Óttastjórnun í heimi fáránleikans

Falsspámenn hafa uppi verið á öllum öldum.  Vinsælt hefur verið að dunda sér við hættuna á tortímingu mannkyns, og margir kryddað spána með því, að "skaparinn" væri reiður vegna syndsamlegs lífernis hrjáðra afkomenda Evu og Adams úr aldingarðinum Eden forðum. 

Nú á dögum tíðkast að klæða loddaraskapinn í búning raunvísinda, sem er lúalegt og lymskulegt bragð.  Viðbrögð ýmissa vísindamanna og sérfræðinga á sviði læknisfræði við heimsfaraldrinum COVID-19 (C-19), sem stafar af kórónuveirunni SARS-CoV-2 í ýmsum afbrigðum (kórónuveirur valda t.d. inflúensu), hefur sýnt almenningi, hversu meingölluð ráðgjöf vísindamanna, til stjórnmálamanna, á sviði lýðheilsu og faraldursfræði getur verið.  Sænski læknirinn Sebastian Rushworth heldur því blákalt fram, að samanburðarrannsóknir á milli margra landa með mismunandi opinberar sóttvarnarráðstafanir sýni algert haldleysi lokana og hafta til að draga úr útbreiðslu C-19, því að sízt hafi þeim farnazt betur í baráttunni við þessa veirupest, sem beittu ströngum hömlum á athafnir almennings en hinum, sem héldu frelsisskerðingum í lágmarki. 

 Loftslagsmál eru mjög fyrirferðarmikil í stjórnmálum á Vesturlöndum um þessar mundir.  Röng stefnumörkun í orkumálum og röng viðbrögð við C-19 eiga sök á þeirri orkukreppu, sem nú hefur riðið yfir Evrópu (vestan Rússlands) og Asíu.  Hið alvarlega er, að stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið ginnast af falsspámönnum, sem starfa undir yfirskini vísinda á vegum Sameinuðu þjóðanna, SÞ, í s.k. Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC, og gefa út viðamiklar skýrslur, þar sem gagnrýnendum á vinnubrögðin er ekki hleypt að.  Múgsefjun hefur náð yfirhöndinni í sóttvarnarmálum og í loftslagsmálum, og ekki vantar "manipúlatorana", strengjastjórnendur í brúðuleikhúsið.

Heiðarlegir raunvísindamenn hafa þó fundið sér annan farveg til að koma vísindalegum niðurstöðum á framfæri.  Á meðal þessara alvöru vísindamanna er John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla (UAH) https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2268208 .  Úrvinnsla hans á gervihnattamælingum hitastigs um mestalla jörð og í mismunandi hæðum sýna allt annan og miklu lægri hitastigul í gufuhvolfinu s.l. 40 ár en IPCC heldur fram í sínum skýrslum eða um 0,1°C/10 ár, sem við núverandi skilyrði í andrúmsloftinu mundi gefa 1°C hærra hitastig að meðaltali eftir eina öld. Er það nokkuð annað en fárið, sem nú er búið að skapa um óafturkræfa og reyndar sívaxandi hækkun yfir 3,0°C frá upphafi iðnbyltingar, eftir 70 ár. Virtir tölfræðingar hafa birt niðurstöður sínar yfir miklu lengra tímabil, 2000 ár, og niðurstaðan var hitastigull=0, þ.e. tregar sveiflur um fast meðaltal. Í hverju máli ber að hafa það, er sannara reynist, og ekki að hleypa þeim til áhrifa, sem hæst láta, en beita ámælisverðum vinnubrögðum. 

Reiknilíkön IPCC eru einfaldlega röng.  Meginskyssan er sú að vanmeta stórlega sjálfreglandi (leiðréttandi) eiginleika gufuhvolfsins.  Þegar hitastig þess hækkar, eykst um leið útgeislunin frá jörðu og út í geiminn, og þegar það lækkar, t.d. vegna eldgosa, minnkar þessi innrauða geislun út í geim. Enginn afneitar fræðum 19. aldar (Fourier, Arrhenius) um gróðurhúsaáhrif  koltvíildis og fleiri gasa, en þessum fræðum verður að beita varlega á stórt og flókið kerfi, og gróðurhúsaáhrifin eru stórlega ofmetin í andrúmslofti jarðar. 

Nú hefur Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við H.Í., leitt athygli lesenda Morgunblaðsins að hinni tölfræðilegu hlið óvandaðra  (óvísindalegra) vinnubragða IPCC við meðhöndlun mæligagna, og má þá segja, að ekki standi þar steinn yfir steini lengur, heldur sé málflutningurinn hreinn skáldskapur, eins og bókin "Endimörk vaxtar" var á sínum tíma.  Þann 14. október 2021 birtist eftir hann í Mbl. greinin:

"Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC" 

"Vísindamenn eiga það til að freistast til að vera með glannalegar ályktanir út frá mælingum.  Þetta hefur t.d. þekkzt í læknavísindum, en aukin meðvitund og útbreiddari tölfræðiþekking hefur hægt á flæði falsályktana.  Það má meðal annarra þakka mönnum eins og John P.A. Ioannidis, sem birti grein 2005 um, hvers vegna flestar birtar niðurstöður í læknisfræði eru rangar."  

Prófunarniðurstöður lyfjafyrirtækjanna eru óáreiðanlegar.  Það átti í sérstaklega miklu mæli við um prófunarniðurstöður bóluefna við C-19 vegna  þess skamma tíma, sem var til stefnu á þróunarskeiðinu.  Lyfjafyrirtækin hillast til að fegra niðurstöður prófana sinna með því að draga úr neikvæðum áhrifum og ýkja jákvæðu áhrifin. Þetta hefur sænski læknirinn Sebastian Rushworth sýnt fram á ásamt fleirum.

  Loftslagsvísindin eru flókin, og ef kuklarar fara höndum um þau, er voðinn vís. Það hefur einmitt gerzt með þeim afleiðingum, að heimurinn stendur á öndinni, svo að minnir á stemninguna eftir útgáfu bókarinnar "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar - með spádómum, sem ekki stóðust, heldur reyndust þvættingur, settur fram til að hræða fólk upp úr skónum, svo að það breytti neyzlumynztri sínu og hagkerfin stöðnuðu - það yrði núll vöxtur.  Sama vakir fyrir kuklurum IPCC, sem nú starfa undir fölsku flaggi og bregða yfir sig vísindaskykkjunni.

 "IPCC er skammstöfun á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, og nýlega er komin skýrsla, sem kölluð er númer 6.  Um eldri skýrslu segir tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, árið 2008 í OECD-skýrslu í kafla 32: Því miður vantar tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC.  Útkoman inniheldur því alvarlega galla.  Þessir gallar eru til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar."

Hvernig stendur á því, að þessi alvarlega gagnrýni frá tölfræðidoktor, sem notið hefur trúnaðar yfirvalda í Ástralíu og hjá OECD, hefur ekki enn slegið mikið á áróður IPCC ?  IPCC reynir þöggun og í stað málefnalegrar varnar eru hrópin hækkuð og spáin gerð enn skelfilegri með lýsandi nafnorðum á borð við "hamfarahlýnun" og "loftslagsvá".  Þessi hegðun er mikill ljóður á ráði þeirra, sem framsetningunni ráða hjá IPCC og þeirra, sem ekki mega heyra orði hallað í garð IPCC.

Fólk, sem ekki hefur ráðrúm til að kynna sér fleiri hliðar viðfangsefnisins en þá, sem IPCC birtir með boðaföllum, fyllist sumt angist.  Þ.á.m. er ungt fólk, sem hefur í mörgu að snúast, og ber orðið svo mikinn kvíðboga fyrir framtíðinni, að það ákveður að fjölga sér ekki.  Þetta er ein af ástæðum þess, að fjöldi barna á hverja konu er kominn niður í 1,7, sem þýðir fækkun í stofninum, hinum ágæta germansk-keltneska stofni, sem hér varð til fyrir um 1100 árum, og sums staðar er þessi tala orðin enn lægri. (2,1 þarf til viðhalds.) 

Hér er um mikinn ábyrgðarhluta að ræða og verðugt íhugunarefni, hvers vegna málefnaleg gagnrýni á líkön IPCC, birt mæligögn, úrvinnslu þeirra og framsetningu alla, hefur ekki náð meiri hljómgrunni en reyndin er.  Sé tekið mark á gagnrýninni, sem full ástæða er til, virðast skýrslur IPCC þjóna annarlegum tilgangi, s.s. að hægja á hagvexti hagkerfa heimsins, sem áhangendur "Endimarka vaxtar" telja ósjálfbæran, og þannig draga úr allri neyzlu.  Hér skal ekki amazt við því sjónarmiði, að neyzlumynztur, mikið kjötát o.fl., sé á röngu róli út frá lýðheilsuviðmiðum og sjálfbærni landbúnaðar, en gallinn er sá, að hjá IPCC helgar tilgangurinn meðalið.  Afleiðingin er sú, að barninu er kastað út með baðvatninu. 

 "Greinin [norsks vísindamanns, Jons Dagsvik í Journal of Royal Statistical Society, 2020] sýnir stærðfræðilegar útfærslur og síðan dæmi um notkun á gögnum, hitamælingum 96 veðurstöðva í u.þ.b. 200 ár ásamt áætluðum hitatölum, byggðum á árhringjum úr trjám í u.þ.b. 2000 ár.  Niðurstaðan er, að þróun hitastigs er vel lýst sem tregbreytanlegu (long-memory) ferli með fast meðaltal, þ.e. engin þróun í tíma.  Sér í lagi engin þróun á seinni hluta 20. aldar. Gögnum og forritum, sem tengjast greininni, mátti hlaða niður af heimasíðu tímaritsins (greinarhöfundur er með þessi gögn)." 

Hér eru mikil tíðindi á ferð.  Undanfarin 2 árþúsund er hvorki um að ræða marktæka kólnun né hlýnun, heldur bara eðlilegar sveiflur í kringum fast meðaltal.  Að engin hlýnun skuli vera merkjanleg af þessum gögnum á 20. öldinni, stingur algerlega í stúf við málflutning IPCC um hlýnun með ört hækkandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu.  Hér eru mikil firn á ferð.  Allur hræðsluáróðurinn um hlýnun jarðar stendur á brauðfótum, þegar undirstaða hans er skoðuð ofan í kjölinn. Er ekki ástæða til fyrir upplýst fólk, sem hefur hingað til viljað láta IPCC njóta vafans, að staldra við ?  Renna ekki á menn 2 grímur ?

Og áfram með smjörið:

"J. Scott Armstrong er stofnandi tveggja fræðirita um spálíkanagerð, Journal of Forecasting og International Journal of Forecasting.  Hann hefur tekið saman vinnureglur um, hvernig skuli vinna með spár og telur, að IPCC brjóti margar."

Kjarninn í boðskap IPCC eru einmitt spár, og þar er ekki skafið utan af því, því að þetta eru heimsendaspár.  Það þarf ekki að orðlengja það, hversu vandmeðfarnar spár eru, og mikil fræði hafa verið þróuð til að forða mönnum frá að falla í vilpur á þeirri vegferð.  Það er þess vegna ekki bara rassskelling fyrir IPCC, heldur falleinkunn, þegar slíkur fræðimaður, sem hér er tilgreindur, fullyrðir, að IPCC brjóti margar reglur, sem hafa verði í heiðri við spár og gerð spálíkana. 

"Danski jarðfræðingurinn Jens Morten Hansen, sem m.a. hefur rannsakað Grænlandsjökul og gegnt mikilvægum embættum í dönsku rannsóknarumhverfi, varar við oftúlkunum á skýrslum IPCC.  Hansen hefur efasemdir um aðferðafræði IPCC, og reynsla hans af rannsóknum á Grænlandsjökli ásamt tilfinningu fyrir stærðargráðum segir, að jafnvel bókstafleg túlkun á sviðsmyndum IPCC sýni, að hvorki muni Grænlandsjökull hverfa né muni Danmörk sökkva.  Hann vitnar þar til síðustu ísalda og hlýindaskeiða milli þeirra.  Hansen gagnrýnir einnig danska ríkisútvarpið, DR (Danmarks Radio), fyrir einhliða málflutning og ýkjur um það, hversu sammála vísindamenn séu."

Alvöru vísindamenn, sem fara ofan í saumana á IPCC, fella sig ekki við vinnubrögðin þar á bæ, svo að fullyrða má, að alvarlegur ágreiningur ríki í vísindaheiminum um ályktanir og spádóma IPCC. RÚV á Íslandi hefur að sjálfsögðu ósjálfrátt skellt sér á hestvagninn, þar sem látið er í veðri vaka, að niðurstöður IPCC séu vísindalegur sannleikur, sem ekki sé unnt að draga í efa.  "Oh, sancta Simplicitas." 

Síðan kemur hnífskörp ályktun Helga Tómassonar:

"Tónn sumra boðbera loftslagsvár minnir á rétttrúnaðarklerka, sem telja sig umboðsmenn guðs og messa í reiðitóni yfir söfnuðum sínum. Boðskapurinn er: Nú hafið þið syndgað, guð er reiður, og því miður er nauðsynlegt að sveifla refsivendinum, úthluta sektum og kvöðum, til að söfnuðurinn öðlist möguleika á inngöngu í himnaríki." 

Þetta er hárrétt athugað hjá Helga Tómassyni.  Ekki er nú orðinn mikill vísindasnykur á IPCC, þegar virtur fræðimæður líkir þeim við rétttrúnaðarklerka.  Þannig láta einmitt núllvaxtarsinnar, hverra biblía er enn hin löngu úrelta bók "Endimörk vaxtar".  Lýðurinn skal fá að gjalda fyrir líferni sitt og verður þröngvað með óttastjórnun til að laga neyzlu sína að vilja þessara núllvaxtarklerka, og skatta skal leggja á óæskilegan varning eins og jarðefnaeldsneyti. Það er varla heimska og vankunnátta, sem alfarið ræður ríkjum hjá IPCC, heldur ormar í möðkuðu mjöli SÞ, sem svífast einskis til að troða núllvaxtarhugmyndafræði sinni bakdyramegin inn á heimilin. 

Síðan kemur ráðlegging til Íslendinga í þessari vandræðalegu stöðu:

"Tilgangurinn má ekki helga meðalið. Þótt mengunin sé slæm, má ekki nota hvaða aðferðir sem er til að draga úr henni.  Það getur verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að draga úr losun koltvísýrings, því [að] losunin er afleiðing af brennslu olíu. Olían er dýr (og í heiminum endanleg auðlind) og því mikilvægt að fara sparlega með hana.  Olíusparnaðurinn má hins vegar ekki kosta hvað sem er.  Hvaða málstaður er það, sem kallar á það að fara með ungling á seglskipi yfir Atlantshafið til að láta hann ávarpa þing Sameinuðu þjóðanna ?"

Það er hægt að taka undir þessi viðhorf.  Þó hafa ýmsir bent á, að CO2 sé varla mengun, heldur lífsandinn sjálfur fyrir allt plöntulíf á jörðunni. Hins vegar er þessi lífsandi sjaldnast einn á ferð, þegar tæknivædd losun manna er annars vegar, heldur fylgja með skaðleg efni á borð við sót, brennisteinssambönd o.fl.  Það má líka spyrja, hvaða málstaður það sé, sem kalli á sérskattlagningu jarðefnaeldsneytis ofan á heimsmarkaðsverð í hæstu hæðum, sem nú tekur verulega í buddu þeirra, sem ekki eru á "nýorkufarartækjum".  Stóra spurningin er sú, hvort málstaður, sem sannanlega stendur á brauðfótum, geti réttlætt byltingu á lífsháttum og hagstjórn í átt að "núllvaxtarhagkerfi" með þeirri ömurlegu afturför, sem slíkt feigðarflan hefur á lífsafkomu almennings og velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga ?  

"IPCC-skýrsla AR6, sem liggur fyrir, er um 4000 bls. Leit að tímaraðahugtökum, eins og sjálffylgni (autocorrelation) gefur ekki vísbendingar um þróaða tímaraðalíkanagerð hjá IPCC.  Hugsanlega finnst ritstjórum IPCC niðurstaða tímaraðalíkana ekki nógu krassandi.  

Fyrir umhverfisvandamál Íslands eru enn í gildi gömlu leiðinlegu vandamálin, uppblástur, ofbeit, lausaganga búfjár og frágangur á skolpi auk útblásturs á brennisteinsgufum og hliðstæðum eiturgösum.  Ef hlýnun er raunveruleg, ættu Íslendingar að taka því fagnandi, auka uppgræðslu og skapa ný tækifæri í landbúnaði.

Ályktanir tímaraðamanna, eins og Dagsvik og Mills, um, að þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal, eru afgerandi.  A.m.k. eru breytingar mjög hægar (m.v. okkar líftíma) og verðskulda alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá."

Ef að líkum lætur verða engar varnir hafðar uppi af hálfu loftslagshræsnara eða upphrópanalýðs, sem halda, að þeir geti vaðið um á skítugum skónum með fúsk og ályktanir út í loftið. Loftslagsfræði eru flókin, og það er ekki hægt að draga neinar vitrænar ályktanir um það, sem í vændum er, án þess að beita heiðarlegum, vísindalegum aðferðum.  Að hundsa fræði tímaraða við meðferð á mæligögnum fortíðar til að draga ályktanir um framtíðina er dauðadómur yfir öllum boðskap, sem frá slíku liði kemur. 

Uppblástur og ófullburða meðferð skolps eru 2 mikilvæg viðfangsefni umhverfisverndar, sem skynsamlegra væri fyrir Íslendinga að fást við af meiri eindrægni en margt annað á umhverfissviði, og mundu umbætur á báðum sviðum einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessari hörðu ádrepu prófessors Helga Tómassonar á IPCC og hræðsluáróðurinn, sem frá þeim stafar, lauk þannig:

"Vissulega er mengun vandamál. Hættulegum efnum er sleppt út í umhverfið.  Koltvísýringur er náttúrulegt efni og lífsnauðsynleg næring fyrir plöntur.  Fyrir liggur, að eðlisfræði frá t.d. Joseph Fourier á fyrri hluta 19. aldar og Svante Arrhenius í lok 19. aldar segir, að gös í lofti (andrúmslofti) geti haft áhrif á yfirborðshita.  Gróf skoðun gagna sýnir, að þetta yfirfærist ekki auðveldlega á þróun hita á yfirborði jarðar síðustu 100-200 ár.  Þetta er miklu flóknari kapall.  Augljóst er, að 15-20 ára ályktun Trewin um, að skýrslur IPCC séu tölfræðilega vanþróaðar, stendur enn.  

Nóbelsverðlaunahafinn Richard Feynman sagði, að það væri mikilvægara að viðurkenna, að við hefðum ekki svör við ákveðnum spurningum heldur en að fá skammtað svar, sem ekki má efast um (þýðing greinarhöfundar, kannski ekki hárnákvæm)."

Nú eru haldnar ráðstefnur á ráðsnefnur ofan, þaðan sem einvörðungu endurómur berst frá haldlausum skýrslum IPCC.  Væri nú ekki einnar messu virði að hóa saman ábyrgðarmönnum AR6 hjá IPCC og þeim, sem metið hafa hitastigul andrúmslofts út frá gervihnattamælingum (John Christy), Dennis Trewin og tímaraðamönnunum (hæfum tölfræðingum) til að leiða saman hesta sína fyrir opnum tjöldum undir góðri fundarstjórn til að kryfja þessi mál til lykta í stað þess, að heimurinn gleypi við trúboði loftslagsklerkanna ?  Viðbrögð IPCC við málefnalegri gagnrýni hafa hingað til ekki falið í sér málefnalegar varnir, heldur að herða enn á óttaáróðrinum.

Til eru þeir stjórnmálaflokkar, einnig á Íslandi, sem láta sína pólitík hverfast um slagorðin "loftslagsvá" og "hamfarahlýnun".  Einn stjórnarflokkanna gengur þar sýnu lengst.  Er nú ekki ráð að fara aðeins að slá af ofstækinu og hleypa beztu þekkingu og heilbrigðri skynsemi að borðinu ?

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Mikið væri það gott Bjarni ef stjórnmálamenn myndu nú

hlusta á skynsemis rök í stað þess að fylgjs rétttrúnaðium.

En á meðan enginn sem á þingi situr treystir sér til þess,

þá er ekki von á öðru en algjörri vit-leysu.

Vinsældar pólitík (rétttrúnaður) er meira virði heldur

en almenn skynsemi og rök og því fer sem fer.

Þingmanna eiðurinn er eitthvað skraut sem enginn fer eftir og

notaður á tyllidögum til að upphefja sjálfa sig sem einhvern merkilegan.

Því miður en satt.

Takk fyrir frábæran pistil sem endranær.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 22.10.2021 kl. 19:53

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Sigurður Kristján, tilveran er eilíf barátta.  Flesta hérlenda stjórnmálamenn, eins og erlenda, skortir þor og þol til að synda á móti straumnum.  Það verður ekki fyrr en almenningi blöskrar, hann situr ýmist í myrkrinu eða við tölvuna og horfir á himinháa orkureikninga, sem 2 grímur munu fara að renna á suma stjórnmálamenn og grunur um, að þeir hafi verið afvegaleiddir, sem vænta má stefnubreytingar.  

Bjarni Jónsson, 22.10.2021 kl. 21:19

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Sorglegt að vita af ungu fólki bera kvíðboga fyrir framtíðinni.í venjulegu árferði er hægt að létta þeim lífið,en fréttatímar stútfullir af skáldaðri eða í ft.skálduðum vám (lekkert) ekki séns nema ríkisstjórnin grípi inn í og þarfnist fjölgunar Íslendinga.Einu sinni var grátið yfir útdauðum Geirfugli og baukurinn tæmdur til þess að kaupa einn uppstoppaðan. Takk fyrir greinina Bjarni.  

Helga Kristjánsdóttir, 23.10.2021 kl. 00:57

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er ein af skuggahliðum hræðsluáróðursins, Helga, að hann hefur líklega náð inn í skólana og einhverjir kennarar, sennilega sannfærðir um nauðsyn "núllvaxtarkenningarinnar", hafa predikað í þeim dúr, að mannkynið væri að steikja jörðina lifandi.  Sömu predikurum væri nær að líta á jarðsöguna.  Ætli þeir sæju þá, að ef hlýnun af mannavöldum á sér stað, er hún líkleg til að seinka næstu ísöld ?  Þessi tortímingarótti er verri en á skuggalegusta tíma kalda stríðsins og kjarnorkuváarinnar.

Bjarni Jónsson, 23.10.2021 kl. 14:02

5 Smámynd: Jón Magnússon

Flott og góð samantekt Bjarni. Ótrúlegt að stjórnmála- og fréttaelítan skuli hafa bundist samtökum um að flytja trúaráróður um hamfarahlýnun og þjóðþing sumra Vesturlanda skuli hafa lýst yfir neyðarástandi þegar engin er neyðin.

Jón Magnússon, 23.10.2021 kl. 17:58

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir umsögnina, Jón.  Þeir, sem eldri eru en tvævetur, ættu þó að vita, hversu afdrifaríkt getur verið að gleypa við málflutningi hóps, sem ekki þolir gagnrýni (gagnrýnendur IPCC) fá ekki inni í skýrslunum.  Þá ber stjórnmálamönnum að kynna sér öndverð sjónarmið áður en þeir taka einhvern boðskap sem "stórasannleik" og bera hann þannig á borð fyrir almenning.  Í hverju málinu á fætur öðru hnýtur "fréttaelítan" um fyrsta þröskuld.  Á fréttastofum virðist vera rík tilhneiging til að láta berast með straumnum.  Það er lítil viðleitni til hlutlægs mats á viðfangsefninu.  Hér gildir hið gamalkunna, að einn étur upp eftir öðrum.  Þó finnst mér ritstjórn Morgunblaðsins bera af hérlendis, hvað gæði blaðamennsku varðar.  Blaðið er opið fyrir gagnrýni á IPCC og hampar jafnvel gagnrýninni.  

Bjarni Jónsson, 23.10.2021 kl. 18:51

7 Smámynd: Hörður Þormar

Engin vísindi eru óvefengjanleg og enginn vísindamaður fullkominn. Vísindi eru byggð á mælingum og rannsóknum. Túlkun á þeim getur verið umdeilanleg, bornar eru brigður á rannsóknirnar, þær séu jafnvel falsaðar. Það er þó bót í máli að oft má endurskoða þær og loftslagsmælingar eru sífellt endurteknar.

"Langflestir sérfræðingar á sviði loftslagsvísinda halda því fram að loftslagið sé að hlýna af mannavöldum". (Harald Lesch: Klimaskeptiker)  Ég trúi þessari staðhæfingu og þeim rökum sem henni fylgja betur en þeim fullyrðingum að hlýnun loftslagsins af mannavöldum sé rakalaus hræðsluáróður og bull.

Auðvitað er CO2 ekki eitur, ekki frekar en vatn. Þó geta menn kafnað í kolsýringi ekki síður en drukknað vatni og eru ótal dæmi til þess.  

CO2 hefur gróðurhúsaáhrif, það var sýnt fram á það fyrir meira en 100 árum og er margstaðfest síðan. Og það eru a.m.k. 40 ár síðan varað var við áhrifum þess á loftslagið.

Ég er að sjá ótal tilvitnanir í lærðar greinar sem fjalla um mannleg áhrif á loftslagið og sýnist sitt hverjum. Fæstar hef ég þó lesið, enda hef ég engar forsendur til að meta þær. Þó held ég að fáir vísindamenn séu með þær dómsdagsspár sem gjarnan er haldið á lofti, að "heimurinn farist eftir tólf ár". Og fáránlegt er að blanda sænsku stúlkubarni í þau "vísindi".

Enda þótt langflestir viðurkenni hættuna af gróðurhúsaáhrifum, þá er það vandamál óleyst hvernig  bregðast eigi við. Það er t.d. til lítils fyrir okkur Íslendinga, jafnvel Evrópubúa, að draga úr losun á CO2 ef Kínverjar, sem  nú þegar eiga þriðjungs þátt í CO2 losun alls  mannkynsins, eru að auka hana.

Það má því búast við að loftslag fari hlýnandi á næstu áratugum og menn verði einhvern veginn að aðlagast því. Vonandi fer ekki allt á versta veg. 

Hörður Þormar, 23.10.2021 kl. 19:28

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þessa góðu grein.

En, það eru aðeins nokkrir aðilar sem sjá þennan sannleika. 

Fjölmiðlarnir eru nær eingöngu að dreifa þessum áróðri. 

Bankaeigendur, hlutabréfa eigendur, sem núna fá gefins peningaprentunina geta skammtað lánin til fjölmiðlanna. 

Við vitum hvernig ríkisútvarpinu er stjórnað og skrifum ekki. 

Ekki er hægt að sjá að ríkisstjórnin megi stjórna, en hún virðist hlíða skipunum í formi laga frá útlöndum.

Ríkistjórnin er á fullu að selja peningaprentunina og þá eignast eigendur bankana allt sem gert er.

Ríkisstjórnin, seldi greiðslu kerfið, og allir vita að við þurfum að hafa möguleika á að taka upp seðla og ávísanir ef ástæður krefjast.

Ríkisstjórnin er nú að selja samskiptakerfi landsins, dreifi kerfi allra upplýsinga.

Auðvitað er þetta ekki sjálfrátt, heldur hlíða þeir af hræðslu.

Allt stjórnkerfið hlýðir Cov vitleysunni, og loftslags vitleysunni.

Jónas Gunnlaugsson, 24.10.2021 kl. 00:55

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir þetta innlegg, Hörður Þormar.  Það er rétt, að gróðurhúsaáhrif Fouriers og Arrhenius eru viðurkennd í sjálfu sér, en andrúmsloft jarðar er ekki lokað rými á tilraunastofu, heldur miklu flóknara fyrirbæri.  M.ö.o. er erfitt að búa til sannferðugt líkan af andrúmsloftinu, eins og í einfaldleika sínum má sjá af röngum veðurspám.  Hvers vegna IPCC velur að aðlaga loftslagslíkön sín að yfirborðsmælingum hitastigs jarðar fremur en að gervihnattamælingum í mörgum hæðum um nánast alla jörð, þarfnast skýringa.  Prófessor John Christy og félagar hönnuðu líkan, sem reist er á 100 orkueiningum inn frá sólu og 70 orkueiningum sem geislun út í geiminn.  Þetta stemmdi við raunmælingar hitastigs með gervihnöttum um 40 ára tímabil.  IPCC vanmetur útgeislunina og sjálfreglunarþátt andrúmsloftsins, þ.e. þegar hitastig þess hækkar, þá eykst útgeislun.  

Síðan koma niðurstöður tímaraðafræðinganna, sem prófessor Helgi Tómasson hefur frætt okkur um.  Á grundvelli 2000 ára tímaraða með hitastigsgildum (sjá pistil að ofan) er niðurstaða þeirra sú, að hitastig andrúmslofts sé tregbreytanlegt og sveiflist um fast meðaltal, þ.e.a.s. það er engin merkjanleg þróun sjáanleg á þessu meðalhitastigi jarðar, þegar tímakvarðinn er 2000 ár, en ekki 40 ár eða 200 ár. 

Bjarni Jónsson, 24.10.2021 kl. 11:22

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas; Maðurinn er kyndug skepna og hefur um langan tíma lagt trúnað á margt fjarstæðukennt.  Hann er veikur fyrir alls kyns fjarstæðukenndri hugmyndafræði, hreinum firrum, og þegar fram á sjónarsviðið kemur kenning um, að hann hafi verið á stórhættulegri braut við orkunýtingu, sem þó leysti hann undan oki þrældóms og veitti honum ótrúlega mikla velmegun, þá bregðast margir við því með því, að syndarinn verði að hverfa frá villu síns vegar til að frelsast og bjarga jörðunni í leiðinni.  Dæmin sanna, að það er nauðsynlegt að rýna kenningar hugmyndafræðinganna.  Oft hafa þeir reynzt ómerkilegir loddarar og "manipúlatorar", sem hafa þá áráttu að segja öðrum fyrir verkum um lífernið.

Bjarni Jónsson, 24.10.2021 kl. 11:40

11 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Allir sem hugsa aftur á bak sem ég kalla, nota það sem þeir vita, skilja og muna af fyrri þekkingu. 

Þá eru þeir með tréplógin, asnann og keyrið.

Þeir hafa aðeins örlítinn þríhyrning út í þekkingu aldana og árþúsundanna.

Þá sjá þeir enga aðra lausn en að skera allt niður. 

Þeir segja, það er ekki nóg til. 

Stundum segjum við að Lindgren  og H C Andersen með sínar persónur komi með nýjar lausnir. 

Einstein, sagði að ekki væri hægt að hugsa nýjar lausnir með þekkingu og rökhugsun. Við getum kallað það innsæi en við vitum ekki hvaðan lausnin kemur eða af hverju.

Nikola Tesla sagði, lausnirnar koma frá kjarnanum.

Jesú sagði, lausnirnar koma frá Heilögum Anda og Guði.

Trú hvers manns er hans hugmyndaheimur.

Hugmyndaheimur hvers manns er hans trú.

slóð

Það er ekki amalegt að fá leiðbeiningarnar beint inn í hugann, eins og Einstein, Nikola Tesla og Jesú tala um, beint frá miðjunni, sem við þekkjum ekki, Einstein, frá kjarnanum hans Tesla og Heilögum Anda og Guði, eins og Jesú kenndi.

Uppfinning er ekki afurð rökrænnar hugsunar, jafnvel þó að lokaafurðin sé bundin við rökræna uppbyggingu.

Invention is not the product of logical thought, even though the final product is tied to a logical structure.

Egilsstaðir, 28.10.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 28.10.2021 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband