22.9.2012 | 14:37
Ferðaþjónustan
Höfundur er nýkominn úr ferðalagi um Sardiníu, þar sem ferðamennska fer vaxandi, enda hefur eyjan upp á mikið að bjóða, góðan mat og ótrúlegt úrval vína, góðar baðstrendur og tiltölulegan hreinan sjó og hentugan til sjósunds. Sardinía geldur vissulega dýrtíðar, sem einkenndi hagkerfi Ítalíu fyrsta áratuginn eftir upptöku evrunnar. Verðlag er þess vegna of hátt þar. Um það eru höfundur þessa pistils og þýzkir ferðamenn (frá Hamborg), sem höfundur hitti á baðströndinni Rómönzzu, sammála. Þessi 17 daga vist á Sardiníu og akstur um mestalla eyjuna verður þó ekki að öðru leyti viðfangsefni þessa pistils, þótt skemmtilegt umræðuefni sé, heldur íslenzkur ferðamannaiðnaður (á Íslandi) og aðbúnaður stjórnvalda að honum.
Þann 8. ágúst 2012 tilkynnti talsmaður ríkisstjórnarinnar, að hún hefði sett rétt eina skattahækkunina í frumvarp til fjárlaga. Þessi skattahækkun er aðför að einkaframtaki í ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin hyggst hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 7 % í 25,5 %. Engum nema örvita vinstri stjórn mundi detta slík fásinna í hug.
Ferðaþjónustan hefur verið byggð upp í landinu af gríðarlegum myndarskap, og hún er kjölfesta í dreifðum byggðum landsins. Nægir að nefna bændagistingu og gistiheimili vítt og breitt um landið. Einstaklingar hafa gengið nærri sér í fjárfestingum í gistirými, ýmist gert upp eldra húsnæði eða reist nýja glæsilega aðstöðu. Það er algerlega siðlaust af ríkisvaldinu að 3,6 falda skattlagningu af gistiþjónustunni og hækka verðið um 18,5 % á einu bretti. Þar með er verið að verðfella fjárfestingar þessara einkaaðila, vegna þess að tekjur þeirra af fjárfestingunum munu óhjákvæmilega dragast saman.
Svona má ríkisvald alls ekki haga sér, en svona hagar íslenzka ríkisvaldið undir stjórn Samfylkingar og vinstri grænna sér. Haturshugur þessara vinstri sinnuðu stjórnmálaflokka í garð einkaframtaksins veldur starfaeyðingu. Ríkisstjórnin er ekki einvörðungu starfaeyðir; hún er verðmætaeyðir. Gistingum innlendra og erlendra ferðamanna mun fækka eða vöxturinn verða minni en ella. Sjálfbær og mikill hagvöxtur getur ekki orðið undir vinstri stjórn vegna áráttu hennar að ráðast á atvinnuvegina með heimskupörum og/eða skattheimtugríð, sem litlu eða engu skilar í ríkiskassann. Áðgerðir ríkisstjórnarinnar rýra skattstofninn, þannig að opinbera hagkerfið dregst saman, en meira leitar undir yfirborðið en ella.
Til að ná hagkerfinu upp úr hræðilegum öldudal, sem vinstri stjórnin hefur magnað, er eina ráðið að hvetja einkaframtakið til fjárfestinga í nýrri atvinnuskapandi starfsemi. Þá dugir ekkert annað en að söðla um í Stjórnarráðinu, gera áætlun um skattalækkanir og sparnað í opinberum rekstri og framfylgja áætlun af festu. Það verður mjög á brattann sækja með fjárfestingar vegna kreppunnar í heiminum, sem dýpst er í Evrópusambandinu, og t.d. Ítalía hefur ekki farið varhluta af. Þess vegna þarf að leita hófanna vestan hafs og austan, því að komist hjól atvinnulífsins ekki á fullan snúning með a.m.k. 4 % hagvöxt á grundvelli sjálfbærra aðgerða án þess að éta útsæðið, eins og vinstri stjórnin hefur hvatt til, þá lendir landið í greiðsluvandræðum með afborganir og vexti af skuldum við útlönd. Skammtíma fórnir kann að þurfa að færa fyrir langtíma ávinning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)