Píratar - dýrt spaug

Píratar eru angi alþjóðlegrar hreyfingar, sem hvergi hefur hlotið umtalsverðan stuðning, hvorki í kosningum né í skoðanakönnunum, nema á Íslandi. Hugmyndum þessa fólks svipar til hugmynda stjórnleysingja, anarkista 19. og 20. aldarinnar.  Þeir eru í uppreisn gegn ríkjandi stjórnskipulagi Vesturlanda, hvort sem það er kennt við þingræði eða forsetaræði, og þeir vilja rífa niður ríkisvaldið.  Þess vegna segja margir þeirra, að þeir vilji ekki setjast í ríkisstjórn. 

Þeir vilja stigmagna óreiðuna í þjóðfélaginu, þar til spennan verður óviðráðanleg og ríkisvaldið splundrast. Þetta er ófögur sýn, en þessa nöðru næra kjósendur nú við brjóst sér.  Á meðan fitnar púkinn á fjósbitanum, sem í þessu tilviki er Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem gælir við píratana, þó að þessir tveir hópar fólks séu á öndverðum meiði. Þessir tveir flokkar hafa sem sagt algerlega öndverða meginstefnu, annar vill rífa niður ríkisvaldið, en hinn vill svæla alla starfsemi undir pilsfald ríkisins, og til þess grefur hann undan einkaframtakinu og dregur fjárhagslegan þrótt úr einstaklingunum undir fölsku flaggi jöfnunar lífskjara. Um þetta geta nöðrurnar sameinast. 

Sem dæmi um einstrengingslega og óþingræðislega hegðun kapteins pírata, sem nú gegnir víst stöðu þingflokksformanns þeirra, Birgittu Jónsdóttur, má grípa niður í það, sem frá henni kom í pontu þingsins 12. apríl 2016.  Þar talar utangerðsmanneskja, sem engan veginn er tilbúin að laga sig að siðaðra manna háttum og nota tíma sinn í pontu Alþingis til að leggja eitthvað jákvætt til málanna þjóðinni til heilla, heldur hefur hún, stjórnleysinginn, í hótunum um að hefta þingræðið og lama starfsemi þingsins. Er það í anda stefnu stjórnleysingja um að hámarka öngþveitið á þjóðarheimilinu. 

Hegðun Birgittu Jónsdóttur er dónaskapur gagnvart Stjórnarskrá landsins, sem hún þó á að hafa svarið trúnaðareið, því að þar er mælt fyrir um þingræðisstjórn á landinu, en ekki meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum eða tilfinningum einstakra þingmanna um "háværar kröfur" á torgum úti. Eitt einkenna lýðskrumara er einmitt að þykjast tala "í nafni þjóðarinnar".  Þannig hafa loddarar sögunnar réttlætt moldvörpustarfsemi sína gagnvart löglega kjörnum fulltrúum, sem myndað hafa meirihlutastjórn á þingi, og eru dæmin frá Reichstag í Berlín um 1930 víti til varnaðar.:

"Þetta er óboðlegt ástand.  Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta, eins og ekkert hafi gerzt á landinu, er ekki í boði.  Látið okkur fá dagsetningu.  Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta, að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu.  Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti."

Það er engin leið að semja við offors pírata, eins og þarna kemur fram, og geðslagið er þannig, að Birgitta getur rokið upp eins og naðra upp úr þurru og kynnt nýjar kröfur til sögunnar.  Flokksmenn hennar eru búnir að fá nóg af baktjaldamakki hennar og baknagi, svo að hún er "rúin trausti".  Hún hefur enn ekki sýnt nokkurn lit á málefnalegri umræðu um "hefðbundin þingstörf", sem henni sennilega leiðast.  Við þessar aðstæður verður kjörtímabilið ekki stytt um heilt þing.  Skilyrði þeirrar hugmyndar eru einfaldlega enn ekki uppfyllt. Það er þingræðisfyrirkomulag í landinu, en hvorki skrílræði né meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum.  Fyrir hag almennings er stöðugleiki í stjórnarfari grundvallarmál.

Í Morgunblaðinu, 13. apríl 2016, var frétt á viðskiptasíðu: "Fitch varar við aukinni áhættu":

"Fitch bendir á, að stjórnvöld séu þegar langt komin við losun fjármagnshafta, og væntir fyrirtækið þess, að þeirri áætlun verði framfylgt, á meðan núverandi ríkisstjórn situr.  Hins vegar kunni sú staðreynd, að kosningum verður flýtt um ár að hafa töluverðar pólitískar afleiðingar til lengri tíma litið.  Segir í tilkynningu Fitch, að fyrirtækið muni í lánshæfismati sínu fylgjast sérstaklega með því, hvort pólitískri uppstokkun fylgi breytt efnahagsstefna, sem geti leitt til ofhitnunar í hagkerfinu. 

Í því sambandi vísar Fitch sérstaklega til ráðstöfunar stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna, sem núverandi stjórnvöld hyggjast nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.  Verði þeim fjármunum hins vegar varið til ríkisútgjalda, muni þensluhætta aukast verulega. 

Bendir matsfyrirtækið á mikinn uppgang Pírata, sem dæmi um pólitíska óvissu hér á landi, en þar sé um að ræða nýlegan flokk með óljósa stefnu í efnahagsmálum."

Traust alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi íslenzka ríkissjóðsins er landsmönnum mikilvægt, því að vaxtakjör hans fara að miklu leyti eftir þessu mati, og þau eru leiðbeinandi um vaxtakjör ríkisfyrirtækja, og vextir til annarra fyrirtækja og heimila draga dám af þessum vöxtum.  Hagur atvinnulífs og almennings er þess vegna háður mati Fitch og annarra slíkra.  Það má draga þá ályktun af tilvitnuðu áliti Fitch, að matsfyrirtækið næri efasemdir í garð núverandi stjórnarandstöðuflokka, hvað varðar getu þeirra og vilja til að halda aga á ríkisfjármálunum.  Saga vinstri flokka við völd á Íslandi er skelfileg m.t.t. halla á ríkisbúskapi, skuldasöfnun og verðbólgu þrátt fyrir skattpíningu miðstéttarinnar.

Fylgi við pírata felur í sér óvissu um stjórnarstefnu ríkisstjórnar, sem þeir hugsanlega munu eiga aðild að.  Ástæðan er sú, að stefnumörkun þeirra í efnahagsmálum er í þoku, enda hafa þeir ekki hug á að fara með ríkisvald, heldur að mola það niður.  Stjórnleysingjum er illa við ríkisvald.  Ef þeir munu fást til stjórnarþátttöku, gæti hún orðið alger skrípaleikur til að skapa glundroða og upplausnarástand. 

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, veitti innsýn í sýktan hugarheim sinn, er henni varð á að hrópa: "Þetta er valdarán !", þegar kunngert var, að varaformaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hygðust halda stjórnarsamstarfinu áfram, enda myndu 38 þingmenn verja ríkisstjórnina vantrausti. Þessi upphrópun bendir til, að þegar hér var komið sögu, hafi Birgitta talið, að hennar tími væri kominn og að ekkert nema öngþveiti, draumastaða Birgittu, blasti við, þ.e. valdataka þeirra, sem hún gerði sér tíðar ferðir til að hitta á Austurvelli í byrjun apríl 2016.  Þetta hugarfar á ekkert skylt við þingræðisstjórnarfyrirkomulag, sem varð ofan á hina örlagaríku daga 4. -  6. apríl 2016 fyrir tilstyrk Stjórnarskrárinnar, forseta lýðveldisins og þingflokka stjórnarflokkanna.  Allt þetta hatast téð Birgitta alveg sérstaklega við.  Hún er eins konar meinvættur fyrir stöðugt stjórnarfar í landinu. 

Fyrir smurt gangverk hagkerfisins er stöðugt, fyrirsjáanlegt og frjálslynt stjórnarfar í landinu lykilatriði.  Ríkisstjórnin og þingmenn hennar eiga þess vegna drjúgan heiður skilinn fyrir methagvöxt, metkaupmátt, lágmarksatvinnuleysi og lágmarksverðbólgu á Íslandi á þessu kjörtímabili. Um samspil stjórnarfars og heilbrigðs hagkerfis skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 13. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Hagfræði stjórnmálakreppu":

"Í öðru lagi, og þetta skiptir meira máli að mínu mati, er það, sem bandaríski hagfræðingurinn, Robert Higgs, hefur kallað "stjórnaróvissu".  Stjórnaróvissa vísar til almenns trausts til lagalegs og stofnanalegs umhverfis í hagkerfinu.  Ef það er mikil óvissa um þessa innviði, getur það varanlega dregið úr fjárfestingum og þar af leiðandi framleiðniaukningu í hagkerfinu."

Sú "stjórnaróvissa", sem hér er gerð að umræðuefni, heldur nú innreið sína á Íslandi, því að kosningar til þings gætu hugsanlega farið fram að 5 mánuðum liðnum, og enginn veit, hvers konar stjórnarstefna verður við lýði í kjölfar þeirra. Það skiptir öllu máli fyrir hagkerfið, hagvöxtinn, kaupmáttinn og arðsemi fjárfestinga, hvort haldið verður áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili og á núverandi kjörtímabili, en ekki innleitt hér öngþveiti eða skattaáþján og verðbólga vinstri sinnaðra stjórnarhátta með ögn af stjórnleysisívafi frá pírötum að hætti borgarstjórnar, þar sem þetta stjórnarmynztur er við lýði. 

Kjósendur ákvarða með atkvæðaseðli sínum, hvort hérlendis verður afturhvarf til fortíðar og þjóðfélagslegur sirkus eða stöðug framþróun til lægstu ríkisskulda og beztu lífskjara í Evrópu.

"Hins vegar er meginspurningin ekki um, hvað gerist í íslenzku efnahagslífi á næstu 2-3 ársfjórðungum, heldur hvort þessi stjórnmálakreppa setji af stað meiriháttar breytingar á hinu pólitíska landslagi á Íslandi, sem gætu hugsanlega breytt efnahagslegu og pólitísku valdakerfi landsins.  Persónulega tel ég þetta mikilvægustu spurninguna, þegar litið er til næsta áratugarins eða svo.", skrifaði Lars Christensen ennfremur.

Landsmenn þurfa nú að feta hinn gullna meðalveg, sem hefur ekki ávallt reynzt þeim auðrataður.  Hann er sá, að gera strangar kröfur um heiðarleika í orði og verki til stjórnmálamanna sinna og sín einnig, en hlaupa ekki í múgæsingu á eftir ofstækismönnum af báðum kynjum á jaðri stjórnmálanna, sem beita óprúttnum meðulum til að efna til galdrabrenna, þar sem ofstækismennirnir hirða ekkert um sekt eða sakleysi þeirra, sem kastað er á bálköstinn.  Aðalatriðið virðist vera að búa til fórnarlömb og ná sér niðri á  pólitískum andstæðingum sínum.  Ekkert er nýtt undir sólunni í mannlegri hegðun. Það er hámark lýðskrumsins að hrópa:

"Hann er í Panamaskjölunum, á bálköstinn með hann".  Slíkir loddarar munu hitta sjálfa sig fyrir í vítislogum almennrar fordæmingar, þegar menn ná áttum, áður en yfir lýkur, og dómur sögunnar hefur aldrei orðið ofstækismönnum og -konum vilhallur. 

       Alþingishúsið

 

 


Bloggfærslur 22. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband