Sýndarmennska og hræsni

Loftslagstrúboðið og allt, sem það hefur leitt af sér, reiðir sig algerlega á heiðarlega og gallalausa vísindalega aðferðarfræði IPCC-Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Trúverðugleikabrestur hefur nú átt sér stað gagnvart IPCC vegna alvarlegrar og málefnalegrar gagnrýni úr ranni raunvísindamanna, sem aðeins eru þekktir af heiðarleika og vísindalegum vinnubrögðum í hvívetna. Þeirra trúverðugleiki er að óreyndu meiri en hóps á vegum SÞ, sem þekkt eru af spillingu á mörgum sviðum.

Þar er í fyrsta lagi um að ræða mæligögnin.  Gervihnattamælingar hitastigs í andrúmsloftinu undanfarna áratugi gefa væntanlega nákvæmustu myndina af hitastigsþróuninni á sama tímabili.  Þar blasir við allt önnur mynd en IPCC dregur upp eða hitastigullinn 0,1°C/10 ár, þ.e. hitastigshækkun um 1°C á 100 árum að öllu óbreyttu. 

Síðan hefur talnameðferð IPCC sætt ámæli, eins og prófessor Helgi Tómasson rakti ítarlega í Morgunblaðinu 14. október 2021, sjá 

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .

Virtir sérfræðingar í meðferð og túlkun tímaraða hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að á undanförnu 2000 ára tímabili sé engin tilhneiging sjáanleg til hitastigsþróunar, heldur sveiflist hitastigið eftir tregbreytanlegu mynztri um fast meðaltal, þ.e. engin breyting.

Það er nauðsynlegt á grundvelli þessara upplýsinga að staldra við og endurmeta forsendur orkubyltingar.  Hér skal ekki mæla á móti því að nýta þær nýjungar, sem heimurinn hefur upp á að bjóða í stað jarðefnaeldsneytis og sömuleiðis að sækjast eftir erlendum fjárfestingum í nýrri framleiðslutækni, sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, því að ýmis mengun fylgir jafnan koltvíildislosun. Nýlega var t.d. tilkynnt um, að Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, ISAL, hygðist helminga þessa losun fyrir árslok 2030.  Þar er horft til föngunar og bindingar CO2, sem er alger vonarpeningur enn og rándýr, og rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem losar nánast aðeins súrefni, O2, sem þá má fanga og selja.  

Að skattleggja notendur jarðefnaeldsneytis með losunarskatti orkar hins vegar mjög tvímælis, því að heimurinn hefur nú farið inn í breytingaskeið með háu orkuverði.  Að eyða opinberu fé í að moka ofan í skurði er engin ástæða til, því að engin neyð er á ferðinni, hvað sem stóryrðum Grétu Thunberg líður. Uppgræðsla og skógrækt standa hins vegar alltaf fyrir sínu.

Þann 18. október 2021 birtist í Morgunblaðinu athyglisverð grein eftir prófessor Jónas Elíasson um tvískinnung Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Íslandi í loftslagsmálum.  Vinnubrögðin á þeim bæ bera þess merki, að engin alvara fylgi orðum, heldur sitji áróðurinn í fyrirrúmi.  Greinin heitir:

 "Loftslagsáætlunin: Verðlausar orkulindir og sýndarmennska".

"Raforkuvinnslan notar hvorki kol né olíu, svo [að] hér á Íslandi er svo gott sem ekkert hægt að gera til að draga úr losun landsins, ef menn ætla ekki að stöðva samgöngur og fiskveiðar og senda landið aftur í miðaldir.  

Stóriðjan og losun hennar fer í taugarnar á mörgum, en hafa verður í huga, að stóriðja á hreinni orku losar aðeins brot af stóriðju á olíuorku.  Ísland getur því gengið til samstarfs við önnur ríki um að stórauka þennan iðnað og þannig haft jákvæð áhrif á alþjóðlega þróun loftslagsmála.  En Ísland er búið að semja sig frá þessum möguleika.  Umhverfisráðherra gengur nú hart fram í að friða allt, sem hægt er að friða, með það augljósa markmið að koma í veg fyrir slíka þróun."

Það er hárrétt, að væri einhver alvara á bak við ógnina af hlýnun af mannavöldum, þá mundu ráðamenn komast að því, að orkukræfur iðnaður af ýmsu tagi hérlendis væri bezt til þess fallinn að hámarka framlag Íslands í viðureigninni við þessa vá. Nei, það er öðru nær.  Þeir, sem mest eru með loftslagsvána á vörunum, sýna hræsnieðli sitt berlega með því að standa gegn flestum nýjum mannvirkjum á orkusviði hérlendis.  Á sviði andrúmsloftsins gildir þá ekki hið alræmda slagorð s.k. umhverfissinna, að náttúran verði að njóta vafans.  Þeir stjórnmálamenn, sem sett hafa loftslagsmálin á oddinn í sinni fátæklegu stjórnmálabaráttu, hafa gjaldfellt sinn eigin málstað.

   "Plagg með þessu nefni [Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum] var gefið út af ríkisstjórninni, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytinu.  Þarna er boðuð minnkandi losun ... [2030:(A) samgöngur á landi -161 kt/ár, (B) skip og hafnir -320 kt/ár, (C) orkuframleiðsla og smærri iðnaður -384 kt/ár. Þetta samsvarar minnkun olíu/bensíns: (A) -50 kt/ár, (B) -100 kt/ár, (C) -120 kt/ár.] ..., en erfitt er að minnka losun í liðunum A, B og C án þess að spara olíu eða bensín.  

Þegar liður A er skoðaður í aðgerðaáætluninni, kemur í ljós, að meginástæða hins áætlaða 50 kt/ár sparnaðar af olíujafngildi er vegna borgarlínunnar.  Að borgarlínan spari einhverja losun er hrein skröksaga, eins og sýnt hefur verið fram á, (sjá:

https://www.samgongurfyriralla.com 

og blaðaskrif þessa hóps.  Þvert á móti; hún eykur óþarfa eldsneytiseyðslu og losun með því að tefja aðra umferð.  Umferðartafirnar eru þegar orðnar miklar, en áhrifa þeirra er hvergi getið í aðgerðaáætluninni eða skýrslum um borgarlínu.  Telja verður, að áhrifin af þessu verði, að 20 kt/ár bætist við eldsneytiseyðslu í samgöngum ...  ."

 Þarna kemur fram, að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn hlýnun er sýndarmennskan einber gagnvart umferð landfarartækja, og núverandi borgarstjórnarmeirihluti bítur hausinn af skömminni með látlausum blekkingum um gæluverkefni sitt, Borgarlínu. 

Verkefnið er víðs fjarri því að vera lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins.  Það fækkar bílum í umferðinni lítið sem ekki neitt, en tefur fyrir þeim.  Mjög alvarlegar tafir og mengun andrúmslofts eru fyrirsjáanlegar á verktímanum, og fækkun akreina fyrir bíla til að koma Borgarlínu fyrir mun færa lífsgæðin á höfuðborgarsvæðinu niður um mörg þrep.  Það er engin glóra af ríkisvaldinu að styðja fjárhagslega við fjárfestingarlegt kviksyndi, sem þjóðhagslegt tap verður af vegna gríðarkostnaðar og lítilla tekna, á meðan fjöldinn allur af samgönguverkefnum bíður úti um allt land, sem þjóðhagslegur ágóði verður af. 

Vandræðagangur sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar, sem eru undir áhrifum Samtaka um bíllausan lífsstíl, ríður ekki við einteyming. Það eru miklu skilvirkari lausnir til reiðu með því að bæta  akrein við hægra megin fyrir strætisvagna, knúnum metani eða rafmagni, og þar mundi skapast hentugt svæði fyrir forgangsakstur lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs, en ófremdarástand getur orðið, þegar bílstjórar gera sitt bezta til að hliðra til fyrir þessum forgangsakstri.  Síðan er mjög arðsamt, öruggt og umhverfisvænt að færa hestakerrugatnamót höfuðborgarinnar til nútímahorfs með mislægum gatnamótum, en slíkar framfarir hefur afturhaldið í Ráðhúsi Reykjavíkur bannað (tekið út af aðalskipulagi). 

Ef þetta yrði gert, þyrfti enginn að kvarta undan umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu lengur.  Svar Holuhjálmara Ráðhússins er, að slíkar framfarir framkalli bara fleiri bíla í umferðinni.  Þá er spurningin, hvort ekki sé eðlilegra, að borgararnir velji sér sinn samgöngumáta sjálfir fremur en að verða þvingaðir í einhvert samgönguform, sem stjórnmálamenn hafa ákveðið fyrir þá (að þeim forspurðum). 

"Raunhæfar aðgerðir eru til, það er hægt að ráðast að umferðarvandanum, það er hægt að smíða skip og flutningabíla, [sem ganga fyrir] rafmagni, en það þarf eitthvað að gera, til þess að slíkt verði að veruleika; það dugar ekki að gefa út aðgerðaáætlun og bíða svo eftir orkuskiptum með kraftaverki. 

Loftslagsvandinn verður ekki leystur með kraftaverkum eða blekkingum, og ábyrgð umhverfisráðherra er mikil að að standa fyrir slíku."

 Þarna flettir prófessor Jónas ofan af óheilindum umhverfisráðherrans í starfi.  Gagnrýnin hefur þó dýpri merkingu.  Prófessor Jónas er (að mati pistilhöfundar) að lýsa vantrú á getu ríkisvaldsins til að fást við orkuumskiptin.  Markaðurinn verður að virkja tæknikunnáttuna, sem fyrir hendi er, þ.e.a.s. fyrirtækin verða að taka frumkvæðið.  Stjórnmálamenn eiga bara að gæta þess að þvælast ekki fyrir og forðast að setja skít í tannhjólin.  Ekki eru allir stjórnmálamenn hræsnarar, fjarri því, en þegar hræsnarar taka frumkvæði, verður úr því örverpi á borð við það, sem prófessor Jónas Elíasson þarna vekur athygli á. 

Botn téðrar greinar var þannig:

"Á núverandi markaðsverði er verðmæti losunarheimilda málmiðnaðar á Íslandi um 80 MEUR/ár eða 12 mrdISK/ár og fer hratt hækkandi.  Nú skal málmiðnaður draga úr losun samkvæmt aðgerðaáætluninni, sem væntanlega þýðir samdrátt í framleiðslu og kaupum á raforku, vinnu og þjónustu, sem er mikil afturför í atvinnumálum.  Að lokum mun hagkvæmast fyrir málmbræðslurnar að loka og selja sinn losunarkvóta.  Þar með verður þeim mönnum að ósk sinni, sem vilja losna við stóriðjuna, en í staðinn situr Ísland uppi með verðlausar orkulindir.  Þegar stóriðjan er farin, situr landið uppi með virkjanir,  sem duga henni um aldur og ævi og allt jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála að engu gert."

Þessi svarta sviðsmynd er eins og draumsýn fyrirbrigðisins á stóli umhverfis- og auðlindaráðherra og sértrúarsafnaðarins í kringum hann.  Hún gat virzt raunsæ í Kófinu, en nú virðist heimurinn kominn á orkuumbreytingarskeið, sem þýðir hátt orkuverð og hátt verð fyrir afurðir orkukræfs iðnaðar.  Iðnaðurinn mun einfaldlega standa straum af kolefnisgjaldi hvers tíma og verða þannig knúinn til að leitast við að draga úr koltvíildislosun sinni.  Hann er nú þegar með rannsóknarverkefni í gangi í þessa veru, t.d. að fanga hluta af CO2 í reykháfum sínum og binda það í jarðlögum í samstarfi við önnur fyrirtæki, og að þróa eðalskaut (keramík) í stað kolaskauta, þannig að losun verði engin, nema á súrefni, sem verður nýtanlegt. 

     

 

  


Bloggfærslur 25. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband