Að taka flugið

Barátta Samfylkingarinnar gegn flugrekstri í landinu er farin að taka á sig bæði grafalvarlegar og fáránlegar myndir.  Um er að ræða atlögu að einkaframtaki og innviðum landsins í senn.  Menn minnast undarlegrar ráðgefandi atkvæðagreiðslu R-listans í Reykjavík um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem spurning var óljós (eins og spurningavaðallinn um uppkast að Stjórnarskrá) og þátttakan álíka lítil í prósentum talið.  Afar mjótt varð á munum. Það er grundvallaratriði, þegar efna á til atkvæðagreiðslu á meðal almennings um tilvist flugvallar í höfuðborg landsins, að slík verður að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Miðstöð innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þar sem ljóst er, að verði Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni eyðilagður frá öryggislegu sjónarmiði eða lagður alfarið af, þá leggst innanlandsflugið niður.  Þar með yrði stórt skarð höggvið í almenningssamgöngur á Íslandi og innviðum landsins unnið óbætanlegt tjón.  Til að stöðva skaðvaldana þarf nýtt Alþingi að setja lög um, að í Vatnsmýrinni skuli vera miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.  "Basta."

Þeir, sem af einhverjum ástæðum eru andsnúnir Vatnsmýrarvellinum í sinni núverandi mynd, verða einfaldlega að líta á þennan flugvöll sem fórn Reykjavíkur fyrir að hafa orðið fyrir valinu til að gegna hlutverki höfuðborgar landsins.

Fjárhagslega er það þó engin fórn.  Þvert á móti er gróði að flugvellinum fyrir Reykjavík og ríkissjóð.  Hundruðir Reykvíkinga hafa beina atvinnu af flugvellinum og þúsundir, þegar afleidd störf eru meðtalin.  Verðmæti flugvallarins fyrir Reykjavík hefur verið metið á móti söluandvirði lóða í Vatnsmýrinni.  Það er undarlegt hagkvæmnimat.  Það væri aðeins gilt sjónarmið, ef hörgull væri á lóðum, en svo er alls ekki, hvorki í landi Reykjavíkur, Kópavogs né Garðabæjar.  Á flugvellinum fer fram öflug atvinnustarfsemi, sem skapar höfuðborginni milljarða kr í tekjur árlega.  Tekjur af lóðasölu og tekjur af íbúum í Vatnsmýri umfram önnur hverfi getur ekki keppt við öfluga atvinnustarfsemi, sem að hluta til er gjaldeyrisskapandi. 

Þá er talað um aksturssparnað Vatnsmýraríbúa vegna miðlægrar legu Vatnsmýrar.  Hér virðast forsendur þær, að flestir íbúar Vatnsmýrar mundu stefna til vinnu í Háskólana, Landsspítalann eða Kvosina.  Þetta stenzt varla, og eru allsendis ótæk rök fyrir því að úthýsa flugvellinum.  Fyrirsjáanlega yrði umferðaröngþveiti í þessum þrengslum, nema verulegar samgöngubætur fylgi, ef þetta gengi eftir og Háskólasjúkrahús risi á Landsspítalalóðinni. 

Saga flugsins á Íslandi er stórmerkileg, og innanlandsflugið hefur gegnt veigamiklu þjónustuhlutverki við landið allt.  Það hefur í raun fært höfuðborgina nær landsbyggðinni, ef svo má að orði komast.  Það er ekkert, sem komið getur skammlaust í stað innanlandsflugsins.  Þá gera fjölmargir einkaflugmenn út frá Vatnsmýrinni, og einkaflugið er hluti af þeim lífsstíl og lífsgæðum, sem við teljum mörg vera eftirsóknarverð.  Veigamikil og mikilvæg kennslustarfsemi fyrir verðandi flugmenn fer fram þarna.  Það er ómetanlegt fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis að hafa svo öruggan flugvöll innan seilingar. 

Reykjavíkurflugvöllur gegnir veigamiklu öryggishlutverki, sem Samfylkingin, af sínu einkennilega kæruleysislega ábyrgðarleysi, er stöðugt að reyna að rýra.  Heggur sá, er hlífa skyldi, má segja um Dag, lækni, og fyrrverandi varaformann Samfylkingar, því að sjúkraflug eru líklega að nálgast 1000 á ári, þegar vængjað flug og þyrluflug er saman talið.  Er alveg öruggt, að margur á líf sitt og/eða heilsu því að þakka að hafa komizt undir læknishendur svo greiðlega sem flugið eitt og nánd Reykjavíkurflugvallar við Landsspítalann ein leyfði. 

Innanlandsflug er landsmönnum nauðsyn af öryggisástæðum, t.d. ef mikil vá ber að dyrum, og samgönguleiðir á landi lokast, og til að tryggja greiðar samgöngur á milli höfuðborgarinnar og hinna fjarlægari staða á landsbyggðinni.  Innanlandsflugið kemur að mörgu leyti í stað lestarsamgangna, sem tengja þorp, bæi og borgir annarra landa traustum samgönguböndum.  Það er þess vegna aðför að öryggi landsmanna og lífsgæðunum í landinu að standa í stöðugum hernaði gegn fluginu.  Þetta hefur einn stjórnmálaflokkur í landinu þó gert sig sekan um.  Samfylkingin stefnir á að leggja Vatnsmýrarvöllinn niður og þar með að tortíma innanlandsfluginu.  Á sama tíma sendir hún strætó landshornanna á milli, niðurgreiddan, m.a. af fluginu.  Þetta ráðslag er óþolandi og verður að gera afturreka strax, enda er ekki heil brú í þessu stefnumáli Samfylkingarinnar fremur en mörgum öðrum.  Þeim þykir betra að veifa röngu tré en öngvu.  Þessa niðurrifsstarfsemi lattélepjandi sauðargæra ("borgarsveitalubba" sagði Árni Johnsen) í 101 verður að kveða í kútinn á næsta kjörtímabili.  Það getur Alþingi gert.

Í marz 2013 gerðu núverandi og fyrrverandi varaformenn Samfylkingar með sér "marksamning" (er það sama og markmið ?) án aðkomu innanríkisráðherra, sem nú um stundir er vinstri-grænn og fer með forræði Vatnsmýrarvallar, um sölu ríkisins á 11,2 ha á suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Í frétt Reykjavíkurborgar um atburðinn segir svo:

"Vinna við skipulagið hefst fljótlega, þótt ljóst sé, að uppbygging fari ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hafi (svo ?) formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar."  

Þetta er stríðshanzki framan í innanríkisráðherra og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli sem og alla viðskiptavini flugrekendanna.  Árið 1999 teygði samgönguráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns sig langt til að skapa frið um flugvöllinn, en sá friður var rofinn þarna.  Viljayfirlýsingin á milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar var um lokun NA-SV brautar Reykjavíkurflugvallar.  Sú lokun mun þýða 1 % fall í nýtileika flugvallarins, þ.e. úr 99 % í 98 %.  Frá öryggissjónarmiði er þetta óásættanlegt, og þess vegna var sleginn sá varnagli, að lokuð braut með svipaða stefnu á Keflavíkurflugvelli yrði fyrst enduropnuð og gerð tiltæk fyrir notendur Reykjavíkurflugvallar.  Það hefur enn ekki verið gert.  Forræðishyggjustjórnmálamenn kasta á milli sín fjöreggi flugfarþega.  Hver vill leggja öryggi sitt í hendur loddara, sem vaða áfram í villu og svíma, og skortir augljóslega dómgreind til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri ? 

Við ríkisstjórnarskiptin 24. maí 2007 tók við samgönguráðherra Samfylkingar.  Hann hafði aðrar áherzlur en fyrirrennari hans í embætti úr röðum sjálfstæðismanna, og tók fjárveitingu til opnunar téðrar SV-NA-brautar á Keflavíkurflugvelli út úr samgönguáætlun.  Ef Samfylkingin verður látin komast upp með að reka stöðugt hornin í flugið, þá leggst innanlandsflugið af fyrr en varir.  Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi fyrir landsmenn alla til að láta slíka öfugþróun viðgangast, og það eru til meðul, sem hrífa í þessu sambandi.  Varaformennirnir þurfa að fá að bergja á beizkum kaleik.  

Samfylkingin ræðst að fluginu úr annarri átt.  Hún ætlar að kyrkja innanlandsflugið með gjaldtöku og skattlagningu, svo að flugrekendur verði að leggja upp laupana vegna of fárra farþega.  Þar með verður eftirleikurinn auðsóttur að afleggja Reykjavíkurflugvöll, þó að það þýði meiri eldsneytisbirgðir millilandavéla til að komast á varaflugvöll.  Þessi framkoma Samfylkingar og taglhnýtinga þeirra, vinstri grænna, í garð mikilvægrar þjónustustarfsemi í landinu, er óafsakanleg.

Ríkisstjórnin hefur hækkað opinber gjöld af innanlandsfluginu um 130 % á 4 árum 2009-2013, og enn er ein hækkunin væntanleg 1. apríl 2013.  Á árinu 2013 verður gjaldtaka ríkisins af innanlandsfluginu 415 milljónir kr og nemur þá 10 % af veltu innanlandsflugsins.  Ofan á þetta leggst svo skattur, t.d. tekjuskattur, og launatengd gjöld.

Þetta er alger óhæfa, og með þessum hætti hagar ekkert yfirvald sér, nema það ætli að ganga á milli bols og höfuðs á viðkomandi starfsemi.  Hér eiga sér stað ofsóknir og skefjalaust niðurrif á afar mikilvægum innviðum íslenzka þjóðfélagsins, sem er hluti af lífsgæðum og lífsstíl fjölda fólks.  Hvorki stjórnmálamenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, né nokkurs annars stjórnmálaflokks, hafa umboð til að brjóta svo freklega á meirihluta landsmanna.

  Innanlandsflugið er mál þjóðarinnar allrar, og það er hægt að höggva á þennan hnút með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá verða viðkomandi stjórnmálamenn að standa fyrir máli sínu með lýðræðislegum hætti í stað níðingslegra aðferða við að kvelja líftóruna úr flugrekendum. 

Innanlandsflugið mun blómstra, ef það fær frið fyrir ósvífnum yfirvöldum, sem skirrast ekki við að taka atvinnulífið fantatökum.  Þetta eru yfirvöld, sem skilja ekki, að athafnalíf verður að blómstra til að velferðarsamfélag geti þrifizt.  Stríð yfirvalda við athafnalífið, eins og Fylkingin og VG hafa staðið í, leiðir til einhæfni, atvinnuleysis og síðan til fátæktarsamfélags.  Þessa tegund stjórnmálamanna þarf að setja í skammarkrókinn í komandi Alþingiskosningum og síðan í næstu borgarstjórnarkosningum.

Farþegum í innanlandsfluginu fjölgaði fyrstu 3 mánuði ársins 2012.  Þann 1. apríl 2012 var flugrekendum greitt þungt högg undir bringspalir af stjórnvöldum "með rörsýn".  Þá skelltu óhæfir og kreddufullir forræðishyggjustjórnmálamenn, sem vilja ráða, hvernig fólk ferðast, á eftirfarandi hækkunum á flugrekendur:

  • farþegaskattur upp um 71 %
  • lendingargjöld upp um 72 %
  • flugleiðsögugjöld upp um 22 %

Þessi gjaldpíning leiddi óhjákvæmilega til hærri fargjalda.  Árið 2012 voru farþegar í innanlandsflugi um 375.000 og hafði þá fækkað um 3 % frá árinu á undan.  

Það er deginum ljósara, að Samfylkingin stendur nú að fólskulegri tangarsókn gegn innviðum landsins á samgöngusviðinu og lífsskilyrðum fjölda fólks.  Taglhnýtingurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, fylgir í humátt á eftir og gerði það þegar á dögum R-listans, þegar Svandís Svavarsdóttir, þá borgarfulltrúi, lagði til rannsókn á því, að byggja upp nýja miðstöð innanlandsflugs á Hólmsheiði og leggja af Vatnsmýrarvöllinn.  Niðurstaðan kemur fáum á óvart.  Hólmsheiði er ónothæf fyrir flugvöll af veðurfarslegum ástæðum.  Enginn heilvita maður leggur í að reisa þar miðstöð innanflugs og stefna þar með lífi og limum farþega og áhafna í mjög aukna hættu vegna óhagstæðs veðurfars í um 130 m hæð y.s.m., stórra háspennulína í grennd og sviptivinda frá fjalllendi eigi fjarri.  Nýtileiki flugvallar á Hólmsheiði er neðan við alþjóðleg viðmiðunarmörk.  Hólmsheiði fyrir flugvöll var villuljós skammsýnna stjórnmálamanna með rörsýn ekki síður en í REI-málinu. 

Að bráðnauðsynlegt sé að byggja íbúðarhús í Vatnsmýrinni til að fjölga íbúum í grennd við 101 Reykjavík er rangt.  Þarna er djúpt niður á fast og lóðirnar yrðu rándýrar í vinnslu.  Það er út í hött að reikna út lóðaverð til að rökstyðja ný not á landinu.  Það þyrfti þá að meta mismunarverð á þessu landi og öðru.  Það er nóg framboð á landi um ófyrirsjáanlega framtíð á höfuðborgarsvæðinu, og mismunur á arðsemi íbúðabyggðar á ólíkum svæðum á höfuðborgarvæðinu getur aldrei slagað upp í arðsemina af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri fyrir borgarsjóð og fyrir landið allt. 

Hvers vegna halda menn, að margar borgir í heiminum, og höfuðborgir á borð við Berlín og London, státi af flugvöllum innan sinna vébanda ?  Það er af því, að flugvellirnir styrkja samkeppnistöðu borganna, og þar sem höfuðborgir eiga í hlut, samþykkja borgirnar starfsemi flugvallanna sem eðlilegan þátt í að sinna höfuðborgarhlutverki sínu með sóma.

Á Íslandi hafa sumir stjórnmálamenn enga sómatilfinningu, og það bitnar á borgurunum.   

  Heli down - þyrlan lent

        

 

 

 

 

 

              

 

 


Bloggfærslur 29. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband