Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun

Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015.  Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir

Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni.  Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra.  Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:

"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015.  Álagning 2015 er vegna tekna 2014.  Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður.  Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu.  Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr.  Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)

Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn.  Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan.  "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %.  Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum.  Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."

Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um.  Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".

Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.  Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna. 

Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi.  Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda.  Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina.  Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag. 

Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða.  Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands.  Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur  hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram.  Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar. 

Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði.  Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár.  Þeir, sem höfðu getu og  forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna. 

Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum.  Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna.  Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.

Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál.  Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið. 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 25. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband