Færsluflokkur: Dægurmál

Landbúnaður í mótbyr

"Íslenzkur landbúnaður getur gegnt lykilhlutverki í því mikilvæga verkefni, að við sem þjóð náum árangri í loftslagsmálum.  Bændur ættu að senda stjórnvöldum tilboð strax í dag um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein."

Þannig hóf Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, merka grein sína í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017,

"Tækifærið er núna".

Hann mælir þar fyrir því, sem virðist vera upplagt viðskiptatækifæri og hefur verið mælt með á þessu vefsetri. Ef vitglóra væri í hafnfirzka kratanum á stóli landbúnaðarráðherra, hefði hún tekið sauðfjárbændur á orðinu síðla vetrar, er þeir bentu henni á aðsteðjandi vanda vegna markaðsbrests, og lánað þeim ónotaðar ríkisjarðir, sem eru margar, til að rækta nytjaskóg, sem fljótlega yrði hægt að nota til kolefnisjöfnunar gegn hækkandi gjaldi.

Haraldur skrifar:

"Sauðfjárbændur hafa ályktað, að búgrein þeirra verði kolefnisjöfnuð.  Innan tíðar á að liggja fyrir fyrsta tilraun til útreiknings á bindingu og losun sauðfjárbúa."

Með vottaða kolefnisjöfnun í farteskinu við markaðssetningu lambakjöts öðlast bændur viðspyrnu á markaði, sem ríkisvaldið á að aðstoða þá við.  Ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs virðist hins vegar bara vera fúl á móti öllum þeim atvinnugreinum, sem eiga með réttu að vera skjólstæðingar hennar.  Það er alveg sama, hvort hér um ræðir sjávarútveg, laxeldi eða landbúnað, ráðherrann hlustar ekki og hreyfir hvorki legg né lið til að koma til móts við þessar greinar og aðstoða þær til að þróast til framtíðar. Menn átta sig ekki vel á, hvar stefnu þessa ráðherra í atvinnumálum er að finna.  Er hennar e.t.v. að leita í Berlaymont í Brüssel ? Þessum ráðherra virðist aldrei detta neitt í hug sjálfri, heldur reiðir sig á aðra með því að skipa nefndir.  Það er allur vindur úr þessum hafnfirzka krata, sem pólitískt má líkja við undna tusku.  

Af hverju bregzt hún ekki kampakát við herhvöt Haraldar í niðurlagi greinar hans ?:

"Gerum árið 2017 að tímamótaári, þar sem við leggjum grunn að nýrri og öflugri búgrein, kolefnisbúskap, sem getur fært okkur sem þjóð mikil tækifæri til að takast á við skuldbindingar okkar og ekki sízt að skapa með því grunn að styrkari byggð í sveitum.  Það er óþarfi að gefast upp fyrir þessu verkefni með því að senda mikla fjármuni til annarra landa [ESB-innsk. BJo] í því skyni að kaupa losunarheimildir, þegar vel má kaupa slíka þjónustu af landbúnaði og íslenzkum bændum."

Þetta er hverju orði sannara, og blekbóndi hefur bent á það á þessu vefsetri, að nú stefnir í milljarða ISK yfirfærslur til ESB út af því, að embættismenn og ráðherrar hafa skrifað undir óraunhæfar skuldbindingar fyrir hönd Íslands um minnkun á losun koltvíildis.  Þessi lömun ráðherranna umhverfis og landbúnaðar er orðin landsmönnum öllum dýrkeypt, en sá fyrrnefndi virðist aðeins rumska, ef mál á hennar könnu komast í fréttirnar.  Annars er hún gjörsamlega utan gátta, nema ef halda á tízkusýningu innan gáttar.  Þá er hún til í tuskið, enda vill hún sýna, hvernig "sterk kona" hagar sér.  Því miður er Stjórnarráð Íslands hér til umfjöllunar, en ekki Sirkus Íslands.  Sá síðar nefndi er þó áhugaverðari, enda er þar hæft fólk á sínu sviði.  

Haraldur Benediktsson fræddi okkur á því í téðri grein, að "[sem] dæmi má nefna, að mælingar hérlendis hafa sýnt, að losun vegna tiltekinnar landnotkunar, t.d. framræslu á mýrartúni, er um 80 % minni en þau viðmið, sem alþjóðlegar leiðbeiningar styðjast við."

Þetta eru allnokkur tíðindi. Lengi hefur verið hnjóðað í landbúnaðinn fyrir ótæpilegan skurðgröft, sem hafi orðið valdur að losun á 11,6 Mt/ár af koltvíildisjafngildum, sem er svipað og öll losun vegna orkunotkunar á Íslandi á láði, í lofti og á legi, að teknu tilliti til þrefaldra gróðurhúsaáhrifa af losun þotna í háloftunum m.v. brennslu á jörðu niðri.  Þessi áhrif hafa þá lækkað niður í 2,3 Mt/ár, sem er svipað og af völdum iðnaðarins á Íslandi.  Þessi mikla losun, 11,6 Mt/ár CO2eq, frá uppþornuðum mýrum átti að vera vegna niðurbrots gerla (baktería) á lífrænum efnum, en fljótt hægist á slíku niðurbroti, og hitt vill gleymast, að frá mýrum losnar metan, CH4, sem er meir en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.

Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stjórnvaldsákvörðun að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum.  Enn muna menn eftir Gunnari Braga, þáverandi utanríkisráðherra, er hann óð gleiðgosalegur um lendur Kænugarðs og hafði í hótunum við gerzka stórveldið.  Rússar svöruðu ári seinna með því að setja innflutningsbann á ýmis matvæli frá Íslandi. 

Var lambakjöt á bannlista Rússanna ?  Það hefur ekki verið staðfest.  Það, sem meira er; Jón Kristinn Snæhólm hafði það eftir sendiherra Rússa á Íslandi í þætti á ÍNN 1. september 2017, að hjá Matvælastofnun (MAST) lægi nú rússneskur spurningalisti.  Ef MAST svarar honum á fullnægjandi hátt fyrir Rússa, þá er ekkert í veginum fyrir því að flytja íslenzkt lambakjöt út til Rússlands, var haft eftir sendiherranum.  Það er ástæða fyrir núverandi utanríkisráðherra Íslands að komast til botns í þessu máli og gefa yfirlýsingu út um málefnið.  Ennfremur ætti hann að beita utanríkisráðuneytinu til að semja við Rússa um kaup á t.d. 10 kt af lambakjöti á þriggja ára skeiði að uppfylltum gæðakröfum gerzkra.  

 

 

 


Orkuskipti útheimta nýjar virkjanir

Vestfirðingar standa nú frammi fyrir byltingu í atvinnuháttum sínum.  Það mun verða gríðarleg vítamínsprauta í samfélag þeirra og í þjóðfélagið allt, þegar laxeldi nær tugþúsundum tonna á hverju ári eða á bilinu 50-80 kt/ár, sumt hugsanlega í landkerum. Þarna er að koma til skjalanna ný meiri háttar útflutningsatvinnugrein með öllum þeim jákvæðu hliðaráhrifum, sem slíkum fylgja.  

Ný framleiðsla mun útheimta nýtt fólk.  Af þeim orsökum mun verða mikil fólksfjölgun á Vestfjörðum á næstu tveimur áratugum.  Hagvöxtur verður e.t.v. hvergi á landinu meiri en þar, þar sem Vestfirðingum gæti fjölgað úr 7 k (k=þúsund) í 12 k eða um 70 % á tveimur áratugum.  Þetta verður þó ekki hægt án þess að hleypa nýju lífi í innviðauppbygginguna, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og raforkukerfi, svo að eitthvað sé nefnt.  Fyrstu hreyfingarnar í þessa veru má merkja með Dýrafjarðargöngum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem einnig mun hýsa háspennustrengi, og niður fara á móti loftlínur í 600 m hæð. Þá er einnig gleðiefni margra, að búið er að auglýsa deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun.

Þörf fyrir raforku og rafafl mun aukast gríðarlega á Vestfjörðum samhliða vexti atvinnulífsins og fólksfjölgun.  Það dregur ekki úr aukningunni, að megnið af húsnæðinu er rafhitað, ýmist með þilofnum eða heitu vatni frá rafskautakötlum.  Ætla má, að starfsemi laxeldisfyrirtækjanna og íbúafjölgunin henni samfara ásamt óbeinu störfunum, sem af henni leiða, muni á tímabilinu 2017-2040 leiða til aukningar á raforkunotkun Vestfjarða um tæplega 300 GWh/ár og aukinni aflþörf 56 MW.  Við þessa aukningu bætist þáttur orkuskiptanna, sem fólgin verða í styrkingu á rafkerfum allra hafnanna og rafvæðingu e.t.v. 70 % af fartækjaflotanum. 

Nýlega kom fram í fréttum, hversu brýnt mengunarvarnamál landtenging skipa er.  Þýzkur sérfræðingur staðhæfði, að mengun frá einu farþegaskipi á sólarhring væri á við mengun alls bílaflota landsmanna í 3 sólarhringa.  Yfir 100 farþegaskip venja nú komur sínar til Íslands.  Þau koma gjarna við í fleiri en einni höfn.  Ef viðvera þeirra hér er að meðaltali 3 sólarhringar, liggja þau hér við landfestar í meira en 300 sólarhringa.  Þetta þýðir, að árlega menga þessi farþegaskip 2,5 sinnum meira en allur fartækjafloti landsmanna á landi.  Þetta hefur ekki verið tekið með í reikninginn, þegar mengun af völdum ferðamanna hérlendis er til umræðu.  Gróðurhúsaáhrif millilandaflugs eru 7,6 sinnum meiri en landumferðarinnar.  Þetta fer lágt í umræðunni, af því að millilandaflugið er ekki inni í koltvíildisbókhaldi Íslands.  Er ekki kominn tími til, að menn hætti að vísa til ferðaþjónustu sem umhverfisvæns valkosts í atvinnumálum ?  

Staðreyndirnar tala sínu máli, en aftur að aukinni raforkuþörf Vestfjarða.  Orkuskiptin munu útheimta tæplega 100 GWh/ár og 24 MW.  Alls mun aukin raforkuþörf árið 2040 m.v. 2016 nema tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Þetta er 58 % aukning raforkuþarfar og 92 % aukning aflþarfar.  Að stinga hausnum í sandinn út af þessu og bregðast ekki við á annan hátt mundi jafngilda því að láta gullið tækifæri úr greipum sér ganga.  

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, hefur samt skorið upp herör gegn virkjun Hvalár á Ströndum.  Hann hefur hlaupið út um víðan völl og þeyst á kústskapti á milli Suðurnesja og Stranda í nýlegum blaðagreinum.  Læknir, þessi, berst gegn lífshagsmunamáli Vestfirðinga með úreltum rökum um, að ný raforka, sem verður til á Vestfjörðum, muni fara til stóriðjuverkefna á  "SV-horninu".  Þetta eru heldur kaldar kveðjur frá lækninum til Vestfirðinga, og hrein bábilja.  Þróun atvinnulífs og orkuskipta á Vestfjörðum er algerlega háð styrkingu rafkerfis Vestfjarða með nýjum virkjunum til að auka þar skammhlaupsafl og spennustöðugleika, sem gera mun kleift að stytta straumleysistíma hjá notendum og færa loftlínur í jörðu.  Tvöföldun Vesturlínu kemur engan veginn að sama gagni.   

Skurðlæknirinn skrifaði grein í Morgunblaðið, 1. september 2017,

"Fyrst Suðurnes - síðan Strandir:

"Virkjunin er kennd við stærsta vatnsfall Vestfjarða, Hvalá, og er sögð "lítil og snyrtileg".  Samt er hún 55 MW, sem er langt umfram þarfir Vestfjarða.  Enda er orkunni ætlað annað - einkum til stóriðju á SV-horninu."

Hér er skurðlæknirinn á hálum ísi, og hann ætti að láta af ósæmilegri áráttu sinni að vega ódrengilega að hagsmunum fólks með fjarstæðukenndum aðdróttunum.  Honum virðist vera annt um vatn, sem fellur fram af klettum í tiltölulega vatnslitlum ám á Ströndum, en hann rekur ekki upp ramakvein sem stunginn grís væri, þótt Landsvirkjun dragi mikið úr vatnsrennsli yfir sumartímann í Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi í árfarvegi stórfljótsins Þjórsár og þurrki þessa fossa  upp frá september og fram um miðjan maí með Búrfellsvirkjun II.  Hvers vegna er ekki "system i galskapet" ? 

Mismikið vatnsmagn í þessu sambandi er þó aukaatriði máls.  Aðalatriðið er, að það er fyrir neðan allar hellur, að nokkur skuli, með rangfærslum og tilfinningaþrungnu tali um rennandi vatn, gera tilraun til að knésetja ferli Alþingis um virkjanaundirbúning, sem hefst með Rammaáætlun, þar sem valið er á milli nýtingar og verndunar, og heldur svo áfram með umhverfismati, verkhönnun, upptöku í deiliskipulag og framkvæmdaleyfi.  Þessi sjálflægni og rörsýn er vart boðleg á opinberum vettvangi.   


Verður aukin skattbyrði umflúin ?

"Skattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur þyngzt í öllum tekjuhópum frá árinu 1998 t.o.m. árinu 2016, en þó mest frá árinu 2010."

Þetta er niðurstaða úr rannsókn Hagdeildar ASÍ, sem birt var 28. ágúst 2017.  Í þessu eru engar fréttir, og sama niðurstaða gildir um allan hinn vestræna heim.  Flest önnur vestræn ríki glíma við hagvaxtartregðu, sem kann að halda innreið sína hér fyrr en margan grunar, því að mjög sígur nú á ógæfuhlið með s.k. framfærsluhlutfall, sem er fjöldi fólks utan vinnumarkaðar sem hlutfall af fjölda á vinnumarkaði.

Höfuðmáli skiptir fyrir tekjuöflun hins opinbera, að hagkerfið hiksti ekki og sýni helzt hagvöxt yfir 3 %/ár að raunvirði.  Þá þarf skattgrunnurinn að vera sem breiðastur, svo að skattheimtan (skatthlutfallið) geti orðið sem lægst.  Nú mun ríða á að sigla á milli skers og báru varðandi skattheimtuna, svo að hún hafi sem minnzt lamandi áhrif á hagkerfið, en afli hinu opinbera þó nægra tekna til að standa straum af óumflýjanlega vaxandi útgjöldum af völdum öldrunar.  Það vitlausasta, sem yfirvöld geta gert í þessari stöðu, er að drepa mjólkurkúna.  Það er miðstéttin og hátekjufólk, sem stendur undir rekstri opinbera kerfisins að meginhluta, og gegndarlausar skattahækkanir á þetta fólk eru ígildi þess að drepa mjólkurkúna, því að þar með er verið að letja fólk til tekjuöflunar, sem gefin er upp til skatts, og á endanum verður landflótti sérfræðinga, sem er eitt það versta, sem fyrir landið getur komið.  Til þess er blindinginn Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hins vegar albúin, ef hún kemst til valda.  Í anda Hugo Chavez og Nicholas Maduros, geggjuðu sósíalistaforingjanna í Venezúela, mun téð Katrín ekki hika við að saga í sundur greinina, sem við öll þó sitjum á.

Í téðri skýrslu kvartar ASÍ undan því, að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað mest.  Skattkerfið og bótakerfið mynda eina flækju, sem fáir hafa fullan skilning á.  Til einföldunar ætti að hækka skattleysismörkin upp í 250-300 kISK/mán (k=þúsund) og fella bætur niður á móti, t.d. vaxtabætur og barnabætur.  Allir njóta góðs af hækkuðum skattleysismörkum, en lágtekjufólk þó lang mest.  

Fasteignagjöld sveitarfélaganna ná ekki lengur neinni átt og eru orðin refsing fyrir að eiga húsnæði. Fyrir skuldugt ungt fólk og tekjulitla gamlingja eru fasteignagjöldin þungbær. Húseigendur borga sveitarfélögum margfaldan þann kostnað, sem þau bera af þjónustu vegna húsnæðisins.  Fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu eru nú 0,20 %-0,31 %.  Með lögum ætti að lækka hámarksfasteignagjöld í 0,2 %, fjarlægja gólfið og fella þau niður af eldri borgurum til að auðvelda þeim að dvelja áfram í eigin húsnæði, öllum til hagsbóta.  Sömu sveitarfélög leggja 1,18 %-1,65 % á atvinnuhúsnæði. Þetta jaðrar við eignaupptöku og er orðið mjög íþyngjandi fyrir atvinnuvegina og ætti með lögum að lækka í hámark 1,0 %. Lágmarkið ætti að afnema. 

Útflutningsfyrirtækin berjast mörg í bökkum, þótt ISK láti nú undan síga.  Til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækjanna væri ráð að lækka tekjuskatt þeirra niður í 12 % - 15 %.  Þetta mundi örva fjárfestingar hérlendis, auka nýsköpunarkraft fyrirtækjanna og gera þeim kleift að leggja meira fé í rannsóknir.  Óðinn skrifar um þetta í Viðskiptablaðið, 13. júlí 2017, og vitnar í nafngreinda fræðimenn:

"Í einföldu máli komast þau að þeirri niðurstöðu, að nýsköpun innan fyrirtækjanna minnkar í kjölfar hækkunar tekjuskatts á fyrirtæki í þeirra heimaríki.  Hækkun tekjuskatts um 1,5 % (frá miðgildinu 7 %) leiðir til þess, að um 37 % fyrirtækja sækja um einu færra einkaleyfi á næstu tveimur árum.  Miðgildi einkaleyfaumsókna fyrirtækja er 9,1 umsókn á ári.  Þegar hafður er í huga sá gríðarlegi fjöldi fyrirtækja, sem í Bandaríkjunum eru, þá er um verulega mikil áhrif að ræða."

Breyttar þjóðfélagsaðstæður gera enn meiri kröfur til yfirvalda en áður um gæði skattheimtu.  Frá 2007 hefur tekjuskattur einstaklinga hækkað um 34 %, útsvarið hækkað um 11 %, fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur um 100 % og tekjuskattur fyrirtækja um 33 % (úr 15 % í 20 %).Fjármagnstekjuskattur er skaðlegur fyrir sparnað. Hann ætti að helminga og ekki að skattleggja verðbætur.  Erfðafjárskattur ætti að fara (aftur) í 5 %.  

Katrín Jakobsdóttir og fylgifiskar virðast aldrei leiða hugann að afleiðingum skattheimtubreytinga á hegðun skattborgarans.   Slíka greiningu er nauðsynlegt að gera til að leggja mat á afleiðingarnar fyrir hagkerfið.  Gösslaragangur og einsýni vinstri manna í umgengni við skattkerfið gerir þá óhæfa til setu í ríkisstjórn á tímum aukinnar fjárþarfar og minnkandi tekjustofna. Slík hegðun verður enn skaðlegri fyrir hagkerfið, þegar rekstur ríkissjóðs verður í járnum, eins og fyrirsjáanlegt er með minnkandi tekjuaukningu og síðan tekjusamdrætti og hratt vaxandi útgjaldaþörf.   

 

 

 

 


Raforkumál í öngstræti

Í hverri viku ársins verður tjón hjá viðskiptavinum raforkufyrirtækjanna í landinu, sem rekja má til veiks raforkukerfis. Oft er það vegna þess, að notendur eru aðeins tengdir einum legg við stofnkerfið, þ.e. nauðsynlega hringtengingu vantar.

Nýlegt dæmi um þetta varð austur á Breiðdalsvík í viku 34/2017, þar sem stofnstrengur bilaði með þeim afleiðingum, að straumlaust varð í 7 klst.  Auðvitað verður tilfinnanlegt tjón í svo löngu straumleysi, og hurð skall nærri hælum í brugghúsi á staðnum, þar sem mikil framleiðsla hefði getað farið í súginn, ef verr hefði hitzt á.  

Flestar fréttir eru af tjóni hjá almennum notendum, en stórnotendur verða þó fyrir mestu tjóni, því að þar er hver straumleysismínúta dýrust.  Þar, eins og víðar, er líka viðkvæmur rafmagnsbúnaður, sem ekki þolir spennu- og tíðnisveiflur, sem hér verða nokkrum sinnum á ári.  Getur þetta hæglega leitt til framlegðartaps yfir 11 MISK/ár og svipaðrar upphæðar í búnaðartjóni.

Á þessari öld hafa Vestfirðingar orðið harðast fyrir barðinu á raforkutruflunum á stofnkerfi landsins og  straumleysi, enda er landshlutinn háður einum 132 kV legg frá Glerárskógum í Dölum til Mjólkárvirkjunar, og sú virkjun ásamt öðrum minni á Vestfjörðum annar ekki rafmagnsþörf Vestfirðinga.  Hún er aðeins 10,6 MW, 70 GWh/ár eða um þriðjungur af þörfinni um þessar mundir. Þess ber að geta, að talsverður hluti álagsins er rafhitun húsnæðis, sem gerir Vestfirðinga að meiri raforkukaupendum en flesta landsmenn í þéttbýli.

Vestfirðingar verða árlega fyrir meiri truflunum og tjóni á búnaði og framleiðslu en flestir aðrir af völdum ófullnægjandi raforkuframleiðslu og flutningskerfis.  Til úrbóta er brýnt að koma á hringtengingu á Vestfjörðum.  Beinast liggur við að gera það með 132 kV tengingu Mjólkárvirkjunar við nýja virkjun, Hvalárvirkjun, 50 MW, 360 GWh/ár, í Ófeigsfirði á Ströndum.  Þessa nýju virkjun, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, þarf jafnframt að tengja við nýja 132 kV aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, sem Landsnet þarf að reisa og tekið getur við orku frá fleiri vatnsaflsvirkjunum þar í grennd og veitir kost á hringtengingu Ísafjarðarkaupstaðar og allra bæjanna á Norður- og Suðurfjörðunum. Með því jafnframt að leggja allar loftlínur, 60 kV og á lægri spennu, í jörðu, má með þessu móti koma rafmagnsmálum Vestfirðinga í viðunandi horf. Viðunandi hér er hámark 6 straumleysismínútur á ári hjá hverjum notanda að meðaltali vegna óskipulagðs rofs. 

Þegar raforkumál landsins eru reifuð nú á tímum, verður að taka fyrirhuguð orkuskipti í landinu með í reikninginn.  Án mikillar styrkingar raforkukerfisins er tómt mál að tala um orkuskipti. Það er mikil og vaxandi hafnlæg starfsemi á Vestfjörðum, sem verður að rafvæða, ef orkuskipti þar eiga að verða barn í brók.  Aflþörf stærstu hafnanna er svo mikil, að hún kallar á háspennt dreifikerfi þar og álagsaukningu á að gizka 5-20 MW eftir stærð hafnar.  Öll skip í höfn verða að fá rafmagn úr landi og bátarnir munu verða rafvæddir að einum áratug liðnum.

Laxeldinu mun vaxa mjög fiskur um hrygg og e.t.v. nema 80 kt/ár á Vestfjörðum.  Það verður alfarið rafdrifið og mun e.t.v. útheimta 30 MW auk álagsaukningar vegna fólksfjölgunar, sem af því leiðir.  Fólkið á sinn fjölskyldubíl, reyndar 1-2, og rafknúin farartæki á Vestfjörðum munu útheimta 20 MW.  Fólksfjölgun til 2030 gæti þýtt álagsaukningu 10 MW.  Alls gæti álagsaukning á raforkukerfi Vestfjarða á næstu 15-20 árum vegna atvinnuuppbyggingar, fólksfjölgunar og orkuskipta orðið um 100 MW.

Við þessu verður að bregðast með því að efla orkuvinnslu í landshlutanum og hringtengja allar aðveitustöðvar á svæðinu.  Dreifikerfið þarf eflingar við til að mæta þessu aukna álagi, og allar loftlínur 60 kV og á lægri spennu þurfa að fara í jörðu af rekstraröryggislegum og umhverfisverndarlegum ástæðum.  

 

 

 

 


Er rörsýn vænleg ?

Fegurðin í samneyti manns og náttúru er fólgin í hógværð og tillitssemi í umgengni við hana, þannig að nýting á gjöfum hennar á hverjum tíma beri glögg merki um beitingu vits og beztu fáanlegu þekkingar (tækni) á hverjum tíma.  Á okkar tímum þýðir þetta lágmörkun á raski í náttúrunni og að fella mannvirki vel að henni eða augljóslega eins vel og unnt er.  

Þetta á t.d. við um orkunýtingarmannvirki og flutningsmannvirki fyrir umferð ökutækja eða raforku.  Á þessari öld og nokkru lengur hefur verið uppi ágreiningur með þjóðinni um mannvirkjagerð utan þéttbýlis og alveg sérstaklega á stöðum, þar sem lítil eða engin bein ummerki eru um manninn, en óbein ummerki um mannvist blasa þó víðast við þeim, sem eru með augun opin, í "stærstu eyðimörk Evrópu", þar sem gróðurfarið er hryggðarmynd mannvistar og búfjárhalds í landinu.  Það er skylda okkar hérlendra nútímamanna og afkomenda að stöðva frekari eyðingu jarðvegs og klæða landið aftur gróðri.  Þetta fellur þeim þó ekki í geð, sem engu vilja breyta.  Slíkir eru ekki íhaldsmenn, því að þeir vilja aðeins halda í það, sem vel hefur gefizt, heldur afturhaldsmenn. Þá kemur ofstækisfull andúð á "erlendum" gróðri á borð við lúpínu og barrtré spánskt fyrir sjónir í landi, sem kalla má gróðurvana.   

Hugmyndin að baki Rammaáætlun var að skapa sáttaferli með kerfisbundnu vali á milli verndunar og orkunýtingar.  Nýtingarhugtakið þyrfti að víkka út, svo að það spanni nýtingu ferðamanna á landinu, nú þegar tala erlendra af því sauðahúsi fer yfir 2,0 milljónir á ári. Iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra ýjaði að slíku í Morgunblaðsgrein laugardaginn 12. ágúst 2017.  

Blekbóndi er þó ekki hrifinn af framkvæmdinni á mati Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun fyrirkomulaginu, og telur mat á virkjunarkostum vera hlutverk Orkustofnunar, en ekki pólitísks skipaðrar "Verkefnisstjórnar um Rammááætlun" virkjunarkosta, enda hefur iðulega verið slagsíða á þessu mati.  Af einhverjum ástæðum hefur Verkefnisstjórnin ekki tekið neinn vindorkukost til mats, og skýtur það skökku við, því að umhverfisáhrif vindmyllna, hvað þá vindmyllulunda upp á 100 MW eða meir, eru mikil að mati blekbónda, en sínum augum lítur hver á silfrið. Hins vegar hefur Verkefnisstjórn hneigzt til verndunar á vatnsföllum og lausbeizlaðrar flokkunar jarðhitasvæða sem nýtingarstaða.  Ekki er víst, að þetta sjónarmið þjóni umhverfisvernd vel, þegar upp er staðið.   

Engu að síður er hér um lýðræðislegt ferli að ræða, þar sem Alþingi á lokaorðið, og það ber að virða, hver sem skoðun manna er á niðurstöðunni, enda geta frekari rannsóknir og breyttar aðstæður breytt niðurstöðunni.

Þeim, sem hafna niðurstöðu þessa ferlis og andmæla hástöfum virkjunaráformum um valkosti, sem lent hafa í nýtingarflokki Rammaáætlunar, má líkja við mann, sem er of seinn að ná strætisvagni, en hleypur samt á eftir honum, þar sem hann fer af stað, og úr barka hans berast hljóð, sem ólíklegt er, að nái eyrum bílstjóra lokaðs strætisvagnsins.

Þann 8. ágúst 2017 birtist í Fréttablaðinu grein með þeirri fordómafullu fyrirsögn,

"Stóriðju- og virkjanaárátta - stríð á hendur ósnortnum víðernum".  

Greinarhöfundur er þekktur læknir, hér og t.d. á "Karolinska" í Svíþjóð, Tómas Guðbjartsson.  Fyrirsögnin lýsir rörsýn hans á viðfangsefni landsmanna, sem er að skapa öflugt og sem fjölbreytilegast atvinnulíf í landi gjöfullar og viðkvæmrar náttúru, svo að landið verði samkeppnishæft við aðra um fólk með alls konar þekkingu, getu og áhugamál.  Greinin ber með sér sorglega viðleitni til að etja saman atvinnugreinum, og verður ekki hjá því komizt að leiðrétta misskilning og að hrekja rangfærslur höfundarins, eins og nú skal rekja.  Hún hófst þannig:

"Undanfarið hefur skapazt töluverð umræða um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Íslandi, enda virðist sem stjórnvöld ætli áfram að greiða götu mengandi stóriðju."

Læknirinn stóð í sumar sjálfur fyrir umræðu um Hvalárvirkjun, 55 MW, 320 GWh/ár, á Vestfjörðum.  Sagðist hann reyndar sjálfur þá hafa mestar áhyggjur af loftlínum þar í "ósnortnum víðernum" Vestfjarða.  Nú vill svo til, að HS Orka ætlar að hafa allar lagnir neðanjarðar að og frá stöðvarhúsi Hvalárvirkjunar, svo að þetta var tómt píp í lækninum.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, gott ef það verður ekki sprengt inn í bergið, eins og stærsta stöðvarhús landsins í Fljótsdal.  

Það er enn fremur alveg út í hött hjá téðum Tómasi að tengja þessa miðlungsstóru virkjun við orkukræfa stóriðju.  Hann hlýtur að hafa heyrt um þjóðþrifaverkefnið orkuskipti, og að þau standa fyrir dyrum á Íslandi, þótt hægt fari enn.  Stjórnvöld hafa sem undirmarkmið varðandi Parísarsamkomulagið frá desember 2015, að að meðaltali 40 % af ökutækjaflotanum á Íslandi verði orðinn umhverfisvænn árið 2030.  Það dugar reyndar ekki til að ná markmiðinu um 40 % minni losun umferðar þá en árið 1990, heldur þarf umhverfisvænn ökutækjafloti þá að nema 60 % af heildarfjölda.  Ef 40 % ökutækjaflotans eiga að verða rafknúnir þá, þarf að virkja a.m.k. 170 MW afl og 770 GWh/ár orku fyrir árið 2030 til viðbótar við Búrfell 2 og Þeistareyki 1 og 2.  Orkuskiptin þurfa árið 2030 miklu meiri raforku en þetta, því að það er líka annars konar eldsneytisnotkun, sem þarf að leysa af hólmi, t.d. fiskimjölsverksmiðjur.  Ætla virkjana- og loftlínuféndur að reyna að hindra þessa sjálfsögðu þróun ?  Þá hefur ný víglína verið mynduð í umhverfisvernd á Íslandi.  

Næst fór læknirinn út í "samanburðarfræði".  Fór hann niðrandi orðum um málmframleiðsluiðnað í landinu og reyndi að upphefja ferðaþjónustu á kostnað hans.  Það er ótrúlegt af Tómasi Guðbjartssyni, lækni, að hann skuli ekki upp á eigin spýtur geta gert sér grein fyrir því, að slík skrif eru fleipur eitt, eins og nú skal rekja:

"Aðstæður á Íslandi eru gjörbreyttar, og staðreynd er, að stóriðja fer illa saman við blómstrandi ferðamannaiðnað, sem er orðin sú atvinnugrein, sem skapar langmestar gjaldeyristekjur og veitir miklu fleiri Íslendingum atvinnu en stóriðja."

Þær staðreyndir, sem blekbónda eru tiltækar, styðja það þvert á móti, að stóriðja og ferðaþjónusta fari ágætlega saman.  Árlega kemur fjöldi fólks gestkomandi í álverin og óskar eftir kynningu á starfseminni.  Enn fleiri koma í virkjanir, sem sjá stóriðjunni fyrir raforku, til að kynnast þessari náttúrunýtingu Íslendinga, bæði í jarðgufuverum og fallvatnsorkuverum.  Læknirinn málar hér skrattann á vegginn og býr til vandamál.  Til hvers þennan barnalega meting ?  "Cuo bono" ? Hann er ekki aðeins illa haldinn af rörsýn, heldur undirlagður af ranghugmyndum um grundvallaratvinnuvegi landsins.

Umhverfisálag af völdum erlendra ferðamanna á Íslandi er margfalt á við umhverfisálag orkukræfs iðnaðar á Íslandi.  Hafa menn heyrt um mannasaur og fjúkandi viðbjóð í íslenzkri náttúru af völdum iðnaðarins ?  Úti fyrir strönd Straumsvíkur eru ummerki eftir ISAL ekki mælanleg í lífríkinu.  Halda menn, að 2,0 milljónir erlendra ferðamanna reyni ekki verulega á fráveitur landsins ?  Það er ekkert smáræði af skolpi, þvottaefnum og annarri mengun, úti fyrir ströndum landsins og jafnvel í ám og stöðuvötnum af völdum þessara ferðamanna, sem minna stundum á engisprettufaraldur.  Átroðningar og áníðsla á viðkvæmum gróðri landsins er víða þannig, að stórsér á. 

Álverin búa við ströngustu mengunarkröfur í heimi, og opinbert eftirlit er með því, að þau uppfylli þessar kröfur.  Í grennd við álverið í Straumsvík er flúor í gróðri ekki merkjanlegur nú orðið umfram það, sem hann var fyrir 1969, t.d. vegna eldgosa.  Að láta sér detta það í hug að bera saman hátækni og háborgandi atvinnugrein og lágt borgandi atvinnugrein, sem snýst um að éta og drekka, tronta á náttúrunni og spúa eiturefnum og koltvíildi úr jarðefnaeldsneytisbrennandi ökutækjum, er ósvífni.

Það má tína fleira til, eins og aukna hættu á vegum landsins og sýkingarhættu af völdum erlendra ferðamanna, og eru berklar, lifrarbólga A og nóruveiran fá dæmi úr fúlum flór, en alvarlegasta umhverfisógnunin er af völdum losunar millilandaflugvélanna á gróðurhúsalofttegundum í háloftunum. 

Losun á 1 kg af CO2 í háloftunum er á við losun á tæplega 3 kg af CO2 á jörðu niðri.  Þegar tekið hefur verið tillit til þessa, nam losun íslenzkra flugvéla í millilandaflugi árið 2016 7,1 Mt (milljón tonn), sem var 59 % af heildarlosun landsmanna þá.  Losun iðnaðarins nam þá 2,3 Mt eða innan við þriðjungi af losun millilandaflugsins.  Það kemst engin atvinnugrein í hálfkvisti við ferðaþjónustuna varðandi illa meðferð á náttúrunni.  

Í þessu ljósi er ekki boðlegt að skrifa um "mengandi stóriðju" og dásama um leið ferðaþjónustuna, því að mengun "fjöldaferðamennskunnar" á Íslandi er margföld á við mengun orkukræfs iðnaðar, eins og rökstutt hefur verið:

"Stóriðja er ekki aðeins mengandi, heldur krefst hún mikillar orku, sem fæst með því að virkja vatnsföll og háhitasvæði.  Þessar virkjanir eru nær undantekningarlaust nálægt náttúruperlum, sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn laðast að.  Auk þess rjúfa þær ósnortin víðerni, sem hafa minnkað um 70 % á s.l. 70 árum hér á landi."

Stærsta virkjanasvæði landsins er Þjórsár/Tungnaár svæðið.  Þar eru landspjöll hverfandi, en ávinningurinn feiknarlegur fyrir þjóðina.  Þar hefur Landsvirkjun þess vegna tekizt mjög vel upp við að sækja gull í greipar náttúrunni með sjálfbærum og sumir segja afturkræfum hætti.

Það er ástæða til að bera brigður á þessa 70 % rýrnun Tómasar. Mælingin virðist tilfinningablendin, því að sumum dugar að vita af mannvirki utan sjónsviðs til að upplifa truflun af því.  Er það ekki sjúkleg ofurviðkvæmni, sem ekki ætti að hafa áhrif á þetta mat ? Blekbónda rekur minni til að hafa lesið grein eftir fyrrverandi Orkumálastjóra og lærimeistara blekbónda úr Verkfræðideild HÍ, Jakob Björnsson, þar sem hann hélt því fram, að meint rýrnun "ósnortinna víðerna" gæti seint (og ekki á okkar dögum) farið yfir 10 % á Íslandi, svo víðáttumikil væru þau.

Það er engu líkara af ofangreindum orðum Tómasar en hann skilji ekki, að ferðamannaiðnaðurinn er knúinn áfram af gríðarlegri orku, en sú orka kemur hins vegar nánast öll úr jarðolíunni.  Tómas virðist vera þeirrar skoðunar, að slík orkunýting sé vænlegri kostur fyrir mannkynið en að afla orkunnar með endurnýjanlegum hætti úr náttúrunni á Íslandi. Slíkt sjónarmið verðskuldar heitið "rörsýn". 

Árið 2016 brenndu millilandaflugvélar Íslendinga um 0,79 Mt af eldsneyti, sem var 0,17 Mt meira en allir aðrir jarðefnaeldsneytisbrennarar á Íslandi til samans, þ.e. landsamgöngur, fiskiskipaflotinn og millilandaskipin.  Að hampa slíkri starfsemi lýsir afar undarlegu lífsviðhorfi.  Tómas, læknir, hefur fullt leyfi til slíks lífsviðhorfs, en það verður aldrei ofan á á Íslandi. 

Árið 2050, þegar orkuskiptin á láði og legi (ekki í lofti) verða vonandi um garð gengin hérlendis, munu bílaleigubílar, smárútur og langrútur, þurfa 180 MW af rafafli og 626 GWh af raforku frá nýjum virkjunum á Íslandi.  Millilandaflug Íslendinga gæti þurft á tífaldri þessari orku að halda, þegar þar verða orkuskipti. Á að láta afturhaldsmenn komast upp með að þvælast fyrir þeirri sjálfsögðu og eðlilegu þróun, sem orkuskiptin fela í sér ? 

Lokadæmið um hugrenningar læknisins:

"Íslenzk orka er heldur ekki ókeypis, og að baki hverri virkjun er gríðarleg fjárfesting, þar sem tekin hafa verið stór lán - oft í samvinnu við erlend risafyrirtæki.  Stóriðja hefur vissulega skapað störf og tekjur hér á landi, en það hefðu peningarnir líka gert, hefðu þeir verið nýttir til annarrar atvinnustarfsemi."

Hér veður læknirinn reyk, þótt af öðrum toga sé en áður.  Hvað er athugunarvert við að taka lán til atvinnu- og verðmætaskapandi athafna, ef þær eru arðsamar, eins og raforkusala í heildsölu samkvæmt langtímasamningum hefur verið ?  Þessi aðferð hefur reynzt giftudrjúg við að lágmarka raforkuverð til almennings, sem er ólítill þáttur í velferð hér og samkeppnishæfni. Það er hundalógík að halda því fram, að lánsfé, sem eyrnamerkt fékkst til ákveðinnar fjárfestingar, sem reist var á tekjutryggingu að stórum hluta til áratuga frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefði fengizt í "eitthvað annað".  Heldur margtéður Tómas, læknir, Guðbjartsson því fram, að lánastofnanir hefðu lánað Íslendingum á sömu kjörum í mengandi áhættufjárfestingu, sem hótelbygging er, svo að dæmi af eftirlæti hans í hópi útflutningsgreinanna sé tekið ?

Að lokum verður ekki hjá því komizt að leiðrétta eina tölulega villu læknisins í tilvitnaðri grein um 3 stærðargráður, þ.e. um er að ræða þúsundfalda villu.  Má draga þá ályktun, að sá, sem gerir sig sekan um svo stóra villu, beri lítið skynbragð á umræðuefnið, sem hann hefur þó sjálfur kosið sér ?  Er þetta allt bara einhvers konar PR eða skrum fyrir galleríið ? Hann heldur því fram, að raforkuvinnsla á hvern íbúa Íslands nemi 54 kWh/íb.  Það er mjög langt síðan, að svo var. Hið rétta er 55 MWh/íb á ári.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Skringilegur ráðherra

Umhverfis- og auðlindaráðherra braut síðareglur Alþingis með því uppátæki sínu að fara í einhvers konar fyrirsætuhlutverk í ræðusal hins háa Alþingis fyrir  kjólahönnuð.  Fyrir vikið fær ráðherrann ekki lengur að njóta vafans, en hún hefur verið með stórkarlalegar  yfirlýsingar um atvinnuvegi landsmanna, t.d. orkukræfan iðnað. Við þetta hefur hún misst allt pólitískt vægi og er orðin þung pólitísk byrði fyrir Bjarta framtíð og er ekki ríkisstjórninni til vegsauka.   

Í kjölfar hinnar alræmdu kjólasýningar í Alþingishúsinu, sem afhjúpaði dómgreindarleysi ráðherrans, birtist hún í fréttaviðtali á sjónvarpsskjám landsmanna með barn sitt á handlegg og lýsti því yfir, að hún vildi, að bílaumferðin væri orðin kolefnisfrí árið 2030 !  Þetta er ómögulegt og er ekki í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, sem miðar við, að 40 % bílaflotans í heild sinni verði knúinn raforku árið 2030. 

Þetta undirmarkmið ríkisstjórnarinnar dugar þó ekki til þess að ná heildarmarkmiðinu um 40 % minni koltvíildislosun frá innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis utan ETS (viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir).  Til þess verður olíu- og benzínnotkun um 60 kt of mikil árið 2030, sem þýðir, að hækka þarf undirmarkmið ríkisstjórnarinnar úr 40 % í 60 % til að ná yfirmarkmiðinu.  Hröðun á þessu ferli næst hins vegar ekki án íþyngjandi og letjandi aðgerða stjórnvalda gagnvart kaupendum og eigendum eldsneytisbíla og hvetjandi aðgerðum til að kaupa rafknúna bíla, t.d. skattaívilnanir.  Þá verður einnig að flýta allri innviðauppbyggingu.  Allt þetta þarf að vega og meta gagnvart gagnseminni fyrir hitafarið á jörðunni og loftgæðin á Íslandi.  Áhrifin af þessu á hitafarið verða nánast engin. 

Ráðherra umhverfis- og auðlindamála gerði sig enn einu sinni að viðundri með yfirlýsingu, sem er óframkvæmanleg.  Fyrsta undirmarkmið ríkisstjórnar í þessum efnum er frá 2010 og var einnig alveg út í hött, en það var um, að 10 %  ökutækjaflotans yrðu orðin umhverfisvæn árið 2020.  Nú er þetta hlutfall um 1,0 %, og með mikilli bjartsýni má ætla, að 5,0 % náist í árslok 2020.  

Þetta illa ígrundaða undirmarkmið vinstri stjórnarinnar var skuldbindandi gagnvart ESB, og það mun kosta ríkissjóð um miaISK 1,0 í greiðslur koltvíildisskatts, að óbreyttu til ESB, en vonandi verður bróðurparti upphæðarinnar beint til landgræðslu á Íslandi, sem jafnframt bindur koltvíildi úr andrúmsloftinu.  Það er þó í verkahring ríkisstjórnarinnar (téðs umhverfisráðherra ?) að vinna því máli brautargengi innan ESB.

Vegna þess, að koltvíildisgjaldið mun hækka á næsta áratug úr núverandi 5 EUR/t CO2 í a.m.k. 30 EUR/t, þá gætu kolefnisgjöld ríkissjóðs vegna óuppfyllts markmiðs íslenzkra stjórnvalda farið yfir miaISK 5,0 á tímabilinu 2021-2030.  Það er verðugt viðfangsefni íslenzkra stjórnvalda að fá ESB til að samþykkja, að þetta fé renni t.d. til Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.  Er ráðherrum á borð við Björt Ólafsdóttur treystandi í slík alvöruverkefni ?

 

 

 


Af hæfni og þjónustulund

Allir hafa mismunandi hæfni til að sinna þeim störfum, sem þeir eru settir til, og þjónustulund og hæfni þurfa ekki endilega að fara saman.  Í samskiptum opinberra stofnana við almenning verður þetta tvennt þó að fara saman, ef vel á að vera, og það er á ábyrgð viðkomandi yfirmanns, að svo sé.  

Í ár, og um þverbak hefur keyrt í sumar, hafa kvartanir vegna þjónustu sumra opinberra stofnana verið sérlega áberandi.  Nefna má Umhverfisstofnun, sem birti athugasemdalaust kolvitlausar mæliniðurstöður frá verktaka, sem sá um mælingar í grennd við nýja kísilverksmiðju í Helguvík.  Mæliniðurstöðurnar voru alveg út úr korti og gáfu Umhverfisstofnun fullt tilefni til að staldra við áður en hún skyti íbúum skelk í bringu og ylli fyrirtækinu  tjóni.  Skiptir þá ekki máli í þessu sambandi, þótt þar hafi allt gengið á afturfótunum frá fyrsta degi. 

Mest hefur þó reykvískum stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verið legið á hálsi hæfniskortur og þjónustulundarvöntun, og stingur það í stúf við þá staðreynd, að í Reykjavík ætti mannvalið mest að vera út frá höfðatölunni.  Þetta þarf þó ekki undrun að sæta, þegar haft er í huga, að þjónustukönnun á vegum sveitarfélaganna í fyrra gaf Reykjavík lægstu einkunn.  Viðbrögðin sýndu þá, að eftir höfðinu dansa limirnir.  Í æðstu stjórn borgarinnar var hugarfarið greinilega, eins og hjá einvaldskóngum síðmiðalda í Evrópu: "Vér einir vitum", og Reykjavík var einfaldlega dregin út úr þessari þjónustukönnun, sem var hugsuð sem hjálpartæki fyrir stjórnendur sveitarfélaganna, sem þátt tóku.

Um 12. júní 2017 kom í ljós bilun á neyðarútrásarlúgu skolphreinsistöðvar OR/Veitna við Faxaskjól í vesturbæ Reykjavíkur, sem leiddi til þess, að hún opnaðist og ekki var hægt að loka henni aftur fyrr en málið komst í seinni fréttir sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.  Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var tilkynnt strax um atburðinn, en hvorki því né OR/Veitum þóknaðist að tilkynna Reykvíkingum um atburðinn, sem þó eru hagsmunaaðilar sem eigendur og notendur baðstrandar og fjöru í grennd.  Yfirvöldin gáfu íbúunum langt nef.

Heilbrigðiseftirlitið mun hafa gert eina mælingu í júní á fjölda saurgerla í 100 ml sjávar, sem voru fleiri en heilsuverndarmörk kveða á um, og samt var látið hjá líða að fylgjast grannt með ástandinu, hvað þá að vara fólk við.  Almenningur stóð í þeirri trú, að Heilbrigðiseftirlitið væri starfrækt til verndar lýðheilsu, en með þessu atferli hafa stjórnendur þar á bæ sáð fræjum efasemda um, að svo sé, ef fyrirtæki borgarinnar eiga í hlut.  Jafnvel umhverfisráðherra vill nú yfirtaka yfirstjórn þessa málaflokks af Degi, borgarstjóra.  Bragð er að, þá barnið finnur, eða kannski kjólakynnir í ræðusal Alþingis. 

Ef rennslið gegnum téða neyðarlúgu hefur numið 750 l/s, eins og fréttir hermdu, og rennslið hefur varað í þrjár vikur, þá hefur magn óhreinsaðs skolps út í sjó frá þessari einu stöð numið tæplega 1,4 Mm3 (milljón rúmmetrum).  Að tæknilegur viðbúnaður OR/Veitna sé svo bágborinn, að slík mengun þyrfti að viðgangast, sýnir, að þar á bæ er skipulag viðhalds- og rekstrarmála óviðunandi, og verður að fara fram rótargreining á atburðinum, birta niðurstöðu hennar opinberlega og tilkynna, hvaða hámarks opnunartíma megi búast við í kjölfar úrbóta.  Er búið að gera tæknilegar ráðstafanir til að stytta ótrúlega langan viðbragðstíma, og í hverju eru þær þá fólgnar ?

Upp á síðkastið hefur aðalathyglin á sviði þjónustu borgarinnar beindst að Byggingarfulltrúanum í Reykjavík.  Um þetta skrifaði Baldur Arnarson í Morgunblaðið 25. júlí 2017 undir fyrirsögninni:

"Segja starfsmenn misnota valdið":

"Samtök iðnaðarins hafa komið á framfæri formlegum kvörtunum yfir framgöngu byggingarfulltrúa í Reykjavík.  Fundið er að fjölda atriða varðandi málsmeðferð og framkomu starfsfólks byggingarfulltrúa.  Verktakar og veitingamenn, sem Morgunblaðið ræddi við, sögðu sömu sögu.  Framganga embættismanna hefði kostað fyrirtæki mikið fé.  Fjöldi verkefna hefði tafizt.

Samtök iðnaðarins sendu formlega kvörtun vegna þessa með tölvubréfi til Péturs Ólafssonar, aðstoðarmanns Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, 22. maí s.l.  Niðurstaðan er, að fulltrúum samtakanna verður boðið til fundar um málið í síðari hluta ágústmánaðar eða um einum ársfjórðungi síðar."

Það er sjaldgæft, að heildarsamtök kvarti opinberlega undan þjónustu yfirvalda við félagsmenn sína.  Ljóst er, að bullandi óánægja er með þjónustu þessa gríðarlega mikilvæga embættis.  Hvernig ætli staðan væri, ef byggt væri fimmfalt meira í Reykjavík en reyndin er og full þörf er á ?

"Síðan eru talin upp dæmi: erfiðara sé að ná sambandi við starfsmenn, afgreiðsla mála taki lengri tíma, þjónustulund fari þverrandi, framkoma starfsmanna í garð þeirra, sem þjónustu þurfa, sé neikvæð, flækjustig hafi verið aukið, málum sé frestað vegna óviðeigandi athugasemda, viðvarandi óljós og margræð skilaboð séu gefin, þegar málum er frestað; þar sé jafnvel á ferð breytileg afstaða, sem byggist á persónulegri afstöðu viðkomandi starfsmanns."

Síðan er rakinn fjöldi frestana á afgreiðslu mála, sem viðskiptavinir embættisins telja oft ómálefnalegar og óþarfar.

"Með þetta í huga óskuðu samtökin eftir greiningu borgarinnar á "þessari óásættanlega lélegu skilvirkni".  Í öðru lagi þurfi að leggja mat á, að "hve miklu leyti megi rekja þetta ástand til slakra vinnubragða viðskiptavina embættisins".  Í þriðja lagi þurfi að "krefjast endurskilgreiningar á hlutverki embættisins frá því að vera í regluvörzlu í það að vera þjónustu- og ráðgjafarstofnun í þágu borgaranna".  Í fjórða lagi þurfi að "stórbæta ráðgjöfina og samskiptin, ekki aðeins með útgáfu leiðbeininga, heldur og með námskeiðum og kynningarfundum um það, sem betur má fara.""

Í Morgunblaðinu 27. júlí 2017 birtist síðan viðtal Magnúsar Heimis Jónassonar við byggingarfulltrúann, þar sem hann útskýrir sína hlið málsins:

"Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, er ósammála þeim fullyrðingum frá Samtökum iðnaðarins (SI), að málsmeðferð byggingarleyfa taki of langan tíma vegna vinnubragða embættisins.  "Málsmeðferð hjá okkur er í beinu samræmi við gæði þeirra gagna, sem okkur berast.  Okkur er mjög umhugað um það að afgreiða mál sem fyrst, sem berast okkur, enda erum við með allt að 110 mál á vikulegum afgreiðslufundum og viljum því afgreiða þau og samþykkja sem fyrst.""

Hér virðist vera hjakkað í sama farinu í stað upplýsingagjafar og aðstoðar við viðskiptamenn embættisins til að kenna þeim til hvers er ætlazt af umsækjanda.  Þá ætti að vera óþarfi að leggja venjubundin mál af einfaldara taginu fyrir fund. 

"Aðspurður segir Nikulás, að bezta leið fyrir umsóknaraðila til að stytta málsmeðferðartímann sé að koma með vel undirbúnar umsóknir, en hann segir ýmis gögn og upplýsingar oft vanta."

Gagnvart umsækjanda um byggingarleyfi til borgarinnar þarf að vera ein ásjóna í stað þess að vísa umsækjendum á milli Pontíusar og Pílatusar.  Þetta þýðir, að embætti byggingarfulltrúa á sjálft að sjá um, að aðilar á borð við heilbrigðisfulltrúa og eldvarnarfulltrúa rýni umsóknina.  Embættið á ekki að taka við umsókninni, nema hún sé fullnægjandi, og það á  strax að leiða umsækjanda fyrir sjónir, hvað vantar.  Þannig má flýta fyrir afgreiðslu.  

Í lokin sagði byggingarfulltrúinn í þessari frétt:

"Aðspurður segir hann, að embættið muni hlusta á gagnrýni frá SI, en bendir hins vegar á, að slíkar breytingar gætu þurft aðkomu löggjafans.  

"Að sjálfsögðu ætlum við að hlusta á þessi samtök og ígrunda vel og vandlega þessar tillögur, sem þau koma með, en við teljum okkur vera að vinna mjög góða vinnu hérna.  Við erum hér með vottað gæðakerfi, sem var tekið upp til að tryggja sem faglegustu og beztu afgreiðsluna fyrir okkar viðskiptavini.""

Það er sammerkt öllum gæðastjórnunarkerfum, að þau setja þarfir viðskiptavinanna á oddinn.  Gæðastjórnunarkerfi tryggir viðskiptavininum rekjanlega verkferla hjá birginum, þ.á.m. fyrir kvartanir viðskiptavina.  Ef gæðastjórnunarkerfið virkar rétt, getur viðskiptavinur fengið að sjá slóð umsóknar sinnar til byggingarfulltrúa og einnig slóð kvörtunar.  Birginum, hér byggingarfulltrúa, ber samkvæmt gæðastjórnunarkerfi að mynda umbótaferli, sem á að uppræta gallann, sem kvartað var yfir.  Þetta hefur augljóslega ekki verið gert hjá embætti byggingarfulltrúa, því að það er stöðugt verið að kvarta undan hinu sama, þ.e. skorti á þjónustulund, t.d. leiðbeiningum fyrir umsækjendur um form og innihald umsóknar, seinlæti og duttlungum starfsmanna.

Vegna þrálátra og tíðra kvartana viðskiptavina liggur beint við að álykta, að gæðastjórnunarkerfi byggingarfullrúans í Reykjavík virki alls ekki.  Það þarf greinilega að straumlínulaga þessa starfsemi og einfalda viðskiptavinum hennar lífið, svo að þeir viti nákvæmlega til hvers er ætlazt af þeim, og það á að taka af þeim ómakið að hlaupa á milli embætta Reykjavíkurborgar. 

Embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkur virðist í stuttu máli vera illa skipulagt og hafa fallið í þá gryfju gæðastjórnunarkerfa að taka upp mikla skriffinnsku án þess að starfsmönnum þess hafi lánazt að nýta kosti gæðastjórnunarkerfis til sífelldra endurbóta, sem sjánlega gagnist viðskiptavinunum. 

Ein þessara stofnana, sem viðskiptavinir byggingarfulltrúans þurfa að leita til, er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.  Í Morgunblaðinu 28. júlí 2017 átti Baldur Arnarson viðtal við Árnýju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, undir fyrirsögninni:

Mistókst að einfalda kerfið:

"Við getum öll verið sammála um, að lög og reglugerðir, sem Heilbrigðiseftirlitið á að framfylgja, og svo rekstraraðilar og almenningur að fara eftir, geta verið íþyngjandi, og því miður hefur ekki tekizt að einfalda regluverk í raun, eins og vonir stóðu til.  Hins vegar er það svo, að Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki heimildir til að gefa afslátt af regluverki; það getur einungis löggjafinn eða ráðuneytin gert.  Síðan er gjarnan kallað eftir auknu eftirliti og kröfum eina stundina, og svo hins vegar minna eftirliti þá næstu."

Þetta er ósannfærandi málflutningur eftir það, sem á undan er gengið.  Hvað hefur Árný Sigurðardóttir gert til að "einfalda regluverkið", og hver stóð gegn því, að svo yrði gert ?  Það er ekki hægt að kasta fram fullyrðingu, eins og hún gerir hér, og síðan að skilja alla enda eftir lausa.  Almenningur á rétt á að vita hið sanna í þessu máli, sérstaklega ef það eru einhverjir stjórnmálamenn, sem vilja gera almenningi óþarflega erfitt fyrir með dýrri og óþarfri skriffinnsku.  

Þá varð stofnun Árnýjar, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, einmitt bert að því í sumar að veita OR/Veitum ekkert aðhald varðandi opnunartíma neyðarlúgu fyrir óhreinsað skolp út í sjó, þótt mengun sjávar væri hátt yfir heilsuverndarmörkum.  Þá gaf þetta Heilbrigðiseftirlit einmitt annarri borgarstofnun verulegan "afslátt af regluverki".  Meira að segja umhverfisráðherra hefur áttað sig á þessu algerlega óviðunandi framferði stofnunar Árnýjar Sigurðardóttur og hefur í kjölfarið heitið því að færa þetta eftirlit frá borg til ríkis.  Verður fróðlegt að fylgjast með efndunum.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Snarazt hefur á meri orkuhlutdeildarinnar

Það hefur heldur betur snarazt á merinni, hvað hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna varðar. Hlutdeild fljótandi jarðefnaeldsneytis, svartolíu, flotaolíu, dísilolíu og benzíns, gasefna, própangass og kósangass, og fastra efna, kola og koks, hefur lengi vel verið undir 15 % af heildarorkunotkun landsmanna, en árið 2016 var svo komið, að hlutdeild þessa kolefniseldsneytis nam tæpum fjórðungi eða 24,4 %. Lítið hefur farið fyrir kynningu á þessari breytingu og ekki úr vegi að fjalla lítillega um hana hér.  Hvernig stendur á þessari einstæðu öfugþróun ?

Svar við þessari áleitnu spurningu fæst með því að virða fyrir sér neðangreinda töflu um skiptingu olíunotkunar landsmanna (benzín hér talið til olívara) árið 2016 (Mt=milljón tonn):

  1. Flugvélar og flutningaskip:  0,980 Mt eða 68 %
  2.  Samgöngur á landi:          0,295 Mt eða 20 %
  3. Fiskiskip:                   0,135 Mt eða  9 %
  4. Iðnaður:                     0,050 Mt eða  3 %

_____________________________________________________

 

Heildarnotkun á fljótandi eldsneyti 2016: 1,46 Mt

Af þessu mikla magni nam innlend notkun, þ.e. sú, sem Parísarsamkomulagið frá 2015 spannar, aðeins 0,48 Mt eða 33 %.  

2/3 hlutar falla undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og þar af eru á að gizka 80 % notkun flugfélaganna eða 0,79 Mt.  Þeir aðilar munu þurfa að greiða hundruði milljóna ISK á ári úr þessu fyrir alla sína losun gróðurhúsalofttegunda utan heimilda.  Þetta mun bitna sérstaklega harkalega á fyrirtækjum í miklum vexti, eins og t.d. Icelandair og VOW-air. 

Ef eitthvað væri spunnið í íslenzka umhverfisráðherrann, mundi hún beita sér fyrir því, að drjúgur hluti af þessu mikla fé fengi að renna til landgræðslu á Íslandi, þar sem er stærsta samfellda eyðimörk í Evrópu.  Annað heyrist varla frá henni en hnjóðsyrði í garð íslenzkra stóriðjufyrirtækja.  Nú síðast gelti hún í átt að PCC-kísilverinu á Bakka við Húsavík, sem Þjóðverjar reisa nú með Íslendingum og sem farið hefur fram á 2 ára aðlögunartíma að nýákvörðuðum ströngum rykkröfum.  Alls staðar tíðkast, að fyrirtækjum er gefinn slíkur umþóttunartími, á meðan verksmiðjur eru teknar í notkun, framleiðslubúnaður beztaður, mælitæki stillt og kvörðuð og mannskapur þjálfaður.  Téður þingmaður og núverandi ráðherra tjáir sig iðulega áður en hún hugsar, og þá vella upp úr henni löngu áunnir fordómarnir.  Vinnubrögðin við friðlýsingu Breiðamerkurlóns og grenndar voru sama flaustursmarkinu brennd.  

 Hún hefur líklega ekki gert sér grein fyrir því, hver mesti mengunarvaldurinn af íslenzkri starfsemi er nú um stundir.  Það er flugið, sem losar yfir 7,1 Mt/ár af kolefnisígildum.  Það, sem losað er í háloftunum hefur tæplega 3 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en það sem losað er á jörðu niðri á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er.  Flugið hefur 45 % meiri gróðurhúsaáhrif en öll önnur starfsemi á Íslandi að millilandasiglingum meðtöldum.

Eldsneytisnýtni hefur batnað mikið í öllum geirum, einna mest í samgöngutækjum á landi.  Árið 2016 var umferðin 21 % meiri en árið 2008.  Samt nam eldsneytisnotkun umferðarinnar aðeins 95 % árið 2016 af notkuninni 2008.  Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun per km hefur minnkað um 27 % á 8 árum. Eldsneytisnotkun ökutækja hefur vaxið um 54 % frá viðmiðunarárinu 1990 og nam árið 2016 62 % af notkun fljótandi eldsneytis innanlands.  Árið 1990 nam eldsneytisnotkun ökutækja um 192 kt, og markmiðið um 40 % samdrátt þeirrar notkunar árið 2030 þýðir, að þessi eldsneytisnotkun þarf þá að hafa minnkað niður í 115 kt, sem aftur á móti þýðir minnkun frá núverandi gildi um a.m.k. 180 kt/ár eða yfir 60 %.  

Þetta jafngildir fækkun jarðefnaeldsneytisknúinna ökutækja um 225´000 (225 k) á næstu 13 árum.    

Er raunhæft, að unnt verði að ná þessu markmiði ?  Nei, það er útilokað, þegar þess er gætt, að ný umhverfisvæn ökutæki í ár verða aðeins um 1/10 af þeim fjölda, sem þau þurfa að verða árlega að meðaltali fram til 2030.  Það hefur of miklum tíma verið sóað, og nauðsynlegar forsendur, sem eru innviðauppbygging, eru allt of sein á ferð.  Yfirvöld verða að venja sig af því að setja markmið út í loftið. Það hafa oft verið sett erfið markmið, en hafi þeim verið náð, hefur undantekningarlaust þegar verið hafizt handa kerfisbundið við að ná þeim.   

Það á alls ekki að reyna að þvinga fram meiri hraða á orkuskiptum með vanbúna innviði með illa ígrunduðum og íþyngjandi aðgerðum, t.d. með hækkun kolefnisgjalds.  Fjölskyldubíllinn er þarfaþing, og sumir eru á mörkunum að hafa ráð á honum.  Það er ósæmilegt að gera þessu og öðru fólki lífsbaráttuna enn erfiðari með því hagfræðilega glapræði að hækka enn opinberar álögur á eldsneyti, sem þegar eru um helmingur af söluverðinu til neytenda, þótt aðeins helmingur skattteknanna skili sér til Vegagerðarinnar.  Vegagerðin þarf þegar í stað um helming af því, sem ríkissjóður fær ekki af bílakaupum landsmanna og rekstri bílaflotans eða um 15 miaISK/ár í viðbótar framlög frá ríkissjóði til að koma vegakerfinu í mannsæmandi horf á einum áratugi.  

Til að flýta fyrir orkuskiptum í umferðinni er hins vegar ráð að efla enn innviðina, t.d. að gera öllum bíleigendum kleift að hlaða rafgeyma við sín heimahús og á viðkomustöðum á ferðum um landið, t.d. við hótel og gististaði og á tjaldsvæðum.  Auðvitað þarf jafnframt að virkja og að efla stofn- og dreifikerfi raforku til að anna aukinni raforkuþörf. Hér er um stórfelldar fjárfestingar að ræða, en þær eru þjóðhagslega hagkvæmar vegna gjaldeyrissparnaðar, og þær eru hagkvæmar fyrir bíleigandann, því að rekstrarkostnaður bílsins lækkar um allt að 75 % m.v. núverandi orkuverð, sé bíllinn alfarið knúinn rafmagni. 

Það er tæknilega og fjárhagslega raunhæft, að íslenzka vegaumferðin verði orðin kolefnisfrí árið 2050, en til þess þurfa forsendur að vera í lagi, og það þarf enn meiri tímabundna hvata, t.d. skattaafslátt við kaup á nýjum umhverfisvænum bíl, fasta upphæð á bilinu MISK 1,0-2,0.  Það kostar klof að ríða röftum.  

Næst mesti jarðefnaeldsneytisnotandinn innanlands eru útgerðirnar, stórar og smáar, með sín fiskiskip. Á þeim vettvangi hefur einnig orðið mikil orkunýtniaukning frá viðmiðunarárinu 1990, er olíunotkun útgerðanna var nánast sú sama og ökutækjanna eða um 200 kt.  Árið 2016 nam hún aðeins um 135 kt, og höfðu útgerðirnar þá sparað 95 kt/ár eða 33 %.  Þetta hafa þær aðallega gert með fækkun togskipa og endurnýjun þeirra, þar sem nýju skipin eru hönnuð m.v. hámarks orkusparnað.  Það er líka þróun í hönnun veiðarfæra m.a. til að minnka orkunotkun skipanna við togið. Þar sem "veiðanleiki" hefur vaxið með aukinni fiskigengd í lögsögu Íslands, tekur styttri tíma en áður að sækja hvert tonn.  Allt hefur þetta leitt til þess, að flotinn notar nú minni olíu en áður til að sækja hvert tonn sjávarafla.  

Það er eldsneytiskostnaður, sem áður knúði á um orkusparnað, og nú hafa aukin umhverfisvitund og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum bætzt við.  Útgerðarmönnum mun alveg áreiðanlega takast með frekari fjárfestingum að draga úr olíunotkun sinni um 40 % frá 1990 og komast niður í 125 kt árið 2030 og losna þar með við kolefnisrefsingu Rannsóknarréttarins nýja.  Þar að auki hafa útgerðarmenn verið í viðræðum við Skógrækt ríkisins um bindingu koltvíildis með trjárækt.  Hver veit, nema útgerðarmenn muni selja koltvíildiskvóta áður en yfir lýkur ?

Það, sem stjórnvöld hérlendis þurfa að gera núna, er að rafvæða hafnirnar rækilega, svo að útgerðir þurfi ekki að brenna olíu, þegar skipin eru bundin við bryggju.  Þá er þegar orðið raunhæft að knýja báta með rafmagni, svo að brýnt er að fá rafmagn úr landi.  Um borð er þá lítil dísil-ljósavél til að hlaða rafgeymana, ef þörf krefur.  Þetta krefst háspennts dreifikerfis um helztu hafnir landsins.  Hönnun á því þarf að hefjast strax, og ríkið þarf að leggja fram jákvæða hvata fyrir dreifiveiturnar til þessara verkefna.  Lítið hefur heyrzt af slíku frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins, þótt ekki skorti nú fimbulfambið um orkuskipti. 

Stærri skipin geta brennt blöndu af lífdíselolíu og skipaolíu allt upp í 20 % af lífdísel og meir með breytingum á vél.  Nota má repjuolíu sem lífdísel.  Repju er hægt að framleiða hérlendis, svo að reisa þarf verksmiðju fyrir olíuvinnslu og mjölvinnslu.  Ef hægt verður að selja mjölið á 100 ISK/kg, t.d. til innlends laxeldis, þá verður þessi olíuvinnsla hagkvæm við olíuverðið 1100 USD/t, CIF. Hér gæti ríkisvaldið einnig komið að með fjárhagslega hvata, svo að hægt væri að hefjast handa strax.  Sem dæmi má nefna að veita tímabundinn afslátt á skattheimtu af rafmagni til slíkrar verksmiðju.  Um miðja þessa öld verður íslenzki sjávarútvegurinn vafalaust orðinn kolefnisfrír.

Iðnaðurinn hefur einnig staðið sig mjög vel, því að árið 2016 hafði hann dregið úr olíubrennslu sinni um 44 kt/ár frá viðmiðunarárinu.  Þetta hefur hann gert með því að rafvæða kyndingu hjá sér.  Sem dæmi má taka ISAL.  Fyrirtækið hefur ekki aðgang að jarðhitaveituvatni, svo að fyrstu tvo áratugina voru notaðir tveir olíukyntir gufukatlar, en í lok 9. áratugarins var keyptur 5,0 MW, 11 kV, rafhitaður gufuketill af innlendum framleiðanda, sem um þær mundir leysti fjölda olíukatla af hólmi hérlendis með framleiðslu sinni.

Heildarlosun mannkyns á koltvíildi, CO2, nam árið 2016 um 34 milljörðum tonna.  Heildarlosun Íslendinga er sem dropi í hafið, og það skiptir engu máli fyrir hlýnun jarðar, hvort markmiðið um minnkun losun landumferðar á Íslandi um 40 % árið 2030 m.v. 1990 næst eða ekki.  Aðalatriðið í þessu samhengi er, að landið verði orðið kolefnisfrítt árið 2050 að meðreiknuðum mótvægisaðgerðum á sviðum, þar sem tæknin býður þá enn ekki upp á kolefnisfríar lausnir.  Það er þess vegna með öllu óþarft af stjórnvöldum að leggja íþyngjandi álögur á landsmenn í einhvers konar tímahraki, sem stjórnvöld eiga sjálf sök á með sinnuleysi.   

 

 

 

 


Dýrkeypt markmið

"Útlit er fyrir, að íslenzka ríkið muni þurfa að verja milljörðum [ISK] til kaupa á kolefniskvóta á næsta áratug. Ástæðan er aukning í losun gróðurhúsalofttegunda þvert á það markmið stjórnvalda, að hún verði um 20 % minni árið 2020 en 2005."

Þetta kom fram í frétt Baldurs Arnarsonar,

"Losunin eykst þvert á markmiðin",

sem Morgunblaðið birti 21. júlí 2017.  Ekki er víst, að allir landsmenn hafi verið meðvitaðir um skuldbindandi markmið landsins fram til 2020. Fram kom í fréttinni, að sá þáttur losunarinnar, sem yfirvöld hérlendis hafa skuldbundið sig til að minnka, nemur um þessar mundir aðeins um 40 % af heildarlosun Íslendinga, en 60 % falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, ESB, með losunarheimildir, s.k. ETS-kerfi. 

Þar undir eru fyrirtæki á sviði orkukræfs iðnaðar, skipafélögin og flugfélögin, sem munu fá síminnkandi árlegan losunarkvóta úthlutaðan og verða að kaupa sér losunarheimildir á markaði, ef þau ekki draga úr losun sinni að sama skapi.  Verðið er um þessar mundir um 5 EUR/t CO2, en gæti farið yfir 30 EUR/t CO2 fljótlega á næsta áratugi til þessara fyrirtækja, en kannski fá ríkisstjórnir afslátt.  Þeir, sem minnkað hafa sína losun, eru aflögufærir, og sé hagnaður sáralítill af starfsemi, getur borgað sig hreinlega að loka og selja losunarkvóta sinn á hverju ári.  Ekki er ólíklegt, að íslenzkar útgerðir og iðnaður (utan stóriðju) muni geta selt losunarheimildir, því að losun þeirra frá 1990 hafði árið 2016 minnkað um 35 % og 47 % (í sömu röð).

Síðan segir í fréttinni:

"Fram kom í Viðskipta-Mogganum í gær, að Icelandair hefði keypt kolefniskvóta fyrir tæpan milljarð [ISK] frá ársbyrjun 2012 [í 5 ár-innsk. BJo].  Hugi [Ólafsson, skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu] segir, aðspurður, að kaup ríkisins gætu orðið af þeirri stærðargráðu vegna tímabilsins 2013-2020 [8 ár].  Síðan kunni að taka við frekari kvótakaup."

Fram kemur í fréttinni, að upphafshugmyndir um áform á brauðfótum hafi komið fram í aðgerðaráætlun Umhverfisráðuneytisins árið 2010 um loftslagsmál.  Þar var þá ráðherra Svandís nokkur Svavarsdóttir og virðist téð "aðgerðaáætlun" að mestu hafa verið innantómt plagg, þ.e. nánast engin eftirfylgni virðist hafa átt sér stað.  Samt mátti hún vita, að hún var að skuldbinda ríkissjóð til fjárútláta út fyrir landsteinana með þessari illa ígrunduðu áætlun. Þetta kallast fjármálalegt ábyrgðarleysi.   

Þessi "aðgerðaáætlun" virðist vera upphafið að þeim vítaverðu skuldbindingum, sem nú eru að binda ríkissjóði milljarða íslenzkra króna (ISK) bagga.  Þetta er algerlega ábyrgðarlaust atferli embættismanna, sem gera áætlanir, reistar á sandi (kolröngum forsendum, sem þeir gefa sér út í loftið) og gera litlar eða alls ófullnægjandi ráðstafanir til, að þróun eldsneytisnotkunar verði, eins og þeir láta sig dreyma um.  Þar liggur ábyrgðarleysið.  Umhverfisráðherrarnir skrifa svo undir vitleysuna og botna ekkert í því, að það eru allt aðrir kraftar að verki úti í þjóðfélaginu en í fundarherberginu, þar sem fallegu glærurnar eru til sýnis.

Þegar aðgerðaráætlunin um losun frá landumferð var samin fyrir áratuginn 2011-2020, þá ríkti enn samdráttur í hagkerfinu.  Það er vel þekkt, að jákvætt samband ríkir á milli umferðarþróunar og breytinga á vergri landsframleiðslu.  Það dæmalausa fólk, sem árið 2010 gerði áætlun um 23 % minni losun koltvíildis frá landfartækjum árið 2020 en árið 2008, þ.e. úr 974 kt í 750 kt, hlýtur að hafa reiknað með efnahagsstöðnun langleiðina til 2020.  Hvílík framtíðarsýn þessa starfsfólks vinstri stjórnarinnar, sálugu.  (Vinstri grænir eru reyndar á móti hagvexti.)

Stjórnvöld 2009-2013 lögðu reyndar lóð sín á vogarskálar samdráttar og síðar stöðnunar með gegndarlausum skattahækkunum, og það hefði vafalaust verið haldið áfram á sömu braut á síðasta kjörtímabili, ef kjósendur hefðu ekki fleygt yfirlýstum andstæðingum hagvaxtar út úr Stjórnarráðinu vorið 2013.  Tekjuakattur var í kjölfarið lækkaður hjá flestum, og almenn vörugjöld og tollar afnumin, auk þess sem virðisaukaskattkerfið var lagfært.  Skattar eru samt í hæstu hæðum á Íslandi.  Byrja mætti með að lækka fjármagnstekjuskatt niður í 15 % til að efla sparnað, hækka frítekjumarkið til jöfnunar og lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 15 % til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins á Íslandi.   

Þróun umferðar varð sú, að strax árið 2013 varð viðsnúningur, og hún tók þá að aukast.  Losun jókst þó ekki árið 2013, þegar hún nam 851 kt CO2, sennilega vegna sparneytnari ökutækja, en strax árið eftir tók losun frá umferð að aukast, og árið 2016 var svo komið, að hún nam um 932 kt CO2 og var þá um 115 kt meiri en embættismenn höfðu gert ráð fyrir árið 2010.

Það er til merkis um bætta eldsneytisnýtni bílvéla á 8 ára tímabilinu 2008-2016, að þótt umferðin væri 21 % meiri í lok tímabilsins en í upphafi þess, hafði eldsneytisnotkunin samt dregizt saman um 5 %. Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun á hvern ekinn km hefur minnkað um 27 %.  

 

Ef gert er ráð fyrir, að umferðin verði 15 % meiri árið 2020 en árið 2016 og bætt eldsneytisnýtni og umhverfisvænar vélar leiði af sér aðeins 10 % elsneytisaukningu á þessu 4 ára tímabili, mun losun landumferðar nema 1,0 Mt CO2 árið 2020, sem er 0,25 Mt eða þriðjungi meira en "aðgerðaáætlun" embættismanna hljóðaði upp á árið 2010. Þetta er stór og dýr villa við áætlanagerð.   

Sú vitlausa áætlun var nefnilega skuldbindandi gagnvart ESB, svo að losun umfram áætlun þarf að greiða kolefnisskatt af.  Ef ríkissjóður þarf að greiða fyrir þennan kvóta núgildandi verð í Evrópu, um 5 EUR/t CO2, þýðir það útgjöld vegna heimskulegrar "aðgerðaáætlunar" íslenzkra embættismanna og ráðherra upp á MEUR 1,3 = MISK 150 fyrir árið 2020 og sennilega 3,0 MEUR = MISK 370 vegna áranna á undan, þegar losunin var meiri en samkvæmt áætluninni. Uppsafnaður kolefnisskattur á Íslendinga til ESB fram til 2020 vegna illa kynntrar og illa unninnar áætlunar íslenzkra embættismanna mun nema a.m.k. hálfum milljarði ISK.  Þetta nær engri átt, nema fénu verði öllu veitt til landgræðslu á Íslandi til mótvægis.  

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er með lausn á takteinum, sem felur í sér "neikvæðan hvata" fyrir kaupendur nýrra bíla til að kaupa jarðefnaeldsneytisknúna bíla.  Hann sagði í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í frétt í Morgunblaðinu 18. júlí 2017 undir fyrirsögninni:

"Loftslagsstefna í hættu":

 "Síðasta ríkisstjórn byrjaði á því að lækka skatta á kolefni og gaf þau skilaboð, að ekki stæði til að draga úr umferð [það var verið að koma hjólum atvinnulífsins í gang, eftir að vinstri stjórnin hafði sett skít í tannhjólin með miklum skattahækkunum - innsk. BJo].  Árið 2013 tók bílasala kipp, og hefur hún aukizt síðan.  Stór hluti af þeirri aukningu er vegna ferðaþjónustu.  Þessi stjórn hefði þurft að hækka gjöld á losun kolefnis frá samgöngum og annarri starfsemi."

Þetta er aðferð vinstri aflanna við neyzlustýringu.  Hún er ekki vænleg til árangurs, og hún hefur neikvæð aukaáhrif, eins og hækkun verðlags og dregur úr hagvexti.  Hún kemur illa við bíleigendur, sem reka bíl af litlum efnum og ná vart endum saman. 

Miklu vænlegra er að fara leið jákvæðra hvata til að kaupa bíla, sem alls engu jarðefnaeldsneyti brenna, þ.e. rafbíla og vetnisbíla.  Þegar hafa verið felld niður vörugjöld og virðisaukaskattur á þessi ökutæki.  Nú er brýnt að hraða uppsetningu hleðsluaðstöðu rafbíla á bílastæðum í þéttbýli og dreifbýli, einkum við íbúðarhús.  

Þegar almenningur metur innviði fyrir umhverfisvæna bíla fullnægjandi fyrir sig, mun hann vafalaust í auknum mæli velja þá frekar en hina, því að rekstrarkostnaður þeirra er allt að 75 % lægri en hinna.  Þá þarf að láta kné fylgja kviði og veita skattaafslátt við slík kaup.  Er ekki vitlegra að leyfa fólki og fyrirtækjum að draga MISK 1,0-2,0 frá skattskyldum tekjum sínum við kaup á nýjum rafbíl eða vetnisbíl til að flýta fyrir orkuskiptunum en að greiða hundruði milljóna ISK á ári í refsingu til ESB á hverju ári ?  Hvað verður eiginlega um allt þetta refsigjald ?  Mun vitlegra væri að beina þessu fé til landgræðslu á Íslandi til bindingar á kolefni úr andrúmsloftinu en að senda það í einhverja svikamyllu niðri í Evrópu.  

 

   

 


Flaustursleg reglugerð

Sjávarútvegsráðherra setti þann 13. júlí 2017 reglugerð um álagningaraðferð og innheimtu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.  Reglugerðin er m.a. reist á lögum frá 2012 um veiðigjöld.  Segja má, að ráðherra þessi hafi hrakizt frá einu axarskaptinu til annars, síðan hún tók við þessu embætti.  Hún glutraði hér niður gullnu tækifæri til að sýna, að hún hefði loks náð tökum á þessu vandasama starfi, sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála gegnir.  Þar sem hún kaus að sveigja hvergi af leið, þótt allar aðstæður í sjávarútvegi byðu svo á að horfa, stefnir hún nú á að magna ósanngirnina, sem í þessari endemis skattheimtu, veiðigjöldum, felst.  Verður hér reifað í hverju þessi ósanngirni felst.  Ráðherra þessi ber kápuna á báðum öxlum í samskiptum sínum við hagsmunaaðila, sem til ráðuneytis hennar leita, eins og nýjustu fréttir af viðskiptum hennar við bændaforystuna benda til.

Fyrst verður vitnað í lok forystugreinar Morgunblaðsins 14. júlí 2017, 

"Afkáralegir ofurskattar":

"Allt frá því að vinstri stjórnin setti ný lög um veiðigjöld sem hluta af umfangsmikilli skattahækkunarstefnu sinni, hefur verið varað við því, að gjöldin væru allt of há og að afleiðingarnar gætu orðið þær, sem nú hefur komið í ljós.  Það blasir við, að ekki er hægt að bjóða undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar upp á slíka ofurskatta, sem að auki eru svo afkáralegir í framkvæmd."

Það er enn látið viðgangast, að sjávarútvegurinn, einn allra, greiði fyrir aðganginn að náttúruauðlind allra landsmanna, en þær eru þónokkrar, eins og kunnugt er.  Þetta veikir samkeppnisstöðu sjávarútvegsins bæði innanlands og utan og er hrópandi óréttlæti til lengdar.  Dæmi um greinar, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeign, eru fjarskiptafyrirtækin, ferðaþjónustustarfsemi í þjóðlendum, virkjunarfyrirtækin og fyrirtæki með fiskeldi í sjókvíum.  Það er óskiljanlegt, að ekki skuli enn vera gerður reki að samræmdu nýtingargjaldi náttúruauðlinda.  Halda ráðherrar, að nóg sé að sýna myndavélum tanngarðinn ?

Í ljósi þess, að staða útgerðanna tók stakkaskiptum til hins betra eftir að full innleiðing fiskveiðistjórnunarkerfisins frá 1984 var farin að virka á hag útgerðanna, þá er ekki óeðlilegt, að útgerðirnar greiði af auðlindarentunni, en það stríðir gegn Stjórnarskrá ríkisins að heimta ekki að sama skapi auðlindagjald af öllum nýtingaraðilum á landi, í lofti og á sjó, með sömu útreikningsaðferðum, svo að jafnræðis atvinnustarfsemi sé gætt.  Sýnir það mikið döngunarleysi stjórnvalda að hafa enga sýnilega tilburði uppi í þessa átt.

 Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, SÍF, hafði þetta að segja við Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum, 11. maí 2017, um tekjurýrnun sjávarútvegsins árið 2017 m.v. 2015, sem er viðmiðunarár veiðigjaldanna fiskveiðiárið 2017/2018:

"Ef tekið er tillit til gengis og verðvísitölu sjávarútvegsins, þá má áætla, að tekjur vegna bolfiskafurða, svo að dæmi sé tekið, verði um miaISK 25-30 lægri árið 2017 en þær voru árið 2015."

Þetta er meira en fjórðungslækkun tekna í þessari grein, enda hefur gengið styrkzt um 26 % frá upphafi árs 2014.  Á kostnaðarhlið hefur orðið lækkun á olíuverði um 20 %-30 % 2015-2017 og hækkun á launalið, þar sem launavísitala gagnvart sjávarútvegi hefur hækkað um 27 % á sama tíma (laun í landvinnslu hafa hækkað um 25 % - 30 %). 

Heildaráhrif þessara breytinga eru mikil á framlegðina, sem er það, sem eftir er, þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá tekjunum, og verður þá til skiptanna til að greiða afborganir og vexti, skatta, veiðigjöld, arð og að fjárfesta fyrir.  Þessi mismunur þarf að vera yfir 20 % af tekjum, svo að vel sé, ella er út í hött að tala um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem myndi andlag veiðigjalds.  Framtíðarkerfi ætti þess vegna að miða við, að falli framlegð undir 20 %, þá falli auðlindagjald á viðkomandi fyrirtæki niður fyrir sama tímabil. 

Árið 2015 áraði vel í sjávarútvegi, enda nam vegið meðaltal framlegðar botnfiskveiða og botnfiskvinnslu þá um 27 %.  Áætlun SFS um framlegð sömu aðila árið 2017 er aðeins 16 %.  Af þessum ástæðum er nýsett reglugerð sjávarútvegsráðherra um forsendur veiðigjalds fiskveiðiárið 2017/2018 óskiljanleg, og engu er líkara en þar fari efnahagslegur blindingi með völdin.  Þessi ákvörðun mun hækka veiðigjöldin upp í um miaISK 11, sem er meira en tvöföldun frá fiskveiðiárinu 2016/2017 og mun ríða allmörgum útgerðum að fullu og skerða getu hinna til nýsköpunar.  

Ráðherrann lét hjá líða að taka tillit til mikillar lækkunar fiskverðs við ákvörðun sína og á þeim grundvelli að framlengja áður gildandi afslátt á veiðigjöldum til skuldsettra fyrirtækja.  Þetta er óafsakanlegt í ljósi stöðunnar.  Þá hefði hún átt að gera ráðstafanir til að taka tillit til minni framlegðar lögaðila, sem veiðigjöld eru lögð á.   Hlutfall ofangreindra heildarframlegða er 16/27=59 %.  Ef því væri beitt á útreiknað veiðigjald og síðan veittur hefðbundinn afsláttur vegna skuldsetningar fyrirtækis, þá yrði sennilega lítil breyting á upphæð veiðigjalda nú á milli fiskveiðiára. Óbreytt veiðigjöld á næsta fiskveiðiári m.v. núverandi er hámark þess, sem sanngjarnt getur talizt.  Sjávarútvegsráðherra er ekki að vinna vinnuna sína.  Hverra erinda gengur hún eiginlega ?

Sjávarútvegsráðherra segir nú, að hún hafi lengi verið talsmaður breytinga á veiðigjöldum.  Talsmáti hennar hingað til hefur hins vegar allur verið til hækkunar á þeim, og opinberar hún þannig skilningsleysi sitt á sambandi skattheimtu, nýsköpunar og fjárfestinga.  Það er mjög bagalegt að sitja uppi með slíkan sjávarútvegsráðherra.

Í þessu sambandi skal vitna til niðurlags téðs viðtals Fiskifrétta við Hallveigu Ólafsdóttur:  

"Að lokum verður ekki hjá því komizt að nefna umræðu um að auka gjaldtöku í sjávarútvegi.  Sérstakar álögur eru nú þegar fyrir hendi í formi veiðigjalda, og heildarfjárhæð þeirra hefur á umliðnum árum verið áþekk þeim tekjuskatti, sem sjávarútvegur greiðir.  Það er því mikilvægt, þegar kallað er eftir auknum sérstökum álögum á atvinnugreinina, að stjórnmálamenn horfi bæði á þau rekstrarskilyrði, sem fyrirtæki standa frammi fyrir, og taki tillit til þeirrar fjölbreyttu flóru íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem nú er raunin. Sjávarútvegsfyrirtæki eru jafnmisjöfn og þau eru mörg, bæði að því er stærð og fjárhagslega stöðu varðar.  Þau eru því mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við auknar gjaldtökur.  

Fjölbreytileiki er einn af styrkleikum íslenzks sjávarútvegs og lykill að samkeppnishæfni greinarinnar.  Það er mikilvægt að gleyma ekki þessari staðreynd, þegar rætt er um aukna gjaldtöku."

Sjávarútvegsráðherra gerir sig nú líklega til að vega að sjávarútveginum, eins og rakið hefur verið.  (Það, sem sauðfjárbændur hafa til málanna að leggja við hana varðandi markaðsstöðu lambakjötsins erlendis og mótvægisaðgerðir fer inn um annað eyrað og út um hitt.) Hún mun þar með draga úr þeim styrkleika, sem hagfræðingur SFS nefnir og er fjölbreytni fyrirtækjanna.  Nú reka um 1000 lögaðilar útgerð í landinu.  Ætlar sjávarútvegsráðherra með sinni hugsunarlausu reglugerð meðvitað með atbeina skattheimtuvalds ríkisins að fækka þeim ?  Að óreyndu hefði maður haldið, að ríkisvaldið, ráðherra, myndi forðast að gera erfitt ástand útgerðanna enn verra og verða þar með valdur að óþarfa fækkun útgerðanna. Ráðherra, sem vinnur gegn hagsmunum útgerðanna í landinu, vinnur gegn hagsmunum hagkerfisins og þar með heildarinnar.  

Sjávarútvegsráðherra skýtur sér gjarna á bak við nefnd, sem hún skipaði í byrjun maí 2017 undir formennsku Þorsteins Pálssonar, flokksbróður síns og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.  Nefnd þessi á að skila af sér drögum að lagafrumvarpi eigi síðar en 1. desember 2017.  Við því er ekki að búast, að lög, sem reist yrðu á vinnu þessarar nefndar, taki gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2018/2019, og þess vegna hefði ráðherrann átt að gera bráðabirgða bragarbót á reiknireglum veiðigjalds í nýju reglugerðinni, sbr það, sem sett er fram hér að ofan.

Ráðherrann hefur hreykt sér af því að hafa skipað "þverpólitíska" nefnd, sem leita eigi sátta um sjávarútvegsmál.  Ráðherrann fór þó illa að ráði sínu við samsetningu þessarar nefndar.  Ef hún á annað borð átti að vera "þverpólitísk", þá þurfti hún auðvitað að endurspegla styrkleikahlutföllin á þingi.  Því fer hins vegar víðs fjarri, og getur hún vart kallast lýðræðislega valin.  

Það er svo önnur saga, að þessi aðferðarfræði ráðherrans er ólíkleg til árangurs, hvað þá að ná sáttum á pólitískum forsendum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.  Miklu nær hefði verið að leita til fiskihagfræðinga, innlendra og jafnvel erlendra, og hagsmunaaðilanna í greininni, sem í sameiningu mundu reyna að finna þjóðhagslega hagkvæmustu stjórnunaraðferðina í ljósi reynslunnar bæði innan lands og utan.  Samkvæmt því, sem gerst er vitað nú, er slíkt framtíðarstjórnkerfi fiskveiða keimlíkt núverandi kerfi.  

Útgerðarfyrirtækin, stór og smá, eru kjölfesta byggðarinnar við strandlengju landsins.  Þau standa í harðri samkeppni innanlands og utan og þurfa svigrúm til hagræðingar til að standast samkeppnina.  Í fordómafullri umræðu í garð þessara fyrirtækja, sem gjarna gýs upp, þegar hagrætt er, og ráðherrann er ekki saklaus þar, gleymist oft, að ekki er allt sem sýnist; fyrir tilverknað útgerðarfélaga hefur vaxið upp klasi sprotafyrirtækja, sem allmörgum hefur vaxið fiskur um hrygg með auknum fjárfestingum útgerða og fiskvinnslufyrirtækja.  Þetta gerði Jens Garðar Helgason, formaður SFS, að umræðuefni á ársfundi samtakanna 19. maí 2017:

"Á Akranesi hefur byggzt upp þekkingarfyrirtækið Skaginn með 170 starfsmenn, sem einmitt byggir á því, að íslenzkur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.

Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu.  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu, þegar fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185, og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annars staðar hjá fyrirtækinu - annaðhvort á Akranesi eða í Reykjavík ?  Akranes er 6´800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík.  Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum.  Tíu milljarðar, sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar.  Samfélag, sem er einn tíundihluti Akraness í 700 km fjarlægð frá Reykjavík.  Að halda því fram, að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg, er í einu orði sagt "galið"."

Á þessum sama ársfundi benti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, á, að íslenzkur sjávarútvegur hefði ekki orðið arðbær fyrr en á 21. öldinni.  Þessi staðreynd er nauðsynlegt skilyrði, en ekki nægilegt, fyrir því að álykta, að haldið hafi verið inn á rétta braut með innleiðingu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins árin 1984 og 1990.  Þessi hagnaður er undirstaða velmegunar í flestum íslenzkum sjávarplássum, sem er þá algerlega háð núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans, eins og téður Ásgeir hélt fram. Jafnframt sagði hann, "að það væri mýta [goðsögn], að kvótakerfið hefði komið landsbyggðinni á kaldan klaka.  Samkeppnishæfur sjávarútvegur væri forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi".  

Stjórnmálafólk, sem ekki áttar sig á þessum staðreyndum, á vart erindi á Alþingi Íslendinga, hvað þá í ríkisstjórn.  

Hitt skilyrðið, sem með arðsemisþættinum leyfir að álykta sem svo, að haldið hafi verið inn á rétta braut við innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, er, að það felur í sér hvata til sjálfbærrar nýtingar veiðistofnanna og að það hefur í raun umbylt veiðunum við Ísland úr ósjálfbærri nýtingu auðlindarinnar í sjálfbæra nýtingu, eins og viðsnúningur þorskstofnsins til hins betra er gleggsta dæmið um. 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband