undir högg að sækja, þ.e. ungu fólki, sem er að stofna til heimilis, og hefur rýrða tekjumöguleika í kreppunni, og öldruðu fólki, sem enn býr í eigin húsnæði og hefur tapað stórfé, þó að ekki væri annað tínt til en tap lífeyrissjóða
- álagning eignarskatts mun vafalaust hækka leiguverð, sem harðast kemur niður á þeim, sem sízt skyldi.
- hækkun eignarskatts mun enn tefja endurreisn húsnæðismarkaðar
Skattahækkanir munu við núverandi aðstæður valda stórtjóni á hagkerfinu og ríða mörgum fjölskyldum að fullu, fjárhagslega. Með öðrum orðum munu skattahækkanir enn hægja á hjólum efnahagslífsins og fjölga gjaldþrotum heimila og fyrirtækja. Hið sorglega er jafnframt, að þessar fórnir munu verða algerlega unnar fyrir gýg, því að þær munu ekkert hækka tekjur ríkissjóðs til lengdar af þeirri einföldu ástæðu, að þær munu leiða til samdráttar skattstofna ríkisins.
Lauslega áætlað munu boðaðar (undir rauðri rós) skattahækkanir leiða til þess, að um 250 þúsund krónum á ári verður kippt út úr ráðstöfunartekjum miðstéttarfjölskyldunnar íslenzku, sem stendur undir öllu velferðarkerfinu. Eins og áður segir mun þetta leiða til þess, nú þegar endar ná vart saman hjá tugþúsundum fjölskyldna, að fjöldi manns verður að segja sig til sveitar. Þetta verður mögnun móðuharðinda af mannavöldum og gjaldið, sem greitt verður fyrir "Búsáhaldabyltinguna", sem leiddi til valdatöku rauðliðanna, svartasta afturhalds landsins, sem sækir efnahags-og stjórnmálakenningar sínar í löngu gjaldþrota góss Karls Marx og Friedrich Engels. Að hagnýta kenningar þessara herramanna kemur hverri þjóð á vonarvöl.
Hér blasir í hnotskurn við meginmunurinn á sameignarstefnu ríkisstjórnar flokkanna og félagslegu markaðshagkerfi. Hið fyrr nefnda lítur miskunnarlaust á tekjur og eignir þegnanna sem skattstofna, sem hinu opinbera beri að skítnýta "til að jafna lífskjörin", en í félagslegu markaðshagkerfi er stefnan sú að skapa einstaklingum og félögum nægt svigrúm til fjárfestinga og/eða sparnaðar, þannig að samfélagskakan, sem til skiptanna er, stækki sem örast, og að sem flestir einstaklingar búi við efnahagslegt og félagslegt öryggi.
Það er gefið mál, að skattahækkanir munu leiða til aukinna undanskota og stækkunar svarts vinnumarkaðar. Í stað þess að auka álögur á þrautpíndan almenning væri yfirvöldum nær að einhenda sér í að hafa uppi á lausafé og eignum, sem skotið hefur verið undan skatti. Nefnd á vegum hins opinbera hefur áætlað, að skattsvik nemi á bilinu 40-60 milljörðum kr árlega, þar sem ríki og sveitarfélög eru svikin. "Skattmanni" væri nær að einhenda sér í að hafa uppi á þrjótum, sem brotið hafa skattalögin en að níðast á löghlýðnum borgurum, sem gjalda guði, það sem guðs er og keisaranum, það sem keisarans er. "Skattmanni" á ekki að verða skotaskuld úr, ef nokkur mannsbragur er að honum, að bæta innheimtuna um eina 40 milljarða árlega í stað þess að auka hvatann til undanskota með skattahækkunum.
Skattaparadísir í Karíbahafinu hafa verið nefndar, en þær hafa einnig verið í Evrópu og ekki síður í Bandaríkjunum. Nú hafa Svisslendingar, eftir þrýsting frá ESB, létt á bankaleynd, og eftir G20 fundinn í Lundúnum í aprílbyrjun 2009 mun hún vafalaust víða rakna upp, enda bankaleynd stórlega misnotuð af andfélagslegum öflum, svo að orðalag bolsévíka sé viðhaft. Með því að einbeita sér að þessum fjáruppsprettum, geta yfirvöld á Íslandi, í stað þess að ganga í skrokk á þrautpíndum almenningi með engum árangri, heimt að líkindum hundruði milljarða króna í fjárhirzlur ríkisins áður en yfir lýkur. Er myndarlegt átak dómsmálaráðherra með samningi við fyrrverandi yfirrannsóknardómara í Frakklandi og eflingu embættis sérstaks saksóknara lofsvert.
Hér má sjá mynd frá Klettafjöllunum bandarísku. Þar eru víða taldar leynast skattaparadísir, svo að víðar er hægt að fara til að leita fanga en til smáeyja, þó að þangað geti slóðin einnig legið. Undarlegt er, ef Europol og Interpol gagnast ekkert í þessari leit, en samstarf við erlenda sérfræðinga um peningaþvætti er þó að komast á laggirnar. Eva Joly og fleiri slíkir hafa haldið og munu jafnvel í enn ríkari mæli halda fyrir mörgu þrælbeini vöku.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)