1.6.2019 | 21:23
Aukin fjárfestingarþörf í raforkukerfinu með OP#3
Norðmenn sjá fram á mjög auknar fjárfestingar í raforkukerfi sínu, ef/þegar Orkupakki #3 tekur gildi í landi þeirra. Þetta er óháð því, hvort Statnett, norska Landsnet, heldur einokunarstöðu sinni á sviði millilandatenginga, eins og meirihluti Stórþingsins vill og er einn af átta fyrirvörum Norðmanna við OP#3, en þessir fyrirvarar eru í uppnámi, og norska ríkisstjórnin hefur enn ekki staðið við 15 mánaða loforð sitt um að binda norsku fyrirvarana 8 í norsk lög, enda eru slíkir einhliða fyrirvarar gagnslausir og beinlínis skaðlegir fyrir samstarfið við Evrópusambandið, ESB.
Það er bull úr hvofti íslenzka utanríkisráðherrans, að ekkert bendi til annars en norsku fyrirvararnir hafi fullt gildi gagnvart ESB. Þessu er þveröfugt farið og rétt ein innistæðulausa fullyrðingin úr þeim hvofti. ESB hefur enn ekki gefið nokkurn skapaðan hlut út á bréf norsku ríkisstjórnarinnar með fyrirvörunum 8. Þeir eru þess vegna púðurtunna í norskum stjórnmálum, sem eldur verður væntanlega borinn að með haustinu.
Það eru alls ekki öll kurl komin til grafar í Noregi út af OP#3, og hin pólitísku átök munu verða enn harðari út af OP#4, af því að Alþýðusamband Noregs hefur nú tekið upp skelegga afstöðu gegn OP#3 og Verkamannaflokkurinn fylgir í humátt á eftir. Ofan á þetta bætast miklar raforkuverðshækkanir í Noregi, þar sem meðalverð fyrsta ársfjórðungs í ár er 30 % hærra en meðalverð sama tímabils í fyrra (2018). Hækkanirnar eru aðallega raktar til útflutnings raforku, sem óhjákvæmilega þrýsta upp raforkuverðinu innanlands upp undir erlenda verðið.
Norska orkustofnunin, NVE, hefur upplýst um fjárfestingaráætlun næstu 20 ára fyrir flutningskerfi raforku. Það er gríðarleg aukning fjárfestinga á döfinni, sem rekja má til áforma um vaxandi raforkuútflutning, sem ESB hvetur mjög til og hefur búið til kerfi með Þriðja orkupakkanum til að liðka fyrir. Raunar veitir OP#3 millilandaviðskiptum með rafmagn lagalegan forgang, og þau eru niðurgreidd með styrkveitingum. Þá ber flutningsfyrirtækjum rafmagns, Landsneti á Íslandi og Statnett í Noregi, að styrkja flutningskerfi sín, svo að þau anni þeim orkuflutningum, sem millilandatengingarnar kalla á.
Landsreglari í hverju ríki á að hafa eftirlit með því og fylgja því eftir, að Kerfisáætlun hvers lands sé aðlöguð Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem millilandatengiverkefni eru tilgreind. Þar eru t.d. "Ice-Link" á milli Íslands og Skotlands og "NorthConnect" á milli Noregs og Skotlands, og þessi 2 verkefni eru bæði á PCI-skrá ESB um styrkhæf verkefni.
Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá mun ESB líklega hundsa spangól utanríkisráðherra Íslands um að taka "Ice-Link" af þessum lista. Utanríkisráðherra skilur ekki, hvað OP#3 felur í sér. Hann hefur sett upp einfeldningslegan fyrirvara, sem enginn vandi verður fyrir ESA og/eða sæstrengsfjárfesta að brjóta á bak aftur, Íslandi til mikillar hneisu og ómælds fjárhagstjóns. Þessi utanríkisráðherra stefnir EES-samstarfinu í stórhættu með kjánalátum, og hann setur stjórnmálalega stöðu Sjálfstæðisflokksins í uppnám. Hann hefur sýnt algera vöntun á pólitískri leiðtogahæfni til að leiða þetta orkupakkamál til farsælla lykta. Ekki hefur iðnaðarráðherra bætt sjáanlega úr skák, en aftur á móti hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, fitjað upp á áhugaverðri stefnumörkun í málinu, s.s. að leita eftir undanþágu við ESB fyrir Ísland um alla orkupakkana.
Fjárfestingaráætlun NVE fyrir tímabilið 2020-2040 hljóðar upp á mrdNOK 140. Sé þessari upphæð varpað yfir á íslenzkar aðstæður og notað hlutfall orkuvinnslu landanna tveggja (7), þá fæst upphæðin 14 mrdISK/ár. Þetta er u.þ.b. þreföld fjárfestingarupphæð Landsnets 2018, sem gefur til kynna gríðarlega fjárfestingarþörf Statnetts vegna millilandatenginga, bæði í sæstrengjum og í flutningsmannvirkjum frá stofnrafkerfinu og að landtökustöðum sæstrengjanna.
Kostnaður við innanlandskerfið lendir alfarið á raforkunotendum innanlands. Miðað við gríðarlega fjárfestingarþörf í íslenzka flutningskerfinu, þótt Landsnet taki ekki þátt í sæstrengsfjármögnuninni sjálfri, má búast við tvöföldun flutningsgjaldsins. Í Noregi er búizt við, að breytingar Landsreglarans á gjaldskráruppbyggingunni leiði til tvö-þreföldunar á flutningsgjaldi fyrir orkukræfan iðnað. Gerist eitthvað svipað á Íslandi, gæti það orðið rothögg á einhver fyrirtæki í þessum geira og virkað afar hamlandi á raforkusölu til nýrra viðskiptavina, t.d. gagnavera, nema orkuvinnslufyrirtækin taki óbeint á sig hækkunina með því að lækka verð orkunnar frá virkjun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)