Færsluflokkur: Dægurmál
21.7.2023 | 08:53
Suðurnesjalína 2 - hryggilegur aðdragandi
Fagna ber þeim tíðindum, að samkomulag skuli loksins vera í höfn á milli Landsnets og sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd um lagningu viðbótar flutningslínu, 220 kV, frá stofnraforkukerfinu og til Suðurnesja. Svo er að sjá, að hvati að samkomulaginu hafi verið fyrirspurnir til sveitarstjórnarinnar um aðstöðu fyrir starfsemi fyrirtækja, sem þurfa meiri raforku en gamla Suðurnesjalína 1 getur bætt á sig. Það er sorglegt, ef eigingirnin gengur svo langt, að reynt er að hindra uppbyggingu annars staðar á Suðurnesjum, þar sem vitað var af eftirspurn umfram flutningsgetu gömlu línunnar. Þetta vekur spurningar um réttmæti þess að leyfa einstökum sveitarfélögum að komast upp með aðrar eins tafir og hér hafa orðið, enda tíðkast slíkt yfirleitt ekki á hinum Norðurlöndunum.
Nú er þó komin farsæl lausn, sem veitir Vogum og öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum, fyrirtækjum og stofnunum (Isavia) möguleika til eflingar og viðgangs og fjölgar ekki flutningslínum til Suðurnesja, því að gamla 132 kV línan verður grafin niður, þótt Landsnet telji slíkt draga úr rekstraröryggi þessarar flutningsleiðar.
Morgunblaðið greindi frá þessu 1. júlí 2023 undir fyrirsögninni:
"Vogar samþykkja Suðurnesjalínu 2".
Fréttin hófst þannig:
"Bæjarstjórn Voga samþykkti samhljóða í gær lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi. Landsnet og sveitarfélagið hafa um árabil deilt um, hvernig eigi að leggja línuna. Landsnet vildi gera Suðurnesjalínu 2 að loftlínu, en sveitarfélagið vildi breyta leiðinni og hafa línu í jörð. Samkomulagið, sem samþykkt var í gær [30.06.2023], felur í sér, að Suðurnesjalína 2 verði loftlína, en Suðurnesjalína 1 verði tekin niður og lögð í jörðu."
Það eru raffræðileg og kostnaðarleg rök fyrir þeirri afstöðu Landsnets að miða frá upphafi við 220 kV loftlínu. Sveitarfélagið hafði ekki næga sérfræðiþekkingu á sínum snærum til að leggja mat á þessi rök, heldur tefldi fram tilfinningum um breytta ásýnd, sem samt var ekki svo mjög breytt vegna Suðurnesjalínu 1, sem uppi hefur verið í áratugi. 220 kV jarðstrengur tekur mikið rými í jörðu vegna öryggislegs helgunarsvæðis yfir og til beggja handa og talsvert rask verður á yfirborði vegna graftrar og umferðar vinnuvéla. Strengur af þessu tagi framleiðir sjálfur mikið launafl, rýmdarafl, sem veldur spennuhækkun hans, sem verður að vega á móti með spanafli frá spanspólum, sem þyrfti að raðtengja við strenginn í aðveitustöðvum á báðum endum og líklega á einum stað á leiðinni.
"Guðmundur [Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets] bendir á, að gífurlega mikil eftirspurn sé frá atvinnurekendum, sem vilja hefja uppbyggingu á ýmiss konar rekstri á Reykjanesinu. Um þriðjungur fyrirspurna, sem Landsneti berast, séu frá fyrirtækjum, sem vilja hefja starfsemi á Reykjanesinu, en slíkt hafi þurft að takmarka vegna rafmagnsöryggis og takmarkana á flutningsgetu án Suðurnesjalínu 2. Hann segir, að t.d. verði landeldi á svæðinu aukið verulega á næstu árum, eftir að Suðurnesjalína 2 er komin í gagnið.
"Hér eru aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir ýmsa starfsemi. Landeldi sem dæmi. Það er lífefnaiðnaður hérna, sem er að þróast, gagnaver og ýmislegt annað, s.s. hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla."
Óhætt er að fullyrða, að tafirnar á Suðurnesjalínu 2 hafa valdið tugmilljarða ISK tekjutapi undanfarin 10 ár. Mikil atvinnutækifæri og þróunarmöguleikar atvinnulífs hafa farið forgörðum vegna veiks stjórnkerfis, sem er berskjaldað gagnvart kærugleði afturhaldssinna og sérvitringa, sem vita í raun lítið, hvað þeir eru að gera, en þykjast vera verndarar náttúrunnar. Eðli náttúrunnar hérlendis er þó ekki stöðugleiki og varðveizla þess, sem er, heldur stöðugar breytingar, ekki sízt á eldbrunnu Reykjanesinu. "Náttúruverndarar" eru margir hverjir án jarðsambands. Eiga þeir endalaust að komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framförum ?
"Gunnar Axel [bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga] segir, að ekki sé um fullnaðarsigur að ræða, en tekur þó fram, að niðurstaða hafi náðst, sem komi til móts við sjónarmið beggja aðila. Hann fagnar því, að tekizt hafi að verja ásýnd svæðisins."
Hvernig á að verja "ásýnd svæðisins", ef hraun tekur að renna til norðurs í átt að Reykjanesbraut ? Má þá ekki ryðja upp varnargörðum til að stýra rennslinu ? Er grundvallarmunur á "ásýnd svæðisins" með eina 220 kV línu um það, en eina 220 kV línu og gamla 132 kV línu, sem er miklu minni en hin. Þessi málflutningur heldur ekki vatni í ljósi alls herkostnaðarins. Baráttan var glórulaus.
"Þetta er kjarni samkomulagsins. Í stað þess, að það verði hér 2 loftlínur, verður aðeins ein, sem kemur til móts við meginsjónarmið bæjaryfirvalda, sem er að draga sem mest úr ásýnd þessa verkefnis. Þetta er auðvitað svæði, sem er gátt allra erlendra ferðamanna í landið."
Þarna er vitleysan kórónuð. Milljarðatugir ISK hafa farið í súginn vegna erlendra ferðamanna, sem bæjarstjórnin í Vogum ímyndar sér, að láti sig einhverju skipta, hvort álengdar frá Reykjanesbraut sést ein stór háspennulína eða ein stór og ein lítil. Þetta fólk, sem kemur til eins dýrasta ákvörðunarstaðar ferðamanna í heiminum, kemur úr umhverfi, þar sem eru ekki 2 háspennulínur inn að þéttbýli, heldur skógur af risastórum 400 kV og þaðan af stærri loftlínum. Heimóttarskapurinn ríður ekki við einteyming.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2023 | 09:49
Matvælaráðherra er heimaskítsmát
Matvælaráðherra fór svo óhönduglega að ráði sínu gagnvart löglegri atvinnustarfsemi Hvals hf og starfsmönnum fyrirtækisins, að hún varð heimaskítsmát. Hún á engan annan kost í stöðunni en að viðurkenna afglöp sín, sem valdið hafa tjóni og afkomuáhyggjum fjölda manns, afturkalla svokallað tímabundið bann á veiðum langreyða og segja síðan af sér með skömm. Hana vantar mikilvæga eiginleika til að gegna ráðerraembætti, þar sem þjóðarhagur verður að vera í fyrirrúmi. Að bjóða þjóðinni upp á þvætting af því tagi, að eftir lestur skýrslu fagráðs Matvælastofnunar hafi hún sem umboðsmaður hvala á vegum ríkisins orðið að fresta veiðum til haustsins, þar til endanleg ákvörðun yrði tekin um hvalveiðar, sýnir í senn ósvífni og dómgreindarleysi ofstækisfulls stjórnmálamanns, sem ekkert erindi á í Stjórnarráð Íslands.
Ekkert bólar samt á stuðningi heildarsamtaka verkalýðsins, ASÍ, við Verkalýðsfélag Akraness og formann þess, Vilhjálm Birgisson, sem haldið hefur uppi ötulli baráttu fyrir þá, sem missa vinnuna vegna forkastanlegra vinnubragða kommúnistans í ráðherrastóli. Oft hefur forseti ASÍ geiflað sig framan í fjölmiðla af minna tilefni en því, að allt að 200 manns missi af mrdISK 1,2 í tekjur, þar sem mannskapurinn var búinn að ráða sig í vinnu. Sofandaháttur Alþýðusambandsins á líklega rætur í pólitískri meðvirkni, en í því felst mikil blinda gagnvart þeim hagsmunum alþýðu, sem í húfi eru.
Forhertur ráðherrann grefur gröf sína, á meðan hún er í felum og svarar engum. Hún er ekki með neitt í höndunum til að rökstyðja gjörning sín af neinu viti. Fagráð Matvælastofnunar með vanhæfan talsmann í líki hræsnara, sem lyftir sér ögn yfir meðbræður sína með titlinum siðfræðingi (er það ekki einhvers konar Sókrates okkar tíma ?), var ekki einu sinni aðili að málinu gagnvart ráðuneytinu, heldur bar ráðherra að sinna sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni og leita eftir afstöðu Matvælastofnunar o.fl., sem reyndar var fyrir hendi áður og þá andstæð tilfinningavellunni í fagráðinu.
Morgunblaðið hefur sinnt vandaðri blaðamennsku í þessu máli sem öðrum, og þann 28. júní 2023 birtist þar viðtal við téðan Vilhjálm Birgisson undir sláandi fyrirsögn:
"Matvælaráðherrann svarar engu"
Hún hófst þannig:
""Það hafa engin svör borizt, sem er að mínum dómi mjög ámælisvert m.v. þá miklu hagsmuni, sem starfsmennirnir eiga í þessu máli", sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið.
Félagið sendi matvælaráðherra bréf 22. júni sl., þar sem þess var krafizt, að ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða yrði afturkölluð. Ef ekki, krefðist félagið þess, að matvælaráðherra gripi til aðgerða til að bæta fjárhagstjón félagsmanna verkalýðsfélagsins. Ráðherra var gefinn frestur til sl. mánudags [26.06.2023] til þess að svara framangreindum kröfum félagsins. Erindinu hefur ekki verið svarað."
Óhæfur ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) er í stríði við Verkalýðsfélag Akraness, sem gætir mikilla hagsmuna (1,2 mrdISK/ár) félagsmanna sinna. Ráðherrann og flokkssystir hennar, forsætisráðherrann, skáka báðar í því skjólinu, að ekki sé um bann að ræða, heldur frestun á veiðum. Það er einskær orðhengilsháttur, því að tjón starfsmanna og fyrirtækisins í ár verður hið sama, þar sem enn meiri hætta er á langvinnu dauðastríði dýranna við dráp við haust- og vetraraðstæður, og fyrirtækið vill vart standa þannig að málum. Frá viðskiptavinum fyrirtækisins hafa borizt fregnir af því, að mikill hörgull sé á hvalkjöti í Japan og þarlendir muni neyðast til að leita að staðgönguvöru, ef afhending frá Íslandi bregzt. Fyrir að líkindum ólöglegan tilverknað óhæfs ráðherra mun Hvalur hf tapa miklum tekjum í ár og gæti hæglega misst markaðsaðstöðu sína. Það er ljóst, að óhæfur ráðherra bakar hér ríkissjóði afar háa skaðabótakröfu og að líkindum skaðabótaskyldu, eftir að deilumálið hefur farið fyrir dómstóla.
Þetta fjárhagstjón verður einvörðungu fyrir dynti í ráðherra, sem ofmetur meingallaða skýrslu fagráðs Matvælastofnunar, þar sem tekin er þröngsýn og tilfinningaþrungin afstaða til veiða á langreyði.
Það hefði verið nær fyrir ráðherra að leita eftir viðhorfum virtra fræðimanna, t.d. á Hafrannsóknarstofnun og í Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá hefði hún fengið víðsýnni viðhorf en sífrið í einhverjum siðfræðingi við HÍ.
200 mílur Morgunblaðsins gerðu einmitt þetta 29. júní 2023 undir fyrirsögninni:
"Gæti leitt til ójafnvægis".
""Ég hef ekki gert neinn greinarmun á hvölum og öðrum dýrum, sem við erum að veiða; hvalir eru bara stór spendýr", sagði Guðni Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Sjálfsagt sé að stefna að því að lágmarka þjáningar villtra dýra, þegar þau eru veidd, en það sé bara lítill hluti af myndinni, þegar kemur að velferð og líðan villtra dýra.
Svo sem kunnugt er, ákvað Svandís Svavarsdóttir að stöðva veiðar á langreyðum í sumar, og gildir veiðibannið til 1. september [2023]. Meginröksemd ráðherrans fyrir stöðvun veiðanna var sú, að aflífun dýranna tæki of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.
Guðni bendir á móti á, að ef slík dýr nái að fjölga sér óhindrað, þá geti það leitt til annarra vandamála:
"Ég tel, að þetta geti gerzt í tilviki hvala, að þeim fjölgi svo mikið, að fæðuskortur verði og ójafnræði í lífríkinu. Ég tel, að hóflegar veiðar og takmarkanir á hinum ýmsu stofnum sé liður í því að láta dýrunum líða vel. Ég álít, að hluti af dýravelferðinni sé, að eitthvað sé til fyrir þau að éta og [að] þau séu ekki í stöðugri baráttu við önnur dýr um takmarkaða fæðu. Ég hef litið á hvali sem hver önnur dýr, og ef þeim fjölgar úr hófi fram, geta þeir farið að skemma mikið", sagði Guðni."
Þarna talar fræðimaður af víðsýni og í jafnvægi. Rök hans höfða til heilbrigðrar skynsemi, en það gera hvorki rökleysur ráðherrans um hana sjálfa sem umboðsmanns hvala né einhliða tilfinningavella siðfræðingsins, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2023 | 15:10
Vanhæfur talsmaður
Talsmaður fagráðs Matvælastofnunar um dýravelferð hefur gert sig breiðan í fjölmiðlum og greinilegt, að hann setur sig á stall sem betri og siðlegri en gerist um alþýðu manna, a.m.k. á meðal þeirra, sem eru á móti að því er virðist fyrirvaralausu og löglausu sparki ráðherra í löglegan atvinnurekstur, sem hefur í för með sér stórtjón fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess. Þessi aðför ríkisvaldsins að alþýðu manna er með öllu ólíðandi og siðlaus, því að þetta er valdníðsla.
Siðfræðingur (er það ekki einhvers konar heimsspekingur ?) fór fyrir fagráðinu, sem allri vitleysunni hratt af stað hjá ráðuneytinu, og komið hefur til hnútukasts á milli hans og forstjóra fyrirtækisins, sem varð fyrir sparki Svandísar Svavarsdóttur. Morgunblaðið gerði þessum þætti skil með frétt 24. júní 2023 undir fyrirsögninni:
"Siðfræðingur fór á límingunum".
Fréttin hófst þannig:
""Siðfræðingurinn fór algerlega á límingunum. Hann á því greinilega ekki að venjast, að einhverjir séu ekki sammála áliti hans, sem sýnir kannski, hvert hann og Háskóli Íslands eru komnir í þessum málum", sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf, í samtali við Morgunblaðið.
Kristján var spurður um, hvernig hann brygðist við ummælum Henrys Alexanders Henryssonar, siðfræðings við HÍ, talsmanns fagráðs Matvælastofnunar, sem brást þannig við ummælum Kristjáns í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, að þar fullyrti Kristján nokkuð án þess að hafa gögn, sem styddu það."
Siðfræðingurinn, sem þykist stjórnast af rökhugsun, er á valdi tilfinninganna og fer með rangt mál. Hann er ótrúlega siðblindur að vera með fullyrðingar um málflutning Kristjáns, sem augljóslega eru rangar. Siðleysi hans lýsir sér í því að sjá ekki í hendi sér, að hann er bullandi vanhæfur til setu í þessu fagráði vegna ítrekaðra opinberra yfirlýsinga, sem bera megnri andúð hans á hvalveiðum vitni. Síðan bítur siðfræðingurinn hausinn af skömminni með fullyrðingum um, að forstjóri Hvals geti ekki sýnt fram á gögn um þetta. Téð frétt snýst um, að forstjóri Hvals hrekur þá fullyrðingu siðfræðingsins rækilega, svo að siðfræðingurinn stendur ómerkur orða sinna eftir.
"Segir hann [Kristján], að Henry Alexander hafi ritað a.m.k. 3 skoðanagreinar, sem birtust í fjölmiðlum. Hann hafi einnig flutt erindi og tekið þátt í pallborðsumræðum á fundi Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem bar heitið: "To whale or not to whale". Kristján segir, að í Vísi 30. janúar 2019 hafi birzt pistill með yfirskriftinni: "Ættum við að veiða hvali", en þar bregst Henry Alexander við skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um hvalveiðar m.a. með þessum orðum: "Slíkt viðhorf var fyrirsjáanlegt. Maður hefði líka gizkað á jákvætt svar, hefði stofnunin verið spurð um miðja 19. öld, hvort þrælahald væri hagkvæmt. Í báðum tilvikum er spurningin ekki sú rétta. Umræða um hvalveiðar hefur lítið sem ekkert með hagkvæmni þeirra að gera í samtímanum; spurningin, sem umræðan leitar alltaf að lokum í, er, hvort skotveiðar á þessum sjávarspendýrum séu siðferðilega réttlætanlegar." Og síðar segir Henry Alexander:"Persónulega tel ég, að tími sé kominn til að leyfa umræðunni um mögulegar hvalveiðar Íslendinga að færast nær siðferðilegri hlið spurningarinnar.""
Það fer ekkert á milli mála, að téður siðfræðingur var búinn að móta sér skoðun um hvalveiðar og láta hana í ljós opinberlega áður en hann tók sæti í þessu fagráði og tók til við að fjalla þar um hvalveiðar. Það er dómgreindarleysi að átta sig ekki á, að með þessu varð hann vanhæfur til að taka sæti í þessu fagráði, og síðan þrefaldar siðfræðingurinn skömm sína með því að viðurkenna þetta ekki, þegar honum er bent á það, og fullyrða, að engin gögn styðji vanhæfni sína.
Siðfræðingurinn setur sig skör ofar en samferðarmenn sína og telur sig geta greint á milli rétts og rangs út frá einhverju siðferðilegu viðmiði. Þetta er tóm hræsni, því að siðferðileg viðmið eru í mörgum tilvikum afstæð og háð huglægu mati. Þannig finnst siðfræðinginum viðeigandi að líkja fólki, sem hneppt var í þrælahald á 19. öld, við hvali á 21. öld. Höfundi þessa pistils þykir þetta aftur á móti afar óviðeigandi og í raun ótækur málflutningur. Sannast þar hið fornkveðna, að sínum augum lítur hver á silfrið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2023 | 09:29
",,, þeir eru að mótmæla sjálfum sér."
Bullustampur í hópi verkalýðsformanna hefur farið í hlutverk "karlsins á kassanum" og valið Austurvöll Ingólfs Arnarburs sem vettvang til að veita lýðnum innsýn í þann hliðarveruleika, sem sálarháski getur leitt fólk út í. Þá afneitar það staðreyndum og býr til firrur, sem það kveður trompa viðtekin lögmál og staðreyndir. Allt er þetta hjákátlega sorglegt firruleikhús. Um þetta sagði Seðlabankastjóri í Morgunblaðsviðtali við Andrés Magnússon 8. júní 2023:
"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli." Þar með er formaður VR kominn á spjöld sögunnar með riddaranum sjónumhrygga, sem réðist á vindmyllur og taldi sig þá berjast við forynjur.
Fyrirsögn viðtalsins var viðspyrnuhugmynd Seðlabankastjóra gegn verðbólgu, sem væri vís leið til að kveða niður verðbólgu eftir næstu almennu kjarasamninga, enda fannst forseta ASÍ í góðu lagi að nota þetta viðmið á topplög ríkisins:
"2,5 % hækkun viðmiðið í samningum".
Seðlabankastjóri: "Ég hélt síðastliðið haust [2022], að verkalýðshreyfingin myndi átta sig á því, að það að ætla að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana. Það hlyti að vera alveg skýrt, en þannig fór það nú samt. Jafnvel sumir verkalýðsforingjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira. Nú vilja sömu foringjar halda útifundi til þess að mótmæla afleiðingum gerða sinna."
Albert Einstein sagði eitthvað á þá leið, að það væri einkenni heimskingja að gera 13 tilraunir í röð, breyta engu, en ætlast til gjörólíkrar niðurstöðu í þeirri seinni. Nú stefnir í, að íslenzk verkalýðshreyfing ætli að verða sú eina í Evrópu til að saga þá greinina, sem hún situr á. Seðlabankastjóri lagði til 2,5 % viðmið í næstu kjarasamningum, en það virðist ekki ætlunin að fylgja ráðum hans, heldur kveður forseti ASÍ gamla stefið um að elta verðbólguna, sem er stórskaðleg hugmynd, eins og dæmin sanna. Það vantar frjóa hugsun í steinrunna verkalýðshreyfingu.
"Já, og það var ákveðin meðvirkni í gangi [í síðustu kjarasamningalotu 2022-innsk. BJo]. Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helzt ekki [að] tjá okkur, af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum, ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum. Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi o.s.frv. Það er ekkert annað en meðvirkni."
Það er fullkomlega eðlilegt, að upplýst sé með þessum hætti um samskipti tveggja embættismanna ríkisins, þjóna þjóðarinnar, þegar ekki er samkomulag um (tímabundna) þagnarskyldu. Fyrrverandi Ríkissáttasemjari hefði ekki átt að hlaupa í gönur vegna einhvers æsingaskíts á samningafundi. Seðlabankanum er algerlega óheimilt að fara að slíkum tilmælum úr Karphúsinu eða annars staðar frá. Líklega var verið að fara fram á lögbrot. Lýsingin er líklega dæmigert fyrir vinnubrögð núverandi formanns VR. Hann fer úr jafnvægi, þegar umhverfið, samningafundur, aðgerðir Seðlabanka eða annað, passar ekki við sýndarveruleika hans sjálfs. Bullið í honum stangast á við staðreyndir, efnahahslögmál og heilbrigða skynsemi. Hann virðist ófær til vitrænnar rökræðu og þá er undankomuleið hans að rjúka af fundi í fússi og skella hurð, ef hún býður upp á það. Ríkissáttasemjari hefði frekar átt að vísa þessum bullustampi út af fundi en að hlaupa eftir dyntum hans.
"Erlendis hafa launþegar að miklu leyti tekið á sig verðbólguna. Enn sem komið er hefur vinnumarkaðurinn [erlendis-innsk. BJo] ekki svarað verðbólgu með miklum launakröfum, sem hefur [þar] leitt til þess, að raunlaun hafa lækkað og verðbólga gefið eftir.
En hér [á Íslandi] hefur það ekki verið þannig. Hér hafa launin ekki lækkað, laun hafa hækkað í takti við verðbólgu, og verðbólgan er ekki að gefa eftir [þótt vísbendingar bendi til, að svo muni verða, ef skynsamlega er haldið á málum innanlands-innsk. BJo]. Það hefur þá leitt til þess, að við [Seðlabankinn] beitum þeim tækjum, sem við höfum.
Það ætti enginn að velkjast í vafa um það, að stýrivextirnir virka hjá okkur. Og hafa virkað. Við getum rétt ímyndað okkur, hvernig ástandið væri, ef við hefðum ekki hækkað vexti" [og ef beturvitinn Ragnar Þór Ingólfsson hefði ráðið stefnunni í peningamálum-innsk. BJo].
Sú mynd, sem Seðlabankastjóri dregur upp af ólíkri nafnlaunaþróun í okkar viðskiptalöndum og hér, er ískyggileg, því að hún mun fyrr en seinna leiða til veikingar gengisins. Sú þróun leiðir til verðbólgu og knýr Seðlabankann til að viðhalda hér háum stýrivöxtum. Gengið styrkist um þessar mundir (um miðjan júní 2023) vegna jákvæðs viðskiptajafnaðar við útlönd og hárra stýrivaxta. Af þessu sést ("som den observante læser umiddelbart ser"), að verkalýðshreyfingin á Íslandi á ekki annarra kosta völ en að haga sér með svipuðum hætti og Seðlabankastjóri lýsir, að hún geri erlendis, ef hún ætlar að forðast efnahagslega kollsteypu, sem verður alfarið skrifuð á Jóns Hreggviðssonar-eðli hennar. Þetta eðli getur komið sér vel, en getur verið sjálfstortímandi, ef því er beitt ranglega. Þetta eðli krefst góðs skynbragðs á umhverfið.
Þá spyr blaðamaðurinn, hvort Seðlabankastjóri hafi e.t.v. verið of hóflegur m.v. verðbólguþróun, sem orkar tvímælis m.t.t. þolmarka hagkerfisins:
"Algjörlega. Það er oft látið, eins og Seðlabankinn sé að skemma fasteignamarkaðinn með því að hækka vexti og þrengja lántökuskilyrði. Ókey, en ef við hefðum ekki gert það, hvað hefði þá gerzt ? Vandinn liggur í of litlu framboði, svo [að] þá hefði verðið hækkað enn frekar, væri kannski 30 % hærra fasteignaverð, og fólk gæti ekki keypt á því verði.
Vandamálið á fasteignamarkaði er skortur á framboði og of lítil eftirspurn. Bara hagfræði 101."
Sjálfsprottnir spekingar í hagfræði innan verkalýðshreyfingarinnar, sem loka eyrunum fyrir staðreyndum og "hagfræði 101", af því að þeir lifa í hliðarveruleika, sem er stórhættulegt fyrir skjólstæðinga þeirra og hefur eyðileggjandi áhrif á hagkerfið allt, þurfa að svara spurningu Seðlabankastjóra um það, hvernig efnahagsástandið væri nú, ef kröfu þeirra um að hækka ekki stýrivextina hefði verið hlýtt. Að öðrum kosti ættu þeir að hafa hljótt um sig og helzt að láta sig hverfa.
"Við getum vel náð verðbólgu niður með þeim tækjum, sem við höfum, bæði í peningamálum og fjármagnsstöðugleika. En það gæti hefnt sín með niðursveiflu. Sérstaklega ef við erum að fá launahækkanir ofan í vaxtahækkanir, eins og sumir verkalýðsforingjar hafa hótað. Þá munum við fá yfir okkur kreppuverðbólgu, sem væri versta niðurstaðan."
Sumir verkalýðsleiðtogar gangast upp í því að berja sér á brjóst og gefa út digurbarkalegar yfirlýsingar um að "verja kaupmáttinn". Í stuttu máli vita þeir ekkert, hvað þeir eru að segja. Þeir eru ekki starfi sínu vaxnir og misskilja hlutverk sitt í grundvallaratriðum. Þeim er fyrirmunað að greina viðfangsefnið og leita raunhæfra lausna í anda starfssystkina sinna á hinum Norðurlöndunum og vítt og breitt um Evrópu. Íslenzkir verkalýðsformenn, sem ætla að kveikja hér verðbólgubál og valda um leið kreppu og fjöldaatvinnuleysi, eru eins ófaglegir í sinni nálgun viðfangsefnisins og hugsazt getur.
Síðan snupraði Seðlabankastjóri furðudýrið á formannsstóli VR:
"Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli."
Það er hvorki hægt að breyta einu né neinu með því, en sjálfumglaðir furðufuglar geta galað þar fyrir egóið sitt.
Að lokum kom Seðlabankastjóri með athyglisverða tillögu fyrir komandi kjarasamninga, og það var eins og við manninn mælt. Hún fór öfugt ofan í verkalýðsformenn, sem botna ekkert í stöðu hagkerfisins:
"Raunar tel ég, að þessi stefna, sem var mörkuð með því að lækka kauphækkanir æðstu embættismanna, sé orðin stefnumarkandi fyrir marlaðinn í heild. Það voru verkalýðsleiðtogar, sem báðu um þetta og fengu; þá hlýtur að vera eðlilegt, að það verði línan upp úr og niður úr."
Verkalýðsformenn gætu átt það til að sýna orðhengilshátt og snúa út úr þessu og miða við meðaltals krónutöluhækkun til þingmanna og æðstu embættismanna í næstu samningum. Það væru þó óviturleg vinnubrögð. Það þarf að finna út, hvað útflutningsgreinarnar þola mikla hækkun launakostnaðar síns, án þess að hún veiki samkeppnisstöðu þeirra, en ekki í barnslegri öfund að horfa á hækkanir til annarra eða verðbólguna.
Dægurmál | Breytt 24.6.2023 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2023 | 10:40
Stríð Rússa í Úkraínu er útrýmingarstríð
Hinn siðblindi og misheppnaði forseti Rússlands hefur gert hver mistökin öðrum verri, frá því að hann ákvað að siga rússneska hernum á úkraínsku þjóðina og ráðast með tæplega 200 k mannafla inn í nágrannaríkið Úkraínu til að afhöfða löglega kjörna ríkisstjórn Úkraínu, binda enda á lýðræðisþróunina í Úkraínu og innlima allt landið í rússneska ríkjasambandið.
Hann hélt, að hann kæmist upp með þetta í krafti lygaáróðurs um mátt rússneska hersins og sundrungar Vesturlanda eftir niðurlægingu Trump-tímans. Hann hélt, að rússneskum skriðdrekum yrði fagnað með blómum úr hendi almennings, a.m.k. rússneskumælandi hluta hans, en það fór á annan veg. Þeim mættu skriðdrekabanar úkraínskra hermanna, jafnt rússneskumælandi sem hinna, og megninu af nýlegri skriðdrekum innrásarhersins virðist hafa verið grandað. Kvað svo rammt að eymd hersins á Rauða torginu 9. maí 2023, að þar var aðeins einn skriðdreki til sýnis, og var hann úr síðari heimsstyrjöld, sem Rússar kalla Föðurlandsstríðið mikla. Rússneski herinn er rotinn frá toppi til táar, Pótemkínher, sem getur fátt annað en að níðast á varnarlausum íbúum Úkraínu. Þetta hefur auðvitað fært úkraínsku þjóðinni heim sanninn um eðli rússneskra yfirráða og gert hana að staðföstum bandamanni Vesturlanda. "Rússneski heimurinn" (russki mir) er baneitraður.
Rauði herinn, eins og rússneski herinn nú, stundaði á sinni tíð sömu aðferð og nú, sem kölluð er "kjöthakkavélin", að senda hverja bylgju fótgönguliða fram fyrir vélbyssukjaftana, enda var mannfallið 5:1 í "Föðurlandsstríðinu mikla". Þá var munurinn hins vegar sá, að Rauði herinn fékk gríðarlegar hergagnasendingar frá Bandaríkjamönnum, líklega að verðmæti mrdUSD 130 að núvirði, sem reið baggamuninn, en nú hefur lélegur og spilltur hergagnaiðnaður ekki undan að fylla upp í skörðin, og lýðfræðileg þróun Rússlands er ömurleg með 1,2 börn á hverja konu og lækkandi meðalaldur, einkum karla, sem eru 10 M færri en kvenfólkið.
Þegar rússneski herinn mætti mótlæti í Úkraínu strax veturinn 2022 og mistókst ætlunarverk sitt, hóf hann að ganga í skrokk á almennum borgurum með sérstaklega svívirðilegum hætti og gerði íbúðarhús, sjúkrahús og skóla að skotmörkum sínum, pyntaði og skaut almenna borgara af stuttu færi, eins og vegsummerki í Bucha og víðar bera vitni. Veturinn 2022-2023 var reynt að frysta íbúana í hel með því að skjóta eldflaugum á orkumannvirki Úkraínumanna, en eftir uppsetningu loftvarnarkerfa í Úkraínu misheppnaðist þessi aðför, eins og kunnugt er. Jafnvel ofurhljóðfráar eldflaugar Rússa af s.k. Kinzhal gerð, sem Rússar héldu, að engar varnir væru til við, hefur 40 ára gömul vestræn tækni fullkomlega ráðið við (Patriot).
Aðfararnótt 6. júní 2023 í aðdraganda stórsóknar úkraínska hersins keyrði um þverbak í þessu djöfullega útrýmingarstríði Rússa, sem aldrei verður fyrirgefið. Þá tendruðu rússneskir hermenn kveikiþræði sprengja, sem þeir höfðu fyrir löngu komið fyrir inni í stíflu Nova Kakhovka vatnsorkuversins með voveiflegum afleiðingum fyrir a.m.k. 40 k manns, sem fyrir neðan bjuggu og hverra húsnæði varð umflotið vatni bæði austan og vestan stórfljótsins Dnieper. Þann 10.06.2023 var upplýst, að vatnsborð miðlunarlónsins væri komið undir inntakshæð kælivatnslagnar að stærsta kjarnorkuveri Evrópu, sem staðsett er í Zaphorisja-héraðinu. Á lóð þessa kjarnorkuvers hefur rússneski herinn komið sér upp herstöð, sem er með algerum ólíkindum. Hér vofir yfir kjarnorkuslys, sem ylli þá enn meiri geislun en varð í Úkraínu 1986 í Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu, og það eru ekki minni líkindi á, að geislavirk ský frá þessu kjarnorkuveri reki til austurs en vesturs.
Öll þessi hegðun rússneskra yfirvalda er svo forkastanleg og fordæmanleg, að orð fá ekki lýst. Þetta eru glæpaverk af verstu gerð, sem hafa valdið mengun á gróðursælasta jarðvegi Evrópu, sem nú getur breytzt í eyðimörk og mun þá valda hungurdauða víða um heim.
Strax 7. júní 2023 gerði Stefán Gunnar Sveinsson grein fyrir þessum illvirkjum í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Fordæma Rússa fyrir eyðilegginguna".
Fréttin hófst þannig:
"Flytja þurfti rúmlega 40 k manns frá heimilum sínum beggja vegna Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði í gær, eftir að Nova Kakhovka-stíflan brast í fyrrinótt. Vatn úr uppistöðulóni stíflunnar flæddi í Dnípró-fljótið og olli umtalsverðum flóðum í héraðinu.
Volodomir Selenskí, Úkraínuforseti, fordæmdi Rússa fyrir að hafa orðið valdir að eyðileggingu stíflunnar og sagði hana vera dæmi um hryðjuverk og stríðsglæpi Rússa, sem hefðu nú heilt lífríki á samvizkunni. "Heimurinn verður að bregðast við. Rússland er í stríði gegn lífi, gegn náttúrunni, gegn siðmenningunni."
Allt er þetta rétt hjá forsetanum. Í kjölfarið hefur Ísland brugðizt við með lokun sendiráðs síns í Moskvu og rússneski sendiherrann verið gerður landrækur. Rússneska utanríkisráðuneytið hefur brugðizt við með ódulbúnum hótunum um refsiaðgerðir að sínum hætti, og netárásir hafa dunið á Alþingi og stjórnarráðinu. Rússneskir hermenn sáust á félagsmiðlum gorta af því að hafa sprengt stífluna í loft upp.
Við fól eins og Rússa er útilokað að eiga í nokkrum vinsamlegum samskiptum. Þetta er útlagaríki og verður það um fyrirsjáanlega framtíð. Formlega eiga þeir bara í stríði við eina þjóð, en það er hollast fyrir Vesturlönd að gera sér grein fyrir því, að Úkraínumenn fórna nú blóði sínu fyrir Vesturlönd, lýðræðið og siðmenninguna. Í Rússlandi ríkir enn miðaldamyrkur einræðis, ofstækisfullrar ríkiskirkju, fátæktar fjöldans og landlægrar spillingar.
"Þá sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins [norskur krati], að eyðilegging stíflunnar myndi tefla þúsundum mannslífa í hættu og valda umtalsverðum umhverfisskaða.
"Þetta er svívirðilegur verknaður, sem sýnir enn og aftur grimmdina, sem fylgir stríði Rússlands í Úkraínu", sagði Stoltenberg á Twitter."
Fólskuverk Rússanna eru gegndarlaus. Þau sýna Vesturlöndum, hvað til þeirra friðar heyrir, ef rússnesk ómennska verður ekki brotin á bak aftur núna. Rússland er ríki hins illa, einræðisríki, rotið ofan í rót, sem metur mannslíf einskis og treður siðmenninguna niður í svaðið. Í Kreml ríkir andi Mongólanna, sem ríktu yfir Rússlandi í 300 ár og eirðu engu. Rússland lenti á allt annarri og óheillavænlegri þróunarbraut en Evrópuríkin,sem þróuðust úr miðaldamyrkri til upplýsingar og lýðræðis. Af einræði zarsins tók við einræði kommúnistaflokksins, og nú hefur fasískt einræði fyrrum leyniþjónustuforingja kommúnistaflokksins tekið við. Núverandi styrjöld í Úkraínu er styrjöld á milli siðmenningar og lýðræðis annars vegar og villimennsku og einræðis hins vegar. Þess vegna var framtak utanríkisráðherra Íslands að binda enda á diplómatísk tengsl Íslands og Rússlands mikið fagnaðarefni.
"Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sakaði á móti Úkraínumenn um að hafa viljandi framið skemmdarverk á stíflunni. Sökuðu Rússar jafnframt Úkraínumenn um að hafa skotið á stífluna án þess að færa fyrir því nokkrar sönnur."
Téður Peskov er lygalaupur andskotans. Úkraínumenn gátu ekki hafa framkvæmt slíkt á kjarnorkusprengjuheldu mannvirki, sem rússneski herinn hefur ráðið yfir frá því í byrjun stríðsins. Sprengja varð innan frá. Hinn siðferðilega rotni rússneski her hefur svo bitið hausinn af skömminni með því að skjóta á úkraínskt björgunarfólk á yfirráðasvæði Kænugarðsstjórnarinnar, sem var að störfum á flóðasvæðinu. Rússarnir létu sér heldur ekki annt um fólk í neyð á sínu hernumda flóðasvæði. Er til staður í helvíti fyrir slíka óþverra ?
"Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á móti ljóst, að Rússland hefði eyðilagt stífluna og þar með valdið mesta "tæknislysi Evrópu í marga áratugi og sett óbreytta borgara í hættu. Þetta er hryllilegur stríðsglæpur. Eina leiðin til að stöðva Rússland, mesta hryðjuverkaríki 21. aldarinnar, er að sparka því út úr Úkraínu", sagði Kúleba."
Hárrétt hjá téðum Kúleba, en það er ekki nóg, því að að fáeinum árum liðnum munu sjúklegir heimsvaldasinnar í Kreml gera aðra atlögu að sjálfstæði Úkraínu, nema Vesturlönd tryggi öryggi þessa nýja bandamanns síns. Það verður aðeins gert með óyggjandi hætti með því að samþykkja umsóknarbeiðni landsins um aðild að NATO. Jafnframt verður ekki annað séð en Vesturlönd verði að efla heri sína og herbúnað til undirbúnings sameiginlegri árás einræðisríkjanna Kína og Rússlands og einhverra fylgihnatta á borð við klerkaveldið í Íran á Evrópu og Tævan. Þá mun muna um Japani í vörninni. Þetta er það gjald, sem hinn frjálsi heimur þarf að borga fyrir frelsi sitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2023 | 18:29
Grundvöll raunlaunahækkana vantar
Mikill hagvöxtur eftir Kófið er skiljanlegur, en á óvart kemur, að hann er að mestu leyti vegna fjölgunar á vinnumarkaði. Á síðustu 10 árum hafa að jafnaði 5 þúsund fleiri með erlendan ríkisborgararétt flutzt til landsins en frá því.
Þótt margt aðkomumanna sé hörkuduglegt fólk, virðast þessir aðkomumenn ekki hafa staðið undir framleiðniaukningu í landinu. Þannig minnkaði landsframleiðsla á mann í landinu á 1. fjórðungi 2023, þótt þá hafi umreiknað til árs mælzt 7 % hagvöxtur. Að nokkru tengist þetta því, að erlendu ríkisborgararnir búa fæstir yfir þekkingu, sem er mikils metin á vinnumarkaði, en í annan stað stafar þetta af mikilli fjölgun opinberra starfsmanna, sem draga niður meðalafköstin, og verðmætasköpunin er misjöfn og oftast torreiknanleg.
Málið er alvarlegt, og það þarf að kryfja til mergjar með það að stefnumiði að snúa þróuninni við, því að þessi stærð er undirstaða raunkjarabóta í landinu. Eftir því sem þjónustugreinar verða umfangsmeiri í hagkerfinu, er þessi neikvæða þróun viðbúin, því að þar er erfiðara að koma við sjálfvirknivæðingu að ráði en í vöruframleiðslu. Það er þó eitthvað mikið að hér, því að að Ísland situr á botninum, hvað þetta varðar, innan OECD. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað ríkisstjórninni minnisblað um þetta, en stjórnin hefur sett á laggirnar ónauðsynlegri vinnuhópa en þann, sem skipaður væri um téða krufningu, þ.e. að finna á þessu handfastar skýringar, og að varða leiðina til viðsnúnings. Eru fjárfestingar í nýsköpun misheppnaðar að miklu leyti ?
Árið 2000 jókst landsframleiðsla á mann um 2,5 %, og meðaltalið síðan til 2023 nemur 1,4 %, en leitni stærðarinnar stefnir í 0 2024. Það þýðir einfaldlega, að það er tómt mál að tala um nokkrar raunlaunahækkanir á því herrans ári. Við þessar aðstæður er það algerlega óábyrgt hjal, að hægt verði í næstu kjarasamningum að sækja raunlaunahækkanir í greipar atvinnurekenda. Launahækkanir munu við þessar aðstæður aðeins kynda undir verðbólgu og verða að engu. Sumir verkalýðsformenn lifa í hliðarveruleika við raunheiminn og þykjast búa yfir "betri sannleika" en t.d. Seðlabankinn, en þeirra sannleikur er froða uppskafninga án nokkurrar fræðilegrar festu.
Baldur Arnarson birti baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 6. júni 2023, sem reist var á útreikningum Yngva Harðarsonar, framkvæmdastjóra Analytica, undir fyrirsögninni:
"Minna til skiptanna":
""Ársbreytingin minnkar kerfisbundið yfir þetta tímabil. Þannig að dregið hefur úr vexti framleiðni. Leitnin er komin mjög nálægt núllinu. Við ættum í raun að hafa orðið fyrir talsverðri kjararýrnun frá því fyrir faraldurinn. Þetta er ein af ástæðum verðbólgu. Laun hafa hækkað langt umfram framleiðni", segir Yngvi."
Umframverðbólga á Íslandi m.v. evrusvæðið og Bandaríkin (BNA) er alfarið í boði verkalýðshreyfingarinnar. Á þessum svæðum hafa launþegar tekið á sig kjaraskerðingar með launahækkunum, sem eru langt undir verðhækkunum þar. Þar af leiðandi hjaðnar verðbólga þar nú og er um 6,1 % á evrusvæðinu og 4,9 % í BNA, en um 9 % hér.
Ef verkalýðsformenn sýna af sér stillingu (skynsemi er varla hægt að biðja um), bera teikn á lofti merki um, að góðra tíðinda kunni einnig hér að vera að vænta, þ.e. að aðgerðir Seðlabankans í baráttunni við verðbólgu hafi nú jákvæð áhrif á þætti, sem reka hana áfram.
Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Fossum, fjárfestingarbanka, reit um þetta áhugaverða verð á Sjónarhóli VIÐSKIPTAMOGGANS 7. júní 2023:
"Vísbendingar um hraðari hjöðnun verðbólgu".
"Þegar horft er fram á veginn, þá glittir í jákvæðar leiðandi vísbendingar um, að verðbólgan eigi mögulega eftir að hjaðna hraðar en spár Seðlabankans gera ráð fyrir og [þess], sem verðlagning á skuldabréfamarkaði bendir til. Þar fer saman samspil ytri þátta í heimshagkerfinu, og að vaxtaleiðni peningastefnunnar miðlast með æ kröftugri hætti í gegnum hagkerfið."
Forseti ASÍ af öllum mönnum fór eindregið fram á það við ríkisstjórnina á dögunum, að hún sæi til þess, að ráðherrar, aðrir þingmenn og hátt settir embættismenn, sem eiga að fá launahækkanir samkvæmt lögum í samræmi við launaþróun ríkisstarfsmanna, tækju á sig enn meiri raunkjaraskerðingu en Hagstofan var búin að reikna þeim til handa ( með um 6 % launahækkun). Niðurstaðan verður 2,5 % launahækkun. Þetta var skot út í loftið í baráttunni við verðbólguna hjá forsetanum, nema hann beiti sér nú af hörku fyrir því, að þessi prósenthækkun verði viðmið launþegahreyfingarinnar í næstu kjarasamningum. Hann verður að sýna einhverja samkvæmni. Annars er hann ómarktækur. Nú reynir á forystu launþegahreyfingarinnar. Ætlar hún að láta af skrípalátum og fara að taka hlutverk sitt alvarlega ? Valið stendur á milli heilbrigðs vaxtar og fullrar atvinnu eða kreppuverðbólgu ("stagflation"). Sú síðar nefnda mundi leika alla grátt, en koma verst niður á þeim, sem sízt skyldi.
"Jákvætt var að sjá vöxt einkaneyzlu á 1. ársfjórðungi undir væntingum Seðlabankans - eða um 2,5 %. Þá dróst kortavelta í apríl [2023] saman að raunvirði á milli ára í fyrsta skipti í rúm 2 ár þrátt fyrir sögulega 3,6 % íbúafjölgun á sama tíma. Fjármunamyndun var einnig undir spám bankans, og skrapp atvinnuvegafjárfesting saman um 14 % frá fyrri ársfjórðungi (árstíðaleiðrétt), sem er mesti samdráttur í 3 ár. Til viðbótar við þetta gefa neikvæðari væntingar heimila og fyrirtækja til kynna, að spennan í hagkerfinu hafi náð hámarki. Hóflegur, en heilbrigður vöxtur ætti að taka við."
Þetta eru allt vísbendingar um, að aðgerðir Seðlabankans séu teknar að bera árangur við að minnka þenslu, sem er undanfari verðbólguhjöðnunar.
Raunhæfs bjartsýnistóns gætti í lok greinar Steingríms:
"Ef fram fer sem horfir, getur sú sviðsmynd teiknazt hratt upp, að toppi vaxtahækkunarferlisins sé náð, og fram undan blasir við umhverfi, þar sem núverandi vaxtastig vinnur með kröftugum hætti á þeirri þenslu, sem skapaðist í íslenzku efnahagslífi á liðnum misserum."
Íslenzkt hagkerfi þolir ekki núverandi vaxtastig til lengdar áfallalaust, þ.e. án þess að sligast og síga í kreppuástand. Svo er að sjá af ýmsum viðbrögðum verkalýðshreyfingar við skýrum skilaboðum Seðlabankastjóra, m.a. í viðtali við Morgunblaðið 8.júní 2023, þar sem hann talaði tæpitungulaust, að þar á bæ er fólk ófært um að greina stöðuna og móta langtímastefnu öllum launþegum til heilla. Samkvæmt þessu munu verkalýðsformenn stinga hausnum í sandinn og framkalla enn meiri vaxtahækkanir, sem munu skapa hér fjöldauppsagnir og atvinnuleysi. Það þýðir ekki að fara þá fram með dólgshætti og kenna öllum öðrum um ömurlega stöðu. Ábyrgðin hvílir á herðum samtaka launafólks, hvort sem formönnum sumra verkalýðsfélaga líkar það betur eða ver. Hvers vegna gengur þeim ver að skilja staðreyndir en verkalýðsformönnum á hinum Norðurlöndunum og víðar ?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2023 | 12:17
Efnahagslíf í gíslingu
Nú er glímt við afleiðingar lausataka á peningamálum og ríkisfjármálum í Kófinu og síðan við gríðarlegar vöruverðshækkanir á alþjóðlegum mörkuðum vegna útrýmingarstríðs grimmra og yfirgangssamra villimanna í Rússneska ríkjasambandinu gegn sjálfstæðri þjóð Úkraínu. Málstaður fasistastjórnarinnar í Kreml er engu betri en nazistastjórnarinnar í Berlín 1933-1945. Hugmyndafræðin er keimlík, en verður hún upprætt með sigri úkrínska hersins á rotnum rússneskum her ? Það er ólíklegt, og þess vegna m.a. er styrking hervarna NATO óumflýjanleg. Lönd varnarbandalagsins hafa flest sofið á verðinum gagnvart óargadýrinu í austri, en eru nú að ranka við sér.
Ísland getur ekki skorizt þar úr leik, þótt ekki sé landið herveldi. Nú um stundir er peningum til varnarmála bezt varið með fjármögnun á fjölþættri aðstoð við Úkraínumenn, sem nú úthella blóði sínu í þágu tilvistar þjóðarinnar og frelsis. Ísland hefur þegar farið inn á þessa braut og ætti að halda því áfram í samráði við Úkraínumenn og NATO.
Fyrirtækin í landinu njóta flest mikillar eftirspurnar, en glíma við miklar kostnaðarhækkanir, ekki sízt við miklu meiri kostnaðarhækkanir vinnuafls en fyrirtæki erlendis. Í þensluástandinu hafa þau getað varpað kostnaðarhækkunum út í verðlagið, og þetta ásamt hækkun erlends verðlags hefur valdið seigri verðbólgu hér nálægt 10 %. Ef ekki tekst að vinna bug á þessari verðbólgu fljótlega, mun gengið gefa eftir, og þá verður fjandinn laus. Fjandinn yrði líka laus með evru, því að þá yrði hér fjöldaatvinnuleysi, því að fyrirtækin færu á höfuðið.
Gíslingin er fólgin í því, að það skortir skilning á því hjá stjórnmálamönnum og verkalýðsformönnum mörgum, að skattheimta og og launakostnaður fyrirtækja hérlendis umfram það, sem tíðkast í okkar helztu viðskiptalöndum, gerir landið ósamkeppnisfært, sem leiðir til kollsteypu efnahagslífsins.
Óli Björn Kárason, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, ritaði góða grein um verðbólguna o.fl. í Morgunblaðið 31. maí 2023 undir fyrirsögninni:
"Stærsta og erfiðasta verkefnið".
Þar stóð m.a.:
"Voru aðgerðir ríkissjóðs [í Kófinu] of viðamiklar ? Kann að vera. Lækkaði Seðlabankinn vexti of mikið ? Það er hugsanlegt. En allt er þetta eftir á speki. Aðalatriðið er, að vörnin tókst, eins og sést vel á þeirri staðreynd, að í gegnum allt kófið jókst kaupmáttur launa. [Það er líklega einsdæmi og bendir til yfirskots - innsk. BJo.] Seðlabankinn bendir á, að á undanförnum 3 árum, þ.e. frá upphafi farsóttarinnar, jókst kaupmáttur launa um að meðaltali 2 % á ári hér á landi, en til samnaburðar dróst hann saman um 1 % á ári í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3 % í Bandaríkjunum."
Það var engin innistæða fyrir þessari kaupmáttaraukningu, og samkeppnisstaða landsins versnaði sem nam meiri falskri kaupmáttaraukningu hér en annars staðar. Þessi falska kaupmáttaraukning var reist á innistæðulausri seðlaprentun, aukningu peningamagns í umferð, og hún kyndir nú undir verðbólgu af meiri krafti hérlendis en víða annars staðar. Seðlabankinn gekk of langt, ríkissjóður gekk of langt og sóttvarnaryfirvöld fóru hreinlega offari og skiluðu af sér neikvæðum árangri, sem lýsti sér í mun fleiri umframdauðsföllum 2020-2022 hér en í Svíþjóð, þar sem meira hófs var gætt.
Með öðrum orðum: ríkisvald og þjóðþing brugðust algerlega. Valdsækni ríkisins er bæði sjúkleg og hættuleg. Borgurunum er fyrir beztu að reiða sig mest á sjálfa sig og takmarka vald ríkisins af fremsta megni. Þar undir heyrir auðvitað skattheimtan. Affarasælast er, að borgararnir haldi eftir sem mestu af sjálfsaflafé sínu. Hlaupið hefur verið eftir skemmdarverkalöngun vinstra fólksins með skattlagningu sparnaðar. Mikill sparnaður og lág verðbólga eru heilbrigðismerki á einu þjóðfélagi, en hér er gengið svo langt að skattleggja verðbætur, sem er líklega heimsmet í heimsku á sviði fjármálastjórnar ríkisvalds.
"Heimilin og fyrirtækin nýttu sér góðan [hann ver ekki góður, heldur mikill-innsk. BJo] varnarleik á síðasta ári. Hagvöxtur var 6,4 %. Þetta er mesti hagvöxtur, sem mælzt hefur síðan árið 2007. Vöxturinn var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega einkaneyzlu, sem jókst um 8,6 % milli ára. Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram, að svo virðist sem hagvöxtur á 1. fjórðungi þessa árs [2023] hafi verið töluvert meiri en spáð var í febrúar [2023], og því er útlit fyrir, að hann verði meiri á árinu í heild eða 4,8 % í stað 2,6 %."
Þarna er einfaldlega verið að lýsa einkennum of hitaðs hagkerfis af völdum hagstjórnarmistaka ríkisvaldsins. Rugluð stjórnarandstaða á Alþingi gagnrýndi helzt hinn afdrifaríka ofvaxna varnarleik ríkissjóðs fyrir að vera ekki nægur. Ef Samfylkingin hefði verið við stjórnvölinn, væri verðbólguvandinn enn illkynjaðri en reyndin er, og verðbólgan væri jafnvel nær 20 % en 10 %. Að kjósa slíkt krataafstyrmi, siglandi undir fölsku flaggi til ESB, til valda væri svo sannarlega að fara úr öskunni í eldinn fyrir borgarana, enda benti fjármála- og efnahagsráðherra nýlega á það í sjónvarpsumræðum (RÚV), að þar færi bara gamla Samfylkingin. Nú þykist hún vera eitthvað annað en hún er. Það er kallað að bera kápuna á báðum öxlum.
"Á síðasta ári [2022] er áætlað, að hallinn [á ríkissjóði] hafi verið 3,5 % af landsframleiðslu, sem er ríflega 4 % minna en á árinu á undan. Batinn á síðasta ári var meiri en hann var að jafnaði á meðal annarra þróaðra ríkja, sem við berum okkur saman við. Skuldir eru með því lægsta, sem þekkist, en eru sannanlega of miklar og fjármagnskostnaður of hár. Sem hlutfall af landsframleiðslu verða skuldir hins opinbera hér á landi um 40 %, 83 % í löndum Evrópusambandsins."
Efnahagslífið á Íslandi er í flestu tilliti á allt öðru róli en í Evrópusambandinu (ESB), og þess vegna yrði innganga Íslands í ESB að efnahagslegri byrði fyrir landsmenn. Þetta má í megindráttum skýra á einfaldan hátt:
- Atvinnuvegirnir eru ólíkt upp byggðir. Hér standa auðlindir fiskistofna, orku og náttúru undir megintekjustofnum. Fiskveiðar eru arðbærar og orkan er úr endurnýjanlegum orkulindum fallvatns og jarðhita. Verkefnið er að auka verðmæti sjávarútvegsins með tækniþróun og að virkja svo mikið, að ekki hamli þróun atvinnulífs og orkuskpta, eins og nú er verkurinn.
- Lýðfræðileg samsetning landsmanna er með allt öðrum og hagstæðari hætti en í ESB-löndunum. Þar af leiðandi er meiri kraftur í hagkerfinu hér, og lífeyristryggingar eru að mestu fjármagnaðar með ævisparnaði í lífeyrissjóðum, en ekki með stórskuldugum ríkissjóðum, eins og yfirleitt í ESB. Nú hefur lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna tilkynnt skerðingu lífeyris vegna aukins langlífis félaganna. Einkennilegt er að bregðast við því með því að heimta bætur fyrir langlífið. Ef um þokkalega heilsu er að ræða, er hækkandi dánaraldur fagnaðarefni. Ef heilsan er bágborin, er ekki víst, að svo sé, og gríðarlegur kostnaður lendir þá á ríkissjóði. Það verður að gæta að því að hlaða ekki óþarfa byrðum á hann.
Það er engum vafa undirorpið, að með Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, í ríkisstjórn, t.d. forsætis- eða fjármála- og efnahagsráðuneyti, undanfarin ár, væru landsmenn ekki jafnborubrattir núna og þó er reyndin. Það væri ekki rífandi gangur í hagkerfinu, því að hún hefði aukið skattheimtu á landsmenn og varið fénu í alls kyns gæluverkefni að hætti krata í borgarstjórn, þar sem sukkið hefur verið þvílíkt, að borgarsjóði liggur við greiðslufalli. Staða ríkissjóðs væri samt verri en núna, vegna þess að aukin skattheimta hægir á hagkerfinu, sem dregur stórlega úr eða étur upp ávinning fyrir ríkissjóð af hærri skattheimtu.
Næst kom hjá Óla Birni það, sem skilur á milli feigs og ófeigs, Samfylkingar og sjálfstæðismanna, eins og berlega hefur undanfarið komið í ljós í sveitarstjórnum:
"Það blasir við, að auka verður aðhald í fjármálum hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki hegðað okkur líkt og strúturinn og stungið hausnum í sandinn. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað að raunvirði um 39 % - að frátöldum vaxtagjöldum - frá árinu 2017 eða um liðlega mrdISK 346. Þetta er liðlega mrdISK 10 hærri fjárhæð en áætlað er, að fari til heilbrigðiskerfisins á þessu ári [2023]; í sjúkrahús, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyf og lækningavörur."
Tæplega 6 % raunhækkun ríkisútgjalda á ári er ósjálfbær í þeim skilningi, að hún dregur svo mikið fé frá einkageiranum og heimilum, að þar verður lífskjararýrnun. Ástæðan er sú, að þetta er miklu meiri hækkun en meðaltalshagvöxtur tímabilsins. Mikill hluti þessarar hækkunar fór til heilbrigðiskerfisins, sem er skiljanleg afleiðing öldrunar þjóðarinnar, en þáttur í álagsaukningunni þar er einnig gríðarlegt aðstreymi erlendra ferðamanna og hælisleitenda. Í fyrr nefnda hópinum eru margir gamlingjar í alls konar áhættuhópum fyrir heilsufar, og í síðar nefnda hópnum er heilsufarið í mörgum tilvikum bágborið, enda hefur sá hópur sjaldnast búið við frían aðgang að heilbrigðisþjónustu. Útgjöld til heilbrigðismála vaxa stjórnlaust, og biðraðirnar vaxa stöðugt, hvort tveggja einkenni ríkisrekstrar, sem notandinn veit lítið um, hvað kostar. Þetta er ekki beinlínis hvati til heilbrigðs lífernis landsmanna, enda er stór hluti ríkisútgjaldanna vegna lífstílssjúkdóma, sem hæglega hefði mátt komast hjá. Verkefnið er að finna lausnir til hagkvæmari rekstrar. Það hefur ekki gengið vel á LSH, og til þess er heilbrigðisráðuneytið illa hæft. Eina ráðið er að fela einkageiranum á þessu sviði fleiri verkefni, því að þar er einingarkostnaðurinn lægri og afköstin meiri með viðunandi gæðum.
"Breyttar aðstæður og verri þróun verðbólgunnar og þá sérstaklega auknar verðbólguvæntingar kalla á, að gripið verði til enn meira aðhalds í ríkisfjármálum en áður var talið nauðsynlegt. Og til lengri tíma verður að vinna skipulega að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, m.a. með sölu sölu ríkiseigna og niðurgreiðslu skulda."
Þetta er gott og blessað, svo langt sem það nær, en það tekur ekki á kjarna vandans, sem knýr innlenda verðbólgu áfram. Hann er sá, að launahækkanir í landinu hafa verið margfalt meiri hérlendis en erlendis og margfalt meiri en vöxtur landsframleiðslu á mann og þar með framleiðniaukningin. Frá aldamótunum 2000 hefur leitni aukningar landsframleiðslu á mann verið niður á við, er nú nálægt 0 og stefnir í mínus. Í stað þess að kryfja þetta mál til mergjar (leita orsaka) með Samtökum atvinnulífs og ríkisvalds stinga verkalýðsformenn hausnum í sandinn og heimta bara meiri launahækkanir, sem er nokkurn veginn það versta, sem þeir geta gert sínum skjólstæðingum við núverandi aðstæður. Með hlutdeild vinnuafls af verðmætasköpun í toppi, eins og hér, munu allar launahækkanir aðeins fóðra verðbólgubálið, ef framleiðnivöxtur samfélagsins er nánast enginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2023 | 12:03
Verðbólgan og verkalýðshreyfingin
Verðbólgan er vágestur heimilanna, og hana verður að kveða niður, því fyrr, þeim mun betra. Hún er hins vegar að stórum hluta innflutt, og þess vegna er ámátlegt að heyra, þegar gamla slitna grammófónplatan er sett á ryðgaðan plötuspilara Viðreisnar, að innganga Íslands í Evrópusambandið og að kasta ISK fyrir róða og taka í staðinn upp EUR, muni leysa verðbólgu- og vaxtavandamál Íslendinga í einu vetfangi. Þau, sem láta sér sér svo einfeldningsleg orð um munn fara, ættu að rýna í verðbólgutölur landanna á evrusvæðinu, t.d. Eystrasaltslandanna. Þær hafa sums staðar farið yfir 20 %, enda geisar stríð í Evrópu, og Pútín beitti orkuvopninu í vanmátta og vanhugsaðri tilraun til að knýja Evrópu til að láta af stuðningi sínum við hetjulega baráttu Úkraínumanna fyrir lífi sínu. Beiting þessa vopns hækkaði verð á raforku til heimila um að jafnaði 69 % og á eldsneytisgasi um 145 % síðast liðinn vetur. "The Economist" reiknar dauðsföll í Evrópu af þessum sökum vera 68.000 síðast liðinn vetur.
Í maí 2023 nam 12 mánaða verðbólga á evrusvæðinu 7,0 %, í Bandaríkjunum 4,9 %, á Bretlandi 10,1 %, í Noregi 6,4 %, í Svíþjóð 10,6 %, en í Sviss aðeins 2,6 %. Af þessu má ráða, að töluverður hluti verðbólgunnar sé innfluttur. Vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands minnka spurn eftir vörum og þjónustu bæði hjá skuldurum og sparendum, því að sparendur hafa tilhneigingu til að leggja meira fyrir, þegar vextir eru háir, og nú eru innlánsvextir nálægt verðbólgustiginu, en svo hefur það alls ekki verið síðast liðið ár.
Á meðal launþega eru bæði lántakendur og sparendur, og fer það aðallega eftir aldri, hvorn hópinn fólk fyllir. Viðbrögð verkalýðsformanna hafa verið í þá veru, að í peningastefnunefnd Seðlabankans sitji slæmt fólk, sem vilji gera ungu fólki, skuldurum, lífið leitt. Þetta er algerlega óábyrgt viðhorf og lýsir fullkomnu skilningsleysi á hlutverki bankans, lögunum, sem um hann gilda, og áhrifamætti þeirra tóla, sem bankinn hefur yfir að ráða í baráttunni við verðbólguna.
Kjarasamningar gegna lykilhlutverki í hagkerfinu, bæði á framboðs- og eftirspurnarhlið. Of miklar verðhækkanir geta steypt fyrirtækjunum í glötun og skapað ofþenslu í hagkerfinu. Seðlabankinn telur síðustu kjarasamninga hafa verið of ríflega og skapað ofþenslu, sem nú kyndi verðbólgu. Það er engum til hagsbóta, að almennir kjarasamningar séu umfram framleiðniaukningu fyrirtækja almennt. Það, sem umfram er, mun brenna upp á verðbólgubáli. Út frá gögnum Hagstofunnar er hægt að leggja mat á meðalsvigrúm til launahækkana, en þessi gögn eru vannýtt í undirbúningi verkalýðsins að kjarasamningum. Þar liggur hundurinn grafinn.
Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið 27. maí 2023 um m.a. samskipti Seðlabankans og verkalýðsleiðtoga undir fyrirsögninni:
"Hefur Seðlabankinn brugðizt fræðsluhlutverki sínu ?".
Hún hófst þannig:
""Seðlabankinn skal stuðla að aukinni fræðslu um peningastefnuna og hlutverk Seðlabankans við að tryggja fjármálastöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins." Fræðslan hefur ekki skilað sér; svo mikið er víst. Og ástæðan er sú, að hún fer alls ekki fram. Á Íslandi er sú skoðun nefnilega nokkuð almenn, að rýrnun sparifjár, með því að vextir séu lægri en verðbólga, sé réttlæti. Og ég er ekki bara að tala um pírata, sem telja sparifé almennings í lífeyrissjóðunum fundið fé til að verja til áhugamála sinna. Nei, verkalýðshreyfingin vill, að vextir séu svo lágir, að sparifé félagsmanna rýrni. Og hún vill meira að segja skattleggja tap sparifjáreigenda alveg sérstaklega; auka stórum við eignaupptökuna. Verkalýðsleiðtogarnir og strætóbílstjórinn Erdogan eru nefnilega sömu skoðunar um vexti."
Það var kominn tími til, að verkalýðsformönnum væri sagt til syndanna fyrir einhliða málflutning sinn og fordæmingu á peningastefnunefnd Seðlabankans, og alveg sérstaklega hefur Seðlabankastjóri þá verið í skotlínu þeirra. Í hvert skipti, sem peningastefnunefnd tilkynnir hækkun vaxta, hefja þeir upp raust sína og láta þá eins og vaxtahækkun fylgi einvörðungu kostnaðarauki, en henni fylgir líka leiðrétting á kjörum sparifjáreigenda, eins og Einar S. Hálfdánarson bendir á. Það er einkennilegt, að þessir forystumenn með marga skjólstæðinga skuli ekki gera sér grein fyrir því, að þeir eru staddir í myrkri skilningsleysis á aðgerðum Seðlabankans, og þeir hafa ekki rænu á að leita eftir samtali við bankann, t.d. peningastefnunefnd, um eðli bankans og hlutverk, til að reyna að öðlast innsýn í sjónarmið nefndarinnar.
Frekar vilja þeir þyrla upp moldviðri sökum lögbundinnar launahækkunar æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra, eins og þessar fáu hræður skipti einhverju máli fyrir verðbólguþróunina í landinu. Hvers vegna ætti að skerða launahækkun til þeirra, sem er ekki einu sinni um samin, heldur lögbundin í víðtækri sátt ? Er brennt fyrir það, að nokkuð uppbyggilegt komi frá ASÍ um baráttuna við verðbólguna ? Fyrir því eru þó fordæmi. Ef minnzt er á þjóðarsátt núna, spyrja leiðtogarnir slefandi, hvers vegna þeirra fólk eigi alltaf að bera byrðarnar af því að keyra verðbólguna niður ? Átta þeir sig ekki á afleiðingunum fyrir skjólstæðinga þeirra, ef verðbólgubálið stækkar. Þær eru kreppa, gjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi.
Einar S. spurði réttilega: "Verkalýðsleiðtogar eða talsmenn auðmanna ?":
"Fyrirtækin taka lán. Almenningur lánar fé til rekstrar þeirra. Hagsmunir almennings felast í sanngjörnum afrakstri af takmörkuðu sparifé sínu; atvinnurekendur vilja vexti í lágmarki. Þetta er hin svo nefnda "gírun" í rekstri. Nema hvað; fyrirsvarsmenn almennings gera, óbeðnir, kröfu atvinnurekenda að sinni. Sumir meina líklega vel, en aðrir vilja auka ójöfnuð í þágu byltingarinnar. En engir átta sig á staðreyndum. Núllvextir eru draumur eignamannsins. Ósanngirnin blasir við þeim, sem minna mega sín. Svei svo nefndum verkalýðsleiðtogum, sem bregðast sínu fólki."
Þetta er því miður hlutlægt mat á afstöðu háværra verkalýðsformanna til Seðlabankans og aðgerða hans. Seðlabankinn er vinur verkafólks, en vinnur ekki gegn hagsmunum þess. Óvinurinn er verðbólgan og þeir, sem undir henni kynda. Seðlabankinn hefur látið í ljós, að síðustu kjarasamningar séu þar á meðal. Þessu eiga þeir, sem að kröfugerðinni stóðu þá, erfitt með að kyngja, en þeir verða að bíta í það súra epli, enda lá engin vitræn greining á efnahagslegum afleiðingum þessara kjarasamninga fyrir, þegar þeir voru gerðir. Hvernig væri nú að sjá að sér, ná meiri árangri í þágu umbjóðenda sinna til lengdar í næstu kjarasamningum og láta gera hlutlæga greiningu á því, hversu há almenn launahækkun í landinu má verða án þess að fóðra verðbólguna ?
Jeremy Hunt, fjármálaráðherra Bretlands, gerir sér ljósa grein fyrir skaðsemi og hættum, sem af óhóflegri verðbólgu getur stafað, en ársverðbólga á Bretlandi var 10,1 % fram að maí 2023. Hann sagði í maí 2023:
"Efnahagskreppa í landinu er byrði, sem vert væri að bera, til að ná niður verðbólgu, því að hún orsakar óstöðugleika í þjóðfélaginu."
Með því að beita ráðum, sem duga á verðbólguna, munu landsmenn uppskera ríkulega í kjölfarið. Þetta ber að hafa að leiðarljósi, en ekki hjáróma tækifærissinna, sem fastir eru í hugarfari höfrungahlaups og nöldurs um, að grasið sé grænna hinum megin.
Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2023 nefndist:
"Vítahring verðbólgu verður að rjúfa".
Þar stóð m.a.:
"Landsmenn allir þekkja áhrif verðbólgunnar, þó [að] ekki væri nema af strimli helgarinnkaupanna. Og lántakendur, þeir sjá víst áhrif vaxtahækkana líka. En verðbólgan er verri en aðeins að þessu augljósa leyti; hún er ömurlegur skaðvaldur, sem sóar og eyðir verðmætum, skekkir verðmætamat bæði fólks og fyrirtækja, gerir allar áætlanir ómarkvissar og nagar rætur lífskjara þeirra og velsældar, sem okkur hefur auðnazt að byggja upp á umliðnum árum."
Þetta er í anda þess, sem haft er eftir Jeremy Hunt hér að ofan og gerir að verkum, að verðbólga og neikvæðir raunvextir sparnaðar eru óalandi og óferjandi. Þeir, sem fordæma verðbólguhamlandi aðgerðir, hvaðan sem þær koma, eru þá um leið óalandi og óferjandi. Allir vita, hvar þá er að finna.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Þá er boltinn eftir hjá verkalýðshreyfingunni. Hún hefur heimt gríðarlegar kaupmáttarhækkanir undanfarin ár, en talar eins og þar sé eftir enn meiru að slægjast. Við blasir, að í þessu árferði er það fráleitt og að barátta launþega á að snúast um að varðveita fenginn kaupmátt. Það gerist aðeins og einvörðungu með því að endurheimta verðstöðugleika."
Varanleg kaupmáttaraukning verður aðeins í kjölfar samsvarandi framleiðniaukningar fyrirtækjanna. Hún fæst með fjárfestingum fyrirtækjanna í nýrri tækni, oftast aukinni sjálfvirknivæðingu, og með skipulagsbreytingum. Hver starfsmaður afkastar meiru eftir breytinguna, en er alls ekki alltaf undir meiru líkamlegu eða andlegu álagi. Þess vegna er auðvitað engin sanngirni í því, að verkalýðshreyfingin geti í samningaviðræðum um kaup og kjör, jafnvel með hótunum um ófrið á vinnumarkaði, hrifsað til sín allan ávinninginn og jafnvel meira til. Það er rán, og refsingin er verðbólga og jafnvel atvinnuleysi.
"Vera má, að verkalýðsforystan skelli við því skollaeyrum og vera má að hún nái að berja í gegn miklar kauphækkanir með ófriði á vinnumarkaði. En þá gildir einu, hvort launahækkanirnar nema 5 % eða 500 %, allt mun það fara í verðbólgu, en ekkert í kaupmátt. Sömuleiðis munu mörg fyrirtæki þá ekki sjá aðra leið en uppsagnir, en önnur munu leggja upp laupana. Það er óhugsandi, að verkalýðshreyfingin vilji hafa það á samvizkunni."
Vinnubrögðin, sem ritstjórn Morgunblaðsins lýsir þarna og verkalýðsforystunni er trúandi til, eru með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að hún hefur ekkert lært af sögunni og að hún er ófær um að tileinka sér vinnubrögð hlutlægrar gagnaöflunar og útreikninga á sjálfbærri skiptingu þjóðarkökunnar (verðmætasköpunar fyrirtækjanna) að teknu tilliti til framleiðniaukningar. Á meðan þetta ófremdarástand varir, algerlega að óþörfu, verða skjólstæðingarnir í herkví óðaverðbólgu og hárra vaxta. Formenn verkalýðsfélaganna verða að sjá að sér og marka leiðina í samstarfi við Samtök atvinnulífsins til betra lífs.
"Við svo búið eru kjaraskerðingar óumflýjanlegar; þær eru þegar hafnar. Valið snýst um að leggja þær tímabundið á sig til þess að ná tökum á verðbólgu og auka kaupmáttinn aftur, eða að láta kaupmáttinn brenna upp á verðbólgubáli stjórnlaust án fyrirsjáanlegs enda.
Það er þess vegna, sem allir verða að leggjast á árar með Seðlabankanum við að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Líkt og í þjóðarsáttinni má enginn skerast úr leik."
Verkalýðsforystan hefur ekki að ófyrirsynju fengið harða gagnrýni fyrir óraunsæi og ábyrgðarleysi. Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, fer ekki með fleipur, þegar hann skýrir frá niðurstöðu sinnar greiningar samkvæmt Staksteinum 1. júní 2023:
"Hann rökstuddi, að vaxtahækkanir og verðbólga hér á landi væru í boði verkalýðshreyfingarinnar: "Raunlaun hafa hækkað hér á landi um meira en 8 % á síðustu 4 árum á sama tíma og raunlaun helztu samanburðarríkja hafa staðið í stað eða lækkað. Á Norðurlöndunum hafa raunlaun t.d. lækkað lítillega. Þar hefur þó mælzt framleiðnivöxtur á sama tíma og framleiðni hér hefur staðið í stað.""
Þetta segir allt um, hver brennuvargurinn er. Hann er nú mættur á slökkvistað og reynir að hindra slökkvistörf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.6.2023 | 10:24
Ráðstjórn innan verkalýðshreyfingar
Bezta dæmið um tímaskekkju og stöðnun stéttastríðshugarfarsins fæst með því að líta til verkalýðsfélagsins Einingar. Þar virðast Stalínistar hafa náð völdum og haga sér að vonum dólgslega í vinnudeilum og í samskiptum við starfsfólk verkalýðsfélagsins. Ofstækisfólkið dregur dám af afleitum fyrirmyndum sínum úr Austurvegi. Skrifstofudrama Einingar sýnir svart á hvítu, að stéttastríðspostularnir bera ekki hagsmuni launamanna fyrir brjósti, heldur heldur beita þeim fyrir sinn hugmyndafræðilega hestvagn af ófyrirleitni.
Eining er með á sínum snærum einn prófessor emeritus úr HÍ, sem er alræmdur fyrir óvandaða talnameðferð sína, enda fúskari í þeim efnum. Slík talnameðferð, reist á sandi, er síðan höfð að leiðarljósi í kröfugerð á hendur vinnuveitendum. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur, en það þjónar stefnu formannsins um launakröfur út í loftið til að skapa öngþveiti á vinnumarkaði.
Þann 15. maí 2023 birtist frétt í Morgunblaðinu um vinnubrögð stalínískrar forystu Eflingar undir fyrirsögninni:
"Þetta ástand er bara ekki í lagi".
Hún hófst þannig:
"Ég fæ alveg að heyra það, að ég sé bara fúl yfir að hafa verið rekin", segir Elín Hanna Kjartansdóttir, félagsmaður í Eflingu, þegar hún er spurð, hvort hún sé í herferð gegn stjórn Eflingar. Elín er fyrrverandi bókari félagsins og ein þeirra, sem fóru í mál við Eflingu á sínum tíma. Hún segir aðalfund félagsins 4. maí sl. [2023] sýna, að gagnrýni og athugasemdir við störf stjórnarinnar eigi ekki upp á pallborðið og stjórnin sé búin að hlaða í kringum sig litlum hópi stuðningsmanna og breytingar, eins og nýafstaðin úrsögn úr Starfsgreinasambandinu, séu knúnar í gegn með undir 5 % stuðningi félagsmanna."
Viðhorf forystunnar, sem þarna er lýst, lýsir afkáralegri afstöðu til félagsmanna. Forystan þykist geta ráðskazt með félagið að eigin geðþótta, og það er fjarri henni, að henni beri lýðræðisleg skylda til að þjóna félagsmönnum. Téð úrsögn úr Starfsgreinasambandinu var hefndaraðgerð í garð þeirra, sem riðu á vaðið með samningsgerð við vinnuveitendur í kjarasamningalotunni veturinn 2023. Þá hugðist þessi forneskjulegi formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, blása til stórátaka á vinnumarkaði, nokkuð sem er það alheimskulegasta og fjærst hagsmunagæzlu við skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, sem nokkur formaður í verkalýðsfélagi getur látið sér detta í hug að taka sér fyrir hendur.
"Þegar reikningarnir [ársreikningur 2022] voru komnir á vefinn, sá Elín strax, að enginn tími var til þess að kynna sér þá í þaula, en hún renndi hratt yfir skýrsluna. Hún segir, að hún hafi strax rekið augun í það, að ekki stafkrókur var um hópuppsagnirnar 2022 né dómstólamálið fyrir uppsögnina á trúnaðarmanni og dómana, sem féllu í málum þriggja félagsmanna, sem sagt var upp. "Þetta var bara eins og sovézk sögufölsun", segir hún og ákvað að leggja fram bókun og mæta á aðalfundinn."
Þessi frásögn lýsir afspyrnu ómerkilegu fólki og fullkominni lágkúru, sem nú ríkir í stjórn verkalýðsfélagsins Eflingar, og þetta fólk svífst einskis, er siðblint, því að það neitar að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna og reynir að afmá þær úr sögu félagsins, en það er auðvitað einhvers konar strútsheilkenni og lýsir fullkomnu dómgreindarleysi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2023 | 11:34
Kjarnorkuógnin
Aðfararnótt 16. maí 2023 skutu Rússar 6 ofurhljóðfráum eldflaugum af gerðinni Kh-47M2 Dagger á Kænugarð á 2 mín skeiði frá flugvélum og skipum úr 3 höfuðáttum. Aðalskotmarkið mun hafa verið Patriot-loftvarnarkerfið, sem nýlega var sett upp í eða við Kænugarð. Því er skemmst frá að segja, að úkraínska flughernum tókst að skjóta allar þessar ofurhljóðfráu eldflaugar niður áður en þær náðu ætlaðri endastöð. Þar mun 40 ára gömul tækni Patriot-loftvarnarkerfisins hafa komið að betri notum gegn "næstu kynslóðar" árásarvopni stríðspostulans Putins í Kreml en flestir áttu von á. Þetta er betri árangur varnarvopnanna en menn þorðu að vona, enda lét einræðisherrann handtaka 3 vísindamenn, sem tóku þátt í hönnun Dagger-flaugarinnar, og ákæra þá fyrir landráð. Rússneska vísindasamfélagið var ekki beysið fyrir, og vonandi tekst hryðjuverkamanninum í bunkernum að eyðileggja síðasta hvatann til afreka, sem þar kann að hafa leynzt.
Nú lætur hann flytja bæði vígvallarkjarnorkuvopn (tactical nuclear warheads) og gjöreyðingarkjarnorkuvopn (strategic nuclear warheads) til Hvíta-Rússlands. Það er furðuleg ráðstöfun, en sýnir kannski, að hann óttast, hvað gerast mun, ef/þegar þeim verður skotið á loft. Það er þá huggun harmi gegn vestanmegin, að bráðlega verður vissa fyrir því, að allt, sem stríðsglæpamennirnir senda á loft geta Vesturveldin (Úkraína er nú og verður í þeim hópi) skotið umsvifalaust niður. MAD (Mutually Assured Destruction), sem hefur verið skálkaskjól rússnesku herstjórnarinnar, er þess vegna ekki lengur fyrir hendi. Yfirburðir Vesturveldanna í lofti ættu nú að vera öllum augljósir, jafnvel stríðsóðum litlum rússneskum karli í bunkernum sínum.
Framferði rússneska hersins við stærsta kjarnorkuver Evrópu í Zaphorizia í Suður-Úkraínu ætti að hafa fært ollum heim sanninn um, að í Kremlarkastala eru nú við völd hryðjuverkamenn, sem einskis svífast og meta mannslíf einskis annarra en sjálfra sín. Þeir hafa gerzt sekir um það fáheyrða tiltæki að breyta lóð kjarnorkuversins í víghreiður skriðdreka og stórskotaliðs, og þeir hafa skotið á og sprengt upp flutningslínur að orkuverinu. Með þessu leika þeir sér að eldinum, því að án tengingar við stefnkerfið getur verið ekki framleitt raforku, og þá verður kæling kjarnakljúfanna algerlega háð dísilrafstöðvum. Þetta eykur til muna hættuna á ofhitnun kjarnkljúfanna, sem þá bráðna og hættuleg geislun eða jafnvel geislavirkt rykský sleppur út í andrúmsloftið. Svona haga aðeins samvizkulausir glæpamenn sér.
Þann 15. maí 2023 birti Sveinn Gunnar Sveinsson ískyggilega frétt í Morgunblaðinu um mikil ítök Rússa á markaðinum fyrir úranið, sem koma má stýrðri klofnun atóma af stað í og hentar fyrir kjarnorkuver. Þarna opinberast enn sú barnalega trú, sem Vesturveldin höfðu, að Rússum væri treystandi til að eiga við þá viðskipti að siðaðra manna hætti, en nú vita allir, sem vita vilja, að virðing þeirra fyrir gerðum samningum er svipuð og virðing þeirra fyrir mannslífum, þ.e.a.s. engin. Orðum þeirra er ekki treystandi, þeir eru lygnari en Münchausen og sitja á svikráðum við Vesturlönd.
Fréttin var undir fyrirsögninni:
"Uppbygging kjarnorkuvera háð Rússum",
og hófst hún þannig:
"Uppbygging kjarnorkuvera hefur tekið nokkurn kipp á síðustu misserum, og hafa bæði Bandaríkin og svo ýmis ríki Evrópu opnað ný kjarnorkuver og/eða sett upp nýja kjarnaofna við þau ver, sem fyrir voru. Einn helzti vandinn við áframhaldandi uppbyggingu kjarnorkuveranna er þó sá, að kjarnaeldsneytið í ofnana kemur einkum frá Rosatom, rússnesku kjarnorkumálastofnuninni."
Vesturlönd verða að taka þetta skæða vopn úr höndum Rússa, eins og þau losuðu sig við Rússa sem birgja fyrir jarðefnaeldsneyti á einu ári, og aðgerðir eru í gangi með kjarnorkueldsneytið.
"En á sama tíma og Úkraínustríðið hefur fengið flest ríki Evrópu til þess að sniðganga jarðgas- og olíukaup frá Rússum, hefur kjarnorkan aftur komizt í "tízku" sem grænn orkugjafi. Finnar gangsettu t.d. í síðasta mánuði stærsta kjarnaofn Evrópu, og á verið að sinna um 1/3 af orkuþörf Finnlands.
Þá tilkynntu Pólverjar í nóvember [2022], að þeir ætluðu að reisa sitt fyrsta kjarnorkuver í samstarfi við bandaríska orkufyrirtækið Westinghouse Electric, og hyggst fyrirtækið smíða 3 kjarnaofna. Mun verkefnið kosta um mrdUSD 20 eða sem nemur um mrdISK 2775.
Stjórnvöld í Búlgaríu hafa sömuleiðis gert samkomulag við Westinghouse um kaup á kjarnaeldsneyti og um byggingu nýrra kjarnaofna. Þá eru stjórnvöld í Slóvakíu og Ungverjalandi einnig að huga að uppbyggingu, svo [að] nokkur dæmi séu nefnd.
Vandinn er hins vegar sá, að framleiðslugeta Vesturlanda á kjarnaeldsneyti er ekki næg til að mæta þessari uppbyggingu, og áætlað er, að það geti tekið allt að áratug áður en hún verður það. Þess í stað er treyst á eldsneyti frá rússnesku kjarnorkumálastofnuninni, Rosatom."
Bómullarpólitíkusar Evrópu og Bandaríkjanna töldu sér trú um það til hægðarauka án þess að gefa gaum að ýmsum hættumerkjum, sem m.a. birtust í hrokakenndum furðuræðum og ritgerðum Putins um mikilleika og sögulegt forystuhlutverk Rússlands í hinum slavneska heimi, að óhætt væri að afhenda Kremlverjum fjöregg Vesturlanda, orkugjafana. Þegar á fyrstu mánuðum hernámstilraunar Rússa á Úkraínu, sem hófst með allsherjar árás 24.02.2022, kom í ljós, að Kremlverjar ætluðu sér alltaf að ná kverkataki á Evrópu sem orkubirgir hennar.
Á fyrstu mánuðum stríðsins, þegar vinglar í áhrifastöðum á Vesturlöndum sýndu dómgreindarleysi sitt með því að draga lappirnar við vopnaafhendingu til Úkraínumanna af ótta við viðbrögð pappírstígrisdýrsins í austri, tóku Búlgarar lofsvert frumkvæði og sendu mikið vopna- og skotfæramagn úr geymslum sínum frá Ráðstjórnartímanum ásamt dísilolíu til Póllands, þaðan sem Úkraínumönnum barst fljótlega þessi aðstoð, sem talin er hafa bjargað þeim á viðkvæmu skeiði stríðsins, en Búlgarar fengu vestræn vopn í staðinn. Þegar Putin frétti af þessu, lét hann skrúfa fyrir jarðgasflutninga frá Rússlandi til Búlgaríu. Þá sneru Búlgarar sér til Bandaríkjamanna, sem brugðust snöfurmannlega við og sendu strax 2 LNG skip fullhlaðin til Búlgaríu. Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust og baráttuanda Vesturlanda. Evrópa fékk svo að kenna á hinu sama um haustið 2022, en var þá tilbúin og bjargaði sér úr klóm Putins með viðskiptasamningum við Bandaríkjamenn og Persaflóaríki. Það er ekki glóra í að verða háður Rússum um nokkurn skapaðan hlut.
"Í fréttaskýringu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) er þessi sterka staða rússneska kjarnorkuiðnaðarins rakin til samkomulags, sem gert var árið 1993 og kallaðist "Úr megatonnum í megawött". Tilgangur samkomulagsins var að draga úr líkunum á því, að sovézk kjarnorkuvopn mundu falla í rangar hendur, en það fól í sér, að Bandaríkin keyptu 500 t af auðguðu úrani af Rússum og breyttu því í kjarnorkueldsneyti.
Þetta mikla magn af úrani var ígildi um 20 k kjarnaodda, og þótti samkomulagið því [vera] arðbært fyrir bæði Bandaríkjamenn og Rússa, þar sem Rússar fengu fjármagn og Bandaríkjamenn drógu mjög úr fjölda kjarnaodda, sem annars hefðu getað farið á flakk.
Vandinn samkvæmt greiningu WSJ var sá, að hið mikla magn kjarnaeldsneytis, sem nú var komið tiltölulega ódýrt á markaðinn, hafði áhrif á aðra framleiðendur, sem neyddust fljótlega til að rifa seglin. Áður en langt um leið sáu Rússar um nærri helming þess auðgaða úrans, sem var til sölu. Árið 2013 gerði Rosatom svo samkomulag við bandaríska einkaaðila um að veita þeim eldsneyti til kjarnaofna, og sjá Rússar því um allt að fjórðung þess [kjarnorku] eldsneytis, sem Bandaríkin þurfa.
Orkukreppan, sem blossaði upp í kjölfar innrásarinnar í fyrra [2022], ýtti einnig upp verði á kjarnaeldsneyti, og áætlaði Darya Dolzikova hjá brezku varnarmálahugveitunni RUSI nýlega, að bandarísk og evrópsk fyrirtæki hefðu keypt slíkt eldsneyti af Rússum fyrir rúmlega mrdUSD 1 árið 2022, á sama tíma og Vesturlönd drógu stórlega úr kaupum sínum á öðrum rússneskum orkugjöfum."
Hér veitir ekki af að taka hraustlega til hendinni. Vesturlönd verða að verða sjálfum sér næg með auðgað úran, sem hægt er að vinna áfram fyrir kjarnorkuverin á allra næstu árum. Ef takast á að auka umtalsvert hlutdeild rafmagns á markaðinum, sem ekki er framleitt með jarðefnaeldsneyti, verður að fjölga kjarnorkuverum verulega, og þar með mun spurn eftir unnu úrani vaxa. Það er ekki hörgull á því í náttúrunni á Vesturlöndum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)