15.8.2021 | 21:19
Falsfréttir IPCC
Vísindi eru aðferð til að leita sannra upplýsinga. Aðferðin er sú að smíða kenningu og síðan að sannreyna hana með óháðum gögnum. IPCC (=Intergovernmental Panel on Climatic Change, loftslagsvettvangur Sameinuðu þjóðanna, SÞ) hefur búið til tölvulíkan af lofthjúpnum á grundvelli líkana yfir 100 þjóða og kallað það samræmt líkan ("Consensus Model"). Nú vill svo til, að fyrir hendi er viðamikið gagnasafn hitamælinga úr lofthjúpnum hringinn í kringum jörðina í mörgum sniðum og í mörgum hæðum frá jörðu yfir nokkra áratugi. Hitamælingarnar fóru fram með því að mæla örbylgjur, um 55 GHz, frá súrefnisatómum í lofthjúpinum með nákvæmum og áreiðanlegum mælitækjum í gervitunglum á braut umhverfis jörðu. Þetta eru nákvæmari hitamælingar en flestar, sem gerðar voru við yfirborðið á sama tímabili. Hér er þess vegna um verðmætt og traust gagnasafn að ræða.
Niðurstöður þessara mælinga passa hins vegar alls ekki við niðurstöður hitastigslíkana 102 þjóða fyrir umrætt tímabil, nema helzt Rússa, og alls ekki við samræmt líkan IPCC, s.k. CMIP 5. Ef IPCC hefði fylgt vísindalegri aðferðarfræði, hefði nefndin kastað líkaninu sem ónothæfu og byrjað að þróa nýtt líkan, þegar í ljós kom, að útreikningar þess á hlýnun voru allt of háar. Það hefur IPCC hins vegar ekki gert heldur æpt enn hærra, að líkan þeirra sé rétt og þjóðir heims verði að haga lífi sínu samkvæmt því, búa fyrir vikið margar hverjar við stórhækkað orkuverð, sem bitnar verst á fátæku fólki. Vegna þessa er trúverðugleiki IPCC enginn.
IPCC hefur reynt að þagga niður raddir þeirra, sem bent hafa á alvarlega galla hins samræmda líkans, sem reiknar út allt of mikla hlýnun lofthjúpsins við vaxandi styrk koltvíildis og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Vísindamenn, sem benda á gríðarleg frávik útreikninga IPCC-líkansins frá raunveruleikanum, fá ekki að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í síðustu 4000 síðna skýrslunni frá IPCC. Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: vinnubrögð IPCC eru óvísindaleg og standast ekki rýni hæfra vísindamanna, sem hafa sýnt fram á, að líkön IPCC eru ónothæf. Það er gersamlega ótækt, að ríki heims fari að leggja út í feikilega dýrar og sársaukafullar aðgerðir á grundvelli gervivísinda, sem skapa falskar forsendur fyrir gríðarlegum kostnaði, sem verið er að leggja út í.
Sá, sem á mestan heiðurinn af að hafa flett ofan af dómsdagsspámönnum IPCC, er dr John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla í Huntsville (UAH). Hann hefur ferðazt um heiminn og haldið fyrirlestra í háskólasamfélaginu, t.d. í Frakklandi og á Bretlandi, og það, sem hér er skrifað um þessi mál, er ættað úr þessum fyrirlestrum. Hann svaraði spurningum fræðimanna á þessum fyrirlestrum á mjög trúverðugan og sannfærandi hátt.
Hvernig lítur þá téður samanburður líkana IPCC við raunveruleikann út ? Séu gerðir hitastigsútreikningar fyrir hvert ár á tímabilinu 1979-2017 (tæplega 40 ára röð) með 102 IPCC lofthjúpslíkani CMIP 5 fyrir lofthjúpinn á þrýstisviði 300-200 hPa, gefur líkanið meðaltalsstigulinn +0,44 °C/áratug, en raunveruleikinn, þ.e. gervitunglamæligögnin, gefa meðaltalsstigulinn +0,15°C/áratug, þ.e. líkön IPCC margfalda raunverulegan hitastigul með 3. Líkönin reiknuðu út hitastigshækkun á grundvelli aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu 1,7°C, á meðan hún nam aðeins tæplega 0,6°C. IPCC fiktar eitthvað í líkönunum til að skekkjur þeirra séu minna áberandi, 6. kynslóð þeirra, þ.e. núverandi, hefur þó jafnlítið forspárgildi og hinar fyrri.
IPCC keyrði líkön sín líka án viðbótar koltvíildis af mannavöldum, og þá nálguðust þau raunveruleikann. Þannig hefur IPCC forritað allt of mikil upphitunaráhrif af viðbótar koltvíildi í lofthjúpinum og veit, að líkönin eru meingölluð, en kýs samt að þegja um það til að geta haldið hræðsluáróðrinum áfram. Í hverra þágu er þessi hræðsluáróður SÞ ? Það er ljóst, að fjölmargir lifa á gríðarlegum fjárveitingum, sem réttlættar eru með aðsteðjandi ógn.
IPCC vanreiknar sjálfreglandi tilhneigingu lofthjúpsins til að viðhalda stöðugleika í varmaorku lofthjúpsins. Ef við hugsum okkur loftsúlu, 1 m2 að grunnfleti, sem nær frá jörðu að endimörkum lofthjúpsins, sem hitnar af einhverjum orsökum um 1°C að meðaltali, þá verður raunveruleg varmageislun út í geiminn frá þessari loftsúlu 2,6 W, en IPCC notar aðeins 1,4 W, sem er 54 % af raunveruleikanum. Það er ei kyn, þótt keraldið leki og líkan IPCC reikni út allt of mikla hlýnun, enda er botninn suður í Borgarfirði.
"Loftslagskirkjan" hefur reynt að beita náttúruhamförum fyrir vagn sinn. Þar hefur hún ekki gætt að því, að það er hægt að hrekja rækilega málflutning hennar með því að taka saman tölfræði um þessa atburði. Það hefur hinn atorkusami dr John Christy, prófessor í loftslagsfræðum við UAH, einmitt gert, og það, sem hann hefur birt um þessa samantekt sína, kippir stoðunum undan þeim áróðri "loftslagskirkjunnar", að hlýnunin á jörðunni hafi magnað og fjölgað náttúruhamförum í tímans rás.
Nokkur dæmi:
- Sterkum og ofsafengnum hvirfilbyljum (F3+) hefur fækkað á tímabilinu 1954-2018 í Bandaríkjunum (BNA). Á fyrri hluta skeiðsins (1954-1985) voru þeir að meðaltali 55,9 á ári, og á seinni hlutanum (1986-2018) voru þeir að meðaltali 33,8 á ári, þ.e. fækkun um 22,1 eða 40 %, sem er marktæk fækkun sterkra og ofsafenginna hvirfilbylja.
- Dr John Christy athugaði fjölda skráðra óveðursdaga í BNA, þ.e. stormdaga (>18 m/s), fellibyljadaga (>33 m/s), aftaka fellibyljadaga (>49 m/s). Skráning slíkra óveðursdaga í BNA tímabilið 1970-2020 sýnir enga tilhneigingu til aukningar.
- Þurrkar og flóð: athugað var hlutfall af flatarmáli BNA, sem mánaðarlega varð fyrir slíku tímabilið janúar 1895-marz 2019 (NOAA/NCDC). Engin tilhneiging fannst til aukningar.
- Hámarkshitastig: 569 mælistöðvar í BNA voru kannaðar á tímabilinu 1895-2017. Engin tilhneiging greindist vera til fjölgunar hitameta. 15 af 16 hæstu hitametunum komu fyrir 1955.
- Gróðureldum (wildfires) hefur fækkað frá 1880 í BNA.
- Snjóþekja á norðurhveli í Mkm2. Skrár 1965-2020 sýna, að hún var mest veturinn 2012-2013.
- Ísbreiður hafa aukizt á hlýskeiði síðustu 10 k ára.
- Loftslagstengdum dauðsföllum í heiminum fækkaði á 20. öldinni.
- Veðurhamfaratjón sem hlutfall af VLF minnkaði 1990-2017 úr 0,30 % í 0,16 %.
- Uppskera per ha ræktarlands hefur vaxið frá 1961.
Að líkindum getur "loftslagskirkjan" tilfært einhver dæmi máli sínu til stuðnings, en eftir stendur, að hún notar öfgar í veðurfari til að styrkja málstað sinn, en þessar öfgar eru hins vegar fjarri því að vera nýjar af nálinni.
Morgunblaðið vill jafnan hafa það fremur, er sannara reynist, og er fjólmiðla lagnast við að rata á réttar leiðir í þeim efnum, vafalaust helzt vegna víðsýnna og vel lesinna starfsmanna í sínum röðum. Dæmi um þetta mátti sjá í forystugrein blaðsins 9. ágúst 2021, en hún var á svipuðum nótum og pistillinn hér að ofan, nema Morgunblaðið vitnaði þar til sjálfstæðs og gagnrýnins umhverfisverndarsinna, sem er allt of sjaldgæf dýrategund, þ.e. til Danans Björns Lomborg. Sá hefur gefið út bækur og ritaði grein í Wall Street Journal í v.31/2021 undir yfirskriftinni: "Náttúruhamfarir eru ekki alltaf af völdum loftslagsbreytinga".
Verður nú vitnað í téða forystugrein Moggans, sem hét:
"Flókið samhengi".
"Slíkar staðhæfingar eru fátíðar í heimi, þar sem iðulega er fullyrt, að umræðunni um loftslagsbreytingar sé lokið, allir hljóti að vera sammála um þetta fyrirbæri, umfang þess og afleiðingar, auk þeirra aðgerða, sem grípa verði til.
Það er alltaf varhugavert, svo [að] ekki sé meira sagt, þegar því er haldið fram, að einungis ein skoðun eigi rétt á sér, og önnur sjónarmið eru nánast gerð útlæg. Við þannig aðstæður er hætt við, að þekking vaxi ekki, heldur takmarkist, og að víðsýni láti undan síga gagnvart fordómum. Illa væri komið fyrir vísindunum, ef öll sjónarmið fengju ekki að njóta sín."
Menn geta haft ýmsar skoðanir á vinnubrögðum og málflutningi IPCC, sem segir einhug, "consensus", um niðurstöðu sína í 6. skýrslunni, en gagnrýnendum þessarar samhljóða niðurstöðu er einfaldlega ekki léð rými fyrir sínar skoðanir. Þannig var gagnrýni dr Johns Christy og félaga hafnað. Þeir, sem kynna sér vinnubrögð IPCC og þöggunaráráttu, gera sér grein fyrir, að niðurstaða IPCC styðst ekki við raunvísindaleg vinnubrögð. Skýrsla IPCC er áróðursskýrsla, sem stenzt ekki vísindalega gagnrýni. Eins og dr John Christy sagði í fyrirlestri: ef ábyrgðarmenn skýrslunnar þyrftu að standa fyrir máli sínu í dómssal, þar sem raunvísindamenn á borð við John Christy fengju tækifæri til að taka þátt í yfirheyrslum og spyrja ábyrgðarmennina spjörunum úr, þá er öruggt, að ekki stæði steinn yfir steini varðandi dómsdagsboðskapinn og dómur félli samkvæmt því.
Síðan vitnar leiðarahöfundurinn í það, sem Björn Lomborg hefur að segja um tíðni og umfang náttúruhamfara, sem kemur heim og saman við gagnaöflun dr Johns Christy um þetta efni, sem "loftslagskirkjan" japlar endalaust á af litlu öðru en trúgirni:
"Að sögn Lomborgs sýnir ný rannsókn á flóðum í 10.000 ám víða um heim, að í flestum ám gæti minni flóða nú en áður. Þar, sem áður hafi flætt á 50 ára fresti, gerist það nú á 152 ára fresti. Og hann segir, að meiri flóð hafi orðið í ánni Ahr árin 1804 og 1910 en í nýliðnum júlí. Fleiri dauðsföll nú stafi hins vegar af því, að fólk sé farið að byggja á flóðasvæðum og að í stað sólarsella eða vindmylla til að berjast við loftslagsbreytingar þurfi þeir, sem búi við árnar, betri vatnsstýringu."
Yfirvöldin í Rheinland-Westphalen sváfu á verðinum og vöknuðu upp við vondan draum, þegar allt var á floti. Þeim barst forviðvörun 9 sólarhringum áður en ósköpin dundu yfir, en almannavarnir virðast ekki virka þarna undir forsæti núverandi formanns CDU, og gæti frammistaða hans og framkoma í kjölfarið kostað hann kanzlaraembættið í haust. Í BNA hefur líka verið leyfð byggð, þar sem engum datt í hug að byggja áður vegna hættu á skógareldum.
Að lokum sagði í téðum leiðara:
"Eins og nefnt var hér að framan, vilja margir halda því fram, að umræðunni um þessi mál sé lokið. Svo er þó ekki; rannsóknir þurfa að halda áfram og umræðan sömuleiðis, en afar mikilvægt er, að hún byggist á staðreyndum, en ekki upphrópunum. Og hún má alls ekki ráðast af hagsmunum einstakra stjórnmálamanna eða -flokka til að slá pólitískar keilur eða jafnvel að fela eigin mistök. Til þess er um allt of stóra hagsmuni að tefla."
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að IPCC starfar á þeim grunni, sem lagður var um 1960 með útgáfu bókarinnar Endimörk vaxtar (Limits to Growth).
Allir spádómar, sem þar voru settir fram, reyndust rangir. Höfundarnir misreiknuðu sig herfilega, því að þeir áttuðu sig ekki á mætti tækniþróunarinnar og markaðsaflanna. Hvort tveggja í sameiningu hefur leitt til þess, að sá skortur og örbirgð, sem lýst er í bókinni, að ríða myndi yfir mannkynið á síðustu öld, ef það héldi áfram á þeirri braut hagvaxtar, sem mörkuð hafði verið eftir Heimsstyrjöldina síðari, hefur engan veginn raungerzt, nema síður sé.
Ný grýla var búin til, og nú átti að þvinga þjóðirnar af braut hagvaxtar með því, að draga yrði stórlega úr bruna jarðefnaeldsneytis til að bjarga jörðinni frá stiknun. Ýkjurnar um áhrif viðbótar koltvíildis eru gífurlegar, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Enginn afneitar gróðurhúsaáhrifunum af CO2 og fleiri gösum, en útreikningar hlýnunar eru kolrangir hjá IPCC.
Jarðefnaeldsneytið hefur beint og óbeint fært hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum og hungri til betra og lengra lífs. Á meðan ekki eru ódýrari leiðir til að framleiða raforku í þróunarríkjunum eða til að knýja farartæki, verður erfitt að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis þar.
S.k. kolefnisleki frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja er staðreynd. Framleiðslufyrirtæki, sem losa kolefni, flytjast frá iðnríkjunum og þangað, sem minni kröfur eru gerðar af yfirvöldum, og framleiðslukostnaður þess vegna lægri. Á Íslandi verður mjög lítil losun kolefnis við raforkuvinnslu og í iðnaðinum sjálfum líka, t.d. í álverunum, í samanburði við heimsmeðaltalið. Iðnaðurinn hér þarf að greiða kolefnisgjald, sem ekki tíðkast í þróunarríkjunum, en hann hefur samt ekki fengið opinberar stuðningsgreiðslur til mótvægis, eins og tíðkast annars staðar í EES. Af þessum ástæðum er fyllilega réttmætt að halda því fram, að íslenzk málmframleiðsla, þungaiðnaður, dragi úr heimslosuninni, því að eftirspurnin mundi kalla á framboð annars staðar frá, ef þessar verksmiðjur væru ekki á Íslandi. Það er ekki hægt að drepa þessu á dreif með veruleikafirrtum hugleiðingum.
Hér er ekki verið að skrifa gegn hringrásarhagkerfi eða virðingu fyrir náttúrunni og góðri umgengni við hana í hvívetna. Hér er einvörðungu verið að leggja áherzlu á að beita verður vísindunum af heiðarleika, en nú eru notuð gervivísindi til að styðja við hræðsluáróður afturhaldsafla, sem beita óprúttnum aðferðum til að stöðva hagvöxt, sem er alls ekki eins ósjálfbær og afturhaldsöflin vilja vera láta. Fórnarlömb afturhaldsafla eru fyrst þeir, sem minnst mega sín, og síðan fylgja hinir á eftir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Skemtilega rökrétt Bjarni takk.
Guðmundur Jónsson, 16.8.2021 kl. 09:02
Mjög góð grein en í henni er þó smá villa. „...Enginn afneitar gróðurhúsaáhrifunum af CO2 og fleiri gösum“
Hlutur kolsýru CO₂ er stórlega ofmetinn. Vatnsgufa, H₂O hefur sambærileg gróðurhúsa áhrif (IR-gleypni) og kolsýru CO₂. Vatnsgufan er aftur á móti mörg hundrum sinnu meiri í lofthjúpnum svo áhrif kolsýrunnar er óveruleg.
„Being a component of Earth's hydrosphere and hydrologic cycle, it is particularly abundant in Earth's atmosphere, where it acts as the most potent greenhouse gas, stronger than other gases such as carbon dioxide and methane.“ https://en.wikipedia.org/wiki/Water_vapor
Kristinn Sigurjónsson, 16.8.2021 kl. 13:09
Ágreiningurinn, Kristinn, er um, hversu mikil áhrif til hlýnunar andrúmslofts eru af því viðbótar koltvíildi, sem af starfsemi mannsins leiðir. Um heildaráhrifin er þó óþarft að deila, því að hitastigsmælingar eru fyrir hendi, eins og rakið er í pistlinum. Raunhæft líkan er þess vegna hægt að setja upp, og það hefur dr John Christy gert.
Bjarni Jónsson, 16.8.2021 kl. 18:19
Eftir að hafa lesið kvæðið, Volaða land, eftir Matthías Jochumsson þá getur maður ekki verið annað en feginn þeirri hlýnun sem hefur átt sér stað á Íslandi síðan þetta kvæði var ort.
Ekki treysti ég mér til að taka þátt í umræðu um hvort og að hve miklu leyti hún sé af mannlegum völdum, en þó mun yfirgnæfandi meirihluti sérfræðinga telja að svo sé, svo að ég vitni í eðlisfræðiprófessorinn, Harald Lesch, sem fjallar mikið um loftslagsmál.
Sterk rök benda til þess að loftslag, a.m.k. á norðurhveli jarðar sé nú hlýrra heldur en það hefur verið síðan á ísöld, má þar t.d. benda á Ötzi, líkhamsleifar af manni sem var á ferð í Ölpunum fyrir meira en 5000 árum. Og nú síðast fréttir af fjallaljónshvolpunum sem fundust í Síberíu og munu vera einhverra tugþús. ára gamlir, ef ég man rétt.
Hér færir Harald Lesch fram sín rök fyrir loftslagshlýnun og er heitt í hamsi: Harald Lesch: Der Klimawandel [ZDF]
Hörður Þormar, 16.8.2021 kl. 22:29
Það er alltaf athyglisvert að hlýða á Harald Lesch. Hann lýsir vítahring (Kreis des Teufels) og hefur talsvert til síns máls, enda er hitastigsstigull staðfestur með mælingum, þótt hann sé miklu minni en IPCC reiknar út. Kerfið, sem Harald Lesch lýsir, er alls ekki lokað. Inn streyma hitageislar, og þeir fara út líka, því fleiri W/m2 fara út, þeim mun hærra sem hitastig lofthjúpsins hækkar. Það er viss sjálfreglandi þáttur hitastigsstöðugleika fyrir hendi, sem deyfir breytingarnar, sem Harald Lesch lýsir svo fjálglega, að unun er á að hlýða og horfa.
Bjarni Jónsson, 17.8.2021 kl. 11:23
Heyr heyr. Það er með IPCC eins og aðrar Marxistastofnanir á borð við IMF, UNESCO og WHO, þegar þær fá vald yfir efnahagnum, vírusafræðunum, og þjóðríkjunum sjálfum, sturlast elíta allra þjóða og við verðum öll sprautuð niður með rörsýn fáránleikans að vopni.
Guðjón E. Hreinberg, 17.8.2021 kl. 11:37
Harald Lesch var, í u.þ.b. 20 ár, með stutta sjónvarpsþætti undir nafninu, "Alpha Centauri" sem fjölluðu um náttúruvísindi af ýmsu tæi. Síðustu árin hefur hann stjórnað þáttunum, "Terra X" sem eru stærri í sniðum. Auk þess hefur hann verið með spjallþætti á YouTube og haldið fjölda fyrirlestra um vísindi og heimspeki.
Ekki væri úr vegi að ríkisútvarpið tæki á sig rögg og sýndi eitthvað af þessum þáttum. Það ætti hvorki að vera fyrirhafnarmikið né kostnaðarsamt.
Hörður Þormar, 17.8.2021 kl. 14:14
Það er gaman að Harald Lesch. Hann er líflegur og góður fyrirlesari. Orkujafnvægi lofthjúpsins kemst þó enginn til botns í, nema að búa til líkan af bæði inngeislun og útgeislun. Dr John Christy varð var við áhrif stórra eldgosa á jörðunni með tímabundinni kólnun lofthjúpsins, af því að efni frá eldgosum, t.d. Pinatubo, skermuðu af hluta inngeislunar. Sama mun hafa gerzt í Móðuharðindunum hér.
Bjarni Jónsson, 17.8.2021 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.