Línudans eða stríðsdans

Ríkissjónvarpið sýndi að kvöldi Verkalýðsdagsins eða dags hestsins (þarfasta þjónsins), 1. maí 2017, óvenju áhugaverða heimildarmynd, sem kölluð er Línudans.  Hún fjallaði um baráttu Skagfirðinga og sveitunganna austan Öxnadalsheiðar við raforkuflutningsfyrirtækið Landsnet, sem, eins og kunnugt er, hefur eitt allra fyrirtækja á Íslandi það hlutverk að flytja raforku frá virkjunum að aðveitustöðvum og á milli aðveitustöðva, þar sem dreifingarfyrirtækin taka við orkunni og afhenda hana á notkunarstað. 

Það, sem eftir situr, þegar staðið er upp frá þessari merku mynd, er, að herfræði Landsnets er vonlaus.  Þar eru innanborðs hershöfðingjar, sem beita herfræði síðasta stríðs, og þeir tapa alltaf nýjum orrustum, sbr baráttuna um Frakkland vorið 1940.

Landsnet hefur nú flækzt í stríð við landeigendur o.fl., sem fyrirtækið getur ekki unnið.  Sú er ályktun blekbónda, eftir að hafa horft á téða heimildarmynd.  Aðferðir fyrirtækisins eru svo klaufalegar, að undrum sætir, t.d. að gera menn út af örkinni til að fara heim á bæina og tala þar við hvern bónda fyrir sig um væntanlega línulögn.  Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í Kastljósviðtali að kvöldi 2. maí 2017, að það hefði verið gert í kynningarskyni á frumstigum málsins.  Það er enn undarlegra, því að rétta röðin hlýtur að vera kynningarfundur með viðkomandi sveitarstjórn og síðan almennur fundur með íbúum sveitarfélagsins. 

Þá hefur sjaldan aumlegra yfirklór vegna losarabrags í stjórnun eins fyrirtækis komið fyrir almenningssjónir en sagan af týndu skýrslunni.  Hún er með eindæmum, en kemur þeim, sem kynnzt hafa starfsháttum þessa einokunarfyrirtækis, ekki sérlega mikið á óvart.  Sagan af týndu skýrslunni, þar sem lagt mun hafa verið mat á kostnað við jarðstrengi í samanburði við loftlínur, gefur tilefni til þess, að fram fari stjórnsýsluúttekt á fyrirtækinu, þar sem það að meirihluta er í (óbeinni) opinberri eigu. Núverandi eignarhald er algerlega óviðunandi, eins og margoft er búið að benda á.  Úr því að lög veita Landsneti einokunaraðstöðu, er eðlilegast, að það það verði ríkiseign.  

Í ljósi aðstæðna er blekbóndi sammála því sjónarmiði fulltrúa Landverndar, sem fram kom í myndinni, að við hagkvæmnisamanburð valkosta ber að leggja kostnaðinn yfir áætlaðan rekstrartíma mannvirkjanna, jarðstrengja og loftlína, til grundvallar valinu.  Stofnkostnaðurinn vegur þyngst, en síðan þarf að núvirða allan rekstrarkostnað, t.d. viðhalds- og viðgerðarkostnað og kostnað vegna orkutapa og óseldrar orku af völdum truflana. 

Ekki nóg með þetta.  Eins og virtur hagfræðingur og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands hefur bent á, þarf til viðbótar þessu að leggja mat á ætlaðan umhverfiskostnað yfir allan rekstrartímann og núvirða hann.  Að kostnaðarmeta ergelsi yfir umhverfisraski er ekki hægt að gera af nákvæmni, en það er áreiðanlega hægt að búa til samræmdan matsgrundvöll fyrir umhverfiskostnað.  Þá skiptir staðsetningin máli, og er meiri pirringur vegna loftlína í byggð en fjarri byggð, ef marka má skoðanakönnun á meðal ferðamanna vegna vindmylla.  Eftirfarandi kom fram í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 17. ágúst 2016:

"Deila um áhrif Búrfellslundar á ferðafólk":

"Þó kom fram í greinargerð frá faghópi 3 [Rammaáætlunar], að í skoðanakönnun, sem hann fékk Félagsvísindastofnun til að gera, lýstu 63 % þátttakenda sig hlynnta vindmyllum á hálendi, fjarri byggð, en 18 % sögðust andvígir.  Mun færri vildu sjá vindmyllur á láglendi, nærri byggð.  Þegar spurt var beint um vindmyllugarð nálægt Búrfellsvirkjun, lýstu 64 % þátttakenda sig hlynnta þeirri hugmynd, en aðeins 11 % andvíga."

Landsnet verður að koma upp úr skotgröfunum með ferskar hugmyndir, ef það á að standa undir hlutverki sínu.  Landsnet getur afskrifað nýja loftlínu frá aðveitustöð Varmahlíð og austur í Eyjafjörð.  Hugsanlega verður samþykkt viðbótar 132 kV loftlína frá Blönduvirkjun að aðveitustöð Varmahlíð, þó sennilega aðeins 132 kV jarðstrengur.  Til að koma á öflugri tengingu á milli Kröflu og Blöndu, með 220 kV loftlínu, þarf að fara með hana sunnan norðlenzkra dala, og mun þá framtíðar jafnstraumsjarðstrengur frá virkjunum Þjórsár/Tungnaár um Sprengisand tengjast þeirri línu um áriðilsvirki á hentugum stað. 

Það er rangt, sem fram kom hjá einum Skagfirðinginum í myndinni, sem kynnti sig sem fyrrverandi línumann, að núverandi Byggðalína tengist ekki dreifikerfi þorpa, kaupstaða og sveita neitt.  Í aðveitustöð Hrútatungu, aðveitustöð Laxárvatni og aðveitustöð Varmahlíð eru spennar og rofar fyrir 11 kV og/eða 19 kV spennu, sem eru dreifispennur dreifbýlisins. Að orkunotkun þessara staða aukist aðeins um 1 %- 2 % að jafnaði á næstu árum var líka rangt, því að orkuskiptin kalla á gríðarlega aukna aflþörf.  Þar má t.d. nefna landtengingu skipa í höfnum landsins, og verður nú varpað ljósi á þá orku- og aflþörf.

Sigtryggur Sigtryggsson skrifaði 19. maí 2016 í Morgunblaðið fréttina:

"Auka þarf landtengingu skipa":

""Ef að líkum lætur, verða Íslendingar að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis um 350-400 kt/ár á næstu 15 árum.  Þetta verður ekki gert, nema með verulegum fjárfestingum í innviðum samfélagsins - sérstaklega fyrir stóraukna rafmagnsnotkun.", segir [nokkurn veginn] orðrétt í minnisblaði Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna sf, sem kynnt var á síðasta stjórnarfundi félagsins."

Olíumassinn 400 kt/ár inniheldur orku u.þ.b. 4,3 GWh, og ef reiknað er með, að rafbúnaður, sem leysir olíuhákana og bensínhákana af hólmi, hafi þrefalda orkunýtni á við téða háka, þá þarf 1,4 TWh/ár af raforku, sem er tæplega 40 % af núverandi almennri raforkunotkun. Þetta þýðir, að almenn raforkunotkun mun aukast tvöfalt hraðar á næstu 15 árum en téður fyrrverandi línumaður hélt fram í heimildarmyndinni.  Að gera lítið úr þessu er versta óráð. Þegar litið er á meðalaflið, 160 MW, og gert ráð fyrir, að 100 MW þurfi að flytja eftir Byggðalínu, sést, að brýna nauðsyn ber til að styrkja hana, því að bara á næstu 15 árum mun bætast við flutningsþörfina sem nemur allri núverandi flutningsgetu.  Að halda því fram, eins og línumaðurinn fyrrverandi gerði í myndinni, að Byggðalína þjónaði bara stóriðju, er rakalaus þvættingur. 

Að líkindum er orkusvelti nú þegar í Skagafirði, og slíkt ástand hefur nú varað í a.m.k. 5 ár í Eyjafirði.  Þjóðarhagur og heilbrigð byggðastefna krefst þess, að flutningsgeta raforku verði aukin að þessum byggðarlögum. Við hafnirnar á Sauðárkróki og á Akureyri þarf að setja upp landtengingar rafmagns með 11 kV stofnum, sennilega 10 MW á Sauðárkróki og 15 MW á Akureyri. Kostnaður gæti numið alls miaISK 2,0, og styrktarsjóður orkuskipta gæti létt undir um 25 %, en raforkusalan til togara, flutningaskipa og farþegaskipa, mundi standa undir 75 % kostnaðarins.  

Fljótlegast gæti verið að koma Eyfirðingum til bjargar með tveimur 132 kV jarðstrengjum um Víkurskarð (of heitt í Vaðlaheiðargöngum) og e.t.v. að nýrri aðveitustöð við Akureyri.  Samtengingu Kröfluvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar verður að styrkja með 220 kV loftlínu. 

Þessi samtenging Austurlands og Norðurlands mun styrkja kerfið í bilunartilvikum, svo að notendur munu verða fyrir minni truflunum.  Í lélegu vatnsári fyrir norðan (Blanda) verður oftast hægt að miðla orku til Norðurlands frá Hálslóni um Fljótsdalsvirkjun með þessari styrkingu Byggðalínu, en það vantar enn öfluga tengingu á milli Suður- og Norðurlands til að hægt verði að miðla umtalsverðri orku á milli þessara landshluta með stærstu virkjanirnar.  Sú tenging mun t.d. fást með jafnstraums-jarðstreng á Sprengisandsleið.  Flutningsgeta þarf að vera um 500 MW.  Slíkur búnaður er dýr, en verð fer lækkandi. Um slíka lausn gæti náðst víðtæk sátt.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þau vinnubrögð að tala við hvern og einn landeiganda í einu, og láta í það skína að allir aðrir hafi samþykkt framkvæmd, er ekki nýtt. Í dýrlegri sögu sem mér var sögð af fyrirhugaðrir Villinganesvirkjun fyrir um þrjátíu árum, var einmitt sú aðferð notuð. 

Ómar Ragnarsson, 9.5.2017 kl. 15:51

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ekki veit ég, hvaðan sú aðferð er ættuð; kannski frá þeim tíma, er félög keyptu vatnsréttindi af bændum, en nú er hún mikil tímaskekkja, og vægasta umsögnin, að hún sé barnaleg, með fullri virðingu fyrir vitsmunum barna. 

Bjarni Jónsson, 9.5.2017 kl. 18:08

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vitaskuld varst þú, Bjarni, rétti maðurinn til að fjalla faglega og með svo upplýsandi og leiðréttandi hætti um allt þetta mikilsverða mál. Sjálfur hafði ég, sem hinn algeri leikmaður, í raun fákunnandi í raforkufræðum, reynt að skrifa um þetta pistil í kjölfar sjónvarpsþáttarins góða,* en ég er feginn, að um flest reynist ég hafa verið þar í nokkru samræmi við flestar þínar megináherzlur í þessari grein þinni. En vitaskuld er þetta mikilvægt líka sem þú skrifar hér um dreifispennana þrjá og hvernig landtenging skipa við raforkukerfið er að verða brýn nauðsyn komandi ára.

Heilar þakkir fyrir þessa fræðandi grein þína, Bjarni. smile

* Mína ófaglegu grein um málið er að finna hér: Stöndum með bændum og þeim samtökum sem vilja varðveita ásjónu landsins gegn Landsneti sem starfar í þágu erlendra auðhringa.

 

Jón Valur Jensson, 10.5.2017 kl. 02:19

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Það sem reyndar kom ekki fram í þessari mynd er að það getur verið talsverður munur á kostnaði við jarðstreng eftir aðstæðum. Ef um er að ræða" Urð of grjót upp í mót" getur kostnaður verið talsverður.Samanburður á Jarðstrengslagningu úti í Evrópu á móti landlínu á Íslandi hlýtur því að vera nokkuð vitlaus þar sem lagning jarðstrengs er yfirleitt á þeim svæðum þar sem aðstæður eru ákjósanlegar. Ég er sammála því að aðferðir Landsnets eru ekki góðar. En óbilgirni bænda í skagafirði, og víðar, eru það reyndar líka. Röksemdir þeirra í umtalaðri mynd eru ekki haldbærar. Eins og kemur skýrt fram á korti þá var þessi framkvæmd hringtenging á dreifilínunni kring um landið sem hlýtur að nýtast öllum notendum. Ekki bara stóriðjunni. Það er ekkert meiri sjónmengun af þessari línu en byggingunum á jörðum bændanna sem oftast eru ekki til fyrirmyndar, og heimlínunum til bæjanna. Og það er meiri mengun af olíuknúinni dráttarvél lífrækt ræktaða bóndans.Bændur verða að sýna samfélagslega ábtrgð eins og allir aðrir , ekki síðst fyrir þær sakir að atvinnuvegur þeirra er styrktur stórlega af almannafé. Tek það skýrt fram að hér talar bóndasonur norðan úr fljótum, Skagafirði.

Jósef Smári Ásmundsson, 10.5.2017 kl. 07:28

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jón Valur, við höfum orðið fyrir sams konar áhrifum af þessari heimildarmynd og fyllzt hrifningu á baráttu bændanna gegn því, sem kalla mætti ofurefli að sunnan, en reyndist vera pappírstígrisdýr, sem týnir mikilvægri skýrslu, hvort sem hún var á pappírsformi einvörðungu eða rafræn.  Pistlar okkar um efnið eru að forminu ólíkir, en andi hvorrar greinar er af sömu rót runninn, og óþarft er að taka fram, að pistlarnir eru jafnréttháir.  Ég þakka þér fyrir að láta svo hlýlega í ljós, að þú kunnir vel að meta pistilinn hér að ofan. 

Bjarni Jónsson, 10.5.2017 kl. 10:20

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári;  Þegar um háspennustrengi er að ræða, verður í öllum tilvikum að skipta um jarðveg og sanda botninn.  Ef ekki er unnt að sneiða hjá klöpp, verður að fleyga hana eða sprengja, sem auðvitað hækkar kostnaðinn, en sé þess þörf bara á stöku stað, hefur það lítil áhrif á heildarkostnaðinn.  Það er með stofnlínurnar, eins og vegina, að þær nýtast öllum, og þess vegna er almannahagur í húfi, að takist að flytja raforkuna þangað, sem markaðurinn kallar eftir henni.  Um sjónmengun af mannvirkjum eru mjög skiptar skoðanir og fer eftir smekk manna, sem er einstaklingsbundinn.  Það er þó eðlilegt, að sjónarmið landeigenda og íbúa þeirra svæða, þar sem mannvirki eiga að rísa, vegi þyngra en annarra, ekki sízt í þeim tilvikum, þar sem þeir eru fúsir að fallast á aðra tæknilega tilhögun við að ná sama marki, þótt hún kunni að vera dýrari, þegar horft er á allan rekstrartímann. 

Bjarni Jónsson, 10.5.2017 kl. 10:40

7 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Takk fyrir upplýsingar og pistilinn.

Jósef Smári Ásmundsson, 10.5.2017 kl. 12:49

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það þarf að vanda vel val á skurðstæði fyrir háspennustrengi.  Þannig eru mýrar afleitar, því að þá mun þjappaður sandurinn með tímanum síga undan botni skurðarins og mýrin þrengja sér inn í skurðstæðið, nema hún sé þurrkuð upp, þar sem skurðurinn liggur.  Háspennustrengir endast lengst að öðru jöfnu, ef þeir hreyfast ekkert og hitinn frá þeim á greiða leið burt. 

Bjarni Jónsson, 10.5.2017 kl. 21:28

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heiðurinn til þín, Bjarni. smile

Jón Valur Jensson, 13.5.2017 kl. 05:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband