Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun

Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015.  Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir

Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni.  Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra.  Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:

"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015.  Álagning 2015 er vegna tekna 2014.  Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður.  Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu.  Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr.  Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)

Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn.  Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan.  "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %.  Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum.  Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."

Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um.  Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".

Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.  Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna. 

Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi.  Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda.  Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina.  Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag. 

Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða.  Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands.  Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur  hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram.  Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar. 

Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði.  Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár.  Þeir, sem höfðu getu og  forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna. 

Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum.  Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna.  Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.

Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál.  Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Góð greining, sem bendir til þess að áhyggjur af hlutfallslegri fjölgun eldri borgara og opinberri framfærslu þeirra séu óþarfar.  Ekki síst með tilliti til þess að sífellt hærra hlutfall aldraðra munu eiga fullan lífeyrisrétt í lífeyrissjóðum - og á ég þá sérstaklega við konur.  Ætli það megi álykta að fyrrnefndar áhyggjur séu afleiddar af því sem er að gerast í öðrum löndum en ekki hérlendis? 

Kolbrún Hilmars, 25.1.2016 kl. 12:54

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

"Sjaldan launar kálfur ofeldi"?

Hverjir eru oföldu og óferjandi ábyrgðarlausu kálfarnir í kerfisspillingunni á Íslandi?

Það væri nú mjög fróðlegt að fá smá upplýsingar frá þér og fleirum riturum, um oföldu, oflaunuðu, óábyrgu og andlitslausu siðblindu-stjórnsýsluna innan valdaveggja í lífeyrissjóðum og bönkum þessa eylands í norðrinu helkalda. Bótaþegar á lægstu "jafnaðarútreikninga-stikunni" eru ekki ofaldir vanþakklátir kálfar, og það ætti viti borið heiðarlegt fólk á okurlánahúsnæðis-láglaunaskattrænda Íslandinu að vita.

Jafnaðar-útreikningatölur eru bara til þess eins gerðar að villa um fyrir fólki, og blekkja landsmenn og heimsbyggðina alla um kjör þeirra sem verst standa.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.1.2016 kl. 14:10

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Lífeyrissjóðirnir stefna á að geta greitt 60 % af launum launþega við starfslok að meðtalinni greiðslu í 10 ár úr séreignardeild.  Þeir hafa ekki náð þessu enn, a.m.k. fer því fjarri í mínu tilviki, en eftir því, sem fólk nær að greiða lengur í séreignardeildina og framlag í sameignarsjóðinn vex, þá mun styttast í að ná þessu marki.  Það er hárrétt athugað, að með jafnræði í atvinnuþátttöku kvenna og karla, þá styrkjast mjög lífeyrisréttindi kvenna, og er það vel.  Með síðustu umsömdu styrkingu lífeyrissjóðanna hygg ég, að þeir verði styrk stoð um ókomna framtíð, og við þurfum ekki að óttast það, sem vofir yfir, t.d. í Evrópu, að gamlingjarnir verði settir á guð og gaddinn, þ.e.a.s. þeir muni í framtíðinni búa við umtalsvert þrengri kost en foreldrar þeirra.  Það er reyndar talað um að létta á lífeyriskerfinu með því að hækka lífeyrisaldurinn, sem í Þýzkalandi, á Íslandi og víðar er 67 ára, en er töluvert lægri sums staðar, t.d. á Grikklandi og í Frakklandi. 

Bjarni Jónsson, 25.1.2016 kl. 16:06

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Anna Sigríður;

Við búum ekki í himnaríki, og í kringum okkur eru ekki bara englar, heldur leikur sá með horn og hola laus, og margur skemmtir skrattanum. 

Ég vil þó benda þér á, af því að þú gerir mikið úr spillingu á Íslandi, að samkvæmt erlendum rannsóknum er hún óvíða minni en á Íslandi.  Í pirringi sínum rausa margir um téða spillingu og sjá samsæri í hverju horni, mála skrattann á vegginn, eins og fræg týpa í Spaugstofunni, en þegar gengið er á þá og þeir beðnir um að gera grein fyrir téðri spillingu, eða þeir  eru spurðir, hvort þeir hafi sjálfir orðið fyrir barðinu á þessari spillingu, þá vefst þeim tunga um tönn.  Það er aumkvunarvert að grafa sig ofan í slíka holu. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 25.1.2016 kl. 16:19

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Bjarni. Takk fyrir svarið.

Þú baðst mig ekki að nefna dæmi um spillinguna sem ég meina að sé í stjórnsýslunni á Íslandi, og sem þú gerir lítið úr í svari þínu? Ég skil vel að það verði of langt mál ef á að biðja mig um sönn og raunveruleg gögn og dæmi um spillingu kerfisins á Íslandi, í einni blogg-athugasemd. Það yrði of langt rit, til að rúmast í einni athugasemd á Moggablogginu, sem þú hefur sem betur fer leyft mér að að birta. Ég þakka þér kærlega fyrir að leyfa mínar athugasemdir, þótt þú sért ekki sammála þeim að öllu leyti. Það eru ekki allir sem leyfa mínar athugasemdir á sínu bloggsíðum.

Ef við öll með ólíka þekkingu og reynslu þöggum niður staðreyndir í umræðunni, þá er leiðin greið afturábak og niðurávið fyrir alla. Allir tapa á þöggun um staðreyndir.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.1.2016 kl. 18:50

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Anna Sigríður;

Þó það nú væri, að athugasemd þín fái að standa.  Á öllum tímum hefur verið spilling við lýði, þ.e. misnotkun á valdi og aðstöðu.  Ég vil taka hart á henni, þar sem hægt er að ná í hnakkadrambið á viðkomandi, en ég held ekki, að hún sé landlæg á Íslandi, eins og hún þó er víða.  Um þetta getum við haft mismunandi skoðun, og mín er ekki rétthærri en þín.

Bjarni Jónsson, 25.1.2016 kl. 21:03

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt, Pétur Axel, að öldruðum og öryrkjum hefur fjölgað á téðu tímabili.  Öldruðum hefur samt fjölgað minna en hækkuninni nemur í raunkrónum.  Aftur á móti er fjölgun öryrkja ótrúlega mikil, og þar er ekki allt með felldu, enda er örorkumat í endurskoðun og verður starfshæfismat.  Að "öryrkjar" hafi fengið svo stóran skerf, að allir hinir hafi ekki hækkað, getur varla staðizt, þegar heildarhækkun á greiðslum Tryggingastofnunar er jafnmikil og raun ber vitni.

Bjarni Jónsson, 25.1.2016 kl. 21:11

8 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þessi síðasta klausa Bjarni er hluti af óeðlilegum ráðstöfunum á lífeyrissparnaði. Ef lífeyrissparnaður á að vera eign og óaðfararhæfur, af hverju komast þá sjóðirnir upp með að ráðstafa þessum fjármunum í aðra einstaklinga og eigandinn er látinn blæða með lækkun sinna lífeyrisréttinda? Er ég einn um það að finnast óeðlilegt að ná ekki helmingi launatekna við starfslok, úr sjóði sem búið er að borga í áratugum saman? Feluleikurinn varðandi það að láta peninga breytast í lífeyrisréttindi, eða stig, er hluti þessarar yfirhylmingar. Stig má skerða og það er verra ef fólk sér upphæðina sem það á inni. Það gæti jú gert athugasemdir við að upphæðin rýrni á milli ára, á meðan sjóðirnir skila ávöxtun.

Fínn pistill hjá þér Bjarni.

