Færsluflokkur: Umhverfismál

Staðsetning virkjana skiptir máli

Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra.  Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið.  Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ?  Eru það bara orðin tóm ?

Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi: 

"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"

Þar mátti m.a. lesa:

"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana.  Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027.  Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina. 

Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun.  Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga.  Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu.  Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."  

Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum.  Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið.  Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".   


Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB

Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands.  Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.  

Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot".  Á hún yfirleitt við á Íslandi ?  Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð.  Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ?  Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina. 

Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði.  Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér. 

Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"

Þar kom m.a. fram:

"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins.  Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.

Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar.  Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun. 

"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."

Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar.  Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra.  Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa  ána ?  Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ?  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess.  Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.

""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi.  Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir.  Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:

"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."

Dómurinn er hæpinn.  Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt.  Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt.  Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru. 

 

 

  

 


Hlutverk vindorkuvera á Íslandi

Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins.  Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver.  Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir.  Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg. 

 Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku.  Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári.  Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu.  Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.  

Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar.  Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu).  Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni. 

Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn  en þarf  til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun.  Þarna er því ólíku saman að jafna.  Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla.  Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum.  Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni. 

 

Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C.  Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ.  Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005.  "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu.  Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði.  Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun.  Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2. 

Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni: 

"Loftslagsmál og orka",

er m.a. fjallað um orkuskipti:

"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum".  Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.

Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta.  Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."

Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum.  Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum.    Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð.  Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun. 

Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt.  Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum.  Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum.  Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana. 

Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a.  eftirfarandi að segja: 

"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra.  Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps.  Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar.  Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku.  Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti." 

Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis.  Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings.  Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa.  Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar.  Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.  

 

  

 


Framlag Björns Lomborg

Björn Lomborg hefur lagt margt nytsamlegt til loftslagsmálanna og til baráttunnar við örbirgð í heiminum, t.d. með því að benda á, hvernig fjármunir nýtast bezt við að fást við þessi viðfangsefni.

Hann hefur bent á arfaslakan árangur af loftslagsstefnu Sameinuðu þjóðanna (Sþ), sem fram kemur í aukningu losunar koltvíildis allt fram á þennan dag, t.d. frá kolaorkuverum.

Á Bretlandi hófst kolabrennsla með iðnbyltingunni. 30. september 2024 lauk þessu kolabrennslutímabili á Bretlandi, þegar síðasta kolakynta orkuverinu var lokað þar.  Aðeins þriðjungur ríkja OECD býr nú við kolalausa raforkuvinnslu.  Um þriðjungur af raforkuvinnslu heimsins á sér stað í kolakyntum orkuverum um þessar mundir.  Flest eru þau staðsett í s.k. þróunarríkjum, sem telja þau nauðsynlega undirstöðu hagvaxtar hjá sér.  Þungvæg rök mæla þó gegn rekstri þeirra.  Loftmengun kolaorkuvera verður árlega milljónum manna að aldurtila.  Þau leggja mikið til gróðurhúsaáhrifanna, sem bitna mest á fátækum ríkjum.  Samt hillir ekki undir, að þau verði aflögð. 

Samkvæmt BloombergNEF-rannsóknarfyrirtæki óx kolanotkun heimsins 2023 um 4,5 % og náði hæstu hæðum í sögunni, og kolin fóru að mestu til raforkuvinnslu.  Orkuvinnslugeta kolaorkuvera hefur vaxið um 11 % frá 2015 samkvæmt E3G-ráðgjöfum.  Það eru núna meira en 6500 kolaorkuver í rekstri með uppsett afl um 2245 GW, og enn er verið að reisa slík ver.  Þar sem kolaorkuver losa mun meira kolefni per orkueiningu út í andrúmsloftið en orkuver knúin olíu eða jarðgasi, eru þau sérlega óheppileg til raforkuvinnslu, en þau standa undir 41 % af losun gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis. 

Björn Lomborg hefur skrifað margt af skynsamlegu viti og þekkingu um misheppnaða baráttu Sþ við loftslagsvána.  Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2024 undir fyrirsögninni:

"Nýársheit til framfara - gerum það, sem virkar"

"En hinn grimmilegi [grimmdarlegi] sannleikur er sá, að alþjóðlegt samstarf hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarinn áratug.  Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 169 punkta áætlun til að leysa fyrir árið 2030 öll vandamál, sem mannkynið stóð þá frammi fyrir.  [Þessi markmiðasetning er með ólíkindum óraunsæ og sýnir í hnotskurn vitleysuna, sem viðgengst innan Sþ - innsk. BJo.]  Hin svokölluðu heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af öllum leiðtogum heimsins með góðum ásetningi [líklegast þó engum ásetningi - innsk. BJo]. Nú þegar 5 ár eru eftir af þessum 15, erum við hvergi nálægt lagi, hvað snertir öll 169 loforðin.  Baráttan gegn fátækt, sjúkdómum og hungri hefur misst kraftinn.  Af hverju náum við ekki betri árangri ?  Að miklu leyti vegna þess, að við reynum að gera of mikið.  Ef við ætlum að einbeita okkur að öllu, þýðir það, að við höfum engu forgangsraðað og áorkað mjög litlu. 

Nýtt ár býður upp á nýtt tækifæri.  Í stað þess að reyna að gera allt - bæði sem samfélag og sem einstaklingar með okkar eigið framlag - ættum við að einbeita okkur að þeim aðgerðum, sem skila mestum framförum.  Það eru þær aðgerðir, sem skila mestri arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir."

Þetta eru heilbrigð viðhorf og höfundi þessa pistils dettur í hug, að leitun hljóti að vera að verkefnum, sem skila meiri "arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir" en virkjun íslenzkra vatnsfalla og jarðgufu. Samt hefur afturhaldinu á Íslandi tekizt að drepa þessu máli á dreif með fullyrðingum út í loftið um, að enginn raforkuskortur sé á Íslandi.  Að baki þessari röngu fullyrðingu liggja þau falsrök, að losa megi um mikla raforku og hleypa henni á markaðinn með því að taka núverandi raforkunotendur stóriðju, sem allir eru með langtímasamninga við aðallega Landsvirkjun og OR, kverkataki og draga stórlega úr umsaminni orkuafhendingu þangað. Hér eru á ferðinni draumórar villta vinstrisins á Íslandi, sem skeyta hvorki um skömm né heiður og mundu ekki víla fyrir sér að eyðileggja gjörsamlega orðstír Íslands á alþjóðlegum fjárfestinga- og peningamarkaði. Það er ótrúleg blinda og heimska, sem að baki liggur, enda synjuðu kjósendur þessum pólitísku öflum, sem einnig er að finna í Landvernd, um seturétt á Alþingi í kosningunum 30.11.2024. Mörgu ófélegu skolaði reyndar á land þar, sem landsmenn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með, en þó ekki þessu. 

"Þegar barnshafandi móður skortir nauðsynleg næringarefni og vítamín, verður vöxtur og heilaþroski barnsins hægari.  Börnin hennar eru dæmd til verra lífs.  Jafnlág upphæð og USD 2,31 getur tryggt, að verðandi móðir fái fjölvítamín, sem þýðir, að börnin hennar verða heilbrigðari, klárari og afkastameiri.  Hver USD, sem varið er í fæðubótarefni fyrir barnshafandi konur, getur skilað allt að USD 38 í efnahagslegum ávinningi.  Þetta er ekki fjarlæg útópía.  Þetta er raunhæf, sannreynd lausn, sem hægt væri að útfæra strax á mun stærri skala."

 Þetta er ein af góðum hugmyndum Kaupmannahafnarhugveitunnar um aðstoð við fátækar þjóðir, sem skilar betri árangri en margt það, sem nú er gert í þeim efnum af takmörkuðum skilningi á aðstæðum, svo að ekki sé nú talað um sóunina í nafni loftslagsins.  Á Íslandi hefur draumórafólki t.d. dottið í hug að flytja inn koltvíildi frá útlöndum til að farga því með niðurdælingu með ærnum tilkostnaði í Straumsvík.  Þegar búið er að skilja CO2 frá verksmiðjuafsogi, er komið hráefni, sem nota má hreinsað við ræktun í gróðurhúsum eða sem blöndunargas í vetni við rafeldsneytisframleiðslu.  Skrýtið að láta sér detta í hug mikið fjárfestingarverkefni til að dæla verðmætum ofan í jörðina. 

  

  


Afar árangurslítil loftslagsstefna

Mannkynið hefur gert orkubyltingar áður með árangursríkum hætti, en þá að frumkvæði markaðarins og hið nýja orkuform hefur verið tilbúið til að taka við. Nú er staðið öðruvísi að málum, enda hefur þeim verið klúðrað.  Stjórnmálamenn hafa ákveðið að venja mannkynið af að nota jarðefnaeldsneyti, og bera því við, að ella geti andrúmsloft jarðar hitnað meira en svo, að lífvænlegt verði á jörðunni fyrir mannkyn.  Koltvíildi, CO2, sem losnar úr læðingi við bruna jarðefnaeldsneytis, er gróðurhúsalofttegund, þ.e. hún endurvarpar og/eða sýgur í sig hitaendurkast frá jörðu.  Um þetta er ekki deilt, en það ríkir ágreiningur á meðal vísindamanna um það, hversu hratt andrúmsloftið hitnar af þessum völdum, og það hefur áður orðið hlýrra, þó að styrkur koltvíildis hafi ekki aukizt.  Ýmsar gervihnattamælingar hitastigs andrúmslofts, sem unnið hefur verið úr við Alabama-háskólann í Bandaríkjunum, sýna mun lægri hitastigul en þann, sem Milliríkjaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál heldur fram, að sé við lýði. Þá eru kenningar á lofti um, að styrkur koltvíildis hafi þegar náð hámarkseinangrunargildi, svo að frekari losun hafi ekki áhrif á hitastig andrúmslofts.

Hitt atriðið, sem er frábrugðið nú m.v. fyrri orkuskipti, er, að nýtt orkuform er ekki fyrir hendi til að taka við af jarðefnaeldsneytinu. Eðlilegt viðbragð hefði verið að leggja höfuðáherzlu á þróun nýrrar orkulindar, en í staðinn hefur fjármagni verið beint að gölluðum orkulindum, vindi og sól.

Kaupmannahafnarhugveitan undir forystu Björns Lomborg hefur lengi haldið því fram, að opinberu fé í þennan málaflokk væri bezt varið til rannsókna í því skyni að leiða fram frambærilega valkosti.  Til að geta kallazt frambærilegur valkostur, þarf nýja orkuformið að endast í a.m.k. 100 ár m.v. fulla notkun, og nýting þess verður að vera ódýrari en nýting jarðefnaeldsneytis.  Eftirlæti stjórnmálamanna hingað til sem valkostir eru vindhverflar, sem knýja rafala, og sólarhlöður tengdar rafölum, en hvorugur þessara kosta getur óniðurgreiddur keppt við jarðefnaeldsneyti, hvorki í orkumagni né verði.  Líklegast er, að þróunin leiði fram einhvers konar kjarnorkuhverfla, sem knýja rafala. 

Björn Lomborg skrifaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 02.12.2024, undir fyrirsögninni:

"Dýr loftslagsstefna er dauð - og það gæti verið stórt tækifæri".

Hún hófst þannig:

"Nýliðin lofslagsráðstefna var jafnhræsnisfull og gagnslaus og allar fyrri slíkar ráðstefnur, þar sem fæstir stjórnmálaleiðtogar heimsins nenntu ekki einu sinni að mæta.  Samt flugu um 50 k manns hvaðan æva að úr heiminum á ráðstefnuna og sögðu okkur hinum um leið að hætta að fljúga. Leiðtogar frá fátækari löndum skipulögðu sýndargjörning, þar sem þeir "gengu út", og ríkar þjóðir enduðu á að lofa loftslagssjóði upp á 300 mrdUSD/ár. 

 Fjárhagsaðstoð vestrænna þjóða við s.k. vanþróaðar þjóðir hefur að miklu leyti farið í súginn og ekki gagnast alþýðunni í þessum ríkjum.  Það er ekki einfalt fyrir aðkomumenn frá Vesturlöndum að reyna að skilja gang mála í hinum s.k. Þriðja heimi, og þess vegna má gera því skóna, að ráðstefnur "elítanna", sem fjalla um miklar fjárhagslegar yfirfærslur, séu svikamylla sett á til höfuðs ofkeyrðum skattborgurum Vestrænna ríkja.  Öllu meira vit er í, að Alþjóðabankinn styrki og láni til framkvæmda við mótvægisaðgerðir gegn afleiðingum hlýnunar, hækkunar sjávarborðs o.þ.h. og hafi með þeim strangt eftirlit.

"Koltvísýringslosun heldur áfram að aukast vegna þess, að ódýr og áreiðanleg orka, sem kemur að mestu frá jarðefnaeldsneyti, knýr hagvöxt.  Rík lönd eins og Bandaríkin og aðildarríki Evrópusambandsins eru byrjuð að draga úr losun, en aðrir heimshlutar eiga fullt í fangi með að fást við fátækt.

Ríku löndin hafa reynt að múta þeim fátæku til að samþykkja minni losun, aðallega með því að taka hefðbundna þróunaraðstoð og gefa henni nafnið loftslagsskuldbindingar.  Ekki kemur á óvart, að yfirborðskennd loforð ríkra þjóða hafa leitt til yfirborðskenndrar þátttöku fátækra landa í loftslagsleikritinu, á meðan þau auka í raun hagvöxt sinn með sívaxandi notkun jarðefnaeldsneytis.  Að lofa hundruðum milljarða [USD] til viðbótar, sem ríku löndin hafa í raun ekki efni á, er aðeins ávísun á meiri leikaraskap frá öllum aðilum."

Loftslagsstefna Sameinuðu þjóðanna er sorgarleikur, reistur á vanhugsaðri hugmyndafræði stjórnmálamanna, sem aldrei gat gengið upp, hreinn kjánaskapur, því að tæknin er ekki tilbúin.  Verðandi Bandaríkjaforseti boðaði í kosningabaráttunni, að hann myndi draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, næði hann kjöri.  Það verður væntanlega banabiti þessarar vonlausu stefnu, því að sáralítið munar um Evrópu eina.  Þar að auki hefur hún ekki ráð á þeim viðbótar kostnaði, sem af stefnunni leiðir fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, hefur í viðamikilli skýrslu varað alvarlega við lélegri og versnandi samkeppnishæfni Evrópusambandsins (ESB), og hátt orkuverð og kolefnisgjöld eiga þar hlut að máli.  Draghi hefur komið auga á, að reglugerðafargan ESB er dragbítur á samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland er bundið á klafa ESB í þessum dæmalausu loftslagsmálum.

"Grænir aðgerðasinnar halda því fram, að alþjóðleg orkuskipti frá jarðefnaeldsneyti séu óstöðvandi, en á síðasta áratugi og jafnvel bara á síðasta ári, hefur notkun orku frá jarðefnaeldsneyti aukizt tvisvar sinnum meira en notkun grænnar orku.  Jafnvel bandaríska orkumálastofnunin, sem starfar undir stjórn Bidens, spáir því, að notkun jarðefnaeldsneytis muni aukast fram til ársins 2050."

Það er himinn og haf á milli þess, sem gerist á árlegum  ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, þangað sem tugþúsundir fljúga, og raunveruleikans. Sameinuðu þjóðunum virðast mjög mislagðar hendur við úrlausn hvers kyns verkefna.  Þar eru skrifaðar langar skýrslur, en þær virðast ófærar um að móta raunhæfa stefnu í nokkru mikilvægu máli.  Reksturinn er rándýr, og þar grasserar spilling.  Hvenær verður þetta misheppnaða  eftirstríðsfyrirbrigði (1945) lagt niður í sinni núverandi mynd ? Stóryrði og hræðsluáróður núverandi framkvæmdastjóra (Sþ) orka mjög tvímælis. 

Þýzkaland þykir vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og er það á mörgum sviðum, en þrátt fyrir öll vindorkuverin og sólarhlöður á þökum húsa mundi það taka Þjóðverja hálfa öld að losna úr viðjum jarðefnaeldsneytis með núverandi framvindu. 

"Áætlunin um enga nettólosun gróðurhúsalofttegunda, sem reist er á gríðarlegum ríkisstyrkjum og kostnaðarsömum lagasetningum, mun kosta TriUSD 27/ár á þessari öld  [Tilljón USD = 1000 mrdUSD], sem gerir hana fullkomlega fráhrindandi fyrir flest lönd.  Trump mun henda þessum áætlunum í ruslið.  Án gríðarlegra millifærslna peninga munu Kína, Indland og mörg önnur þróunarlönd einnig hafna þessari áætlun.  Þá er eftir sundurleitur hópur, aðallega frá Evrópusambandinu, sem hefur í raun varla efni á eigin áætlunum og enga getu til að fjármagna önnur lönd."  

Þetta verkefni þarf að eftirláta "frjálsum" markaði og liðka fyrir tæknilegri þróun á raunhæfum valkostum við jarðefnaeldsneytið með rannsóknarstyrkjum og skattaafslætti vegna slíks þróunarkostnaðar, en draga úr opinberum stuðningi við vindrafstöðvar og sólarhlöður.  Eitt af því, sem vonir eru bundnar við núna, eru 4. kynslóð kjarnorkuvera. 

"Þróun grænnar orku, þannig að hún verði ódýrari en jarðefnaeldsneyti er eina leiðin til að fá alla til að breyta um stefnu.  Þessi aðferð getur jafnvel sannfært stjórnmálamenn, sem eru fullir efasemda um loftslagsbreytingar, þar sem þeir sjá mikla möguleika í ódýrari orku."

Íslendingar eru í einstakri stöðu varðandi, hvað mun leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á Íslandi, á láði, legi og í lofti.  Það eru nýjar virkjanir vatnsfalla og jarðgufu.  Ef nóg framboð verður af nýjum virkjunum þessara orkulinda, verður spurn eftir vindorku ekki mikil.  Hún kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við hinar orkulindirnar tvær, hvað kostnað, rekstraröryggi og umhverfisrask varðar.  Rafeldsneyti er afar kostnaðarsamt í framleiðslu m.v. orkuna, sem úr því fæst, svo að sjálfsagt er að beina sjónum að lífeldsneyti, t.d. repjuolíu, og efla þannig innlendan landbúnað. Hagkvæm tækni til að knýja minni loftför með rafmagni og jafnvel flugvélar til að halda uppi innanlandsflugi, gæti komið fram í lok þessa áratugar. 

Landsmönnum hefur tekizt að koma sér upp miklu sjálfskaparvíti, þar sem er undirbúningsferli og leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir.  Vonandi tekst fljótlega að vinda ofan af því, þar sem reginafturhaldinu og sérvitringastóðinu, VG og pírötum, var hent úr af Alþingi í síðustu kosningum, en vafalaust þarf að glíma við skoðanasystkini þeirra í embættismannastóðinu. 

"Loftslagsaðgerðasinnar geta eytt næstu 4 árum í áframhaldandi stuðning við áætlun, sem hefur mistekizt síðustu 3 áratugi og mótmælt stefnu Trump-stjórnarinnar.  Hinn kosturinn er að nýta tækifærið til að endurhugsa skynsamlegri og mun ódýrari græna nýsköpunarstefnu - og sinna öllum hinum brýnu vandamálum heimsins." 

Hin ósjálfbæra og óskynsamlega viðtekna loftslagsstefna er borin uppi af fjölda möppudýra á opinberu framfæri og einhvers konar trúarhetjum, sem tala og skrifa eins og heilaþvegnir hafi verið.  Þetta fólk mun þess vegna halda uppteknum hætti, berja hausnum við steininn og sópast á fundi og alþjóðlegar ráðstefnur, sem engu skila fyrir skattborgarana.   

 

 


Eldsneytisframleiðsla á Íslandi

Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi.  Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti.  Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum.  Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.

Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan.  Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW.  Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).  


Iðnaður í heljargreipum raforkuskorts

Það er til vitnis um breytileika tilverunnar og ófyrirsjánlega framtíð fyrirtækja á þeirri stundu, þegar fjárfesting fer fram, að raforkuskortur ár eftir ár á Íslandi skuli standa framleiðslunni fyrir þrifum og þar með ávöxtun fjárfestinganna. Vitað var, að vatnsrennsli gæti brugðið til beggja vona í u.þ.b. 3 ár á 30 ára tímabili, en nú er orðin regla fremur en hitt, að vatnsskortur herji á Þjórsár/Tungnaár virkjanir Landsvirkjunar.  Þáttur í þessu óeðlilega ástandi er aukning álags á kerfið án nokkurra nýrra "stórra" virkjana síðan Búrfellsvirkjun 2 kom til skjalanna, en henni var ætlað að nýta umframrennsli, sem vart hefur verið fyrir hendi um árabil.

Þessi slæma staða orkuvinnslunnar mun skána árið 2029, þegar Hvammsvirkjun með sín 95 MW kemst loks í gagnið, en hún mun nýta sama vatnið og virkjanirnar ofar í Þjórsá gera. 

Þessi staða sýnir líka, hversu mikilvægar jarðgufuvirkjanirnar eru, en frá gangsetningu Þeistareykjavirkjunar hefur engin slík virkjun verið tekin í notkun.  Þær eru að vísu háðar árlegum niðurdrætti í gufuforðabúri hverrar virkjunar, en hann er mun fyrirsjáanlegri og veldur minni samdrætti í orkuvinnslugetu en slök vatnsrennslisár geta valdið.  Þess vegna þarf að leggja áherzlu á báðar gerðir þessara hefðbundnu virkjana á Íslandi. 

Á seinni árum hefur 3. gerð virkjana náttúrulegra orkulinda verið til umræðu á Íslandi, en það eru vindorkuverin.  Þau eru langóstöðugust allra þessara 3 valkosta, og var þó ekki á óstöðugleikann bætandi.  Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við s.k. Búrfellslund, um 100 MW, sem er raunhæf stærð í því orkuumhverfi, en gjalda verður miklum varhug við stærð "vindmyllugarðs" í Fljótsdal, sem er áformaður 350 MW að uppsettu afli.  Að þessi óstöðuga raforkuvinnsla gangi truflanalaust upp á Austurlandi þarf að sannreyna með keyrslum í hermilíkönum, því að annars er reglunarvandi raforkukerfisins viðbúinn með óstöðugleika í tíðni og spennu sem afleiðingu. Íslendingar eru hvekktir af kostnaðarsömum áföllum í raforkukerfinu bæði af völdum vatnsskorts og snöggra breytinga á álagi eða framleiðslugetu.  Þegar kerskáli Norðuráls á Grundartanga leysti út eða var leystur út haustið 2024, olli það meiri spennuhækkun á svæði Kröflu og Þeistareykjavirkjunar en notendabúnaður réði við, svo að stórtjón varð á rafbúnaði.  Þessa sviðsmynd hefðu Landsnet og Landsvirkjun átt að sjá fyrir og hafa sjálfvirkar mótvægisaðgerðir tiltækar til að varðveita kerfisjafnvægi.  

Í Morgunblaðinu 25. október 2024 gerði blaðamaðurinn Ólafur E. Jóhannsson grein fyrir helztu afleiðingum afl- og orkuskerðinga Landsvirkjunar, sem nú eru hafnar eða á döfinni í vetur, undir fyrirsögninni:

"Milljarða tekjutap vegna skerðinga".

Fréttin hófst þannig:

 "Landsvirkjun hefur boðað skerðingar á forgangsorku [rangt, hér er átt við ótryggða orku-innsk. BJo] til 11 stórnotenda sinna, og þurfa þá fyrirtækin í einhverjum tilvikum að draga úr starfsemi sinni sem því nemur.  Hér er um að ræða álverin á Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, kísiljárnsverksmiðjuna við Húsavík, 4 gagnaver með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu, aflþynnuverksmiðju á Akureyri og fiskeldisfyrirtæki í Þorlákshöfn. Þar við bætast fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem munu þurfa að keyra vélar sínar á jarðefnaeldsneyti.

 Raforkuskeðingar hófust í gær [24.10.2024] á Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi munu þær hefjast eftir mánuð [mánuði síðar].  Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að ekki sé hægt að segja til um, hversu lengi þær muni standa, en reikna megi með skerðingum til til næsta vors [2025].  Skerðing á raforku til stórnotenda Landsvirkjunar er bundin í samninga, þannig að þegar staða miðlunarlóna er lág, er heimilt að skerða afhendingu raforku. 

 Ekki er ljóst, hvert tekjutap Landsvirkjunar verður vegna þeirra skerðinga, sem fyrirtækið er nauðbeygt til að grípa til, en tekjutap fyrirtækisins vegna skerðinga fyrr á þessu ári nam hundruðum milljóna ISK." 

Landsvirkjun hefur ekki jafnfrjálsar hendur með að ganga í skrokk á viðskiptavinum sínum, þegar vatnsskortur er, hvort sem vatnsbúskapurinn er í aumara lagi eða látið hefur verið undir höfuð leggjast að bæta við virkjunum, nema hvort tveggja sé, og þarna er gefið til kynna, því að á hverju 5 ára tímabili má orkuskerðingin ekki fara yfir ákveðinn fjölda MWh hjá hverju fyrirtæki.  Landsvirkjun verður þannig skaðabótaskyld, ef hún tekur upp á því að skerða forgangsorku eða ótryggða orku yfir ákveðin mörk, nema um "Force Majeur" ástand eða óviðráðanlega atburði sé að ræða. 

Hér er um gríðarmikið tjón viðskiptavina Landsvirkjunar að ræða, margfalt meira en hjá Landsvirkjun sjálfri. Að svona sé komið á Íslandi 2024 þýðir ekkert minna en orkustefna landsins hafi beðið algert skipbrot.  Þótt fyrirtæki vilji virkja, þá kemur stjórnkerfi orkumálanna í veg fyrir það.  Það verður að ryðja þessum hindrunum úr vegi, og til þess þarf vafalítið atbeina Alþingis.  Hvort stuðningur við verulega aukið framboð raforku í landinu verður meiri á nýju þingi eftir kosningarnar 30.11.2024 en verið hefur á nýrofnu þingi, er ekki sjálfgefið. Þess vegna er ekki sérlega bjart yfir þessum málaflokki, sem er þá ávísun á hækkandi raforkuverð, hagvaxtarstíflu og gríðarlegan kostnaðarauka atvinnulífsins. 

Um þessar mundir er álverð hátt eða um 3000 USD/t með s.k. premíu, sem fyrirtæki fá fyrir sérhæfða framleiðsluvöru.  Fyrirtækin verða ekki einungis fyrir sölutapi og hugsanlegum missi viðskiptavina, heldur eykst rekstrarkostnaður þeirra líka vegna styttri endingar og hærri endurnýjunarkostnaðar framleiðslubúnaðar.  Það má gizka á, að tjón þessara 11 fyrirtækja, sem talin eru upp í fréttinni, nemi a.m.k. 11 mrdISK vegna boðaðra raforkuskerðinga.     


Að hrapa ekki að niðurstöðu

Það er auðvelt að draga fljótfærnislegar ályktanir út frá tölfræðilegum gögnum, ef viðmiðið er ekki ljóst.  Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, reit grein í Morgunblaðið 3. október 2024, þar sem hann t.d. varaði við að draga viðamiklar ályktanir af PISA-útkomunum í fljótu bragði.  Hins vegar þyrftu skólar að viðhafa próf.  Höfundur þessa pistils telur, að til að sanngirni við nemendur og framhaldsskólana sé gætt, sé s.k. "námsferill" ófullnægjandi. Það er síðan hægt að velta fyrir sér, hvers vegna ekki eigi að gilda hið sama um stúdentspróf, að prófað sé með samræmdum hætti í nokkrum greinum á stúdentsprófi.  Mundi það ekki vera til bóta t.d. fyrir Verkfræðideild og Læknadeild HÍ ?

Grípum niður í grein Helga, sem bar fyrirsögnina:

 "Viðmið og markmið":

"Eðlileg viðmið eru eru skynsömu fólki í blóð borin.  Þetta virðist hafa misfarizt, þegar Íslendingar voru að stilla markmið sín í Parísarsamkomulaginu. Eðlilegt viðmið hefði t.d. getað verið, að útblástur miðaðist við, að öll orka landsins væri búin til með jarðefnaeldsneyti.  Félagsfræðingurinn og tölfræðikennarinn Björn Lomborg hefur talað af skynsemi um viðmið.  Þegar sagt var, að aldrei hefðu fleiri milljónir [manna] soltið á jörðinni, benti hann á, að aldrei hefði jafn lágt hlutfall jarðarbúa soltið. (Verdens sande tilstand.)

 Í stað þess að miða við útblástur gróðurhúsalofttegunda frá heildarorkunotkun þjóða, þá var sett markmið um samdrátt m.v. ákveðið ár.  Þetta gerir Íslendingum erfitt fyrir, því að aðeins um 15 % heildarorkunotkunarinnar er jarðefnaeldsneyti, en víða erlendis er það 70 % - 80 %.  Yfirleitt verður kostnaðarsamara að draga úr þessum útblæstri, þegar hann lækkar.  Það er ekki minnzt á þetta í Parísarsamkomulaginu. Líklega eigum við ekki erindi inn í þetta Parísarsamkomulag.  

"Í skólum eru próf nauðsynleg, og kennslan þarf að fara þannig fram, að nemendur einbeiti sér.  Einhver sagði, að einstaklingur þyrfti að ná að einbeita sér í 10 þúsund tíma fyrir tvítugt.  Starf kennara þarf að verða hnitmiðaðra.  Viðleitni í þá átt reyndum við í hagfræðideild HÍ með því að vera með inntökupróf. Ýmis tæknivandræði komu þá fram.  Ég hafði t.d. kennt 200 manna hópi á 1. ári með misjafnan undirbúning.  Þriðjungurinn var óhæfur til náms, þriðjungur gat vel fylgzt með, og þriðjungur var það góður í stærðfræði, að námið var leiðinlegt.  Hér hefði mátt fara betur með mannauðinn, tíma kennarans og nemenda.  Próf þurfa að mæla réttu atriðin, og nemendur verða að leggja sig fram í prófinu.  Til að kennsla sé markviss, þurfa nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Yfirfært á grunnskóla held ég, að þetta geti þýtt, að kennari lesi framhaldssögu í nestistímanum, sem nemendur skilja og hlakka til framhaldsins."

Það sýnir meinloku gallaðs menntakerfis, að prófessorinn telur þriðjung nemendanna, sem leituðu hófanna í hagfræðinni, hafa verið óhæfa til náms.  Þetta hefst upp úr þeim misskilningi skólamanna, að hlífa eigi nemendum við alvöru prófum.  Prófin eru til að leiðbeina nemendum og kennurum, en þarna bregðast skólamenn illilega nemendum og samfélaginu, þar sem óhæfir nemendur til náms banka á dyr háskólanna. Svona var þetta ekki í "den tid", þegar höfundur þessa pistils var í þessu sama skólakerfi til undirbúnings háskólanámi á 7. áratugi 20. aldar.  Að slaka á þessum kröfum er óskynsamlegt og leiðir til ófarnaðar. 

Þá er það vafalaust rétt athugað hjá prófessornum, að til að kennsla geti orðið hnitmiðuð þurfi nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Þar með fellur kenningin um æskileika skóla án aðgreiningar um koll.  Þegar mikill munur er á getu og kunnáttu nemenda í deild, fer kennslan að miklu leyti fyrir ofan garð og neðan.  Hvílík endemis sóun á mannauði, tíma og fé. 

"Ef einhver óárán í náttúrunni á sér stað, er iðulega klifað á hlýnun jarðar af mannavöldum sem sökudólgi.  Í nýlegri umfjöllun CNN um slys á Breiðamerkurjökli er í 90 s innslagi þrisvar minnzt á vaxandi hitastig af mannavöldum og einnig, að hlýnun á Íslandi sé þreföld heimshlýnunin.  Til að átta sig á þeirri stærðargráðu má benda á, að þróun meðalmánaðarhita í Stykkishólmi í 200 ár sýnir ekki dramatískar hitabreytingar.

Menntun komandi kynslóða og umhverfisvernd eru mikilvæg mál.  PISA-kannanir og Parísarsáttmáli eru ekki góðir áttavitar í þeim málum, og notkun þeirra er ávísun á sóun.  PISA og Parísaraðgerðapakkar eru opinber inngrip af skaðlegri gerðinni.  Við þurfum betri viðmið, sem við skiljum betur."  

Loftslagskirkjunni er mikið í mun í áróðri sínum að benda á dæmi um öfgar í náttúrunni, en hún skýtur sig í fótinn með því að láta eins og öfgar séu nýmæli.  Öfgar í náttúrunni hafa alltaf verið fyrir hendi, og ef ástæða er til að óttast einhverjar slíkar öfgar, er það fimbulkuldi, ný ísöld.  Íslendingar fengu smjörþefinn af þessu í 500 ár á tímabilinu 1400-1900, en á því skeiði fór landið mjög illa, missti mikið af gróðurþekju sinni.  

 PISA og Parísarsamkomulagið eru dæmi um alþjóðasamstarf, sem Íslendingar taka gagnrýnilítið þátt í.  Alþjóðasamstarf er vandmeðfarið, ef það á að gagnast landsmönnum.  Samstarfið við Evrópusambandið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það vel.  Það hefur nú leitt til kolefnisgjalda á flug til og frá Íslandi og sjóflutninga, af því að hingað ganga engar járnbrautarlestir.  Er hægt að kokgleypa hvaða vitleysu sem er frá diplómatíunni ?

 


Stungið á kýlum

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024.  Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna.  Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins.  Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna.  Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi. 

Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:

"Þjóð á rangri leið".

Hún hófst þannig:

"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi.  Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings." 

Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor.  Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu. 

"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands.  En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa.  Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita).  Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna. 

 

Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt.  Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli.  Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann." 

Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega.  13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu. 

 

Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis.  Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna. 

Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins.  Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir. 

Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu.  Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja.  Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði.  Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu.  Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög. 

Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum.  Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú.  Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka.  Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30.  Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu.  Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er.  Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki. 

"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina.  Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina.  Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni.  Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform.  Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við. 

Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið.  Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við.  Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því.  Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu.  Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi. 

"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum.  Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar.  En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við.  Eina leiðin út er,  að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."  

Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt.  Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón.  Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis. 

"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda.  Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort.  Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun.  Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót.  Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.  

Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ?  Gerum Ísland ábyrgt aftur."

Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys).  Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman.  Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku. 

Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi.  Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.  

 

 

 

  

 

 


Sleifarlag á orkusviði

Það þurfti enga mannvitsbrekku til að sjá fyrir kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis vinds ofan Búrfells. Það virðist vera sleifarlag í samskiptum Landsvirkjunar og orkuráðherrans við þennan hagsmunaaðila.  Orkuráðherranum Guðlaugi Þór Þórðarsyni virðast vera mjög mislagðar hendur, enda hefur engin ný  virkjun yfir 10 MW komizt á framkvæmdastig á hans dögum í loftslags- orku og umhverfisráðuneytinu.  Ráðherrann virðist skorta hugmyndaflug til að ná frumkvæði, þegar á þarf að halda, t.d. í samningaviðræðum.  Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við ýmsa viðsemjendur sína hefur heldur ekki einkennzt af samningalipurð og kurteisi. Þetta tvíeyki er illa fallið til að liðka fyrir nýjum virkjunum, þar sem fyrirstaða er.  Íslands óhamingju verður allt að vopni, var einu sinni sagt.

Óskar Bergsson birti sláandi frétt í Morgunblaðinu 28.08.2024 af ömurlegri stöðu raforkumála Vestfjarða, en ekki er að sjá, að þessi volaði orkuráðherra hafi orðið Vestfirðingum að nokkru gagni, en þó hafa þeir leitað til hans með sín mál.  Þessi sjónumhryggi riddari virðist ekki eiga erindi sem erfiði í pólitíkina, en þó bauð hann sig fram gegn sitjandi formanni á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, enda vantar ekki gortið og sjálfshælnina.  Téð frétt bar fyrirsögnina:

"Rafmagn á Vestfjörðum framleitt með olíubrennslu".

Hún hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík [sem ekki fá rafmagn frá stofnkerfi landsins, þegar ein stofnlína er óvirk - innsk. BJo].  Ástæðan er sú, að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu, og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu [í olíukyntum kötlum hitaveitanna - innsk. BJo] og skerðinga á raforku.  Landsnet hefur einnig þurft að brenna 45-50 þúsund lítrum í ágúst [2024] vegna viðhaldsins."

Þessi olíubrennsla til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum um hásumar er vegna þess, að virkjanir Vestfjarða anna álaginu ekki þá, hvað þá yfir veturinn.  Þrátt fyrir þetta ófremdarástand gerist lítið í virkjanamálum Vestfirðinga.  Hvalárvirkjun var seinkað eftir offors nokkurt, og téður ráðherra virðist hvorki hreyfa legg né lið til að greiða götu Vatnsdalsvirkjunar, eins og Orkubúið hefur þó farið fram á.  Afturhaldið heldur því enn fram, að næg umhverfisvæn orka sé í landinu, en nú ríkir mikill kvíði fyrir komandi vetri, því að ekkert þriggja stærstu miðlunarlónanna mun ná að fyllast í haust og munar talsverðu.  Óreiðan og óstjórnin er slík, að helzt lítur út fyrir, að reisa verði gasknúið raforkuver á Íslandi til að leysa bráðan aflvanda. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að í tilvikum sem þessum hafi Landsnet heimild til að skerða flutning til notenda, sem séu með samninga um skerðanlegan flutning.  Hann tekur undir orð Kristjáns Jóns Guðmundssonar, skrifstofustjóra rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem lét þau orð falla í Morgunblaðinu sl. mánudag [26.08.2024], að ef búið væri að virkja í Vatnsfirði, hefði verið óþarfi hjá Landsneti að skerða flutning á raforku til Vestfjarða.  [Landsnet mun áfram verða að taka straum af Vesturlínu vegna viðhalds og viðgerða, en það mun ekki valda olíubrennslu, eins og nú, eftir að ný almennileg Vestfjarðavirkjun kemst í gagnið.]

"Það er ekki nægjanleg orka fyrir hendi, þegar eina flutningslínan inn á svæðið er straumlaus.  Það er óásættanlegt, að heill landshluti hafi ekki nægjanlegan aðgang að orku.  Ástæða þess, að Orkubú Vestfjarða hefur haldið Vatnsdalsvirkjun svo mikið á lofti í umræðunni er, að hún leysir umrætt vandamál, um leið og hún eykur afhendingaröryggi um 90 %.  Virkjunin er nálægt tengipunktinum í Mjólká, þar sem 90 % af orkunotkun Vestfirðinga fara um.  Verði virkjunin að veruleika, þarf ekki að bíða eftir tvöföldun flutningslínunnar inn á Vestfirði eða nýrri línu í tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og uppbyggingu nýrra virkjana þar."

Ef ráðizt verður strax í hönnun nýrra virkjana á Vestfjörðum af myndarskap, t.d. í Vatnsfirði, þar sem orku-, loftslags- og umhverfisráðherra virðist reyndar draga lappirnar við að breyta friðlýsingu í þágu hagkvæmrar og umhverfisvænnar virkjunar, þá má fresta Vestfjarðalínu 2 lengi.  Hana ætti að leggja í jörðu norðan Gilsfjarðar, svo að rekstraröryggið verði fullnægjandi.  Sinnuleysi orkuráðherrans vegna orkumálefna Vestfirðinga er yfirþyrmandi, því að íbúar og fyrirtæki búa við miklu meira hamlandi skilyrði í orkumálum en annars staðar á landinu þekkist, og er þá langt til jafnað.  Loftslagsráðherrann hlýtur að sjá, að með umbótum í orkumálum Vestfirðinga mun talsvert draga úr losun koltvíildis.  

"Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum hafa orðið fyrir skerðingu á raforku vegna viðhaldsins á Vesturlínu: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal og Orkubú Vestfjarða, þar sem skerðingin var mest.  Orkubúið kaupir skerðanlegan flutning vegna rafkyntra hitaveitna í sveitarfélögunum.

"Á öllum þessum stöðum þarf í tilvikum sem þessum að keyra olíukatla til að halda húsum heitum á þessum stöðum", segir Elías.  

Í langtímaáætlunum Landsnets stendur til að tvöfalda Vesturlínu að hluta.  Þær áætlanir miða við, að búið verði að byggja nýjar virkjanir og tengja þær inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi."

Þar sem Vestfirðir njóta ekki hringtengingar við stofnkerfi raforku, eins og aðrir landshlutar hafa notið frá lokun hrings Byggðalínu, þá er furðulegt, að ríkisvaldið skuli ekki hafa beitt sér meira fyrir eflingu rafmagnsframleiðslu innan Vestfjarða en raun ber vitni um.  Vestfirðingar þurfa einfaldlega að lágmarki að verða sjálfum sér nógir um rafmagn.  Þeir eiga hönk upp í bakið á ríkisvaldinu að þessu leyti, ef svo má segja.  Þeir hafa vissulega undanfarið farið á fjörurnar við ríkisvaldið, en er þá mætt með súðarsvip og dauðyflishætti.  Það er vissulega svo, að í ýmsum ráðherrastólanna virðast sitja hrein dauðyfli, sem ófær eru um að veita nokkra raunverulega forystu, en á bekk stjórnarandstöðunnar er útlitið ekki gæfulegra.  Margir þeirra, sem gefa kost á sér til forystu í pólitíkinni, gera það án þess, að séð verði, að þeir eigi þangað nokkurt erindi. Þjóðfélagið famleiðir ekki lengur forystusauði.  Það er alvarlegt mál.    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband