Færsluflokkur: Dægurmál

"Costco-áhrifin"

Í viku 21/2017 hófst eldsneytissala og önnur vörusala Costco í Kauptúni, Garðabæ.  Blekbóndi telur hafa orðið vatnaskil í viðskiptasögu Íslands með þessum atburði.

Alla sína tíð hafa Íslendingar mátt búa við litla samkeppni söluaðila neyzluvarnings og fjárfestingarvara í landinu. Að sumu leyti hefur áhugaleysi birgja stafað af smæð markaðarins og ýmsum viðskiptahömlum, en kaupmáttur þessa markaðar hefur vaxið mikið og hömlum verið aflétt.  Afleiðingar takmarkaðrar samkeppni voru hátt vöruverð, lítið vöruúrval og oft takmörkuð gæði. Um þverbak keyrði í þessum efnum á einokunartímanum.  Samvinnuhreyfingin hélt um tíma uppi samkeppni við kaupmenn, en hún dó drottni sínum af innanmeinum, eins og kunnugt er. Kaupfélagshugsjónin stóðst innlenda framtaksmanninum ekki snúning, og danski kaupmaðurinn lagði upp laupana. 

Hingað hafa hvorki sótt erlendir bankar né neyzluvöruseljendur á smásölumarkaði fyrr en nú, að tuskusalar og hin alþjóðlega Costco-samsteypa opna hér útibú.  Hér hefur ríkt fákeppni og verðlag haldizt of hátt af þeim sökum. Til að neytendur hafi hag af markaðslögmálunum, verður að ríkja raunveruleg samkeppni, en ekki sýndarsamkeppni.   

Nú hillir undir raunverulega samkeppni á sviði neyzluvarnings og ýmissar fjárfestingarvöru heimilanna almenningi til hagsbóta, einnig þeim á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem verzla annars staðar.  Skammtímaáhrifin eru minni ös á annatímum í "gömlu" verzlununum og lækkað vöruverð þar. 

Hvernig bregðast álitsgjafar við þessum tíðindum ?  Almennt er þessu framfaraskrefi fagnað, en þó heyrist fýlutónn úr herbúðum vinstri manna.  Þeir finna nýrri samkeppni allt til foráttu ?  Hvernig skyldi standa á því ?

Skýringarnar liggja grafnar djúpt í hugskoti vinstri mannsins.  Að vissu leyti er glæp auðvaldsins stolið frá honum.  Hatur vinstri manna á kaupmönnum hérlendis hefur lengi verið við lýði, og ekki dró úr því, þegar samvinnuhreyfingin varð undir í samkeppninni, nema á skagfirzka efnahagssvæðinu.  Hatrið hefur verið nært á meintu okri kaupmanna, sem neytendur geta nú sýnt vanþóknun sína á með fótunum.  Ánægjan með ríkjandi þjóðfélagsskipulag er líkleg til að vaxa við þessar aðstæður, og ekki mun uppdráttarsýki vinstri armsins dvína við það. 

Önnur hlið á fýlunni út í Costco er, að þar fer bandarísk verzlunarsamsteypa, jafnvel sú næststærsta þar í landi, og þar með telja kommar, að bandaríska auðvaldið hafi náð að læsa klóm sínum í íslenzka neytendur.  Það telur "Íslandskomminn" vera áfall fyrir vígstöðu sína.  "Íslandskomminn" hugsar sem svo, að nú muni bandaríska auðvaldið maka krókinn á íslenzkri alþýðu og flytja allan arðinn úr landi, sem sé alger frágangssök, og þess vegna beri að berjast gegn þessu fyrirbrigði með kjafti og klóm.  Vindmylluriddararnir láta ekki að sér hæða.

Þetta er sama vitleysan og haldið hefur verið fram gagnvart allri erlendri atvinnustarfsemi á Íslandi.  Það er horft framhjá meginatriði málsins, að hinir erlendu fjárfestar, í þessu tilviki Costco, hafa fjárfest talsvert, sumir mikið á íslenzkan mælikvarða, fjármagn kostar, og þess vegna eiga hinir erlendu fjárfestar rétt á að njóta arðs af fjárfestingum sínum.  Þeir greiða há opinber gjöld vegna fjárfestingarinnar og rekstrarins, og sömu sögu er að segja af starfsmönnum þeirra hérlendis, þótt í tilviki Costco muni vera margir Bretar a.m.k. fyrst um sinn.  Það léttir á þöndum atvinnumarkaði á Íslandi.  Nú reynir á utanríkisráðuneyti Íslands að gera vitrænan samning við brezku ríkisstjórnina um frelsin fjögur, sem taki við, þegar Bretar ganga úr Brüssel-hnappheldunni. 

Maður er nefndur Svavar Gestsson, lærisveinn Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra, og hefur stundum verið kenndur við erlendan sparnaðarreikning hins fallna Landsbanka frá 2008, sem Svavar samdi um, að íslenzkir skattgreiðendur skyldu ábyrgjast greiðslur á.  Var sá gjörningur alveg dæmigerður fyrir dómgreindarleysi og getuleysi vinstri forkólfanna, þegar til stykkisins kemur.  Verður hann lengi í minnum hafður sem víti til varnaðar.  Er saga vinstri manna á Íslandi e.t.v. eitt samfleytt feigðarflan ?   

Líklega er téður Svavar eins konar Nestor vinstra liðsins á Íslandi, og af því má ráða, hvers konar lið þar er á ferðinni. Þar leiðir blindur haltan. Seint verður sagt, að sá söfnuður stigi í vitið.  Téður Svavar mun hafa tjáð sig með fýlufullum hætti um opnun Costco verzlunarinnar í Kauptúni.  Í ljósi skýringanna, sem hér hafa verið hafðar uppi um þessa fjandsamlegu afstöðu gegn hagsmunum almennings, þarf engan að undra, að hljóð komi úr þessari átt. Marxistum margra gerða er sama um hagsmuni alþýðunnar.  Það, sem skiptir þá máli, er, að marxistískt þjóðskipulag sé við lýði, með öðrum orðum ríkiseinokun.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gat ekki dulið önuglyndi sitt og öfuguggahátt, þegar hún gaf eftirfarandi ritaða umsögn um opnun Costco:

"Vond áhrif á vöruverð, skipulag og samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni." 

"Nomenklatúran" telur sem sagt samkeppni hafa vond áhrif á vöruverð.  Það er ágætt fyrir almenning að fá það á hreint, að ef fyrirtæki neyðast til að lækka vöruverð til að missa ekki alla viðskiptavinina til samkeppnisaðilanna, þá eru það "vond áhrif á vöruverð" að dómi ráðandi afla lengst til vinstri í stjórnmálunum.  Þetta mat hlýtur að stafa af því, að Sóley Tómasdóttir og skoðanasystkini hennar óttist, að einhverjir kaupahéðnar leggi upp laupana.  Það er hins vegar lögmál markaðarins, að hinir hæfustu lifa af.  "Nómenklatúran" vill auðvitað ráða því, hverjir lifa og hverjir ekki.  Fáir telja, að tilveran yrði betri, ef málum væri þannig fyrir komið. 

Sóley telur, að "skipulag og samgönguhættir" líði fyrir Costco.  Það fellur ekki að geðþótta hennar, að Costco sé í deiliskipulagi Garðabæjar (hafnaði ekki Sóley og skoðanasystkini hennar um umsókn Costco um lóð í Reykjavík á sínum tíma ?) og að fólk aki þangað á sínum einkabíl, birgi sig upp af vörum og fylli eldsneytistank einkabifreiðarinnar af benzíni eða dísilolíu í leiðinni, nú eða hlaði rafgeyma rafmagnsbílsins.  Þetta er ekki mögulegt í draumaheimi Sóleyjar, þar sem almenningssamgöngur eru alfa & omega. 

Það er ekki ljóst, hvers konar sveitarómantík býr að baki fortíðarþrá eftir "mannlífi í byggð".  Það er nokkuð ljóst, að sveitafólk, sem leið á "í bæinn", þ.e. Garðabæ, mun birgja sig upp, eins og það getur, og fara langt með að borga ferðakostnaðinn með þeim hætti.

Að lokum hugsar Sóley Tómasdóttir til byltingarinnar, sem á að koma höfðingjum vinstri manna, Marxistunum, til valda. Þeir munu þurfa að byrja á því "að vinda ofan af vitleysunni".  Þá munu þeir loka fyrirtækjum alþjóðlegs auðvalds og þjóðnýta önnur, reka almenning með harðri hendi upp í strætisvagna og einoka fjölmiðlana. 

Að verða vitni að Costco-áhrifunum á vinstri menn er jafngildi þess að líta ofan í ormagryfju.  Fólk, sem snýr öllu á haus, getur ekki gengið heilt til skógar

 


Af laxalús og öðru fári

Sitt sýnist hverjum um vöxt og viðgang laxeldis hér við land.  Hin hagrænu og byggðarlegu áhrif af fiskeldinu hafa verið góð undanfarin ár, en umhverfisleg áhætta þessa rekstrar fer vaxandi með auknu laxeldi, og fyrir eru í eldisfjörðunum atvinnugreinar, sem gætu beðið tjón af sambýlinu.  Þó að þær sumar hverjar hafi minna efnahagslegt vægi, eiga þær þó ekki minni tilverurétt en fiskeldið.

  Hlutverk yfirvalda er að finna út, með hvaða hætti þessi "nýja" og vaxandi grein getur aðlagað sig íslenzkum aðstæðum, þannig að mengun frá henni valdi engu tjóni á íslenzku lífríki og geri hefðbundnum greinum ekki erfiðara um vik við markaðssetningu á "hreinum náttúruafurðum" sínum.  Tól yfirvalda til að sinna þessu mikilvæga hlutverki eru rannsóknir.  Það þarf t.d. miklar viðbótar rannsóknir á lífríki eldisfjarðanna.  Þar til þeim rannsóknum er lokið, ætti ekki að leyfa sýklalyfjagjöf eða eitrun fyrir lús í opnum eldiskerum.  Það er ekki nóg að benda á lítinn styrk eiturefna, ef óvissa ríkir um hættumörkin fyrir viðkomandi lífríki, hvort sem það eru þorskaseiði, rækja, skeljar og flær í flæðarmálinu eða annað.

Þann 9. maí 2017 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu,

"Umræða um fiskeldi",

eftir Soffíu Karen Magnúsdóttur, fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun, MAST.  Nú verður vitnað í hana og lagt út af henni:

"Til að draga úr líkum á sleppingum er verið að innleiða auknar kröfur um búnað, og skal hann standast kröfur staðals, sem notazt er við í Noregi og hefur dregið þar úr fjölda fiska, sem sleppa úr kvíum."

Hér skortir sárlega tölulegar upplýsingar um strok laxfiska úr opnum eldiskvíum nýrrar gerðar í Noregi og á Íslandi.  Tölfræðileg stroklíkindi út frá rekstrarreynslu eru grundvallargögn, þegar meta skal, hversu marga fiska má ala samtímis í einum firði.  Stroklíkindi, sem blekbóndi gat lesið út úr upplýsingum frá Noregi eftir innleiðingu NS 9415, voru 20 ppm á ári, en í ljósi fárra göngulaxa í fjörðum, þar sem fiskeldi er leyft á Íslandi, eru þessi líkindi jafnvel of há til að koma í veg fyrir merkjanlega erfðablöndun norska eldislaxins og íslenzkra, villtra laxastofna.  Laxeldi hérlendis þyrfti að geta sýnt fram á, að aðeins um 1 ppm af eldislaxinum komist að líkindum upp í ár árlega að meðaltali, svo að hættan á erfðablöndun verði viðunandi lítil.   

"Þá skal sýna fram á, að búnaðurinn standist kröfur, og þarf rekstraraðili skírteini frá faggiltri skoðunarstofu, sem staðfestir, að búnaðurinn sé öruggur og standist m.a. strauma og ölduhæð á eldissvæðinu.  Eldri búnaður er á útleið, en í kvíum, sem ekki standast nýjar kröfur, er alinn regnbogasilungur.  Sleppingar síðustu mánaða má rekja til slíkra kvía, sem verður skipt um með vottuðum búnaði.  Slysasleppingar geta þó átt sér stað, en þær þarf að fyrirbyggja eftir beztu getu og bregðast við á viðeigandi hátt, ef slys verða."

Af þessu er ljóst, að traustustu eldiskvíar, sem nú eru í venjulegum rekstri í Noregi og víðar, eru notaðar hér, og það er villandi málflutningur hjá andstæðingum laxeldis í núverandi mynd við Íslandsstrendur, að opnu sjókvíarnar fyrir norska laxinn séu úreltur búnaður.  Þá er verið að rugla venjulegum rekstri saman við tilraunarekstur í lokuðum eldiskvíum úti fyrir strönd.  Síðan er laxeldi í þróm á landi allt önnur Ella, og það tíðkast hvergi í miklum mæli, hvað sem verður. 

Síðan fjallar Soffía Karen um "stöðu fisksjúkdóma":

"Sjúkdómastaða í fiskeldi á Íslandi er ein sú bezta í heiminum, og engin sýklalyf eru notuð í sjókvíaeldi hér, andstætt fullyrðingum um annað.  Þá er tíðræddur misskilningur um, að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af.  Staðreyndin er sú, að laxalús hefur aldrei valdið vandræðum í íslenzku sjókvíaeldi.  Ástæðan er lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berst með villtum fiski í kvíar að vori, og þar nær hún að fjölga sér lítillega fram á haust.  Með vetri lækkar sjávarhiti, og lúsin hverfur úr kvíunum.  Þegar laxaseiði ganga til sjávar að vori, er því lítið eða ekkert um lús í eldiskvíum.  Í vetur var sjávarhiti þó heldur hærri en vanalega, sem er laxalús hagstætt.  Það sýnir mikilvægi þess að vaka yfir breyttum aðstæðum, en "lúsafár" hefur verið óþekkt í íslenzku eldi."

Það er vafalaust rétt hjá Soffíu Karen, að eldisfiskar við Íslandsstrendur hafi verið hraustastir eldisfiska og ekki þurft á sýklalyfjum að halda.  Það er ástæða til að láta kné fylgja kviði og banna alla sýklalyfjagjöf án þarfagreiningar læknis fiskisjúkdóma á MAST, sem ekki megi heimila slíkt, nema vissa sé fyrir, að lífríki viðkomandi fjarðar eða strandlengju stafi engin hætta af í bráð og lengd.  Slíkt bann mun vafalítið takmarka eldisþéttleikann, þ.e. meðaleldisfiskafjölda á flatareiningu á ári.

Svo virðist sem fullyrðing Soffíu Karenar um, að "laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslenzku sjókvíaeldi" sé ekki lengur rétt, því að Arnarlax mun hafa sótt um leyfi til MAST veturinn 2017 og fengið leyfi til að beita lúsaeitri í Arnarfirði.  Stafar þetta af hærra sjávarhitastigi haustið 2016 og veturinn eftir um 2°C-3°C, sem er býsna mikið og skipti sköpum fyrir lúsina í kvíunum, svo að hún lifði af og náði að fjölga sér.  Hvort gönguseiðum í vor stafar einhver hætta af þessu, er allt önnur saga, en þetta dæmi sýnir, að hlýnandi veðurfar og sjór er að fjarlægja þá náttúrulegu vörn, sem hér hefur verið gegn laxalús. 

Færeyingar o.fl. nota hrognkelsaseiði til að kroppa lúsina af laxinum og hérlendis sjá menn nú fram á að þurfa að beita sömu ráðum til að forðast lúsaeitrið, sem ekki ætti að heimila hér fyrr en að loknum ítarlegum rannsóknum á lífríkinu.  Agnar Steinarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sagði í viðtali við Morgunblaðið 5. maí 2017:

"Það er lús í hafinu, og þar hefur alltaf verið lús; það er bara eðlilegur hluti af fánunni.  Lúsin er ekki orðin vandamál hér við land, en ég veit til þess, að menn í sjókvíaeldi fyrir vestan ætla að taka hrognkelsaseiði í haust.  Þeir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og hyggjast prófa sig áfram til að læra á þetta. 

Ef sjórinn heldur áfram að hlýna og vetur mildir, samhliða auknu laxeldi, þá eiga sumir von á því, að lúsin geti náð sér á strik hérna.  Þegar hitastig er komið niður í 2°C-3°C, vex lúsin hins vegar ekki og fjölgar sér ekki, og kuldinn er því náttúruleg vörn gegn lúsinni."

Andstæðingar laxeldis við Íslandsstrendur hafa þyrlað upp miklu moldviðri út af meintu lúsafári hér.  Þar fara fremstir í flokki veiðiréttareigendur villtra laxastofna í íslenzkum ám.  Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, skrifaði þann 18. maí 2017 grein í þessum anda í Fréttablaðið undir fyrirsögninni:

"Leynir MAST upplýsingum um lúsasmit ?"

Þarna er strax dylgjað um, að hér kunni að geisa lúsafár og að MAST hylmi yfir glæpinn með eldisfélögunum.  Þessi málflutningur er ósæmilegur, og gerir þennan hagsmunahóp ótrúverðugan.  Greinin hófst þannig:

"Í desember síðast liðnum óskaði Landssamband veiðifélaga (LV) eftir því við Matvælastofnun (MAST) að fá afrit af öllum eftirlitsskýrslum frá sjókvíaeldi, sem stofnunin hefði undir höndum.  Beiðninni var hafnað á grundvelli þess, að hún væri of víðtæk. 

Auðvitað var ástæða beiðninnar, að LV hefur ekki fullt traust á þeim takmörkuðu upplýsingum, sem MAST veitir um umrædda starfsemi.  Hins vegar eru hagsmunir LV af því að fá afrit af upplýsingum miklir, þar sem fjallað er um áform fyrirtækja um að auka sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi upp í 200 kt í öllum fjörðum, þar sem slíkt eldi er heimilt."

Eftirlitsskýrslur opinberra aðila eru yfirleitt ekki opinber gögn, heldur einkamál eftirlitsaðila og viðkomandi fyrirtækis.  Það er ekki fyrr en úrbótaóskum er hafnað eða þær hunzaðar, sem hagsmunir þriðja aðila kunna að vakna, t.d. neytenda eða samkeppnisaðila.  Höfnun MAST virðist þess vegna hafa verið réttmæt í þessu tilviki. 

Það er órökstutt í grein Jóns Helga, hvers vegna LV treystir ekki núverandi upplýsingagjöf frá MAST.  Að blanda eftirlitsskýrslum við áform og umsagnir um framtíðar uppbyggingu laxeldis í íslenzkum fjörðum virðist heldur ekki eiga við rök að styðjast, enda eru ár og dagur þar til eldið nær nefndum hæðum. 

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, ritaði grein í Fréttablaðið á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 2017, og tætti þar í sundur rökleysur og innihaldslausar fullyrðingar Orra Vigfússonar, sem hann kynnir sem formann NASF og svarinn andstæðing laxeldis.  Greinin hefur fyrirsögnina,

"Fiskeldi á öruggri framabraut":

Hann hrekur fullyrðingu Orra um mengun frá laxeldisstöðvum með eftirfarandi upplýsingum frá norsku Fiskistofunni:

"Árleg umhverfisvöktun Fiskistofu Noregs undir og umhverfis eldiskvíar árið 2016 staðfestir góða þróun fyrri ára.  Ríflega 90 % staðsetninga er með gott eða mjög gott ástand bæði undir og umhverfis eldiskvíarnar."

Við þetta er að athuga, að fyrir íslenzkar aðstæður þurfum við vottun frá Umhverfisstofnun (UST) um 100 % staðssetninga með gott eða mjög gott ástand undir og umhverfis eldiskvíarnar á meðan eldið er lítið að umfangi.  Vonandi er UST í stakk búin til að upplýsa um þessa hlutfallstölu á Íslandi, svo og hlutfall norskra laxa, sem komast upp í íslenzkar ár á hverju ári.  Að halda áfram á braut laxeldis án þekkingar á þessum stærðum er eins og að feta einstigi með bundið fyrir bæði augu. 

Ein af töfralausnum fulltrúa veiðiréttarhafa villtra laxfiska á Íslandi er að gelda fiskinn, og jafnvel er látið í veðri vaka, að sú sé að verða meginreglan í laxeldi annars staðar.  Það er ósatt.  Soffía Karen skrifar:

"Fisk má gelda með breytingum á erfðamengi, eða með því að setja hrogn undir mikinn þrýsting.  Fiskur úr þeim hrognum verður ófrjór og getur ekki blandazt við villta laxastofna.  Gallinn við geldan lax er, að hann þarf sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukast og vansköpunartíðni getur verið há.  Auk þess er hætt við, að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð.  Ræktun á geldfiski gaf þó nýlega góða raun í köldum sjó í Noregi, sem gaf tilefni til tilraunar með geldfisk við strendur Íslands.  Verður hún framkvæmd af Stofnfiski, Háskólanum á Hólum, Landssambandi fiskeldisstöðva, Hafrannsóknarstofnun og Arctic Sea Farm.  Tíminn leiðir því í ljós, hvort þetta sé raunhæfur möguleiki í fiskeldi hér." 

Eins og sjá má á þessari frásögn, fer því víðs fjarri, að þessi eldisaðferð sé tæknilega tilbúin fyrir eldisfyrirtækin að taka upp í venjulegan rekstur sinn.  Aðferðin er dýr og óeðlileg, og erfðabreytt matvæli eiga ekki upp á pallborðið í Evrópu.  Þessi aðferð gæti kallað fram harðvítug mótmæli og jafnvel markaðshindranir að hálfu samtaka um heilnæm matvæli og dýravernd.  Þetta eru of mikil inngrip í náttúruna fyrir smekk margra neytenda nú á tímum.  Líklega er þessi aðferð dauðadæmd. 

Laxeldi við Ísland er lítið að umfangi saman borið við laxeldi nágrannalandanna og áætlað "burðarþol" þeirra fjarða, þar sem fiskeldi er leyfilegt samkvæmt núgildandi lögum.  Ætli hafi ekki verið slátrað um 10 kt af eldislaxi árið 2016, 80 kt í Færeyjum og 160 kt í Skotlandi ?  Blekbónda segir svo hugur um, að frekari rannsóknir og þekking á laxeldinu muni lækka burðarþolsáætlun umtalsvert niður fyrir 200 kt/ár, þannig að í mesta lagi verði slátrað hérlendis 100 kt/ár af eldislaxi í framtíðinni. Líklegt vaxtarskeið úr 10 kt/ár sláturmassa í 100 kt/ár eru 20 ár, og á þeim tíma gefst nægur tími til rannsókna, ef yfirvöld bregðast snöfurmannlega við. 

Það er önnur hlið á þessu máli, sem krefst skjótra aðgerða að hálfu yfirvalda, og það er gjaldtaka fyrir afnot náttúruauðlindar við ströndina.  Fyrst þarf að leggja mat á verðmæti náttúruauðlindarinnar sjálfrar, og síðan að leggja á auðlindagjaldið.  Blekbóndi hefur sýnt á þessu vefsetri, hvernig nálgast má þetta viðfangsefni fyrir allar náttúruauðlindir landsins.  Það er höfuðatriði, að allir þeir, sem aðstöðu hafa fengið til að skapa verðmæti úr náttúrunni á landi eða hafsvæði, sem þeir eiga ekki sjálfir, borgi samræmt auðlindagjald. 

Hluta af auðlindagjaldinu, sem innheimt verður af fiskeldisfyrirtækjunum, ætti að nota til að fjármagna þær rannsóknir og eftirlit, sem nauðsynlegar eru vegna fiskeldisins og gerðar hafa verið að umfjöllunarefni hér. 

 

 

 


Borgin og Vegagerðin í hár saman

Nauðhyggja, bruðl með skattfé og skipulagslegt fúsk Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er orðið að þjóðfélagsvandamáli vegna stærðar og mikilvægis Reykjavíkurborgar. 

Það steytir á mörgu, þegar skýjaborgir rekast á kostnaðarvitund, arðsemi fjárfestinga og rekstrar og fagleg sjónarmið.  Reykjavík er nú stjórnað af hreinræktuðum skýjaglópum, sem svífast einskis við að koma gerræðislegum áformum sínum í framkvæmd og fjármagna þjóðhagslega óhagstæðar framkvæmdir með því að seilast enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna. 

Sem dæmi þessum fullyrðingum til stuðnings má nefna Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmur, því að hann kemur í stað nýs flugvallar, sem kosta mundi um miaISK 100, hann styttir ferðaleið og ferðatíma þeirra, sem nýta völlinn, og hann þjónar, með þremur flugbrautum, hlutverki varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll, sem sparar millilandaflugvélum talsvert eldsneyti og eykur nettó flutningsgetu þeirra.  Skýjaglóparnir hafa tekið þennan flugvöll út af Aðalskipulagi og ætla að skipuleggja þar íbúðahverfi.  Veðurfarslega er Vatnsmýrin kjörlendi fyrir flugvöll, en það verður mjög dýrt að byggja þar húsnæði, því að djúpt er á fast undir sökkla og náttúrulegu votlendi, flóru og fánu, stendur ógn af þéttbýli í grennd.  Slíkt þéttbýli hlýtur að kalla á dýrar samgöngulausnir, því að barnaskapur er að ímynda sér, að megnið af íbúunum geti nýtt Borgarlínu til allra sinna ferða.  Flugvallarstaðsetning í Hvassahrauni er út í hött t.d. vegna þess, að þar er verndarsvæði fyrir vatnsöflun Suðurnesjamanna.  Flugvöllur og vatnsverndarsvæði fara fráleitlega saman.

Skýjaglóparnir ætla að leggja í allt að miaISK 200 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem á einvörðungu að vera fyrir einhverja nýja tegund almenningssamgangna, hraðvagna á gúmmíhjólum eða járnbrautarlest, sem verður reyndar enn dýrari.  Þetta fyrirbrigði er hugmyndin að tengja við fluglest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvar í Vatnsmýri.  Fluglest þessi er sögð losa miaISK 100 í fjárfestingu, verður vafalaust enn dýrari, sé miðað við svipaðar framkvæmdir erlendis, og er viðskiptalega séð andvana fædd hugmynd, því að fluglest verður ósamkeppnishæf við rafknúnar langferðabifreiðir.  

Ef samstaða er á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að taka frá land fyrir  samgönguæð á milli þeirra, sem virðist líklegt, er nauðsynlegt, að hún fái að þjóna öllum gerðum samgöngutækja og að hugmyndir um léttlest eða einhvers konar hraðvagna aðra en hefðbundna strætisvagna verði lagðar á hilluna.  Með þessu móti getur Borgarlína staðið undir nafni, þjónað öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins og aðkomufólki utan af landi og erlendis frá, og þannig orðið þjóðhagslega arðbær.  Þar með kæmi Vegagerð ríkisins að þessu máli sem hönnunar- og framkvæmdaraðili, sem tryggir nauðsynlega fagmennsku við stórt verkefni.  Fáránlegt samkomulag frá 2009 á milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um 1,0 miaISK/ár framleg Vegagerðar til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegn því að fresta öllum samgöngubótum þar til 2018 hefur engu skilað öðru en vaxandi umferðaröngþveiti og slysatíðni, því að markmiðið um 8 % hlut Strætó í fólksflutningum árið 2018 er fjarri því að nást.  Hlutdeild Strætó hefur hækkað úr 4 % í 5 %.  Hvað gera Bakkabræðurnir þá ?  Þeir áforma að fleygja miaISK 200 í Borgarlínu og hækka markmiðið í 12 % árið 2040 !

Undirbúningur Sundabrautar er sýnidæmi um kæruleysi núverandi borgaryfirvalda gagnvart kostnaði borgarinnar og í raun andstöðu þeirra við raunverulegar samgöngubætur, því að þessari nauðsynlegu samgöngubót er teflt í tvísýnu með framferði borgarinnar.  Frá þessu er skýrt í frétt Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 20. maí 2017, "Ytri leiðin er talin 10 milljörðum dýrari":

"Vegagerðin lítur svo á, að Reykjavíkurborg beri að fjármagna aukinn kostnað af lagningu Sundabrautar, verði ódýrasta lausnin ekki valin.  Hér getur verið um 10 milljarða kr kostnað að ræða.  Þetta álit Vegagerðarinnar kemur fram í bréfi, sem Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur sent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar."

Rekstur borgarinnar er í molum og afkoma hennar hefur verið slæm undanfarin ár, nema 2016 vegna góðærisins.  Hún er stórskuldug.  Hvernig ætla Dagur og Hjálmar að fjármagna skuld við Vegagerðina, ef þeir þvinga hana í dýrari kostinn ?  Kannski með því að vísa greiðslum til framtíðarinnar ?

"Í bréfinu segir vegamálastjóri orðrétt: "Nú hafa Vegagerðinni borizt fregnir af því [Dagur og Hjálmar sýndu þá ókurteisi að upplýsa Vegagerðina ekki fyrirfram], að borgin hafi úthlutað lóðum á Gelgjutanga, sem eru á vegstæði Innri leiðar Sundabrautar og mun uppbygging þar útiloka, að hægt verði að velja þann kost fyrir Sundabraut."

Það er ljóst, að þeir, sem með skipulagsmálin fara fyrir Reykjavíkurborg nú um stundir kunna sig engan veginn.  Að semja við byggingabraskara um heimild til að byggja á vegstæði, sem Vegagerðin var búin að mæla með sem fyrsta vali fyrir Sundabraut, án samráðs við Vegagerðina, er tuddaskapur og sýnir jafnframt, að skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hafa engan áhuga fyrir samgönguumbótum við Reykjavík, enda stefna þau leynt og ljóst að því að gera bílstjórum í borginni lífið óbærilegt, svo að þeir "nýti almenningssamgöngutæki" í staðinn. 

"Hér er vegamálastjóri að vísa til samnings, sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, gerði við fasteignafélagið Festi ehf í marz s.l. um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga.  Fasteignafélagið Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og Ingibjargar Kristjánsdóttur.

Í bréfi vegamálastjóra kemur fram, að Reykjavíkurborg hafi frá árinu 2014 látið vinna deiliskipulag af svokallaðri Vogabyggð.  Vegagerðin hafi gert athugasemdir við þessa vinnu á öllum stigum hennar, þar sem lögð var megináherzla á, að ekki yrði ráðstafað lóðum norður að Kleppsmýrarvegi fyrr en fyrir lægi samkomulag milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. 

Orðrétt segir í bréfi Hreins Haraldssonar [vegamálastjóra]:

"Í erindi Vegagerðarinnar til Skipulagssviðs borgarinnar, dags. 26. febrúar 2014, er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr 80/2007, en þar segir: "Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda.  Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar, skal það rökstyðja það sérstaklega."  Umrætt lagaákvæði var ítrekað í síðari erindum Vegagerðarinnar um málið.

Í 3. mgr. vegalaga segir svo: "Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá, sem Vegagerðin telur betri m.t.t. kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar, er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.""

Hér má greina hrokafulla afstöðu Skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkur gagnvart Vegagerðinni, sem virðist vart virt svars, hvað þá, að gefinn hafi verið kostur á lögbundnu samráði.  Hjá Vegagerð ríkisins starfa mestu sérfræðingar landsins í þeim málaflokki, sem hér er til umræðu, þ.e. skipulagning og hönnun meiriháttar umferðarmannvirkja, en borgin hunzar þá, þótt lög standi til annars.  Þetta er gjörsamlega óafsakanleg framkoma hjá Hjálmari Sveinssyni og yfirmanni hans, Degi B. Eggertssyni.  Það vill svo til, að kjósendur í Reykjavík, sem blöskrar þessi framkoma, geta sniðgengið þessa menn í næstu sveitarstjórnarkosningum og sýnt þeim þá þumalinn. 

Nú hafa þeir kumpánar séð sitt óvænna, því að þeir óttast, að Samgönguráðherra muni halda þeim við efnið og skikka borgina til að greiða fyrir afglöp fúskaranna:

"Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. marz síðast liðinn var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja viðræður við ríkið vegna Sundabrautar.  Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina."

Í Morgunblaðinu 20. maí 2017 birtist Baksviðsgrein eftir Baldur Arnarson, blaðamann, undir þeirri skelfilegu fyrirsögn:

"Reykjavíkurflugvöllur muni víkja". 

Núverandi meirihluta borgarstjórnar dreymir um það, en allar samgöngutæknilegar forsendur fyrir slíkri ákvörðun vantar.  Þvert á móti er öflugra innanlandsflug forsenda fyrir meiri dreifingu erlendra ferðamanna um landið.  Á Keflavíkurflugvelli hefur SV-NA flugbraut ekki verið tekin í brúk og ekki eru nein tök á að bæta innanlandsflugi við oflestaða flughöfn, enda fer ekki vel á slíku samkrulli þar.  Ekki má gleyma, að Færeyjaflug, Grænlandsflug og nú flug til Írlands er stundað frá Reykjavíkurflugvelli, svo að ekki sé minnzt á kennsluflug og einkaflug. 

Í téðri Baksviðsgrein er vitnað í Dag B. Eggertsson um mislæg gatnamót:

"Við erum búin að skoða, hverju það [mislæg gatnamót]myndi skila fyrir umferðina, og það er sáralítið.  Það myndi bara flytja vandamálin á næstu gatnamót.  Þess vegna þurfum við að hverfa frá gömlu hugsuninni frá 1960, eins og meira og minna öll borgarsvæði í heiminum hafa gert, og innleiða afkastameiri almenningssamgöngur, fjölbreyttari ferðamáta og gefa fólki val um, hvernig það vilji komast til og frá vinnu."

Það er ljóst af þessum ummælum, að þarna talar fúskari í umferðarskipulagningu.  Mestu sérfræðingar á því sviði hérlendis starfa hjá Vegagerðinni, og hún mælir enn með mislægum gatnamótum til lausnar á umferðarhnútum.  Hún er t.d. tilbúin til að reisa mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, strax og Reykjavíkurborg heimilar slíkt, en það verður aldrei, á meðan Dagur og Hjálmar ráða för. 

Fólk hefur miklu fjölbreytilegri erindi en að fara í vinnu og til baka.  Það þarf að selflytja börnin, verzla og sinna öðrum útréttingum.  Þetta er ekki hægt að gera á viðráðanlegum tíma, þótt hraðfara og tíðir vagnar aki eftir einhverjum ásum og síðan strætisvagnar þvert á þá ása.  Fólk er eðlilega ekki reiðubúið að lengja daglegan ferðatíma sinn umtalsvert, og slíkt gengur hreinlega ekki upp í dagskrá margra, svo að ekki sé minnzt á skert þægindi. Af þessum ástæðum er engin spurn hjá almenningi eftir þessu hugarfóstri Dags og Hjálmars.  Þeir ætla að kasta hátt í miaISK 200 í umferðarmannvirki, sem engin not eru fyrir, bara af því að slíkt er í samræmi við stjórnmálaskoðun þeirra.  Það er hægt að leysa umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins til næstu 30 ára með 10 nýjum mislægum gatnamótum og viðbótar akreinum á umferðaræðum fyrir brot af þeirri fjárupphæð, sem Borgarlínan í dagdraumum félaganna mun kosta.  Þetta er skýr valkostur, sem ekki mun útiloka neinar lausnir, þ.m.t. einhvers konar Borgarlínu um miðja 21. öldina. 

 

 


Græðgi og geggjun

Á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins ríkir nú óðaverðbólga, og hún hefur náð til nágrannasveitarfélaganna, t.d. fyrir austan fjall. Kaupendur húsnæðis þurfa að gera sér grein fyrir gríðarlegri fjárfestingaráhættu við þessar aðstæður, m.ö.o. eru miklar líkur á, að verðlag húsnæðis muni hafa lækkað aftur frá núverandi verðlagi, þegar núverandi kaupandi þarf að selja, og þá situr hann uppi með milljónatap og getur hæglega orðið gjaldþrota. 

Dæmi má taka af nágrannasveitarfélögunum Hveragerði og Selfossi. Samkvæmt Fasteignablaði Viðskiptablaðsins 27. apríl 2017 hefur verð per m2 í sérbýli, 100-400 m2, hækkað í Hveragerði um 42 % frá fyrsta ársfjórðungi 2015 til fyrsta ársfjórðungs 2017, þ.e. hækkun úr 154,5 kISK/m2 í 220,1 kISK/m2, og á Selfossi hækkaði einingarverðið úr 166,9 kISK/m2 í 218,7 kISK/m2 eða um 31 %.  Þessar miklu hækkanir stafa af aukinni eftirspurn, þar sem fólk hrökklast úr lóðaskortinum og okrinu á höfuðborgarsvæðinu, en fer nú orðið úr öskunni í eldinn vegna íbúðaskorts á markaði. 

Ákveðin 100 m2 íbúð í raðhúsi á öðrum tilgreindra staða er um 10 ára gömul.  Ásett verð var MISK 38 í byrjun maí 2017, svo að þar er einingarverðið komið upp í 380 kkr/m2, sem er 73 % hærra en að meðaltali á fyrsta árfjórðungi 2017 fyrir sérbýli að stærð 100-400m2.  Brunabótamat íbúðarinnar var MISK 27 í fyrra og verðmæti lóðar metið á MISK 3.  Byggingarkostnað má þannig ætla um MISK 30 með hagnaði byggingarverktaka, en ásett verð er 27 % hærra á notaðri íbúð.  Einhverjum kann að þykja það engin ósköp, en þá þarf að vega og meta líkindi þess, að verðið haldist svona hátt til frabúðar. 

Í ljósi hinna miklu hækkana undanfarið má búast við lækkun markaðsverðs þarna, þegar jafnvægi kemst á markaðinn með auknu framboði húsnæðis, minna aðstreymi fólks til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu á landinu og hægari aukningu á ferðamannafjöldanum frá útlöndum.  Með öðrum orðum; þegar markaðurinn nær jafnvægi, munu þeir tapa talsverðum upphæðum, sem nú festa fé í íbúð á þessum afarkjörum.  Það verður að vara eindregið við því að gera kaupsamninga um þessar mundir, þar sem græðgi ræður för á söluvængnum, því að ekki er að vænta neinna "skuldaleiðréttingaraðgerða" að hálfu stjórnvalda aftur.   

Sams konar aðvaranir koma fram í greiningu Reykjavik Economics:

"Blikur á lofti á íbúðamarkaði: Framboðstregða á höfuðborgarsvæðinu ýtir undir bólumyndun",

sem unnin var fyrir Íslandsbanka.

Laugardaginn 6. maí 2017 birti Baldur Arnarson viðtal sitt í Morgunblaðinu við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá Reykjavik Economics undir fyrirsögninni,

"Skortur á byggingarlóðum á þátt í hækkandi fasteignaverði": 

"Magnús Árni bendir á, að frá marz 2016 til marz 2017 hafi raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 19 % og um 20,9 % að nafnverði."

Þetta er helmingur hækkunarinnar, sem átti sér stað á tvöföldu þessu tímabili sums staðar fyrir austan fjall, sem sýnir, að það eru "flóttamenn" undan húsnæðisokri á höfuðborgarsvæðinu, sem skapa eftirspurn umfram framboð og fara úr öskunni í eldinn 50-60 km leið til austurs um þessar mundir. 

"Jafnframt hafi húsnæðisverð hækkað að meðaltali um 52,1 % að raungildi síðan vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu náði lágmarki í desember 2010."

Þetta sýnir, hversu gríðarlegar sveiflur geta orðið í báðar áttir á húsnæðismarkaðinum.  Lágmarkið varð óeðlilega lágt, því að það var mun lægra en nam byggingar- og lóðarkostnaði. Þar með misstu verktakar hvatann til að byggja.  Eðlilegt og langtíma jafnvægisverð er 0-5 % yfir brunabótamati og lóðarverðmæti á nýju húsnæði, og síðan þarf að taka tillit til afskrifta vegna aukinnar viðhaldsþarfar með árunum.

"Með þessa þróun í huga hvetur Magnús Árni fólk til varkárni í fasteignakaupum.  Það geti ekki lengur reiknað með, að íbúðarverð hækki." 

""Það er enn mikill framboðsskortur á íbúðum.  Nokkrar skýringar eru á því.  Þar kemur til takmörkuð afkastageta byggingariðnaðarins.  Sú afkastageta fór líklega að miklum hluta í hótelbyggingar, og svo fóru margir iðnaðarmenn úr landi eftir hrunið.  Til viðbótar hefur skort lóðir m.a. vegna tregðu í skipulagsferlinu.  Ég hef rætt við nokkra verktaka.  Þeir segja erfitt að fá lóðir, og að þær séu dýrar.  Kerfið í borginni er líka hægvirkt.  Í einu tilviki tók um 3 ár að breyta atvinnulóð í íbúðalóð.  Það tafði byggingu fjölda íbúða", segir Magnús Árni.

Þá bendir hann á, að síðustu ár hafi um 8000 fleiri flutt til landsins en fluttu frá landinu.  Það hafi aftur aukið eftirspurn eftir húsnæði. Jafnframt sé mikil eftirspurn til komin vegna stórra árganga ungs fólks, sem íhugar fasteignakaup. Loks segir í skýrslunni, að miklar verðhækkanir á húsnæði séu varasamar.

"Öfgakenndar sveiflur í íbúðaverði eru ekki æskilegar hvorki út frá lánveitanda né lántaka.  Íbúðarkaupandi, sem keypti íbúð árið 2007 með 65 % skuldsetningu sá allt eigið fé sitt brenna upp fyrir skuldaleiðréttingar, en sá, sem keypti í lok árs 2010, jafnvel með 100 % láni (t.d. með eiginfjárframlagi frá aðstandendum), hefur notið eiginfjárávinnings allt til dagsins í dag.""

Þessi lýsing sýnir í hnotskurn, hversu skeinuhættur húsnæðismarkaðurinn getur orðið fjárhag einstaklinga.  Hvernig sem kaupin gerast á eyrinni, er um að ræða stærstu einstöku fjárfestingu flestra á ævinni, og þess vegna ríður á fyrir fjárhaginn til lengdar, að traust undirstaða sé fyrir fjárfestinguna.  Núna er mýri undir þeirri fjárfestingu, sem getur riðið efnahag fjölskyldna svo á skakkinn, er frá líður,að þær verði enn skuldugar, þegar ellilífeyrisaldri er náð, og slíkt er þungbær baggi að bera inn í ellina. 

Stjórnvöld, einkum sveitarstjórnir, bera hér ábyrgð.  Þau hafa flest sinnt lóðaundirbúningi með hangandi hendi og voru tekin í bólinu, þegar eftirspurnin jókst og hagkerfið fór á fullan snúning eftir vitlausa vinstri stefnu 2009-2013 við landsstjórnina.  Uppsöfnuð þörf á landinu er talin vera 5000 íbúðir og til viðbótar þarf framboð lóða fyrir allar gerðir íbúða, mest 70-110 m2, að svara til árlegs framboðs 2000 íbúða.  Þetta þýðir, að byggingariðnaðurinn þarf að framleiða að jafnaði 2500 íbúðir/ár.  Það getur hann, fái hann til þess svigrúm.  Það hjálpar til, að flestir, sem flúðu land á vinstristjórnar árunum undan atvinnuleysi í þessum geira, eru nú komnir til baka til starfa, enda yfir litlu að voka erlendis. 

Þegar hillir undir samdrátt hagkerfisins þurfa sveitarfélögin að hafa rænu á að draga tímabundið úr framboði lóða niður í sem svarar 1000-1500 íbúðum, svo að ekki verði mikið verðfall á markaði vegna mikils framboðs umfram eftirspurn.  Eitt af aðalstefnumiðum stjórnvalda hjá ríki og annars staðar á að vera að draga úr hagsveiflum, bæði upp og niður.

 Marz - 2 2012


Er spurn eftir Borgarlínu ?

Borgararnir hafa ekki beðið um þessa nýjustu útgáfu af Kleppi-hraðferð, heldur er um hreinræktað gæluverkefni stjórnmálamanna að ræða með dyggum stuðningi skipulagsmanna höfuðborgarsvæðisins.  Spurningunni í fyrirsögninni er þess vegna fljótsvarað: nei, það hafa aðeins örfáir menn áhuga fyrir Borgarlínu, enda mun hún fáum gagnast og verða rekin með dúndrandi tapi á kostnað skattborgaranna, ef þröngsýnar og fordómafullar hugmyndir súrrealistanna í meirihluta borgarstjórnar fá brautargengi.  Verst er, að "borgarlína" er yfirvarp fyrir opnun nýrrar víglínu fyrir hernað gegn einkabílnum og notendum hans.  

Margt bendir þar að auki til, að Dagur B., borgarstjóri, og pótintátar hans, séu með lævíslegum hætti að ljúga léttlest inn á almenning með dagdraumum sínum um téða Borgarlínu, léttlest, sem með tíð og tíma verði hluti af fluglest til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, en þá vonlausu viðskiptahugmynd dagaði uppi í vetur, sem leið, enda leggur enginn eyrun við svo vitlausri viðskiptahugmynd, nema dagdraumamenn (í dagrenningu og jafnvel á dagpeningum). 

Borgarlínan verður, ef af verður, lögð á fjárhagslegu kviksyndi, enda heyrist nú þegar peningaýlfrið í Degi, borgarstjóra.  Hann ætlar að leggja "innviðagjald" á húsbyggjendur í tilraun til að seðja þetta svarthol.  Til þess hefur hann hvorki siðferðislega né lagalega heimild.  Engin gjöld má leggja á borgarana án lagaheimildar, og meirihluti þingheims hefur vonandi bein í nefinu til að hafna þessu fráleita veggjaldi á formi skattheimtu á húsbyggjendur, sem auðvitað munu síðan seilast enn dýpra ofan í vasa íbúðakaupenda.  Það eru engin takmörk fyrir hernaði borgarstjórans á hendur húseigendum og bíleigendum, núverandi og væntanlegum. Þarna er náhirð Marxismans að verki.  Það á að troða íslenzkri útgáfu hans ofan í borgarana með valdníðslu.  Það eru síðustu forvöð að hreinsa þennan óskapnað út með lýðræðislegum hætti.   

"Rök" borgarstjórans eru fáránleg.  Hann heldur því fram, að verðgildi (endursöluverð) húseigna í grennd við þessa Borgarlínu muni hækka vegna tilkomu hennar.  Það verður auðvitað algerlega háð notagildi Borgarlínu fyrir íbúana.  Verði hin súrrealíska hugmynd fereykisins í borgarstjórn að veruleika, verður það ekki marktækt meira en notagildi strætisvagnanna, sem nú aka næstum tómir um götur höfuðborgarsvæðisins lungann úr sólarhringnum, mynda illvígar rásir í göturnar, tæta upp malbikið og brenna meira eldsneyti per haus í vagni en einkabíllinn.  

Borgarstjórinn er þar að auki svo skyni skroppinn, að hann ætlar að fækka bílastæðum í grennd við téða Borgarlínu, af því að hann heldur, að tveggja bíla fjölskyldur muni losa sig við annan bílinn með tilkomu Borgarlínu.  Kjánaskapur borgarstjóra kann sér ekkert meðalhóf.  Það eru hreinir rugludallar, sem nú fara með stjórn borgarinnar, og það verður að gera þá kröfu til borgaralegra stjórnmálamanna í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu, að þeir láti ekki þetta lið teyma sig á asnaeyrunum út á foraðið. 

Í frétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 3. maí 2017:

"Borgarlína færist nær veruleika" ,

stendur þetta í upphafi:

"Á næstu vikum munu skipulagsnefndir 6 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taka til afgreiðslu, hvort breyta eigi aðalskipulagi sveitarfélaganna þannig, að innviðir nýrrar borgarlínu séu festir í sessi.  Að því loknu er stefnt að því að hefja forkynningu að drögum að þessum innviðum.  Lokatillaga verður svo unnin á síðari stigum málsins. 

Sveitarfélögin, sem um ræðir, eru Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Borgarlínunni er ætlað að tengja þessi sveitarfélög betur saman.  Horft er til þvertenginga við Borgarlínuna á nokkrum stöðum, jafnframt því, sem kerfið verður tengt við strætisvagnakerfið."

Það er sjálfsagt af þessum sveitarfélögum að taka frá myndarlegt land fyrir stofnbraut á milli sín með mislægum gatnamótum samkvæmt ráðleggingum, hönnun og kostnaðarþátttöku Vegagerðar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um stofnbrautir í þéttbýli.  Þar á hins vegar skilyrðislaust að leyfa alla umferð, þ.e. einkabíla, langferðabíla, flutningabíla, vinnuvéla og strætisvagna, og þar á að gera ráð fyrir hjólreiðabraut líka.  Að einskorða Borgarlínu við einhverja sérvagna á gúmmíhjólum eða stálhjólum á teinum er út í hött vegna lélegrar nýtingar á mikilli fjárfestingu með því móti og vegna þess, að almenn umferð á höfuðborgarsvæðinu er orðin aðþrengd og þarfnast verulegra umbóta á gatnakerfinu, sem auknar almenningssamgöngur geta ekki leyst úr. 

Þar vega þyngst frumstæð, tafsöm og hættuleg gatnamót m.v. umferðarþunga.  Það er þörf á Sundabraut (í einkaframkvæmd með gjaldtöku vegna valmöguleika á að fara aðra leið) og allt að 10 mislægum gatnamótum auk mislægra gatnamóta við Borgarlínu á næstu 20 árum.  Vegagerðin er nú þegar tilbúin til að reisa brýnustu mislægu gatnamótin að hennar mati, þar sem Bústaðavegur og Reykjanesbraut mætast í Reykjavík.  Sá er þar þó hængurinn á, að mannvitsbrekkur borgarstjórnarmeirihlutans tóku öll mislæg gatnamót út af Aðalskipulagi, eftir að gerð var "Egilsstaðasamþykkt" í hópi trúbræðra og systra hinnar heilögu forræðishyggju, um, að umferðarhnútarnir skyldu leystir með því að bjóða upp á meiri almenningssamgöngur. Þetta gengur mætavel upp í sértrúarsöfnuði Marxista og súrrealista, en afleitlega í raunheimi. 

Strútar sértrúarsafnaðarins stinga hausnum í sandinn, þegar minnzt er á nauðsyn þess að greiða fyrir umferðinni.  Áður en þeir stungu hausnum í sandinn sögðu þeir, að mislæg gatnamót væru ekki lausn að sínu skapi, því að þau tækju upp íbúða-og hótelpláss, þar sem ætlunin væri að þétta byggð, og eftir nokkurn tíma yrðu umferðarhnútarnir jafnfast reyrðir og áður en lagt var upp með mislæg gatnamót.  "Die Endlösung", sem mannvitsbrekkurnar sjá á umferðarvandanum (ekki "die Judenfrage" í þessu tilviki) er að þvinga bílstjórana og farþega þeirra út úr bílunum og upp í Klepp hraðferð. Þessi ósköp hafa Reykvíkingar kosið yfir sig í hálfkæringi "postmodernismans", sem hentar afleitlega til að stjórna samfélagi, eins og dæmin sanna, nema þá beint til Heljar, eins og Venezúela er nýjasta dæmið um.    

Um áætlaðan kostnað Borgarlínunnar segir í frétt í Morgunblaðinu 3. maí 2017,

"Kostnaðurinn talinn allt að 72 milljarðar":

""Gert er ráð fyrir, að kostnaður vegna hönnunar og nauðsynlegs rekstrarlegs og tæknilegs undirbúnings fyrir verklegar framkvæmdir verði um miaISK 1,5 á árunum 2017-2018.  Fjárfesting í nauðsynlegum innviðum alls kerfisins er áætluð alls um miaISK 47-73.  Gert er ráð fyrir, að fyrsti áfangi kerfisins verði byggður upp 2019-2022 og að kostnaður þess áfanga verði um miaISK 30-40", segir orðrétt í bréfinu [frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, til fjárlaganefndar Alþingis] um kostnaðinn."

Hér er um frumdrög að kostnaðaráætlun að ræða.  Samt er óvissa kostnaðaráætlunarinnar aðeins metin +/- 22 %, sem líkast til er mikið ofmat á getu viðkomandi til að gera nákvæmar kostnaðaráætlanir áður en hönnun er hafin.  Þegar sækja á fé í ríkissjóð fyrir gæluverkefni af þessari tegund, hafa gárungar fyrir satt, að vissara sé að margfalda frumdrög kostnaðaráætlunar með fastanum pí (hlutfall ummáls og þvermáls hrings, hefur ekkert að gera með hina súrrealistísku pírata) til að fara nærri um endanlegan raunkostnað (þá hefur verið reiknað með vöxtum fjárfestingarinnar á byggingarskeiði, eins og alvörumenn gera).  Með þessum reynsluvísindum fæst endanlegur kostnaður Borgarlínu, KBORGL=miaISK 188. 

Forráðamenn ríkiskassans ættu ekki að ljá máls á neinum framlögum úr ríkissjóði á meðan SSH fer með forræði málsins og Borgarlínan er hönnuð sérvitringslega með mjög takmörkuðu notagildi.  Hins vegar sé sjálfsagt, að Vegagerðin komi að gerð þessarar stofnbrautar í þéttbýli, en þá verður hún að vera fyrir alla umferð, eins og aðrar slíkar stofnbrautir eru  og fara inn á Vegaáætlun Alþingis.  Þetta "skítamix" SSH framhjá Vegagerðinni og viðeigandi sníkjur úr ríkissjóði eru undarleg vinnubrögð, sem vekja tortryggni.  Miklabraut


Línudans eða stríðsdans

Ríkissjónvarpið sýndi að kvöldi Verkalýðsdagsins eða dags hestsins (þarfasta þjónsins), 1. maí 2017, óvenju áhugaverða heimildarmynd, sem kölluð er Línudans.  Hún fjallaði um baráttu Skagfirðinga og sveitunganna austan Öxnadalsheiðar við raforkuflutningsfyrirtækið Landsnet, sem, eins og kunnugt er, hefur eitt allra fyrirtækja á Íslandi það hlutverk að flytja raforku frá virkjunum að aðveitustöðvum og á milli aðveitustöðva, þar sem dreifingarfyrirtækin taka við orkunni og afhenda hana á notkunarstað. 

Það, sem eftir situr, þegar staðið er upp frá þessari merku mynd, er, að herfræði Landsnets er vonlaus.  Þar eru innanborðs hershöfðingjar, sem beita herfræði síðasta stríðs, og þeir tapa alltaf nýjum orrustum, sbr baráttuna um Frakkland vorið 1940.

Landsnet hefur nú flækzt í stríð við landeigendur o.fl., sem fyrirtækið getur ekki unnið.  Sú er ályktun blekbónda, eftir að hafa horft á téða heimildarmynd.  Aðferðir fyrirtækisins eru svo klaufalegar, að undrum sætir, t.d. að gera menn út af örkinni til að fara heim á bæina og tala þar við hvern bónda fyrir sig um væntanlega línulögn.  Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í Kastljósviðtali að kvöldi 2. maí 2017, að það hefði verið gert í kynningarskyni á frumstigum málsins.  Það er enn undarlegra, því að rétta röðin hlýtur að vera kynningarfundur með viðkomandi sveitarstjórn og síðan almennur fundur með íbúum sveitarfélagsins. 

Þá hefur sjaldan aumlegra yfirklór vegna losarabrags í stjórnun eins fyrirtækis komið fyrir almenningssjónir en sagan af týndu skýrslunni.  Hún er með eindæmum, en kemur þeim, sem kynnzt hafa starfsháttum þessa einokunarfyrirtækis, ekki sérlega mikið á óvart.  Sagan af týndu skýrslunni, þar sem lagt mun hafa verið mat á kostnað við jarðstrengi í samanburði við loftlínur, gefur tilefni til þess, að fram fari stjórnsýsluúttekt á fyrirtækinu, þar sem það að meirihluta er í (óbeinni) opinberri eigu. Núverandi eignarhald er algerlega óviðunandi, eins og margoft er búið að benda á.  Úr því að lög veita Landsneti einokunaraðstöðu, er eðlilegast, að það það verði ríkiseign.  

Í ljósi aðstæðna er blekbóndi sammála því sjónarmiði fulltrúa Landverndar, sem fram kom í myndinni, að við hagkvæmnisamanburð valkosta ber að leggja kostnaðinn yfir áætlaðan rekstrartíma mannvirkjanna, jarðstrengja og loftlína, til grundvallar valinu.  Stofnkostnaðurinn vegur þyngst, en síðan þarf að núvirða allan rekstrarkostnað, t.d. viðhalds- og viðgerðarkostnað og kostnað vegna orkutapa og óseldrar orku af völdum truflana. 

Ekki nóg með þetta.  Eins og virtur hagfræðingur og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands hefur bent á, þarf til viðbótar þessu að leggja mat á ætlaðan umhverfiskostnað yfir allan rekstrartímann og núvirða hann.  Að kostnaðarmeta ergelsi yfir umhverfisraski er ekki hægt að gera af nákvæmni, en það er áreiðanlega hægt að búa til samræmdan matsgrundvöll fyrir umhverfiskostnað.  Þá skiptir staðsetningin máli, og er meiri pirringur vegna loftlína í byggð en fjarri byggð, ef marka má skoðanakönnun á meðal ferðamanna vegna vindmylla.  Eftirfarandi kom fram í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 17. ágúst 2016:

"Deila um áhrif Búrfellslundar á ferðafólk":

"Þó kom fram í greinargerð frá faghópi 3 [Rammaáætlunar], að í skoðanakönnun, sem hann fékk Félagsvísindastofnun til að gera, lýstu 63 % þátttakenda sig hlynnta vindmyllum á hálendi, fjarri byggð, en 18 % sögðust andvígir.  Mun færri vildu sjá vindmyllur á láglendi, nærri byggð.  Þegar spurt var beint um vindmyllugarð nálægt Búrfellsvirkjun, lýstu 64 % þátttakenda sig hlynnta þeirri hugmynd, en aðeins 11 % andvíga."

Landsnet verður að koma upp úr skotgröfunum með ferskar hugmyndir, ef það á að standa undir hlutverki sínu.  Landsnet getur afskrifað nýja loftlínu frá aðveitustöð Varmahlíð og austur í Eyjafjörð.  Hugsanlega verður samþykkt viðbótar 132 kV loftlína frá Blönduvirkjun að aðveitustöð Varmahlíð, þó sennilega aðeins 132 kV jarðstrengur.  Til að koma á öflugri tengingu á milli Kröflu og Blöndu, með 220 kV loftlínu, þarf að fara með hana sunnan norðlenzkra dala, og mun þá framtíðar jafnstraumsjarðstrengur frá virkjunum Þjórsár/Tungnaár um Sprengisand tengjast þeirri línu um áriðilsvirki á hentugum stað. 

Það er rangt, sem fram kom hjá einum Skagfirðinginum í myndinni, sem kynnti sig sem fyrrverandi línumann, að núverandi Byggðalína tengist ekki dreifikerfi þorpa, kaupstaða og sveita neitt.  Í aðveitustöð Hrútatungu, aðveitustöð Laxárvatni og aðveitustöð Varmahlíð eru spennar og rofar fyrir 11 kV og/eða 19 kV spennu, sem eru dreifispennur dreifbýlisins. Að orkunotkun þessara staða aukist aðeins um 1 %- 2 % að jafnaði á næstu árum var líka rangt, því að orkuskiptin kalla á gríðarlega aukna aflþörf.  Þar má t.d. nefna landtengingu skipa í höfnum landsins, og verður nú varpað ljósi á þá orku- og aflþörf.

Sigtryggur Sigtryggsson skrifaði 19. maí 2016 í Morgunblaðið fréttina:

"Auka þarf landtengingu skipa":

""Ef að líkum lætur, verða Íslendingar að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis um 350-400 kt/ár á næstu 15 árum.  Þetta verður ekki gert, nema með verulegum fjárfestingum í innviðum samfélagsins - sérstaklega fyrir stóraukna rafmagnsnotkun.", segir [nokkurn veginn] orðrétt í minnisblaði Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna sf, sem kynnt var á síðasta stjórnarfundi félagsins."

Olíumassinn 400 kt/ár inniheldur orku u.þ.b. 4,3 GWh, og ef reiknað er með, að rafbúnaður, sem leysir olíuhákana og bensínhákana af hólmi, hafi þrefalda orkunýtni á við téða háka, þá þarf 1,4 TWh/ár af raforku, sem er tæplega 40 % af núverandi almennri raforkunotkun. Þetta þýðir, að almenn raforkunotkun mun aukast tvöfalt hraðar á næstu 15 árum en téður fyrrverandi línumaður hélt fram í heimildarmyndinni.  Að gera lítið úr þessu er versta óráð. Þegar litið er á meðalaflið, 160 MW, og gert ráð fyrir, að 100 MW þurfi að flytja eftir Byggðalínu, sést, að brýna nauðsyn ber til að styrkja hana, því að bara á næstu 15 árum mun bætast við flutningsþörfina sem nemur allri núverandi flutningsgetu.  Að halda því fram, eins og línumaðurinn fyrrverandi gerði í myndinni, að Byggðalína þjónaði bara stóriðju, er rakalaus þvættingur. 

Að líkindum er orkusvelti nú þegar í Skagafirði, og slíkt ástand hefur nú varað í a.m.k. 5 ár í Eyjafirði.  Þjóðarhagur og heilbrigð byggðastefna krefst þess, að flutningsgeta raforku verði aukin að þessum byggðarlögum. Við hafnirnar á Sauðárkróki og á Akureyri þarf að setja upp landtengingar rafmagns með 11 kV stofnum, sennilega 10 MW á Sauðárkróki og 15 MW á Akureyri. Kostnaður gæti numið alls miaISK 2,0, og styrktarsjóður orkuskipta gæti létt undir um 25 %, en raforkusalan til togara, flutningaskipa og farþegaskipa, mundi standa undir 75 % kostnaðarins.  

Fljótlegast gæti verið að koma Eyfirðingum til bjargar með tveimur 132 kV jarðstrengjum um Víkurskarð (of heitt í Vaðlaheiðargöngum) og e.t.v. að nýrri aðveitustöð við Akureyri.  Samtengingu Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar verður að styrkja með 220 kV loftlínu. 

Þessi samtenging Austurlands og Norðurlands mun styrkja kerfið í bilunartilvikum, svo að notendur munu verða fyrir minni truflunum.  Í lélegu vatnsári fyrir norðan (Blanda) verður oftast hægt að miðla orku til Norðurlands frá Hálslóni um Fljótsdalsvirkjun með þessari styrkingu Byggðalínu, en það vantar enn öfluga tengingu á milli Suður- og Norðurlands til að hægt verði að miðla umtalsverðri orku á milli þessara landshluta með stærstu virkjanirnar.  Sú tenging mun t.d. fást með jafnstraums-jarðstreng á Sprengisandsleið.  Flutningsgeta þarf að vera um 500 MW.  Slíkur búnaður er dýr, en verð fer lækkandi. Um slíka lausn gæti náðst víðtæk sátt.  

 


Oft er fall fararheill

Það er einstætt á Íslandi, að forstjóri fyrirtækis sé boðaður á fund fastanefndar Alþingis til að gera grein fyrir tæknilegum vandamálum í starfsemi fyrirtækis síns.

Það gerðist í vor, að Helgi Þórhallsson, forstjóri United Silicon, USi, mætti á fund Umhverfisnefndar Alþingis út af ólykt, sem þjakar suma íbúa og þeir telja stafa frá fyrirtæki téðs Helga.  Það, sem blekbóndi sá í sjónvarpi af þessum fundi, skýrði orsakir vandans ekki hót fyrir honum, en helzt er þó minnisstætt, að téður forstjóri kvað ekki eitt vera að verksmiðjunni, heldur allt.  Er slík einkunnargjöf (0,0) forstjóra yfir starfsemi sinni einstæð á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.  Téð fyrirtæki og forstjóri eru þegar búin að tryggja sér sess í annálum.  Hvernig eftirmælin verða, er þó enn á huldu.

Um tíma básúnaði Umhverfisstofnun (UST) út kolvitlaus mæligildi á hættulegum efnum frá verksmiðjunni og varð starfsmönnum sínum til minnkunar fyrir vikið. Virðist þeim allnokkur sálarháski búinn, sem nálægt þessari starfsemi koma, og er það sjálfstætt rannsóknarefni atferlisfræðinga. Um meinta mengun skrifaði téður Helgi í Fréttablaðið, 3. apríl 2017,

"Mengunarmælingar og rekstur United Silicon":

"Nýjar mælingar á gildi þungmálma og PAH-efna, sem nú hafa borizt og verið kynntar Umhverfisstofnun og United Silicon, benda til, að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki mælanleg áhrif á magn þessara efna í umhverfinu.  Samkvæmt síðustu mælingum virðist ekki skipta máli, hvort verksmiðjan er í rekstri eða ekki; gildi þessara efna í umhverfinu mælast þau sömu."

Þetta er gleðileg niðurstaða, því að hvort heldur sem styrkur þungmálma eða PAH (polyaromatiske hydrokarboner-fjölliðusambönd vetniskolefnis) hefði verið yfir heilsuverndarmörkum, hefði orðið að stöðva verksmiðjuna í heilsuverndarskyni fyrir starfsmenn og nágranna, þar til viðeigandi hreinsibúnaður hefði verið settur upp.  Öðru máli gegnir um ólykt.  Þar er UST á hálum ís.

Framkoma umhverfisráðherra og UST í þessu máli er forkastanleg, því að margt benti þegar í upphafi upphlaupsins til, að hinar kolvitlausu mælingar (67 sinnum of há mæligildi) væru einmitt það, kolvitlausar. 

Nú hefur rekstur þessarar nýju kísilmálmverksmiðju samt verið stöðvaður, og er það vegna ólyktar, sviða í augum og sárinda í hálsi, sem kennd eru aldehýðum, acetónum eða ketónum úr ófullkomnum bruna í ljósbogaofni verksmiðjunnar. Rót vandans liggur þó annars staðar, en af henni segir þó fátt. Hvers vegna ?

Það eru mjög óljósar fregnir af bilanagreiningunni, og annaðhvort vilja forráðamenn USi ekki upplýsa um hana eða þeir eru sjálfir engu nær.  Það hefur þó komið fram, að rekstur ofnsins er "óstöðugur".  Af þessu mundi blekbóndi, sem hefur áratugareynslu af að stýra miklu afli, margföldu því, sem þarna um ræðir, draga þá ályktun, að aflstýring ofnsins sé ófullkomin og magni jafnvel upp sveiflur afls og spennu með útslætti ofnsins sem afleiðingu að lokum.

Það er vel þekkt, að framleiðendur kasta höndunum til forritsins, sem stýra á ferlisbreytunum, hvort sem þær eru spenna, straumur, afl eða annað, og ætla viðskiptavinunum og ráðgjöfum þeirra að laga hugbúnaðinn að aðstæðum á hverjum stað.  Það á nánast alltaf við, ef annað er ekki skilgreint í kaupsamningi.  Slík hugbúnaðarþróun getur kostað þúsundir manntíma hjá forritara hérlendis, t.d. í álveri, því að aðstæður eru hér sjaldgæfar, svo að feta þarf sig áfram.  Rafkerfið hérlendis er veikt, sérstaklega á jöðrunum, t.d. á Reykjanesi, sem þýðir óvenjumiklar og tíðar spennusveiflur.  Hafa íbúar ekki orðið varir við þær ?

Ljósbogaofn er mjög erfitt álag fyrir stofnkerfi landsins, því að það skiptast á skammhlaup og rof í ofninum, sem valda spennuhöggum á kerfið.  Þegar stýrikerfi ofnsins verður vart við spennusveiflur á netinu, getur það brugðizt ranglega við og annaðhvort keyrt ofnaflið niður eða farið að sveifla því.  Starfsmenn virðast ekkert hafa ráðið við ofninn, sem kemur heim við þessa lýsingu.  Fróðlegt væri að frétta af því, hvort aðrir rafmagnsnotendur á Suðurnesjum hafi orðið varir við spennusveiflur, t.d. ljósaflökt, þegar téður ljósbogaofn var í rekstri. 

Sennilegast er að mati blekbónda, að hönnun rafkerfis ofnsins, sem deyfa á spennusveiflur af hans völdum, sé ábótavant og henti ekki íslenzkum aðstæðum, og að hugbúnaður aflstýringarinnar sé "hrár" og ekki aðlagaður íslenzkum aðstæðum. 

USi hefur fengið norska ráðgjafarfyrirtækið Multikonsult sér til aðstoðar við greiningu og úrbætur auk tæknimanna frá framleiðanda ofnbúnaðarins.  Ekki liggur í augum uppi, hvers vegna Multikonsult varð fyrir valinu, þegar nær væri að ráðfæra sig við innlendar verkfræðistofur, sem reynslu hafa af að fást við vandamál tengd miklu álagi á veiku stofnkerfi rafmagns.  Hvað sem öðru líður, eru miklar líkur á, að reynda hugbúnaðarmenn þurfi til að bezta stýrikerfi ofnsins.  Verði enn óstöðugleiki í rekstri, þegar ofninn verður prófaður eftir endurbætur, þá hafa þær brugðizt. 

Alvarleiki málsins kom berlega fram í frétt Morgunblaðsins 27. apríl 2017,:

"Tölvukerfi stillt og tækjum skipt út" (betra er skipt um tæki), sem hófst þannig:

"Ekki liggur fyrir, hvenær svo nefndur ljósbogaofn kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík verður ræstur, að sögn Kristleifs Andréssonar, sem stýrir öryggis- og umhverfismálum fyrirtækisins.  Í gær [26.04.2017] sendi Umhverfisstofnun frá sér tilkynningu um, að rekstur verksmiðjunnar hefði verið stöðvaður og færi ekki í gang fyrr en stofnunin gæfi grænt ljós."

Ekki er ljóst með hvaða réttarheimildum UST stöðvaði verksmiðjuna, því að hún hefur ekki vísað í neina reglugerð, hvað þá lög, sem verksmiðjan hafi brotið.  UST veit ekki einu sinni um styrk lyktarefnanna, sem um ræðir, og hefur ekki sett fram nein viðmiðunarmörk um þau.  Fyrir að fara offari í sinni stjórnsýslu gæti UST átt yfir höfði sér skaðabótakröfu. 

Um þátt norsku ráðgjafanna, Multikonsult, segir í téðri frétt:

"Norðmennirnir séu ekki ósáttir við búnað verksmiðjunnar, en ýmislegt þurfi þó að laga [bendir til, að Multikonsult hafi ekki komið að hönnun verksmiðjunnar-innsk. BJo].  Tillögurnar lúti að því að fá meira jafnvægi og stöðugleika í rekstur ofnsins [aflstýringar viðfangsefni ?], en lyktin, sem frá verksmiðjunni berst og margir kvarta yfir, berst, þegar ofninn er undir ákveðnu álagi eða slokknar á honum."

Nokkru síðar í annars anzi loðmullulegri frétt, þar sem fulltrúar verksmiðjunnar fara, eins og venjulega, sem kettir í kringum heitan graut, kannski af því að þeir hafa ekki meira vit á ofnkerfinu en venjulegur húsköttur, kemur þó fram, að ófullburða hönnun, kannski hreint fúsk, er ásamt þekkingarleysi rekstraraðila (hvernig var háttað þjálfun þeirra ?)grunnorsök vandræða verksmiðjunnar:

"Menn frá framleiðanda ofnsins eru einnig hér á landi og vinna að endurbótum á búnaði, sem ekki hefur virkað sem skyldi, segir Kristleifur, sem tiltekur þar stillingar á tölvubúnaði [þetta orðalag er út í hött, því að vafalítið er um töluverðar hugbúnaðar breytingar að ræða-innsk. BJo].  Þá sé verið að skipta um ýmis tæki, sem ekki þyki starfa rétt [rangur búnaður valinn upphaflega-innsk. BJo].  Verða sérfræðingar þessir, svo og ráðgjafarnir norsku frá Multikonsult, á svæðinu, unz búið er að koma ofninum í stöðuga og eðlilega virkni."

Það er ógæfulegt að standa svona að málum, því að áreiðanlega munu koma upp óvæntir atburðir, eftir að búið verður að endurræsa ofninn, og þá verða útlendingarnir á bak og burt, og engin þekking fyrir hendi hérlendis á því, sem þeir gerðu, eða á þessu ofnkerfi.  Það eru grundvallarmistök að tryggja ekki þekkingu í landinu á öllum tæknibúnaði, sem þar er í notkun.  Vanir rekstrarmenn úr iðnaði gera ekki slík mislök.  Vítin eru til að varast þau, og vona verður, að tæknileg stjórnun kísilvera, sem eru í bígerð, verði traustari en þetta, og blekbóndi hefur ástæðu til að ætla, að svo verði, a.m.k. hvað varðar PCC Bakka.Kjarnorka í samkeppni við kol

 


Skipulagsmál í skötulíki

Ástand húsnæðismarkaðarins hérlendis er til skammar, því að um sjálfskaparvíti mistækra og sérlundaðra stjórnmálamanna í höfuðborginni er að ræða að mestu leyti. Þetta sjálfskaparvíti hefur margvíslegar afleiðingar.  Verst kemur gegndarlaus hækkun húsnæðisverðs niður á kaupendum fyrstu íbúðar, en einnig vega hækkanirnar inn í verðlagsvísitölur, sem er skaðræði í landi verðtryggingar. 

Um alvarlegar afleiðingar hás íbúðaverðs skrifaði Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf í Morgunblaðið 23. marz 2017:

"Komum skikki á byggingarmálin":

"Þegar við höfum hrakið unga fólkið okkar úr landi með því stjórnleysi í húsnæðismálum, sem hér er lýst, þá skulum við ekki reikna með, að nema hluti þess komi til baka.  Á nokkrum árum fækkar þannig unga, vel menntaða fólkinu okkar, á meðan þjóðin eldist.  Hver á þá að halda þjóðfélaginu uppi ?"

Stjórnvöld hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að hafa nóg framboð lóða af fjölbreytilegu tagi á boðstólum og að gera byggingarreglugerð og byggingarskilmála þannig úr garði, að húsbyggjendum sé kleift að reisa ódýr hús, þótt vönduð séu.  Hvað þetta varðar er mikill munur á sveitarfélögum, og það er alveg ljóst, sveitarfélög, sem sósíalistar stjórna, eru miklir eftirbátar hinna, sem stjórnað er af borgaralega sinnuðu fólki. Sósíalistum er síður en svo umhugað um, að ungt fólk eignist húsnæði, heldur snýst hugmyndafræði þeirra um, að fólk búi í leiguhúsnæði alla sína tíð.  Af þessum sökum er nægt framboð ódýrra lóða eitur í beinum sósíalista, og þess vegna vilja þeir ekki sjá yfir 10 þúsund íbúðir í Úlfarsárdal. 

Um samanburð sveitarfélaga segir byggingaverktaki í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu 19. apríl 2017:

"Minni kvaðir lækka íbúðaverð:

"Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, áætlar, að vegna áðurnefndra breytinga á reglugerðinni, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði fermetraverð nýrra íbúða á Selfossi allt að 30 % lægra en í nýju fjölbýli í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu.  Lægra lóðaverð vegi þungt í þessu samhengi."

Að sveitarfélag geri sig sekt um slík reginmistök í skipulagsmálum að leggja höfuðáherzlu á fyrirbærið "þétting byggðar" er höfuðsynd í þessu sambandi og er orðið húsbyggjendum og íbúðakaupendum gríðarlega dýrt; það er nokkuð, sem þeir og aðrir kjósendur þurfa að kvitta fyrir í næstu kosningum.  Um þetta skrifar Sigurður Ingólfsson í téðri grein:

"Það sést vel, að byggingarkostnaður og verð fasteigna fara illa saman.  Þar kemur auðvitað margt til, og er lóðarkostnaður og lóðaframboð stór þáttur í þeirri þróun.  Þegar lítið framboð er af lóðum, er lítið byggt, og þá hækkar eftirspurnin verð fasteigna, eins og nú gerist.  Þegar þar við bætist, að höfuðáherzlan er lögð á dýrar lóðir, sem er afleiðing þéttingar byggðar, þá hækkar verðið enn frekar.

Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir, að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40 %- 50 % hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi) og er jafnvel 90 % - 100 % hærra, eins og við Laugaveg.

Sé gengið út frá, að byggingarkostnaðurinn sjálfur sé svipaður á þessum stöðum, þá er niðurstaðan, að lóðarkostnaðurinn sé um 13 % af verði fjölbýlishúss í úthverfi, um 38 % á þéttingarsvæðum í Reykjavík og um 55 % við Laugaveginn.

Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal, hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða króna.  Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.

Á framangreindum tölum sést, að það er um 30 % ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum.  Það eru meira en 10 milljónir kr miðað við 75 m2 íbúð (nettó).  Þetta er ríflega sú upphæð, sem rætt er um, að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð.  Er ekki kominn tími til að fara að stjórna þessum málaflokki ?"

Þetta er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnun skipulagsmálanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. 2 kjörtímabil, og löngu er orðið tímabært, að Reykvíkingar hristi af sér þá óværu, sem nú situr í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og stjórnar þar af fádæma þröngsýni, þekkingarleysi á hagsmunum borgarbúa og hreinræktaðri afdalamennsku, með fullri virðingu fyrir íbúum í afskekktum dölum. Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er reynt að bregða yfir úlfinn sauðargæru háfleygra byggingaráforma, en slíkt eru orðin tóm, því að stefnan er löngu mörkuð til vinstri.

Þessi fáránlega tilhögun skipulagsmála höfuðborgarinnar hefur hækkunaráhrif á íbúðarhúsnæði langt út fyrir mörk Reykjavíkur og á verðlagsvísitöluna í landinu.  Þeir, sem hyggja á flótta undan hárri húsaleigu eða byggingarkostnaði ættu þó að hugsa sig um tvisvar áður en þeir halda í húsnæðisleit og þar með í atvinnuleit til útlanda, a.m.k. til Norðurlandanna, því að þar hefur verðlag á húsnæðismarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum, aðallega vegna lágra vaxta, sem magna upp eftirspurnina.  Á Norðurlöndunum eru lágir vextir til að stemma stigu við fjármagnsflótta frá evru-svæðinu, sem hækkaði verðgildi mynta Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, svo að Seðlabankar þessara landa sáu sér þann kost vænstan að lækka stýrivextina niður að núlli og jafnvel undir það.  Hinir seinheppnu vistmenn á Svörtuloftum eru þó hvergi bangnir, þótt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hér hrynji vegna gengis, sem er a.m.k. 20 % of hátt m.v. kostnaðarstigið í landinu, sem enn mun hækka hjá flestum fyrirtækjum nú í maí-júní. 

Í Viðskiptablaðinu 23. marz 2017 var úttekt á húsnæðiskostnaði Norðurlandanna eftir Snorra Pál Gunnarsson:

"Norræna tálsýnin"     Þar sagði m.a.:

"Þótt gæta verði að mörgu í þessum samanburði, fer því fjarri, að hægt sé að halda því fram með rökum, að grasið sé grænna [á] meðal frændþjóða okkar og auðveldara að koma sér [þar] þaki yfir höfuðið.  Þvert á móti gætu Íslendingar búið við lakari og áhættumeiri kjör á norrænum fasteignamarkaði en hér á landi."

Það er ekki aðeins aukin spurn eftir húsnæði vegna lágra vaxta, sem hækkað hefur íbúðaverðið meira í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi og svipað í Danmörku, heldur einnig landleysi, sem tekið er að hrjá sum sveitarfélög þar, eins og t.d. Seltjarnarnes og Kópavog á Íslandi.  Snorri Páll gerir nánari grein fyrir hækkununum þannig:

"Undir lok síðasta árs [2016] var húsnæðisverð hlutfallslega hæst í Svíþjóð og tæplega helmingi [50 %] hærra en á Íslandi. Næst kom Noregur, þar sem húsnæðisverð var um 27 % hærra en hér á landi, en húsnæðisverð í Svíþjóð og Noregi er í sögulegu hámarki um þessar mundir.  Ísland og Danmörk koma þar á eftir með svipuð húsnæðisverð.  Loks er húsnæðisverð lægst í Finnlandi, sem er að ákveðnu leyti sér á báti, hvað varðar verðþróun á húsnæðismarkaði, en þar hefur húsnæðisverð verið nokkuð stöðugt síðan 2011." 

Til að sýna "húsnæðisbóluna" á Norðurlöndunum skal hér tilgreina fermetraverð í 10 þekktum borgum á Norðurlöndunum.  Verð eru í MISK/m2:

  1. Stokkhólmur:       1,10
  2. Ósló:              0,92
  3. Helsingfors        0,76
  4. Gautaborg          0,70
  5. Þrándheimur        0,62
  6. Kaupmannahöfn      0,60
  7. Björgvin           0,58
  8. Reykjavík          0,48
  9. Árósar             0,46
  10. Málmhaugar         0,38

Það, sem skiptir kaupandann höfuðmáli, er árleg greiðslubyrði hans af hverjum fermetra.  Snorri Páll gerir þannig grein fyrir henni:

"Greiðslubyrði af 100 m2 húsnæði í Ósló, sem kostar að meðaltali um MISK 92,3 með 75 % láni hjá DNB með jöfnum greiðslum til 25 ára á 2,55 % breytilegum vöxtum, er tæplega 314 kISK/mán.  Hjá Nordea í Svíþjóð er greiðslubyrðin af 100 m2 íbúð í Stokkhólmi, sem kostar að meðaltali um MISK 111 með 75 % láni til 25 ára á 2,04 % vöxtum, um 356 kISK/mán.  Hjá íslenzkum banka er greiðslubyrðin af slíkri íbúð í Reykjavík með 75 % láni hins vegar um 255 kISK/mán samkvæmt reiknivélum bankanna, sem er svipað og í Danmörku.  Greiðslubyrðin á verðtryggðum íbúðalánum, sem eru um 80 % af húsnæðislánum í landinu, er jafnvel enn lægri, og þar að auki bjóða lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður lægri vexti en viðskiptabankarnir."

Greiðslubyrði íbúðalána er sem sagt hærri á Norðurlöndunum en hérlendis, og hún er jafnframt þungbærari sem hærra hlutfall ráðstöfunartekna en hér.  Ekki nóg með það, heldur er áhætta lántakenda meiri á hinum Norðurlöndunum, því að fyrr eða síðar munu vextir þar hækka, og þá mun íbúðaverð lækka aftur.  Til að ná sögulegu meðaltali þurfa vextir u.þ.b. að tvöfaldast, svo að væntanlegar vaxtahækkanir á hinum Norðurlöndunum munu verða verulegar.  Þá mun eftirspurnin falla og verðið lækka. 

Þeir, sem þá þurfa að selja, munu verða fyrir fjárhagslegu tapi, sem getur leitt til eignamissis, jafnvel gjaldþrots.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að jafnaðarmenn á Íslandi klifa stöðugt á Norðurlöndunum sem hinni miklu fyrirmynd Íslendinga á öllum sviðum ?  Þeir, sem til þekkja, vita vel, að Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda vegna mikils ríkisbúskapar, hárra skatta, mikilla skulda og lítillar framleiðniaukningar.  Samkeppnishæfni þeirra er af þessum sökum ógnað.

Þótt verðlag á húsnæðismarkaði sé svipað eða hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, er það engin afsökun fyrir allt of háu verðlagi á húsnæðismarkaði hér í landi hárra vaxta og yfirleitt nægs landrýmis.  Það hlýtur að verða eitt af kosningamálum komandi sveitarstjórnarkosninga til hvaða aðgerða stjórnmálamenn ætla að grípa til að lækka íbúðaverð og þar með leiguverð með raunhæfum hætti.  Eitt er víst, að í þá umræðu eru ákafir talsmenn þéttingar byggðar ekki gjaldgengir. 

 


Seinlæti hjá Landsneti

Landsnet hefur enn ekki tekið neitt róttækt skref í átt að raunhæfri tillögugerð um að leysa brýn flutningsvandamál rafmagns á Norðurlandi.  Það er enn hjakkað í gamla farinu með 220 kV loftlínu í Skagafirði og Eyjafirði. Blekbóndi hefur ekkert á móti slíkri línu, ef valin er skársta línuleið m.t.t. minnstu truflunar á útsýni, en heimamenn sætta sig ekki við slíkt mannvirki við túnfótinn, þótt gamla 132 kV loftlínan hverfi, og þess vegna er það ekki til annars en að tefja brýnt mál að halda þessum valkosti til streitu.

Í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu þann 27. marz 2017, "Tæknin takmarkar notkun jarðstrengja", kemur fram, að aðeins sé hægt að leggja 12 % fyrirhugaðrar styrkingar Byggðalínu á Norðurlandi í jörðu, þ.e. 37 km af 310 km leið 220 kV línu frá Blönduvirkjun til Fljótsdalsvirkjunar vegna veiks kerfis og hættu á miklum spennuhækkunum og ódeyfðum aflsveiflum á milli virkjana. 

Þessi viðbára orkar tvímælis, því að rýmdaráhrif jarðstrengsins má vega upp með spanspólum á leiðinni.  Sú lausn er þó dýr og óttalegt neyðarbrauð vegna þess og flækjustigs. 

Af fréttinni að dæma eru Landsnetsmenn nú fyrst að rumska eftir harða andstöðu við háspennulínur í byggð, sem íbúunum eru þyrnir í augum, og sveitarfélögin hafa litlar eða engar beinar tekjur af. 

Rumskið hefur leitt til þess, að Landsnetsmenn eru nú að skoða "mótvægisaðgerðir", sem þeir nefna svo, en ganga líklega ekki nógu langt:

"Í kjölfar þessarar vinnu er Landsnet að skoða mótvægisaðgerðir við Byggðalínuna.  Nefnir Magni [Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti] sem dæmi, að kannað verði, hvort hægt sé að setja stóran hluta núverandi Byggðalínu, sem er á 132 kV spennu, í jarðstreng samhliða uppbyggingu nýju línunnar á 220 kV spennu. 

Gamla Byggðalínan mundi þá fá nýtt hlutverk; nýtast meira til að þjóna byggðarlögunum.  Þá gætu minni virkjanir og vindorkuver tengst inn á hana."

Það er gleðiefni, að Landsnetsmenn hafa loksins áttað sig á því, að tímabært er að endurnýja Byggðalínuna með 132 kV jarðstreng.  Það er hins vegar miður, að þeir skuli enn berja hausnum við steininn og telja raunhæft að leggja 220 kV loftlínu um sveitir Norðurlands til orkuflutninga á milli landshluta. 

Nú þarf að huga að nýrri leið til að tengja saman virkjanirnar Blöndu og Kröflu með því að fara "ofan byggða", þ.e. á heiðum sunnan dala Norðurlands.  Framtíðar jafnstraumsjarðstrengur af Sprengisandi mundi þá tengjast inn á þessa samtengilínu helztu virkjana Norðurlands, en styrking samtengingar þessara kerfa er nauðsynleg stöðugleikaumbót í truflanatilvikum. 

Jarðstrengur Byggðalínu með loftlínubútum, 132 kV, mundi tengja saman Hrútatungu í Hrútafirði, Laxárvatn við Blönduós, Blönduvirkjun, Varmahlíð í Skagafirði, Rangárvelli við Akureyri og Kröflu, en tenging Kröflu og Fljótsdals þarf að vera 220 kV og loftlína af fjárhagsástæðum.  Sprengisandsjarðstreng mætti þá fresta um a.m.k. einn áratug, og mun hann þá verða fjárhagslega viðráðanlegri en nú, og ekki vanþörf á þessari styrkingu tengingar raforkukerfa Norður- og Suðurlands, einnig vegna aukinnar flutningsþarfar með auknu álagi raforkukerfis landsins. Þar mun væntanlega verða um jafnstraumsstreng að ræða með flutningsgetu í sitt hvora áttina. 

Forstjóri OR gerði í kvöldfréttatíma RÚV sjónvarps 3. apríl 2017 lítið úr orku- og aflþörf vegna rafbílavæðingar og nefndi Sprengisandslínu í því sambandi.  Hann er greinilega í gufumekki Hellisheiðarvirkjunar, því að hann virðist ekki hafa heyrt af því vandamáli Landsnets og landsmanna allra, að Byggðalínan er fulllestuð, og það er brýnt að ráðast í aðgerðir til að auka flutningsgetu hennar og/eða draga úr flutningsþörfinni eftir henni.  Hið síðar nefnda er hægt að gera með virkjunum fyrir norðan eða nýrri tengingu Norður- og Suðurlands. 

Þá gerir forstjórinn sig sekan um alvarlegt vanmat á orkuþörf rafmagnsbíla, sem gæti stafað af því, að hann leggi orkunýtnitölur bílaframleiðendanna til grundvallar.  Það er algerlega óraunhæft á Íslandi, þar sem bæta þarf við orku til upphitunar, afísingar og lýsingar.  Það er ekki óhætt að reikna með betri orkunýtni en 0,35 kWh/km, og vægt áætlað verður meðalakstur 100´000 rafbíla árið 2030 (þennan fjölda nefndi Bjarni Bjarnason í téðu viðtali) 15´000 km á bíl.  Þessi bílafloti þarf þá a.m.k. 550 GWh orkuvinnslu í virkjunum eða um 65 MW að jafnaði. Þetta er um 15 % viðbót við almenna raforkumarkaðinn í landinu, og að halda því blákalt fram opinberlega, að engin þörf sé á að virkja vegna þessarar viðbótar, er villandi og í raun ábyrgðarleysi. 

Ef tekið yrði mark á slíku, mundi það hafa alvarlegan og rándýran orkuskort í för með sér.  Er forstjórinn "að taka skortstöðu" á markaðnum til að búa í haginn fyrir enn meiri raforkuverðshækkanir ?  Þær hafa orðið tugum prósenta yfir vísitöluhækkunum neyzluverðs síðan 2010 hjá dótturfélögum OR, og það er tímabært að snúa þeirri öfugþróun við. 

 


Sauðargærur borgarstjórnar

Í hverju stórmálinu á fætur öðru taka borgaryfirvöld illa upplýsta ákvörðun, móta stefnu í anda sérvitringa og afturhaldssinna gegn almannahag. Það er pólitískt slys, að slíku hyski skuli hafa skolað í valdastóla höfuðborgarinnar og mál, að þeirri óáran og óstjórn, sem því fylgir, linni. 

Sem dæmi skal hér tilfæra 4 mál eða málaflokka úr umræðunni: Reykjavíkurflugvöll, Sundabraut, mislæg gatnamót og lóðaúthlutanir.

1) Meirihluti borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar, þar sem innanborðs eru Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar, gegn vilja minnihlutans, hefur rekið einarða stefnu sem lið í þéttingu byggðar í Reykjavík að afleggja Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni.  Að láta skipulagsmál hverfast um þéttingu byggðar í ört vaxandi borg er einsdæmi og í því eru fólgin grundvallarmistök á skipulagssviði borgarinnar, reist á þröngsýni og þekkingarleysi.

Gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi borgarinnar, að flugvöllurinn hverfi á skipulagstímabilinu.  Það er skipulagsslys, stórslys, því að þjónustan á Vatnsmýrarvelli er höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu mikilvæg, og borgin hefur af honum drjúgar tekjur.  Eru mörg dæmi frá öðrum höfuðborgum, sem telja sér skylt í nafni greiðra samgangna að hafa slíka þjónustu innan sinna vébanda, t.d. Lundúnir og Berlín.  Þó að lóðir séu þar dýrari en hér, dettur þar engum í hug í nafni þrengingar byggðar eða "þéttingar" að fórna flugvelli fyrir byggingarlóðir. 

Borgaryfirvöld ætla að kyrkja starfsemi flugvallarins með því að skera af honum eina flugbraut í einu. Á máli lækna mundi slíkt kallast "amputering" eða aflimun. Það er ekki einasta einkar ógeðfelld aftaka á flugvallarstarfsemi, heldur stórhættuleg aðferð fyrir notendur flugvallarins. Aðeins vinstra hyski getur fengið svo ógeðfellda hugmynd.

Dómur Hæstaréttar, sem lokun Neyðarbrautarinnar (SV-NA) var reist á, úrskurðaði, að samningar skuli standa.  Svo er að öllu eðlilegu, en hvað, ef svo kemur í ljós, að viðkomandi samningur var gerður í skugga öryggisúttektar á flugvelli, sem rökstuddur vafi leikur á um, að sé lögmæt eða faglega óvéfengjanleg ?  Þá getur ekki gilt gamla heiðursmannareglan, því að jafna má þessum aðdraganda við blekkingarleik.  Þar sem svik eru í tafli, er samningur ógildur.

Það er þess vegna fullt tilefni til að halda baráttu áfram fyrir tilvist Vatnsmýrarvallar með þremur flugbrautum, enda er hvorki önnur samgöngulausn í sjónmáli né fé til að leysa hann af hólmi með góðu móti. Almannahagsmunir eru í húfi, og aðrir hagsmunir verða þá að víkja.  Liður í þeirri baráttu er að koma núverandi, óhæfa meirihluta borgarstjórnar, með lækninn loðna í broddi fylkingar, frá völdum og endurskoða Aðalskipulagið í veigamiklum atriðum.  

Þann 25. febrúar 2017 skrifuðu Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Greta Björg Egilsdóttir, borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi, grein í Morgunblaðið,

"Alþjóða flugmálastofnunin staðfestir, að forsendur voru ekki réttar", sem hófst þannig:

"Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) hefur ítrekað lýst yfir efasemdum sínum um, að þær skýrslur, sem Efla, verkfræðistofa, vann fyrir ISAVIA um nothæfisstuðul og nothæfistíma Reykjavíkurflugvallar, séu í samræmi við alþjóðareglur, en áhættumatsskýrsla ISAVIA vegna lokunar s.k. Neyðarbrautar, flugbrautar 06/24, var unnin með hliðsjón af þeim.  Taldi ÖFÍA, að skýrslan um nothæfisstuðul væri ekki rétt, þar sem leggja bæri fleiri forsendur til grundvallar útreikningunum. Hefur það nú verið staðfest af Alþjóða flugmálastofnuninni."

Í þessu máli þurfa minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.  Hinir meiri hagsmunir snúast um flugöryggi, ekki sízt sjúkraflugsins, sem tvímælalaust hefur verið skert að óþörfu, og enginn samningur á milli ríkis og borgar eða annarra, sem felur í sér aukna hættu á flugslysum, getur staðizt lög landsins. Hafi slíkir samningar verið gerðir með villandi eða ófullnægjandi upplýsingar í höndunum um veigamikla almannahagsmuni, hljóta að vera fyrir því lögformlegar og siðferðislegar ástæður að rifta þeim.  2)  Vegagerð ríkisins hefur valið s.k. Innri leið fyrir Sundabraut, vegna þess að hún er hagkvæmust, bæði krefst hún lægsta fjármagnskostnaðarins og rekstrarkostnaður mannvirkja hennar verður lægstur. Það gæti munað um miaISK 50 í heild á fjárfestingarupphæð valkosts Vegagerðarinnar og valkosts Reykjavíkurborgar.  Það er þannig engin skynsemi í valkosti vinstri meirihlutans í Reykjavík, enda virðist hann aðallega vera fram settur til að þvælast fyrir framkvæmdinni og tefja fyrir bráðnauðsynlegum samgönguumbótum við höfuðborgarsvæðið.  Fjárhagur borgarsjóðs er mjög bágborinn og sker sig þannig algerlega frá fjárhag nágrannasveitarfélaganna. Samkvæmt lögum þarf sveitarfélag, sem velur dýrari kost en Vegagerðin, að greiða mismunarkostnaðinn.  Eru íbúar Reykjavíkur reiðubúnir að kasta fé á glæ með þessum hætti ?

Sigtryggur Sigtryggsson segir svo frá þessum skæruhernaði borgarskipulagsfúskaranna, sem nú ráða illu heilli ferðinni í Reykjavík, flestum til ómælds ama, í Morgunblaðinu 14. marz 2017:

"Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og forráðamenn fasteignafélagsins Festis ehf [Er ekki rétt, að Dagur upplýsi um raunverulega eigendur þessa fyrirtækis og um tilurð þess fjár, sem þarna á að fjárfesta með ?-innsk. BJo].  Hverjir eru eigendur Festis, sem  undirrituðu síðastliðinn föstudag samning um uppbyggingu 332 íbúða í 5 húsum á Gelgjutanga.  Í síðustu viku samþykkti borgarráð þrjá samninga, sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu á þessu svæði í Vogabyggð við Elliðaárvog. 

Með þessum samningi er endanlega ljóst, að ekki verður ráðizt í gerð Sundabrautar samkvæmt svo nefndri Innri leið. Samkvæmt þeirri leið, þ.e. leið 3, átti Sundabrautin að taka land á Gelgjutanga og liggja að mislægum gatnamótum á Sæbraut.  Þetta staðfestir Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Vegagerðarinnar."

Þessu framferði Dags & Co er ekki hægt að lýsa öðru vísi en sem skæruhernaði gegn Vegagerðinni og almannahagsmunum.  Hvers vegna í ósköpunum er lúðunum í borgarstjórn svo umhugað að halda samgöngunum til og frá borginni í óviðunandi ástandi sem allra lengst ?

3) Það er ekki nóg með, að mislæg gatnamót í stað ljósastýrðra gatnamóta auki flutningsgetu vega um a.m.k. 50 %, spari þannig vegfarendum ferðatíma og orku (dragi úr mengun), heldur eykst öryggi vegfarendanna mikið.  Tölfræðin sýnir, að þar sem mislæg gatnamót hafa verið byggð, þar hefur slysum fækkað um 46 % - 67 %.  Með þessa miklu kosti mislægra gatnamóta skjalfesta hlýtur landið, sem undir þau fer, að vera tiltölulega lágt gjald fyrir framfarirnar.  Eingöngu fúskarar draga arðsemi mislægra gatnamóta, sem Vegagerðin mælir með, í efa. 

Vinstri menn í borgarstjórn hafa látið fjarlægja öll mislæg gatnamót af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Hvers vegna í ósköpunum ? Það er óhætt að fullyrða, að viðlíka flónska ráðamanna skipulagsmála og skeytingarleysi með líf og heilsu vegfarenda fyrirfinnst ekki í nokkurri annarri höfuðborg á Vesturlöndum um þessar mundir, og eru þær þó ekki undanskildar, þar sem jafnaðarmenn og græningjar hafa fengið að véla um málefni borgar.  Hér ríkir forstokkun heimsku og þekkingarleysis, sem krystallast í undirfurðulegu hatri á einkabílnum, sem minnir á Rauðu Khmerana, sem vildu af stjórnmálalegum ástæðum knýja íbúa Kambódíu aftur í sjálfsþurftarbúskap.   

4) Vitleysan á sviði skipulagsmála hefur einnig birzt með átakanlegum hætti við lóðaúthlutanir í borginni. Skipulagsyfirvöld hafa einblínt á þrengingu byggðar, og þar með hefur lóðaúthlutun á nýju landi setið á hakanum.  Dómgreindarleysi og þekkingarleysi borgaryfirvalda á skipulagsmálum höfuðborgar við aðstæður, eins og á Íslandi á þessum áratugi, birtist í svo litlu lóðaframboði í höfuðborginni, að íbúðamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er þjakaður af skorti á íbúðum, einkum litlum íbúðum, 50-70 m2, og þar af leiðandi verðsprengingu, sem líkja má við katastrófu, þjóðfélagslegt stórslys, sem verst bitnar á þeim, sem eru að stofna til heimilis, eiga litlar sem engar eignir, jafnvel þungar námsskuldir, og verða á sama tíma fyrir tiltölulega miklum tímabundnum útgjöldum, t.d. vegna ómegðar.

Þrenging byggðar er dýr og seinleg.  Ef Dagur & Hjálmar vissu þetta ekki, voru þeir einir um slíka fávizku.  Ef þeir vissu þetta, var þeim alveg sama, því að annars hefðu þeir gætt að því að hafa hlutfall lóða á þrengingarsvæðum ekki hærra en 10 % af heild og í heildina væri úthlutað lóðum í Reykjavík undir 1000-2500 íbúðir á ári eftir þörfum markaðarins á sanngjörnu verði (án okurs, eins og nú).  Reykjavík á nóg landrými undir lóðir, en hið sama verður ekki sagt um öll hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.  Að móta byggingarstefnu án nokkurs tillits til þarfa og óska almennings er pólitísk dauðasök.  Pólitískar fallaxir borgarstjórnarkosninganna munu vonandi hreinsa til í borgarstjórn 2018.  Næg eru sakarefnin.

Nýir valdhafar verða að móta stefnu, sem lækkar fermetraverð íbúða umtalsvert og eykur mest framboð lítilla íbúða.  Þeir geta leitað víða í smiðju eftir slíkum hugmyndum, og eina gat að líta í Morgunblaðinu, 28. marz 2017, í grein Alberts Þórs Jónssonar, viðskiptafræðings:

"Einfaldar og hagkvæmar lausnir í húsnæðismálum:"

"Einfaldar og hagkvæmar lausnir í íbúðamálum geta falizt í því að byggja ódýrar og hagkvæmar íbúðir, sem eru 50-60 m2 að stærð, með haganlegu fyrirkomulagi.  Á 6. áratuginum voru t.a.m. byggð háhýsi við Austurbrún í Reykjavík, sem eru 12 hæðir, en stærð íbúðanna er á bilinu 45-60 m2. 

Sams konar íbúðir gætu mætt þeirri brýnu eftirspurn, sem er nú á íbúðamarkaði.  Ég tel, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eigi að hafa nægilegt lóðaframboð til bygginga á slíkum háhýsum með íbúðum, sem væru á bilinu 50-60 m2.  Hægt er að hugsa sér, að á hverri hæð væru 6 íbúðir, þannig að 48 íbúðir væru í einu slíku háhýsi.  Gera má ráð fyrir 6 háhýsum í sama klasa eða samtals 288 íbúðum, og þar af leiðandi 1152 í 4 klösum.  Gera má ráð fyrir, að í hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu væru byggðar 1152 íbúðir og þar af leiðandi 4608 íbúðir í 4 sveitarfélögum.  Reykjavíkurborg gæti verið með 8 klasa, sem eru þá 2304 íbúðir í Reykjavík. 

Úlfarsárdalur er kjörið svæði undir slíkar lausnir í íbúðamálum.  Ef gert er ráð fyrir, að verð á m2 sé 350´000 kr, mundi verð á slíkum íbúðum verða á bilinu 17,5-21,0 milljón kr eftir stærð íbúða."

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband