Færsluflokkur: Dægurmál
23.7.2025 | 16:45
Glapræði ríkisstjórnar
Með því að draga kraftinn úr grundvallar atvinnugrein landsmanna fremur ríkisstjórnin alvarlegan fingurbrjót, sem allir munu finna fyrir. Með því að draga stórfé út úr sjávarútveginum og flytja yfir í ríkissjóð versnar samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar á erlendum og innlendum vettvangi, fjárfestingar og nýsköpun dragast saman, tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka, hagvöxtur minnkar og gengi ISK gæti rýrnað vegna minni gjaldeyristekna, sem eykur verðbólgu. Ragnar Árnason, prófessor emeritus, hefur varað við þessu, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum. Henni mun hefnast fyrir allan þennan flausturslega og einstrengingslega málatilbúnað, og vonandi kemur fljótlega hér ríkisstjórn, sem leiðréttir þetta óréttlæti (sérsköttun) og skaðlega inngrip í atvinnustarfsemi.
Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf, ritar talsvert um sjávarútvegsmál, og ein greina hans birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025 undir fyrirsögninni:
"Skattur eða sátt" ?
"Umræðan um sértæka skattlagningu á sjávarútveginn hefur harðnað að undanförnu. Forsætisráðherra hefur haldið því fram, að sjávarútvegurinn eigi ekki að skila arði til eiganda fyrirtækja í sjávarútvegi, heldur greiða sérstakan skatt til samfélagsins. Þessi nálgun virðist byggð á misskilningi á því, hvernig greininni er háttað. Arðgreiðslur eru tiltölulega hóflegar í sjávarútvegi, lægri en t.d. í orkugeiranum, og mestur hluti afkomunnar fer í nýfjárfestingar, tækni og þróun. Fjármunir eru ekki teknir út - þeir eru lagðir inn. M.ö.o.: sjávarútvegurinn greiðir þegar til samfélagsins með skattgreiðslum, með störfum og með verðmætasköpun. Að reyna að "taka til baka" verðmæti, sem enginn annar en fyrirtækin hafa skapað úr hráefnum hafsins - það þjónar hvorki réttlæti né hagsmunum landsins til lengri tíma."
Síðan þetta fár "verkjastjórnarinnar" gegn sjávarútveginum brast á, hefur verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaði rýrnað um tugi milljarða ISK, e.t.v. 20 %. Markaðurinn hefur lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og metið þær til eignaupptöku starfseminnar. Hér er um að ræða þjófnað ríkisvaldsins um hábjartan dag á verðmætum, sem einkaframtakið hefur aflað án nokkurrar mælanlegrar aðkomu "auðlindarentu" í sjávarútvegi, sem lýðskrumarar staglast á án þess að vita, hvað þeir eru að fjalla um. Þessi "verkjastjórn" veit heldur ekkert hvað hún er að gera, því að hún heldur því fram, að skattahækkun hennar sé óskaðleg fyrir fyrirtækin. Það er hrein fásinna, eins og verðmætafall þeirra á markaði gefur glögglega til kynna. Ríkisstjórnin er landinu hættuleg, því að þar ráða óvitar ferðinni.
"Unbroken, með sölusamninga við Lidl, gæti orðið verðmætara fyrirtæki en öll hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt - og sýnir, hvernig bætt virðisaukning, úrvinnsla og útflutningur á vöru fremur en hráefni getur skilað gríðarlegum verðmætum."
Ríkisstjórnin hefur engan skilning á mikilvægi fjárfestingargetu sjávarútvegsins fyrir vöxt hans, viðgang, samkeppnishæfni og nýsköpun. Á grundvelli ímyndaðrar auðlindarentu í sjávarútvegi (forsætisráðherra viðurkennir, að auðlindarenta sé "huglægt mat") geldir ríkisstjórnin útgerðarfélögin með ofurskattlagningu skattstofns, sem er líka ímyndaður, þ.e. kemur aldrei inn í félögin, því að um er að ræða vafasamt jaðarverð á bolfisktegundum, sem getur verið undir áhrifum erlendra (niðurgreiddra fiskverkenda), og norsks verðs, sem er fjarstæðukennt að miða við hér. Hér er um svo vafasama skattheimtu vinstri stjórnar K. Frost. að ræða, að telja má líklegt, að látið verði á réttmæti hennar reyna samkvæmt skattarétti.
Ríkisstjórnin og þingmenn héldu því fram, að þessi skattheimta muni engin áhrif hafa á fyrirtækin og heimabyggð þeirra, þ.e. að hegðun fyrirtækjanna muni ekkert breytast við þessa viðbótar skattheimtu, enda næmi skattheimtan lægri upphæð en auðlindarentunni næmi. Nú er komið í ljós, að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaði hefur lækkað mikið, og mun það óhjákvæmilega breyta hegðun fyrirtækjanna. Lífeyrissjóðirnir hafa af þessum orsökum tapað háum fjárhæðum. Það veit enginn, hver þessi títt nefnda auðlindarenta er, enda er hún ómælanleg. Af þessum sökum hangir málstaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli algerlega í lausu lofti.
"Í stað þess að ýta undir þessar sóknarleiðir [nýsköpun - innsk. BJo] virðist ríkisvaldið kjósa að rífast við landsbyggðina og sjávarútveginn um það, hver eigi arðinn. Í þessari nálgun gleymist, að það var ekki ríkið, sem skapaði verðmætin - heldur þau fyrirtæki, sem unnu hörðum höndum úr því hráefni, sem auðlindin veitir. Ef við viljum áfram vera leiðandi sjávarútvegsþjóð, þurfum við að byggja upp traust, samvinnu og sátt - ekki sundrungu og refsistefnu."
Ríkisvaldið er á kolrangri braut með því að leggja sjávarútveginn í einelti á fölskum forsendum og undir því yfirskini, að aðeins 4-5 fjölskyldum muni blæða. Hvers konar götustráks hugsunarháttur er það eiginlega, sem nú ræður ferðinni við stjórn landsins ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2025 | 10:40
Stjórnarflokkunum eru mjög mislagðar hendur - einnig í orkumálum
Það fara ekki saman orð og athafnir hjá Samfylkingunni í veigamiklum málum. Þannig hafði hún á orði fram yfir síðustu Alþingiskosningar, að hún hygðist "rjúfa kyrrstöðu" orkumálanna. Þegar til kastanna kom, heyktist hún svo rækilega á því, að orkuskortur blasir við a.m.k. næsta áratuginn.
Svo virðist sem ráðherrana skorti allan dug til að taka til hendinni og gera það, sem gera þarf til að viðhalda traustum hagvexti í landinu. Þess í stað hengja þau sig í gamlar bábiljur vinstrisins. Þriðji áfangi rammaáætlunar var nýlega til umræðu á Alþingi, og þar heyktust stjórnarliðar á að tryggja landinu næga raforku næsta áratuginn. Um var að ræða vatnsaflsvirkjanir með orkugetu samtals 3517 GWh/ár. Minni hluti Umhverfis- og samgöngunefndar vildi setja allar virkjanirnar í nýtingarflokk, en meiri hlutinn samþykkti aðeins 760 GWh/ár í nýtingarflokk og heyktist þar með á að "rjúfa kyrrstöðuna". Þetta er upp í nös á ketti m.v. við viðbótar þörfina á næstu 10 árum til 2035 samkvæmt Landsneti, sem nemur 5000 GWh/ár. Vinstri flokkarnir féllu á orkuöflunarprófinu og kom engum á óvart.
Þann 21. júní 2025 birtist stutt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir varaformann Sjálfstæðisflokksins, þingmanninn Jens Garðar Helgason. Hún hófst þannig:
"Í ræðu og riti hefur ráðherrum, þingmönnum og talsmönnum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um að rjúfa "kyrrstöðuna" í orkumálum. Vakti það von í brjósti, að flokkar, sem margir hverjir hafa áður barizt gegn frekari orkuöflun á Íslandi, væru búnir að sjá ljósið í þessum efnum. En svo er hins vegar ekki. Flokkarnir eru samir við sig, þá ekki sízt flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin."
Einu sinni afturhald, ávallt afturhald, má segja um þá vinstri moðsuðu, sem nú er við stjórnvölinn á Íslandi og hefur ekki áhuga á öðru, eðli sínu samkvæm, en að kasta skít í tannhjól atvinnulífsins og skilur ekki frekar en Karl Marx, hvað knýr áfram þessi tannhjól og þar með hag almennings í landinu. Forystusauðir ríkisstjórnarinnar eru sljóir og hafa enga grein gert sér fyrir því, hvaða áhrif gríðarlegar skattahækkanir á grunnatvinnuvegina hafa á hagvöxt í landinu. Sauðirnir drepa efnahagslífið í dróma með því að fara ránshendi um fjármuni grunnatvinnuveganna og í tilviki sjávarútvegsins er það gert undir yfirskini auðlindarentu, sem ríkissjóður eigi rétt á. Ekkert er fjær lagi. Hvorki skilja sauðirnir hugtakið auðlindarenta né kunna þeir að reikna, hvað af hagnaði sjávarútvegsins stafar af henni. Sósíalistarnir ala á öfund og hrifsa auð frá sjávarútvegsbyggðum til ríkisins. Þetta er sósíalistísk forsjárhyggja, sem er ekki þjóðhagslega hagkvæm hugmyndafræði og leiðir yfirleitt til fátæktar.
"Í dag eru á sjóndeildarhringnum 5 virkjanakostir og stækkanir hjá Landsvirkjun. Þeir eru:
- Stækkun Þeistareykjavirkjunar (590 GWh/a)
- Stækkun Sigöldu (10 GWh/a)
- Vaðölduver (440 GWh/a)
- Blöndulundur (350 GWh/a)
- Hvammsvirkjun (720 GWh/a)
Samtals eru þetta 2110 GWh/a.
Að viðbættum 760 GWh frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þá eru þannig alls 2870 GWh/a í nýtingarflokki. Til samanburðar gerir spá Landsnets ráð fyrir því, að orkuþörf til ársins 2035 muni aukast um 5000 GWh/a."
Frammistaða stjórnarmeirihlutans er enn algerlega ófullnægjandi fyrir áætlaða orkuþörf landsins næsta áratuginn. Með því að lúta leiðsögn þessa meirihluta um málefni landsins stefnir í háa verðbólgu m.v. mörk Seðlabankans, mikinn halla á ríkissjóði og þar með skuldasöfnun á kostnað komandi kynslóða, minni fjárfestingar atvinnuveganna en undanfarin ár og lítinn hagvöxt. Ofan á þetta bætist orkuskortur, sem leiða mun til hækkunar raforkuverðs og mikils tekjutaps atvinnuvega og samfélags. Allt eru þetta gamalkunnir fylgikvillar sósíalismans, en núverandi stjórnarflokkar villtu á sér heimildir í aðdraganda Alþingiskosninga og þóttust mundu standa að nýju framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar, eftir að afturhaldið VG hafði staðið allt of lengi á bremsunum. Nú sitja landsmenn uppi með viðbrunninn graut sósíalismans, þar sem kokkarnir ætla að eyða fé og tíma í innanlandsdeilur um Evrópusambandið og bjölluat í Berlaymont.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2025 | 16:33
Áttavillt ríkisstjórn
Forgangsröðun verka hjá núverandi ríkisstjórn er í skötulíki. Hún virðist ekki vita í hvaða erindum hún er. Athygli vekur mikil ferðagleði forsætis- og utanríkisráðherra, en meira fer á milli mála, hvað þær eru að fara með málflutningi sínum á erlendri grundu. Forsætisráðherra hitti nýlega Mark Rutte í Brüssel, framkvæmdastjóra NATO, og var mikið í mun að komast upp í 1,5 % í hernaðarútgjöld af VLF. Til þess taldi hún með ýmsar innviðaframkvæmdir. Nú stefna ýmsar aðildarþjóðanna á 5 %. Skyldu ekki tilburðir af þessu tagi virka broslegir fyrir Rutte, Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Kaju Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins ?
Þann 17. febrúar 2025 birtist forystugrein í Morgunblaðinu, sem hét:
"Hættuleg forgangsröðun".
Þar var vitnað í Jón Pétur Zimsen, þingmann Sjálfstæðisflokksins:
""Enginn sómi er að þingmálaskrá hæstvirtrar ríkisstjórnar, hvað menntun og líðan barna varðar. Er bráðavandinn virkilega ekki ljós ? Við erum sem samfélag að bregðast börnum og ungmennum. Í málaflokkinum ríkir neyðarástand. Íslenzka æskulýðsrannsóknin staðfestir það. Með leyfi forseta: 75 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða daglega." 75 %, þar af 34 % daglega. 40 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða daglega. Þar af 17% daglega. Ungmenni eru meira einmana heldur en elzti aldurshópurinn á Íslandi. Er þetta ávarpað í þingmálaskrá ? Svarið er nei. Hornsteinn íslenzkunnar, lýðræðis og nýsköpunar, er lesskilningur. Hvar standa íslenzk 15 ára börn, hvað þetta varðar samkvæmt OECD ? Tæp 50 % drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi. Um helmingur drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi í gnægtalandinu Íslandi. Og rúm 30 % stúlkna er á sama stað. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá eru tæp 30 % 15 ára barna ekki með grunnfærni í skapandi hugsun. Og skapandi hugsun er það, sem getur skapað mikla fjármuni fyrir okkur. Þessi vinnubrögð hæstvirtrar ríkisstjórnar auka stéttaskiptingu og aðra misskiptingu í samfélaginu. Ólíkt þeim erum við í Sjálfstæðisflokkinum tilbúin með aðgerðir í þessum málaflokki. Við í Sjálfstæðisflokkinum viljum lyfta öllum börnum og hámarka möguleika allra til jafnra tækifæra. Börn eiga ekki að gjalda stöðu sinnar og stéttar.""
Hér er vitnað til frammistöðu nemenda við lok grunnskólanáms. Frammistaðan sýnir, að árangur grunnskólans hefur hríðversnað og er fyrir neðan allar hellur um þessar mundir. Bent hefur verið á skýringar á þessu, s.s. afleita námsskrá frá tíð Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra 2009-2013, skort á almennu hlutlægu mati - samræmdum prófum og skóla án aðgreiningar. Hið síðast nefnda er illframkvæmanlegt án þess, að komi niður á gæðum kennslunnar og gerir kennarastarfið nánast óbærilega erfitt. Grunnskólinn svíkur nemendur og samfélagið um góðan undirbúning fyrir sérhæfingu á framhaldsstigi. Það þarf að stokka grunnskólann upp, svo að hann gegni sínu hlutverki, eins og hann gerði t.d. á 7. áratug 20. aldar.
Það er ánægjulegt, að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa greint vanda grunnskólakerfisins og sé með úrbótatillögur. Við svo búið má ekki standa, því að gríðarleg sóun á hæfileikum virðist eiga sér stað núna, þar sem skólakerfinu mistekst að veita þriðjungi til helmingi nemenda grundvallarþekkingu til að byggja á. Þjóðfélagið getur ekki haldið svona áfram, en valdhafarnir í Stjórnarráðinu kæra sig kollótta. Það bendir til dómgreindarleysis þeirra og kolrangrar forgangsröðunar. Hagvöxtur og velmegun í þessu þjóðfélagi verða aðeins reist á þekkingu, og sé jafn hátt hlutfall æskunnar útilokað frá þekkingaröflun og hér virðist vera, er voðinn vís.
"Ríkisstjórnin hefur sett ýmis mál í forgang, svo sem að auka álögur á helztu útflutningsgreinar þjóðarinnar og veikja þær með því og öðrum ráðum. Hún vill vinna ötullega að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið með öllum þeim mikla tilkostnaði, sem slíku feigðarflani fylgir, og hún vill veikja helztu einkareknu fjölmiðla landsins, þá einu, sem eru líklegir til að geta fjallað um störf hennar á gagnrýninn hátt. En eins og Jón Pétur bendir á, þá sýnir ríkisstjórnin engan áhuga á að bæta hag nemenda í skólum landsins, sem margir hverjir mega búa við óviðunandi kennslu og jafnvel ótta við ástand, sem ekkert er gert til að takast á við. Þetta er forgangsröðun, sem er ekki aðeins öfugsnúin; hún er stórhættuleg."
Sú meinsemd í menntakerfinu, sem hér er fjallað um, hefur fengið að grafa um sig allt of lengi, og ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja til atlögu við hana. Þess í stað leggur hún sig fram við lýðskrumsmál, eins og að hækka skattheimtu af atvinnuvegunum. Hún er þar með að saga í sundur greinina, sem hagvöxtur og velmegun hvíla á. Þegar nógu mörgum kjósendum verða afleiðingarnar ljósar, mun refsingin verða óvægin.
Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin hefur ekki bein í nefinu. Utanríkisráðherra er skelegg um innrásarstríð Rússa í Evrópu, og dregur þá ályktun, að Íslendingum megi aðild að ESB helzt verða til halds og trausts. Er hún þá að hugsa um Evrópuher, sem Íslendingar yrðu herskyldir í ? Er hún búin að leysa vandann, sem af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni leiðir fyrir Ísland ? Fljótfærni og gösslaragangur einkenna um of þessa ríkisstjórn, og þess vegna verður Alþingi að halda í eyrun á henni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2025 | 10:47
Búskaparhættir sólhvarfastjórnarinnar
Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu kjósendum fyrir kosningar, að þeir myndu ekki hækka skatta, næðu þeir völdum. Samt hafa ýmis gjöld hækkað, s.s. kolefnisgjald, en ríkisstjórnin hyggst höggva í knérunn útflutningsatvinnuveganna á mjög hæpnum efnahagslegum forsendum. Þessu má líkja við bónda, sem sumir mundu kalla búskussa, sem þarf að ná endum saman í fjárhag búsins og ákveður að láta útgjöldin að mestu eiga sig, þótt sum megi missa sig, en ákveður að spara við búpeninginn í fóðri. Þar með munu tekjur búsins dragast saman og hallinn af búrekstrinum aukast. Þessum búskaparháttum er trúandi á Bakkabræður og vinstri sinnaða stjórnmálamenn.
Áætlanagerð ríkisbúskaparins mun ekki vera upp á marga fiska, og útgjaldaáætlanir líklega stórlega vanáætlaðar vegna launahækkana og ákvörðunar um að láta ýmsar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fylgja launavísitölu í stað neyzluvísitölu. Nú hefur forsætisráðherra boðað erfiðar aðgerðir á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs til að ná hallalausum ríkisbúskapi 2027. Hvar mun stjórnin bera niður ? Það verður henni erfitt í ljósi kosningaloforða. Forystugrein Morgunblaðsins 3. apríl 2025 fjallaði um ríkisbúskapinn undir heitinu:
"Ábyrg ríkisfjármál".
"Í gær birtist í Viðskipta-Mogganum viðtal við Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áður hjá fjármálaráðuneytinu, sem varpar ljósi á brýna þörf fyrir bætta áætlanagerð og hagræðingu í ríkisfjármálum á Íslandi.
Sú þörf er ekki ný af nálinni, og þar hefur vissulega margt verið aðhafzt af hálfu fyrri fjármálaráðherra, sem til framfara horfir. Nefna má rammafjárlög og fjármálaáætlun, sem voru vissulega til bóta, en hafa einnig haft ýmsar óætlaðar afleiðingar, sem bæta þarf úr.
Þessa dagana ræða stjórnvöld fjálglega um stöðugleikareglu, sem kann að reynast lofsverð, en á hinn bóginn getur hún opnað nær sjálfvirkum skattahækkunum leið. Það verður að forðast í lengstu lög. Á hinn bóginn blasir við nauðsyn þess, að hér verði útgjaldaregla lögfest og hún höfð að meginreglu við stjórn opinberra fjármála, sem stuðlaði að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinum."
Útgjaldaregla af þessu tagi getur t.d. verið ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu, VLF. Nú mun takast að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs með sölu á Íslandsbanka. Á meðan s.k. innviðaskuld hangir yfir Alþingi, er ekki líklegt, að ríkisútgjöld verði lækkuð varanlega sem þessu nemur. Það má örugglega finna eignir í eignasafni ríkisins, sem borgar sig að selja, en aðrar er rétt að halda í af m.a. samkeppnisástæðum.
"Álfrún bendir á, að opinber útgjöld hafi víðast aukizt mikið á undanförnum árum, en efnahagsþrótturinn síður. Því hafi þess víða verið freistað að ná tökum á þeim með útgjaldagreiningum, kerfisbundinni skoðun á útgjaldagrunni til að leita hagræðingar án þess að laska hin félagslegu kerfi. Nokkur árangur hefur náðst í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Kanada. Slík nálgun hafi hins vegar ekki náð fótfestu á Íslandi að hluta til vegna þess, að menn hafi ekki fundið neinn hvata til slíkrar skoðunar í miðjum efnahagsuppgangi."
Ríkisstjórn K. Frost. lét í veðri vaka í upphafi ferils síns, að hún hefði mikinn hug á sparnaði, kallaði eftir sparnaðartillögum almennings, en hafnaði svo flestum tillagnanna, og enginn veit, hverjar lyktirnar verða. Hvers vegna fór hún ekki í alvöru átak með því t.d. að kalla til ráðuneytis Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá OECD ? Sýndarmennskan er of áberandi í fari ríkisstjórnarinnar.
Í lok forystugreinarinnar sagði:
"En það þarf líka góð vinnubrögð.Flaustrið við gerð frumvarpsdraga um tvöföldun veiðigjalda bendir til þess, að þeim sé stórlega ábótavant. Ekki verður séð, að þar hafi gagna verið aflað eða þau greind um afleiðingar svo stórkarlalegrar og fyrirvaralausrar breytingar, hvað þá að samráð hafi verið haft við hagaðila í sjávarútvegi, sveitarfélögum eða verkalýðshreyfingu, svo [að] augljós dæmi séu nefnd. Fjármálaráðherra virðist ekki einu sinni hafa reiknað út áhrif þessara breytinga á ríkissjóð. Þar verður að gera betur."
Téð frumvarp er svo ambögulegt, að það brýtur sennilega í bága við stjórnsýslulög og stjórnarskrá um álagningu skatta. Það er vegna þess, að verðviðmiðanir frumvarpsins, sem skattheimtan er reist á, eru út úr kú. Téð verð verða aldrei grunnur að ráðstöfunarfé fyrirtækjanna, sem skattheimtan beinist að. Varðandi bolfiskinn er um að ræða jaðarverð, sem erlendir fiskverkendur móta með tilboðum á uppboðsmarkaði, verksmiðjur í vernduðu umhverfi lægri launa en hér og stundum niðurgreiddar af hinu opinbera. Varðandi uppsjávarfiskinn er ætlunin að miða við verð í Noregi, sem myndast við markaðsaðstæður, sem ómögulegt er að varpa yfir á Ísland af nokkru viti. Grundvöllur hinnar væntanlegu nýju skattheimtu er þannig erlendur og ekki myndaður í viðskiptum fyrirtækjanna, sem á að heimta skattinn af. Þetta er óboðlegt með öllu og svo mikið óréttlæti, að enginn friður getur orðið um. Líklegt má telja, að til málshöfðana komi til að láta reyna á lögmæti vinnubragða af þessu tagi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2025 | 17:49
Refsiskattar K. Frost. stjórnarinnar
Ríkisstjórn K. Frost., Sólhvarfastjórnin, er gamaldags vinstri stjórn, óspennandi með öllu fyrir þá, sem vinna að verðmætasköpun og gera sér grein fyrir mikilvægi jákvæðrar hugmyndaauðgi (sköpunargáfu) og nýsköpun. Hvað sem líður fögrum fyrirheitum, vinna gjörðir K. Frost. beinlínis gegn aukinni verðmætasköpun og nýsköpun. Hún gerir þetta með skattheimtu langt handan meðalhófs á fyrirtæki og fjölskyldur í dulbúningi "leiðréttinga". Þegar byrðar misheppnaðs tollastríðs Bandaríkjastjórnar gegn heiminum leggjast ofan á háskattastefnu ríkisstjórnarinnar, horfir óbjörgulega við um hagvöxt á Íslandi. Með þessu áframhaldi munu áætlanir ríkissjórnarinnar margar hverjar falla um sjálfar sig, því að þær eru reistar á hagvexti í íslenzka hagkerfinu, sem illa ígrundaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu drepa í dróma.
Þann 2. apríl 2025 birtist viðtal Viðskiptamoggans við forstjóra eins sjávarútvegsfélagsins, Ísfélagsins, Stefán Friðriksson, undir fyrirsögninni:
"Gæti þýtt allt að þreföldun veiðigjalda".
"Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, varar við alvarlegum afleiðingum þeirra áforma stjórnvalda að hækka veiðigjöld og kolefnisgjöld á sjávarútveginn. "Fyrir Ísfélagið gæti þetta þýtt þreföldun veiðigjalda sökum þess, hvað við veiðum mikið af uppsjávarfiski - þetta eru háar upphæðir, sem hafa bein áhrif á rekstur, fjárfestingar og störf í sjávarútvegi", segir hann.
Félagið, sem rekur útgerðir og vinnslu í Vestmannaeyjum, Fjallabyggð og á Þórshöfn, er stórt í uppsjávarfiski og því sérstaklega viðkvæmt fyrir loðnubresti. Stefán segir, að núverandi stefna stjórnvalda sendi röng skilaboð til fyrirtækja, sem hafa verið að fjárfesta í nýsköpun og sjálfbærni.
"Það blasir við, að verið sé að slátra mjólkurkúnni - sjávarútvegurinn skilar miklum verðmætum til þjóðarbúsins og til samfélaga á landsbyggðinni bæði beint og óbeint. Í stað þess að hlúa að greininni stendur til að refsa henni með skattahækkunum."
Ríkisstjórnin er ónæm fyrir vandræðum, sem nú blasa við uppsjávarútgerðum. Fiskgengd í íslenzku lögsöguna er svo mikilli óvissu undirorpin, að afkoma útgerðarfélaganna er undir hælinn lögð. Þessu bregst ríkisstjórnin við með því að skella skollaeyrum og láta, eins og fiskimiðin séu gullnáma, sem hægt sé að ganga að og lítið sem ekkert þurfi að hafa fyrir að breyta í verðmæti. M.ö.o. hagar ríkisstjórnin sér, eins og hún hafi fundið bullandi auðlindarentu í útgerðunum. Ekkert er fjær sanni, og ríkisstjórnin er veruleikafirrt í gjörðum sínum gagnvart atvinnulífinu. Ekki var við öðru að búast af krötum, sem ekkert skynbragð bera á, hvernig verðmæti verða til, og horfa vonaraugum til Evrópusambandsins, ESB. Sú afstaða er rétt eitt merkið um veruleikafirringu í ráðherrahópnum. Ráðherrarnir eru haldnir trúargrillum, sem þeim dettur ekki í hug að reyna að sannreyna.
"Stefán bendir á, að sjávarútvegurinn sé burðarás í mörgum landsbyggðarsamfélögum.
"Við erum með starfsemi í samfélögum, þar sem sjávarútvegurinn skiptir miklu máli. Þegar skattar og álögur aukast svona mikið, dregur úr getu okkar til að halda áfram að fjárfesta og skapa aukin verðbæti", segir Stefán.
Ísfélagið hefur síðustu ár fjárfest umtalsvert. Á árinu 2024 hóf nýtt ísfiskskip, Sigurbjörg, veiðar, og frystiklefi á Þórshöfn er við það að klárast. Þá er í undirbúningi rafvæðing fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum.
"Við viljum nýta græna orku og vera hluti af orkuskiptunum, en raforka fyrir þennan iðnað er einfaldlega ekki [fyrir hendi] í nægilegu magni næstu ár", segir hann.
Samhliða veiðigjöldum hefur ríkisstjórnin boðað frekari hækkun kolefnisgjalds. Það mun bitna hart á sjávarútveginum. Stefán segir, að það sé þversagnakennt að leggja auknar álögur á grein, sem hefur staðið sig vel í sjálfbærnivinnu.
"Við höfum fjárfest í nýjum skipum, sem eru hagkvæmari og losa minna kolefni [á hvert veitt tonn - innsk. BJo]; það hefur orðið þróun í veiðarfærum og þau orðið léttari; fiskimjölsverksmiðjur hafa verið rafvæddar, en þrátt fyrir þetta eigum við að borga hærra kolefnisgjald án þess að eiga möguleika á að leita grænna lausna", segir hann.
Hann bendir einnig á, að orkuskipti í sjávarútvegi séu flókin og krefjist langtímastefnu og innviða.
"Þú breytir ekki skipum yfir í græna orku á einni nóttu, og það er langt í, að hægt verði að rafmagnsvæða skipaflotann á Íslandi. Við þurfum samvinnu, hvata og raunhæfa sýn, ekki refsiskatta", segir Stefán."
Það, sem hér er að gerast af hálfu ríkisvaldsins, er, að refsivendi þess er beitt af nýgræðingum í ráðherrastólum, reynslulausum af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þekkingarlausum á því hlutverki, sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa með höndum í sjávarbyggðum landsins. Afleiðingin verður veiking sjávarútvegsins og sjávarbyggðanna að sama skapi og fjármagn er dregið úr þessum byggðum til ríkissjóðs. Þetta er glórulaus stefna, sem verður að reka til baka við fyrsta tækifæri, enda eru forsendurnar arfavitlausar. Þær eru kaupgeta erlendra og niðurgreiddra fiskvinnslna á íslenzkum uppboðsmörkuðum og mörkuðum í Noregi. Fyrirfram var ekki hægt að ætla, að nokkrum heilvita manni dytti annað eins skemmdarverk í hug.
Kolefnisgjaldið á sjávarútveginn er dæmi um örþrifaráð vinstri manna til að stoppa upp í göt ríkisrekstrarins. Sjávarútvegurinn hefur verið til fyrirmyndar í orkumálum og fjárfest í bættri orkunýtni fiskiskipa og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Ríkisvaldið er blint. Með ofurskattheimtu er nú dregið úr kraftinum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og ræfildómur ríkisvaldsins hefur þegar valdið svo miklum raforkuskorti í landinu, að rafmagnskatlar verksmiðjanna eru að mestu ónotaðir. Við þessar aðstæður er siðlaust að þrýsta á orkuskipti sjávarútvegsins með hækkun kolefnisgjalds. Allar gerðir þessarar ríkisstjórnar gagnvart fyrirtækjum landsins og yfirleitt í fjármálum virðast vera glórulausar, enda var aldrei á góðu von.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2025 | 18:21
Er auðlindarenta fyrir hendi í íslenzkum sjávarútvegi ?
Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er lykilatriði til að meta, hvort eðlilegt geti talizt að leggja viðbótar skatt á sjávarútveginn (tekjuskattur er lagður á öll fyrirtæki). Sérstaða íslenzka sjávarútvegsins er fiskveiðistjórnunarkerfið, sem lokar aðgangi að fiskimiðunum í íslenzku fiskveiðilögsögunni fyrir öðrum en þeim, sem geta sýnt fram á eignarhald aflahlutdeildar fiskveiðiskips. Þetta er aðalreglan, en fleiri kerfi eru við lýði í lögsögunni, mishagkvæm. Aflahlutdeildir, kvótar, ganga kaupum og sölum og eru einnig leigðar. Má halda því fram, að með kaupum á aflahlutdeild hafi auðlindarenta verið greidd, því að aflahlutdeildin er afleiðing aðgangstakmarkana ríkisins að miðunum, en þessar takmarkanir eru grunnforsenda arðsemi veiðanna. Um þetta sagði "Hagræni hópurinn" í skýrslu "Auðlindarinnar okkar - sjálfbær sjávarútvegur":
Sagt er, að líklegt sé, að auðlindarenta í sjávarútvegi hjá þeim, sem nú stunda útgerð, sé lítil sem engin, "þar sem þau hafa nú þegar greitt fyrir hana í verði aflaheimilda. Við þetta má bæta, að þegar og ef auðlindarenta myndast í sjávarútvegi, þá sé um að ræða áhrif aukningar í afla eða hagstæðra gengisbreytinga".
Auðlindarenta er almennt skilgreind sem arður við starfsemi auðlindanýtingar, sem er umfram arðsemi á hefðbundnum samkeppnismörkuðum. Ekki er vitað til, að nokkur hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á þessa auðlindarentu yfir samfellt 5 ára tímabil eða lengur. Það hefur verið reiknað út, að veiðigjöld hafi numið 16 %-18% af reiknaðri auðlindarentu 2010-2023, en hún var þá fengin með röngum forsendum, sem sé, að útflutningsverðmæti allra sjávarafurða var lagt til grundvallar, þegar rétt er að miða við aflaverðmæti upp úr sjó.
Í skýrslunni "Auðlindinni okkar", 2022, stóð m.a.:
""Skýrar vísbendingar eru um stærðarhagkvæmni í íslenzkum sjávarútvegi og sýnt hefur verið fram á, að álagning veiðigjalda leiði til samruna fyrirtækja í greininni, þannig að þeim fækkar á sama tíma og þau stækka. Þetta er í góðu samræmi við rannsóknir, sem sýnt hafa fram á, að stærstu og fjárhagslega sterkustu fyrirtæki í sjávarútvegi greiði meirihluta innheimtra auðlindagjalda," segir í skýrslunni."
Ríkisvaldið skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna með sértækri skattheimtu. Þetta á við sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis og þau sem heild innanlands (samkeppni um fjármagn og starfsmenn) og utanlands (markaðsstaða).
"Jafnfram segir, að það hafi verið "færð fyrir því rök, að álagning veiðigjalda umfram getu hennar til greiðslu á hverjum tíma tefli samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs í tvísýnu. Einnig hefur verið bent á, að álagning veiðigjalda geti rýrt skattstofna hins opinbera, þegar til lengri tíma er litið, sem aftur geti skilað sér í minni efnahagslegum ábata af auðlindinni en annars væri."
Það eru til hagfræðilegar aðferðir til að reikna út þá skattheimtu á fyrirtæki, tæplega þó á atvinnugrein, sem er líklegust til að skila hinu opinbera hámarks tekjum til lengdar, þegar "allt" er tekið með í reikninginn. Núverandi ríkisstjórn getur ekki sýnt fram á neina slíka tilburði. Hún gerir sér lítið fyrir og tvöfaldar sérskattheimtu á sjávarútveginn og skýtur sig þar með í fótinn, því að hún er örugglega komin langt út yfir "kjörskattheimtu". Með fáránlegri aðgerð, sem á sér engin fordæmi hvorki hér né annars staðar, eykur hún skattheimtuna mjög mikið í einu stökki í stað vandaðrar greiningar. Þessari flaustursríkisstjórn er ekki treystandi til að stjórna landinu almenningi til heilla.
"Hagræni hópurinn ritaði 8. kafla í skýrslu Auðlindarinnar okkar, og er þar fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Lagði hópurinn fortakslaust til, að aflamarkskerfi yrði viðhaldið við stjórn fiskveiða.
Er bent á, að kerfið hafi gert útgerðum kleift að draga úr offjárfestingu í veiðum og vinnslu, [skapað] skilyrði fyrir skipulagða sókn og minnkað álag á vistkerfi sjávar. Vandamál, sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hér á landi, séu því eðlisólík því, sem gerist erlendis; hér hafi aðallega verið til umræðu, hvernig dreifa eigi arði af nýtingu auðlindarinnar, en erlendis sé litlum sem engum arði til að dreifa."
Þessari umræðu var komið af stað með fullyrðingu um, að auðlindarenta fyndist í sjávarútvegi sem heild, en sú fullyrðing reyndist röng. Þar af leiðandi eru veiðigjöldin reist á sandi, og hækkunarfyrirætlun stjórnvalda nú er stórskaðleg.
""Það, að veiðigjöld hafi numið að meðaltali 16 % - 18 % af reiknaðri auðlindarentu, er, að öðru óbreyttu, ekki vísbending um, að núverandi veiðigjöld séu of lág. Það veldur vanda við fyrrgreinda útreikninga, að metin renta er reiknuð sem hlutfall af útflutningsverðmæti allra sjávafurða, en í þeirri upphæð er bæði sá virðisauki, sem átt hefur sér stað í vinnslu, markaðsstarf o.þ.h., auk þess sem virði afla utan Íslandsmiða er einnig tekið með. Veiðigjöld eru hins vegar lögð á veiðarnar sjálfar sem afgjald fyrir notkun og ættu því frekar að miðast við aflaverðmæti úr sjó.""
Það gætir skilningsleysis á hugtakinu auðlindarenta, þegar virðisauka vinnslunnar er bætt við aflaverðmæti úr sjó til að finna auðlindarentu. Það hefur hingað til mistekizt að réttlæta veiðigjöldin með auðlindarentu, því að hana er ekki að finna til lengdar hjá útgerðunum, þ.e.a.s. það hefur enn ekki verið sýnt fram á meiri arðsemi fyrirtækja í sjávarútvegi en í öðrum greinum yfirleitt. Stafar það líklega af sveiflum í lífríki sjávar og af því, að hægt hefur miðað við uppbyggingu þorskstofnsins. Hafa verður þar í huga gríðarlegt afrán hvala í íslenzku fiskveiðilögsögunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2025 | 18:13
Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?
Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu. Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu. Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir. Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð. Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.
Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont. Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands. Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni.
Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum. Greinin nefndist:
"Bókun 35 við EES-samninginn".
Hún hófst þannig:
"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna. Ákvæðið hljóðar svo:
"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."
Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."
Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu. Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu. Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.
Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:
"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."
Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega.
"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa. Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf. Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi."
Undirstrikunin er pistilhöfunfdar. Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni. Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.
"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig. Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á. Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess. Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess. Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."
Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins. Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni. Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum. Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.
Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más. Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:
"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35. Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.
Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."
Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá. Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2025 | 18:00
Metnaðarlaust viðhorf til samræmds námsmats
Þann 23.03.2025 var Ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem hinn hvatvísi 1. þingmaður Suðurlands, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, úr Flokki fólksins, lét af embætti. Hún hafði orðið ber að dómgreindarbresti bæði fyrr og síðar. Viðhorf hennar til menntamála eru með þeim hætti, að segja má, að farið hafi fé betra. Hún hefði ekki unnið þeim málaflokkum, sem hún var sett yfir, nokkurt gagn.
Í Morgunblaðsgrein 1. marz 2025 vitnaði fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum, Meyvant Þórólfsson, til þessa lánlausa og e.t.v. hæfileikalausa þingmanns Sunnlendinga í grein sinni:
"Samræmt námsmat við lok skyldunáms".
Greinin hófst þannig:
"Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn [2025] sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns [framsóknarmannsins Ásmundar Einars, sem féll af þingi í síðustu Alþingiskosningum] og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu "allir sérfræðingar" slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr."
Þessi alhæfing og fimbulfamb án rökstuðnings er dæmigert fyrir þennan þingmann, sem aldrei átti neitt erindi á Alþingi. Þessi málflutningur kennarans er óvandaður og sæmir ekki ráðherra. Mun betra taka við hjá Flokki fólksins ? Meyvant færir gild rök gegn staðleysum fyrrverandi ráðherra:
"Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað "gömlu samræmdu prófanna, sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi", eins og það var orðað þar.
Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið, sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt. Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna. Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wössmann, háskólaprófessors í München, byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS, leiddu í ljós jákvæða fylgni á milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar. Kerfi, eins og það íslenzka, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum."
Þarf frekari vitnana við ? Ásmundur Einar og Ásthildur Lóa eru algerlega úti að aka í þessum efnum, éta upp innantómar fullyrðingar hlaðnar skammsýnu pólitísku gildismati, sem ekki styðst við vandaðar rannsóknir. Þegar metnaðarleysi af þessu tagi ríður húsum í menntamálaráðuneytinu, er ekki kyn, þótt keraldið leki, og botninn sé suður í Borgarfirði í íslenzla grunnskólanum, eins og PISA-prófin gefa til kynna.
Skilningsleysið í menntamálaráðuneytinu og víða í skólakerfinu opinberast í tali um, að "Matsferill" (hugbúnaðarkerfi fyrir kennara) geti komið í stað lokaprófs. Hér er um ósambærilega þætti að ræða, sem einhverjum pólitískum blekkingameisturum hefur tekizt að leggja að jöfnu. Ef "Matsferill" kemst á koppinn, getur hann reynzt kennurum og nemendum gagnlegur, en hann getur aldrei orðið jafngildi lokaprófs nemenda.
"Árið 1990 skiluðu 2 starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang "samræmdra könnunarprófa". Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat. Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð. Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.
Nú hefur Seðlabanki Íslands gert athugasemdir við, að haldfastar mælingar skorti, sem gefið geti til kynna nýtingu opinbers fjármagns í skólakerfinu, aðallega grunnskólakerfinu. Þetta er rétt og réttmæt ábending. Fjármagn til grunnskólakerfisins hefur á síðast liðnum 15 árum aukizt langt umfram nemendafjölgun, en eini mælikvarðinn á þróun námsárangurs eru PISA-prófin, og þau benda til, að námsárangur fari greinilega versnandi. Það er makalaust, hvernig menntayfirvöldum og skólafólki dettur í hug að reka skólakerfi í blindni, hafandi engar árlegar samræmdar mælingar á árangri nemenda. Að skilja ekki mikilvægi samræmdra lokaprófa í grunnskóla er grafalvarlegt og aumlegt að mikla fyrir sér framkvæmdina árið 2025, þótt próf eins og Landsprófið hafi gengið snurðulaust áratugum saman á 20. öldinni.
"Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun innihalda "fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi", svo [að] aftur sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins. M.v. lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið, þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá, að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn, mætti segja, að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum.
M.v. lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós. En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám.
Orð [fyrrverandi] ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum."
Höfundur þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um þessi atriði. Skólayfirvöld og kennaraforystan skáka í því skjólinu, að Matsferill muni koma í stað samræmdra lokaprófa. Það er reginmisskilningur, sem sýnir, að pólitík ræður för í stað málefnalegrar hlutlægni og rökhyggju.
Úr öllum áttum berast nú vísbendingar um, að árangur íslenzka menntakerfisins sé í engu samræmi við opinberar fjárveitingar til þess. Nú síðast (26.03.2025) benti frumkvöðull PISA-prófanna á þá augljósu staðreynd, að ómögulegt er að vinna markvisst að endurbótum, ef engin árangursmæling er fyrir hendi. Hann benti á margvíslega nytsemi samræmdra árangursmælinga, t.d. fyrir skóla og foreldra. Jafnframt, að námsárangur er að jafnaði betri þar, sem samræmd lokapróf eru viðhöfð.
Núverandi mennta- og barnamálaráðherra segist munu einbeita sér að því verkefni að gera grunnskólanemendur læsa áður en kemur að útskrift. Hvernig ætlar hann að vinda ofan af núverandi óframdarástandi ? Ef hann hefur enga róttæka framkvæmdaátlun, mun honum ekkert ágengt verða. Undanfarin ár hefur forystuleysi ráðuneytisins staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum. Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur frá um 2010 er ónýtt og skaðlegt plagg. Mun nýi ráðherrann gera gangskör að því að gefa út mjög endurbætta aðalnámskrá ? Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með málefni fjöreggs þjóðarinnar. Þetta fjöregg, æskan, á á brattann að sækja um þessar mundir og rótleysi hrjáir hana með þeim afleiðingum, að margir óttast nú um afdrif móðurmálsins. Mun nýr ráðherra leggja þung lóð á vogarskálar með æskunni eða á móti henni ?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2025 | 18:03
Sólhvarfastjórnin lömuð ?
Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði. Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi. Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun. Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?
Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi. Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu. Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum. Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.
Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum. Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"
Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta.
Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum. Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.
Grein Elíasar hófst þannig:
"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir. Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar. "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan. Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"
Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum. Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ? Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum. Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust. Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði. Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?
Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.
Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra. Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara. Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska. Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið.
"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun. Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar. Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir."
Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi. Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra. Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru. Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011. Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi. Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn.
"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni. [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna. Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram. Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi. Það getur orðið dýr orka. Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.
Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda. Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ? Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?"
Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver. Við þurfum á hámarksnýtingu að halda. Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga. Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð. Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu. Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir.
Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar. Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn. Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind. Orkuverðið verður 110 USD/MWh. Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana.
"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega. Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur. Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála. Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt. Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis. Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna.
Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni. Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum. Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"
Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning. Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi. Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2025 | 18:07
Stjórnsýsla Reykjavíkur á sviði mannvirkjagerðar er í molum
Samfylkingin og píratar hafa undanfarinn áratug rekið lóðamál, byggingamál og samgöngumál út frá kenningu, sem reist er á fölskum forsendum og stendst þess vegna ekki tæknilega rýni, eins og margoft hefur komið fram. Þetta er kenningin um það, að umferðaröngþveiti í Reykjavík og nærsveitum verði aðeins leyst með "borgarlínu", sem eru miðjusettar 2 akreinar, 1 í hvora átt, enda slík lausn augljóslega sett til höfuðs fjölskyldubílnum. Þetta er langdýrasta lausnin og kallar að mati þeirra, sem þessa lausn bera fyrir brjósti, á að þvinga fólk bókstaflega vegna þrengsla út úr fjölskyldubílnum og upp í vagna "borgarlínu" og aðra vagna og jafnframt á þéttingu byggðar út frá ásum "borgarlínu". Hér er misheppnuð og stórkarlaleg forræðishyggja vinstri flokkanna að verki, sem felur í sér lífsháttabreytingu borgaranna til hins verra og stenzt ekki tæknilega og fjárhagslega rýni.
Ekki nóg með þetta, heldur hefur s.k. "þéttingarstefna" rýrt lífsgæði íbúanna, sem fyrir eru, þar sem borgaryfirvöldum dettur í hug að bera niður, jafnvel með stórhýsi, sem aðalskipulag veitir engan ádrátt um. Þetta hefur komið áþreifanlega fram í umræðunni um vöruhús í Suður-Mjódd, sem er u.þ.b. jafnhátt fjölbýlishúsi þar í 14 m fjarlægð.
Píratinn, sem stjórnar umhverfis- og skipulagssdviði borgarinnar, kom af fjöllum og fór að kenna verkferlum um. Hún er ljóslega óhæf til þessa ábyrgðarhlutverks og ætti þegar í stað að segja af sér. Píratar axla ekki ábyrgð, enda sjá þeir bara flísina í annarra auga, en ekki bjálkann í eigin auga.
Í Morgunblaðinu 18. desember 2024 birti Baldur Arnarson frétt um Álfabakka 2 undir fyrirsögninni:
"Margir komið að framkvæmdinni".
Hún hófst þannig:
"Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir þá hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna vöruhússins í Suður-Mjódd. Þeir eigi því bágt með að sjá, hvernig útkoman eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.
Tilefnið er fréttaflutingur af nýbyggingu í Álfabakka 2, en af því tilefni vill félagið, sem byggir og á húsið, Álfabakki 2 ehf, árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi sé framkvæmdin unnin í samræmi við allar gildandi heimildir."
Þegar óhæfir pólitískir stjórnendur skipulags- og mannvirkjamála Reykjavíkur voru staðnir að verki að virða hagsmuni íbúanna ekki viðlits í ákafa sínum að leggja höfuðáherzlu á þéttingu byggðar, þá fóru þeir undan í flæmingi, voru hissa og kenndu jafnvel framkvæmdaaðilanum um, hvernig komið var. Þetta sýnir, að stjórnsýsla Reykjavíkur á þessu sviði er í molum. Það er brýnt að kasta óhæfum sérvitringum út úr borgarstjórn, eins og Alþingi 30.11.2024, í næstu sveitarstjórnarkosningum. Farið hefur fé betra.
Úrdráttur viðtals við Halldór Þorkelsson:
"Hvernig var málið kynnt fyrir haghöfum og nágrönnum ? "Skuldbindingar framkvæmdaaðila eru gagnvart skipulags- og byggingaryfirvöldum, og gagnvart þessum aðilum eru allar teikningar, áformaður frágangur, útlit og fyrirkomulag kynnt. Það er síðan á vegum borgarinnar, hvernig staðið er að nánari kynningu gagnvart nærliggjandi aðilum og öðrum hagaðilum. Borgin var alfarið með það." "
Hin pólitíska ábyrgð í þessu máli liggur hjá hinum pólitíska kommissar, sem settur var yfir umhverfis- og skipulagssvið. Þar er um að ræða óhæfan pírata, silkihúfu, sem algerlega hefur brugðizt starfsskyldum sínum í þágu íbúanna og verður að láta þegar í stað af þessu hlutverki, sem hún ræður ekki við. Hún hefur bætt gráu ofan á svart með því að fara undan í flæmingi og kenna öllu öðru um en sjálfri sér. Þarna hafa menn það, sem auðvitað var vitað fyrir, hvers konar stjórnendur píratakjánarnir eru, og hvernig þeir umgangast lýðræðislega ábyrgð sína.
"Er rétt, að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar, en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar ?
"Já, það er laukrétt. Og ekki bara það, heldur lögðum við fram beiðni í ljósi þess, að byggingarlóðarhafi er krafinn um greiðslu byggingarréttar fyrir allt að 15 þús. m2 byggingu ofanjarðar. Það varð fljótlega ljóst, að það væri ekki talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd á stærra húsi en sem nemur 11.500 m2. Og þá fást þau svör hjá borginni, að það yrðu ekki gerðar breytingar á þessari greiðsluskyldu, nema gildandi diliskipulagi yrði breytt. Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi, þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 m2. Það var ekki fallizt á þá beiðni.""
Á umhverfis- og skipulagssviði var forystan sem sagt gallhörð á því að byggja 30 % meira á umræddri lóð en raumin varð. Borgin samþykkti líka hæð byggingarinnar. Það er við hana að sakast í þessu máli. Að enginn skuli vera látinn taka hatt sinn og staf við þessar aðstæður sýnir, að stjórnkerfi borgarinnar, lengstum undanfarinn áratug undir forystu Samfylkingarmannsins Dags B. Egertssonar og nú framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar, er gegnumrotið. Það vakti athygli á dögunum, að Dagur B., sem hafði talið sér þingflokksformennsku hjá Samfylkingu vísa, var ekki talinn verðugur þeirrar stöðu af formanni flokksins. Spurning vaknar, hvaða erindi maður, sem er í frystingu hjá Kristrúnu Frostadóttur, átti á þing ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)