Sindri Karl Sigurðsson, 26.1.2016 kl. 00:47

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Með því að krefjast að lágmarki 3,5 % raunávöxtunar lífeyrissjóðanna, var löggjafinn að senda þá út á fjármálamarkaðinn og skipa þeim að spila á auðvaldskerfið.  Það leiddi til hrikalegs áfalls sumra lífeyrissjóða haustið 2008, þ.á.m. míns lífeyrissjóðs, sem höfðu tekið mikla áhættu í von um mikinn ágóða.  Það er auðvitað forkastanleg ráðstöfun lífeyrissparnaðar, sem einvörðungu á, eðli sínu samkvæmt, að verja til fjárfestinga, þar sem langtímaávöxtun er tryggð með hámarksöryggi, þó að ávöxtunin sé ekki hærri en af ríkisskuldabréfum.  Landsvirkjun væri að mínu mati kjörinn slíkur fjárfestingarkostur, en ekki bankastarfsemi.  Það er nokkuð til, sem heitir "vænt tryggingafræðileg afkoma lífeyrissjóðs".  Á þeim grunni er reiknuð út sjálfbær greiðslugeta sjóðsins í núinu á grundvelli núverandi stöðu og spáar um framtíðar tekjur og skuldbindingar.  Þess vegna er núverandi lífeyrir ekki beysnari en raun ber vitni um í söfnunarsjóðunum m.v. upphæðina, sem við höfum greitt í okkar sjóð.  Séreignardeildin virkar hins vegar, eins og verðbréfasjóður, nema við þurfum að greiða tekjuskatt af úttektum.  Þarna getum við að vísu ráðið jaðarskattlagningunni, nema við séum í brýnni fjárþörf umfram efsta tekjuskattsþrepið. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.1.2016 kl. 11:39

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já Bjarni, þegar við áttum okkur öll á að engin ein persónuleg skoðun er alveg endanlega rétt, þá erum við komin einu skrefi lengra í átt að siðferðislegri lausnarmiðari umræðu.

Ég er nú ekki barnanna best í þessari umræðulist, en viljann skortir mig ekki til að gera mitt besta til bóta. Viljinn dregur hálft aflið, og hugsjónin drífur mann svo áfram og varðar veginn að bættu siðferðissamfélagi.

Einn einstaklingur getur ekki breytt neinu til bóta, nema að hafa samfélagslegan umræðugrunn og réttlátan stuðning og hjálp heiðarlegra og öfgalausra einstaklinga og samtaka.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.1.2016 kl. 18:23

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Anna Sigríður;

Það er hverju orði sannara, sem þú skrifar í 11. athugasemd, og ég hefði ekki komizt betur að orði.  Það þarf reyndar nokkuð góðan heimsspeking til þess, sýnist mér, og heimsspekin hefur aldrei verið sterka hliðin á okkur Íslendingum.  Þó hafa verið fáeinir slíkir á meðal vor, t.d. Gunnar Dal.

Skoðun getur verið nokkra stund að þróast með okkur, en stekkur ekki fullmótuð út úr höfði Zeifs, eins og gyðjan Aþena, forðum.  Það er nokkuð til, sem heitir að sofa á skoðun. Líklega fer hún þá í bakvinnslu í undirmeðvitundinni og getur verið breytt að morgni.  Annað er að liggja á skoðun sinni, en það gerir hvorugt okkar, enda sjaldan ástæða til. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.1.2016 kl. 21:24

12 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk Bjarni. Gunnar Dal var heimsspekingur af Guðs náð. Ekki komumst við víst með tærnar þar sem hann hafði hælana. Skoðun þarf alltaf að fara í bakvinnslu, til að sálarviskan okkar geti unnið úr og vegvísað þroskaðri/þróaðri skoðuninni áfram.

Að segja sína skoðun er alltaf mjög gott, jafnvel þótt hún sé sögð af vanhugsaðri hvatvísi. Því út frá skoðuninni skapast umræðurnar gagnlegu.

Að liggja á sinni skoðun getur hvorki gagnast þeim sem liggur á skoðuninni, né þeim sem ekki fá að heyra skoðunina. Sumir liggja á sínum skoðunum til að braska eitthvað með það sem þeir sjá sér mögulegan hag í, en það er ekki góðs-verkferils vísir að mínu mati.

En ég met nú ekki alltaf allt rétt hverju sinni, eins og allir vita mjög vel sem þekkja mig best.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.1.2016 kl. 01:43

13 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sammála athugasemd 13, Anna Sigríður.

Bjarni Jónsson, 28.1.2016 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband