Mengunartilræði

Föstudagsmorguninn 1. nóvember 2013 máttu þeir, sem þá dvöldu í lögsögu Hafnarfjarðarbæjar vegna búsetu sinnar, vinnu eða annars, upplifa um öndunarfæri sín vanlíðan vegna alvarlegs mengunartilræðis í boði vinstri-grænna og Umhverfisstofnunar.

Það er varla rétt að kalla þetta mengunarslys, nema að taka þá fram, að um var að ræða stýrt ferli af viðkomandi yfirvöldum, sem höfðu atburðarásina í hendi sér, þar sem bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, hvar bæjarstjórinn er vinstri-grænn,  Umhverfisstofnun o.fl., heimiluðu drátt Þórs á Fernöndu inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Umhverfisstofnun hlýtur að hafa efnagreint reykinn áður en hún mælti með þessari leyfisveitingu við hafnaryfirvöld og bæjarstjórann.  Annað væri algerlega óábyrgt af henni og óábyrg stjórnsýsla af hinum vinstri-græna bæjarstjóra að heimila komu eiturspúandi rússneskrar fleytu inn að þéttbýli Hafnarfjarðar.  Þeir, sem upplifðu fnyk þennan, hafa fulla ástæðu til að halda, að þar hafi verið um að ræða í meira lagi óheilnæmar lofttegundir, og kemur krabbameinsvaldurinn díoxín fljótlega upp í hugann í því sambandi, því að sá vágestur myndast einmitt við ófullkominn efnabruna, eins og þarna átti sér stað.

Bæjaryfirvöldin í Hafnarfirði skulda öllum, sem urðu fyrir þessari skaðvænlegu mengun í boði Umhverfisstofnunar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en bæjarstjórinn er fulltrúi hennar, afsökunarbeiðni með skýringum á því, hvers vegna í ósköpunum ákvörðun var tekin um að slökkva eldinn í Hafnarfjarðarhöfn án þess að nokkur færi fyrst um borð til að rannsaka þar aðstæður.  Ef ekki er reykköfunarbúnaður um borð í varðskipinu Þór, var t.d. hægt að láta slökkviliðsmann í slíkum búningi síga um borð í Fernöndu úr þyrlu eða að senda þyrlu til Þórs með mann og slíkan reykköfunarbúning og síðan sigla á báti að Fernöndu.  Fyrst hefði þó orðið að hitamæla Fernöndu með innrauðu hitamælitæki, sem áreiðanlega er um borð í Þór.    

Í þessu máli eru yfirvöld rétt einu sinni orðin uppvís að alvarlegu glappaskoti, þar sem líf og heilsa almennings var með kæruleysislegum hætti sett í uppnám algerlega að þarflausu.  Yfirvöldin höfðu öll tól og tæki í höndunum til að lágmarka áhættuna af Fernöndu með því að taka upplýsta ákvörðun, en það var gösslazt áfram án snefils af áhættugreiningu, að því, er virðist, og hagur almennings látinn sigla sinn sjó.  Hvílíkt fúsk !

Þetta er rétt einn áfellisdómurinn yfir bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði varðandi umgengni þeirra við hættu, sem heilsu almennings getur verið búin vegna aðskotaefna, eins og lesa má um í næstu grein á undan þessari ádrepu hér á vefsíðunni, "Mengunarváboðar". 

 Málatilbúnaður Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í þeim viðkvæmu málaflokkum, sem snúa að almannaheilsu til skamms og langs tíma, sýnir, að þessum stjórnmálahreyfingum er engan veginn treystandi til að fara með stjórnunarhlutverk í umboði almennings.  Öll stóryrði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um mengunarvarnir í þágu lýðheilsu er einvörðungu í nösunum á þeim.  Vinstri-grænir meina ekkert með þeim annað en að ná frama í stjórnmálum.  Náttúran verður að njóta vafans er innantómt slagorð.  Slíka má kalla loddara að ósekju.    

 Logandi heit Fernanda í drætti  

  

 


Bloggfærslur 2. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband