Hýenur baktjaldamakksins

Þann 11. marz 2016 var forsætisráðherra Íslands veitt fyrirsát í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.  Hann var blekktur til að veita sænskum rannsóknarblaðamanni viðtal um endurreisn Íslands eftir hrun fjármálakerfisins, en í raun var ætlunin að klekkja á honum með Panamaskjölunum svo kölluðu og særa hann þannig til ólífis. Þetta kom ráðherranum í opna skjöldu, vörn hans reyndist arfaslök, og hann hvarf illa særður af vígvellinum. Hildarleikurinn var þó rétt að hefjast. 

Ráðherrann virðist hafa notað tímann fram að fyrirhuguðum aftökudegi sænsku og íslenzku slátraranna, 3. apríl 2016, mjög illa, þannig að vopnabræður hans voru árásinni óviðbúnir. Þetta ótrúlega andvaraleysi átti eftir að reynast banabiti ráðherrans. 

Stjórnarandstaðan var nokkra stund að bögglast með, hvernig hún ætlaði að bregðast við.  Hún boðaði fyrst vantrauststillögu á þingi á forsætisráðherra, en fékk þá að vita hjá starfsmönnum þingsins, að slík tillaga væri markleysa, og var tillögunni þá breytt þann 4. apríl í að verða vantrauststillaga á forsætisráðherra og ríkisstjórnina. 

Þann 5. apríl 2016 lék fráfarandi forsætisráðherra enn nokkra grófa afleiki.  Hann hugðist stilla bæði formanni Sjálfstæðisflokksins og forseta lýðveldisins upp við vegg, en reyndist þá ekki vera nokkur bógur til að standa í slíkum stórræðum.  Forseti lýðveldisins átti mótleik, sem kom stjórnlagafræðingum og sagnfræðingum á óvart, en reyndist vera hárréttur í stöðunni.  Með þessum leik var fráfarandi forsætisráðherra mát.  Hinn mátaði forsætisráðherra lék einleik téðan morgun, sem eðlilega hugnaðist ekki þingflokki hans, sem steypti honum fremur mjúklega af stóli á fyrsta fundi sínum eftir Bessastaðafundinn.

Það má hverju barni ljóst vera eftir sviptingar í málefnum íslenzka ríkisins þann 5. apríl 2016, hver hinn sterki maður núverandi stjórnarsamstarfs er.  Hann mætti í Kastljósþátt RÚV að kvöldi þessa dags, sýndi þar mikla vígfimi og gerði algerlega hreint fyrir sínum dyrum.  Hann hafði aldrei í hyggju að flýja með sitt fé í eitthvert skattaskjól, heldur var ætlunin að fjárfesta í íbúð á miklu uppgangssvæði við Persaflóann.  Slíkar fjárfestingar erlendis voru þá fullkomlega löglegar, og þær munu verða það, þegar þessum manni, Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, tekst ætlunarverk sitt í þágu landsmanna allra að losa um gjaldeyrishöftin.

Hýenur baktjaldamakksins, formenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hafa nú beint spjótum sínum að þessum manni og ríkisstjórninni allri og heimta kosningar strax.  Atferli þeirra og handbenda þeirra, innan þings og utan, er óþingræðislegt. Þau hafa samt enga kosti að færa þjóðinni, enga stefnu hafa þau kynnt, sem þau hafi sammælzt um að framfylgja í ríkisstjórn eftir kosningar.  Þau standa nú sem fyrr fyrir aðför að þingræðinu, sem þau virðast fyrirlíta. Hér er um sömu svikahrappana að ræða, sem með bolabrögðum hugðust fórna efnahagslegu sjálfstæði landsins með því að samþykkja afarkosti Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á skuldum óreiðumanna, s.k. "Icesave-reikningum", og fórna stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar í hendur kommissara ESB-klíkunnar í Brüssel, sem nú er að krebera sökum eigin úrræðaleysis. 

Það verða senn haldnar Alþingiskosningar, og þá munu þessar hýenur baktjaldamakksins verða krafðar sagna um, hvað fór raunverulega fram á bak við tjöldin, þegar þessir tveir vinstri sinnuðu og þjóðhættulegu flokkar, sem hengu á völdunum eins og hundar á roði án starfshæfs þingmeirihluta og eftir afhroð í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um fjöregg þjóðarinnar, véluðu um örlög íslenzku þjóðarinnar. Hýenurnar munu líka verða krafðar svara við því, hvað frábrugðið verði í stjórnarháttum þeirra, komist þær til valda, m.v. stjórnarhætti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem að ýmissa mati jaðraði við landráð.

Hýenur baktjaldamakksins hafa sýnt og sannað, að þær eru óhæfar til að fara með ríkisvald.  Mistakaferill þeirra á ráðherrastóli er svo langur og ljótur, að það má furðu gegna, að þær hangi enn sem formenn sinna flokka.  Þær hanga ekki á hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson forðum, heldur á einskærri græðgi, valdagræðgi. Aldrei aftur vinstri stjórn.  

 


Bloggfærslur 6. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband