22.10.2012 | 21:12
Eitt er þó kýrskýrt
Skrýtnasta þjóðaratkvæðagreiðsla Íslandssögunnar er um garð gengin. Hún fór fram laugardaginn 20. október 2012. Spurningarnar, sem ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis lögðu fyrir þjóðina, voru óboðlegar með öllu. Spurningarnar voru svo óljóst og illa orðaðar, að niðurstöðurnar urðu ómarktækar. Við þessu var að sjálfsögðu búið að vara, sbr vefgreinina, Af gallagripum", á þessu vefsetri.
Hvað merkir t.d. að samþykkja að leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá ? Í daglegu tali skynjum við, hvað átt er við með þessu loðna orðalagi, en í atkvæðagreiðslu, sem kostar yfir 200 milljónir kr fyrir utan tíma allra kjósendanna, þar er spurningin algerlega ótæk. Merkir já við þessu, að gera megi efnislegar breytingar á allt að 10 atriðum af þessum 114, sem í hugverki Stjórnlagaráðs standa, eða breytingar á allt öðrum fjölda !?
Það verður að búa krystaltær hugsun á bak við spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að kjósandinn taki af skarið með svarinu, sem hann veitir á atkvæðaseðli sínum. Þessa tæru hugsun vantar reyndar líka alveg í ritsmíð Stjórnlagaráðs, enda hafa virtir lögfræðingar, Lögmannafélag Íslands o.fl., gert mjög alvarlegar athugasemdir við drögin. Lögfræðilega halda drögin vart vatni. Þá eru þessi drög eins og bíll án vélar. Gagnslaus og ekkert nema kostnaðurinn. Bæði téð þjóðaratkvæðagreiðsla og drög Stjórnlagaráðs eru víti til varnaðar.
Hvað er þá orðið kýrskýrt eftir þessa atkvæðagreiðslu ? Svarið er, að atkvæðagreiðslan leiddi það í ljós, að breytingar á Lýðveldisstjórnarskránni eru ekki forgangsmál fyrir þjóðina í huga meirihluta kjósenda, sem töldu þetta mál ekki vera þess virði, eins og allt var í pottinn búið, að ómaka sig á kjörstað. Samt höfðu fjölmargir málsmetandi menn hvatt atkvæðisbært fólk til að mæta á kjörstað.
Niðurstaðan varð sú, að aðeins um 1/3 hluti atkvæðisbærs fólks samþykkti að einhverju leyti drög Stjórnlagaráðs. Þetta er í algerri mótsögn við síbylju Jóhönnu Sigurðardóttur og áróður leiðigjarnra og sjálfhverfra Stjórnlagaráðsmanna o.fl. um, að endurskoðun Stjórnarskráarinnar sé þjóðarkrafa, krafa þjóðarinnar ! Slíkar fullyrðingar voru allan tímann algerlega úr lausu lofti gripnar. Þvert á móti setur þjóðin berlega endurskoðun Stjórnarskráarinnar mjög aftarlega í forgangsröð verkefna, sem hún vill, að stjórnmálamenn hennar inni af hendi, og skyldi engan undra.
Af þessari niðurstöðu má hiklaust draga þá ályktun, að 2/3 hlutar þjóðarinnar séu algerlega andvígir því að kasta Lýðveldisstjórnarskránni, sem tæplega 96 % fólks á kjöskrá samþykkti árið 1944, fyrir róða og taka upp eitthvert annað plagg í staðinn. Hraðferð í þá átt núna er fruntaháttur gagnvart lýðræðinu, sem er fullkomlega óverjanleg og verður að mæta af fullri hörku á öllum vígstöðvum.
Þar sem um Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að ríkja sæmileg sátt, þ.e. aukinn meirihluta ætti að þurfa til breytinga, þó að svo sé ekki hér, þarf að koma til móts við þennan þriðjung þjóðarinnar, sem vill breytingar á Stjórnarskránni. Sáttaleiðin er að taka fyrir afmarkaða þætti Lýðveldisstjórnarskráarinnar og endurskoða þá. Þetta ætti að hefja á þeim stutta tíma, sem lifir af þessu þingi, með það að markmiði að halda áfram í áfangaferð á næsta þingi. Einboðið er að byrja þar á Stjórnarskránni, sem ágreiningur hefur verið mestur um túlkunina, en það er líklega um valdsvið forseta lýðveldisins. Gæta verður þá að því, að setja inn ákvæði um aðkomu minnihluta þings og ákveðins hluta atkvæðisbærra manna við framköllun og þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu Alþingis, ef taka á s.k. synjunarvald af forseta. Þá væri og æskilegt, að stofna til Stjórnlagadómstóls, þannig að forseti fái frestandi synjunarvald til að vísa lagasetningu til úrskurðar Stjórnlagadómstóls. Ræða þarf jafnframt kosti og galla þess að stofna Landsyfirrétt, sem yrði millidómsstig, jafnframt því, sem Hæstaréttardómurum yrði fækkað úr 12 í 7 og mundu starfa í einni deild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)