27.11.2021 | 12:13
Vafasöm orðræða
Við setningu Alþingis nú í viku 47/2021 þótti ýmsum gæta ósmekkvísi í garð óbólusettra af hálfu forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessonar, svo að ekki sé meira sagt, enda virtust þau orð illa ígrunduð bæði lagalega og sóttvarnarlega. Það er harla óvenjulegt, að úr þessu tignarembætti, sem betra er, að friður ríki um, sé veitzt að einum þjóðfélagshópi, sem ekkert hefur aðhafzt, er brjóti í bága við lög landsins eða ógni hagsmunum nokkurs manns umfram aðra.
Þetta var umfjöllunarefni Staksteina 24. nóvember 2021 og skopmyndateiknara Morgunblaðsins sama dag og daginn eftir með eftirminnilegum hætti. Höfundi þessa vefseturs þykir svo mikið til þessarar umfjöllunar koma, að hann tekur sér það bessaleyfi að birta þessa Staksteina hér í heilu lagi:
"Spurt og svarað":
"Jón Magnússon, lögmaður, vekur athygli á, að forseti lýðveldisins hafi í setningarræðu Alþingis sagt, að "frelsi til að sýkja aðra væri vafasamur réttur". Jón spyr og svarar svo:
"En hvaða réttur er það ? Hefur einhver gefið einhverjum þann rétt ? Eru einhvers staðar lagaákvæði eða önnur fyrirmæli, sem mæla fyrir um það, að fólk eigi þann vafasama rétt ?
Raunar alls ekki. Samkvæmt íslenzkum rétti hefur enginn rétt til að sýkja aðra; það er bannað.
Það er beinlínis refsivert, sbr 175. gr. almennra hegningarlaga, sem mælir fyrir um refsingu, fangelsi allt að þremur árum, fyrir að valda því, að næmur sjúkdómur berist meðal manna. Einnig mætti vísa í sóttvarnalög.
Frelsi til að smita aðra er því ekki fyrir hendi í íslenzku samfélagi.
Það á enginn þann rétt.
Það er beinlínis refsivert."
Niðurstaða Jóns Magnússonar er þessi:
"Frelsi borgaranna er mikilvæg undirstaða siðaðra samfélaga, og það er mikilvægt, að æðstu stjórnendur ríkja og alþjóðlegra stofnana gæti þess að skilgreina það með réttum hætti og gæti þess að setja frelsið ekki í spennitreyju valdsins.""
Hér hefur forseti lýðveldisins verið leiðréttur fyrir ummæli, sem hann lét falla í þingsetningsrræðu í nóvember 2021, bæði á lögfræðilegum og siðferðislegum grunni mannréttinda. Ummælunum virtist vera beint gegn óbólusettu fólki með ósmekklegum hætti og þá í vanhugsaðri tilraun til að senda þá í bólusetningu. Þar sem ummælin féllu á vettvangi Alþingis er hætta á, að einhver hafi túlkað þau sem hvatningu til að setja einhvers konar þvingunarlög á óbólusetta. Eru einhver sóttvarnarleg rök fyrir slíku ? Nei, alls ekki. Bólusettir smita aðra, og er frá líður ekkert síður en óbólusettir. Ef þessi síðasta fullyrðing væri röng, þá mundi ekki geisa nein 4. bylgja C-19 faraldursins núna á meðal fullbólusettra þjóða Evrópu.
Sameiginlegt einkenni þjóða, sem sloppið hafa við þessa 4. bylgju, er, að þær hafa öðlazt náttúrulegt ónæmi gagnvart C-19. Virkni bóluefnanna gegn öðrum afbrigðum en Wuhan, upphaflegu veirunni, er takmarkað og rýrnar svo hratt, að eftir 6-9 mánuði eru þau gagnslaus bæði sem smitvörn og vörn gegn alvarlegum veikindum. Þær virka hjáróma raddirnar, sem nú kvaka um, að sennilega virki bóluefnin ekki gegn nýja Suður-Afríkanska afbrigðinu, omicron, sem kynnt var til sögunnar 23. nóvember 2021. Staða faraldursins í fullbólusettum löndum er dauðadómur yfir þessari nýju tækni, genatækni, sem baráttutæki við kórónuveiruna, og sennilega við allar veirur, sem hafa mikla tilhneigingu til stökkbreytinga.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 25. nóvember 2021,
"Trúnaðartraust dalar",
er haft eftir leiðara The Telepgraph daginn áður, að krafa sé um, að bólusetningarárangur ólíkra bóluefna verður upplýstur. Það er þegar byrjað að upplýsa þetta, og skal hér vísa í sænska skýrslu, sem gerð var grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869 .
Þar kemur fram, að ending AstraZeneca var áberandi lökust af þeim 3 bóluefnum, sem prófuð voru, en ending Moderna var skárst, enda er styrkleiki þess þrefaldur á við 3. bóluefnið, sem var frá Pfizer BioNTech. Styrkurinn kann að skýra alvarlegar aukaverkanir, t.d. hjartavöðvabólgu, af Moderna.
Leiðari Morgunblaðsins 25.11.2021 er mjög hógvær m.v. tilefnið, því að bóluefnamistökin eru reginhneyksli. Hér er seinni parturinn:
"Það, sem mestu breytti um traust til sóttvarna, er, að talsmenn þeirra í ráðandi ríkjum gáfu ótvírætt til kynna, að allt myndi breytast, þegar bóluefnin kæmu. Þó var viðurkennt, að þau myndu alls ekki þá hafa fengið þá skoðun, sem almennt væri gengið út frá.
Heimsbyggðin (eða þau 30 % hennar, sem eygðu í raun þessa von) keypti þessa spá brött og hefur gengið út frá, að gagnvart veirufárinu væru ekki tök á að vera kræsin. En á daginn hefur komið, að óþarflega margt hefur farið illa út úr óskhyggjunni, sem talsmenn vísindanna, sem við vildum fylgja, héldu loftinu í og virtust trúa á án mikilla fyrirvara, vitandi, að allt valt á, að nægilega margir yrðu með.
Svo opnuðust glufur í væntingahjúpinn. Fyrst var, að flest bóluefnanna kæmu ekki í einni sprautu. Eftir það skot þurfti að bíða í nokkra mánuði og fá svo nýtt. Það leið ekki langur tími, þar til tvíbólusettir, sem töldu sig orðna jarðbundna himnaríkismenn, þurftu þriðju sprautu. Þó hafði verið gefið upp, að tveggja sprautu menn væru varðir upp í 90 % alvörn og jafnvel rúmlega það. Engum datt í hug, að tveggja sprautu menn smituðust og það furðu auðveldlega, og virtist það koma öllum fróðum á óvart, en ýtti auðvitað undir einn skammt enn !
Þetta varð óneitanlega hnekkir á trúnaðartrausti gagnvart vísindamönnunum, þótt enginn (í merkingunni fáir) geri því skóna, að þeir hafi ekki gert sitt bezta og í góðri meiningu. En þessi vonbrigði og væntingahrun hafa því miður breytt stemningunni. Og eins hitt, hversu fljótt "vísindamenn" gleyptu við hugmyndum um, að bólusetja þyrfti börn, sem fullyrt var og er, að smituðust vissulega, en ekkert umfram það, sem gerist í venjulegum pestum og með svipuðum ætluðum afleiðingum.
Þessi viðbrögð og óvænt framganga án nokkurrar raunverulegrar umræðu, sem hvatt hafði verið til, varð ekki til góðs. Sjónarmið þess hóps, sem efazt hafði um flest, fengu óneitanlega meiri byr en áður. Lyfjarisarnir í heiminum hafa ekki unnið sér inn nein þau verðlaun, sem tengd eru helztu góðmennum sögunnar, þótt alheimur geti illa án framleiðslu þeirra verið. Með réttu eða röngu eru þeir grunaðir um græsku og óneitanlega er margt, sem ýtt hefur óþægilega undir það. Góðrarvonarhöfði er þekkt kennileiti, sem segir sig sjálft. Gróðavonarhöfði er bautasteinninn, sem fyrrnefndir risar eru gjarna taldir halla sér að, þegar bezt gengur, og dæmin eru of mörg til um, að ekki hafi alltaf verið gáð að sér í þeim efnum."
Svo mörg voru þau, en þarna er með fínlegum hætti verið að rassskella sóttvarnar- og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi, sem nú beita þeirri vonlausu aðferð að sprauta þrisvar, af því að hvorki eitt né tvö skipti dugðu. Var sú aðferð ekki einhvern tíma talin einkenna þá, sem þjáðust af greindarskorti, að meira af sömu mistökum geti leyst vandann ?
Ástandið er ekki einleikið. Staðan er sú, að lyfjafyrirtækin stöðvuðu "langtíma" rannsóknir sínar á bóluefnunum eftir um 3 mánuði. Hefðu þau haldið áfram í 6 mánuði, mundi hafa komið í ljós, bóluefnin eru misheppnuð, því að virkni þeirra er þá orðin langt undir viðmiði flestra stjórnvalda, sem er 50 % minnkun líkinda á smiti. Í stað þess voru stjórnvöld dregin á asnaeyrunum og stærstu bólusetningartilraun sögunnar hleypt af stokkunum, og nú geisar 4. bylgjan. Ef omicron er enn meira smitandi en deltan, þá tekur sú nýja við og hækkar þröskuldinn fyrir náttúrulegu lýðónæmi. Um ónæmi frá bóluefnunum þarf ekki lengur að ræða. Keisarinn er ekki í neinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)