23.2.2014 | 16:17
Skrípaleikurinn og skýrslan
Aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins, ESB, hófst formlega með þvinguðu samþykki Alþingis 16. júlí 2009 og lauk í ársbyrjun 2013 með ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um að gera hlé á aðlögunarferlinu vegna Alþingiskosninga, sem í hönd fóru. Af hverju ákvað Össur að gera þetta hlé ? Sumpart var það vegna ágreinings í röðum þáverandi stjórnarflokka, og sumpart var það af ástæðum, sem útskýrðir eru í nýútkominni skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ.
Nú hefur ríkisstjórnin í kjölfar útgáfu skýrslu HHÍ tekið ákvörðun um að leggja fyrir Alþingi að binda enda á flausturslegasta flan lýðveldissögunnar í utanríkismálum. Það er rökrétt að binda enda á aðlögun að ríkjasambandi, sem meirihluti þjóðarinnar hefur aldrei kært sig um að ganga í. Hvers vegna ætti stjórnkerfið að fara í kostnaðarsama fulla aðlögun til þess eins að hætta við allt saman, þegar alls kyns laga- og Stjórnarskráarbreytingar væru að baki ?
Aðlögun Íslands að ESB stóð í 3,5 ár á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar. Ágætlega unnin skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir, að enginn ávinningur varð af þessu seindræga ferli. Ekki voru til svo mikið sem drög að samkomulagi um "sérlausn", þegar Össur gafst upp í byrjun kosningaárs 2013. Samt skorti ekki áhuga utanríkisráðherrans á að ná "sérlausnum" fyrir Ísland, eins og hann kallar varanlegar undanþágur af alkunnum orðhengilshætti. Af þessum sökum var talið vonlaust að hefja formlega aðlögun að landbúnaðar- og sjávarútvegsbálki ESB. Þetta blasir nú við eftir birtingu skýrslu HHÍ.
Enn heldur fyrrverandi utanríkisráðherra því fram, að hægt sé að ná "sérlausnum" fyrir Ísland. Hvernig í ósköpunum getur maður, sem barðist fyrir því í 3,5 ár að ná "sérlausnum" fyrir Ísland án árangurs, ætlazt til, að nokkur trúi því, að núverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, tækist að "semja um sérlausnir" fyrir Ísland á þessu kjörtímabili, ef honum væri falið það ? Dr Össur gafst upp og ætlast til, að Gunnar Bragi taki við keflinu. Þetta er lélegasti brandari íslenzkra stjórnmála um langa hríð.
Þá, sem halda þessu fram, er ekki hægt að taka alvarlega, því að Gunnar Bragi hefur marglýst yfir andstöðu sinni við inngöngu Íslands í ESB. Það er hreint og beint ekki hægt að ætlast til þess af núverandi þingheimi, sem að meirihluta til vill eyða orku, tíma og peningum í annað þarfara en einskis nýtt hjal við Stefan Füle um tímasetta aðlögunaráætlun Íslands að hinni sameiginlegu peningamálastefnu, fiskveiðistjórnunarstefnu og landbúnaðarstefnu ESB.
Það sem Össuri Skarphéðinssyni, dr í kynlífi laxfiska, einkum murtu í Þingvallavatni, tókst ekki, þrátt fyrir innilega löngun og jafnvel ástríðu, er ósanngjarnt og mjög óeðlilegt að ætlast til, að óbreyttum Gunnari Braga takist.
Setjum svo, að Gunnar Bragi legði út á vatnið og kæmist að landi hinum megin. Hann hefði þá gengið á vatni, og aftur hefði orðið kraftaverk, en kálið (í þessu tilviki súrkál, uppáhaldsfæða forystuþjóðarinnar) væri ekki sopið, þótt í ausuna væri komið. Lagalega tryggingu skortir alfarið, af því að samningur við aðildarríki er lögformlega víkjandi gagnvart sáttmálum ESB. Ef eitthvert aðildarríkjanna mundi ekki, er frá liði, sætta sig við "sérlausnirnar", sem vissulega mundu brjóta í bága við sáttmálana, einn eða fleiri, ef um væri að ræða raunverulegar "sérlausnir", þá mun það kæra Ísland og aðildarsamning til t.d. leiðtogaráðsins. Um deilur af þessu tagi hefur Evrópudómstóllinn einn lögsögu, og enginn efast um, að hann mun leggja sáttmálana, sem eru ígildi stjórnarskráar ESB, til grundvallar úrskurði sínum og þannig ógilda "sérlausnirnar".
Þegar þarna væri komið, værum við komin í klærnar á framkvæmdastjórninni, sem mundi fara með okkur, eins og brókina sína. Stæðum við frammi fyrir slíku fullveldisafsali, er ljóst, að Stjórnarskrá Íslands mundi ekki heimila veru landsins í klúbbi af þessu tagi, og Alþingi væri nauðugur einn kostur að samþykkja úrsögn Íslands úr Evrópusambandinu.
Af ofansögðu má ljóst vera, að eina rökrétta leið Alþingis núna er að binda enda á umsóknarferlið, sem hófst 16. júlí 2009. Þá bregður svo við, að formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs umturnast og heimtar skýringu á eftirfarandi texta úr kosningastefnuaskrá Sjálfstæðisflokksins 2013:
"Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram."
Það, sem þarna stendur hefur síðan verið teygt, togað, misskilið og rangtúlkað af fleirum en téðri Katrínu, sem árið 2009 sveik samþykktir síns eigin flokks og samþykkti að leita inngöngu í ESB og fulla aðlögun að regluverki þess, en hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um þá afdrifaríku ákvörðun.
Kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins tók hins vegar af öll tvímæli um það, að svo skyldi ekki fara á þessu kjörtímabili, heldur skyldi veita þjóðinni tækifæri til að tjá hug sinn um svo afdrifaríka ákvörðun. Þjóðin kaus Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn til valda 27. apríl 2013 út á stefnuskrár flokkanna, sem m.a. lutu að því að draga umsókn um aðild að ESB til baka. Allt er þetta eins lýðræðislegt og hægt er að hugsa sér. Það er sögulega rangt og algerlega órökrétt m.v. stefnu þessara flokka, að þeir hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta við afglöp og óráð fyrri ríkisstjórnar.
Helzta ályktunin, sem draga má af skýrslu HHÍ um aðildarumsókn Íslands að ESB, er, að tal fyrrverandi utanríkisráðherra um sérlausnir er hugarburður einn, enda náði hann ekki samkomulagi um neina "sérlausn" á 3,5 ára umsóknartíma.
Áhugamenn um inngöngu Íslands í ESB hafa tekið ákvörðun ríkisstjórnarinnar illa, en þeir hafa reynzt gjörsamlega rökþrota í málflutningi sínum. Það er fullkomlega óboðlegt að japla á innihaldslausum tuggum, sem jafngilda því, að Ísland eigi "af því bara" að halda áfram aðlögunarferlinu að ESB. Þetta fólk, sem nú getur ekki á heilu sér tekið, grípur hins vegar til svikabrigzla í garð forystu Sjálfstæðisflokksins og meirihluta þingflokks hans vegna þess, að ekki sé við þessi tímamót boðað til kosninga um, hvort stöðva eigi þetta ógæfulega ferli.
Þetta eru mikil endemi í ljósi þess, að þingflokkurinn er núna að framfylgja síðustu Landsfundarsamþykkt flokksins um þessi mál upp á punkt og prik. Það verða haldnar kosningar eftir þennan dag, og þær fyrstu væntanlega í vor. Síðan koma Alþingiskosningar, og þá gefst kjósendum kostur á að tjá hug sinn til flokkanna út af þessu máli og öðrum. Heitustu fylgjendur aðildar, sem margir hverjir eru hinir sömu og höfðu í frammi alls kyns hótanir og hrakspár í garð kjósenda, ef þeir höfnuðu hinum alræmdu Icesave-samningum, mega þakka fyrir að þurfa ekki nú að horfa upp á enn einn niðurlægjandi ósigur sinn í kosningum.
Málefnastaða þeirra í fortíð og nútíð er svo veik, og þeir liggja svo vel við höggi nú miðað við þróun mála í Evrópusambandinu, og andstæðingar ESB-aðildar eru svo öflugir og vel vopnum búnir, að fyrir þá er það létt verk að ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)