Færsluflokkur: Dægurmál
7.10.2023 | 18:09
Borgarlínan setur umferðina á höfuðborgarsvæðinu í uppnám
Öllum, sem lesa málefnalegar og fróðlegar greinar Þórarins Hjaltasonar, samgönguverkfræðings, ætti undireins að verða ljóst, að borgarlína núverandi borgarstjórnarmeirihluta er algerlega óþarft yfirskot í verkefnavali og gersamlega misheppnuð leið til að leysa úr umferðarvandanum, þ.e. hættulegum gatnamótum og miklum töfum á annatímum. Ofurstrætó, miðjusettur í núverandi gatnakerfi, er allt of dýr aðferð til að fækka bílum í umferðinni, og Þórarinn Hjaltason hefur sýnt fram á, að fækkunin verður svo lítil, að ekkert munar um hana, þegar kemur að umferðartöfum. Auk fyrirsjáanlegs botnlauss taprekstrar á þessari útgáfu borgarlínu, mun hún tefja bílaumferðina alveg frá framkvæmdatíma og allan sinn rekstrartíma. Þegar af þeirri ástæðu er hún engin lausn.
Þórarinn Hjaltason ritaði grein í Morgunblaðið 15. september 2023 undir fyrirsögninni:
"Forsendur samgöngusáttmálans eru brostnar".
Hann lýsir þarna skoðun, sem vörzlumaður ríkissjóðs, fjármála- og efnahagsráðherrann, hefur tjáð vera sína í ræðu og riti. Síðan hafa ýmsir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu tekið í sama streng, svo að binda má vonir við, að ofan á verði tillaga samgönguverkfræðingsins Þórarins Hjaltasonar um vitræna framtíðarmiðaða lausn á vanda, sem segja má, að endurspeglist í allt of mörgum "þungum" ljósastýrðum gatnamótum. Þórarinn er gjörkunnugur umferðarlausnum erlendis og nefndi Stavanger, olíumiðstöð á SV-strönd Noregs:
""Borgarlínan" í Stavanger, "Bussveien", hefur verið ein helzta fyrirmyndin. "Bussveien" verður 50 km og umfangsmesta hraðvagnakerfi í Evrópu. Framkvæmdum við hluta af kerfinu er lokið, og fyrir 5 árum var áætlað, að kerfið myndi kosta um mrdISK 200, eða 4 mrdISK/km, sem var hátt í þreföldun á upphaflegri áætlun. Hver km hér verður e.t.v. eitthvað ódýrari. Hins vegar er reiknað með, að borgarlínan verði 60 km, þannig að búast má við, að heildarkostnaður verði af svipaðri stærðargráðu."
Þórarinn útskýrir ekki, hvers vegna hann telur, að einingarkostnaður hérlendis verði lægri en í Noregi. Er það venjan, að samgönguverkefni hérlend útheimti minni fjárfestingar en í Noregi. Það er hærra kostnaðarstig á Íslandi en í Noregi og má nefna vextina. Þessi bloggari mundi telja óráðlegt að reikna með lægra einingarverði hér en í Noregi, og þá stöndum við frammi fyrir mrdISK 240 fjárfestingarfé í borgarlínu og umferðartaföfum og hættuástandi í umferðinni, sem verða verri en fyrir borgarlínuframkvæmdirnar. Féð, sem fer í fjárfestingu borgarlínu, er þannig kastað út um gluggann, og fjárfestingin er þannig fullkomið glapræði í boði Samfylkingar, sem berst fyrir framgangi vitlausra hugmynda stjórnmálamanna af fullkominni þvermóðsku.
Fróðlegt væri, að Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, mundi afla sér upplýsinga um og birta, hvernig áætlanir hafa staðizt um aðsókn að "Bussveien", svo og rekstraráætlanir. Hversu mikill er hallareksturinn af "Bussveien", og hver greiðir hann ? Hversu marga íbúa spannar "upptökusvæði" "Bussveien", og bera síðan þann fjölda saman við "upptökusvæði" borgarlínu, gjarna einnig íbúafjölda "upptökusvæðis" á km2.
Það er ágætt að hafa í huga, þegar bolmagn Stafangurs og Reykjavíkur til dýrra og óarðbærra verkefna er borið saman, að Stafangur er olíuhöfuðborg Noregs og auðugur eftir því, en fjárhagur Reykjavíkur er í molum eftir áratug kratískrar óráðsíu og gæludýradekurs.
"Borgarlínan mun auka á umferðartafir, þar sem akreinum fyrir almenna umferð verður fækkað til þess að skapa sérrými fyrir hana, sérstaklega á umferðargötum, eins og Suðurlandsbraut og Laugavegi. Við þetta bætist, að flækjustig borgarlínuframkvæmda er slíkt, að seinka verður ýmsum brýnum vegabótum, t.d. mislægum gatnamótum á Reykjanesbraut við Bústaðaveg.
Borgaryfirvöld hafa dregið lappirnar í mörg ár, af því að meirihluti borgarstjórnar er á móti mislægum gatnamótum. Nú er komið á daginn, að jafnvel þótt borgaryfirvöld fallist á mislæg gatnamót þarna, verða þau ekki byggð fyrr en í fyrsta lagi samhliða framkvæmdum við Sæbrautarstokk, vegna þess að sérrými borgarlínu [á] milli Vogabyggðar og Mjóddar liggur um bæði mannvirkin. Árlegur kostnaður við umferðartafir á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er meiri en mrdISK 1,0. Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu fara vaxandi, og áætlað hefur verið, að þær kosti um 30 mrdISK/ár. Það er því ljóst, að borgarlínan veldur því, bæði beint og óbeint, að árlegur kostnaður við umferðartafir verður nokkrum mrdISK meiri en ella [vegna borgarlínu].
Þetta er fullkomin falleinkunn fyrir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í meirihluta borgarstjórnar undanfarinn áratug. Þar á bæ hefur verið ákveðið að setja á oddinn samgönguverkefni (borgarlínu), sem er þjóðhagslega óarðbært, og það er eina verkefnið á höfuðborgarsvæðinu, sem er þjóðhagslega óarðbært. Rekstrarkostnaður ofurstrætó og hefðbundins strætós verður líklega alls um 50 mrdISK/ár, og þessum útgjöldum hafa sveitarfélögin þar einfaldlega ekki efni á, allra sízt Reykjavík, sem rekin er á rándýrum lánum, enda vantreysta lánadrottnar greiðslugetu borgarinnar. Þess vegna betlar borgarstjóri í ríkissjóði um að taka verulegan þátt í rekstrarkostnaði, en það er alls ekki hlutverk ríkissjóðs að borga fyrir gjörsamlega misheppnað gæluverkefni Samfylkingar, sem örfáir vilja nota, enda úrelt frá fyrsta degi.
"Samtökin "Samgöngur fyrir alla" (SFA) hafa lagt fram tillögu um svokallaða "létta borgarlínu", sem er miklu einfaldari, ódýrari og hagkvæmari. Nýjar forgangsakreinar verða byggðar, eins og hingað til hefur verið gert, þ.e. hægra megin vegar. Það er bæði miklu ódýrara í framkvæmd en miðjusett sérrými og truflar umferð minna á framkvæmdatíma, sjá nánar vefsíðu SFA, www.samgongurfyriralla.com.
Auk þess munu aðreinar og fráreinar nýtast á við forgangsakreinar, og þeim má sleppa, þar sem umferð er það greið, að vagninn tefst ekki. Lýsandi dæmi um slíka lausn er eystri akbraut Hafnarfjarðarvegar [á] milli Arnarnesvegar og Digranesvegar. Á morgnana ekur Leið 1 niður rampinn frá Arnarnesvegi. Í stað þess að aka inn á aðalakreinar Hafnarfjarðarvegar ekur strætó inn á forgangsakrein, þangað til hann blandast umferð, sem ekur frá Hafnarfjarðarvegi að Digranesvegi. Leið 1 kemst þannig auðveldlega fram hjá löngum biðröðum á Hafnarfjarðarvegi.
Síðast en ekki sízt má nýta flestar af núverandi forgangsakreinum, sem eru á borgarlínuleiðum. Akreinar léttu borgarlínunnar yrðu því bæði ódýrari á lengdareiningu og styttri en dýru borgarlínunnar."
Þegar Þórarinn, samgönguverkfræðingur, tjáir sig um borgarlínutengd verkefni, er auðvelt að skynja, að viðvaningar og/eða fúskarar við hönnun umferðarmannvirkja móta stefnuna hjá Reykjavíkurborg og Betri samgöngum. Borgaryfirvöld hafa að illa athuguðu máli hoppað á útfærslu, sem er tröllvaxin m.v. íslenzkar þarfir og aðstæður. Hún verður því óhjákvæmilega myllusteinn um háls íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ríkisvaldið, sem borgin ætlast til að borgi brúsann, verður að stöðva þessa vitleysu þegar í stað, en þar þvælist innviðaráðherra fyrir, því að flokksmaður hans fékk borgarstjórastólinn fyrir stuðning við endaleysuna. Það er vissulega spilling á háu stigi, þar sem Samfylking og Framsókn eru á bólakafi hrossakaupanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2023 | 20:31
Ofurstrætó leysir ekki vanda umferðar
Borgarlína Dags B. Eggertssonar er umferðartæknilegt viðundur. Slík heimskupör geta aðeins þrifizt í pólitísku umhverfi. Aðeins fordómafullir pólitíkusar geta tekið alvarlega hugmynd um að staðsetja ofurstrætó fyrir miðju núverandi akbrauta, trufla þar með bílaumferðina gríðarlega á framkvæmdatímanum og minnka afkastagetu núverandi akbrauta bifreiða umtalsvert.
Það eru samt sáralitlar líkur á, að ofurstrætó (borgarlína) muni fækka bílum í umferðinni í slíkum mæli, að tafir í umferðinni minnki. Þetta hefur virtur og reyndur íslenzkur umferðarverkfræðingur sýnt fram á. Þar með er ver farið en heima setið. Valin hefur verið úrelt tossalausn, sem mun hægja enn á umferðinni vegna þess, að hún þrengir að bílunum, og þeim mun sáralítið fækka í umferðinni með tilkomu ofurstrætó.
Hugmyndin er afleit, og önnur lausn fyrir almenningssamgöngur hefur komið fram hjá sama umferðarverkfræðingi og áður var vitnað til. Hún er mun ódýrari í hönnun og framkvæmd, truflar umferðina mun minna á framkvæmdatíma og þrengir ekki að almennri bílaumferð, þegar hún er komin í gagnið. Þar er um að ræða viðbótar akrein hægra megin fyrir núverandi strætó og í sumum tilvikum fyrir almenna umferð einnig.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt, að endurskoða verði samning ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um mannvirkjagerð til að draga stórlega úr töfum og að auka öryggið. Við endurskoðunina þarf líka að geirnegla, hver á að reka strætó eða ofurstrætó. Sveitarfélögin vilja koma klafanum yfir á ríkissjóð, en það er ekki hlutverk hans að reka almenningssamgöngur. Nú munu framlög sveitarfélaganna til rekstrar vagna, sem oftast ganga tómir eða nærri því, nema um 8 mrdISK/ár. Ætli megi ekki margfalda þá upphæð með gríska fastanum pí(hlutfall ummáls og þvermáls hrings) til að fá út árlegan hallarekstur af ofurstrætó að taknu tilliti til árlegs kostnaðar af endurnýjun vagnanna ?
Við endurskoðunina þarf að koma verkfræðilegri hugsun að og slá út af borðinu hugaróra núverandi borgarstjóra um, að ofurstrætó taki við svo stórum hluta þeirra, sem með fjölskyldubílum fara nú, að umferðarteppur lagist. Þetta er eintóm óskhyggja, borin von.
Það er ekki nóg með, að verkfræðileg þekking á umferðarmálum fái ekki að njóta sín við tæknilegt fyrirkomulag samgöngusáttmálans, heldur virðist verkefnastjórnunarþekking, sem m.a. spannar stranga aðferðarfræði við gerð kostnaðaráætlana, vera algerlega hliðarsett. Kostnaðaráætlun "Betri samgangna" á mörgum verkþáttum virðist þurfa að margfalda með pí til að nálgast raunveruleikann. Það er mun stærri leiðréttingarstuðull en yfirleitt sést hjá Vegagerðinni. Hin tæknilega og fjárhagslega hlið "Betri samgangna" er í molum. Þetta risaverkefni er í skötulíki. Yfir það þarf að setja stjórn með fólki með raunhæfa þekkingu á sviði verkfræði og verkefnastjórnunar, en ekki einhverjar einskís nýtar silkihúfur úr pólitíkinni.
Fossvogsbrúin er kafli út af fyrir sig, þar sem sérvizkan hefur tröllriðið fávizku á sviði verkefnastjórnunar. Fyrst ákváðu arkitektar og pólitíkusar að hafa hana úr ryðfríu stáli, einvörðungu vegna útlitsins, og hún átti ekki að vera fyrir bílaumferð ? Hvers vegna í ósköpunum ekki ? Nú á hún að verða úr annars konar stáli vegna kostnaðar. Hvers vegna ekki að fá brúarverkfræðingum Vegagerðarinnar það verkefni að hanna almennilega brú fyrir alls konar samgöngutæki og gangandi (hlaupandi) og láta þá ráða efnisvali út frá heildarkostnaði (fjárfestingu og viðhaldi), en ekki smekk einhverra spjátrunga ?
Í forystugrein Morgunblaðsins var ekki skafið utan af hneykslanlegu káki fúskara, sem vilja troða ofurstrætó inn á höfuðborgarsvæðið, "af því bara", um leið og troðið verður illilega á þeim, sem kjósa fjölskyldubílinn til sinna ferða, og þegar upp verður staðið munu "allir" sitja í súpunni með handónýtt og rándýrt tæknilega mjög illa ígrundað samgöngukerfi. Forystugreinin bar fyrirsögnina:
"Ruglið um borgarlínu":
"Staðreyndin er sú, að hörðustu fylgismenn borgarlínunnar, þeir sem vinna að þéttingu byggðar í Reykjavík af nánast trúarlegri sannfæringu, plötuðu borgarlínuna inn á ríkisvaldið og aðra með því að setja þetta allt í einn pakka, en þvælast fyrir sjálfsögðum framkvæmdum að öðrum kosti. Með ólíkindum er, hvernig aðrir láta plata sig, og nú, þegar komið er í ljós, svo skýrt að enginn getur neitað því, að forsendur eru ekki fyrir því að halda áfram vegna vanmats í upphafi, er byrjað að tala um, að allan tímann hafi verið vitað, að áætlanirnar hafi verið óraunsæjar, sem aldrei var reyndar upplýst um, og að nú þurfi að taka fleiri ár í að framkvæma borgarlínuruglið, sem í því samhengi er kallað samgöngusáttmáli til að rugla umræðuna."
Hvernig "Betri samgöngur" standa að þarfagreiningu, forhönnun og gerð kostnaðaráætlana, vitnar um, að þar á bæ valda menn ekki því verkefni, að búa til samgönguinnviði fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar. Það er niðurnjörvað í kringum "þéttingu byggðar". Þar fer mikið púður í að búa til mjög óvistvæn lífsskilyrði, þar sem ekkert blasir við út um gluggann annað en veggurinn á næsta húsi.
Það er mjög ógáfulegt að leggja úrelta tækni til grundvallar samgöngukerfinu alla þessa öld jafnvel. Sjá menn ekki, að þróunin er í allt aðra átt en að ofurstrætó ? Nefna má rafknúnar skutlur, rafmagnsreiðhjól, deilibíla og sjálfkeyrandi bíla, svo að ekki séu nefndar litlar, rafknúnar þyrlur, sem eru í þróun. Mun viturlegra er að skipuleggja sveigjanlega innviði með nýjum akreinum, göngu- og hjólastígum, mislægum gatnamótum, fækkun ljósastýrðra gatnamóta, og undirgöngum fyrir gangandi og hjólandi í stað þess, að ein hræða á leið yfir umferðaræð valdi nú allt of langri töf, jafnvel um háannatímann.
"Til að bæta enn í ruglinginn er þetta svo sett í samhengi við samgöngumál almennt á landinu, rétt eins og sjálfsagðar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu hafi eitthvað með borgarlínu að gera, og að slíkum framfaramálum sé ógnað, sætti fólk sig ekki við borgarlínuruglið."
Téð borgarlína hefur verið hulin moðreyk allan tímann, enginn veit hvaðan hún kom, eða hvert hún fer. Ómerkilegur blekkingaleikur hefur einkennt þessa draumóra allan tímann, enda finnst engin alvarleg þarfagreining fyrir þessar hugmyndir. Kostnaðarhugmyndir eru í skötulíki, þannig að augljóslega ráða hér skýjaglópar og viðvaningar ferðinni án nokkurrar þekkingar á nútímalegri, kerfisbundinni verkefnastjórnun, sem bráðnauðsynleg er fyrir risaverkefni, ef ekki á að lenda með þau úti í fúafeni.
"Það á ekki að gera einfalda hluti flókna. Borgarlínan yrði allt of dýr, líklega mrdISK 200-300, þegar upp yrði staðið, og á þá eftir að reikna inn rekstrartapið, og hver á að greiða það ? Þegar við bætist, að borgarlínan leysir enga umferðarhnúta og gæti jafnvel aukið við þá með þrengingum gatna, er nauðsynlegt að taka afstöðu til hennar sérstaklega, hafna henni, en vinna að samgöngubótum."
Morgunblaðið á heiður skilinn fyrir að taka svo skýra og skelegga afstöðu gegn því tæknilega og fjárhagslega glapræði, sem borgarlínan (ofurstrætó) er. Stærsti gallinn við þá samgönguhugmynd er einmitt sá, sem leiðarahöfundurinn nefnir, að ofurstrætó mun ekki greiða úr núverandi og komandi umferðarhnútum, eins og skýjaglóparnir, forkólfar hans, fullyrða út í loftið. Þar með er tæknileg forsenda hennar brostin, og fjárhagshliðin er fúafen, sem viðkomandi sveitarfélög hafa ekki efni á og talsmaður ríkissjóðs, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur tilkynnt, að ekki komi til greina að velta yfir á hann, enda yrðu þau feiknaútgjöld einvörðungu afleiðing pólitískra mistaka jafnaðarmanna og tilhneigingar þeirra til að bruðla með skattfé almennings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2023 | 17:22
Engin spurn eftir brambolti Svandísar með sjávarútveginn
Það er gömul saga og ný, að stjórnlyndir stjórnmálamenn verja tíma sínum í gæluverkefni sín án tillits til gagnsemi vinnu þeirra fyrir þjóðarhag eða eftirspurn. Er fólkið við sjávarsíðuna, sem hefur beinna hagsmuna að gæta af velgengni sjávarútvegsins, að biðja um kák út í loftið af hálfu ríkisins, eins og matvælaráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, hefur nú boðað ? Hvað eiga svona óvönduð og algerlega óþörf vinnubrögð gagnvart atvinnugrein í bullandi samkeppni á erlendum mörkuðum að þýða ? Er til of mikils mælzt, að sósialistinn láti hreinlega sjávarútveginn í friði, eins og er meginboðskapur þess 40 manna hóps, sem ráðherrann fékk til að ráðleggja sér breytingar breytinganna vegna. Enn sýnir Svandís Svavarsdóttir af sér afleita stjórnsýslu, sem undirstrikar, að hún er ófær um að gegna ráðherrastörfum, svo að gagnist landi og lýð.
Þingmenn eru margir hverjir nægilega vel jarðtengdir og með "fulle fem" til að láta ekki bjóða sér svona "trakteringar", sem Svandís býður upp á. Um þetta vitnar frétt Ólafs E. Jóhannssonar í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023 undir fyrirsögninni:
"Uppfyllir markmið um sjálfbærar veiðar".
Hún hófst þannig:
""Ég lít þannig á, að allt pólitískt samráð sé eftir, og fyrir mitt leyti set ég alla fyrirvara við hugmyndir um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem ekki samrýmast því, sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna", segir Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í atvinnuveganefnd Alþingis.
Leitað var eftir viðbrögðum Teits Björns við tillögum Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, sem kynntar voru á þriðjudag um hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi, uppboð á 5,3 % aflaheimilda ríkisins, þ.e. byggðakvóta, sem og að stokka þann hluta kerfisins upp, o.fl."
Sjávarútvegurinn gengur vel, borgar hlutfallslega meira en aðrir atvinnuvegir í sameiginlegan sjóð landsmanna, er kjölfesta landsbyggðarinnar og stendur sig vel í sjálfbærnimálum, þótt nothæfa tækni vanti enn til að umbylta orkumálum hans.
Við þessar aðstæður er engin glóra í því, að fúskari í ríkisstjórn setji fram tillögur um þennan atvinnuveg einvörðungu til að fullnægja pólitískum duttlungum sínum. Þeir tímar eru löngu liðnir á Íslandi, að ráðherrar geti leikið sér að vild með þessa atvinnugrein, af því að hún var oft á heljarþröminni. Engin greining liggur að baki því, að þjóðhagslega hagkvæmt sé að hækka enn háa skattheimtu, og ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um breytingar á byggðakvóta og strandveiðum. Að venju er málatilbúnaður matvælaráðherra ömurlega óvandaður.
""Það fyrsta, sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins munum gera, er að bera saman þessar hugmyndir við það, sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist á kynningunni á þessum hugmyndum, að ýmislegt þar rúmist mjög illa innan marka sáttmálans", segir Teitur Björn.
Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um, að gerður verði samanburður á íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu og öðrum fiskveiðistjórnunarkerfum með það fyrir augum að meta samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs. Þetta er grundvallaratriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Þetta þurfum við sjálfstæðismenn að gaumgæfa mjög vel", segir Teitur Björn og bendir á, að í kynningu ráðherrans sé ýmislegt, sem passi ekki við niðurstöður og tillögur, sem fram komu hjá hinum 4 verkefnahópum, sem stóðu að Auðlindinni okkar og tillögur ráðherrans sagðar byggja á."
Ef allt er með felldu í þingflokki sjálfstæðismanna, mun hann blása fúski og blekkingum matvælaráðherra út af borðinu. Að baki hugmynda ráðherrans liggur engin heildstæð þekking á málefnum sjávarútvegsins né greiningarvinna um það, er verða mætti til að auka þjóðhagslega hagkvæmni sjávarútvegsins. Harðari skattheimta dregur óhjákvæmilega úr samkeppnishæfni hans, því að þá minnkar fjárhagslegt bolmagn hans til fjárfestinga, nýsköpunar og arðgreiðslna, en minni arðgreiðslugeta hans en annarra dregur úr áhuga fjárfesta á honum, og þar með mun fjármagnskostnaður hans vaxa, sem hvorki er fólki við sjávarsíðuna né opinberum sjóðum gagnlegt.
Ekkert sveitarfélag eða hagsmunaaðilar hafa óskað eftir uppboði á byggðakvóta, enda vandséð, að slíkur auðvaldsgjörningur megi gagnast byggðum landsins.
Hugmyndir matvælaráðherra eru ættaðar úr hliðarveruleika hennar, eru illa ígrundaðar og án nokkurs jarðsambands. Hún ætti að hætta að grauta í því, sem hún hefur engan skilning á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2023 | 10:33
Óbrúklegur ráðherra
Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, Alþingismanni, að vinstri grænir hafi heimtað, að hann yrði settur af sem dómsmálaráðherra. Það er með ólíkindum, því að frá myndun ríkisstjórnarinnar var ljóst, að hann mundi hafa sætaskipti við fyrsta þingmann Suðurlands, en sagan varpar ljósi á yfirganginn í þessu flokksskrípi, sem vonandi dettur út af Alþingi í næstu þingkosningum. Sagan minnir á lætin í vinstri grænum út af Sigríði Andersen, sem kunni til verka. Bæði unnu þau Sigríður og Jón landsmönnum gagn í ráðherraembætti, en hið sama verður ekki sagt um hina vinstri grænu Svandísi Svavarsdóttur, sem fremur hvert axarskaptið öðru verra í ráðherraembætti og á það fyllilega skilið að fá á sig vantrauststillögu á haustþinginu.
Nú hefur hún heimilað hvalveiðar f.o.m. 01.09.2023, og þá kom í ljós, að hvalveiðibann hennar yfir bezta tíma sumarsins var alger óþarfi, því að leyfishafinn var tilbúinn í vor með þær úrbætur, sem farið var fram á í reglugerð 31.08.2023. Þetta fullyrðir formaður verkalýðsfélags Akraness, sem er málið skylt vegna um 100 starfsmanna í hvalnum, sem eru skjólstæðingar hans. Hvað á svona fíflagangur ráðherra að þýða ?
Hann hefur valdið stórtjóni, bæði fyrirtækinu og starfsmönnum þess, sem ráðið höfðu sig á þessa vertíð, en þeir, sem vildu, voru reyndar á launaskrá fyrirtækisins í allt sumar. Fíflagangur ráðherrans var ólögmætur og hefur bakað ríkissjóði talsverða skaðabótaskyldu. Ráðherrann neitar að horfast í augu við mistök sín og er svo forstokkuð, að hún fullyrti á Egilsstöðum 31. ágúst 2023, að ráðstafanir hennar í þessu máli væru lögmætar, hún hefði viðhaft góða stjórnsýslu og verk hennar væru fagleg. Þetta er alger öfugmælavísa, og Umboðsmaður Alþingis mun væntanlega taka undir það. Alþingi getur ekki liðið aðra eins valdníðslu ráðherra og þessa, og þess vegna er nauðsynlegt, að þar verði lögð fram vantrauststillaga af þessu tilefni.
Nú hefur téð Svandís enn traðkað í salatinu og boðað tillögur um sjávarútveginn, sem eru ekki reistar á tillögu starfshópa, sem hún skipaði með ærnum tilkostnaði sér til ráðgjafar um málefni sjávarútvegs. Hún skrökvar því, að í fjárlagaáætlun hafi verið reiknað með hækkun skattheimtu ríkisins af sjávarútveginum. Þar var nefnilega vísað til ofangreindrar vinnu starfshópanna, en þeir lögðu enga breytingu til að þessu leyti. Þá er í skýrslu þeirra varað við s.k. uppboðsleið, en ráðherrann vill bjóða upp byggðakvótann. Það er bókstaflega ekki heil brú í þessum ráðherra.
Morgunblaðið gerði áform ráðherrans í sjávarútvegsmálum að umtalsefni í forystugrein 31. ágúst 2023 undir fyrirsögninni:
"Enginn sáttahugur í matvælaráðherra".
Það er eingöngu niðurrifshugur í þessum dæmalausa ráðherra, enda hundsaði hún aðalfyrirmælin í stjórnarsáttmálanum um sjávarútveginn, sem var að láta rannsaka þjóðhagslega hagkvæmni sjávarútvegsins og bera hana saman við önnur lönd. Ef hún hefði farið að þessum fyrirmælum, hefði nefnilega komið í ljós, að allir tilburðir til breytinga á meginkerfi sjávarútvegsins væru skemmdarverk gegn þjóðarhag. Ráðherrann velur þann kost að beita ómerkilegum öfundar- og nöldursmálflutningi sósíalista gegn grunnatvinnuvegi, sem hámarkar virði auðlindarinnar og er kjölfestan í þróttmiklu efnahagslífi víða með ströndum fram.
"Máli sínu til stuðnings benti Svandís á vantraust almennings til sjávarútvegsins, og að óskir væru uppi um "sanngjarnari" skiptingu afraksturs auðlindarinnar og kvaðst vilja, að "almenningur fengi sýnilegri hlutdeild í afkomu við nýtingu sjávarauðlindarinnar" án þess þó, að almenningur fengi sýnilega hlutdeild í þeirri hugsjón ráðherrans eða útfærslu hennar.
Um þetta getur ráðherrann borið, enda fáir, sem meira hafa alið á vantrausti í garð greinarinnar.
Óvíst er þó, að af breytingum Svandísar verði, því [að] erfitt er að ímynda sér, að víðtæk samstaða náist um tillögurnar í ríkisstjórnarflokkunum."
Það er óboðlegur málflutningur ráðherra, sem kasta verður út í hafsauga, að illt umtal þessa óhæfa ráðherra og fleira fólks, sem rær á gruggug mið, hafi náð að snúa almenningsálitinu á þeirra sveif. Þetta eru ekki nokkur einustu rök fyrir einhvers konar umbyltingu á sjávarútvegi eða hækkun á sérskattheimtu á hann, sem hvergi annars staðar fyrirfinnst. Þessi skattheimta var nýlega einfölduð og nemur nú 1/3 af hagnaði fyrirtækjanna, sem í öllu samhengi er mjög há sérskattheimta. Það er rangt hjá ráðherranum, að almenn óánægja sé með, að þessi skattheimta sé of lág og þarfnist hækkunar. Það er hins vegar dæmigert fyrir niðurrifsöfl á borð við sósíalista að ala á sundurþykkju og öfund til að réttlæta skemmdarverk á því, sem vel gengur í þjóðfélaginu. Ráðherrann hefur maðkað mjöl í pokahorninu og er algerlega ótrúverðugur í öllu, sem hún tekur sér fyrir hendur.
"Í sérfræðiskýrslu um "Auðlindina okkar" [ekki stjórnmálamannanna, heldur fólksins, sem sækir sjóinn og þeirra, sem fjárfest hafa í búnaði og öðru til að nýta þessa auðlind undir vísindalegri stjórn veiðanna - innsk. BJo] kom fátt á óvart. Niðurstöður voru helztar þær, að kvótakerfið hefði reynzt farsælt fyrir auðlindina, sjávarútveginn og þjóðarhag; að pólitískar sérlausnir til hliðar við það hefðu ekki gefið góða raun; og hugmyndir um innköllun og uppboð á aflaheimildum væru varhugaverðar.
Samt vill ráðherrann bæði hækka veiðigjald og gera tilraunir með uppboð aflaheimilda, þó [að] hvorugt sé lagt til í skýrslunni. Ekki kemur því á óvart, að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) efi, að Svandís hafi nokkurn tímann ætlað að hlíta þeim niðurstöðum skýrslunnar, sem ekki væru í samræmi við pólitískar skoðanir hennar. Það er í stíl við aðra stjórnsýslu hennar."
Þessi ráðherraómynd, sem montar sig af faglegum vinnubrögðum, þegar hún hlaup hrottalega á sig, eftir að hafa tekið mark á skýrslu, sem ekki var ætluð matvælaráðuneytinu, heldur Matvælastofnun, og frestað upphafi hvalveiða fram á haustið, hóaði saman fjölda manns til að ráðleggja henni uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þegar skýrsla þessa stóra hóps féll ekki í kramið hjá ráðherranum, dró hún fram gamalt góss úr hliðarveruleika vinstri pólitíkurinnar á Íslandi og þóttist geta smíðað úr því nýja stefnu fyrir sjávarútveginn. Hvað í ósköpunum á svona leikaraskapur ríkisvaldsins að þýða ? Ráðherrann hefur ekki hundsvit á því, sem hún ætlar að móta sjálf stefnu fyrir, og hún hefur þverskallazt við að leggja aðalatriði málsins til grundvallar, sem er þjóðhagslega hagkvæmnin.
Hver er að biðja þennan ráðherra um að skipta sér af sjávarútveginum ? Það eru engin fyrirmæli um það með þessum hætti í stjórnarsáttmálanum. Þessi ráðherranefna hagar sér eins og fíll í postulínsbúð. Burt með hana úr stjórnarráðinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2023 | 15:02
Flett ofan af vindorkusamningi
Vindorkufélög eru ekki aðeins farin að bera víurnar í bændur og aðra landeigendur, heldur þegar farnir að gera samninga við þá. Frosti Sigurjónsson, hagfræðingur, hefur flett ofan af einum þeirra án þess þó að nafngreina samningsaðila. Þessi samningur er illur forboði um það, sem koma skal við beizlun vindorkunnar hérlendis. Sú beizlun er allsendis ótímabær á Íslandi, á meðan landsmenn eiga enn nóg af óvirkjuðum kostum vatnsafls og jarðgufu.
Ástæður þess, að þessi afstaða er tekin, eru einkum 3:
1) Inngrip í íslenzka náttúru á orkueiningu (MWh) eru einni stærðargráðu meiri í ferkm talið en inngripin vegna hefðbundinna íslenzkra virkjana, og lýtin í náttúrunni, hávaðinn og mengunin eru óþolandi mikil fyrir flesta þá, sem nærri koma.
2) Framleiðslukostnaður rafmagns með vindi er hár og vindknúnir rafalar, sem eru tengdir íslenzka raforkukerfinu, munu vafalaust valda hækkun á rafmagnsverði til almennings, a.m.k. ef hér verður innleitt markaðskerfi fyrir raforku að forskrift ESB-löggjafar, sem hefur verið leidd í íslenzk lög vegna aðildar landsins að EES-samninginum frá 1994.
3) Raforkuvinnsla með vindorku er tilviljanakennd og slitrótt. Ef markaðurinn leyfir, verður vindorkuverum leyft að framleiða, eins og þau geta, en vatnshverflar reglaðir á móti, sem aftur mun draga úr nýtni vatnsorkuveranna, sem þar koma við sögu. Mun áreiðanlegra og þjóðhagslega hagkvæmara er að halda áfram að virkja jarðgufu og vatnsafl, en samleikur þeirra í raforkukerfinu hefur þróazt með jákvæðum hætti út frá áreiðanleika orkuafhendingar og kjörnýtni á frumorkunni.
Samkvæmt Frosta fær leigutakinn 15 ár til rannsókna, leyfisöflunar og undirbúnings framkvæmda á hluta af landi landeiganda og fær óskoraðan rétt til framlengingar um 5 ár. Landeigandinn fær fastar leigutekjur á meðan á rannsóknum og undirbúningi stendur. Ársleigan er 170 ISK/ha fyrstu 5 árin og tvöföldun eftir 5 ár og aftur eftir 10 ár. Þetta leigugjald er smánarlega lágt, þegar tekið er tillit til þess ágangs, sem vænta má af hendi leigutakans við slóðagerð og við að reisa vindorkuver í tilraunaskyni. Einnig má taka mið af væntum tekjum af viðkomandi landi með öðrum hætti en orkuvinnslu, t.d. með skógrækt og sölu koltvíildiskvóta með bindingu koltvíildis. Frosti tekur mið af Bandaríkjunum, þar sem ársleigugjaldið jafngildir 1200 ISK/ha að hans sögn. Það er of lágt m.v. tekjur, sem hafa má nú orðið af sölu losunarheimilda koltvíildis. 2000 ISK/ha virðist vera lágmarks leiguverð á ári, ef hægt er að koma skógrækt við á landinu.
Þá er komið að þóknuninni fyrir að fá að umbylta landinu fyrir vegi, skurði og undirstöður burðarsúlna vindknúnu rafalanna. Leigugjaldið ætti að standa áfram, árlega verðbættar 2000 ISK/ha, og að auki ætti að koma framleiðslugjald, sem þarf að vera 3 % af söluandvirði raforkunnar, til að geta keppt við annars konar not af landinu, t.d. skógrækt til að binda koltvíildi og selja það á markaði.
Frosti skrifar í téðri Bændablaðsgrein, "að landeigandi fái 1,5 % af brúttóverði seldrar orku, sem að 10 árum liðnum hækkar í 2,0 %". Hann ber þetta saman við framleiðslugjald af vindorkuverum til landeigenda á Bretlandi, sem sé 5 %-6 % af andvirði orkusölunnar. Hér verður að hafa í huga, að jarðaverð er mun hærra á Bretlandi en á Íslandi og að í sumum tilvikum er um ágætis landbúnaðarland að ræða, sem fer undir vindorkuver á Bretlandi.
Eftir langan samningsgildistíma, 15-20 ár, fyrir undirbúning að framleiðslu tekur við 60 ára samningstími fyrir raforkuframleiðsluna. Í ljósi þess, að tæknilegur afskriftatími mannvirkjanna er um 25 ár, nema undirstaðanna, sem geta endst í öld, og að fjárhagslegur afskriftatími er enn skemmri, er samningstíminn 60 ár óeðlilega langur. Hann ætti að vera 20 ár með gagnkvæmum endurskoðunarákvæðum að 15 árum liðnum. Leigutakinn ætlar sér greinilega að endurnýja búnaðinn og halda áfram rekstri. Þá eru komnar nýjar rekstrarforsendur, og þar af leiðandi þarf endurskoðunarákvæði í samninginn, sem opni á nýjan samning að 15 árum liðnum frá upphafi rekstrartímabils, og verði nýr samningur að hafa náðst áður en hinn rennur út eftir 20 ára rekstrartíma.
Þá þarf að semja um geymslufé til að standa straum af hreinsun lands við lok rekstrartíma og að koma landinu í sem upprunalegast horf í samráði við landeiganda, eftir að rekstrartíma lýkur. Í sjóðinn gætu runnið um 2 % af árlegum sölutekjum vindorkuversins. Sjóður þessi verður að vera óaðfararhæfur (við gjaldþrot) og gæti verið í vörzlu viðkomandi sveitarfélags.
Grundvallaratriði fyrir landeigendur, sem vilja fórna landi sínu undir vindorkuver, er að gera sér grein fyrir verðmætunum, og hvaða kjör standa "vindorkuspekúlöntum" til boða erlendis. Yfirvöld verða að taka tillit til hagsmuna allra annarra, sem málið snertir, við útgáfu framkvæmdaleyfis og virkjunarleyfis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2023 | 11:24
Binda verður enda á kukl og fúsk matvælaráðherra
Matvælaráðherra er í pólitískri herferð gegn núverandi markaðskerfi í sjávarútvegi og ætlar að festa klær ríkisvaldsins á þessum grunnatvinnuvegi landsins, þótt enginn skilningur eða þekking sé fyrir hendi hjá hinu opinbera um rekstur og eignarhald útgerða. Ráðherrann beitir nú kafbátahernaði til að draga dul á ólögmætar aðferðir sínar við leit að upplýsingum um "stjórnunar- og eignatengsl" í sjávarútvegi, sem hún ætlar að nota til að koma höggi á atvinnugreinina. Sannleikurinn er sá, að ráðuneytið beitir fyrir sig Samkeppniseftirlitinu (SKE) með sínum víðtæku rannsóknarheimildum í nafni varðstöðu um samkeppni með ólögmætum hætti, og forstjóri SKE hefur látið þennan ósvífna og óvandaða ráðherra draga sig ofan í svað óheilinda og blekkinga. Fyrir þessar sakir eru bæði brottræk, og hefur áður farið fé betra.
Andrea Sigurðardóttir á Morgunblaðinu hefur gert þessu máli rækileg skil í Morgunblaðinu í frétt í blaðinu 19. ágúst 2023 undir fyrirsögninni, "Frumkvæðið var ráðuneytisins", og í Baksviðsfrétt 22. ágúst 2023 undir fyrirsögninni, "Aðilar að samþykki án samþykkis". Ritstjórar Morgunblaðsins hafa síðan lagt út af þessari vönduðu vinnu blaðamannsins og dregið sínar ályktanir í einarðri og vel rökstuddri forystugrein 25. ágúst 2023, þar sem ráðherrann og handbendi hennar, forstjóri SKE, eru fundin sek um svo alvarlegan trúnaðarbrest gagnvart Alþingi og fólkinu í landinu, að hollast er fyrir þau að taka pokann sinn. Siðferðisvitund hvorugs þeirra er þó með þeim hætti, að þau muni nokkru sinni taka það upp hjá sjálfum sér. Nú er spurning, hvort sjálfhreinsigeta stjórnkerfisins er næg til að losa sig við þessi skemmdu epli, eða er valdhrokinn slíkur og spillt hugarfar slíkt, að stjórnmálamanni og embættismanni leyfist að blekkja þing og þjóð með samanteknum ráðum ? Það væri einsdæmi í hinum þróaða, vestræna heimi.
Téð forystugrein bar skuggalega fyrirsögn, enda er málið ískyggilegt:
"Undirferli í æðstu stjórnsýslu".
Þar gat þetta að líta:
"Það er grafalvarlegt mál, að sjálfstæð eftirlitsstofnun hins opinbera fari svo gersamlega út af sporinu, en það er þó ekki síður undirferlið - um stórt og smátt, gagnvart bæði Alþingi og almenningi - sem mestar áhyggjur vekur.
Markmiðið með athuguninni kemur skýrt fram í 1. grein samningsins: "Á grunni stjórnarsáttmála og annarra áherzlna matvælaráðherra vinnur matvælaráðuneytið nú að heildarstefnumótun í sjávarútvegi undir yfirskriftinni Auðlindin okkar. Liður í því starfi er kortlagning stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi."
Þessi stefnumótunarrembingur matvælaráðherra um málefni sjávarútvegsins er algerlega óþarfur og beinlínis hlálegur, því að íslenzkur sjávarútvegur gengur ágætlega og þarf enga aðstoð ríkisvaldsins við að segja sér stöðuna og hvert stefna skal, því að hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum ríkir algert þekkingarleysi á þörfum og viðfangsefnum sjávarútvegsins. Stefnumörkun sósíalistans Svandísar Svarsdóttur fyrir sjávarútveg verður óskapnaður og afturhvarf til fortíðar, þegar pólitískir kjánar höfðu ráð sjávarútvegsins í hendi sér. Bezta hugsanlega útkoman úr brölti Svandísar verður gjörsamlega gagnslaust plagg, montplagg í anda mótaðrar heilbrigðisstefnu ráðherrans. Þessi stefnumótunarárátta ráðherrans Svandísar er afleiðing sjúklegrar og fáránlegrar forræðishyggju hennar. Þetta sama fyrirbrigði með áætlanagerð og framleiðslufyrirskipanir ráðuneytanna gekk af Ráðstjórnarríkjunum dauðum. Engum heilvita manni dettur lengur í hug, að nokkurt minnsta vit geti lengur verið í því að láta ráðuneyti segja atvinnulífinu fyrir verkum. Svandís Svavarsdóttir er gjörsamlega óhæfur stjórnandi og stefnumótandi, nema e.t.v. fyrir sitt eigið heimili.
"Í 2. gr. samningsins segir svo, að með þessum fjárhagslega fyrirvara "hefur Samkeppniseftirlitið í samstarfi við Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands ákveðið að ráðast í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi."
Í kynningu samningsins tveimur vikum síðar var skautað framhjá því og sagt, að stefnt yrði að samstarfi í þá veru. Eftirgrennslan Morgunblaðsins og upplýsingabeiðnir hafa leitt í ljós, að samningurinn var fals að þessu leyti, umræddar stofnanir áttu hvorki frumkvæði að né voru þær aðilar að samningnum. Seðlabankinn hefur svarið það allt af sér, Skatturinn hefur enn ekki svarað fyrirspurnum rúmum mánuði síðar, en Fiskistofa vísar á ráðuneytið um svör við fyrirspurnum og hefur ekki orðið við beiðni blaðsins um gögn málsins."
Í seinni tíma sögu lýðveldisins eru ekki dæmi um annað eins svínarí í æðstu stjórnsýslu landsins, þar sem ráðherra og forstjóri ríkisstofnunar leggja á ráðin um fádæma óheilindi og beinar lygar. Þessa starfsemi verður að stöðva. Hún er grútmorkin og ekki til nokkurs nýt. Það verður að refsa forstjóra SKE með því að leysa hann frá störfum, því að hann er uppvís að þýlyndi við ofstækisfullan ráðherra og að ósannindum út á við, og verði ráðherra ekki leystur frá störfum líka, verður a.m.k. að stöðva það, að hún beiti stofnunum ríkisins fyrir sinn pólitíska vagn með fjárframlögum frá ráðuneytinu. Þetta er misbeiting á pólitísku valdi.
"Vinnugögn og samskipti benda öll til þess, að frumkvæðið hafi legið hjá matvælaráðherra. Það er ekki fyrr en á seinni stigum, sem farið er að ræða um frumkvæði SKE, en um það segir Páll Gunnar, að með því sé verið að verja "trúverðugleika ráðuneytisins", svo [að] yfirvarpið verður öllum ljóst.
Eru þá alls órædd brögðin varðandi fjárheimildirnar, þar sem matvælaráðherra og Samkeppniseftirlit sniðganga fjárveitingarvald Alþingis.
Vélar Svandísar koma ekki alls kostar á óvart; hún hefur áður orðið ber að ólögmætri og vondri stjórnsýslu. Það sást nýverið af fyrirvaralausu hvalveiðibanni hennar, hæstaréttardómi yfir henni sem umhverfisráðherra árið 2011, og aftur fékk hún dóm, þá sem heilbrigðisráðherra, árið 2021 fyrir frelsisskerðingar, brot á meðalhófi, stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum."
Það liggur skítaslóðin eftir Svandísi Svavarsdóttur í ráðherrastóli. Það sýnir óstýrilæti og dómgreindarleysi hennar að geta alls ekki haldið sig innan valdmarka neins þeirra ráðherraembætta, sem hún hefur gegnt. Nú er nóg komið. Eðlilegt væri, að vantraust kæmi fram á hana á Alþingi, úr því að formaður vinstri-grænna er ófær um að losa ríkisstjórnina við hana. Sýnir það vel morknun og siðleysi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að gera ekki meiri kröfur til ráðherra sinna en raun ber vitni um. Vonandi eru kjósendur VG ekki sömu gerðar að samþykkja hvaða óhæfu sem er í stjórnsýslunni og sjá, að VG á ekkert erindi við nútímann.
Morgunblaðið hefur rökstudda afstöðu í þessu máli:
"Ráðherra, sem segir þinginu ósatt, verður að láta af embætti. Embættismaður, sem verður uppvís að rangfærslum, hlýtur að hugleiða stöðu sína alvarlega. Ella verður einhver annar að gera það fyrir hann."
SKE væri nær að vinna að hagsmunum íslenzkra neytenda en að eltast við atvinnugrein, sem selur 95 % af afurðum sínum á erlendum mörkuðum í samkeppni við risafyrirtæki á íslenzkan mælikvarða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2023 | 18:13
Sjálfhelda orkumálanna
Það er búið að afvegaleiða umræðuna um hefðbundna íslenzka virkjanakosti með glópagullsrausi um vindknúna smárafala á himinháum súlum. Nýr orkumálastjóri hefur lagt ruglandanum lið með innantómu sífri um nauðsyn vandvirkni við útgáfu virkjanaleyfa til vatnsaflsvirkjana. Undir hennar stjórn gerðist það þó í fyrsta skipti í sögu Orkustofnunar, að virkjunarleyfi hennar var fellt úr gildi (Hvammsvirkjun) vegna ófullnægjandi umfjöllunar stofnunarinnar um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi. Samt tók stofnunin sér lengri tíma en nokkru sinni áður (18 mánuði) til að gefa út þetta leyfi og braut þannig setta tímafresti í lögum. Samt klifar þessi Orkumálastjóri á nauðsyn vandvirkni. Allt leiðir þetta til falleinkunnar þessa Orkumálastjóra, enda vita þeir, sem vita vilja, að innan Orkumálastofnunar er nú hlutfallslega takmörkuð fagleg geta til að rýna umsókn um verkefni á borð við Hvammsvirkjun í samnburði við viðkomandi verkfræðistofur landsins og Landsvirkjun sjálfa. Það er þess vegna borin von, að rýni Orkustofnunar geti bætt einhverju verðmætu við hönnunaráformin. Ef pulsusjóðari fer að rýna verk Michelin-kokks, er vart mikils að vænta, eða hvað ?
Ábyrgir aðilar samfélagsins vita, hvernig í pottinn er búið í orkumálum landsins og tengsl þeirrar ömurlegu stöðu við montplaggið með háleita nafninu: "Loftslagsstefna Íslands". Sem betur fer skiptir engu máli fyrir loftslag jarðarinnar, hvernig mál skipast með þessa loftslagsstefnu, en það skiptir mjög miklu máli fyrir efnahag landsins, hvernig gengur að uppfylla raforkuþörf þjóðarinnar á hverjum tíma. Í þeim málum er mikið raupað, en ekkert gert, sem sköpum skiptir við að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, forðum.
Morgunblaðið hefur eðlilega miklar áhyggjur af því, hvernig stjórnmálamönnum hefur tekizt að leiða þessi mál í slíkt öngstræti, að ekki sér til lands. Löggjöfin kemur að utan, og hentar einfaldlega ekki aðstæðum hér. Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng. Forystugrein Morgunblaðsins 12. ágúst 2023 bar einfalt og sláandi heiti:
"Orkuleysi".
Hún hófst þannig:
"Orkumál hafa lengst af verið í góðu horfi hér á landi, eftir að menn báru gæfu til að hefja miklar virkjanir, jafnt vatnsaflsvirkjanir sem jarðhitavirkjanir. Það var hvort tveggja mikið framfaraskref, og þurfti bæði framsýni og áræði til að ráðast í ýmis stórvirki á þessum sviðum, einkum í upphafi, þegar þetta var algerlega nýtt hér á landi, þekking afar takmörkuð og fjármagn af skornum skammti.
Með dugnaði hafðist þetta, jarðhitinn var nýttur til húshitunar og síðar raforkuframleiðslu, og vatnsaflið var virkjað til raforkuframleiðslu og orkan flutt til stóriðjuvera, smærri fyrirtækja og heimila. Þessu fylgdu stórkostlegar breytingar, hvort sem litið er til heimila landsins, atvinnulífs eða efnahags í heild. Enginn getur efazt um, að hefði ekki verið ráðizt í þær virkjanir, sem gert hefur verið, væru lífsgæði hér allt önnur og lakari en við þekkjum."
Þeir, sem séð hafa ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkinn lagði yfir bæinn, átta sig vel á, hvað höfundur forystugreinarinnar á við. Að setja núlifandi menn inn í aldargamalt umhverfi er alltaf hæpið, en menn geta ímyndað sér, hvernig gengið hefði að losna við kol og olíu úr eldstónni, til ljósmetis og upphitunar, ef ládeyður núverandi ríkisstjórnar væru við völd, og allt það óskilvirka og að mörgu leyti óþarfa skriffinnskubákn, sem nú er við lýði, hefði þá haft tækifæri til að kasta skít í tannhjólin.
Á öllum tímum hafa nefnilega úrtöluraddir verið við lýði. Munurinn er bara sá, að þá var ríkisbáknið minna og bremsustofnanir ekki fyrir hendi. Þegar við nú horfum á framkvæmdir fyrri tíma, hvort sem er í Elliðaánum, Soginu, á Þjórsár/Tungnaársvæðinu eða annars staðar á landinu, verður ekki annað sagt en frábærlega hafi til tekizt án Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, úrskurðarnefnda eða Orkustofnunar í sinni núverandi mynd. Þingmönnum hefur tekizt, sumpart með tilstyrk Brüsselvaldsins eftir 1993, að flækja lagaumhverfi orkumálanna meira en góðu hófi gegnir, þannig að þar gerist nú lítið yfir 10 MW, nema endurbætur og stækkanir eldri virkjana, sem eru góðra gjalda verðar til að bæta úr aflskorti (toppafl).
"Hvað svo sem segja má um þau markmið [um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - innsk. BJo], raunsæi þeirra eða, hvernig þátttöku Íslands í þeim er háttað, þrátt fyrir að hér sé allt með allra hreinasta móti, þá er undarlegt, að á sama tíma og ofuráherzla er lögð á þessi markmið, virðist varla nokkur vegur að koma nýjum íslenzkum virkjunum af stað."
Þetta er ein mesta þversögn íslenzkra stjórnmála um þessar mundir og stafar af óheilindum stjórnmálamanna, sem sífellt eru með umhverfisvernd og "hamfarahlýnun" á vörunum. Þau meina ljóslega ekkert með því tali, enda skiptir miklu meira máli fyrir veðurfar og loftslag á jörðunni, hversu mikil jarðeldavirkni er hér en hvað þær hræður, sem á landinu búa, taka sér fyrir hendur. Öll er loftslagsumræðan blásin út yfir öll eðlileg mörk og koltvíildisstyrk andrúmslofts kennt um skógarelda, flóð og allt þar á milli, þótt um atburð með 50 ára tíðni sé að ræða, eldar hafi verið kveiktir og byggð þanizt út.
Loftslagspostularnir trúa greinilega ekki tuggunni úr sjálfum sér, því að afturhaldssjónarmið um að koma í veg fyrir verulega aukningu raforkuvinnslu ræður ferðinni. Þeim er alveg sama, þótt sveimhugar séu búnir að skuldbinda landsmenn til að borga nokkra mrdISK 2031 til ESB, ef ekki tekst að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með innlendu rafmagni. Þetta ástand mála er geggjun og getur ekki viðgengizt lengur, en mun gera það, á meðan fígúran Katrín Jakobsdóttir situr í forsætisráðuneytinu.
"Ýmsir hafa varað við því um nokkurra ára skeið, að í óefni stefni [sé þegar komið - innsk. BJo] að óbreyttu, og hafa þær áhyggjur farið vaxandi. Þær áhyggjur snúast ekki aðeins um stórnotendur, heldur [aðallega] um heimilin í landinu, en hætta er orðin á, að þar komi til skerðingar á næstunni, sem er með miklum ólíkindum og sýnir, hve óhönduglega hefur verið á þessum málið haldið á undanförnum árum."
Þetta er hverju orði sannara og er falleinkunn fyrir stjórnmálin og viðkomandi stjórnsýslu. Þegar heimildir orkufyrirtækjanna til skerðinga stóriðjunnar, en á hverju 5 ára tímabili er yfirleitt aðeins heimilað að skerða 5 % umsaminnar orku, þótt meira megi skerða innan hvers árs, þá kemur að fyrirtækjum án langtímasamninga við sinn orkubirgi og að heimilunum að gefa eftir nokkuð af sínu hefðbundna afli til að forða kerfishruni. Ástandið fer að minna á skelfilegt ástand rafmagnsmála í Suður-Afríku og leiðir auðvitað beint af hreinni vanrækslu við að sinna grunnþörf þjóðfélagsins.
"Og að nokkru leyti má segja, að athugasemdir Samtaka iðnaðarins hafi fengizt staðfestar í samtali Morgunblaðsins við orkumálastjóra í blaðinu í gær [11.08.2023], þar sem fram kom, að orkumálastjóri hefur ekki miklar áhyggjur af töfum við leyfisveitingar, enda sé mest um vert, að leyfisveitingin sé vönduð.
Um það er varla ágreiningur, en hitt er verra, að orkumálastjóri virðist ekki telja ástæðu til að liðka til í stjórnkerfinu vegna orkuframleiðslu og vísar í því sambandi til vandvirkninnar."
Þessi Orkumálastjóri er hluti af orkuvanda landsmanna, eins og sumir óttuðust við skipun hennar. Hana sjálfa skortir alla þekkingu til að leggja gæðamat á fyrirhugaða verkfræðilega tilhögun virkjunar, og það er "tragíkómískt" að sjá og heyra hana klifa á nauðsyn vandvirkni við leyfisveitingu. Það er sorglegt, því að 18 mánaða meðgöngutími Orkustofnunar fyrir leyfisveitingu fyrir fyrstu virkjun Neðri-Þjórsár verður þjóðinni óhemju dýrkeyptur vagna yfirvofandi orku- og aflskorts. Það er hlægilegt, því að rýni Orkustofnunar á virkjunargögnum Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun hefur engar forsendur til að bæta nokkru vitrænu við hönnun virkjunarinnar; ekki frekar en pulsusjóðari getur bætt einhverju vitrænu við matseld Michelin-kokks.
Grein Orkumálastjóra í Morgunblaðinu 18.08.2023 er eins og fréttayfirlit um orkumálin, sem sæmilegur blaðamaður hefði getað skrifað. Það vantar djúpa greiningu á kreppu íslenzkra orkumála, eins og búazt hefði mátt við frá öllum gengnum Orkumálastjórum landsins. Á grundvelli greiningarinnar hefði síðan mátt vænta traustra ráðlegginga til þjóðarinnar og stjórnvalda til að lágmarka tjónið, en hið eina, sem kom, var yfirborðslegt hjal um nauðsyn bættrar orkunýtni. Þessi aðferðarfræði getur enga leiðsögn veitt.
"Með þeim rökum [um nauðsyn vandvirkni - innsk. BJo] getur ríkið jafnan tekið sér drjúgan tíma í afgreiðslu mála, því að flest það, sem fengizt er við, og ekki aðeins á sviði orkumála, krefst vandvirkni.
En þegar vandvirknin er orðin slík, að mál velkjast árum saman án niðurstöðu eða verður til þess, að ekkert er virkjað og orkuskortur er yfirvofandi innan skamms, þá hlýtur að þurfa að grípa til aðgerða. Og þá þurfa t.d. talsmennirnir að setjast í ráðherrastólana og gera þær breytingar, sem duga. Annars hafa þeir ekkert við stólana að gera."
Þetta óskilgreinda tal Orkumálastjóra um vandvirkni sem réttlætingu á mjög seinni afgreiðslu mikilvægustu mála Orkustofnunar, er hreinn fyrirsláttur, eins og bezt sést á því, að síðbúið virkjunarleyfi stofnunarinnar í Neðri-Þjórsá var nokkru síðar fellt úr gildi vegna annmarka á yfirferðinni, og hefur slíkt aldrei áður gerzt í sögu Orkustofnunar.
Orkumálastjóri, sem skilur ekki þá bráðu nauðsyn, sem er á að fá öflugar virkjanir sem allra fyrst í notkun, er verri en enginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2023 | 10:05
Sanngirnismál Vestfirðinga
Það má hiklaust halda því fram, að sanngjarnt sé, að allir landshlutar búi við lágmarks afhendingaröryggi raforku, en það er nægilega trygg afhending raforku, sem kemur í veg fyrir kostnaðarsamt straumleysi, sem sé þá hið mesta einu sinni óvænt á 5 ára fresti og vari í minna en einn stundarfjórðung. Á Vestfjörðum eru straumleysin árlegur viðburður og vara einni stærðargráðu lengur en hér er miðað við. Það er ekki bara algerlega óviðunandi, heldur til vanza fyrir samfélag, sem framleiðir meiri raforku á mann en annars staðar þekkist.
Morgunblaðið hefur lagt Vestfirðingum gott lið í sanngirnisbaráttu þeirra fyrir leyfi til að virkja og fyrir öflugra og öruggara flutningskerfi raforku með jarðstrengjavæðingu á vegum Landsnets. Fjölmargar greinar hafa birzt í blaðinu Vestfirðingum til stuðnings í réttlætisbaráttu þeirra, og má benda á grein Halldórs Halldórssonar 04.08.2023. Þann 2. ágúst 2023 birtist Sviðsljósgrein í blaðinu eftir blaðamann þess, Klöru Ósk Kristinsdóttur, undir fyrirsögninni:
"Vestfirðinga skortir örugga orkuöflun".
Hún hófst þannig:
"Varaafl á Vestfjörðum nægir ekki til þess að bregðast við aukinni orkunotkun með nýjum atvinnutækifærum, segir Elías Jónatansson, Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, í samtali við Morgunblaðið.
Viðvarandi orkuskortur hefur verið á Vestfjörðum undanfarin ár og því nauðsynlegt að bregðast við í takti við uppbyggingu á svæðinu. Orkunotkun byggist að hálfu á orku, sem flutt er eftir Vesturlínu inn á Vestfirði, og ef línan verður straumlaus, er brugðist við með því að gangsetja varaaflsstöðvar.
Þær varaaflsstöðvar, sem nú eru fyrir hendi, duga til þess að mæta að fullu straumleysi eða aflskorti í raforkukerfinu m.v. núverandi notkun, en Elías segir það þó annað mál, að notkunin eykst á svæðinu."
Vestfirðir eru eitt af vaxtarsvæðum landsins um þessar mundir, og er allur þessi vöxtur í útflutningsgreinum, aðallega fiskeldi og ferðalögum útlendinga þangað ásamt vinnslu sáragræðandi efna úr þorskroði. Orðspor allrar þessarar starfsemi er reist á hugtakinu sjálfbærni, þ.á.m. við raforkuvinnslu. Við þessar aðstæður grefur staða raforkumálanna undan orðspori þeirrar vöru, sem Vestfirðingar markaðssetja á heimsmarkaðinum undir formerkjum sjálfbærni. Vestfirðir eru á einum 132 kV geisla út frá 132 kV Byggðalínu, sem eftir nokkur ár verður vonandi 220 kV hringhluti, lokað með 132 kV á SA-landi, en það yrði of í lagt að leggja 220 kV línu til Vestfjarða, og viðbótar 132 kV lína þangað verður að lúta í lægra haldi fyrir vatnsaflsvirkjunum á Vestfjörðum frá hagkvæmnisjónarmiðum og sjónarmiðum um afhendingaröryggi raforku.
Það eru ágætis virkjanakostir fyrir hendi á Vestfjörðum, sem geta útrýmt orðsporsáhættu Vestfirðinga, þótt núverandi Vesturlína sé í lamasessi um langan tíma. Það mun létta á yfirlestuðu landskerfinu, ef ekki verður að jafnaði þörf á raforku til Vestfjarða um Vesturlínu. Ahendingaröryggi rafmagns er hið langlakasta á Vestfjörðum m.v. aðra landshluta, og vegna ofangreinds vaxtar er brýn þörf á úrbótum. Margt hefur vitlausara og óþarfara verið gert á Alþingi en að setja sérlög um um að jafna aðstöðu Vestfirðinga að þessu leyti og að draga um leið sérstaklega mikið úr olíunotkun þeirra. Tvær flugur í einu höggi er ekki slæmt.
"Með það að markmiði að tryggja orkuöryggi á Vestfjörðum hefur Orkubúið kallað eftir því, að umhverfisráðherra endurskoði friðlýsingarskilmála í Vatnsdal, til þess að hægt sé að fara í orkunýtingu þar. Útilokað er að segja til um tímarammann á því verkefni, en "ef allt gengur vel, virkjunin kemst inn í rammann og fær eðlilega umfjöllun, þá getum við jafnvel séð virkjun rísa fyrir 2030", segir Elías.
"Með aukinni orkunotkun, nýjum atvinnutækifærum og fólksfjölgun fyrir árið 2030 er ekki hægt að tryggja nægt varaafl." Því getur komið til þess, að byggja þurfi upp varaafl á svæðinu til þess að halda uppi sama þjónustustustigi og við höfum í dag, þ.e.a.s. ef aflið fæst ekki með virkjunum eða með styrkingu landlínunnar. Elías segir það þó ekki ásættanlegt lengur að tryggja orkuöryggi með því að reisa dísilstöðvar "fyrir utan, að það er þvert á stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum"."
Orkubú Vestfjarða hefur nú gert skilmerkilega grein fyrir stöðu orkumála á veitusvæði sínu og fært greinargóð rök fyrir þeim leiðum, sem heimamenn telja vænlegast að fara til að snúa orkumálum sínum til betri vegar, sem er brýnt. Nú er komið kjörið tækifæri fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að sýna, hvers hann er megnugur til að greiða götu Vestfirðingu á málefnasviðum sínum sem ráðherra. Ef ekkert vitrænt kemur fljótlega frá honum um þessi efni, er vandséð, til hvers hann situr í ríkisstjórn.
Friðlýsingarskilmálar eru ekki endanleg ákvörðun ríkisvaldsins, heldur breytingum undirorpnir, einfaldlega af því, að allt er í heiminum hverfult, og tæknin við hönnun og framkvæmdir virkjana og flutningsmannvirkja frá þeim, tekur verulegum framförum í tímans rás. Þá eiga viðhorf heimamanna á hverjum tíma að vega verulega þungt við ákvarðanatöku, ef raunverulegra lýðræðissjónarmiða er gætt.
Ef það er svo, að afturhaldið í landinu, sem á sína fulltrúa við ríkisstjórnarborðið um þessar mundir, ætlar að leggjast þversum gegn þessu, þá á það að verða kornið, sem fyllir mælinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2023 | 09:31
Torskiljanlegir stjórnarhættir matvælaráðherra
Nú standa öll spjót á matvælaráðherra. Það er sama, hvar hún drepur niður fæti sem ráðherra. Alls staðar er sviðin jörð. Ekkert grær í fótsporum hennar. Þetta verður ekki útskýrt með öðrum hætti en þeim, að þarna fari stækur kommúnisti sínu fram. Kommúnisti ber enga virðingu fyrir lögum í lýðræðisþjóðfélagi. Í huga stæks kommúnista verða lögin að víkja fyrir pólitík flokksins. Einmitt þannig vinnur Svandís Svavarsdóttir. Það ber hins vegar vott um dómgreindarskort á háu stigi að halda, að hún geti vaðið uppi sem ráðherra með lögbrotum og frámunalega óvandaðri stjórnsýslu. Allt ber að sama brunni. Manneskjan er óhæf til að gegna ráðherraembætti. Það verður að gera meiri kröfur um vitræna stjórnsýslu og forystu á einu sviði framkvæmdavaldsins en téð Svandís hefur burði til að sýna. Þessi ráðherra verður að taka pokann sinn.
Svandís Svavarsdóttir sætir nú athugun Umba, Umboðsmanns Alþingis, sem hefur sent henni spurningar, sem eru áþekkar spurningum Teits Björns Einarssonar, Alþingismanns, sem hefur með réttu verið afar gagnrýninn á stjórnarathafnir þessa alræmda ráðherra gagnvart fyrirtækinu Hval hf og starfsmönnum þess.
Morgunblaðið greindi frá nokkrum spurningum Umba í frétt 26.07.2023 undir fyrirsögninni:
"Umboðsmaður vill svör um bann".
Svörin munu áreiðanlega bögglast fyrir þessum óhæfa ráðherra, því að Teitur Björn, Alþingismaður, hefur enn ekki fengið nein efnisleg svör við sínum spurningum. Hvað á að láta þennan ráðherra komast lengi upp með að þumbast við ? Hún hefur áður af öðru tilefni bara yppt öxlum og sagzt vera í pólitík. Þetta er bara alls ekki boðlegt í lýðræðisríki, þar sem ráðherra er með öllu óheimilt að taka lögin sínar hendur, enda gilda valdmörk. Fyrir borgarana er óviðunandi að búa við þessi ósköp. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur enga burði til að losa sig við óværuna. Þess vegna hlýtur að koma til uppgjörs á stjórnarheimilinu.
"Umboðsmaður óskar svara við ýmsum spurningum varðandi stjórnsýslu ráðherra. Þ.á.m., að reglugerðin sé byggð á sjónarmiðum um velferð dýra með það fyrir augum að afla gagna um, hvort ákvæði laga um velferð þeirra og hvalveiðar séu uppfyllt við veiðar á langreyði með þeim aðferðum, sem beitt er við veiðarnar. Segir, að um velferð dýra gildi sérstök lög og samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um veiðiaðferðir í samráði við þann ráðherra, sem fer með stjórn veiða á villtum fuglum og spendýrum, en það er umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra."
Ráðherrarnir, sem þarna eru tilgreindir, hafa látið undir höfuð leggjast að setja reglugerð um veiðar langreyða, og þess vegna má ætla, að bann matvælaráðherra um veiðar á langreyðum í sumar hvíli á ónógum hlutlægum viðmiðunum að lögum. Ráðherrann tók geðþóttaákvörðun sem sjálfskipaður umboðsmaður hvala í fljótræði, og m.a. þess vegna hangir þessi aðför að rekstri fyrirtækis og afkomu fjölda manns í lausu lofti lagalega séð. Þetta er gríðarlega alvarlegur fingurbrjótur fyrir ráðherra. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að stjórnarandstæðingar á Alþingi kvaka ekkert núna í fjölmiðlum, nema miðflokksmenn ? Eru hinir jafnblindir og ráðherrann ? Líka töfrum gædda bankadrottningin, sem með töfrasprota breytti 3 M í 100 M og ætlaði að sleppa undan jaðarskatti launa með mismuninn ?
"Þá er bent á, að þótt matvælaráðherra fari með yfirstjórn mála, sem varða velferð dýra, sé framkvæmd stjórnsýslunnar á hendi Matvælastofnunar, þ.m.t. að takmarka eða stöðva starfsemina. Segir, að í minnisblaði skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu komi fram, að ekki hafi verið sett reglugerð um framkvæmd veiða á hvölum, og því geti Matvælastofnum einungis stuðzt við ákvæði laga um velferð dýra við mat á því, hvort staðið sé að veiðum í samræmi við lögin. Telur skrifstofan nauðsynlegt að setja reglugerð um veiðiaðferðir, svo [að] tryggt sé, að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnstum sársauka. Skýringa er óskað á því, hvort heimilt hafi verið í þessu ljósi að byggja reglugerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hvalveiðar, en ekki á lögum um velferð dýra.
Ráðherrann fór offari í aðför sinni að löglegri atvinnustarfsemi í landinu og sýndi fyrirlitningu sína á lögum og reglum í landinu. Svona nokkuð geta borgaralegir stjórnmálaflokkar ekki látið viðgangast þegjandi og hljóðalaust. Var ekkert bókað um þetta mál í ríkisstjórn ? Geta samstarfsflokkar vinstri grænna í ríkisstjórn setið þar áfram, á meðan þessi löglausi ráðherra situr þar að störfum ? Sé svo, verður að spyrja, hvenær sé eiginlega komið nóg af glópsku og yfirgangi eins ráðherra, svo að stjórnarslitum varði að sitja áfram með þeim ráðherra í ríkisstjórn ?
"Einnig er spurt, hvernig álit fagráðs um velferð dýra hafi getað orðið tilefni til þess, að ráðherra gaf út reglugerð á grundvelli laga um halveiðar, en ekki horft til úrræða Matvælastofnunar í málinu. Ekki verði séð, að hlutverk fagráðs um dýravelferð sé að vera matvælaráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga á sviði sjávarútvegsmála."
Allt blasir þetta við ólögfróðum, upplýstum almenningi. Það liggur í augum uppi, að ráðherrann, sem að eigin sögn tekur ákvarðanir út frá pólitík og hvorki út frá samkomulagi stjórnarflokkanna, góðum stjórnsýsluháttum né landslögum, greip þetta tækifæri, sem þessi undarlega skýrsla fagráðsins til Matvælastofnunar var(hún átti ekkert erindi til ráðherrans fyrir en að fenginni umsögn Matvælastofnunar), og kastaði skít í tannhjól stjórnarsamstarfsins með því að ganga í berhögg við ríkisstjórnarsáttmálann að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Svo geipar gamall Hafnarfjarðarkrati, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um það, að söguleg þáttaskil hafi orðið, því að þingmenn sjálfstæðisflokksins séu farnir að hóta stjórnarslitum.
Eiga sjálfstæðismenn þá að láta sér lynda hvað sem er í stjórnarsamstarfi ? Ef svo væri, þá brygðist Sjálfstæðisflokkurinn hugsjónum sínum og fylgismönnum. Atlaga Svandísar Svavarsdóttur að stjórnarsamstarfinu er ekki aðeins atlaga að samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni, heldur að formanni vinstri grænna, forsætisráðherranum, sem hefur talað mörgum vinstri græningjanum þvert um geð, þegar hún talar um mikilvægt friðarhlutverk NATO í Evrópu og fagnar stækkun þess, sem geri varnir Vesturlanda gegn öfga- og ofbeldisöflum enn öflugri. Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar sýnt, að hún er enginn bógur til að gegna stöðu forsætisráðherra, þegar í harðbakkann slær, því að hún hefur ekki bolmagn til að knýja Svandísi til að standa við stjórnarsáttmálann eða víkja ella. Þess vegna er þessi ríkisstjórn hennar ekki á vetur setjandi.
"Þá er spurt, af hverju umsögn fagráðs um málið hafi ekki verið borin undir Matvælastofnun áður en ákvörðun um reglugerðarsetninguna var tekin, og hvernig það geti samrýmzt reglum stjórnsýsluréttar og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti."
Ráðherrann gefur einfaldlega ekkert fyrir viðmið atvinnurekanda síns, ríkisins, né siðlega hegðun, því að hún "er í pólitík". Það þýðir, að Svandís Svavarsdóttir tekur geðþóttaákvarðanir eins og henni einni sýnist, að samrýmist hennar pólitík. Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu, að losna verður hið fyrsta við þetta fyrirbrigði úr pólitík.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.8.2023 | 09:46
Strengjabrúður í samsæri ?
Í baksýnisspeglinum er talsverður draugagangur varðandi framgang sóttvarnaryfirvalda hérlendis og erlendis í baráttunni við Kófsfarsóttina 2020-2021, sem var endurtekning á baráttu riddarans hugumstóra og þjóns hans við vindmyllurnar á Spáni forðum. Framganga yfirvaldanna var frumstæð og laus við leiðtogahæfileika, en þrælslundin var yfir og allt um kring. Óhæfur heilbrigðisráðherra vinstri grænna gaf auðvitað tóninn í fíflaganginum hérlendis, en hún virðist hafa verið strengjabrúða ósvífinna auðvaldsafla erlendis. Verður það grafskrift Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að hafa sýnt óheftum alþjóðlegum auðvaldsöflum slíka undirgefni, að stórsá á ríkissjóði og heilsufari þjóðarinnar, eins og umframdauðsföll 2022-2023 í landinu bera vott um ?
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur rannsakað alþjóðlega sögu Kófsins og sviðsettrar baráttu yfirvalda við öndunarfærasjúkdóminn C-19 af völdum líklega manngerðrar veiru, SARS-CoV-2, og fjölmörgum afbrigðum hennar. Morgunblaðsgreinar hans um afrakstur rannsóknarvinnu hans, sem hann á heiður skilinn fyrir, enda umtalsverð að vöxtum, eru í einu orði sagt sláandi.
Hann færir þar rök fyrir því, að um alheimssamsæri valdsækinna gróðapunga sé að ræða, sem yfirvöldin hafi í ótta sínum við hið óþekkta og það, sem miklu verra er, eftir að staðreynda um tiltölulega meinlitla, bráðsmitandi pest, hafði verið safnað og þær birtar, haldið áfram á braut gagnrýnislausrar undirgefni við óprúttin hagsmunaöfl, sem leika sér að örlögum mannkyns. Fyrirsögn Morgunblaðsgreinar hans 18.07.2023 er ekki að innihaldi skorin við nögl:
"Glæpur aldarinnar: Planið".
Það er vert að grípa niður í dúndurgrein kollega Jóhannesar:
"Í Bandaríkjunum bönnuðu heilbrigðisyfirvöld fyrst flestar covid-mælingar, þannig að um miðjan marz 2020 voru skimanir þar hundraðfalt sjaldgæfari en á Íslandi.
Þennan skort á skimunum nýtti Fauci sér til að ofmeta dánartíðnina tífalt og miða hana bara við þessar örfáu mælingar, en ekki við raunverulegan fjölda smita. Samtímis birti Imperial College (einn skipuleggjenda Event 201) skýrslu, sem spáði allt að 500 k covid-andlátum í Bretlandi, nema útgöngubanni yrði beitt. Því var svo fylgt.
Allt var gert til að ofmeta hættuna. Nóg var, að einstaklingur hefði mælzt með covid mánuði fyrir andlát, til að andlát væri flokkað sem covid-andlát. Afleiðingin var veruleg fækkun skráðra krabbameins[tilvika] og hjartaáfalla. Covid læknaði þannig sjúka með því að drepa þá með bókhaldsbrellum og öðru."
Þetta fúsk með tölur, sem magnaði upp óttann við faraldurinn, er staðreynd, og hún getur átt sér ýmsar skýringar, en nú hafa Jóhannes Loftsson et. al. leitt að því sterkar líkur, að megindrættir þessara svika við almannaheill hafi verið skipulagðir áður en faraldurinn brast á. Það er glæpur gegn mannkyni. Að taka síðan upp á þeim fáránleika að fordæmi einræðisstjórnarinnar í Kína að loka fólk inni í sóttkví gerði ekkert annað en að magna upp ótta almennings.
Hvað sem alþjóðlegu samsæri líður er ljóst, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda voru með öllu ábyrgðarlausar og lausar við vísindalega skírskotun. Brotalöm stjórnkerfisins var þannig leidd fram í dagsljósið. Ratar voru við stjórnvölinn. Stjórnvöldum er ekki hægt að treysta. Einstaklingarnir verða að treysta á sjálfa sig, sína dómgreind og kunnáttu til að varðveita heilsu sína og sinna.
"Í lok 2020, eftir ár af frelsisskerðingum í krafti neyðarréttar, þurftu yfirvöld um allan heim að réttlæta ofbeldið og voru því til í hvaða tilraunabóluefni sem er gegn því að komast fremst í röðina.
En til að græða sem mest þurftu allir [að láta] bólusetja sig. Fyrir sjúkdóm, sem var 1000-falt skæðari þeim elztu en þeim yngstu, hefði dugað að bólusetja bara þá elztu. Þá var byrjað að ljúga að fólki, að bóluefnin stöðvuðu smit, þótt engar mælingar sýndu fram á slíkt, og gangsett eldra plan um bóluefnavegabréf og bóluefnaskyldu. Einnig var sagt, að ein bólusetning yrði nóg. Það var líka lygi, því [að] strax í janúar 2021 var vitað, að virkni bóluefnisins féll um 50 %-75 % þremur mánuðum eftir bólusetningu."
Þetta er hroðaleg lýsing á heilbrigðisyfirvöldum, sem brugðust algerlega þeirri skyldu sinni að verja almenning eftir beztu getu og vísindalegu þekkingu. Framgangan er með algerum ólíkindum. Í raun og veru þarf hæfa rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessu máli með það í huga, hvort lagagrundvöllur er hérlendis til saksóknar fyrir refsivert athæfi.
"Nær allar þessar aðgerðir yfirvalda voru óvísindalegar. Hraðsuðubóluefni, viðurkenna ekki loftborinn vírus, banna covid-skimanir, nota bókhaldsbrellur til að ýkja dánartíðni, lækna með lífslokameðferð, gefa banvæna skammta af HCQ, nota grímur gegn vírusum, lofa hjarðónæmi og bara einni sprautu í stað áskriftar.
Allt var þetta ráðlagt af aðilum tengdum Event 201, sem höfðu ríka hagsmuni af því, að bóluefnaleiðin yrði farin. Planið gekk upp og þeir, sem stóðu að því, stórgræddu. Gróðinn hefði samt orðið mun meiri, ef ekki hefði verið fyrir eina óþægilega staðreynd. Bóluefnin voru eitruð."
Að annað eins og þetta skuli komast á kreik í kjölfar móðursýkinnar, sem ríkti vegna faraldursins á árunum 2020-2021, sýnir, að maðkur var í mysunni, en ef um "Plan" (samsæri) var að ræða, var það óhemju frumstætt. Hvers vegna var veirunni hleypt út áður en sómasamlegum og lögboðnum tilraunum með bóluefnin var lokið ? Verða þessi mRNA-bóluefni aldrei barn í brók ? Á að trúa því, að vísvitandi hafi verið ákveðið að gera tilraun á mannkyninu með óprófuð bóluefni, sem vísbendingar voru fyrir hendi um, þegar bráðabirgðaleyfin fyrir þeim voru veitt, að voru gölluð ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)