Færsluflokkur: Dægurmál

Efling á réttum tíma

Hröð þróun á sér nú stað í sjávarútvegi til að treysta samkeppnistöðu greinarinnar á tímum lækkandi fiskverðs, a.m.k. í krónum (ISK) talið.  Gríðarlegar og tímabærar fjárfestingar eiga sér nú stað í nýjum fiskiskipum, sem leiða munu til mikillar hagræðingar, því að í mörgum tilvikum kemur eitt skip í stað tveggja.  Þetta mun lækka sóknarkostnað á hverja veidda einingu vegna minna mannahalds og gríðarlegs olíusparnaðar.  Einnig styttist úthaldstími, en það er þó aðallega vegna gjöfulli miða, sem eru beinn afrakstur af fórnum fyrri ára við uppbyggingu veiðistofnanna. Að sjálfsögðu eiga hinir sömu nú að njóta eldanna, sem kveiktu þá.  

Fjöldi launþega í sjávarútvegi náði hámarki þessarar aldar árið 2013 og nam þá 10´200 manns, en árið 2017 er búizt við, að meðalfjöldi launþega verði 8´500 í sjávarútvegi.  Launþegum í greininni fækkaði um 600 á 12 mánaða skeiði á milli aprílmánaða 2016 og 2017. Þetta sýnir hraða breytinganna, sem nú ganga yfir.

Sem dæmi um tækniþróun togskipanna má taka frásögn Baksviðs Guðna Einarssonar á bls. 18 í Morgunblaðinu, 17. júní 2017, af nýjum skipum Vinnslustöðvarinnar:

"Skrokklag nýju togaranna er með nýju sniði og skrúfurnar þær stærstu, sem þekkjast, miðað við vélarafl.  Skrúfan er 4,7 m í þvermál.  Með því á að stytta togtímann og nýta vélaraflið til hins ýtrasta.  Áætlað er, að eldsneytissparnaður verði allt að 40 % m.v. hefðbundna togara.  Togararnir geta dregið tvö troll samtímis og hafa þannig 60 % meiri veiðigetu en togari með eitt troll.  Ganghraði Breka í reynslusiglingu var 14 sjómílur."

Þetta eru byltingarkenndar breytingar, og við þessar aðstæður fyllir fiskeldi nú upp í skarð, sem myndast við hagræðingu í sjávarútvegi, heldur uppi atvinnustigi og snýr jafnvel við óheillavænlegri margra ára íbúaþróun, eins og á Vestfjörðum.  Atvinnugreinin er þó ekki gallalaus frekar en önnur atvinnustarfsemi.  Mestar áhyggjur stafa af stroki laxa úr sjókvíaeldiskerum.  Hafrannsóknarstofnun hefur nú lagt fram sínar ráðleggingar um stefnumörkun í greininni, og eru þær nauðsynlegt vegarnesti.  Þar gætir eðlilegrar varfærni nú á byrjunarstigum mikils vaxtarhraða, þar sem ráðlagt hámarkseldi á Vestfjörðum er 50 kt/ár og 20 kt/ár á Austfjörðum.  Með meiri reynslu af sjókvíaeldinu og aukinni þekkingu á starfseminni og umhverfisáhrifum hennar verður grundvöllur til endurskoðunar á þessum tillögum.  Þær fela í sér talsvert vaxtarsvigrúm fyrir sjókvíaeldi á laxi eða sjöföldun m.v. núverandi framleiðslustig.  

Almenningur hefur of lítið verið fræddur um líkindi seiðastroks úr nýrri gerð sjóeldiskvía og afleiðingar þess af vísindamönnum, og upphrópanir og staðleysur hafa sett of mikinn svip á umræðuna.  Þess vegna var grein Arnars Pálssonar, erfðafræðings, í Fréttablaðinu 8. júní 2017, vel þegin.  Hann nefndi hana:

"Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna"

og henni lauk þannig:

"Niðurstöður Bolstad [Geir Bolstad er norskur vísindamaður á sviði erfðafræði - innsk. BJo] og félaga eru óvissu háðar, eins og allar rannsóknir á náttúrunni.  En spurningin er ekki lengur, hvort gen frá eldisfiski hafi áhrif á villta laxastofna, heldur hversu mikil og hvers eðlis þau eru.  Stóra spurningin er: leiðir erfðablöndunin til hnignunar og útdauða villtra stofna ? [Það er nánast útilokað, að slíkt geti gerzt hérlendis, því að laxeldi í sjókvíum er bannað meðfram ströndinni, þar sem helztu laxveiðiár landsins renna í sjó fram. - innsk. BJo]  

Það er full ástæða til að endurskoða laxeldi í sjókvíum hérlendis.  Sérstaklega þar sem íslenzkir laxar eru fjarskyldir eldislaxi.  Ástæðan er sú, að flæði gena frá eldisfiskum getur breytt eiginleikum villtra íslenzkra laxastofna, gert þá minna hæfa í lífsbaráttunni og dregið úr getu þeirra til að þróast í framtíðinni.  

Frændur vorir í Noregi og vinir í Síle hafa brennt sig á flestu, sem hægt er í laxeldi.  Vonandi berum við gæfu til að læra af mistökum þeirra og fórna ekki lífríki vatna og hafs fyrir ódýrar og skammsýnar lausnir í laxeldi."

Það vildi okkur Íslendingum til happs, að iðnaði óx ekki fiskur um hrygg hérlendis fyrr en tækniþróunin var komin svo langt, að hægt var að koma við árangursríkum mengunarvörnum.  Hið sama á við um laxeldið.  Þar er nú að ryðja sér til rúms norsk hönnun sjókvía, sem mjög (a.m.k. um eina stærðargráðu)hefur dregið úr stroki laxa þar.  Jafnframt eru settar upp neðansjávareftirlitsmyndavélar, og fylgzt er með myndum frá þeim allan sólarhringinn.  Þannig er hægt að bregðast strax við stroki og fanga laxinn áður en hann sleppur upp í árnar. 

Með innleiðingu nýrrar tækni á þessu sviði er búið að draga úr líkum á stroki laxaseiða, sem eru reyndar ekki orðin kynþroska, og jafnframt búið að innleiða mótvægisaðgerðir við stroki.  Allt þetta hefur minnkað líkur á stroki upp í árnar, sem blekbóndi mundi ætla, að sé nálægt 1 ppm við eldi samkvæmt gildandi norskum staðli um sjókvíaeldi, þ.e. með 95 % vissu má ætla, að af einni milljón seiða á einu eldissvæði sleppi að jafnaði eitt upp í árnar í viðkomandi firði á ári.  Slíkt sleppihlutfall er skaðlaust fyrir íslenzka náttúru.  Reynslutölur og/eða áætluð gildi um þetta þurfa endilega að birtast frá eldisfyrirtækjunum, samtökum þeirra eða eftirlitsaðilunum, því að framtíð fyrirtækjanna veltur á frammistöðu þeirra í þessum efnum.  

Hins vegar á sér stað annars konar og afar markverð þróun á sviði fiskeldis, sem nánast útilokar þessa áhættu.  Þar er átt við fiskeldi í landkerum.  Á Íslandi njóta þau jarðhita, jafnvel affallsvatns, en raforkunotkun er talsverð vegna dælingar, og þurfa slík fyrirtæki langtímasamning um heildsöluverð á raforku.  Virðisaukaskattur af jarðvarma og raforku er endurgreiddur til útflutningsiðnaðar.  

Matorka hefur hefur hafið eldi á bleikju og laxi á Reykjanesi og áformar að framleiða 3,0 kt/ár f.o.m. 2018.  Fyrirtækið rekur seiðaeldisstöð að Fellsmúla í Landssveit.  Framleiðslugetan þar er 1,0 M (milljón) seiði á ári.  Fyrri áfangi Reykjanesstöðvarinnar getur framleitt 1,5 kt/ár af sláturfiski í 6 kerum.  

Afurðaverðið á slægðri bleikju um þessar mundir er um 800 ISK/kg og um 1710 ISK/kg af flökum.  Fyrir laxinn fæst enn hærra verð.  

Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, sagði eftirfarandi í samtali við Guðjón Guðmundsson hjá Fiskifréttum á bls. 5, fimmtudaginn 22. júní 2017,:

"Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma, sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum [það er fjölnýting á jarðgufu, sem HS Orka aflar í Svartsengi og víðar og er til stakrar fyrirmyndar - innsk. BJo].  Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi, sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum [undirstr. BJo]."

Laxeldi í sjókvíum er þröngur stakkur skorinn, þar sem Suðurströndin hentar ekki, Vesturströndin sunnan Látrabjargs er lokuð laxeldi í sjó og sömuleiðis Norðurströndin, nema Eyjafjörður. Nýleg ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar útilokar líka Ísafjarðardjúp, og Stöðvarfjörð frá laxeldi og leggst gegn aukningu í Berufirði. Þótt burðarþol Vestfjarða, Eyjafjarðar og Austfjarða hafi áður verið lauslega áætlað 200 kt/ár af fiskmassa í sjókvíum, er ólíklegt, að sláturmassinn úr sjókvíum fari nokkurn tíma yfir 100 kt/ár hérlendis af umhverfisverndarástæðum, og frumráðlegging Hafró er 70 kt/ár í sjóeldiskvíum.  Þetta verður þó hægt að bæta upp hringinn í kringum landið, þar sem jarðhita og hagstætt rafmagn er að hafa, með fiskeldi í landkerum.  Líklegt er, að téð frumráðlegging Hafró um starfsleyfi fyrir aðeins helmingi þeirrar framleiðslugetu, sem þegar hefur verið sótt um, muni flýta fyrir þróun landkereldis hérlendis.   

Til að ná framleiðslugetu sláturfisks 100 kt/ár á landi þarf 400 framleiðsluker á stærð við kerin, sem Matorka notar nú.  

Á Austfjörðum fer nú fram ánægjuleg uppbygging laxeldis, sem kemur sér vel fyrir byggðir þar, sem stóðu höllum fæti vegna hagræðingar innan sjávarútvegsins, sem talin var nauðsynleg til að halda velli í samkeppninni.  Þann 20. júní 2017 birtist um þetta frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu,

"10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin":

"Áfangar nást þessa dagana hjá austfirzku laxeldisfyrirtækjunum.  Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn.  Á bilinu 1800 - 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana, og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans."

Þó að hér sé um dágott magn að ræða, er það samt of lítið fyrir hagkvæman rekstur.  Einingarkostnaður verður of hár fyrir samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði, nema hagkvæmni stærðarinnar fái að njóta sín.  Þess vegna sækjast laxeldisfyrirtækin eftir starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir auknu magni.  Má ætla, að stærð eldisfyrirtækjanna hérlendis nái nauðsynlegu lágmarki um 2020 og verði þá slátrað a.m.k. 40 kt.  Stjórnvöld verða að átta sig á þessu, þ.e. nauðsyn á að ná hagkvæmni stærðarinnar, og það eru ábyrgðarlausar úrtölur hjá sjávarútvegs- og landúnaðarráðherra, að nú þurfi að hægja á leyfisveitingaferlinu, enda væru slík stjórnvaldsinngrip óleyfileg samkvæmt núgildandi lögum.  Væri ráðherranum nær að leggja hönd á plóg við þróun sanngjarns afgjaldskerfis fyrir afnot af náttúruauðlind við strendur landsins, eða ætlar hún kannski að innleiða uppboð á téðri auðlind ? 

Eftir að "krítískum massa" er náð hérlendis, e.t.v. um 60 kt/ár í slátrun hjá öllum sjókvía eldisfyrirtækjunum, má þó segja, að 5 %- 15 % árlegur vöxtur sé eðlilegur upp í það gildi, sem talið verður verjanlegt út frá rekstrarreynslunni, stroklíkindum og metnu burðarþoli fjarða.  Þetta gildi verður líklega 70 - 100 kt/ár í sjókvíum hérlendis.

"Bæði fyrirtækin [Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi - innsk. BJo] hafa verið að byggja sig upp, tæknilega.  Hafa [þau] keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.  

Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi.  Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði.  Ekki hefur verið ákveðið, hvar fiskinum verður slátrað.  Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár.  Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir, að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar, og vonast hann til þess, að það fáist, þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári."

Það er brýnt, að stjórnvöld virki ekki sem dragbítar á þessa mikilvægu starfsemi fyrir byggðirnar og þjóðarhag.  Fyrirtækin þurfa sem fyrst að fá vitneskju um það magn, sem í byrjun er ætlunin að leyfa á hverjum stað ásamt fyrirhugaðri aukningu, og þau skilyrði, sem leyfunum fylgja, ásamt auðlindagjaldinu, sem þau mega búast við að greiða, að mestu til viðkomandi sveitarfélaga, vonandi. 

Frétt Helga Bjarnasonar um Fiskeldi Austfjarða, sem birtist á bls. 26 í Morgunblaðinu, 30. júní 2017, lauk þannig:

"Fiskeldi Austfjarða er tilbúið til áframhaldandi stækkunar.  [Fyrirtækið] er vel fjármagnað og hefur aðgang að nauðsynlegri þekkingu, að sögn Guðmundar, og markaður fyrir laxaafurðir er mjög góður.  "Við viljum halda áfram fjárfestingum, ráða fleira fólk og byggja fyrirtækið frekar upp.  Til þess þurfum við skýra framtíðarsýn [stjórnvalda].  Allir, sem að fiskeldi koma, þurfa að ganga í takti", segir Guðmundur Gíslason."

Nú er framtíðarsýn stjórnvalda hérlendis á laxeldi í sjó að fæðast.  Sumir hafa gagnrýnt erlenda hlutdeild í fiskeldi á Íslandi.  Afstaða þeirra einkennist af þröngsýni fremur en þekkingu á gildi beinna erlendra fjárfestinga.  Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir mikilvægi nýrrar tækni- og stjórnunarþekkingar, sem jafnan berst með erlendum fjárfestum, auk fjölþættra markaðssambanda þeirra á birgja- og söluhlið viðskiptanna.  Það er hörmung að hlýða á steinrunninn málflutning um brottflutning arðs erlendra hluthafa.  Þá gleymist, að allt fé kostar og það er sanngjarnt, að sá, sem hættir fé sínu til atvinnustarfsemi hér, njóti eðlilegrar ávöxtunar á sínu fé, ekki síður en aðrir.  Í áhættustarfsemi á borð við laxeldi er allt að 15 %/ár eðlileg ávöxtunarkrafa af eigin fé, en á uppbyggingarskeiði verður ávöxtunin mun minni eða engin, af því að fiskeldi er fjármagnsfrek starfsemi.  Íslenzkar lánastofnanir voru ófúsar að lána innlendum aðilum til uppbyggingar fiskeldis eftir Hrun fjármálakerfisins, og þá var eðlilegt og líklega affarasælt að leita út fyrir landsteinana, enda er þar jafnframt tækniþekkingu á starfseminni að finna.  

Ætli sé á nokkurn hallað, þótt sagt sé, að Arnarlax sé leiðandi fiskeldisfélag á Vestfjörðum.  Í 200 mílum Morgunblaðsins, 31. maí 2017, gat að líta eftirfarandi frásögn Skúla Halldórssonar:

"Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur tekið í notkun nýjan og öflugan fóðurpramma, sem borið getur 650 t af fóðri.  Til samanburðar geta hinir tveir prammarnir í eldinu, sem fyrir voru, aðeins borið 300 t hvor.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir í samtali við Morgunblaðið, að kaupin á prammanum séu liður í öruggri sókn fyrirtækisins, sem stofnað var árið 2009.  

"Þetta er merki um, hvað íslenzkt fiskeldi er orðið faglegt og er að nota nýjustu tækni og tól til uppbyggingar á greininni hér á Íslandi", segir Víkingur.

Pramminn var smíðaður í Eistlandi og kostaði MISK 300 að sögn Víkings.  Allt er til alls þar um borð, eldhús og káetur auk stjórnstöðvar með kraftmiklar ljósavélar. [Starfsemi á borð við þessa er alveg kjörið að rafvæða og jafnvel að vera með rafstreng úr landi. - innsk. BJo]

Arnarlax mun þó ekki láta þar staðar numið. "Við reiknum með, að við smíðum annan pramma af svipaðri stærð.  Það sýnir bara, hversu mikil uppbygging er í þessum geira, sem er í raun orðinn stór iðnaður hér á landi", segir Víkingur.

Pramminn verður settur niður í Tálknafirði síðar í vikunni af sérútbúnu skipi, sem Arnarlax leigir að utan til verksins.

"Það er mjög öflugur vinnubátur, sem er m.a. með kafbát til að skoða allar festingar.  Allt er þetta gert eftir ströngustu kröfum, því að það er það, sem við viljum gera til að koma í veg fyrir hvers kyns óhöpp og slys."

Hérlendis eru hannaðir og smíðaðir fjarstýrðir dvergkafbátar.  Það er ekki ólíklegt, að það muni þykja hagkvæmt að fá slíkan dvergkafbát til eftirlits með eldiskvíum í sjó.  Viðurlög við stroki ógeldra eldislaxa úr sjókvíum þurfa að vera þungbær rekstraraðilum, svo að þeir sjái sér augljósan hag í að fjárfesta í traustasta búnaðinum og að hafa með honum reglubundið, strangt eftirlit, þar sem beitt sé tækni, sem gefur kost á aukinni nákvæmni við eftirlitið.  

""Við [hjá Arnarlaxi] slátrum 10 kt á þessu ári.  Héðan frá Bíldudal flytjum við því 10 kt af ferskum laxi út um allan heim."

Stór hluti laxins fer út til Bandaríkjanna og er seldur í Whole Foods-verzlunum þar í landi, en sömuleiðis er hann fluttur út til Evrópu og Asíu."

Þessi markaðssetning gefur væntanlega hæsta mögulega verðið.  Það hefur undanfarið verið um 1000 ISK/kg, en verðið hefur ekki alltaf verið svona hátt.  Árið 2015 fór að gæta minnkandi framboðs af völdum sjúkdóma í laxeldi í Noregi og í Síle, og árið 2016 nam samdráttur framboðs 7 % frá hámarkinu.  Afleiðingin var 50 % hærra verð en 2014 í USD talið.  Venjulegt verð hafði með öðrum orðum verið undir 700 ISK/kg að núviðri lengst af.  Framlegðin er af þessum sökum há um þessar mundir, og það kemur sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem standa í miklum fjárfestingum við uppbygginguna eða fyrir a.m.k. 4,0 miaISK/ár. 

Sjórinn við Ísland er kaldari en víðast hvar, þar sem laxeldi í sjó er stundað, svo að fiskurinn verður hægvaxnari en ella, en á móti kemur, að hann er hraustari og þarf jafnvel ekki lyfjagjöf.  Takmörkuð eða engin lyfjagjöf ætti að verða eitt af skilyrðum starfsleyfis.  

Hérlendis hlýtur að verða þróun í þá átt, að innlendir framleiðendur til sjós og lands anni þörfum innlends fiskeldis fyrir fóður.  Úr repjuræktun hérlendis á að verða unnt að vinna 50 kt/ár af laxafóðri sem aukaafurð við repjuolíuvinnslu, en fiskeldið hérlendis gæti þurft á að halda 200 kt/ár af fóðri í sjókvíum og landkerum.  Hér er kominn traustur markaður fyrir íslenzka fiskimjölsframleiðendur, ef þeir fara í ákveðið þróunarstarf fyrir þennan markað:

"Fóðrið er allt fengið að utan að sögn Víkings, þar sem enga fóðurverksmiðju er að finna á Íslandi, sem búið getur til fóður af réttum gæðum.  

Styrking ISK hefur því ekki haft jafnslæm áhrif á eldið og raun ber vitni hjá útgerðunum.

"Fóðrið er náttúrulega stærsti kostnaðarliðurinn, og þetta kemur ekki eins hart niður á okkur og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.  En þetta [gengið] hefur samt talsvert að segja.""

 

Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax. Eftir honum er haft í Markaði Fréttablaðsins, 29. júní 2017, að framlegð, EBITDA, árið 2017 sé áætluð um MEUR 20 eða um miaISK 2,3.  Ætla má, að þetta jafngildi ríflega 20 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem er dágóð framlegð, sem gæti staðið undir auðlindagjaldi, t.d. allt að 5 % af framlegð. 

Hins vegar þurrkast framlegðin með öllu út og myndast tap af rekstrinum, ef afurðaverðið lækkar um 12 %.  Í ljósi þess, að nú er tímabundið yfirverð á markaðinum vegna skorts á laxi, þá er bráðnauðsynlegt fyrir þetta fyrirtæki, og önnur í greininni, að lækka hjá sér einingarkostnað, þ.e. að auka framleiðnina.  Mest munar þá um framleiðsluaukningu, eins og vant er: 

"Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12,5 kt/ár á næstu tveimur árum.  Leyfamálin séu þó þröskuldur.  Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu, þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis."

Það er ótímabært og beinlínis skaðlegt að hægja sérstaklega á útgáfu laxeldisleyfa fyrr en þau nema um 60 kt/ár til slátrunar.  Hámarkslífmassi í kvíum er meiri en sláturmassinn.  Það er jafnframt ljóst, að leyfi fyrir 60 kt/ár-100 kt/ár ætti ekki að veita fyrr en á tímabilinu 2020-2025, að öðru óbreyttu, þegar reynsla hefur fengizt við íslenzkar aðstæður af hinni nýju tækni við sjókvíaeldið, sem nú er verið að innleiða, og þegar haldgóð tölfræði er fyrir hendi um umhverfisáhrifin, þ.á.m. strokin úr kvíunum.  

 

 

  

 

 

 

 

 


Af manna í boði borgar

"Berum ábyrgð á eigin heilsu" er slagorð NLFÍ (Náttúrulækningafélags Íslands), og félagið hefur mikið til síns máls með slíkum boðskapi, en hvernig á almenningur að bera ábyrgð á eigin heilsu í höfuðborginni, þegar þvílík endemis leyndarhyggja yfirvalda þar hvílir á óþægilegum mengunarmálum, að almenningur stendur í raun berskjaldaður ?

Í forystugrein Þorbjarnar Þórðarsonar í Fréttablaðinu 11. júlí 2017, "Þagað um mengun", kemur kemur í upphafi fram, að "skólp hafði runnið út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík í 3 vikur, þegar almenningur fékk fyrst upplýsingar um bilun í dælustöð og mengun, sem henni fylgdi."

Miðað við uppgefið rennsli 750 l/s þá hefur óhreinsað skolp út í sjó numið 65 kt/sólarhring (k=þúsund) eða 1,4 Mt (M=milljón) tonnum á umræddum 3 vikum.  Hér er um fáheyrðan atburð að ræða, sem hefur 2 hliðar.  Annars vegar hvílir skýlaus lagaleg tilkynningarskylda á stjórnvöldum (stjórnvaldið er hér Reykjavíkurborg-Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur), þegar hvers konar mengunarslys verða, og hins vegar sýnir hinn langi viðgerðartími fram á, að nauðsynlegar viðbragðsáætlanir Veitna, dótturfyrirtækis OR-Orkuveitu Reykjavíkur, eru annaðhvort ekki til, verklagsreglur vantar, þær eru meingallaðar eða þjálfun og þekkingu starfsfólks er mjög ábótavant.  Þetta er nauðsynlegt að rannsaka, en er núverandi meirihluta borgarstjórnar treystandi til þess ?  Samkvæmt viðbrögðum helztu talsmanna hans eru forkólfar meirihlutans gjörsamlega úti að aka um mikilvæg atriði í borgarrekstrinum og ekki þykir taka því að upplýsa þá um stórbilanir í innviðum borgarinnar.  Þar leiðir blindur haltan. 

Skoðum fyrst tilkynningarskylduna.  Held áfram að vitna í ÞÞ:

"Ákvæði um skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um mengun að eigin frumkvæði kom inn í lög um upplýsingarétt um umhverfismál árið 2012.  Þar segir, að stjórnvöldum sé "ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, sé ástæða til að ætla, að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra."  Þegar Reykjavíkurborg er annars vegar, hvílir upplýsingaskyldan samkvæmt lögunum á borginni sjálfri, stofnunum borgarinnar og fyrirtækjum í hennar eigu."

Það er skýlaust, að Veitur brutu þessi lög með því að tilkynna ekki almenningi strax um, að fyrirtækið hefði ekki lengur stjórn á mengunarvörnum, sem skolphreinsistöðinni við Faxaskjól væri ætlað að sinna, af því að ekki tækist að loka neyðarlúgu fyrir skolp út í sjó.  Veitur hafa ekki gert tilraun til að útskýra þessa bilun eða langa viðgerðartíma.  Hvernig er fyrirbyggjandi viðhaldi háttað ?  Er varahlutahald fyrir lykilþætti starfseminnar í skötulíki.  Á meðan ekkert er upplýst, er tilhneiging til að halda, að sannleikurinn þoli ekki dagsljósið.

Áfram með ÞÞ:

"Greint hefur verið frá því, að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi fengið minnisblað um bilun í dælustöðinni í Faxaskjóli hinn 15. júní og hún hafi verið rædd á stjórnarfundi hinn 19. júní síðastliðinn.  Þegar RÚV sagði frá saurmengun í sjónum við Faxaskjól hinn 5. júlí, hafði skólp runnið út í sjó í 21 dag í 3,5 km fjarlægð frá Nauthólsvík, vinsælum baðstað Reykvíkinga, án þess að borgarbúar væru látnir vita."

Að framkvæmdastjóri Veitna skyldi sjá ástæðu til að senda stjórn móðurfyrirtækisins, e.t.v. með milligöngu forstjóra OR, minnisblað um bilunina nánast strax og hennar varð vart, sýnir, að hjá Veitum (og OR) hafa menn þegar í upphafi litið bilunina á umræddri neyðarlúgu alvarlegum augum.  Það hlýtur að hafa verið vegna þess, að framkvæmdastjóri Veitna, Inga Dóra Hrólfsdóttir, og/eða forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hafa gert sér grein fyrir afleiðingunum, þ.e. styrk saurgerla langt yfir leyfilegum mörkum fyrir fólk og fénað í fjöru eða að synda úti fyrir. 

Þá brennur sú spurning á, hvers vegna var ekki strax uppfyllt tilkynningarskyldan um mengunarslys til almennings ?  Úr því að henni hafði ekki verið fullnægt, þegar stjórnarfundur OR fór fram þann 19. júní 2017, þar sem minnisblað Veitna um mengunarslysið var til umræðu, hvers vegna í ósköpunum tók þá þessi stjórn ekki af skarið og samþykkti opinbera tilkynningu, sem gefa skyldi út samdægurs almenningi til viðvörunar, enda heilsuvá á ferðinni.  Hvað skyldi mikil ógn þurfa að steðja að almenningi, til að þessi sama stjórn telji ástæðu til að upplýsa um hana ?  Þessi stjórn er lögbrjótur, og ætti að lýsa vantrausti á hana strax.  Í henni sitja samkvæmt vefsetri OR 12.07.2017:

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður, Gylfi Magnússon, varaformaður, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir

Þessi stjórn er nú með allt á hælunum, er orðin ber að of takmarkaðri og þröngri þekkingu á veiturekstri og gefur skít í lýðheilsu.  Er þjónusta slíks fólks í opinberu fyrirtæki einhvers virði fyrir almannahag ?  Hvar er virðisaukinn af störfum þessa fólks á téðum vettvangi ? 

Enn skal halda áfram að vitna til forystugreinar ÞÞ:

"S. Björn Blöndal, formaður Borgarráðs, hefur vísað til þess, að það sé Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að meta, hvort mengun sé skaðleg, þannig að skylt sé að tilkynna um hana að eigin frumkvæði.  Veitur o.h.f. greina frá því á heimasíðu sinni, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið og kannað magn saurgerla í fjörunni við dælustöðina í Faxaskjóli hinn 6. júlí og frumniðurstöður mælinga hafi legið fyrir daginn eftir.  Hvernig gat Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitað, að magn saurgerla í sjó væri ekki skaðlegt almenningi [þ.e. væri undir 100 talsins/ml - innsk. BJo], þegar engar mælingar höfðu farið fram í sjónum við dælustöðina ?  Töldu embættismenn borgarinnar og starfsmenn Veitna, að það væri bara bezt að sleppa því að segja frá biluninni, sleppa því að óska eftir saurgerlamælingum og vona það bezta ?"

Hér eru gríðarlegar ávirðingar á hendur stjórnmálamönnum og embættismönnum borgarinnar á ferð.  S. Björn er, eins og vanalega, algerlega úti á túni, alla vega ekki niðri í fjöru, þegar hann fríar sjálfan sig og embættismennina utan Heilbrigðiseftirlitsins ábyrgð á tilkynningarskyldunni.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig, hvers vegna Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í OR, vissi ekkert um atburðinn fyrr en sagt var frá honum í seinni kvöldfréttatíma Sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.

Talsmaður Veitna segir, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið tilkynningu strax um atburðinn.  Það er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna sú stofnun hélt ekki uppi daglegum mælingum við ströndina sitt hvorum megin við úthlaupið alla þá  daga, 21 talsins, sem lúgan var samfellt opin, og upplýsti um öll mæligildi á vefsetri sínu.  Þessi stofnun borgarinnar virðist hafa verið stungin líkþorni við þennan atburð og gjörsamlega gleymt skyldum sínum.  

Það guðdómlega við alla þessa óhæfni er, að engin teikn eru enn á lofti um, að hún muni hafa neinar afleiðingar fyrir stöðu nokkurs manns.  Það er eins og engar kröfur séu gerðar til neins í þessu skelfilega borgarapparati.  Þannig er eftirfarandi haft eftir Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna í Morgunblaðinu, bls. 2, þegar hún er spurð, hvort hún telji, að draga þurfi einhvern til ábyrgðar vegna málsins:

"Veitur hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem felst í því að upplýsa Heilbrigðiseftirlitið um opnun neyðarlúgunnar.  Heilbrigðiseftirlitið hefur brugðizt við með því að taka sýni samkvæmt lögum og reglugerðum.  Í framhaldi af þessu máli munum við endurskoða verkferla hjá okkur varðandi upplýsingagjöf til almennings í þeim tilgangi að bæta hana."

Það er alrangt, að Veitur hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni, því að samkvæmt lögum ber Veitum að tilkynna almenningi tafa- og vafningalaust um öll mengunarslys, sem hljótast af starfsemi þeirra.  Heilbrigðiseftirlitið brást algerlega líka.  Að draga fram ónothæfa verkferla, sem hún, framkvæmdastjórinn, ber sjálf ábyrgð á, sem sökudólga í málinu, er aumlegt yfirklór.  Viðbrögð þessa framkvæmdastjóra Veitna í öllu þessu ferli sýna, að lýðheilsusjónarmið lúta í lægra haldi fyrir einhverjum öðrum hagsmunum, þegar á reynir.  

Þann 11. júlí 2017 birti ritstjórn Morgunblaðsins forystugrein, sem bar heitið:"Brugðust borgarbúum":

Hún hófst þannig:

"Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn, sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna.  Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina, sem af þeim stafaði."

Það er með ólíkindum, að þetta skuli vera atburðalýsing, sem eigi við höfuðborg Íslands árið 2017.  Sú staðreynd undirstrikar málsháttinn, að því ver gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.

Seinna í greininni skrifar ritstjórinn:

"Þeir, sem sendir voru til svara, voru ekki borgaryfirvöldin, sem glenna sig meira en góðu hófu gegnir við öll önnur tækifæri.  Það voru embættismenn, sem enginn kannast við að hafa heyrt eða séð nokkru sinni áður, sem voru látnir taka skömmustulegir við hrópandi spurningum.  Þeir komust ekki vel frá því.  Að mati embættismannanna voru það "verkferlar", sem brugðust vikum saman.  Þessir verkferlar hafa ekki sézt eða heyrzt áður.  En embættismennirnir sögðust búnir að gera upp við sig að skoða þessa verkferla.  Hvaða óráðshjal er þetta eiginlega ?"

Viðbrögð allra stjórnmálamanna og embættismanna Reykjavíkurborgar, sem birzt hafa opinberlega, eru eitt samfellt óráðshjal.  Englendingar mundu segja:"They are covering their ass", sem útleggst, að þeir skýli eigin boru.  Þeir láta hins vegar hagsmuni umbjóðenda sinna lönd og leið, og það er dauðasök fyrir pólitískan og embættislegan feril.

Davíð Oddsson lýkur forystugreininni þannig, að ekki þarf um að binda:

"Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu, er til komið vegna þess, að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.

Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst.  Það er ekki kræsilegt, en hjá því verður ekki komizt." 

 

 

 

 

 

 


Kolröng ályktun og dýr

Það hefur komið fram, að hlutdeild Strætó í umferð fólks á götum höfuðborgarsvæðisins árið 2011 sé talin hafa numið 4,5 % og hafi hækkað upp í 4,8 % árið 2015 á 4 árum.  Árið 2011 var jafnframt í samráði við ríkisstjórnina og með framlögum úr ríkissjóði af vegafé sett markmið um tvöföldun hlutdeildar almenningssamgangna árið 2021 upp í 9,0 %. 

Með sama framhaldi og hingað til verður þessi hlutdeild hins vegar 5,3 % árið 2021, þó að fjárveitingar hins opinbera, sveitarfélaganna og ríkisins, hafi á þessu fjagra ára tímabili aukizt um tæplega miaISK 1,4 eða tæp 60 % og aksturinn aukizt um 42 % í km talið.  Meiri fjárveitingar og aukið framboð þjónustu hrífa ekki á almenning, af því að hann hefur ekki hug á þessum samgöngumáta, ef hann á kost á fjölskyldubíl.

Þessi aukning opinbers kostnaðar til almenningssamgangna er þó hjóm eitt í samanburði við það, sem koma skal með Borgarlínu, eins og leitt verður í ljós í þessari vefgrein.

Ályktunin, sem rökrétt er að draga af þessum staðreyndum, er, að íbúar höfuðborgarsvæðisins verða ekki lokkaðir úr fjölskyldubílnum og í strætó með auknum akstri almenningsvagnanna og forgangsakreinum fyrir þá, sem sums staðar er búið að koma upp og óneitanlega hefur þrengt að annarri umferð. Tilraunin undanfarin ár sýnir þetta svart á hvítu. Það er algerlega öndvert við heilbrigða skynsemi að halda, að stórfelldar fjárfestingar nú í þágu almenningssamgangna og margfaldur rekstrarkostnaður þeirra muni einhverju breyta í þessum efnum.  Það er hins vegar dæmigerður forsjárhyggjuhugsunarháttur, að hið opinbera geti haft stakkaskipti á hegðunarmynztri fólks og minnir mjög á tíðindi af slíku í hinum föllnu Ráðstjórnarríkjum.  Það er þá ekki leiðum að líkjast fyrir ráðstjórnina í Reykjavík, eða hitt þó heldur. 

 Geta verið einhver rök dulin fyrir því að stofna nú til fjárfestinga í áföngum, sem að byrjunargildi nema um miaISK 70, en vegna óvissu geta farið vel á annað hundrað milljarða króna, þegar upp verður staðið ?  Reynum að kryfja málið:

Umhverfismál:

Tvenns konar umhverfisvá stafar af umferð vélknúinna farartækja. 

Í fyrsta lagi er það útblástur gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra gastegunda og fastra efna fyrir öndunarfærin.  Þar eru t.d. ýmis brennisteinssambönd, aðallega frá dísilvélum, og sótagnir, sem einnig koma aðallega frá dísilvélum.  Af þessum sökum kunna dísilvélar að verða bannaðar í fólksbílum á næsta áratugi.  Til langs tíma mun þessi tegund mengunar hverfa bæði frá strætisvögnum og fólksbílum, því fyrr þeim mun betra.  Frá strætisvögnum sennilega um 2025 og frá fólksbílum 15 árum seinna.  Útblástursvandamál eru þess vegna ekki rök fyrir öflugri almenningssamgöngum.  

Í öðru lagi er það rykmengun í lofti vegna vegslits.  Árlega deyja 50-100 manns ótímabærum dauða á höfuðborgarsvæðinu vegna loftmengunar, sem að töluverðu leyti kemur frá snertingu dekkja við vegyfirborð, og það er ótrúlegt, hvað borgaryfirvöld og Umhverfisstofnun taka mótvægisaðgerðir gegn rykvánni miklum lausatökum.  Rykbinding er ekki stunduð og sópun er mjög strjál.  Sóðaskapur einkennir stjórnarfarið í borginni. Fínagnir undir 2,5 míkrón eru ekki einu sinni mældar, og engar reglur gilda um leyfilegan hámarksstyrkleika þeirra í andrúmslofti. Bandaríkjamenn hafa þó lengi vitað, að þær eru hættulegastar allra borgarrykagna fyrir lungun.  Slen þetta og doði yfirvalda á öllum sviðum mengunarvarna í borginni er vítavert og í raun brottrekstrarsök úr valdastólunum.

Það er hægt að leggja mat á það, hvort almenningsvagnar eða fólksbílar valda meiri rykmyndun út frá vegsliti.  Strætisvagn, 20 t, veldur 8000 sinnum meira vegsliti per km en fólksbíll, sem vegur 1 t.  Fólksbílarnir á höfuðborgarsvæðinu leggja líklega að baki 133 sinnum lengri vegaleng en strætisvagnarnir á ári (160k x 7,5k = 1200 Mkm/ár og strætisvagnar 9,0 Mkm árið 2015).  Af þessu leiðir, að strætisvagnarnir valda 60 sinnum meiri rykmyndun og kostnaði við viðhald gatna en fólksbílarnir.  Út frá þessari niðurstöðu ætti fremur að létta vagnana og draga úr akstri almenningsvagna en að þyngja þá og auka aksturinn, eins og þó er áformað.  

Fjárhagsmál:

Nú nemur kostnaður á hvern farþega Strætó alls ISK 506 (per ferð).  Ætla má, að helmingur aksturs hvers fólksbíls, 15000 km/ár, sé á höfuðborgarsvæðinu, og að farnar séu 1000 ferðir á ári og í bílnum sé að meðaltali 1,5 maður.  Þá fæst meðalkostnaður ferðar í fólksbíl 233 ISK/mann.  Einingarkostnaður Strætó er þá meira en tvöfalt hærri en fólksbílsins, svo að þjóðhagslega borgar sig ekki að efla almenningssamgöngur, þó að sérstakir áhugamenn um þær haldi öðru fram.  

Niðurstaða þessarar greiningar er sú, að núverandi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu valdi margfalt meira vegsliti og rykmengun af völdum þess en fólksbílarnir og að almenningssamgöngur séu þjóðhagslega óhagkvæmar, enda er ferðakostnaður á mann meira en tvöfaldur m.v. fjölskyldubílinn.  Hvers konar fordild og botnlaus sérvizka býr eiginlega að baki þessu opinbera dekri við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu ?

Nú ætla borgaryfirvöld og skipulagspáfar höfuðborgarsvæðisins að halda enn lengra út í ófæruna.  Þessir aðilar ætla að leggja út í a.m.k. miaISK 70 fjárfestingu vegna Borgarlínu, sem ætlað er að ná því markmiði að auka hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu úr núverandi 4,8 % í 12 % árið 2040.  Þetta þýðir, ef áætlanir ná fram að ganga, að þá mun Strætó flytja um 36 M (milljón) farþega (árið 2040).  Ef gert er ráð fyrir, að hlutdeild hins opinbera í kostnaði við flutning hvers farþega verði þá sú sama og árið 2015, þ.e. 351 ISK/fþ (=70 % af heild nú), sem mun þýða mikla hækkun fargjalda þá, þá mun rekstrarlegur kostnaðarauki hins opinbera, sem þá verða væntanlega aðeins sveitarfélögin, sem að Strætó standa (ef ríkið hættir niðurgreiðslum), nema 9 miaISK/ár !  

Þá er eftir að taka með í reikninginn fjármagnskostnað Borgarlínu, en hann mun vægt reiknað (5 %/ár vextir og 30 ára afskriftatími) nema 5 miaISK/ár (afborganir og vextir). 

Heildarkostnaðarauki þessara sveitarfélaga vegna Borgarlínu mun þannig nema 9+5=14 miaISK/ár.  Þetta mun bætast ofan á núverandi kostnað, 3,8 miaISK/ár, hins opinbera af Strætó, og verður heildarkostnaður hins opinbera þá a.m.k. 17,8 miaISK/ár. 

Afleiðing Borgarlínu fyrir fjárhag sveitarfélaganna á höfuðborgarsbæðinu verður grafalvarlegur, því að kostnaður við Strætó tæplega fimmfaldast að raunvirði m.v. 2015, og ávinningurinn er neikvæður í öllu tilliti.  Þetta er með öðrum orðum algerlega glórulaust gæluverkefni. 

Það er full ástæða fyrir fulltrúa á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem boðaður hefur verið í nóvember 2017, að stilla saman strengi á höfuðborgarsvæðinu gegn vinstri sinnuðu þokuráfi, sem leitt er af núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.  Það er jafnframt ástæða fyrir fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins að gjalda varhug við þessu, því að Reykjavík er á hausnum og hefur enga fjárhagslega burði í þetta verkefni.  Það mun verða leitað eftir framlögum úr ríkissjóði í þetta óþurftarverkefni og ríkisábyrgðum, sem ber að hafna.  Framlög til Borgarlínu úr ríkissjóði mundu verða tekin frá öðrum verkefnum á Vegaáætlun, sem flest, ef ekki öll, eru bráðnauðsynleg og hafa dregizt úr hömlu.

Það eru fleiri en þessi blekbóndi hér, sem hafa komizt með sínu lagi að þeirri efnislegu niðurstöðu, sem hér hefur verið kynnt.  Má þar fyrst nefna ritstjórn Morgunblaðsins, sem þann 30. júní 2017 sendi frá sér forystugreinina,

"Íbúarnir hafa hafnað stefnunni":

"Það er með miklum ólíkindum að sjá, hvernig þeir, sem ákvarðanir taka um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, hundsa skýr skilaboð almennings.  Ekki þarf að bíða til 2022 til að sjá, að niðurstaða tilraunar um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu er, að almenningur vill ekki stórauknar almenningssamgöngur  á kostnað fjölskyldubílsins.  Komið hefur í ljós, að þó að þrengt hafi verið að fjölskyldubílnum, en ýtt undir annan ferðamáta, vill langstærstur hluti almennings ferðast um á eigin bílum.  Er ekki sjálfsagt að virða það val og hætta að þrengja að almennri umferð ?"

Sú ákvörðun vinstri ríkisstjórnarinnar 2011 að setja hátt í einn milljarð króna í að efla almenningssamgöngur á og að höfuðborgarsvæðinu gegn því að fjárfesta ekkert í samgöngubótum á stofnæðum höfuðborgarsvæðisins var stórskaðleg fyrir umferðaröryggi þar og heilsufar íbúanna og var þar að auki þjóðhagslega skaðleg, eins og sýnt hefur verið fram á í þessari vefgrein. Téður samningur hefur nú í meðförum borgaryfirvalda framkallað skrímsli, sem kallað er Borgarlína. Þetta samkomulag ríkis og borgar á sinni tíð ber að afturkalla strax og báðir aðilar verða um það sammála, en það verður ekki, nema núverandi meirihluti í Reykjavík verði felldur, helzt kolfelldur.  Líkja má hinum ófrýnilega meirihluta við dreka, og nú er beðið riddarans hugumprúða á hvítum hesti, sem stingur dreka þennan á hol með spjóti sínu, eins og vel þekkt er úr sagnaarfleifðinni.  

Í annan stað má nefna prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ, sem 28. júní 2017 ritaði í Morgunblaðið greinina, 

"Borgarlínurugl í Reykjavík":

"Almenningssamgöngum verður að sjálfsögðu að halda uppi [blekbóndi er sammála], en í stað þess að gera þennan mikilvæga valkost margfalt dýrari í rekstri en nú er [blekbóndi fékk út, að árlegur kostnaður mundi 4,7 faldast], hlýtur að standa borgaryfirvöldum öllu nær að leita hagkvæmari og ódýrari lausna [t.d. með minni, rafknúnum vögnum utan annatíma - innsk. BJo].   Þess má svo geta, að borgarstjóri og skipulagshetjur hans ættu í raun að vera borgarbúum þakklátir fyrir yfirburðastöðu einkabílsins, þar sem það gefur Reykjavíkurborg kost á að veita margfalt einfaldari,  ódýrari og hagkvæmari þjónustu en ella [bílaeign er almennari á Íslandi en í öðrum löndum, um 0,72 fólksbílar á íbúa, og skipulagsyfirvöld komast ekki með góðu móti hjá að taka mið af því.  Fjölskyldubíllinn er auðvitað nýttur árið um kring, einnig til ferðalaga utan höfuðborgarsvæðisins. - innsk. BJo].  

Síðan setur Jónas fram þá skoðun, að hin annarlega Borgarlínuhugmynd sé sótt til Kaupmannahafnar, enda sé ráðgjafinn danskur.  Þetta setur fáránleika hugmyndarinnar í nýtt ljós.  Danskir ráðgjafar eru á launum (hver borgar þau laun ?) við að troða þekktum og gildum dönskum lausnum inn í framandi umhverfi, þar sem engin þörf er fyrir svo stórtæk og dýr úrræði:

"Það er einfalt, afköst vegakerfis [Kaupmannahafnar] eru ekki næg, og þess vegna þarf Kaupmannahöfn og nágrenni lestarkerfi.  Reykjavík og nágrenni þarf ekki lestarkerfi, ofurstrætókerfi eða því um líkt.  Það, sem þarf, er borgarstjórn, sem kann eitthvað fyrir sér í borgarskipulagningu, borgarrekstri og umhverfismálum borga og hættir að safna skuldum."

Það er nauðsynlegt, að þetta ljós renni upp fyrir meirihluta Reykvíkinga eigi síðar en á vori komanda.  Vinstri flokkarnir og Píratar bjóða aðeins upp á glópa í fjármálum og rata í skipulags- og rekstrarmálum, eins og dæmin sanna.  Þetta lið er sneytt dómgreind og heilbrigðri skynsemi, og þess vegna verða þau auðveld bráð stórra hugmynda, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzkt umhverfi:  

"Afleiðingar þessa, verði þessi umhverfisdraumur að veruleika, eru ekki uppörvandi.  Svo að strætó fái meira pláss til að aka næstum galtómur um, stendur til að þrengja götur enn frekar og hægja þar með enn meira á umferðinni.  Verri og lengri umferðarstíflur ættu jafnframt að "hvetja" fólk til að taka frekar strætó, svo að þarna telur borgarstjórn sig líklega slá tvær flugur í einu höggi.  Gallinn er bara sá, að Reykjavík er ekki nægilega stór og fjölmenn borg, til þess að slíkar aðgerðir fái einar og sér hrakið fólk út úr einkabílnum og upp í strætó.  

Vissulega mun þetta tefja og lengja enn frekar biðraðirnar, líklega um 20 mínútur eða svo [sem jafngildir meira en tvöföldun á algengasta núverandi biðtíma í ös - innsk. BJo], sem mun þá auka mengunina af kyrrstæðum bílum sem því nemur."

Sýnt hefur verið fram á það í þessari vefgrein, að sú ráðstöfun borgaryfirvalda og annarra að auka umferð stórra og þungra strætisvagna verulega síðan 2011, hefur aukið mengun á höfuðborgarsvæðinu, aðallega í Reykjavík, gríðarlega og þannig valdið fjölda manns aukinni vanlíðan og fjölgað ótímabærum dauðsföllum um nokkra tugi á ári.  Nú á sem sagt með Borgarlínu að höggva í sama knérunn með dæmalausu falsi og blekkingum, því að það er gert í nafni umhverfisverndar.  Það er ekki öll vitleysan eins.

 

 

 

 


Loksins heyrðist hljóð úr horni

Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála á árinu 2016 námu miaISK 171,2 og jukust um miaISK 38,2 frá árinu 2012 eða tæplega 29 % á 4 árum.  Þetta var meiri aukning í fjármunum talið en til nokkurs annars málaflokks á snærum ríkissjóðs, þar sem  meðalaukningin nam rúmlega 19 % á þessu tímabili, þegar fjármagns -og lífeyrisskuldbindingar og niðurgreiðslur húsnæðisskulda einstaklinga eru frátaldar. Samt þykir sumum ekki nóg að gert, en þá er lausnin ekki að hella enn meira fé í málaflokkinn, heldur að freista þess að draga úr aðsókn með forvarnaraðgerðum og að fá meira fyrir minna.

Hér er einvörðungu um rekstrarkostnað að ræða, en ríkissjóður fjármagnar einnig stofnkostnað sjúkrahúsa, heilsugæzlu, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnanir.  Þannig er nú í vændum gjörbylting á aðstöðu sjúklinga og starfsfólks LSH, þegar flutt verður í nýtt a.m.k. miaISK 70 húsnæði við Hringbraut í Reykjavíkeigi síðar en árið 2022, og má ekki seinna vera.  

Það verður að taka á kostnaðarmynztri heilbrigðisgeirans, ef hann á ekki að vaxa ríkissjóði yfir höfuð, draga úr getu hans til framkvæmda og rekstrar á öðrum mikilvægum sviðum og sliga efnahag þjóðarinnar, svo að hagvöxtur eigi sér ekki viðreisnar von.  Þetta er brýnt, því að lífeyrisþegum, bótaþegum hvers konar og sjúklingum fjölgar hraðar en vinnandi fólki, og hraði þeirrar öfugþróunar mun fara vaxandi á næstu árum.

Hér verður aðeins stiklað á stóru, en þrjár ástæður þessarar óheillaþróunar, sem snúa verður ofan af, má nefna:

Öldruðum, 67 ára og eldri, fjölgar meira en tvöfalt hraðar en þjóðinni í heild.  Hvert hjúkrunarrými kostar að jafnaði 10 MISK/ár, en kostnaður við heimahjúkrun og félagslega aðstoð heima við nemur aðeins 1/10 af þessu.  Það borgar sig vel að setja aukið fé í heimahjúkrun til að gera fleiri gamalmennum kleift að dvelja lengur heima hjá sér, eins og flest þeirra kjósa.  Það sparar líka stórfé að byggja fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili, svo að þau tæplega hundrað gamalmenni, sem nú eru vistuð með of dýrum hætti á LSH að lokinni læknismeðferð, en teppa sjúkrarúm fyrir þurfandi fólk á biðlistum, geti flutt í hentugt og ódýrara húsnæði.  Byggingarsjóður aldraðra er misnotaður, því að 70 % ráðstöfunarfjár hans er nú varið til rekstrar og viðhalds, en allt ráðstöfunarfé hans á og þarf að fara í nýbyggingar.  

Heilsufar þjóðarinnar er verra en eðlilegt getur talizt, eins og veikindafjarverur úr vinnu gefa til kynna.  Of margir missa heilsuna of fljótt vegna óhollustusamlegs lífernis, rangs mataræðis, ofáts, ofdrykkju og hreyfingarleysis.  Þetta blasir víða við, t.d. á endurhæfingarstöðum á borð við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Ísland, HNLFÍ, í Hveragerði, en sú starfsemi er til stakrar fyrirmyndar og hefur verið frá stofnun, 1955.  Þar fá vistmenn innsýn í, hvað hollt mataræði og hollir lifnaðarhættir fela í sér, en því miður er það of seint fyrir marga til að njóta til fullnustu.  Það borgar sig að efla lýðheilsu og forvarnir á meðal æskunnar, og það er margt óþarfara kennt í grunnskóla en undirstöðuþættir hollra lífshátta.  Þar þarf að hamra á því, að líkaminn er ekki vél, sem hægt er að misbjóða endalaust með ruslfæði, sætindum og vímuefnum, og fara svo með hann á verkstæði til sérfræðinga til viðgerðar, þegar þrekið er farið og ónæmiskerfið veiklað.  Þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni með lífverur. Vítiskvalir og mikið böl bíður þeirra, sem éta sig í hel og hreyfa sig sáralítið.  Það ætti ekki að vera nauðsynlegt að skattleggja þá sérstaklega í ofanálag, en það gera þó sumar ríkisstjórnir í fælingarskyni, einnig hér í Evrópu.

Þróun nýrra lyfja verður sífellt dýrari, og lyfjaiðnaðurinn er orðinn gríðarlega umfangsmikill og aðsópsmikill í þjóðfélaginu.  Markaðssetning lyfja er að sama skapi markviss og öflug, og margir foreldrar gera þá reginskyssu að hrúga lyfjum í börnin, þegar nauðsynlegt er að efla og þjálfa ónæmiskerfi þeirra með því að ráða niðurlögum sjúkdóma.  Inntaka ofnæmislyfja er í mörgum tilvikum óþörf og getur stórskaðað lifrina í börnum, sé hún óhófleg.

Lyfin eru ekki bara blessun, heldur jafnframt bölvun, því að þau hafa flest einhver neikvæð áhrif á líkamann, sum grafalvarleg, en önnur trufla starfsemi hans, þótt þau bæti meinið, og sum þeirra eru ávanabindandi. Lyfjanotkun getur hæglega orðið vítahringur, og um það eru dæmi, að gamlingjar séu komnir með lyfjapakka upp á ein 10 lyf, þar sem eitt á að vinna gegn aukaverkunum annars.  Fyrsta lyfið veldur þannig vítahring, og þess vegna þurfa að vera mjög ríkar ástæður fyrir lyfjagjöf.  Það er hægt að missa heilsuna með minni misnotkun á líkama og sál en þessu. 

Sjúklingar eru reyndar sumir aðgangsharðir við lækna til að fá lyfjaávísun, þótt vafi leiki á um þörfina og gagnsemina, enda eru sum lyf ávanabindandi.  Útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins "Lyf og lækningavörur" námu miaISK 20,1 árið 2016.  Loksins er verið að taka í notkun sameiginlegan gagnagrunn fyrir landið allt, þar sem Landlæknir o.fl. geta fylgzt með lyfjaávísunum einstakra lækna, og þeir geta skoðað ávísanasögu sjúklinga áður en þeir gefa út lyfseðil.  Þetta mun auka aðhaldið.  Ef lyfjanotkun á mann á Íslandi minnkar niður í meðaltal hinna Norðurlandanna, munu sparast milljarðar ISK, án þess að heilsufarið versni, nema síður sé.  

Sjúkrahúsaþjónusta kostaði ríkissjóð miaISK 70,4 árið 2016 og hafði hækkað um miaISK 15,0 frá árinu 2012 á verðlagi 2016.  Bróðurparturinn fer til rekstrar LSH (Landsspítala háskólasjúkrahúss), og þar er þess vegna mikilvægt að bæta stöðugt nýtingu fjármagnsins.  LSH er á föstu fjárframlagi úr ríkissjóði, en eðlilegra væri, að hann fengi greiðslur fyrir aðgerðir á hverjum sjúklingi, háð eðli umönnunar og veikindum. Slík einingarverð eru þekkt.  Upptaka slíkrar fjármögnunar gerir verkkaupa auðveldara um vik að velja á milli birgja, þjónustuveitendanna, þar sem samkeppni kann að vera fyrir hendi, og hægt er auka kostnaðarvitund veitenda og þiggjenda með þessu móti. 

Það mun koma að því, að umræða um fyrirkomulag líknardauða verður meiri hérlendis og annars staðar á Vesturlöndum en verið hefur.  Læknavísindin geta í mörgum tilvikum hjálpað sjúklingum við að draga fram lífið, en þegar vitund sjúklings er horfin eða lífið þrautir einar, á líknardauði að vera möguleiki. 

Þann 26. júní 2017 skrifuðu 6 læknaprófessorar góða grein í Morgunblaðið um stjórnarhætti og stjórnkerfi LSH.  Þau vilja bæta stjórnun spítalans með því að setja yfir forstjórann lýðræðislega valda stjórn.  Þar með megi vænta betri starfsanda og aukins sjálfstæðis LSH gagnvart velferðarráðuneytinu.  Það er hægt að taka undir málflutning læknanna 6, Björns Rúnars Lúðvíkssonar, Guðmundar Þorgeirssonar, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, Pálma V. Jónssonar, Sigurðar Guðmundssonar og Steins Jónssonar, í greininni:

"Styrkjum stjórn Landspítala":

"Árangur íslenzkrar heilbrigðisþjónustu hefur verið góður á alþjóðlegan mælikvarða, eins og nýlega kom fram í brezka læknatímaritinu Lancet.  Ísland býr að vel menntuðu starfsfólki, sem hefur sótt menntun til fremstu háskólasjúkrahúsa á Vesturlöndum.  

Líklegt er, að sameining sérgreina lækninga með stækkun sérdeilda og auknum möguleikum til sérhæfingar eigi þátt í þessum árangri.  Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur þannig skilað faglegum árangri.  

Lykillinn að enn betri árangri er sameining starfsemi Landspítala í einu húsi, þar sem sérgreinar geta unnið saman með viðunandi hætti og við eðlileg húsnæðisskilyrði."

Hér er mikilsverður vitnisburður á ferðinni um gæði hérlendrar sjúkrahúsþjónustu í samanburði við önnur lönd.  Er mat prófessoranna vissulega ánægjuefni í ljósi úrtöluradda um íslenzka heilbrigðiskerfið og eilífra kvartana um fjárskort, þótt málaflokkurinn hafi verið að undanförnu og sé í forgangi hjá fjárveitingarvaldinu.  Fjölmörg tækifæri opnast starfsfólki LSH með gríðarlegum fjárfestingum í nýju húsnæði og tækjabúnaði til betri og skilvirkari þjónustu, en það eru einnig tækifæri fólgin í bættu stjórnkerfi LSH, sem prófessorunum er hugleikið í tilvitnaðri grein:

"Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við, en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því, að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.

Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan, en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra.  Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans, en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra.  Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn, sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna.  Undirrituð hafa ekki vitneskju um, að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar."

Það leynir sér ekki í þessum texta, að þykkja og jafnvel beizkja í garð núverandi yfirstjórnar LSH býr í brjósti höfundanna.  LSH er stærsta stofnun landsins og fjölmennasti vinnustaður.  Þetta stjórnkerfi er einstakt fyrir stór fyrirtæki eða stofnanir og virðist sniðið að þörfum ráðuneytisins um að eiga síðasta orðið um stærstu málin án þess að verða of innblandað í daglegan rekstur.  Þetta er meingallað kerfi, sem ber að afnema með lögum.  Velferðarráðuneytinu ber að leggja frumvarp fyrir Alþingi um nýja tilhögun, þar sem stjórn er sett yfir LSH, sem yfirtaki stefnumótunar-, eftirlits- og framkvæmdahlutverk (fjárfestingarákvarðanir hjá stjórn, en verkefnastjórnun í höndum annarra, sbr nýbyggingar LSH, og allar fjárveitingar auðvitað í höndum Alþingis) núverandi embættis forstjóra og framkvæmdastjórnar hans, en hjá þeim sitji eftir ábyrgð á rekstri og viðhaldi LSH. Það er ærið hlutverk á svo stórri og viðkvæmri stofnun sem LSH. 

Nýja stjórnin ráði forstjórann, sem aftur velur sitt nánasta samstarfsfólk í framkvæmdastjórn og skipar þeim til verka.  Það er áreiðanlega ekki vanþörf á þessari breytingu, enda skrifa téðir læknaprófessorar um þörfina þannig:

"Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans á meðal allra starfsstétta hans.  Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku.  Því teljum við ljóst, að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynzt vel og að brýnna úrbóta sé þörf."

Það er ekki kyn, þó að keraldið leki, þegar svona ambögulegt stjórnkerfi er við lýði. Það þjónar augljóslega ekki sínu hlutverki, og óþarfi að bera brigður á það, sem 6 virtir læknaprófessorar leggja nafn sitt við.  Það er sjálfsagt, að skipa Landsspítalanum stjórn með lýðræðislegum hætti um leið og fjármögnun hans verði reist á einingarkostnaði og fjölda eininga, sem inntar eru af hendi á spítalanum af hverju tagi, í stað fasts árlegs framlags, sem aldrei stenzt, því að ómögulegt er að sjá aðsóknina nákvæmlega fyrir.  

Tengsl spítalans við velferðarráðuneytið þurfa áfram að vera traust, og þess vegna er eðlilegt, að heilbrigðisráðherra skipi formann stjórnar án tilnefningar.

Í anda vinnustaðalýðræðis væri, að starfsmenn kysu 4 í stjórn, 1 úr hópi lækna, 1 úr hópi hjúkrunarfræðinga og 2 úr starfsmannaráði.  Til að tryggja tengsl háskólasjúkrahússins við háskólasamfélagið, þá velji rektor HÍ einn eftir tilnefningu læknadeildar, rektor HR annan með verkfræðimenntun (hátæknisjúkrahús) og rektor HA þann þriðja af lögfræðisviði. Þarna er þá komin 8 manna starfandi stjórn, og sé formaður oddamaður, ef atkvæði falla jöfn. Þessi skipan fellur vel að hugmynd greinarhöfundanna, sem hér er vitnað í:

"Við leggjum til, að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna.  Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: 

(a) að ráða forstjóra

(b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og 

(c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina

[Undir heildarstefnu ætti að heyra fjárfestingarstefna LSH, þ.e. forgangsröðun verkefna og tímasetning þeirra í samráði við heilbrigðisráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis - innsk. BJo].  Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áherzla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi."

Samkeppni er holl á öllum sviðum, og er heilbrigðissviðið þar engin undantekning.  LSH er og verður risinn á sviði þjónustu við sjúklinga á Íslandi.  Enginn getur skaðazt við það, að styttir verði langir biðlistar eftir brýnum aðgerðum.  Bið fylgir böl og samfélagslegt tjón.  Þess vegna er alveg sjálfsagt að auka fjölbreytni rekstrarforma sjúkrahúsþjónustu að uppfylltum gæðakröfum Landlæknisembættisins.  Þetta á t.d. við um Klíníkina Ármúla, en Sjúkratryggingar Íslands hafa þó ekki enn fengið leyfi ráðherra til að semja við þær.  Samt hefur verið upplýst, að skattgreiðendur mundu spara 5 % á hverri aðgerð, sem Klíníkinni yrði greitt fyrir m.v. kostnað sömu aðgerðar á LSH og a.m.k. 50 % m.v. kostnað af að senda sjúklinginn í sams konar aðgerð til útlanda, ef hann velur þá leið, sem hann á rétt á eftir 3 mánuði á biðlista.  Kostnaðarlega og siðferðislega er þetta ófremdarástand, sem heilbrigðisráðherra getur leyst úr og ber að bæta úr vafningalaust. 

Í stað einokunaraðstöðu þurfa stjórnendur LSH nú að fara að sætta sig við samkeppnisstöðu, þótt yfirburðir LSH á markaði heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði alltaf miklir.  Forstjóri LSH hefur varað við samkeppni af þessu tagi, en hann er auðvitað vanhæfur til að tjá sig um málið, þar sem hann vill ríghalda í einokunarstöðu sinnar stofnunar.  Ef nýtt fyrirkomulag við stjórnun LSH sér dagsins ljós, eins og hér hefur verið lýst, mun það verða í verkahring stjórnarformannsins að tjá afstöðu stjórnar LSH til stefnumarkandi þátta, eins og þessa, og það má vænta þess, að þar muni ríkja viðskiptasinnaðri viðhorf til samkeppni en afstaða núverandi forstjóra LSH og reyndar Landlæknis hafa gefið til kynna að undanförnu.  

 

 

 

 

 

 

 


Borgin er að sökkva í skuldafen

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 nema heildarskuldir borgarinnar af eigin rekstri og hjá dótturfyrirtækjum miaISK 290, og er þetta 187 % af heildartekjum sömu aðila.  

Í 64. grein Sveitarstjórnarlaga segir, að skuldir og skuldbindingar sveitarstjórnar, kjarna og dótturfyrirtækja, skuli vera innan við 150 % af tekjum samstæðunnar.  Hjá Reykjavík er þetta hlutfall 187 %.  Það er með öðrum orðum búið að kollsigla fjárhag borgarinnar, svo að við blasir að skipa henni tilsjónarmann.  Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar, ef fjármálastjórnun höfuðborgarinnar væri með þeim endemum, að hún stefndi í að verða svipt fjárhagslegu sjálfstæði sínu.  Nú eru hins vegar nýir tímar með endemis búskussa við völd í Reykjavík.  

Skuldir kjarnans (A-hluta) nema miaISK 84 og fara vaxandi í bullandi góðæri.  Það sýnir, að rekstur borgarinnar er ósjálfbær, en í lögum segir, að rekstur heildar, A og B hluta, skuli á hverju þriggja ára skeiði vera réttum megin við núllið.  Aðalfyrirtæki B-hluta er Orkuveita Reykjavíkur, OR, með sín dótturfyrirtæki, ON og Veitur.  Þar hefur loksins tekizt að bjarga orkusamstæðu frá greiðsluþroti með því að láta borgarana, notendur þjónustu OR, borga brúsann af röngum fjárfestingarákvörðunum á tímum R-listans og mjög áhættusömum samningum um raforkusölu til stóriðju frá jarðgufuorkuveri á fallandi fæti, þ.e. orkuveri með mjög háum  rekstrarkostnaði vegna mikillar viðhaldsþarfar af völdum tæringa, útfellinga, og gufuöflunar.  Aðrir viðskiptavinir ON en viðkomandi stóriðja eru látnir gjalda fyrir sífellda nýja orkuöflun í stað minnkandi afkasta á meðan orkusamningur til þessarar stóriðju tekur ekkert tillit til viðbótar kostnaðar vegna oflestunar á jarðgufuforða Hellisheiðarvirkjunar.  

Hafa almennir notendur hins vegar mátt axla um 50 % gjaldskrárhækkun síðan árið 2010, sem er um 25 % umfram hækkun neyzluverðsvísitölu.  Eru nú jafnvel boðaðar arðgreiðslur til borgarinnar frá OR, og er það til að bíta höfuðið af skömminni.  Það nær auðvitað engri átt, og væri OR öllu nær að skila verðhækkunum umfram vísitölu til baka til neytenda.  Fyrirtækið er áfram lágt metið af matsfyrirtækjum, og ákvað eitt þeirra, Moody´s, 15. júní 2017, að halda lánshæfiseinkunn óbreyttri, Ba2, sem er óvenjulega léleg einkunn til orkusamstæðu.  

Það er þess vegna allsendis undir hælinn lagt, að Reykjavík takist að sleppa undir 150 % mark sveitarstjórnarlaga fyrir 2023, en þá fellur úr gildi undanþága í lögum um þessi mörk til sveitarfélaga, sem eiga orkufyrirtæki.  

Vegna bágborinnar skuldastöðu Reykjavíkur hefur borgin ekki efni á neinum stórframkvæmdum, allra sízt algerlega óarðbærum, dýrum framkvæmdum á borð við Borgarlínuna, sem í fyrsta áfanga er áætlað, að kosta muni miaISK 22 og að lokum miaISK 70, en sá kostnaður fer yfir miaISK 100, ef að líkum lætur með gæluverkefni stjórnmálamanna, sem engin spurn er eftir á meðal notenda.  Framtíð Borgarlínu veltur þess vegna alfarið á því, hvort Alþingi samþykkir Borgarlínu inn á Samgönguáætlun  ríkisins, en þar er barizt um hvern bita, og það væri glórulaust athæfi að forgangsraða ríkisfjármunum í þágu gæluverkefnis, sem ætlað er að leysa umferðarvanda, sem miklu raunhæfara er að bregðast við í þágu allra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu með gerð mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á stofnæðum þéttbýlisins fyrir mun lægri upphæð en nemur kostnaði við Borgarlínuna.  

Jónas Elíasson, prófessor emeritus, vakti máls á grafalvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar með grein í Morgunblaðinu, 13. júní 2017, 

"Óstjórn í Reykjavík",

sem lauk með þessum orðum:

"Bjarga má fjármálum venjulegra bæjarfélaga með góðum vilja og samningum við lánadrottna, en 380 milljarða króna skuld Reykjavíkurborgar [mismunur 380 og 290 miaISK er e.t.v. vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga Reykjavíkurborgar - innsk. BJo] verður vart bjargað með slíkum hætti.  Til að svo megi verða, þarf þjóðarátak.  Skuldastaða Reykjavíkur er þjóðhættuleg.  

Hér er svo líklega skýringin komin á því, hve hægt gengur að viðhalda götum, að engar marktækar framkvæmdir eru í samgöngum og lagnakerfum eða þróun nýrra byggingarsvæða, svo að fátt eitt sé nefnt um stöðnun höfuðborgarinnar á flestum sviðum verklegra framkvæmda.  Þetta er kannski einnig skýringin á því, að pótintátar borgarinnar tala um fátt annað en umhverfisvæna hjólreiðastíga eða álíka gæluverkefni, verkefni, sem þeir vita, sem vilja, að leysir ekki umferðar- og skipulagsvanda borgarinnar - hvorki í bráð né langd - en eru þeim óneitanlega kosti búin að kosta lítið í samanburði við allar þær framkvæmdir, sem æpandi þörf er á.

Á sama tíma er skuldahamarinn á leiðinni niður, og við því verður væntanlega að bregðast ?"

Það er búið að keyra höfuðborgina í fjárhagslegt fúafen, og núverandi valdhafar þar hafa hvorki getu né vilja til að draga hana þaðan upp.  Til þess þarf nýja vendi í valdastólana, sem hafa bein í nefinu til að gera uppskurð á stjórnkerfi borgarinnar til að gera það bæði skilvirkara og ódýrara.  Jafnframt þarf að auka tekjur borgarinnar enn meir með því að bjóða upp á mikla fjölbreytni lóða, og umfram allt að auka heildarlóðaframboð á sanngjörnu verði, þ.e. sem næst upphafskostnaði við innviði til að þjóna nýjum húsbyggjendum.  Með þessum hætti mun skattstofn borgarinnar vaxa meira en ella. Þá misheppnuðu stefnu að láta allt snúast um þéttingu byggðar, svo að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri en nú, verður að leggja fyrir róða. 

Staðan er orðin grafalvarleg, þegar prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ kallar hana þjóðhættulega.  

 

 


Borgarlína bætir ekki úr skák

Hugmyndafræðin að baki Borgarlínu er reist á sandi, og efniviðurinn í henni stenzt illa tímans tönn.  Það er með öðrum orðum veruleg fjárfestingaráhætta fólgin í Borgarlínu, sem ber að vara sterklega við.  Hugmyndin er reist á óskhyggju, sem mun rýra lífskjör og lífsgæði allra landsmanna, mest þó íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ástæðan er sú, að ætlunin er að leggja út í mjög mikla fjárfestingu eða um miaISK 70 á tæplega 60 km löngum vegi, sem hæglega getur orðið miklu dýrari.  Vegurinn verður ætlaður til forgangsaksturs um 30 m langra rafknúinna langvagna, sem er mjög hætt við, að verði illa nýttur, og þessi vegur, Borgarlína, mun óhjákvæmilega þrengja að almennri bílaumferð, sem alls ekki má við slíku, og sjúga til sín fjármagn, sem kæmi sér mun betur fyrir almenning að nýta til að auka flutningsgetu núverandi vegakerfis með uppsetningu nokkurra vel valinna mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á höfuðborgarsvæðinu.  

Árið 2009 var gert óþurftarsamkomulag á milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem standa að Strætó BS samlagsfélagi, um, að ríkissjóður legði samlagsfélaginu árlega til einn milljarð króna, miaISK 1,0, til uppbyggingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2018 gegn því, að Vegagerðin þyrfti ekki að leggja neitt fé að mörkum til nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina á stofnæðum.

Þetta var óþurftarsamkomulag vegna þess, að það hafði í för með sér afar óhagkvæma ráðstöfun almannafjár, sem margfalt hagkvæmara hefði verið að ráðstafa til að greiða för almennrar umferðar með því að auka flutningsgetu lykilæða.  

Árið 2009 er talið, að 4 % af ferðum hafi verið með almenningsvögnum og að þetta hlutfall sé núna 5 %, en markmiðið er 8 % árið 2018, sem fyrirsjáanlega næst ekki. Yfirgengilegur fjáraustur til almenningssamgangna hefur sáralítilli farþegaaukningu skilað, og þrátt fyrir ýmiss konar þvingunarráðstafanir að hálfu borgaryfirvalda á borð við þrengingu gatna og fækkun bílastæða í grennd við Borgarlínuna, eru sáralitlar líkur á, að aukningin muni verða meiri en 1 % í stað 7 %, þ.e. 20 % fjölgun farþega, með Borgarlínu, svo að markmiðið um 12 %, eða meira en tvöföldun farþegafjölda með strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu, árið 2040 mun að öllum líkindum ekki nást vegna aðstæðna á Íslandi, erfiðari og tímafrekari ferðamáta með strætó auk sívaxandi bílaeignar almennings og lægri rekstrarkostnaðar bíla í tímans rás, t.d. með orkuskiptum.   

Þá sitjum við uppi með stórtap á fjárfestingu, sem líklega verður yfir miaISK 100, ef af verður, og 94 % ferðanna verður með einkabílum, sem Borgarlínan hefur þrengt hræðilega að bæði rýmislega og fjárhagslega, því að hún verður plássfrek og fjársveltir allar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og víðar.  

Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs þar, skrifaði fróðlega grein í Morgunblaðið 27. maí 2017, sem hún nefndi:

"Mun Borgarlína fjölga farþegum Strætó ?:

"Ávinningurinn af Borgarlínunni, ef vel tekst til, ætti að koma fram í sparnaði á fjárfrekum framkvæmdum við aðra samgöngukosti, en þennan ávinning þarf að sýna, þannig að verkefnið fái þann almenna stuðning, sem sótzt er eftir af þeim aðilum, sem hafa borið hitann og þungann af undirbúningi þess. "

"Aðrir samgöngukostir" hafa nú verið sveltir í 8 ár í tilraun til að efla almenningssamgöngur.  95 % fólks á ferðinni hefur orðið fyrir barðinu á því með árlegri lengingu farartíma á virkum dögum. Það er að öllum líkindum ranglega verið að gefa sér, að Borgarlínan fækki fólki í bílum úr 95 % í 88 % af heild árið 2040, en á þessu 23 ára tímabili mun íbúum fjölga um meira en 30 %, ef að líkum lætur. Að teknu tilliti til uppsafnaðrar þarfar í innviðauppbyggingu samgöngukerfisins er mjög óráðlegt núna að reikna með nokkrum einasta sparnaði vegna Borgarlínu.  Það er nóg komið af þessari sérvizkulegu forgangsröðun.  

Þegar í stað ber að leggja á hilluna öll áform um forgangsakreinar fyrir Strætó, en þess í stað beina fjármagni í að leysa úr umferðarhnútum allrar umferðar, líka strætó, með viðbótar akreinum og nýjum mislægum gatnamótum. Það er ódýr lausn á umferðarvandanum m.v. Borgarlínu, og slík fjárfesting mun nýtast allri umferðinni í stað lítils hluta hennar.

Það er ekki nóg með, að Borgarlína feli í sér stórfellt bruðl með skattfé í verkefni, sem mun nýtast fáum og há mörgum, heldur hefur borið á þeim skoðunum, að um þær mundir, er hún verður tilbúin fyrir miaISK 70 - 150, þá verði hún úrlelt orðin.  Þá skoðun lét t.d. Elías Elíasson, verkfræðingur, í ljós í Morgunblaðinu 13. júní 2017 í greininni,

"Ó, þétta borg".  Greinin hófst þannig:

"Draumar um, að almenningssamgöngur í Reykjavík gætu verið svona nokkurn veginn sjálfbært fyrirbæri, eru býsna gamlir og hafa breytzt í áranna rás.  Þrátt fyrir að ætíð hafi það sýnt sig, að samfélagið í Reykjavík sé of lítið og dreift, til að draumurinn sá geti rætzt, hafa menn haldið áfram að leita leiðar, og vinstri menn í Reykjavík telja sig nú hafa fundið hana.  Leiðin er sú að þétta byggð í Reykjavík, þar til draumurinn verður að veruleika.  Skipuleggja skal borgina kringum samgöngukerfið, sem hefur hlotið nafnið "Borgarlína".

Því fer fjarri, að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu fjárhagslega sjálfbærar, því að rekstrartekjur frá farþegum standa aðeins undir fjórðungi kostnaðarins.  Þær verða seint sjálfbærar, af því að íbúafjöldinn verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð slíkur, að samkeppnisforskot skapist gagnvart einkabílnum.  Þótt vinstri menn í Reykjavík þétti byggð, láti annað sitja á hakanum og valdi stórfelldu efnahagstjóni með þessu sérvizkulega uppátæki, þá snýst þessi forræðishyggja algerlega í höndunum á þeim, því að fólkið leitar einfaldlega í önnur sveitarfélög, og íbúar höfuðborgarsvæðisins munu vonandi krefjast þess, að fjandskap yfirvalda í Reykjavík gagnvart einkabílnum linni og að opinberu fé verði varið með skilvirkari hætti til úrbóta á umferðarkerfinu.  

"Þétting borgarinnar er þegar hafin.  Í því skyni er framboð lóða takmarkað sem mest við dýrari lóðir í gömlu hverfunum og úr verður lóðaskortur. Þar sem borgin hefur markaðsráðandi stöðu á lóðamarkaði, getur hún spennt upp lóðaverð, svo að hinar dýru þéttingarlóðir seljast, en þetta heitir markaðsmisnotkun í annars konar viðskiptum.

Markaðurinn svarar auðvitað á sinn hátt með því, að þeim fækkar, sem byggja vilja hús sín og borga sín gjöld í Reykjavík, þannig að útsvarstekjur borgarinnar lækka.  Nágrannasveitarfélögum finnst auðvitað gott að fá nýja, góða útsvarsgreiðendur og taka þeim opnum örmum.  

Til viðbótar ofurgjaldi á lóðirnar er fyrirhugað að leggja innviðagjöld á íbúa í grennd við Borgarlínu og fjármagna hana með þeim hætti.  Síðan fullyrðir borgarstjóri, að þarna sé um að ræða arðsama framkvæmd, sem borginni stendur til boða."

Þegar litið er á glórulausar fyrirætlanir meirihluta borgarstjórnar um ráðstöfun fjár borgarbúa, þarf engan að undra, að fjárhagur borgarinnar sé svo illa staddur, að litlu megi muna, að ríkisvaldið þurfi samkvæmt lögum að taka fjárráðin af borgaryfirvöldum með skipun tilsjónarmanns.  Þar sem skattheimta borgarinnar er í leyfilegu hámarki, er ljóst, að tvær ástæður liggja til þessarar slæmu fjárhagsstöðu.  Er önnur sú, sem Elías nefnir, að borgin hefur fælt frá sér vel borgandi íbúa og fyrirtæki með glórulausri lóðaskortsstefnu, og hin er bruðl með ráðstöfunarfé borgarinnar, auk hás vaxtakostnaðar af himinháum skuldum.

Í lokin færir Elías eftirfarandi ástæður fyrir því, að Borgarlínuhugmynd borgarforkólfa verður úrelt áður en hún kemst á koppinn:

"Þó þeir séu til, sem dásama líf án bíls, þá stefna lífshættir okkar í aðra átt.  Við sjáum hilla undir byggð án umferðartafa, mengunarfría, sjálfkeyrandi bíla og netþjónustu í fólksflutningum, með mínar dyr sem mína biðstöð í stað sérbyggðra biðstöðva með línum á milli.

Þess sjást þegar merki, að þrenging byggðar hvetur efnameiri borgara til búsetu annars staðar, og fyrirtæki eru farin að flytja til rýmri svæða utan borgar.  

Borgarlínudraumurinn er úreltur og orðinn skaðlegur.  Þetta finna borgarbúar á sér og munu tryggja, að draumar um þéttingu byggðar og Borgarlínu verði draumar liðins dags eftir næstu kosningar."

Í Hafnarfirði, sem verður á suðurjaðri Borgarlínunnar, gætir nú raunsæislegra viðhorfa til hennar.  Í Morgunblaðinu birtist 15. júní 2017 grein til merkis um þetta eftir Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, og Inga Tómasson, formann skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, undir fyrirsögninni, "Mikilvægar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu".  

Þar er lögð áherzla á, að Borgarlína muni mynda greiða samgönguleið á milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins fyrir öll samgöngutæki og verði t.d. með forgangsakrein fyrir öll samgöngutæki, þar sem í eru tveir eða fleiri.  Þá segir:

"Þrátt fyrir bjartsýnustu spár um 12 % notkun almenningssamgangna árið 2040 gera umferðarspár ráð fyrir allt að 46´000 bílum á þessari leið [Reykjanesbrautinni, sem er 53 % aukning frá árinu 2016 - innsk. BJo].  Fyrir okkur Hafnfirðinga er ástandið óásættanlegt.  Umferðarvandinn verður ekki leystur með tilkomu Borgarlínu.  Án annarra aðgerða mun vandinn halda áfram að vaxa."

Höfundarnir hafa lög að mæla og í lok sinnar ágætu greinar rita þau:

"Þótt flestir séu sammála því, að stefna beri að bættum almenningssamgöngum, þarf að vinna heildrænt og á raunhæfan máta að því að bæta samgöngurnar á svæðinu.  Fjármagn til samgöngumála er af skornum skammti, og þegar því er útdeilt, verður að taka tillit til hagsmuna fjöldans og þess, að vegfarendur hafa mismunandi þarfir og gera ólíkar kröfur."

Kjarni málsins er einmitt sá, að fjármagni til samgöngumála er þröngur stakkur skorinn.  Af þeim sökum er nauðsynlegt að forgangsraða.  Forgangsröðunin á að verða í þágu hinna mörgu, en ekki í þágu hinna fáu, sem fæstir hafa farið fram á eða bíða spenntir eftir löngum hraðvögnum á forgangsakreinum.  Það er allt í lagi að setja Borgarlínu á Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins, en ekki í þeim gæluverkefnisdúr, sem Dagur og Hjálmar í borgarstjórn Reykjavíkur hugsa sér, heldur á þá leið í þágu almannahagsmuna, sem Rósa og Ingi nefna hér að ofan, þ.e. ein forgangsakrein fyrir farþegaflutninga af öllu tagi, og 2-3 akreinar fyrir hvers konar umferð.   

 

 

 


Bretland byrjar illa

Forsætisráðherra Breta, Theresa May, tók þarflitla ákvörðun í apríl um þingkosningar 8. júní 2017 , þótt kjörtímabilið þyrfti ekki að enda fyrr en 2020, þ.e. að afloknum skilnaði Bretlands við Evrópusambandið, ESB.  Virtist hún þá treysta því, að mælingar í skoðanakönnun héldust og skiluðu sér í kjörkassana 7 vikum síðar.  Það er af, sem áður var, að brezki forsætisráðherrann geti tekið andstæðinginn í bólinu og boðað til kosninga með þriggja vikna fyrirvara.  Þessi mismunur á lengd kosningabaráttu reyndist Theresu May afdrifaríkur, og fyrsti ráðherra Skotlands og flokkur hennar beið reyndar afhroð.  Þar með er búinn draumur Nicola Sturgeon um nýtt þjóðaratkvæði um aðskilnað Skotlands frá Englandi, Wales og Norður-Írlandi.

May hafði við valdatöku sína haustið 2016 að afloknu formannskjöri í brezka Íhaldsflokkinum í kjölfar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní sagt, að næstu þingkosningar yrðu 2020.  Íhaldsflokkurinn hafði 5 sæta meirihluta á þingi, og hún hefur væntanlega verið spurð að því í heimsókn sinni til Berlínar og víðar í vetur, hvort hún gæti tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi með svo tæpan meirihluta, enda voru það meginrök hennar fyrir ákvörðun um flýtingu kosninga, að "Westminster" væri regandi, en þjóðin ákveðin í að fara úr ESB.  Hún vildi "hard Brexit", sem þýðir alskilnað við stofnanir ESB og ekki aðild að Innri markaðinum um EFTA og EES, heldur skyldi Bretland gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB og öll ríki, sem gæfu kost á slíku.  Bretland yrði ekki innan "Festung Europa" - varnarvirkis Evrópu, sem er þýzkt hugtak úr Heimsstyrjöldinni síðari.

Theresa May hafði sem ráðherra hjá Cameron stutt veru Bretlands í ESB.  Þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina urðu ljós, sneri hún við blaðinu og tók upp harða afstöðu gegn ESB og fór fram undir þeim merkjum í formannskjörinu.  Kosningaklækir áttu líklega þar þátt, því að öllum var ljóst, að dagar brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, voru taldir, um leið og Bretland tók stefnuna út úr ESB.  Hún ætlaði að hremma atkvæðin, en krókur kom á móti bragði frá "gamla kommanum" Corbyn.  Hann sneri við stefnu Verkamannaflokksins um, að Bretar skyldu halda áfram í ESB, og studdi úrsögnina á þinginu og í kosningabaráttunni.  Við þetta gátu stuðningsmenn UKIP, sem flestir komu reyndar frá Verkamannaflokkinum, snúið aftur til föðurhúsanna.  

Það var einmitt þetta, sem gerðist, því að flest kjördæmin, þar sem mjótt var á munum á milli stóru flokkanna tveggja, féllu Verkamannaflokkinum í skaut, Íhaldsmönnum til furðu og sárra vonbrigða.  Þannig varð Verkamannaflokkur Jeremy Corbyns sigurvegari kosninganna með um 40 % atkvæða, jók fylgi sitt um ein 10 % og þingmannafjölda um 33 eða rúmlega 14 %.  Kosningarnar reistu formann Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, úr öskustó, pólitískt séð, og það verður ómögulegt fyrir Theresu May að kveða hann í kútinn.  Hann er einfaldlega meiri baráttumaður en hún og naut sín vel í kosningabaráttunni, en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum.  Theresa May særðist til stjórnmálalegs ólífis í þessari kosningabaráttu, ástæða er til að draga dómgreind hennar í efa, hún er lélegur leiðtogi í kosningabaráttu og hvorki sterk né stöðug, eins og hún hamraði þó stöðugt á.  

Íhaldsflokkurinn fékk þó meira fylgi kjósenda en hann hefur fengið í háa herrans tíð eða 42,4 %, sem er fylgisaukning um rúmlega 5 % frá síðustu þingkosningum.  Þrátt fyrir það mun Theresa May að líkindum verða sett af innan tíðar, því að hún lét kosningarnar snúast um sig að miklu leyti, tapaði 12 þingmönnum og glutraði niður 5 sæta þingmeirihluta.  Hún þykir ekki á vetur setjandi sem leiðtogi, og menn vilja alls ekki fara í nýjar þingkosningar undir forystu hennar.  Það þykja vera alvarlegar eyður í þekkingu hennar, t.d. um efnahagsmál, og hún hefur ekki haft lag á að fylla í eyður verðleikanna með réttu vali á ráðgjöfum, heldur setur hún í kringum sig fámennan hóp ráðgjafa, sem er með sömu annmarkana og hún sjálf.  Nú hefur hún fórnað tveimur aðalráðgjöfunum, en það mun hrökkva skammt.  Líklegt er, að minnihlutastjórn hennar verði skammlíf og að boðað verði til kosninga aftur síðar á þessu ári.  Þá verður einhver annar í brúnni hjá Íhaldsflokkinum, en það er óvíst, að það dugi.  Vindar blása nú með Verkamannaflokkinum, sem fer að láta sníða rauð gluggatjöld fyrir Downing stræti 10.  Yngstu kjósendurnir eru Corbyn hlynntir, eins og hinum hálfáttræða Sanders í BNA, og þeir hafa aftur fengið nægan áhuga á pólitík til að fara á kjörstað.  

"It is the economy, stupid", var einu sinni sagt sem svar við spurningunni um, hvað réði helzt gjörðum kjósenda í kjörklefanum.  Í því ljósi var ekki óeðlilegt, að Verkamannaflokkurinn ynni sigur, því að hagur Breta hefur versnað mikið frá fjármálakreppunni 2007-2008 og kaupmáttur hjá mörgum lækkað um 10 % að raunvirði síðan þá vegna lítilla nafnlaunahækkana, verðlagshækkana og mikils gengisfalls sterlingspundsins.  Að flýta kosningum að þarflitlu við slíkar aðstæður ber vott um lélegt jarðsamband.  

Núverandi staða á Bretlandi er hörmuleg m.t.t. þess, að brezka ríkisstjórnin þarf á næstu dögum að hefja mjög erfiðar viðræður við meginlandsríkin undir hjálmi ESB um útgöngu úr þeim félagsskapi. Samninganefnd ESB sezt þá niður með Bretum, sem vinna fyrir ríkisstjórn flokks, sem tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum.  Theresu May mistókst að styrkja stöðu sína og er nú augljóslega veikur leiðtogi, sem ekki getur tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi sínum.  Staða brezku samninganefndarinnar er veikari fyrir vikið, og af þessum ástæðum verður May að taka pokann sinn og hreint umboð að koma frá þjóðinni nýrri ríkisstjórn til handa. 

Liggur við, að þörf sé á þjóðstjórn nú í London til að styrkja stöðuna út á við.  Þessar viðræður verða stríð að nútímahætti, enda tekizt á um framtíðarskipan Evrópu, sem hæglega geta endað án nokkurs samnings.  Nú er ekki lengur sterkur foringi í stafni hjá Bretum, eins og 1939, þegar staðfastur dagdrykkjumaður (að mati púrítana) og stórreykingamaður var settur í stafn þjóðarskútunnar, sem á tímabili ein atti kappi við meginlandsríkin, sem þá lutu forræði grænmetisætunnar og bindindismannsins  alræmda í Berlín.  Bretar unnu sigur í þeim hildarleik.  Þessi lota getur orðið lengri en lota misheppnaða málarans frá Linz. Sennilega munu Bretar einnig hafa betur í þessari viðureign, þegar upp verður staðið, þó að það muni ekki koma strax í ljós.  

 

 


Leikrit við frumskipun Landsréttar

Það er vandaverk að búa til kerfi fyrir skipun lögfræðinga í dómaraembætti, sem tryggi kjörsamsetningu dómarahóps, hvort sem dómararnir eiga að starfa í Héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti, og það þarf að vanda mjög val á einstaklingum í öll dómaraembætti.  Þar þarf að vera valinn maður í hverju rúmi. Líklega er bezt, að sama fyrirkomulag ríki á valinu fyrir öll 3 dómsstigin. Núverandi fyrirkomulag þarfnast endurskoðunar að mati dómsmálaráðherra og margra annarra.   

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið sunnudaginn 4. júní 2017, "Hlutverk Alþingis": 

 "Fyrirkomulag við skipan dómara hefur verið með ýmsum hætti fram til þessa og mismunandi eftir því, hvort við á Hæstarétt eða héraðsdómstól. Dómsmálaráðherra skipaði áður fyrr hæstaréttardómara eftir umsögn Hæstaréttar, en 3 manna dómnefnd fjallaði um umsækjendur héraðsdóma áður en ráðherra tók ákvörðun um skipun.  

Árið 2010 var sett á laggirnar 5 manna dómnefnd, sem hefur síðan fjallað um umsækjendur um bæði stöður héraðsdómara og hæstaréttardómara.  Um leið var vægi nefndarinnar aukið þannig, að ráðherra hefur verið bundinn við niðurstöðu hennar.  Þó er það ekki fortakslaust,  því að sérstaklega er kveðið á um, að ráðherra geti vikið frá mati nefndarinnar, en þá verður hann að bera það undir Alþingi.  

Í greinargerð með frumvarpi með þessari breytingu er sérstaklega áréttað, að veitingavaldið sé hjá ráðherra.  Það sé enda eðlilegt, að valdið liggi hjá stjórnvaldi, sem ber ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu [undirstr. BJo].

Með lögum um Landsrétt var svo kveðið á um, að við skipun dómara í fyrsta sinn yrði ráðherra að bera tillögu sína upp við Alþingi, hvort sem ráðherra gerði tillögu um að skipa dómara alfarið í samræmi við niðurstöðu dómnefndar eða ekki."

Á grundvelli þessa skýtur skökku við, að nokkur skuli draga í efa vald ráðherra til að hvika frá tillögu dómnefndar um 15 fyrstu dómendur í nýstofnuðum Landsrétti,  úr hópi 37 umsækjenda, og það vitnar beinlínis um dómgreindarleysi að saka ráðherrann um valdníðslu í ljósi þess, að mikill meirihluti fulltrúa landsmanna á Alþingi staðfestu gjörning ráðherrans.  Löggjafarsamkoman hafði búið svo um hnútana, að hún hefði lokaorðið um þessa frumskipun, væntanlega til að geta tekið í taumana, ef henni þætti tillögugerð ótæk.

Á Alþingi þótti mönnum 15 manna hópur dómnefndar einmitt vera  ótækur í þessu tilviki, og þá átti ráðherra ekki annarra kosta völ en að breyta þessum 15 manna hópi.  Þetta og fleira gerir málshöfðun á hendur ráðherra út af veitingunni alveg út í hött, og hún er aðeins til vitnis um öfgafull tapsárindi, sem bera viðkomandi lögmanni, lögskýringum hans og persónueinkennum, slæmt vitni.

"Ráðherra varð strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi.  Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt.  Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg.  

Að virtum öllum sjónarmiðum, sem máli skipta, gerði ráðherra tillögu til Alþingis um tiltekna 15 einstaklinga úr hópi þeirra 24, sem hann hafði metið hæfasta.  Virtist mikil og góð sátt um tillögu ráðherra í upphafi.  Það breyttist, hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði."

Það má geta nærri, að leikritið, sem þá fór í gang á Alþingi og í fjölmiðlum, hafi verið að undirlagi einhvers tapsárs, sem ekki ber meiri virðingu fyrir Alþingi, löggjafarsamkomunni, en svo, að hann telur við hæfi að efna til æsingarkenndrar umræðu um alvarlegt og mikilvægt mál.  Ekki bætti úr skák, að skýrslu dómnefndar, eða kjarna hennar, var lekið í fjölmiðla, sem er algerlega óviðunandi fyrir alla, sem hlut eiga að máli.  Verður sá leki rannsakaður ?

Eftir þessa atburðarás er óhjákvæmilegt að taka skipun dómara til endurskoðunar. Það er engin ástæða til að hafa mismunandi fyrirkomulag fyrir dómstigin 3, heldur er kostur við að hafa samræmt vinnulag fyrir þau öll.  Sama dómnefndin getur séð um matið á dómaraefnum fyrir öll dómstigin þrjú, en það þarf að standa öðruvísi að vali dómnefndar, og hún verður að fá nákvæmari forskrift frá Alþingi en núverandi dómnefnd fékk, svo að hún hlaupi ekki út um víðan völl.  

Það má hugsa sér, að Alþingi kjósi 4 nefndarmenn, stjórnarliðar 2 og stjórnarandstaða 2, og sé einn af hvoru kyni í hvorum hópi.  Hæstiréttur tilnefni þann 5., sem verði formaður.  

Verkefni dómnefndar verði að flokka hæfa umsækjendur frá óhæfum og gefa þeim hæfu einkunn eftir hæfni á hverju sviði, t.d. á sviðum fræðimennsku, dómstólastarfa, lögmennsku, stjórnsýslu, en sleppa því að vigta saman þessi hæfnissvið.  Einkunnir séu í heilum tölum frá 0-10. Nákvæmni núverandi dómnefndar með aðaleinkunn með tveimur aukastöfum er alveg út í hött.  Matsnákvæmnin leyfir ekki slíkt, nema umsækjendur séu látnir þreyta próf.  

Það á ekki að vera hlutverk dómnefndar að vega hin ólíku hæfnissvið saman í eina einkunn, enda er óljóst, hvernig dómnefnd Landsréttarumsækjenda ákvarðaði mismunandi vægi færnisviðanna, heldur á það að vera verkefni þess, sem með veitingarvaldið fer, dómsmálaráðherrans.  Hann verður við þá vigtun að vega og meta á hvaða sviðum viðkomandi dómstóll þarf helzt styrkingar við í hvert sinn, og ákvarða vægistuðlana út frá því.   Það var einmitt það, sem Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra gerði, þegar hún vék frá þröngri og hæpinni raðaðri tillögu dómnefndarinnar með því að styrkja hópinn með þekkingu og reynslu af dómstólastörfum.  Það var fullkomlega málefnalegt sjónarmið. 

Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, ritaði á Sjónarhóli Morgunblaðsins 1. júní 2017 greinina

"Hæfir dómarar".  Þar sagði m.a.:

"Ég hef áður gagnrýnt það á þessum vettvangi, að val á dómurum sé sett í hendurnar á hæfnisnefndum, sem ekki njóta lýðræðislegs umboðs og bera ekki stjórnskipulega ábyrgð á skipununum.  Á meðan ráðherra er í lögum falið að skipa dómara og bera ábyrgð á slíkum ákvörðunum, pólitískt og stjórnskipulega, er eðlilegt, að hann leggi sjálfstætt mat á þá, sem skipaðir eru.  Með núverandi fyrirkomulagi virðist valnefnd geta stillt ráðherra upp við vegg með því að veita ráðherra ekkert svigrúm við skipunina, líkt og gert var í þessu tilviki."

Valnefndin stillti ekki aðeins dómsmálaráðherra upp við vegg, heldur hinu háa Alþingi líka, með því að búa sér til innri vog á mikilvægi hvers frammistöðuþáttar.  Upp á þessu tók dómnefndin án nokkurrar forskriftar um það, og það er vafasamt, að hún hafi haft heimild til slíkrar ráðstöfunar.

Haukur Örn skrifar t.d., að reynsla umsækjenda af stjórnun þinghalda og samningu dóma hafi ekki fengið neitt vægi hjá dómnefndinni.  Það sýnir, að störf dómnefndarinnar eru gölluð og að nauðsynlegt er að njörva verklagsreglu dómnefndar niður með lögum eða reglugerð.  Með gagnrýniverðri einkunnagjöf batt dómnefndin hendur ráðherra og Alþingis, en ráðherra leysti greiðlega úr því, enda stóðu engin rök til þess, að einvörðungu 15 væru hæfir til embættanna.  Það voru röng skilaboð til umsækjenda og annarra, sem hug hafa á þessum málum.

"Sitt sýnist auðvitað hverjum um listann, og eðlilega eru þeir, sem duttu út af listanum, óánægðir.  Einn aðili, Ástráður Haraldsson, lögmaður, einn umsækjendanna, sem duttu út af lista ráðherra, var snöggur til og hljóp fram með nokkrum gífuryrðum strax og fréttist af tillögu ráðherra.  Sendi hann opið bréf á forseta Alþingis, þar sem fullyrt var, að ráðherra hefði gerzt lögbrjótur með athæfi sínu og að þingheimur mætti ekki leggja blessun sína við slík lögbrot.  Taldi hann það t.d. ekki standast lög, að ráðherra ætlaði sér að leggja fram 15 einstaklinga í einum "pakka", auk þess sem verulega hefði vantað upp á rökstuðning ráðherra fyrir tillögunni.

Hvað fyrra atriðið varðar, er augljóst mál, að umsækjandinn lagði ekki á sig að kynna sér tillögu ráðherrans áður en hann lýsti yfir lögbroti hennar.  Enda virðist það aldrei hafa staðið til hjá ráðherranum að óska eftir því við þingmenn, að þeir samþykktu allar 15 tilnefningarnar í einu, heldur ávallt gengið út frá því, að kosið yrði um hvern og einn umsækjanda. 

Hið sama má segja um seinna umkvörtunarefnið.  Ráðherra fylgdi tillögu sinni eftir með útskýringum og rökstuðningi, sem hann hefur nú látið þingmönnum í té.  Svo virðist sem bréf umsækjandans hafi því falið í sér frumhlaup, sett fram í þeim tilgangi að hræða þingmenn í átt að sérstakri niðurstöðu."

Það er einsdæmi hérlendis, að umsækjandi um dómarastöðu eða aðra opinbera stöðu hlaupi opinberlega svo hrapallega á sig "í ráðningarferlinu" sem Ástráður Haraldsson í þessu máli.  Það er skrýtið, að slíkur gallagripur skuli lenda í hópi 15 efstu hjá dómnefndinni.  Öll málafylgja og gífuryrði téðs Ástráðs í þessu máli sýna almenningi svart á hvítu, að hann átti ekkert erindi í Landsrétt.  

Það er stormur í vatnsglasi að ásaka ráðherra um lögbrot fyrir að leggja tillögu sína fram sem heild, en ekki í 15 liðum.  Ákvörðun um þetta var tekin af yfirstjórn þingsins, og þingið samþykkti þetta form, enda alvanalegt þar.  Allir vissu, að hver þingmaður gat gert þá grein fyrir atkvæði sínu, að undanskilja einhverja frá samþykki sínu. Þingmönnum var ennfremur í lófa lagið að fara fram á atkvæðagreiðslu um hvern og einn, og samkvæmt þingsköpum hefði slík beiðni verið samþykkt.  Hér var um hreint framkvæmdaatriði að ræða, sem fráleitt er að kalla lögbrot.  Þá væru fjölmargar atkvæðagreiðslur á þingi um nokkra liði í einu lögbrot. Þetta upphlaup Ástráðs missti þess vegna algerlega marks og ber einvörðungu vott um mjög óvönduð vinnubrögð, sem allir dómarar í landinu verða að vera hátt hafnir yfir.   

 

 

 

 

 

 

 


Græddur er geymdur eyrir

Íslenzka krónan, ISK, hefur risið í áður óþekktar hæðir gagnvart Norðurlandamyntunum NOK og SEK og sterlingspundi, GBP, og er nálægt efri mörkum gagnvart evru, EUR, en gagnvart aðalviðskiptamynt okkar, bandaríkjadal, USD, var hún talsvert hærri á fyrsta áratugi 21. aldarinnar.  Hvernig stendur á því, að verðgildi ISK hækkar langt umfram getu hagkerfisins núna til að rísa undir ?

Þrátt fyrir afnám fjármagnshafta heldur ISK áfram að styrkjast.  Á einum mánuði, eftir að Seðlabankinn hætti að selja ISK og bæta við gjaldeyrisvarasjóðinn í vor, hafði hún hækkað um 7 % gagnvart USD, 5 % gagnvart GBP og rúmlega 4 % gagnvart EUR.  Um miðjan maí 2017 hafði ISK hækkað á 12 mánuðum um 16 %-25 % gagnvart þessum gjaldmiðlum og 19 %-22 % gagnvart NOK og SEK. Hér er greinilega spákaupmennska markaðarins á ferð, því að til lengri tíma er gengið a.m.k. fimmtungi of hátt.  Líklega er gengið í árslok 2015 nálægt efnahagslegu jafnvægisgengi og getu hagkerfisins.   

Þetta hefur gríðarleg neikvæð áhrif á afkomu gjaldeyrisaflandi atvinnugreina, sem mynda undirstöðu efnahagskerfis landsins.  Er því spáð, að framlegð, EBITDA, sjávarútvegsins verði að meðaltali aðeins 13 % af tekjum hans 2017, og eru minni fyrirtæki og einkum útgerðir án eigin fiskvinnslu enn ver stödd.  Þetta er mikil lækkun framlegðar frá meðaltali undanfarinna 20 ára, sem var um 23 % af söluandvirði.  Til að standa undir afborgunum og vöxtum lána, nýjum nauðsynlegum fjárfestingum, veiðigjöldum, hefðbundnum sköttum og arðgreiðslum, þarf EBITDA að vera a.m.k. 20 % í fjármagnsfrekri starfsemi á borð við sjávarútveg, svo að viðunandi rekstrarárangur geti talizt til lengdar.  

Í ljósi þess, að tæplega fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015, þ.e. átti ekki fyrir skuldum, þýðir stórminnkuð framlegð síðan þá, að óvenjumörg fyrirtæki munu óhjákvæmilega leggja upp laupana á næstunni og önnur verða að hagræða rekstrinum með róttækum hætti til að ná endum saman.  Þetta jafngildir enn meiri samþjöppun í sjávarútvegi og fækkun starfsstöðva með þeim félagslegu afleiðingum, sem kunnar eru. 

Þróun gjaldmiðils landsins undanfarin 2-3 ár, þ.e. árin 2015-2016, og það sem af er árinu 2017, knýr fram aukna framleiðni og breytingar á atvinnuháttum um allt land.  Þetta er "hrossalækning", sem hefur í för með sér varanlega töpuð störf á einstaka stað, en víðast tímabundna erfiðleika, þar sem Byggðastofnun og aðrar atvinnugreinar geta linað sársaukann. 

Við þessar aðstæður koma gallar veiðigjaldakerfisins berlega í ljós.  Útreikningur á veiðigjöldum er reistur á afkomu útgerðanna fyrir 2-3 árum.  Þetta er allt of mikil afturvirkni, sem ber að afnema.  Nær er að miða við framlegð á síðasta almanaksári, og sé hún undir 20 %, falli veiðigjöldin niður á næsta almanaksári.  Jafnframt þarf að vera þak á veiðigjöldum í góðu árferði, t.d. 5 % af framlegð fyrirtækis á síðasta almanaksári, svo að ekki sé farið offari við þessa gjaldtöku af afnotum náttúruauðlindar.  Það er reyndar brýnt réttlætismál að jafna aðstöðu á milli atvinnugreina með því að taka upp samræmt mat á verðmætum náttúruauðlinda og gjaldtöku af nýtingu slíkra, sem falla utan einkaeignarréttar.  Á þetta hefur margfaldlega verið bent á á þessu vefsetri.

Stóriðjan aflar nokkru minni gjaldeyris en sjávarútvegurinn, og samtals afla þessar tvær greinar minni gjaldeyris en ferðaþjónustan.  Vegna mikilla launahækkana eða um 30 % á undanförnum 2-3 árum, berst nú sá umtalsverði hluti iðnaðarins í bökkum, þar sem starfsmannakostnaður er hátt hlutfall, t.d. yfir 40 %, heildarkostnaðar.  Í stóriðjunni er þetta hlutfall þó mun lægra, og þar eru aðalkostnaðarliðirnir, hráefni og orka, greidd í erlendum gjaldeyri, oftast USD, og tekjurnar eru í sömu mynt.  Stóriðjan er þess vegna að nokkru leyti varin gegn gengisáhrifum ISK, en sömu sögu er engan veginn að segja um aðra þætti iðnaðarins, sem nú afla um miaISK 100 í erlendum gjaldeyri. 

Ferðaþjónustan hefur fjárfest talsvert á undanförnum árum og er þess vegna skuldug.  Hún er mannaflsfrek og framlegð hennar er tiltölulega mjög lág við þessar aðstæður.  Hún hefur sennilega flotið á bættri nýtingu fjárfestingar ár frá ári og e.t.v. bættri framleiðni vegna gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna.  Framleiðnin er hins vegar lág, og m.a. þess vegna eru meðallaun tiltölulega lág í þessari starfsgrein. 

Fjölgun ferðamanna verður þó senn að dvína, því að álagsþol norðlægrar náttúru er takmarkað, og landið var óviðbúið hinum mikla flaumi.  Bætt dreifing ferðamanna um landið, t.d. með innanlandsflugi, er lykilatriði til að forðast ofálag á vinsælustu stöðunum.  Samkvæmt markaðslögmálunum hlýtur aukningin senn að færast niður að heimsmeðaltali árlegrar aukningar ferðamannafjölda, sem mun vera 5 %-10 %. 

Seðlabankinn leikur stórt hlutverk í afkomu allra atvinnugreina á Íslandi og þar með allra fjölskyldna.  Honum ber að framfylgja peningamálastefnu, sem heldur verðbólgu við 2,5 % +/- 1,5 %, þ.e. 1,0 % - 4,0 % verðvísitöluhækkun á ári.  Sé vísitölu húsnæðisverðs haldið utan við (auk flestra sparenda og lántakenda mæðir hún aðallega á þeim, sem eru að festa kaup á húsnæði í fyrsta sinn), er í raun verðhjöðnun á Íslandi. 

Um 40 mánaða skeið hefur heildarhækkun verðvísitölu (með húsnæðisliðnum) verið undir verðbólguviðmiði Seðlabankans, og undanfarna 12 mánuði hefur verðvísitala án húsnæðis lækkað um 1,8 %, en með húsnæði nemur hækkunin 1,9 %.  Miðað við væntingar skuldabréfamarkaðarins  mun þessi hækkun verða á bilinu 2,2 % - 2,5 % á ári að meðaltali næstu 5-10 árin.  Samkvæmt verðmælingum í maí 2017 hefur hert á téðri verðhjöðnun, t.d. vegna vaxandi samkeppni á smásölumarkaði.  Þótt spenna sé enn vaxandi á húsnæðismarkaði, er samt mikið af húsnæði í byggingu (þó ekki nóg og ekki af réttri stærð og kostnaði), og vonir standa til, að aukið framboð valdi minnkandi spennu þar eftir árið 2018, en þá þurfa að koma 9000 íbúðir inn á markaðinn á árabilinu 2017-2019.  

Væntingar skuldabréfamarkaðar eru jafnan í hærri kantinum.  Það verður ekki betur séð en Peningastefnunefnd hafi algerlega brugðizt bogalistin við að framfylgja peningastefnunni, sem er verðbólga sem næst 2,5 %/ár, því að hún heldur vöxtunum nú aðeins 0,5 % undir vaxtastiginu, sem var 2014, þegar verðbólgan fór undir verðbólguviðmið bankans eftir langa mæðu. 

Munur á raunvöxtum hér og í nágrannalöndunum hefur líklega aldrei verið hærri en núna.  Þetta veldur því, að fjárfestar hérlendis á borð við lífeyrissjóðina eru tregir til að selja ISK og fjárfesta erlendis, og hingað leitar fé erlendis frá til að nýta vaxtamuninn.  Fjárfestarnir gera greinilega út á hækkandi gengi ISK. Þetta þrýstir genginu enn upp á við og getur verið skýringin á metháu og óeðlilega háu gengi ISK núna.  Peningastefnunefnd Seðlabankans þiggur stefnuna frá Alþingi, en henni hafa verið hrapallega mislagðar hendur við að nýta tæki og tól bankans til að framfylgja þeirri stefnu með þeim afleiðingum, að skapazt hefur mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem ógnar tilveru fjölda fyrirtækja og lífsafkomu fólks um allt land.  Við svo búið má ekki standa, og það er Alþingis að grípa í taumana að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra. 

Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, birti skýra greiningu sína á vandanum í Morgunblaðinu, 6. maí 2017,

"Tími til að leyfa Íslandi að njóta velgengninnar":

"Mikil fjölgun ferðamanna á Íslandi á stuttum tíma hefur valdið ýmiss konar ójafnvægi, enda ekki óeðlilegt, að það taki hagkerfið nokkur ár að aðlaga sig viðlíka breytingu, eins og átt hefur sér stað hér á landi.  Auðséð er, að slík gjörbylting á hagkerfinu hlýtur að skila sér í mikilli breytingu í peningamála- og efnahagsstjórnun [leturbr. BJo].

Háum vöxtum verður ekki beitt til að stöðva umsvifin í hagkerfinu, sem eru drifin áfram af stórauknum komum erlendra ferðamanna til landsins.  Háum vöxtum verður ekki beitt til þess að lækka fasteignaverð, sem að hluta til er drifið af því að hýsa þarf ferðamennina, sem hingað koma (svo að ekki sé minnzt á aukningu erlends vinnuafls), en talið er, að um 3000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu í leigu til ferðamanna einhvern hluta úr ári, sem eru nærri 4 % íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu. 

Ekki þarf að beita háum vöxtum til að viðhalda vaxtamun til að laða gjaldeyri til landsins, þar sem óskuldsettur gjaldeyrisforði er fyrir hendi, viðskiptajöfnuður jákvæður ásamt jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins."

Ef þessi greining Valdimars Ármanns á nýju hagkerfi Íslands er rétt, sem ástæða er til að halda, þá stendur Peningastefnunefnd uppi sem steintröll, sem dagaði uppi, af því að hún einblíndi í baksýnisspegilinn, en horfði hvorki fram á veg né gerði hún sér far um að greina stöðuna, sem hagkerfið er nú í, og gera síðan viðeigandi ráðstafanir í peningamálum, sem henni ber lögum samkvæmt.  Peningastefnunefnd hefur ekki reynzt vandanum vaxin, og þess vegna er ISK í methæðum, útflutningsatvinnuvegunum og þar með fjölda manns til stórtjóns. 

Valdimar Ármann endar grein sína með ádrepu á núverandi stjórn Seðlabankans:

"Undanfarin ár hefur kaupmáttur hækkað myndarlega, og áfram er útlit fyrir umtalsverða samkeppni í smásöluverzlun, sem litast af innkomu erlendra aðila sem og aukinni verzlun á netinu.  Þá hefur vöruverð lækkað bæði vegna hagræðingar og gengisstyrkingar, en einnig vegna lægri skatta í formi afnuminna vörugjalda og tolla og lækkunar á virðisaukaskatti [Þessar lækkanir innflutningsgjalda eiga mikinn þátt í komu Costco til landsins og þar með hertri samkeppni í verzlun - innsk. BJo].  En nú er kominn tími til þess, að Seðlabanki Íslands leyfi íslenzkum almenningi og fyrirtækjum að njóta góðs af velgengni landsins með því að lækka hér vaxtastig og létta þannig á heimilum landsins og auka samkepnishæfnina."

Í bankaráði Seðlabanka Íslands sitja 7 manns.  Þann 25. apríl 2017 kaus Alþingi eftirfarandi í ráðið:  Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson.  Nýir vendir sópa bezt. Áfram sitja: Þórunn Guðmundsdóttir, Auður Hermannsdóttir og Björn Valur Gíslason. 

Hagstjórnarmistök Peningastefnunefndar, sem að miklu leyti er skipuð æðstu stjórn bankans, eru svo alvarlegs eðlis, að bankaráðið getur ekki látið kyrrt liggja.  Verður ekki öðru trúað en senn dragi til tíðinda undir Svörtuloftum, því að engir aukvisar hafa þau hingað til verið talin, sem nú skipa bankaráðið.

 


"Costco-áhrifin"

Í viku 21/2017 hófst eldsneytissala og önnur vörusala Costco í Kauptúni, Garðabæ.  Blekbóndi telur hafa orðið vatnaskil í viðskiptasögu Íslands með þessum atburði.

Alla sína tíð hafa Íslendingar mátt búa við litla samkeppni söluaðila neyzluvarnings og fjárfestingarvara í landinu. Að sumu leyti hefur áhugaleysi birgja stafað af smæð markaðarins og ýmsum viðskiptahömlum, en kaupmáttur þessa markaðar hefur vaxið mikið og hömlum verið aflétt.  Afleiðingar takmarkaðrar samkeppni voru hátt vöruverð, lítið vöruúrval og oft takmörkuð gæði. Um þverbak keyrði í þessum efnum á einokunartímanum.  Samvinnuhreyfingin hélt um tíma uppi samkeppni við kaupmenn, en hún dó drottni sínum af innanmeinum, eins og kunnugt er. Kaupfélagshugsjónin stóðst innlenda framtaksmanninum ekki snúning, og danski kaupmaðurinn lagði upp laupana. 

Hingað hafa hvorki sótt erlendir bankar né neyzluvöruseljendur á smásölumarkaði fyrr en nú, að tuskusalar og hin alþjóðlega Costco-samsteypa opna hér útibú.  Hér hefur ríkt fákeppni og verðlag haldizt of hátt af þeim sökum. Til að neytendur hafi hag af markaðslögmálunum, verður að ríkja raunveruleg samkeppni, en ekki sýndarsamkeppni.   

Nú hillir undir raunverulega samkeppni á sviði neyzluvarnings og ýmissar fjárfestingarvöru heimilanna almenningi til hagsbóta, einnig þeim á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem verzla annars staðar.  Skammtímaáhrifin eru minni ös á annatímum í "gömlu" verzlununum og lækkað vöruverð þar. 

Hvernig bregðast álitsgjafar við þessum tíðindum ?  Almennt er þessu framfaraskrefi fagnað, en þó heyrist fýlutónn úr herbúðum vinstri manna.  Þeir finna nýrri samkeppni allt til foráttu ?  Hvernig skyldi standa á því ?

Skýringarnar liggja grafnar djúpt í hugskoti vinstri mannsins.  Að vissu leyti er glæp auðvaldsins stolið frá honum.  Hatur vinstri manna á kaupmönnum hérlendis hefur lengi verið við lýði, og ekki dró úr því, þegar samvinnuhreyfingin varð undir í samkeppninni, nema á skagfirzka efnahagssvæðinu.  Hatrið hefur verið nært á meintu okri kaupmanna, sem neytendur geta nú sýnt vanþóknun sína á með fótunum.  Ánægjan með ríkjandi þjóðfélagsskipulag er líkleg til að vaxa við þessar aðstæður, og ekki mun uppdráttarsýki vinstri armsins dvína við það. 

Önnur hlið á fýlunni út í Costco er, að þar fer bandarísk verzlunarsamsteypa, jafnvel sú næststærsta þar í landi, og þar með telja kommar, að bandaríska auðvaldið hafi náð að læsa klóm sínum í íslenzka neytendur.  Það telur "Íslandskomminn" vera áfall fyrir vígstöðu sína.  "Íslandskomminn" hugsar sem svo, að nú muni bandaríska auðvaldið maka krókinn á íslenzkri alþýðu og flytja allan arðinn úr landi, sem sé alger frágangssök, og þess vegna beri að berjast gegn þessu fyrirbrigði með kjafti og klóm.  Vindmylluriddararnir láta ekki að sér hæða.

Þetta er sama vitleysan og haldið hefur verið fram gagnvart allri erlendri atvinnustarfsemi á Íslandi.  Það er horft framhjá meginatriði málsins, að hinir erlendu fjárfestar, í þessu tilviki Costco, hafa fjárfest talsvert, sumir mikið á íslenzkan mælikvarða, fjármagn kostar, og þess vegna eiga hinir erlendu fjárfestar rétt á að njóta arðs af fjárfestingum sínum.  Þeir greiða há opinber gjöld vegna fjárfestingarinnar og rekstrarins, og sömu sögu er að segja af starfsmönnum þeirra hérlendis, þótt í tilviki Costco muni vera margir Bretar a.m.k. fyrst um sinn.  Það léttir á þöndum atvinnumarkaði á Íslandi.  Nú reynir á utanríkisráðuneyti Íslands að gera vitrænan samning við brezku ríkisstjórnina um frelsin fjögur, sem taki við, þegar Bretar ganga úr Brüssel-hnappheldunni. 

Maður er nefndur Svavar Gestsson, lærisveinn Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra, og hefur stundum verið kenndur við erlendan sparnaðarreikning hins fallna Landsbanka frá 2008, sem Svavar samdi um, að íslenzkir skattgreiðendur skyldu ábyrgjast greiðslur á.  Var sá gjörningur alveg dæmigerður fyrir dómgreindarleysi og getuleysi vinstri forkólfanna, þegar til stykkisins kemur.  Verður hann lengi í minnum hafður sem víti til varnaðar.  Er saga vinstri manna á Íslandi e.t.v. eitt samfleytt feigðarflan ?   

Líklega er téður Svavar eins konar Nestor vinstra liðsins á Íslandi, og af því má ráða, hvers konar lið þar er á ferðinni. Þar leiðir blindur haltan. Seint verður sagt, að sá söfnuður stigi í vitið.  Téður Svavar mun hafa tjáð sig með fýlufullum hætti um opnun Costco verzlunarinnar í Kauptúni.  Í ljósi skýringanna, sem hér hafa verið hafðar uppi um þessa fjandsamlegu afstöðu gegn hagsmunum almennings, þarf engan að undra, að hljóð komi úr þessari átt. Marxistum margra gerða er sama um hagsmuni alþýðunnar.  Það, sem skiptir þá máli, er, að marxistískt þjóðskipulag sé við lýði, með öðrum orðum ríkiseinokun.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gat ekki dulið önuglyndi sitt og öfuguggahátt, þegar hún gaf eftirfarandi ritaða umsögn um opnun Costco:

"Vond áhrif á vöruverð, skipulag og samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni." 

"Nomenklatúran" telur sem sagt samkeppni hafa vond áhrif á vöruverð.  Það er ágætt fyrir almenning að fá það á hreint, að ef fyrirtæki neyðast til að lækka vöruverð til að missa ekki alla viðskiptavinina til samkeppnisaðilanna, þá eru það "vond áhrif á vöruverð" að dómi ráðandi afla lengst til vinstri í stjórnmálunum.  Þetta mat hlýtur að stafa af því, að Sóley Tómasdóttir og skoðanasystkini hennar óttist, að einhverjir kaupahéðnar leggi upp laupana.  Það er hins vegar lögmál markaðarins, að hinir hæfustu lifa af.  "Nómenklatúran" vill auðvitað ráða því, hverjir lifa og hverjir ekki.  Fáir telja, að tilveran yrði betri, ef málum væri þannig fyrir komið. 

Sóley telur, að "skipulag og samgönguhættir" líði fyrir Costco.  Það fellur ekki að geðþótta hennar, að Costco sé í deiliskipulagi Garðabæjar (hafnaði ekki Sóley og skoðanasystkini hennar um umsókn Costco um lóð í Reykjavík á sínum tíma ?) og að fólk aki þangað á sínum einkabíl, birgi sig upp af vörum og fylli eldsneytistank einkabifreiðarinnar af benzíni eða dísilolíu í leiðinni, nú eða hlaði rafgeyma rafmagnsbílsins.  Þetta er ekki mögulegt í draumaheimi Sóleyjar, þar sem almenningssamgöngur eru alfa & omega. 

Það er ekki ljóst, hvers konar sveitarómantík býr að baki fortíðarþrá eftir "mannlífi í byggð".  Það er nokkuð ljóst, að sveitafólk, sem leið á "í bæinn", þ.e. Garðabæ, mun birgja sig upp, eins og það getur, og fara langt með að borga ferðakostnaðinn með þeim hætti.

Að lokum hugsar Sóley Tómasdóttir til byltingarinnar, sem á að koma höfðingjum vinstri manna, Marxistunum, til valda. Þeir munu þurfa að byrja á því "að vinda ofan af vitleysunni".  Þá munu þeir loka fyrirtækjum alþjóðlegs auðvalds og þjóðnýta önnur, reka almenning með harðri hendi upp í strætisvagna og einoka fjölmiðlana. 

Að verða vitni að Costco-áhrifunum á vinstri menn er jafngildi þess að líta ofan í ormagryfju.  Fólk, sem snýr öllu á haus, getur ekki gengið heilt til skógar

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband